Au revoir

Ég er farinn í sumarfrí. Sem gæti reyndar þýtt að ég bloggi meira, frekar en minna, þótt ég vilji helst engu lofa um það. Ég yfirgaf Ísafjörð í morgun, keyrði til Hólmavíkur og fékk mér hálftíma lúr á bílastæðinu við sundlaugina, hélt svo áleiðis í Búðardal (þar sem vera má að ég hafi séð Jón Karl Helgason út undan mér, á hlaupum – ég, ekki hann, mér var mál á klósettið og við erum ekki nema rétt svo nikk-kunnugir), þaðan brunaði ég um dalina upp á fjall og niður Bröttubrekku – sem mætti nú alveg kalla Bi-Frost, fyrir túristana – í Borgarnes þar sem ég fékk mér borgara og bensín (og pissaði meira) og stoppaði ekkert fyrren ég kom að Heklu – ekki eldgosinu, þar er ekkert eldgos, ég sá hitt eldgosið frá Akranesi, en ég er að meina bílaumboðið við Laugaveg. Þar var bíllinn minn bilanagreindur og fékk tíma í viðgerð einhvern tíma um miðjan september (þetta er að verða einsog heilbrigðiskerfið). Þá ákvað ég að fara í sund, keyrði að Laugardalslauginni þar sem var stappfullt af fólki sem var augljóslega á leiðinni í sólbað, sem mér fannst ekki sjarmerandi svo að ég keyrði upp í Árbæ – í þá laug hafði ég farið einu sinni (með framúrstefnuskáldi) og þá var tómt en nú var allt fullt af fólki með sundbolta undir hendinni á leiðinni í sólbað svo ég hætti bara við þessi andskotans sundplön og fór niður í Nauthólsvík til að hitta Hauk Má þar sem við fórum hreinlega í göngutúr. Þangað hafði ég ekki komið frá því við Haukur héldum sameiginlega upp á afmælið okkar fyrir líklega 23 árum síðan. Margt hefur breyst en ég ætla ekkert að fara að telja það upp. Eftir kaffi og göngutúr lét ég Hauk fá bók til þess að skila til Lomma fyrir mig – God’s Anatomy eftir Francescu Stavrakapoulou, en vegna nýju bókarinnar minnar þurfti ég nauðsynlega að kynna mér líkamslýsingar á Drottni almáttugum, Lommi var vant við látinn og gat ekki tekið við henni sjálfur (að á áheyrn hjá Lomma er einsog að fá áheyrn hjá páfanum). Nú loks keyrði ég í áttina að eldfjallinu, á bilaða bílnum mínum, og svo framhjá því – akkúrat um það leyti [SPOILER ALERT] sem Ásta Sóllilja lést og Sjálfstæðu fólki í flutningi Jóhanns Sigurðarsonar (á 1,5 hraða) lauk – til Keflavíkur þar sem ég fékk mér tælenskan skyndibita. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu. Hér sef ég í nótt og flýg til Svíþjóðar í fyrramálið. Þar verð ég fram að mánaðamótum en þá förum við Nadja til Montpellier í tæpar tvær vikur.

