Tilvitnun vikunnar

Ég er […] settur á borgina eins og broddfluga á stóran og kyngóðan hest sem er í latara lagi sakir stærðar sinnar og þarf því eitthvað til þess að pipra sig upp. Mér virðist guðinn einmitt hafa sett mig þannig á borgina, þar sem sá er háttur minn að ég sest á yður, vek yður og vanda um við yður hvern um sig, allan daginn, án afláts og alls staðar. Sókrates – Málsvörn Sókratesar

Untitled

An einem Montag in Krems. Ég vaknaði furðu snemma miðað við hvað ég sofnaði seint – en ekkert sérlega snemma samt. Ég burstaði í mér tennurnar, fór og fann mér ljósritunarstofu niðri í bæ, prentaði út handritið – 338 A4 blaðsíður með góðum spássíum til að krota í – og fór svo á kaffihús og fékk mér morgunmat. Þegar ég var búinn að instagramma fallega nýútprentaða handritinu mínu uppgötvaði ég að hafði gleymt að taka með mér penna og fór að lesa bókina hans Jordans Petersons (sem mamma mín þýddi). Ég er sirka hálfnaður með hana og veit ekki hvort það er nokkurn sérstakan lærdóm af henni að draga enn, annan en að Jordan er klassískur íhaldsmaður og sem slíkum annt um að standa vörð um gömul gildi, fyrst og fremst hina kristnu fjölskyldu og hin skilgreindu hlutverk hvers og eins innan hennar. Hann notar trúarrit – ekki bara biblíuna – oft og iðulega til sönnunar á kenningum sínum um eðli mannsins. Nú er ég ekki frá því að slíkar bækur – sem og hin klassíska kanóna, það sem hefur „lifað af“ – veiti ákveðna innsýn í samfélagið en það er auðvitað fráleitt að gera þá innsýn að módeli fyrir framtíðina, eða einu sinni láta einsog bara vegna þess að þessar sögur og þessi módel séu til, þá séu þau góð. Félagslegi Darwinisminn sem sú kenning byggir á felur heldur ekki í sér að þau módel þurfi að vera eilíf – ef þau lúta í lægra haldi fyrir vælandi transkynjuðum réttlætisriddurum, einsog Jordan vill oft meina að sé hættan, þá ætti það í sjálfu sér (ef maður trúir á Darwinismann) að vera sönnun þess að family values módel hins kristna feðraveldis sé úrelt. Þá eru skringilegar mótsagnir þarna sem hann hefur enn ekki leyst úr um miðja bók. Til dæmis virðist hann í senn gefa í skyn að lúserar þjóðfélagsins eigi skilið að deyja út – eða, allavega að það sé „náttúrulegt“ að þeir geri það og „ekkert við því að gera“ – og að konur séu tíkur fyrir að leggjast ekki með þeim. Í nýlegu viðtali gerði hann því skóna að fjöldamorðingjar samtímans og hryðjuverkamenn þyrftu helst bara að giftast – og það þyrfti að finna fyrir þessa menn konur – en í raun væri það kannski óþarfa inngrip. Það væri einsog að þvinga lúserahumrana, með sína bráðnuðu beta-heila og lúpulegan líkamsburð, til þess að fjölga sér, þegar meiningin er augljóslega sú að þeir deyi út. Hryðjuverkin og ofbeldið er þá beinlínis skárra en að þeir fjölgi sér. Mér finnst líka ákveðin óútskýrð lína, og mikilvæg, hvar hið mikilvæga mótlæti – sem Jordan tignar, meðal annars í löngum „þegar ég var ungur gekk ég nakinn í skólann í 40 gráðu frosti og hríðarbyl“ kafla – þetta mótlæti sem gerir úr okkur alfakarla, all we can be, verður að mótlætinu sem brýtur okkur og bræðir í okkur humraheilann svo við verðum vælandi incel-lúserar með ekkert tilkall til mikilfengleika í heiminum annað en að sprengja í loft verslunarmiðstöðvar. Hvenær er mótlæti styrkjandi og hvenær er það bara niðurlægjandi? Það gengur ekki upp að það sem ekki drepi okkur geri okkur sterkari, á sama tíma og það geri okkur að lúserum. Að síðustu talar hann mikið um taóisma og yin og yang táknið – fyrir glundroða og reglu, fyrst og fremst, en táknið á auðvitað við miklu, miklu fleira – en gerir því svo iðulega skóna að glundroðann verði að uppræta að svo til öllu leyti. En yin og yang táknið er alls ekki það – það tjáir jafnvægið milli glundroðans og reglunnar og í taoískri kenningu tekur reglan ekki yfir glundroðann (sem er líka sköpunin) frekar en glundroðinn tekur yfir regluna. Á því er einfaldlega enginn hætta – enda eru ekki átök í yin og yang heldur samhljómur, harmónía. Jordan fer hins vegar með þau algerlega yfir í það sem hefur verið kallað vestræn tvíhyggja – og einkennist einmitt af átakahugsanahætti – og vill að við berjumst við glundroðann og gerir því skóna að reglan sé eðlilegt ástand. Það er svo sem margt að hugsa um þarna. En hann er svolítið meiri „kjaftaskur“ en ég hafði átt von á. *** Í gær horfði ég á La Piel Que Habito frá Almodóvar. Mikið ofsalega fannst mér hún falleg og sorgleg og erfið. Plottið er auðvitað dálítið súrrealískt – eða horror-fútúrískt og ýkt – en það kom mér á óvart að finna síðan dóma um hana þar sem hún er sökuð um að vera köld og fráhrindandi. Mér finnst alveg merkilegt hvað sumu fólki finnst erfitt að sýna bældum og reiðum söguhetjum samlíðan – jafnt þótt þær augljóslega logi af harmi og ógæfu. *** Annars er ég bara að lesa bókina aftur og aftur og taka við athugasemdum héðan og þaðan. 12 dagar í skil og ég er býsna kátur með þetta allt saman einsog raunar allir yfirlesarar hingað til. En það eru alltaf einhverjir díteilar sem má bóna og pússa.

