Untitled

What they preach in Clark County is false.
In the air, we are only negation. Someone says,
Our seat cushions are also floatationdevices! And home is also a vacation spot
where potions are served hot and good and we fill
our noses with the stuff of life-sized plastic. Before takeoff
I watch the sun reflecting in the snow. Úr ljóðinu On Children, How I Hate Them And Want To Corrupt Them, How You Know I Hate Them, And What That Could Mean úr ljóðabókinni Other People’s Comfort Keeps Me Up At Night eftir Morgan Parker. Ég á frekar erfitt með að keyra á hálfu tempói. Eða venjulegu tempói. Það er ekki bara eirðarleysi, mér líður beinlínis einsog ég verði allur sljór einhvern veginn ef ég er ekki að drífa mig. Ég hægi á mér og missi niður allt tempó, enda á að stara bara fram fyrir mig einsog uppvakningur. Þetta er eitthvað hákarlasyndróm. Sink or swim. Úr þessu þarf ég að bæta, annars enda ég bara útbrenndur. Ég brenndi einu sinni úr bílvél – fyrir langalöngu. Þá var ég að keyra til Patreksfjarðar að hitta kærustuna mína. Sennilega hef ég verið átján ára. Ég var með tónlistina stillta svo hátt að ég tók ekkert eftir því þegar vélin byrjaði að djöflast. Lögreglan stöðvaði mig þegar ég kom keyrandi inn í bæinn og spurði hvað væri eiginlega í gangi með bílinn. Það fer líka illa með mig að vera aftur á Facebook. Ég finn að maður verður smám saman átakafælnari og einhvern veginn hvumsa á samfélaginu. Það er eitt að takast á um pólitík – en síðan ég kom aftur hef ég verið afvinaður og fólk nákomið mér hefur dreift um mig óhróðri. Út af þessu fiskeldismáli, sem sagt, fyrst og fremst; og það best ég get enn einlæglega séð, að ósekju og í fullkominni hysteríu. Skrítnast er einmitt að lenda í þessu frá fólki sem maður hefur alls ekkert tekist á við. Sennilega hangi ég á Facebook fram að kosningum. Nema ég geri það ekki. Ég er líka að verða þreyttur á Íslandi. Ekki að búa á Íslandi heldur díla við Ísland. Ef maður fær borgað fyrir eitthvað, fær maður ekki borgað flug, ef maður fær borgað flug fær maður ekki borgaða gistingu. Maður fær sjaldan borgaðan taxta fyrir neitt. Og þetta er ekki spurning um smæð – miklu minni batterí í Svíþjóð haga sér ekki svona. Yfirleitt er ég ekkert mjög bugaður fyrren á miðvikudögum. Mig óar við morgundeginum.