Sjálfstætt fólk

Sænski útgefandinn minn – og góðvinur – kynnir mig stundum á svið með þeim orðum að ég sé eini íslenski rithöfundurinn sem hafi ekki lesið „Fria män“ eftir Halldór Laxness. Það er að segja Sjálfstætt fólk. Á dögunum kom svo fram í útvarpspistli að Kára Tulinius ofbauð svo meðferðin á Ástu Sóllilju – og fannst sálarlíf hennar svo óskiljanlegt – að hann lagði hana frá sér hálfkláraða fyrir margt löngu og hefur aldrei litið við henni aftur (né, að heyra mátti á pistlinum, neinu því sem skrifað hefur verið um hana). Um það mætti svo sem segja margt og flest af því myndi lýsa samtímanum ágætlega en við skulum láta það vera – þetta varð til þess að ýta við mér, nú væri kominn tími til að lesa þessa bók sem allir eru sammála um að sé öðrum ágætari. Fyrst ég væri alls ekki eini íslenski rithöfundurinn til að hafa ekki lesið hana. (Að vísu gæti verið eins farið um Sjálfstætt fólk og 1984 – en félagsfræðingar hafa sýnt fram á að a.m.k. fjórðungur þeirra sem segjast hafa lesið hana hafi alls ekki lesið hana; en margir þeirra telji sig jafnvel hafa gert það, af því hún er orðin hluti af einhverri almannavitund, rist í þjóðarsálina). Fyrir nokkrum vikum var ég síðan staddur í fríhöfninni og kippti með mér eintaki sem ég komst reyndar ekkert í fyrren nokkru eftir að ég var kominn aftur heim. Þá uppgötvaði ég mér til tafarlauss hryllings að þetta fríhafnareintak var með „nútímastafsetningu“ og þess utan fullt af orðskýringum neðanmáls. Einhvern tíma hafði ég íhugað að lesa þessa bók á ensku – ef ekki hreinlega bara á sænsku – í þeim tilgangi að fremja einhvers konar andleg landráð en mér hafði aldrei dottið þetta í hug, að lesa hana bara uppfærða og útskýrða í drep (a.m.k. helmingurinn af orðskýringunum er á orðum sem finna mætti í hvaða nútímaskáldsögu sem er). Ég veit ekki hvort það eru sams konar landráð – en ekki er það sérlega eðlilegt heldur. Stafsetningin truflar mig að vísu lítið, þótt mér finnist stafsetning HKL fallegri á hans eigin bókum, en neðanmálsgreinarnar voru að gera mig vitlausan – ekki af því það væri ekkert á þeim að græða heldur vegna þess að ég get ekki lesið svona með augun á þeytispani út um allar síður, fram og aftur, upp og niður. Ég legg frá mér símann og fer að lesa bók einmitt til þess að komast út úr slíku einbeitingarleysi – komast í einhvern viðstöðulausan þráð, falla inn í annan heim, sem er heill og ekki með einhverju orðabókar-voice-over-i. Og ég er ekki gæddur þeirri athyglisgáfu að geta sleppt því að lesa neðanmálsgreinarnar heldur. Ég á satt að segja mjög bágt með að ímynda mér að það sé auðveldara fyrir nútímamann (nútímaungmenni? fyrir hvern er þetta gert?) að lesa þessa útgáfu en þá upprunalegu. Það tekur áreiðanlega nokkrar síður að venjast stafsetningunni hafi maður aldrei komist í kynni við hana, og undarleg orð lærir maður að skilja af samhengi sínu, það er nú meðal annars listin að lesa – en þetta er einsog að reyna að lesa orðabók og skáldsögu samtímis. Einsog einn amerískur vinur minn orðaði það: „It’s not like it’s Beowulf“. Mér leið í öllu falli einsog ég væri kominn á skólabekk. Ég las þetta samt – mjög hægt fram yfir miðja bók, fram yfir hina hræðilegu senu sem áður var nefnd (og birtist raunar nokkrum síðum eftir að gert er gys að nafninu Tulinius – hjá kaupmanninum Tuliniusi Jensen) – og gafst svo upp og sneri mér að hljóðbókinni í staðinn. Hún er ágæt en ég hlusta eiginlega bara á hljóðbækur þegar ég er að sinna húsinu eða keyra og þessa dagana er ég að gera hvorugt. Svo þetta gengur mjög hægt hjá mér. Ég gæti að vísu hæglega fengið orginalinn lánaðan en ég er byrjaður að lesa annað (Sportswriter eftir Richard Ford byrjar vel; Blixthalka eftir Erik Helmerson var hræðileg; Áður en ég breytist eftir Elías Knörr dásemd) og ætla á aðrar slóðir. Kannski finnst mér hún ekki heldur bara góð – þótt ég sjái hvers vegna hún er það. Auðvitað er þetta „helvíti gott“ en þetta er líka helvíti tilgerðarlegt – hann er rosalega mikið að flexa og virðist hafa haldið að fólk ætti að hafa endalausa þolinmæði fyrir rómantískum deleringum sínum um eðli mannlífsins. Þær eru stundum fínar þessar „perlur í verkum Laxness“ en þær eru líka óþolandi. Þá líður mér svolítið einsog ég sé orðinn tvítugur aftur þegar ég les HKL – og ekki á góða mátann. Ég hef nefnilega ekkert gert það frá því ég var um tvítugt og las megnið – en skildi þessa eftir. Og það var sennilega bara eitthvað fleira en stælar sem gerði það að verkum að ég las ekki þessa bók fyrren nú (sem ég hef auðvitað bara hálflesið enn sem komið er – en það er víst í tísku að tjá sig um hálflesnar bækur). Annars er bara allt mjög gott að frétta!

Sýslumaður og biskup

Einhvern tíma í vor skrifaði Steinar Bragi mér og spurði hvort ég hefði áhuga á ljóðabókum úr dánarbúi og sendi mér myndir af kjölum. Ég safna ljóðabókum og pikkaði út ýmislegt áhugavert en svo dróst að ég kæmist að sækja þær. Um daginn átti ég loksins leið um Reykjavík og stökk til og náði í þetta – tvo poka af bókum – og keyrði með þá vestur. Á helginni fór ég í gegnum pokana og skoðaði og kom fyrir í safninu. Tók ég þá eftir því mér til nokkurrar furðu að margar þeirra voru stimplaðar með nafninu „Jón Hallvarðsson“ og jafnvel áritaðar „til Jóns Hallvarðssonar“. Ég spurði Steinar út í þetta og hann sagði mér að langafi sinn – sem lést 1968 – hefði heitið þetta og verið sýslumaður á Stykkishólmi. Og þá var mér eiginlega öllum lokið. Ein aðalsöguhetja bókarinnar sem ég lauk við fyrir fáeinum vikum – ef ekki bara stjarna bókarinnar – heitir nefnilega Jón Hallvarðsson og er embættismaður frá Stykkishólmi. Að vísu ekki sýslumaður heldur biskup – yngsti, fegursti og óviljugasti biskup Íslandssögunnar – en það er sama. Það fylgir því talsverð óraunveruleikatilfinning að raða ljóðabókum í hillurnar mínar sem stimplaðar eru með þessu nafni á sama tíma og ég er að lesa bókina aftur og aftur. *** Ég er annars frekar peppaður fyrir þessu jólabókaflóði. Kannski væri ráð að halda það bara á sumrin. Maður er svo miklu peppaðri í júní en í nóvember. Svo skrifaði ég líka fyrstu tvær setningarnar í næstu bók áðan. Ég er ekki síður peppaður fyrir þeim.

