Lífið einkennist af stressi og eirðarleysi til skiptis. Ég veit ekki hvort þetta heitir jólastress eða þriðja vaktin eða hvað – fyrir utan allt annað er dagatal annars barnsins svo þéttbókað að hún þyrfti eiginlega að vera með mann í fullri vinnu við að minna sig á allt sem hún þarf að gera. Gagnvart mörgu öðru er ég sennilega bara með samviskubit að hafa ekki tekið nægan þátt. Það er líka orkufrekt að vera með samviskubit. En ég er að reyna að vera ekki meðvirkur með þessu öllu saman – sjálfboðastörf eru kölluð sjálfboðastörf einmitt svo þau megi aðgreina frá skyldustörfum. Heimilisstörf eru svo þarna mitt á milli einhvers staðar – það verður að sinna þeim en það má líka fresta þeim ansi lengi, einsog dæmin sanna. Ég tók mér frí í vinnunni í gær til þess að taka til og skúra. Það er auðvitað ákveðinn lúxus að geta það en það vill líka til að ef ég er ekki að lesa upp eða sprella eitthvað er ekki mikið gagn af mér í vinnunni í desember. Það eru takmörk fyrir því hvað ég get grobbað mig mikið á Facebook á einum vinnudegi. Og svo verð ég líka að minna sjálfan mig á, þegar ég fæ samviskubit yfir því að taka mér skúringafrí, að ég byrjaði árið á 4-5 mánaða frídagalausu tímabil (skrifaði s.s. allar helgar og páska og alla daga) og tók svo aftur mánuð frídagalaust á túrnum. Ég má alveg taka mér frí og ég má meira að segja taka mér frí til þess að gera eitthvað skemmtilegra en að skúra og það væri enn í lagi þótt ég væri að skrópa í sjálfboðastörfum. Ég er sem sagt að reyna að fá frið í kollinn á mér, eina ferðina enn. Þetta er eilífðarverkefni. Fljótlega eftir áramót ætla ég að skrúfa niður í samfélagsmiðlunum og netfréttunum líka. Ég gerði þetta 2022 – „hélt út“ í um 8-9 mánuði án annarra miðla en prentaðra eða útsendra á ljósvakanum. Las mjög mikið Moggann! Sem var skárra en maður gæti haldið, en saup samt alveg hveljur af og til. Hlustaði á morgunfréttir klukkan 8 og horfði á kvöldfréttatímann. Og las bækur og horfði á bíómyndir. Og missti þar með ekki af neinu sem máli skiptir. Ég var næstum búinn að ýta Generation X eftir Coupland að Aram í fyrradag – gluggaði inni í hana og ákvað að þetta væri kannski aðeins of mikið, minnti að hún væri meira léttmeti – en fór svo með hana sjálfur upp í sófa. (Aram tók Myrkrið milli stjarnanna eftir Hildi Knúts). Þetta er ríflega þrjátíu ára gömul bók sem á að lýsa þjóðfélagsástandinu einsog það blasti við fólki sem þá var um þrítugt – X-kynslóðinni, elstu fulltrúar hennar eru þá um sextugt núna en þeir yngstu á mínum aldri. Þetta er frá því fyrir internet, fyrir tik tok og adhd og áhrifavalda og útbreidd þunglyndislyf – þetta er meira að segja frá því fyrir Grunge-tónlist, frá þeim tíma þegar það þótti enn dálítið undarlegt að hvítt fólk væri að hlusta á hipphopp (þetta er ári eftir Ice, Ice, Baby, ári fyrir I’m Too Sexy). Þetta er í fornöld og í sem stystu máli hefur ekkert breyst. Kjarnorkuógnin er minni (í hjörtum okkar, í raunveruleikanum er hún söm) en loftslagshlýnunarógnin meiri. Fólk er sítengdara – það skilur ekki eftir skilaboð á símasjálfsvörum, fólk er aldrei fjarri, alltaf í símanum – en nevrósan er sú sama. Ósjálfstæðið. Vonleysið. Poppkúltúrsbrjálæðið. Neyslusamfélagið. Skyldan til sjálfsuppfyllingar. Þegar ég las þessa bók síðast var ég áratug yngri en sögupersónurnar – varla tvítugur og sennilega enn með augastað á því að fara í skóla, ekki kominn að þessu hyldýpi sem blasir víst við fólki þegar það vill eða getur ekki menntað