Untitled

Vil ég skrifa ljóð fyrir nýjan amerískan krimmabálk sem gerist á Vestfjörðum? Áætluð sala er um 15 þúsund eintök per skáldsögu – en guð einn veit hvað gæti orðið. Höfundurinn er áhugasamur um að það sé alvöru ljóðlist, skrifuð af alvöru ljóðskáldi, í bókinni. *** Því miður eru engin laun í boði, en mikil dreifing og athygli. Exposure . *** Vil ég það? Er þetta áhugavert prójekt? Ég veit ekkert meira um prójektið en þið. *** Það er náttúrulega alltaf niðurlægjandi að vinna ókeypis að verkefni sem veitir öðrum tugmilljónir í hönd. Hvað sem öðru líður. Að ímyndaður eða raunverulegur aðstöðumunur – mín sem er smábæjarskáld á jaðri hins byggilega heims og krimmahöfundarins sem er stórborgarhöfundur (í vinfengi við Stephen King!), að ótöldu forlaginu („one of the big five“) – geri það að verkum að ég eigi að vinna fyrir hann fyrir enga peninga. Vegna þess að hann elskar ljóðlistina svo mikið. Og vegna þess að það er í því „exposure“. Hann er svo stór að stærð hans stækkar mig átomatískt. *** En maður vinnur ekki exposed. Vinnur ekki fyrir dagsljósið nema maður sé algerlega sviptur því annars. Hér er nóg dagsljós. Það er alveg ljóst. Ég þarf að svara manninum. *** Svaka frétt á RÚV um öll skáldin sem eru á faraldsfæti. Sem er auðvitað ekki frétt, skáld eru alltaf á faraldsfæti, sérstaklega árin eftir Frankfurt, grunar mig. Stærsti hópurinn er að fara á Les Boreales í Frakklandi – þangað fórum við Nadja saman fyrir tveimur árum, og skemmtum okkur vel. Á sama tíma verð ég (svo ég fái nú að koma mér að á mínu eigins bloggi, fá svolítið exposure) í suður Frakklandi, í miklu betra veðri og með betri mat (hah!) á bókmenntahátíð í Toulon. Lise vinkona mín hjá forlaginu ætlar að koma og selskapa, og vinkona hennar Marie, sem er bókmenntaprófessor og ítölskuþýðandi, ætlar að koma og við ætlum að sturta í okkur Chartreuse einsog enginn verði morgundagurinn, einsog við höfum gert a.m.k. tvisvar áður. En frá þessu er ekki sagt í Ríkisútvarpinu! Sem fyrirlítur mig af því ég elska sjókvíaeldi, RÚV only has eyes for Reykjavíkurhippsterar og  það elskar mig enginn!  *** Enginn! *** Ég var annars eitthvað að velta þessu eldi fyrir mér um daginn og eldisblæti mínu, sem nær reyndar lengra og dýpra – þetta er blæti fyrir nærri allri matvælaframleiðslu. Mér finnst ekkert heiðvirðara en að framleiða mat. Það hefur ekki beinlínis með mat reiðslu blæti mitt að gera, sem er annað, heldur bara þetta – að framleiða matvæli er að viðhalda lífi sem er að búa til líf og það er ekkert fallegra, ekki neitt. Ég fæ líka alveg aðsvif þegar ég sé bændur að störfum eða drekkhlaðna togara koma siglandi inn fjörðinn. Love it, einsog Siggi Sigurjóns í Dalalífi, og get ekkert að því gert (nema að hafa húmor fyrir því). Lít rækjuverksmiðjuna sem ég vann í sem barn og unglingur með nostalgíu sem hún á áreiðanlega ekkert skilið (ég var mjög glaður síðasta daginn minn, rétt ríflega tvítugur, að þurfa aldrei að koma þarna inn aftur). Án þessarar rækjuverksmiðju, hugsa ég, myndu svona 200 manns svelta í hel daglega. *** Mér fannst líka mjög gaman að eiga stóra frystikistu áður en hún gaf upp öndina. Að kaupa  skrokk með Vali bróður. Ég sem get ekki einu sinni eldað kjöt nema endrum og eins, af því konan mín borðar það ekki (og ég nenni ekki að elda margar ólíkar máltíðir daglega, nema einmitt endrum og eins). Ég notaði hana líka til að geyma afganga í miklu magni (sem Nadja hitar þegar ég er á ferðalögum), og heimatilbúinn súpukraft og rækjuskel (til að búa til rækjukraft) og alls konar. Litli frystirinn á (annars fallega rauða) ísskápnum mínum rúmar varla klakann í kokteilana mína. *** Það var líka gaman að fara á markaðinn í Víetnam. Það var alvöru. Og ég vissi oft ekkert hvað ég var að kaupa. Bara  mat . Og svo  lagaði maður  matinn.  Einsog hann væri ekki fullkominn, beint af kúnni. *** Ekki að það sé ekki líka gaman núna. Mjög gaman. Ég var að klára plokkfiskafgangana sem ég tók með mér í hádegismat og snart er kaffen klar, einsog segir í vísunni. Ég kannski sendi ameríkananum þá vísu bara. Segist hafa skrifað hana sjálfur og þetta sé á íslensku, hvort það sé nokkuð verra?

