Untitled

Ég hef fordóma gagnvart fólki sem leikur í auglýsingum. Eða – nei, fordómar er ekki rétt orð. Fólk setur einfaldlega niður við að leika í auglýsingum, semja þær o.s.frv. Það er næstum sama hverju er verið að pranga upp á mann. Og nei, auglýsingar eru aldrei list – list skapar sér eigin markmið, auglýsingar eiga sér alternatíf markmið. *** Það mætti útskýra muninn þannig að einhver elski þig þín vegna eða einhver elski þig bara fyrir það sem þú getur veitt þeim. Kynlífið getur í sjálfu sér verið í öllum fýsískum aðalatriðum mjög svipað. Og línurnar kannski stundum gráar. But it’s not the same. *** Ég nefndi í gær að færri og færri bækur eiga stærri og stærri hlutdeild í bókamarkaðnum og hvað þetta væri til marks um einsleitan lestur. Í kjölfarið fór ég að velta því fyrir mér hvort þetta hefði með sam- og sítengd vesturlönd að gera – einsog við erum öll líka að horfa á sömu sjónvarpsþættina. Einu sinni horfði allt Ísland á Hemma Gunn og Fasta liði einsog venjulega og Svíar horfðu á Varuhuset og Vi på Saltkråkan. Nú horfa bara allir á Game of Thrones. *** Þetta er ekki bara spurning um gæði. GoT er betra sjónvarp en Fastir liðir einsog venjulega. Þetta er spurning um svipaðan sjóndeildarhring – að allir séu að hugsa það sama, upplifa það sama – og einhvers konar úniformisma. Heildir, einsog þjóðir, eru performaðar – og heildin sem við performerum þegar við horfum á sjónvarp í takt við alla vestur Evrópu og norður Ameríku er ný. Eða í það minnsta nýstárleg. *** Því er oft haldið fram að nútímaskilningur okkar á því að tilheyra „þjóð“ eigi uppsprettu í útgáfu dagblaða á landsvísu. Að þegar allir fóru að lesa sama dagblaðið hafi ímyndunarafl þeirra – the social imaginary – farið að rýma alla hina í þjóðinni, á svipaðan máta og það rýmdi áður ættbálkinn og fjölskylduna. *** En fylgir með Netflix tilfinning fyrir öllum vesturlöndum?