id““:““3unqm““

Hann á afmæli í dag. Goðsagnakenndasta blúshetjan. Robert Johnson. 109 ára. Eiginlega allt við sögu hans – goðgerðina, markaðssetninguna – segir manni að það ætti ekki að vera neitt varið í þetta. Þetta ber öll einkennis þess að vera viralþvæla – búið að ofselja hann. Númer eitt er þetta með að hann hafi selt sál sína andskotanum á krossgötunum fyrir hæfileikana. Sagan segir að Robert hafi verið skítsæmilegur munnhörpuleikari en afskaplega vondur gítarleikari en hafi stundum fengið að troða sér inn hjá öðrum þegar þeir voru í pásu. Son House sagði að þetta hafi oft endað með ósköpum – fólk hafi beinlínis komið og beðið sig um að hætta í pásu og koma þessum hæfileikalitla partítrúbador af sviðinu. Svo lét Robert sig bara hverfa í hálft ár – og það er þá sem hann á að hafa selt sálina en allt bendir samt til þess að hann hafi haldið sig nálægt heimabæ sínum, Hazlehurst, og verið í læri hjá gítarleikara sem hét Ike Zimmerman (og er ekki til á upptöku). Þegar hann kom aftur til Memphis fékk hann enn á ný að stinga sér milli setta hjá Son House – sem hló að honum og stríddi honum áður en hann fór á sviðið. En þá var allt breytt. Það er ekki bara að Robert spili af nánast yfirnáttúrulegri ástríðu – sándið í röddinni og samspil hennar við gítarleikinn er engu líkt – heldur býr hann yfir ógurlegri tækni og hefur sameinað ólíka stíla frá mönnum á borð við Blind Lemon, Big Bill, Son House, Blind Willie Johnson, Charley Patton og fleiri. Frægt er að þegar Keith Richards heyrði hann spila fyrst hélt hann að þetta væru margir gítarleikarar. Þegar hann svo deyr – sennilega eftir eitrun vegna þess að hann var að dilla í annars manns konu – segir sagan að hann hafi skriðið um æpandi og gólandi af sársauka í marga daga. Var þá sagt að Legba/kölski væri kominn að heimta sálina sína. Svipuð saga var sögð um marga aðra og auðvitað er þetta Fást-goðsögnin – og þess utan beint upp úr biblíunni: allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig. Oftast var þessi saga sögð um Tommy Johnson og margir sem telja að í ljósi dauðdaga Roberts hafi sagan flust yfir á hann. Þegar Son House segir söguna um það hvernig hann hafi horfið og birst aftur – hæfileikalaus fyrir og snillingur á eftir – eru liðin meira en þrjátíu ár og Son, einsog margir samferðamanna hans, orðinn ansi sleipur í að selja svona sögur. Það er langt liðið á blúsendurreisnina – þetta er 1965 – og erfitt að slökkva þorsta hvítra blúsnörda fyrir goðsögnum um blúsmenn í deltunni og djöfullinn einhvern veginn alltaf með í dæminu. Ég held að Son hafi verið sagnamaður – einsog Big Bill og fleiri – og góður sagnamaður lætur hvorki sannleikann né minnið standa í vegi fyrir góðri sögu. Þegar bútarnir raða sér upp í dauðafæri lætur maður bara vaða. Um kölska má segja það tvennt að annars vegar var hann lifandi hluti af trú margra á þessum tíma – sú trú var raunveruleg og áþreifanleg – og hins vegar að hann var sannarlega talinn búa í blústónlistinni. Big Bill Broonzy samdi við mömmu sína um að taka aldrei gítarinn með sér inn til hennar af því að djöfullinn bjó í honum. Son House barðist alla tíð við við djöfulinn – drekkti honum í áfengi milli þess sem hann skildi við blúsinn og predikaði guðsorð. Og meira að segja þegar hann spilaði blúsinn er einsog hann skammist sín fyrir það – hann sé að þjóna andskotanum – og ég held það sé engin ástæða til að ætla að sú skömm sé einhver látalæti þótt hún hafi sennilega líka verið hluti af sjarmanum. Annað sem ýtir undir mýtuna um Robert Johnson er hvernig „við“ rétt misstum af honum. Eftir að hann sneri til baka frá Hazlehurst tók hann upp fullt af lögum í tveimur sessjónum, 1936 og 1937, og þar af náði eitt lag, Terraplane Blues, nokkru máli. Terraplane er hálfgerður hokumblús – dónablús. Terraplane var bíltegund og verður Robert að myndlíkingu fyrir kynlíf – og raunar getuleysi. Það er í sjálfu sér rannsóknarefni hversu margir af dónablúsum Roberts fjalla um getuleysi – Dead Shrimp Blues er allavega líka á svipuðum slóðum, sem og Phonograph Blues (þar sem ljóðmælandi er reyndar hugsanlega bara svona útriðinn – þau ríða og ríða og svo ryðgar bara nálin hans). Og rannsóknarefni hvers vegna ég sé aldrei neinn tala um þetta. I’d said I’ll flash your lights, mama, and the horn won’t even blow
I even flash my lights, mama, and this horn won’t even blow
I got a short in this connection, way way down below Ég held ég fari með rétt mál að langflestir af þessum hokumblúsum séu gorgeirs- frekar en getuleysisblúsar (en hef enn ekki skoðað það sérstaklega). Ég man allavega í svipinn ekki eftir neinum öðrum getuleysisblúsum. Önnur lög Roberts vöktu enga sérstaka athygli. Tónlist hans berst samt til eyrna Johns Hammond, sem vann hjá Colombia Records og var allra handa músíkpródúsent, sem um sína tíð uppgötvaði óhemju af frægum tónlistarmönnum – frá Count Basie til Bruce Springsteen. Og ber ekki að rugla saman við tónlistarmann sem heitir sama nafni. John Hammond var að skipuleggja tónleika í Carnegie Hall – From Spirituals to Swing – sem yrðu helgaðir tónlist blökkumanna og áttu að brjóta niður hinn ósýnilega múr milli tónlistar svartra og hvítra. Þarna yrði – í fyrsta sinn – tónlist blökkumanna „veitt virðing“ og hún leikin í alvöru tónleikasal fyrir sitjandi og hlustandi gesti. Hvíta gesti mestmegnis. Þetta er auðvitað að einhverju leyti misskilningur. Tónlistin var ekki í ónáttúrulegu umhverfi þótt hún væri partítónlist og hún er ekki meira alvöru fyrir að vera í Carnegie Hall, fyrir að vera kanoníseruð. Hins vegar má alveg til sanns vegar færa að þessi leikur Hammonds hafi orðið til þess að varpa meira ljósi á „listrænni“ blústónlistarmenn. Það er kannski meira gaman að dansa við Leroy Carr en það er meira gaman að hlusta á Robert Johnson. Hvað sem því líður fer Hammond á stúfana eftir Robert Johnson, sem átti að sögn að vera aðalatriðið, en kemur að tómum kofanum (svo til bókstaflega) því hann er þá nýdauður. Big Bill Broonzy var fenginn til að fylla í skarðið en svo fannst Hammond það ekki nóg svo hann tók sig bara til og stillti upp plötuspilara á sviðinu og lék nokkur lög eftir Robert Johnson af plötu fyrir stappfullt Carnegie Hall. Það má segja að frá þessari stundu hafi Robert Johnson verið merkastur allra blúsmanna – en fyrst og fremst í munnmælum því plöturnar voru ekki til víða og það er ekki fyrren 1961, þegar blúsendurreisnin er í hámæli, að hann er endurútgefin og öðlast almennar vinsældir – tryllir ekki ómerkari menn en Eric Clapton og Keith Richards. Þegar sagan og mýtan er orðin svona mikil er hætt við að maður fari að gæta sín á að kokgleypa þetta ekki bara. Ég varð aðeins var við það á dögunum til dæmis að menn héldu því fram í kjölfar dauða Yahya Hassan að hann væri nú kannski ekki svona merkilegur heldur væri hann bara eitthvað viral-rugl – svona einsog reiðilegt komment á Jyllands-Posten sem allir rífast síðan um á Facebook. En það má segja um Hassan einsog um Robert Johnson að verkin tala bara fyrir sig sjálf. Þetta er einfaldlega ótrúleg tónlist (einsog ljóð Hassans eru engu lík). *** BÓNUSEFNI Bestu Robert Johnson koverin. Ég sleppi þeim allra frægustu – Love in Vain með Stones, Crossroads með Cream, Travellin Riverside með Zeppelin, They’re Red Hot með Red Hot Chili Peppers, Sweet Home Chicago með hverjum sem er – sumt af því er mjög fínt en það er bara óþarfi að auglýsa tónlist sem allir þekkja. Hér eru sömu lög sem Spotify-playlisti fyrir þá sem vilja bara láta þau renna – en það eru ekki allt alveg sömu útgáfur. Ég mæli sérstaklega með Ike & Tinu hér að neðan – útgáfan á Spotify er flott en þessi á YouTube er sjóðheit. En Dylan lagið er bara á Spotify – maður þarf eitthvað premium dæmi til að hlusta á það á YouTube.

createdTimestamp““:““2024-05-13T05:35:37.919Z““

Ég las upp úr Illsku í Lettlandi á dögunum og var í kjölfarið spurður hvort það væri sanngjarnt að „tala svona“ um þjóðina (og margar aðrar þjóðir reyndar líka) – ekki væru Íslendingar upp til hópa rasistar, og sönnunargagnið væri gjörningur „Biryndísi Bjórkvinsdauttir“ (eða hvað hún nú aftur heitir sú ágæta kona), þar sem 100 þúsund manns hefðu boðist til að taka á móti hælisleitendum og/eða flóttamönnum á heimilum sínum. Ég byrjaði á að segja að í fyrsta lagi væru Íslendingar heimsins bestu spunameistarar – við hefðum á sínum tíma verið best í kapítalisma, svo best í að lækna krankleika kapítalismans og fangelsa bankastjóra og bylta ógnarstjórnum, síðan best í … voru ekki eldfjöllin næst, það gæti reyndar staðist, við erum mjög góð í að loka flugvöllum … og loks værum við best í að bjarga flóttamönnum frá dauða. Altso, núna. (Fyrir utan auðvitað hvernig við erum best í að búa til tónlist og skrifa bækur). Síðan nefndi ég að líklega hefðu þetta verið 10 þúsund manns en ekki 100 þúsund manns og 10 þúsund væri ekkert rosalega hátt hlutfall af 340 þúsund manna þjóð, ekki miðað við stærð vandans. Og fólk hefði boðið ýmislegt minna en húsnæði og framfærslu (og ég sjálfur ekki neitt, vel að merkja). Auðvitað væri gjörningurinn fallegur, symbólískur, Bryndís væri góð vinkona mín og fáir sem ég bæri jafn mikla virðingu fyrir, þetta hefði verið geggjað. Og flóttamenn þyrftu líka hreinlega að fá að heyra það að einhver stæði með þeim, að einhver hugsaði til þeirra þar sem þeir træðu marvaðann í Miðjarðarhafinu og drukknuðu í evrópskri skriffinnsku. Og ráðamenn þyrftu að heyra í fólkinu. En staðreyndin væri sú að líkt og aðrar norðurlandaþjóðir þessa dagana kysum við yfir okkur fasistastjórnir og okkar hefði ákveðið að þessi mikli þrýstingur og þessar 10 þúsund sjálfboðaliðasálir þýddi að í stað þess að taka á móti 25 manns mætti taka á móti heilum 50 manns – og það væri enn ekki kjaftur kominn. Fyrir utan þessa fáu Sýrlendinga sem komu sjálfir og fengu loks hæli – voru þeir ekki fjórtán? – eftir endalaus og ítrekuð mótmæli og þrýsting. Það lá við að fólk hótaði því einfaldlega að slá skjaldborg um þá. Og munaði minnstu að þau yrðu send í burtu. Það þurfti tíu þúsund sjálfboðaliða til að fá vilyrði fyrir 50 flóttamönnum og í nótt þurfti 20 lögreglumenn til að sækja fjögurra manna albanska fjölskyldu og senda þau úr landi. Þau voru sótt um miðja fokkins nótt vegna þess að neyð þeirra þótti ekki nógu stór fyrir mannúð Íslendinga, hún dugði ekki til. Fjölskyldufaðirinn sætir ofsóknum glæpamanna í Albaníu og sonurinn, þriggja ára, er fársjúkur og þarfnast læknisaðstoðar. En það er ekki nóg. Faðirinn var í vinnu og börnin komin á leikskóla, þau voru með stuðningsnet heimamanna, vina sem þótti vænt um þau – þau höfðu verið hér í tíu mánuði, sem er rúmur fjórðungur úr lífi yngsta barnsins. 20 lögreglumenn – líklega bjuggust þeir við því að mæta hörku, í öllu falli vildu þeir greinilega vera viðbúnir því að þurfa að takast á við einhvern. En fjölskyldan bað vini sína að mótmæla ekki – enda vildu þau ekki sjá lögregluna berja vini sína. Því hver vill það? Lögreglan vinnur alltaf hvort eð er. Og maður spyr sig hvað þetta kosti. Og hvort ekki væri nær að fljúga fólki í hina áttina, úr eldinum í öskuna frekar en öfugt? Úr eldinum í kuldann. Við getum ekki bjargað öllum, en við getum bjargað þeim sem bjarga sér sjálfir. Við getum sleppt því að eyða stórfé í að leggja líf fólks í rúst. Svona er að búa í fasistaríki. Mér er engin nautn í að segja það – en það er nákvæmlega þetta skeytingarleysi um líf annarra sem er lykileinkenni fasismans. Að reglur séu reglur og líf fólks skipti ekki máli, ekki gagnvart reglunum (sem þess utan eru alltaf túlkaðar þröngt; það eru engar reglur sem skylda okkur til að senda fólk úr landi og það liggur huglægt mat að baki reglum um dvalarleyfi af mannúðarástæðum). Það má síðan alveg hengja sig á einhverjar aðrar orðabókarskilgreiningar – þegar ég var ungur sósíalisti var mér sagt að fasistar væru ekki fasistar nema þeir sæktu sinn helsta stuðning til stéttar smáborgara (sem samkvæmt fræðunum eru þeir sem vinna ekki fyrir aðra og eru ekki með aðra í vinnu; þeir sem vinna fyrir sig sjálfa – svona einsog ég). En fasisminn er fyrst og fremst ákveðinn móður, ákveðinn hamur, ákveðið verklag sem sýnir utanaðkomandi yfirgengilegan fjandskap, skilgreinir þá (t.d. albanskar fjölskyldur) sem ógn við einingu og velferð þjóðarinnar, og beygir sig ekki einu sinni að vilja samfélagsins, heldur friðar það með bitlingum, enda hefur hið fasíska ríki sinn eigin vilja og lýtur engum. Og ég skal bara segja það aftur: svona er að búa í fasistaríki. Lýðræðislegu fasistaríki – við kjósum þetta, og skömm okkar er meiri fyrir vikið – en fasistaríki engu að síður. Þar sem sumir mega einfaldlega drepast. Þegar við síðan brennum inni með þetta rugl, einsog við brunnum inni með kapítalismann 2008 – hvort sem það verður af völdum stríðs eða borgarastyrjaldar eða einfaldlega þess harms að hafa horft upp á stóran hluta þriðja heimsins drepast á dyraþrepinu hjá okkur, rétt á meðan við troðum í okkur jólamatnum, hvort sem við murkum endanlega lífið úr fátæka fólkinu eða það rís upp gegn okkur – þá getum við ekki haldið því fram að við höfum ekkert vitað í hvað stefndi, að við höfum ekki áttað okkur á því eða að við höfum ekki getað gert neitt. Það er einfaldlega ekki í boði. Við gerum þetta með galopin augu – vitum að vísu ekki alltaf hver drepst og hver lifir – en við vitum að mannfallið er mikið. Við kjósum að viðurkenna ekki neyð fólksins sem knýr dyra. Með fullri meðvitund og lýðræðislegu samþykki. Það þýðir ekkert að yppta öxlum og láta einsog það komi okkur nú ekkert við, ekki séum við í albönsku mafíunni, ekki séum við í ISIS eða morðsveitum Assads, við séum nú „bara Íslendingar“. Við erum alveg jafn sek þótt við látumst heimsk.

