Ég fór ekki á Bókamessuna í Reykjavík. Hitti engan kollega. En á næstu helgi verður Opin bók á Ísafirði og þá koma Þórarinn Eldjárn, Benný Sif, Örvar Þóreyjarson Smárason, Bergsveinn Birgisson og Elísabet Jökuls. Ég er reyndar ekki að gera neitt á Opinni bók nema vera Inga Birni innan handar og þiggja kvöldverð og hlusta á hina. Örvar er gamall vinur minn úr Nýhil og hin þekki ég öll aðeins – nema Benný, sem ég hef ekki hitt (við erum samt FB vinir og höfum aðeins heyrst þá leiðina). Ég hlakka mikið til. Það er búið að vera rosalega skemmtileg dagskrá í Edinborgarhúsinu í haust – Ingi er alveg í essinu sínu þarna. En sem sagt. Í staðinn fyrir að fara á bókamessu fór ég í partí. Vinir mínir voru að fagna sameiginlegu fertugsafmæli, þakkargjörðarhátíð og nýfengnum íslenskum ríkisborgararétti. Þetta var rosalegt partí – svo rosalegt að ég var byrjaður að kvíða timburmönnunum með þriggja daga fyrirvara. Og get staðfest svona eftir á að það var ekki að ástæðulausu. Djúpsteiktur kalkúnn með ölllu því truflaðasta meðlæti sem hægt er að ímynda sér, pekanpæ og graskerspæ, búrbónlímonaði einsog maður gat í sig látið – viðstöðulaus skemmtiatriði. Ef skammdegið væri ekki orðið algert hefði sennilega verið kominn dagur þegar við Nadja skiluðum okkur loksins heim. Maður má vera þakklátur fyrir hvað maður á góða vini. *** Ég keypti bókablað Stundarinnar. Þar á ég stutt ráð – 70 orð – um skapandi skrif í horni sem er tileinkað slíku. Mitt stutta ráð er þó ekki jafn stutt og hinna – Einar Kára lætur sér duga að biðja fólk að vera ekki að skrifa mjög syfjað, það kunni ekki góðri lukku að stýra. Annars tek ég eftir því að dálkurinn hefur verið styttur alveg svakalega – síðast voru þetta þrír 250 orða pistlar en nú er þetta varla 200 orð samanlagt. Mitt ráð gekk líka út á að maður ætti að reyna að hemja sig í skrifunum svo það hefur kannski bara gengið betur í þessari viku. Annars átti ég nú mest við skáldskapinn – það má alveg skrifa dagbækur og bréf og póstkort og blogg og annað af fullkomnu hömluleysi. Bergsteinn Sigurðsson vakti athygli á því á Twitter að meðalstjörnufjöldi í bókablaði Stundarinnar hafi lækkað milli vikna. Síðast var hann 4,1 stjarna (og fjórar bækur fengu 5 stjörnur) en nú er hann kominn niður í 4 stjörnur sléttar og bara ein einasta bók með 5 stjörnur (hin ágæta Krossljóð Sigurbjargar Þrastar). Sic transit gloria mundi, segi ég nú bara.
Til heiðurs h og speedway veitingavagninum
Hann er soldið einsog hellir fullur af myndum & svörtum & hvítum köflóttum fánum þar getur man auðveldlega óverdósað á koffíni enginn annar veitingastaður er nær heimili okkar, í mesta lagi fimm mílur, hann er mjög ódýr man getur farið þangað þótt man eigi næstum engan pening þau leyfa mani að nota símann ég get keypt tartarsteik fyrir $2.25 en ég hef aldrei kallað það það segi bara hamborgari með eggjarauðu pikkles & hvítlauksdufti auk sjávarsaltsins sem ég tek með mér eigandinn, h (sem h-borgarinn heitir eftir) er mælskur, furðulegur, með jólasveinabumbu undir axlaböndunum það eru öskubakkar útumallt & dásamlegt gamaldags kúluspil hann minnir á east nassau en hann er í west lebanon held ég man getur alltaf talað um veðrið og veiðar kúnnarnir eru víðsýnir einsog þjónustustúlkan & þjónninn sem fer á hnén þegar hann tekur á móti pöntunum á veiðitímabilinu opnar staðurinn hálffimm að morgni hann er skráður til sölu en þeim er ekki alvara eiginkonu h finnst að hann eyði of miklum tíma þarna (sem er satt) og þess vegna fór hún að kalla hann sama nafni og hundurinn þeirra, peaches h horfir mikið á northern exposure, ó & ég gleymdi að nefna uppstúfinn með hakkinu sem er gerður frá grunni, gráleitur & geggjaður & borinn fram á brauðbollu. um daginn keypti h reykofn & í ár ætlum við að mæta í gamlárs- partíið & éta fylltar rækjur og/eða humar Bernadette Mayer
