Hvernig gengur bókin, spyr fólk gjarnan á förnum vegi, og ég yppi bara öxlum. Segi eitthvað um að sölutölur séu mér lokuð bók langt fram yfir áramót – ég frétti sosum af endurprentunum, þegar þær eiga sér stað, en ég veit ekki neitt. Ég les dómana – eða tel allavega stjörnurnar. Stundum eru verðlaun og stundum eru tilnefningar og stundum er einhver reiður við mann út af einhverju – maður verður jafnvel hálftoxískur. Eða tiltekin bók. Sumar bækur þykja léttmeti – en kannski mjög skemmtilegar – en aðrar þykja erfiðar og erfiðisins virði. Eða ekki. Sumar skila miklu í aðra hönd og aðrar litlu og það hangir ekki bara saman við vinsældir. Sumar eru „skref áfram“ á ferli höfundar á meðan aðrar eru „útúrdúr“ eða jafnvel „hnignun“. Stundum þykir bara kominn tími á takedown. Sumar bækur uppfæra hefðina á meðan aðrar eru kannski frábærar – en minna bara mjög mikið á einhverjar aðrar bækur. En ég kann ekki að staðsetja neitt sem ég geri sjálfur á þessum skölum. Og velgengni? Segjum svo að maður hafi selt 100 þúsund eintök og fengið 40 þýðingasamninga og allar stjörnurnar og öll verðlaunin, selt kvikmyndaréttinn og enginn sé reiður við mann nema einhverjir pípandi fasistar (Hannes Hólmsteinn hafði á orði á Facebook á dögunum að það ætti að borga mér fyrir að skrifa ekki – ég tók því sem ákveðnu heilbrigðismerki), hvað þá? Hefur maður þá náð árangri? Er maður ánægður með sjálfan sig? Finnst manni allir höfundar sem hafa náð slíkri velgengni … góðir? Getur maður hafa náð árangri og fundist manni hafa misheppnast – af því eitthvað fór úrskeiðis? Kannski finnst manni maður ekki verðskulda velgengnina – sem maður hafi af einhverjum öðrum? Kannski finnst manni vanta einhverja tiltekna upphefð – þótt maður hafi fengið alla hina? Kannski var einhver einn lesandi sem maður ætlaði að heilla en náði ekki til – þótt allir hinir dýrki verkið? Er árangur objektífur og mældur í t.d. seldum eintökum eða er hann súbjektífur og næst bara þegar sá sem stýrir skipinu er sáttur? Einu sinni sat ég í panel með mjög háværum og frekum frönskum höfundi sem var með böggum hildar yfir því að bókin hans – sem fjallaði um barnaníðsmál í Sviss og var að hluta sannsöguleg – hefði ekki orðið til þess að laga kynferðisbrotalöggjöfina í Sviss. Mér fannst það mjög skrítið markmið með skáldsögu – en þær geta svo sem haft ólík markmið. Finnska ljóðskáldið Leevi Lehto, sem ég hef miklar mætur á, skrifaði einu sinni fræga ritgerð með titlinum „Ekkert sem í upphafi vakti áhuga fleiri en sjö manns getur nokkurn tíma breytt meðvitund alþýðunnar“. Útgangspunkturinn fyrir þessari staðhæfingu er að fjöldaframleiddri list svipi of mikið saman – hún falli of mikið að sama forminu og jafnvel sama innihaldinu líka til þess að breyta neinu. Hún verður bara síbylja. Þannig könnumst við væntanlega flest við að Netflix-þættirnir renni saman, einsog Marvelmyndirnar, í einhvern ókennilegan massa af einsleika – ég man aldrei hvað ég er búinn að sjá og hvað ekki, þetta er allt sami Dallasþátturinn – og sama á við, að mati Leevis, alla list sem reynir að höfða til fleiri en sjö manns. Sem er auðvitað frekar extremt – en Leevi var heldur ekki að reyna að höfða til fleiri en sjö og þá verður maður að vera dálítið extrem. Breyti maður meðvitund alþýðunnar er síðan í sjálfu sér ekkert ólíklegt að það hafi einhver áhrif á löggjöf – jafnvel í Sviss. Pælingin er ekki sú að maður nái aldrei til fleiri en sjö manns – lykilhluti setningarinnar er „í upphafi“. Verkið getur bæði skilist með tíð og tíma og náð almannahylli og svo getur það aldrei náð marki sjálft en haft annars konar áhrif – til dæmis á einhvern annan listamann sem fyllist innblæstri, stendur á öxlum fyrra verksins. Listasagan er stappfull af listamönnum sem breyttu listasögunni án þess að nokkur tæki eftir því. Hvernig gengur bókin? fær þá auðveldlega líka svarið: mjög vel, ég er búinn að selja eitt eintak og gefa annað og lesendurnir eru báðir rosa hvumsa. Þeir vita ekkert hvað þeir eiga að halda! En bókin mín, segiði? Jú, bókin gengur bara vel. „Það best ég veit“, segi ég alltaf. Og reyni þannig að halda því leyndu að ég veit bókstaflega ekki neitt – hvorki um mælanlega eða ómælanlega velgengni.