Í hjartanu

Leikurinn endaði 3-1 fyrir óheppni minni. Fluginu í gær var aflýst. Ég fékk samt fría gistingu á gömlu loftleiðum og kvöldmat og tók því bara rólega en ég missti af bíókvöldi með fjölskyldunni og græddi aukaferðadag. Komst hálfa leið í gegnum Kul eftir Sunnu Dís. Sem mér skildist á Heimildarrýninni að væri síðri hlutinn – myndin af lífi aðalsöguhetjunnar er enn mikið að koma í ljós og svo sem ekki margt gerst. Mér er þvert um geð að segja bækur langdregnar – af því mér finnst það upphefja lesleti og ég fíla tíma í bókmenntum, að maður dvelji með þeim – en ég get ímyndað mér að einhverjum þætti þetta langdregið. En að sama skapi er mikið af upplýsingum þarna – eða vísbendingum – ég er enn að reyna að átta mig á því hvað sé að. Bókin gerist á tilraunaheilsuhæli sem er augljóslega á Flateyri – fílingurinn í tilraunahælinu, listasmiðjur og kajakferðir, er meira að segja svolítið einsog ég ímynda mér að fílingurinn geti verið í Lýðskólanum. Aðalsöguhetjan er í einhvers konar kulnun – en það hvílir augljóslega meira að baki. Stundum held ég að það sé bara eitthvað tráma sem sé smám saman að koma í ljós, stundum virðast þetta vera einhvers konar reiðivandamál (eða bæling á reiði – það er ofsi í sögupersónunni en hún kannski öskrar ekki mikið) en kannski er ég líka eitthvað að spegla hana í Elskling sem ég sá í bíó á útleiðinni og lifir með mér. Landsbyggðarmyndin? Eftir lestur síðustu ára er ég alveg að verða sérfræðingur í því hvernig vestfirsk þorp birtast í bókum – mér finnst þetta sannfærandi lýsing á Flateyri, en með þeim formerkjum þó að flestar sögupersónurnar eru utanbæjarmenn „í leit að sjálfum sér“ eða að „hlaða batteríin“ eða hvað maður kallar þetta fjallablæti borgarbúa (en það er einmitt það sem maður gerir á heilsuhælum, held ég, hleður batteríin og finnur sig, meira að segja á stórborgarhælum). En Flateyri er líka rosalega mikið þannig staður. Kannski helst að fjarvera útlendinga sé áberandi. En þá er þetta auðvitað ekki Flateyri – þetta er ónefndur staður í bókmenntaverki og lýtur sínum eigin demógrafísku lögmálum. Hér tók ég pásu til að reyna að fljúga til Ísafjarðar. Við hringsóluðum smá og flugum svo aftur til baka í Vatnsmýrina. 4-1 fyrir óheppni minni. Næsta athugun er klukkan 12. Í fluginu komst ég langleiðina út á enda. Una – söguhetjan – er á leiðinni aftur til Reykjavíkur. En hún kemst auðvitað ekki nema að það verði flogið. Sem er í sjálfu sér ekki mjög líklegt.

Vélin vestur

Fagur dagur í Reykjavík. Var kominn í rúmið í Keflavík upp úr þrjú og rétt náði morgunverðarleifunum á hótelinu fyrir lokun. Stökk svo upp í strætó niður í miðborg og kíkti í bókabúð – Skálda er lokuð á sunnudögum svo það var Eymundsson í Austurstræti. Langaði að byrja á jólabókaflóðinu og Eymundsson á Ísafirði er einsog Skálda lokuð á sunnudögum. Náði mér í Kul eftir Sunnu Dís – sem byrjar á lendingu á Ísafjarðarflugvelli. Eða því sem hlýtur að vera Ísafjarðarflugvöllur. Kláraði bók II af Rúmmálsreikningnum í fluginu. Og frönsku seríuna Détox (drasl, en alltílagi til að hlusta á frönsku og reyna að skilja eitthvað). Og Eternal Sunshine of the Spotless Mind – sem ég hafði nærri alveg þurrkað úr minni mínu á þeim tuttugu árum sem eru liðin frá því ég sá hana. Mig langar að vita hvenær næstu bækur í Rúmmálsreikningnum koma út. Þetta á auðvitað að vera einsog með Harry Potter að þetta komi út á alvöru tempói og jafn óðum. Bókaútgefendur hljóta líka að stórtapa á okkur sem gætum hæglega útvegað okkur svona bækur á öðrum málum – allar fjórar eru komnar á sænsku og ég get svo sem alveg lesið dönsku. Og er svo sem líka með það á langtímaplaninu að koma dönskunni, norskunni og líka þýskunni í eitthvað nothæft ástand. Það er mest æfingaleysið sem heftir mig – en manni leiðist að æfa sig, þá verður maður andstuttur og illt í vöðvunum. Og manni finnst maður svo vitlaus að skilja ekki allt. Þannig fer illa með litla viðkvæma egóið mitt. Bíð nú eftir manni á Rosenberg. Er þetta ekki borgarlífið sem ég var að óska mér í gær? Americano á Rosenberg og svo tölum við áreiðanlega um bókmenntir, ég og vinur minn, sem er frægur rithöfundur. Við höfum að vísu ekki tíma til að fá okkur pizzu og fara í bíó af því ég þarf að ná seinni vélinni vestur.

