Ég var eitthvað að hreykja mér af því að hafa fengið fjögurra stjörnu dóm í bókablaði Stundarinnar þegar vinur minn settist niður og reiknaði út að meðalstjörnugjöfin í bókablaðinu hefði verið 4.125 stjörnur og Frankensleikir því tæknilega séð undir meðallagi góð bók. Þetta fannst mér kvikindislegt. En það stendur samt heima. Það eru fjórir fimm stjörnudómar í blaðinu og fimm fjögurrastjörnu (og tveir þriggja og einn þriggja hálfrar). Fjögurra stjörnu dómur er samt fjögurra stjörnu dómur, segi ég. Það eina sem er meira en fjórar stjörnur eru fimm stjörnur og fimm stjörnur er hugbreytandi meistaraverk. Og hananú. Ég fór samt í kjölfarið að velta því fyrir mér hvort fólk hugsaði almennt um þessa stjörnugjöf sem einhvern fasta – einsog einkunn á krossaprófi – eða sem eitthvað innbyrðis afstætt. Ef maður hugsar um stjörnugjöfina sem fasta byrja allar bækur með fimm stjörnur og fá frádregið fyrir galla. Eða byrja á núlli og hafa möguleika á x mörgum plúsum. Þá er t.d. tæknilega mögulegt að allar bækur fái bara fimm stjörnur – því þær séu allar fimm stjörnubækur. Allar með fullt hús. Ef maður hins vegar hugsar um stjörnugjöf sem afstæða þá gæti ritdómari (eða ritstjóri hóps ritdómara) ákveðið að besta bók ársins eigi að fá fimm stjörnur og sú versta eina (eða hauskúpu!) og allar aðrar bækur eigi að fá eitthvað þar á milli. Þá getur frábær bók tæknilega séð fengið eina stjörnu ef allar hinar bækurnar voru ennþá frábærari. Og hræðileg bók fengið fimm stjörnur ef allar hinar voru verri. Svo er reyndar líka hægt að hugsa um þetta menningarpólitískt og þá getur maður hafa séð að einhver bók sem maður fílaði ekki fékk fjórar stjörnur og viljað að aðrar bækur fái þá meira – af því maður vill breyta landslaginu og hírarkíunni, krýna nýjan konung/drottningu. Ég hef aldrei „þurft“ að gefa stjörnur þótt ég hafi skrifað rýni víða. Ekki það ég muni a.m.k. Sennilega er það mest tilviljun. En fyrir nokkrum árum skráði ég mig inn á Goodreads (sem ég nota reyndar eiginlega ekkert – ég held að kindillinn minn sé enn stilltur þannig að bækur sem ég les á honum fari þar inn, en það er allt og sumt). Og þá settist ég niður og gaf ábyggilega 200 bókum stjörnur á svona hálftíma. Þá miðaði ég ískalt við að það yrði að vera eitthvert innra samræmi. Ég gaf fimm bókum fimm stjörnur. Sæmundareddu, Glæp og refsingu, Tender Buttons, East of Eden og The World According to Garp. Ég hef sennilega verið nýbúinn að lesa þá síðastnefndu og myndi ekki gefa henni fimm stjörnur í dag. Ekki setja hana ofar en fjögurra stjörnu bækurnar Heimsljós, A Clockwork Orange eða Ariel. Ég veit ekki með East of Eden – hún er ein af bókunum mínum, ég fékk hana á heilann rétt eftir tvítugt og hugsaði um hana fram og aftur – las vinnudagbækur Steinbecks og ýmislegt fleira tengt henni – en það er langt síðan ég hef lesið hana og ég held hún sé melódramatísk og kannski ekki „mjög góð“ ef ég miða við fagurfræði mína í dag. En hún og Glæpur og refsing eru líka báðar um hið sama í kjarnann – að þótt maður hafi verið vondur, gert eitthvað vont, þá þurfi maður ekki að vera vondur. Að maður megi ekki skilgreina sig sem vondan eða leyfa öðrum að gera það – því þá gefist maður upp fyrir illskunni í sjálfum sér. Sá sem missi sjónar á því fagra og góða í sjálfum sér sé glataður. Þetta ættu að vera kunnuglegar pælingar – ekki bara fyrir þá sem lesa mínar eigin bækur heldur líka bara þá sem lesa þetta blogg. Þetta eru pælingar sem hafa mótað mig og ég vík mér ekkert undan því. Í Danmörku leystu menn (tímabundið) þennan stjörnuvanda með því að bæta bara við einni stjörnu. Þar er hægt að gefa sex stjörnur. En auðvitað ætti ekki að vera neitt þak – sumar bækur eru virði allra stjarnanna í heiminum. Og sumar geta kannski aldrei fengið nógu fáar. Ég á hins vegar bágt með að taka undir þegar fólk krefst þess (eða biður kurteislega) að stjörnugjöf sé felld niður – hún nefnir leysir annað atriði sem mér þykir mikilvægt, hún krefur gagnrýnandann um afstöðu til gæða bókarinnar. Margir gagnrýnendur vilja nefnilega víkja sér undan þeirri kröfu og segja bara eitthvað mjög almennt – eða láta sér duga að greina. En góður gagnrýnandi gerir allt í senn – lýsir, greinir og metur.
