Author’s Reading Month

I was in Slovakia and the Czech Republic last month for a festival called the Author’s Reading Month, where Iceland was the guest of honour. I travelled from Brno to Ostrava to Prešov to Bratislava for readings and talks – and generally to have a wonderful time, tasting the beers, the slivovice and the fried cheese. Special shoutout goes out to my moderator – drama professor, opera director and all-around fountain of knowledge, Pavel Drábek, as well as his equally splendid daughter Anastasia „Stasi, like the secret service“ Drábek, both of whom guided me on my journey. Here you can witness one of our talks – if I’m not mistaken this is from Brno.

Bókmenntasmekkur fallega fólksins

Í morgun fór ég inn á Vísi og las þar stutt viðtal við konu sem er þátttakandi í fegurðarsamkeppni. Ein af spurningunum sem lögð var fyrir hana var hver væri uppáhalds bókin hennar. Hún sagðist aldrei lesa en uppáhaldsbókin hennar væri The Fault in Our Stars . Sem fjallar einmitt um fólk – krabbameinsveika bókaorma – sem les uppáhaldsbækur hvers annars. Ég hef vel að merkja ekki lesið hana og ekki heldur séð myndina, bara skoðað wikipediusíðuna. En kannski bæti ég úr því einhvern daginn. Fyrir neðan viðtalið sá ég svo að þetta var bara eitt af mjög mörgum sams konar viðtölum, svo ég tók mig til og skimaði þau. Ég hef mjög gaman af svona viðtölum – svörin eru oft skemmtilega skrítin. Helsti ótti einnar þeirra var til dæmis „smjatt“ – en það kom ekki fram hvort það skelfilegasta sem hún vissi í þessari viðsjálu veröld væri að smjatta sjálf eða að heyra (sjá?) aðra smjatta eða hvort það væri hreinlega tilvist smjattsins, að einhvers staðar væri einhver að smjatta, sem setti meiri beyg að hjarta hennar en villidýr, stríð og sjúkdómar samanlagt. Nema hvað – ég staldraði auðvitað lengst við spurninguna um uppáhaldsbókina. Svona voru svörin: Lífsreglurnar fjórar
The Fault in Our Stars
The Perks of being a Wallflower
The Tattooist of Auscwhitz
„Nótt sem er nóbelsverðlaunabók um seinni heimsstyrjöldina“
101 Essays That Will Change the Way You Think eftir Briönnu West
Sister sister eftir Sue Fortin
„Horfnar eftir frænda minn Stefán Mána“
„Eins og er þá er ég ekki mikið að lesa bækur, þannig ég á mér ekki einhverja uppáhaldsbók í augnablikinu.“
„Ef ég á að segja alveg eins og er þá les ég nánast aldrei bækur.“
„Erfið spurning. Myndi segja Bangsímon sem ég las alltaf með mömmu sem barn. Gefur mér góðar minningar.“
„Ég elska Harry Potter bækurnar.“
„It Ends With Us eftir Colleen Hoover“.
„Ég les mjög sjaldan bækur vil frekar hlusta á hljóðbækur, en mín uppáhalds er The Color Purple.“
„Fólkið í blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson“. Af þessum bókum hef ég sjálfur lesið Bangsímon, fimm Harry Potter bækur og Nótt eftir Elie Wiesel. Og kannski Purpuralitinn. Mér kom á óvart að sjá þarna tvær helfararbækur – Nótt og Tattúverarann – og alveg sitthvoru megin á spektrúminu. Nótt er endurminningar manns sem lifði helförina af og Tattúverarinn er samtímaskáldsaga, sem þrátt fyrir að vera byggð á heimildum, hefur verið mikið gagnrýnd fyrir ónákvæmni. Nótt er vel að merkja ekki „nóbelsverðlaunabók“ í ströngum skilningi þess hugtaks – Elie Wiesel fékk friðarverðlaun Nóbels, ekki bókmenntaverðlaun Nóbels, en það er auðvitað smámunasemi. Sister sister og Horfnar eru reyfarar, The Perks of Being a Wallflower er þroskasaga, It Ends With Us er ástarsaga (einsog Tattúverarinn), Harry Potter er fantasía, Bangsímon er barnabókmenntaklassík, 101 Essays That Will Change the Way You Think og Lífsreglurnar fjórar eru sjálfshjálparbækur, The Color Purple er fagurbókmenntaklassík með Pulitzerverðlaun í hnappagatinu og Fólkið í blokkinni er kómedía „fyrir alla aldurshópa“. Tvær segjast aldrei lesa bækur og ekki geta nefnt neina og tvær segjast aldrei eða sjaldan lesa bækur en nefna samt eina. Ég veit ekki alveg hvers vegna mér finnst þetta svona fasínerandi. Bókmenntasmekkur fólks – og kannski einmitt sérstaklega fólks sem starfar ekki við bókmenntir eða listir, en eru samt einhvern veginn sambærilegar hver annarri, stúlkur á sama aldri og áreiðanlega að mörgu leyti með lík viðhorf og gildi, demógrafískur hópur. Síðan finnst mér líka bara áhugavert að spurningin sé með – þrátt fyrir allt, þrátt fyrir hnignandi lestur og lítinn áhuga á bókmenningu almennt. Að það sé enn hluti af því hvernig við skilgreinum persónuleika einhvers hvaða bókum viðkomandi hrífst af. Ég hélt það væri búið. Og hvað segir það svo um mann hver uppáhaldsbókin manns er? Hvað les ég í þessa titla? Af einhverjum orsökum hef ég mestan áhuga á fólki sem les mikið og hugsar um það sem það les – og skáldskap, umfram allt annað – þá hugsa ég: hér fer manneskja af viti. Af þessum á listanum heillast ég mest af Bangsímon, þar er einhver óskiljanlegur galdur. Nótt er auðvitað klassík og ég var lengi með helförina á heilanum en ég er bara meiri Primo Levi maður, ef maður má leyfa sér svo grófan samanburð. Ég held að ég hafi lesið Purpuralitinn á íslensku þegar ég var í menntaskóla – en ég er ekki alveg viss hvort ég sá bara myndina. Það er svo langt síðan. Íslensku bækurnar, Horfnar og Fólkið í blokkinni, er ekkert ósennilegt að ég lesi, en restin kallar ekkert á mig. Sjálfur nefni ég gjarnan Glæp og refsingu eftir Dostójevskí – ég var 17 ára þegar ég ákvað að það væri uppáhaldsbókin mín og ég hef bara haldið mig við það svar. En ég er ekki viss um að það segi mikið um 44 ára gamla Eirík – annað en að hann sýni 17 ára fortíðarsjálfi sínu nokkra tryggð. Hvað um það. Eftir þessar vangaveltur er ég nú orðinn mjög spenntur að vita hvaða bókaormur er sætastur á þessu landi. Ég verð brjálaður ef einhver sem ekkert les vinnur. Þá mun ég aldrei aftur taka mark á þeim sem halda því fram að fegurðin komi að innan (því auðvitað eru bækur bæði andlitskrem sálarinnar og crossfit andans). Og ef fegurðin kemur að innan, sem hún gerir, má af því leiða að sá sem fagrastur reynist hafi lesið bestu bókina – og þar er eiginlega komið nýtt módel fyrir íslensku bókmenntaverðlaunin til þess að miða sig að, ef þetta með „almenna lesandann“ úti í bæ virkar ekki sem skyldi.