id““:““fq433″“

Það er sól og blíða og við ætlum að spila svolítið hokum og dónablús. Á þessu tvennu er sennilega ekki æðislegur munur, a.m.k. hefur mér ekki tekist að finna hann, þótt blúsfræðingar séu margir á því að þetta séu auðsjáanlega tvær mjög ólíkar kategóríur tónlistar. Til hægðarauka hef ég stillt því þannig upp í höfðinu á mér að hokumblús sé þegar augljóslega er sungið um kynlíf eða annað transgressíft efni en notuð um það önnur orð – svo sem einsog í Warm My Weiner eftir Bo Carter – en dónablús sé þegar maður yrkir einsog The Clovers gerðu árið 1953: Cocksucking Sammy get your motherfucking mammy
We’re going downtown to the cocksucker’s ball
Fuck, suck and fight till the beginning of broad daylight Ég skal nú reyndar ekki rífast við neinn sem segir að þetta sé ekki propper blús – þetta er doo-wop – sennilega neyðist ég til að hafa einhvern svona formála í hverri einustu færslu. Blúsinn er víða, það er blús í næstum öllu – mismikill. En þetta er s.s. í blúsfjölskyldunni. Clovers eru frægastir fyrir ljúfari smell – Love Potion no. 9. Svo eru auðvitað ótal mörg lög sem fara einhvern milliveg og erfiðara að flokka í hokum eða dónablús. Blúsarnir eru fæstir svona ofsalega grófir og beita talsverðri íþrótt til þess að sleppa því að segja hlutina hreint út. Bo Carter, sem var nefndur hér áðan, átti talsvert af svona lögum þar sem hann skipti út einhverju kynlífsnafnorði fyrir annað nafnorð – Let Me Roll Your Lemon, Banana In Your Fruit Basket, Pussy Cat Blues og svo framvegis – en annars voru það konurnar sem áttu bestu og frægustu lögin. Sennilega er einhver allra frægasti hokumblús lagið Need A Little Sugar in My Bowl sem Bessie Smith tók upp árið 1931 en Nina Simone gerði ódauðlegt (og breytti need í want) árið 1967. Af því allir hafa heyrt það með Ninu hlustum við á Bessie. Nina droppar líka pylsulíkingunni úr laginu – Bessie syngur „I need a little hot dog in my roll“. Einsog gefur að skilja úir og grúir af pylsulíkingum í hokum. Svo eru sítrónurnar líka mikið teknar, Robert Johnson syngur um „dauðu rækjurnar“ sínar í getuleysisblús, Lil Johnson (sem söng eiginlega bara hokum) syngur um kjötbollur og pylsur og fleira, Maggie Harris spyr hvort enginn vilji prófa kálið sitt (?!!), kisur koma ítrekað við sögu og Lightning Hopkins syngur um púðluhunda, Blind Boy Fuller syngur um hunangsholuna, margir syngja um snáka (ekki síst svarta snáka) og Wynonie Harris mælir með því að maður strokki þar til smjörið kemur: Mikið af kvennablúsnum tekur fyrir karlmennskuna – hvort nokkuð gagn sé af karlinum og er það nokkuð upp og ofan, einsog gengur. Ida Cox syngur að hún sé „One Hour Mama“ og þoli illa einhverja „one minute papas“. I don’t want no lame excuses
’Bout my lovin’ bein’ so good
That you couldn’t wait no longer
Now I hope I’m understood
I’m a one hour mama
So no one minute papa
Ain’t the kind of man for me Áður en yfir lýkur er hún reyndar farin að hóta því að þessi ósköp geti vel teygst upp í tvær eða þrjár klukkustundir, eiginlega sé hún bara rétt að komast í stuð eftir fyrsta tímann. Alberta Hunter hins vegar þarf ekki að auglýsa eftir neinum manni af því hún á svo góðan. Þetta er líka extraskemmtilegt af því Alberta er ekki 25 ára og löngu hætt að roðna. Now he threads my needle,
And he creams my wheat,
Heats my heater,
And he chops my meat, he’s a mess,
My man, is such a handy man
Now I don’t care if you believe it or not,
He’s a mighty nice man to have around, Svo er það Dinah Washington sem fer á stúfana að finna trombónuleikarann „with that big long slidin’ thing“ og Julia Lee sem á sinn „king size papa“ („he’s a real super-daddy and he knows just what to do“) og Lilla Mae Kirkman var að kynnast manni sem er akkúrat passlega stór („I met a man last night, he was just my size / I’ve taken him home with me to bake my cakes and pies“). Sumar lenda í vandræðum – Barrel House Annie biður: „If it don’t fit don’t force it / cause you’ll make your mama mad“ og Tampa Red og félagar – og raunar svo haugur af konum á eftir þeim – syngja svo um hvað ástandið sé nú stundum þröngt: Uncle Bill came home
’Bout half-past-ten
Put the key in the hole but he couldn’t get in
Oh, it’s tight like that
Beep-um-bum-bum
Oh, It’s tight like that
Beedle-um-bum
Ya hear me talkin’ to ya
I mean it’s tight like that
Me and my brother
Was up in the loft
We’s seein’ Uncle Bill when he broke it off
Y’know, it’s tight like that Memphis Minnie, sem hafði meðal annars lifibrauð sitt af vændi, a.m.k. á tímabili, söng síðan (og samdi, held ég) lagið Tricks Ain’t Walking No More. I’m going to learn these walking tricks what it’s all about
I’m going to get them in my house and ain’t going to let them out
Because tricks ain’t walking, tricks ain’t walking no more
Tricks ain’t walking, tricks ain’t walking no more
And I can’t make no money, I don’t care where I go Ég veit ekki hvort það er víðáttuvitlaus lestur – en þótt lagið fjalli fyrst og fremst um að það skorti kúnna í kreppunni – þá finnst mér líka í því vera fólgin hótun um að gera vissa tegund af kúnna ófæran um gang. Loks, áður en ég skil við ykkur í dag, vil ég koma að einu uppáhaldslagi. Þetta er Lucille Bogan sem er fantafín söngkona og hefur notið alltof lítillar athygli – kannski einmitt vegna þess að umfjöllunarefni laga hennar eru jafnan í grófari kantinum. Frægustu lögin hennar eru þetta hér að neðan, Shave Em Dry II, sem er grófari útgáfa af lagi með Ma Rainey, og Tricks Ain’t Walking, en annars syngur hún líka mikið um fyllerí og ofbeldi. Og ég hef enn ekki spilað þetta lag fyrir neinn sem grípur ekki fyrir munninn og segir að þetta sé svolítið smekklaust. En í grunninn fjallar það auðvitað bara um að ríða – það er ekkert ljótt í því annað en dónaorðin. Og söngurinn er engu líkur. **** AUKAEFNI

Hlekkur á Spotify-lista með öllum þessum lögum og fleirum til – meira að segja nokkrum nýrri.

id““:““f5a80″“

Ein af bókunum sem ég las í síðustu viku, og tengist þessum bókaskrifum – sem og leikritinu (sem er – plöggviðvörun – frumsýnt á laugardag í Tjarnarbíó) – heitir  Free Speech on Campus og er rituð af tveimur amerískum lögfræðingum. Einsog titillinn gefur til kynna fjallar bókin um málfrelsi og mörk þess í háskólasamfélaginu. Grundvallarkenning bókarinnar er sú að málfrelsi verði að vera rýmra í háskólum en annars staðar því því annars geti þeir ekki sinnt hlutverki sínu (sem er meðal annars að takast á við ögrandi hugmyndir, en líka að fella vitlausar hugmyndir úr gildi – til þess þarf að vera hægt að ræða þær, á eigin forsendum en líka að skoða þær forsendur. Þá flytja höfundar ýmis rök gegn því að málfrelsi séu settar hömlur – eða réttara sagt, þá benda þeir á hvernig margar aðferðir (svo sem safe space-sköpun í kennslustofum eða skyldubundnar triggerviðvaranir) geti annars vegar haft neikvæð áhrif – t.d. þannig að hamlanirnar valdi nemendum sem heild alls kyns kvíðavandamálum, enda vaki þar nemendur hver yfir öðrum og refsi og skammi hver annan, samfélagið verður púrítanískt – og hins vegar sé ekki hægt að banna A (sem er skaðlegt) án þess að banna líka B (sem er nauðsynlegt frjálsri samræðu). Afleiðingar hertra reglna um tjáningu séu einfaldlega of neikvæðar, þótt hvatinn til þess að herða reglurnar sé skiljanlegur. Ekki er þar með sagt að allt mál sé einfaldlega varið og öll tjáning lögmæt. Þeir gera t.d. greinarmun á tjáningu sem er beinlínis hótandi í garð tiltekins fólks. Þannig væri innan marka að brenna kross en ekki innan mark að brenna hann á lóð svartrar fjölskyldu; innan marka að segja konur heimskari en karlmenn (enda standist það enga skoðun og falli strax dautt í samfélagi sem leyfir sér að vera krítískt) en ekki innan marka að hóta að nauðga konu (enda sé það ekki „hugmynd“ sem hægt er að takast á um heldur einfaldlega hótun). Þegar ég segi „innan marka“ á ég líka fyrst og fremst við „löglegt“ – og „ætti ekki að banna“, þótt það sé vissulega glatað. Ekki að manni eigi að finnast það frábært. Lögfræðingarnir, sem hafa kennt málfrelsislög, eru báðir á því að triggerviðvaranir geti þjónað alls konar tilgangi og hafa báðir notað þær frá því löngu áður en hugtakið var til. Þannig hafi þeir oft fjallað um mónólóg Georges Carlin Seven Dirty Words og alltaf varað nemendur sína við að þeim gæti þótt þetta ljótt. Það þýðir vel að merkja ekki endilega að það sé afleiðingalaust að ganga út – en það gefur manni tækifæri til að búa sig undir það. Ég stóð mig að því sjálfur á laugardagskvöldið, þegar vinkona mín spurði mig hvort ég væri „viðkvæmur fyrir myndum“ að svara „ekki ef þú varar mig við“ – sem er einmitt málið. Það er ágætt að láta vara sig við. (Það er svo viðeigandi að nefna í þessu vinnudagbókarbloggi að vinkonan, sem er trans, sýndi mér svo mynd af transpíku – ekki sinni, vel að merkja, heldur bara af netinu – og ég trámatíseraðist sama og ekki neitt). Hins vegar geti verið alls konar ástæður fyrir því að kennarar vilji og þurfi að sýna nemendum sínum efni  án þess að vara þá fyrst við – það sé einfaldlega ákvörðun sem kennarinn verði að taka sjálfur, miðað við efni og aðstæður, en ekki eitthvað sem eigi að gerast á skrifstofu skólastjóra og miðast við öll efni og allar aðstæður. Þá sé líka í fínu lagi að búa til safe spaces – en það megi ekki nota hugtakið sem skjöld gegn öllum óþægindum. Kennslustofan geti verið staður til þess að ögra og það sé einfaldlega margt sem ómögulegt sé að læra án þess að verða fyrir óþægindum. Maður verður ekki læknir án þess að þola að sjá blóð. En það þýðir kannski ekki að það megi sturta yfir mann blóði óforvarendis inni á klósetti bara af því maður er í læknanámi. Þeir skilgreina síðan stórt svæði utan kennslustofunnar – sjálfan kampusinn – sem málfrelsissvæði. Þar eigi að gilda rúmari reglur um tjáningu en annars staðar í samfélaginu og raunar líka rúmari reglur um truflun – en truflunartjáningu er eðli málsins samkvæmt sniðinn þröngur stakkur í kennslustofu, þar sem fólk á að bera virðingu fyrir hugmyndunum sem verið er að ræða. Sé maður ósammála fyrirlesara er ekki nóg að segja honum bara að fokka sér – þótt það sé nóg á kampusnum annars – í kennslustofunni ber manni skylda til þess að kljást við hugmyndir fyrirlesarans. Ég hef séð alveg fáránleg myndbönd af fólki að garga niður fyrirlesara – t.d. karlréttindasinna – bæði inni í kennslustofu og svo í stórum hópum fyrir utan þær, með þeim afleiðingum að ekki heyrðist orð innandyra. Höfundar eru alveg klárir á að það sé utan marka. Þeir leggja líka áherslu á það lögfræðingarnir að skólarnir geti gert ýmislegt til þess að vinna gegn hatri í skólanum án þess að grípa til þess að banna illyrmislegar hugmyndir. En þeir eru líka alveg harðir á því að tilvikum þar sem kennurum og nemendum sé refsað að ósekju – eða réttara sagt fyrir tittlingaskít eða „réttmætan hugmyndaflutning“ eða hvað maður vill kalla það – fari mjög fjölgandi og það sé full ástæða til þess að hafa áhyggjur, bæði af andrúmsloftinu í kennslustofunni en líka í kringum háskólann – einn kennari var sem dæmi rekinn fyrir að fara með blackface málningu á grímuball, ótengt háskólanum, þótt sannað þætti að hún hefði fyrst og fremst ætlað að „ögra til umræðu“. Þótt manni finnist slík hegðun ósæmileg sé hún engan veginn réttlætanleg brottrekstrarsök. *** Hans Blær – verandi tröll – starfar við hið transgressífa, að ganga yfir þessa línu, helst þannig að hán komist upp með það. Þar er ekki endilega spurt hvort hán brjóti lögin, sem hán gerir stundum lítillega (og stundum meira), heldur hvort og hvernig hán brýtur á siðferðislögmálum. Hán þarf að brjóta nóg á þeim til þess að þjóðfélagið taki andköf en ekki svo mikið að fólk hætti að horfa eða hlusta – þetta er línudans þess sem vill hámarka athyglina. Og verandi fjölmiðlastjarna lýtur hán augljóslega öðrum reglum en t.d. háskólaprófessorar. Í kampussamhenginu er hér hægast að vísa enn eina ferðina til Milo Yiannapoulus sem túraði milli kampusa í Bandaríkjunum í fyrra og baðaði sig í athyglinni, bæði jákvæðri og neikvæðri. Sums staðar fór hann á svið og gerði óskunda og sums staðar – t.d. í Berkeley, en þar eru báðir höfundar  Free Speech on Campus starfandi – var honum ekki hleypt á svið af reiðum múg og gerði þannig enn meiri óskunda og vakti enn meiri athygli. Það eru til þrjú stig af þessari transgressjón. Í fyrsta lagi transgressjón sem gengur ekki nógu langt – sjokkerar engan (eða sjokkerar nógu lítið að fólk eigi auðvelt með að hafna því að það hafi sjokkerast). Síðan transgressjón sem fúnkerar – þar sem hinir þórðarglöðu hlæja og hinir viðkvæmu reiðast. Tröllið – ekki ósvipað og transgressífi listamaðurinn – þrífst á átökum þessara tveggja hópa, þetta er kraftaverkaaugnablikið. Loks er það transgressjón sem einfaldlega gengur of langt – þegar það slær þögn á hópinn og þetta „er ekki fyndið lengur“. Það getur verið tímabundið – einsog gerðist fyrir Milo þegar hann gerði lítið úr samböndum unglingsbarna (13-14 ára) við fullorðna karlmenn – eða stærra, verra og ófyrirgefanlegra. Í síðara tilvikinu nær þá transgressjónin yfirleitt út fyrir heim orðanna – þá eru það gjörðir. Hitler – svo ég taki nærtækt dæmi! – var húsum hæfur þrátt fyrir Mein Kampf. Það þurfti helförina til þess að Morgunblaðið hætti að verja hann.

