Eitur, rof og túristaheift

Ég kláraði Gift eftir Tove Ditlevsen áðan, í þýðingu vinkonu minnar Þórdísar Gísladóttur. Þetta er frábær bók en ég vissi það svo sem enda hafði Þórdís sagt það á samfélagsmiðlum. Ekki það að ég éti bara allt upp hrátt sem hún segir. En mér fannst þetta alltaf sannfærandi málflutningur. Bókin segir frá lífi höfundar frá því hún er gift eldri manni – ritstjóra ljóðatímarits – skilur við hann, byrjar með öðrum, heldur svo framhjá honum með þriðja manninum sem er læknir. Eftir hann verður hún ófrísk en fer til hans í þungunarrof og það leiðir til þess að hún fer að misnota eiturlyf – og hann verður hennar meðvirki díler í ein fimm ár. Gift þýðir ekki bara „gift“ á dönsku heldur líka „eitur“. Karlarnir eru eitur og lífið sem hún lifir er eitur og fíknin er eitur og eitrið er eitur og hún er eiginlega líka eitur sjálf – og gift þessu öllu og losnar aldrei við það. Orðið þungunarrof, sem hefur tekið við af hinu síður geðslega „fóstureyðing“, er einmitt notað í bókinni og stakk mig aðeins í augun – af því fyrir mér er það 21. aldar orð. Kannski varð það samt mest til þess að ég fór að velta vöngum yfir því hvernig maður fari með svona í þýðingu. Tove hefur líklega notað það orð sem var venjulegt á fimmta áratugnum. Hins vegar ber þýðing yfirleitt talsverðan keim af þeim tíma sem hún er gerð á – jafnvel þegar þýðendur (eða höfundar) rembast við að skrifa fornan stíl er það nútímastíll með fornu yfirbragði. Það eru engir 19. eða 18. aldar höfundar sem skrifa einsog Ófeigur Sigurðsson eða Sölvi Björn Sigurðsson (ekki bræður!). Mér fannst þetta allavega ekki lýti á þýðingunni. Í gær kláraði ég líka aðra bók um rithöfundaþjáningar (eðlilega laðast ég að svona verkum), sem gæti þó ekki verið ólíkari Gift. Þetta var Túristi eftir Stefán Mána, sem ég hef átt í plastinu guð veit hvað lengi. Hún kom út 2005 og er síðasta verkið sem hann skrifar áður en hann fer alfarið út í spennusagnaritun og líka sú síðasta sem hann gaf út hjá Máli og menningu. Ég hafði heyrt alls kyns sögur af þessari bók og sennilega flestar frá fólki sem hefur ekki lesið hana. Að í henni væri hæðst og skopast að öllum helstu bókmenntafígurum samtímans (2005) og það af meiri heift og gremju en gamansömum kærleika. Og þetta stendur í sjálfu sér heima – þarna er meðal annars háðuleg persóna sem heitir Kristján b), en Kristján B. Jónasson var ritstjóri Stefáns (og minn) á þessum tíma. Ég man alltaf eftir því að hafa einu sinni átt fund með Kristjáni strax á eftir Stefáni og Stefán (sem ég kynntist ekkert fyrren síðar) rétti Kristjáni diskettu með handriti og sagði eitthvað í líkingu við: „Svo ertu bara grjótharður við mig, ekkert kjaftæði, give it to me straight“ áður en kvaddi. Ég hef oft ímyndað mér að það hafi verið þessi bók. Ég held það sé alveg óhætt að segja að bókin hafi sokkið. Ég þekki mjög fáa sem hafa lesið hana. Túristi fjallar um nokkra (karlkyns) höfunda á ólíkum aldri, konurnar sem þeir elska (og elska ekki) og sögurnar sem þeir eru að skrifa og það einfaldar ekki málin að stundum eru þeir að skrifa hver um annan – maður er oft pínu lost hvort maður sé að lesa söguna eða eina af sögunum inni í sögunni. En það þarf ekkert að koma að sök, að minnsta kosti truflaði það mig ekkert. Inn í þetta þvælast svo alls kyns mýtológískir þræðir. Í grunninn er þetta bók um skáldskapinn – kannski í senn kveðjubréf og boðun nýs höfundar og einhvers konar fagurfræðileg yfirlýsing og skopstæling á sömu fagurfræðilegu yfirlýsingu, árás á fagurbókmenntirnar og heiminn sem hýsir þær. Á stundum minnti hún mig á Ljósgildruna hans Guðna frá því í fyrra – nema einhvern veginn heiðarlegri, ekki síst vegna þess að Stefán ber enga dul á það á hvaða höfunda hann er að ráðast, og ræðst að lokum harkalegast að sjálfum sér. Það er heldur engu logið um gremjuna í þessari bók – og það er pungur í henni, það er varla að konur séu til sem höfundar. Karlarnir fá útreið en konurnar hunsun. Hér er t.d. lýsandi klausa um kollega sem „fá misbragðvont grín á baukinn og eru hraktir út í ystu myrkur baktalsheima“: Þar á meðal eru Íslenski hesturinn (sagnamaðurinn geðþekki sem fær klór bak við eyra á Íslendingadeginum í Þýskalandi), Kiljan (ódýr vasabrotsútgáfa af Stórskáldi), Herra Ég-heimur (hin ofmetna fjölmiðlamellubylting sem étur sjálfa sig), Ullarsokkurinn (útbrunni vinstrimaðurinn með Laxnessæxlið), Gulldrengurinn (svar íslenskra bókmennta við Mikka Mús), Endaþarmurinn (músin sem hræðist viðurkenningu á efri árum en óttast þó algleymið mest af öllu), Fransbrauðið (ljóðvitaskuld), Tafsarinn (höfundurinn sem skríður undir rúm þegar verk hans taka ákveðna stefnu), Íkorninn (fimmfaldur Ólympíumeistari í innhverfum landsbyggðarprósa án atrennu), Mikki refur (skildu apa eftir með ritvél í einn dag og út kemur ný bók eftir Mikka ref) og Sonarvomurinn (sálarlausi bókmenntarisinn sem reynir að lífga við eigin saur með búktali og bleikri slaufu), að ógleymdum Tussunum (konurnar sem skrifa bækur sem aðrar konur fá í jólagöf en enginn les). Góðvinir Stefáns fá líka á baukinn (á einum stað er t.d. talað um ljóðabók „Steinars B.“ Strippaðu, Mjallhvít, strippaðu ). Maður þakkar eiginlega fyrir að hafa ekki þekkt hann. Nema ég sé sonarvomurinn – búktalandi risi á þermistiginu, það gæti átt við mig. Ég var samt voða lítið byrjaður að búktala 2005. Mér fannst Túristi miklu betri en ég átti von á – hressileg í allri sinni heift og sínu mýtológíska kaosi. Kannski dálítið endaslepp – það blasir ekki við hvernig eigi að enda svona bók og hún fjarar svolítið út – en æsilegt ferðalag engu að síður (ég er ekki heldur þannig lesandi sem krefst endahnýtinga – þær eru oft bara óþarfi).