Í Hel á heimleið

Ég sit á O’Leary’s á Helsinkiflugvelli á leiðinni heim frá Tékklandi og Slóvakíu. Þar er „Upplestrarmánuði rithöfunda“ að ljúka um þessar mundir en allan júlí hafa íslenskir og tékkneskir og slóvakískir rithöfundar lesið upp í fimm borgum – Brno, Kosice, Ostrava, Presov og Bratislava – á viðstöðulausu spani. Hálf rithöfundastéttin var þarna en fæstir hittust neitt – heldur var þetta ein halarófa. Ég rétt náði í rassgatið á Sigurbjörgu Þrastar og fór svo með Dóra DNA á síðnæturhangs á bar sem var opinn allan sólarhringinn. Annars fann ég ekki svo mikið sem svitalyktina af kollegum mínum. Þetta voru misstórir viðburðir. Mest var 50-60 manns en fæst var 8 – það var í höfuðborginni, Bratislava, í gærkvöldi (og stólarnir voru ekki nema tíu – ég fékk þá útskýringu að í höfuðborginni væri alltof margt að gerast og kæmi aldrei neinn á neitt). Í Bratislava var ég reyndar síðast í nóvember (á sama hóteli meira að segja) og las upp fyrir miklu fleiri á Ars Poetica hátíðinni – þá var líka Covid og ekki rassgat að gerast neins staðar nema á ljóðahátíðinni. Reyndar var alltaf gaman á þessum túr núna, líka þegar mættu fáir. Ég naut meðal annars góðs af því að ferðast með viskubrunninum Pavel Drabek og dóttur hans Anastasíu (sem er kölluð „Stasí, einsog leyniþjónustan“). Ég er annars illa sofinn og ringlaður og hef ekki verið heima hjá mér í að verða mánuð – þangað kem ég í fyrramálið og hlakka mikið til. Bæði sakna ég fjölskyldunnar og vil fara að komast aftur á skrið í bókinni minni. Ætli ég fari þá ekki líka að blogga meira? Þessi tölva hefur eiginlega bara verið netflixtæki í sumar. Hvað gerðist fleira? Við Aino fórum til Berlínar – kíktum í dýragarð og á söfn og keyptum nýjan bassa fyrir hana. Urðum svo innlyksa vegna aflýstra flugferða á vegum Eurowings og fórum heim tveimur dögum of seint með millilendingu og gistingu í Amsterdam, fyrir svo svívirðilega upphæð að ég varð að aflýsa minni eigin Amsterdamferð síðar í haust. Það átti að vera svona strákaferð á tónleika með Pavement – það vill til að mér finnst Pavement ekki skemmtileg, hef þó gefið henni ríflegan séns, og þess utan séð hana á sviði áður (á Hróarskeldu). Við Aram fórum líka til Gautaborgar á Iron Maiden tónleika. Við fjölskyldan héngum mest í Västerås en litum líka við í sumarbústöðum með vinum. Það var óbærilega heitt megnið af tímanum – 37 og 38 stiga hiti í Svíþjóð þegar það var sem hæst.