Tilvitnun vikunnar

I felt like a bird fluttering on the ground unable to mount; yet unwilling to crawl tranquilly like a reptile, whilst still conscious it had wings. Mary Wollstonecraft –
Letters Written During a Short Residence
in Sweden, Norway and Denmark –

Untitled

Ég hef stundum setið við skriftir í miklum hita og hugsa þá alltaf til lýsingar á Halldóri Laxness, sem var sennilega frá honum sjálfum komin, þar sem hann sat á Taormínu með penna í annarri hendi og flugnaspaða í hinni, í engu nema einglyrninu. Þá var hann að skrifa Vefarann. Hér í Krems við Dóná er ekki mikið af flugum, a.m.k. ekki í stúdíóíbúðinni minni, en það er mjög heitt. Ég þarf ekki heldur gleraugu og er svo siðprúður að ég fer ekki úr nærbuxunum við skriftir, sama hvað ég svitna, og ekki heldur giftingarhringnum – en allt annað fær að fjúka. Ég er með útsýni yfir Dóná sem rennur hér hjá hundrað metra í burtu og eitthvað lengra, uppi í hlíðunum, er slangur af kastölum. Hinumegin við húsið – hér eru íbúðir fyrir listamenn og „bókmenntahús“ bæjarins (ef þetta 20 þúsund manna þorp getur rekið bókmenntahús þá ættum við að ráða við eitt á Íslandi) – er helsta öryggisfangelsi Austurríkismanna. Þar bjó meðal annars, meðan hann lifði, hinn frægi vændiskonumorðingi Jack Unterweger, en nú er frægasti fanginn enginn annar en Josef Fritzl. Bara hérna hinumegin við götuna. Josef Fritzl. Það er svolítið spes tilfinning að vera svona nánast í kallfæri við hann. Það er mikill múr utanum útisvæði hinumegin við fangelsið og mér hefur stundum dottið í hug að maður gæti kallað til hans – fái hann nokkru sinni að fara út undir bert loft er það þar og hann myndi áreiðanlega heyra í manni. En hvað ætti maður að segja? Varla fer ég að tala um HM – Austurríkismenn hafa ekki komist á HM síðan 1998. Ég skila Hans Blævi þann 1. júlí. Sama dag verð ég líka fertugur. Í gær horfði ég á þá ágætu mynd The World According to Garp, sem gerð er eftir enn ágætari skáldsögu Johns Irving (og ein aðalsöguhetjan, Roberta Muldoon, er trans sem John Lithgow leikur í myndinni). Í þeirri mynd lendir hjónaband Garps og konu hans í heljarinnar vandræðum þegar þau verða miðaldra og gröð í unglinga. Hann heldur framhjá með barnapíunni og hún með nemanda sínum. Og haldiði ekki að það komi fram að þau, þarna þetta miðaldra, lífsleiða fólk sem reynir að ríða æskunni því það hefur glatað sinni eigin, séu ekki bara rétt svo þrítug? Hvað verður þá um okkur, sem verða fertug? Væri ekki bara miskunnsamast að moka yfir okkur strax? Okkur sem eru meira að segja of gömul fyrir gráa fiðringinn. *** Lokametrarnir í skáldsögu eru alltaf þungir. En spennandi. Skemmtilegir og ömurlegir. Maður dundar sér við að gylla sprungurnar, skreyta og laga – sem er gaman – og svitnar yfir öllum mistökunum sem maður hlýtur að vera að gera. Smávægilegar gloppur eru óhjákvæmilegar nema verkið sé mjög smátt að sniðum. En hvað ef manni yfirsést eitthvað ægilegt? Eitthvað sem ógnar sjálfu samhengi sögunnar? Maður starir og starir, breytir kommum í semíkommur (af því einsog Vonnegut benti á, reyndar með vanþóknun, þá eru semíkommur „transvestite hermaphrodites“ og því vel viðeigandi), fellir niður sviga, bætir inn punktum, færir til einstöku setningu, þurrkar svo út heilu kaflana og endurskrifar þá, og er almennt bara að fara á taugum. Kannski eyðileggur maður fleira en maður lagar. En hugmyndin er samt að laga fleira en maður eyðileggur. Ég er líka enn að lesa og horfa á efni tengt bókinni og held því nú sennilega áfram fram yfir útgáfu – allavega út haustið. Í gær kláraði ég Frankenstein. Það eru augljósar tengingar á milli verkanna – öll skrímsli (og tröll) eru afkomendur skrímslis Frankensteins (og þar með doktor Frankensteins líka). Ég hafði í huga að skoða bókina sérstaklega út frá frægri ritgerð Susan Stryker  My Words to Viktor Frankenstein above the Village of Chamounix: Performing Transgender Rage , þar sem hún talar meðal annars um kraftinn sem maður getur fengið út úr því að gangast við skrímslinu, verða skrímslið – og það er eitthvað sem augljóslega höfðar til Hans Blævar – en ég fann svo sem engan æðislegan vinkil á það mál allt saman. Þessir þræðir og þessar hugmyndir eru allar til staðar og það er bara óþarfi að ofgera hlutunum (þar erum við HB reyndar ósammála). Annars hef ég það svo sem fínt, þótt ég sé líka að missa vitið. Mollan bakar mann svo maður verður þrunginn doða, kvíða og vellíðan – pungsveittur og rjóður frá morgni til kvölds. Það erfiðasta hérna er að mér skuli ekki lukkast að sofa með viftuna í gangi – þar er dómadagssuðinu um að kenna. *** PS. Ég er að hugsa um að bæta við aukafærslum á miðvikudögum og föstudögum. Ein verður bara lag – ég á myndarlegan playlista tengdan Hans Blævi – og hin verður tilvitnun.

