Ár og andvökur og Intermezzo

Þann 22. júlí 2012 – ári eftir hryðjuverk Anders Behring Breivik – var ég svo gott sem einn í litlum smábæ skammt frá Þrándheimi, eftirlegukind eftir Fjósafestivalið, fjölmenna listahátíð Melhúsabæjar, allir aðrir farnir heim en ég enn að bíða eftir sæmilegu flugi til Íslands eða hugsanlega Finnlands – ég er hreinlega ekki viss hvar ég bjó þetta sumar. Í öllu falli fór ég út á bensínstöð, keypti öll dagblöð sem ég fann – kannski hefur þeim fækkað síðan en norðmenn studdu dagblöðin sín vel og þau voru mörg – rölti með þau heim á hótel og las svo allt sem skrifað var um hryðjuverkin og Breivik. Ég man að mér ofbauð svolítið – eða kannski fannst mér það mest bara fyndið – hvað þeir voru sjálfumglaðir. Nærri því allt sem skrifað var fjallaði nefnilega um það hversu vel þeir, norðmenn, hefðu staðið sig, hvað þeir hefðu höndlað þetta vel, hvernig þeir hefðu staðið vörð um siðgæði, lýðræði og réttlæti og ekki leyft barbaríinu að taka völdin – ekki leiðst út í öfgar eða vitleysu. Þeir hefðu sýnt að það borgaði sig að hafa prinsipp. Ég á marga norska vini og veit að þetta var ekki endilega afstaða allra – margir voru til dæmis mjög ósáttir við að Breivik væri ekki skoðaður sem framhald þeirra öfgastefna sem hann kenndi sig við, heldur sem undantekning frá heiðarlegum útlendingahöturum. Og kannski voru margir þeirra mest ósáttir við að það mætti ekki einu sinni ræða það – það væri hreinlega mikið af tabúum í umræðunni, margir veggir, mörg stopp – svo sumum fannst einsog þeir væru að kafna alltaf þegar hann kom til tals. Í dag er liðið ár frá hryðjuverkunum 7. október í Ísrael. Þess vegna stakk þess Melhúsaminning upp kollinum. Ég veit ekki hvað ég vil segja. Að ég sé þakklátur fyrir að norðmenn hafi ekki elt upp alla rasíska og incelíska Call of Duty spilara, jafnað hverfin þeirra við jörðu og myrt þá ásamt nágrönnum sínum í nokkurra kílómetra radíus? Fyrst og fremst er þessi harmleikur allur saman bara komin langt út yfir minn skilning. Og þá meina ég ekki að þetta sé svo flókið að það sé ekki hægt að taka skilyrðislausa afstöðu með vopnahléi strax – ég meina bara að ég skil ekki hvers vegna það er ekki borðleggjandi, hvers vegna það eru nánast engar líkur á að það verði einu sinni tekið til alvarlegrar umræðu nema með einhverjum brjálæðislegum þvingunaraðferðum. *** Það er í sjálfu sér ekki við því að búast að ég skilji margt annars. Ég hef ekki fest blund síðan á aðfararnótt laugardags – það eru tvær heilar nætur af árangurslausum byltum. Í kjölfar þess að ég fékk gubbupest á föstudag. Reyndar alveg án þess að uppúr mér – eða niðrúr – gengi. Ég er með einhvers konar stálmaga og æli varla nokkurn tíma (nema einu sinni þegar ég ældi beinlínis af þeirri orsök einni að ég var að ljúga mjög ljótri lygi – en það er önnur og skrítnari saga). Ég engdist bara við klósettskálina. Fékk svo háan hita í sólarhring. Og missti hæfileikann til að festa svefn. *** Ég lauk í gær við Intermezzo, nýju bókina hennar Sally Rooney, sem fólk keppist ýmist við að hæla eða lasta – eða kannski meira bara gera lítið úr, einsog þetta sé ekki nógu fínt – sumum finnst hún Joyce endurborinn og öðrum finnst hún meira einsog ef Colleen Hoover gæti vitnað í Hamlet. Í sjálfu sér held ég að eitthvað sé til í báðu. Hún er ekki þungur höfundur, ekki einu sinni þegar hún er að skrifa vitundarflæðistexta – þeir renna alltaf vandræðalaust, maður er aldrei ringlaður, þarf aldrei að hafa mikið fyrir því að að lesa þá – og stundum eru bókmenntalegar vísanir hennar meira einsog skraut eða rammi en ógurlegar dýpkanir. Sem – eigi maður að vera alveg heiðarlegur – er kannski oftast raunin þegar bókmenntalegar vísanir eru annars vegar. Það á líka við um Hómersvísanir Joyce. Hins vegar gefur höfundurinn manni þá „leyfi“ (sem maður þarf ekki) til þess að spegla sögupersónur hans í öðrum sögum og það getur verið gaman, svona einsog það er gaman að velta því fyrir sér hvaða Friendspersóna maður sé, eða hvaða Friendspersóna Raskolnikov sé. Sem er í sjálfu sér alltaf einhvers konar dýpkun – meira að segja þegar samlíkingin er út í hött. Intermezzo fjallar um tvo bræður – Peter og Ivan Koubek – sem mér finnst liggja beint við að spegla í bræðrunum þremur, Ivan, Mitja og Aljosha Karamazov; og konurnar í lífi þeirra, Sylviu – sem er fyrrverandi ástkona Peters, núverandi vinkona, sem hætti með honum af því hún hætti að geta notið kynlífs í kjölfar slyss, og lifir við mikla verki – Naomi, sem er ung og flippuð ástkona Peters – og Margaret, sem er eldri ástkona Ivans. Líkt og í Karamazov er hjartað í bókinni samskipti bræðranna og samskipti þeirra við föður sinn – sem er dáinn þegar bókin hefst, en andlát hans setur sögunni ramma, og þeir eru að syrgja hann alla bókina. Ivan er að mörgu leyti einsog nafni sinn Karamazov – hann er afturbata incel, sem er stundum ósannfærandi af því hann virðist (einsog allir karakterar Rooney) hafa svo mikla tilfinningagreind, og af því hann er líka einsog Aljosha, yngsti Karamazovinn, heilagur og ljúfur og dásamlegur. Peter er síðan einsog Mitja í aðra röndina – hamslaus alkóholisti með tvær í takinu – en líka með dálitla níhilista hugsjónamannataug einsog Ivan Karamazov. Fyrir sína parta er pabbi þeirra, sem við fáum samt varla nema óljósa mynd af, mjög ólíkur Fjodor Karamazov – einhvers konar ljúfmenni sem er fastur í fjölskyldu með eintómum fyrirferðarmiklum frekjudósum, „stórum persónuleikum“, og sem er helst talið það til lasts að meðan hann lifði þurftu allir alltaf að vera að sýna honum tillitssemi. Þetta er hins vegar miklu „minni“ bók en Karamazov – hún er „domestic“ svo notað sé orð sem helst má ekki nota um bækur eftir konur, þetta er stofudrama þótt það gerist í nokkrum ólíkum stofum og það er stundum erfitt að draga línurnar upp þannig að þetta sé „stór heimspeki“ um „eðli mannsins“ – einsog liggur beint við að gera við Karamazov. Þetta er einkaleg bók, ekki um innstu myrkur mannsins, heldur um hversdagsleg trámu sem við þekkjum öll – sorg, persónulega upplausn, áfengisvanda, hvernig fortíðin eltir okkur, hvað það þýði að vera karlmaður, bróðir, sonur, hvað það þýði að vera náinn öðrum, um einkvæniskúltúrinn og aldursmun í samböndum (samt bara áratug, sem virkar ekki mjög trámatískt á mig – en út frá því er samt gengið í bókinni að það sé rosalegt). Hún fjallar um stöðu mannsins í félagslegum raunveruleika frekar en stöðu mannsins gagnvart sjálfum sér. Og kannski er það sem veitir henni dálítinn léttmetisblæ ákveðinn sjálfsvorkunnartónn – ekki í Rooney, heldur persónum hennar – sem virðast helst velta því fyrir sér hvers vegna allt þurfi alltaf að vera svona erfitt fyrir þær sjálfar (sem er einmitt, vel að merkja, líka grunnafstaða margra sögupersóna Dostojevskís). Ég las á dögunum ritgerð eftir David Foster Wallace um sjónvarpsgláp þar sem hann skilgreindi lágmenningu sem menningu sem þarf að þóknast fólki til þess að hafa af þeim fé . (Mér finnst gagnlegra og gagnlegra í mínu eigin lífi að skipta menningu í hámenningu og lágmenningu – þótt það sé bannað – eða jafnvel bara setja hana upp í tíu, tuttugu þrepa kerfi – ekki endilega vegna þess að ég haldi að lágmenning sé bara heimskulegt rusl, heldur til þess að skilja að það sem er í lægstu þrepunum er ekki endilega það sama og það sem er í efri þrepunum, það sem krefst meira af mér og það sem á að skila mér meiru, sem ég þar af leiðandi geri meiri kröfur til). Ég held ekki að Sally Rooney þurfi eða sé að reyna að þóknast fólki – ég held að prósinn sem hún skrifi geri meiri kröfur til lesandans en nánast hvaða vísitölumetsölubók sem er. Og vinsældir hennar – sú staðreynd að hún hefur af fólki fé fyrir sögur sínar – eru einsog aðrar vinsældir, einhver blanda af hæfileikanum til að tala til fólks og hreinni tilviljun og því að fólk (ég meðtalinn) laðast að því sem er vinsælt ; það sem er vinsælt er vinsælt af því það er vinsælt og þess vegna verður það vinsælt og heldur áfram að vera vinsælt. Og menningin er líka og á að vera að einhverju leyti sameiginleg upplifun – sem þýðir að við getum ekki öll verið að lesa sitthvora bókina (að vísu finnst mér hressandi að spjalla við franska bókaunnendur, sem öfugt við íslenska, sem spyrja alltaf hvort maður sé búinn að lesa bókina sem er vinsælust þá og þá stundina, mæla yfirleitt ástríðufullir með einhverju sem maður hefur helst aldrei heyrt minnst á – en segjum að bæði sé mikilvægt). Ég var allavega ánægður með Intermezzo – síðustu tvær bækur Rooney eru hennar bestu, hún sækir í sig veðrið. *** Í morgun las ég líka bókadóm um nýjustu bók Malcolms Gladwell – sem ég hef aldrei gerst svo frægur að lesa, vel að merkja – í Guardian. Hann var heldur neikvæður, sem er auðvitað undantekning núorðið – ég finn það meira að segja á sjálfum mér að mér finnst dónalegra og dónalegra að vera að finna að því hvað einhver hefur skrifað, einsog það sé ekki bara frábært að fólk sé að hugsa yfir höfuð, frábært að fólk sé að skrifa þegar það gæti verið á Tik Tok eða eitthvað. En þarna í þessum dómi kom gagnrýnandinn inn á eitthvað sem ég þykist hafa séð víðar, sennilega mest í blaðaskrifum, sem er ákveðinn svona kæruleysislegur tónn fullur af ofnotuðum frösum: Along the way there are plenty of interesting facts and thought-provoking ideas but Gladwell introduces them with prose that has evolved (or devolved) from a variation of the middle-highbrow New Yorker house style into something much more folksy and podcast-like. His sentences are littered with phrases such as “Oh my” and “Are you kidding me?” and “You guessed it”, as though his readers are looking for conspiratorial bonhomie, as though, in other words, they are fans. Og þegar ég las þetta rann upp fyrir mér að eitt af því sem við missum af þegar ritdómarar hætta að fetta fingur – einu sinni var mjög algengt að jafnvel í jákvæðum dómum væri tíndur til einhver agnúi, eitthvað sem gerði verkið minna en fullkomið – er skrá yfir óþolandi tendensa almennt. Og skilgreining á þeim. Að einhver bendi á þá, gefi þeim nafn. Sem er ákveðin þjónusta við ritmálið sem slíkt.