Endur í Svíþjóð

Ég hef sinnt þessu bloggi mest allra minna bókmennta það sem af er sumri. Að minnsta kosti ef við teljum frá allan lestur, því ég hef mikið lesið. Bróðurpartur júnímánaðar fór í húsaviðhald og þaðan fór ég beint í sumarfrí. Ég átti afmæli 1. júlí og hélt upp á það í Stokkhólmi með Nödju. Börnin komu svo með frænda sínum til Västerås daginn eftir. Nadja gaf mér inneign í tónlistarverslun og leiddi mig þangað að morgni dags – þar keypti ég mér sörfgrænan Fender Jazz Bass sem ég hef varla getað lagt frá mér síðan. Börnin gáfu mér Sail On með Muddy Waters og Aino skrifaði litla bók fyrir mig um önd sem heitir Einlægur (einsog bókin, sem heitir vel að merkja bara Einlægur en ekki Einlægur Önd , það er önnur bók). Einlægur þessi týnir fjölskyldunni sinni í frumskógi en verður svo fyrir stórri öldu og berst með henni fram af fossi og hittir þar aftur fjölskylduna (þau heita Aram, Aino og Nadja). Bókin er að sjálfsögðu myndskreytt – heftuð og handgerð einsog ungskáldi sæmir. Hér skiptast á skin og skúrir – rignir reyndar lítið en er reglulega mikið skýjað og svona háþrýstingur sem veldur mér gjarnan andlegri mollu. En það hefur líka verið reglulega fallegt inn á milli. Við Aino ætlum til Berlínar á næstu helgi. Þar ætlum við meðal annars að líta í dýragarð, fá okkur Berlínarbollu og kebab, fara í bíó og hljóðfæraverslun og kíkja á DDR-safnið – þetta er allt pantað, þetta er afmælisgjöfin hennar (og kannski mín líka, en það er samt hún sem ræður för). Við hlökkum bæði mikið til. Ég veit ekki hvort ég skrifa mikið í júlí heldur. Þetta á að heita sumarfríið mitt og ég er í viðstöðulitlum krísum gagnvart öllu sem ég skrifa hvort eð er. Mér gengur ekki einu sinni sérstaklega vel að svara áríðandi tölvupóstum. Sem betur fer gekk ég frá skattinum áður en ég fór (og hafði þá ekki gert það frá áramótum, uppgötvaði ég). Og sem betur fer er ég líka löngu búinn að klára bókina sem á að koma út í haust – barnajólahryllingsbókin Frankensleikir er m.a.s. búin í umbroti (myndskreytt af Elíasi Rúna). Restin reddast svo þegar hún reddast.

14 krónur

Einu sinni gaf ég út ljóðabók sem heitir Hnefi eða vitstola orð og alls staðar þar sem ég kom og las upp úr henni sagði fólk „Nei, þessa bók kaupi ég ekki, það þýðir ekkert fyrir mig að lesa hana sjálfur, þú verður að lesa hana upp, þetta er þannig verk – ÞÚ ÆTTIR AÐ GEFA ÚT HLJÓÐBÓK!“ Svo ég gerði það bara. Mér varð hugsað til þessa í vikunni þegar ég fékk uppgjörið frá forlaginu mínu – þessi hljóðbók er nefnilega á Storytel og árið 2021 var hlustað á hana þrisvar sinnum og ég fékk fyrir það fjórtán krónur. Mér sýnist svona fljótt á litið að maður fái 1/10 hluta af því sem maður fengi fyrir að selja bók – svo ef þetta hefðu verið fýsísk eintök á bók hefði ég fengið 140 krónur. Á morgun ætla ég að fara að ryksuga bílinn á bensínstöðinni og ryksugan tekur bara hundraðkalla svo þessi peningur hefði komið sér vel. Það munar um allt. Annars kom uppgjörið bara ágætlega út. Business is booming. Ég er reyndar að reyna að venja mig af því að sletta ensku. Ég er í mótþróakeppni við son minn sem gerir þetta mjög mikið. En business í þessari merkingu er varla kaupsýsla eða viðskipti? Frami? Frami minn er í blóma. Verður er verkamaðurinn launanna. Eitthvað um að ávaxta sitt pund. Ég stend á skýi / í algleymi. Svo getur líka vel verið að það séu bara öll búin að hlusta á þessa bók. Og þau séu bara að hlusta á hinar bækurnar mínar, sem eru þarna næstum allar. *** Ég fór til Finnlands á dögunum. Sána, karókí, gamlir vinir, bókabúðir og tívólí. Svo skildi ég fjölskylduna eftir í Finnlandi og fór einn heim til að sinna því sem ég kalla Tangagötu-resídensían. Og þýðir að ég á að vera að skrifa en ef frá eru talin nokkur erindi í ljóðabók hef ég ekkert skrifað – varla svarað tölvupósti. Þess í stað er ég búinn að bera á pallinn og taka til í bílskúrnum og hreinsa arfa úr gangstéttunum. Það var sem sagt b-planið. Ef ég yrði andlaus ætlaði ég ekki að sitja á rassgatinu. Á morgun ætla ég að hætta að vera andlaus. En fyrst þarf ég að finna glósurnar sem ég gerði í handritið mitt úti í Finnlandi. Um mánaðamótin fer ég svo og finn fjölskylduna aftur í Svíþjóð – svo eru skottúrar til Berlínar, Tékklands, Slóvakíu og Aix-en-Provence í sjónmáli í sumar. Þetta verður alltílagi.

