Jólin eru sá tími árs þegar þeim sem á annað borð líður illa, líður verst. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að það sé nokkuð úrval til af jólablúsum. Þá er auðvitað „jólalagið“ sem konsept líka hækja sem margir grípa til af ýmsum ástæðum – BB King, sem var einn duglegasti tónlistarmaður 20. aldarinnar, mjólkaði þessa kýr vel og vandlega, hún gaf honum ástæðu til að gefa út nýja plötu, halda nýja tónleika, ýta vélinni í gang, gera meiri músík og græða meiri pening. Jólalagið rímar líka vel við eþos fyrstu blúsbylgjunnar, sem var einfaldlega að fagna lífinu, búa til smelli og selja plötur – löngu áður en blúsmenn fóru að standa vörð um tilkall sitt til þess að teljast „ekta“ eða „hreinir“. Þá eru ótaldir þeir sem hafa hent í eitt jólalag í tilraun til þess að endurlífga dauðan feril og/eða borga af húsnæðisláninu – Christmas Present Blues eftir hinn annars stórfenglega Jimmy Reed er eitt slíkt, alveg voðaleg blúsfönkjólasúpa frá 1971, sem verður ekki póstað hér. Við byrjum þessa jólaþeysireið á drottningu sjálfri – Bessie Smith ætlar að halda jólin með sínu nefi. Jólin færa manni gleði, bjór, vín og dans – og komi dansfélaginn ekki nógu vel fram við mann, er bara að sækja sér nýjan, nóg er til. Í kjölfar drottningarinnar koma, einsog vera ber, þrír kóngar. Fyrstur til að stíga á svið er Albert – lénsherra Stevie Rays og Gibson V-beri. Ég er satt best að segja ekki alveg viss hvað jólin koma þessu lagi við – en þau eru þarna samt í viðlaginu. Sennilega er það bara árstíminn, en blúsinn er víst samur við sig hvort sem það er ágúst eða desember. I’ve got to push on
I got to push on away from here
Oh, you treat me just like I’m a playtoy, darlin’
And Christmas only comes once a year Næstur kónganna er Blues Boy BB King. Hann hefur sinnt jólunum vel, einsog áður segir, og margt af því er æði smekklaust – svo sem dúett hans með (hinni oft ágætu) Christinu Aguilera. En þetta gerir hann gríðarvel. Þriðji og síðasti kóngurinn er auðvitað Freddie. Ég vissi ekki af þessu lag fyrren áðan en þetta er strax orðið uppáhalds jólalagið mitt. Úti heyrist í sleðabjöllum og englakórum, en Freddie heyrir ekkert frá ástinni sinni – og situr bara inni einn og grætur. Frændi BB – deltablúsarinn Bukka White – á líka þetta æði fína lag. Kærastan hans setti engan pakka fyrir hann undir jólatréð og hann skilur bara ekkert hvers vegna. Chuck Berry er hefðbundnari í sínum jólatextasmíðum – í staðinn fyrir að taka blústexta og strá svolitlum jólum yfir það, hefur hann tekið týpískan jólatexta og stráð svolitlum blúsi yfir það. If I could only have an hour of this holiday with you
We could sit and rap together, spinning records old and new
Have a little cake and a bit o’ coke now and do the things we used to do Clarence Gatemouth Brown sýnir á sér nýja hlið og er skemmtilega djassaður í jólalagi um að jólin séu ekki bara fyrir mig og þig, heldur fyrir alla. Orðaleikurinn með að „dresser drawer“ geti bæði þýtt kommóðuskúffa og kvenmannsnærföt er gamalt hokum-grín. Þegar kærastan hans Sonny Boy Williamsonar fer úr húsi og segist hafa skilið gjöfina hans eftir í kommóðunni tekur forvitnin af honum völdin og hann fer að gramsa – með kostulegum afleiðingum sem enda með lögregluafskiptum. Butterbeans og Susie voru gríndúó í vaudeville hefðinni – og þykir alls ekki fínt, vel að merkja, en lagið er skemmtilegt og listasagan var einsog hún var (þótt ég hefði nú sennilega haft lengri fyrirvara á því að pósta svona ef þau hefðu verið hvít). Vaudeville-sýningarnar gengu mest út á skopstælingar og klisjur úr hversdagslífi fólks og þar naut „hjónarifrildið“ gríðarlegra vinsælda. Þetta er svoleiðis lag – jólahjónarifrildi í blúsdúr. Loks er það annar dúett – hinir æðislegu Leroy Carr (á píano og söng) og Scrapper Blackwell (á gítar). Í grjótinu á jólum: This food here Santa, it ain’t fit to eat
This food here Santa, it ain’t fit to eat
Won’t you come and bring me a plate of turkey meat
In jail on Christmas Day again, ain’t that a pain
Oh baby, baby, baby ain’t that a pain
Author: kolbrunarskald
Hið óraunverulega
Ég var í Ísafjarðardjúpi þegar síminn hringdi tvisvar í röð. Sitthvor Selfyssingurinn að segja mér sömu fréttirnar. Að Ásgeir hefði látist um nóttina og að Lífsvakan sem hann hafði kallað til færi engu að síður fram. Klukkustund síðar keyrði ég fram á dauðan búrhval í Guðlaugsvík. Á stað sem heitir, eftir því sem ég kemst næst, Staður . Það er svo skrítið með óraunveruleikatilfinninguna að hún getur lent hvar sem er. Mér fannst ekkert óraunverulegt að Ásgeir væri dáinn. Það var frekar allt hitt, allt í kringum það. Og kannski fannst mér ég sjálfur óraunverulegastur, stundum einsog ég væri að fylgjast með sjálfum mér ferðast í gegnum heiminn, hlusta á sjálfan mig tala frekar en að ég væri að tala. En líka sem sagt þessi hvalur, hann var líka óraunverulegur. Ég stoppaði og fór niður í fjöruna. Tók mynd. Pissaði. Fylgdist með hröfnunum. Ég var á þessum „Stað“ dágóða hríð en það kom enginn annar bíll. Og svo bara fór ég. Kannski var það þá sem mér byrjaði fyrir alvöru að finnast ég