Fly on the Wall

Illu er best aflokið. Fly on the Wall er ekki eftirlætis AC/DC platan mín. Og ég er orðinn langeygur eftir verulega góðu lagi. Það hefur ekki heyrst síðan í titillagi For Those About to Rock. Lagasmíðarnar á þeirri plötu voru annars slappar, Flick of the Switch náði sér aldrei almennilega í gang – alltílagi plata, en vantar herslumuninn, og geldur fyrir samanburð við Back in Black og Highway to Hell. Annað er ekki hægt. Og Fly on the Wall er einsog Flick of the Switch með aðeins betra gítarsándi og miklu verra söngsándi. *** Gítarvinnan er á köflum góð. Og gítarsándið er fínt – einsog það hafi verið eina áherslan. Flick of the Switch var fyrsta og síðasta platan sem hljómsveitin pródúseraði sjálf – en Fly on the Wall var pródúseruð bara af gítarleikurunum. Og vissulega eru þeir Angus og Malcolm gæddir einhvers konar snilligáfu. En þetta er bara rugl. Strákarnir eru í ruglinu. Lagasmíðarnar eru metnaðarlaus meðalmennska. Þetta er ekki hægt. *** Og textarnir eru líka rugl. Og styttist í að Brian verði bara bannað að semja texta. Sink the Pink er að vísu fínt, s.s. titillinn – ansi miklu betra en „this guns for hire / I’ll shoot you with desire“ af Flick the Switch. En heilt yfir litið er þetta bara alls ekki nógu gott. Eiginlega bara alveg kolómögulegt. *** Ég veit ekki hvað ég á að segja ykkur. Ég vil ekki einu sinni setja inn tóndæmi hérna. Ég er bara miður mín. #ACDC

Um yfirvegaðan ofsa („ritdómur“)

