Untitled

Ég er ennþá hérna. En ég er ýmist að vinna eða hvíla mig. Í kvöld fæ ég hefðbundinn danskan mat, fríkadellur. Á morgun geri ég plokkfisk og á föstudag ætlar Jörg að gera eitthvað austurrískt  í kvöldmat. Það verður áreiðanlega ekki sachertorta því honum finnst þær ekki góðar. Kannski vínarsnitsel, en ég efa það. *** Ég fór út að hlaupa. Strákarnir köstuðu sér í vatnið. Ég nennti því ekki.

Untitled

Það markverðasta sem gerðist í gær – fyrir utan að ég hafði ekki tíma til að skrifa neitt hér – var að yfir kvöldverðinum (fajitas í boði Jörg) drakk ég hálft mjólkurglas af rándýru Mezcal sem Martin tók með sér frá Mexíkó í síðustu viku. Í einum sopa. Fyrir misgáning. Mig minnti að þetta væri vatn. Og nú er ég með höfuðverk.

Untitled

Ég húki á Kastrup og bíð eftir að Jörg komi frá Austurríki og Martin huskist héðan úr Kaupmannahafnarúthverfinu sínu svo við getum haldið áleiðis til Jótlands í rithöfundamiðstöðina í Hald. *** Fékk mér sorglegan borgara á Burger King. Í þessari ferð hef ég þá borðað á McDonalds (sjeik), Pizza Hut (pitsu), Subway (hálfan steikarbát) og Hesburger (fínan stóran borgara), auk betri veitingastaða, í heimahúsi og í finnskum og íslenskum vegasjoppum. Við ætluðum á Koti Pizza en það mistókst. *** Þegar ég var hér uppi á efri hæðinni, á Burger King, undu sér að mér tveir starfsmenn og spurðu hvort ég ætti tösku sem þarna stóð. Svarta ballerínu. Ég kannaðist ekki við hana svo þeir lituðust aðeins um og skildu hana svo bara eftir hjá mér. Ég skoðaði hana aðeins. Hún var ómerkt nema á henni var  töskumiði sem á stóð eitthvað um öryggi. Það var fyrirtækjalógó. Safety eitthvað. Mér stóð ekki á sama, pakkaði niður dótinu mínu og flutti mig yfir á Starbucks. *** Ef ég spring í tætlur hérna niðri verður það þá ekki vegna þess að ég hafi ekki reynt að gera neitt í málinu.

Untitled

Stundum fara hugsanir mínar á flug og þá set ég bakvið eyrað að „þetta“ vilji ég blogga um. Þegar ég svo sest niður til að skrifa eru þessar hugsanir flognar út í veður og vind. Það er ágætt. Þá hef ég ráðrúm til að hugsa eitthvað nýtt. *** Fluginu hans Jörg seinkar. Hann átti að lenda einum og hálfum tíma eftir mér í Kaupmannahöfn, þar sem við hittum Martin, en nú er óvíst hvort hann nái tengifluginu í Berlín. *** Nú datt ég inn í að lesa örnefni hafa og stöðuvatna á tunglinu. *** Haf rakans – Mare Humorum Haf bárunnar – Mare Undarum Stöðuvatn dauðans – Lacus Mortis Stöðuvatn hatursins – Lacus Odii Stöðuvatn óttans – Lacus Timus *** ❤ tunglið *** Dettur einhverjum í hug að Baltasar Kormákur njóti ekki forgangs hjá Kvikmyndasjóði? Annars er fáránlegt að sjóðurinn sé að styrkja Ófærð – þetta er dropi í hafið fyrir þá framleiðslu en getur ráðið baggamuninn fyrir marga aðra. Einsog að henda listamannalaunum í Arnald. En Kvikmyndasjóður vill fá lógóið sitt á alþjóðlega framleiðslu, vill sjást í útlöndum, vera frægur. Og kannski geta bent á Ófærð til að réttlæta tilvist sína – sjáið peningaframleiðsluna sem við áttum þátt í! – enda löngu kominn bottomlænhugsunarháttur í menningarstyrkjabransann. En auðvitað er það ekki tilgangurinn með menningarstyrkjum. *** Ég ætla að pissa áður en vélin mín fer í loftið. *** Ekki að það komi neinum við. *** Adios muchachos.

