Untitled

Guns N’ Roses hafa tilkynnt um komu sína til Íslands í sumar. Önnur eins tíðindi hafa ekki heyrst frá því Berlínarmúrinn féll. Ég verð að vísu „fjarri góðu gamni“ einsog „sagt er“ – sá þá síðasta sumar í Hämeenlinna og ef ég sé þá nokkuð í sumar verður það í Gautaborg með Vigni, leikstjóra Hans Blævar, þremur dögum fyrir Íslandsgiggið. En það er viðeigandi að nefna þessi tíðindi hérna vegna þess að Axl er á listanum yfir fyrirmyndir Hans Blævar – ekki bara fyrir Hans Blævi sjálfa, heldur ekki síður höfund hánar (við sköpun Hans Blævar, s.s., frekar en sem fyrirmynd í persónulegi tilliti). Þegar ég var að byrja skrifin settist ég niður og skrifaði lista yfir hátt í 20 manns sem saman mynduðu sálina í Hans Blævi og á þeim lista var s.s. Axl Rose. Hans Blær er fyrir löngu orðin sjálfstæð vera óháð fyrirmyndum sínum, en líkindin við sumar fyrirmyndirnar eru auðvitað engu að síður til staðar. *** Axl er auðvitað narsissisti, einsog rokkstjörnur eru gjarnan, og sennilega aðeins ríflega. Hann er auk þess erkitýpa hins særða dýrs – maður sem ólst upp við mikið ofbeldi og upplausn, varð vandræðaunglingur og ofsóttur af lögreglunni – handtekinn ríflega 20 sinnum – sem endaði með því að hún beinlínis hrakti hann úr bænum. Lögreglustjórinn hótaði að kæra hann fyrir að vera „atvinnukrimmi“ (habitual criminal) sem hefði haft í för með sér lengri fangelsisdóm – hann sat lengst inni í þrjá mánuði fram að þessu – ef hann færi ekki. Í sem stystu máli húkkaði Axl sér far til L.A. og restin er mannkynssaga. Við tekur ferill sem ber með sér óseðjandi löngun til þess að skandalísera og hrista upp í fólki ef ekki hreinlega meiða það – ekki bara á sviði eða í viðtölum (það sem Axl lét hafa eftir sér um konur, blökkumenn, gyðinga, homma o.s.frv. á þessu tímabili er ekki prenthæft – og svívirðingar hans í garð nafngreindra óvina sinna í viðtölum og lagatextum fullkomlega yfirdrifnar) heldur líka prívat og persónulega. Samfarastunurnar í lok Rocket Queen á Appetite eru t.d. Axl að ríða kærustu trommarans, Stevens Adler, í stúdíóinu. Það mátti aldrei segja neitt til að styggja Axl og í raun gat enginn átt í neinum samskiptum við hann nema Slash, sem vill til að er sennilega meðvirkasta mannvera á jörðinni (Slash er sama um allt á meðan hann fær að spila á gítar). Axl gerði sem sagt alltaf sitt allra besta til þess að eitra samskipti sín við umheiminn. Það er ástæðan fyrir að hann mætti aldrei á svið fyrren 2-3 tímum eftir auglýstan tíma, til þess að fara í taugarnar á bandinu, starfsfólkinu, aðdáendunum, til þess að fullvissa sig um að þau elskuðu hann nógu helvíti mikið til að fyrirgefa honum. Steven hefur lýst honum sem mesta skíthæl sem hann hafi kynnst, en líka sannasta vininum, manneskju sem er í senn hreinn kærleikur og hrein fyrirlitning og alltaf ófyrirsjáanlegt kaos. Axl var líka (eini) maðurinn sem sat við sjúkrabeð Stevens dögum saman þegar hann tók of stóran skammt. Enginn „lenti í Axl“ einsog Steven en ekki einu sinni Steven hefur viljað afskrifa hann. Það vita það allir sem hafa tilfinningar (feis!) að viðbrögðin við samfélagslegri fyrirlitningu, sérstaklega ef persónuleg trámu koma til, geta mjög auðveldlega orðið blanda af bræði og ofsafenginni sókn eftir ást og viðurkenningu. Þetta, og eitt og annað fleira, eiga Axl og Hans Blær sameiginlegt. Það er auðvitað mikið gleðiefni að tilkynna, þeim sem ekki vissu, að Axl er talsvert betri manneskja í dag – raunar er hann (að mörgu en ekki öllu leyti) fullkomið ljúfmenni. Eftir að GNR leystist upp tók við eins konar púpuskeið – Axl fékk sér cornrows og hegðun hans varð verri og verri, tónlistin verri og verri. Hann var ekki lengur leðurklædda skordýrið af Appetite og ekki orðinn fiðrildið á … Not in This Lifetime, hann var í fullkomnum stasis. Þeir sem sáu „Guns N’ Roses“ (þetta eru kaldhæðnisgæsalappir) spila á þessum tíma, live eða í sjónvarpi, vita hvað ég á við og hafa borið þess vitni. En í dag er Axl fiðrildi. Hann er jafnvel svalari sem þessi sáttur-í-eigin-skinni drumbastrumpur sem hann er orðinn, en óargardýrið sem hann eitt sinn var (ég mun samt aldrei afneita óargardýrinu), og maðurinn sem eitt sinn mætti aldrei á svið á réttum tíma og þurfti alltaf að vera með skæting var á tímabili, rétt eftir endurkomu GNR, á þeysireið um heiminn með tveimur hljómsveitum (líka AC/DC – ég hef Young bræður grunaða um að kenna Axl að höndla auðmýktina), á sitt hvorum heimstúrnum og var aldrei seinn, ekki einu sinni þegar hann var fótbrotinn, og talar aldrei öðruvísi um neinn en af stakri virðingu (eða í það minnsta tongue-in-cheek ástúðlegri kaldhæðni). *** Það er annars sýning á Hans Blævi annað kvöld , fyrir þá sem hafa áhuga.