Um skamma hríð fyrir 20 árum síðan hafði ég aukatekjur af því að ritdæma ljóðabækur fyrir Morgunblaðið. Hugsanlega er það í eina skiptið á ævinni sem ég hef fengið borgað fyrir þannig vinnu – fyrir TMM skrifaði ég um 2-3 skáldsögur nokkrum árum seinna en annars hefur öll rýni sem ég hef skrifað verið í sjálfboðavinnu, mest fyrir Starafugl og Tíu þúsund tregawött (er hægt að vera í sjálfboðavinnu fyrir sjálfan sig?). Nei, heyrðu, nú gleymi ég líka Spássíunni – það var launað, 2010, þegar ég bjó í Oulu, rassgatsblankur alla daga. Nema hvað. Þá er það áreiðanlega upptalið. Ég var næturvörður á Hótel Ísafirði á þeim tíma sem ég skrifaði fyrir Moggann og bjó í voðalegri kjallarakytru þar sem gólfin voru veggfóðruð (gólffóðruð?) með Andrésar Andarblöðum og partíin entust gjarna langt fram á næsta dag. Þegar ég drattaðist á fætur biðu mín stundum ljóðabækur í brúnu umslagi á gólfinu við bréfalúguna sem ég las með morgunverðinum, sem var gjarnan kvöldverður, áður en ég mætti á vakt þar sem ég gætti túrista (sem á þessum tíma voru oft bara einn og einn vörubílstjóri – virkar veturnætur voru oft ekki nema þrír-fjórir á öllu hótelinu, af og til enginn), vann í fyrstu skáldsögunni minni og skrifaði eitthvað um þessar ljóðabækur úr brúnu umslögunum. Ég fékk vel að merkja engar viðvaranir eða valmöguleika frá mogganum og átti í ótrúlega litlum samskiptum við ritstjórn – það birtust bara einhverjar bækur og ég sendi inn tölvupóst með wordskjali sem var ábyggilega aldrei svarað. Ef einhver hefði tekið upp á því að senda mér bók í umslagi með Morgunblaðsstimpli hefði ég sennilega sent menningarritstjóranum dóm um þá bók nokkrum dögum síðar. En það hefði enginn gert – það var alveg óþarfi að beita einhverjum brögðum til þess að fá ritdóm árið 2004, þá fengu jafnvel sjálfsútgefnar ljóðabækur umfjöllun, mogginn einfaldlega koveraði allt sem kom út. Ég man ekkert hvers vegna ég hætti eða hvort ég var rekinn eða hvað. Og ég ætlaði heldur aldrei að hafa svona langan formála að því sem ég er að fara að segja – allt hér að ofan hefði ég þurft að strika út úr mogganum, mig minnir að plássið hafi verið 400 orð, en ég er hrifinn af útúrdúrum. Meðal þeirra bóka sem ég skrifaði um á þessum tíma var sem sagt Þegar Árni opnaði búrið eftir mann sem heitir Þórhallur Barðason og er að mér skilst söngvari/söngstjóri/söngkennari að aðalstarfi – en um það hafði ég ekki hugmynd fyrren bara á dögunum, fyrir mér var Þórhallur bara nafn á bók sem barst í póstinum, það hefði ekkert haft upp á sig að gúgla hann árið 2004, þá var fólk annað hvort frægt eða ófrægt en í dag eru allir sitt lítið af hvoru – ef ég svo mikið sem fæ tölvupóst frá nafni sem ég kannast ekki við slæ ég þeim upp til þess að geta þó horft í augun á þeim á skjánum. Það er ljótur óvani sem ég vissi varla að ég hefði fyrren ég segi það nú. Nú er ég búinn að líta inn á heimasíðuna hans (og reyndar er líka höfundarmynd á bókinni). Ég var bara frekar ánægður með Þegar Árni opnaði búrið. Ætli það hefðu ekki farið þrjár stjörnur á hana, ef þá hefðu verið gefnar stjörnur – fjórar í dag, af því það er verðbólga? Hnotskurnin hefði verið eitthvað á þá leið að þótt þetta væri kannski ekki frumleg bók væri hún tilgerðarlítil og skemmtilega skrítin á köflum. Svo líða 20 ár og ég er löngu hættur að vinna fyrir moggann en er auðvitað orðinn áhrifavaldur – búinn að halda úti bloggi í einmitt 20 ár, birti þar reglulega myndir af sjálfum mér (og hattinum mínum) í alls konar stellingum og ræð fólki heilt í lífsins skini og skúrum. Og þá tekur Þórhallur Barðason upp á því að gefa út aðra ljóðabók, Um yfirvegaðan ofsa . Nema nú er enginn moggi – a.m.k. ekki sá moggi sem var – og varla einu sinni hægt að segja að neinar heimasíður eða blogg sinni ljóðlistinni. Ætli maður sé ekki líklegastur til að fá dóm fyrir sína ljóðabók í Kiljunni – sem koverar kannski 5% af útgefnum ljóðabókum, í langlangmestalagi (þessi tala er gisk út í bláinn, vel að merkja, þótt henni fylgi virðulegt og vísindalegt prósentumerki). Og Þórhallur, sem sér að mogginn er horfinn en ritdómarinn enn á lífi – kann að gúgla fólki – skrifar bara ritdómaranum og spyr hvort hann hafi áhuga á að lesa bókina, hvort hann geti fengið umfjöllun – það þurfi ekki að vera mikið. Nú er þetta auðvitað þegar orðið mjög mikið, einsog hver læs maður getur borið vitni um, og enn er ég ekki byrjaður að segja neitt um bókina – og ætla í sjálfu sér ekki að segja mjög margt um hana heldur, nema að koma því að að líkt og fyrri bókin er hún ágæt, dálítið köflótt, dálítið ólík mörgu öðru sem ég les um þessar mundir og þar með hressandi og alveg óhætt að mæla með því að fólk kíki í hana. Það sló mig við lesturinn að hún væri í einhverjum brag sem hefði verið algengur 2004 en væri svo gott sem útdauður – ég veit ekki alveg hvað ég á að kalla þann brag, hann er kæruleysislegur, persónulegur, stundum dálítið pabbabrandaralegur, það er ekki legið yfir hverju orði einsog í því búi kjarnorka sem þurfi að leysa úr læðingi, en í því býr líka sjarminn. En svo þegar ég las aftur dóminn sem ég skrifaði á sínum tíma um Þegar Árni opnaði búrið – sem er í sama brag – virðist mér ekki endilega hafa fundist hún týpísk fyrir sinn tíma þá heldur. Kannski er þetta aðeins eldra en 2004 – kannski var ég að hugsa um Nykur, fyrstu bækur Andra Snæs? Þá fannst mér aldamótin auðvitað víðs fjarri – en 2004 var nú eiginlega bara í gær. Ég lýk þessari stuttu umfjöllun – og langa sjálfsævisögulega ranti – með tveimur dæmum úr bókinni (af því það stendur á titilsíðu að það megi vitna frjálslega í hana), fyrst ljóði sem mér finnst dæmigerð fyrir bókina – að frátöldum stíl í lengri ljóðum sem birtist undir lok hennar, sem ég var sennilega minnst hrifinn af – og svo því ljóði sem mér þótti áberandi best. ÁST Ást er gallaðasta smáforritið í snjalltækinu manneskja Óteljandi villumeldingar fall fyrir kolröngu fólki Endurræsing vonlaus sitjum uppi frosin VERKFÆRAKISTA KÆRLEIKANS Treð hismi í höfnunarleka og tonnateknar gúmmíbætur yfir jafna milli hólfa með hjólbörum gangræð með skrúfjárni lem lunningar opnar festi upp á gátt með stórum nöglum sauma fast við innanveggi og ósæð með sláturnál skorða eftir áföll með slaghamri verkfærakista kærleikans hlý biturð *** PS. Í dag hlustaði ég á feiknagott viðtal Magnusar William-Olsson við sænska útgefandann Gunnar Nirstedt , sem var nýlega valinn ljóðaforleggjari ársins í Svíþjóð fyrir sitt feykimikla framlag – hann hefur verið í útgáfu í um þrjá áratugi, þar af 24 ár hjá Bonniers, þar sem hann hætti með látum 2018 og gagnrýndi um leið þá stefnu sem hefði orðið ríkjandi hjá Bonniers og víðar að láta misgóðar metsölubækur bera uppi fjárhag forlaganna (og éta upp athygli starfsmanna, með þeim afleiðingum að 95% af katalógnum mætir afgangi), frekar en að gefa einfaldlega út góðar bækur fyrir heiminn og treysta á long-tail módel, að gefa út bækur sem halda áfram að seljast, sem er ætlað að endast og leggja kraftinn í það. Í kjölfar þess stofnaði hann sem sagt Nirstedt/litteratur sem gefur út bæði nýja höfunda og klassík, ljóð og prósa og fræði – Thomas Piketty, UKON, Cecile Pin, Benjamin Labatut, Jenny Tunedal, Mariu Stepanova og nýjar þýðingar Tovu Gerge á sonnettum Shakespeare og fleira og fleira. Sem sagt alls konar, mikið og allt geggjað. Í þessu viðtali fara þeir Magnus víða og kemur meðal annars fram að lestur á ljóðabókarýni er orðinn hærri hjá litlum menningarmiðlum einsog Örnen och kråkan en hjá Dagens Nyheter (þar sem birtist einmitt mjög lítið af ljóðabókarýni og sífellt minna af bókmenntakrítík almennt) og þar sem aurapúkarnir kvarta hástöfum yfir því að það lesi enginn – „það vill þetta enginn!“-söngurinn sem heyrist gjarnan hér líka – sem Gunnar með sína 30 ára reynslu fullyrti að væri bara þeim sjálfum að kenna, þetta hefði ekki alltaf verið svona, þeir hefðu vanrækt hana og þess vegna sneri sér enginn til þeirra lengur nema til að fá einhverja heilalausa klikkbeitu (mitt orðaval, hann sagði eitthvað kurteislegra).