óraunverulegur. Þegar ég yfirgaf hvalinn til þess að fara að hitta ekki Ásgeir. Ásgeir var ekki einn af mínum nánustu vinum þótt ég hafi þekkt hann lengi. Ég heimsótti hann aldrei í Prag og held raunar að ég hafi aldrei komið heim til hans og hann aldrei heim til mín. Óraunveruleikatilfinningin sem andlát hans kveikti lýsti sér í að lágmarki tvenns konar loddaralíðan. Annars vegar spurði ég sjálfan mig ítrekað hvers vegna ég væri að leyfa minni sorg að taka pláss þegar aðrir þurftu pláss fyrir sína sorg. Og hins vegar spurði ég mig hvort ég væri í raun og veru sorgmæddur eða hvort ég væri að látast vera sorgmæddur og var hreinlega ekki viss – óraunveruleikatilfinningin tók yfir og ég hugsaði stöðugt: Af hverju er ég með þetta asnalega bindi? Fyrst ég er sorgmæddur? Af hverju er ég með þetta asnalega skegg? Af hverju er ég að hlæja núna? Af hverju er ég að reyna að vera sniðugur? Af hverju er ég skyndilega klökkur? Af hverju valdi ég að lesa þetta ljóð? Er þetta ekki allt bara eitthvað feik? Einhver látalæti? Og svo óhjákvæmilega líka: Af hverju er ég svona upptekinn af því að hugsa um sjálfan mig en ekki Ásgeir, ekki fólkið sem stendur honum næst, þá sem eiga raunverulegt tilkall til þess að syrgja. Hlustaðu betur, Eiríkur. Var léttir að þurfa ekki að hitta hann veikan? Mig langaði innilega að kveðja hann og þegar ég sagði það upphátt átti ég aðeins erfitt með að tala, af því það var mjög satt, en sennilega óttaðist ég líka að sjá hann veikan, og kannski var það þá líka ósatt. Kannski er dauðinn hvergi jafn hræðilegur og í fordyrinu, í gættinni, þegar hann er bæði til staðar og ekki. Þegar maður trúir því ekki lengur að einhver lifi af. Veislan var góð. Kviðan var góð. Vinir Ásgeirs voru fallegir, þeir sögðu fallega hluti, lásu fallega hluti, sýndu fallega hluti. Ég veit ekki hvað ég drakk mikið sjálfur en ég drakk meira en manni er hollt – það hjálpaði mér ekki í baráttunni við óraunveruleikann eða sjálfhverfuna – og var ekki einn um það en ég held samt að langflestir hafi alls ekki drukkið neitt og það var ábyggilega gott, ábyggilega betra, en kannski var óraunveruleikinn þarna hjá okkur öllum samt. Ég framlengdi hótelgistinguna eina nótt og hékk með Lomma. Við sturtuðum í okkur Pepsi á hótelbarnum og rifjuðum upp gamla tíma, rýndum í nýja. Í gær keyrði ég heim, hlustaði á Kristján Guðjónsson – sem var síðasti maðurinn sem ég kvaddi í kviðunni – tala við unga karlmenn um Krist, Job og Jesaja í Lestinni. Hvalurinn var enn í fjörunni í Guðlaugsvík. Farið að slá aðeins í hann. Hröfnunum hafði líka fjölgað mikið. Ég er búinn að taka niður asnalega bindið en ég er enn með asnalega skeggið og enn að segja asnalega hluti, enn að hlusta á sjálfan mig tala, fylgjast með sjálfum mér ganga, en það stendur allt til bóta. Raunveruleikinn er hérna enn og nú er bara að fálma sér leið að honum aftur.
Markaðsmál og lífsvaka
Það er ótímabært að sýna ykkur kápuna á nýju ljóðabókinni minni. En ég er búinn að sjá hana. Og nokkrir starfsmenn Forlagsins eru búnir að sjá hana. Börnin mín eru líka búin að sjá hana. Ég er meira að segja búinn að setja hana sem skjámynd á símanum mínum en það sér aldrei neinn símann minn nema ég. Annað fólk á ekkert með að vera að glápa á símann minn. Það er aldrei að vita hvað annað það gæti komið auga á. Nú er ég farinn að hugsa einsog markaðsmaður. Ef ég myndi sýna ykkur kápuna á ljóðabókinni núna mynduð þið bara vera komin með leið á henni þegar hún kemur út í byrjun mars. Þá mynduð þið sjá hana í bókabúð, augun myndu reika yfir hana, og ef þau staðnæmdust þá væri það bara í augnablik og bara til þess að hugsa: Var ég ekki búinn að lesa þessa? Jú, ég var áreiðanlega búinn að lesa hana. Mjög kunnugleg. *** Á morgun ætla ég að keyra til Akureyrar til þess að taka þátt í Lífsvöku Ásgeirs H. Ingólfssonar, vinar míns, annað kvöld. Ásgeir er með illvígt krabbamein og hefur fengið einhvers konar dauðadóm frá læknum – þótt hann haldi í einhverja von – og af því tilefni hefur hann kallað saman gamla vini og samstarfsmenn. Til skemmtunar. Ljóðakvöld, listakvöld, kveðjustund, baráttufundur – ég fer án þess að vita neitt í hvað stefnir og ég veit ekki hvort það er hægt að gera þetta öðruvísi. En vegna þess að við Ásgeir – sem var í Nýhil á sínum tíma, a.m.k. um skeið – eigum marga sameiginlega vini verður þetta líka hálfgert ættarmót. Það eru margir að fara sem ég sé alltof sjaldan. Sem eykur á þessa undarlegu blöndu gleði og sorgar. Einhvern tíma fyrir tveimur áratugum vorum við í Nýhil spurð hver væri munurinn á gamaldags níhilista og þesstíma nýhilista, fyrir utan yfsilonið, og svöruðum því til að gömlu níhilistarnir hefðu sökkt sér í svartholin áður en búið var að finna upp skammtafræðina. Með skammtafræðinni hefðum við uppgötvað að ef maður sökkvir sér nógu djúpt í svarthol kemur maður upp einhvers staðar annars staðar. Ef maður mætir því óttalaus og án þess að hika er með öðrum orðum í því fólgin nokkur von. Og talsverð fegurð. Hvað sem öðru líður og hvernig sem allt fer finnst mér einsog Ásgeir hafi nú þegar sannað þessa kenningu með tiltæki sínu.