2-1

Fluginu mínu var frestað um tvo tíma. Sem þýðir að ég lendi ekki fyrren eftir tvö í nótt. Fjögur að pólskum tíma. En svo kom taskan mín önnur af bandinu í Varsjá svo ég er ekki bara óheppinn. En svo kom líka í ljós að einhver hafði gleymt að láta mig vita af því að maður yrði að tékka sig inn netleiðis – ég bókaði ekki flugið mitt sjálfur og fékk ekki tölvupóstana til útskýringar á þessu – svo ég þurfti að leggja út 8 þúsund krónur til þess að mega tékka inn. Svo ég er þá meira óheppinn en heppinn. Það er tvö-eitt, einsog leikar standa. En kvöldið er ungt. Í fluginu frá Katowice til Varsjár hlustaði ég á nýtt hlaðvarp Benedikts. Viðtöl Einars Kára við Brynju Hjálmsdóttur, Tómas Ævar Ólafsson og Dag Hjartarson og fannst þau öll svo gáfuleg og dásamleg bara. Blátt áfram og blátt áfram áhugasöm um það sem þau eru að gera – vel lesin og greinilega í einhverri samræðu – og alltíeinu langaði mig að búa í borg og tilheyra einhverri svona bókmenntakreðsu sem hugsar um eitthvað annað en stjórnmál allan liðlangan sólarhringinn (það er ekki fólkið í kringum mig sem gerir það heldur internetið, internetið er bara svo stór hluti af upplifun minni af öðru fólki – og sjálfsagt á það við um alla). Fer í bíó og borðar pizzu. Og ég var sem sagt eitthvað svo bókmenntavongóður eftir þessa hlustun. Svo lenti ég í Varsjá og tékkaði mig út og náði í töskuna og tékkaði mig inn og fór í flugvallarbókabúðina og þá varð ég alltíeinu bókmenntasvartsýnn af því það var SVO MIKIÐ af bókum – sem maður gæti í sjálfu sér ætlað að væri gott en vandamálið var að mig langaði ekki að lesa nema mjög lítið af þessum bókum. Og ekki af því þetta væri allt eitthvað sjoppudrasl. Ég tók upp The Fraud eftir Zadie Smith og hugsaði bara: nei, ég nenni ekki að lesa meira eftir Zadie Smith. Einsog ég væri bara búinn að uppgötva hana. Hún gæti ekki boðið mér upp á neitt nýtt. Sem er auðvitað ekki satt. Þegar mér finnst bækur vera of margar verð ég líka kvíðinn yfir því að vera sjálfur að bæta í þennan haug. Hvers vegna þarf svona ógurlega margar bækur? Hver á að lesa þetta allt saman? Sennilega var ég bara með lágan blóðsykur. Í hádeginu fékk ég mér lítið zapiekanka (sem er pólskur réttu sem er einsog kroppsæla með engu loki – kroppsæla er ísfirskur réttur, samloka með hakki, lauk, osti og sósu) en hafði ekkert borðað annars og klukkan orðin átta. Ég fór og fékk mér hamborgara og kom svo aftur í bókabúðina og keypti The Books of Jacob eftir Olgu Tokarczuk. Ég hugsa að ég lesi hana samt ekki alveg strax. Hún fer á náttborðið og ég les hana eftir áramót. Hún er líka næstum þúsund síður og það er svo margt á dagskránni. Jólabókaflóðið og Gravity’s Rainbow þar efst á blaði. Annars er ég byrjaður á Rúmmálsreikningi II. Þetta er alveg dæmalaust – umturnandi bókmenntaverk. Ég hélt að Ali Smith væri nýi uppáhaldshöfundurinn minn en kannski er bara kominn tími til að skipta. Strax! Varla nema ár eða tvö síðan ég gekk í Ali-liðið.

Þrjú flug

Þrjú flug. Það er það sem ég þarf yfirleitt til þess að komast eitthvað. Eitt frá Ísafirði, eitt á einhvern flugvöll til millilendingar og svo eitt þaðan á áfangastað. Og svo þrjú til viðbótar til baka. Ekki getur þetta verið mjög gott fyrir umhverfið. Mestu skiptir samt hvað mér sjálfum leiðist þetta. Ekki kannski flugið sem slíkt en allt havaríið í kringum það. Fyrst flýg ég til Varsjár – þar þarf ég að sækja töskuna mína og tékka mig aftur inn í Keflavíkurflugið. Svo þarf ég að gista í Keflavík (enda komið fram yfir miðnætti þegar ég lendi). Og á morgun flýg ég svo heim. Mig dreymir um að fljúga beint. Ef einhver finnur upp sjálfstýrandi flugbíl skal ég gerast vinur einkabílsins. Annars finnst mér skemmtilegast að fara um fótgangandi. Nú eða á hlaupum, það er líka ágætt, þótt ég hafi lítið notað hlaupin beinlínis til þess að komast á milli staða.