Listin að rægja bæjarstjóra

Kæra blogg. Það er sumarlegra þessa dagana en síðast þegar heyrðist frá mér. Að vísu rigndi í gær en það var samt frekar hlýtt – peysuveður. Og maður hlýtur að vera þakklátur fyrir peysuveður þegar maður er búinn að vera að kljást við haglél í heila viku. Í-listinn vann kosningarnar. Fékk hreinan meirihluta. Mér skilst að ég hafi a.m.k. sannfært tvo kjósendur, auk sjálfs mín, um að kjósa það framboð og fyrst þetta er allt meira og minna mér að kenna er eins gott að kjörtímabilið verði ekki vandræðalegt. Ég er að vísu búinn að vera mjög mikið í einhverjum hortugheitum út af þessu. Gylfi – oddviti Í-listans, og nágranni minn – sagði í ræðu á kosningafundi að það væri sorglegt að meðlimur úr bæjarstjórn hefði ekki komist í „reykvísku skemmtiþættina“ frá því Gummi bæjó var og hét og það væri mikilvægt að auka þann sýnileika, svo bera mætti út fagnaðarerindi bæjarins og bæta ímynd hans. Gylfi hefur auðvitað stundum sjálfur sést í þannig þáttum – Orð skulu standa, held ég, eða allavega Útsvarinu. Ég held að Gummi hafi komist í sjálf Vikulokin með Gísla Marteini. En ég sem sagt þurfti á öllu mínu að halda til að koma ekki með spurningu á fundinum – hvort komin væri skýr aðgerðaráætlun, já eða nei, hvernig Gylfi kæmist í Gísla Martein. Og lét þá sem sagt duga að pota henni í Gylfa daginn eftir, á PöbbKvissi listans (þar sem ég og utanbæjarvinkona mín biðum afhroð). Og svo fannst mér ég nógu sniðugur til að endurtaka þetta grín nokkrum sinnum við vini og kunningja, á förnum vegi, og slá svolítið á lær mér á meðan. En það var líka einsog Gummi bæjó hefði heyrt í okkur því daginn eftir kosningar birtist hann í „reykvísku skemmtiþáttunum“ – einum af þessum skrítnu þáttum þar sem RÚV klappar sjálfu sér á bakið fyrir vel unnin störf. Hann var með heldur óskemmtilegra erindi um bæjarbraginn samt. Í „þorpunum“ væri fólk gjarna rægt og baktalað, nema helst barnaníðingar og nauðgarar, sem samfélagið héldi hlífiskildi yfir. Auðvitað er nokkuð til í þessu – þótt mér hafi sárnað fyrir hönd … tja mín og minna. Fólk er rægt og baktalað á Ísafirði og fólk trúir stundum ofbeldismönnum frekar en fórnarlömbum þeirra. Sumir Ísfirðingar eru meira að segja hrottar og ofbeldismenn sjálfir – svo er hér líka mikið af drullusokkum, slúðrurum, skattsvikurum og hægrimönnum. Ég vissi bara ekki að þetta væri eitthvað sem einkenndi „þorpin“ frekar en aðra staði – t.d. „borgirnar“ eða „sveitirnar“. Mér finnst Ísfirðingar einmitt oft vera dálítið hreinskiptnir – að hér sé minna bilið milli þess sem fólk segir um mann og þess sem það segir við mann en víða annars staðar. En það er þá auðvitað ekki allt bara um hvað maður sé frábær. En hver maður hefur sína reynslu – ég efast ekki um að það hefur verið heitt í eldlínu stjórnmálanna í kringum þá Danna bæjó og Gumma bæjó og það hefur hellings mikið verið rætt á kaffistofum bæjarins hvað hafi gerst bakvið tjöldin, hverjir hafi tekið brjálæðiskast hvenær og af hvaða ástæðum, án þess að maður hafi endilega verið á staðnum sjálfur. Ég hélt alltaf með Gumma í þessum erjum og það gerðu sennilega langflestir – en þeir sem þoldu hann ekki og fannst hann alger fáviti voru líka til staðar, því er ekkert að neita. Gummi var heldur ekki bara einhver jói sem kom hérna og fór að vinna á skrifstofu – hann var bæjarstjóri , hann fór sínar eigin leiðir, hafði sinn eigin stíl og lét mikið á sér bera. Það var aðallega vinsælt – menn fögnuðu hinum sýnilega bæjarstjóra með mörgum lækum – en það var ekki bara vinsælt. Mörgum fannst að bæjarstjórinn ætti að vera einfaldur framkvæmdastjóri, ekki eiginlegur stjórnmálamaður eða talsmaður bæjarbúa, enda færi betur á að talsmaður bæjarbúa væri einhver lýðræðislega kjörinn – og maðurinn sem var ráðinn til að taka við af honum var líka akkúrat þannig. Ég man ekki hvað hann heitir, hef aldrei séð nema eina mynd af honum og hún er svarthvít og tekin í stúdíói. Ég er ekki einu sinni viss um að hann kunni að taka selfie. Hvað um það. Maður bætir ekki ímynd bæjarins með því að skammast út í þá sem hafa slæma sögu af honum að segja – sjónarhorn Gumma er hans sjónarhorn og mikilvægt að það fái að heyrast, það má þá bara ræða það (því ekki ræðir maður það af neinu viti sem fólk bara muldrar í barminn). Andstæðingar Gumma eru líka flestir (allir?) horfnir úr bæjarpólitíkinni, þótt þeir hafi fæstir hrakist úr bænum, og Í-listinn fékk hreinan meirihluta og nú kemur nýr bæjarstjóri til að rægja – Arna Lára skólasystir mín, eiginkona Inga Björns vinar míns, eða „mamma hans Dags“ einsog hún er oft kölluð á mínu heimili. Okkur ber vonandi gæfa til þess að rægja hana ekki alla leiðina til Reykjavíkur. Sjö, níu, þrettán.