Venjulegt fólk
Ég sá því haldið fram um daginn að mennirnir sem nauðguðu Gisèle Pelicot hafi verið venjulegir. Þessu til sönnunar var tiltekið við hvað þeir hefðu unnið, hvað þeir voru gamlir, hvers konar bakgrunn þeir höfðu og svo framvegis. Og þeir höfðu sem sagt unnið venjulegar vinnur, voru á öllum aldri og höfðu ólíkan, en venjulegan, bakgrunn. Og ég spurði sjálfan mig hvað þetta þýddi og við hverju viðkomandi hefði búist. Hefði komið minna á óvart ef þetta hefðu allt verið einhvers konar smáglæpamenn, rumpulýður – eða ef þeir hefðu allir verið sturlaðir yfirstéttarmenn í smókingjökkum, svona Eyes Wide Shut týpur? Hvað hefði þurft til að þessir menn teldust ekki venjulegir? Og svo rann það upp fyrir mér, já einmitt, það sem gerir þessa menn óvenjulega er að þeir eru nauðgarar. Það sem gerir fólk venjulegt eða óvenjulegt er ekki að vera rafvirkjar eða húsverðir eða bara menn heldur hvernig það bregst við í veröldinni, hvað það gerir, hvað það gerir ekki. Rafvirki gæti t.d. verið óvenjulegur fyrir að njóta þess að fá straum eða fyrir eitthvað óvinnutengt einsog t.d. að sleikja klósettsetur eða eitthvað sakleysislegt og sætt einsog að vilja helst dansa alla dansa afturábak eða eitthvað hræðilegt einsog að nauðga. Þá segjum við ekki lengur: þetta er venjulegur maður, heldur þetta er óvenjulegur maður og því til sönnunar bendum við ekki á að hann sé rafvirki heldur á það að hann hefur vísvitandi og af hvötum sem hljóta að teljast óvenjulegar nauðgað annarri manneskju. Annars er þetta algengt viðkvæði úr bandarískum true crime kúltúr – eða þaðan þekki ég það helst – að fjöldamorðinginn hafi verið / geti verið / sé venjulegi maðurinn í næsta húsi. Það er áreiðanlega mjög paranojuvekjandi að temja sér þann hugsunarhátt að hrottaleg ofbeldisverk geti verið framin af hverjum sem er, hvenær sem er og hvar sem er. Jafnvel þótt það sé fullkomlega raunsætt mat: óvenjulegt fólk er miklu víðar en maður heldur, óvenjulegir hlutir gerast oft, fólk, sérstaklega annað fólk, er fært um ýmislegt óvenjulegt. Maður missir þannig auðveldlega sjónar á því að ofbeldi er ekki reglan; og fer jafnvel að leggja saman tvo og tvo og óttast venjulegt fólk og krefjast róttækra aðgerða sem verji mann fyrir venjulegu fólki – enda sé það stórhættulegt – hættir jafnvel að fara óskjálfandi úr húsi. Um það eru mýmörg dæmi, þannig fólk er líka óvenjulegt en reynist líka úti um allt ef maður fer að gefa þeim auga.
Niðurtalning
Ef allt fer að óskum kemur ljóðabókin mín út í mars. Hún átti einu sinni að heita mjög ljóðrænum titli en á endanum ákvað ég að láta titilinn ekki þvælast fyrir henni og kalla hana bara Fimm ljóð . Ljóðin í henni – sem vill til að eru einmitt fimm – tala sannarlega saman en mér fannst alltíeinu óþarfi að vera að ákveða fyrir lesandann hvaða þráð væri þægilegast að lesa í gegnum þau, og raunar var titillinn sem ég hafði í huga alls ekki góður þráður, ekki sá mikilvægasti, og það hefur áreiðanlega stýrt ákvörðun minni líka. En það fylgir því líka að kannski langar mig ekkert að segja um bókina, hvorki fyrirfram né eftir útgáfu, langar ekki að vera persónulegur leiðsögumaður neins í gegnum hana – ég held hún krefjist heldur ekki leiðsögumanns, hún krefst þess vona ég bara að maður opni hana og láti berast í gegn. Mér finnst annars einsog ég hafi komið heim úr Náttúrulögmálatúrnum í gær og því alltof snemmt að fara strax að kynna aðra bók. Ég veit heldur ekkert hvað ég geri. Nema að ég fer áreiðanlega ekki aftur hringinn í kringum landið. Það er búið að bjóða mér að lesa á einum stað í Reykjavík. Ég hlýt að lesa eitthvað á Ísafirði – raunar las ég upp úr henni tvisvar hérna í haust. Akkúrat í dag er ég svo þreyttur – við komum heim frá Bangkok í gærkvöldi, ferðin tók tæplega 40 tíma – að ég nenni ekki einu sinni að hugsa um að fara að standa í einhverju húllumhæi. En ég skal koma hvert sem mér er boðið. *** Ég las All Fours eftir Miröndu July í fluginu. Ég var mjög hrifin af smásagnasafninu hennar á sínum tíma og ekki síður af The First Bad Man og hafði orðið var við mikið hæp í kringum All Fours svo væntingarnar voru í botni og því kannski ekkert skrítið að maður verði fyrir vonbrigðum. Sem var raunin, sumsé, þrátt fyrir góða spretti. Hún byrjar mjög vel – ímyndunarafl July nýtur sín afskaplega vel á meðan hún er að raða upp sögusviðinu og búa til plottið en úrlausnin, sem tekur alveg síðustu 60% bókarinnar, er einhvern veginn hversdagsleg eða banal. Sviðið minnkar og minnkar og endar bara ofan í naflanum á miðaldra forréttindakonu sem á of mikinn pening og of mikið kúltúrkapítal og hefur of mikinn tíma til þess að velta sér upp úr krísum sínum (sem virka fyrir vikið allar jafn merkilegar – sem þær eru augljóslega ekki) og ofan í þessum nafla er ekkert perspektíf á neitt af þessu, bara rörsýn, sem er í algerri andstöðu við sjóndeildarhringssprengingarnar