Sósíalismi í einu húsfélagi

Stundum hvarflar að manni að valdið í heiminum – eða á Íslandi, Reykjavík, Ísafirði, í húsfélögum, stökum fjölskyldum – sé valdið vegna þess að það kann að skipuleggja sig. Og það segir sig eiginlega sjálft að skipulag virkar best með valdi – það er hægt að ræða hvert eigi að keyra bílnum en ef allir ætla að keyra hann í einu er ekki líklegt að vel fari. En svo ég haldi þessari vafasömu líkingu til streitu þá vill sá sem heldur í stýrið oft bara ráða þessu sjálfur (oft var það þannig sem hann valdist til að stýra í upphafi). Og ráða meiru. Keyra fleiri bíla á fleiri vegum. Fljúga bílunum til stjarnanna. Alveg sama þótt farþegana vanti bara að komast í skólann. Eða til læknis. Bíllinn skal til Mars. Það er framtíðin, segir metnaðarfullur bílstjórinn. Og þá verður að gera byltingu. Sameinast í aftursætinu og skjóta bílstjórann. En bíllinn er á fullri ferð til Mars og nú erum við þrjú í aftursætinu að kljást við fjórða mann í farþegasætinu fram í – allir með eina hönd á stýrinu og aðra upp á móti hinum – rúðan er sprungin, allt í blóði alls staðar, við reynum að snúa við, komast í skólann og til læknis, helst bæði í einu, á meðan bíllinn brennur upp á leiðinni inn í lofthjúpinn aftur.

Er þetta góður tími til að vera sósíalisti? Það er allavega umbreytingarskeið. Ef mann langaði að verða sósíalistaleiðtogi væri kannski ráð að grípa til aðgerða núna. Fylgið vantar heimili. VG er í molum. Sósíalistaflokkurinn varla nema mylsna. Héðan af væri sennilega mestur missir af Samstöðinni – hún er mikill afbragðsfjölmiðill, ekki síst þessi löngu og ítarlegu viðtöl við alls konar fólk, og væri synd ef hún breyttist í málfundafélag skinhelgra sósíalista eða eitthvað þaðan af verra. Ég er ekki sannfærður um að VG eigi eftir neina upprisu – þótt það sé ekki útilokað – en yrði enn meira hissa ef Sósíalistaflokkurinn nær sér eftir þetta epíska rugl síðustu vikna, og skiptir þá litlu hver „vinnur“ þessar húsfélagsþrætur núna.

***

Sumarfríið er að verða búið. Við Aram höldum heim á föstudag. Ég er varla nema rétt rúmlega hálfnaður með sumarfrísbókina – 500 síður búnar af Books of Jacob en 500 enn eftir. Keypti að vísu líka Ulysses þýðingu Eriks Andersson, sem ég hef heyrt mjög vel af látið, og byrjaði að glugga í Násikukaflann, sem er næstur á dagskrá, og endaði á að klára hann bara. Var bara furðu þjált. Sinni þessu betur í næstu viku. Nema það verði mjög gott málningarveður – þá fer kannski allur frítíminn í það. Svo ætlaði ég reyndar að lesa líka eitthvað á dönsku til að hreyfa við dönskuhluta heilans í mér áður en ég hitti nokkra danska menningartúrista á Ísafirði – annars tala ég bara sænsku. Og ég á víst enn 500 síður eftir af Tokarczuk. Og er að æfa fyrir maraþon. Heima bíður mín kontrabassi sem vill að ég spili á sig. Það er enginn tími, verður enginn tími, en það verður gaman.

Allt er synd

The further north you go, the more people concentrate on themselves, and in some sort of northern madness (no doubt due to the lack of sun) they ascribe themselves too much. They make themselves responsible for their actions. Fatum is punctured by raindrops, then farther on, snowflakes making a final incursion, and soon it disappears altogether. What remains is the conviction that destroyes every person, supported by the Ruler of the North, the Church, and its ubiquitous functionaries, that all evil is in man yet can’t be fixed by man. It can only be forgiven. But can it be forgiven? Hence comes that tiring, destructive feeling that one is always guilty, from birth, that one is stuck in sin and that everything is sin – doing something, not doing it, love, hate, words, and even thoughts. Knowledge is a sin, and ignorance is a sin.

Ég held ég hafi aldrei lesið greinarbetri lýsingu á norrænu hugarfari en þessa, sem kemur úr The Books of Jacob eftir Olgu Tokarczuk í þýðingu Jennifer Croft. Hún nær einhvern veginn utan um þessa undarlegu blöndu af botnlausri sjálfhverfu og umhyggju fyrir heiminum – og útskýrir hvernig sjálfhverfan verður að umhyggju og umhyggjan að sjálfhverfu og allt saman verður alltaf á endanum að samviskubiti, einmitt af því við sjáum okkur sjálf sem trónandi fólk, blöndu af yfirmennum og hálfgerðum skyldufyrirmyndum. Við fyrirgefum í orði kveðnu en í raun fyrirgefum við aldrei neitt og allra síst okkur sjálfum. Á norðurlöndum sjá sig allir í Atlas – sem er óforskammað mikilmennskubrjálæði – og fullyrðinguna „allir eiga að skipta máli“ má alltaf sjóða niður í: „Ég á að skipta máli“ eða „Ég skipti máli“ og jafnvel „Ég skipti víst máli!“. Og ekkert gæti verið verra fyrir hinn norræna mann en að skipta ekki máli.

Ég er kominn fjórðung inn í þennan þúsundblaðsíðna hnullung um 18. aldar spámanninn Jakob – sem er kannski Messías – og hafi manni ekki þótt skrítið fyrir að Tokarczuk hafi hlotið nóbelinn við lestur annarra bóka hennar þá finnst manni það enn minna skrítið þegar maður stendur í miðju svona verki. Stærðin er einhvern veginn ógurleg. Maður stendur uppi á fjalli í norður Póllandi og sér niður að Bosporussundi, ef ekki lengra. Og sannarlega er ég oft villtur. En samt ratar ég einhvern veginn áfram. Þetta er að mörgu leyti trúarheimspekileg bók – og andleg slík, ekki jafn greinandi og hún er trúandi og þreifandi. En hún átti að vera hvíld frá Ulysses – sumarfríslesturinn – og er nú eiginlega ekki mikill hvíldarlestur. Næst tek ég bara með mér Andrés.

Og nei, hún fjallar nú ekki mikið um „hinn norræna mann“. Minna en til dæmis Andrés.

***

Ég er í sænskri sveit. Gulu viðvaranirnar eltu mig hingað. Það eru þrumur og eldingar og stefnir í ógurlega rigningu innan skamms. Búið að taka öll tæki á heimilinu úr sambandi. Allir með svona loftþrýstingshausverk sem mér skilst að hafi verið vísindalega afsannaður en það eru allir með hann samt. Þetta er áreiðanlega einhvern veginn mér að kenna. Bæði veðrið og hausverkurinn og gula viðvörunin.