Untitled

Rachel Dolezal heitir bandarísk kona og fyrrum talsmaður NAACP í Spokane. Hún segist vera svört þrátt fyrir að foreldrar hennar séu hvítir. Hún segist vera transsvört. Rachel komst í fréttirnar árið 2015 þegar blaðamaður afhjúpaði hana í beinni útsendingu – hann spurði hana fyrst um föður hennar og hún nefndi svartan mann sem hafði að einhverju leyti gengið henni í föðurstað. Hann ýtti þá að henni mynd af hvítum foreldrum hennar – fólki sem að sögn beitti hana og mörg systkini hennar miklu ofbeldi í æsku – og spurði hvort þetta væru ekki raunverulegir foreldrar hennar? Hún fraus og hikaði og gekk svo á braut. Rachel ólst upp við mikla fátækt hjá ofurkristnum foreldrum – þau bjuggu úti í sveit og lifðu af gæðum jarðar, betli og alls kyns föndri. Þegar hún er unglingur taka foreldrar hennar upp á því að ættleiða börn, meðal annars til þess að fá inn aukatekjur (t.d. með því að fara fram á framlög frá öðru kristnu fólki) – og vegna þess að það er fljótlegra að ættleiða svarta en hvíta (meira framboð og minni eftirspurn, svo notað sé kaldranalegt orðalag) þá eru nýju systkini Rachelar öll svört. Hún segist sjálf hafa verið farin að ídentífera sem svört löngu fyrir þetta – upp úr National Geographic blöðum og þegar hún hafi sem barn teiknað myndir af sjálfri sér hafi hún alltaf notað brúnan. „Peach just didn’t resonate with me“ er ein af eftirminnilegustu línum sjálfsævisögu hennar, In Full Color. En eftir að systkinin koma á heimilið tekur hún á sig ábyrgðina á því sem henni fannst foreldrar þeirra vanrækja: að uppfræða börnin um menningu svartra bandaríkjamanna. Hún sökkvir sér í lestur og verður alveg hugfangin. Á sama tíma eyðir hún líka talsverðri fyrirhöfn í hárumhirðu þeirra og verður á endanum afar fær „black hairdresser“ – kann allar fléttur og hefur af því hlutastarf á fullorðinsaldri. Hún byrjar líka að gera listaverk – aðallega figuratíf málverk á alls kyns efni, eggjaskurn og fleira – og ákveður þar að birta aðallega sögu svarta og svört mótíf, vegna þess að henni þóttu hvítir taka of mikið pláss í listasögunni (einhverjir hafa gert grín að þessari blindni, að hún fatti ekki að hún sé þar með sjálf að taka pláss einhvers annars – hún segist auðvitað vera svört – en fyrst og fremst held ég að þetta sé alveg raunveruleg klemma, telji maður sig hafa eitthvert tilkall til köllunar sinnar yfir höfuð). Í menntaskóla byrjar hún að flétta hárið á sér og svo smám saman rekur hana nær og nær því að virðast svört í útliti. Þegar hún kynnist eiginmanni sínum dregur hins vegar úr því, þar sem hann – að hennar sögn – vildi helst að hún væri hvít (hann var sjálfur svartur) af því það væri stöðutákn fyrir sig. Ég get svo sem alveg ímyndað mér að honum hafi þótt þetta óþægilegt af öðrum sökum líka, en látum það vera. Þau eignast saman barn en skilja svo og þá fer Rachel aftur að „finna sig“ og eftir nokkur ár fer fólk að gera ráð fyrir því að hún sé einfaldlega svört – hárið á henni er þannig, barnið hennar er svart, áhugasvið hennar er svört menning og réttindabarátta svartra, hún er dugleg að hanga úti í sólinni og notar kannski aðeins dekkra meik en myndi passa henni annars. Og hún hættir að leiðrétta fólk og verður eins konar sérfræðingur í gloppulygum. Þegar hún er spurð hvort það sé mamma hennar eða pabbi sem sé hvít segir hún bara að mamma sín sé hvít (án þess að nefna að pabbi hennar sé það líka). Og svo framvegis. Síðar ættleiðir hún líka einn af bræðrum sínum – og á þar með tvö svört börn og eignast það þriðja bara fljótlega upp úr skandal. Þetta er ekki Rachel, þetta er ég, níu ára. Kominn heim úr sumarfríi og byrjaður í skóla var ég kallaður „niggari“ af skólafélögum mínum langt fram á haust – en hef ekki séð sérstaka ástæðu til að skipta um eða leiðrétta kynþátt minn. Sem ég reikna með að sé fyrst og fremst ísfirskur eyrarpúki.  Hér er ágætt að hafa í huga að kynþættir eru ekki eiginleg líffræðileg kategóría – einsog t.d. kyn er, þótt rétt sé að hafa í huga að kyn er á stóru og flóknu rófi (og allar líffræðilegar kategóríur eru líka menningarlegar). En það eru engir eiginleikar sem einkenna bara svarta eða hvíta eða aðra – hvítir geta haft sams konar hár og svartir, verið dökkir á húð, svartir geta verið ljósir o.s.frv.  Það eru sterkar tilhneigingar en þær eru ekki einhlítar og enginn einfaldur staður til að „draga línu“. Þá er auðvitað margþekkt að sumir svartir í bandaríkjunum og víðar „komust upp með“ að segjast hvítir í praktískum tilgangi, til að fá forréttindi – en færri dæmi um að fólk hafi farið yfir kynþáttalínuna í hina áttina (en þó samt nokkur, aðallega vegna ástarsambanda). Þá hefur fólk verið talið „svart“ fyrir minnsta snert – eigi maður svartan forföður eða formóður þarf hán að vera mjög langt aftur í ættir til að maður teljist hvítur frekar en svartur. Það gekk til dæmis lengi sá orðrómur um Davíð Oddsson að afi hans eða langafi eða langalangafi eða langalangalangalangafi hafi verið svartur maður og þar hafi hann fengið sitt hrokkna hár, hann væri svartur – sem væri ekki síst skemmtilegt í ljósi þess að þá ættu tveir yngstu borgarfulltrúar í sögu Reykjavíkurborgar, Davíð og Sanna Magdalena, slíkan bakgrunn sameiginlegan. Í bók sinni Trans: Gender and Race in an Age of Unsettled Identities ber Rogers Brubaker mál Rachelar Dolezal – og hugmyndina um kynþáttatrans almennt – saman við mál Caitlyn Jenner og hugmyndina um transkyn. Myndaþáttur Annie Leibovitz af Caitlyn Jenner hafði birst í Vanity Fair 10 dögum áður en Rachel var afhjúpuð – og misserin þar á eftir fóru í að fagna hugrekki Caitlynar en úthúða Rachel fyrir ruddaskap, menningarnám og lygar. Þessa staðreynd og þessa umræðu notar hann sem stökkpall fyrir núanseraðan debatt. Bókin er ekki síst merkileg fyrir færni höfundar til að sigla milli skers og báru. Brubaker gengst fyllilega við því að málin séu ekki algerlega sambærileg en stendur samt fast á því að  bera þau saman því þau