Untitled

Já, ég hef samúð með ykkur, því þið hafið aldrei þjáðst. Ykkur hefur skort hið göfuga, mikla hjarta, hina örlátu sál, sem er forsenda þjáningarinnar. En senn rennur upp tími friðþægingarinnar, hafi hann ekki gert það nú þegar. Og þá munuð þið gripnir angist yfir skelfilegu innihaldsleysi gervallrar tilvistar ykkar.
Ólánsömu menn! Þið munið ekkert finna sem fyllir það. Þið nálgist þröskuld eilífrar iðrunar – eftir hverju? Lífinu. Frammi fyrir ódauðleikanum munuð þið iðrast ryksins, tómsins. Úr bókinni Herculine Barbin – sem eru nýuppgötvaðar endurminningar nítjándu aldar hermafródítu . Þýðing gerð úr enskri þýðingu Richards McDougall.

Untitled

Samkvæmt frétt sem ég las á Vísi á dögunum hafa indversk yfirvöld ákveðið að taka upp dauðarefsingu við nauðgunum á stúlkum yngri en tólf ára. Í sömu frétt kemur fram að 19 þúsund (19 þúsund!) slík tilfelli hafi verið tilkynnt árið 2016. Ef við gæfum okkur að sakfellt væri í um 10% tilfella myndi það gera 1.900 aftökur á ári. Sem eru jafn margar aftökur og eru framdar í öllum heiminum árlega. Og samt ganga þá 17.100 barnanauðgarar – að því gefnu að allir séu sekir – lausir. Þetta setur hausinn á mér – að ónefndu hjartanu – af sporinu á að minnsta kosti tólf ólíka vegu. Eða tuttuguogfimm. Tvöhundruðogfjörutíu. Fleirienéggettalið. Þið afsakið að ég skuli spyrja svona óheflaðrar spurningar, en hvað verður eiginlega um okkur?