Refsing og umbun
Tugthúsið hans Hauks Más fékk fullt hús stiga í Kilju gærkvöldsins. Það var bæði algerlega viðbúið og ákaflega gleðilegt. Ég las þessa bók í handriti og hef fylgst með honum setja hana saman síðustu árin – þar fór saman gríðarleg vinna og ástríða, fagurfræðileg þrákelkni og meðlíðan með þjáðum og útskúfuðum. Mér skilst að maður eigi ekki að hæla vinum sínum, það sé bara vandræðalegt, en ég hef samt sagt við alla sem ég þekki að þetta sé tímamótaverk. Það verður bara að hafa það þótt það sé vandræðalegt – það verður ekki minna satt fyrir það. Óvenjulegasta og kraftmesta bók þessa flóðs og væri það áfram þótt þú tækir með síðustu tíu. Og næstu tíu. Sá sem nær áramótum án þess að lesa hana verður brottrækur gjör úr samfélagi hugsandi fólks. *** En ég er ekki marktækur. Ég hef verið samferða Hauki í aldarfjórðung – síðan haustið 1998 þegar hann flutti vestur til að kenna í grunnskólanum – og oft liðið sem ég lifði eins konar bílífi á gáfum hans og ástríðu. Maður verður nefnilega betur gefinn af samneyti við hann. Haukur birti fyrsta ljóðið mitt opinberlega – á vef sem hét NRTL ( Nokkrar rafeindir tileinkaðar ljóðlistinni ); við vorum saman í dúettnum Heyr & Endemi , fjölrituðum og heftuðum bækur hvors annars um nætur á lokuðum skrifstofum án leyfis og fórum með eintökin niður á Laugaveg þar sem við stóðum á gömlum ölkassa og skiptumst á að lesa upp meðan hinn seldi gangandi vegfarendum eintök. Við seldum engin ósköp – aldrei verið góðir sölumenn – en kannski nóg fyrir kaffi, bjór, sígó og vínarbrauði þann daginn. Og það var bara hellingur. Hellings djöfuls hellingur. Við stofnuðum Nýhil saman, eina kalda vetrarnótt á horni Túngötu og Hofsvallagötu yfir síðustu sígarettunni úr pakka annars hvors okkar. Bjuggum saman í Berlín og gerðum hvor annan vitlausan til skiptis – fengum útburðartilkynningu saman um vorið. Hann skrifaði formála að fyrstu ljóðabókinni minni, ég skrifaði formála að ritgerðarsafninu hans. Þegar hann brenndi ómögulegt handrit við opinn glugga á Prenzlauer Allée stóð ég yfir honum og hóstaði undan ljóðreyknum. Og útskýrði svo fyrir honum að ég ætti ekki bara rafrænt eintak af þessum ljóðum, sem hann hafði sent mér til yfirlesturs, heldur líka brenndan geisladisk með upplestrum hans á þeim. Og svo framvegis. Ég hef lesið allt sem hann hefur skrifað og Tugthúsið er best. Og verst. Hræðilegust. Ólögulegust. Sárust. Fyndnust. Hún er þrekvirki sem verður ekki lýst almennilega með öðrum orðum en þeim sem í henni sjálfri standa – en hafið engar áhyggjur, hún lýsir sér mjög vel sjálf, kennir manni að lesa sig. En þið getið ekki treyst mér, ég er ekki marktækur því ég myndi segja þetta hvort eð er. Haukur Már er fóstbróðir minn. En þetta er samt satt! Þau segja það líka í Kiljunni . Öll þrjú – Kolbrún, Egill og Þorgeir. Bubbi Morthens segir það. Kristín Ómarsdóttir segir það. Ef það dugar ykkur ekki – neyðist ég til þess að vísa málinu til Landsréttar . Og ef það er ekki nóg, sem það andskotakornið hlýtur að vera, þá legg ég fram mitt lokasönnunargagn, aðaltrompið – sjálfur fangelsismálastjóri hefur, í sjálfu Morgunblaðinu , sagt að þessi bók sé stórkostleg. „Lestur verksins fær lesanda til þess að velta fyrir sér eðli, tilgangi og inntaki refsinga og undirstrikar hve heimsins auðæfum er með ranglátum hætti misskipt og mannskepnan grimm og sjálfhverf.“ Sagði fangelsismálastjóri . Í Morgunblaðinu . Um Tugthúsið . Ef það dugar ykkur ekki, þá var ykkur aldrei viðbjargandi til að byrja með.