í upphafi bókar þar sem manni virtist sem nú gæti heimurinn orðið endalaus. En sprettirnir sem hún á – bæði í mannlegri innsýn og þessum sprengingum í upphafi bókarinnar – gera hana auðvitað vel lestursins virði. Hún er líka til þess að gera fljótlesin miðað við lengd (en hún er samt „of löng“). *** Undarleg þessi draumslikja sem leggst yfir heiminn þegar maður er þreyttur. Hún er ögrun við veruleikaskynið. Mér finnst ekki einsog ég sé að skrifa þessi orð, mér finnst einsog mig dreymi það eða ég haldi bara að ég sé að því eða ég sé að rifja upp hvort ég hafi gert það, skrifaði ég þessi orð, er ég alveg viss, var það kannski einhver annar sem skrifaði þau og sagði mér bara frá því og í tímans rás hef ég einhvern veginn snúið þessu á haus og finnst núna einsog ég hafi skrifað þau, ég sé að skrifa þau. Hvað ætli sé að gerast í heilanum á manni þegar manni líður svona? Er líkaminn að skrá þessar minningar af jafn mikilli festu og aðrar – gleymi ég deginum í dag hraðar en öðrum dögum? Ætli þetta sé eitthvað skylt déjà vu? Er eitthvað sekúndubrot þarna á milli þess sem líkaminn tekur á móti upplýsingum og þar til hann skráir þær sem gerir það að verkum að allt virkar einsog minning – einsog endurkall frekar en bein upplifun? *** Ég veit núna að það er búið að mynda ríkisstjórn. Ég hef fengið meiri fréttir síðasta sólarhringinn en allan mánuðinn þar á undan. Af því að ég hlustaði á útvarpið í bílnum í gær og af því að ég fór í mat til mömmu og pabba. Ég heyrði að Logi væri menningarmálaráðherra – það kom fram í þættinum þar sem RÚV-verðlaunin voru veitt. Og svo spurði ég mömmu og pabba hverjir væru hinir ráðherrarnir og fékk það svona meira og minna upptalið fyrir mig. Svo horfði ég á The Daily Show í morgun og komst að því að það var framin hryðjuverkaárás í New Orleans á áramótunum. Já og mér var líka sagt að Trump ágirnist Grænland. Kannski var það í útvarpsfréttunum. Skógareldarnir í Los Angeles voru líka í útvarpsfréttunum. Einhvern veginn slær þetta mig allt sem frekar gagnslaus þekking. Eða endurtekin. Í öllu falli finnst mér ennþá áhugaverðari upplifun að fylgjast ekki með fréttum en að fylgjast með þeim. Mér finnst ég læra meira af því að heyra ekki af því sem almennt er álitið að maður ætti að frétta. Það hljómar áreiðanlega undarlega en er samt satt. *** Í kvöld ætla ég að fara snemma að sofa.
2024
Þetta var ævintýralegt ár, svona í baksýnisspeglinum að minnsta kosti. Ég fór til Grikklands í vor og tók þátt í bókmenntahátíð á Mamma Mia-eyjunni Skopelos – át feta, drakk ouzu og hlustaði á bouzouki-leik síreykjandi verta. Fór þaðan beint til Napólí í góðra vina hópi – að drekka vín og éta pasta. Með undraverðum árangri. Átti góða viku með fjölskyldunni úti í sveit fyrir utan Ekenäs/Tammisaari í Finnlandi, aðra í Helsinki og allavega tvær til í Eystra-Gautalandi og Vestmannalandi. Það var í sumar. Við Nadja gerðum okkur líka sérferðir til Malmö og norður til Skellefteå og Sundsvall. Í haust ráfaði ég svo um Kraká með vestfirskum kennurum og Katowice með pólskum skáldum. Og árinu lauk ég étandi og drekkandi í Bangkok, Ayutthaya og Koh Phayam. Ég lék, söng og dansaði í Fiðlaranum, fyrst í Edinborgarhúsinu og svo í Þjóðleikhúsinu, spilaði á bassa með Gosa, fyrst á Dokkunni á páskum og svo í Stúdíó RÚV með vorinu , hélt sóló-ljóðagigg og fór í gegnum ferilinn á bókasafninu á Ísafirði, stofnaði Tom Waits hljómsveit með 11 snillingum og setti upp heiðurstónleika í Edinborgarhúsinu. Ég lærði að díla við bandalausan fimm strengja Ibanez bassa og líka við kontrabassann hans Dúa vinar míns (sem kveikti mikinn kláða). Ég hélt áfram að læra frönsku og er orðinn bærilega læs og get skrifað bréf með orðabók þótt ég tali lítið. Ég kláraði ljóðabók sem kemur út snemmvors og byrjaði á alls kyns öðrum bókum – sumum, kannski flestum, sigldi ég nú bara í strand en aðrar eru að malla. Ég tók hlaupin – sem ég hef stundað í 12 ár – alvarlegar og ákvað að stefna á maraþon næsta haust. Fyrsta skrefið í því ferli var að koma sér í 10k form og náðist það í miðnæturhlaupinu hérna um daginn. Ég seldi réttinn á Heimsku til Póllands, þar sem hún kemur út í vor, og Náttúrulögmálin til Svíþjóðar. Því verður að vísu ekki neitað að ég var svolítið leiður að Náttúrulögmálin skildu ekki fara víðar og beinlínis í ástarsorg vegna viðskilnaðar við franska útgefandann minn – en sjálfshjálparviska ársins var líka sú að reyna að einblína frekar á bjálkann sem ég á en flísarnar sem ég á ekki. Plokkfiskbókin var svo tekin fyrir hjá uppáhaldssjónvarpskokkinum mínum – Kristni „Soð“ Guðmundssyni. Sú bók er koluppseld og eiginlega orðin fágæti. Ég veit ekki alveg hvað ég las margar bækur – bókabókin varð eftir á Íslandi og ég byrjaði ekki að nota Goodreads fyrren eftir mitt ár – en ég las a.m.k. þær tólf sem ég ætlaði mér og af þeim standa Ulysses, Njála