Að klæða sig úr menningunni

Í gær sá ég auglýsingu frá aktívistum þar sem fólk var beðið um að klæðast ekki sem „þjóðerni, kynþáttur eða menning“ í tilefni af hrekkjavökunni og varð mikið hugsi. Í fyrsta lagi hafði ég nýrætt við dóttur mína sem var á leiðinni á grímuball. Hún hafði tilkynnt mér að hún væri hætt við að nota draugakisubúninginn sem hún gerði með ömmu sinni og ætlaði að geyma hann fyrir útgáfuhóf Frankensleikis á mánudag (þegar hin eiginlega hrekkjavaka gengur í garð). Hún og vinkona hennar höfðu gert eitthvað nýtt plan – en heyrði ég hvað hún sagði áður en hún stakk af? Hún sagði ekki indíánaprinsessa, var það nokkuð? hugsaði ég. Guð, þarf ég nú að fara að leita barnið uppi og banna henni að vera indíánaprinsessa? Einsog ég hafi ekkert betra við daginn að gera. Ég lét það vera, af því ég er samviskulaus þrjótur sem ber enga virðingu fyrir svonalöguðu, og af því ég var ekki viss og þegar hún kom heim í kvöldmat kom í ljós að hún var bara einhver abstrakt týpa með stjörnur og dót á kinnunum og alls ekkert menningarlega óviðeigandi. Mannorði mínu var borgið. Það sem olli mér hins vegar enn heilabrotum var lokaliðurinn í skilaboðunum. Að maður ætti ekki að klæðast „sem menning“. Þetta bókstaflega bergmálaði í höfðinu á mér í allan gærdag. Auðvitað hlaut að vanta þarna orð – þetta hlaut að eiga að vera „menning annarra“ því maður hlýtur að mega klæðast sem sín eigin menning? Og segjum það. Segjum að það sé í lagi. Hvernig klæðir maður sig þá „sem [sín] menning“? Ég man eftir endalausum vangaveltum frá því ég var ungur um hvað menning væri – nærri því allir sem ég umgekkst á árunum eftir tvítugt voru að læra heimspeki. Frægustu skilgreiningarnar voru þær að menning væri a) hvaðeina sem mannskepnan tekur sér fyrir hendur eða b) að gera hlutina vel. Seinni skilgreiningin er komin frá Þorsteini Gylfasyni sem sagði í frægri grein að menning væri t.d. að sjóða ýsu akkúrat passlega, þannig að hún losni frá beininu en ofsjóði ekki. Hér var samt augljóslega átt við eitthvað annað – ekki það að maður ætti ekki að klæða sig sem nýsoðin ýsa. Og ekki gat þetta heldur átt við það að klæða sig upp sem þjóðerni  eða kynþátt (sem var það sem ég óttaðist að dóttir mín ætlaði að gera) heldur var þetta eitthvað enn annað. Einhver þriðja kategóría. Mér datt í hug að kannski væri verið að meina að gagnkynhneigður karl ætti ekki að vera „hommi“ á grímuballi. Og í stað þess að fara að telja upp „kynhneigð, kyngervi, kyn, trúhneigð“ o.s.frv. væri þetta „menning“ notað til þess að vísa til margs sem erfitt væri að koma fyrir undir einum hatti – eitthvað svona „ég þekki það þegar ég sé það“-dæmi. Svona „þessu hefðirðu nú betur sleppt“-dæmi. Sem er auðvitað svolítið ósanngjarnt gagnvart okkur miðaldra körlunum – því þetta „menningarlega“ rænuleysi er nánast skilgreiningin á því hverjir við erum. Ef við hefðum hugmynd um hvað væri í móð og hverjar óskrifaðar reglur samfélagsins væru, þá værum við sennilega alls ekki miðaldra karlar. Og hér má reyndar halda til haga þá líka mikilvægi þess að fólk geti notað grímubúninga til þess að tjá eitthvað sem það þorir ekki að gera í hversdagslegra samhengi – t.d. gæti grímuball verið tækifæri fyrir karl í skápnum til þess að máta sig við hlutverkið „í gríni“ (en að sama skapi gæti það samt verið móðgandi fyrir þá sem vilja ekki láta grínast með sjálfsmynd sína). Svo ég haldi nú áfram að blanda dóttur minni í þetta höfðum við einmitt kvöldið áður, þ.e.a.s. í fyrrakvöld, væri að ræða það að tíska – það að klæða sig – væri menning. Að maður notaði fötin til að segja eitthvað um sjálfan sig og oft væri það mjög óljóst hvað maður væri að segja. Ég væri til dæmis ekki viss hvað ég ætti við með því að ganga með kúluhatt en augljóslega væri ég að segja eitthvað. Sjálf tók hún dæmi um ólíkan fatnað sem hún klæðist eftir því hvort hún er kát eða leið. Að klæðast sem „menning annarra“ er þá kannski ef hún myndi setja upp hattinn – sem hún hefur gert ótal sinnum, einsog bróðir hennar, og alltaf segjast þau þá „vera pabbi“. En auðvitað er ekki heldur átt við það – þá væru allir grímubúningar í raun bannaðir, því eðli málsins samkvæmt eru þeir alltaf í þessum skilningi „menning annarra“. Þegar ég tek niður hattinn er ég að þykjast vera þið. Nei, inn í þetta vantar einmitt valdgreininguna – það má ekki stíga yfir tilteknar línur og leika þá sem við teljum vera neðar í hírarkíu lífsins. Ekki að það séu endilega alltaf mjög skýrar línur (einsog má t.d. sjá á átökunum í verkalýðshreyfingunni, þar sem fólk keppist um að vera með heppilegasta/trúverðugasta bakgrunninn með bæði skapandi lýsingum og uppnefnum) en þær eru það stundum. Þannig væri t.d. fyndið ef transmanneskja myndi mæta á grímuball sem einhver sístýpa; en ekki öfugt. Ég tel sem sagt að ég skilji hvað átt sé við þótt mér finnist orðalagið óheppilegt (einsog hráþýddur amerískur hugsunarháttur – sem er sennilega vinsælasta tegund menningarnáms þessi misserin) – ég starfa við menningu, í menningarbransanum, menning er mín menning, og þegar ég hugsa um menningu hugsa ég um eitthvað allt annað en þetta. Samkvæmt minni innilegustu skilgreiningu á menningu er ekki hægt að komast hjá því að klæðast sem menning og raunar ekki heldur sem menning annarra – því öll menning er arfur og samstarf og hópverkefni sem maður á afar lítið í sjálfur, svona prívat og persónulega – og maður er alltaf klæddur, alltaf með grímu, meira að segja þegar maður er nakinn.