Verður er verkamaðurinn
Fólk hefur stundum samband og spyr hvort ég geti selt þeim áritað eintak af bókunum mínum. Eða stoppar mig á götu. Áttu ekki eintak, spyr fólkið, ég vil endilega fá áritun. Stundum á ég eintök – maður fær alltaf einhver höfundaeintök og svo kaupi ég stundum aukaeintök af forlaginu mínu – en oft sendi ég fólk bara í Bókhlöðuna (eða aðra viðeigandi bókaverslun þar sem fólkið býr) og býðst til að árita við tækifæri. Sérstaklega hef ég reynt að gera þetta þegar einhver bóka minna hefur verið í útstillingu, sem er oft á Ísafirði og stundum líka annars staðar. Frankensleikir er t.d. bók mánaðarins hjá Forlaginu og hefur verið fallega uppstillt í bókaverslun Forlagsins á Fiskislóð í nóvember. Hún var líka í glugganum á Bókhlöðunni fyrstu tvær vikurnar eftir að hún kom út. En nú eru höfundareintökin uppurin og ég hafði hugsað mér að panta kannski nokkur ný til að eiga á aðventunni. Hvað kosta þau? spurði ég Forlagið. Þau kosta 3.119 krónur, sagði Forlagið. Ég hummaði eitthvað fýldarlega af því ég þóttist hafa séð þau á sama verði í Bónus. Fór svo og kannaði málið og þá reyndist Bónusverðið vera 3.198 krónur, eða 79 krónum hærra en heildsöluverð með höfundaafslætti. Ef Bónus fær bókina á sama verði og ég þá er álagningin 2,5%. Og þá spyr ég mig eðlilega hvort ég eigi heldur að panta þau aðeins ódýrari frá Forlaginu – og láta senda mér að sunnan með tilheyrandi kostnaði – eða bara fara inn í Bónus og kaupa þau þar? Ef ég geri það, og sel þau svo dýrar er ég þá ekki bara að okra á fólki? Og ef ég endursel þau á sama verði, er ég þá ekki bara kominn í vinnu fyrir Bónus? Orðinn mitt eigið prívat Bónusútibú? Ég held að fólk reikni almennt frekar með því að ég geti selt þeim bókina aðeins ódýrar en næsti maður. Ég fæ auðvitað eitthvað fyrir hvert eintak þótt ég leggi ekkert ofan á það – taki ekkert gjald fyrir að selja bókina, bara fyrir að hafa skrifað hana. En þetta er samt eitthvað off. Frankensleikir er auðvitað ekki alls staðar á 3.198 krónur – hún kostar til dæmis 3.999 krónur í Eymundsson (Bókhlaðan er líka Eymundssonverslun) og er þá meira að segja á 15% afslætti. Í Bókaverslun Forlagsins kostar hún án afsláttar 3.999 kr. en af því hún er bók mánaðarins kostar hún nú 3.590 kr. Ég held sennilega áfram að senda fólk í Bókhlöðuna – þótt Frankensleikir sé ekki lengur í uppstillingu. Aðallega af því ég skil ekki neitt. *** Mér var boðið að skrifa pistla fyrir lítið og fátækt vefrit á dögunum. Vefrit sem ég hefði gjarnan veitt liðsinni mitt. Greiðslan var 8 þúsund krónur – fyrir verk sem tekur aldrei nokkurn tíma minna en einn vinnudag (nema maður sinni því bara svona einsog bloggi, skrifi bara út í loftið) og ábyggilega oftar nær tveimur. Ég afþakkaði þetta tilboð, af því ég þarf að leggja áherslu á betur borguð verkefni. Það liggur við að það sé betra að gera þetta bara ókeypis. Daginn eftir fékk ég tilboð frá risastórri ríkisrekinni stofnun (það var RÚV) um að skrifa pistil – einn pistil í seríu margra pistla ólíkra höfunda út frá einu og sama þemanu. Fimm mínútna langan pistil sem ég þyrfti að lesa upp þegar ég væri búinn að skrifa hann og það var jafnvel stungið upp á því – ef ekki gefið sterklega í skyn – að sniðugt væri ef ég tæki hann líka upp sjálfur. En tekið fram að manni væri auðvitað heimilt að koma upp á RÚV. Nema hvað – fyrir þetta bauð ríkisstofnunin tvö þúsund krónum meira en fátæka vefritið, eða tíu þúsund krónur. Ég afþakkaði þetta boð líka. Fyrir örlítið lengri pistil (7 mínútur) borgar sænska ríkisútvarpið vel að merkja um 130 þúsund krónur. Jafnvel lítil sænsk dagblöð – miklu minni stofnanir en RÚV – myndu aldrei borga manni minna en 40-50 þúsund fyrir pistil. Ég þekki ekkert dagblað á Íslandi sem borgar nema í mesta lagi fjórðung af þessu. Nú gæti maður sagt sem svo að þetta hafi með stærð landanna að gera. Auðvitað sé ekki hægt að ætlast til þess að lítið ríkisútvarp borgi jafn mikið og stórt ríkisútvarp. Og sennilega er það ekki alveg út í loftið. Hins vegar snýst þetta meira um hefðir og venjur og standard. Þannig spyr sig enginn að því hvort yfirmenn RÚV þyrftu þá ekki að vera á 1/15 hlut launa yfirmanna SR og þannig er það áreiðanlega ekki heldur (þótt það kæmi mér ekki á óvart ef meðallaunin á SR séu aðeins hærri en á RÚV). Pípararnir sem laga klósettin á RÚV eru áreiðanlega ekki heldur verr launaðir en pípararnir sem laga klósettin á SR. Og svo framvegis. Fólk fær almennt ekki greidd laun í hlutfalli við það hversu stórri þjóð það tilheyrir. Mér reiknaðist til að ef pistlahöfundur á þessum kjörum ætti að ná