Páfagaukagarðurinn

En um hvað er Páfagaukagarðurinn eftir Akörn (Braga Pál / Steinar Braga / Guðna Elísson / Hauk Ingvarsson / Hermann Stefánsson / Kviksögukrakkana / Jón Örn Loðmfjörð / Skólastjóra Grunnskóla Reyðarfjarðar / Mengellu / Jóhannes frá Kötlum)?

Bókin hefst einsog allar glæpasögur á morði. Fíll treður niður auðkýfing að fjórum vitnum ásjáandi. Næst hittum við hóp ofbeldismanna sem vinna fyrir albönsku mafíuna á Blönduósi – þar eru meðal annars parið Jenna og Róbert. Jenna er dóttir manns sem heitir Baba O’Riley (eftir laginu) – sá rekur fyrirtæki sem tekur að sér að myrða fólk. Þetta er dýr þjónusta og fyrirtækið myrðir auk þess bara þá sem eiga það raunverulega skilið, þá sem eru heiminum til óþurftar og hvers dauði bætir heiminn. Venjuleg illmenni – nauðgarar og ofbeldismenn – koma til greina en eru vandræðakeis af ýmsum orsökum. Stórkostleg illmenni í stjórnmálum koma til greina en hætt er að þau verði að píslarvottum og því hætta verkkaupendur yfirleitt við. Algengustu fórnarlömbin eru alls kyns kaupsýslumenn sem stuðla að hlýnun jarðar – olíubarónar og þess lags fólk. Fyrir Baba vinnur maður að nafni Bogi – siðfræðingur sem sér um að kanna hvort tilvist fórnarlambanna sé veröldinni til nægs ama að þeim megi stúta.

Jennu og Róbert er rænt (frá albönsku mafíunni, eiginlega) af Baba – sem er faðir Jennu. Bogi er faðir Róberts. Baba vill að þau komi að vinna fyrir fjölskyldufyrirtækið.

En málið rannsaka lögreglumaður að nafni Ægir og Bergþóra aðstoðarkona hans. Ægir er með skemmtilegri sögupersónum sem ég man eftir í dálítinn tíma. Hann er þeim ósköpum búinn að vera svo ólíkur á innra og ytra byrði. Að innan er hann mjúkur og tillitssamur en alltaf þegar hann opnar munninn kemur það út einsog tómur fantaskapur og alfa-karlmennska. Þetta er dásamleg togstreita.

Meiru spilli ég ekki – af þessari bók sem mér skilst að enginn nema við í bókmenntaelítunni fái að lesa.

Bókin er krimmi en hún er líka – og sennilega meira – farsi. Þótt undir liggi auðvitað tortíming veraldarinnar allar og þessi grundvallarspurning – sem kemur alltaf upp í bókmenntum af og til, var til dæmis í fókus í Kötu – að hversu miklu leyti það sé réttlætanlegt að nota ofbeldi til þess að leysa heimsins vandamál.

Mín afstaða í því efni er fengin að láni hjá Leopold Bloom í Ulysses sem sagði, aðspurður um það hvort Gyðingar ættu ekki að mæta hörðu með hörðu:

But it’s no use [..]. Force, hatred, history, all that. That’s not life for men and women, insult and hatred. And everybody knows that it’s the very opposite of that that is really life.

Hvað varðar höfundinn þá þekkti ég handbragðið einfaldlega. Ég las bókina tvisvar og í fyrra skiptið hugsaði ég mikið um það hver það væri – ég held að annað sé varla hægt en það þvælist fyrir. Í seinna skiptið, þegar ég taldi mig hafa leyst gátuna, var það minna atriði. Þetta er virkilega góð bók – létt og frjáls og stingandi og sprenghlægileg – og auðvitað á það að vera í forgrunni.

Ég ætla ekki að koma upp um neinn.

***

Annars hringdi útvarpið í mig áðan til að ræða þessa bók. Það verður einhver rannsókn í Bara bókum á morgun þar sem ég og fleiri skoða þetta mál.

***

Ég hef verið að reyna að rifja upp svona mál. Hvað maður kallar það. Bókmenntahrekki. Bókmenntagöbb.

Síðasta ljóðabók Sjóns eftir Celidonius – þá gáfu Lommi og Arngrímur Vídalín sig fram.

Lausnin eftir Evu Magnúsdóttur – þar var stóri skandallinn að „Eva“ fór í blaðaviðtal og þóttist vera til. Druslubækur og doðrantar feðruðu þá bók og eignuðu Steinari Braga.

Ljósgildran var auglýst vikum saman án þess að höfundarnafnið kæmi fram – stóð bara eitthvað um að hún myndi skekja íslenskan bókmenntaheim. Það var Guðni Elísson og kom í ljós áður en bókin kom út – en það var samt augljóslega tilgangurinn að fólk myndi byrja að giska.

Ég man aldrei hvað hann hét ljóðskáldið sem tveir blaðamenn Mannlífs bjuggu til – það var dæmi einsog Ernst Malley, tveir menn ortu ljóðabók á kvöldstund og fóru svo og báðust álits á henni. Höfundar Ernst Malley gáfu reyndar bókina út en blaðamenn Mannlífs fóru bara og spurðu eldri höfunda – eða sendu ungan mann með handritið. Þeir sögðu þetta allir efnilegt og voru „afhjúpaðir“ í blaðinu.

Stella Blómkvist er höfundanafn sem enginn hefur afhjúpað þrátt fyrir ótal bækur.

Jóhannes úr Kötlum gaf út bækur undir nafninu Anonymus.

Fyrir rúmum áratug birtist bók á Borgarbókasafninu sem heitir Riddarinn sem var ekki eftir Italo Calvino. Sem sagt ekki Riddarinn sem var ekki til eftir Italo Calvino heldur Riddarinn sem var ekki eftir Italo Calvino eftir einhvern annan. Ég á líka eintak af þeirri bók (ég hef verið í bókmenntaelítunni lengi) og hún er frábær en mér vitanlega hefur hulunni aldrei verið flett af þeim höfundi.

Ég man ekki fleiri dæmi svona í fljótheitum en það má endilega rifja þau upp fyrir mér sem ég hef gleymt.

Menningarvikan

Ég fékk senda bók í síðustu viku. Hún heitir Páfagaukagarðurinn og er eftir höfund sem kallar sig „Akörn“. Hún virðist hafa verið send eitthvað aðeins hingað og þangað og svo sá ég á Facebook að bókabúðin Skálda hefur fengið eitt eintak sem á að selja á 30 þúsund krónur – hún birtist bara þar og þetta var sett sem skilyrði. Ágóðinn fer til búðarinnar. Ég er búinn að lesa þessa bók – hún er ekki nema 100 síður – og hún er mikið afbragð. Svolítið einsog ef Cesar Aira myndi vinna með Yrsu að James Bond mynd. Eða ef Yrsa myndi skrifa handrit að James Bond mynd sem Cesar Aira væri látinn skrifa upp eftir minni. Eða jafnvel án þess að hafa séð myndina. Honum væri bara gert að ímynda sér þetta: Hvernig myndi James Bond mynd vera ef Yrsa skrifaði hana. Með cli-fi þema.

Mitt eintak er ekki til sölu.