Fjarlægur ómur kjörgengis

Það er fallegur vetrardagur á Ísafirði. Hundslappadrífa. Næstu helgi eru kosningar. Ég veit svo sem hvað ég er að fara að kjósa – systir mín er í framboði fyrir Í-listann og nágrannar mínir líka, bæði beint á móti og við hliðina, og haugur af fólki sem ég kann vel við og treysti. Annars kæmu Píratar líka til greina. Ég hef ekki orðið var við neina kosningabaráttu. Ég veit ekki hvort það er búið að bera út bæklinga í götunni minni en ef það var gert þá hafa flokkarnir litið á áróður sinn sömu augum og Húsasmiðjublaðið – það stendur víst á póstkassanum að ég vilji ekki ruslpóst. Það var einn hálftímalangur kosningaþáttur í útvarpinu þar sem alltof fátt kom fram. Mér vitanlega hafa engar skoðanakannanir verið gerðar svo maður hefur enga hugmynd um stöðuna, aðra en þá að það þurfi sennilega miklar sviptingar til þess að staðan í bæjarstjórn breytist – Í-listinn þurfi að bæta mjög mikið við sig til að ná næsta manni, Píratar að ná mjög miklu til að koma sínum fyrsta inn og líklega steli þeir hver af öðrum frekar en af Framsókn og Sjálfstæðisflokki, sem séu áreiðanlega jákvæðir um að halda áfram meirihlutasamstarfinu. En þá er maður auðvitað að miða bara við stöðuna einsog hún var fyrir fjórum árum. Og það er erfitt að átta sig á því hversu mikið hún hefur breyst – Sjallarnir eru með eiginlega alveg nýtt lið og Í-listinn með Viðreisnarmann í fararbroddi, sem hefðinni samkvæmt ætti að höfða til flóttatendensana í Íhaldinu. Ég fór að vísu í kosningakaffi hjá Í-listanum, þáði tvo kaffibolla, spjallaði við systur mína og hótaði þessum oddvita að ég myndi leka 20 ára gömlum spjallþráðum þar sem við tókumst á um pólitík – ég jafnrauður og í dag en hann alveg helblár. En það hefði gert út af við hann og Íhaldið unnið stór sigur svo ég lét það vera. Sennilega er eitthvað líf á Facebook. Eða Twitter. En hérna í minni búbblu er hálfgerður kosningadoði. Kannski spilar veðrið líka rullu. Mikið hræðilega er veðrið deprímerandi. Nadja er að fara að kjósa í fyrsta skipti á Íslandi – rétt missti af því síðast, vegna þess að norðurlandabúar þurfa að hafa verið búsettir á staðnum í þrjú ár og síðast vantaði einhverja örfáa daga upp á. De facto hefur það sem sagt tekið sjö ár að fá að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum. Hún fær svo ekki að kjósa í alþingiskosningum fyrren ríkisborgararétturinn er í höfn – það er að væflast í kerfinu einhvers staðar. Hvað um það. Fyrr í vikunni spurði hún stóran hóp af fólki hvaða tilfinningu þau hefðu fyrir úrslitunum á laugardag og fékk það svar að fyrst þyrftu Systur nú að ná upp úr undankeppninni. Sem þær gerðu auðvitað. Ekki að það hafi skýrt stöðuna neitt.