lágmarkslaunum Eflingarstarfsmanns þyrfti hann að skila tæplega tveimur pistlum á dag, alla daga ársins – að teknu tilliti til skatta og annarra gjalda. *** Ég ætti auðvitað að þaga um þetta vegna þess að þetta gerir mig ekki beinlínis að eftirsóknarverðum starfskrafti í framtíðinni. Ég myndi ekki sjálfur bjóða mér þátttöku í spennandi verkefni nema ég væri 100% viss um að ég héldi kjafti ef launin væru glötuð. Maður á að hafa vit á því að halda kjafti. Ömurlegur mórall alltaf hreint. *** Sama höfðatöluafsökun kemur líka upp þegar ég spyr hvernig á því standi að það sé enginn strúktúr til staðar sem geri ráð fyrir því að rithöfundur utan höfuðborgarsvæðisins komist til borgarinnar og fái þar gistingu meðan hann kynnir verk sín. Ég hef farið til ótal landa á vegum erlendra forlaga. Stundum er það einhver hátíð sem borgar flugmiðann og forlagið gistinguna, eða einhver fjölmiðill sem borgar hótelið á meðan hátíð borgar flugmiðann og forlagið gefur mér að borða. Oft eru hátíðirnar eða forlögin á styrkjum og stundum (en sjaldan) sækir listamaðurinn um sjálfur. Oft eru fjölmiðlarnir einfaldlega með budget sem gerir ráð fyrir X mörgum svona gestakomum á mánuði. Það er ekki bara einn strúktúr, heldur margvíslegir strúktúrar og útfærslur, en aldrei nokkurn tíma gert ráð fyrir því að maður bara komi. Ég er aldrei spurður „verður þú ekkert á ferðinni í Gautaborg/Berlín/Helsinki/París á næstu vikum“. Og þó eru þetta borgir sem ég heimsæki alltaf af og til. Hvað um það. Ég kemst sem sagt milli landa í svona erindum án þess að kosta það sjálfur – oft gisti ég meira að segja í Reykjavík á leiðinni, og fæ innanlandsflugið greitt einsog flugið úr landi – en það er undantekning ef ég kemst bara til Reykjavíkur án þess að borga sjálfur flugið/bensínið, hótelið, matinn og svo framvegis. Og undantekning ef ég er ekki spurður hvort ég verði ekki áreiðanlega eitthvað á ferðinni. Það er ekki þar með sagt að t.d. ritstjórinn minn leyfi mér ekki að gista í gestaherberginu sínu og láti manninn sinn elda ofan í mig dýrindis mat – það gerist sannarlega – og ritstjórinn minn þar á undan borgaði meira að segja einu sinni fyrir mig prívat og persónulega flugmiða frá Helsinki þegar ég var fátækt ungskáld. Ég á ekki við að það sé aldrei neitt gert fyrir mig. En það er enginn strúktúr – engar útfærslur og engir gildir styrkir (ég hef reynt að sækja um ferðastyrki – og hef tekið eftir því að nú er æ oftar farið að taka fram í auglýsingum að þeir séu einungis veittir til ferðalaga til kynningar á verkum erlendis ). Stærðin, segir fólk. Mannfæðin, segir fólk. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þetta sé einsog í Rio eða París. Nú get ég alveg sagt ykkur að þegar íslenskir höfundar ferðast erlendis er það ekki alltaf á vegum risavaxinna eða ríkra stofnana og það eru ekki heldur alltaf milljón gestir í salnum. En það er aukaatriði í samanburði við hitt – og takið nú vel eftir. Þegar rithöfundar af höfuðborgarsvæðinu fara austur eða vestur á land þá eru þessir peningar til. Menningarstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins, sem jafnan eru styrktar af litlu útsvari sinna bæjarfélaga – stofnanir með kannski (í mesta lagi) einn starfsmann, sem berjast fyrir tilverurétti sínum – hafa af einhverjum orsökum efni á því að fá til sín höfunda með flugi, borga fyrir þá gistingu, gefa þeim að borða og greiða þeim laun. Af því það er gert ráð fyrir því að það þurfi. Þetta er nefnilega ekki spurning um hvort það séu til peningar. Þetta er spurning um menningu.
Glöp
Ég gleymi jafn óðum því sem ég ætla að gera. Ég er ekki fyrr búinn að taka stefnuna í einhverja átt – opna vafra, standa á fætur, setjast niður, opna munninn, fara í skó – en ég man ekki lengur hvert ég ætlaði. Ætlaði ég að segja eitthvað? Ætlaði ég að komast að einhverju? Slá einhverju upp? Ætlaði ég að skrifa eitthvað í dagatalið mitt svo ég myndi ekki gleyma því? Hvað? Í nafni guðanna, hvað var það sem ég ætlaði alveg að fara að framkvæma? Gleymdi ég að sækja börnin á leikskólann? (Eru börnin mín ennþá á leikskóla? Ég held ekki. En er það nóg – að ég haldi það? Ég sem man bókstaflega ekkert í meira en sekúndubrot! Mér er ekki treystandi til að muna svona.) Var ég að hugsa eitthvað um HM? Um Reykjavík Noir? Bókamessuna á næstu helgi? Elon Musk – sem var að kalla Trent Reznor grenjuskjóðu? Þakkargjörðarhátíðina? Ætlaði ég að panta jólagjafir? Skrifa tölvupóst? Að segja eitthvað um eitthvað sem ég var að lesa? Var ég að lesa eitthvað? Hvernig varð ég svona ólýsanlega heimskur? Ég var áreiðanlega ekki svona í gær.