Hýði mannsins
Í dag fylgir bókakálfur með Stundinni. Þar skilst mér að sé jákvæður dómur um Frankensleiki, sem ég hef samt ekki séð. Ég fékk bréf um þetta rétt í þessu. „Til hamingju með góðan dóm“ stóð í bréfinu. „Fjórar stjörnur.“ En áður en bréfið barst – það var bankað hér á skrifstofunni og glaðlegur bréfberi í bláum stuttbuxum færði mér bréfið, sem var eiginlega meira skeyti eða kort – hafði ég ákveðið að skrifa hér eitthvað um tilvist þessa bókakálfs. Eða í raun til þess að segja annars vegar eitthvað um að metnaðurinn gleðji mig og hins vegar að stundum – þegar jólabókaflóðið er að hrökkva í gírinn og allir mótorar að fara á yfirsnúning – sakni ég þess að bókmenntaumfjöllun sé ekki átaksverkefni. Það er ekkert svo langt síðan að maður tók varla upp dagblað þar sem ekki var að finna a.m.k. einn bókadóm. Og auðvitað verður fjarvera þeirra meira áberandi þegar dómarnir fara svo loks að birtast. En auðvitað er þetta gleðiefni á meðan á því stendur. Maður ætti kannski ekki að leita sér að einhverju til að nöldra yfir. Gylfi, nágranni minn, stríddi mér á þessu um daginn. Ég kom gangandi niður Tangagötuna og gat varla horft út úr augum fyrir sólskini – Gylfi hafði verið úti að sporta og stóð sveittur við grindverkið hjá sér – og ég sagði eitthvað um að veðrið væri frábært núna og hefði verið það í allt haust, en ég gæti ekki annað en haft áhyggjur af að þetta myndi alltaf jafnast út í janúarlægðunum. Þær yrðu ábyggilega hálfu verri út af öllu þessu góðviðri. Þetta fannst Gylfa ekki til fyrirmyndar – að bölva því þegar það er óveður að það verði ábyggilega alltaf óveður og bölva því svo í blíðviðrinu að það sé ábyggilega alveg að fara að bresta á með óveðri. Það er reyndar ekki lengur sama blíðan. Sem sannar auðvitað bara að ég hafði rétt fyrir mér. Annars upplifi ég mig voða mikið í lausu lofti í þessu barnajólahryllingsbókaflóði. Ég veit ekkert hvað ég á að vera að gera eða hvort ég á að vera að gera eitthvað. Ég veit ekki einu sinni hvort mig langar að vera að gera neitt. Mig langar hálfpartinn bara að leggjast í hýði. Í híði , meina ég.
Sigur athyglinnar
Ég lauk aldrei við síðasta pistil. Ég held ég hafi ætlað að spyrja hvort maður væri hræddastur einn? Og hvort það væri þá ekki eitthvað fallegt við það – að maður sækti öryggið í aðra, í samfélagið, frekar en einmitt að maður óttaðist fólkið í kringum sig (sem maður gerir áreiðanlega ef maður hefur heimsmynd sína úr fréttatímunum, sem sýna auðvitað undantekningarmynd af samfélaginu en sem margir telja raunsanna). *** En pistill dagsins á auðvitað ekki að fara í að ljúka þriðjudagspistlinum. Sérstaklega ekki vegna þess að ég skrifaði ekki stakt orð í gær (en það var bara vegna þess að ég var on a roll í skáldsögu – það gafst enginn tími). Í dag var ekkert veður til að fara út að hlaupa og þá brá mér ég í líkamsræktarstöðina og hljóp á hlaupabretti í staðinn. Hlaupabretti eru góðir staðir til þess að láta hugann reika – þar er ekki umferð eða fólk með hunda eða krakkar á Hopp-hjólum eða óvænt hálka heldur líður maður bara átakalaust … tja ekki áfram. Maður líður kyrr, einsog í lausu lofti. Og bara hugsar. Í dag fór ég að hugsa um fólkið sem er alltaf að skvetta málningu á málverk til þess að vekja athygli á loftslagshlýnun. Og almennt hvað maður geri til þess vekja athygli á málstað sínum. Mér finnst í sjálfu sér ekkert skrítið að fólk sem trúir heitt á sinn málstað beiti alls konar aðferðum til þess að berjast fyrir honum. Það á alls ekki síður við um málstaði sem ég trúi alls ekkert á – mér finnst til dæmis ekkert skrítið að þeir sem álíta þungunarrof vera barnamorð gangi mjög langt. Ef ég grunaði fólk um skipulagt barnamorð myndi ég vonandi gera allt sem í mínu valdi stæði til þess að stöðva það. Eiginlega þykir mér hitt skrítnara, að til sé fólk sem álítur þungunarrof vera skipulagt barnamorð og gerir ekkert. Að því sögðu er ótrúlegur fábjánaskapur að hafa þannig skoðanir á þungunarrofi – og beinlínis óhugnanlegt að níðast á þeim sem nýta sér slík úrræði. Bara svo það sé sagt. Hvað um það. Mér finnst líka ótrúlegur bjánaskapur að skvetta málningu á málverk til þess að vekja athygli á loftslagshlýnun. Ég trúi á fegurðina og listina og að hafi mannlífið einhvern tilgang þá sé hann að finna í fegurðinni og listinni – já og ástinni – án þeirra má þessi pláneta mín vegna stikna í helvíti. Sá sem gerir listina vísvitandi að óvini sínum gerir mig líka að óvini sínum. En ég hef