Tiltekt

Stundum held ég að lífið snúist um að finna stöðugt lausnir sem enginn er svo óánægður með að hann gefist upp. Ég hallast síðan að því til skiptis að það að vera fullorðinn sé að sætta sig við þetta hlutskipti og að sætta sig ekki við það – krefjast þess að vera ánægður, sama hvað það kostar. Börnum þykir yfirleitt alltaf óréttlæti ef á þau hallar – og eiga ríkari kröfu á að vera ánægð en aðrir – en fullorðnir eiga að reyna að setja hlutina í samhengi og fórna eigin hagsmunum, ef við á – fórna réttindum fyrir skyldur, jafnvel, eða í öllu falli leysa úr hagsmunaárekstrum eða ólíkum löngunum með málamiðlunum eða öðrum álíka lausnum, sem eru sem sagt ekki alltaf þess eðlis að allir sem að þeim koma séu bara glaðir. Stundum eru allir bara jafn vonsviknir. Sem er sennilega betra en að allir séu misvonsviknir – að einhver sigri og annar tapi. *** Ég hef lítið sofið frá því flensan leið úr mér. Þetta er að verða viðtekið vandamál – að flensum fylgi margra daga andvökur, stundum með fótaóeirð og stundum án. Ég held ég hafi sofið í tvisvar sinnum tvo tíma í nótt – með göngutúrum um húsið og lestrarpásum inn á milli. Sem er minna en næturnar tvær á undan en ég er samt skárri í dag en í gær þegar ég var líka með einhvers konar mígreni. Ég er ekkert að skrifa. Það er hluti af vandamálinu. Það þarf líka að sinna öðru – hef til dæmis verið að taka til á skrifstofunni, sem var áríðandi verk – en ég veit alveg hvernig það fer með mig. Ekki tiltektin sem slík heldur stefnuleysið utan bókar. Ég hef lifað næstum jafn mikið í fiksjónal heimum síðustu 25 árin – í mínútum og klukkustundum talið – og ég hef lifað lífinu utan þeirra og er löngu orðinn háður þessu. Að ráða aðstæðum. Leika guð. Lífið utan skáldskaparins er alltaf sýsífosískara – eða skortir í öllu falli lögun, það heldur bara áfram, án endurskrifta, athugasemda, eða sjáanlegrar niðurstöðu eða lendingar. Þar er maður líka peð sem bíður þess eins að vera hreyft. Altso, það eru of margar senur þar sem aðalsöguhetjan hangir bara í símanum og veltir því fyrir sér hvort hann hafi skoðun á einhverju (sem maður hefur alltaf, þegar maður hefur hugsað um það nógu lengi – en til hvers?) *** Það er mjög fínt á skrifstofunni minni. Ég hengdi upp gömul nýhilplaköt og verðlaunaskjöl sem ég lét hverfa einhvern tíma í fyrra, þegar þau voru farin að fara í taugarnar á mér. Ég pússaði meira að segja Íslensku bókmenntaverðlaunin mín, sem voru orðin klístruð af gömlu ryki og dálítið bogin eftir að ég notaði þau til þess að negla nagla í skáp – um svipað leyti og ég lét skjölin hverfa. Skrítið hvernig svona hlutir – gamlir sigrar – geta nánast valdið manni jafn mikilli skömm og stolti. Eða kannski er það ekkert skrítið. Velgengni er líka umsátur um sjálfsmynd manns og ég hef alltaf verið viðkvæmur fyrir því að leyfa utanaðkomandi öflum að ákveða hver ég er. En ég hef sem sagt tekið þetta allt í sátt – í bili – og fundið fínan stað fyrir þetta í hillunum, sem er búið að skipuleggja, ljóðabókunum hefur aftur verið raðað í stafsrófsröð, ég er búinn að hækka skrifborðið mitt, þurrka af því kaffiblettina og panta mér nýjan stól, skúra gólfið og búa til nýjar bókastoðir. Hér er allt sem sagt að verða tilbúið fyrir næstu bók. Ég er meira að segja með frekar skýra hugmynd um uppleggið en þarf að vinna dálitla – kannski mikla – heimildavinnu áður en ég get hafist handa. Sem er auðvitað hræðilega frústrerandi. En lífið getur ekki verið endalaus rússíbanareið. Svo bíður líka nittpikk og próförk að nýju skáldsögunni. Og kápa. Auk þess er ég búinn að lofa að kynna hana einhvern veginn á Tálknafirði í næsta mánuði – er með óljósa hugmynd um hvernig ég fer að því, sem ég þarf að vinna betur í. Mig langar svolítið að fara löngu leiðina suður í haust – fara á suðurfirðina og þaðan á Strandir, Norðurland, Austurland, Suðurland og lesa upp víða og þá þarf ég eiginlega að vera með upplegg sem virkar fyrir mig einan. Og eitthvað gistingaplan sem kostar ekki handlegg – því það eru víst ekki miklir peningar í upplestrartúrum. Tálknafjörður mun sennilega skera úr um þetta – hvort þetta sé vænlegt verkefni. Ég er með einhverja óljósa hugmynd líka um að jólabókaflóðið sé bærilegra ef ég held mér bara sæmilega uppteknum.

