Byrjuðum daginn á að stökkva upp í hop-on hop-off rútu og krúsa í gegnum kínahverfið, ítalska hverfið og upp í bryggjuhverfið, þar sem við fórum frá borði og röltum út á höfn 39 – litum yfir hafið á Alcatraz, virtum fyrir okkur sæljónamergð og keyptum okkur ís. Nadja eyddi talsverðum tíma í vísindaverslun við Exploratorium og ég fylgdist með mannlífinu og hékk í símanum. Næst fórum við í City Lights og keyptum bækur fyrir morðfé – afgreiðslukonan gaf okkur póstkort og barmmerki í kaupbæti og hrósaði anti-fa bolnum mínum. Hádegisverður á House of Nanking og svo göngutúr í gegnum kínahverfið – ég keypti mér íhvolfa wokpönnu (þ.e.a.s. sem er ekki með neinum flötum botni) og hring til að geta sett hana á gashelluna heima. *** Ég keypti History eftir Elsu Morante (sem ég er hálfnaður með í kindlinum en vil eiga). Valin ljóð Majakovskís á ensku. Lunch Poems í fallegu City Lights broti (á hana bara í heildarsafninu). I remember eftir Joe Brainard. Transgender Voices. Valin ljóð Ko Un. Nadja keypti bækur eftir Levinas og Kristevu auk bókar sem heitir Green is the New Red og fjallar um að græningjar séu nýja rauða ógnin. *** Komin heim á hótel ákváðum við að kíkja í bíó. Fórum í Alamobíóið á Mission Street og sáum Detroit – nýjustu mynd Kathryn Bigelow. Þetta er gamalt og fallegt bíóhús og þarna er þjónað til borðs inni í bíósalnum. Við keyptum okkur hvort sinn kokteilinn, kaffi og poppkorn. *** Myndin var að mörgu leyti góð. Þetta er sögulegt, auðvitað, og mikið djöfull sem kynþáttasaga þessa lands er skelfileg. En ég spurði mig líka – einsog ég spyr mig oft gagnvart listaverkum af þessu tagi – til hvers ég ætlaðist eiginlega af því. Hvort því væri bara ætlað að sannfæra mig um allt sem ég veit þegar. Kannski er þetta bara til að þétta raðirnar. Ég sé ekki fyrir mér að Trump-repúblikanar eða rasistar hrúgist inn – eða láti svona nokkuð sannfæra sig um eitt eða annað. En sennilega er gott að hlutirnir séu áréttaðir. *** Það var líka truflandi – einsog Nadja nefndi í lok myndar – að við vorum öll hvít þarna inni. Í lúxusbíói. Og þjáða fólkið á skjánum var svart. Ein aðalsöguhetjan er tónlistarmaður sem hættir að syngja doo-wop fyrir hvítt fólk eftir að hafa verið barinn og píndur af hvítum löggum. Og tagglínan hans í lok myndar er: „I don’t want to make white people dance“. Eða eitthvað álíka. Og það var erfitt að verjast tilhugsuninni um að það hefði einmitt verið það sem við vorum að gera. Hann að syngja og við að dansa. *** Hún virðist mestmegnis hafa fengið slæma dóma. Ég gúglaði. Í einhverjum tilvikum er það reyndar mikið til á mórölskum forsendum. Að það eigi ekki segja þessa sögu „As I watched this protracted scene of captivity, terror, torture, and murder in the Algiers Motel, I wondered: How could they film this? How could a director tell an actor to administer these brutal blows, not just once but repeatedly? How could a director instruct another actor to grimace and groan, to collapse under the force of the blows? […] The meticulous dramatization of events intended to shock strikes me as the moral equivalent of pornography.“ skrifar Richard Brody í The New Yorker. Eða að hvít kona eigi ekki að segja þessa sögu. *** Og þetta er sannarlega vandræðalegt allt saman. En kannski aðallega af því að Bigelow kemst ekki út úr klisjunum – þorir því hreinlega ekki. Myndina skortir allt narratíft brútalítet. Sennilega vill hún bara of vel.