***

Skólastjóri fyrir austan notaði gervigreindina til að skrifa fyrir sig útskriftarræðuna. Gervigreindin fann fyrir hana ljóð – greip sennilega það sem hendi var næst, sem var nafn digitalskáldsins Jóns Arnar Loðmfjarðar og einhver random lína um að vera næs. Þetta minnti mig á þegar forsetinn vitnaði í lokalínur Sumardagsins eftir Mary Oliver og sneri eiginlega merkingu þeirra á hvolf – sem fólk gerir reyndar, þessar línur eru í tilvitnanabókum – „Segðu mér, hvað ætlar þú að gera / við þitt eina, villta og verðmæta líf“ – og fólk tekur þeim sem „hvatningu“ þótt þær séu það augljóslega ekki í samhenginu. Í stað þess að fara í tilvitnanabækurnar fer fólk núna bara til gervigreindarinnar. Ég veit ekki hvort það er neitt verra. En mér finnst mjög fyndið að skólastjóri viðhafi vinnubrögð sem myndu kosta nemendur fall (sem er ekki að „nota“ gervigreindina – heldur að treysta henni blint og láta hana gabba sig).

Annars verður þetta vonandi til þess að fólk lesi ljóðin hans Lomma.

***

Það er Náttúrulögmálavika. Í dag er 11. júní, síðasti dagur Náttúrulögmálanna – dagur 7. Það er lengsti dagurinn í bókinni – honum er meira að segja skipt í tvennt. Í ár eru liðin akkúrat 100 ár frá sumrinu 1925. Af því tilefni fór ég upp á Gleiðarhjalla í gær. Sennilega í fjórða skiptið á ævinni – í eitt skiptið fór ég reyndar ekki alveg alla leið upp, lenti í ógöngum í ís og skrönglaðist aftur niður. Það er líka í eina skiptið sem ég hef ekki farið einn. Þá var ég í menntaskóla. Í næsta skipti þar á eftir fór ég á strigaskónum beint eftir vinnu í grunnskólanum – það var líka í snjó en í það skiptið komst ég upp og settist niður í klakann og skrifaði bréf. Og gekk svo aftur niður. Næst var líklega 2013, að sumri til, loksins. Ég ætlaði að fara meðan ég var að skrifa Náttúrulögmálin en fyrst sleit ég í mér krossband og svo eyddi ég heilu sumri með slæman hælspora og svo var bókin bara komin út.

Ég hef alltaf lent í ógöngum á leiðinni þarna upp, ef mig misminnir ekki. Í gær var ég kominn hálfa leiðina upp bratt moldarbarð/grjóturð þegar ég uppgötvaði að ég var hvorki með fótstöðu né grip neinsstaðar. Ég ofandaði svolítið þegar ég áttaði mig á því að ef ég færi að renna af stað myndi ég sennilega ekki stoppa neitt strax – og minnti mig svo á að það vitlausasta sem ég gæti gert væri að panikka. Stikaði síðan varlega niður aftur og fór upp í stórgrýtinu – sem er langskynsamlegast. Ég hafði dálitlar áhyggjur af niðurleiðinni en rataði miklu betri leið þá. Svo sér maður líka betur til þegar maður fer niður. Einhvern veginn er maður alltaf hálfblindur að klöngrast upp svona brattar brekkur. Í eitt skiptið fór ég upp vitlausa urð sem leiðir að ókleifu bjargi.

En þetta var gaman og fólk sem fer oftar en ég ratar léttari leiðir. Ég las aðeins úr bókinni og setti á samfélagsmiðla en aðaltilgangurinn var að taka upp smá kynningarmyndband fyrir sænska bókasafnsverði. Útgefandinn bað mig um þetta. Hann er mikill vinur minn og ég geri allt sem hann biður mig um.

***

Ég hef lítið lesið í vikunni. Annað en Páfagaukagarðinn. Nadja fór til Frakklands í síðustu viku og ég hef verið að vesenast alls konar. Í dag bar ég á pallinn og garðhúsgögnin. Á helginni reif ég upp ógurlegt hlass af kerfli, felldi eitt tré og hjó þriðjung af greinum annars. Garðurinn er allur annar á eftir. Svo hef ég verið að reyna að vinna en það er svolítið erfitt. Ég fer í sumarfrí í næstu viku og ég veit ég næ ekki að klára það sem ég er að reyna að gera og einhvern veginn verður það alveg til að stoppa mig af. Ég sest samt niður og reyni.

Eitthvað hef ég þó verið að líta í Kýklópinn – sem er næsti kafli Ulysses. Og horfa á bíómyndir. Fór á nýju Wes Anderson myndina í fyrrakvöld – The Phoenician Scheme – einsog með síðustu, Asteroid City, þá hefur henni víst ekkert verið alltof vel tekið en báðar þóttu mér afbragð. Ekki veit ég hvað það er sem fólk er ekki að sjá. En eitthvað er það. Kannski finnst fólki bara að það þurfi að skilja alla hluti – það finnst mér ekki. Mér getur alveg þótt gaman að lesa aftur og horfa aftur og skilja meira. En það truflar mig ekki neitt þótt eitthvað sé bara óskiljanlegt. Þannig er það líka í lífinu. Það er mjög margt sem ég skil ekki.

Í gærkvöldi horfði ég á American Beauty og spurði sjálfan mig hvort Kevin Spacey hefði verið svona góður í öllu sem hann gerði. Eða hvort mér þætti hann bara svona svakalegur af því það er auka-spenna í kringum hann út af skandölum einkalífsins. Einsog eitthvað undarlegt krydd. Hann er allavega alveg rosalegur í þessari mynd. Maður hefur í senn enga og alla samúð með honum – allt í botni og allt á botninum, dásamlegi aumingi, frjálsi sjálfhverfusjúklingur, hvataþræll úr böndum, skemmtilegasti og leiðinlegasti maðurinn í öllum samkvæmum.

Og svo af því ég var ekki kominn með nóg af miðaldra körlum sem þrá menntaskólastelpur sem þrá þá á móti horfði ég 25th hour. Þar er sá þráður reyndar ekki í fókus – Anna Paquin að reyna við ó-til-misviljugan Philip Seymour Hoffmann bara hliðarspor í sögunni um eiturlyfjasalann sem er á leiðinni í fangelsi. Það eru til margar kvikmyndir sem fjalla um eiturlyfjasala sem enda á því að eiturlyfjasalinn næst. Og það er til hellingur af myndum sem gerast í fangelsi. En það eru fáar sem gerast í bilinu þarna á milli – frá því hann næst og er dæmdur og þar til hann fer inn. Þetta er svona kveðjumynd – maður að yfirgefa líf sitt. Og kannski er hliðarsporið með Önnu og PSH önnur leið til þess að sýna okkur hversu lítið skilur að feigan og ófeigan – ef hann lætur freistast gæti hann glatað öllu einsog vinur hans. Þriðji vinurinn er svo hlutabréfasali sem manni finnst eiginlega alveg jafn mikið eyðileggingarafl – en hann er líka sá sem dæmir eiturlyfjasalann harðast. Þar er líka áhugaverð speglun.