og Infinite Jest óneitanlega upp úr. Og raunar miklu fleiri auðvitað. Ég kannski hripa niður betra lestraruppgjör þegar ég er kominn heim. Ég byrjaði að nota lesgleraugu eftir lesturinn á Ulysses – sem er ekkert skrítið, Joyce varð sjálfur staurblindur af að skrifa hana. Af þeim sem voru ekki á listanum hugsa ég áreiðanlega mest um La Pelle eftir Malaparte. Ég veit svo sem ekki hvað er síðan framundan. Annað en að ég kemst vonandi þetta maraþon í haust og ég ætla til Írlands í Ulyssesferð og ljóðabókin kemur út og það væri gott að komast í resídensíu til að skrifa í friði og ró og vonandi fæ ég að spila einhverja músík með fólki og vonandi tekst mér að leggja fyrir til að kaupa mér ódýran kontrabassa. Ég er ekki alveg búinn að útfæra lestrarmarkmið ársins en ég ætla að lesa bækur á öllum málum sem ég ræð nokkurn veginn við – sem eru þá sænska, enska, franska, þýska, norska og danska auk íslensku. Þýska bókin verður að vera fremur létt, ég hef ekki lesið að ráði á þýsku í næstum 20 ár – norsku og dönsku les ég aldrei en ætti að ræða bærilega við, norska bókin verður áreiðanlega Hamsun (nema ég reyni við Knausgaard, sem ég hef reyndar aldrei fallið fyrir). Og sænska bókin – ég les nú reyndar alltaf nokkrar sænskar bækur á hverju ári, en sú sem ég ætla að velja fyrir þetta – verður einhver langur klassíker, kannski jafnvel fleiri en einn. Kannski Jerúsalem eftir Selmu Lagerlöf (sem er í eftirlæti hjá Nödju) og einhver Strindberg. Ég er alltof illa að mér í sænskri klassík. Franska bókin verður að vera erfiðari en það sem ég hef lesið en samt ekki of þung – ég treysti mér ekki í Proust alveg strax. Kannski vel ég hana ekki fyrren eftir mitt ár – sé til hvað ég tek miklum framförum á þeim tíma. Það er nú ekki ensk bók en ætli Töfrafjallið verði ekki „enska bókin“ (ég les annars alltof mikið á ensku, en þar er úrvalið líka mest) – af því hana á maður að hafa lesið og hana hef ég ekki lesið. Danska bókin verður bók sem ég man ekki hvað heitir eða hvað fjallar um en það er bók sem fjarska gáfuð kona gaf mér einu sinni – hún tók við mig viðtal þegar Illska kom út i Danmörku og rétti þessa bók að mér og sagði: þetta verðurðu að lesa. Og var mjög sannfærandi. Mig minnir að bæði konan og bókin hafi verið af rússneskum uppruna. Og þótt ég muni ekki hvað bókin heitir veit ég hvar hún er í hillunni. Íslenska bókin verður ekki heldur íslensk, en á íslensku, og það er Hringadróttinssaga – sem ég hef ekki lesið áður og sem ég er að lesa núna með Aram (hann kláraði fyrstu bókina síðasta dag ársins og ég byrjaði lestrarárið 2025 á henni). Annars óska ég öllum lesendum bara gleðilegs árs.
Tæland
Rúmlega vika eftir af Tælandsdvölinni. Hvað þarf að færa til bókar? Miðnæturmaraþonið – sem var 10 kílómetrar hjá mér og ekki meira en 21 hjá neinum – var feykilega skemmtilegt. Ég veit að mörgum finnst hræðilegt að hlaupa og það er stundum hræðilegt að hlaupa – best er auðvitað að sitja, það vita allir – en þetta var samt skemmtilegt. Ég hef aldrei tekið þátt í svona íþróttaviðburði og hef ekki fengið medalíu frá því ég var 10 ára og fékk silfurverðlaun í dorgveiðikeppni fyrir að veiða minnsta fiskinn (fyrstu verðlaun voru fyrir stærsta og þriðju fyrir flesta). Þar á undan fékk ég að vísu bronsverðlaun í 60 metra hlaupi 6-7 ára drengja. Og nú á ég þrjár medalíur. Mig langar helst að ganga með þá nýjustu öllum stundum og alltaf vera í Bangkok Midnight Marathon bolnum mínum. Einsog gefur að skilja hef ég fengið mikið af góðum mat. Ég er þó ekki jafn yfirgengilega hrifinn og ég var af matnum í Víetnam. Kannski hef ég ekki ratað á réttu staðina. Maturinn er víðast hvar góður – bara ekki jafn frábær jafn víða og ég hafði reiknað með. En væntingarnar voru auðvitað í botni svo ég get sjálfum mér um kennt. Ég hef lesið svolítið. Kláraði Gravity’s Rainbow, sem var átak – hún er stundum mjög skemmtileg og stundum mjög leiðinleg. Las líka Njálu – hún var alltaf skemmtileg og miklu skemmtilegri en ég hafði reiknað með, kannski skemmtilegasta Íslandssagan. Báðar voru þær hluti af átaki sem gekk út á að lesa í ár 12 af þeim bókum sem mér fannst að ég ætti að hafa lesið en hafði ekki lesið (hinar tíu voru Ulysses, Infinite Jest, Dalalíf, Karitas án titils, Stríð og friður, Mrs. Dalloway, árstíðafjórleikur Ali Smith (tæknilega fjórar bækur), Money eftir Martin Amis, Jane Eyre og House of Leaves). Ulysses ætla ég svo að lesa aftur fljótlega og fara í ferð á Bloomslóðir og Dedalusar- til Dyflinnar í vor með tveimur vinum mínum. Ég las líka Orbital eftir Samönthu Harvey sem mér skilst að skipti fólki í fylkingar. Pólaríseri. Ég var frekar hrifinn af henni. Hún minnti mig á ferðalag sem ég fór í einu sinni til Parísar með vini mínum þar sem við eyddum viku í að sitja úti í glugga í íbúðinni sem við höfðum fengið lánaða, reykja sígarettur, drekka svart kaffi, maula bagettur