Untitled

Í leiðara nýjustu Stínu veltir einn ritstjóra, Kári Tulinius, því fyrir sér hvers vegna sumum takist að semja ódauðleg meistaraverk en öðrum ekki – segir svo flestar tilgátur lítt sannfærandi, nema ef vera skyldi fullyrðing Leenu Krohn „að alvöru listafólk drepi ekki ketti“. Orð Leenu fengu að fjúka eftir sýningu Teemu Mäki, þar sem hann drap kött og fróaði sér yfir líkið – það samhengi kemur ekki fram í grein Kára en var nefnt hér á Fjallabaksleiðinni fyrir skemmstu í stuttum pistli um transgressjón í listum, og Hans Blævi , einsog allt hérna fjallar um Hans Blævi þessa dagana. Kári heldur áfram og segir þarna enduróma orð landfræðingsins Strabo, sem hafi sagt eitthvað á þá leið að eðli skálds væri samtvinnað eðli manneskjunnar og því gætu skáld einungis verið góð ef þau væru góð ef þau væru líka góðar manneskjur. En að vera góður þýðir margt og misjafnt – orðið hefur ekki alltaf sömu merkingu. Maður gæti t.d. þekkt mikinn mannvin sem er „vænn við menn og málleysingja“ sem getur ekki stautað sig fram úr heilli setningu eða hugsað bærilega samhangandi hugsun. Hann er ekki góður á öllum vígstöðvum. Hann kann að sýna gæsku en ekki (tiltekna) færni. Ef ég héldi því fram að vinur minn væri „góður skíðamaður“ gæti ég ekki falið mig á bakvið að ég hefði átt við siðferðisstyrk hans, þegar hann dettur í brekkunni. Eðlið er ekki samtvinnaðra en svo að þessar tvær merkingar orðsins „góður“ hanga einfaldlega ekki saman. Lokaorð Kára (eftir talsverða umræðu um nasista) eru þessi: Gott skáld getur fengið lesendur sína til að drepa ekki ketti. Til að snúast ekki á sveif með nasistum. Til að senda ekki flóttafólk út í opinn dauðann. Í sjálfu sér er ekkert ólíklegt að þetta sé satt. Að minnsta kosti einhver skáld geta þetta áreiðanlega – en hver manneskja verður að skrifa innan úr sjálfri sér og þetta er áreiðanlega ekki öllum „góðum skáldum“ gefið. Ég átta mig betur og betur á því, finnst mér, að sá sem reynir að elta hugmyndir annarra um skáldskapinn málar sig bara út í horn – það getur enginn skrifað vel nema sem hann sjálfur / hún sjálf / hán sjálft.  Og sá sem reynir – t.d. sá sem reynir að skrifa sölubókmenntir án þess að hafa raunverulegan talent í þá áttina – klúðrar því einfaldlega. Ég sat einu sinni á panel með Jóni Kalman í Frakklandi, að tala um sirkabát þetta, með illskuna og bókmenntirnar, þegar Jón hélt því fram að enginn gæti lesið Hamsun – sennilega var hann að tala um  Gróður jarðar – og verið fasisti á eftir. Ef ég hefði ekki verið svona vel upp alinn hefði ég skellt upp úr. Því auðvitað var ekki nóg með að Hamsun hefði verið í hávegum hafður hjá nasistum, sem nasistuðust lengi eftir lesturinn, heldur var hann einn af afar, afar fáum vestrænum intelektúölum til þess að veita Hitler tárakirtlakáfandi eftirmæli. Ég er ekki þess verður að mæla hárri raustu um Adolf Hitler, og líf hans og gjörðir bjóða ekki upp á neina tilfinningasemi.
Hann var stríðsmaður, stríðsmaður mennskunnar og boðari fagnaðarerindisins um réttlæti til handa þjóðum heims. Hann var umbótavera af æðstu gráðu og söguleg örlög hans voru þau að starfa á tímum fordæmalausrar grimmdar, sem á endanum felldi hann sjálfan.
Slík er sýn hins venjulega vestur Evrópubúa á Adolf Hitler. Og við, nánir aðdáendur hans, lútum nú höfði við dauða hans. En Knut Hamsun var samt ekki vondur rithöfundur –  Gróður jarðar er ekki verri bók fyrir að nasistar skuli hafa elskað hana og hún hafi alls ekki læknað neinn þeirra af nasismanum. Hún er frábær bók og hann var frábært skáld. Sumir yfirfæra jafnvel skáldið yfir á manninn og segja að   þrátt fyrir að Hamsun hafi verið nasisti hafi hann verið góð manneskja  (aðrir fara í hina áttina og neita því einfaldlega að hann hafi verið góður rithöfundur, fyrst hann var nasisti). Og ég á í sjálfu sér ekkert æðislega erfitt með að taka undir það. Kári spyr í grein sinni hvernig venjulegt fólk hafi getað tekið þátt í versta glæp