***

Ég fór á frábæra djasstónleika í Hömrum á sunnudag. Bassaleikarinn Sigmar Þór Matthíasson fór þar fyrir sveit sem innihélt Inga Bjarna Skúlason á píanó, Hauk Gröndal á klarinett, Magnús Tryggvason Eliasen á trommur og Ásgeir Ásgeirsson á oud. Ég keypti plötu og sá eftir því einu að hafa ekki keypt tvær en ég var búinn að bjóða tveimur með mér og þetta var að verða svolítið dýrt.

***

Enn eitt árið missti ég af Skjaldborg. Sennilega hefði ég farið a.m.k. einn dag ef Nadja hefði farið fyrir helgi – en hún fór á laugardag og hefði ekki komist með mér og það hefði verið glatað að fara frá henni. Hvernig ætli fari annars fyrir Blús milli fjalls og fjöru – það er hátíð sem ég hef heldur aldrei komist á. Maðurinn á bakvið hana hét Palli – Spursari sem ég fór í nokkrar fótboltaferðir með, á meðan við pabbi vorum enn að láta sjá okkur í London af og til – og hann varð bráðkvaddur um daginn.

***

Orri Harðar er líka látinn. Orri var mikill öðlingur einsog ég held að allir sem hann þekktu geti borið vitni um. Og hafi gert, bæði síðustu daga og þennan tíma sem hann hefur verið veikur. Ég þekkti Orra mest úr fjarlægð. Hann bað mig að lesa yfir fyrir sig bækur – fyrst Alkasamfélagið og svo skáldsögurnar tvær, Stundarfró og Endurfundi. Mér fannst hann alltaðþví roskinn þá – eldri maður að söðla um. Hann var 36 ára þegar Alkasamfélagið kom út, ekki nema 6 árum eldri en ég.

Svo hitti ég hann stundum á förnum vegi. Fyrst fullan og svo edrú og svo aftur fullan og loks bara edrú í mörg ár. Þegar ég gaf út lag í tengslum við Frankensleiki fékk ég hann til að mastera það fyrir mig – sem hann gerði án þess að rukka krónu fyrir, vel að merkja, bara vessgú góði vin, takk fyrir og gúdd lökk.

***

Í sömu viku fóru Sly Stone og Brian Wilson. Þeir voru svo sem komnir á tíma – þrjátíu árum eldri en Orri. En það má minnast þeirra fyrir því.

Geitaostapasta

Af og til er Nadja* sérstaklega ánægð með matinn og þá reyni ég að nótera hjá mér hvað ég hafi gert. Stundum er það jafn einfalt og að vista einhvern hlekk á uppskrift  en ef ég var að kokka upp úr sjálfum mér er allt eins víst að ég gleymi hvað ég gerði. Pastað í kvöld var sérstaklega gott og þess vegna verður uppskriftinni haldið hér til haga – til viðmiðunar í framtíðinni.

250 grömm ferskt tagliatelle
2 stórir hvítlauksgeirar
1-2 msk ólífuolía
1-2 msk smjör
8 íslenskir „tropical“ tómatar (sirka kirsuberjatómatar)
Hálf geitaostalengja (svona með húð er betri)
Sirka hálfur desilítri af hvítvíni
Lítil lúkufylli af ferskri basiliku
Tvö stór egg
Salt og pipar (vel af pipar)

  1. Ég byrjaði á að sneiða hvítlaukinn og steikja í góðri ólífuolíu á lágum hita.
  2. Pipraði vel og saltaði.
  3. Þegar þetta var farið að ilma skar ég tómatana í fernt og setti þá út í – hækkaði hitann smá en gætti þess að brenna ekki hvítlaukinn.
  4. Eftir smástund setti ég smjörið út í og leyfði þessu að malla þar til það var orðið svolítið sósað.
  5. Þá brytjaði ég geitaostinn niður og bætti honum við – lækkaði hitann aftur.
  6. Eftir 2-3 mínútur setti ég hvítvínið út í og hækkaði hitann í augnablik en lækkaði svo aftur.
  7. Hrærði eggin í skál.
  8. Sauð pastað í vel söltu vatni og geymdi líklega hátt í tvo desilítra af vatninu.
  9. Hellti restinni af vatninu af og setti pastað aftur í heitan pottinn.
  10. Bætti eggjunum út í og hrærði vel svo eggið myndi eldast án þess að steikjast og húða pastað.
  11. Setti svo gumsið af pönnunni út í pottinn og saxaða basilikuna þar á eftir.
  12. Vatnið notaði ég til að þynna sósuna. Ég hélt ég myndi í mesta lagi nota 1 dl en ég endaði á að nota það allt. Hún var ekki þurr en næst geymi ég meira.

Með þessu bar ég fram hvítlauksbrauð og aspas sem var jafn lengi í ofninum – kannski 10-15 mínútur. Aspasinn með ólífuolíu, pipar, sítrónu og parmesan.

* Börnin voru sem sagt ekki heima. Annars hefðu þau fengið að borða líka.

Biskup og bylting og ljóð

Biskup Íslands er að koma til Ísafjarðar. Í næstu viku verða liðin hundrað ár frá atburðum Náttúrulögmálanna. Ég reikna með að það sé þess vegna. Og kem ekki nálægt fjallinu fyrren hún er farin.

***

Ég er enginn flokksmaður. Gekk úr vinstri-grænum út af meðferð stjórnvalda – í skjóli flokksins – á hælisleitendum og gekk í sósíalistaflokkinn eftir að hafa lýst því yfir að ég myndi aldrei aftur ganga í stjórnmálaflokk. Gekk svo úr sósíalistaflokknum þegar hæsthafendur þar voru farnir að mæla með nauðungarvistun fólks í sóttkví. En samúð mín er augljóslega vinstramegin í tilverunni – þar sem hjartað slær – og ég vildi helst að hér væri starfhæfur flokkur vinstramegin við Samfylkinguna. Sem er ekki. VG fór til andskotans vegna þess að hún sinnti ekki grasrótinni og var of dugleg við að „axla ábyrgð“ í borgaralegu stjórnmálalandslagi en sósíalistaflokkurinn implóderaði vegna innri átaka. Og mikilmennskubrjálæðis sjálfskipaðra leiðtoga sem virtust farnir að máta sig við styttur framtíðar. Báðir flokkarnir eru „ennþá til“ en varla samt. Þeir eru í senn autt spjald og vel útfyllt – það veit enginn hvernig þeir koma til með að líta út eða fyrir hvað þeir munu standa næst en þeir dragnast með fáránlega fortíð og illafmáanlega stimpla.

***

Tilfinning mín er sú að þegar hallarbyltingar eru framdar í stöndugri stjórnmálaflokkum þá sé oftast talsverð orka lögð í að halda mönnum góðum þegar átökin eru yfirstaðin. Að bera vopn á klæðin. Finna hinum sigruðu hlutverk – þeir sem fá ekki að vera skipstjórar verði stýrimenn. Af því að hverjum frontmanni fylgja margir kjósendur sem fara í burtu. Fylgjendur. Og fylgjendurnir eru flokksstarfið.