Síðasti dagurinn í Póllandi

Hér hef ég heyrt mikið af tónlist sem ég hafði ekki heyrt lengi. Veitingastaðir – sérstaklega í Kraká – spiluðu mikið af 90’s poppi og rokki. No Doubt og Metallicu. Mér fannst samt steininn ekki taka úr fyrren ég sá risastóra auglýsingu fyrir fyrirlestur með Francis Fukuyama – sem ég vissi ekki einu sinni að væri til lengur. Einhvern veginn segir það eitthvað um endalok sögunnar. Kannski lifir hann bara tíunda áratuginn aftur og aftur. Hér er kannski í einhverjum skilningi ennþá 1990 – fólk enn að díla við arfleiðina sem fylgir falli kommúnismans. (Í öðrum skilningi er ágætt að halda því til haga að ég er ekki að taka undir einhverja fordóma um að Pólland sé „eftirá“ – enda er það í fyrsta lagi fáránlegt konsept, í öðru lagi er nostalgía og 90’s æði mjög í móð um veröld víða 2024, og í þriðja lagi á það ekki við um neitt nema einstaka eiginleika – ég heyrði músík sem ég hef ekki heyrt lengi, sá plakat með Fukuyama og svo er ýmislegt staðnað í pólitíkinni). Ég átti gott spjall við fólk í gær – um pólska sögu, samskiptin við Úkraínu (sem eru sögulega erfið en allir ákveðnir í samstöðu í dag) og vinstrimennsku. Það er svo undarlegt – eða kannski er það ekkert undarlegt – að allir Pólverjar sem ég hef kynnst eru frjálslyndir vinstrimenn af einu eða öðru taginu. En allt sem maður heyrir um pólska pólitík er auðvitað ekki það – það er hrottaleg og íhaldssöm hægrimennska. Hér hljómar auðvitað sakleysislegasta vinstrislagorð einsog maður sé að kalla á endurkomu kommúnismans (vinir mínir fullyrtu að á tíunda áratugnum hefði gamli kommúnistaflokkurinn verið svo áfram um að sanna að hann væri ekki kommúnistaflokkur að hann hefði eiginlega orðið nýfrjálshyggjuflokkur). Ég fann líka fyrir því að fólk væri í vörn. Mér var margsagt að Pólverjar væru ekki íhaldssamir. Þeir væru ekki hommahatarar. Og svo framvegis. Og ætli fólki sé ekki vorkunn. Í fyrsta lagi ýkjast svona hlutir sjálfsagt eitthvað í fréttalinsunni (alveg einsog ég hitti aldrei vinstrisinnaða Pólverja les ég aldrei fréttir um Pólland sem fjalla ekki um hægrimennskuna – einsog það sé ekki annað í fréttum). Og í öðru lagi er óþarfi að gefast upp fyrir þeirri sjálfsmynd að maður sé vondur – það er áreiðanlega hollt að horfast í augu við sjálfan sig en maður má samt ekki falla fyrir rangri narratífu um sjálfan sig, skipa sig í hlutverk vonda karlsins. Ef maður ypptir öxlum og segir: jæja, þá, við hötum homma – er líklegt að það verði sannara en ella. Altso, ég skil varnarstöðuna. Ég spurði líka út í seinni heimsstyrjöldina og lögin um að maður mætti ekki tala um samstarf Pólverja við nasista en veiddi lítið – vinir mínir sögðu að það væru engin lög í Póllandi sem takmörkuðu tjáningarfrelsið (note to self: skoða það nánar) og þótt þeir tækju undir að auðvitað hefðu sumir Pólverjar unnið með nasistum þá virtist þekking þeirra á sögu pólska samstarfsins talsvert takmarkaðri en þekkingin á pólsku andspyrnuhreyfingunni. Altso, þegar ég spurði um óþokka fékk ég sögur af hetjum. Aftur varnarstaða sem ég skil og þegar ég fór yfir það sem ég þekki af litháískri sögu í þessum efnum (sem er umtalsvert meira en ég veit um pólska sögu) kinkuðum við öll kolli og sammæltumst um að við ættum öll rætur í bæði óþokkaskap og hetjuskap – myndin væri margbrotin og það væri áskorun að takast á við hana og að við værum öll (mismikil, kannski) fórnarlömb sögunnar. Eitt sem mér verður líka reglulega hugsað til hérna: Á sjöunda áratugnum flykktust sænskar konur til Póllands í fóstur … ég get ekki vanið mig af þessu. Þungunarrof. Af því sænska folkhemmet var íhaldssamt en pólski kommúnisminn ekki – kommúnistar ætluðu a.m.k. í orði kveðnu líka að útrýma feðraveldinu, en sósíaldemókratar, sem hafa gjarnan verið hófsamari, stóðu vörð um það á norðurlöndum. Í dag hefur þetta snúist við – eftir hrun kommúnismans tók kaþólskan eiginlega við sem móralskur vegvísir – og sænskir sósíaldemókratar eru hættir að verja feðraveldið (og raunar hættir að verja jöfnuð líka – hafa hlutað sundur folkhemmet og selt einkaaðilum). Að vísu held ég að Svíar takmarki fóstureyðingar við fólk sem er með fasta búsetu í landinu svo þeir eru kannski ekki byrjaðir að endurgjalda pólskum konum greiðann frá því í gamla daga – en það kannski kemur að því.