Óskipulögð glæpastarfsemi
Ég las í fréttum að Jón Gunnarsson ætli í stríð. „Ég vil kalla það stríð við skipulagða brotastarfsemi“, sagði Jón við fréttamann Vísis. Þetta er auðvitað kunnuglegt tungutak en líka til marks um ákveðna uppgjöf. Eða bara fullkomna uppgjöf. Stríð er það sem maður háir þegar ekkert siðmenntaðra er í boði. Og hefur nánast undantekningalaust hræðilegar afleiðingar fyrir alla sem taka þátt í því – stríð skilja eftir sig sviðna jörð. Jón á væntanlega við stríð í „yfirfærðri merkingu“ – ég reikna ekki með því að hann ætli að fara að fordæmi filipseyska kollega síns Duterte og fara að safna saman glæpamönnum og láta skjóta þá í húsasundum. Hann á sennilega við eitthvað svipað og þegar bandaríkjamenn hafa talað um „war on drugs“. Konkret ætlar hann að vopna lögreglu og gefa þeim auknar valdheimildir. Ég held það séu engin dæmi um það að svona „tough on crime“ stefna skili mannúðlegra samfélagi eða dragi úr ofbeldi. Eiginlega finnst mér andstæðan blasa við. Friðsæl samfélög eru samfélögin sem standa vörð um friðsæld sína – þar sem hið opinbera fer ekki í stríð, vopnar ekki lögreglumenn um fram það sem er bráðnauðsynlegt og svo framvegis. Vopni lögreglan sig vopna glæpamenn sig bara meira. Og þannig vopnakapphlaup boðar ekkert gott fyrir hina. En það blasir auðvitað ekki við hvernig maður dregur úr glæpum (nema einmitt með góðu menntakerfi, lítilli misskiptingu og umhyggju gagnvart hvort öðru – en það eru dýr langtímaverkefni og því nennir enginn né tímir). Nú er t.d. mikil ofbeldisalda í Svíþjóð. Byssuárásum fjölgar mjög og átök milli gengja eru hörð. Fyrir nokkrum árum skáru Svíar upp „herör“ gegn gengjunum – fóru í stríð og náðu miklum árangri. Með hjálp upplýsinga úr Encrochat-spjallappinu voru tæplega 200 manns dæmdir í samanlagt ríflega þúsund ára fangelsi. „Þetta er stærsta högg sem skipulögð brotastarfsemi hefur orðið fyrir í gervallri glæpasögu Svía“, skrifaði Expressen. „Allt annað fölnar í samanburði.“ Síðan þá hefur ríkt hálfgerð óöld. Mest voru þetta toppar og millistjórnendur. Meðalrefsingin var frekar há á sænskan mælikvarða – sex ár. Og þá sitja Svíar sem sagt eftir með nokkur þúsund unga smáglæpamenn til þess að mæta nákvæmlega sömu eftirspurn eftir eiturlyfjum og vændiskonum – og þessari eftirspurn verður mætt, vegna þess að fólk er tilbúið til að borga góðan pening fyrir sín eiturlyf og sínar vændiskonur. Það er sterkasta lögmál síðkapítalismans. Á kaupsýslumáli held ég að þetta sé kallað „tómarúm á markaði“ og verður jafnan til þess að koma feykimiklum krafti í öll viðskipti og auka átök milli samkeppnisaðila – enda er skyndilega hvorki til Pepsi eða Kók en ljóst að einhver (RC Cola? Ískóla? Bónus kóla?) verður næsti kóngur markaðarins. Einhver af þessum götustrákum verður fáránlega ríkur eftir nokkur ár (og margir þeirra verða dauðir eða í fangelsi og eymdin eykst). Einhver sænskur kriminalóg lét hafa eftir sér í fréttum síðasta vetur að á meðan skipulögð brotastarfsemi væri sannarlega erfið viðfangs þá væri það því miður ekkert á við óskipulagða brotastarfsemi.