mannkynssögunnar – en spurningin er auðvitað ægilegri en svo. Spurningin er hvernig gott fólk gat gert það, fólk sem var jafnvel betra og hugrakkara og æðisgengnari skáld en við Kári samanlagt, sinnum tíu. Ég hef oftar velt því fyrir mér hvað það þýðir að vera vondur eða illur rithöfundur en hinu, hvað það þýði að vera góður ( good ) eða góður ( kind ) rithöfundur. Hvað sé vond bók, illa skrifuð, og hvað sé vond bók, ill og ljót og mannskemmandi. Ég er ekki einn af þeim sem lítur svo á að bækur séu í sjálfu sér auðgandi fyrir mannsandann. En ég er ekki heldur einn af þeim sem trúir því að gildi þeirra felist beinlínis í því að vera mannbætandi. Á síðunni Bókaskápur Ástu skrifar Hermann Stefánsson í dag, aðspurður um hvaða bók hafi grætt sig síðast: Fremur en hitt er ég líklegri til að fleygja bók frá mér ef ég fer að hafa hana grunaða um að reyna að grufla við tárakirtlana. Því ég vil, ég heimta, ég krefst þess, að bók höfði til  æðra tilfinninganæmis.  Mér þykir tárakirtlagrufl oftast ódýrt. Það fer hreinlega í taugarnar á mér. Mér finnst það ekki vera sannar tilfinningar heldur andstæða þeirra, kuldi. Afstaða mín til gæsku höfundar er á svipuðum nótum og afstaða Hermanns til tárakirtlakáfs – margar bækur eru beinlínis vondar fyrir sakir dyggðaboða höfunda, sem þurfa stöðugt að vera að sanna gæsku sína. Slík hegðun í bókmenntum minnir mig á það þegar ég var að verða pabbi og sótti foreldrahóp í Västerås þar sem ljósmóðirin, sem var í eldra laginu, ítrekaði svo rækilega að við pabbarnir „skiptum líka ótrúlega miklu máli“ að ég var alveg hættur að trúa því að ég hefði nokkurt hlutverk í þessum annars æsilega leik. Það sem ég á við er: sá sem þarf stöðugt að sanna gæsku sína (fyrir sjálfum sér?) á sennilega í meiri átökum við hana en hann lætur uppi. Þeir höfundar sem ég kann að meta eru þeir sem treysta mennsku heimsins, sem og sinni eigin, og kunna að láta hana skína án þess að fróa henni til blóðs, og án þess að fegra hana. Minnihluti þessara höfunda voru fasistar – Hamsun, Marinetti, Celine, Roald Dahl, TS Eliot – aðrir voru fífl – Salinger, Mailer, Solanas … þessi listi gæti verið mjög langur – og sennilega spönnuðu þeir annars bara litrófið. Við megum ekki gleyma því að þrátt fyrir að maður þurfi ekki að vera góð manneskja til að vera góður rithöfundur þá er ekkert sem útilokar að maður sé það heldur (og raunar ekkert sem útilokar að maður sé stundum góð manneskja og stundum vond, stundum góður rithöfundur og stundum vondur – eðli mannsins er fljótandi en ekki fasti). Hvort að bækur þessara höfunda, þ.e.a.s. vondu höfundanna, hafi gert lesendur sína betri eða verri veit ég ekki. Kannski fór það bara eftir lesandanum í hvert skipti. Ég hallast að því að góðar bækur með vondan boðskap eða vondan anda séu líklegri til að hafa „jákvæð áhrif“ á lesendur en vondar bækur með góðar fyrirætlanir – bækur sem einfalda heiminn fremur en flækja hann, sem strjúka honum bara meðhæris og þóknast honum – en ég veit ekki einu sinni hvaða „jákvæðu áhrif“ það ættu aðvera, kann ekki að skilgreina það. Að maður sé betri í stærðfræði? Þolinmóðari við börnin sín? Að maður kasti öllu og fari í vopnað stríð við fasismann? Gangi í klaustur? Hætti að girnast maka náungans? Gefi veraldlegar eigur sínar? Kaupi fleiri bækur? Fari á þing? Þær bækur sem hafa haft mest áhrif á mig hafa ekki endilega hreyft við mér þannig – þær hafa dýpkað og rótað og sprengt og knúsað og meitt og komið mér í uppnám, en þær hafa ekki endilega gert mig neitt betri. Kannski er það bara vegna þess að ég les of mikið Celine og Dahl, og ekki nóg af Neil Gaiman og Margaret Atwood eða öðrum annáluðum góðmennum, ég veit það ekki. En þótt það sé ýmislegt sem skilur að bókelskt fólk og þá sem lesa lítið, hef ég ekki orðið var við að það sé siðferðisstyrkur hinna bókelsku, frekar en að rithöfundastéttin sé mönnuð eintómum góðmennum. *** ps. Teemu Mäki er samt fífl og maður á ekki að drepa ketti.