séu skyld en leggur sig allan fram um að gera það af virðingu við trans sem konsept – hina flæðigerva sjálfsmynd – og fólkið sem þarf að takast á við sjálft sig og heiminn í ljósi þess. Hann rekur einfaldlega hvað er líkt og hvað er ólíkt af dæmalausri forvitni og reynir að troða engum um tær. Sem er ekki sjálfsagt, enda afar eldfimt umræðuefni og margir sem það snertir sem eiga um sárt að binda og sýna (eðlilega) tortryggni. Það er síðan áhugavert að stór hluti af orðræðunni sem notuð er til að fordæma Rachel – að kynþættir séu fastir fyrir, að „transracial“ sé bara bull, að kynþáttum fylgi saga og sársauki sem utanaðkomandi megi ekki eigna sér, að hún sé að fetisjera líkama annars o.s.frv. – er svo til beint tekinn upp úr orðræðu TERF-fólks (Trans Exclusionary Radical Feminist) á borð við Janice Raymond og rímar algerlega við þá fordóma sem transfólk mátti (og má víða enn) þola. Okkur er mjög eðlislægt að standa grimman vörð um sjálfsmyndir annarra – sem er mjög merkileg hvöt. Það er einsog fólki finnist í raun samfélagsvefnaðinum ógnað – einsog það muni bara allt rakna upp og við öll steypast í kaos og glötun – ef nokkur hefur val um sjálfsmynd sína. Og heiftin er gegndarlaus. Eitt af því sem er áhugavert í ævisögu Rachelar er síðan afstaða hennar sjálfrar til menningarnáms. Á meðan hún er algerlega grjóthörð á að hún hafi rétt til að kalla sig svarta – af því kynþættir séu (líka) menningarlegir og lífspekilegir og hún hafi orðið fyrir áreiti og rasisma vegna þess að hún virðist svört – þá er hún alfarið á móti því t.d. að hvítt fólk spili blústónlist eða rappi. Af því að þá eru þeir að ræna menningu svartra – og þar með svipta þá kúltúrkapítali. Menningarnám er komplex hlutur og þótt ég skilji það pólitískt og gangist við stóru hreyfingunni þá á ég erfitt með að rifja upp nokkur stök dæmi sem mér finnst taka því að fordæma. Vanilla Ice hefur mátt þola nóg. Og svo held ég líka að það sé sá hlutur sem á eftir að virðast hlægilegastur í baksýnisspeglinum – þegar Lena Dunham studdi nemendur sem vildu láta taka sushi af skólamatseðlinum eða þegar Twitter trylltist yfir ungri stúlku í kínakjól (það vill til að konan mín á næstum alveg eins kjól og fór í honum í fínasta boð sem okkur hefur verið boðið í – í gyllta salnum í Stokkhólmi). Þess má geta að Twitter trylltist líka við tryllingjann í kínakjólsmálinu. Stóri munurinn á kynjum og kynþáttum er sá að kyn erfast ekki – maður er ekki kona af því að mæður manns eru konur. Þar með eru allir skyldir konum og körlum og þau er að finna í öllum fjölskyldum. Þess vegna er kúgun kvenna relatíf við stétt þeirra og stöðu annars – sem patríarki get ég viljað að konan mín hlýði mér og sé mér undirskipuð, en ég vil á sama tíma að hún tilheyri sömu veröld og ég, njóti minna forréttinda með mér – á meðan kúgun svartra getur orðið botnlaus. Þessi munur þykir mér koma best fram í hinni misheppnuðu helför gegn þroskaheftum í þriðja ríkinu, sem hófst nokkru áður en stríðið brast á – hún gekk ekki upp af því þroskaheftir áttu ættingja alls staðar og allir áttu þroskaheftan ættingja. Það fólk, sem naut forréttinda og hafði völd, stóð einfaldlega vörð um sitt fólk og mótmælti meðferðinni. Þegar kom að gyðingunum og sígaununum var því ekki lengur að heilsa – af því þeir voru kynþáttur eða ættbálkur. Brubaker tekur eðlilega líka fyrir það sem hann kallar „the trans of beyond“ og á þá við þá sem eru á rófinu á milli kynja eða kynþátta (eða einhvers annars), eða skilgreina sig hreint ekki innan þessara kerfa (og komast upp með það að vera óræðir, sem er alls ekki öllum gefið vel að merkja). Það er ekki síst þeim sem hefur fjölgað á síðustu áratugum. Rachel talar (illa, minnir mig) í bók sinni um þá sem eru kallaðir „oreos“ – svartir að utan en hvítir að innan – og hugtakið „wigger“ hefur heldur aldrei verið notað um neinn af virðingu. En það er líka dulinn og hugsanlega mikilvægur ágreiningur milli handan-trans og milli-trans – því á meðan fyrri hópurinn leggur upp með að má út kynjamörkin leggur sá síðari í raun upp með að styrkja þau eða í það minnsta staðfesta, með því að færa sig einfaldlega frá A til B (eða líta svo á að þau séu í raun A en hafi mátt lifað í óleiðréttum B-líkama). Nú er ekki loku fyrir skotið að manni þyki bara „bæði best“ og óski öllum einfaldlega vel að lifa – en það er ekki heldur laust við að þarna örli á hugmyndafræðilegum ágreiningi og fulltrúar hópanna tala stundum heimspekilega óvarlega hver um annan, sennilega án þess að einu sinni ætla það. Susan Stryker – hinn góði höfundur Transgender History – sem kom fyrir í síðustu færslu (af því hún er svo hrifin af Sense8 og fékk mig til að horfa á þau ósköp) er einmitt líka mjög hrifin af bók Brubakers og segir að hún sé „must-read for anybody interested in the questions “Who am I?” and “Who are You?““ Ég verð að taka undir með Stryker – Trans er með áhugaverðari bókum sem ég hef rekist á í þessari ódysseifsferð minni um heilann í Hans Blævi. Annars má við þetta bæta að auk þess að lesa þessar tvær bækur þá horfði ég á flúnkunýja heimildamynd um Rachel á Netflix: The Rachel Divide. Hún var líka mjög fín. Ævisagan sjálf líður fyrir lélega ritstjórn – eða lélegan meðhöfund. Rachel reynir eðlilega svo mikið að verja sig og útskýra sig að hún virkar bara paþológísk á eftir – góður höfundur hefði dregið  úr þessu einsog hverju öðru sjálfhverfuröfli og reynt að straumlínulaga lógíkina svolítið. Hún er áhugaverðust í byrjun – æsku- og unglingsárin og fyrstu fullorðinsárin – og svo í lokin þegar allt hefur komist upp. Millispilið er svolítið þreytandi. En Rachel er augljóslega of óreyndur höfundur og í of miklu uppnámi – milli tannanna á bókstaflega öllum hinum vestræna heimi – tl þess að púlla þetta sjálf. Heimildamyndin er betur gerð og það er gott að sjá framan í fólkið – en það voru einhverjar smávægilegar staðreyndavillur í henni, og hún fer auðvitað miklu fljótar yfir sögu.