líka velt því fyrir mér hvers vegna ég upplifi þessa gjörninga öðruvísi en þegar Kodduhópurinn fyllti Floru Islandica – vandað risaprent af Flóru Íslands, með teikningum Eggerts Péturssonar af íslenskum blómum – af matarleifum og kallaði „Fallegustu bók Íslands“. Ég er ekki alveg viss. Kannski vegna þess að niðurstaðan var nýtt listaverk; kannski vegna þess að til voru 499 ósködduð eintök af Floru Islandica. Kannski vegna þess að verkið, Fallegasta bók Íslands, birtist á sýningu í stóru samhengi hrunkrítíkur og með því að hafa listina með voru þau í einhverjum skilningi líka að gefa í skyn að þau sjálf – listamennirnir, listin – væru ekki stikkfrí. Það var punktur með því sem mér fannst meika sens. Gjörningur málverkamálaranna er ekki gagnlegur – ég hef enga trú á að hann afli málstað þeirra neins fylgis, þvert á móti – en það er samt ekki það sem truflar mig. Það er eitthvað annað. Og ekki er það að málverkin séu ónýt – þau eru varin gleri, þetta er árás á listina en hún er táknræn. Svarið sem er gjarnan gefið um þennan gjörning er eitthvað á þá leið að þessi „ómetanlegu“ málverk megi sín lítils gagnvart framtíð alls lífs á jörðinni, sem sé það sem sé í húfi. Og hver ætlar að mótmæla því? Ef til jarðarinnar kæmu geimverur sem hótuðu að sprengja annað hvort upp allt þéttbýli á jörðinni eða Sólblómin eftir Van Gogh þá myndum við leyfa þeim að sprengja upp Sólblómin. Og sennilega myndum við hleypa þeim í Sólblómin jafnvel þótt miklu færri líf væru í húfi. Og er þetta þá ekki bara allt í góðu? Málverkin eru heil, málstaðurinn fékk umræðu, heiminum er bja … eða þið vitið, við höfum allavega eitthvað að tala um næstu vikuna. „Þetta vakti athygli“ einsog þau segja – sem ætti auðvitað að vera slagorð þeirra sem stunda stjórnmál í anda Donalds, þeirra sem stunda listir metsölulistanna, list hins hreina impakts. Sem þetta er – vinstri-trumpismi – og líklega er það bara það sem fer í taugarnar á mér. Þetta er árás sensasjónalísku heimskunnar – ekki bara á listaverkin heldur á vitundir okkar sem látum okkur heiminn varða. Þetta er móðgun við vitsmuni okkar. Kannski var eina niðurstaða gjörningsins þá sú að vekja athygli á því hve einskisnýt listaverk eru – sem þau eru, þau þjóna engum tilgangi, ekki utan þess sem þau gera hverjum og einum, þau eru ekki verkfæri. Lag er bara lag. Ljóð er bara ljóð. Og þar með liggur beint við að rústa þeim bara, ef minnsti séns er á að það bjargi jörðinni. Á hlaupabrettinu velti ég fyrir mér ýmsum öðrum aðferðum sem mætti beita til þess að vekja athygli á loftslagshlýnun, sem gætu náð svipuðum árangri, þ.e.a.s. vakið athygli og umræðu – og verið þess virði ef gengið er út frá því að framtíð alls lífs á jörðinni sé í húfi. Hryðjuverk koma auðvitað fyrst upp í hugann – og var mikið notuð taktík í Evrópu á seinni hluta 20. aldarinnar. Baader Meinhof, ETA, IRA – Unabomber var á svipuðum slóðum. En það hlýtur að vera margt vægara hægt að gera en að sprengja fólk og hús og annað í tætlur. Til dæmis mætti fara inn á bókasöfn og safna saman bókum til að brenna? Er það ekki meira að segja eðlislíkt þessum málverkagjörningum? Langflestar þessara bóka eru til á öðrum bókasöfnum hvort eð er. Gjörningurinn væri táknrænn á sama máta. Bækur eru neysluvara, neysla er vond, og bækur eru þar með vondar og svo margar þeirra alls ekki um loftslagshlýnun – til dæmis mörg leikrit Becketts, ef ég að taka dæmi algerlega af handahófi. Það væri hægt að ryðjast upp á svið á tónleikum og skemma hljóðfærin, hrinda ljóðskáldum sem eru að selja bækur sínar á börum, pissa á glerskápinn sem geymir handritin, setja covid-hor á leikskrár leikhúsanna, fella útvarpsmöstrin og svo framvegis. Svo mætti kannski taka íþróttamenn fyrir líka – skrúfa laus dekkin á reiðhjólum þeirra, grafa felligildrur á gönguskíðabrautunum, setja kláðaduft í sundskýlurnar og skíta í sandinn sem langstökkvararnir lenda í. Kannski mætti líka koma saman og brjótast inn í handavinnustofur grunnskólanna til þess að skvetta málningu á teikningar barna? Hvað eru nokkur grenjandi börn samanborið við framtíð alls lífs á jörðinni? Frábært fréttaefni og þar með frábært fyrir málstaðinn. En svo gæti maður sagt að nei, ekkert af þessu sé sérstaklega góð hugmynd, og það skipti máli þegar maður fremur táknrænan gjörning að maður sé sæmilega táknlæs og velji af kostgæfni hvern og hvað maður skilgreinir sem óvin baráttu sinnar. Það er enginn sigur fólgin í því einu að „vekja athygli“.