Fúsk

Í Svíþjóð geisar fúskfaraldur í bókmenntum – skilst mér á tveimur nýlegum greinum sem ég las ( hér og hér ). Annars vegar er um að ræða faraldur alls konar námskeiða í ritlist þar sem kennarar eru víst vægast sagt misvandaðir. Og hins vegar er faraldur af instagram-gagnrýni – sem sagt er að taki yfir bókmenntaheiminn (svo allir eru hættir að hlusta á atvinnugagnrýnendur). Það þarf enga menntun til þess að kenna ritlist og það úir og grúir af námskeiðum, bæði á netinu og í raunheimum, og þeim fylgir víst gjarnan einhvers konar loforð um „uppfyllingu draumsins“ – að nemandinn fái fljótlega eftir útskrift að lifa unaðslífi rithöfundarins, umlukinn aðdáun annarra með alla vasa fulla fjár. Ef sá árangur tefst eitthvað er oft líka til sölu „útgáfuþjónusta“ – þar sem kúnnarnir (því svona nemendur eru auðvitað fyrst og fremst kúnnar) geta annað hvort greitt fyrir „ritstjórn fagmanneskju“ og „aðstoð við sjálfsútgáfu“ eða hreinlega borgað fyrir útgáfu hjá því sem einhvern tíma var kallað vanity-pressa – forlag sem tekur greitt fyrir að gefa út höfunda sína. Í einhverjum tilvikum getur „forlagið“/„ritlistarskólinn“ aðstoðað þá við fjármögnun og hjálpað þeim að fá smálán. Það er svo Gabriella Håkanson sem skrifar um alvöru gagnrýnendur í Sydsvenskan – og kemur með marga punkta henni til varnar. Instagram-krítikin hverfi út í eterinn og því myndist engin uppsöfnuð þekking; gagnrýnendur í blöðum velji sér ekki bækur eftir áhugasviði einsog instagram-krítíkerar; og síðast en ekki síst sé bókagagnrýni í blöðum ekki fyrst og fremst meðmæli einsog instagram-krítíkin getur verið, heldur greining – ekki bara á bókmenntaverkinu heldur samhengi þess. Þetta síðasttalda held ég að sé mikilvægast og snýst ekki beinlínis um „eðli“ – það er ekkert sem segir að maður geti ekki skrifað alvarlega og úthugsaða krítík á instagram – heldur kúltúr, því það er eiginlega enginn sem gerir það (og ef það er einhver sem gerir það grefst viðkomandi augljóslega strax undir í algóritmanum). Dagblaðið getur líka valið að halda að þér vönduðu gæðaefni jafnvel þótt þú myndir bara troða í þig klikkbeitusykri ef þú fengir sjálfur ráðið. Instagram matar þig bara á sykurdrullunni ómengaðri. Ég veit ekki hvaða hliðstæður þetta allt gæti átt sér á Íslandi. Einhverjar, augljóslega. Fyrir að verða áratug ætlaði ég að fá bíómiða fyrir gagnrýnanda Starafugls á einhverja stórmynd en fékk neitun á þeim forsendum að bíókeðjan væri hætt að útvega gagnrýnendum miða – bara „inflúensarar“ fengju miða. Þá hafði ég aldrei heyrt þetta hugtak og fólk var ekki byrjað að tala um áhrifavalda. En frá viðskiptasjónarmiði meikar það auðvitað sens – þú vilt vekja athygli á myndinni og þá er miklu betra að fá eitthvað seleb til þess að birta mynd af sér við innganginn á bíóinu fyrir mynd – „ofsa peppaður!“ – heldur en að senda einhvern lúða í ljótri úlpu til þess að sitja út í sal, hugsa fyrst um myndina og skrifa SÍÐAN eitthvað þegar viðkomandi er búinn að HUGSA MÁLIÐ. Það kann bara ekki góðri lukku að stýra. Enn er samt bíórýni á stóru miðlunum. Svo er slatti af ritlistarnámskeiðum en þau eru nú flest held ég hugsuð fyrir almenning – og ekki til þess að fara í eitthvað meik. Þeir sem ætla í meikið fara væntanlega í ritlistina í HÍ? Eða? Ég hreinlega þekki þetta ekki nógu vel. Ég held að Bókasamlagið bjóði upp á svona útgáfuþjónustu – en veit svo sem ekki hvernig hún lítur út. Það er mjög lítið af instagram-gagnrýnendum – og fæstir birta neinn texta af viti eða myndbönd. Bara mynd af einni og einni bók. Það eru nokkrar bloggsíður og svo er fólk virkt á fb-síðum einsog bókagulli – þar fara bókameðmælin fram. *** Annars er fátt að frétta. Ég skilaði af mér handriti eftir athugasemdir í gær. Var ég búinn að segja einhvers staðar hvað bókin heitir? Er það kannski ennþá leyndarmál? Á laugardaginn þarf að ferma Aram. Borgaralega. Ég er með flensu (og neikvætt covid-próf). Suma daga er veðrið ágætt en aðra daga ekki. Og allt mallar þetta áfram bara.