Þá hefur flokkurinn sem slíkur líka ábyrgst þá sem hafa verið í forsvari og trúverðugleiki flokksins í framtíð stýrist af trúverðugleika hans í fortíð. Það er meira að segja þannig að trúverðugleiki nýrra hreyfinga róttækra sósíalista er átomatískt í hættu strax frá byrjun – út af öllum hinum róttæku sósíalistahreyfingunum sem hafa klofnað í heift og frekju. Ef stjórnmálaflokkur lýsir því alltíeinu yfir að margir frambjóðendur úr nýafstöðnum kosningum séu í raun og veru algerir afglapar – og alls ekki þær byltingarhetjur sem flokkurinn kallaði þá þá, þá* er kjósandi úti í bæ ólíklegur til að leggja traust sitt á næsta holl af andlitum.

(Þrjú „þá“ í röð. Það er fyrir svona tilþrif sem maður fær listamannalaun).

Þá er heldur ekki gott fyrir trúverðugleika nýrra valdhafa að þeir frambjóðendur sem er boðið að halda áfram – jafnvel kallaðir óskoraðir leiðtogar – ranghvolfi bara augunum og gangi í burtu. Það lítur svolítið út einsog fólk tali ekkert saman og hafi enga tilfinningu hvert fyrir öðru.

Einhvers staðar kemur líka að því að n´ógu margir séu flognir í veg til þess að vafasamt sé að kalla þetta sama flokkinn. Ef 400 heimdellingar ganga í sósíalistaflokkinn og bola nýju valdhöfunum út samkvæmt reglum lýðræðisins á næsta aðalfundi – til þess að hirða styrkinn – er það þá ennþá sósíalistaflokkurinn? Það er allavega ekki það sem fólk kaus – og það eru atkvæðin sem skila þessum styrk.

Það er heldur ekki gott fyrir trúverðugleika fólks sem hefur „betri vinnubrögð“ að slagorði að helmingur þeirra sem hafi unnið með þeim finnist vinnubrögð þeirra bera mark ofríkis og frekju. Og er þá alveg sama hvort maður heitir Gunnar Smári eða Karl Héðinn eða Sólveig Anna (eða hvort manni finnst allir aðrir geðveikir að sjá ekki réttlætið í vinnubrögðunum). Góð og lýðræðisleg vinnubrögð fela í sér ákveðna virðingu fyrir skoðunum þeirra sem maður vinnur með, líka þegar þær fara ekki alveg saman við manns eigin skoðanir – ef nýjum valdhöfum sósíalistaflokksins væri annt um að sýna slíka virðingu hefðu þau gert það frekar en að stefna að hreinni valdatöku og eyða svo næstu dögum í áframhaldandi skærur og brigsl. Sök sér að þeir sem bolað var burt tali beiskum rómi – en eiginlega er beiskjan og frekjan verri hinumegin. Það er mjög undarlegt að fá frekjukast yfir því að hafa fengið allt sem maður óskaði sér.

Og svo er ágætt að hafa það í huga líka að ef maður ætlar að kljúfa stjórnmálaflokk er betra að bitinn sé nógu stór til þess að þola að fara í tvennt. Það getur alveg verið ástæða til þess að fremja hallarbyltingar – þær eru áreiðanlega oft bráðnauðsynlegar – en það verður að vera einhver höll eftir þegar þær eru afstaðnar. Að kljúfa 3% flokk í herðar niður út af reglum um það hvernig er kosið í nefndir og áherslum um það hvort betra sé að eyða sjóðum flokksins í fjölmiðlun eða félagsfundi – no es bueno.

***

Kanadíska ljóðskáldið Paul Dutton lést í morgun – ríflega áttræður. Dutton er goðsögn í framúrstefnuljóðaheiminum. Hann var meðal annars meðlimur í hljóðljóðasveitinni The Four Horsemen, ásamt bpNichol, Steve McCaffery og Rafael Barreto-Rivera. Og gaf út fjöldann allan af tilraunabókmenntum, bæði prósa og ljóðum. Hann var líka einn af þessum mönnum sem inspíreruðu margar kynsl´óðir með (kvabbgjarnri) hlýju sinni, húmor og einurð.

Einsog einhverjir kannski muna átti ég mér einu sinni svolítinn feril sem hljóðljóðaskáld og ferðaðist mikið til þess að koma fram hér og þar. Þegar Aram Nói var lítill og spurður við hvað pabbi hans ynni sagði hann „pabbi öskrar á fólk“ og það var ekki alveg úr lausu lofti gripið.

Nema hvað. Árið 2007 var mér boðið á Scream-hátíðina í Toronto – þar sem var nú almennt ekkert mikið öskrað, þetta var bara ljóðahátíð þótt hún héti þessu nafni – á viðburð sem Angela Rawlings skipulagði. Þar var hefð fyrir því að para fólk saman í upplestrum og Angela paraði mig saman við Paul og við komum þar saman fram. Sá viðburður tókst svo vel að okkur var boðið að koma aftur árið eftir og endurtaka leikinn á stóra sviðinu – en lokadagur Scream fór alltaf fram á Shakespeare sviðinu í High Park fyrir framan ríflega þúsund gesti sem sátu og hlustuðu á ljóð og drukku vín frá því um eftirmiðdaginn og langt fram í myrkur. Það var mjög gaman og ótrúlegur heiður – Paul var ein af hetjunum mínum, að fá að lesa með honum var feykinóg en að við næðum svona vel saman og það gengi upp var hreinlega ölvandi.

Sterkasta minningin frá þessu er samt ekki frá uppákomunum heldur þegar við eyddum hálfum degi í að æfa saman í íbúð Angelu, þar sem ég gisti, í Kensington Market. Kensington Market er rosalega líflegt hverfi og það var stanslaust reggea-dub á blasti hjá rakaranum á neðri hæðinni – kryddmarkaðir og grillstaðir fyrir utan með tilheyrandi ilmum og steikjandi hiti – við þarna inni fyrir framan risastóra og háværa loftkælingu að garga ljóð hver á annan og drekka vatn í lítravís svo það liði ekki yfir okkur.

Mikilmenni er gengið – lengi lifi minniningin!

Sen – og listin að lifa af hálfum bjór

Það er eiginlega bráðfyndið að fá bæði bókasafnssjóð og forlagsuppgjör í sömu vikunni. Bókasafnssjóðurinn var skorinn niður um 21% – sem þýðir 21% skerðing á tekjum fyrir útlán (þetta er eitthvað sem fjármálaráðherra ákveður bara með einu pennastriki og gerir held ég á hverju ári – það er engin regla og ekkert öryggi) og svo eru Storytel tölurnar í forlagsuppgjörinu.