Fáein orð um tilvist jólasveinsins

Jólasveinninn er til. Jólasveinarnir eru líka til. Frankensleikir er til. Þetta vita allir sem hafa nokkru sinni fengið í skóinn eða lesið jólabók. Jólasveinninn á heima á norðurpólnum, í Rovaniemi í Finnlandi, á Akureyri og með bræðrum sínum uppi á hálendinu. Á hverju ári rísa þeir úr gröfum sínum og brjótast inn á heimili fólks – innum gluggana, ofan í strompana, leysast upp og svífa í gegnum lofttúður, líkamnast svo aftur, borða mjólk og smákökur og lesa bréfin sem börnin hafa skilið eftir í skóm sínum. Svo gefa þeir í skóinn eða sokkinn eða eitthvað annað. Þetta er alþekkt. Í sumum löndum, aðallega einu fyrrverandi heimsveldi, er aðstoðarmaður jólasveinsins þeldökkur maður sem kallaður er Svarti Pétur. Jólasveinarnir fara um allan heim en ekki til þeirra sem ekki trúa á þá og ekki til þeirra sem hafa aldrei heyrt á þá minnst og alls ekki til fullorðinna. Maður verður fyrst fullorðinn þegar maður hættir að fá í skóinn – en það gerist á afar misjöfnum aldri. Jólasveinninn er kynlaus og barnlaus, giftur frú Santa Claus og eiga þau saman dálítinn her af álfum og átta eða níu hreindýr, þar af eitt sem heitir Rúdolf og er með rautt nef. Jólasveinninn er ekki þríeinn einsog drottinn heldur þrettáneinn – eða oftast nær núorðið, en hann hefur verið allt að því sjötíuogsjöeinn. Allur var hann sjöfaldur og sjötíuogsjöfaldur sonur Grýlu og Leppalúða – eitt sinn hrekkjóttur útilegumaður og síðan vinalegur bumbukarl í kókauglýsingu en nú hann uppvakningur, samansaumaður af Fjólu Garðarsdóttur, sögupersónu í bók sem ég skrifaði og er nýkomin út. Fjóla Garðarsdóttir er til. Hún er systir Hrólfs Garðarssonar og dóttir Garðars Flautland Garðarssonar og Brynju Vídalín. Ekkert af þessu á fólk erfitt með að skilja.