Hin fráu og trylltu

Ég er á fremur undarlegum stað andlega – hugurinn á mér er í skrifaðri bók sem ég hnika til millimetra fram og aftur en það sækja fáar nýjar hugmyndir að mér. Ég sit yfir handritinu alla daga milli þess sem ég laga til á skrifstofunni minni sem var orðin alger svínastía. Meðal þess sem ég hef gert var að hækka skrifborðið mitt en rak mig þá á að stóllinn minn er eiginlega of lágur núna. Þetta er eitt af vandamálunum við það að vera nærri tveir metrar á hæð – mér veitist oft erfitt að láta venjulega hluti passa mér. Ég er búinn að gúgla öllum mögulegum skrifstofustólum en hef ekkert pantað, ekkert keypt, aðallega af því að ódýra uppþvottavélin sem við keyptum fyrir átta árum gaf upp öndina (í annað sinn á einu ári) og við ákváðum að laga hana ekki aftur og kaupa ekki heldur aðra ódýra og endingarlélega, heldur dýra og endingargóða, og hún kostaði meira en fyrsti bíllinn minn. Og raunar líka helmingi meira en annar bíllinn minn (Nissan Pulsar, 88 módel, sem ég keypti fyrir fyrirframgreiðsluna af fyrstu skáldsögunni minni – ekki samt 1988). En þá erum við auðvitað að bera saman þákrónur og núkrónur, sem er ekki alveg sanngjarnt. Sennilega læri ég bara að sitja í þessum lága stól í bili. Ég er líka að fara að ferma og þvælast um alls konar útlönd í fjölskylduerindum. Sem er auðvitað brjálæði í dýrtíðinni. Annað sem ég keypti mér nýlega – á leiðinni heim frá Grikklandi – eru almennilegir gönguskór. Slíka hef ég aldrei átt og þeir voru auðvitað líka alltof dýrir. Ég hef verið að ganga þá til síðustu daga – aðallega ráfað upp í hlíð og gengið inn í fjörð, í Bónus, í gegnum hið umdeilda kríuvarp. Í dag ætlaði ég að gera eitthvað svipað en endaði á að hangsa við sjúkrarúm Smára vinar míns, sem varð fyrir því óhappi í síðustu viku að falla niður af svölum – sögurnar sem hann sagði af bráðamóttökunni í Reykjavík voru svo æsispennandi, raunar mesta furða að nokkur lifi það af í Reykjavík að fara á spítala, að ég komst ekki út fyrren það var kominn tími til að skunda heim og elda mat ofan í lýðinn og enginn tími til að fara út að ganga. En þá kom í ljós að heima hjá mér yrði ekki horft á Succession í kvöld – einsog var planið – heldur haldinn bókaklúbbur. Sem kom mér ekki við – það eru engir karlar í þessum bókaklúbbi, raunar er ég ekki viss um að það séu neinir karlar í neinum bókaklúbbum eða saumaklúbbum eða gönguklúbbum eða neinu öðru skipulögðu félagsstarfi sem ég veit um, ef frá er talinn einn mjög fámennur klúbbur sem ég er í og fer á rúntinn svona sex sinnum á ári. Ég notaði tækifærið og hélt til fjalla. Einn, að sjálfsögðu, einsog karlmanna er siður, og í nýju dýru gönguskónum mínum. Þegar ég var kominn upp í Naustahvilft settist ég niður og horfði út yfir fjörðinn. Sólin var að stinga sér bakvið Eyrarfjall og ró kominn yfir bæinn – sem var stappfullur af túristum í dag. Skipið var farið en á Sundahöfninni voru nokkrir bílar að spóla í hringi með miklum tilþrifum og gat ég ekki betur séð en minnstu munaði nokkrum sinnum að þeir skyllu hver á öðrum, á einhverjum öðrum bílum eða á gámum, og ekki gat ég vel skilið heldur, þaðan sem ég sat, hvernig þeir sáu í gegnum reykmökkinn sem stóð upp af bílunum. Og þá mundi ég alltíeinu að Fast and the Furious er í bíó.