og drekka rauðvín. Nautnina af hinu fyrirsjáanlega. Nautnina af augnablikinu. Nautnina af því að það gerist ekkert og maður þurfi ekki á því að halda. Nautnina af því að veröldin bara malli. En mér finnst ekkert skrítið að margir meiki hana ekki – það er ekkert dópamínkikk í henni, hún einhvern veginn bara er. Aðfangadagsbókin mín var Friðsemd eftir Brynju Hjálmsdóttur. Sem er svolítið einsog ef Douglas Adams hefði skrifað The Crying of Lot 49. Algert æði. Fyndin og rugluð og falleg og fullkomlega laus við að taka sig alvarlega. Ég bókstaflega sporðrenndi henni – og held hún verði mjög eftirminnileg, einhvern veginn engu lík. Nú er ég að lesa Memories of the Memories of the Black Rose Cat eftir Veeraporn Nitiprapha. Tælenskt töfraraunsæi hefur auðvitað annan blæ en suður amerískt en byggingin er samt kunnugleg – ættarsaga, 3-4 kynslóðir, ástir og ævintýri, stríð og sorgir. Ég er ekki frá því að ég sé hrifinn af þessu. Mig hefur líka langað að fara að endurlesa 100 ára einsemd í dálítinn tíma – ætli það komi ekki að því á nýja árinu. En það breytir líka öllu í kringum mig – hérinu nú, núinu hér – að lesa tælenska skáldsögu – og breytir miklu fyrir mig að hún sé alvöru tælensk en ekki eitthvað vestrænt eat-love-pray-sull eða bók eftir þriðju kynslóðar expat í Kaliforníu/London/Marseille sem er alinn upp á sögum ömmu sinnar og fetisjerar sjálfan sig í gegnum hálf-ímyndaða útgáfu af gamla landinu, einsog er raunin um mikið af „asískum“ eða „afrískum“ bókum og ég er farinn að hafa fjarska litla þolinmæði fyrir. Nitiprapha er verðlaunaður metsöluhöfundur sem býr hér og skrifar á tælensku – það er samhengi sem skiptir máli í heimi þar sem allt er að renna saman, öll hugsun að verða eins. Og einsog í öllum svona ættarsögum – eða vel flestum – liggur mikil saga undir og maður lærir hér mikið um Tæland á 20. öldinni. Þetta eru þrír staðir sem við höfum dvalið á hingað til og verða líklega ekki fleiri. Bangkok er ógurleg stórborg og eiginlega margir staðir og maður nær líklega aldrei að sjá nema brot af þeim. Við erum í Sukhumvit sem er einhvers konar miðbær. Umkringd verslunarmiðstöðvum á alla kanta. Hér eru djammgötur og götur þar sem nuddstofurnar eru augljóslega ekki bara nuddstofur og aðrar götur þar sem nuddstofurnar eru greinilega fyrst og fremst nuddstofur. Hér eru krár og veitingastaðir – bæði vestrænir og tælenskir og annars lags. Það eru aldrei meira en 20 metrar í næstu kannabisverslun og aldrei meira en 5 metrar í næsta Seven-Eleven. Samt er túristamettunin alls ekki svo mikil – það er miklu túristaþéttara í miðbæ Reykjavíkur en hér. Ayutthaya var ég eitthvað búinn að tala um. Musteri og dýralíf og það var mikil hátíð þegar við vorum í bænum – aðalgarðurinn fullur af bleikum fílum og sölubásum með djúpsteikt skordýr. Mikil túristaborg en langstærstur hluti túristanna asíubúar og sennilega flestir tælendingar. Mikið af fólki í sparifötum – einstaka í cosplay-búning – að láta mynda sig við musterisrústirnar. Koh Phayam er lítil eyja. Varla nema 6-7 kílómetrar að lengd og kannski 3 á breidd. Við vorum á strönd sem var kannski ekki afskekkt – enda varla hægt – en við skulum segja afsíðis. Þar voru samt nokkrir gististaðir og allir með sinn eigin veitingastað og auk þess barinn Hippie Bar, sem er eins konar risavaxinn trékofi sem byggingarreglugerðir hefðu bannað hvar sem er annars staðar. Þar eru börn bönnuð eftir klukkan 14 á daginn. Koh Phayam virðist vera talsverð djammeyja – og hér eru túristarnir svo til allir hvítir – en okkar afsíðis strönd var róleg og næs (Hippie Bar var á hinum enda strandarinnar og þar var að vísu dálítil dúnka-dúnka músík á jóladagskvöld þegar „DJ Svensson Technotronic“ lék lausum hala). Snorklið var frekar lélegt en það var gaman að sigla í kringum eyjuna – ég núvitundaði mig í botn, ber að ofan liggjandi á þilfarinu, starandi út í ljósbláan alheiminn meðan sjórinn gekk yfir bátinn. Börnin léku sér talsvert á alls konar brimbrettum á stóru ströndinni hinumegin á eyjunni. Annars var þetta mest afslöppun (og ákveðið frí í því að netið var lélegt og 4G notkun kostar morðfjár). Jólin. Við héldum þau. Á Heaven Beach. Ég pantaði mér kjúkling og franskar. Svo fórum við í kofann okkar til að opna gjafir. Ég fékk stefnumót við klæðskera (ég fer í fyrramálið), frumsamið ljóð, penna sem er merktur „elsku pabbi“, spa-heimsókn með Nödju og tælenskan stuttermabol. Við krakkarnir gáfum Nödju nýjan kindil í stað þess sem glataðist, ég gaf henni fallegt hálsmen, Aram fékk miða á Green Day og Weezer í Stokkhólmi í sumar og Aino fékk ýmislegt smálegt og dekurdag með mömmu sinni í Bangkok. Í dag átum við svo jólaskinku sem Nadja og pabbi hennar keyptu í IKEA – og graflax og hofmeistarasósu og allar græjur. Ég er ábyggilega að gleyma einhverju sem ég ætlaði að nótera hjá mér. Það kemur þá vonandi bara með næst.