Untitled

Það er frétt um það í Stundinni í dag að ungur Ísfirðingur, Stefan Octavian Gheorge, sem hefur getið sér gott orð fyrir leik í kynferðislegum vinjettum samkynhneigðra – svonefndum hommaklámmyndum – hafi mætt í tíma í Menntaskólanum á Ísafirði til þess að ræða kynheilbrigði. Honum var ekki boðið til að ræða starf sitt heldur upplifun sína af að vera samkynhneigður ættleiddur drengur á Ísafirði. Að sögn nefndi hann starf sitt en það kom að öðru leyti ekki til umræðu. Það er svolítill vandlætingarfnykur af fréttinni, einsog svo mörgu sem skrifað er á Stundinni, en keyrir svo sem ekkert um þverbak. Kennarinn fær nægt rými til að útskýra hvað átti sér stað í raun og veru þótt áhersla í fyrirsögnum og myndefni sé sensasjónalísk. Ekki er rætt við Stefan sjálfan og maður fær það á tilfinninguna að blaðamanni og/eða ritstjóra, einsog athugasemdakórnum, finnist ekki við hæfi að hann hafi rödd – að við hann sé rætt – og ekki einu sinni kennarinn sem bauð honum kærir sig um að leyfa krökkunum að ræða við hann um hvað sem er. Þeim er ekki treyst til að takast á við hugmyndina um starf hans eða sjónarhorn hans á þetta starf. DV hefur farið alveg hina leiðina og lagt ofuráherslu á það sem mætti kannski kalla hægri-sensasjónalisma – það er Daily Mirror súpum-saman-hveljur stíllinn. Bæði er í grunninn íhaldssamt og niðrandi. Í báðum tilvikum er manneskjan gerð að farartæki fyrir eitthvað annað en sjálfa sig eða eigin boðskap; hún er verkfæri til að koma mórölskum boðskap á framfæri. Í grunninn er það sami boðskapur beggja vegna borðsins –  sjáið hvað þetta er óheilbrigt og ógeðslegt.  Stundin dulbýr það sem umhyggju fyrir börnunum – eða jafnvel samfélagsmóralnum – en DV sem umhyggju fyrir frjálslyndi og áhugasviði lesenda sinna (smellunum). Hvorugt er algerlega úr lausu lofti gripið – klámiðnaðurinn er (oft á tíðum a.m.k.) kúgandi, en á sama tíma brjóstvörn frjálslyndis og (margra) kynferðisbyltinga (Playboy var t.d. fyrsta alþjóðlega tímaritið til að birta myndir af trans (og intersex) konu – Caroline Cossey, 1991). Það er hins vegar ekki laust við að manni finnist allir bara vera að leika sitt hlutverk í sirkusnum – það sæki enginn á djúpið, vilji enginn takast á við óþægindi margbreytileikans – nema kannski Stefan og að einhverju leyti kennarinn í MÍ. Stundin bara sussar og DV básúnar einhverri afmyndaðri glansmynd 4theclickz. Mestu skiptir þegar fólk lendir í þessum sirkus – fyrir augliti fjölmiðla – að einhver ræði við það (sjálft) af einlægni og heiðarleik. Opinberlega. Að það sé ekki gert að trúðum eða útskiptanlegum staðgenglum í einhverjum mórölskum skylmingum. Í þetta skiptið sýnist mér Stefan ekki verða fyrir mestum fordómum vegna kynhneigðar sinnar eða líffræðilegs ætternis, þótt það hafi afar líklega verið þungbært líka, heldur vegna starfs síns í kynlífsiðnaðinum.