Hástertur

Ég sporðrenndi fyrsta hlutanum af Rúmmálsreikningsseptólógíu Solvejar Balle. Af áfergju. Ef hún heldur þetta út – sjö bækur af sama krafti, sömu dýpt og sama bókmenntalega intensíteti – er þetta einfaldlega sögulegt. Á Joyce-skalanum sögulegt. Annars var ég bara að leggja hana frá mér svo ég ætla ekki að segja meira um hana í bili nema þetta – þennan hástert. *** Það eina sem mér finnst undarlegt við að „frægt fólk“ (sem er auðvitað frekar abstrakt konsept í 400 þ. manna landi) fari í framboð er hversu viljugt þetta fólk – listamenn, fræðimenn, blaðamenn o.s.frv. – er að tefla trúverðugleika sínum í tvísýnu. Það vita það allir sem hafa tekið þátt í pólitísku starfi – jafnvel bara óflokksbundnum en skipulögðum aktífisma – að það kallar á alls kyns málamiðlanir sem eru ekki endilega samræmanlegar listrænum eða heimspekilegum metnaði. Þú skuldbindur þig til þess að gera það sem þarf til þess að ná pólitískum árangri – sem er þá meðal annars að láta vera að gagnrýna flokkinn í fortíð, nútíð og framtíð, sérstaklega á meðan kosningabaráttunni stendur, og jafnvel leggja þig í líma við að verja óverjandi hluti. Óverjandi málamiðlanir. Óverjandi afleiðingar málstaða. Óverjandi fórnarkostnað. Og í stjórnmálastarfi geta komið upp ófyrirsjáanlegar aðstæður – einsog Covid – þar sem stjórnmálaflokkar taka alls konar óvæntar afstöður og þá verður hópeflið undantekningalítið til þess að hver fylgir bara sínum listabókstaf, sínum bönker. Sérstaklega er þetta undarlegt þegar listamenn eru annars vegar því stjórnmálin – og aktífistarnir, lobbíistarnir – eru mjög fljót að snúa sér gegn allri list sem er óþægileg fyrir málstaðinn. Auðvitað er þetta samt spurning um persónuleg heilindi og fólk hlýtur að svara þessu fyrst og fremst fyrir sig sjálft. Ég fór tvisvar í framboð í kringum tvítugt og fékk strax ógeð – þótt fólkið væri frábært og málstaðirnir góðir; það er mekaníkin, dýnamíkin, sem gerir þetta vonlaust, ferlarnir og menningin. Eitthvað undarlegt sambland af fylgispekt og þrætugirni – einsog að láta barmmerkið stýra sér. Og svo þegar maður er búinn að fara í framboð situr maður uppi með það, a.m.k. í dágóðan tíma á eftir. Þá er maður þetta fyrirbæri – þessi flokkur – og þegar hann hreyfir sig og breytir um lögun gerir maður það líka, nema manni takist með harmkvælum að skera sig einhvern veginn lausan.

Hamfara- og jólabókaflóðið 2024

Ég sit á ansi fínu hótelherbergi í Katowice. Ég þarf ekki að lesa nein ljóð fyrren á morgun. Daginn ætla ég að mestu að nota til þess að vinna. En akkúrat núna sit ég og hlusta á ræstitæknana þrífa herbergin á ganginum og hef áhyggjur af því að þeir banki og trufli mig í miðri setningu til þess að spyrja hvort mig vanti handklæði (mig vantar ekki handklæði en ég gæti þegið meira instant kaffi). Þessar áhyggjur eru nógu miklar til þess að trufla mig einar og sér en ekki nægar til þess að ég standi upp og hengi do not disturb skiltið á hurðarhúninn. Enda er það einsog eitthvert skarlatsmerki sem þýðir eiginlega bara að maður sé þunnur. Og ég er ekki þunnur. Þess vegna er ég að blogga. Til að drepa tímann þar til ræstitæknarnir hafa lokið sér af. Á tveggja til þriggja ára fresti fer mig að langa til þess að eiga rúmgóða heimasíðu … og í þessum orðum skrifuðum bankaði ræstitæknirinn upp á og gaf mér meira kaffi. Nema hvað, já, rúmgóða heimasíðu – ég læt ekki staðar numið fyrst ég er byrjaður – þar sem finna má upplýsingar um það sem ég hef gert en þar sem má líka finna eitthvað af verkum mínum. Hljóðaljóðin, vídjóljóðin, einhver dæmi, þýðingar og svo framvegis. Síðu einsog þessa. Einu sinni átti ég enn rúmbetri síðu þar sem mátti líka finna allar meira alvöru greinar sem ég hafði skrifað. Svo líða tvö-þrjú ár í viðbót og þá fer þessi síða að