Hryllingur
Við Nadja höfum verið að horfa á Guillermo Del Toro’s Cabinet of Curiosities. Eigum nokkra þætti eftir. Þetta eru hryllingssögur héðan og þaðan – mikið byggt á smásögum, bæði gömlum og nýjum. Guillermo stýrir þessu en ólíkir leikstjórar sjá um hvern þátt og fá um það bil klukkustund fyrir sína sögu – og að manni sýnist heilmikið fjármagn. Að minnsta kosti lítur þetta mjög vel út. Eitt hafa allar sögurnar átt sameiginlegt og það er gríðarleg einvera aðalsöguhetju sem ráfar um sögusvið þar sem eitthvað „leynist í myrkrinu“. Sögusviðið hefur verið heimili, geymsluhúsnæði, bráðabirgðakrufningastofa og neðanjarðargöng – og í einu tilfelli var sögusviðið breiðara en þá var aðalsöguhetjan að manni virtist líka sú eina sem sá hryllinginn. Hún var ein um upplifun sína. Í fjórum tilfellum af fimm var aðalsöguhetjan drifin áfram af einhverri synd – tvær af græðgi (sem átti uppruna sinn í fátækt, vel að merkja), ein af hégóma (sem átti uppruna sinn í útskúfun) og ein af hroka. Fimmta persónan er sú eina sem hægt er að segja að hafi „unnið“ sína sögu – þótt ekki hafi endalokin verið beinlínis gleðileg. Þetta er í sjálfu sér kunnuglegt módel fyrir hryllingssögu. Alla jafna hvílir sagan þá a.m.k. í einhvern tíma á möguleikanum að söguhetjan sé að ímynda sér allt hið hryllilega og hinn eiginlegi hryllingur sé þá í því fólgin að söguhetjan hafi misst vitið. Bæði er þá eiginlega jafn hræðilegt og oft ástæðulaust að svara spurningunni um hvort hafi verið raunin. En það kom mér samt á óvart að grunnurinn í jafn mörgum og jafn ólíkum sögum skildi samt vera hinn sami. Kannski er það meðvitað val hjá Del Toro. Kannski er það jafnvel uppleggið. Og kannski eru þessar þrjár sögur sem við eigum eftir að horfa á allt öðruvísi.
Áreitið
Mér finnst nánast sársaukafullt að hugsa til þess að ég hafi eytt allri föstudagsfærslunni í að tala um nagladekk. Ég bið ykkur að fyrirgefa mér. Ég er byrjaður aftur á samfélagsmiðlum og sogaðist inn í eitthvað svona málefnasvarthol. Mér finnst reyndar alveg jafn ljóst núna þegar ég er byrjaður aftur að „fylgjast með“ og þegar ég hætti að „fylgjast með“ um síðustu áramót að þetta skekki mann einhvern veginn – maður fari skyndilega ómeðvitað að eyða miklum tíma í að hugsa um það sama og flestir aðrir, daginn út og daginn inn. Eða í öllu falli það sama og bergmálsklefinn mann kastar í mann. Ekki endilega bara til að vera sammála, líka til að vera ósammála eða einfaldlega til þess að líða illa yfir. Í grunninn er þetta auðvitað bara að tilheyra samfélagi fólks – en samfélagsmiðlar eru bara svo mannmörg kaffistofa, það verður svo óyfirstíganlegt að vinna úr öllu áreitinu. Kannski er ég eitthvað óþarflega viðkvæmur en þegar ég skrolla mig í gegnum vanlíðan og fögnuð til skiptis – einn er beittur óréttlæti, annar á afmæli, þriðji vill steypa ríkisstjórninni, fjórði var að fá góðan dóm, fimmti er hugsi, sjötti póstar þorstagildru, sjöundi kokteil og áttundi líki – á mjög háu tempói þá verð ég á endanum hvefsinn. Einsog það sé viðstöðulaus dissonans í höfðinu á mér – tíu útvörp í gangi öll stillt á sitthvora rásina. Helstu áhrifin sem það hefur út á við er eins konar óþol gagnvart öllu ójafnvægi í kringum mig. Og af því veröldin er limbó jafnvægis og ójafnvægis fer mjög mikill hluti af orku minni í gremjustjórnun – sem getur lýst sér í þegjandahætti og mjög óskýrum hugsunum, og jafnvel að ég tali mér þvert um hug af einhverjum orsökum (ekki bara í einhverju devil’s advocate dæmi – heldur beinlínis bara að ég finni þörf fyrir að sanna réttmæti einhverrar skoðun sem ég hef ekki eða vil hafa). En lýsir sér kannski helst þannig á netinu að ég skrifa status eða komment og eyði því síðan – skrifa og eyði, skrifa og eyði, skrifa og eyði – af því engar samræður virðast þess virði. Þær virðast flestar bara auka á hávaðann. Þetta passívítet og þetta óþol fyrir ójafnvægi er líka líklegt til þess að gera úr manni óþarflega mikinn íhaldsmann. Það og þessi hlutverkaskipan auðvitað – internetið er fullt af yrðingum um hvíta miðaldra gagnkynhneigða sís karlmenn og hvað þeim finnst um lífið og á endanum hlýtur maður að taka það bara til sín. Því ekki fer maður að leiðrétta það. Ég hef samt engan áhuga á að verða íhaldsmaður. Eða að hafa skoðun á nagladekkjum. Bara svo það sé sagt. Í hjarta mér er ég anarkisti á sumardekkjum.