Ég á eina ljóðabók á Storytel sem heitir Hnefi eða vitstola orð – bók sem var ort í hruninu miðju og fjallar meðal annars um verðlausa peninga, í stað blaðsíðutals er gengi krónunnar gagnvart evru (ég bjó í Finnlandi en var með tekjur í krónum). Frábær bók – mæli með henni. Hún var ekki spiluð oft í fyrra – átta sinnum. Og það seldust jafn mörg fýsísk eintök í bókabúðum, átta. Hún er 12 ára gömul og selst væntanlega mest á stóru bókaútsölunni og þar sem ég fæ bara hlutfall af því verði frekar en fast gjald nær það ekki hundrað kalli sem ég fæ fyrir eintakið. En á Storytel fæ ég 2,8 krónur á spilun. 23 krónur ALLS. Og það er ekki á afsláttarmarkaði og maður fær þar jafn mikið fyrir nýjar bækur og gamlar. Til að setja það í samhengi er klassísk – og ágæt – sala á ljóðabók í kringum 300 eintök. Ef sú sala færðist öll yfir á Storytel myndi ég hala inn 840 krónum í höfundalaun. Í gamla daga þegar maður þvældist frá knæpu til kráar með bækur í poka var manni stundum boðinn bjór fyrir bók – sem var yfirleitt kannski hálfrarbókarverð – en maður var blankur og langaði í bjór og þáði það yfirleitt þótt manni þætti það pínu niðurlægjandi. Nú er allt upplagið komið niður í hálfan bjór.

Einu sinni kom ég að kunningja mínum þar sem hann sat yfir hálfum bjór á þriðjudagsmorgni. Ég spurði hvort hann væri dottinn í dagdrykkju og hann svaraði að annar maður – ívið drykkfelldari en við – ætti bjórinn en væri farinn. Hvert er hann farinn, spurði ég. Í meðferð, var svarið. Hann sagði að þetta væri komið gott.

Nú hugsa ég það sama. Þetta er kannski komið gott.

***

Ég hló að inngangi Jónasar Sen um Carmina Burana. Um kórastarfið. Það minnti mig kannski á stemninguna úr Fiðlaranum í fyrra. Það þarf alveg sérstakt verklag og undarlega blöndu af aga og kæruleysi til þess að halda úti svona stórum hópi í áhugamennsku. Og það verður alltaf léttgeggjað. Ég var líka næstum búinn að senda þetta á konuna mína með broskalli – hún er í kvennakórnum og var nýkomin úr kórdjammtónleikaferðalagi. Og ég hef heyrt frá a.m.k. einhverjum úr þeim kór sem fannst þetta líka fyndin lýsing.

En kannski er bara ekki lengur í tísku að hafa húmor fyrir sjálfum sér? Á einhverju bili áhugamennsku og fagmennsku hlýtur fólk líka að taka sig mest alvarlega – það fylgir kannski bara. Þar sem maður er að slíta sér út og reyna að sanna sig. Viss tegund áhugamennsku er á því leveli að manni dugar að koma fólki á óvart – „ekki vissi ég að hann gæti haldið lagi.“ En önnur er að reyna að gera sig gildandi á einhverju æðra stigi. Og þá er spurning hvort maður vilji að gagnrýnandi hanteri kórinn einsog hann væri kór atvinnumanna eða kór áhugamanna.

Svo er þetta reyndar tvennt aðskilið. Dómurinn og inngangurinn. Og kannski var kerskninni í innganginum verr tekið vegna þess að dómurinn var ekki mjög jákvæður.

Ég er með veika kenningu sem gengur út á að það sé erfiðara að vera gagnrýnandi eftir því sem maður þarf að gagnrýna fleira fólk í einu. Ef þú skrifar neikvæða ljóðabókagagnrýni verður ljóðskáldið sárt –og kannski mamma háns. En ef þú skrifar t.d. um leiksýningu þar sem 30 manns koma að siturðu uppi með heilan her af fólki sem fer saman á barinn til að baktala þig og æsir hvert annað upp. Og ef þú hefur þetta að atvinnu þarftu ekki að vera óánægður með nema eina sýningu á ári til þess að fólki finnist þú vera alger sadisti. Fólk sér nefnilega ofsjónum yfir ærlegri neikvæðni.

Ég bað einu sinni hóp af fólki að skjóta á hlutfall neikvæðra dóma á Starafugli – sem hafði fengið á sig orð fyrir að vera mikið í slátrunum. Flestir skutu á sirka helming, fáir fóru undir þriðjung. Staðreyndin var að það náði ekki fimm prósentum. En fólk les frekar neikvæða dóma – og kannski var helmingurinn af lestrinum á neikvæðu dómunum.

Kenningin hefur samt tvo veika punkta. Annars vegar þá eiga ljóðskáld stundum vini og stundum ekki. Ég hef horft upp á gagnrýnendur fá yfir sig ægilegar holskeflur vegna ljóðabókadóma af því ljóðskáldin voru vinamargar týpur eða fólk sem kallar fram einhverja tegund af samstöðu og kærleika (fólkið sem „gengur inn í herbergi og lýsir það upp“ – en er ekki endilega betri ljóðskáld en þeir sem gera það ekki). Og ég hef horft upp á ljóðabókum slátrað í fullkominni kyrrþey – sem er eiginlega bara mjög sorglegt. Þetta varnarviðbragð reiðra vina er kannski líka fallegt og kannski líka hluti af lífkerfinu – þótt það geri gagnrýnendum oft erfitt fyrir.

Sem ritstjóri Starafugls fékk ég mikið af skilaboðum frá fólki sem vildi ekki skrifa lengur af því tilfinningalega álagið af því að hafa dissað eitthvað var of mikið – fólk (segjum það bara: milleníalar) lenti í einhverjum vítahring samviskubits og gremju eftir atlögur netleiðis frá reiðum stuðningsmönnum ljóðskálda. Og ákvað að fara bara að sinna einhverju öðru. Krísa gagnrýni á síðustu árum – sífellt færri fagmenn, sífellt verr borgað, sífellt færri almennilegir staðir til birtingar – er nefnilega líka krísa áhugans á því að gagnrýna. Og það er bara að verða mjög algeng afstaða að þetta sé ekki til neins – hvers vegna ætti einhver karl úti í bæ að hafa skoðun á skáldsögu/kvikmynd/skúlptúr? Kemur einhverjum við hvað honum finnst og er verið að segja að skoðun hans sé merkilegri en skoðun mín – sem las sömu bók, sá sömu kvikmynd og sama skúlptúr? Eru ekki bara allar upplifanir jafnar? Og þessa hugsun spegla gagnrýnendur líka oft sjálfir – bæði með því að hætta og með yfirdrifinni auðmýkt gagnvart eigin skoðunum (ég hef líka oft hitt fólk sem hefur gagnrýnt eitthvað listaverk og það komið mér á óvart hvað þeim fannst í raun og veru – og hvernig þau breiddu yfir það með því sem sumir kalla kurteisi og fagmennsku).