id““:““ed3h1″“

Nehemiah „Skip“ James er sennilega sú af blúshetjum 20. aldarinnar sem var minnst þekktur meðan hann lifði. Eiginlega vissu bara ótrúlega fáir að hann væri til fyrren hann „fannst“ aftur árið 1964 – í sama mánuði og Son House – og hann var minniháttar fígúra í blúsendurreisninni við hliðina á hinum og átti bágt með að framfleyta sér í sínum fábrotna lífsstíl alveg þangað til að Cream tóku upp I’m So Glad (sem hann er skrifaður fyrir en samdi ekki nema að hluta – einsog margir blúsar er það mikið byggt á öðru lagi). Og svo dó hann bara augnabliki seinna. Ég held ég fari rétt með að einsog Skip hafi Mississippi John Hurt ekki notið velgengni í æsku – en hann var súperstjarna á hippakaffihúsunum (enda ólíkt ómþýðari en hinir). Bukka White var alltaf mallandi – hætti aldrei að spila, var með í leiknum þótt hann væri misþekktur eftir tímabilum. Og það var ekki erfitt að finna hann – maður þurfti ekki nema spyrja náfrænda hans, B.B. King. Son House gaf ekki út vinsælar plötur en var samt vinsæll og þekktur á sínum heimaslóðum, átti þekkt lög sem aðrir gerðu vinsæl, og umgekkst (og kenndi) óhemju mörgum yngri blúsurum – og lærði sjálfur af Charlie Patton. Svo naut hann þess – eða, ég veit ekki hversu mikil nautn það var honum – að vera með mjög góða og virka umboðsmenn á sjöunda áratugnum sem komu honum á framfæri og héldu honum gangandi. Dick Waterman var beinlínis í fullri vinnu við að halda honum passlega fullum og sjá til þess að hann kæmist milli gigga og svona, seldi ekki gítarinn fyrir brennivíni og eitthvað (hann var gersamlega stjórnlaus bytta, ef eitthvað er að marka frásagnirnar). Skip er fæddur sama ár og Laxness, 1902, og var aldrei kallaður annað en Skippy fyrren plötuútgefandinn hans stytti það fyrir hann árið 1931 (á móti kemur að hann kallaði upptökustjórann, Art Laibley, aldrei annað en Artie). Hann var tregur til að koma og taka nokkuð, sennilega af því hann hafði það ágætt og lifði lífi sem kallaði ekki beinlínis á athygli – hann var melludólgur, sprúttsali og ofbeldismaður. Stephen Calt gerir því skóna í ævisögu hans að hann hafi hugsanlega átt yfir höfði sér dauðadóm í Atlanta – en það eru mestmegnis getgátur. Mamma hans var þjónustukona í húsi plantekrueiganda og Skip er alinn upp „í húsinu“ og leit alla tíð niður á blökkumenn – hafði meira að segja á orði við Calt að það væri ástæðulaust að koma fram við sig einsog hann væri hvítur, þótt hann teldi sig nú heilt yfir hafa lunderni hvíts manns (annað en allir þessir óþolandi blökkumenn í kringum hann). En hann tók nú samt upp nokkur lög og þóttist viss um að verða nú heimsfrægur. Plöturnar (tvö lög per plötu – 9 plötur) seldust hins vegar ekki rassgat og voru sennilega líka þrykktar í mjög litlu upplagi. Tvær þeirra – 22-20 Blues / If You Haven’t Any Hay og Devil Got My Woman / Cypress Grove Blues hafa samt ratað upp í hendurnar á Robert Johnson, sem gerir 22-20 að 32-20 Blues og notar margt úr Devil Got My Woman í bæði Hellhound On My Trail og Come On In My Kitchen. Þegar menn fara svo að skoða Robert Johnson fyrir alvöru seint á sjötta áratugnum og uppgötva þetta finna þeir þessi örfáu eintök sem enn voru til af plötum Skips og falla í stafi – líkt og þeir höfðu gert yfir upptökum Son House. Það jók svo mjög á gildi Skips í þessum fámenna harðkjarna blúsplötusafnara að plöturnar voru gríðarlega sjaldgæfar. Þeirra Skips og Son House er síðan lengi leitað og finnast einsog áður segir báðir í júní, 1964. Son House finnst langt að heiman, í Rochester, New York – blindfullur og illa spilandi, en nær fljótt talsverðu af sinni gömlu færni (meðal annars með aðstoð Alan Wilson, síðar í Canned Heat). Skip finnst á spítala í Tunica, Missisippi. Gítarstíll Skips er talsvert erfiðari viðfangs en stíll Sons House – sem er svolítið random, taktfastur, villtur, eiginlega er Son House pönkari – og hann verður aldrei sams konar gítarleikari og hann var árið 1931. Hann spilar hægar og með meiri trega, fingurnir láta ekki alveg að stjórn. Calt finnst minna til þessa koma en ég verð að vera ósammála. Ef maður ber þessa öldrun saman við til dæmis það hvernig ungu gítarleikararnir 1964 – *hóst* Eric Clapton *hóst* – hafa elst þá er ekki spurning í mínum huga hver hefur vinninginn. En ég myndi vilja bæta um betur og segja bara að Skip hafi hreinlega elst mjög vel – og njóti mjög góðs af betri upptökutækni, sem hafði miklu minna að segja fyrir blúshrópara einsog Son House eða Bukka White. Hann er meiri blús-shredder árið 1931 en það er meiri dýpt í upptökunum 1964-1969 – hann nýtur sín betur þegar díteilarnir í rödd og spilamennsku eru skýrari. En báðar hafa augljóslega sinn sjarma – mér finnst Skip 1964 ekki hafa minni hæfileika en 1931, þeir eru bara aðeins öðruvísi í laginu. Lagið byrjar eftir mínútu formála á þýsku: Það er margt sem drífur á daga Skips á árunum frá 1931 til 1964 þótt hann sé ekki frægur og leggi ekki stund á tónlist nema af og til. Hann gerist meðal annars aðstoðarpredikari pabba síns, stórtækur sprúttsali (í skjóli „vináttu“ við plantekrueiganda) og allra handa dólgur. Á einu tímabili rekur hann skemmtistað úti í sveit og Calt rekur sögu af því hvernig ein helsta hættan við þennan rekstur var að verða rændur. Strategían gekk þá gjarna út á að slökkva á steinolíulampanum – það virðist yfirleitt bara hafa verið einn – og ræna svo peningakrukkunni af barnum í skjóli myrkurs. Skip gerði því að forgangsatriði að gæta lampans og hafði hann alltaf alveg hjá sér. Einu sinni sem oftar brjótast síðan út slagsmál á skemmtistaðnum. Einhver dregur upp byssu og fer að skjóta og ein kúlan splundrar lampanum við hliðina á Skip. Í myrkrinu tryllist okkar maður, teygir sig í haglarann og byrjar að drita út í sal og yfir dansgólfið þangað til „allir voru farnir eða dauðir“ einsog sagan segir. Á þessum árum og alveg langt fram eftir ævi gekk Skip alltaf með byssu (og gekk síðar mikið á eftir Calt með að útvega sér vopn, sem hann lét vera, meðal annars fyrir orð eiginkonu hans, Lorenzo, sem óttaðist að hann myndi drepa sig í einhverju bræðikastinu). Þótt það fari alls konar sögum af blúsurunum þá segir Calt (sem ætti að vita það) að Skip sé eini blúsarinn sem hann viti til að hafi alltaf verið vopnaður. Skip játaði líka á sig alls konar morð og talaði um ofbeldisgjörðir sínar algerlega hiklaust og það er sennilega alveg ástæðulaust að efast um að hann hafi drepið marga, þótt hann hafi kannski líka sagt fiskisögur inn á milli. Og fyrri eiginkona hans, Mabel, átti nokkrar sögur sjálf af því að stinga menn til bana og skilja þá eftir í skurðum. En vegna þess að þau hafa sennilega látið duga að drepa svarta karlmenn sem öllum var meira og minna slétt sama um á þessum tíma hafði þetta aldrei neinar sérstakar afleiðingar (annað en að Skip átti mikið af óvinum). Hugsanlega hefur hann samt drepið hvítan mann í Atlanta og þess vegna aldrei þorað aftur þangað – en það eru allt hreinar getgátur (sem koma til af sterkum tilfinningum hans í garð Atlanta, þess að hann sagði hreint út að hann ætti eftir að segja svakalegustu sögurnar sínar, og þess að hann sagðist aldrei hafa verið í Atlanta – sem er vitað að er ósatt). Árin sem hann starfar sem predikari eru líka áhugaverð. Skip ólst ekki upp hjá föður sínum og á í sams konar sambandi við hann og margir „yfirgefnir synir“ – hann dýrkar hann og vill allt gera til að fá viðurkenningu hans. Þetta er mjög ólíkt Skip annars, einsog þið getið kannski ímyndað ykkur. Faðir hans hefur lítinn áhuga á honum og veitir honum aldrei neina viðurkenningu að ráði og þetta virðast hafa verið svolítið erfið ár fyrir Skip (einsog flestir mannhatarar er hann djúpt tilfinningalegt svöðusár sjálfur – grét í faðmi kvenna sinna um nætur en setti upp hörkusvip á daginn). Skip er alltaf að einhverju leyti trúaður og spilar líka gospel – og þykist vita að blússpilamennskan sé Guði alls, alls ekki þóknanleg. Reyndar er líka áhugavert að athuga hvað hann upplifir sjálfur sem syndugt líferni – og er að sögn Calts ekki einsdæmi fyrir Skip heldur almennt í trú blökkumanna í Mississippi (og hvítra auðvitað líka, en á annan, skipulagðari, distanseraðri og rasjónalíseraðri hátt). Það er að segja – Skip leit aldrei á það sem neitt vandamál að hann hefði drepið fullt af fólki af því fólkið sem hann drap átti það nú eiginlega bara skilið. Þetta voru þjófar og aumingjar. Barátta hans við syndina snerist um að hætta að spila blúslög, hætta að drekka brennivín og hætta að nota tóbak. Einhvers staðar þar á eftir kom svo að hætta hóreríi (Calt segir að prestarnir hafi sjálfir verið svo fjölþreifnir að það hafi gjarnan mætt afgangi að predika gegn slíku). Að hætta að drepa aumingja sem áttu það skilið kom kannski einhvers staðar á eftir því að vera ekki að gera góðlátlegt at í vinum sínum. Eða þannig. Og kemur þá að fyrirferðarmestu persónu þessarar ævisögu Stephens Calt um Skip James – sem er Stephen Calt sjálfur. Mánuði eftir að þeir Son House og Skip James uppgötvuðust spiluðu þeir á Newport Folk Festival. Að sögn höfðu skipuleggjendur aldrei heyrt í Skip James en hleyptu honum á svið fyrir orð annarra – blúsnördanna sem allt vissu. Einn af blúsnördunum úti í sal – sem hafði lítið að segja baksviðs – var hinn átján ára gamli Stephen Calt. Hann er nógu mikið nörd til að þekkja til Skips, leitar hann uppi og kynnist honum og þeir ná vel saman – sennilega vegna þess að lunderni þeirra beggja er frekar svart. Ef eitthvað er að marka Calt lá Skip ekki hlýtt orð í brjósti til nokkurs manns og það er alveg ljóst af bókinni að hið sama átti við um Calt, sem beinlínis eys úr skálum beiskju sinnar yfir allt og alla, þar með talinn Skip James – sem á í besta falli fjögur góð lög, tímalausa klassíkera vissulega, en er annars skíthæll og fífl sem gerir hlutina með hangandi hendi, og allt sem hann gerir eftir upptökurnar 1931 er leiðinlegt og það var mikil bölvun fyrir Calt að hengja sig svona á hann. Robert Johnson er líka leiðinlegur, Alan Wilson er sikkófant og fífl, Bukka White og Son House eru hæfileikalausir æpandi fábjánar sem fljóta á misskildum tónlistaráhuga bláeygðra hvítra manna einsog Dick Waterman og blúsendurreisnarsinnanna (= vina Calts frá þessum tíma) sem gera engan greinarmun á góðri og vondri tónlist. Og ekki þolir Calt samt neina aðra tónlist heldur – ræðurnar sem hann heldur yfir folk-hreyfingunni eru ofsalegar. Honum finnst bara allt ömurlegt. Þetta veitir bókinni bæði svolítið skemmtilegan blæ og er ótrúlega þreytandi. Svona einsog munurinn á því að hlæja að korters viðtali við Kára Stefánsson og hinu að sitja fastur við hliðina á honum í 7 tíma flugferð meðan hann malar viðstöðulaust. Mér fannst gaman að fá þessa krítísku vídd í byrjun – rak mig fyrst utan í þegar hann fór að gera lítið úr upptöku Roberts Johnson á Hellhound on My Trail og ofbauð svolítið þegar hann talar um T-Bone Walker sem eitthvað eftirstríðsfyrirbæri sem allir eru löngu búnir að gleyma (sem er bara ekki satt – ég er enginn T-Bone maður en hann er samt frægur og ég skil alveg að sumir fíli hann). Og listinn er lengri – Sonny og Brownie fá sinn skamt, Lightning líka, Chicagoblúsinn sitt o.s.frv. Þegar hann fer síðan að tala um hvað Alan Wilson sé mikið fífl að dirfast að halda á gítar í návist meistara Skip James, einsog þeir séu þarmeð blúsmenn af sama kalibera, og rekja það hvernig Skip hafi sagt baksviðs að Alan væri feitur og maður gæti ekki spilað blúsinn ef maður væri feitur var ég alveg byrjaður að jæja svolítið duglega með sjálfum mér. Síðustu 60-70 blaðsíðurnar var ég alveg kominn með upp í kok, farinn að leggja bókina frá mér á fimm mínútna fresti til að trufla Nödju með einræðum um hvað þessi maður væri mikið fífl að halda einræður um hvað aðrir væru mikil fífl (ég sá ekki íróníuna í því þegar ég var að þessu – en ég hef séð ljósið nú!). En. Þetta er eina ævisaga Skip James og Calt hafði mikinn aðgang að honum og bókin er sannarlega fróðleg – þótt hann líka gjarn á að taka bara því sem Skip segir sem heilögum sannleik. Þegar Skip fer að afsaka slælega spilamennsku með því að hann sé viljandi að spila illa svo hann geti borið því við þegar hann mætir drottni að hann hafi ekki spilað blúsinn af innlifun – og það sé því ekki blús – og Calt tekur því sem einlægri afstöðu hans frekar en bulli úr manni sem er beiskur yfir því að fingurnir á honum láti ekki að stjórn, þá finnst manni hann sekur um allt það bláeyga sakleysi sem hann sakar aðra blúsendurreisnarbræður sína um. Altso. Frábær músíkant, einn sá allra besti, samt frekar glataður gaur – en alinn upp á vargöld í vondum heimi. Fróðleg bók og skemmtileg á köflum, skrifuð af manni sem hefði aðeins mátt slaka á lífsbeiskjunni. Aukaefni: Þetta er lagið sem Skip byggir I’m So Glad á. Glöggir munu taka eftir því að þessi maður er ekki einu sinni blökkumaður. Ég get bætt því við að þetta er alls ekki blúslag – það er m.a.s. á mörkunum hjá Skip. 32-20 Blues er útgáfa Roberts Johnson á 22-20 Blues. Robert breytir því svolítið og þar á meðal kaliberi vopnsins. Það er gaman að geta þess að hinn vani byssumaður Skip James henti þessu lagi að sögn saman á örfáum klukkustundum – og kaliberið sem hann notaði, 22-20, er bara rugl. Það eru ekki til neinar 22-20 byssur. 32-20 er hins vegar bara klassík – bæði Colt og Winchester framleiddu þannig vopn. Það væri synd að segja að þetta kover hafi gert Skip ríkan en hann átti allavega fyrir helstu sjúkrahúsreikningum og leigunni. Það má segja Clapton og félögum það til hróss að þeir hafi skráð lagið á hann. Stones voru ekki svo næs með t.d. Love in Vain eftir Robert Johnson. Svo eru auðvitað mýmörg dæmi um að menn hafi gert lögin að sínum eigin – einsog deltablúsararnir gerðu sjálfir. Mikið af því sem Led Zeppelin voru kærðir fyrir voru jafn mikið þeirra eigin sköpunarverk og orginalarnir sem þeir hermdu eftir voru sköpunarverk þeirra sem fyrir þeim voru skráðir – sama á við um Dylan, sem sagði sjálfur að sítatið væri einn af hornsteinum blússins. Dylan skráði líka sín hreinni kover á upprunalegu höfundana – líka þegar hann útsetti og hagræddi einu og öðru, einsog í See That My Grave is Kept Clean eftir Blind Lemon Jefferson, sem segja má að Dylan hafi hreinlega blúsað upp, það er blúsaðra með honum en Lemon). Þessi Beck ábreiða er úr Wim Wenders myndinni Soul of a Man – sem er önnur í seríu mynda sem Martin Scorsese pródúseraði. Því miður er ekki allt lagið – það er feidað út í leikara að mæma Skip James. Þetta er skemmtileg útgáfa. Hér snýr Bonnie laginu á haus. Í staðinn fyrir að syngja „I’d rather be the devil / than be that woman’s man” þá syngur hún „I’d rather be the devil / than be a woman to that man“.