Gangandi vegfarandi undir stýri
Ég keyri mjög lítið. Eiginlega aldrei nema ég sé annað hvort að fara úr bænum eða að flytja eitthvað þungt. Einu sinni silaðist ég um bæinn á hjóli en svo áttaði ég mig á því að með þessu var ég ekki að næla mér í aukahreyfingu – einsog hafði verið raunin þegar ég keypti hjólið í Västerås – heldur að spara mér hreyfingu. Það er tímafrekara að ganga en það er meiri hreyfing. Og hér fer ekki svo mikill tími í þessar samgöngur – eiginlega finnst mér þægilegra að það taki mig a.m.k. þrjár-fjórar mínútur að komast á milli. Ég stekk upp á hjólið ef ég er seinn eða ef ég þarf t.d. að skjótast eftir einsog einu steinseljubúnti í miðri eldamennskunni. Bíllinn, Mitsubishi Outlander PHEV, er á nagladekkjum. Nokian Hakkapeliitta 9. Þetta voru þau dekk sem voru til á landinu og komu best út í prufum. Ég á líka harðkornadekk sem fylgdu með honum (og sumardekk auðvitað). Líklega hefði ég látið þau duga en Nödju leist ekkert á að sénsa með þetta. Ef við byggjum í Reykjavík liti það eðlilega öðruvísi út. En við búum hér og keyrum lítið – þegar allt kemur til alls skiptir það langmestu máli, hvort sem verið er að hugsa um slit á vegum, lýðheilsu eða annað. Að keyra lítið. Mér finnst það sjálfum mjög auðvelt vegna þess að mér finnst leiðinlegt að keyra stuttar vegalengdir. Ég get alveg gírað mig upp í langferðir – þegar við förum saman fjölskyldan styttum við okkur stundir við að búa til playlista og tala saman. Þá keyrir Nadja líka yfirleitt. Þegar ég fer einn vel ég mér einhverja góða hljóðbók. Bestu bækurnar eru svona sex tímar. Kannski rétt tæplega. Þá næ ég að klára þær áður en ég kem inn í borgarumferðina og missi einbeitinguna. En ég nenni ekki að stökkva upp í bíl til að hlusta á hálft samtal (um nagladekk, á Bylgjunni) og 5 auglýsingar (um nagladekk, á Bylgjunni) áður en ég hleyp inn í Bónus og næ svo hálfu samtali (um rafbíla, á Bylgjunni) og 5 auglýsingum (um rafbíla, á Bylgjunni) á leiðinni heim. Reyndar er ég á því að ég fari alltof lítið til nágrannabæjanna. Að ég ætti að fara oftar í sund í Bolungarvík og svona. En það er önnur saga. Ég nota bílinn ekki síst þegar veðrið verður til þess að flug falla niður – og það er þá oft í óskemmtilegu veðri (stundum fellir Iceland Air reyndar niður flug við mjög góðar aðstæður – en það er líka önnur saga). Oftast rýk ég af stað út í veðurmókið vegna þess að ég þarf að ná millilandaflugi. Þá er ég voða þakklátur fyrir naglana. Ónegld harðkornadekk koma vel að merkja ágætlega út í prufum og mörg þeirra koma betur út en mörg nagladekk. Flestir þeirra sem eru á nagladekkjum gætu verið á betri vetrardekkjum sem eru ónegld. En bestu dekkin – þau sem eru best í allar mögulegar vetraraðstæður frá Ísafirði til Reykjavíkur, sköflum, bleytuhálku, slabbi – eru samt nagladekk. En ef ég þyrfti að keyra í Reykjavík meira en 2-3 daga á hverjum vetri myndi ég samt ekki vera á nagladekkjum. Það væri fantaskapur. En mestu munar samt alltaf um að keyra lítið.
Bætt stjórnmál og stagbætt
Ég hef alltaf verið pólitískur. Ég náði því að fara í framboð fyrir bæði Alþýðubandalagið og sameiginlegt vinstrimannaframboð áður en ég varð tvítugur. Hékk svo með inn í Vinstri-Græn þegar það var stofnað – án þess þó að hafa nokkurn tíma verið virkur. Í menntaskóla stofnuðum við vinirnir Vinstrimannafélag sem stóð fyrir reglulegum málfundum, minningarathöfnum (um Che og MRTA), mótmælum, tók þátt í verkfallsvörslu fyrir verkalýðsfélagið Baldur, gaf út tímarit (sem ég ritstýrði) og hafði meira að segja sósíalíska pönkhljómsveit á sínum snærum. Ég var líka í Sósíalistafélaginu, Herstöðvaandstæðingum, hékk með Ungum sósíalistum og var áskrifandi að Militant, skrifaði í Testamentið og fór til Kúbu að tína appelsínur fyrir byltinguna. Eftir menntaskóla missti ég eiginlega trúna á þennan samtakamátt – bæði í litlum félagasamtökum og stærri flokkum. Róttæklingarnir voru oft illa haldnir af rörsýn og heift. Ég fékk oft á tilfinninguna að þeir umgengjust í raun aldrei fólk sem þeir væru ekki hundrað prósent sammála og hefðu litla innsýn í líf annarra. Auðvitað var þetta ekki algilt en þannig viðhorf fengu að vaða uppi – t.d. man ég eftir manni sem fullyrti að lögreglumenn væru ævinlega réttdræpir vegna stéttareðlis síns. Ég spurði sérstaklega hvort þetta ætti líka við um umferðarlögreglumann á Suðureyri og fékk það svar að þetta væri ekki spurning um einstaklinga heldur eðli stéttarinnar – lögreglumenn verðu kapítalið og þeim þyrfti að útrýma. Sami maður hélt því líka fram að það væri ekkert vændi á Kúbu – bæði fyrir og eftir að ég horfði á hann hverfa upp í leigubíl með vændiskonu. (Maður komst ekki fimm metra í Habana eftir klukkan átta á kvöldin án þess að vera boðin kynlífsþjónusta). Stóru flokkarnir voru síðan bara eitthvað grín. Ég skrifaði einhvern tíma grein fyrir sameiginlegt framboð og var beðinn um að breyta orðinu „alþýða“, sem kom 3-4 sinnum fyrir, í „fólk“ af því það væri engin alþýða til lengur. Ég benti ritstjóranum á að flokkarnir sem gæfu út blaðið hétu Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag – niðurstaðan úr því er auðvitað þekkt. Ári síðar voru báðir flokkar lagðir niður. Það var samt ekki einsog ég hætti að vera sósíalisti. Ég hvarf á vit einhvers konar persónulegrar ábyrgðar – mér fannst sem mér bæri fyrst og fremst skylda til þess að skrifa, ég væri rithöfundur og ég ætti bæði að skrifa greinar um stjórnmál og vefa stjórnmálin inn í bókmenntir mínar. Mér fannst samt ekki, og