Hinn veiki punkturinn í kenningunni er að þeir gagnrýnendur þjóðarinnar sem mér koma til hugar og hafa helst leyft sér að vera með … hvað eigum við að kalla það, snúð, miklar listrænar kröfur, skæting? – eru flestir að sinna mannmörgu listgreinunum, stórsveitartónlist og leiklist. Og að minni reynslu er það líka fólkið í þeim bransa sem er mótfallnast gagnrýni sem slíkri. Ég þekki leikhúsfólk sem vill hreinlega láta banna gagnrýnendur í húsi – ef ekki bara brenna á báli – en öll ljóðskáldin sem ég þekki þyrstir í gagnrýni (og það var ekki öðruvísi upp úr aldamótum þegar neikvæðir bókadómar voru algengari).

Rassgat á floti

Á dögunum sat ég einn á kaffihúsi. Á næsta borði voru tvær konur með ungbarn. Lattémamma og vinkona hennar sem var að sjá barnið í fyrsta skipti. „Hann er algert rassgat,“ sagði vinkonan um ungbarnið. Og ég hugsaði: Er þetta ekki svolítið eitraður talsmáti? Af hverju þarf hún að líkja barninu við sóðalegasta op líkamans? Það er ekkert við ungbörn – og alls ekki þetta ungbarn – sem kallar á svona talsmáta. Ungbörn eru einmitt yfirleitt sérstaklega hrein, einhvern veginn – meira að segja það sem kemur út um „rassgatið“ á þeim sjálfum er undarlega hreint. Ég bjóst við að nú yrði uppi fótur og fit en mér til furðu virtist lattémamman alls ekki taka þetta nærri sér. Og raunar þvert á móti. „Ég veit!“ hrópaði hún upp yfir sig. Og hló. Það vantaði bara að hún þakkaði vinkonu sinni fyrir þessa hárfínu en nákvæmu greiningu á barninu hennar. Hvað er ég eiginlega að hlusta á? hugsaði ég ´a næsta borði. Eru mæður orðnar svo uppteknar af instagramfullkomnuninni að minnsti „galli“ á börnum þeirra verði til þess að þær taki undir með ljótustu svívirðingum vina sinna í þeirra garð – svona einsog þær hefðu óvart keypt ólögulega peysu á Shein! Eða klúðrað góðri myndlíkingu. Ég gat vel að merkja ekki séð neinn galla á þessu barni, það virtist alveg jafn fullkomið og önnur ungbörn, en eitthvað hlýtur að hafa kallað fram þessi viðbrögð. Kannski var það með asnalegan fæðingarblett, sem ég gat ekki séð (þótt ég væri nú reyndar farinn að teygja höfuðið svolítið) – en jafnvel þó svo væri! Halló!

Mér varð svo aftur hugsað til þessa þegar ég las frétt í DV um hlaðvarpsstjórnanda sem hafði orðið fyrir svipaðri reynslu nema hann sat nærri hópi karla sem kölluðu hver annan aumingja og viðhöfðu alls kyns vægast sagt óvinalegar svívirðingar hver í garð annars. Mikið er, hugsaði ég, að einhver er farinn að taka tungumálið alvarlega. Mikið er að einhver skilur að orðin sem við beitum hafa bókstaflega merkingu sem má fletta upp í orðabók og samskipti fólks eru ekki einhver „leikur“ þar sem hægt er að skýla sér á bakvið að maður hafi meint eitthvað annað en maður sagði BÓKSTAFLEGA.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar, segi ég nú bara. Kurteisi kostar ekkert.

***

Í algerlega ótengdum fréttum held ég að þessi þjóð mætti alveg við því að verða læsari á texta – talaðan og ritaðan.

***

Fyrir mjög löngu síðan kenndi ég stórkostlegum ungum manni ritlist. Þessi maður var með einhverja greiningu sem var útskýrð fyrir mér þá en ég gæti ekki haft eftir núna. En hún birtist meðal annars með þeim hætti í skrifum hans að hann átti gríðarlega erfitt með að segja ósatt og gat eiginlega ekki skilið á milli þess að ljúga og að skálda. Til að byrja með skilaði hann bara inn verkefnum sem voru sannsöguleg – það er sannarlega alltílagi, mörg bestu skáld heimsins ljúga aldrei (viljandi). En eina vikuna bað ég hann sérstaklega að gera tilraun til þess að segja upplogna sögu – búðu til persónur, sagði ég, sem eru ekki til, og láttu þær gera eitthvað, það þarf ekki að vera merkilegt. Viku síðar fékk ég þannig sögu – mjög einfalda sögu um karl og kerlingu í koti sínu nema hver einasta setning innihélt einhvers konar fyrirvara. „Karl og kerling bjuggu í koti sínu nema það var ekki til í alvöru, bara hérna í sögunni. Þau áttu son sem var ekki heldur til en ég bý hann til hérna af því Eiríkur sagði mér að gera það.“ Og svo framvegis. Þetta var alveg dásamlegur texti og til marks um það hvað hömlur geta verið skapandi – hvernig þær geta þvingað okkur til þess að gera eitthvað virkilega frumlegt. Og þegar þær eru okkur jafn eðlislægar og þessar hömlur þessa manns þá eru þær líka nánast hjartskerandi einlægar.

***

Gosi er búinn að gefa út plötuna Á floti. Í dag sem sagt – á streymisveitum og vínyl. Gosi er fyrst og fremst Andri Pétur Þrastarson en stundum miklu fleira fólk og í hljómsveitaruppstillingu erum við Baldur Páll Hólmgeirsson sennilega algengustu meðlimirnir. Við spilum í tveimur lögum á plötunni – Anda Klaka og Hafið – en kunnum þau orðið öll og ætlum að spila þau með fleirum (allavega Söru Hrund Signýjardóttur og Ástu Kristínu Pjetursdóttur og Mörtu Sif Ólafsdóttur) þann 29. þessa mánaðar í Edinborgarhúsinu.

Smellið hér til að hlusta hjá sænsku arðránsmafíunni.

Hvítur reykur

Það er kominn hvítur reykur. Þegar þetta er skrifað er samt ekki vitað hver verður nýr páfi. Svíar þykjast líklegir til sigurs – og gætu þar með unnið bæði Páfagarð og Eurovision sömu vikuna. Eurovisionlagið – Bara bada bastu – er samt eiginlega næstum finnskt. Ég hef ekki heyrt það – hef varla heyrt Væblagið.

Ekki langar mig í kreddur kaþólsku kirkjunnar. En það er ekki laust við að ég öfundi fólki af andlegri sannfæringu. Og að traustar stofnanir vekji með manni aðdáun á upplausnaröld – a.m.k. þegar upplausnin er mestanpartinn fasísk.

* * *

Fagurbókmenntir eru að víkja fyrir léttmeti. Lestur er að víkja fyrir hlustun. Íslenskan er að víkja fyrir ensku. Skáldsagan að víkja fyrir sjónvarpinu. Ritlistin að víkja fyrir gervigreindinni. Og það er allt útlit fyrir að lærdómi verði útvistað til hennar líka – á svipaðan hátt og upplýsingum var útvistað til internetsins. Það er að segja, lærdómur hættir ekki að vera til frekar en upplýsingar eða upplýsingamiðlun, heldur leysist hann upp og við firrumst honum – í marxíska skilningnum – einsog maður firrist öllu verki við að beita stórtæku verkfæri, einsog það er ekki það sama að smíða borð með höndum og smíða borð með mannlausri verksmiðju. Að ýta á takka og fá borð. Að ýta á takka og fá ritgerð. Ýta á takka og fá skáldsögu.