Untitled

Óveðrið var ekki langlíft hér á Vestfjörðum og nú kyngir niður snjó í stillunni. Það er að vísu helst til hlýtt og sennilega situr þetta ekki lengi. En í mínum gamla heimabæ, Hoi An, er allt á kafi. *** *** Af myndum að dæma hefur þó lítið farið fyrir fellibylnum í Hoi An eða Danang – þar sem Trump og Pútín og fleiri eru að fara að hittast í næstu viku (Danang er þriðja stærsta borg Víetnam og liggur 40 mínútna akstur frá Hoi An – það er APEC ráðstefna yfirvofandi). Á þessu svæði hefur aðallega bara rignt. Myndirnar eru flestar teknar í gamla bænum sem liggur niðri við ána og þar gerist svona nokkuð a.m.k. árlega – og ég hef séð eldri myndir þar sem vatnið kaffærir allri fyrstu hæð, 2-3 metra dýpi. Þetta er ekki nema svona 40 sentimetrar og gerð húsanna tekur mið af slíku – fólk er með sitt aðalhafurtask á annarri hæð, fyrstu hæðir þessara steinhúsa eru oft frekar tómlegar og allt á auðflytjanlegum einingum. *** Myndirnar frá Ðalat og fjallahéruðunum eru miklu rosalegri. Þar hafa tré rifnað upp með rótum og aurskriður verið miklar og virðist almennt meira panik – fólk að bjarga verðmætum. Myndirnar frá Hoi An eru muy tranquilo. Ég myndi skrifa nágrannakonu okkar, Hien, og spyrja um ástandið, hún er sú eina sem við erum í sambandi við, en Hien er bara flutt til Sai Gon. *** Þegar við bjuggum þarna rigndi einu sinni svona svakalega. Það var utan regntímabilsins (sem lýkur á bilinu seint í nóv. til seint í des.) – sennilega í mars. Brast bara á með ægilegu regni í nokkra daga. Fyrir utan hjá okkur, sem er ofar í bænum við „venjulegri“ götu – þessi miðaldabær er eiginlega bara búðir og veitingastaðir – var ekki nema nokkurra sentimetra flæði í götunni. En ég hjólaði í bakaríið með Aino á bakinu og fór þá eftir Tran Hung Ðao og Cua Ðai, sem liggja meðfram gamla bænum, og þar náði vatnið upp á húdd bíla, og mitt læri á mér. *** Ég finn enga mynd af þessu. Sennilega tók ég enga. En hér er mynd af börnunum mínum í Hue – þegar við brugðum okkur þangað í helgarferð – þetta hefur verið kaldur dagur. Það er líka vatn á myndinni, þótt það sé ekki flóð.