createdTimestamp““:““2024-05-13T20:50:21.092Z““

Ég var að leggja Braga frá mér. Stöðu pundsins . Það brakar alveg í skynfærunum. Einhvern veginn tekst Braga alltaf að vera gersamlega óþolandi og ógeðslega skemmtilegur bæði í senn. Ég man eftir að hafa lýst því yfir í menntaskóla að þegar ég yrði stór myndi ég skrifa bók sem væri skrifuð án bila, greinarmerkja, greinarskila – ég man ekki hvort það áttu líka að vera engar persónur og enginn söguþráður – en bókin átti að vera svo góð og svo skemmtileg, þrátt fyrir þetta, að það gæti enginn látið hana frá sér og fólk myndi neyðast til að dröslast í gegnum helvítið og hata mig á eftir, fyrir að vera svona skemmtilegur en svona óþolandi. Ég segi ekki að Bragi sé alveg þarna – enda útópísk sýn – en hann er á þessari vegferð og hefur verið a.m.k. í síðustu 4-5 bókum, frá því hann hristi af sér póstmódernismann (og talsvert marga lesendur, grunar mig, hann átti stóran flokk af blóðheitum fylgjendum, sem ég er hættur að verða var við að sama marki – og gömlu bækurnar voru „skemmtilegri“ en nýju bækurnar eru „svakalegri“) og skipti honum út fyrir einhvers konar tilfyndinn normkor hámódernisma (ég segi oft normkor og meina það neikvætt en á svona mikilli keyrslu verður það að einhverju miklu áhugaverðara) . Þetta er ekki fyrir alla og stundum finnst mér þetta bara vera fyrir mig og stundum alls ekki fyrir mig – ég skipti oft um lið í miðri bók – ég gleymi því gjarnan hver er að segja hvað og hvað var að gerast og það eru alveg kaflar þar sem mig langar bara að gefast upp. En þegar á mann er ráðist á maður að taka þátt í árásinni, segir ein sögupersóna í bókinni, og það er kannski lýsandi. Fimm stjörnu bók; ég er alveg gersamlega miður mín. *** Ég fór á grunge-tónleika fyrir nærri tveimur vikum. Gleymdi bara að skrifa um þá síðast. Jón Jósep – kenndur við svört föt – og Stefán Freyr Baldursson, þekktastur fyrir gítarleik með gruggsveitinni Urmli héldu tónleika í Skúrinni. Á dagskrá voru nokkrir af helstu slögurum gruggtímabilsins. Stefán, sem er unaðslegur gítarleikari, framúrskarandi, er Ísfirðingur og býr hér en Jón Jósep er reglulegur gestur í Húsinu (sem er við hliðina á Skúrinni og í eigu sama fólks) þar sem hann trúbadorast. Ég er ekki mikið gefinn fyrir trúbadora, svona heilt yfir, en mér hefur alltaf þótt Jón mjög heillandi – orkan er að vísu alltaf á yfirsnúningi en hann hefur líka svo augljóslega gaman af því að spila, það er bráðsmitandi. Flestir trúbadorar eru hins vegar held ég að þessu til að refsa bæði sjálfum sér og gestum – eða í besta falli í einhvers konar fiskflökunarakkorði. Enda eru þetta langar vaktir og sömu lögin síendurtekin – lái þeim hver sem vill. Í sem stystu máli eru Stefán og Jón báðir miklir fagmenn og gerðu flest sitt vel. Það var hins vegar augljóst að þeir höfðu ekki haft mikinn tíma til að æfa saman – og höfðu orð á því að æfingar hefðu meira og minna átt sér stað „í gegnum ircið“. Sum lögin smullu vel og önnur ekki jafn vel. Ég velti því svolítið fyrir mér hvort það væri betra eða verra að þeir hefðu kannski mikið spilað lögin í sitthvoru lagi  í gegnum tíðina – Stefán með Urmli og heima í stofu og Jón í trúbadorabransanum – og hvort persónuleikar þeirra hefðu mikið að segja um útkomuna. Jón er orkubolti með kassagítar sem kallar á einfaldari útsetningar – ein afleiðing þess að spila án hljómsveitar er að sum mistök, styttingar og einfaldanir á takti eða millispilum, dót sem kæmi strax í ljós þegar heil hljómsveit fylgist að, æfast kannski bara upp og maður hættir að taka eftir þeim. Það verða til litlar varíasjónir. Ég, sem spila aðallega með sjálfum mér, þekki það ágætlega að læra eitthvað lag – spila það ítrekað einn með sjálfum mér – taka það svo einu sinni að gamni með upptökunni og átta mig alltíeinu á því að ég hef ómeðvitað breytt einu og öðru smálegu. Stefán er hins vegar afar nákvæmur og teknískur og ég ímynda mér að hann hafi mest gaman af að læra og þjálfa upp díteilana – sem er alveg öfugt við virkni trúbadorsins (sem þarf auðvitað að læra miklu, miklu fleiri lög). Mér fannst allavega einsog af og til stefndu þeir hvor í sína áttina – en kannski var það frekar í lögum sem þeir höfðu minna spilað, ég veit ekkert um það, þetta var bara hugdetta. Tónleikarnir voru hins vegar skemmtilegir, með öllum sínum agnúum og brilljans. *** Stalker eftir Tarkovskí er nærri þriggja tíma langur rússneskur sci-fi klassíker. Það var kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins sem stóð fyrir sýningunni – og þurfti svolítið að peppa meðlimi upp í svona þunga mynd eftir lýjandi mánudag í kjarnafjölskyldunni. Hún gerist í heimi þar sem menn geta sótt inn á „svæðið“ og farið þar í ákveðið „herbergi“ og fengið sínar heitustu langanir uppfylltar. „Stalkerar“ – enska heitið er notað í rússneskunni – sjá um að smygla mönnum inn á svæðið og að herberginu. Hér fylgjum við einum vísindamanni, hvers heitasta löngun er að rannsaka herbergið og fá fyrir það nóbelsverðlaun, og skáldi sem hefur glatað innblæstri sínum og vill finna hann aftur. Svæðið er einsog yfirgefnar stríðsrústir – bæði náttúra full af skrani og sundursprengd hús. Myndin er löng og ljóðræn hugleiðing – ofsalega, ofsalega falleg, hráslagaleg og sérstök útlits – og mikill heimspekilegur texti. Mig langar alltaf að segja pseudo-heimspekilegur þegar það eru ekki heimspekingar sem skrifa en sennilega er það fölsk aðgreining. Persónurnar þrjár, stalkerinn, skáldið og vísindamaðurinn slógu mig sem ólíkar hliðar sömu persónu – svæðið sem tilvistin og herbergið sem hjartað, hinn innsti kjarni tilvistarinnar sem við reynum stöðugt að nálgast en óttumst líka að muni afhjúpa eitthvað um okkur sem við viljum alls ekki vita (t.d. að við séum eigingjörn). Eitthvað þannig. Það er ekki beinlínis einföldun – upplegg myndarinnar er of einfalt til að það þýði nokkuð að einfalda það, en myndin sjálf, úrvinnslan, textinn, frásagnarstíllinn flóknari. Og auðvitað er x alltaf bara x en ekki y. En ég sem sagt skildi þá ekki endilega í sundur, sá ekki einn sem aðal – þann sem ég vildi vera – heldur vildi ég vera þeir allir og var þeir allir. Og auðvitað vill enginn vera þessir menn, ráðvilltir og ringlaðir, ég lýg því, en maður samsamar sig, samsamast. *** Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins (ég er alltaf að rugla með þennan titil – kalla hana alltaf ráðgátuna um leynihúsið eða eitthvað álíka) er fyrsta bók Snæbjarnar Arngrímssonar, sem áður er þekktur fyrir bloggið Kaktusinn og forlögin Bjart og Ferdinand. Þetta er barnabók og ég las hana með börnunum – ég valdi í þetta sinn (við skiptumst á). Hún hlaut íslensku barnabókaverðlaunin. Bókin er ljómandi skemmtilegt ævintýri – kaflarnir eru oft mjög stuttir, sérstaklega í fyrri hluta bókarinnar, og það skapar svolítið brokkgengan upplestur en virkar ábyggilega betur ef lesið er í hljóði. Í seinni hluta bókarinnar er spennan keyrð í botn og þá er mjög gaman (þetta er eiginlega meira lævís hasarbók en beinlínis ráðgátubók). Einstaka tiktúrur – einsog að segja ekki frá því hvort börnin hefðu nýtt sér vitneskju um lottótölur – voru til trafala og sennilega meira til að uppfylla stríðnisþörf höfundar en skemmta lesendum. Sennilega er Rannsóknin frekar fyrir yngri börn en eldri – Aino, sem er sex ára, beinlínis skríkti af spennu og kátínu þegar allt var í gangi, en Aram, tíu ára, var umtalsvert rólegri (enda kominn langleiðina í gegnum Harry Potter og les alls kyns fantasíur á sænsku í löngum bunum, þar sem ógnin er bæði langdregnari og ofsafengnari). En lifði sig samt inn í allt. *** Korter í Tertíer tvö er myndlistarsýning eftir Unu Gunnarsdóttur og sýnd í Sundhöll Ísafjarðar. Þetta eru málverk sem hanga á veggjum – eitt yfir heita pottinum, annað yfir kalda pottinum og svo framvegis – og svo eru blómapottar. Kannski var ég að missa af einhverju fleiru (ég var aðallega þarna í sundi með börnunum – hef ekki farið í sund í ár og daga, sýningin hefur hangið þarna síðan við komum heim frá Hondúras). Sýningin á að vera einhvers konar hugleiðing um hlýnun jarðar og framtíðina. „Í þessum framtíðarmálverkum er árið x og flamingóinn, sem barst til landsins, er eitt af fyrstu merkjum þess að nú sé enn eitt hitaskeiðið að byrja og skrautleg fiðrildi berast yfir hafið og hafast við í kirkjugörðunum, fíflarnir verða að sólblómum, gósentíð, pálmatré og vínviður. Síðan eitt sumarið hverfur allur snjór af Snæfjallaströndinni. Æðibunugangur mannskepnunnar hefur fært plánetuna nær sólu og á snjóflóðagörðum er nú hægt að rækta hrísgrjón.“ – segir í sýningarskrá (sem hangir á veggnum). Stemningin er samt ekki apókalyptísk – það er ekki endilega mikið mannlíf en jörðin blómstrar einhvern veginn, þetta er litríkt og gleðilegt og undirfurðulegt. Og mjög gaman að hafa myndlistarsýningu í Sundhöllinni – hún harmóníserar vel við byggingu Guðjóns Samúelssonar. *** Við horfðum á Wall-E. Kvikmyndaklúbbur unga fólksins, sem sagt. Ég hélt ég hefði séð hana en svo reyndist ég nú a.m.k. ekki hafa séð hana alla. Segja má að hún rími sæmilega við Korter í Tertíer, nema með kaldranalegri formerkjum. Mannkyn hefur skilið jörðina eftir sem gróðurlausa eyðimörk og allir búa í stórri geimstöð, svífa um spikfeitir í flugstólum með tölvur í andlitinu öllum stundum. Ég veit ekki með flugstólana en ég stari umtalsvert meira í tölvu sjálfur en árið 2008 – og var þó orðið ansi mikið þá. Á jörðinni býr ruslavélmennið Wall-E og dag einn finnur hann litla plöntu – þá síðustu á jörðinni, en það veit hann ekki, hann bara safnar áhugaverðum hlutum. Svo kemur leitarvélmennið Eva, mun fullkomnari og meira nýmóðins, til að finna plöntuna. Með þeim takast ástir, svo finnur Eva plöntuna hjá Wall-E, alls kyns prótókollar taka völdin í stýrikerfinu og hún flytur plöntuna upp í geimsstöð þar sem mannfólkið telur að nú eigi að hefja endurlandnám á jörðinni – eftir 700 ára útlegð – enda sé hún nú aftur fær um að fóstra líf. Það er hérna sem plottið fer út og suður. Skipstölvan gerir af óútskýrðum ástæðum allt sem í sínu valdi stendur til að stöðva þessa prótókolla og koma plöntunni fyrir kattarnef. Sem meikar ekkert sens. Það var hún sem sendi leitarvélmenni, einsog Evu, um víða veröld til að finna plöntuna – það hefði verið hægur leikur fyrir tölvuna að hætta bara leitinni – og jörðin er augljóslega ekki í neinu ásigkomulagi til að taka við af skipstölvunni (og eflaust hefði enginn áhuga á því heldur). Sömuleiðis ætti litlu að skipta hvort þessi eina tiltekna planta kemst af, ef jörðin er í raun að fóstra líf að nýju þá ættu aðrar að finnast (ekki hefur þessi eina lifað af 700 ár … eða hvað? líf hlýtur að hafa kviknað að nýju .) Og tók enginn með sér svo mikið sem einn burkna út á geimstöðina? Hvaða rugl er þetta eiginlega. Ástarsaga vélmennanna er langáhugaverðasti hluti sögunnar – en auðvitað furðu heterónormatíf, sérstaklega í ljósi þess að hvorugt vélmennið er í raun af neinu kyni (eða, það er allavega heimspekileg spurning). Svo sló mig reyndar líka að gamla ruslavélmennið og nýmóðins leitarvélmennið – hinn úreldi og æskan, Fríða og dýrið, ellibelgurinn og career-konan, ruslakarlinn og gellan – væri svona álíka líklegt og ef Lalli Johns myndi byrja með Örnu Ýr. Það væri sannarlega ástarsaga til næsta bæjar. Internetið hefur auðvitað farið mikinn yfir því mynstri nýlega að kærustur Leonardo DiCaprios nái aldrei 26 ára aldri áður en hann hættir með þeim. Og fagnað því að Keanu Reeves sé með konu á „eigin aldri“ (hún er samt tíu árum yngri en hann – en líka ellilegri en hann, sem er einsog Leo hollywoodstjarna í eins konar formalíni, eilífðarglans þótt aldurinn sjáist eitthvað). En Wall-E er ekki Leo – ekki ríkur, ekki frægur, hann er bara noboddí, skrapatól, einbúi og ruslakarl. Algert krúttrassgat – en kærusturnar hans Leos eru ekki bara að leita að einhverjum eldri manni sem er krútt. Það er mjög ákveðin tegund af eldri karli sem höstlar ungar konur – valdamikill, settlaður, í góðu formi – og Wall-E er alger andstaða alls þess. Áhugaverð mynd. Ég veit samt ekki hvað mér finnst um hana. *** Við hjónin skutumst líka úr húsi til að sjá Doctor Sleep í Ísafjarðarbíói. Við höfðum hvorugt lesið bókina en bæði lesið Shining og séð myndina – ég held meira að segja að ég hafi séð a.m.k. hluta af Shining myndinni sem Stephen King stóð fyrir sjálfur og ef ég man rétt var hún alls ekki góð og sennilega ekki heldur mjög eftirminnileg. Einhver sagði á Twitter að Doctor Sleep væri æfing í því hvernig maður tæki eitt íkonískasta kvikmyndasett sögunnar og léti það líta út einsog ódýra sjónvarpsmynd. Það má til sanns vegar færa. Allra verstu hlutar Doctor Sleep eru þegar sést í Shining Stanley Kubricks – það er bara vont. Að því sögðu er þetta fín hryllingsmynd – flott laugardagskvöld í bíó, góð með poppi og kúlúsúkk (konan mín var að uppgötva kúlúsúkk og skilur ekki að ég – sem borða aldrei nammi – hafi leynt hana þessu allt okkar hjónaband, hún ætlar að taka með sér marga poka til Svíþjóðar næst þegar við förum, en finnst annars íslenskt nammi vera frekar lítið impónerandi). Doctor Sleep er sem sagt ekki góð í samanburði við Shining en hún er bara alltílagi í samanburði við til dæmis Us. *** I stand alone by the devils and other poems on films eftir hinn mikilvirka SJ Fowler er ljóðabók með ljóðum (ha?) sem eru innblásin af hinum og þessum kvikmyndaverkum. Einsog hughrif. Ljóðin heita eftir kvikmyndunum og við enda þeirra er tiltekinn frumsýningardagur og leikstjóri. Þarna er t.d. eitt um Stalker – „A trickle from the Stalker’s ears brings attention to the plug / that blocks out the sounds you’re making / until you’re living the first day of your life offline / in the zone.“ Þetta er að mörgu leyti torf en auðvitað ekki þess lags torf sem maður á að skilja eða „greina“ – það er leiðindatendens að skipta ljóðum út fyrir „merkingu sína“, og misskilningur á virkni þeirra. Kannski kominn til af því að margir heimspekingar fóru á tímabili að skrifa einsog einhver langpo-skáld – texta sem átti ekki að skiljast (eða a.m.k. ekki „bara að skiljast“). Og þá eru ljóðin ekki lengur torf en þau krefjast samt athyglisgáfu manns á annan hátt en prósi – eða einu sinni megnið af (meinstrím) ljóðum, sem eru beinskeyttari. Sumar línurnar í bókinni vísa einhvern veginn beint í bíómyndirnar – stundum án þess að maður sé viss um að nákvæmlega þetta hafi verið í myndunum (ég er auðvitað minnislaus, þess vegna held ég svona langar dagbækur, heilinn geymir þetta ekki) – „Eight girls / without / underwear / barking like Labradors“ (Salo)  og „A film about skinning and eating and new love“ ( Silence of the lambs) – en aðrar er erfitt að tengja við myndirnar. Ljóðin við myndirnar sem maður hefur séð eru samt alltaf best – þau eru flest mjög góð, ég fíla Steven, sem ég hef lesið í meira en áratug og gefur út ábyggilega tvær bækur á ári, alltaf betur og betur, en þau njóta sín best í „náttúrulegu samhengi sínu“ með minninguna um bíómyndina í bakgrunni. *** Ný plata Grísalappalísu, Týnda rásin, er sennilega bara besta platan þeirra. Og hljómsveitin bara hætt! Mig langar að segja að á henni „kenni margra grasa“ – af því það er eiginlega ómögulegt að segja nákvæmlega hvers vegna hún hangir saman, poppslagarar einsog Þrjúhundruðsextíuogfimmdagablús (sjáðu hjónin) og fuzzpönk einsog Meðaljón eða ljóða- og píanógjörningar einsog Taugaáfall í bónus. Í sjálfu sér reyna hljómsveitir oft fullmikið að hafa samræmi í lagasmíðum og útsetningum – það er erfiðara en það virðist að hætta að hljóma „einsog maður sjálfur“ og „listræn sýn“ líkist alltaf sjálfri sér. Köntrílag með Elton John verður alltaf meiri Elton John en það verður köntrí – af því köntrí er bara form, Elton er hjarta og sál. Og það er hellingur af hjarta og sál í Grísalappalísu, hellingur af ofsa og gleði – hellingur af gáfnafari, getur maður sagt það? Þetta er allavega gáfumannamúsík held ég – svona sem genre , maður getur ábyggilega líka fílað þetta þótt maður sé mjög heimskur, maður þarf ekkert að hugsa á meðan. En hugtakið – gáfumannamúsík – er náttúrulega bara afsprengi þess að stór hluti tónlistar virðist stefna í hina áttina, stefna að einfaldleika, einsatkvæðarími, einföldum textum, einföldum útsetningum o.s.frv. Það er ekki slæmt – ég er nú einu sinni AC/DC haus og einfaldleikinn á stóran stað í hjarta mér – en það er annað en þetta. Og flóknar útsetningar eru ekki endilega betri en einfaldar – það er ekki meiri músík í þeim og ekki endilega meiri gáfur (þótt t.d. gáfurnar sem þurfi til þess að spila mjög flókinn disharmónískan djass séu miklar – þá eru það stærðfræðigáfur – í samhengi Grísalappalísu er ég meira að hugsa um ljóðagáfur, liggur beint við að tala um Megasargáfur, enda er hann hér stór „áhrifavaldur“ (ónýtt orð!). Reyndar held ég að eitt af því sem haldi plötunni saman í einni heild sé líka textaheimurinn – sem ég hef ekki greint af viti (enda á maður aldrei plötur lengur með textablöðum, bara eitthvað Spotifydæmi og gleymir svo eftir tvær vikur að þessi plata sé til og man það svo aftur eftir tvö ár, rennir henni einu sinni í gegn og hugsar: þetta er svo mikil snilld, hendir í status á facebook um að maður hafi verið að enduruppgötva eitthvað sem maður gleymir svo aftur – plötur þurfa að verða fýsískir hlutir að nýju). En mér sýnist textaheimurinn vera svolítið af Spilverksskólanum – einhver svona ljóðræn samþætting á smáborgaralífinu og bóhemlífinu. *** Leifur Ýmir Eyjólfsson er með sýninguna e-ð fjall í Gallerí Úthverfu. Þetta eru þrjú stór verk sem standa hvert á sínum vegg – auðir panelar sem á stendur „e-ð fjall“ „e-ð annað fjall“ („annað“ er innskotið á milli e-ð og fjall) og „e-ð enn annað fjall“. Þau fyrstu tvö standa gegn hvert öðru og eru bæði á hvítum bakgrunni, svartur handskrifaður texti, en það þriðja fyrir botni herbergisins er einsog rist í brúnleitt tré. Ég hef oft haft á orði – líka í listrýni á Starafugli – að það sé mjög algengt að listamenn sem koma hingað og vinna verk inn í rými, kannski sérstaklega þetta rými, Úthverfu – gamla Slúnkaríki – bregðist einhvern veginn við fjöllunum. Ég man eftir nokkrum myndlistarmönnum, bara síðasta árið eða svo, sem hafa málað fjöll á veggina. Það er skrítið fyrir heimamann. Þessi fjöll hafa tekið mikið rými í hugsunum mínum síðasta árið – ég er að yrkja um þau, skrifa skáldsögu um þau og reglulega pistla á Úr Vör um þau. Lengst af hef ég lifað í mótþróa gagnvart þeim – þau séu ekki spes, ekki dásamleg, ekki orkustöðvar, ekki allar klisjurnar (sem koma flestar að utan – kannski frá myndlistarmönnum sem teikna fjöll á veggi „á landsbyggðinni“). Sennilega er augljóst að þau séu það fyrsta sem orkar á mann þegar maður kemur og það sem orkar á mann sterkast, en þetta er líka svolítið einsog að fara til Finnlands og gera listaverk um hvað allir séu þunglyndar fyllibyttur. Að því sögðu er verk Leifs Ýmis auðvitað tilraun til þess að streitast á móti þessu fjallamálverki. Hann hefur ekki málað nein fjöll á þessa veggi – en vakið þau upp engu að síður. Magritte málaði pípu og sagði að hún væri ekki pípa og Leifur málar engin fjöll en segir að þau séu fjöll. Salurinn, með sinn stóra glugga út að götunni, er auðvitað í laginu einsog fjörður – þótt Ísafjörður sé með fjögur fjöll umhverfis sig (tvö í botni fjarðarins) og Snæfjallaströndin blasi líka við handan djúpsins (sem væri þá málarablokkin, ef Úthverfa er Skutulsfjörður). Og maður raðar þeim ósjálfrátt upp – e-ð enn annað fjall er Kubbinn (frekar en Hnífar), e-ð fjall er Ernir og e-ð annað fjall er Eyrarfjall. Inni á gólfi standa svo Ísfirðingar og sötra vín. Ég sveiflast á milli þess að finnast þetta alltof ódýrt og mjög snjallt. Kannski eru það ekki einu sinni mótsagnir. Svona einföld textaverk eru auðvitað ekki ný af nálinni – en staðsetningin, sagan, vinnur með merkingunni. *** Gítarleikari vikunnar er poppdjassundrið Melanie Faye.

createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.149Z““

Allt líður svo hratt já. Meira að segja það sem lendir í deiglunni – nær athygli í þessu athyglissjúka samfélagi – líður hjá á örskotsstundu. Og skiptir eiginlega engu hvort um ræðir verk sem var mörg ár í smíðum eða status sem er hent fram í bríaríi. Allt er frægt í korter og svo ne’ermore. Fyrir nokkrum dögum voru allir að tala um nýja uppistandið hans Dave Chappelle – Sticks & Stones. Og sitt sýndist nú hverjum! Dave Chappelle er grínisti af Richard Pryor skólanum – stundar kaþarsis í krafti miskunnarleysis og potar bara í viðkvæmu blettina, vitlausu beinin. Hann er mjög fyndinn, svona oftast nær, en líka oft hreinlega óþægilegur. Kenningar sem ganga út frá því að húmor hafi alltaf með vald að gera – sem eru ekki alveg út á túni – eiga það til að smætta það þannig niður að við hlæjum bara að óförum þeirra sem okkur er illa við. Nasistar hlæja að óförum gyðinga og gyðingar hlæja að óförum nasista. En þetta er ekki alveg satt. Gyðingar í helförinni hlógu að eigin aðstæðum – gerðu skrítlur – og nasistar gerðu skrítlur um sínar aðstæður (margir þeirra voru auðvitað fremur valdlitlir um eigin aðstæður, herkvaddir unglingar á stríðstímum). Fólk sem tekst á – nú læt ég nasistana og gyðingana til hliðar, er meira að hugsa um kannski saklausari átök barna og fullorðinna, eða bara fólks sem er ósammála, íhaldsmanna og frjálslyndra – léttir líka á spennunni milli sín með því að gera gys hvert að öðru og að sjálfu sér. Slíkt ástand léttúðar gengur ekki upp ef það grínið fer ekki í báðar áttir – þá afhleður það ekki spennuna heldur skapar undantekningarástand, svipað því þegar trúðurinn fær að gera grín að kónginum sem hneigir sig bara og kímir, því hann veit að hann getur afhausað trúðinn hvenær sem honum sýnist. Grín af þessari tegund getur alveg verið nastí – getur verið yfirgangur (og ég held það verði allir sekir um það af og til að hreyta út úr sér einhverri fyndni í andrúmslofti sem fylgir alls engin léttúð heldur bara beiskja) en tilgangur þess er afhleðslan. Í samfélaginu einsog það lítur út í dag – vestrænu samfélagi, þar sem eiginlegri ritskoðun er mætt af hörku og alls kyns lög og sáttmálar verja málfrelsið – er kóngurinn bara við. Trúðurinn fer upp á svið til að gera grín að okkur – samfélaginu, strúktúrnum, jöðrunum og fyrst og fremst þeim breytingum sem eiga sér stað á samfélagsgerðinni „um þessar mundir“. Tvær mögulegar afhausanir eru í boði. Annars vegar getum við hætt að hafa gaman af grínistanum, misst þolinmæðina og einfaldlega beint athyglinni annað. Hins vegar getum við „afboðað“ grínistann – vafið þræði fordæmingar inn í samfélagsmiðlavefnaðinn þar til manneskjan verður persona non grata, glatar trúverðugleika sínum og trausti. Dæmið sem Chappelle tekur í uppistandi sínu er Kevin Hart – sem átti að fara að vera kynnir á Óskarsverðlaununum þegar einhver gróf upp gömul tíst af Twitter þar sem hann gerði mjög gróteskt grín um viðbrögð sín við því ef börnin hans reyndust samkynhneigð. Dæmin eru mýmörg – flest þeirra hafa reyndar ekki með orð að gera heldur meintar gjörðir. En grínistar einsog Chappelle sjálfur, Ricky Gervais og fleiri hafa mátt þola að nærveru þeirra fylgi alltaf þetta aukabragð hinna mórölsku tíma: Má ég hlæja að þessu? Eitt af því sem mér finnst óþægilegt og áhugavert og skemmtilegt og glatað og frábært við grín er að stundum hlær maður að hlutum sem manni finnst eiginlega ekki fyndnir. Eða, þið vitið, maður hlær að einhverju sem manni finnst ógeðslegt. Maður hlær jafnvel að gríni sem er gert á manns eigin kostnað og snýst um eitthvað sem maður er mjög viðkvæmur fyrir. Ég hef hlegið að brandara um snjóflóðin í Súðavík – 10 sekúndum áður en ég húðskammaði viðkomandi fyrir að segja hann og svo barðist það í mér árum saman hvort ég hefði átt að skamma hann. Nú man ég ekki einu sinni lengur brandarann eða hver sagði hann en ég man bara viðbrögðin mín – man hláturinn, sem var óþægilegur en samt þægilegur (því hlátur er alltaf líka góður, þess vegna er hann svona hræðilegur í hræðilegum aðstæðum, út af kontrastinum og út af kaþarsisinu – sem manni finnst maður ekki alltaf eiga skilið eða mega njóta þegar maður á að þjást). Chappelle er svolítið fastur í því að kommenta á þetta. Ég held að grínistar vinni margir út frá árátturöskun og ef maður er grínisti í samfélagi dagsins í dag – sérstaklega grínisti sem náði fótfestu á tíunda áratugnum eða jafnvel bara þeim fyrsta – þá hljóti þetta að vera manni ofarlega í huga alltaf þegar maður stingur niður penna til að skrifa eitthvað. Má ég þetta? Hvað gerist ef ég segi þetta? Sumir geta bara farið að hugsa um eitthvað annað en margir hljóta að vilja takast á við þetta á beinskeyttari hátt. Mér finnst Chappelle takast það vel – betur en bæði Aziz Ansari, sem felur sig á bakvið auðmýktina, eða Ricky Gervais sem röflar einfaldlega of mikið. *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á klassíkerinn Who Framed Roger Rabbit frá árinu 1988. Við Nadja vorum jafngömul og Aram þegar þessi mynd kom út – 10 ára. Maður sér vel á henni hvað margt hefur breyst – nú mætti alveg segja að hún taki afstöðu gegn dónaköllum og þeirri hugmynd að konur eigi að meta útfrá útliti sínu („I’m not bad“, segir Jessica Rabbit „I’m just drawn that way“.) en hún málar þá mynd af samfélaginu einsog það er/var. Baby Herman kemst einfaldlega upp með að slá konur á bossann og vera skíthæll. Hann er hinn erkitýpíski Harvey Weinstein og mótmælin sem myndu spretta upp í dag myndu sennilega snúa að normalíseringareffektinum – hvort við sjóumst þá bara og finnist þetta alltílagi.  Annars held ég almennt að börn hafi gott af því að kíkja inn í horfna heima og gamlan móral, gamlar breytingar, gamla stemningu. Það er einfaldlega þroskandi. Myndin er hins vegar alveg jafn skemmtileg þrátt fyrir allar aðfinnslur. Ég hef ekki haft jafn gaman af teiknimyndaslappstikk í áraraðir – píanódúett Daffy Duck og Donald Duck mun gleðja mig um ókomna tíð. Söguþráðurinn er spennandi, persónur ýktar og skemmtilegar og furðulegt að ekki hafi verið gerðar fleiri sögur í þessum heimi – þar sem klassískar teiknimyndasöguhetjur og fólk af holdi og blóði býr hlið við hlið. *** Djasssveitin Gaukshreiðrið lék fyrir gesti í Edinborgarhúsinu síðasta fimmtudag. Hljómsveitina skipa þau Sölvi Kolbeinsson á saxófón, Mikael Máni Ásmundsson á gítar,  Anna Gréta Sigurðardóttir á píanó, Birgir Steinn Theódórsson á kontrabassa og Magnús Trygvason Elíassen á trommur. Þau léku mestmegnis frumsömin lög – sennilega tvö eftir Önnu, þrjú eftir Mikael Mána og eitt eftir Sölva. Nema það hafi verið tvö eftir Sölva og eitt eftir Önnu. Í lokin tóku þau svo afskaplega fína útsetningu af Hættu að gráta Hringaná – mig minnir að útsetjarinn hafi heitið Andrés. Tónlist Önnu og Mikaels fannst mér heyra saman. Djass leitar oft í hljómskrattana en Anna og Mikael fannst mér harmónískari í lagasmíðum sínum – sumir myndu segja poppaðri en það er hvorki nákvæmt né nógu jákvætt, því þau gera þetta mjög vel. Tónsmíð Sölva var meira bípopp – skapandi flækjur í kringum stef – og helgast sennilega ekki síst af því að hann er saxófónleikari sem eltir staka tóna á meðan Anna og Mikael leika á hljóðfæri sem alla jafna senda frá sér fleiri tóna í einu. Eitt og annað þarna minnti mig á eitthvað sem er alls ekki úr djassheiminum – múm kom oft upp í hugann. Bandið er allt brjálæðislega vel spilandi og æðislega skemmtileg. Ég horfði auðvitað sérstaklega á gítarinn. Ef mér skjátlast ekki lék Mikael Máni á Gibson L-4 CES í gegnum Fender Blues Junior IV. Engir pedalar og snúran var svo stutt að hann gat varla hreyft sig neitt. Þetta er mjög klassískt djass-settöpp, held ég. Ég gæti best trúað að strengirnir í gítarnum hafi verið óvenju þykkir – enda var hann ekkert að teygja þá og notaði víbrató mjög sparlega. Þessi magnari er mjög hreinn og einfaldur og gítarinn – sem kostar einsog fimm venjulegir gítarar og fjörutíu pedalar – naut sín virkilega vel. Það er líka áhugavert finnst mér að hugsa til þess hversu margir gítarleikarar finna bara sándið sitt og fara aldrei úr því. Ég, sem er auðvitað ekki beinlínis gítarleikari nema til gamans, er sífellt að breyta til – ég er með tíu pedala á gólfinu sem ég fikta í af og til en fyrst og fremst kveiki ég eða slekk á þeim, skipti milli pikköppa, sný tone-hnappinum, hækka og lækka, spila með fingrum eða nögl. Svo á ég þrjá rafmagnsgítara sem ég spila á til skiptis og þeir hafa allir sérstakan karakter. Þegar ég spila á kassagítarinn nota ég gjarna slide og skipti reglulega á milli (ég á sennilega tíu af ólíkum gerðum, þykktum, lengd og af ólíku efni) – spila í fjórum ólíkum stillingum til skiptis og svo framvegis. Mikael Máni snerti ekki neitt á meðan tónleikunum stóð, ekki það ég gat séð eða heyrt – hélt sig bara á hálspikköppnum í hreina klassíska djasssándinu. Reyndar minnir mig að hann hafi svolítið krosspikkað með nögl og fingrum en það var sennilega allt. Það var líka áhugavert að velta fyrir sér muninum á því að vera gítarleikari og píanóleikari í svona sveit. Hlutverk þeirra eru að mörgu leyti svipuð – þau liggja milli rytmasveitar og sólóista – og ómögulegt að segja út frá tónlistinni hvor er hressari. Hins vegar dúaði Anna Gréta á stólnum, stóð jafnvel aðeins á fætur, dillaði sér og skók, á meðan Mikael Máni var kyrr, einbeittur og fagmannlegur (með því geri ég ekki lítið úr ástríðunni í tónlistinni, sem var mikil hjá báðum). Og þetta væri í sjálfu sér ekkert spes nema ég held þetta sé alltaf svona í djassi. Píanóleikarar dúa á stólnum og gítarleikarar standa grafkyrrir. *** Ég las bókina Delta Blues eftir Ted Gioa. Tveir af kannski fimm helstu sérfræðingum heimsins í sögu deltablússins eru nátengdir ljóðlistarheiminum. Ted þessi er bróðir ljóðskáldsins Dana Gioa – en svo er líka Samuel Charters sem er giftur konu að nafni Ann Charters sem er helsti sérfræðingur heimsins í Jack Kerouac og bítskáldunum og eftir hana á ég margar bækur frá því ég sökkti mér í þann heim fyrir langalöngu. Deltablúsinn verður til, einsog við þekkjum hann, með upptökutækninni. Í raun er engin leið að segja neitt um hvenær hann verður til annars og það er einkenni allra upprunasagna blússins að þær byggja á getgátum sem byggja á frásögnum í texta. Það eru til lýsingar af tónlistarmönnum sem hljóma einsog deltablúsarar frá því fyrir aldamótin 1900 en það er í raun ekki fyrren rétt eftir þau að tilvist hans er staðfest – þegar hann er fyrst tekinn upp. Ted Gioia segir svo sögu hans fram til þess að hann ferðast til Chicago og verður smám saman Chicago blús – og raunar aðeins lengra því það sem gerist með deltablúsinn er að hann hverfur og gleymist. Sérstaklega lentu þeir sem gáfu út blúsplötur upp úr kreppunni illa í því. Plötusala skreppur saman um 94% – nokkuð meira en hlutabréfamarkaðurinn féll – og plötusala í kynþáttageiranum („race records“ – plötur svartra tónlistarmanna) féll enn meira. Blústónlistarmenn sem gátu búist við að selja 20 þúsund plötur árið 1928 gáfu kannski út 200 árið 1930 og seldu helminginn. Margir féllu þá í gleymskunnar dá – þar á meðal Robert Johnson, Son House, Skip James og fleiri. Fyrir átak blúsnörda upp úr 1960 og svo frægra gítarnörda, mestmegnis enskra – Clapton, Keith Richards o.sfrv. – komast þeir svo í sviðsljósið, sumir í annað sinn en aðrir í allra fyrsta sinn, sumir í eigin persónu en aðrir bara á upptöku – einsog Robert Johnson. Lokakaflinn í bókinni er því nánast einsog upprifjun á fyrsta kaflanum – það eru sömu menn sem hefja leikinn