Kastalakanónan

Nýr ríkisstjórnarsáttmáli Svía er kenndur við Tidökastala, þar sem hann var barinn saman. Tidösáttmálinn . Aðilar að þessum sáttmála eru flokkar kristilegra demókrata, frjálslyndra, hófsamra og nasista. Þeir síðastnefndu fá engan ráðherrastól en þeim mun meiri áhrif á stefnumál – fyrirfram hafði ég sagt að það væri sennilega versta niðurstaðan fyrir lýðræðið, því ráðherrastólum fylgir ábyrgð sem kostar flokka oft fylgi til lengri tíma og það má enginn við því að sænski nasistaflokkurinn haldi áfram að stækka. En það er líka svolítið öfugsnúið að verða fyrir vonbrigðum með að nasistar hafi ekki fengið neinn ráðherrastól. Kognitífi dissonansinn minn fer á yfirsnúning. Hvað um það. Eitt af markmiðum sáttmálans er að sett verði saman í Svíþjóð svokölluð „kúltúrkanóna“ – það er að segja listi yfir verk sem teljast vera sígild sænsk meistaraverk, skilgreini jafnvel hvað það sé að vera Svíi eða hafi haft mikil áhrif á sænska sjálfsmynd. Fyrirmyndin er sótt til Danmerkur. Þar var settur saman álíka listi fyrir um 15 árum með 108 dönskum listaverkum – þar á meðal óperuhúsinu í Sydney, Stalingrad eftir Asger Jorn, langskipinu Skuldelev 2 (sem ku reyndar byggt í Dublin af einhverjum sem enginn veit hver er), Matador-sjónvarpsþáttunum, Idioterne eftir Lars von Trier, Sommerfugledalen eftir Inger Christensen, Værsgo , fyrstu plötu Kims Larsen, óperunni Holger Danske eftir Kunzen, Miles Davis plötunni Aura (lögin eru samin af dana), leikritinu Jeppa á fjalli , Carl Barks sögunni Andrési Önd og gyllta hjálminum og kvikmyndinni Gúmmí-Tarzan . Þetta er eðli málsins svolítið umdeilt. Margir vinstra megin við miðju hafa viljað meina að með því að meitla mikilvægri vissra verka í stein á þennan hátt kæfi maður þróttinn í menningunni, sem þurfi á því að halda að vera í síbreytilegum flúxus og endurskoðun. Þá óir marga eðlilega við því hverjir það eru sem eiga að stýra þessu starfi. Kristilegir íhaldsmenn sem beinlínis skilgreina sig sem útvörð kristilegra gilda, Frjálslyndur hægriflokkur sem hefur ofurtrú á gildi markaðarins, Moderaterna sem eru sænski Sjálfstæðisflokkurinn og svo einmitt þessir blessuðu nasistar. Þeir gera það auðvitað ekki prívat og persónulega – það á að velja „óháða sérfræðinga“ – en þeir hljóta óhjákvæmilega að eiga hönd í bagga með að velja þá sem það gera. Síðan er þetta auðvitað ekki bara spurning um það hvort listinn sé til eða hvað sé á honum heldur hvernig hann verði notaður. Sú krafa hefur t.d. verið upp í Danmörku að hann sé kenndur í skólum og hafður til viðmiðunar við alls konar menningarstarf – þú getir jafnvel átt auðveldar með aðgengi að styrkjum ef þú ætlar á einhvern hátt að treysta þennan arf í sessi. Í Danmörku var á tímabili haldið úti vefsíðu þar sem aðgengi að stafrænum útgáfum þessara verka var tryggt en hún var svo lögð niður vegna … wait for it … kostnaðar. Það kom sem sagt í ljós að það þurfti að greiða rétthöfum (nema kannski afkomendum þess sem hannaði Skuldelev 2). Mér sýnist reyndar að í raun sé mest lítið gert með hann í Danmörku. En ég hef ekki nægilega innsýn í danskt samfélag til að fullyrða um það. Aðrir segja að markmið kanónunnar hafi verið að skapa umræðu um danskt ídentítet og danska menningu og það hafi tekist. Reyndar situr fólk svo enn uppi með sömu kanónu fyrir og eftir þessa umræðu, en það er kannski aukaatriði. Einsog annað viðurkenningapjátur er þetta svo alveg ógurlega skemmtilegur samkvæmisleikur – en að sama skapi líka kannski hættulegt að hann fái opinberan stimpil? Hér er kjarni hins danska, sænska og íslenska? Annars var verið að ræða þetta við nýja sænska menningarmálaráðherrann, Parísu Liljestrand (úr Moderaterna), í sjónvarpsþættinum Morgonstudion. Þar voru henni sýnd þrjú verk – Gösta Berlings saga eftir Selmu Lagerlöf, Millenium -trílógían og Triangle of Sadness eftir Östlund – og hún spurð hvort þau gætu verið í kanónunni. „Þetta eru auðvitað allt frábærir rithöfundar og tvær af þremur bókanna hef ég sjálf lesið, og þótti mjög góðar, en það verður einhver annar að svara því hvort þær eigi heima í kanónunni“, sagði Parísa. Við þetta er ekkert að athuga nema að Millennium -trílógían ein og sér er (a.m.k.) þrjár bækur og Triangle of Sadness er kvikmynd. Mér finnst sjálfum áhugavert að skoða „útlensku“ verkin á danska listanum – Miles Davis plötuna og óperuhúsið í Sydney og Carl Barks-Andrésinn – og velta því fyrir mér hvaða „útlensku“ verk gætu talist hluti af íslenskri kúltúrkanónu. Kannski sænska Sölku Völku myndin? Immigrant Song með Led Zeppelin? Letters from Iceland eftir Auden og MacNiece? Þið megið gjarnan koma með tillögur, annað hvort hér að neðan eða á Facebook.

Fjórir komma fimm

Í gærkvöldi ætluðum við Nadja að horfa á The Dinner sem gerð er eftir samnefndri skáldsögu eftir Herman Koch. Eða Het diner heitir skáldsagan auðvitað. Nadja var að lesa hana í bókaklúbbi sem verður haldin í kvöld og ég las hana sjálfur fyrr í ár. Nema hvað. Myndin var ekki til á Netflix sem stakk þá upp á „skyldum“ myndum í staðinn. Þar var efst á blaði sjónvarpsþáttaserían The Sinner . Ég held að þessi sería eigi fátt annað skylt með myndinni en að titlarnir innihalda næstum sömu stafi í sömu röð. Þeir sem sagt ríma. Það var samt sennilega blessun að myndin var ekki til. Hún er með 4,5 í einkunn á IMDB. Ég reyndar hallast meira og meira að því að maður verði að fara að hunsa þessar einkunnagjafir á síðum einsog IMDB og Goodreads og Storytel og öllu hinu. Því þótt þær séu vissulega stundum til marks um að hlutirnir séu einfaldlega vel eða illa gerðir þá rek ég mig alltaf á það af og til að eitthvað sem er skrítið eða óvenjulegt fær illa útreið í þessum vinsældakosningum. Og alls konar tíðarandafróandi froða fær fullt hús. Svo eru þessar einkunnagjafir líka færar um að stýra því hvað manni finnst gott – þær styrkja þá tilhneigingu okkar að móta smekk okkar eftir smekk annarra. Af því menning er félagsleg athöfn og manni finnst maður heimskur og vitlaus ef maður er of mikið á skjön (fyrst og fremst ef maður er á skjön við vini sína / sína kreðsu). Algóritminn styrkir þetta svo enn frekar með því að ota að okkur því sem allir hinir eru að horfa á og hlusta á og lesa. Mér datt annars í hug áðan hvort það væri ekki sniðugt að velja einhvern fjölmiðilinn sem er með stjörnugjöf og taka þær einfaldlega saman – reikna út meðaltal jólabókaflóðsins á Þorláksmessu. Ég held að ég sé að segja satt þegar ég segi að öllum dómum sem ég hef lesið í haust (sem eru ekki margir – 6-7) hafi fylgt fjórar eða fjórar og hálf stjarna. Það er svolítið þröngur skali. Versta bókin fær fjórar stjörnur og sú besta fjórar og hálfa. Ekki þar fyrir að það sem ég hef lesið úr þessu flóði er allt mjög fínt. The Dinner er annars Hollywood mynd. Mér finnst ólíklegt að hún sé bara svona listræn. Hún er ábyggilega misheppnuð. Bókin er samt fín – ábyggilega mjög góð bókaklúbbsbók. Og Nadja segir að The Sinner sé líka mjög góð.