Untitled

Að tilheyra og tilheyra ekki. Að fá ekki að tilheyra og vilja þess vegna ekki tilheyra, að vilja ekki tilheyra og fá þess vegna ekki að tilheyra. Vilja ekki vera sís og vera þess vegna trans, fá ekki að vera trans og vera þess vegna sís, vera einmana tröll á fjalli. Að vera trans og fá þess vegna í fangið heila sjálfsmynd, heila óskoraða túlkun á veruleika sínum með tónlistarsmekk og pólitískum skoðunum og öllu. Að vera trans og fá þess vegna í fangið fordóma annarra – ótta þeirra, fyrirlitningu – hafna fordómum þeirra og fagna þeim, vilja þá og vilja þá ekki. Sjálfsmyndarandróður eða róttæk einstaklingshyggja sem tæki til þess að segja sig frá meginstraumssamfélaginu – til þess að vera ekki með lengur, vera ekki samsekt í gróðasamfélaginu, stríðssamfélaginu, ofbeldissamfélaginu. Að vera úrhrak – utangarðs- eða undirheimalýður og þarmeð frjálst. Og andróðurinn og einstaklingshyggjan sem það sem varnar manni inngöngu í meginsstraumssamfélagið; varnar manni inngöngu í stofnanir þess, hjúskap, barneignir, jafnvel vinnu, húsnæði, kærleika og vernd. Að vilja tilheyra en vilja ekki tilheyra. Að vilja fá frið, öryggi og sjálfstæði. Að vilja vera einstaklingur en vilja líka vera samfélag, vera nærsamfélagið sitt og þjóðfélagið allt. En hafna því öllu vegna þess að það gerir allt á mann kröfur, vegna þess að öll tegund samfélaga er þunguð af fordómum sínum og allir sjá mann sem eitthvað sem maður er ekki. Sjá mann í ljósi hópanna sem maður tilheyrir, stimplanna sem maður ber, brennimerkinganna, því allir sem eiga sameiginlega eiginleika eru eins, allir sem deila veruleika og upplifun eru eins – við öpum upp hvert annað og svo drögum við samasemmerki milli annarra. Að hafna hópunum, hafna stimplunum, vera frjálst.

Untitled

The heterosexualization of desire requires and institutes the production of discrete and asymmetrical oppositions between “feminine” and “masculine,” where these are understood as expressive attributes of “male” and “female.” The cultural matrix through which gender identity has become intelligible requires that certain kinds of “identities” cannot “exist”—that is, those in which gender does not follow from sex and those in which the practices of desire do not “follow” from either sex or gender. “Follow” in this context is a political relation of entailment instituted by the cultural laws that establish and regulate the shape and meaning of sexuality. Indeed, precisely because certain kinds of “gender identities” fail to conform to those norms of cultural intelligibility, they appear only as developmental failures or logical impossibilities from within that domain. Their persistence and proliferation, however, provide critical opportunities to expose the limits and regulatory aims of that domain of intelligibility and, hence, to open up within the very terms of that matrix of intelligibility rival and subversive matrices of gender disorder. Judith Butler – Gender Trouble, bls, 24.

Untitled

Eiríkur Örn Norðdahl er sér á parti. Engum líkur. Hann hefur sýnt það í fyrri verkum sínum – jafnt í sögum sem ljóðum – að hann þorir, þegar aðrir þegja. Hann skirrist einskis, hlífir engu. Afhjúpar og ögrar með stæl. Ef þér er auðveldlega ofboðið, er kannski best að halda sig fjarri.
Höfundinum er nefnilega ekkert heilagt. Venjuviska og vanahugsun eru fyrstu fórnarlömb háðfuglsins. Ef það er í lagi þín vegna, þá skaltu láta slag standa og hlusta á það sem frægðarfríkið (nýyrði fyrir „media celebrity“) Hans Blær, hefur að segja við áhorfendur í Tjarnarbíói. Þetta er ósvikin skemmtun. Bryndís Schram skrifar um Hans Blævi í DV.