Spriklandsdagar, Óbragð og Biskops-Arnö

Ég eyddi tveimur dögum á bókamessunni í Þessalóniku – las upp nokkur ljóð úr Óratorreki, hlustaði á þýðingar Vicky Allysandraki, sat fyrir svörum á sviði ásamt alls konar gáfumennum, át góðan mat og drakk óhemju af bjór. Svo stökk ég upp í lest til Aþenu til þess að drekka meiri bjór og éta meiri mat og á föstudaginn verður (að öllum líkindum) pop-up viðburður um Illsku í bókaverslun í miðbænum. Þangað til er ég mestmegnis að reyna að fá ekki samviskubit yfir því að vera ekki að gera neitt. Því það var jú planið. Í gær rölti ég um miðbæinn einn og kleif svo Akrópólishæð með góðu fólki, át góðan mat og drakk bjór, leitaði að stuttermabol með mynd af Sókratesi en gekk út úr túristabúð með Clockwork Orange bol (af því hér eru allir grísku bolirnir bara með últra-violent spartverjum sem eru mér minna að skapi). Ég þarf eiginlega líka að kaupa mér buxur – þessar einu sem ég tók með mér eru orðnar ansi blettóttar. Ég er hálfnaður með Crossroads eftir Jonathan Franzen – nýbúinn með Óbragð eftir Guðrúnu Brjánsdóttur, sem ég var mjög ánægður með. Hún fjallar um kvíðasjúkling í ástarsorg sem leitar að ballans í lífinu með því að ganga í kakósöfnuð. Uppátækjasöm persónusköpun, gott tempó, æðisleg sviðsmynd og óhjákvæmileg átök milli þeirra sem eru í tengslum við náttúruna og þeirra sem eru komnir til að dýrka hana (og eigna sér hana, virkja hana í nafni kakókuklsins). Guðrún er líka ein þeirra sem komu á ungmennanámskeið í Biskops-Arnö þar sem ég var leiðbeinandi um fimm-sex ára hríð – þar til námskeiðið var lagt niður. Hún kom á fyrsta námskeiðið, 2013, og var snillingur strax þá. Ekki það – ég er líka mjög ánægður með Jonathan Franzen. Hann er mjög fínn. Þetta voru merkileg námskeið – Författarskolan för unga . Þar komu sem sagt saman efnileg ungmenni frá öllum norðurlöndunum til þess að eiga vikudvöl á þessari undarlegu eyju, Biskops-Arnö – sem er einhvern veginn í senn rétt hjá Stokkhólmi og á hjara veraldar – og fáránlegur kraftur í þessu oft. Mörg þeirra höfðu kannski aldrei sagt neinum að þau væru að skrifa og voru svo alltíeinu umkringd skrifandi jafningjum sínum. Við sem unnum þarna kenndum þeim áreiðanlega eitthvað smotterí, og héldum auðvitað utan um þetta, en ég held þau hafi mest kennt sér sjálf – og hvert öðru. Það eru líka ansi margir af íslensku krökkunum sem hafa haldið áfram að vinna að bókmenntum eða öðrum listum á einn veg eða annan. Rut Guðnadóttir var þarna t.d. og Ármann Örn úr Kef Lavík, Birgitta Björg í Ólafi Kram, Tanja Rasmussen sem stofnaði Kallíópu forlag 19 ára – og sem hefur unnið Nýjar raddir keppni Forlagsins, einsog einmitt Guðrún – Jóna Gréta Hilmarsdóttir sem skrifar (frábæra) kvikmyndakrítík í Morgunblaðið, mynd- og tónskáldið Þorsteinn Eyfjörð, fornfræðingurinn Sólveig Hilmarsdóttir og fleiri og fleiri. Þetta voru sennilega á bilinu 4-7 krakkar frá Íslandi eftir ári – hver öðrum merkilegri, líka þeir sem sneru sér að öðru. Við sem að námskeiðinu stóðum urðum öll mjög leið þegar það var lagt niður. Ef ég man rétt var 2018 síðasta árið. Norræna ráðherraráðið hefur þrengt mjög að fjármögnunarmöguleikum svona námskeiða. Það er meira að segja reglulega útlit fyrir að hið fræga Debutantseminarie, þar sem saman koma norrænir fyrstubókahöfundar og hafa gert síðan 1964, verði lagt niður. Þar hef ég bæði verið nemandi og kennari. Debútantanámskeiðið hefur samt með herkjum bjargast fyrir horn – hingað til – en það þarf líka að bjarga því árlega og alltaf með einhverjum hundakúnstum af því ráðið er eiginlega hætt að úthluta föstum verkefnastyrkjum. Allt á að vera nýtt og rekið fyrir lágmarksfé – svo dagskráin er rýrri, færri gestakennarar, styttri ferðir, ekki hægt að staðfesta neitt fyrren á síðustu stundu og svo framvegis. En jæja. Nú ætla ég að lufsast í sturtu og fara út að flannera.

Lágmarksvæntingar

Ég sá svo fallega einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli í gær. Hún var dökkvínrauð og öll einhvern veginn vintage – og ég man að ég hugsaði að svona einkaþotu gæti Halldór Laxness hafa átt. Ef hann hefði átt ráð á einkaþotu, sem verður nú að teljast heldur ósennilegt, og var hann þó metsöluhöfundur á þeim tíma er bækur seldust mikið. Einhvers staðar las ég reyndar að gullöld bóksölu og frægðar höfunda hefði verið á níunda áratugnum – að á þeim tíma hefðu vissir höfundar verið sannkallaðar rokkstjörnur – ekki veit ég hvað er til í því og þaðan af síður af hverju það myndi stafa. Þá er sjónvarpsgláp í stöðugri sókn og fólk með fleiri og fleiri rásir og vídjótækin þess utan komin – og ég gæti best trúað því að þetta sé líka sá tími sem bíóhúsin eru sterkust. Að vísu er neysla almennt ábyggilega líka mjög mikil. Á níunda áratugnum gaf HKL út „Dagar með múnkum“ – það var alls ekki hans mesta metsölubók. Líklega er þetta bara tvatl. Höpöhöpö. Quatsch. Ég get allavega sagt ykkur, alveg einlæglega, að þriðji áratugur 21. aldarinnar er ekki gullöld bóksölu. Að minnsta kosti ekki sölu einstakra höfunda. Og ég játa auk þess fúslega að ég á ekki neina einkaþotu, þótt það sé vandræðalegt. Nú er meira að segja svo fyrir mér komið að ég ferðast til Grikklands á styrk sem dugir rétt svo fyrir farangurslausu flugi – ég er með svokallað „personal item“ með mér, lítinn bakpoka með fartölvu, kindli og nærbuxum. Fjórir leggir með þremur lággjaldaflugfélögum. En ég þarf þá ekki heldur að hafa áhyggjur af því að neitt þessara flugfélaga týni farangrinum mínum. Það má vera að það seljist fleiri titlar – að salan sé dreifðari. En sennilega er meira að segja heildarsalan miklu lægri. Á næsta ári eru 20 ár frá því ég gaf fyrst út skáldsögu og fyrirframgreiðslan hefur staðið í stað allan þann tíma. Hún er auðvitað dregin frá söluhagnaði og sú krónutala hefur eitthvað hækkað – per selt eintak – svo hún hefur ekki áhrif á hvað ég græði mikið eða lítið þegar allt er samantalið. En hún segir eitthvað um lágmarkssöluvæntingar forlagsins. Ég sit á Leifsstöð. Eða hvað hún heitir þessa dagana. Svaf í þrjá tíma í nótt, sem er ágætt fyrir mig – yfirleitt sef ég ekki neitt fyrir flug. Endaði gærkvöldið á að horfa á Con Air, sem ég sá mælt með á bloggi og hafði ekki séð lengi. Hún var fín – og miklu betri en sorpið sem ég horfði á þar á undan, Baby Driver, sem er samt með talsvert hærri einkunn á IMDB. Það liggur við maður hætti bara alveg að taka mark á almenningsálitinu þegar það missir svona marks. Sem minnir mig reyndar á að við, fólkið í þessu þjóðfélagi – eða a.m.k. fólkið í kringum mig – er löngu hætt að halda fram þeirri áður augljósu staðhæfingu að „fólk sé fífl“. Og þess í stað drögum við fram einn og einn, réttum yfir honum og kveðum svo upp dóm: „Þessi er fífl. Næsti.“ Og svo bíðum við bara öll með öndina í hálsinum þar til að okkur kemur. Þetta er tímafrekt – en sjálfsagt verður þetta eitt af þeim verkefnum sem ChatGTP gerir okkur kleift að vinna með meiri hraða og nákvæmni.