Untitled

Ég las Om Offisim eftir Malte Persson og hafði mjög gaman af. Þetta er eins konar skrítlubók eða ævisaga. Stuttir kaflar sem segja frá heimspekingnum, nýaldargúrúinu, sjálfshjálparsérfræðingnum, skáldinu, uppfinningamanninum og trúarleiðtoganum Offisim. Bókin er fyrst og fremst mjög skemmtileg en það er líka í henni snertur af því sem mig langar að kalla alvöru heimspeki en ég veit ekki hvort ég má – ég er að hugsa um Lao Tse og Wittgenstein. En það er líka snertur þarna af Coelho eða satíru af Coelho. Offisim er stundum beinlínis „djúpur“, stundum hlægilegur og stundum – einsog Lao og Ludwig – einhvers staðar mitt á milli. Óskiljanlegur einsog Zenmeistararnir; í fullyrðingum sem maður snertir ekki á með hyggjuvitinu heldur lætur einfaldlega þeyta huganum á flug. *** Ég er að verða búinn með Bjargræði Hermanns Stefánssonar. Hermann hefur skrifað mjög mikið af góðum bókum á frekar stuttum tíma og það hefur alls ekki farið nóg fyrir þeim. Frá Algleymi eða svo. Margt hefur verið skrifað um Bjargræði sem lesendur mínir (séu þeir nokkrir) eru kunnugir. Látra-Björg situr á kaffihúsi í Reykjavík og röflar yfir samtímanum við mann sem ætlar að halda framhjá konunni sinni, vegna þess að hann telur að hún hafi haldið framhjá sér, og segir upp og ofan af ævi sinni. *** Röflið er frásagnarmáti sem hentar samtímanum mjög vel –í þeim móð er Látra-Björg miklu meiri samtímamaður en hún vill vera að láta. Hún er í einhverjum skilningi alltaf að taka myndir af matnum sínum – árétta sjálfa sig og sjá sig utan að. Bjargræði er sjálfsmynd Látra-Bjargar, mynd af fortíðinni sem hún var, úr samtímanum sem hún gengur aftur í. Og mynd af matnum hennar. (Hún sem sagt hatar matarmyndir). *** Ég á dálítið erfitt með gullaldarmál í íslenskum bókmenntum. Eða blætið fyrir gullaldarmáli. „Ég hata gullaldarmál“ skrifaði ég í tölvupósti til vinar míns, þar sem ég var annars að mæra bókina. Svona dregur maður úr þegar maður mælir á torgum. En mér finnst það sem sagt ódýr leið til þess að „skapa stíl“ að breiða yfir sig skikkju orða frá Gröndal eða Þórbergi eða úr nítjándu aldar sendibréfum og slíku. Ég skil blætið og er fær um að sleppa takinu og „bara njóta“ – rétt einsog ég get alveg, ef ég vil, látið mig falla ofan í eilífðarhimnahafsogaugnalýsingar Kalmans – en ég þarf að hafa svolítið fyrir því. *** Og ég er ekki frá því að ímugust mín (sennilega talaði ég um ímugust frekar en hatur í áðurnefndum tölvupósti – kannski var ég þar með sjálfur ómeðvitað að teygja mig aftur í tímann, hver segir eiginlega „ímugust“???) sé blandin einhverri öfund. Ekki get ég skrifað svona, einsog Hermann og Offi og Bergsveinn og Sölvi. *** Mér finnst samt mikilvægt að bækur innihaldi einhvern stíl. Að þar sé tekist á við tungumálið. Ef bók er lýst svo að hún sé skrifuð af tilgerðarlitlum stíl ímynda ég mér bara að rithöfundurinn hafi ekki nennt að hafa fyrir því að skrifa hana. Ég vil rembing og læti. Svona yfirleitt, á þessu eru undantekningar. Sumt fólk skrifar tilþrifalítið, en samt þannig að einhver sérstök og sterk rödd skín í gegn – mér detta í hug jafn ólíkir höfundar og Tove Jansson og Charles Bukowski. *** Og Hermann gerir þetta vel og ofgerir því alls ekki. *** Ég hef veitt því eftirtekt að algengasta orðið í orðaforða mínum – fyrir utan og og ég og en og í og úr og að og það allt saman – er sennilega eða eitt af systkinum þess, líklega, kannski, trúlega, vísast o.s.frv. Ég gæti best trúað (þ.e.a.s. „sennilega“) er þetta mitt „mér finnst“ eða mín halaspurning. „Ekki svo?“ „Non?“ Og hugsanlega ætti ég að venja mig af þessu. Læra að tala og skrifa í beinni línu. Úr mínum heila beint í þinn, frekar en að leggja það í þinn dóm hvort mér sé óhætt að fullyrða eitthvað. I am a free man, I have another number. *** Næst ætla ég að lesa La Storia eftir Elsu Morante. Aðra langa skáldævisögulega ítalska bók um seinni heimsstyrjöldina (hin var Kaputt eftir Malaparte, sem ég nefndi hér um daginn). Það var mælt með þeim báðum við mig; tvær vinkonur mínar. Roberta Soparaite á Ísafirði, sem hefur þýtt hluta úr Illsku á litháísku, mælti með Kaputt og lánaði mér sitt eintak. Franska ljóðskáldið Marie Fabre – sem þýðir einmitt talsvert úr ítölsku – mælti með Morante.