finnst ekki, að í þessum bókmenntum ætti að vera mórall eða boðskapur heldur að bækurnar ættu að takast á við stjórnmálin með verkfærum skáldskaparins – með því að skapa óvenjulegar aðstæður, varpa ljósi á hið óséða, veita perspektíf og velta upp möguleikum. Með því að öskra á torgum og snúa öllu á haus. Ég get haft afstöðu, t.d. í greinarskrifum, en skáldskapurinn hefur ekki afstöðu. Hann er skáldskapurinn. Hafandi sagt mig úr lögum við allan þennan félagsskap er ég auðvitað munaðarlaus – og áreiðanlega sérvitur og erfitt að gera mér til geðs pólitískt til lengdar. Síðast kaus ég Pírata. Magnús frændi minn – sem er vel að merkja lögfræðingur hluta þess fólks sem var sent úr landi í gær – var í framboði í mínu (risavaxna) kjördæmi og þótt Píratar séu sennilega talsvert hægrisinnaðri en ég þá fannst mér þetta samt liggja frekar beint við. Þarna væri færi á að ná inn manni sem hefði innsýn í ljótustu mál íslensks samtíma – málefni hælisleitenda. Manni sem ég þekkti og treysti. En ég er augljóslega ekki Pírati. Flokkurinn er bæði of teknókratískur og svag fyrir markaðslausnum fyrir mig. Samleið minni með Vinstri-Grænum lauk fyrir löngu, ég sagði mig úr flokknum einmitt út af þessum andskotans hælisleitendamálum – gott ef það var ekki í eftirhrunsstjórninni, þessari sem átti að vera „fyrsta hreina vinstristjórnin“. Vinstri-Græn og Samfylkingin skiptast nefnilega á að vera róttækir vinstrimenn þegar þau eru í stjórnarandstöðu en bakka svo harkalega alltaf þegar þau fara í stjórn – og þurfa ekki Sjálfstæðisflokkinn til einsog eftirhrunsstjórnin sýndi. Það er alveg hægt að tala sig fölan í framan um að sú stjórn hafi þurft að „taka til“ og „borga brúsann“ og það allt saman – en það hefði verið hægur leikur og ódýr að taka til í hælisleitendamálunum og það var ekki gert. Báðir flokkar hafa svo legið í það römmum sleik við Sjálfstæðisflokkinn, alltaf þegar færi gefst, að allt tal um að eiga enga samleið með honum er fullkomin sjálfsblekking. Og vel á minnst – ef það er eitthvað sem ég hef ímugust á í stjórnmálaumræðu síðustu ára þá er það þegar Vinstri-Grænir setja ofan í við Samfylkinguna fyrir að „svíkja hin góða málstað“ – og öfugt. Því báðir þessir flokkar hafa margsýnt að þeim er ófært að framfylgja nokkurri eiginlegri vinstristefnu, sérstaklega þegar kemur að málefnum hinna verst settu. Það eina sem þessir flokkar hafa sér til málsbóta er að þeir eru ekki neinn hinna flokkanna. Sósíalistaflokkurinn minnir mig síðan alltaf meira og meira á áðurnefndan kunningja minn með rörsýnina. Langar ræður um hvað aðrir, jafnvel fyrrverandi samstarfsmenn úr hópi róttæklinga, séu ógeðslegir og viðbjóðslegir og sjúkir sósíópatar – ofan í alls konar klækjavafninga og hjaðningavíg – þetta bara gerir ekkert fyrir mig sem ég gæti ekki fengið úr House of Cards (eða þið vitið, ef Spacey væri ekki úr leik). Þá var harðlínustefnan sem tekin var upp í Covid-málum – þar sem það var t.d. varið að senda fólk í nauðungarsóttkví og að loka landinu með öllu – frekar óhugnanleg. Ég held að róttækum sósíalistum (einsog sjálfum mér) sé fátt mikilvægara en að læra af sögunni og fara varlega í allt þetta tilgangurinn-helgar-meðalið dæmi. Það súrnar mjög hratt. Og þá eru upptalin þau starfandi stjórnmálaöfl sem ég hef – eða mun – íhuga að kjósa. Ég hef tvö grundvallarprinsipp í stjórnmálum, fyrir utan bara grundvallarlögmál lýðræðisins – að við ráðum þessu saman, ríkið megi ekki níðast á okkur og allir eigi að borga skatt. Hið fyrra er að stjórnmálin eigi að stuðla að meiri jöfnuði – helst þannig að við séum bara öll efnahagslega sirka á sama stað. Hið síðara er að fólk eigi að mega vinna og starfa (og kjósa og nema) sirka þar sem það vill. Ef þetta tvennt er í lagi treysti ég því að margt annað lagist af sjálfu sér. Ég er ekki viss um að „þjóðin fylgi mér að máli“ í efnahagsmálunum – við erum voðalega ánægð með að halda í ójöfnuðinn, af því það dreymir svo marga um að verða ríkir og það er ekki hægt ef ríkidæminu er útrýmt. Þá sem langar ekki að vera Bjarni Ben langar bara að vera Haraldur Þorleifsson. Það er áreiðanlega líka hellings stuð að vera ríkur. Maður getur svo margt sem aðrir geta ekki. Og það er ekki nærri jafn gaman að geta eitthvað ef allir aðrir geta það líka. En þótt fólk sé upp til hópa kannski ekki með mér í no-borders pælingunni er ég vonbetri um að fólk vilji í raun og veru afnema mannfjandsamlega stefnu ríkisins í útlendingamálum og hætta að senda fólk með lögregluvaldi úr landi, fólk sem hefur vel að merkja ekkert gert af sér annað en að vilja vera nágrannar okkar og samstarfsfólk. Auðvitað eru undantekningar – Jón Gunnarsson, augljóslega, og Margrét Friðriks, og fleiri – en ég held við viljum upp til hópa ekki að atburðir einsog þeir sem áttu sér stað í gærkvöldi gerist á okkar vakt. Ég trúi því einlæglega að ekki einu sinni Katrín Jakobsdóttir vilji það. Og þá stendur eftir spurningin – fyrst stjórnmálaflokkunum er ófært að laga þetta áratugum saman, og það hefur margsýnt sig vera árangurslaust að skipta um stjórnmálaflokka – hvernig lögum við þetta þá? Með því að stofna enn einn stjórnmálaflokkinn? Kannski væri hægt að stofna einsmálsflokk – einsog Kvennalistann og Frjálslyndaflokkinn – sem hefði ekkert annað á sinni könnu en þetta? Og kannski væri það bara til að auka á ruglið. Ég er ekki að skrifa þetta vegna þess að ég hafi neinar lausnir að stinga upp á. Ég veit ekkert og hef ekkert á borð að bera nema sístækkandi holu míns botnlausa vonleysis.