Beiskja og vanþakklæti (eða „take this job and shove it“)

Ísafjörður virðist eiga upp á pallborðið í menningarlífinu þessi misserin – og ekki bara tónlist þótt það sé kannski það sem bærinn er þekktastur fyrir. Ekki er nóg með að bíómynd Snævars Sölva, Ljósvíkingar , sé að slá öll met heldur hefur reyfarinn Hildur eftir Satu Rämö líka farið með himinskautum og nú stefnir í að Þú ringlaði karlmaður eftir Rúnar Helga verði aðaldebatbók ársins. Ætli kirkjutúrinn hans Mugisons sé ekki síðan stærsti tónlistarviðburður ársins? 100 kirkjur í 100 póstnúmerum. Segjum það. Didda (Guðlaug Jónsdóttir) er svo að koma með sína aðra barnabók, Baukað og brallað í Skollavík – sú fyrri fékk tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna – og mamma (Herdís Hübner) er að gefa út ævisögu Auriar Hinriksson, Ég skal hjálpa þér . Ef við leggjum svo Vestfirðina alla undir mætti bæta við útgáfunni Skriðu á Patreksfirði – þar koma tvær ljóðabækur út á fimmtudaginn, heimkynni eftir Þórð Sævar Jónsson og Svefnhof eftir Svövu Þorsteinsdóttur. Svo var Margrét S. Höskuldsdóttir að senda frá sér reyfara sem gerist í Ísafjarðardjúpi, í heimavistarskólanum á Reykjanesi og í Laugardal eftir því sem ég kemst næst. Sá heitir Í Djúpinu – titillinn minnir kannski einhvern á skáldsöguna Djúpið eftir Bennýju Sif sem kom út fyrir þremur árum og gerist í sama skóla. *** Ég er ekki að gera neitt. Að minnsta kosti ekki að skrifa um Ísafjörð. Og ekki „með bók“ í haust – þótt ég sé „með“ sennilega fjórar bækur þá kemur engin út fyrren í fyrsta lagi í vor. Náttúrulögmálin var líka svo löng að það er eiginlega enginn búinn með hana þótt hún hafi komið út í fyrra. Svo hef ég líka nóg að gera við að skrifa þessa h*$#*s ritlaunaumsókn. Ég var ekki byrjaður um daginn þegar ég var að senda einhverjar (léttar og óverðskuldaðar) pillur á Einar Kárason sem var að kvarta undan þessu. Nú er þetta að gera mig vitlausan og ég er orðinn einsog Einar Kárason í fimmta veldi. Ég ætla líka að vera pínu tilætlunarsamur og koma upp um skefjalausa forréttindablindu mína með því að segja að mér finnist asnalegt – ef ekki fáránlegt – að þurfa að sækja um vinnuna mína á 12 mánaða fresti og vita aldrei hvort ég verði á launum á næsta ári. Það er tómt mál um það að tala að íslenskir rithöfundar – hugsanlega með svona 2-3 undantekningum – geti haft nema smotterí upp úr bóksölu. Mér hefur oft á þessum aldarfjórðungi gengið vel en aldrei komist neitt nálægt því að þéna nema skít og kanil. Við erum fámenn þjóð og prósentan sem maður fær erlendis er miklu lægri – og það er litlar aukatekjur að hafa nema maður vilji vera í stöðugu harki (og þá skrifar maður minna), megnið af því er líka hræðilega launað. Ég er ekki að tala endilega um að það ætti að veita fólki listamannalaun í 36 mánuði – sem hefur stundum verið gert – heldur að það ætti bara að setja fólk á föst laun. Segja fólki bara: Hana, þú ert ráðin(n), ekki gleyma að mæta í vinnuna. Ekkert öllum og engum strax – en á einhverjum tímapunkti hlýtur að vera eðlilegt að maður fái bara djobbið. Það er hægt að tekjutengja launin þannig að þau verði ekki óþarfa viðbót við einhverjar ægilegar sölutekjur (sem allar dreymir auðvitað um) en þetta er bara rugl. Að vera að detta í fimmtugt og vita aldrei fyrren um áramót hvort ég sé í vinnu, hvort ég sé í hálfri vinnu eða engri vinnu – það þýðir að ég býð fjölskyldunni minni líka sífellt upp á þetta. Förum við í sumarfrí? Verða börnin áfram í tónlistarskóla? Verða bara hrísgrjón og sojasósa í matinn í maí? Ég hef það alveg ágætt núna – en ég hata þetta, að sjá aldrei nema í mesta lagi tólf mánuði fram í tímann (og einsog núna ekki nema þrjá – og þeim fækkar og fækkar þar til enginn er eftir). Þetta er ástæðulaust nema til þess að gera mig vitlausan. Ég skil heldur ekki alveg forsendurnar. Ég hef gefið út nánast bók á ári í aldarfjórðung – og gerði það líka áður en ég naut nokkurrar velvildar hjá sjóðnum (sem ég hef þó gert um góða hríð). Þarf ég að sanna eitthvað frekar að mér sé alvara með því að starfa að bókmenntum? Hefur fólk áhyggjur af því að ef ég fengi bara laun án þess að sækja um vinnuna mína árlega þá myndu bækurnar versna? Þarf nauðsynlega sönnun fyrir því að ég kunni enn að fylla út umsókn og áfangaskýrslu? Eða er vandamálið að ég gæti til dæmis veikst og átt erfitt með að skrifa í einhvern tíma – þá væri náttúrulega hræðilegt að ég hefði einhverjar tekjur, skiljanlegt að fólk svitni yfir því, veikt fólk á helst bara að drepast. Eða er fólk stressað yfir því að ég gæti þegið tekjur og hreinlega hætt að skrifa? Farið að klóra mér í rassinum frá morgni til kvölds. Ég veit það ekki. Þetta umsóknarferli ertir kannski bara einhverjar gremjutaugar í mér. En ég er vel að merkja ekki bara að tala um sjálfan mig – þótt ég sé eðlilega í aðalhlutverki á míns eigins bloggi! Fyrr mætti nú vera. Þetta myndi líka gera Einari lífið bærilegra og auðvitað er enn fáránlegra að Gyrðir Elíasson sé launalaus út af einhverju skriffinnskurugli. Og það myndi spara ríkinu umsýslukostnað í kringum umsóknir. Fyrst og fremst leiðist mér þetta. Leiðist árleg betlferðin. Mér finnst hún niðurlægjandi.