fara í taugarnar á mér. Einsog þetta sé alltsaman bara til marks um óþolandi hybris, útblásið sjálf mitt, ekki skárra en hver önnur uppáþrengjandi þvottaefnisauglýsing, hvert annað product placement. Og þá langar mig að eyða þessu öllu og opna bara einhverja blogspot síðu. Satt best að segja hefur þetta líka með blankheit að gera. Ég borga helling fyrir að halda þessu úti – og annað eins fyrir að halda Starafugli í loftinu, þar sem ekkert gerist lengur. Og svo hafa þessar heimasíður yfirleitt ekki heldur litið út eða virkað einsog ég vildi helst að þær gerðu. Þegar ég hef fengið aðra til að hjálpa mér hafa hlutir sem virka einfaldir í hausnum á mér reynst illgerlegir og þessi síða er eitthvað wix-módel sem er tregt til að hlýða mér, íhaldssamt, ekki „intúitíft“ og satt best að segja ekki mjög fallegt. En nærtækast af því sem ég fann fyrir mann sem kann ekki að forrita nema allra einföldustu skipanir. Ég er samt ekkert að fara að henda þessu. En ég kannski endurhugsa þetta blogg svolítið – hætti að vesenast með myndir, hætti að senda út tilkynningar um færslur, hætti að deila á facebook og skrifa oftar og minna í einu. Það er allavega planið. *** Og samt læt ég ekki staðar numið. Mér sýnist jólabókaflóðið ætla að drukkna í hamfaraflóði jólakosningabaráttunnar. Og það skánar varla héðan af – það verður kannski ekkert jólabókaflóð fyrren í desember. Þangað til lesum við bara kosningabæklinga. Eða réttara sagt tilkynnningar og yfirlýsingar á net- og samfélagsmiðlum. Ég hef enn ekki lesið neina af skáldsögunum – bara Hníf Rushdies og Karlmann RHV – en ætla að reyna að bæta úr því fljótlega eftir að ég kem heim. Annars ætlaði ég líka að fara að lesa Gravity’s Rainbow og Rúmmálsreikningana hennar Solvej Balle. Telst bók II í þeim flokki vera í jólabókaflóðinu? Hún kom ábyggilega út í ár – en kannski var það í vor? Annars er afstaða mín til jólabókaflóðsins mjög tvíbent. Ef ekki þrí- eða fjórbent. Þetta er auðvitað markaðshátíð. Og dregur stundum fram í fólki … kannski ekki það versta en það grynnsta. Af því það grynnsta er fljótast að skila sér. Rithöfundar mæta í einlæg viðtöl og tala beint inn í eðluheilann á öðrum – yfirleitt meira um sjálfa sig eða einhver dægurmál en það sem þeir voru að skrifa. Menningarfjölmiðlarnir gera yfirleitt betur – Lestin, Víðsjá, Kiljan, bókablöðin – en þar er tempóið samt stundum þannig að yfirveguð vinnubrögð mega víkja svo allir komist að. Sjálfum finnst mér þetta óþægilegt þegar ég er með bók – að hafa áhyggjur af velgengni hennar. Þetta er kannski ekki hræðilegt – ekki viðstöðulaust kvíðakast – kannski meira svona einsog þegar barnið manns kemur ekki heim á réttum tíma og það næst ekki til þess. Ég treysti börnunum mínum og þau skila sér alltaf en ég er samt ekki rór rétt á meðan. Jólabókaflóðið er tveir mánuðir af þessu (jájá ég veit það er asnalegt að líkja bókum við börn; takið líkingunni vinsamlegast með saltklípu). Maður vill vera á metsölulistunum og maður vill fá tilnefningar og verðlaun og þýðingar – og peninga! – en í öllum þeim sirkus þarf maður líka að hafa fyrir því að minna sjálfa sig á að bókmenntir eru eitthvað annað en það; að velgengni á markaði, í bókabúðum, ritdómum og hjá verðlaunanefndum, segir ekkert um eiginleg gæði þess sem maður hefur gert. Því það er enginn annar að fara að minna mann á það fyrren í fyrsta lagi í janúar. Kannski er því jafn ágætt fyrir bókmenntirnar að fá frið í skjóli kosningabaráttunnar og það er vont fyrir bókamarkaðinn. Og kannski hrynur bókamarkaðurinn síðan og tekur með sér bókmenntirnar og á næsta ári verður bara tik-tok-jólaflóð. *** Þetta er sem sagt síðasta færslan sem ég deili á facebook eða sendi út tilkynningu um í bili. Það verður samt áreiðanlega meira skrifað hérna næstu vikurnar.