Untitled

You get hungry,
you eat hot.
Home’s a cold delivery destination. Úr lokaerindi And the stars were shining eftir John Ashbery Það er ósennilegt að Ashbery fái nóbelsverðlaun í vikunni. En vegna þess að það er ósennilegt er það einmitt kannski sennilegt. Ég skýt þó á að frönsku- og enskumælandi höfundar fái frí í nokkur ár. Ég er skárri – en enn lasinn. Þarf að sinna pósti og Starafugli í dag. Og þessu (en svo tek ég mér nokkurra daga hlé frá nostalgíunni). Saga Nýhils: Sjöunda brot brotabrots brotabrotabrots Það er óvitlaust að hafa í huga að megi lesa úr þessum textum einhverja rómantíska afstöðu til fyrstu ára Nýhils – einsog mér þykir ljóst að megi – þá er sú glýja afar lítil í samanburði við þá sem maður burðaðist um með dagsdaglega á þessum tíma. Allir dagar voru – fyrir mér a.m.k. – einhvers konar barátta við vanmáttarkennd, sjálfsvorkunn, mikilmennskubrjálæði og upplausn hversdagsins. Sú barátta var áreiðanlega að mörgu leyti háð einmitt vegna þess að ég var frekar balanseraður annars – hún var altso viljandi, ég vildi að lífið væri í viðstöðulausu uppnámi frekar en að ég væri að reyna að rétta einhvern kúrs og komast inn á beinu brautina. Ég hafði miklu meiri áhyggjur af alræði beinu brautarinnar, en afleiðingum kaosins eða frumstæðra hvata. En svo hafði ég – merkilegt nokk – líka hálfgerða ímugust á þeirri tilhneigingu (sem ég þóttist sjá sums staðar í kringum mig; og hafa tendens til sjálfur, augljóslega) að maður félli fyrir eigin bóhemrómantík og léti það duga. Mér fannst algert skilyrði frá fyrsta degi að maður ynni fyrir pósunum. En mig sem sagt langaði að vera djöfullegur. Alveg einlæglega. Hugmyndin að Nýhilkvöldunum kom alveg áreiðanlega frá Hauki Má. Hann hefur oft sagt að ég muni margt úr ævi sinni betur en hann – að meðtöldum minningum frá því áður en við kynntumst – en ég hugsa að þetta muni hann áreiðanlega samt betur en ég. Við skrifuðumst talsvert á fyrsta árið hans í Berlín og þá komu upp ótal hugmyndir um allar þær borgaralegu sýslur sem við ætluðum að leggja fyrir okkur þegar ég kæmi til borgarinnar. Þar var efst á blaði að stunda skylmingar. Ég er ekki viss um að við höfum gert okkur grein fyrir því að skylmingar væru ætlaðar borgarastéttinni – raunar vorum við ótrúlega bláeygir á stéttir almennt, þótt við töluðum mikið um þær. Og kannski fannst okkur ekkert eðlilegra en að við höguðum okkur einsog borgarastéttin, nú þegar við værum fluttir til borgar. En stéttir. Útúrdúr. Þetta er allt jafn mikilvægt. Ég man eftir því einn daginn við Prenzlauer Allée að til okkar kom iðnaðarmaður á vegum leigusalans og hvað var skrítið að hann skildi bukka sig og beygja fyrir okkur – þegar hann þá á annað borð kom upp orði af respekt – frekar en að hrækja í okkur einhverju um að við værum vonlausir aumingjar að geta ekki bjargað okkur sjálfir, einsog hefði verið sennilegri hegðun hjá íslenskum iðnaðarmanni. En sá þýski hafði komið inn, séð bækur og ályktað að hér væru háskólanemar, vitað að við vorum fyrstuleigjendur (sem er nánast einsog að eiga hús í Þýskalandi), og hugsað með sér að við værum fínimenn. Nema hvað. Við fórum aldrei í skylmingar. Haukur Már fór hins vegar eitthvert kvöldið á stað í nágrenninu til þess að læra að dansa tangó. Ég man ekki hvort hann fór oftar en einu sinni og það skiptir í sjálfu sér ekki máli – það sem skiptir máli er staðurinn. Versuchsstation. Tilraunastöðin. Þetta var lítið rými sem Haukur uppgötvaði að hægt var að fá leigt fyrir litla sem enga peninga – og þá peninga mátti vinna sér inn með því að selja bjór af barnum (og jafnvel græða eitthvað klink ef vel gengi). Haukur skráði okkur til leiks og það fyrsta sem við gerðum, sem meðlimir Versuchsstation, var að mæta á árshátíðina – þar sem allir áttu að sýna brot úr starfsemi sinni. Af einhverjum orsökum mættum við mjög seint – eða þá ég hef bara gleymt öllu sem átti sér stað – og óundirbúnir skelltum við í upplestur á ljóði sem ég skrifaði fyrstu dagana í Berlín – Það er ekki að fara að hefjast neitt stríð – á ensku á meðan Haukur spilaði á píanó undir. Hugsanlega spilaði hann hreinlega Imagine. Það hljómar alveg ósegjanlega hallærislega að hugsa til þess; og mögulega misminnir mig, en það er sem sagt séns. Kannski var þetta það eina sem við höfðum með okkur. We Are Not About to Have a War og Imagine. Það er líka eiginlega sama lagið, bara í sitthvorri tóntegundinni. Versuchsstation var í alvöru svona 5 mínútna gang frá heimili okkar. Rýmið var svo lítið að ég skil enn ekki hvernig fólk fór að því að dansa tangó þarna inni. Og var þess vegna alltaf fullt (og raunar alltaf vel mætt). Í Prenzlauer Berg bjó þá óhemja af kunningjum og vinum – ég held að það hafi verið okkur afsökun, frekar en að við höfum séð fyrir okkur að þeir yrðu einu gestirnir. En við sáum þá a.m.k. fyrir okkur að við gætum fengið einhverja gesti. Meðal þeirra sem þarna voru má nefna krakkana í múm – Gunna, Örvar og Kristínu Önnu (Gyða var nýhætt); myndlistarfólkið Söru Riel og Daníel Björnsson, ásamt bróður Danna (sem varð löngu síðar maðurinn hennar Söru); Kára Gylfason (sem er nú fréttamaður á RÚV); heimspekingana Davíð Kristinsson og Hjörleif Finnsson; Unu Sveinbjarnar fiðluleikara, og Freyju Gunnlaugsdóttur klarinettuleikara, Laufeyju Guðnadóttir, íslenskufræðing, Snapskokkinn Núma Thomasson og Mána bróður hans (syni Jórunnar Sigurðardóttur). Ótal fleiri áttu leið í gegn og dvöldu um skemmri eða lengri tíma, t.d. Ásthildur Valtýs (afleysingu og systur Gyðu), Svavar í Prins Póló, Sindri Sin Fang, Sölvi bróðir Núma og Mána, Lóa Hjálmtýs, Pétur Már Gunnarsson myndlistarmaður (það var annar Pétur Már sem var í Nýhil) og svo Grímur Hákonarson, sem var í námi við FAMU í Prag og datt inn tvisvar-þrisvar um veturinn. Mig rámar líka í að hafa hitt Egil Sæbjörnsson eitthvað. Ég er ekki viss um að allt þetta fólk hafi komið á Nýhilkvöld, reyndar, en flestir voru fastagestir. Þetta var augljóslega fyrir Facebook og í staðinn fyrir event gerði maður flyera. Þarna má sjá að fyrsta Nýhilkvöldið hefur verið haldið 31. október, 2002, og það næsta 28. nóvember. Við vorum bókuð í salinn mánaðarlega. Á neðri flyernum neðst má sjá tilvísun í heimasíðu – sem er þá háskólasíða Hauks Más – og þar stendur að alvöru heimasíða sé væntanleg. Í upphafi voru Nýhilkvöldin alls ekki ljóðakvöld eða ljóðapartí – sennilega var það Grímur sem að ýtti okkur í þá átt síðar – heldur einfaldlega listviðburðir. Það var alltaf DJ og eitthvað af upplestrum en líka sýndar stuttmyndir, tónlistaratriði og alls konar rugl. Mig minnir meira að segja að það hafi einu sinni verið live viðreynsla af sviðinu (á vegum þýsks karlmanns sem var ástfanginn af Gunna Tynes).