Hvaða tilgangi þjóna þá listrænar bókmenntir? Eru þær einhvers konar viðnám? Rými þar sem annars konar veruleiki, lærdómur, upplifun getur átt sér stað? Eða eru þær bara lútuleikur á öld tölvunnar? Eða bæði?

Á öld sjálfsins og representasjónarinnar – fulltrúunar – er kannski ekkert eðlilegra en að við fáum öll klæðskerasniðnar sögur um okkar eigin sjálf. Mamma mín hefur skrifað þannig sögur fyrir barnabörnin sín öll – með myndum, þar sem þau geta séð sig sjálf í bókum. Það er fjarska fallegur gjörningur. Ég er ekki viss um að það verði jafn fallegt á stórum skala.

Annars væri áhugaverð spurning – fyrir Black Mirror höfunda, ef engan annan – hvort fólk myndi heldur vilja skáldsögur um sig og sín vandamál eða fantasíur? „Skrifaðu 300 blaðsíðna sögu um hálffimmtugan tveggja barna föður á Ísafirði sem er að æfa fyrir maraþon og er alltaf að slíta á sér kálfavöðvana“ vs „Skrifaðu 300 blaðsíðna sögu um hálffimmtugan geimriddara í fjarlægu sólkerfi sem sigrast á geimfasískum öflum“. Hefðbundið hlutverk sagna er að gera þetta tvennt – stundum bæði í einu. Að veita einhvers konar fulltrúun – sem getur verið að segja sögur þeirra sem fá annars ekki sagðar um sig sögur, en líka að greina og ræða vandamál einstaklinga og hópa í tilteknum (sögulegum) aðstæðum – og hjálpa okkur að stíga út úr kvíðvænlegum raunveruleika. Sem er ekki bara að veita skemmtun, en er líka að veita skemmtun (listrænar skáldsögur eiga líka að veita skemmtun; léttmeti þarf ekki að veita neitt umfram skemmtun).

En svo stendur sagnamennska ekki og fellur með bókmenntum. Þörfin til þess að segja og heyra sögur er ´óháð miðli og gæti reynst óháð því hvort sögurnar eru sagðar af mönnum eða vélum. Það á eftir að koma í ljós.

Það sem helst kemur í veg fyrir að klæðskerasniðnar og persónulegar sögur taki yfir „bókamarkaðinn“ er þörf okkar til þess að upplifa sameiginlegan veruleika – til þess að ræða Dallasþáttinn frá því í gær eða bókina efst á vinsældalistanum. Og það sem ver höfundinn fyrir gervigreindinni er einfaldlega seleb-kúltúr – enda eiga frægustu höfundar samtímans það allir sameiginlegt að vera á einn veg eða annan fjölmiðlavænir. M.a.s. þeir sem spila Pynchonleikinn vekja áhuga fyrir að vera dularfullir og lítt gefnir fyrir að fara í viðtöl. Það er líka múv – þótt það sé áreiðanlega útgefandans/agentsins að gera það áhugavert. En við viljum að höfundurinn sé „persóna“.

Annars er alveg líka spurning hversu mikið maður eigi að vera að velta þessum dauða fyrir sér – því er eins farið um dauða bókmenntanna og dauða manns sjálfs að hann kemur þegar hann kemur og ef maður eyðir tíma sínum í að hafa áhyggjur af honum er allt eins líklegt að maður missi af því sem skipti máli: lífinu.

* * *

Nýr páfi er: Robert Prevost. Leó fjórtándi.

Þú last það fyrst hér.

Hey, hey; maí, maí

Það er fyrsti maí. Apríl búinn. Svo ég tíðfæri frægt ljóð eftir Andra Snæ. Svona fer tíminn með bókmenntirnar. Það ætti kannski einhver að skrifa bók um það.

Ég stend mig stundum að því að íhuga hvort ég meini vel. Ég veit ekki hvers vegna það blasir ekki við. Kannski vegna þess að ég tel að maður sé alltaf að einhverju leyti líka fórnarlamb fleiri hvata. Eða fýsna. Ég finn alveg að það er eitthvað innra með mér sem glennir upp augun af spenningi þegar allt fer til andskotans. Sem hrópar jei! þegar Trump er kosinn forseti. Af hreinum og klárum leiða, býst ég við. Megirðu lifa áhugaverða tíma – var ekki kjaftæði að það sé kínversk bölvun? Las ég það ekki einhvers staðar? En það er allavega áhugaverð spurning hvort maður vilji eða vilji ekki lifa áhugaverða tíma. Og hvort áhugaverðir tímar séu nokkurn tíma trámalausir. Ég er að horfa á Say Nothing og stend mig að því að halda stundum með IRA. Eða allavega Dolours. Og þegar einhver er á flótta undan löggunni vona ég að viðkomandi komist undan. Samt veit ég að þau hafa kannski verið að sprengja fullt af saklausu fólki í loft upp. Myndi nokkur hugsa svona, sem meinti vel? Kannski er það þess vegna sem ég efast.

En sennilega vill maður nú samt bara lifa svona mátulega áhugaverða tíma. Það er gaman í rússíbönum alveg þar til vagnarnir fara að þeytast af teinunum á fullri ferð.

Svo er spurning hvað það er sem gildir. Að meina vel við enda dags. Þegar er allt kemur til alls. Eða hvort maður þurfi að meina vel í hverju skrefi, hverja sekúndu, hverri hugsun. Og hvort maður eigi að refsa sér – með skömm, ef ekki öðru – fyrir allar ljótar hugsanir. Sekúndubrotin sem maður brýtur af sér.

En kannski er það líka vegna þess að ég kæri mig illa um að láta segja mér hvað mér eigi að finnast um hitt og þetta. Eða að ég megi ekki efast um hitt og þetta. Megi ekki einlæglega krefjast þess að ég sé sannfærður með rökum frekar en siðferðislegu skylduboði. Ég held ég hafi nú samt mannúð og jöfnuð og virðingu að leiðarljósi og niðurstöðurnar séu eftir því.

Ætli það sé til fólk sem hugsar aldrei ljótt? Það er víst stutt frá hugsun að gjörðum líka svo maður ætti i sj´álfu sér að gæta sín að því hvað maður hugsar. Jafnvel þótt það sé smátt.

Annars hugsaði ég ekkert lj´ótt í dag. Ég veit ekki hvers vegna ég er að spá í þessu. Ég fór í ræktina og vinnuna og kröfugöngu og horfði á son minn spila með lúðrasveitinni og konuna mína syngja í kvennakórnum og hlustaði á ræður og skemmtiatriði og borðaði kökur í Guðmundarbúð og spjallaði við kanadískan rithöfund um sköpunargáfuna og gerði tómatsúpu í kvöldmat og æfði mig á kontrabassann og á eftir ætla ég í ókeypis bíó í boði verkalýðsfélagsins. Þetta var góður dagur, fullur af fallegum hugsunum.