Untitled

Allar góðar bloggfærslur ættu að hefjast á afsökunarbeiðni, það sé orðið svo langt frá því síðast var bloggað. Ég er tæknilega bara degi of seinn og sá dagur – hinn hefðbundni mánudagur – var annar í hvítasunnu og ég var lúinn eftir langa helgi með ritlistarnemum úr HÍ, hverjum ég kenndi og hékk með og las meira að segja upp með. Þessi þriðjudagur er því eiginlega mánudagur og þið getið bara tekið þessa afsökunarbeiðni ykkar og troðið henni. *** Í hinni annars ágætu Transgender History eftir Susan Stryker skrifar hún stuttan pistil um „celebrity trans culture“ og nefnir meðal annars nokkra sjónvarpsþætti. Flesta hafði ég séð, en ekki Sense8 eftir Wachovski systur sem hún kallar „one of the most narratively complex, visually arresting and aesthetically challenging works in contemporary mainstream media.“ Og verandi áhugamaður um allt sem er narratively complex, visually arresting og aesthetically challenging ákvað ég að kíkja nú á þetta. Þættirnir fjalla um átta einstaklinga sem allir eru fæddir á sama augnablikinu. Á fullorðinsaldri verða vitundir þeirra allar samtengdar – þannig að þau geta bæði heimsótt hvert annað í huganum og tekið yfir líkami hvers annars. Þau deila líka (að einhverju leyti a.m.k.) vitneskju og kunnáttu hvers annars. Ein sögupersónan er Íslendingur og eitthvað af þáttunum eru teknir upp á Íslandi. Íslendingurinn heitir Riley Blue (fædd Gönnursdottor) og er hlédrægur DJ og flippað náttúrubarn með Bjarkaráru. Allir sem hún þekkir á Íslandi eru í lopapeysu. Einu sinni kemur kærastinn hennar að sækja hana í skólann á hesti. Inn í skólann. Hún er geðveikt sæt. Í Nairobi hittum við rútubílstjóra sem er kallaður Van Damn (helvítis rútan). Hann er 21. aldar teik á  the noble savage – fullkomlega hjartahreinn blökkumaður í iðrum hins spillta stórborgarfrumskógar. Hann er geðveikt sætur. Lito Rodriguez er mexíkóskur hjartaknúsari og kvikmyndaleikari sem er í skápnum, gangandi ástríða – alltaf ýmist að springa úr hamingju eða farast úr harmi, blóðheitur einsog hann á kyn til. Geðveikt sætur. Berlínarbúinn Wolfgang er grjótharður glæpamaður sem eyðir lífinu á knæpum og á reifum. Sljór af lífsins mikla áreiti, sínískur, hafandi of oft þurft að gera fleira en gott þykir í lífinu. Hann sést merkilegt nokk aldrei með kebab eða currywurst og hann er guði sé lof ekki grafískur hönnuður. Wolfgang er ógeðslega sætur. Will Gorski er heiðarlega löggan – örlagamaður í eilífri leit að réttvísinni, allt sem er fagurt og saklaust við  the american way of life . Geðveikt sætur. Kala Dandekar er indversk og þar af leiðandi auðvitað vísindamaður, en þótt hún sé vísindamaður er hún líka indversk, og þar af leiðandi er hún eiginlega fyrst og fremst eiginkona, eða verðandi eiginkona, sem virðist ekki hafa mikið yfir örlögum sínum að segja almennt. Af því að hún er sko indversk. Kala er geðveikt sæt. Sun er kóresk og í  S-Kóreu er mikið af stórfyrirtækjum og fólki sem kann kung fu og hugsar mikið um heiður. Sun er réttmætur erfingi stórfyrirtækis og mjög góð í kung fu. Bróðir hennar hefur engan heiður og hefur haft af henni stórfyrirtækið og gert hana að útlaga. Sun er fáránlega sæt. Nomi er frá San Francisco og þess vegna er hún lesbía. En hún er líka frá San Francisco og fólk í San Francisco kann fleira en að vera samkynhneigt og þess vegna er hún líka hakkari. Allir sem hún þekkir í San Francisco eru líka samkynhneigðir og/eða hakkarar. Hún er líka trans kona, þú veist, af því að San Francisco. Ógeðslega sæt, var ég búinn að nefna það? Í sem stystu máli sagt eru þessir fjölbreyttu einstaklingar allir mjög yfirgengilegar þjóðernissteríótýpur. Þetta er í sjálfu sér ekki óalgengt í genre-verkum en verður óþægilegt í verki sem á beinlínis að tækla steríótýpur og brjóta niður veggi ímyndunarafls og ídentítets – en endar á að undirstrika þær miklu fremur. Ég veit ekki hvort það hefði bjargað persónusköpuninni ef Nomi hefði verið í lopapeysu og Kala verið trans og Sun verið hjartaknúsari og Lito rútubílstjóri – en það hefði sennilega verið skref í rétta átt. Í veröld sem á að fagna fjölbreytileikanum og brjóta niður múra er betra að forðast klisjur – og líklega