Postulahrossin

Það er hálfgerður millidagur eftir langa helgi. Ég er að fara suður á morgun og til Grikklands eldsnemma á fimmtudag. Skrifstofan er ennþá í rúst en ég nenni ekki að byrja að díla við hana. Ég er byrjaður að fá athugasemdir á bókina en ekkert byrjaður að bregðast við þeim enn. Og geri sennilega hvorugt fyrren ég kem aftur eftir tæpar tvær vikur. Ég reyni að telja mér trú um að það sé alltílagi en mér líður samt einsog hálfgerðu slytti. Svo er ég líka þreyttur eftir helgina. Á laugardeginum gekk ég til Bolungarvíkur og til baka (32 km) og fór svo í drykk hjá vinafólki – af því ég var óvænt barnlaus og stenst ekki freistingar. Á sunnudeginum var svo fertugsafmæli. Ég er kominn með dálitla göngudellu. Einhvern tíma snemma í vor var ég að hlusta á Will Self tala um „psychogeography“ og flannerisma og hann sagði ýmislegt sem ég tengdi við – eða ýmislegt sem ég vildi tengja við. Muninn á því að ferðast á milli staða (eða um sinn heim) fyrir eigin vélarafli eða í farartæki; og þetta að horfa á alltaf á heiminn í gegnum skjá (sem rúður auðvitað eru). Svo veit ég ekki hvort það er til marks um krísu eða þroska að vera að leita eftir meiri raunveruleikatengingu. Kannski er það bara til marks um eitthvert síðkapitalískt sálarástand. Mig langar – a.m.k. enn sem komið er – ekki neitt að ganga laugaveginn eða fara upp á mér ókunnug fjöll. Mig langar dálítið upp á fjöllin hérna í kring en mest langar mig bara að ganga til Flateyrar og Suðureyrar og Súðavíkur. Kíkja í sund eða borgara og rölta svo aftur til baka. Ég hef oft flannerað um borgir þegar ég er á ferðalagi og held því sjálfsagt áfram – finnst mjög gott að ganga um nýja heima og jafnvel bara ráfa eitthvað út í loftið. Ég á magnaðar minningar af því að ganga einn um Istanbul, sem dæmi, frá því klukkan 7 að morgni og fram að miðnætti – og varla stoppað nema til að fá mér að borða. Einu sinni ráfaði ég um Rio í fimm daga í röð – án þess að hitta neinn eða gera neitt sérstakt eða eiga eitthvað erindi annað en að ganga um. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom til New York var að ganga – með bakpoka – eftir Ocean Parkway endilangri. Hún er um átta kílómetrar. Það var fyrir misskilning, eiginlega, og í einhverri þotuþreytu – en það var líka dásamlegt. Einu sinni gekk ég líka frá Rejmyre til Vistinge, í Svíþjóð – sú leið er eins óáhugaverð og Istanbul er áhugaverð en göngutúrinn er af einhverjum orsökum ekki síður minnisverður. Það er eitthvað sem breytist þegar maður gengur svona leið í fyrsta sinn. Hún verður önnur – líka þegar maður svo keyrir hana seinna. Óshlíðina hafði ég að vísu hlaupið áður – út að krossi og til baka – en það er skemmtilegt að sjá hvernig hún eyðist ár frá ári. Á endanum verður hún kannski hálfófær – að minnsta kosti er útlit fyrir að á einhverjum kafla verði á endanum ekkert eftir af veginum eða kantinum. Ég hef vel að merkja óútskýrt antípat á Hopphjólum. Þau eru auðvitað annað vélarafl – þau eru aukin neysla, aukið drasl í þéttbýlislandslaginu, meira viðbót við bíla en staðgengill. Enn eitt appið. Enn ein áskriftin. En þau eru ekki skjár og þeim fylgir útivist og það eru ábyggilega ferðir sem fólk fer á hopphjólum sem það hefði annars farið á bíl. En ég gæti best trúað að það séu líka margar ferðir sem fólk fer á hopphjólum sem það hefði annars farið gangandi. Og maður á að ganga. Ekki síst einmitt af því það tekur aðeins lengri tíma og manni á ekki að liggja alltaf svona mikið á.