Untitled

Hann horfir á James Bond-mynd af myndbandi. Konan hans leigði hana handa honum. Hann hefur ekki gaman af James Bond. Hann er 47 ára. Hann hefur ferðast til Kína og Afríku. Konan hans er uppi í svefnherberginu þeirra og skrifar elskhuga sínum bréf. Þau ætla að fara saman í átta daga útreiðartúr. Ragna Sigurðardóttir – úr bókinni 27 herbergi
Ég hef oft verið dálítið útkeyrður en sennilega sjaldan jafn útkeyrður og nú á föstudagsmorgun. Of mikil vinna, of mikið félagslíf, of mikið af öllu. Og flensa ofan í kaupið. Bæði var ég veikur áður en ég fór suður – í lokin á eldhúsruglinu – og í stað þess að batna almennilega versnaði ég bara aftur eftir því sem leið á vikuna. Ég hef meira og minna legið í rúminu síðan á föstudagsmorgun. Í gær reif ég mig upp og fór í mat hjá Smára, Siggu og Kalla (sem buðu upp á baneitraðan regnbogasilung). Og í dag er ég búinn að lofa mér í barnabíó klukkan þrjú. Þannig eru tólf dagar síðan ég bloggaði síðast og þá var ég líka útkeyrður og lasinn. Saga Nýhils: Sjötta brot brotabrots brotabrotabrots

Ég lauk við Heimsendapestir í Helsinki haustið 2001 og vann í henni á Ísafirði eftir áramót og fram á sumar. Hugmyndin var reyndar alls ekkert sú að koma heim, en mamma splæsti í miða svo ég gæti verið heima á jólunum og þegar þangað var komið bauð mín fjall af reikningum og lánum sem voru að falla á mömmu. Ég var ekki lengur með vinnu í Helsinki – hafði fyrst unnið við þrif í Svíþjóðarferjunni, Viking Line, og svo sem kokkur og altmuligmaður á ananda marga leikskóla. Á Ísafirði gat ég hins vegar alltaf gengið inn í bærilega launaða vinnu og þess utan búið hjá foreldrum mínum á meðan ég vann fyrir reikningunum. Haukur Már ritstýrði Heimsendapestum og fékk neitunarvald á öll ljóðin í henni – hann mátti ekki fikta í þeim að vild en hann gat beinlínis gert þau brottræk úr bókinni ef honum fannst ég ekki ná að gera þau nógu áhugaverð. Og það var slatti sem fékk að fjúka – þó ég hafi áreiðanlega hent fleirum viljugur en nauðbeygður. Síðan skrifaði hann einhvern þann digurbarkalegasta formála sem ég held að ég hafi lesið. „Bestu tíðindi íslenskrar ljóðlistar frá því við lærðum að lesa“. Mig minnir að það hafi verið upphafsorðin. Og svo svaraði ég honum í öðrum formála sem var ekki hógværari. Dóri gerði kápuna – sem er bara fjöldaframleidd ljósmynd brotin í tvennt. Hann framkallaði í Listaháskólanum í Helsinki og sendi mér. Ein af myndunum var af Mella vini mínum að drekka rauðvín úr plastflösku í hringekju við Eiffelturninn. Það var sú eina sem ég tók sjálfur – hinar voru náttúrumyndir frá Dóra. Ég prentaði innvolsið sjálfur í H-Prent á Ísafirði – mig minnir að ég hafi gert 160 eintök – heftaði, skar til og pressaði. Af þessum 160 fóru áreiðanlega út 20 kynningareintök á fjölmiðla. Þetta var sumarið 2002 og þá birtust enn dómar um ljóðabækur í nærri öllum fjölmiðlum sem vildu láta taka sig alvarlega (og þá voru enn til fjölmiðlar sem vildu láta taka sig alvarlega). Það breyttist svo hratt á næstu árum. Ég man eftir því að Eiríkur Guðmundsson hringdi í mig úr Víðsjá þegar ég var nýkominn úr baði – og svo var Víðsjá auglýst allan daginn þannig að í þættinum yrði rætt við skáld í baði. Bókin kom út í byrjun ágúst og fáeinum dögum síðar stakk ég af til Berlínar. Fyrst millilenti ég auðvitað í Reykjavík og í einhverju bríaríi og gúrku endaði ég þá í klukkustundarlöngu viðtali við Róbert Marshall á Útvarpi Sögu (sem var þá annars konar útvarpsstöð en í dag, a.m.k. fagurfræðilega). Það er enn lengsta viðtal sem ég hef farið í. Hann var þá í afleysingum og vantaði áreiðanlega bara einhvern til að fylla upp í rýmið. Ég man ekki hvort dómarnir komu fyrren ég var farinn úr landi. Þeir voru flestir jákvæðir – sérstaklega var Friðrika Benónýs kát með mig, líkti bókinni við Ský í buxum Majakovskís – en Geirlaugi Magnússyni fannst lítið til mín koma – án þess þó að hann væri grimmur, þetta var meira svona patróníserandi vinsemd, einsog gengur hjá fólki sem þykist of gott til að vera grimmt. Ég prentaði þessa tvo dóma út og hafði þá fyrir augunum í stofunni í Berlín – það væri eftiráútskýring að fullyrða nákvæmlega hvers vegna. Hugsanlega var það samt til áminningar um hvað væri við að etja. Hvernig þessi heimur liti út og við hverju maður mætti búast af honum. Ég held að það sé mikilvægt að venjast því að verk manns séu ekki allra – verk sem eru allra eru allt annars eðlis en það sem mig langar að skrifa. Ég veit það alveg, þótt ég þurfi stundum að minna mig á það. En það er sömuleiðis mikilvægt að leyfa sér að standa með sjálfum sér og rétta þeim löngutöng sem vilja hafa vit fyrir manni, og ekki síður að fagna þeim sem bjóða manni upp í dans.