hefði verið ágætt ef eitthvert þeirra hefði bara verið svolítið meira óaðlaðandi. Ekkert ljótt – þau gætu öll verið miklu ljótari en þau eru og samt miklu sætari en við hérna á jörðinni, homo sapiens – en kannski bara ekki alveg einsog þau hafi ekki borðað kolvetni frá því fyrir aldamót og sofið hverja nóttu á kafi í ilmum og kremum. Þá er hugmyndin um svona gengi – þar sem allir hafa sinn hæfileika (Wolfgang er lásasmiður, Kala vísindamaður, Sun getur slegist, Nomi hakkari o.s.frv.) ekki frumlegri hérna en í Oceans 11. Það er líka merkilega mikill súpremasismi í seríunni – beinlínis tegundahyggja. Ekki er nóg með að sense8 hópurinn sé bókstaflega presenteraður sem ný tegund mannkyns – homo sensorium – heldur er grundvallarforsenda seríunnar sú að homo sensorium sé æðri en homo sapiens, af því að þau eru svo samtengd og full meðlíðunar, samhygðar og hjartahlýju, og homo sapiens eru morðóð og hrædd og fordómafull (þetta er grundvallarforsendan í öllum alvöru rasisma). Sem aftur breytir engu um að homo sensorium eru líka grimmilegar morðvélar þegar þau þurfa að vera það – alveg einsog homo sapiens – áttmenningarnir leysa engin vandamál með knúsum eða rökræðum heldur skjóta þau, sparka í þau, kúga þau og sprengja þau í tætlur. En þau mega eiga það að þau tala mikið um yfirburði sína, innsæi sitt og meðlíðan, og hversu vondir allir aðrir séu.  Verandi svona vitur og samtengd, hálfgerðar glóbal vitundir, þá eru þau samt merkilega sanslaus og skortir perspektíf á sig sjálf, gjörðir sínar eða orð. Svolítið kannski einsog þúsaldarkynslóðin sem þau eiga að representera. Illa skrifuð samtöl, hallærislegar tökur og þvælingslegt plott gerir svo lítið til að bæta úr. Ég horfði á alla þættina og það var erfitt allan tímann. Að vísu var þáttur hér og þar sem var áhugaverður, stöku klisja var áhugaverð – en grundvallarplottið var óáhugavert og alltof miklum tíma eytt í einhverjar illa undirbyggðar rómansfléttur. En því er eins farið með Sense8 og með Atlas Shrugged að fullt af vel gefnu fólki er hrifið af þessu. Það er einsog ef pólitíkin – í þessu tilfelli þessar yfirborðskenndu hugmyndir um samhygð og kærleika, á leveli sem fær Hárið til að hljóma einsog American Psycho, í hristingi með þjóðernis- og ídentítetsklisjum – samsvari skoðunum manns nógu vel þá missi maður hreinlega af því að listrænt er þetta álíka merkilegt og hver önnur síðdegissápa. Ég hef lengi verið upptekinn af því hvað valdi því að samúð manns með tilteknu verki verður svo yfirdrifin að manni finnst það átomatískt gott. Þegar lesturinn verður svo sympatískur að maður finnur hvergi að gæðunum. Og hvar maður sé blindur á þetta sjálfur. 1984 fannst mér alltaf góð en ég kaupi líka alveg rök Kundera fyrir því að hún sé léleg (en það er líka mjög ómóðins að taka mark á Kundera). Ég skildi aldrei hvernig fólki gat fundist  Hreinsun eftir Oksanen góð bók – og raunar var margt í pólitíkinni þar líka alveg kengsturlað. Fyrst og fremst var bókin samt þunnt melódrama. Slamljóðlistin er síðan príma dæmi – það er til óhemja af vondum, hæpuðum ljóðskáldum sem gera varla annað en að telja upp skoðanirnar sínar og skipta þeim upp í línur. En ég held það sé líka staðreynd að verk sem ögra manni ekki heldur kitla – og kannski kitla ögrunarlega, eða staðsetja sig þannig að maður telur að þau hljóti að ögra öðrum (þeim sem eru ekki woke, ekki sense8 einsog við, heldur sapiens-plebbar) – njóta talsverðrar sjálfvirkrar velvildar. Knee-jerk. Og sennilega er maður blindur á þennan stað í eigin fari – maður bara nýtur kikksins þegar maður fær það. (En þýðir það þá að ég sé pólitískt mótfallinn samhygð og kærleika og ef það er satt er það ekki svolítið fucked up?) En svo er líka hitt – að maður gerir mismunandi væntingar. Ef ég hefði haft núll væntingar til Sense8 hefði ég kannski bara horft á þetta, verið meðvitaður um að þetta væri drasl, en ekki látið það trufla mig. Einsog ég hef horft á svo ótalmargar draslseríur. En þetta truflaði mig. Sense8 átti að verða fimm seríur en var stoppað eftir tvær. Wachovskisystur fengu hins vegar að gera einn tveggjatíma lokaþátt sem verður sýndur núna í byrjun júní. Ég get ekki beðið.