Af óbærilegu léttmeti tilverunnar

Ég verð alltaf svolítið snúðugur í framan þegar ljúflestrar- eða afþreyingarhöfundar kvarta undan því að sér sé mismunað í bókmenntaheiminum. Nýjasta dæmið er viðtal við Jenny Colgan í Morgunblaðinu – þar dregur hún reyndar ástarsagnahöfunda út fyrir sviga og segir þá verða fyrir meiri útskúfun en glæpasagnahöfundar eða vísindaskáldsagnahöfundar. Fái síður verðlaun eða viðurkenningar eða boð á bókmenntahátíðir. Og þó selji þeir helmingi fleiri bækur. Þetta sé ekkert nema kvenfyrirlitning. Ég held það sé einfaldast að segja að þetta með sé heilt yfir satt – þótt þetta sé líka eitthvað sem er að breytast. Ljúflestrarhöfundar birtast oftar og oftar á bókmenntahátíðum, fá oftar verðlaun og svo framvegis – en þeir sjást sjaldnar en a.m.k. fagurbókmenntahöfundar. Hvort þeir eru jaðraðir meira en t.d. krimmahöfundar þori ég ekki að segja. Svo er auðvitað skilgreiningaratriði hvar ljúflestrarbókunum lýkur og fagurbókmenntirnar hefjast, en ég held maður geti samt leyft sér að segja að þetta gildi á einhverjum þannig kvarða – eftir því sem þú skrifar af meiri fagurfræðilegum metnaði (og minna til þess einfaldlega að skemmta) því líklegri ertu til þess að fá verðlaun og boð á alvarlegri bókmenntahátíðir (vinsældahöfundar dómínera hins vegar yfir flestum bókamessum). Ég hafna því að þetta snúist um ástarsögur sem slíkar – enda er mjög mikið af alvarlegri fagurbókmenntum ástarsögur. Í sjálfu sér er síðan spurning hversu mikið bókmenntahátíðir eða verðlaunanefndir eigi að vera eltast við afþreyingarbókmenntir – ég er ekki viss um að Adam Sandler líti á það sem mikla móðgun við list sína að vera aldrei (eða sjaldan) boðið á Cannes; eða að fólkið sem stendur á bakvið Cannes líti á það sem hlutverk sitt að prómótera skemmtiefni Sandlers. Og það alveg jafnt þótt fólki finnist Happy Gilmore og Punch Drunk Love frábærar myndir – með talsverðan þunga. Ég held þvert á móti þá snúist hátíðir og verðlaunaveitingar einmitt um það að horfa framhjá vinsælu léttmeti til þess að vekja athygli á hinu – því sem fæst ekki sýnt í öllum bíóhúsum, á öllum streymisveitum eða stillt upp í stóra hauga á öllum flugvöllum, einsog t.d. bókum Jenny Colgan. Að þær séu oft beinlínis hugsaðar sem mótvægi við vinsældaköltinu eða þeirri hundalógík að vegna þess að einhver selji margar bækur sé viðkomandi augljóslega frábær og eigi að fá verðlaun og viðurkenningu. Afþreyingarhöfundarnir fá síðan auðvitað annað – þeir fá söluna og dreifinguna og þýðingasamningana sem fagurbókmenntahöfundar fá sjaldan eða aldrei. Þeir þéna margfalt á við meira að segja allra vinsælustu fagurbókmenntahöfunda, þótt þeir fái sjaldnar gullmiða á bækurnar sínar eða skrítna skúlptúra til að stilla upp í hillunum sínum. Og þeir fá líka athygli fjölmiðla – þótt þeir birtist sjaldnar í menningarkálfunum, sem eru hvort eð er að hverfa. Jenny Colgan hefur t.d. verið nefnd 115 sinnum á Vísisvefnum – mest í fréttum af vinsældalistum – en Colson Whitehead aldrei. Það er nú öll mismununin. Það er líka skrítið að Colgan skuli vísa til þess að það halli á ástarsöguna vegna þess að það séu aðallega eldri konur sem lesi þær. Eldri konur lesa nefnilega aðallega allt – ekki bara ástarsögur og léttmeti. Þær eru einfaldlega stærsti lesendahópur samtímans. Þú gætir allt eins sagt að ástæðan fyrir því að ólínulegar framúrstefnuskáldsögur njóti ekki sannmælis sé kvenfyrirlitning – af því það eru aðallega eldri konur sem lesa þær. Og ólínulegar framúrstefnuskáldsögur eiga sannarlega miklu erfiðar uppdráttar en léttar ástarsögur sem enda vel. Sjálfur gleðst ég mest þegar verðlaun og hátíðir vekja athygli á höfundum sem ég þekkti ekki – eða sem mér finnst að fleiri ættu að þekkja. Ég sé ekki alveg tilganginn með því að vekja athygli á Jenny Colgan – og minni tilgang með því að vekja athygli á Colson Whitehead en t.d. Mariönu Enriquez, sem er dásamleg og alltof fáir lesa. Auðvitað er samt ágætt að hafa stórstjörnur á borð við Colgan inn á milli og þær trekkja áreiðanlega helling – bókmenntahátíðir eiga að þjóna breiðum hópi. En mér finnst hálf absúrd að vinsælustu stjörnurnar séu að barma sér yfir hunsun og jaðarsetningu; og ég óttast miklu frekar að bókmenntaheimurinn verði of hallur undir vinsældaköltið heldur en hitt.