Helvíti málefnalegt
Þegar Björk vann sænsku Polarverðlaunin fyrir tólf árum – verðlaunin sem stundum hafa verið kölluð „Nóbelsverðlaun tónlistarinnar“ og eru jafnan veitt einum popptónlistarmanni og einum úr klassíkinni – skrifaði einn þekktasti tónlistargagnrýnandi Svía, Fredrik Strage, heldur harkalegan pistil um „okkar konu“. Fredrik þessi er fæddur 1972, sennilega mest gefinn fyrir einhvers konar indímúsík, frekar fyndin týpa og oft skemmtilegur pistlahöfundur. Af og til er honum líka mikið niðri fyrir. Fyrirsögn pistilsins um Björk var „Björk tog slut samtidigt som nittiotalet“ – „Björk kláraði sig á sama tíma og tíundi áratugurinn“. Þar byrjaði hann að minnast Ricardo Lopez, Bjarkaraðdáandans sem sendi Björk pakkasprengju og skaut sig síðan í hausinn með vídjóvélina í gangi eftir að Björk byrjaði að deita blökkumanninn Goldie. Svo kom línan: „Ricardo Lopez var kannski geðsjúkur sprengjumaður og rasisti en honum lánaðist þó að hætta að hlusta á Björk áður en hún varð léleg.“ Fyrstu þrjár plöturnar voru góðar, sagði Strage, en eftir það sneri hún sér frá „leiftrandi melódíum“ að „rembingslegum menntamannahljóðtilraunum“. Hann játar síðan að hann hafi sjálfur notað svipað orðalag og Polarnefndin – „explósíf“, „heimskautageðslag“ og „óhamið náttúruafl“ – til að lýsa síðari plötum hennar í dómum sem hafi, eftir á að hyggja, verið alltof jákvæðir. Þá segir hann að þótt Björk sé óneitanlega áhugaverðara val en margir fyrri Polarverðlaunahafar þá sé erfitt að líta á þessa verðlaunaveitingu sem annað en einhvers konar þróunaraðstoð – það fari ein milljón sænskra króna til Íslands (sem honum reiknast út að sé um 30% af vergri þjóðarframleiðslu) og hin bugaða þjóð, sem er að rísa upp úr gjaldþroti og skömm, fái að endurheimta svolítið af stolti sínu. „Eftir hrun íslensku bankanna og gosið í Eyjafjallajökli hafa margir Evrópubúar farið að spyrja sig hvort Ísland þjóni nokkrum einasta tilgangi. Polarverðlaunin gera okkur aðeins erfiðara um vik að afskrifa íbúana sem þjóðflokk þroskaheftra rassálfa sem éta rotinn hákarl.“ Loks kemur Strage með málamiðlunartillögu. Í ljósi þess að þetta sé þróunaraðstoð sé eðlilegt að gera ákveðnar kröfur um mótframlag – líkt og þegar Erítreumönnum sé gert að framkvæma ákveðnar lýðræðisumbætur gegn því að fá styrki til landbúnaðar. Þannig eigi Björk ekki að fá tékkann fyrren hún hafi skilað af sér tíu nýjum lögum sem séu jafn góð og Hyperballad eða Jóga. Mistakist það eigi að læsa hana inni í Berwaldhöllinni með sinfoníuhljómsveit, tunnu af rotnum hákarli og Ennio Morricone, sem fékk klassísku verðlaunin það ár og hefur að mati Strages til að bera einmitt það sem tónlist Bjarkar vantar, og ekki hleypa þeim út fyrren þau hafi samið nýtt Play Dead. Það er sem sagt ekki bara Davíð Roach sem er vondur við hana Björk okkar. Eiginlega var Davíð bara mjög kurteis miðað við það sem stundum gengur og gerist úti í hinum stóra heimi (þar sem fólk ímyndar sér stundum að allir séu mjög „fagmannlegir“ og „hlutlausir“ og enginn tali nokkru sinni óvarlega um fína fólkið). Það sem eldist verst í þessum pistli er reyndar alls ekki gagnrýnin á Björk eða Ísland – heldur þetta tal um þroskahefta og geðsjúka – og svo droppar Strage einni N-sprengju (sem er að vísu bein tilvitnun í Ricardo Lopez). Þetta var árið 2010 – veröldin er að breytast. Og auðvitað skiptir ekkert af þessu neinu máli – gagnrýni er (og á að vera) súbjektíf. Maður verður að taka því sem er útgefið þannig að það sé einsog það eigi að vera – eða í það minnsta dæma það á þeim forsendum og leggja mat á það hvernig það virkar á mann. Gagnrýnendur lýsa bara upplifun sinni – sú upplifun þarf ekki að vera almenn og um hana má rífast, einsog þann búning sem henni er búinn, en það er voðalega vitlaust að festast alltaf í einhverju rifrildi um að gagnrýnendum eigi ekki finnast eitthvað eða bera á borð skoðanir sínar. Það er bókstaflega út á það sem starfið gengur. Engin setning er heiðarlegri í gagnrýni en sú sem hefst á orðunum „mér finnst“. Svo er Björk líka Björk. Ætlar maður að fara að vorkenna einhverjum stærsta listamanni síðustu 40 ára – í heiminum – fyrir það að af og til ætli einhver að taka hana niður? Skila séráliti? Það væri ansi