Auschwitz

Ég er túristi í Póllandi. Hér er gott að vera. Maturinn er góður, drykkirnir eru góðir, borgin er falleg og veðrið hefur leikið við borgarbúa – sem voru víst ansi lúnir á haustrigningunni um það leyti sem ég kom. Víða þar sem túristar koma saman eru útskýringar á því hvernig maður segi eitt og annað á pólsku – hvernig maður þakki fyrir sig og bjóði góðan daginn o.s.frv. – og ef maður býður svo góðan daginn af sinni takmörkuðu getu fær maður afgreiðslu á pólsku nema maður sigli samskiptunum algerlega í strand. Matseðlar eru alltaf á tveimur tungumálum. Skilti stundum bara á einu – pólsku. Flestir veitingastaðir heita pólskum nöfnum – ensk veitingastaðaheiti eru álíka algeng og ítölsk sýnist mér, alls ekki óalgeng en sannarlega ekki í meirihluta. *** Ég fór í Auschwitz. Það þarf ekki að útskýra það fyrir neinum hversu þrúgandi heimsókn í Auschwitz getur verið. Og dauðinn er í sjálfu sér líka nálægur í gyðingahverfinu, þar sem ég fór líka í sögugöngu, og þar sem er nóg af gyðingaveitingastöðum og menningarstofnunum en fjarska fáir gyðingar af holdi og blóði. Þeir voru 68 þúsund þegar best lét – eftir stríð sneru 2-3 þúsund aftur af þeim sem enn lifðu (sem voru ekki mikið fleiri). Í dag ná þeir ekki þúsund – ná ekki íbúafjölda Bolungarvíkur. Enda mætti þeim nýtt pogrom strax og þeir sneru aftur – í ágúst 1945. Það er verslunarmiðstöð alveg ofan í Auschwitz I. Burger King, KFC, McDonalds, H&M. Ég stóð sjálfan mig að því að vilja ekki að hún væri þar og svo sló hugsuninni niður í mig líka hvort ég væri að biðja um „gömlu góðu Auschwitz“ og þá væri kannski betra að Auschwitz væri bara H&M verslun. Bönker Hitlers er undir fullkomlega ómerkilegu bílastæði í dag, þar var ekki einu sinni skilti fyrren 2006. Ég fór í einhverja hringi með þetta í höfðinu en komst ekki að neinni niðurstöðu. Frekar en svo margt annað. Ég eyddi dálitlum tíma í Jurbarkas 2011 – þar sem svo til engar leifar eru um fjöldamorðin og misþyrmingarnar sem gyðingar máttu þola sumarið 1941, þar sem fólkið á tourist information skrifstofunni gat ekki svarað einföldustu spurningum og þar sem enn voru uppi minnismerki um mennina sem höfðu stundað fjöldamorðin (af því þeir voru svo líka hetjur fyrir að hafa barist gegn Sovétríkjunum eftir stríð). Þar sem grafreiturinn var í niðurníðslu – bókstaflega bara athvarf fyrir unglinga til að spóla í hringi – búið að sparka marga legsteinana niður í einhverjum fíflagangi. Þar sem minnismerkin – „hér voru 422 gyðingakonur myrtar“ – voru á stærð við hálfan seríospakka á litlu priki og falin lengst inni í skógi þangað sem lá ekki einu sinni göngustígur nema hálfa leiðina. Þetta er alveg á hinum endanum – hér er allt undirstrikað, áherslumerkt, og sagan ekki óskýr og loðin og samsett úr mótsögnum, heldur straumlínulöguð og skýr. Það fór talsvert af orku minni í þessum sögugöngum í að hlusta á það hvernig leiðsögumennirnir sögðu frá, frekar en bara hvað þau sögðu, sennilega vegna þess að ég veit að í Póllandi gilda ströng lög um hvernig hlutunum er stillt fram og atburðir túlkaðir. Í Auschwitz lagði leiðsögukonan áherslu á sérstöðu gyðinga í helförinni og talaði aldrei um nasista án þess að skeyta forskeytinu „þýskir“ framan við. Önnur fórnarlömb voru nefnd lítillega – varla samt án þess að nefna að ekki hefði verið farið jafn illa með þau – en það var ekki einu orði vikið að samstarfsmönnum nasista í Póllandi eða pólskum nasistum – enda er hreinlega ólöglegt að tala um þannig lagað . Bæði í göngunni um gyðingahverfið og í Auschwitz var kastljósinu beint að pólverjum sem hefðu hjálpað gyðingum – aðallega Jan Karski, Oskar Schindler og Maximilian Kolbe. Fyrir utan Auschwitz II er skilti sem auglýsir annað safn sem fjalli um sögu Roma-fólksins í helförinni – 3 km í burtu (sem er lengra en frá Auschwitz I til McDonalds). Ég varð ekki var við að margir færu þangað. Það kom minna á óvart að ekki væri orði vikið að samtímanum. Hvorki þjóðarmorðinu á Gaza eða þeirri sífellt ágengari stefnu evrópuríkja að reka fangabúðir fyrir „óæskilegan útlendingaskríl“ samtímans í nágrannalöndum – fjarri vinveittum stofnunum, fjarri aktívistum sem flækja málin og fjarri eftirliti, þar sem ekki sést til þeirra. Eiga þessar fangabúðir að taka við af því sem nú er kallað „lokuð búsetuúrræði“ – og eftir því sem ég kemst næst er varla nema tímaspursmál fyrren allir hælisleitendur (og allra fyrst ungir karlar) verða sendir til Albaníu og Túnis og svo framvegis – þar sem þeir verða alveg áreiðanlega látnir daga uppi. Og nei, ég er ekki að halda því fram að neitt af þessu sé einsog Auschwitz – eins ljótt og það er. En það væri líka lélegur sagnfræðingur sem héldi að helförin hefði bara óforvarendis skotið upp kollinum í Auschwitz – hún átti sér langan aðdraganda og sá aðdragandi er stundum ansi líkur stefnu evrópuríkja í málefnum flóttamanna og hælisleitenda. Og ég veit ekki hvaða tilgangi öll þessi sögukennsla á að þjóna ef við megum ekki læra af henni. Það gerir fórnarlömbum Auschwitz lítið gagn að við grátum í koddann 70 árum seinna. Það sem við þurfum að læra af sögunni er að stöðva harmleikina áður en þeir eiga sér stað.