Untitled

Sennilega er Hvalárvirkjun ekki merkileg byggðaaðgerð, þótt ég hafi annars lítið vit á því. Það er hins vegar áhugavert að skoða umræðu eða orðræðu þeirra sem setja sig upp á móti henni. Efri millistéttin í Reykjavík talar um landið einsog sitt prívat gallerí; talar um heimkynni annars fólks einsog höggmyndasafn sem það eigi að eiga ókeypis aðgang að á meðan enn skín sól á jörðu. Það spyr: Hvers virði erum 15 megawött (eða hvað það er) gagnvart eilífð fegurðarinnar? *** Þetta er alls ekki spurningin. Spurningin er: Hvers virði eru heimkynni fólks. Hvers virði er mannabyggðin. Hvers virði er lífið í Árneshreppi. Mannlífið og menningin. *** Efri millistéttinni í Reykjavík þykir vænna um Hornstrandir. Þykir vænt um draugahús og forna, horfna byggð. Þar nær hún tengslum við ræturnar. Hún nær engum tengslum við fólkið í Árneshreppi sem berst fyrir tilveru sinni. Ekki fyrren það er flutt á mölina og börnin þeirra eru farin að skrifa sagnfræðilegar doktorsritgerðir um hnignun mannlífs í jaðarbyggðum – milli þess sem þau „hlaða batteríin“ í yfirgefnu húsi foreldra sinna vestur í rassgati. *** Vesturlandarbúar fórna alltaf hagsmunum þess veikasta fyrst. Þess sem á minnst undir sér. Þannig virkar kapítalisminn. Flugvallarmálið er annað eins mál – og aftur er ég alls ekki viss um að flugvöllurinn þurfi að vera í Vatnsmýri, það er önnur saga, en hann má fara, á jafnvel að fara,  þrátt fyrir að kannski komi ekkert í staðinn fyrir hann og það finnist engin lausn á samgöngumálum. Hagsmunir þeirra landsmanna sem berjast fyrir tilverurétti sínum mega sín einskis gagnvart vaxtarverkjum þeirra sem mega sín mest. Þá skiptir ekki einu sinni máli að stór meirihluti höfuðborgarbúa kæri sig alls ekki um að flugvöllurinn verði fyrirvaralaust látinn flakka. Hagsmunir hins sterka tala sínu máli. *** Í Reykjavík og víðar heitir þetta jafnaðarmennska. Sennilega hefur orðið jöfnuður alveg gersamlega misst merkingu sína. Íslenskir sósíaldemókratar eru amerískir demókratar. Það eru sænskir sósíaldemókratar núorðið líka. Og franskir. Kanadískir. Og svo framvegis.