Brotnar niður í náttúrunni
Hvernig sem á því stendur njótum við þess að horfa á öðrum farnast illa. Eftir því sem fólk stendur okkur fjær þeim mun meira abstrakt verður harmurinn sem það gengur í gegnum – á endanum er þetta bara einsog að lesa spennandi ævintýri. Og best af öllu er ef þetta er líka fólk sem við höfum horft upp á rísa upp úr meðalmennskuhafinu sem við hin búum í. Íkarusarþórðargleði. Ekki er verra ef við getum talið okkur trú um að við höfum skapað þau en fall þeirra sé sjálfskaparvíti og helst að þau eigi ekki betra skilið (eða að lágmarki að staða þeirra sé forréttindi sem þau eigi ekki tilkall til – les: we made you, we can break you ). Þekktasta dæmið er auðvitað Britney Spears – engum fannst kannski hún eiga skilið að fara í margra ára (semi-)geðrof í beinni útsendingu en þegar það hófst var fólki líka bara alveg sama. Hún var bara einhver poppari, eitthvað óþolandi drasl í útvarpinu, hæfileikalaus forréttindadúkka smíðuð af sálarlausu bransafólki í æfingabúðum fyrir Disneykrakka. Af hverju mátti hún ekki brenna? Það var gaman að horfa á það. Við fengum öll að sjá á henni píkuna – og súpa hveljur eða fá reisn eftir atvikum. Það er nautn í sensasjónalísku ruglinu. En þessi nautn er ekki einföld þórðargleði samt af því henni fylgir líka hneykslunarnautn. Nautnin af því að dæma aðra – því henni fylgir líka óorðuð yfirlýsing um eigin sjálfsmynd. Ég er kannski ekki fullkominn en ég er þó ekki svona . Kanye – sekur! Britney – sýknuð! Fyrir 100 árum voru glæpirnir aðrir en tilfinningin sú sama. Hin dæmandi nautn eins. Í einhverjum skilningi er þetta bara þorsti okkar í dramatískar sögur ofan af Ólympustindi – og auðvitað er meira gaman þegar þær eru sannar. Eða virðast a.m.k. sannar – oftast fáum við bara mjög lítið og afmyndað brot af sannleikanum, sem búið er að sía í gegnum fimmtíu PR-skrifstofur og tvö hundruð æsifréttamiðla áður en við komum að borðinu með dómarahamarinn. Og það skiptir víst engu máli upp á auglýsingatekjurnar hvort maður smellir til að verða miður sín, reiður, graður eða flissandi yfir kjánaskapnum.
Margfaldir metsöluhöfundar
Næst á eftir áhyggjum af hæfilegri stjörnugjöf hafa höfundar áhyggjur af sölu bóka sinna. Það er í sjálfu sér alveg rétt að margt af því sem situr í efstu sætunum gleymist hratt og sumt af því sem nær engri metsölu verður klassík. En það er samt algengara að klassíkin slái í gegn – og ekki bara eftir sinn tíma. Yfirleitt er meira að segja vandræðagangurinn í kringum útgáfu bóka sem sagt er að hafi átt erfitt uppdráttar að miklu leyti skáldskapur sem ætlað er að selja bókina – fyrst og fremst gott markaðstæki. Og ágætt að taka þannig sögum með saltklípu. Hvað um það. Það langar heldur engan að deyja misheppnaður í trausti þess að maður sé einhver Kafkafígúra sem allir elska eftir dauðann (önnur saga eða sagnaminni sem er gott að taka með saltklípu er einmitt sagan af höfundinum sem vill láta brenna öll sín handrit). Það vilja allir höfundar fá marga (góða) lesendur. Ég er óvanur því að fylgjast með barnabókametsölulistum. Ég leit fyrst á listann vikunni eftir að Frankensleikir kom út – þá gægðist hann inn í sjöunda sæti. Vel flestar glænýjar bækur komast inn vikuna sem bókasöfnin næla sér í eintak. Mér fannst þetta svolítið kaotískur listi, man ég, þótt ég muni ekki alveg hvað var á honum – fannst t.d. skrítið að Fagurt galaði fuglinn sá , sem er bók sem kom út 2021, væri enn ofarlega (gott ef hún var ekki hreinlega í fyrsta sæti). Ég veit síðan vel hverjir eru metsöluhöfundar á fullorðinslistanum en ég var ekkert byrjaður að spá í það hver yrðu Arnaldur eða Auður Ava barnabókalistans. Svo hefur tvennt komið í ljós. Í fyrsta lagi að það eru til bæði barnabókalisti og ungmennabókalisti og ég veit ekki hvernig þeir tengjast. Ég veit bara að ungmennabókalistinn er ekki inni á Eymundsson-síðunni , að Strákurinn með ljáinn eftir Ævar Þór er efst á honum (af því ég sá það á FB) – og að það hafa samt birst (held ég alveg áreiðanlega!) ungmennabækur á þessum barnabókalista. Það gæti verið að barnabækur fyrir yngri lesendur seljist bara svona miklu meira en ungmennabækur og þær séu því teknar út fyrir sviga. (Og auðvitað er mjög undarlegt að einhver bendibók með tveimur orðum á síðu sé í sama flokki og 600 blaðsíðna fantasía fyrir unglinga sem sé í sama flokki og mynda- og kennslubók um fugla með fuglahljóðum). Kannski eru svo líka til sundurliðaðir „bækur fyrir 3-5 ára“, „bækur fyrir 5-8 ára“ o.s.frv. listar – en þá ber að hafa í huga að það er ekki endilega alveg ljóst fyrir hvaða aldur bækur eru skrifaðar (Frankensleikir er t.d. best fyrir fimm til þrettán ára en líka bönnuð innan fjórtán). Í öðru lagi áttaði ég mig ekki á því að margir barnabókahöfundar virðast vera með margar bækur á ári. Og geta þar með eðli málsins samkvæmt verið í mörgum sætum með ólíkar bækur. Í dag eru t.d. fimm höfundar á barnabókalistanum – en tíu bækur. Bjarni Fritzson er með tvær, David Walliams með tvær og Birgitta Hauks með þrjár (þar af eina jólabók frá því í fyrra). Þá er Fuglabókin frá því í fyrra alltaf jafn vinsæl. Hvernig sem á því stendur eru síðan bara níu bækur á barnabókalistanum þessa vikuna (Gunnar Helga á níundu). Kannski seldist engin önnur bók í neinu eintaki. Ég er sem sagt enn að reyna að átta mig á þessu.