Untitled

Eftirtaldir kokteilar eru núna í eftirlæti hjá mér: Pisco Sour, Negroni, Laughing Buddha. Ég þarf að herða mig í blönduninni og gera betri Old Fashioned-a, Dark’n’Stormy-a og Sazeraca. Ég hef enn ekki séð sjarmann í Martini. Ég er of mikill lúterani í sálinni til að geta drukkið BlóðMaríur í þynnkunni og finnst þær eiginlega hvergi passa annars staðar. Mjög góðar samt. Svo blandaði ég mér einn frumsaminn kokteil á dögunum úr ylliblómagosi, fannst hann góður, en man ekkert hvað ég setti í hann. *** Gerði samt bærilegan Dark’n’Stormy í kvöld. Vantar bara dekkra romm í það. Mér skilst það sé lögbrot að kalla drykk Dark’n’Stormy ef það er ekki bermúðskt Gosling romm í honum – þetta er skrásett vörumerki. En ég átti ekkert svoleiðis, notaði bara Flor de Caña frá Níkaragva, sem var aðeins dekkra en Habana Clubið mitt. En þetta eru auðvitað gylltir drykkir frekar en dökkir – Gosling er nánast svart. *** En hér er sem sagt Dark’n’Stormy. Hávaðastormur svo timburkumbaldinn Sjökvist leikur á reiðiskjálfi og auðvitað kolniðamyrkur. Dagurinn fór í að setja vetrardekk á hjólakost fjölskyldunnar (Aino fær vetrardekk að ári en verður í farþegasætinu hjá mér fram á vor), svo fórum við í sund – ég stakk af snemma til að fara í búðina og koma heim og gera jóga áður en gengið mætti (við erum extramörg í kotinu; sautján ára systurdóttir Nödju er í heimsókn með hálfsársgamlan son sinn). *** Svo hirti ég gamla hnetusósu sem ég átti í ísskápnum – hafði hrært sem ídýfu þegar við átum ferskar vorrúllur á dögunum – þynnti hana með kókosmjólk og dembdi yfir kjúkling og bleikju sem var eldað í ósköpunum. Næst tók ég brauðdeigið sem lá hér frá í gær og gerði úr því hálfgert naan, og hafði með þessu, auk hrísgrjóna og gúrku- og tómatsalats. *** Eftir mat – og eftir að ég hafði lagt Aram og Aino, við erum að lesa Framúrskarandi konur fyrir Aino (sem framúrskarandi konan amma hennar þýddi) og Nils Hólmgeirsson (sem er kallaður Nilli í bókinni en ég get ekki sagt, af hverju má hann ekki bara heita Nils, eða í versta falli Níels?) eftir Selmu Lagerlöf – sem sagt eftir mat blandaði ég mér þennan kokteil og lagðist í sófann með Bill Evans í eyrunum, storminn innra með mér á vörunum og storminn ytra í glugganum, og Ko Un í öllum öðrum vitum. Og fannst einsog það skorti kannski lífsháskann í líf mitt. *** Ég hef hugsað talsvert um lífsháska síðustu daga. Og lífsháska lífsháskans í íslenskum bókmenntum. Þetta er voða mikið … list listarinnar vegna er rangt orð. Sköpunargleði sköpunargleðinnar vegna, kannski – og þessi ægilegi viðstöðulausi fögnuður (nú er kokteillinn farinn að tala). Svo ég segi ekki dundur. Fínt, fágað, hugmyndaríkt en einsog það hafi ekki kostað viðkomandi neitt og sé bara gert til þess að eiga starfsferil við eitthvað skemmtilegra en að afgreiða í búð. *** Íslenskir stjórnmálamenn væla of mikið og gráta ekki nóg, skrifaði ég inn á Facebook (hvaðan ég er horfinn) þegar kollegar mínir í vinstrinu voru að missa sig yfir „krókódílatárum“ Ingu Sæland – sem mér þóttu virðingarverð. Kannski má hið sama segja um íslenska listamenn. *** Tahar Ben-Jalloun var einu sinni á Íslandi og nefndi að sér þætti voða gott að sjá að Íslendingar þyrftu ekki að skrifa um alvarlega hluti, af því hér væri lífið svo auðvelt. Ég sá viðtal við tónlistarmann á dögunum þar sem hann talaði af mikilli alvöru um þunglyndi og alkahólisma í bransanum og leiðir til þess að vinna bug á … blúsnum. Ég stóð mig að því að hugsa að von bráðar sætum við kannski uppi með mjög hamingjusama listamenn og leiðinlega list. *** Ekki vanhagar mig allavega um neitt. Líf mitt er hreinn lúxus frá morgni til kvölds alla daga vikunnar. Mitt stærsta vandamál er að eiga of fáar rommtegundir í vínskápnum mínum.