Samhengislítill næturvaðall
Klukkan er að verða sex. Ég hef verið vakandi frá þrjú. Aldrei þessu vant ekki vegna þess að ég sé andvaka heldur vegna þess að ég er að reyna að snúa sólarhringnum við. Snúa sólarhringnum enn meira við, meina ég. Ætli klukkan sé ekki að verða ellefu að kvöldi á Ísafirði? Sem þýðir að ég hef farið á fætur um það leyti sem kvöldfréttirnar … nei það eru líklega áratugir frá því kvöldfréttir voru klukkan átta. Það er samt veruleikinn sem ég er alinn upp við. Kvöldfréttir klukkan átta. Ekkert sjónvarp á fimmtudögum. Prins Póló í opnum álpappírsumbúðum (súkkulaðistykkið, ég reikna með að strákurinn hafi verið í Don Cano galla eða í versta falli Henson). Good times. Í mínum heimi verða eðlilegar kvöldfréttir alltaf klukkan átta. Ég er svolítið þreyttur. Á morgun – altso, aðra nótt – er Bangkok Midnight Marathon og strax og það er búið brunum við út á flugvöll. *** Ég hef ekkert fylgst með fréttum. Bókstaflega ekki neitt. Ekki heldur horft á kvöldfréttir eða hlustað á útvarp. Það eina sem ég veit um síðustu tvær vikurnar er það sem fólk hefur sagt mér. Tengdafaðir minn sagði mér t.d. eitthvað um að … uh … Google kannski … hefði fundið upp einhvern tölvukubb sem væri … hvað sagði hann? Það var einhver ægileg tala. Og tölvukubburinn var svo mörgum sinnum kraftmeiri en næstkraftmesti tölvukubburinn í heiminum. Þetta mun breyta öllu. Svo var víst einhver rappari skotinn í Svíþjóð. Steinar Bragi sagði eitthvað í Lestinni sem fór fyrir brjóstið á fólki á Facebook – kannski hugsanlega að fólkið í Kiljunni væri ómarktækir gamlingjar. Og að hann hefði fundið upp gervigreindina. Svo fékk hann þann dóm í þeim sama þætti að hann ætti bestu bók ársins. Halldór Armand er áfram skiljanlega svekktur að fá ekki listamannalaun og stillir því, að því mér er sagt, þannig upp að það sé vegna þess að hann skrifi bækur sem eru fagurfræðilega, siðferðislega og/eða pólitískt of langt frá meginstraumnum, misbjóði úthlutunarnefndinni – hann sé eins konar Burroughs/Celine/Duras sinnar kynslóðar. Ég veit ekki hvort það er búið að mynda ríkisstjórn en mér finnst það ólíklegt. Er forsvaranlegt að segja svona fréttir? Sem eru ekki fréttir. Fréttir sem berast manni frá öðru fólki – frekar en í gegnum skjái, hátalara eða pappír – eru ekki fréttir heldur slúður. Eða upplýsingaóreiða. Ég veit ekki einu sinni hvort bókmenntafréttirnar hafa verið í fréttunum eða bara á Facebook eða bara í einhverju kaffihúsaspjalli. Einu sinni hélt ég hérna lestrardagbók – skrifaði jafn óðum um allt sem ég var að lesa, meðan ég var að lesa það – og fékk bágt fyrir vegna þess að eðli málsins samkvæmt var ég yfirleitt að skrifa um bækur sem ég var ekki búinn með . Þetta er kannski svipað. Nema þetta sé meira einsog ég sé að skrifa um bækur sem einhver hefur bara sagt mér frá. Ég var þó allavega byrjaður á þessum bókum þarna í gamla daga. Ég veit ekki einu sinni af hverju ég er að missa. Stríðin geisa væntanlega enn? Af og til eru hælisleitendur sendir úr landi. Einhver er „svarti folinn“ á metsölulistanum en annars er Arnaldur alltaf í fyrsta sæti. Vinsælustu bækurnar (sem eru ekki krimmar) unnu bóksalaverðlaunin – Hallgrímur og Gunnar, kannski? Það var áreiðanlega a.m.k. ein Kristín tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. *** Ég er mjög þreyttur. Planið er að reyna að sofna klukkan sex í dag og vakna svo klukkan þrjú. Úthvíldur í það skiptið. Mörgum finnst ekkert mál að hlaupa tíu kílómetra en mér finnst það heilmikið.
Dýraríki
Það eina sem ég veit um hesta er að maður á aldrei að standa fyrir aftan þá nema maður vilji láta þá drepa sig með afturfótasparki. Þegar ég fer út að hlaupa í suðaustur-Asíu lendi ég iðulega í einhverjum … hvað á ég að kalla það, ævintýrum, samskiptum, útistöðum? – við dýr. Ég kannast ekki við að þetta eigi við í öðrum heimshlutum sem ég hef hlaupið í. Og þó – einu sinni réðst á mig hundur þar sem ég var að hlaupa við Dónárbakka og hélt mér föngnum með ofsa sínum um hríð, meðan drukkinn eigandi hans bað mig í guðanna bænum að vera rólegan (mig, sem stóð grafkyrr, sem frosinn hreinlega, og hefði ekki getað verið rólegri, a.m.k. ekki á ytra byrðinu). Ég sagði sjálfsagt frá því í greininni sem ég skrifaði um Víetnamdvöl okkar fjölskyldunnar í TMM – og allt gott fólk hefur lesið og lagt á minnið – þegar ég fældi buffalahjörðina og þegar kýrin reyndi að stanga mig út af göngustígnum og ofan í hrísgrjónaekrurnar (hrísgrjónaekrur eru á votu). Og frá horuðu villihundunum sem hunsuðu mig alltaf, hreinlega einsog ég væri ekki til, meðan þeir sleiktu viðbjóð úr göturæsinu; frá lausu varðhundunum sem trylltust þegar ég hljóp framhjá og eltu mig geltandi þar til þeim fannst ég kominn hæfilega langt frá heimili sínu. Og hér um daginn hafði ég áreiðanlega á orði að ég hefði hlaupið fram á hest sem þveraði göngustíginn – hann var að vísu bundinn og alls ekki með neina stæla. En sama dag var ég líka að hlaupa eftir auðu ómalbikuðu bílastæði og steig næstum því á hund sem lá þar sofandi – ljósbrúnleitur og samlitur þurrum jarðveginum. Hann gerði nú ekki meira en að spretta á fætur og varð mér meira bylt en honum. Korteri áður hafði laus varðhundur – tælenskur, ekki víetnamskur – einmitt elt mig geltandi um skeið (og þá var ég auðvitað að hlaupa niður blindgötu og þurfti að læðast framhjá honum aftur örskömmu síðar, undir illu auga). Við stíg einn spratt eitthvað stórt í gegnum sefið og skaust út í ána – ég held það hafi verið varanus salvator , eðla nokkur sem er ríflega metri yfirleitt og við sáum við önnur tilfelli, en ég sá það ekki vel. Við enda þess stígs kom ég svo út á hanamarkaðnum, bakdyramegin, við mikla furðu hanasölumanna sem skildu ekkert hvaðan þessi tveggja metra Íslendingur kom, kófsveittur og grettur af glímu við hitann og fæturna á sjálfum sér og dýraríkið í bænum. Nema hvað. Í gær var ég að hlaupa í Benchakitti garðinum í Bangkok. Þetta er fallegur garður umleikis stöðuvatn – myndin sem fylgdi síðustu færslu er tekin þar – og þarna er gjarnan mikið af hlaupurum í kringum ljósaskiptin. Og þá sópaðist eitthvað undan fæti mér, eitthvað mjúkt en dálítið þungt í því, dálítill súbstans, og ég leit niður og sá þar stóreflis rottu þeysast áfram nokkra metra undan (óviljandi) sparki mínu og skjótast svo inn í runnana strax og ferðinni lauk, af umtalsvert meiri snerpu en ég sýndi þarna úti á hlaupastígnum. Svona nokkuð gerist aldrei á gönguferðum, bara þegar ég hleyp, og bara í Suðaustur-Asíu. Eða við Dónárbakka.