Að lifa lífinu á ensku

Síðustu vikur hef ég sótt alls kyns menningarviðburði – farið á kvikmyndahátíð (þar sem viðtöl voru við leikara og leikstjóra eftir myndirnar), ljóðaupplestra, tónleika, panela og meira að segja hátíðarkvöldverð. Það sem allir þessir viðburðir áttu sameiginlegt er að þeir fóru fram að miklu leyti á ensku. Og þá er ég ekki endilega að tala um lögin sem voru sungin eða kvikmyndirnar sem voru sýndar – það var merkilegt nokk meiri tungumálabreidd þar. En kynningar á lögum og viðtöl og ræður og þar fram eftir götunum – þetta var allt á ensku. Oftar en einu sinni var það í kjölfar þess að sá sem stýrði viðburðinum spurði einfaldlega – „Er einhver í salnum sem talar ekki íslensku?“ (á ensku) og þegar í ljós kom að einhvers staðar í salnum leyndist einhver sem ekki skildi málið var skipt yfir í ensku. Sennilega er óþarfi að taka fram að ég hef aldrei heyrt neinn spyrja svona af sviði hvort það sé einhver í salnum sem ekki skilji ensku – og sennilega er það sjaldan. Kannski eru jafnvel fleiri á Íslandi sem ekki skilja íslensku en sem ekki skilja ensku. Eitthvað af þessum viðburðum skipulagði ég vel að merkja sjálfur. Og í einu tilviki var það ég sem benti kynninum á að sennilega yrði hann að tala ensku. Í mörgum þessara tilvika, kannski öllum, var ágætis ástæða til þess að tala ekki íslensku heldur ensku – og ekki í boði að þýða jafn óðum eða sinna íslenskunni á annan máta. Og þetta er víðar. Ég býð gjarnan í mat og það er sennilega oftar en ekki einhver í hópnum sem ekki talar íslensku og þá fer matarboðið fram á ensku. Á kaffihúsinu Heimabyggð, sem ég sæki oft í viku, fer öll afgreiðsla undantekningalítið fram á ensku – frá „good morning“ til „need a receipt?“ Ég – einsog margir foreldrar – býsnast stundum yfir því hvað börnin mín, aðallega það eldra, nota mikla ensku í sínu lífi (einu sinni reyndum við að múta syninum og vini hans til að sletta ekkert í einn sólarhring – þeir fengu fimm sénsa og entust samt ekki nema í rúman klukkutíma, og þögðu bara megnið af honum). En ég held satt best að segja að miklu stærri hluti míns lífs fari fram á ensku en þeirra. Mér finnst það svolítið sorglegt – ég vildi gjarnan að það væri bara eðlilegt að t.d. kynnar töluðu íslensku og svo þyrftu bara þeir sem ekki kunna hana að læra hana eða sætta sig við að skilja kannski ekki allt. En í mörgum þessara tilfella er staðan bara aðeins flóknari og ég sé enga almennilega lausn sem felur ekki sér einhvers konar útskúfun eða dónaskap í garð gesta eða þannig kröfur í garð viðburðahaldara sem erfitt (eða ómögulegt) er að fjármagna. Eða sem myndu gera flækjustigið það hátt að það nennti enginn að skipuleggja þá lengur.

Gerendameðvirkni

Ég er haldinn heilmikilli gerendameðvirkni. Eða gerendaempatíu. Ég finn til með þeim sem beita ofbeldi og held að það komi nánast aldrei til af því að því einu að viðkomandi séu vondir – þótt ég reyndar trúi á tilvist svo til hreinnar illsku líka, ég held bara hún sé fremur sjaldgæf. Svo bætist við þetta allt fremur lítil trú á gildi og gagn refsinga – og fremur mikil trú á því að fólk taki oft bara að sér þau hlutverk sem þeim er skipað í (ef þú segir manni alla ævi að hann sé glæpamaður er hætt við að hann verði það). Stundum held ég að þetta sé bókmenntunum að kenna. Ég hef lesið svo mikið af bókmenntum um gott fólk sem gerir vonda hluti – Glæpur og refsing er uppáhaldsbókin mín. Og hefur alltaf verið sagt að bókmenntir eigi að auka manni empatíu. Ég fór að hugsa um þetta í dag út af eineltisumræðunni. Mér finnst fólk skilja þetta (les: vera sammála mér) þegar það kemur að börnum. Að börn sem fremja einelti – hvort sem það er að hóta skólasystkinum sínum lífláti eða hreinlega ráðast á þau í stórum hóp – séu ekki vond og það geri takmarkað gagn að refsa þeim. Það þurfi að takast á við þetta á einhvern heildstæðari hátt – taka utan um alla sem eiga hlut að máli. Bera klæði á sárin. En þegar kemur að fullorðnum finnst mér sú afstaða að einfaldast sé bara að læsa þá inni og henda lyklinum sé að verða vinsælli og vinsælli. Að stinga upp á einhverju öðru – jafnvel bara réttlátri málsmeðferð í samræmi við lög, að sönnunarbyrði sé virt í sakamálum – er þá nefnt gerendameðvirkni. Ég er reyndar á því að það sé miklu minni munur á börnum og fullorðnum en við ímyndum okkur gjarnan. Ég er ekki að segja að málefni barna séu eins og málefni barna eða þau eigi að hantera nákvæmlega eins – en mér finnst að sömu gildi eigi að stýra hvorutveggja. En svo er þetta auðvitað ekki alveg einfalt heldur. Einsog t.d. í þessum málum á næsta skólastigi sem hafa verið til umfjöllunar – kynferðisbrot í menntaskólum – þar sem getur komið upp sú staða að það þurfi að flytja manneskju milli skóla til þess að vernda þolanda í ósönnuðu máli. Og þá verður aftur spurning hvort senda megi geranda í annan skóla eða hvort viðkomandi hafi fyrirgert rétti sínum til menntunar. Því þótt maður finni til með gerendum trompar sú empatía ekki þá empatíu sem maður finnur til með þolendum. Kannski er það sem mér finnst erfiðast í þessum ofbeldismálum – ef málin sjálf eru frátalin, þau eru sárust – þessi tilhneiging að vilja einfalda umræðuna um þau niður í hálfgert liðasport. Oft er bara einsog dómarinn flauti til leiks og við þjóðfélagsþegnarnir tökum okkur stöðu, okkar gömlu góðu stöðu sem við völdum eða var úthlutað, og svo hjökkum við sama hringinn enn eina ferðina – gerendameðvirknis-öfgafemínista-hannúðar-karlhatara uppnefnisrúntinn – án þess að ná neinum sjáanlegum framförum öðrum en að styrkja okkur sjálf í trúnni fyrir næstu umferð. Og þannig dýpka skotgrafirnar ár frá ári.