Untitled

Some words are open like a diamond
on glass windows
singing out within the passing crash of sun
Then there are words like stapled wagers
in a perforated book, – buy and sign and tear apart –
and come whatever wills all chances
the stub remains
an ill-pulled tooth with a ragged edge.
Some words live in my throat
breeding like adders. Others know sun
seeking like gypsies over my tongue
to explode through my lips
like young sparrows burst from shell. Úr Coal eftir Audre Lorde Ég er lasinn. Sit í náttbuxum og náttslopp, les Guardian á netinu – íhuga að rífa plastið utan af Stundinni, svona einu sinni – og er að borða Bugles og ristabrauð með osti og sultu. Drekk te. Allt gerðist þetta óvart – einsog eitthvað innra með mér hefði hreinlega ákveðið að þessum veikindum fylgdi estetík à l’anglaise. Eiginlega hef ég ekki tíma til að vera lasinn. Ég á eftir að semja stuttan fyrirlestur – sem verður fluttur á föstudag hjá Bandalagi þýðenda og túlka (í tilefni Híeronymusardagsins) – klára listamannalaunaumsóknina mína, byggja nýjan eldhússkáp og koma ísskáp og eldavél aftur fyrir, loka veggnum í bílskúrnum (og taka til í rýminu) og áreiðanlega sitthvað fleira sem ég er að gleyma. Ég ætlaði líka að skrifa eitthvað um Athenu og Hvítsvítu fyrir Starafugl; en það má svo sem bíða fram á sunnudag. Saga Nýhils: fimmta brot brotabrots brotabrotabrots