Óreiða beint úr hlaupinu
Þessa mynd tók ég í ljósaskiptunum um daginn, þegar ég var úti að hlaupa. Á henni er enginn filter, birtan var bara svona. Það er stundum sagt að við lifum á tímum mikillar upplýsingaóreiðu en kannski erum við bara meðvitaðri um þá litlu upplýsingaóreiðu sem við við lifum við vegna þess að allar upplýsingar eru meira og minna einn smell í burtu – kannski hefur hin eiginlega upplýsingaóreiða aldrei verið minni, upplýsingarnar sem í umferð eru aldrei verið áreiðanlegri. Ég hélt því fram á dögunum að H.P. Lovecraft hefði skotið sig í hausinn eftir að hafa komist að því að mamma hans var dauðvona. Mér hefur verið bent á að þetta sé alls ekki satt. Að vísu er þetta ekki alls kostar ósatt heldur – það var bara ekki HP heldur vinur hans sem gerði þetta. Þannig hefur flökkusagan orðið til. Ég hefði betur slegið því upp um leið og ég sló upp aldri hans þegar hann dó (46 ára, úr krabbameini – en ég hef dánarorsökina að vísu bara eftir sömu heimild og hitt, að hann hafi ekki skotið sig í hausinn í kjölfar þeirra tíðinda að móðir hans hafi greinst með ólæknandi sjúkdóm og myndi brátt deyja, þ.e.a.s. frá glöggum lesanda, ég hef engu slegið upp enn). En það er óverjandi að halda þessu fram við þessar aðstæður. Ég dreg allt til baka. Lýsi orð mín dauð og ómerk. *** Við erum komin til baka til Bangkok frá Ayutthaya. Síðasta deginum eyddum við á laugarbakkanum svo nú er ég sólbrenndur – ég sem sólbrenn aldrei. Ég er að berjast í gegnum Gravity’s Rainbow eftir Thomas Pynchon og kannski er það bara þess vegna sem ég er sólbrenndur. Mér finnst það ekkert ólíklegra en hitt að ég hafi sólbrunnið vegna þess að ég var of lengi að spóka mig á sundlaugarbakkanum. En á endanum kláraðist rafhlaðan í kindlinum og þá kom í ljós að snúran hafði orðið eftir í höfuðborginni og þá neyddist ég til að fara að gera eitthvað annað. Annars væri ég miklu verr leikinn á öxlunum. Við borðuðum mikið í Ayutthaya og gerðum næstum alltaf sömu mistök: að álykta að skammtarnir væru minni en þeir svo reyndust og panta of mikinn mat. Og gera heiðarlega tilraun til þess að klára hann á þeim forsendum að noti maður ekki kjaftinn á sér fyrir ruslafötu sé maður að stuðla að matarsóun, með tilheyrandi loftslagsáhrifum og auknu hungri í heiminum. Svona erum við meðvituð og samviskusöm. Í gærkvöldi reyndum við líka að fara á „roof top bar“ en þar mætti okkur vaskur barþjónn sem sagði grafalvarlegur (eða nei, skælbrosandi) að hér væri ekkert í boði nema bjór. Fyrir aftan hann stóð fremur fáklædd ung kona með brjóstin langleiðina upp úr þröngu haldi – ég dreg af því mínar ályktanir. Í öllu falli fórum við ekki upp á þak að fá okkur bjór heldur á götukaffihús þar sem börnin gerðu þau mistök að kaupa sér „taro“ smúðing – í skiljanlegri og virðingarverðri tilraunagleði – en fannst svo báðum hann afar vondur. Ég fékk mér bjór – hefði í raun getað gert það á „roof top bar“ líka – en Nadja glataði vatnsmelónukokteilnum sínum ofan í yngra barnið, sem bar sig afar illa. Svo fórum við á veitingastað og pöntuðum okkur áreiðanlega þrjátíu ólíka rétti sem voru samt flestir djúpsteiktur kjúklingur (þótt tvö okkar fjögurra borði ekki einu sinni kjúkling) og ég hafði varla neina matarlyst aftur fyrren í kvöld. Eftir fimm daga erum við Nadja skráð í Bangkok Midnight Marathon. Við ætlum ekki að hlaupa maraþon samt, enda er það ekki í boði, og ekki heldur hálfmaraþon, þótt það sé reyndar í boði, heldur 10 kílómetra. Bangkok Midnight Marathon hefst ekki heldur á miðnætti heldur klukkan fjögur að nóttu – eiginlega stenst ekkert í heitinu nema „Bangkok“ (ætla ég rétt að vona). Ég hef aldrei áður tekið þátt í neinu svona skipulögðu hlaupi – eiginlega varla nokkurn tíma hlaupið öðruvísi en einn. Þetta verður áreiðanlega mjög gaman. Mér skilst maður fái frían bol. Úr hlaupinu förum við svo beint upp í flugvél með öllu sænska slektinu hérna og fljúgum til Koh Phayam þar sem til stendur að jóla jólin í ár.