Setið með valdinu

Ef einhver hefði varpað sprengju á Bessastaði í gær – sem ég mæli nú ekki með að neinn geri, sérstaklega ekki í gærkvöldi, og ekki bara vegna þess að það er orðið of seint – þá hefði enginn verið eftir til að stjórna íslensku samfélagi nema Bjarni Ben og Sólveig Anna. Annars voru allir þarna. Forseti, forsetafrú og forsætisráðherra, orkumálastjóri, Halldór Benjamín, Lóa Hjálmtýs, forstjóri Hafró, formenn stjórnmálaflokkanna, Gerður Kristný, allir helstu ráðherrar und so weiter. Auk auðvitað Saulis Niinistö og eiginkonu hans, Jenniar Haukio, og nokkurra finnskra herforingja. Svo missirinn hefði ekki bara verið á reikning íslenska þjóðveldisins heldur einnig hins finnska. Hvað um það. Ég sat hjá æskuvini Hauks Ingvars, skólabróður Hjalta Kalla Geirmunds og eiginkonu trommarans í Örkuml. Og raunar fleirum, en á þessum borðsenda. Þið megið giska hver þetta voru en auk þeirra voru í salnum sonur hennar Aðalbjargar sem kenndi mér í sex ára bekk; eiginkona Kristjáns, fyrrverandi ritstjórans míns; dóttir Silju Aðalsteins, annars fyrrverandi ritstjóra míns, og systir Sigþrúðar, núverandi ritstjórans míns; faðir og stjúpa hennar Rutar sem ég kenndi ritlist; æskuvinkona Braga Páls; og svo skilst mér að mamma hans Tóta skáta hafi verið þarna einhvers staðar líka þótt ég hafi misst af henni. Og ótal aðrir. Saman borðuðum við minnstu þríréttuðu máltíð sem ég hef á ævi minni komist í. Grafinn þorsk í forrétt, steinbít í einhvers konar bláskeljafroðu í aðalrétt og svo eina matskeið af ís í eftirrétt. Með þessu fengum við þrjú vín – þar á meðal eitt châteauneuf-du-Pape, sem var eftirlætisvínið hans Frasiers, í samnefndum sjónvarpsþáttum. Allt mjög gott, en þegar ég var kominn aftur í bæinn, hungurmorða, fór ég á Subways og fékk mér ítalskan BMT í oreganobrauði með ólífum, salati, tómötum, rauðlauk og hunangssinnepi. Með þessu hafði ég gulan kristal. Svo glápti ég á eitthvað Netflixsorp fram á nótt. Ég er ekki fastagestur á svona uppákomum. Kannski er þetta mest forvitnilegt þess vegna. Ætli fólk venjist þessu ekki? Mér sýndist stjórnmálamennirnir vera alþýðlegastir allra þarna. Húsvanir. Og kannski var alþýðufólkið upptrekktast. Eða – þeir sem eiga þannig bakgrunn, líklegast telst ekkert okkar, ekki einu sinni við láglaunalistamennirnir, vera alþýðufólk. Ekki þegar það er búið að bjóða okkur á Bessastaði. Sum okkar eru meira að segja farin að skreyta sig með orðum. Það er reyndar líka alltaf spurning, hvort það sé listamaðurinn sem skreyti sig með orðu embættisins, eða embættið sem skreyti sig með því að næla listamanninn fastan við sig. En ég held maður þurfi að vera svolítið verseraður í efri lögum þjóðfélagsins til þess að verða ekki mjög sjálfsmeðvitaður í svona aðstæðum. Hræddur um að borða óvart með vitlausum gaffli. Sjálfur fór ég einu sinni á baðherbergið á meðan á borðhaldinu stóð og var mjög meðvitaður um að það gerði eiginlega enginn – fólk sat bara og pissaði svo þegar borðhaldið var yfirstaðið. Tilfinningin var ekki ósvipuð því læðast út úr leikhússal í miðri sýningu. Það situr annars ýmislegt í mér eftir panelinn sem ég hef verið að melta. Kannski aðallega þetta tal alltaf um sögueyjuna og að á Íslandi gangi allir með bók í maganum og allir lesi og segi sögur og bókmenntirnar séu lifandi afl meðal fólksins o.s.frv. Ég get auðvitað ekki talað fyrir allar kreðsur en ég þekki mjög mikið af fólki sem lifir ekkert í skáldskap – les lítið og dytti aldrei í hug að skrifa neitt – og ég held að slíku fólki fjölgi frekar en hitt. Það eru ekki bara börn sem eru að verða verr og verr læs heldur líka og kannski ekki síður fullorðið fólk. Mér finnst bókmenntirnar – og þetta bókmenntatal – oft leysast upp í hálfgerð slagorð. Einsog í Reykjavík – Bókmenntaborg UNESCO – sem á ekki einu sinni bókmenntahús. Og á bráðum ekki einu sinni bókabíl heldur! Af því bókmenntirnar eru fínar til skrauts á meðan þær kosta sem allra minnst.