Að klára ljóðabók er góð skemmtun

Ég ætlaði að fara að segja að ég hefði ekki gert neitt af viti alla vikuna en svo áttaði ég mig á því að það er tómt kjaftæði. Ég kláraði til dæmis ljóð sem ég held ég sé bara frekar ánægður með. Þetta ljóð verður líka til þess að klára nýja ljóðabók sem ég hef verið með í smíðum, eða samningu, eða yrkingu, eða hvað maður segir. Hana hefur vantað ljóð og nú er það komið og þetta virkar einsog heild. Nýja ljóðið verður samt ekki síðast í bókinni, heldur fyrir miðri bók. Elsta ljóðið er 11 ára gamalt en hin ort einhvern tíma eftir 2020 – þetta eru bara fimm ljóð á tæplega 70 síðum og talsvert færri orð en í síðustu ljóðabók, Óratorrek, sem var þétt skrifaður orðaflaumur á 130 síðum. („Ég segi alltaf færri og færri orð“ – djók). Óratorrek kom út 2017 og ef ég kem þessari nýju út næsta vor, sem ég held að sé gerlegt, þá líða átta ár á milli ljóðabóka. Mér dauðbrá þegar ég áttaði mig á þessu. Man eftir að hafa einhvern tíma kallað Einar Má has-been – á opnun Ljóðabókaverzlunar Nýhils 2005 eða 2006; við hann sjálfan vel að merkja, ég var ekki að baktala hann heldur stríða honum – fyrir að láta líða sjö ár á milli ljóðabóka. Og nú er ég bara orðinn þetta has-been sjálfur. Poetic justice FTW einsog alltaf. Fyrir mér hefur alltaf vakað að bækurnar mínar séu innbyrðis ólíkar, sérstaklega finnst mér skipta máli að ljóðabækurnar eigi sína eigin rödd – nóg líkjast þær víst bara fyrir að ég skuli skrifa þær – og kannski tekur bara lengri tíma að finna sér nýtt form og læra á það eftir því sem maður hefur gert það oftar, gengið meira á birgðirnar sem maður fæðist með. Ég á áreiðanlega eftir að hata þessa bók oft áður en ég gef hana út – og kannski líka eftir að hún er komin út – en ég ætla að njóta þess að vera bara ánægður með hana núna. Annars fór vikan mest í skriffinnsku og bréfaskriftir. Ég byrjaði líka aftur á Goodreads eftir að hafa lesið einhverja grein um að bestu samfélagsmiðlarnir væru þeir sem snerust um eitthvað áhugamál annað en hégóma fólks, beturvitahátt og almenna athyglissýki – ég hef góða reynslu af Strava og Duolingo og bætti þessu við í símann minn og ef vel gengur ætla ég líka að byrja á Letterboxd. Ég startaði Goodreads reikningnum fyrir einhverjum árum og byrjaði bara á því að setja inn skrilljón bækur sem ég hef lesið en nennti svo ekkert að halda áfram. Hins vegar hafa alls konar bækur sem ég hef verið að lesa á kindlinum skráðst sjálfkrafa inn og þar á meðal heilt bókasafn af bókum um blústónlist sem ég byrjaði nú á að markera sem lesið – að ég hefði klárað þær – en kannski halda vinir mínir á Goodreads að ég hafi lesið 40 bækur um blústónlist á einni viku, það gæti líka verið, ég las þær samt flestar svona 2021-22. Síðan ég klárað Infinite Jest um daginn hef ég hins vegar bara lesið seinni tvær bækurnar í New York trílógíunni og Le Parfum des Fleurs la Nuit eftir Leïlu Slimani – trílógíuna var ég að endurlesa og hún var betri en mig minnti. Parfum er eins konar safn ritgerða – eins konar A Room of One’s Own fyrir nýja öld – sem segir meðal annars af því þegar Slimani lét læsa sig inni á safni í Feneyjum yfir nótt. Já og las upp. Myndina hér efst tók Björgvin Hilmarsson þegar ég hitaði upp fyrir Glæpasagnaspjall Satu Rämö og Yrsu Sigurðardóttur á Bókasafni Ísafjarðar. Með nýja ljóðinu.

Marpress kaupir réttinn að Heimsku

Forlagið Marpress í Póllandi hefur fest kaup á skáldsögunni Heimsku með það fyrir augum að gefa hana út á pólsku vorið 2025. Heimska er dystópísk skáldsaga um rithöfundahjón í nálægri framkomu- og hégómadrifinni framtíð sem verða fyrir þeim ósköpum að skrifa nánast sömu skáldsöguna. Hún hefur áður verið gefin út á sænsku (John Swedenmark, Rámus) og frönsku (Eric Boury, Editions Metailie), þar sem hún vann Transfuge-verðlaunin fyrir besta norræna skáldskap. Pólsku þýðinguna gerir Jacek Godek. Í ótengdum fréttum fer ég til Póllands í október til þess að taka þátt í Przestrzen Slowa Festival (Hljóðrýmishátíðinni) í Sosnowiec.