Untitled

Ég veit ekki hvort þessi póstur fjallar um Hans Blævi – í einhverjum skilningi auðvitað en öðrum alls ekki – og það er ekki mánudagur og þetta snertir mjög harkalega við annarri þráhyggju minni, og jafnvel tveimur. Annars vegar að verja vondan málstað og hins vegar Guns N’ Roses. Axl Rose er auðvitað, einsog fram hefur komið, ein af fyrirmyndum Hans Blævar. Á RÚV í dag er fjallað um nýja útgáfu hljómsveitarinnar á eldra efni – þar á meðal endurhljóðblandaða útgáfu af Appetite for Destruction – og ákvörðun hljómsveitarinnar að sleppa hinu umdeilda (og raunar afar slaka) lagi One in a Million. Þar eru nokkrar rangfærslur. Lagið „One In a Million“ hefur verið fjarlægt af endurútgáfu plötu hljómsveitarinnar Guns N’ Roses, Appetite for Destruction. One in a Million kom ekki út á Appetite heldur á Lies – samhliða endurútgáfu Appetite er verið að gefa út alls kyns b-upptökur og endurhljóðblandanir, þar með talið af öllum lögunum af Lies nema One in a Million. En það er ekki verið að endurútgefa Lies sem slíka. Guns hafa stigið mörg feilspor í gegnum tíðina en ekkert þeirra var stigið á Appetite – sem er einfaldlega rock solid og gallalaus í gegn. Punktur. Lagið fjallar á niðrandi og hatursfullan hátt um samkynhneigða, þeldökka og innflytjendur. Rétt. Það er hægt að bera í bætifláka fyrir þetta fáránlega rant hans Axls og hann hefur svo sannarlega reynt í gegnum tíðina – helstu hetjur hans (Elton og Freddie) eru t.d. samkynhneigðar. Mestmegnis hefur hann samt bara bullað í hringi um þetta, einsog hann gerir í sjálfu laginu. Ég held það sé samt alveg ástæða til að trúa honum að hann hafi ekki „meint“ þetta þannig – að hann hafi ekki ætlað að móðga allt svart eða samkynhneigt fólk. Hann ætlaði bara, í einhverjum skilningi – og sennilega er það ekkert „bara“ með það, en það er gamalt pönk sensíbílítet – að hrækja út í áhorfendaskarann og sjá hvort lýðurinn myndi ekki bara elska sig heitar fyrir vikið. Í öllu falli má alveg lengja listann – Axl telur t.d. líka upp róttæklinga, rasista og lögreglumenn og lagið er ekki minna niðrandi í þeirra garð. Mín kenning, sem er kannski ekki merkileg, er að þetta lag þjóni svipuðum tilgangi og ólætin í Kanye upp á síðkastið (og jafnvel alltaf) og tjái fyrst og fremst djúpstæða þrá eftir því að segja og gera það sem ekki má (s.s. pissa bakvið hurð, segja Trump frábæran, grípa fram í fyrir verðlaunahafa til að segja annan hafa átt verðlaunin skilið, segja ráddi og nota skrúfjárn fyrir sleikjó o.s.frv.) þegar manni líður einsog maður megi stöðu sinnar, stéttar og sjálfsmyndar vegna, bara vera á einhvern einn tiltekinn hátt, annars verði maður skammaður – eða sjeimaður. Það breytir svo engu um hvað lagið getur þýtt fyrir öðrum – t.d. hörundsdökkum aðdáendum sveitarinnar eða rasískum þungarokkurum (Skrewdriver hefur koverað það). Og ákvörðunin um að hætta að spila það og sleppa því á endurútgáfunni er hárrétt – og því hefði best verið sleppt af Lies líka. Lagið var fordæmt þegar þegar það kom út, en Slash gítarleikari sveitarinnar sagðist ekki sjá eftir því að hafa samið það. „Eina eftirsjáin er það sem við höfum gengið í gegnum vegna þess og hvernig fólk hefur túlkað okkar eigin tilfinningar,“ bætti hann við. Slash samdi alls ekki lagið og allir hljómsveitarmeðlimirnir reyndu að fá Axl til að hætta við það – Slash (sem er jafn svartur og Obama) neitaði að fordæma Axl fyrir það (enda rosalega meðvirkur með geðveikinni í Axl). Mamma hans Slash var hins vegar mjög reið! Að síðustu er áhugavert að velta því fyrir sér hversu mikla athygli lagið fær nú þegar þeir ákveða að  sleppa því – að endurhljóðblanda það ekki eða leita uppi nýjar útgáfur (þeir hafa ekki spilað það live frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar). Nú er textinn – sem Axl vill augljóslega ekki lengur standa fyrir – skyndilega endurbirtur í öllum helstu fjölmiðlum heims og sóðalegustu bútarnir meira að segja þýddir af fréttamanni RÚV. Við erum alveg áreiðanlega litlu bætt með þessari stöðugu básunun alls þess heimskulegasta sem sagt hefur verið í gegnum tíðina. En það fær víst klikkz.

Untitled

Hveitibrauðsdagar heita „smekmånad“ á sænsku. Gælumánuður. Apríl var þannig mánuður – ég lét bókina að mestu liggja, tók glósur og las og bloggaði. Svo kom maí og þá fór ég aftur í handritið með glósurnar undir hendinni, auk lesturs frá ritstjóra, og við tók kunnuglegur tilfinningastrúktúr þar sem ég ýmist blæs út einsog reigður páfugl á kókaíni eða skrepp saman og þurrkast upp einsog ofelduð akurhæna. Nú er byrjuð önnur vinnuvika maímánaðar og hugsanlega er ég eitthvað rórri í sálinni. Ég ímynda mér það að minnsta kosti í bili. Í síðustu viku náði ég að fara í gegnum lestur Sigþrúðar (ritstjórans) og lagfæra litlu atriðin – nittpikkið – en lét stærri atriðin vera í bili. Ég færði glósurnar allar á spjöld og skipti spjöldunum í tvennt. Í öðrum bunkanum eru atriði sem ég vil laga og skrifa áður en ég fer aftur í gegnum handritið – vegna þess að þegar ég er kominn í handritið er ég eftirlátsamari við sjálfan mig, leyfi mér að ímynda mér að það þurfi ekki að framkvæma hugmyndirnar, þetta sé allt saman bara einsog best verður á kosið. Ég er ólíklegri til að leyfa mér það ef ég er með kaflana endurskrifaða í höndunum. Í hinum bunkanum eru atriði sem ég ætla að setja inn með handritið í höndunum – mestmegnis smávægileg atriði en þó mikilvæg. Smámikilvægileg. Næst ætla ég að teikna upp strúktúrinn og hengja aftur á vegginn – hann hefur breyst mikið frá því ég gerði það síðast. Sennilega þarf ég líka að leita að fleiri glósum í bókunum mínum – ég skrifa svolítið í spássíur og undirstrika þegar ég er að lesa. Svo ætla ég að lesa skáldsöguna vel og vandlega. Þetta ætti allt að hafast fyrir 1. júlí – ég verð í residensíu í Austurríki bróðurpartinn af júnímánuði, Starafugl verður í sumarfríi, og ég get einbeitt mér Hans Blævi einvörðungu – og þá verð ég fertugur. En vegna þess að gælumánuðurinn er búinn blogga ég aftur bara á mánudögum.