ómerkilegur listamaður sem næði hennar status og fengi aldrei yfir sig neinar gusur. Og ansi ómerkilegur listamaður sem öllum þætti bara frábær. Ég upplifði það sterkt sem ritstjóri Starafugls að það versta er yfirleitt ekki að fá neikvæðan dóm heldur að fá neikvæðan dóm sem enginn mótmælir. Að fá neikvæðan dóm um verk sem enginn annar hefur haft skoðun á – enginn annar hefur skoðað og pælt í. Sjálfum fannst mér ekkert verra en að skrifa þannig dóm og sem höfundi ekkert verra en að fá þannig dóm. Það sem er síðan gott við mjög harkalega dóma er að þeim er nánast undantekningalaust mótmælt – þeir vekja viðbrögð og með því að taka harkalega til orða gefur gagnrýnandinn bæði á sér höggstað og eggjar aðra af stað til þess að lýsa sinni upplifun. Með því að sýna verki (sem hann þolir augljóslega ekki) kurteislegt yfirlæti ver hann sig hins vegar fyrir andsvari – felur sig á bakvið uppgerðarhlutlægni – og þá neyðist höfundurinn (og vinir hans) til þess að bæla gremju sína fremur en að svara svívirðunni. Þá er ekkert fleira um það að segja. Þetta var nefnilega allt svo helvíti málefnalegt.
Daginn eftir
Í heimi þar sem línur væru skýrar myndi dagurinn eftir útgáfuhóf bókar vera dagur endurfæðingar. Þá er maður loksins búinn að skila af sér. Ég svæfi kannski út, fengi mér síðan drjúgan morgunverð áður en ég færi ferskur af stað á skrifstofuna þar sem ekkert biði mín annað en auð blaðsíða full af möguleikum. Veruleikinn er allt annar. Mín bíða fimm ókláraðar bækur og ég veit ekkert í hverri þeirra ég á að vinna eða hvað í ósköpunum ég ætla að að gera með þær. Svo á ég reyndar tvö önnur handrit líka sem ég er tæknilega séð búinn að „henda“ en tek alltaf upp af og til og velti fyrir mér hvort ég eigi að lífga þau við. Yfirleitt finnst mér það frábær hugmynd í svona sólarhring og svo hræðileg hugmynd eftir það. Og það er hræðileg hugmynd. Ónýtar bækur eiga bara að fá að vera ónýtar í friði. Í ruslakistunni. Með lokið á. Jólabókaflóðið er líka bara rétt að byrja. Ég veit svo ekkert hvað ég geri fleira. Það er í alveg nýtt fyrir mig að vera í barnabókabransanum. Og hryllingsbransanum og jólabransanum. Mér finnst ekkert ólíklegt að það verði eitthvað hóað í mig í aðventunni en veit ekki hvernig það verður. Barnabækur fá yfirleitt fáa dóma og litla umfjöllun. Ég fór reyndar í örlítið viðtal í Fréttablaðinu – ég held það hafi verið aukakálfur um Hrekkjavökuna. En svo eru þetta þrjú útskot í einu – jólamenning er ekki alltaf viðeigandi, barnamenning er ekki alltaf viðeigandi og hryllingsmenning er ekki alltaf viðeigandi. Mjög oft er að minnsta kosti eitt af þessu þrennu alls ekki viðeigandi. Það eru heldur engar Reykjavíkurferðir fyrirliggjandi. Ég hef stundum átt leið í gegn og stundum gert mér sérferð til að kynna en það er bæði dýrt og hefur reynst erfitt að skipuleggja þær þannig að ég hafi nóg að gera til að réttlæta fjarveruna – það hjálpaði ekki til þegar Ríkisútvarpið setti þá reglu að maður mætti helst ekki vera í fleiri en einum þætti í sömu vikunni. Ef maður byggi í Reykjavík gæti maður mætt í einn þátt á viku alla aðventuna og minnt á sig – en það stendur reyndar fáum það til boða hvort eð er. Í sjálfu sér er það líka skiljanlegt að það sé ekki alltaf sama fólkið í útvarpinu og sjónvarpinu (nóg finnst manni það nú samt vera þannig) að tala um sömu hlutina aftur og aftur. Hvað um það. Það besta við að vera ekki á leiðinni neitt er að geta þá ekki heldur falið sig fyrir handritunum. Ég þarf bara að velja – í raun eru það fyrst og fremst þrjú sem eru líkleg og eitt þeirra eiginlega langlíklegast. Nema auðvitað ég rjúki til, einsog einhver stakk upp á, og skrifi strax framhald af Frankensleiki. Það er þá bara spurning hvort það verði „Frankensleikir lifir“ eða „Brúður Frankensleikis“. Eða bara eitthvað allt annað. Ég gæti byrjað á sjálfsævisögunni. Eða ort sonnettusveig. Skrifað kvikmyndahandrit. Það er svo margt hægt.
Útgáfuhóf í Edinborgarhúsinu
Útgáfuhófið fyrir Frankensleiki fór fram í Edinborgarhúsinu í gær. Það var frábært. Við þurftum að fara tvær aukaferðir eftir stólum. Ég held það hafi verið ein kökusneið eftir og kannski tvær bækur þegar allt var yfirstaðið. Ég þakka auðmjúklega fyrir mig. Þið eruð dásamleg.