Untitled

Getgátur um þann sáttmála sem stjórnmálaflokkarnir fjórir reyna að berja saman í sumarbústað Sigurðar Inga (eða eru þau annars staðar í dag?) eru merkilegt sport. Píratar þurfa að fórna öllu, þetta verður dýrkeypt fyrir Samfylkingu, Vinstri Græn verða látin virkja og Framsóknarflokkurinn svíkja bændur. Samt veit enginn hvað fólk er að tala um, nema bara grófu línurnar – að allir þurfi að miðla málum, sem segir sig sjálft, líka í tveggjaflokkastjórnum. *** Það er líka áhugavert að heyra fulltrúa flokkanna tala um að nú verði að vinna að stóru málunum en láta hin sitja á hakanum. „Hin“ eru – sennilega, út á það ganga a.m.k. getgáturnar – stóru málin í flokkunum sjálfum, hjartaspurningarnar heitir það á sænsku. ESB og það allt saman. Það sem fólki utan flokksins finnst oft bara vera meinlokur. Beint lýðræði pírata. Ég átta mig reyndar ekki á því hvað það væri í VG – kannski að einkarekstur væri meira tabú en hann er, allavega vinstra megin, og grænumegin að virkjanir yrðu stöðvaðar. Hvað vilja Framsóknarmenn, innst inni, veit það einhver? Hvað er inni í Framsóknarmanni? *** En þessar getgátur sem sagt, kannski mínar líka, eru sennilega mest hugsaðar til þess að skapa óró í grasrótinni – sem bíður einsog allir aðrir eftir svörum. Að fólk fari að hringja í Þórhildi Sunnu og öskra reitt að ef það fái ekki stjórnarskrá muni það hér eftir klippa krossgátur föður hennar úr blöðunum og henda þeim í ruslið óleystum. *** Þetta er harður bransi. *** Við Nadja fórum út að borða í gær. Og svo í drykki hjá Geira og Leu – hlustuðum á Kraftwerk, AC/DC og Massive Attack. Og reyktum sígarettur á svölunum (aðallega ég samt, eða bara ég, Geiri gasaði sig). Fjöllin voru fögur. Nú ætla ég út í snjóinn að hlaupa af mér sígaretturnar. Hlaupa uppi lífið og heilsuna. Og hér er sem sagt allt á kafi í snjó, best að setja á sig mannbroddanna, engar á ég snjóþrúgur. Og hlýju peysuna, síðu nærbuxurnar. Ekki seinna vænna, stefnir víst í storm.

Untitled

Svo er víst alþjóðlegi samlokudagurinn. Ég fékk mér súrdeigsloku með niðursneiddum svínabóg, súrsuðum gúrku, chilimajonesi, rauðkáli, rauðlauk, kokteilsósu og aromati. Í hádegisverð. Allt heimalagað frá grunni, nema aromatið.