Untitled

Ég bloggaði aðeins um kvikmyndina Myra Breckinridge , eftir skáldsögu Gore Vidal, í febrúar síðastliðnum. Þá pantaði ég mér líka skáldsöguna – hún týndist síðan í pósti, ég fékk hana endurgreidda og pantaði mér nýja (eða aðra notaða, réttara sagt, bókin fæst ekki lengur nýprentuð) sem svo kom fyrir einhverjum vikum og ég las. Ég man ekki hvort ég var byrjaður þegar ég rak augun í þennan texta fremst í bókinni. Bókin sem kom var s.s. ritskoðuð bresk útgáfa með háðsglósu frá höfundi. Ég las hana nú samt og hafði gaman af – Vidal er einstakur höfundur sem ég hef alls ekki lesið nóg af. En mér fannst samt eitthvað skorta, fann tilfinnanlega fyrir því að ákveðin orka sem var í myndinni (sem er tótal flopp, en mér fannst frábær) væri ekki til staðar. Ég tengdi það merkilegt nokk ekkert við ritskoðunina/ritstýringuna – það blasir samt við þegar það loks hvarflar að manni. Í gær var ég svo heima með Aino, sem var lasin, og þá barst mér óvæntur pakki – bókin sem ég pantaði í febrúar var komin í leitirnar. Það er amerísk „first edition“ útgáfa og ég fletti auðvitað beint upp á hinni frægu nauðgunarsenu, sem var litlaus í bresku útgáfunni en brjálæðisleg í kvikmyndinni – Raquel Welch á stórleik. Það var augljóslega allt annar texti. Ég bar þá svo saman núna í morgun í vinnunni. Lýsing sem hefst og lýkur á orðunum „I was now afforded my favorite view of the male“ (Myra er búin að tjóðra Rusty fastan við bekk) í bresku útgáfunni heldur svona áfram í þeirri bandarísku: „the heavy rosy scrotum dangling from the groin above which the tiny sphincter shyly twinkled in the light. Carefully I applied lubricant to the mystery that Mary-Ann has never seen, much less violated.“ Á næstu síðu er svo búið að klippa út nærri því heila blaðsíðu – þar sem Myra segir „Now you will find out what it is the girl feels when you play the man with her.“ Og bandaríska útgáfan heldur svo áfram (feitletruðu bútarnir eru líka í bresku): “Jesus, you’ll split me.“ The voice was treble with fear. As approached him, dildo in front of me like the god Priapus personified, he tried to wrench free of his bonds, but failed. The he did the next best thing, and brought his knees together in an attempt to deny me entrance. But it was no use. I spread him wide and put my battering ram to the gate.
For a moment I wondered if he might not be right about the splitting: the opening was the size of a dime while the dildo was over two inches wide at the head and nearly a foot long. But then I recalled how Myron used to have no trouble in accommodating objects this size or larger, and what the fragile Myron could do so could the inexperienced but sturdy Rusty.
I pushed. The pink lips opened. The tip of the head entered and stopped.
“I can’t,” Rusty moaned. “Honestly I can’t. It’s too big.”
“Just relax , and you’ll stretch. Don’t worry. ”
He made whatever effort was necessary and the pursed lips became a grin allowing the head to enter, but not without a gasp of pain and shock.
Once inside, I savored my triumph. I had avenged Myron. A lifetime of being penetrated had brought him only misery. Now, in the person of Rusty, I was able, as Woman Triumphant, to destroy the adored destroyer. 
Holding tight to Rusty’s slippery hips, I plunged deeper. He cried out with pain.
But I was inexorable. I pushed even farther into him, triggering the prostate gland, for when I felt between his legs, I discovered that the erection he had not been able to present me with had now, inadvertently, occurred. The size was most respectable, and hard as metal.
But when I plunged deeper, the penis went soft with pain, and he cried out again, begged me to stop, but now I was like a woman possessed, riding, riding, riding my sweating stallion into forbidden country, shouting with joy as I experienced my own sort of orgasm, oblivious to his staccato shrieks as I delved and spanned that innocent flesh.  Oh, it was a holy moment! I was one with the Bacchae, with all the priestesses of the dark bloody cults, with the great goddess herself for whom Attis unmanned himself. I was the eternal feminine made flesh, the source of life and its destroyer, dealing with man as incidental toy, whose blood as well as semen is needed to make me whole!There was blood at the end. And once my passion had spent itself, I was saddened and repelled.  I had not meant actually to tear the tender flesh but apparently I had, and the withdrawing of my weapon brought with it bright blood.  He did not stir as I washed him clean (like a loving mother) , applying medicine to the small cut, inserting gauze (how often had I done this for Myron). Það er ekki mikið sem lifir af æðiskast yfirstrikunarpennans. Vidal er ekkert að grínast með móral breta. Merkilegt nokk enda sumir kafla bókarinnar í lausu lofti – á hálfum setningum – og ég hélt að kannski væri það vegna þess að búið væri að skera eitthvað út. En svo eru þeir kaflar líka þannig í orginalnum – skáldsagan er eins konar dagbók Myru og hún klárar ekki allar færslurnar sínar. Nú er ég búinn að panta mér framhaldið – Myron – vonandi kemur hún áður en ég hverf til Skandinavíu og Austurríkis sumarlangt.