og sem ljúka honum. Deltablúsinn endar aftur í rótunum. Auðvitað lauk blússögunni ekki þar. Chicagoblúsinn tekur við og Detroit blús og Texas blús og svo rokkið – Clapton og Hendrix og svo Stevie Ray og Robert Cray og svo Joe Bonamassa og Eric Gales og alls konar og alls konar. Þetta er mögnuð saga og frábær bók. Kannski er það bara vegna þess að tónlistarsagnfræðingar eru svo oft lélegir – eða tónlistarsagan flókin og fólk gjarnt á að einfalda – en bókin er frábærlega byggð og stútfull af upplýsingum án þess að verða nokkurn tíma leiðinleg. Það er alls konar sem situr í manni. Lýsingar á því hvernig kona John Lee Hookers misþyrmdi honum – skar hann meðal annars í fingurinn svo hann gat ekki spilað með honum, kallaði gítarinn hans alltaf „the starving box“ af því henni fannst hann aldrei þéna nóg. Samt var hann sennilega fyrsti blúsarinn til að þéna eitthvað af viti. Í mörgu kristallast líka samband hvítra og svartra í Bandaríkjunum – til góðs og ills. Hvítir plötuútgefendur hýrudraga svarta blúsara alveg miskunnarlaust – jafnvel þeir sem hampa þeim mest – en svo eru aðrir, svo sem áðurnefnd blúsnörd í endurreisninni, sem eru í hálfgerðri yfirbótastarfsemi stundum. Faðir deltablússins – Charley Patton – er líka að hluta bæði hvítur og innfæddur ameríkani, það hafði ég ekki hugmynd um. Verandi svartur er hann auðvitað samt alveg svartur – það er/var reglan, og sama gildir um tónlistina (það er snertur af írskri þjóðlagatónlist í deltablúsnum – en hann er samt svartur). Það var líka gaman að Ted Gioia skildi ekki gera lítið úr trúnni – bæði guðstrúnni og mýtólógíunni. Margir blúsarar létu af öllum gítarleik vegna þess að hann væri af hinu illa, aðrir spiluðu hann gegn betri vitund, einsog Son House. Robert Johnson er auðvitað sagður hafa selt sálu sína og maður er orðinn vanur því að lesa langar lýsingar á að það hafi hann nú auðvitað ekki gert, heldur hafi sennilega verið eitrað fyrir honum, og Gioia fer í gegnum það allt saman án þess að gera lítið úr því að þetta með kölska var líka raunveruleiki – það er mikill spiritúalismi í þessari músík og þegar menn töluðu um kölska voru þeir ekki að meina það í neinni yfirfærðri merkingu. Loks er gaman að sjá hvernig sumir blúsararnir voru listrænt óstýrilátir – John Lee Hooker, sem einn þeirra allra síðustu – leikur aldrei sama lagið tvisvar og það tók hann áratugi bókstaflega að læra að spila með öðrum (og þegar hann er byrjaður gat hann ekki hætt því – varð alger samstarfskóngur). Hann fann sér bara grúv, settist í það og söng svo eitthvað sem passaði. En aðrir léku mjög meðvitað og æft, einsog Robert Johnson, og ollu næstum seinnitíma aðdáendum sínum vonbrigðum með að vera ekki náttúrulegri impróvíserarar. *** Þetta er að verða ofsalega löng færsla. Snæbjörn á Kaktusnum verður ábyggilega alveg brjálaður. Nema hann sé löngu sofnaður. Ég held hann sé eini maðurinn sem einu sinni reynir að lesa þetta, og svo kvartar hann bara einsog það sé mér að kenna. Allavega. Það er kominn hádegismatur hjá mér og ég hef fá orð um restina. Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á hryllingsmyndina Wicker Man eftir Robin Hardy. Hún var frábær – besta hryllingsmynd sem ég hef séð. Ótrúlega spes stemning. Samtímis ótrúlega realísk og einsog einhver teiknimynd. Rosalega gröð mynd líka. Kölski býr í kynlífinu, sérstaklega greddu og tálmætti kvenna. Fyrst og fremst er hún svakalega visúal – falleg er ekki rétta orðið, en visúalt áhugaverð, augað er dregið hingað og þangað og alltaf eitthvað að kalla á mann. *** Við lásum Rummung ræningja eftir Otfried Preußler. Hún var mjög skemmtileg – ævintýrasaga tveggja vina sem takast á við óprúttinn ræningja og ægilegan galdrakarl. Það sló mig að hún væri bæði vel þýdd og illa. Orðaforðinn og orðfærið er mestmegnis mjög gott en það er svolítill fljótfærnisbragur á þessu. Ég var auðvitað ekki með orginalinn til að bera saman og þýskan mín er nú ekkert frábær – en svona smásvör einsog „jæjajá“ og þannig voru ekki alltaf í samræmi við mína máltilfinningu. Svo er svona smotterí einsog þegar amma spyr „Vitið þið hvað mér finnst?“ og Kasper og Jobbi svara „Hvernig þá?“ – frekar en „hvað?“. Ég ímynda mér að þannig samskipti hafi verið stílhreinni á þýskunni. Þá er líka svolítið um að frágangi sé ábótavant – gæsalappir opnast ekki eða lokast ekki og þvíumlíkt. Þetta er þeim mun leiðinlegra sem bókin er annars falleg og þýðingin – sem Aðalsteinn Ásberg gerði – góð. Auðvitað ber þetta fyrst og fremst stressinu í bókabransanum merki. *** Loks er ég búinn að lesa 100 ljóð Geirlaugs Magnússonar. Hún er frábær – Geirlaugur var mjög skemmtilegt skáld og löngu kominn tími til að gefa hann svona út. Sosum ekkert um það að segja annað – þetta er safnrit og ljóðin héðan og þaðan á ferlinum og ég engan veginn nógu vel lesinn í honum til að gagnrýna úrvalið mikið. Bókin er passlega löng og ljóðin í henni eru af ólíkum meiði – mörg fín, sum frábær. Ég myndi einfaldlega vitna í eitt ljóðanna en bókin er uppi á skrifstofu og ég heima í borðstofu. *** Gítarleikari vikunnar er John Lee Hooker.

{„“type““:““PARAGRAPH““

Eitt af því sem hefur breyst frá því við hættum að eiga samskipti í eigin persónu að hugtakið „mitt hægri“ og „þitt hægri“ hættu að skipta máli, og kannski líka að meika sens. Svona er þetta líka í leikhúsinu – það kenndi mér Þórhildur – sviðshægri og sviðsvinstri. Skjáhægri og skjávinstri. Ég nefni þetta vegna þess að ég var að bæta nafni á blogglistann hérna hægramegin – þar bloggar Þorsteinn Vilhjálmsson. Annars smelli ég oft á þessa hlekki sjálfur og þar er furðu lítið bloggað. Ástríðan endar öll í gapinu á Zuckerberg. En þetta eru fínir bloggarar þegar þeir taka sig til. Ég hef líka verið of mikið á FB sjálfur upp á síðkastið. Kosningarnar kölluðu mig út á torg að hlusta á mannamálið. Nú er mál að hvíla sig. *** Sú spurning leitaði oft á mig dagana í kringum kjördag hvort Halla Tómasdóttir væri menningarlaus. Það sem kallaði á þessa hugsun var ákveðið yfirbragð – silkiklútakonan er í mínum fordómaheimi einskonar öfugmæli við menningarkonuna, kulturtanten , konuna sem les allt, sér allt, heyrir allt, drekkur það í sig, kona dýptarinnar. En auðvitað eru það fordómar og ég gengst við því þótt ég orði þá upphátt. Og þegar maður er haldinn fordómum þarf maður að kynna sér málin. Kosningarnar snerust svo mikið um Katrínu að mér finnst nánast einsog ég viti ekkert um Höllu T – nema að hún hafi verið hjá Auði Capital og Viðskiptaráði. Jú og Pepsi og M&M. Í kosningabaráttunni nefndi Halla aðspurð um sína eftirlætis bók sjálfshjálparritið Lífsreglurnar fjórar – viskubók Tolteka eftir Don Miguel Ruiz. Sem er ekki til að minnka fordómana – ég á það til að hvítna í framan þegar fólk byrjar að tala um sjálfshjálparbækur. Ef illa liggur á mér hvítna ég á hnúunum líka. Ég ætlaði að fara að kynna mér þessa bók en komst þá að því að þótt hún hefði komið út á 52 tungumálum og selst í skrilljónum eintaka hefur hún varla verið ritdæmd af neinum fjölmiðli með sjálfsvirðingu. Hún var á metsölulista New York Times í áratug án þess að blaðið sæi neina ástæðu til þess að taka hana til skoðunar. Ef satt skal segja, segir það ekki minna um fjölmiðlana en bókina. En það læknar mig ekki heldur af neinum fordómum. Í grunninn sýnist mér þetta vera útfærslur á fjórum heilræðum 1) Farðu óaðfinnanlega með mál þitt 2) Ekki taka hlutunum persónulega 3) Ekki draga ályktanir (!) 4) Gerðu alltaf þitt besta. Bókin fær mjög háa meðaleinkunn á Goodreads og Amazon og margar stórstjörnur í Hollywood og víðar hafa lesið hana og mæla með henni, sumar segja hana hreinlega hafa bjargað lífi sínu. Þeir sem gagnrýna hana segja gjarnan að hún sé einfeldningsleg, og nefna dæmi einsog þegar höfundur virðist segja að fólk geti nánast kennt trúgirni sinni og neikvæðni um ef það fær krabbamein. Vitnað án ábyrgðar eftir Goodreadsumfjöllun . Einsog frægt er gat Halla ekki svarað – í sjónvarpsþætti á Stöð 2 – hvert Grettir hefði synt eftir eldi, hvaða biskup hefði verið hálshöggvinn í Skálholti, hverjir hefðu keppt um ástir Helgu fögru, hvar Gunnar Hámundarson hefði átt heima, hvort Seltjarnarnes væri í Reykjavík eða hvað aðalsöguhetja Engla alheimsins hefði heitið („elska þessa bíómynd“ sagði hún þó). Hún svaraði engu rétt nema söguhetjunni í Sjálfstæðu fólki og stóð sig áberandi verst frambjóðanda – sem er kannski stress. Ég kannast vel við það sjálfur að vita ekkert í svona keppnum og er raunar frekar minnislaus – hefði vel getað gleymt að Gunnar í Hlíðarenda var Hámundarson í hita leiksins og hefði sennilega klikkað á bæði Gretti og Helgu fögru. Tek þó fram að ég mundi það sem enginn frambjóðandi mundi – aðalsöguhetja Englanna heitir Páll. En menning er ekki bara bókmenntasmekkur og -saga. Mér var sagt að Halla hefði sótt mikið af stuðningi sínum til ungs fólks og gert það í krafti tik-toks – og var þá bent á þetta myndband. Ég er ekki mjög tik-tok læs en söguþráðurinn sem blasir við mér er: Tveir verslóspaðar með sólgleraugu mæta á kjörstað á Land Rover Discovery, grýta bíllyklunum í stelpu – sem er væntanlega einhvers konar bílastæðavörður – hrinda svo annarri, gefa hver öðrum fimmu og fara og kjósa girl boss Höllu T. „Ungir kjósendur, mætum og kjósum. Framtíðin er okkar.“ Kannski er ég af missa af einhverju. Ég spurði tik-tok læsara fólk sem tjáði mér einfaldlega að kapítalismi og kvenfyrirlitning væru í tísku á tik-tok. Það hljómar … uh … lógískt? En kannski ekki mjög „presidential“ eða „kúltíverað“. Í gær tók Halla svo á móti þjóðinni af svölum heimilis síns. Í ræðu sinni gerðist hún menningarleg og vitnaði í ljóðskáldið Mary Oliver – sem gladdi mig. Línurnar sem hún vitnaði í eru niðurlagið í ljóðinu The Summer Day. „Ljóðskáldið Mary Oliver spurði í frægum ljóðlínum, segðu mér, hvað ætlar þú að gera við þitt eina villta og verðmæta líf? Ég valdi að gefa kost á mér til að þjóna okkar þjóð. Og mig langar til að spyrja okkur mikilvægrar spurningar. Hvað ætlum við að gera við okkar villta og eina verðmæta land?“ Þetta eru mjög fleyg orð og það er gjarnan einmitt vitnað til þeirra við einhver svona tilefni – einsog carpe diem, að maður verði að grípa tækifærin og takast á við stórar áskoranir, þora að láta vaða, verða forseti og svo framvegis. En sú túlkun er pínu á ská við sjálft ljóðið, vel að merkja – þetta er algeng útlegging, en eiginlega ómöguleg ef maður skoðar allt ljóðið, sem hljómar svona (í minni þýðingu): Sumardagurinn Hver skapaði heiminn? Hver skapaði svaninn og svartbjörninn? Hver skapaði engisprettuna? Þessa engisprettu, á ég við – þá sem stökk upp úr grasinu þá sem étur sykur úr lófa mér, sem færir kjálkana fram og aftur frekar en upp og niður sem mænir í kringum sig með risavöxnum og margbrotnum augum sínum. Nú lyftir hún fölum framhandleggjum sínum og þvær sér vel í framan. Nú lætur hún smella í vængjunum og svífur á brott. Ég veit ekki vel hvað bænin er. Ég kann að taka vel eftir, að falla niður í grasið, að fara á hnén í grasinu, að vera iðjulaus og náðug, að stjákla yfir engi, og það er það sem ég hef gert í allan dag. Segðu mér, hvað annað hefði ég átt að gera? Deyr ekki allt að lokum og þar að auki of snemma? Segðu mér, hvað ætlar þú að gera við þitt eina, villta og verðmæta líf. Ljóð hafa auðvitað ekki eina rétta merkingu en fyrir mér er þetta ljóð tignun iðjuleysisins – ekki ákall um mikilfengleikann. Að maður staldri við, slaki á, njóti tilvistarinnar án þess að krefja hana um stöðuga ávöxtun – án þess að gera afrekakröfu á sjálfan sig. Sem er auðvitað frábær boðskapur. Ekki síst í dag.