Þvenglaus á stönginni

Vorið kom og vorið fór og nú er haust og á morgun skilst mér að verði vetur. Þetta var stutt gaman. Eftir tvær vikur fer ég til Finnlands í viku – svo kem ég aftur og sest að í rithöfundaresidensíunni á Tangagötu, þar sem ég dvelst einn við skriftir í júní, meðan fjölskyldan þvælist um sænsk héruð. Ég fer svo út og þvælist með þeim eitthvað í júlí. Meðal annars til Berlínar með Aino – hún fékk þá ferð í afmælisgjöf – og á Iron Maiden tónleika í Gautaborg með Aram, sem fékk þá miða einmitt líka í afmælisgjöf. En þá var unglingurinn bara ungbarn, eiginlega, þetta var fyrir covid. Ég treysti því að í útlöndum verði sumar. Og sennilega sólardagar inn á milli hérna. En það munaði litlu að ég færi að kasta hlutum í sjónvarpið í gær þar sem ég sat yfir veðurfréttunum. Hvað sem öðru líður er ég reyndar glaður að fá að vera mikið heima í sumar. Og kemst vonandi á góðan rekspöl í nýju bókinni, sem mér finnst reyndar alveg handónýt í dag, og er farinn að renna mjög hýru auga til gamals handrits sem ég henti fyrir átta árum síðan – það er mjög skemmtileg bók og nánast tilbúin til útgáfu, einsog mér fannst hún leiðinleg 2014. Kannski svolítið sérviskuleg en mér hefur nú aldrei verið láð það mikið að vera sérvitur. Eða ekki nærri jafn mikið og ég á skilið. Annars er ég með barnabók fyrir jólin. Jólahryllingsbarnabók. Og á þrjár-fjórar ljóðabækur hérna á lager og ljóðaþýðingabókina sem bara bíður og bíður. Fyrir utan þessar tvær skáldsögur. Svo var ég hugsanlega að lofa mér í eitthvað bíóhandritsgrín og að minnsta kosti tvö myndlistargrín. Samt get ég svarið það að mér finnst ég eiginlega aldrei gera neitt. Nema að elda mat og sofa út. Og kannski lesa og horfa á Netflix og spila tónlist (ég er búinn að vera með heiftarlega bassadellu síðustu mánuði, sem sér ekki fyrir endann á). Í síðustu viku keypti ég loks nýju ljóðabókina hans Sjóns. Hún er eiginlega alveg frábær. Sérstaklega sitja í mér eitt ljóð um Number of the beast og annað um að dreyma reglulega að maður sé að taka í höndina á fólki á covid-tímum. Las líka Bjarmalönd eftir Val Gunnars – sem er í senn gríðarlega fróðleg og full af svolítið lúðalegum sjarma. Hann skiptist á því að fræða mann um ástandið á helstu áhrifasvæðum rússa og segja manni frá klúðurslegum tinderdeitum sínum. Og margt margt fleira. Er núna í miðri Ungar sorgir eftir Danilo Kis, sem hefur nú áreiðanlega heillað aðra meira en mig – kaflarnir eru afar missterkir, finnst mér, allir fallegir og ljóðrænir og barnslega einlægir en þetta er samt eitthvað meh. Líkt svo mörgu öðru. Þessi töfrandi æska í harmanna heim. Ég veit ekki hvort þetta bara eldist illa eða hvort ég er bara kominn með nóg eða hvað – mér finnst ég alveg svolítið heimsbókmenntalegur að lesa þetta, svona einsog ég fái stig fyrir það, en þetta er samt líka meh. Því ákafar sem ég les sjálfur þeim mun minna finnst mér allir aðrir lesa. Ég las ekki nema tæplega 60 bækur í fyrra, þeim hafði þá fækkað ár frá ári sennilega bara frá því ég fékk fyrst börn og svo snjallsíma – innblásinn af gömlu kvóti í Árna Bergmann, um að sá sem segðist aldrei hafa tíma til að lesa ætti að prófa að slökkva á sjónvarpinu af og til, ákvað ég að gera eitthvað í þessu. Í stað þess að hætta að sinna börnunum hætti ég að sinna símanum og ef ég held áfram í sama tempói mun ég lesa um 300 bækur í ár. Og núna, á bók 106, er ég að átta mig á því hvað ég þekki mikið af fólki – þar með töldu bókmenntafólki, jafnvel starfandi rithöfundum – sem les ekki nema 1-2 bækur í mánuði. Það er auðvitað leiðinlegast fyrir þann sem finnur aldrei tíma til að lesa meira en svo, en það er líka leiðinlegt fyrir bókmenntasamfélagið – fyrir bókabúðirnar, útgefendurna, bókasöfnin, bókaklúbbana, rithöfundana og allt hitt þar sem gæti verið meira líf. Og styrkir enn frekar þá tilhneigingu „markaðarins“ að allir lesi sömu bókina – eða sömu þrjár. Því ef maður les fáar bækur er maður ekki mikið að sjansa neitt – fer bara í sinn Arnald, sinn Hallgrím, sína hvora Auðina. Forlögin eru reyndar mjög dugleg að peppa upp þá stemningu líka (enda kostar víst minni pening og fyrirhöfn að bæta 300 lesendum við Arnaldarkreðsuna en að bæta 100 lesendum á eitthvert ungskáldið eða 50 lesendum á einhverja fagurbókmenntaþýðingu). Og Storytel er sennilega verst – og annað en venjulegar bókabúðir með alveg hrottalega áberandi agenda. Já og jú oft eru bókabúðirnar að þessu líka – oft svo fljótar að losa sig við „gamlar“ bækur að ári eftir jólabókaflóð eru 8 af hverjum 10 titlum horfnir. Og í öllum tilfellum er þetta óþolandi. Stofnanir bókmenntaheimsins ættu alltaf að ýta undir margbreytileikann með öllum tiltækum ráðum – og segja einsleitni stríð á hendur. Ég varð einmitt svolítið leiður úti í Svíþjóð um daginn þegar ég sá að Pocketshop var hætt að snúa kjölunum fram í bókabúðum sínum – þar var alltaf rosalega gott úrval, þótt það væru bara skáldsögur og bara í kiljum. Nú snúa kápurnar fram og þar með minnkar hið eiginlega hillupláss um 70%. Akademibokhandeln er svo bara einsog Eymundsson með minni ljóðabókahillu. Ég ber óttablandna virðingu fyrir bókabúðum þar sem maður sér fáar kápur. Það eru helgidómar og þar vil ég eyða öllum peningunum mínum. Sem betur fer fyrir minn persónulega efnahag eru þær afar fáar – en svona eru bókasöfn og þau eru frábær. Í Frakklandi fá bókabúðir alls konar sporslur og ívilnanir – en þá þarf líka að uppfylla sérstakar „bókabúðar“ kröfur. Það verður t.d. að vera ákveðið lágmark af titlum (sem er margfalt miðað við íslenskar bókabúðir) og þar má ekki leggja undir nema lítið svæði fyrir aðra hluti en bækur. Þar eru alla jafna ekki stórar ritfangadeildir og alls ekki neitt ferðamannaglingur. Og þar verða líka að vera viðburðir – jafnvel í smæstu bókabúðum Parísar eru reglulegir upplestrar og spjall við höfunda og álíka. Áður en Geiri á Goldfinger var Geiri á Goldfinger var hann Geiri á Maxim’s og þar áður var hann Geiri á Hafnarkránni. Á Hafnarkránni, sem var rónabúlla, var alltaf skilti í glugganum sem auglýsti hvað væru til margar viskítegundir á staðnum. Ég man ekki hvað þær voru margar en ég man að mér fannst eiginlega hálfstjarnfræðilegt að það væru yfir höfuð til svona margar viskítegundir í heiminum. En þetta hefur altso ekki dugað til – allar viskítegundir í heimi breyttu ekki staðnum og þetta endaði auðvitað bara með því að Geiri gerðist stripparadólgur. Stripparar eru einsog allir vita lundadúkkur djammmenningarinnar. Það er sem sagt samlíkingin sem ég er að koma með hérna. Viskí eru bækur hennar og ég er bótaróninn sem eyðir tekjum sínum í ódýrasta eitrið sem hann fær. Og ef þið farið ekki að drekka mér til samlætis endum við sem sagt öll þvenglaus á stönginni.