Untitled

Ég er femínisti. En mér hefur oft verið sagt að ég sé það ekki. Og jafnvel beinlínis sagt að ég megi ekki kalla mig femínista ef að mér finnst ekki a) b) eða c). Yfirleitt hefur það snúist um „ákvörðunarrétt konunnar“ yfir eigin líkama. Mér finnst erfitt að samþykkja lög sem takmarka til dæmis rétt kvenna til að ganga með börn fyrir aðra – gegn greiðslu eður ei – meðal annars vegna sögulegrar stöðu konunnar og þess hvernig alls kyns opinbert vald, fyrst og fremst kirkjan, kapítalið og ríkisvaldið hefur og vill hafa umráðarétt yfir eggjastokkum, leggöngum og öllu hinu. Það er mér – sem femínista – mikilvægt að konan sé frjáls. *** Ég er vel að merkja ekki eini femínistinn í heiminum sem finnst þetta. Ekki einu sinni einn af milljón. En ég þekki margar konur sem myndu aldrei tala þannig við kynsystur sína en eiga samt í engum vandræðum með að skuðskýra fyrir mér hvað skoðanir mínar heita. (Ég er sennilega ekki nógu mikill  bandamaður í mér til að horfast ekki í augu við að í hópi kvenna og feminískra kvenna eru líka hrokafull fífl). *** Annars er ég hvorki frjálshyggjumaður né einstaklingshyggjumaður. Þetta er að mörgu leyti undantekning í skoðanamengi mínu, tilkomin af litlu trausti á þeim stofnunum sem mest hafa patróníserað konur í gegnum tíðina, hornsteinum feðraveldisins. *** Og svo er ég oft samt frjálshyggjumaður og einstaklingshyggjumaður. Þegar ég hugsa út í það. Anarkisti. Sósíalisti. Það er stundum erfitt fyrir mig að henda reiður á þessu. *** Það er líka erfitt að gangast við femínistaheitinu þá daga sem heimskuleg skrif í nafni femínismans fara með nethiminskautum. Einsog leikhúsrýni Maríu Lilju um Ljóta andarungann. Eða textar sem eru bara illa dulin mannfyrirlitning. Það er bara þannig. Þá daga verður maður að minna sig á að Sovétríkin eru ekki lýsandi fyrir hina sósíalísku hugsjón, hvað sem Brésneff segir. En maður verður einmitt að vera duglegri að fordæma gúlagið vegna þess að það er reist í manns nafni, yfir því blaktir vor fáni – í fullkomnum órétti. *** Það eru ekki bara fyrirtæki sem grænþvo sig. Regnbogaþvo sig. Bleikþvo sig. Ekki bara fyrirtæki sem vilja virðast umhverfisvæn, sýna konum og hýrum samstöðu og hlýhug – án þess að vilja leggja neitt raunverulegt að mörkum, nema rétt sem dugir þeim í auglýsingaskyni. Þetta gera einstaklingar líka. Á samfélagsmiðlum. Enda erum við öll fyrirtæki í kapítalisma 21. aldarinnar. *** Það er augljóslega próblematískt fyrir alla alvöru sósíalista. *** Ég hata jafnlaunavottun. Hana . Þá er það sagt. Ég hata hana ekki vegna þess að mér finnist ekki að það eigi að borga körlum og konum sömu laun, heldur vegna þess að hún er notuð til þess að breiða yfir þá staðreynd að fólki eru almennt greidd mjög ójöfn og óréttlát laun. Hún er hvítþvottur. Á meðan fyrirtæki borgar skúringakellingunum sínum brotabrot af forstjóralaununum skiptir engu máli hvort forstjórinn (kk) og framkvæmdastjórinn (kvk) eru með nákvæmlega sömu milljónatöluna í mánaðarlaun. Þau eru bæði skítrík. Vandamál þeirra koma mér ekki við. Ég hata vandamál þeirra. *** Kannski er það líka illa dulin mannfyrirlitning. Ég er sennilega ófyrirleitnari sósíalisti en ég er femínisti. En femínismi minn kemst líka svo að segja allur fyrir innan sósíalisma míns. Ég lít ekki á þetta sem tvo aðskilda hluti. Ég er ekki jafnréttissinni heldur jafnaðarmaður. Og þar af leiðandi femínisti. *** Man einhver lengur muninn á jöfnuði og jafnrétti? *** Jafnlaunavottuð fyrirtæki eru varla nema brotabroti minna óréttlát í launagreiðslum sínum en gengur og gerist. *** Ég er líka meiri og meiri efnishyggjumaður með aldrinum. Og var þó alltaf frekar mikill efnishyggjumaður. Frjálslyndir drápu marxismann í samfélaginu með því að gera efnishyggjuna móralskt ranga. Einsog kirkjan gerði á undan. Eat, pray, live on hay / you’ll get pie in the sky / when you die, orti Joe Hill um árið. Frjálslyndir vilja bara að allir séu næs. Og svo fær maður aldrei einu sinni neina köku þegar maður deyr. Maður fær kannski rifinn svínakjötsborgara með innfluttum ESBískum gráðosti, sultuðum rauðlauk úr beðinu úti í garði og heimabrugguðum craftbjór þegar manni er boðið í mat til borgarastéttarinnar annað veifið. Af því hún er svo næs. Og þá skiptir ójöfnuðurinn engu. *** Sósíalísk efnishyggja mín gengur út á að tryggja eigi öllum jafn mikið af efnislegum gæðum að því marki sem þeir kæra sig um. Það er ekki nóg að rétta fátækum ölmusu. Þessar aðgerðir – líkt og umhverfisvernd – eiga á að vera á forræði og að frumkvæði ríkisvaldsins. Til þess er það. *** Já og svo er enginn jöfnuður án jafnréttis. En einsog hefur rækilega sýnt sig er hellings ójöfnuður þrátt fyrir hellings jafnrétti. Launamunur kynjanna er satt að segja hlægilegur við hliðina á launamuni stéttanna. (Og miklu meiri kynjaójöfnuður byggður inn í launamun stéttanna en launamun kynjanna – af því að kvennastörf eru svo lítils metin). *** Ég er líka þeirrar skoðunar að sé leyst úr þessu grundvallaróréttlæti leysist margt annað óréttlæti af sjálfu sér. Hælisleitendur eru ekki bjargarlausir ef þeir eiga jafn mikið tilkall til samfélagsins þar sem þeir búa og hinir. *** Já og meðan ég man eru landamæri ímyndaðar gaddavírsgirðingar kapítals og ríkisvalds og þeim ber að tortíma. *** Capisce?