Allt í réttri röð

Það er alls konar sem mig langar að ræða, flest bókmenntatengt. Nú langar mig að segja „Tökum þetta í réttri röð“ en átta mig á því að ég veit ekkert hver „rétt röð“ er. Þetta er því tilviljunarkennd röð. *** Nóbelsverðlaunin til Han Kang. Mér heyrist nær allir sem ég þekki vera sammála um að Grænmetisætan sé stórkostleg bók (ef frá er talinn Sverrir Norland sem skilaði óvæntu séráliti á Facebook). Hins vegar eru ekki allir jafn sammála um að aðrar bækur hennar séu jafn góðar eða hvort heildarverkin sem slík haldi „nóbelsgæðum“ – hvað sem nóbelsgæði nú annars eru. Ég hef ekki lesið hana ennþá en á – í kaupfélagi við eiginkonu mína – tvær bækur sem fóru beint á náttborðið. Stundum hefur mér þótt leiðinlegt að nóbelsverðlaunin falli í skaut höfundum sem eru of vinsælir – þau þjóni betur tilgangi sínum með því að fara til höfunda sem maður hefði sennilega ekki uppgötvað annars, víkki sjóndeildarhring okkar hinna bókelsku. Nú voru mín fyrstu viðbrögð þveröfug, af einhverjum orsökum – ég bara gladdist og fannst sem að kannski þyrftu þau af og til að fara til höfunda sem njóta almannahylli einmitt til þess að við skildum að þetta snerist ekki um vinsældir. Maður gæti verið vinsæll og samt frábær, gæti verið óþekktur og samt frábær, bókmenntir væru einfaldlega mældar á öðrum og annars konar vogarskálum. Viðbrögðin verða hins vegar öðruvísi í bókmenntaheiminum þegar þetta er höfundur sem flestir hafa lesið og þegar myndað sér skoðun á. Þá er víst að einhverjir fagni og aðrir hvái. Skemmtilegasti textinn sem ég hef lesið um þessi verðlaun hingað til er eftir vin minn, rithöfundinn Mats Kolmisoppi, og birtist í Göteborgs Posten í morgun –  Akademien belönar småborgerlig ersatzlitteratur – og hann er sko ekki kátur. Fyrst og fremst er textinn þó um nýjustu bók Han Kang og Mats játar sjálfur að hafa notið Grænmetisætunnar. Rúnar Helgi fékk að mér þótti ósanngjarna útreið í Kiljunni fyrir bók sína Þú ringlaði karlmaður . Nú má fólki auðvitað finnast það sem því finnst um bækur og þótt ég væri ósammála niðurstöðu Þorgeirs og Árna Matt var það fyrst og fremst lýsing þeirra á bókinni – að þetta væri samantekt á kynjafræði sem allir ættu að þekkja (og eiginlega geta meðtekið með því einu að spyrja næstu konu), og að Rúnar kæmist að þeirri niðurstöðu helst að konur þyrftu bara að vera meira næs við karla – sem var einfaldlega röng, rangur lestur, röng túlkun og röng útlegging. Ég bara skil ekki hvar þeir fundu þessa niðurstöðu. Ef hún er í bókinni fór hún framhjá mér. Sjálfum þótti mér þetta góð bók og ekki síst af því hún er heiðarleg og einlæg og hún fjallar um mann sem er að mörgu leyti öðrum ólíkur – bæði er persónuleg upplifun hans á kynjahlutverkum í gegnum tíðina mjög oft á ská – og svo er hann örgeðja og krítískur að eðlisfari, ólíkur fólki að upplagi, tilbúinn til þess að þrátta en líka gjarn á að verða sár í þrætunum, og í ofanálag býsna góður í að sjá þessa þætti í eigin fari og díla með þá. Hann berst eiginlega á tveimur vígstöðvum – annars vegar til þess að verja sig og hins vegar til þess að fella sig. Og hann er alltaf bæði lítill og stór – og leyfir þeirri mótsögn að spíra án þess að vilja beinlínis leysa úr henni. Ég er líka ósammála því að þetta sé bók fyrir karlakarla, án þess að ég sé endilega viss um að ég viti hvað það er – þetta er allavega ekki bók fyrir Brynjar Níelssonar týpurnar. Ég held þetta sé bók fyrir fólk sem vill eiga í heiðarlegum samræðum við sjálft sig og aðra – en geri lítið fyrir þá sem vilja helst alltaf flauta leikinn af áður en hann hefst. Og þetta er ekki bók fyrir fólk sem vill bara vera sammála – einfaldlega vegna þess að þetta er ekki bók sem er einu sinni alltaf sammála sjálfri sér. 3. Það var í fréttum að nemendur við MA vilji láta taka skáldsöguna Blóðberg eftir Þóru Karitas af námsskrá skólans – enda innihaldi hún lýsingar á grófu kynferðisofbeldi og það geti verið erfiður lestur fyrir þá nemendur sem hafi orðið fyrir sambærilegri reynslu. Trigger, svokallaður. Skilji ég langa og ítarlega fréttina rétt setja nemendur sig ekki upp á móti fræðilegu efni með svipuðu innihaldi – og myndu áreiðanlega ekki bregðast eins við því að bækur Þórdísar Elvu, Á mannamáli og Handan fyrirgefningarinnar , væru settar fyrir – sem hlýtur þó að teljast hrottalegur lestur. Í grunninn er þetta ekki bara spurning um trigger, vanlíðan og öryggi, heldur líka um hlutverk skáldskapar í menntakerfinu, og um læsi sem slíkt. Ég held sjálfur að það sé meinhollt að takast á við ógnir í skáldskap – bæði þær sem maður hefur upplifað sjálfur og þær sem maður þekkir ekki nema í gegnum skáldskapinn, og ég skal ekki fara í grafgötur með að mér finnst viðbrögðin benda til lélegs læsis (í merkingunni að ráða við að lesa alvöru hluti ). Vísitölunemandanum er boðið upp í erfiða en lærdómsríka – andlega, tilfinningalega og vitsmunalega – glímu. Með því að taka bókina af námsskrá hefur möguleiki þess lærdóms líka verið tekinn af námsskrá – þótt halda verði því til haga að bókin er (a.m.k. enn sem komið er) enn til á skólabókasöfnum og fólki frjálst að nálgast hana sjálft (en þá verður að halda því til haga líka að allar kannanir sína að afar fáir menntskælingar nálgast bækur nema tilneyddir). En svo verður enn fremur að halda því til haga að það er alls ekki víst að allir ráði við slíka glímu – þótt ólíklegt sé að hún ríði þeim að fullu getur hún