Ég velti því fyrir mér hvort það verði eitthvað í þessari sögu, sem verður sögð í þúsund og einu broti, sem eigi eftir að koma illa við einhvern. Eiginlega segir það sig sjálft. Kannski skiptir það engu. Ég hélt því einhvern tíma fram að ég hefði lent í heiftarlegum rifrildum við svo til alla meðlimi Nýhils, en taldi mér það til tekna að þau væru öll vinir mínir þrátt fyrir það. Það entist svo auðvitað ekki – fyrir utan bara eðlilegt sambandsleysi fólks sem hefur rekið í ólíkar áttir þá er líka andúð og jafnvel heift í þessum félagsskap. En hvað um það. Það kemur þá ekki að því fyrren síðar. Hvert var ég kominn? Nýhil var orðið til í nafni – Haukur Már var sennilega farinn til Berlínar, í fyrsta sinn, ég fór til Þrándheims til að búa með Mella og Karenu og Varði og Grímur voru á túr um Evrópu með rafmagnsgítar og vídjóvél. Dóri – Halldór Arnar Úlfarsson – þriðji maður í þríeyki með okkur Hauki Má, MH-ingur sem kom vestur með Hauki þegar Haukur fór að kenna í Grunnskólanum, var áreiðanlega með þá þegar og fluttur til Helsinki. Hugsanlega byrjaður að nema fínilistir við Kuvataide akademíuna, á kafi í Ananda Marga (hættur að drekka og borða sveppi, lauk, ansjósur; hugleiddi tvisvar-þrisvar á dag) og Tae Kwon Do. Ég man ekki hvort ég ætlaði að gefa út Ginsbergþýðingarnar sjálfur – eða hjá Nýhil, sem sagt – en það er ekkert ósennilegt. Í öllu falli fóru Þrándheimsdagarnir ekki síst í þýðingar – þótt ég hafi áreiðanlega líka sinnt Hugsjónadruslunni, sem ég byrjaði á fyrir alvöru árið áður í Færeyjum, og skrifað einhver eigin ljóð. Ég hafði byrjað að þýða um vorið og um það leyti rekist á Kristján Bje, ritstjóra Forlagsins, á fyrirlestri hjá Alliance Francaise – það hafði verið auglýst að fyrirlesturinn yrði á frönsku en þýddur ef þess gerðist þörf; ég held að Friðrik Rafnsson hafi látið duga að spyrja á frönsku, hvort einhver þarna kynni ekki frönsku. Það var að minnsta kosti ekkert þýtt og ég var of vandræðalegur yfir þessu til þess að stinga af fyrren í hléi – hafði líka sest á fremsta bekk og hefði þurft að klofa yfir fólk til að komast út. Maður er alltaf einhvern veginn einsog fífl. En í hléinu – á milli þess sem ég hlustaði á Thor Vilhjálmsson tala frönsku einsog kynslóð foreldra minna talar dönsku (þ.e.a.s með mjög þykkum íslenskum hreim) – heilsaði ég Kristjáni og nefndi að ég væri byrjaður að þýða Ginsberg. Kristján þekkti Viðar Þorsteins (í Nýhil) sem vann við umbrot á ritstjórn Máls og menningar – og líka Bríeturnar (stelpurnar í femínistafélaginu) sem þýddu fyrir hann Píkutorfuna, og þær voru líka í þessari MH-kreðsu sem ég kynntist þegar ég kom suður. Það fór það orð af Kristjáni að hann væri alltaf að leita að tíðarandanum og var sagt bæði í gamni og alvöru, honum til hnjóðs og hróss. Ég endursagði samtalið svona fyrir Hauk Má: Kristján: Sæll, þú hér. Eru ekki ungskáldin að vinna að einhverju stórfenglegu þessa dagana?
Eiríkur: Já, jú, það er kannski óvitlaust að nefna það við þig … ég er hérna að þýða valin ljóð eftir Allen Ginsberg.
Kristján: … ?
Eiríkur: ha … já … bara þú veist, ha …
Kristján: … já?
Eiríkur: eitthvað verður maður að hafa fyrir stafni!
Kristján: …
Eiríkur: En jæja, hérna ég er farinn. Bæ.
Kristján: Vertu blessaður! Hann reyndist svo löngu síðar hafa einhvern áhuga á þessu en það breytti því ekki að mér leið einsog fífli í aðstæðunum. Og hafði sjálfsagt með ýmislegt að gera – bæði sóttist maður eftir einhvers konar staðfestingu á því að maður væri ekki truflaður á geði og sóttist eftir því að þurfa ekki að biðja rígfullorðna karla um leyfi (KBJ hefur þá verið 34 ára gamall; útgáfubransinn hefur elst mikið síðan; ungskáldin eru varla heldur 23 ára lengur), en þurfti samt að láta sig hafa það, og svo kunni ég bara ekkert á þennan heim. Mér fannst – og finnst eiginlega – ég aldrei jafn utangátta og í menningarkreðsunum í Reykjavík. Og þá á ég ekki við fólkið, sem ég kann ágætlega við – heldur virknina á staðnum, þennan aðila, þessa stemningu. Ég finn aldrei jafn mikið fyrir loddaraheilkenninu og á svona stöðum – allir eitthvað að tala um Houellebecq á reiprennandi frönsku, allir establíseruð gáfumenni með vald í bókaútgáfu, leikhúsi og svo framvegis. Og samt – eða kannski einmitt vegna þess að ég var rækjuvinnslustarfsmaður að vestan – skipti áreiðanlega einhverju máli að ég skuli hafa stungið fætinum þarna í dyrnar, þótt það væri sárt og vandræðalegt, Kristján átti að minnsta kosti eftir að skipta einhvers konar sköpum fyrir mig. Ég hefði aldrei ávarpað Kristján – eða mætt á fyrirlestur í Alliance Francaise – ef ég hefði ekki lent í þessari MH kreðsu, sem ég nefndi, þar sem allir voru tengdir einhverjum – ekki síst einmitt Viðar, sem var með mainline inn á stærsta bókaforlag landsins. Viðar bauð okkur meira að segja með sér í einhvern litlujólakokteil einu sinni, við Laugaveg 18 – sem endaði með því að Hallgrímur Helgason tók hálft partíið með sér fram fyrir langa röð á Kaffibarnum (þar af a.m.k. 3-4 nýorðna nýhilista). Það lá skiljanlega við barsmíðum vegna ósættis í röðinni, en inn fórum við nú samt, stéttsvikarar og aðrir. Í Þrándheimi átti ég betur heima. Karen vinkona mín bjó þar í húsi sem pabbi hennar átti og leigði út herbergi – fyrst um sinn vorum við bara þrjú þarna, ég Melli og Karen. Við átum frosnar pizzur og drukkum gruggugt rauðvínsheimabrugg úr kjallaranum. Og ég gekk um með fartölvuna hennar Karenar í fanginu öllum stundum. Hún hafði lánað mér hana til verksins og ég fór með hana út um allt. Sofnaði við þýðingar, vaknaði við þýðingar. Tók hana með mér á barinn (3B yfirleitt) og þýddi þegar aðrir fóru á klósettið. Ég eyddi bróðurparti 11. september þetta ár í að þræða barina í miðborg Þrándheims í leit að fartölvunni með Ginsberg þýðingunum mínum, sem ég hafði týnt á fylleríi 10. september. Þegar hún fannst, eftir mikla leit, fórum við Karen til mömmu hennar að horfa á CNN og BBC. Eftir 1-2 mánuði stakk Melli af til Íslands og í kjölfarið fórum við Karen eitthvað að stinga saman nefjum – hálfvegis með mínum vilja og hálfvegis ekki, einsog gengur – og þegar ég kunni ekki að snúa mig út úr því lengur vegna meðvirkni og áfengismóðu skrifaði ég Dóra langt sjálfsvorkunnarþrungið bréf um harm minn allan. Hann bauð mér undireins að koma til sín og búa á eldhúsgólfinu í Helsinki. Ég sótti um atvinnuleysisbætur til að kovera ferðina – var gersamlega svínblankur – pakkaði saman strax og þær bárust og fór með Karenu til Osló, þar sem við kvöddumst ósofin morguninn eftir á rútustöðinni. Frá Stokkhólmi tók ég svo finnlandsferjuna yfir til Helsinki. Á leiðinni orti ég þetta, sem endaði í Heimsendapestum árið eftir (hún kann ekki mikla íslensku en smá samt og gott ef hún löðrungaði mig ekki á fylleríi fyrir að hafa skrifað þetta). Maður ríður vini sínum Vegurinn rennur undan mér
og ég renn með rútunni. Ég er orðinn svo vanur að fara
að mér finnst ég
varla hafa verið
nokkurstaðar
lengur. Ég var varla kominn út
úr henni í morgun þegar
ég þaut af stað
– afkynlífaður, náði ekki að pakka
– það er eitthvað fjári óréttlátt
við að fá ekki burstaðar í sér
tennurnar að morgni dags. Og hér er ég mættur í nýtt land
og hér er rúta utanum plussklætt rauðsæti
og hér eru stórar rúður undir landslagið. Hér er ekki jafn grýtt en svei mér þá
ef trén eru ekki fleiri. Ég sé ekki neitt fyrir trjátoppum. Er það þá hingað sem ég er horfinn?
Í þetta skiptið?
Ekki það ég kvarti.
Þetta er ágætt. Í gær drakk ég frítt
í morgun svaf ég hjá
og í dag er ég
farinn.

Untitled

Before I got my eye put out
I liked as well to see –
As other Creatures, that have Eyes
And know no other way – But were it told to me – Today –
That I might have the sky
For mine – I tell you that my Heart
Would split, for size of me – The Meadows – mine –
The Mountains – mine –
All Forests – Stintless Stars –
As much of Noon as I could take
Between my finite eyes – Úr ljóði 327 eftir Emily Dickinson. Og nú kemur helgin. Mér var einhvern tíma sagt að ætlaði maður að stunda hugleiðslu þá þyrfti maður að hafa í senn sterka jarðtengingu og hausinn í skýjunum. Maður þyrfti að standa á fótunum og streyma upp úr sjálfum sér, upp úr hvirflinum, og treysta því að maður þeyttist ekki bara út í geiminn. Ég er að reyna að finna titil á bókina mína. Ljóðabókina mína. Sem kemur á næsta ári. Undirtitillinn er – Ljóð um samfélagsleg málefni. Vantar herslumuninn.