Höfuðborgin

Ég er í höfuðborginni. Mér bauðst að taka þátt í 40 mínútna panel í morgun og vegna þess hvernig flugi er háttað núorðið fól það í sér tveggja sólarhringa ferð. Ég kom með morgunfluginu í gær og fer með morgunfluginu á morgun. En það væsir svo sem ekki um mig. Ég gisti í gestaíbúð forseta Íslands og verð í mat hjá honum í kvöld. Í þessum panel sátu sem sagt forsetafrúr Íslands og Finnlands, Eliza Reid og Jenni Haukio, auk okkar Gerðar Kristnýjar. Eliza er auðvitað þekkt af sinni bókmenntastarfsemi en Jenni er þekkt ljóðskáld í Finnlandi og hefur verið það frá því áður en hún varð forsetafrú. Hún er meira að segja nokkuð gott ljóðskáld. Það situr alltaf í mér lína frá henni um mann sem skrifar bréf á hverjum morgni og setur svo ómerkt í póstkassann til þess eins að taka á móti því endursendu á hverju kvöldi. Það kemur ekki fram, en segir sig sjálft, að viðkomandi hefur þá haft fyrir því að setja heimilisfang sendandans aftan á – það er einhver sér-finnsk kómísk einmanakennd í þessu athæfi. Panellinn tókst annars ágætlega. En það bregst ekki að svona panelar minna mig alltaf á það hvers vegna ég er rithöfundur en ekki til dæmis hlaðvarpsstjórnandi. Ég skil yfirleitt ekki spurningarnar fyrren svona hálftíma eftir að panellinn er búinn, er ekki búinn að finna gott svar við þeim fyrren nokkrum klukkustundum síðar og veit ekki hvernig best væri að orða þau fyrren daginn eftir. Þess vegna tafsa ég, byrja mörgum sinnum á sömu setningunni, reyni að rifja upp spurninguna og svara svo yfirleitt einhverju allt öðru en að var spurt. Þetta kemst ég samt yfirleitt upp með, hvernig sem á því stendur. Sennilega er ég bara svona sætur. Í gær fór ég í dálítinn bókaleiðangur. Leit við í útgáfuhófi Urðarfléttu eftir Ragnheiði Hörpu og Skurnar eftir Arndísi Lóu. Þar fannst mér ég reyndar vera svo illa gerður hlutur – einn á sólóflugi og þekkti engan til að hengja mig við – svo ég ráfaði bara strax út og ég hafði keypt bækurnar á tilboði. Fór í Eymundsson og keypti Máltöku á stríðstímum eftir Natöshu S. Svo rölti ég við hjá Braga Páli og Beggó og gaf þeim eintak af Frankensleiki – Bragi Páll er sérfræðingur í ógeði, ekki síst í barnabókum, og las yfir handritið fyrir mig. Næst kom ég við hjá Berglindi Ósk, höfundi Breytts ástands , sem átti að vera með tvær bækur sem ég lét Steinar Braga kaupa fyrir mig á Tunglkvöldi fyrir meira en ári síðan – bækur Ástu Fanneyjar og Páls Ívans – en týndust. Þær áttu sem sagt að vera fundnar og bíða mín þar – en Steinar er sjálfur í sveitinni. Svo kom í ljós að þetta voru bækur Dags Hjartarsonar og Elísabetar Jökuls og bækurnar mínar eru enn týndar. Sennilega eyddi Steinar bara peningunum mínum í eiturlyfjaskuldir og þorir ekki að viðurkenna það. Ég át kvöldmat á Austurlandahraðlestinni og fór heim að lesa. Kláraði Dag – sömu bók og átti að pranga inn á mig, en í annarri útgáfu. Ljósagangur er svona Steinars-Braga-Sci-Fi nema ef Jón Kalman hefði skrifað það. Eða ég myndi skrifa það utan á hana ef ég ætti að lýsa henni. Því hún er samt líka Dagslegasta bók sem Dagur hefur skrifað frá því fyrsta ljóðabókin hans kom út. Lá svo yfir Urðarfléttu og Máltöku á stríðstímum þar til það var kominn tími til að fara að sofa. Báðar fyrirtak –  Máltakan frekar sár og Urðarflétta einhvern veginn linnulaus – það er niður í henni (öðruvísi niður samt en bók Dags fjallar um). Ég meina það vel, nota bene – og ég held hún þoli marga lestra og krefjist þeirra jafnvel. Í morgun keypti ég líka Hemmets lugna vrå eftir Kristian Lundberg, kunningja minn, heitinn – og las hana með síðdegiskaffinu. Hún er brútal og erfitt að lesa hana – ekki bara vegna þeirra andlegu veikinda sem kostuðu Kristian lífið. Titillinn þýðir sirka „hið friðsæla afdrep heimilisins“ – og bókin er eins konar rannsókn á því sem getur átt sér stað í þessum afdrepum, sem er á köflum hryllilegt. Að síðustu keypti ég líka sænskar þýðingar á ljóðum Arsenís Tarkovskís, pabba Andrejs – en því er haldið fram á bókarkápu að sonurinn hafi verið undir miklum áhrifum frá pabba sínum. Á eftir mun ég líka skiptast á bókum við Lóu Hlín og fá bók hennar Mamma kaka í skiptum fyrir Frankensleiki . Og svo lýkur þessari bókaferð klukkan níu í fyrramálið þegar ég flýg heim. Annað kvöld er ég svo dómari í eins konar upplestrarkeppni á kaffihúsinu Heimabyggð, þar sem fólki býðst að lesa ljóð eftir dauð ljóðskáld. Eða sálug, einsog það heitir á auglýsingunni.

Þegar Guðbergur aflýsti áttræðisafmælinu sínu (kafli úr Hans Blævi)