Untitled

Í morgun var ég (einsog venjulega) á hlaupabrettinu og þá byrjaði (einsog venjulega) einhver frekar lélegur (einsog venjulega) sjónvarpsþáttur en þar var engu að síður – óvenjulegt nokk – lögð fram áhugaverð kenning um skáldskap, nánar tiltekið frásagnarlistina, að það væru til sjö ólíkar tegundir af sögum (og einungis sjö – þótt mælandi hefði fljótlega bætt áttundu tegundinni við líka, þá var það í gríni). *** Maður gegn manni. Maður gegn hundi. Hundur gegn uppvakningi. James Bond. Sögur af konungum og lávörðum. Konur á sextugsaldri finna sig í kjölfar skilnaðar. Bílaauglýsingar. *** Spurningin sem vaknar í höfði mér er þá einfaldlega hvort að sögur sem fjalla um menn (fólk) sem kljást við sjálfa sig sé undirflokkur af fyrsta – maður gegn manni (þá sjálfum sér) – eða sjötta, konur á sextugsaldri finna sig í kjölfar skilnaðar. Hugsanlega má reyndar umorða sjötta flokkinn, með aðeins minni kvenfyrirlitningu, og segja: Forréttindamaður vorkennir og vinnur í sjálfum sér. Ofdekraður vesturlandabúi leitar að tilgangi lífsins. Eitthvað þannig. Þessi umorðun er vel að merkja ekki fordómalaus, einsog mætti ímynda sér á ætlun minni að svipta hana kvenfyrirlitningunni, en hvað er svo sem fordómalaust, þegar maður lítur undir húddið? *** Bókmenntir eru líka alltaf tegund naflaskoðunar. Líka bílaauglýsingarnar og hundur gegn uppvakningi. Einhver sagði að vísu – og ég las það nýlega en man ekki alveg hvar – að rithöfundar ættu að eyða meiri tíma í að rýna sársauka annarra en sinn eigin, en meira að segja þegar maður rýnir í sársauka annarra finnur maður, greinir og ertir sinn eigin. Bókmenntir eru kannski tegund naflaskoðunar sem fer þannig fram að rithöfundurinn reynir að brjótast út úr sjálfum sér með því að fara í gegnum naflann – einsog einhvers konar ormagöng (ég held ég hafi nefnt þetta í ljóði einu sinni). Maðurinn er sem sagt fastur í sjálfum sér og aldrei eins fastur og þegar hann situr á eintali og enginn situr jafn mikið á eintali og rithöfundar (og jájá, það á fólk að lesa þetta allt, og ég verð mjög foj ef þið hunsið mig, hættið að dá mig, en ég er bara að tala við mig, tack så mycket, einsog alltaf). *** Að öðru. Það er orðið svo mikið af fyrirtækja- og stofnanafánum. Allir flaggandi. Leikskólarnir, bensínstöðvarnar, innheimtustofnun sveitarfélaga, Nettó, menntaskólinn – allir eru með fána. Það er mjög lítið af þjóðfánum – hér er það aðallega fyrir utan Kaupmanninn, sem flaggar alls konar fánum, sennilega ætlar hann lokka til sín útlendinga með því að sýna þeim og menningu þeirra áhuga. Annars búum við í fyrirtækja- og stofnanaræði. Og ef við búum í fyrirtækja- og stofnanaræði erum við aftur í gamaldags lýðræði þar sem einungis efnamenn og aðall hefur atkvæðisrétt. Samfélagið fer fram á lokuðum stjórnarfundum.

Untitled

Svo er það búið að vera að gera mig vitlausan í allan dag og alla nótt  að myndin sem fékk í gær Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs, Tyttö nimeltä Varpu, sé alltaf kölluð „Little Wing“ eða „Litli vængur“. Til hvers haldið þið eiginlega að google translate sé? Myndin heitir „Stúlka að nafni Varpu“.