Untitled

Reality is a sound, you have to tune into it, not just keep yelling. (Raunveruleikinn er hljóð, maður verður að stilla sig inn á hann, í stað þess að öskra bara) Úr The Autobiography of Red eftir Anne Carson Mér miðar ágætlega með vegginn í bílskúrnum. Og horfir í að ég geti farið að snúa mér að næsta verkefni. Ég fékk Hemma Þorsteins til að skoða hjá mér eldhúsið og honum finnst sennilegt að það sé mygla undir eldhúsinnréttingunni – í öllu falli er timbrið blautt þarna undir. Hugsanlega er einhver leki sem við höfum ekki séð – en eiginlega er sennilegast að bleytan sé bara þarna ennþá eftir vatnsskemmdirnar síðasta haust. Það liggur þá fyrir að rífa upp alla innréttinguna og fjarlægja skemmdirnar undir henni. Mig svimar við þær framkvæmdir, svona satt best að segja. Og að vera eldhúslaus í heila viku, minnst. Ætli sé samt ekki best að byrja bara á mánudag. Þá næ ég a.m.k. að klára vegginn á helginni. En svo er auðvitað engin trygging fyrir því að neitt af því sem maður gerir geri nokkuð gagn. Þessi gró komast út um allt, skilst mér; en einhvers staðar verður maður að hefja þetta stríð. Saga Nýhils: fjórða brot brotabrots brotabrotabrots Það er hætt við að ég muni illa í hvaða röð hlutirnir gerðust. Á þessum tíma – áður en ég stakk af til Þrándheims og svo síðar Helsinki, veturinn 2001-2002 – umgekkst ég fólk sem síðar átti eftir að vera í Nýhil eða tengjast félagsskapnum á einn eða annan hátt (það var aldrei neitt félagatal; og því var viljandi haldið galopnu hverjir væru í Nýhil). Við Bjarni Klemenz tókum góða rispu í að rífast um hvor okkar væri meira bóhem og sennilega var það um þetta leyti sem hann átti í ástarsambandi við Þórdísi Björnsdóttur, sem ég kynntist þá sennilega í gegnum hann. Pétur Már – síðar trommari í Skátum og víðar – var vinur Mella vinar míns og eitthvað að dufla við skáldskap (einsog reyndar Melli). Viðar Þorsteinsson átti heima í næstu götu við mig – í kjallaranum hjá foreldrum sínum og ég var stundum boðinn í mat, sérstaklega þegar þeir feðgarnir voru einir heima. Steinar hitti ég einu sinni á bar þar sem ég var að selja ljósritaðar smásögur – ég fór á hnén, bukkaði mig og beygði fyrir þekktasta götuskáldinu sem ég þekkti. Seldi honum bækur en ég held við höfum lítið talað saman. Stína (Kristín Eiríksdóttir) – sem ég kynntist á IRC-inu sirka 1996, þegar ég var átján og hún líklega fimmtán – var með Hauki Má í hálfan vetur eða svo. Viðar Örn Sævarsson – sem síðar var í alls konar hljómsveitum og flutti svo til Danmerkur – var líka þarna einhvers staðar. Nema það hafi verið síðar. Við Sölvi Björn áttum talsvert mikið samneyti – unnum saman í Bókabúð Máls og menningar og komum okkur upp þeim furðulega óvana að tjalda í stofunni heima hjá honum á háskólagörðum eftir langar nætur að sumbli. Í gegnum hann kynntist ég Sigga „fáfnisbana“ Ólafssyni – sem nú er verkefnastjóri í Norræna húsinu. Þeir Sölvi höfðu gefið út bókmenntatímarit saman þegar þeir voru í menntaskóla – það hét Blóðberg, að mig minnir, og þar voru viðtöl við alls konar stórbokka í íslenskum bókmenntum. Svona grand old men. Og svo var Kiddi vinur Sölva eitthvað að þýða með honum úr frönsku – en ég man enn ekki hvers son hann var. Kristinn Tómas – reyndi ég að gúgla, en það virðist vera einhver annar. En ég man ekki til þess að hafa ámálgað Nýhil við neitt af þessu fólki – þótt það sé í sjálfu sér ekkert ósennilegt. Enda var ennþá meira en ár í að Nýhil „gerði“ nokkuð sem setjandi væri stimpil á.

Untitled

Ég fyllti baðkarið af vatni sem ég sauð á eldavélarhellunni og það kom svo mikil móða á gluggana að maður sá ekki út. Kaffið kólnaði á innan við mínútu. Við dóttir mín lögðum yfir okkur öll teppin og fötin sem við áttum. Ég ákvað að ég ætlaði að verða skáld svo ég gæti kvartað undan öllu þessu. Úr Garments Against Women eftir Anne Boyer. Ég sagði í gríni um daginn að ég væri alltaf bugað(ast)ur á miðvikudögum og síðan ég sagði það hefur það reynst rétt. Miðvikudagar eru mínir mánudagar. Á mánudögum er ég alltaf rosa spenntur að byrja vinnuvikuna – og á föstudögum er ég sækaður að ná að klára allt fyrir helgina. Miðvikudagar eru rassgat vikunnar. Saga Nýhils: þriðja brot brotabrots brotabrotabrots