Fulli kallinn í Norrköping

Ég leit við í Norrköping á helginni og ræddi bókmenntir – aðallega Illsku og hljóðaljóð – við gesti á Stadsbiblioteket. Þar var líka John Swedenmark sem flutti dæmalaust erindi um íslenskar bókmenntir frá upphafi til enda – eða allavega dagsins í dag – kvað og söng og lék almennt á als oddi. Í Norrköping var nýlokið óeirðum eftir að Rasmus Paludan leit þar við og hótaði að brenna kóraninn – á sama tíma og íslenska lögreglan var stöðugt að handtaka vitlausan mann í Reykjavík, og áttu þeir tveir víst ekki annað sameiginlegt en hörundslitinn. Ég hitti fullan mann á bar í Norrköping sem hafði lítinn skilning á því að þótt ég hefði leyft honum að setjast við borðið mitt, enda ekki laust annars staðar, þá væri ég að lesa meistaraverk Andrejs Kúrkov, Dauðinn og mörgæsin, og nennti eiginlega ekki að láta trufla mig. Ég eiginlega vorkenndi honum samt. Ég hafði fyrr um daginn haft uppi gífuryrði um muninn á finnskum og sænskum fyllibyttum – það sæist yfirleitt ekkert á þessum sænsku – sem er auðvitað ekki alveg satt, frekar en svo margt annað sem ég segi í hita leiksins, en ég man að ég hugsaði að sennilega væri þetta raunverulegur munur á sænskum og finnskum drykkjumönnum (og kannski bara Svíum og Finnum almennt), að Finnum finnst ekki einsog heimurinn þurfi stöðugt að bera þeim vitni. Það er algengara að Finnar sitji einir á bar og þeir eru ekki endilega mikið í að heimta félagsskap. Það er ekki bara feimni – það er líka skortur á taugaveiklun, það er líka ró. Svíar birtast sjaldan einir á bar og eru þá fljótt farnir að pota í næsta mann. Þeir eru svo óstjórnlega áhugasamir um mannleg samskipti. Sennilega var þetta nú samt verra fyrir konurnar sem stóðu við barinn, en mig, því alltaf þegar hann fór og pantaði sér nýjan drykk – sem var mjög oft – kom hann sér fyrir fyrir aftan einhverja konu og greip svona „vinalega“ í axlirnar á henni eða beygði sig einhvern veginn undarlega yfir hana, svo henni brá. Þessi taktík skilaði honum ekki öðrum árangri en grettum og við þær dró hann nóg úr ágengninni til þess að illt yrði ekki verra. Ég nefni hann nú samt aðallega af því hann fór að tala um óeirðirnar – fyrst spurði hann mig um það sem Ebba Busch hefði sagt. Ég fylgist afar lítið með fréttum og kom af fjöllum, rétt vissi af óeirðunum. Hann fór nú eitthvað ónákvæmt með það sem hún hafði sagt en ég sló því upp daginn eftir – og hún sagðist ekki skilja hvers vegna lögreglan hefði ekki skotið „skarpt“, sem ég skildi ekki almennilega hvað þýddi fyrst, en þá er hún að spyrja hvers vegna ekki hafi verið notaðar alvöru byssukúlur á mótmælendur. Ebba Busch er ekki Svíþjóðardemókrati, vel að merkja, hún er leiðtogi Kristilegra demókrata – ung kona, fædd 87, áberandi stjórnmálamaður í hægriblokkinni og líkleg til að enda í ríkisstjórn. Og hún vill sem sagt að lögreglan skjóti óeirðarseggi – bara inn í mannfjöldann, væntanlega. Lögreglan svaraði þessu nú reyndar af talsverðri hörku – sagði að það væri margsannað að slíkar aðgerðir ykju ekki á öryggi almennings eða drægju úr óeirðum heldur settu þær yfir á annað stig. Þar sem skotið væri á reitt fólk yrði reiða fólkið bara reiðara og færi að kveikja í húsum og bílum og vopna sig meira sjálft. Við þetta má bæta að lögreglan skaut reyndar byssuskotum að mótmælendum, þótt það væru (að ég best veit) bara „viðvörunarskot“. Nema hvað, fulli kallinn býsnaðist nú nokkuð yfir Ebbu, sem væri úti að aka. En svo fór hann að röfla voða mikið um að „við“ þyrftum nú samt að fara að „hugsa okkar ráð“ og „ákveða“ hvað „við“ ætluðum að gera. Ég reyndi heillengi að fá hann til að útskýra hvað hann ætti við með „við“ og „hugsa“ og „ákveða“ en það skilaði engri heillegri niðurstöðu – hann lét aldrei hanka sig beint á því að hann væri að tala um að við hvítu karlarnir þyrftum að ákveða hvað við ætluðum að gera við svörtu karlana (altso, taka hart á þeim – ég held hann hafi verið að meina það, ekki skjóta þá kannski í hita leiksins, en hugsanlega setja þá alla í fangelsi eða senda þá úr landi eða guð veit hvað, kannski var hann ekki með neinar lausnir aðrar en þennan óljósa fylleríisrasisma). En ég las honum svolítið pistilinn samt og reyndi að fá hann til að fara að lesa Jonas Hasssen Khemiri og kynna sér aðeins hvernig það væri að alast upp hörundsdökkur í Svíþjóð. Svo sneri ég mér aftur að bókinni. Hann fann sér alltaf annað veifið eitthvað sem hann vildi brydda upp á við mig en þetta var lengsta samtalið sem við áttum. Á endanum hringdi einhver í hann og hann stóð upp og fór – án þess að kveðja, sennilega orðinn móðgaður af því hversu ítrekað ég sneri mér aftur að bókinni (þótt hann væri stöðugt að biðjast afsökunar á því að trufla mig, hann ætlaði alls ekki að trufla mig, hann þyrfti bara aðeins að spyrja að einu). Dauðinn og mörgæsin var annars alveg jafn góð og hún var fyrir 20 árum.