Heimska sold to Marpress, Poland

Marpress editors in Poland have bought the publishing rights to the novel Heimska ( Stupidity ), to be published in spring 2025. Heimska is a dystopic novel about a pair of married writers in a performatistic, vanity-driven near-future who happen to write the same book. It has previously been translated to Swedish (John Swedenmark, Rámus) and French (Eric Boury, Editions Metailie), where it won the Transfuge literary award for best Scandinavian fiction. The polish translation will be in the hands of Jacek Godek. In unrelated news I will be travelling to Poland in october for Przestrzen Slowa Festival (Space of Word Festival) in Sosnowiec.

Hugleiðingar úr ruslabílnum

Ef ég á að vera alveg heiðarlegur finnst mér ég oft vera hálfgerður ónytjungur. Segi ég í tilefni af umræðu um listamannalaun – sem er farin að koma upp tvisvar á ári núna, í stað þess að koma einu sinni. Nú kemur hún fyrst í september þegar listamennirnir eru að sækja um – pirraðir á ferlinu – og svo aftur janúar þegar er úthlutað og harðkjarnafylgi Miðflokksins og verstu frjálshyggjupottormarnir í Sjálfstæðisflokknum fara á stjá með sínar ígrunduðu athugasemdir. En það sem sagt koma dagar þar sem ég geri ekkert mjög margt – fer seint á fætur og ráfa svo um, eyði kannski hræðilega miklum tíma í að skrolla í símanum eða bara fer út að skokka eða í göngutúr eða gúgla einhverju spennandi. Blogga blogg. Suma daga sit ég bara og les. Bara eitthvað – einhverja skáldsögu til dæmis. Eða New York Review of Books. Stundum meira að segja ljóð. Allan daginn. Og svo þegar „vinnudeginum“ lýkur fer ég að sinna heimilisskyldunum – einu sinni var það að sækja börn á leikskóla en nú er það bara að fara í Nettó, kaupa í matinn og gefa skrílnum að éta. Svo spyr fólk hvernig „hafi verið í vinnunni“ og hverju á ég þá að svara? Að ég hafi rekist á áhugaverða myndlíkingu í bók sem er búið að skrifa! Er það ekki svona einsog ef ruslakallinn segðist hafa gert það eitt í vinnunni að uppgötva að í gær hafi verið tæmd tunna í næsta firði, og það sé þar með óþarfi að tæma hana strax aftur. Og svo koma auðvitað dagar líka þar sem allt er á fullu og þá líður mér ekki einsog ónytjungi. Og ef ég lít yfir „heildarverkin“ sýnist mér í sjálfu sér að ég hafi oftar verið að vinna í vinnunni en að slæpast. En það breytir bara engu um hitt að stundum er ég bara að klóra mér í rassinum að bíða eftir að eitthvað gerist – sem ég veit að ég get ekki rekið á eftir – og ef ég mæti öskubílnum þar sem fólk verður að vinna alla daga jafnt, sömu verkin, alveg sama hvernig þau eru stemmd, fæ ég bullandi samviskubit. Ég hef meira að segja skrifað ljóð um þetta samviskubit (það er í Óratorreki). Það eina sem ég hef mér til afsökunar er að ég sver að mér líður miklu betur þegar ég er á fullu. Jú og reyndar var ég fyrir tilviljun líka í vörutalningu í Bónus á síðustu helgi (það er ekkert mjög löng saga en ég ætla samt ekkert að segja hana). Það hlýtur að telja eitthvað fyrir karmað. Já og svo sagði Sjón líka einu sinni í viðtali fyrir 100 árum að helmingur starfsins snerist um að slæpast á kaffihúsum og tala við fólk. Að taka eftir heiminum. Annars gæti ég verið að skrifa umsóknina. Umsóknarfresturinn er til 1. október og þetta tekur alltaf smá stund – ekki mánuð samt – þótt ég geti ekki tekið undir með kollegum mínum að þetta sé eitthvað ægilega erfitt. Og það er ekki heldur mín reynsla að meðferðin á umsóknunum sé mjög ferköntuð – þótt ég sé í grunninn sammála að textinn sem umlykur þetta allt sé fremur stofnanalegur. Ég sé bara ekki að það komi mikið að sök. Og ég veit ekki heldur hvernig hann ætti að vera öðruvísi? Ætti nefndin að biðja rithöfunda um að fara með himinskautum – dúndra út nokkrum ódauðlegum myndlíkingum um eðli sannleikans og helstu breyskleika mannlegs eðlis? Það væri í sjálfu sér fyndið ef það væri spurt þannig og myndi áreiðanlega litlu breyta um niðurstöðuna. Þetta eru huglæg fræði og miklu fleiri faktorar að störfum kæmust nokkru sinni fyrir í einhverri matskýrslu. Hér samt er tillaga að breyttum spurningum, ef fara á í róttækar breytingar. Lýstu ferðalagi fiðrildis milli tveggja blóma (200 orð, vægi 15%). Yrktu bundið ljóð í hætti að eigin vali (ekki færri en 10 línur, 20%). Skrifaðu samtal þar sem samfélagsleg staða mælenda verður ljós án þess að hún sé tekin fram (200 orð, vægi 15%). Yrktu nútímaljóð, módernískt eða framúrstefnu (frjáls lengd, 20%). Deleraðu frjálst um eðli fólks (ath. ekki eðlu-fólk ) á tímum hátækni og samfélagsmiðla (900 orð, 15%, má nota gervigreind). Skrifaðu stutta dæmisögu um andríkan mann sem þarf að eiga við skrifræðisbákn. Plús ef hann þarf að skila inn ferkantaðri umsókn og er það mjög á móti skapi. (300 orð, vægi 15%) Ekki gleyma að merkja blaðið með nafni og bekk. *** Ég rak augun í að hún er líka hafin aftur umræðan um hvort gera megi grín að hræðilegum hlutum. Það er í sjálfu sér ekki einföld umræða – það skiptir ekki bara máli hvernig grínið er heldur líka hver flytur það (ég las fyrir löngu ritgerð um húmor og helförina og komst að því að það var mikið um brandara í útrýmingarbúðunum – og að fórnarlömbin sögðu sömu brandara og kvalararnir, en þá höfðu þeir augljóslega aðra merkingu og annan tilgang). En mér finnst í öllu falli fráleitt að ræða þetta út frá þeim forsendum að maður geti bara bent og sagt „hann gerði grín að nauðgun“ og sagt að það sé þess vegna siðferðislega rangt – allt grín um harm sé rangt – einmitt vegna þess að grín er líka listform, grín er líka tilraun til þess að setja hlutina í listrænt og siðferðislegt samhengi, sem er kraftmesta aðferð sem við eigum til þess að skilja okkur sjálf, skilja aðra og skilja þjóðfélagið í kringum okkur. Og við þurfum að skilja harm, ofbeldi, hrottaskap, tráma. Það þýðir ekki að grín geti ekki verið ósmekklegt einsog önnur list. En ég spyr mig líka, ef maður tekur þessa stefnu að fordæma grín um hræðilega hluti, hvers vegna (eða hvort) það megi þá gera „drama“ eða „hrylling“ um hræðilega hluti – því drama og hryllingur eru líka oft fyrst og fremst afþreying, og alls engin ástæða til þess að ætla að það veki með okkur göfugri tilfinningar eða hafi göfugri tilgang en grín. Það fer bara eftir verkinu. Mér þykir oft hræðilega smekklaust þegar fólk t.d. treður inn nauðgun í dramatískt verk í þeim einum tilgangi að búa til ofsafengna samúð – að kreista út tár lesandans. Ég man ekki hver það var sem sagði það en það var áreiðanlega einhver rithöfundur í einhverjum þætti á BBC Books sem sagði að versta synd sem rithöfundur gæti framið væri að biðja lesandann um að gráta án þess að vinna fyrir því fyrst. Og nauðganir og þess lags hrottaskapur, sérstaklega gegn minnimáttar, er ódýrasta leiðin til þess að heimta slík tár. Sem þýðir ekki að hrottaskapur eigi ekki heima í drama eða hryllingi – það fer bara eftir meðferðinni í verkinu. Ég held það sé síðan að mörgu leyti persónubundið hvað ofbjóði manni. Ég þoli t.d. ágætlega Persónulega trúbadorinn – eða þannig, ég þjáist yfir honum, hann er hræðilegur, persónulegi trúbadúrinn ofbýður mér, en grínið um persónulega trúbadúrinn gerir það ekki, Fóstbræður gera það ekki, Sigurjón Kjartansson gerir það ekki. Hins vegar ofbýður mér gjarnan áhrifavaldar sem standast ekki freistinguna að gera sjálfa sig og sína samúð að miðpunkti almenningsathyglinnar í einum og öllum harmleikjum. Mér finnst það smekklaust. En slíkt virðist vera öðrum meira að skapi og ég get alveg unnt þeim þess. Ég er hins vegar ekki viss um að það standist „tímans tönn“. Ekki að það skipti neinu máli – það sem skiptir máli er heimurinn núna.