Sennilega var það ég sem nefndi við Varða (Hallvarð Ásgeirsson) að við Haukur Már hefðum stofnað eitthvað sem héti Nýhil og ætluðum að opna heimasíðu. Ég fór með þeim Grími Hákonarsyni í gegnum Færeyjar og Noreg þegar þeir voru að gera heimildarmyndina Varði Goes Europe, sem fjallaði um böskferðalag Varða í Evrópu. Grímur borgaði miðann með Norrænu fyrir mig upp á að ég myndi lóðsa þá um Tórshavn, þar sem ég hafði búið árið áður. Sem snerist nú reyndar bara um að finna sæmilegan runna fyrir okkur til að sofa í og kynna þá fyrir nokkrum rónum – það var sumar og þetta átti að vera eins bóhemskt og það mátti verða. Við sváfum fyrst við kirkjuna og svo í almenningsgarði við hliðina á svanatjörn – seinni senan er að mig minnir í myndinni, þá spiluðum við fyrir svanina. Sem sagt. Ég var á leiðinni til Noregs, til Tönsberg, og við fórum þarna dálítinn spöl í samfloti. Varði og Grímur sögðu mér að þeir hefðu verið að spá í að stofna vefinn níhilismi.is – ég man ekki alveg út á hvað hann átti að ganga, Grímur var með frekar sikk kímnigáfu á þessum tíma og það var áreiðanlega eitthvað mjög smekklaust. Það var erfiðara að ganga fram af fólki árið 2001 því það voru fleiri sem lögðu sig í líma við að ganga fram af fólki og ég man ekki eftir neinum sem gekk jafn oft fram af mér og Grímur. En við vorum auðvitað á sömu bylgjulengd – svona sirkabát – og svipuðum aldri og svipuðu kyni og svipuðum stað í lífinu einhvern veginn, allir til þess að gera nýbúnir að ákveða að við ætluðum að eyða ævinni undanbragðalaust í að búa til listaverk. Og greinilega allir eitthvað að dufla við þetta orð. Þetta hljóð, sem er stundum skrifað Nýhyl og Níhil og Níhyl, og það lá einhvern veginn beint við að álykta að níhilismi.is og Nýhil væru sitthvort afbrigðið af sama fyrirbærinu. Og þá vorum við orðnir fjórir – fimm með Nýhil, sex með heftaranum – og enn alls óvissir hvað þetta fyrirbæri ætti að gera.

Untitled

Stjörnurnar dvína
og verðlauna mig ekki
einu sinni þegar ég vinn. Það er hægt
að skjóta mann
í sjálfsvörn
og taka samt eftir því
hvernig rautt blóð hans
prýðir snjóinn. Audre Lorde – Aðskilnaður
Ég gleymdi að birta ljóð í gær. Gleymdi að vitna í ljóð. Það var alger skylda. En ég brást. Einsog maður bregst. Í gær var matarboð. Sænska ljóðskáldið Jenny Tunedal var í bænum ásamt tveimur vinkonum sínum – og auk þeirra bauð ég tveimur listamönnum úr residensíunni hennar Elísabetar Gunnars, franskri myndlistarkonu og hollenskum víóluleikara, og auðvitað Elísabetu sjálfri. Ég gaf þeim hefðbundið íslenskt myntukúskús með halloumi. Og fleiri vínflöskur en nokkrum er hollt að innbyrða á mánudegi. Eftir vinnu í dag ætla ég að halda áfram að byggja vegginn í bílskúrnum. Og á morgun held ég áfram að segja sögu Nýhils, ef ég man hvað gerðist næst eftir að ég keypti heftarann óspjallaða.

Untitled

Ég er að reisa vegg. Mér finnst talsvert til mín koma að ég skuli reisa vegg. Ég hef ekkert smíðað síðan í grunnskóla. Og nú nýt ég þess augljóslega að litli bróðir minn er smiður og á heima í næsta húsi – bæði upp á allar leiðbeiningar að gera en ekki síður að fá lánuð verkfæri. En hvað um það. Áfram með smjörið. Saga Nýhils: annað brot brotabrots brotabrotabrots

Þetta er heftarinn. Hann keypti ég í Eymundsson á Austurstræti, nema ég hafi keypt hann í BMM á Laugavegi 18. Hlutverk hans var og er að framleiða bækur. Við Haukur Már höfðum áður framleitt bækur sjálfir – við fjölrituðum þær á ónefndum vinnustað þar sem annar okkar hafði lyklavöld, brutum saman og heftuðum frá miðnætti og fram í morgunsárið, áður en annað fólk mætti til vinnu. Þetta finnst mér til fyrirmyndar, þótt þetta hafi verið óvart – eða vegna þess að það hentaði – því auðvitað eru bókmenntir og bókaútgáfa myrkraverk. Það gerist ekkert á daginn nema föndur og saklaust grín. Þessar bækur sem við fjölrituðum á ónefnda vinnustaðnum seldum við síðan við Laugaveg. Við tókum með okkur tóman ölkassa, skiptumst á að standa uppi á honum og lesa hátt og snjallt á meðan hinn seldi. Ég man eftir að hafa orðið alveg gersamlega yfir mig fornermaður þegar Sigurður Pálsson strunsaði hjá án þess að einu sinni virða okkur viðlits.

En svo misstum við aðgang að þessum ónefnda vinnustað og þá voru góð ráð dýr. Sérílagi í ljósi þess að nú vorum við búnir að stofna forlag, búnir að stofna listaverkaverksmiðju. Ég man ekki hvað heftarinn kostaði en það var sennilega á við um tvö kvöld á barnum. Ég gekk lengi um gólf inni í búðinni – horfði á Hauk og spurði aftur og aftur hvort ég ætti í alvöru að láta af þessu verða – og sveið svo í veskið lengi á eftir. Ég var hrikalega blankur. Þennan vetur seldi ég alla geisladiskana mína í einhverri safnarabúð – aðallega fyrir mat og sígarettum en líka fyrir leigu á geymslunni sem ég bjó í við Hringbraut. Þar borgaði ég 10 þúsund – um það bil þrjú kvöld á barnum.