Hlutverkaleikur
Gærdeginum eyddi ég í viðtal við sjónvarpsfólk frá finnska ríkissjónvarpinu Yle. Þau eru að gera sex þátta þáttaröð um árekstra pólitískra og listrænna sjónarmiða. Sérílagi hvernig aktífismi og list rekast á. Einn þátturinn kemur til með að fjalla um Hans Blæ – leikrit og bók og havarí. Þetta verður sýnt eftir ár – að minnsta kosti í Finnlandi og Noregi og sennilega fleiri löndum. Og þættirnir fjalla líka um mál – skandala, havarí – sem áttu sér stað í ólíkum löndum. Tilfinning mín eftir á – minningin af viðtalinu í gær – er að þetta hafi verið ekki ósvipað því og ég ímynda mér að það sé að fá hægfara heilablóðfall og keyra á vegg samtímis. Kannski er það bara afleiðing af því að fá ekki heimsmyndina sem maður er að reyna að svara til að ganga upp. Að finnast forsendurnar ósanngjarnar en sýna málstaðnum nægan skilning til þess að geta ekki einfaldlega vísað þeim á bug. Að reyna að svara spurningunni: „Af hverju ertu svona mikill fáviti“ með málalengingum um að þetta sé flóknara – sé ekki allt svona beint af augum. Í bland við að mæta í viðtal hræddur við bæði spurningarnar og svörin. Hræddur við skuggann sinn. Hræddur við að gera of lítið úr sumu og of mikið úr öðru – hræddur við að segjast hræddur, hræddur við að segjast sorgmæddur. Að minnsta kosti get ég ekki sagt með hreinni samvisku að þau hafi verið ósanngjörn eða aðgangshörð umfram það sem hlýtur að teljast eðlilegt (þau spurðu t.d. aldrei bókstaflega hvers vegna ég væri svona mikill fáviti). Ég fer í gegnum þetta aftur og aftur hugsa um það hvernig ég sagði fæst af því sem ég hefði átt að segja og að flest sem ég hafi á annað borð komið frá mér hafi verið óskýrt og illa orðað. Og raunar að kannski hefði það heldur aldrei getað verið öðruvísi – ég hefði kannski getað verið skýrari en það er ekki víst það hefði breytt neinu. Ekki fyrir mögulegar viðtökur. Mér finnst einsog þetta handrit sé löngu skrifað. Ég reyni alla jafna að hugsa á hreyfingu – að vera ekki með tilbúin utanbókarlærð svör, helst vil ég aldrei svara sömu spurningunni eins tvisvar í röð, því afstaða manns á að vera plastísk – og því fylgir kaos. Síðan er auðvitað góð og gild ástæða fyrir því að ég valdi mér starfsvettvang þar sem ég get setið einn yfir orðum mínum, íhugað þau og editerað – ég er í fyrsta lagi einfaldlega ekki mjög mælskur og í öðru lagi vil ég starfa í nafni efans, á gráu svæðunum, en ekki á svæði vissunnar. Því fylgir að stundum gref ég viljandi (og óviljandi) undan sjálfum mér. Sérstaklega þegar ég tala. Og ég er áreiðanlega að gera of mikið úr þessu líka. Að minnsta kosti vona ég það. Hvað sem því líður töluðum við saman í tvo klukkutíma og allur þátturinn – með 6-7 viðtölum – er ekki nema hálftími, af honum á ég í mesta lagi fimm mínútur, svo útkoman stýrist 99% af því hvernig þetta verður klippt. Hvað sé álitið aðalatriði og hvað aukaatriði og hvað skemmtiatriði og hvort YLE-fólkið hafi sjálft fengið skilning á afstöðu minni og áhuga á að koma henni til skila. En það er líka hægt að klippa þetta þannig að ég komi út sem alger fáviti. Ég hef ekki um annað að velja en að leggja það í hendurnar á einhverju fólki sem ég þekki ekki neitt. Sennilega er ég líka brenndur af því að hafa farið í Kveiksviðtal síðasta vetur um mjög viðkvæm málefni þar sem „gleymdist“ að segja mér að viðtalið yrði lagt fyrir panel í sjónvarpssal – þar sem þátttakendur gætu ranghvolft augunum í beinni yfir því sem ég hafði sagt og gert lítið úr því í rauntíma. Það fannst mér kvikindislegt – og ekki forsendur sem ég hefði nokkurn tíma samþykkt aðspurður. Það var soldið einsog að láta henda sér