Guðbergur Bergsson. Kóngurinn. Ekki bara færasti listamaðurinn heldur öflugasta tröllið. Guðbergur veit alltaf hvað maður á ekki undir neinum kringumstæðum að segja. Listamaðurinn lætur okkur gráta, lætur okkur fyllast hlýju og hlæja; en tröllið setur okkur af sporinu, kemur okkur úr jafnvægi og neyðir okkur til þess að verja þær skoðanir okkar sem við héldum að væru yfir gagnrýni hafðar. Það er fíllinn sem gerir okkur ljóst að við höfum breytt lífum okkar í postulínsverslanir. Muniði eftir Gillzmálinu? Gillz var kannski ekki alltaf fínlegasta tröllið og svo sannarlega ekki það gáfaðasta – en hann náði árangri. Gillz var jarðýta í bransanum. Hann skemmti hinum Þórðarglöðu og ýfði fjaðrir hinna skælandi stétta. „Það þarf bara að gefa þessum leiðinda rauðsokkum einn granítharðan í háruga bílskúrinn til þess að þagga niður í þeim.“ Muniði eftir þessu? Ofsa-lol! Þessi tími, fyrsti áratugur 21. aldarinnar, var gullöld tröllsins og Gillz átti ekki í neinum erfiðleikum með að heilla lýðinn, allra síst þvenghoruðu menningarvitana með tjúguskeggin sem honum þótti svo gaman að gera gys að – hann lofaði meðal annars að „kjöta upp“ Sjón – sem á móti líktu drengjasveitinni hans á kallarnir.is við Fjölnismenn, gerðu við hann útgáfusamninga, réðu hann í vinnu á helstu fjölmiðlum landsins, og hrósuðu honum ad absurdum. „Hann er mjög vel máli farinn, talar litríkt mál.“ Muniði eftir þessu? Hehe. Eða eru allir búnir að gleyma – hló ekkert ykkar þegar hann kallaði konur ílát til að sprengja í? Enginn? Það var óhjákvæmilegt að hann lenti að endingu í hakkavélinni sjálfur. Ærslatröllum er ekki annað skapað en að farast í eigin rauðabruna. Þann 2. desember, 2011, birtust fréttir í öllum helstu fjölmiðlum um að Gillzarinn, Gillzenegger sjálfur, Egill Einarsson – einkaþjálfari, útvarpsmaður, kvikmyndastjarna, kellingabani – hefði, ásamt unnustu sinni, verið kærður fyrir nauðgun og alltíeinu var internetið mjög alvarlegt. Alltíeinu var gríðarlega alvarlegt mál að tala óvarlega um sakleysingja. Alltíeinu var bráðnauðsynlegt að kæra dónalegt fólk fyrir meiðyrði – heilu hópana, alla sem dirfðust að gera því skóna að Egill, aumingja litli Egill, væri sekur um annað og meira en að raka sig á pungnum. Ónefnt listaháskólatröll varð fyrir þeim ósköpum að uppnefna Stóra G, sjálfan Störe, Þykkeh „rapist bastard“, var dæmdur fyrir meiðyrði, sennilega í einhverjar botnlausar sektir. Svo korteri síðar var sama listaháskólatröll sjálft sakað um nauðganir í fjölmiðlum. Og þá fannst tröllinu skyndilega gríðarlega alvarlegt mál að tala óvarlega um sakleysingja – fólk sem hafði ekki einu sinni verið dæmt! Hvað var eiginlega að verða um internetið? Hvað var að verða um sómatilfinningu þjóðarinnar? Og mitt í öllu kófinu birtist hann. Kóngurinn. Guðbergur er annars konar tröll en Gillz – Gillz meikaði aldrei að láta hata sig, Gillz vildi bara láta fólk hlæja með sér þegar hann híaði á minnihlutahópa. En Guðbergur hefur alltaf verið hataður og þekkir ekkert annað. Samkynhneigður maður fæddur árið 1932 í pínulitlu sjávarþorpi í hómófóbísku landi. Sennilega hefur hann lært að hata sjálfan sig fyrstan allra – lært skömmina nógu snemma til að skilja hana endanlega við sig á mótunarárunum. En umfram allt annað hlýtur hann að hafa lært að skilja samfélagið í kringum sig – og allt sem það stendur fyrir – sem rangt, sem samansafn af villuráfandi fábjánum, læmingjum og fíflum. Guðberg vantaði korter í áttrætt. Og hvað gerir þjóðin við sín stærstu skáld þegar þau verða áttræð? Hún heldur veislu. Heldur ráðstefnur. Gefur út gullbryddaðar bækur með fleygum orðum – perlur úr verkum Guðbergs. Það eru blóm. Langar greinar í blöðunum. Fálkaorðan. Samfélagið sem lagði fæð á Guðberg og allt sem hann stóð fyrir ætlaði nú að elska hann. Einsog ekkert af hinu hefði nokkru sinni átt sér stað, einsog fortíðin skipti engu máli. Það ætlaði að sýna honum – og sjálfu sér – að það léti sko ekki smá hommaskap stöðva sig í hyllingunni, let bygones be bygones, og látum kærleikann ráða ríkjum. Og hver haldið þið að nenni því? Ekki kóngurinn. Kóngurinn hefur engan áhuga á kærleika samfélagsins – einmitt vegna þess að samfélagið er rangt. Rangstæða samfélagsins er óskiljanlegur hluti af grunnstillingu tröllsins. Það eina sem samfélagið á skilið er að gráta og öskra. Og þá skrifaði Guðbergur í blöðin: „Svo henti það, sem alltaf gerist, að glæsimennið er ásakað fyrir að hafa farið í óleyfi upp á stelpu og hún heimtar hjónaband eða pening. Áður var hlegið í þorpum að þannig stelpupussulátum en nú er öldin önnur á íslenska menningarlandinu. Þar er komin í spilið viss nunnuvæðing í nútímastíl og meyjarhaftavörn sem kallast femínismi. […] Stundum er engu líkara en kaþólski Rannsóknarrétturinn frá liðnum öldum hafi verið endurvakinn í nútímahjörtum hér á landi.“ Og þegar tröllið gaggar gjóta hænurnar allar í einu. Það er stundum sagt að netheimar logi. En þeir loga ekki, þeir iða, einsog ormagryfjan sem þeir eru. Hrææturnar fara allar af stað, allar með nefið upp í loft af vandlætingu, með skoltana opna í leit að fæðu, taka andköf hver í kapp við aðra og það ískrar í þeim einsog hýenum á móðurspena. Þegar áttræðisafmælið rann upp þagði þjóðin bara. Það var helst að einn og einn forhertur menningarviti minntist fæðingar módernismans í íslenskum skáldskap – meistaraverksins, Tómas Jónsson – metsölubók – fólkið sem hafði beinlínis eignað líf sitt bókunum hans henti í status á Facebook, og hafði á kærleika sínum alla fyrirvara. Hið fullkomna tröll. Kóngurinn.