id““:““4kmda““

Þegar maður gúglar frægasta blúslagi allra tíma – Sweet Home Chicago – eru Blues Brothers það fyrsta sem kemur upp. Ég er nú gjarn á að halda uppi vörnum fyrir þá Dan Akroyd og John Belushi, að ekki sé minnst á þá stórkostlegu hljómsveit sem þeir rusluðu saman fyrir þessa afar skemmtilegu bíómynd, en það er samt svolítið sorglegt. Mig minnir að í myndinni tileinki þeir lagið Magic Sam sem á einmitt eina frægustu útgáfu lagsins á rafmagnsöld – af meistaraverkinu West Side Soul frá 1967. Lagið er hins vegar „eignað“ Robert Johnson og var tekið upp árið 1936. Ég segi eignað vegna þess að sennilega hefði hann aldrei fengið þetta skráð á sig í dag – því þótt það eigi enginn jafn mikið í endanlegri útgáfu lagsins og hann þá stal hann því meira og minna öllu og setti saman eftir eigin höfði.  Textinn fjallar um mann sem er að reyna að tæla með sér ástkonu sína úr bænum – lofar henni gulli og grænum skógum í paradís, ef hún bara fylgi sér til „back to the land of California“ og „from there to Des Moines, Iowa“ og loks til „my sweet home, Chicago“. Þetta er svo vægt sé til orða tekið lengri leiðin frá deltunni til Chicago einsog sjá má á þessu korti.  Fólk hefur mikið klórað sér í hausnum yfir þessum ferðaplönum Roberts. Fyrst eftir að hann fór að vekja athygli (eftir andlát sitt) reiknuðu menn bara með fávísi hans, að hann væri bara að kalla upp nöfn fjarlægra staða út í loftið – en burtséð frá því að vera ansi nákvæmt og gott skáld var Robert á stöðugum faraldsfæti og þótt hann færi aldrei alla leiðina til Kaliforníu þá ætti honum nú samt að hafa verið ljóst hversu langt úr leið hún væri. Aðrir hafa stungið upp á því að hann eigi kannski við Chicago EÐA Kaliforníu (það er hugsanlegt að maður komi við í Des Moines á leiðinni til Chicago, þótt það sé ekki alveg í leiðinni). Svo hafa sumir stungið upp á því að hann noti nöfn staðanna einfaldlega sem ljóðræn samheiti yfir staði þar sem sleppa megi undan Jim Crow rasisma suðurríkjanna – hvort sem er til norðurs eða vesturs. Bara meðan við erum ekki um kyrrt. Enn önnur kenning gengur út á að hann eigi við California Avenue í Chicago. Skemmtilegasta kenningin – sem á sér stoð í gegnumgangandi kímni í textagerð Roberts – er að hinn kasanóvíski ljóðmælandi komi upp um svikult bullið í sjálfum sér með augljósu ruglinu, hann sé augljóslega fæðingarhálfviti sem engin kona með minnstu sjálfsvirðingu myndi fylgja út í sjoppu, hvað þá lengra.  Á las á dögunum Chronicles eftir Bob Dylan og þar eyðir hann nokkru púðri í að ræða Robert Johnson. Ég man ekki nákvæmlega hvernig hann orðar það en hann túlkar Robert fullkomlega bókstaflega – segir að Phonograph Blues fjalli um mann sem verður fyrir því óláni að nálin á plötuspilaranum hans ryðgar og Dead Shrimp Blues fjalli um ófarir manns í rækjuiðnaðinum. Í fyrsta lagi er áhugavert að hann skuli velja að tjá sig um þau tvö lög Roberts sem fjalla (undir rós) um getuleysi – sem var óvenjulegt – og í öðru lagi má taka þessu sem sneið til þeirra aðdáenda Dylans sjálfs sem eru gjarnir á að oftúlka lögin hans og gleyma því að þau eru fyrst og fremst það sem þau eru. Orðin ekki endilega staðgenglar annarra orða – maður rænir myndlíkinguna líka einhverju með því að skipta henni einfaldlega út fyrir „rétta merkingu“. Ef við tökum Dylan-aðferðina á þetta fjallar lagið þá bara um mann sem ætlar að fara til Chicago í gegnum Kaliforníu og Des Moines. Sem er auðvitað líka skemmtilega ruglað.  Robert gæti líka hafa átt við California lestarstöðina í Chicago.  Lagið er mikið einkennislag fyrir borgina. Í seinni tíma útgáfum, frá Roosevelt Sykes 1955, hefur ferðaáætlunin einfaldlega verið leiðrétt svo að núna ætlar ljóðmælandi ekkert til Kaliforníu lengur, heldur bara „that same old place / sweet home Chicago“. Mér finnst það nú óþarflega ferkantað.  Upprunalega fjallar lagið reyndar alls ekkert um Chicago, heldur smábæinn Kokomo, Indiana. Fyrst til að taka það upp var söngkonan Madlyn Davis, árið 1927, en fyrir kæruleysi framleiðandans heitir lagið í hennar flutningi Kokola Blues – sem mig grunar að kæti mjög blúsglaða íbúa bæjarins Kokkola í Finnlandi, en bær með þessu heiti hefur aldrei fundist í Bandaríkjunum. En hún syngur mjög greinilega „Kokomo“.  „Don’t you wanna go / to that eleven light city / that sweet old Kokomo“ biðlar Madlyn til manns síns. Ári síðar syngur svo Scrapper Blackwell (sem er þekktastur fyrir að vera sidekick Leroy Carr)  – og er talinn líklegur höfundur lagsins – sinn Kokomo Blues. Textinn er að mestu leyti annar þótt laglínan sé sú sama og fjallar nú um mann sem á í erjum við frú sína og biðlar ýmist til hennar að koma með sér til Kokomo eða virðist ætla að yfirgefa hana og fara þangað einn (enda sé hún aldrei góð við hann).  And I’ll sing this verse, baby, I can’t sing no more 
I’ll sing this verse, baby, I can’t sing no more 
My train is ready and I’m going to Kokomo            –  Hvorugt þessara laga náði neitt viðlíka vinsældum og Old Kokomo Blues með James Arnold – en lagið varð svo vinsælt (meðal svartra í suðurríkjunum) í hans meðförum að hann var aldrei kallaður annað uppfrá þessu en Kokomo Arnold. Hann tekur brot úr textanum frá Madlyn – brotið hér að ofan – og prjónar saman við annars vegar flökkuerindi einsog „I don’t drink because I’m dry / don’t drink because I’m blue / the reason I drink mama / is I can’t get along with you“ og hins vegar reikningserindi sem rata inn í klassíkina: „Now one and one is two, mama / two and two is four / you mess around here pretty mama / you know we got to go“. Hefðin býður að maður reikni sig aðeins áfram – Arnold endar í „eleven and one is twelve / you mess around here mama / you going to catch a lot of hell“. Blúsbræðurnir fara í „Nine and nine is eighteen / look there brother baby and see what I’ve seen“.  Hér er kannski rétt að geta þess áður en lengra er haldið að Kokomo, Indiana, er mikilvægur bær í sögu Ku Klux Klan – fjórum árum áður en Madlyn syngur sinn blús um hvað sig langi til Kokomo er þar haldin stærsta KKK ráðstefna allra tíma, þar sem talið er að um 200 þúsund manns hafi mætt. Og valið á bænum var ekki tilviljun. Sagt er að ríflega helmingur bæjarbúa hafi verið meðlimir í klaninu og það hafi ráðið lögum og lofum þarna langt fram eftir 20. öldinni – bærinn hefur verið sagður „heimkynni Klansins“. Þetta er auðvitað forvitnilegt í ljósi þess hvers lags ódáinsvellir bærinn er í öllum þessum lögum – þar er bæði framtíðina að finna og þar verða allar erjur að engu.  Á leið okkar frá Kokomo og aftur til Chicago verðum við að gera örlitla lykkju á leið okkar og nefna tvö-þrjú lög sem eiga líka talsvert í útgáfu Roberts. Hið fyrra er Honey Dripper Blues no. 2 með Edith North Johnson frá 1928 – sem er klassískt fyrirtaks hokum – og svo Red Cross Man með Lucille Bogan. Þar er melódían eiginlega alveg komin og undirspilið er í búggífílingnum sem einkennir Sweet Home Chicago með Robert Johnson (og enn nákvæmari fyrirmynd að búggíinu má finna í öðru Honey Dripper Blues með Roosevelt Sykes).   Það er alþekkt trix í lagasmíðum að droppa örnefnum – af einhverjum orsökum resonerar það hjá hlustendum. En til þess þurfa hlustendur sennilega að þekkja örnefnið og ef maður var ekki í Klaninu á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar er ósennilegt að maður hafi heyrt á Kokomo minnst. Elijah Wald skrifar einhvers staðar eitthvað á þá leið að það sé ekki heiglum hent að skrifa hittara um jafn ómerkilegan stað – hann nefnir ekki Kokomo með Beach Boys, úr bíómyndinni Cocktail, sem ómaði viðstöðulaust í útvarpinu þegar ég var svona tíu ára en hlýtur að hafa haft það í huga. Raunar hefur mér líka dottið í hug að lagahöfundarnir hafi tekið því sem áskorun – hvort það væri yfir höfuð hægt að semja hittara um jafn mikið skítapleis og Kokomo. Í laginu þeirra er Kokomo reyndar „off the Florida Keys“ sem auðveldar sennilega rómantíkina – og auk þess er vísað til ábyggilega fjörutíu annarra sumarleyfisparadísa. (Svo má líka spyrja sig hvort höfundar Kokomo – sem voru ekki Beach Boys vel að merkja – hafi verið að senda einhver leynileg skilaboð með nafninu á laginu).  Fyrsta tilraun til þess að færa lagið yfir á kunnuglegri og viðkunnanlegri slóðir er Baltimore Blues með Charlie McCoy frá 1934.  Baltimore var sannarlega ein af hinum fyrirheitnu borgum norðursins en lagið er kannski bara of hversdagslegt – það er of lítill galdur í þessu. Þá varð Baltimore heldur ekki síðar stærsta og mesta blúsborg sögunnar, einsog Chicago, og það hefur áreiðanlega haft helling að segja um það hvort lagið var koverað oftar þegar fram liðu stundir. Lagið sem Robert tekur upp tveimur árum síðar – í herbergi 414 á Gunterhótelinu í San Antonio – er hins vegar algerlega himneskt. Mér er alveg sama hvað maður er búinn að heyra þessu misþyrmt oft af misgóðum stuðsveitum, þetta er alltaf jafn best: Sweet Home Chicago er gefið út af Vocalion í júlí árið eftir og kom þá á plötu með Walkin’ Blues á hinni hliðinni. Og vakti svo sem enga æðislega athygli fyrren löngu síðar. Kannski ekki fyrren eftir að Junior Parker gerði fyrstu „nútíma“ útgáfuna 1958 – og setti meira swing í það. Þá voru Tommy McClennan og Walter Davis báðir búnir að reyna sig við það, 1939 og 1941, með púsli úr hinum útgáfunum líka. Svo náði Robert sjálfur flugi þegar King of the Delta Blues Singers kom út árið 1961 – en það er ekki fyrren seinni platan, King of the Delta Blues Singers II, kemur út sem Sweet Home Chicago í hans útgáfu verður almennt aðgengilegt. Það er 1970 – sem er einhvern veginn alveg ofsalega seint. Auðvitað voru gömlu 78 plöturnar til og alls kyns bootleggar í umferð – og hugsanlega (jafnvel sennilega) var lagið búið að birtast á einhverri safnplötu. En það er sama.  Lagið er talsvert afslappaðra með Robert en það er leikið síðar – með rafmagnsgíturum, lúðrasveitum, munnhörpuleikurum, samsöngi og 25 mínútum af sólóum. Robert leikur svo ljúft á gítarinn að það er nánast einsog hann sé að spila á nælonstrengi. Falsetturöddin er kraftmikil en rembingslaus. Það eru nánast engar tiktúrur í gítarleiknum, endurtekningin er dáleiðandi og tempóið er grjóthart. Þetta er lag sem er í senn ómögulegt að leika eftir og ómögulegt að „gera nýtt“. Þreyttasta lumman í bókinni og fallegasta djásnið. Kannski er það líka einmitt vegna þess að maður er orðinn svo vanur því að heyra það flutt með bravúr og látum að manni þykir enn vænna um það svona brothætt og fínt.  Aukaefni:

id““:““8vi3s““

I: Að vera blár Sársauki, skortur, svik, óbætanlegur missir. Kannski er íslenska orðið fyrir blús bara „torrek“. Elstu blúsararnir svöruðu gjarnan spurningunni um eðli blússins á þá leið – blúsinn er tilfinning, aðstæður og stemning. Og það er mikilvægt að hafa í huga að þeir nefna yfirleitt tilteknar aðstæður – tilfinningin er ekki nóg, blúsinn er ekki væl út af smotteríi og hann er ekki klínískt þunglyndi (þótt ég muni eftir fáeinum klínískum þunglyndissjúklingum sem voru góðir blúsarar – t.d. Skip James). Þeir segja ekki: blúsinn er að vera leiður. Heldur: Blúsinn er þegar þú kemur heim úr ömurlegu vinnunni þinni og áttar þig á því að konan þín er farin og hún tók með sér börnin og allar eigur ykkar. Blúsinn er þegar karlinn ykkar nær honum ekki upp. Blúsinn er þegar konan þín er ótrú og karlinn þinn er lyginn. Blúsinn er þegar þú drekkur þig niður á botninn á flösku. Og blúsinn er allt sem þú röflar þarna á flöskubotninum, blindfullur, þegar hvítur háskólastrákur spyr þig. Í sjálfu sér eru varíantarnir ekkert ægilega margir – rétt einsog í annarri sagnagerð liggja gæðin í díteilunum. Það getur verið eitthvað tvist – uppleggið er kannski að svikin séu þau að þú hafir svikið vin þinn með því að hafa af honum konuna hans, sem hafi svikið hann, en pönslænið að þau hafi bæði svikið þig með því að hafa tekið saman aftur og skilið þig eftir einan og sáran. En oftar en ekki er þetta einfaldlega fallegt myndmál, góð ljóð. If the river was whisky / and I was a diving duck / I’d swim to the bottom, baby / and I’d drink my way up. Nú eða þetta: When the train, it left the station
With two lights on behind
When the train, it left the station
With two lights on behind
Well, the blue light was my blues
And the red light was my mind
All my love’s in vain II: Að vera svartur Seinna myndu aðrir svara sömu spurningu þannig að blúsinn væri kjarninn í upplifun svartra bandaríkjamanna – eitthvað sprottið úr einstakri reynslu þeirra og eitthvað sem enginn gæti tjáð nema þeir. Þetta hangir saman við réttindabaráttu blökkumanna um miðja öldina og nýja sýn þeirra á eigin sögu og sjálfsmynd; og líka við þá staðreynd að þessi tónlist, sem flestum hafði verið meira og minna sama um – ekki síst þeim sjálfum, djassinn var alltaf vinsælli, og síðar R&B swing og soul-tónlist – var skyndilega ekki lengur gamaldags og klúr gagnvart fágaðri vinsældartónlist hvíta mannsins heldur sönn og djúp og resonant. Skyndilega skipti hann máli – og skyndilega var verið að stela honum. Hvítir háskólakrakkar sem fannst líf sitt með Pat Boone ekki fullnægjandi tóku að leita í eitthvað sterkara og fundu það í alþýðutónlist – folk music – sem upprunalega er auðvitað ekki heiti á tónlistargenru heldur hugtak í þjóðfræði. Það er að segja: „folk music“ segir (upprunalega) ekkert tónfræðilega um neina tónlist, ekki takt, melódíu eða hljómaskipan, heldur um tilurð. Folk er tónlist sem er samin af þjóðfélögum fremur en einstaklingum, dokumenteruð af göfugum þjóðfræðingum frekar en tónlistarmönnum – lög og ljóð sem eru látin ganga í munnmælum – og þegar fólk fer að hafa áhuga á „folk“ sem slíku virðist þessi hvíti úthverfa almenningur ekki láta sig það nokkru skipta hvort lagið er western, köntrí, blús eða bluegrass. Út úr þessu kemur tvennt: 1) Það verður til tónlistarstefna sem heitir bara folk, hverrar grunntónn er sirka Joan Baez. Þetta sánd kjarnast sem sagt, frekar en að þróast. 2) Það verður til ný blústónlist, á sama tíma og eldri blúsarar eru færðir upp á stall. Það er merkilegt nokk mjög lítið um Joan Baez týpur í þessu – í stað þess að ná sér í gamlan national steel gítar og fara að herma eftir Son House fara blústýpurnar og ná sér í rafmagnsgítar og stofna hljómsveit – nýjan rafmagnsblús sem er ekki bara framhald af Chicagoblúsnum. Þetta eru Stones og Ry Cooder, Taj Mahal, Koko Taylor, Canned Heat og Magic Sam og svo framvegis. Eina undantekningin sem ég man er Bob Dylan, hvers fyrsta plata er að stærstum hluta gamaldags köntrí-blús – því þótt hún sé yfirleitt bara kölluð „folk“ verður ekki horft framhjá því að langstærstur hluti laganna er blökkusöngvar frá Mississippi og lagahöfundar t.d. Blind Willie Johnson, Jessie Fuller, Blind Lemon Jefferson, Curtis Jones, Bukka White, Reverend Gary Davis o.s.frv. Síðan þá hefur Dylan auðvitað spilað óhemju af blús (playlisti á Spotify með blúslögum Dylans er vel á áttundu klukkustund) en megnið af því er í nýrri stíl. Ég held að menn einsog ljóðskáldið Amiri Baraka hafi upplifað ágang Dylans og Stones á tónlist sem þeir töldu erfðarétt sinn – sína tónlist, einsog Íslendingar „eiga“ íslendingasögurnar – sem enn einn menningarþjófnaðinn. Það var búið að taka nútímalegri blúsinn – R&B Big Mama Thornton og Arthurs „Big Boy“ Crudups – og breyta honum í Graceland-milljarðamæringinn Elvis Presley; án þess að Thornton eða Crudup hefðu af því nokkrar sjáanlegar tekjur, og nú átti að endurtaka leikinn með helgustu verðmæti hinnar svörtu þjóðar – og hann var auðvitað endurtekinn. Stones urðu stærsta og ríkasta band allra tíma, Dylan fékk nóbelsverðlaun, það er búið að nefna reikistirni eftir Eric Clapton og í dag eru hvítir blústónlistarmenn óneitanlega umtalsvert plássfrekari en þeir voru fyrir þennan tíma. Og þá gengur ekki lengur að segja einsog Son House eða Lightnin’ Hopkins gerðu, að blúsinn væri tilfinning – að hann væri úniversal. Þá segirðu frekar að sársaukinn sé sértækur, snúi að vissri reynslu – og jafnvel, einsog Ruth Brown, að þessi sársauki sé fyrir bí, þetta þjóðfélag horfið og enginn þekki hann (sem er ekki það sama og að segja að það sé ekki óréttlæti eða rasismi). Af því vilt standa félagslegan vörð um menningararfleið þína – að henni verði hvorki spillt né aðrir græði á því sem þjóð þín var arðrænd af. III: Að vera svartur eða hvítur Blúsinn er líka ákveðin tónfræðileg einkenni. Hann er gjarnan tólf bör (taktar) sem skipt er upp í þrjú box – fyrst eitt á grunnhljómi (tonic eða I), þá hálft á undirforhljómi (sub-dominant eða IV) og hálft aftur á grunnhljómi, loks hálft á forhljómi (dominant eða V) og hálft á grunnhljómi (oft er það reyndar líka kvart á grunnhljómi og kvart á forhljómi – sem er leikið í einhvers konar krómatískt hnígandi (eða stígandi) riffi og kallað viðsnúningur eða turnaround). En hann getur líka verið átta bör eða sextán og gömlu köntríblúsararnir gerðu þetta bara einsog þeim sýndist – 9 bör í einu erindi, 13 og hálft í næsta, svo 11, næst 12. Þá er hægt að varíera hljómaganginum þar til hann verður nánast óþekkjanlegur – það fer eftir því hvað maður djassar það mikið (í djassi skiptir maður oft hljómum út fyrir aðra sem „ganga upp“ í staðinn). Maður gæti sagt að kjarninn í blúsnum sé samt þarna – vandamálið er bara að þessi hljómagangur hefur verið notaður svo víða í tónlist sem er alls ekki blús. Og þá er ég ekki að meina í rokklögum eða einhverju köntrídóti eða pönki – þannig lög blúsast auðveldlega upp, kannski af því hljóðheimurinn er skyldur – heldur poppaðri músík, fágaðri músík. Ég veit t.d. ekki hvort það gagnast neitt að skilgreina Black or White með Michael Jackson sem blús þótt það uppfylli skilyrðin. Svo eru auðvitað milljón klassísk blúslög sem nota alls ekki þennan hljómagang og myndu falla utangarðs (og blústónlistarmennirnir sem við þekkjum frá fyrri hluta aldarinnar léku líka með fáum undantekningum „alls konar tónlist“ – þótt plötuútgefendur og þjóðfræðingar hefðu minni áhuga á að heyra þá spila Gene Autry eða Tin Pan Alley). Önnur einkenni eru stöðugur þömpandi fjórtaktur, lækkaðar sjöundir (sem eru í dag svo algengar að þær eru yfirleitt bara kallaðar sjöundir), lækkaðar fimmundir (sem er nóta í blússkalanum sem farið er í gegnum en aldrei dvalist við – enda sjálfur tónskrattinn – hún skapar spennu sem þarf að leysa úr strax) og míkróteygðar moll-þríundir og sjöundir (kenningar eru um að það hljómi réttar í vestur-afrískum tónstigum – en hljóðfæri blússins eru auðvitað fyrst og fremst evrópsk). Þá einkennir það blússkalann að þótt tólf-barablús sé í dúr er leikinn yfir hann pentatónískur mollskali (með blúsnótu – tónskrattanum). Og stundum hendir maður inn einni og einni dúrþríund – sérílagi strax á eftir mollþríundinni. En svo eru líka til mollblúshljómagangar og dúrblússtigar. The Thrill is Gone er t.d. mollblús og Skip James spilaði alltaf í mjög sérstakri og harmrænni moll-stillingu. T-Bone Walker spilaði oft dúrskala og Lonnie Johnson spilaði nú bara alls konar djassskala og margir leika sjöundar-arpeggios yfir hljómana og láta skalana bara eiga sig. En vandamálið er líka að blússólóið – eða bara blúsmelódían, þessi einkenni hér að ofan – eru margfalt algengari en nokkur 12 bara blús. Vestræn tónlist er einfaldlega undirlögð – kólóníseruð! Þá er samtalið milli radda eða hljóðfæra eða – sem er algengast – milli raddar og hljóðfæris ákveðið einkenni á blústónlist. Söngvarinn segir: Ég er svangur. Gítarinn segir: Dí-dú-dí-dá. Söngvarinn: Ég er atvinnulaus. Gítarinn: Da-dú-bí-dú-dí. Þetta ku vera afrískt einkenni og er – einsog mörg önnur blúseinkenni – líka mjög algengt í gospel og vinnusöngvum.
Loks ber að nefna áferðareinkenni einsog að teygja eða slæda upp og niður í nótur, nota mikið víbrató – og nota grófan hljóm, frekar en fagran, að hrópa rámri röddu, leika á sargandi gamla Stellu, diddleyboga, ódýran Airline-rafmagnsgítar, keyra lampamagnara út í overdrive, spila á lúið gamalt píanó – frekar en að spila á hljómfagran klassískan gítar eða steinway-flygil. Þetta helgast auðvitað upprunalega af félagslegum aðstæðum – stellurnar voru ódýrustu hljóðfærin og upptökugræjurnar sem voru notaðar til að taka upp tónlistina í fyrstu voru kannski ekki beinlínis hi-def. En það þýðir ekki að það sé ekki sándið í blúsnum – þótt hér séu aftur líka ofsalega stórar undantekningar, alveg frá fyrsta degi. Lonnie Johnson spilaði fágað, Mississippi John Hurt spilaði fágað og BB King var fágaðastur allra (og hafði ímugust á öllu þessu fátæktar- og hávaðatali – þótt hann bæri mikla virðingu fyrir frænda sínum, Bukka White, sem var nú sennilega næst grófastur og æstastur og sveittastur, strax á eftir Son House og strax á undan Howlin’ Wolf). Löngu áður en Jack White gerði eldrauða
og ódýra airline-gítarinn að sínu vörumerki
var hann þekktur sem JB Hutto gítarinn. Þessi einkenni áttu sennilega fyrst og fremst við blúsinn þegar hann birtist á sjónarsviðinu – og þótt það væru enn 30 ár í að tónlistarmenn í Chicago færu að tigna hávaðann og rúmlega 50 ár í að pönkararnir tækju það upp á næsta stig – voru önnur áferðareinkenni strax komin í almenna umferð eftir fyrstu blússprenginguna (og auðvitað ómögulegt að segja að hversu miklu leyti þau voru til víðar – en þetta eru einkenni sem almennt eru tiltekin á þessum tíma þegar verið er að lýsa því hvernig blúsinn sker sig frá annarri tónlist, sem er þá fyrst og fremst evrópsk). En sem sagt – almennt er mjög erfitt að skilgreina blúsinn tónfræðilega einmitt vegna þess hve djúpstæð áhrif hann hefur haft á alla dægurtónlist. Það er eiginlega ekkert sem einkennir blúsinn sögulega sem einkennir ekki núorðið nánast alla vestræna dægurtónlist. IV: Að tikka í boxin Blús er síðan á 20. öldinni ekki síst bara vörumerki eða markaðstæki. Hilla í plötubúðinni. Ákvörðun sem er tekin á skrifstofu plötufyrirtæki – eða þjóðfræðings. Þegar blúshugtakið nýtur vinsælda er allt kallað blús og þegar það þykir hallærislegt er ekkert kallað blús. Fólk sér það sem það vill sjá. Og vegna þess að það hefur alveg frá upphafi verið tengt einhvers konar uppruna eða hinu átentíska – sem undirstrikaðist svo mjög í blúsendurreisninni á sjötta og sjöunda áratugnum – eru það ákveðin einkenni sem hafa ekkert með tónlist að gera sem skilgreina blúsinn, nánast einsog þegar verið er að skilgreina þjóðir (og hér nær Amiri Baraka máli með hugmyndum sínum um að blúsinn geti bara verið tónlist svartra með vissan bakgrunn). Þá skiptir máli að uppfylla vissa steríótýpu – eða tikka a.m.k. í sem flest box. Það er betra að vera svartur. Betra að vera frá Mississippi. Betra að vera frá Deltunni. Betra að vera frá Clarksdale. Betra að vera karl. Betra að spila á gítar. Betra að vera blindur eða haltur. Betra að vera drykkfelldur (og betra að drekka viskí). Betra að vera kvensamur (eða karl- og kvensamur ef maður er kona, sem er verra). Betra að hafa unnið sem leiguliði (eða sharecropper, réttara sagt). Betra að eiga afa sem var þræll. Betra að eiga mömmu sem var vændiskona. Betra að vera lyginn. Betra að vera ótrúr. Betra að hafa verið prestur. Betra að hafa gert samning við djöfulinn. Betra að hafa drepið mann og betra að hafa farið í fangelsi – unnið í keðjugenginu. Svona einsog maður er varla norðmaður nema maður eigi lopapeysu með silfurhnöppum, sé hvítur og ljóshærður í góðu líkamlegu ásigkomulagi og fari gjarnan á gönguskíði þegar færi gefst. Þessi áhersla á upprunaleika hefur líka þau áhrif að fólk (bæði innanblúss og utanblúss) bregst ókvæða við breytingum og þróun – það var alls ekkert sjálfsagt þegar Muddy og félagar fóru að spila rafmagnsblús í Chicago en þeir voru þó með öll möguleg credentials. Helmingur þeirra lærði að spila á gítar hjá Robert Johnson sem lærði það af djöflinum sjálfum. En það náðist í gegn. Hins vegar getur einfaldasta og augljósasta blúslag ekki fengið smá keim af neinu öðru – rokki, pönki, swing – án þess að sú skilgreining taki einfaldlega yfir. Blúsað rokklag fer í rokkrekkann og rokkað blúslag fer líka í rokkrekkann. Svartur tónlistarmaður frá Clarksdale, fæddur í byrjun aldarinnar, fer hins vegar í blúsrekkann alveg sama þótt hann spili hergöngumarsa á túbu. Bob Dylan hefur bæði samið óhemju af blúslögum og leikið nánast allan delta-katalóginn – Stones gerðu eins, byrjuðu á að kovera eftirlætin sín frá Mississippi og Chicago og sömdu svo undir áhrifum frá því efni, kynntu sig undantekningalaust sem blúshljómsveit í meira en áratug áður en þeir gáfust bara upp á því. Ef þeir hefðu verið svartir hefði sagan sennilega verið önnur. Hvítur tónlistarmaður sem stígur út fyrir 12 bara blúsinn og leikur ekki löng pentatónísk gítarsóló með epískum teygjum og helst öllum nótunum í skalanum í einu er alltaf að gera eitthvað annað en að spila blús. V: Að vera trúr og sannur (ég meina ótrúr og lyginn) Sennilega er þetta spurning um einhvern heildarpakka – félagslega og tónfræðilega og sögulega og andlega og tilfinningalega samsetningu sem gengur upp. Að rekja alla söguna – hlusta á öll lögin sem hafa verið kölluð blúslög til þessa. Og svo bara eitthvað svona „ég þekki það þegar ég heyri það“ dæmi. Stundum heyrir maður eitthvað sem er bara svo augljóslega blús, þótt það standi hvergi blús utan á því.