Untitled

Nú er sólin komin og hitinn að skríða í 20 gráður í Kylämä. Það verður ekki finnskara. Við búum inni í miðjum skógi – meira að segja síðasti kílómetri vegarins hingað var grasi vaxinn og trén teygðu sig yfir bílinn. Þetta var einsog að keyra upp í sjálft skaut móður náttúru. Í móðurlífinu er einn bústaður og „sánahús“. Öldruð frænka Nödju og maður hennar búa í bústaðnum, Kirsti og Reine, en við búum í sánahúsinu. *** Sánahúsið er einsog heimavistarherbergi samvaxið sánabaði. Og samt er þar allt til alls. *** Ég tók að mér þýðinguna. *** Yfir morgunmatnum diskúteruðum við gæði ólíkra rúgbrauða og súrdeigshrökkbrauða. Finnar eru mjög elskir að rúgbrauðum og helst eiga þau að vera súr, gömul, seig og hörð. Íslendingum dugði ekki að brjóta niður sykrurnar í rúginum með seyðingunni heldur hafa þeir síðustu 100 árin eða svo blandað það til helminga með sýrópi. *** Leikurinn „ertu rúgbrauð eða fransbrauð“ meikar fullkomið sens í Finnlandi. Á Íslandi gætirðu allt eins spurt börnin hvort þau séu rjómaterta eða fransbrauð. Íslenska rúgbrauðið er sælgæti. *** Rúgbrauð með plokkfiski er einsog ananas á pizzur. Bananar í karríréttinn. Sulta með steikinni. BBQ-sósa á kjúllann. Tómatsósa á pylsuna. *** Hér er svolítið um moskítóflugur. Óvenju lítið, segir fólk, en ansi mikið fyrir mann sem þær eru elskar að. Nadja segir að ég hafi smitað Aram af moskítófóbíu en ég reyni að benda henni á að það sé ekki fóbía þegar maður er allur bólginn, rjóður og klæjandi. *** Ég er að hugsa um að synda yfir stöðuvatnið hérna. Saaresjärvi heitir það. Eyjavatn. Eða eyjuvatn. Það er bara ein eyja í því, það best ég get séð. ***