Ljóð fyrir hálfupprisinn draug

Páskarnir búnir. Eða liðnir að minnsta kosti, ef þeir eru ekki búnir. Ég er sá eini í minni fjölskyldu sem er búinn með páskaeggið sitt að minnsta kosti. Með páskunum kom Aldrei fór ég suður, eftir þriggja ára hlé, og með páskunum fór veturinn. Nú er loks að verða snjólaust í bænum. Ég sá helling af tónleikum – hápunkturinn var áreiðanlega systkinabandið Celebs. Með eftirminnilegri atriðum frá upphafi. Trylltur kraftur og tryllt stuð. Aino var ánægðust með Bríeti – fór alveg fremst – og Aram með Sólstafi. Nadja sennilega sammála mér með Celebs en strax þar á eftir var garanterað plötusnúðurinn á Húsinu, sem fékk mikið lof hjá dansþyrstum. Þá var ég aðallega úti að reykja (af því mér finnst það gott en líka af því ég er hræddur við að skemma á mér hnéð aftur í fylleríisdansi). Sjálfur lék ég líka á einum tónleikum – sem bassaleikari í hljómsveitinni Gosi. Það var gríðargaman. Auk þess mannaði ég barinn á Aldrei í áttamanna feðgateymi á laugardagskvöldið – við Skúli frændi, Háli og Hjölli ásamt sonum – en annars var ég mest bara að frílysta mig. Einhvern veginn tekst manni samt að verða alveg húðlúinn af öllum þessum frílystingum. Í morgun fór ég síðan í bókabúð og ætlaði að kaupa nýja ljóðabók Sjóns – ég er svo lítið í sambandi við umheiminn að ég veit ekki einu sinni hvað hún heitir, sem kom ekki að sök af því hún var ekki til. Eða kannski kom það einmitt að sök þess vegna. Ég hefði kannski fundið hana ef ég hefði vitað hvað hún hét. Eða ég hefði getað látið lífvörðinn úr Celebs, sem selur bækur, panta hana fyrir mig. En af því ég er draugslegur eftir helgina keypti ég bara „eitthvað annað“ – og varð ekki „fyrir vonbrigðum“. Annars vegar keypti ég Klón eftir Ingólf Eiríksson og Elínu Eddu og hins vegar Sataníu hina fögru eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur. Og las þær strax upp til agna og svo aftur. Mér finnst alltaf einsog ég hafi margskrifað um bækur Steinunnar, sem ég held mjög mikið uppá, en svo finn ég það aldrei og kemst aftur og aftur að þeirri niðurstöðu að sennilega hafi ég bara alls ekki skrifað neitt um neina þeirra. Ég veit heldur ekki alveg hvað ég á að segja, svo kannski er það bara best – þetta eru ljóð sem myndu lýsa sér sjálf best en maður á kannski að fara varlega í að vera að pósta heilum ljóðum eftir fólk svona á bloggið sitt nema maður ætli að hafa um þau fleiri orð og greiningar. Einu sinni póstaði ég gjarnan ljósmyndum innan úr ljóðabókum – einhverjum fannst það víst ekki við hæfi en mér fannst alltaf að það væri öðruvísi vegna þess að textinn birtist sem mynd, ógúglanlegur, ókópípeistanlegur, en það var áreiðanlega fyrirsláttur og auk þess er það úrelt. Tæknin hefur breyst. Batnað, skilst mér. Allavega aukið við sig. Í dag getur hún meira, á ég við. Steinunn allavega – eigum við að segja að hún trufli fegurðina? Í einu ljóðinu í nýju bókinni kemur fegurðin í heimsókn og ljóðmælandi fer að hengja á hana alls konar „ljóta hluti“. Límtúpu asnalega græna.
Baðmottu úr hálfhörðu gúmmíi.
Málaðan stein.
Vetrargrænan akur.
Lampaskerm. Og þá gleðst fegurðin og skín. Svona eru flest ljóðin einhvern veginn. Dálítið skökk en falleg. Dálítið agressíf en mjúk. Dálítið klikkuð en jarðbundin. Dálítið réttstæð og dálítið rangstæð. Dálítið falleg en alltaf svolítið af ljótu hangandi úr þeim, sem gerir þau enn … kannski ekki fallegri en betri. Ég las Línulega dagskrá eftir Ingólf þegar hún kom út en hún markaði svo sem engin spor í mig. Ég man að ég hryllti mig yfir þeim ófyrirgefanlega glæp að skrifa orðið „niður“ niður. Að vísu ekki n i ð u u r sem hefði verið verra, heldur niður niður niður niður En annars fór hún svolítið innum annað og útum hitt – Meðgönguljóðaformattið var líka einhvern veginn þannig að það þurfti ansi mikið til þess að skera sig úr. Bæði voru bækurnar svo stuttar og estetíkin svo samræmd; hjúpaði þær svolítið. Í svipinn man ég bara eftir örfáum bókum sem slógu mig – Herra Hjúkkett og Neindarkennd þar efst á blaði. Ég myndi nefna líka Kvöldsólarhana en ég ritstýrði henni og er bullandi hlutdrægur. Nema hvað. Svo las ég Stóru bókina um sjálfsvorkunn sem var miklu meira verk og áhugaverðari þótt mér hafi kannski þótt hún aðeins of stillt til að sitja í mér lengi. Klón er í einhverjum skilningi ennþá stilltari og fókuseraðri og jafnvel klínískari en þar kemur líka fram mjög mikið af karakternum í bókinni – hún minnir á Gertrude Stein á köflum í heimspeki- og tungumálalegri smásmygli; veltir ekki við augljósustu steinunum, eða kannski öllu heldur: maður veit ekki að þetta voru augljósustu steinarnir fyrren þeim hefur verið velt við. Hún minnti mig líka svolítið á Jonas Gren – t.d. Alls staðar þarf ég að vera miðpunktur alheimsins – eða Gå till historian eftir Linn Hansén. Altso, frábær bók, alveg dásamleg. Elín Edda á heiðurinn af myndum bókarinnar sem eru líka æði, þótt ég hafi minna um þær að segja – ég þarf alltaf að setja mig í mjög miklar stellingar til að hafa eitthvað meira um myndlist að segja en „æði“ eða „meh“. Og ég er einsog ég nefndi frekar draugslegur þennan mánudagsþriðjudag eftir páska, alveg búinn með allar stellingar nema þessa þar sem ég ligg kylliflatur í sófanum. Ég verð nú eiginlega að nefna líka dúkristuna á kápunni hjá Steinunni, sem heitir María mey og er eftir Fríðu Karlsdóttur. Líka æði.