Nýjar og betri leiðir til sjálfsdýrkunar

Einsog lesendur vita er ég í grunninn í það vökulasta/wokeasta þótt ég hafi litla þolinmæði fyrir húmorsleysi, gefi listinni nánast takmarkalausan frípassa og finnist systkini mín á vökuslóðum stundum mjög snögg að teygja sig eftir vopnunum – ekki að andstæðingar þeirra í afturhaldssömu rottuholum internetsins séu skárri, því síður, þeir eru verri, en eiga þetta sameiginlegt með fólkinu í skotgröfunum handan víglínunnar að vilja helst tæma magasínið áður en nokkrar eiginlega staðreyndir eru ljósar, í takti við einhverjar fyrirframgefnar hugmyndir um lögun heimsins. Betra að skjóta fyrst og spyrja svo. Þolinmæðin á undir högg að sækja. Hvað um það. Til marks um vökula lífssýn mína finnst mér til dæmis algert lykilatriði að maður virði kynvitund fólks og ávarpi það nákvæmlega einsog það vill láta ávarpa sig. Ég get satt best að segja varla ímyndað mér meiri óþarfa fávitaskap en að miskynja fólk viljandi. Upp á síðkastið hefur hins vegar komið upp í mér ægilegur mótþrói varðandi það hvernig fólk kemur „fornöfnum sínum“ til skila. Ég get nefnilega ekki með nokkru móti samþykkt að fólk gegni almennt „fornöfnum“ frekar en „fornafni“ – altso, þegar fólk tilkynnir öðrum að það noti „hún-fornöfn“ eða að „fornöfnin“ þeirra séu „hann/honum“ og þar fram eftir götunum. Hann og honum eru nefnilega ekki tvö fornöfn heldur eitt í tveimur föllum (af fjórum). Ég heiti til dæmis ekki nöfnunum „Eiríkur, Eirík, Eiríki, Eiríks“ – heldur nafninu Eiríkur, sem síðan beygist eftir kúnstarinnar reglum. Þetta er auðvitað smit úr amerísku – þar sem er enn meiri lenska að spyrja „what are your pronouns“ og allir skrifa „she/her“ neðst í tölvupóstinn sinn (í viðeigandi kyni) – væntanlega af því ameríkanar skilja ekki fallbeygingar. Það er að minnsta kosti eina ástæðan sem mér dettur í hug. Ég bar þetta undir vökula vini mína í Svíþjóð og þeir sögðu að þar tíðkaðist alls ekki að tala um þetta svona – einsog hon og henne væru sitthvort fornafnið – samt beygja þeir ekki heldur nafnorð. Hér ætti maður kannski að halda því opnu að fólk geti gegnt fleiri en einu fornafni – t.d. bæði hún og hán. Altso, ef hvort heldur sem er gengur – það truflar mig ekki neitt. Það er bara þetta með að hann og honum sé „fornöfn“ frekar en „fornafn“. *** Ég hef mikið verið að hugsa um internetið upp á síðkastið. Ekki það ég hafi komist að neinni niðurstöðu! Internetið er bara einsog það er. Þetta blogg er 20 ára gamalt í ár – hefur verið á ólíkum stöðum og megnið af því glatast í einhverjum flutningum en það eru 20 ár nú í ágúst frá því ég stofnaði síðu á blog.central.is og kallaði hana Fjallabaksleiðina. Þá var slagorðið „Með bakfjall í framrassinum“. Kannski hef ég verið að hugsa um bloggið vegna þess að það kom til mín maður í brúðkaupi á dögunum til þess að lýsa ánægju með Fjallabaksleiðina og þetta var maður sem ég hafði ekki hugmynd um að hefði nokkurn tíma lesið bloggið mitt – auðvitað veit maður það aldrei, ég veit ekkert hver les þessi orð, en þetta er maður sem ég hef þekkt lítillega öll þessi 20 ár. Einhvern tíma var bloggið sakað um að vera botnlaus hít sjálfhverfu og narsissisma. Ekki þetta blogg sérstaklega, heldur bloggið sem slíkt. Sú tíð er auðvitað liðin – en þessar hugsanir mínar um internetið hafa nú samt oft botnað í hugsunum um narsissisma, sem á nú fyrst og fremst heima á félagsmiðlunum, einsog hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum. Ég er ekki endilega að hugsa um fólkið í Frægir á instagram á DV og því öllu saman heldur annars konar narssisma, þann sem blasir ekki endilega við eða á sér önnur birtingarform. David Foster Wallace tekur t.d. stutt rant um narssissíska mannvini (philanthropists) í Infinite Jest – sem er í sjálfu sér líka vel þekkt tegund, mannvinurinn sem virðist nærast á eigin gæsku og jafnvel eigin píslarvætti, mannvinurinn sem hefur alla málstaði fyrst og fremst sem bakgrunnsmynd að eigin sögu, mannvinurinn sem dreymir ekki endilega um sigur síns málstaðs heldur að fá að njóta hetjuljómans sem fylgir fólki á borð við Martin Luther King eða Gretu Thunberg. Í dag er sumt af þessu fólki reynar hálfvegis runnið saman við Frægir á instagram estetíkina – einhvern veginn alltaf hálfnakið á einhverri snekkju að gera deadlifts/spila á hljóðfæri fyrir Palestínu/umhverfið/hinseginfólk og/eða konur. Svo eru líka svona lítillætis-narssisistar, sem eru kannski ekki jafn áberandi – þó held ég að fólk flissi stundum svolítið að þeim í laumi. Það er að segja narsissistarnir sem eru alltaf að auglýsa á samfélagsmiðlum hvað þeir séu nú lausir við ýmsa nútímakvilla, svo sem einmitt hégóma eða þátttöku í lífsgæðakapphlaupinu, hvað þeir séu bara mikið í núinu og jarðtengdir annað en firrtir nútímamennirnir í kringum þá – og halda sennilega að þeir séu að auglýsa dýpt sýna en eru bara að svamla í grynningunum og heimta læk. Einsog hinir. Einsog allir. *** Annars er hégómi eitthvað sem rís mikið og fellur í mínu lífi, eftir árstíðum og aðstæðum, reikna ég með. Mér líður best þegar hann er á undanhaldi en ég get ekki alveg án hans verið. Á öðrum endanum hangir hégómi saman við sjálfsvirðingu og einhverja tilfinningu fyrir því að geta púslað sjálfum sér saman – en hinumegin er hann bara sturluð dópamínfíkn með öllum klassískum einkennum fíknisjúkdóma (þráhyggju fyrir uppfyllingu fíknarinnar, sjálfseyðingarhegðun og afneitun á öllu saman). Listheimurinn er auðvitað hégómadrifinn – mann langar að eiga hlutdeild í dýrðinni, til þess er maður að þessu – en heimur rithöfunda er auðvitað líka mjög einrænn. Maður performerar mest bara í lokuðu herbergi – að miklu leyti sennilega vegna þess að manni finnst það þægilegast. En maður hefur kannski einmitt þess vegna meiri tíma til þess að gægjast fram í sal til að fylgjast með viðbrögðum og verða svolítið nojaður – þegar maður stendur á sviði getur maður takmarkað einbeitt sér að fólkinu sem er að horfa, af því maður er einbeita sér að því sem maður á að vera að gera. Rithöfundurinn getur eytt eins miklum tíma og hann vill í að rýna í einhver komment á Bókagulli eða Goodreads eða í faglegri gagnrýni. Og gert sig vitlausan. En hann getur líka sleppt því. Það er bara spurning um dagsform. Altso, maður getur sleppt því að lesa gagnrýni og komment – maður sleppir því ekki að gera sig vitlausan, það er ekki hægt, a.m.k. ekki að minni reynslu, maður finnur bara nýjar leiðir til þess. Nýjar og betri leiðir.