Untitled

Epískur bugunardagur. Við Aino vöknuðum seint. Ég þurfti beinlínis að draga hana á fætur einsog þunglyndan ungling klukkan 10. Hún er fjögurra ára. Og sofnar klukkan átta á kvöldin, vandræðalaust, vaknar ekki á nóttunni eða er með annað svefnvesen. Haustið er bara að gera út af við okkur. *** Sjálfur er ég líka orkulaus. Vanmáttugur. Liðleskja á sál og líkama. Ég veit ekki hvað veldur. Nema það séu fjármálin. Þau eru í hönk. Ég byrjaði daginn á því að skipta kreditkortareikningum og senda út neyðartölvupósta til þeirra sem skulda mér fé. Ég á von á hellings peningum – búinn að selja Óratorrek til Svíþjóðar, Gæsku til Frakklands og Illsku til Spánar – en guð einn veit hvenær þeir skila sér. Uppgjör vegna sölunnar á Óratorrek hér á landi kemur ekki fyrren í júní. Og ég fékk einhvern lífeyrissjóðsreikning í hausinn og einhvern skatt og alls kyns óvænt rugl. Þarf að gæta mín í matarinnkaupum þennan mánuðinn. Og ekki kaupa neinn óþarfa, ekkert neyslurugl! *** Það er svo mikið rugl að vera í svona óreglulegum tekjum. Og það venst aldrei. Aldrei, aldrei, aldrei. *** Haukur Már er með svaka fínt viðtal við tölvukubb í Kvennablaðinu í dag. *** Halla Mía var með magnaða úttekt á Hvalárvirkjunarruglinu á RÚV-vefnum í gær. Langt, ítarlegt, væmni- og hlutlaust – og afhjúpar vitleysuna, sem er ekki síst fólgin í ósnortnum víðernum af óvissu, heilu hálendunum af giski um mögulega framvindu mála á næstu árum og áratugum. Enn sem fyrr segi ég þetta: Mér finnst einsog hér ætli menn að selja sig ódýrt. *** Ég vil samt ekki vera sérfræðingur að norðan (Árneshreppur er nærri því jafn langt frá Ísafirði og Reykjavík). Og mér finnst eitthvað kjánalegt við að „verndun“ þessara svæða sé alltaf á forræði lífsleiðra fínimanna í Reykjavík – forstjóra og lækna. Rosa nýlendufílingur í þeim samskiptum öllum. Og heimamenn fastir á milli IKEA forstjórans öðru megin og Barón von Bongó Liebenstein, eða hvað hann aftur heitir sá ágæti maður, hinumegin. *** Það er líka tómt mál að tala um þjóðgarða og friðlönd sem tekjulind að svo stöddu. Meir að segja þar sem eru friðlönd – einsog á Hornströndum – fylgja því engar tekjur.  Það er einfaldlega engum peningum veitt í þetta. Ef menn vilja múta Árneshreppingum væri miklu nær að taka upp einhvers konar skattaundanþágur – fella niður tekjuskatt í sveitarfélaginu. Eða eitthvað. Tekjur sveitarfélagsins af virkjuninni, þegar hún er komin í gagnið, eru bara 15 milljónir á ári. Það er sennilega einsog samanlagt útsvarið af Tómasi lækni og forstjóra IKEA. *** IKEA í Árneshreppi? Legudeild? Er ekki hægt að vinna eitthvað með þessar hugmyndir? *** Sennilega verður Hvalárvirkjun reyndar að veruleika. Kapítalið ræður, að minnsta kosti þegar rétt fólk á hagsmuni sína undir og HS Orka er í klíkunni. Ef það væri einhvers konar hrein vinstristjórn í kortunum er séns að virkjunin færi út – en einsog niðurstaðan var úr kjörkössunum er það eiginlega jafn útilokað og að Teigskógarmálið leysist á næstu árum. Það verður virkjun og það verður enginn vegur og mér finnst svona heldur sennilegra að það verði sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. *** Ég keypti mér súkkulaðisnúð. Hef séð fyrir mér að hann, og kaffi, muni vinna bug á bugun minni. Falleg setning annars. Muni vinna bug á bugun minni.