Untitled

Mikilvæg tilkynning: Hans Blær Viggósbur er ekki bara kynsegin trans intersex manneskja sem var alin upp sem stúlka, Hans Blær er líka (hvítur) sís heteró karlmaður úr efri millistétt. KARL Hans Blær er (að öllum líkindum) með XY-litninga, hán er með penis, pissar standandi og penetrerar fólk og hán tekur (stundum) testósterón og þá vex hán skegg. Hán segist oft sjálft vera karlmaður, en hán segist reyndar vera margt og hán er ekki alltaf treystandi til þess að finnast það sem hán segist finnast, til þess eru of margar mótsagnir í máli hánar. En fólk hefur sjálfdæmi um kyngervi sitt. GAGNKYNHNEIGÐUR Hans Blær er að eigin sögn alltaf heteró. Hvað átti fólk að segja þegar hán sagðist ríða öllum sínum körlum sem kona og öllum sínum konum sem karl, því samkynhneigð væri viðurstyggð? Var hán að grínast?
úr fimmta kafla skáldsögunnar SÍS Hida Viloria bendir á það í ævisögu sinni að þeir sem fæðist intersex og upplifi sig sem intersex séu sennilega ekki trans heldur sís (hún er reyndar líka mótfallin hugtakinu – enda ýti það undir binary hugsunarhátt að skipta fólki í sís og trans). Það er svo spurning hvort og hvenær Hans Blær hættir að vera intersex – hán tekur (stundum) hormóna og presenterar sig og talar um sig í öllum mögulegum kynjum; eini fastinn er að hán segist vera  á rófinu . EFRI MILLISTÉTT Hans Blær er þá skipstjórabur – faðir hánar er aflakóngur á frystitogara sem gerir út frá Akranesi. Hann er lítið heima en hann skaffar gríðarlega vel. Hans Blær var síðan sjálft fljótt að koma sér þannig fyrir í fjölmiðlaheiminum að hán hefði vel ríflegar meðaltekjur.

Untitled

Hún er óþolandi tilhneiging fjölmiðla til þess að blása út allt það heimskulegasta sem sagt er á internetinu, til þess eins að upplýsa fjöldann, reikna ég með, um að í heiminum finnist ennþá einn og einn epískur fáviti. Þeir þurfa ekki að vera margir og þeir þurfa ekki að vera fávitar allan sólarhringinn. En þeir þurfa að vera nógu hátt hlutfall – af 350 þúsund íslendingum – til þess að einhver þeirra segi eitthvað nógu heimskulegt til að teljast fréttnæmt á vanþroskuðustu og gröðustu ritstjórnum landsins sirka 3-4 sinnum í viku svo moka megi inn smellum og auglýsingatekjum með því að nauðga upp í viðkomandi fávita gjallarhorni, skella honum á forsíðu, svo allir fái að hneykslast á fávitanum, allir geti deilt heimskunni úr honum með andköfum og undirstrikað að þeir séu sjálfir ekki illa innrættir, þeir séu gott fólk. Tröllin rétt ná þessum lágmarksafköstum, vel að merkja, en með aðstoð (vissra) fjölmiðla virðast þeir heil hersing – og þeim er sjálfum nógu tíðrætt um eigin þöggun til þess að maður gæti ímyndað sér að þeir væru enn fleiri, sennilega fleiri en byggja landið, og í það minnsta merkilegri en allt hyskið sem gerir það svona alla jafna og hefur ófréttnæmar skoðanir. Það hafa birst nokkur svæsin svona dæmi síðustu daga, þrjár af fimm mest lesnu fréttum DV í augnablikinu, sem dæmi – sem ég ætla ekki að tiltaka eða hlekkja á – ég má ekki við því að rífa fleiri hár af höfði mínu, bara því miður, það er allt að verða búið. En það er svona sem tröllin vinna, svona sem rasistarnir og mannhatararnir vinna, svona sem þeir rotta sig saman og láta líta svo út sem þeir séu miklu stærri og merkilegri hreyfing en þeir eru – meðan þeir eru fyrst og fremst einmana og oft á tíðum sjúkir sjálfsrúnkarar. Þeir nota fjölmiðlana til þess að fá athygli og fjölmiðlarnir nota þá til þess að fá smelli og það eruð þið sem smellið. Þetta fólk er ekki heldur sönnun um eitt eða neitt eða lýsandi fyrir „kúltúr“ samtímans – það er undantekning og viðhorf þess eru ekki fyrst og fremst úrelt, það mun sennilega aldrei deyja út, því er bara illt og það gargar út í loftið vegna þess að það veit ekki hvað annað það ætti af sér að gera. Og já, þetta er færsla um Hans Blævi.