fyrir strætó. Ég hugsa oft – og nefndi áreiðanlega í gær – að sennilega hefði verið betra fyrir mig, a.m.k. svona prívat og persónulega, ef ég hefði aldrei gefið þessa bók út. Og aldrei hleypt leikritinu á svið. Og ekki vegna þess að ég álíti bókina ranga eða sprottna af annarlegum hvötum eða gagnslausa fyrir eilífðina heldur vegna þess að (sumir) aðrir geri það – og þá skiptir engu máli hvort þessir aðrir hafi ekki lesið bókina eða séð leikritið (nær allt havaríið um árið átti sér stað áður en verkið fór á svið – og hálfu ári áður en bókin kom út – það var búið að ákveða hvers lags verkið væri með miklum fyrirvara). Mér var fengið hlutverk í þessari narratífu og sennilega skiptir engu hvað ég segi eða geri. Það kemur allt jafn illa út. Hlutverkinu fylgir túlkun. Maður er nefnilega ekki bara sá sem maður heldur að maður sé – maður er líka sá sem aðrir segja að maður sé. Hvað um það. Það eru átta ár frá því Hans Blær birtist fyrst sem aukapersóna í óútgefinni bók og sjö ár frá því ég byrjaði á bókinni þar sem hán er í aðalhlutverki, sex ár frá því það fór að verða leikrit, fjögur ár frá útgáfu og fjögur og hálft ár frá sviðssetningu leikritsins. Þrjú ár frá því bókin fékk dálitla uppreist æru og varð bók vikunnar á Rás 1 – hún hreyfðist meira og fékk meiri eiginlega umfjöllun ári eftir að hún kom út, þótt það hafi aldrei verið mikið. Tvö og hálft frá því hún kom út á Spáni og tvö frá því hún kom út Frakklandi. Ár frá Einlægum Önd – sem er líka einhver tilraun til að hantera þetta. Og ár þangað til þetta viðtal, sem hefur verið yfirvofandi frá því í vor, birtist. Nú er ég endanlega hættur að tjá mig. Næst þegar kallað verður eftir viðmælenda til að verja verkið þarf að tala við einhvern annan. (Það á vel að merkja líka við um spurningar á FB eða í kommentum á þessu bloggi).
Vinnumaur
Þriðjudagsmorgun. Ég sit og geispa. Mér finnst þetta oft undarlegt líf. Að eiga að stýra tíma sínum svona sjálfur. Sinna þessari oft frekar abstrakt vinnu. Í gær svaf ég til dæmis yfir mig. Vaknaði ekki fyrren eftir tíu. Og það var enginn sem skammaði mig. Varla einu sinni neinn sem tók eftir því. Ég þyrfti líklega að sofa mjög rækilega yfir mig alla daga í svona 4-5 ár áður en nokkur tæki eftir því. Nokkur annar en ég, sem sagt. Eftir 4-5 ár færi einhver að spyrja að afköstunum. Þá yrði ég sviptur listamannalaunum og hýddur í kommentakerfunum. En þangað til gæti ég bara setið hér og geispað. Stundum bregð ég mér frá tölvunni og spila tónlist í klukkutíma. Gutla á gítar. Bara í leit að einhverjum innblæstri eða til að drepa tímann – kannski er ég þá bara að bíða eftir því að eirðarleysið verði nóg til að ég skrifi. Að eitthvað kalli á mig. Stundum fer ég í göngutúr. Eða út að hlaupa. Stundum baka ég brauð. Ég er samt ekki bakari. Tek þetta aldrei fram í ritlaunaumsókninni. Þegar ég var enn að stimpla mig inn og fá borgað tímakaup – sem var síðast á Bæjarins besta 2007 – skrifaði ég yfirleitt á kvöldin. Sumar vikur skrifaði ég meira en ég geri núna. En ég vann þá líka átta tíma á héraðsfréttablaðinu og svo átta tíma í viðbót þegar ég kom heim. Átti ekki börn, ekki maka, eldaði sjaldan og umgekkst fólk lítið á virkum dögum. Og hafði meira þrek svona almennt. Sennilega var ég líka gáfaðri. Núna þarf ég að minnsta kosti að hugsa lengur áður en ég kemst að niðurstöðu. Og hún er ekki alltaf mjög gáfuleg. Ég laumaðist líka stundum til þess að skrifa í vinnunni. En aðallega vann ég bara í vinnunni og vann svo þegar ég kom heim og fór svo að sofa. Og svaf reyndar mjög oft yfir mig líka þá. Og var sjaldan skammaður ef það bitnaði ekki mikið á afköstunum.