Ég fór í göngutúr frá Råby til PL Asian Livs sem er eftirlætis asíska búðin mín. Að minnsta kosti í Västerås. Þar keypti ég kóreskt chili, smokkfisk, kimchi, ferskan grænan pipar, tofu og einhverja hunangsbanana. Ég ætla að gera einhvers konar bibimbap í kvöld fyrir Nödju og systkini hennar og systurdóttur og systurdótturson. Já og börnin mín. Og Nödju. *** Á göngutúrnum hlustaði ég á nýjustu tvo þættina af Póetry Gó. Þetta er afar vel gert, einsog ég held ég hafi nefnt áður, og ég á eftir að sakna þessara þátta þegar þeir ljúka göngu sinni – sem ég held að sé í sumarlok, hafi ég ekki misskilið eitthvað. Það kemur auðvitað ekki að sök að margir viðmælenda eru vinir mínir og kunningjar til margra ára – og höfundar sem ég hef meira og minna lesið upp til agna. En uppleggið og úrvinnslan er líka mjög metnaðarfull sem og innsæi fólks í eigið starf og annarra, eigin verk og annarra. *** Það sló mig á göngutúrnum að íslenskri ljóðlist megi skipta í tvær greinar. Annars vegar eru það svipmyndir af öðrum og hins vegar svipmyndir af manni sjálfum. En íslensk ljóð eru nær alltaf anekdótur – frásagnir með persónum. Sagnaþjóðin lætur ekki að sér hæða. *** Meira að segja Lommi er farinn að yrkja það sem Jacques Roubaud kallar „alþjóðlega fríljóðið“ og hefur skrifað langlokur um (og eiginlega gegn). *** Alþjóðlega fríljóðið er hómógent, samræmt ljóðform á vesturlöndum (og sennilega víðar) sem einkennist af litlum tiktúrum í formi og máli – texta sem er einfalt að skilja og sem þýðist vel á milli mála – og hefur einmitt oft til að bera sögupersónur og sjónarhorn. Textinn skilur sig ekki frá prósa nema með (oft tilfallandi) línuskiptingum sem hverfa fullkomlega í upplestri. (Annars vísa ég bara á stórgóða bók í ritstjórn Marjorie Perloff og Craig Dworkin: The Sound of Poetry / Poetry of Sound – þar á Roubaud góða ritgerð um efnið). *** Óratorrek er vel að merkja samin í einföldum, þýðanlegum setningum, þótt í henni sé ekki að finna tiltekinn ljóðmælanda. En hún er garanterað þýðanlegasta bók sem ég hef skrifað. *** Frásagnir af einkennilegu fólki. Þær eru líka mjög íslenskar, bæði í ljóðum og prósa, og hafa verið lengi. Náskyldar sænska forminu um fakírinn sem varð óléttur og datt fram af svölunum en var gripinn af nakinni húladansmær og varð síðar forseti Tahiti. *** Kannski er þetta einhver höfnun og/eða framhald á póstmódernismanum. *** Eitt einkenni sem hefur lengi verið sterkt á Íslandi en fer vaxandi alþjóðlega er ljóðið sem sjálfsmynd. Ljóðabókin sem sjálfsmynd. Égégégégégégégég orti Dagur Sigurðarsson um árið og skopaðist að þeim sem hugsuðu bara um sjálfan sig (og var sennilega einmitt líka að skopast að sjálfum sér fyrir að skopast bara að sjálfum sér – naflaskoðun er dýrkeypt og endalaust maraþon í endalausum speglasal). *** Sjálfsmyndin – selfíið – er auðvitað í senn tákn um aukna einstaklingshyggju (sem er staðreynd, hvað sem manni finnst um það) og um áherslu á karakterinn . Því rétt einsog í ég-ljóðunum er ekki endilega víst að égið á selfíinu sé alltaf maður sjálfur. Égið á selfíinu er pósa, karakter, stílbragð. Maður er alltaf að taka mynd af einhverju öðru en sjálfum sér þegar maður tekur mynd af sjálfum sér. En maður varpar svo þessari mynd á andlitið á sér. *** Ímyndarsköpun. Ljóðabækur sem ímyndarsköpun. PR fyrir bóhem. *** Er ég orðinn of sínískur? Ég er ekki beinlínis að kvarta. Ég er bara að hugsa upphátt. *** Það er lítið um ljóð á íslensku núorðið sem eru ort fyrir sakir tungumálsins – fá ljóð sem hafa sproklegt intensítet (svo ég sletti dálítið, af því auðvitað kann enginn að tala lengur, síst af öllum ég). Að minnsta kosti fá ljóð sem hafa það að meginmarkmiði. Þess konar ljóð hafa reyndar aldrei verið sérlega áberandi á íslensku – og hafa lítið náð máli, a.m.k. síðustu áratugina, nema sem nostalgía. *** Tilfinning mín er líka sú að þess konar ljóðum fari fækkandi erlendis – þar sem ég sé til (í Skandinavíu og enska málsvæðinu). Sem sagt að anekdótum og sjálfsmyndum fari fjölgandi á kostnað bæði tilraunamennsku og þessa niðursoðna módernisma – að þétta orðin í handsprengjur sem maður starir á þar til þær blasta einhverju í andlitið á manni. *** Þessu tengt eða ótengt las ég nýlega frétt um að bóksala hefði dregist saman milli 2015 og 2016 og það var rakið til þess að síðasta ár hefði ekki komið út neinn almennilegur blockbuster. Og í kjölfarið var stuttlega rætt um þá breyttu heimsmynd að einstakar bækur – Harry Potter, 50 Shades of Grey, Dan Brown o.s.frv. – séu farnar að hafa miklu meiri áhrif á bókamarkaðinn en áður. Sem segir mér að bóklestur sé að verða einhæfari. Að við lesum kannski ekki (miklu) minna en við lesum öll sömu bækurnar. Sem mér finnst ógnvekjandi af ástæðum sem ég kannski tíunda síðar. En nú þarf ég að fara að marínera.