vel verið þeim skaðleg. En það getur líka átt við saklausara námsefni – og það er ekki hægt að halda því fram fyrir hönd allra að fræðiefni eða önnur umræða um kynferðisofbeldi geti ekki verið mjög triggerandi líka. Ég átta mig á því að það geti verið viðkvæmt að biðjast undan námsefni sem maður ræður ekki við af einhverri ástæðu en ég held að það sé farsælli lausn en hitt að sótthreinsa kennslustofur af óþægindum – nám er ekki bara þægindi, það er líka fólgið í erfiðleikum og átökum við erfiðleika. Ég spyr mig líka hvort þetta þýði að skáldskapur sé „of alvöru“ – altso of kraftmikill – og þar með verði að gera undantekningu fyrir hann, hann meiði of mikið; eða hvort hann sé „ekki nógu alvöru“ og þar með sé óþarfi að leyfa honum að vera stuðandi og særandi. Hann sé – einsog ég held að mörgum finnist – skemmtiefni og skraut en ekki aðferð til þess að takast á við veruleikann. Ég spyr mig líka hvort þetta eigi bara við um lýsingar á kynferðisofbeldi. Nú eru fleiri og fleiri nemendur í íslenskum menntaskólum sem hafa hreinlega upplifað stríð – hvað hefur það að segja fyrir skáldverk um seinni heimsstyrjöldina, sem ég þykist vita að séu stundum lesin í menntaskólum (mesti grikkur sem nokkur hefur gert mér er reyndar þegar MH-ingar voru látnir lesa allar 540 blaðsíðurnar í Illsku fyrir um áratug – twitter fylltist af leslötum gelgjuþrungnum gremjutístum svo vikum skipti)? Verður bara hægt að hafa næs – triggerlausar, öruggar – bækur á námsskrá? Er það það sem við viljum hafa fyrir börnunum – að bókmenntir séu krútt fremur en kaþarsis, konfekt fremur en leið til þess að takast á við angist mennskunnar – grenja yfir henni, hlæja að henni, skilja hana, skynja hana? Ég las líka frétt um að foreldrar væru mikið að ritskoða barnabækur ofan í krakkana sína – þetta var brot úr lengra spjalli sem ég heyrði ekki en dæmið sem var tekið í textanum var úr Einari Áskeli, að foreldrið drægi alltaf úr reiði föðurins. Þetta fannst mér mjög fyndið. Ég kannast í sjálfu sér alveg við að hafa hoppað yfir eitthvað – man samt ekki lengur nein dæmi – en að milda hinn milda föður Einars Áskels fannst mér alveg í það mesta. Ég las fyrir börnin mín annað hvort kvöld, í kaupfélagi við eiginkonu mína sem átti hin kvöldin (og las aðrar bækur, á sænsku), í 13 ár, alls konar bækur – við skiptumst á að velja. Í sumum bókunum voru hrottar. Í Randalín og Munda var reykt. Það birtust kynþáttafordómar, sem við einfaldlega ræddum. Í ævintýrabókum Davíðs Þórs voru kynlífslýsingar sem ég roðnaði upp í hársrætur við að lesa. Stundum voru höfundarnir (*hóst*rowling *hóst *) pípandi fordómafífl. Og við ræddum það líka Ég lagði mikið upp úr því að hafa vondukallaraddirnar sem voðalegasta – að leyfa rússíbananum að vera rússíbani – og stundum vorum við öll í hálfgerðu taugaáfalli á eftir, allir dauðhræddir. Og þegar allir voru búnir að ná andanum var beðið um meira. Margar bókanna voru gamaldags. Sumar vandræðalaust. Aðrar ekki og þær voru það þá á ólíkan hátt – augljósast eru einfaldlega úreld viðhorf, feitabollugrín og þannig lagað. En svo voru líka bækur einsog Sitji Guðs englar sem nístu mann inn að beini – þar eru senur sem óhugsandi er að lesa þannig með eða án barna án þess að tárast. Af því þær eru um sársaukann sem fylgir því að vera til. Og þannig bækur kenna manni að þjást án þess að bugast. En bækur með úreldum viðhorfum kenna manni líka eitt mjög mikilvægt – þær kenna manni að viðhorf breytast. Að mórall heimsins er ekki statískur. Að það sem er rangt í dag getur verið rétt á morgun og öfugt. Að það sem virkar á einn veg getur virkað á annan. Og að það sé ekki heldur sjálfsagt að allt sé rétt í dag og hafi verið rangt áður. Ég á ekki við að það þurfi að taka brjálæðislega heimspekilegan debatt um það við lítil börn – kannski er nóg að furða sig bara á því hvað pabbi Einars Áskell sé alltíeinu hvass, þetta sé nú óþarfa læti (sögupersónur geta verið gallaðar einsog fólk), láta skína í manns eigin afstöðu – en maður ætti ekki að fela það fyrir börnum að veruleikinn hefur ekki alltaf verið eins, það hafa ekki alltaf gilt sömu reglur, því þá gætu þau farið að halda að þær reglur sem gildi núna eigi að standa um aldur og ævi. Og þannig, börnin góð, verða íhaldsmennirnir til. 5. Nú er mjög lítill tími áður en ég þarf að vera mættur í Ísafjarðarbíó. Kvikmyndahátíðin PIFF er í gangi. Í gærkvöldi fékk ég þann heiður að spjalla við Spessa um mynd sína Afsakið meðanað ég æli. Sem fjallar einsog frægt er um tónleika sem Megas hélt árið 2019. Myndin er einfaldlega afbragð – auga Spessa fyrir römmum og myndbyggingu er auðvitað legendary, en hún hefur líka tempó sem er ekki hægt að ætlast til af manni sem hefur lítið fengist við sagnalist. Og svo fær hún auðvitað aukna vídd af því sem gerist svo – myndin sýnir Megas sem ídolið sem hefur verið að fella íkon í 50 ár, manninn sem hefur sprengt helgar kýr í loft upp, með dónaskap, tilfyndni og – ekki síst – með fegurð; hann er umvafinn hæfileikaríkustu tónlistarmönnum landsins og endar í standandi uppklappi í stappfullri Hörpu. Augnabliki eftir að tónleikarnir voru haldnir var þetta allt orðið óhugsandi – flestir viðmælendur hefðu áreiðanlega bara fengið kvef þegar þeir áttu að koma í viðtal og honum hefði tæplega tekist að selja nema fjörutíu sæti í sal. Íkonafellandi ídolið fallið sjálft og myndin einhvers konar bautasteinn um mann sem þjóðin þráir að gleyma.