Untitled

Ég tala ensku við úrið mitt. Þannig er það bara. Ég get að vísu líka talað sænsku við það, en bara við tilteknar aðstæður. Úrið mitt skilur enga íslensku. Þannig er það bara. *** Eitt af því sem úrið gerir sem ég geri ekki er að skilja muninn á e og ä. Í dag sendi ég mági mínum skilaboð „efter du kött?“ í staðinn fyrir „äter du kött?“. *** Annars nota ég þetta mest til að kveikja á hlaupaprógrami eða niðurtalningu. Þegar ég er að elda til dæmis. *** „Countdown 2 minutes“ sagði ég þegar núðlurnar voru komnar í pottin og úrið byrjaði strax að telja niður. „Vad sa du? Jag hör inte“, sagði þá Nadja. „Ég er að tala við úrið“, svaraði ég. Þá kom hún og knúsaði mig. Henni finnst mjög kynæsandi þegar ég tala við heimilistækin. Þegar ég segi þeim fyrir verkum. *** Kannski hlakkar bara svona í henni yfir hnignun íslenskunnar. Svíar eru náttúrulega mjög kólóníal, svona innst inni.

Untitled

Ég skreið lúinn fram úr í morgun – hálfþunnur eftir harða rúmið hérna í Maunula. Inni í eldhúsi stóð Nadja í engu nema nærbuxum og alltof stórum Guns N’ Roses bol og hellti upp á kaffi. Í augnablik fannst mér einsog árið væri 1988. Og ég í senn þrjátíu árum yngri og tíu árum eldri. *** Af því að fyrir þrjátíu árum var ég 10 ára. Og mér leið einsog ég væri 20 ára. Sko. Ekki einsog ég væri fimmtugur. *** Yfir morgunmatnum ræddum við bókamessuna í Gautaborg við mág minn. Og uppgang fasismans. Lýðræðið. Málfrelsið. Jihadisma. Þvert ofan í það sem má lesa í fréttum á Íslandi (og í Danmörku, þar sem íslenskar fréttir fæðast oft) eru Svíar nefnilega alltaf að tala um hlutina. Alveg viðstöðulaust. *** Í dag ætla ég að gera jóga og fara út að hlaupa og vinna örlítið. Mér bauðst að þýða ljóð fyrir rótgróna stofnun fyrir sirka einn fjórða af viðmiðunartaxta Rithöfundasambandsins. Sem er auðvitað mjög gott, yfirleitt gerir maður þetta bara ókeypis. Ég gerði þeim gagntilboð – ég myndi bara þýða annan af tveimur textum og ég myndi gera það fyrir einn þriðja af viðmiðunartaxtanum. Þriðjung af lágmarkslaunum. Og einsog öllum þrælum finnst mér ég í senn hafa verið dónalegur við húsbóndann og óforskammaður af frekju. Er ekki fegurðin verðlaun í sjálfri sér? Og myndi ég ekki gera þetta ókeypis? *** Svarið er jú – sennilega myndi ég gera þetta ókeypis. Ég hef gert það. Ég hef þýtt álíka mikið af texta eftir sama skáld fyrir enga peninga. En þá var heldur enginn húsbóndi í spilinu. *** Ég nýt þess líka að elda mat heima hjá mér en ég myndi samt ekki vinna fyrir 400 krónur á tímann á veitingastað. Þess vegna setti ég hnefann í borðið og sagðist skyldu gera þetta fyrir 600 krónur á tímann. Og á raunar allt eins von á því að verða hafnað. *** Sennilega er þetta líka til marks um að ég eigi alltof mikla peninga. Eða yfirdrátturinn sé sjúklega grunnur. Yfirleitt þigg ég bara allt sem ég fæ og sprikla svo þar til mér finnst einsog hjartað í mér muni springa. *** Kannski er þetta bara til marks um að ég sé í sumarfríi. *** Finnland er alla jafna mjög fallegt á sumrin og veðursældin önnur og meiri en margir ímynda sér. Að vísu er sjaldgæft að hitinn farinn langt yfir 30 gráður, þótt það komi fyrir, en það er samt sólríkt – 20-25 gráður. En ekki núna. Í dag er skýjað og sennilega ekki nema 13-14 gráður. Sem er auðvitað alveg voðalegt. *** Á morgun yfirgefum við borgina og förum út í sveit fram á laugardagskvöld. *** Og nú kom sólin út. Ég ætla líka út. Að hlaupa.