Allt á fallandi fæti

Ég fór ekki á Bókamessuna í Reykjavík. Hitti engan kollega. En á næstu helgi verður Opin bók á Ísafirði og þá koma Þórarinn Eldjárn, Benný Sif, Örvar Þóreyjarson Smárason, Bergsveinn Birgisson og Elísabet Jökuls. Ég er reyndar ekki að gera neitt á Opinni bók nema vera Inga Birni innan handar og þiggja kvöldverð og hlusta á hina. Örvar er gamall vinur minn úr Nýhil og hin þekki ég öll aðeins – nema Benný, sem ég hef ekki hitt (við erum samt FB vinir og höfum aðeins heyrst þá leiðina). Ég hlakka mikið til. Það er búið að vera rosalega skemmtileg dagskrá í Edinborgarhúsinu í haust – Ingi er alveg í essinu sínu þarna. En sem sagt. Í staðinn fyrir að fara á bókamessu fór ég í partí. Vinir mínir voru að fagna sameiginlegu fertugsafmæli, þakkargjörðarhátíð og nýfengnum íslenskum ríkisborgararétti. Þetta var rosalegt partí – svo rosalegt að ég var byrjaður að kvíða timburmönnunum með þriggja daga fyrirvara. Og get staðfest svona eftir á að það var ekki að ástæðulausu. Djúpsteiktur kalkúnn með ölllu því truflaðasta meðlæti sem hægt er að ímynda sér, pekanpæ og graskerspæ, búrbónlímonaði einsog maður gat í sig látið – viðstöðulaus skemmtiatriði. Ef skammdegið væri ekki orðið algert hefði sennilega verið kominn dagur þegar við Nadja skiluðum okkur loksins heim. Maður má vera þakklátur fyrir hvað maður á góða vini. *** Ég keypti bókablað Stundarinnar. Þar á ég stutt ráð – 70 orð – um skapandi skrif í horni sem er tileinkað slíku. Mitt stutta ráð er þó ekki jafn stutt og hinna – Einar Kára lætur sér duga að biðja fólk að vera ekki að skrifa mjög syfjað, það kunni ekki góðri lukku að stýra. Annars tek ég eftir því að dálkurinn hefur verið styttur alveg svakalega – síðast voru þetta þrír 250 orða pistlar en nú er þetta varla 200 orð samanlagt. Mitt ráð gekk líka út á að maður ætti að reyna að hemja sig í skrifunum svo það hefur kannski bara gengið betur í þessari viku. Annars átti ég nú mest við skáldskapinn – það má alveg skrifa dagbækur og bréf og póstkort og blogg og annað af fullkomnu hömluleysi. Bergsteinn Sigurðsson vakti athygli á því á Twitter að meðalstjörnufjöldi í bókablaði Stundarinnar hafi lækkað milli vikna. Síðast var hann 4,1 stjarna (og fjórar bækur fengu 5 stjörnur) en nú er hann kominn niður í 4 stjörnur sléttar og bara ein einasta bók með 5 stjörnur (hin ágæta Krossljóð Sigurbjargar Þrastar). Sic transit gloria mundi, segi ég nú bara.