Gys án enda

Ég er enn að lesa Infinite Jest. Man ekki hvenær ég byrjaði en það eru ábyggilega svona þrjár vikur, var sennilega rétt eftir mánaðamót. Mér sækist hún ekki illa ég bara les hana hægt og finnst erfitt að lesa hana hratt, missi fljótt þráðinn ef ég dríf mig. Hún er um þúsund síður auðvitað, en það er ekki bara það – hún er líka þéttskrifuð, það er ekki mikið hvítu á síðunum, stafirnir eru litlir og meira að segja sjaldan greinarskil. Í sjálfu sér er hún samt líka þannig skrifuð að ef maður missir af einhverju samhengi kemur það oft fljótt aftur, það er hægt að skimlesa hana og missa ekki af meginplottinu – hann endurtekur og útskýrir allt, bókin er óðamála, en líka drifin áfram af „leiftrandi gáfum“ – sjálfsagt væri háð að lýsa nánast hverjum sem er öðrum með þessum orðum en það er ekki þannig meint hér. David Foster Wallace hefur verið mjög vel gefinn og ekkert gefinn fyrir að fela það – sem er alltílagi af því hann er líka mjög skemmtilegur og hefur húmor fyrir eigin gáfnarúnki. Sem minnir á James Joyce (Ulysses er rétt svo helmingurinn af lengd Infinite Jest en erfiðari aflestrar, þótt hún sé ekki endilega hæglesnari). Og einsog í Ulysses er fegurðin hérna ekki síst í þessari ofgnótt. Þegar ég skoða lista yfir langar bækur kemur mér á óvart að uppgötva að Infinite Jest er styttri en Atlas Shrugged eftir Ayn Rand. Atlas Shrugged las ég fyrir sjálfsagt áratug og þurfti að pína mig niður hverja síðu – og skiptist samt á að hlusta á hljóðbókina og lesa og hafði engan áhuga á að lesa hana „vandlega“ vegna þess að mér varð fljótt ljóst að allt sem hún hafði við mig að segja, sem var ekki bara sápuóperuplott, hafði hún þegar sagt á fyrstu síðunni og hélt svo bara áfram að segja mér það aftur og aftur. En ég vildi samt klára. Hún var ekki erfið aflestrar, bara löng og leiðinleg. Það er umtalsvert meira innsæi í mannlegt eðli hjá Wallace og Infinite Jest ögrar bæði sjálfri sér og lesandanum miklu reglulegar – en mestu munar samt um húmorinn. Það munar alltaf mestu um húmorinn. Ég bara skil ekki húmorslausar bækur, frekar en ég skil húmorslaust fólk. Ætli ég klári hana ekki samt fyrir mánaðamót. Ég ætla allavega að taka góða rispu á helginni og gotta mig í henni. *** Það er hræðilega dimmt á skrifstofunni minni. Eiginlega janúardimmt. Alveg við gluggann er mjög stór runni – eða tré eiginlega – með miklu laufi sem byrgir innsýnina á veturna. Sem er ágætt, það er mikill umgangur hérna á sumrin og mér finnst gott að vera í friði. Og þegar það er sólríkt birtir nú líka aðeins til hérna þrátt fyrir runnatréð. En nú er sífellt skýjað og þá er ægilega dimmt og birtan af tölvunni og borðlampanum býr til svona ljóshjúp á vinnusvæðinu mínu, upplýstan blett í myrkrinu. Sem er í senn kósí og svolítið þunglyndislegt, svona í miðjum ágúst. *** Í tilefni af þessu rifjaði ég upp textann við Jakkalakka eftir Bubba. Jakkaklæddir menn
kúra bak við borð
við græna ljósið frá tölvunni
éta tölvuprentuð orð. Og svona löngu seinna (þetta er af Von frá 1992) er ég helst hissa á því að birtan hafi verið græn. Mig minnti að þetta væri „föla ljósið“ eða eitthvað. Ég held reyndar líka að birtan af tölvuskjáunum hafi ekki lengur verið græn 1992. Allavega ekki heima hjá mér. Hvaða tölvur voru þetta annars með grænum stöfum? Við áttum Amstrad frá sirka 1988 og svo PC fljótlega upp úr ’90 og það var áreiðanlega ekki græn birta af þeim.