Untitled

Í frétt Ríkisútvarpsins um verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í kvöld eru bara talin upp þau verk sem Íslendingar hafa tilnefnt. Þetta er lýsandi fyrir eyjasamfélagið. Okkur er sama um þetta nema að svo miklu leyti sem það viðkemur okkur sjálfum. Verkunum frá hinum norðurlöndunum er líka almennt sýnd lítil virðing eða áhugi. *** Svíar eru líka svolítið svona, nema af ólíkum ástæðum. Svíar eru mjög „sjálfum sér nægir“ – þeim finnst alveg sinn níu milljón manna kúltúr duga sér. Norðmenn, Danir og Finnar eru miklu opnari fyrir umheiminum, fyrir bókmenntum hinna norðurlandanna, sem dæmi. Fyrir þessu hef ég fundið. Íslendingar og Svíar eru „insular“ – einungrunarsinnar, eyjaálfur í sjálfum sér. *** En móðgun samt að Ríkisútvarpið skuli ekki gera betur. Þar innanhúss á fólk einfaldlega að vita betur. *** Ef ég væri tilnefndur myndi ég meira að segja, hér á litla blogginu mínu, nefna við hverja ég væri að keppa. *** Annars var ég að leggja lokahönd á undirbúning nýs ljóðabókaátaks Starafugls og panta allar ljóðabækur útgefnar 2017 (að undanskildum fjórum sem enn hefur ekki tekist að koma út og svo bók ljóðaritstjórans Lomma og minni eigin – við fáum ekki að vera með). Las þar með listann og fór að velta fyrir mér komandi tilnefningum og verðlaunum og þvíumlíku. Ég hef lítið komist yfir að lesa bækurnar enn, vel að merkja, en það sló mig hversu fáar ljóðabækur eldri höfunda eru. Bragi Ólafs er með bók, Kristín og Hallgrímur en annars eru nær allir undir fertugu. *** Nú eru komin ný verðlaun – Maístjarnan – sem er bara ætluð ljóðskáldum. Þau vann Sigurður heitinn Pálsson síðast. Annars eru ljóðskáld auðvitað líka gjaldgeng til annarra bókmenntaverðlauna, svo sem Íslensku bókmenntaverðlaunanna – og bóksalar veita sérstök verðlaun fyrir ljóðabækur. Ljóðabækur hafa líka stundum verið áberandi í menningarverðlaunum DV (finnst mér endilega að ég muni rétt). DV hefur líka oft verið sér á báti – á meðan hin verðlaunin raðast svolítið á sömu bækurnar. *** Dagur Hjartarson fer af stað með látum og fær fimm stjörnur hvívetna. Ætli hann sé þar með ekki sennilegastur? Jónas Reynir er þegar verðlaunaður fyrir Stór olíuskip en gæti bætt á sig. Fríða Ísberg (sem er sú eina sem ég er búinn að kaupa en á ólesna) hefur líka fengið hæp. Mér finnst einsog það fari minna fyrir Eydísi Blöndal núna en þegar hún gaf út Tíst og bast en það gæti líka helgast af því að hún hefur verið í framboði þar til á síðustu helgi. Lommi á eina af bestu bókum ársins en það hefur lítið farið fyrir honum. Kristín Ómars hefur fengið mikið hrós fyrir sína (sem ég efast ekki um að hún á skilið, en ég hef ekki komist í hana enn). *** Ég ætla allavega að spá því að Maístjarnan næst falli í skaut „ungskáldi“ – einhverjum undir 35 ára sem hefur gefið út færri en fimm bækur. *** Og þetta gat ég alveg ólesinn. Hugsið ykkur bara hvað þetta verður auðvelt starf fyrir dómnefndirnar! *** Við þá sem fussa og sveia og spyrja sig hverju svona nokkuð skipti nú eiginlega vil ég segja þetta: Þeir sem vinna verðlaun fá ritlaun, útgáfusamninga, þýðingar erlendis, boð á ljóðahátíðir o.s.frv. Þeir sem vinna verðlaun fá að vinna við að skrifa, hinir fá að skúra gólf og skrifa í frístundum. *** Og þar með skiptir þetta auðvitað mestu fyrir þá sem eru ekki þegar drekkhlaðnir. *** Að því sögðu á besta bókin auðvitað að vinna. Annars glata verðlaunin sjálf gildi sínu fljótlega. Og ég gaf náttúrulega út bestu bókina. En til vara spái ég þá að efnilega ungskáldið fái önnur verðlaun, á eftir mér, sem er bestur.