Það mátti redda prentun. Það voru prentarar á Þjóðarbókhlöðunni og hér og þar. Og þótt það væri kannski ekki hægt að prenta hundrað eintök í einu væri gerlegt að prenta nóg í prívatprentara til að setja í poka og selja á einu kvöldi á Næsta bar. En nógu stórir heftarar til þess að þá mætti nota til að hefta í kjöl voru ekki á hverju strái – þeir voru beinlínis sjaldséðir utan prófessjónal skrifstofuumhverfis. Þessi heftari átti að tryggja stöðu okkar í skáldskaparheiminum, hann átti að tryggja sjálfstæði okkar gagnvart kapítalinu og hann var einhvers konar tákn um stefnufestuna – að maður skyldi eyða peningunum sínum í annað eins rugl tæki, þegar maður átti ekki einu sinni fyrir mat.

Heftarinn, sem er úti í bílskúr og hefur meira og minna fylgt mér, hefur – mér vitanlega – aldrei verið notaður til þess að hefta meira en tvö blöð saman á horninu. Samt finnst mér alltaf einsog hann hafi þjónað tilgangi sínum. Svona einsog netið undir loftfimleikamanni er ekki gagnslaust þótt hann hafi aldrei dottið í það. Það kannski kemur að því.

Untitled

vakna og trumbudynsklapp fyllir herbergið eins
og dauðinn sé nýkrýndur heimsmeistari
fermingardrengja í bif-reið-a-verkst-æð-atotti
grárri slímhúð og gálgum í hrikalegum köstulum í
alpneskum tanngörðum sýgur hann tittlinginn
skorpinn á mér blóðugan og ég fæ það með
herpingi eins og ælandi formalínhrærðu gifsi og
hvítan í kúpuna þagna lygni aftur augunum dauður og
heimurinn andar léttar klappar aftur Ljóðið „vakna“ eftir Steinar Braga úr bókinni Ljúgðu, Gosi, ljúgðu
Ég gerði mér leiðangur á Facebook í gær – á þar nokkurra daga (eða vikna) afar leynilegt erindi – og það fyrsta sem ég sá var að Andri Snær hafði níu mínútum áður spurt hvort nokkuð væri vert að kanónísera úr ljóðum fyrsta áratugarins, t.d. af verkum Nýhilskálda. Ég blandaði mér í umræðurnar með skætingi og alvöru; enda var niðurstaðan eiginlega sú að við ættum hreinlega ekki að vera að ræða þetta. Það væri beinlínis kjánalegt. Í fyrsta lagi voru næstum allir á þræðinum beinir eða óbeinir þátttakendur í þessari senu – höfðu ýmist gert tilraunir til þess að kanónísera einhver skáldanna (tekið stjörnuviðtöl og/eða skrifað lofrullur) – eða voru einhver skáldanna eða bæði. Og svo voru allir með typpi, einsog gengur. Saga Nýhils: fyrsta brot brotabrots brotabrotabrots. Nýhil var stofnað undir ljósastaur á horni Túngötu og Hofsvallargötu. Um miðja nótt. Við Haukur Már höfðum rétt lokið við að borða kvöldmat (já, um miðja nótt) sem samanstóð af hrísgrjónum og sojasósu – annað átum við varla þennan vetur, 2000-2001. Við höfðum farið út úr íbúðinni hans í kjallara við Túngötu og út á horn til að reykja. Á þessum tíma mátti reykja inni, bara ekki inni hjá Hauki Má. Nú má eiginlega hvergi reykja inni nema inni hjá Hauki Má. En það er önnur saga. Ég man ekki hvernig það kom til – við höfðum í félagi við marga aðra verið að tala um svipaða hluti í nokkur misseri. Þetta að vera eigin herra. Að þurfa ekki að banka upp á hjá einhverjum útgáfustjórum og biðja um leyfi. Við vorum mjög fráhverfir því að biðja um leyfi. Að við þyrftum að fá leyfi. Flest þau plön komust aldrei af stað – það var haldinn einn fundur, svo ég muni, í félagi sem hét því vemmilega nafni Yrðlingur og átti að gefa út þýðingar á Wittgenstein, Ginsberg og Rimbaud og kannski eitthvað fleira. Í því batteríi voru ég, Viðar Þorsteinsson, Haukur Már, Sölvi Björn Sigurðsson og Kiddi vinur hans – sem ég man ekki hvers son er en varð síðar læknir. Önnur batterí hlutu aldrei svo mikið sem nafn. Kannski höfðum við verið að tala um þetta inni í húsinu. Og ætluðum okkur áreiðanlega ekki að þetta væri bara útgáfufélag eða tilheyrði bókmenntunum frekar en myndlistinni eða kvikmyndalistinni eða tónlistinni. Þetta er ástæðan fyrir því að maður á að skrifa ævisögu sína strax og hún gerist. Eða í það minnsta ekki eftir svona 25 ára aldur. Af því maður gleymir öllu. Við ætluðum að gera eitthvað. Og við ákváðum að það ætti að heita Nýhil (við höfðum kannski verið að tala um Nietszche, kannski um skammtafræði og svarthol sem gáttir að einhverju öðru, einhverju nýju, frekar en bara endalaust myrkur). Svo bjuggum við til leynihandtak. Mér vitanlega erum við Haukur þeir einu sem kunna leynihandtakið.