sig meira og þarf að fara að „koma sér fyrir í þjóðfélaginu“. Coupland skrifar einhvers staðar að þetta fólk geti ekki keypt sér fasteign og klæðist því peningunum sínum, eyði þeim í dýr föt. Sumir eru PC aðrir eru edgy. Veröldin er að farast. Sumt þarna er kunnuglegt úr eigin lífi en annað ekki – ég hef t.d. aldrei verið neitt stefnulaus, a.m.k. ekki um hvað ég ætli að „verða“. Í dag er ég einum og hálfum áratug eldri en sögupersónurnar – það sem var stefnulaust fullorðið fólk fyrir mér er nú stefnulausir krakkakjánar. Sögupersónurnar eru allar barnlausar – og sjá sig sem börn foreldra sinna, þau eru sjálf yngsta fólkið í bókinni og fyrst og fremst umkringd öðru barnlausu fólki um þrítugt. Hættir maður ekki að sjá sig sem barn fyrren maður eignast börn sjálfur? Hvenær gerist það? Hvenær gerist það hjá þeim sem eignast alls engin börn? Þegar ég segi barn á ég ekki við aldurinn – í aldri erum við öll börn, öll með innra-barnið í vasanum, það gægist fram og tekur stjórnin af og til, við erum bara að þykjast vera fullorðin – heldur þetta kynslóðasamband. Að sjá sig enn sem framtíðina. Sjá foreldra sína sem hverfandi fortíð. Og svo þegar maður hættir að sjá sig sem framtíðina, fer jafnvel að örvænta um að tíminn sé að verða uppurinn – fyrst að maður sé ekki lentur á nógu góðum stað til þess að dvelja á þennan bróðurpart ævinnar sem tekur við, og svo að maður sé hreinlega bara að fara að drepast. Hvað varð um æskuna mína, spyr fólk þá. En að því spyrja þau ekki, sögupersónur Generation X, þau eru mest í því að drepa bara tímann. Það liggur við að þeim væri nokkur huggun að uppgötva að þau væru við grafarbakkann. Það hvarflar að mér eftir lesturinn að Generation X fjalli eiginlega ekkert um þessa kynslóð – mína kynslóð – heldur bara allt þrítugt barnlaust fólk í nútímanum, a.m.k. frá 1991 til dagsins í dag. Hún sé þannig hin fullkomna kynslóðarbók og allar kynslóðir séu þaðan í frá X. Annars hugsa ég meira og meira um að losna af hefðarklafanum. Það gerist eðlilega ekki meðan maður er með börn heima – börn á grunnskólaaldri eiga skilið næði frá rótleysi foreldra sinna meðan þau eru að verða til – og kannski gerist það aldrei en mig dagdreymir samt stundum um að draga saman, selja dótið, fara á flakk og verða laus undan hlutum einsog jólastússi – að ég tali nú ekki um skúringafríin. Þá kannski fæ ég frið í kollinn á mér.
Aflýsingamálin (og ólæsið)
Ég tók ekki covidpróf af því ég væri slappur. Ég gerði það ekki heldur bara af því að dóttir mín er veik, heldur vegna þess að í ofanálag átti ég að lesa bæði hjá bókaklúbbi eldri borgara og á elliheimilinu fyrir enn eldri borgara – og allur er varinn góður. Og fékk auðvitað fullt hús á prófinu. Þetta var í morgun og nú er ég slappur. Það er næstum einsog ég hafi veikst af því að taka prófið. Auðvitað getur bæði verið að maður veiti því litla athygli að maður sé slappur þegar maður er bara á fúll fart í lífinu og hefur ekki tíma til veikinda – og að prófin hafi geðvefræn áhrif og maður beinlínis lyppist niður gagnvart óyggjandi niðurstöðum þeirra. Við Nadja erum bæði frekar gjörn á að verða ekkert veik fyrren við erum komin í frí. Sem er auðvitað bagalegt. Það er miklu skárra að verða veikur þegar maður á að vera í vinnunni (ég var eitthvað að grínast með það líka í morgun að þetta væri agalegt, ég fengi ekki einu sinni frí á Fiðlaraæfingu). En ég aflýsti ellismellunum og líka upplestri hjá Félagi kvenna í fræðavísindum á morgun. Svo hef ég ekki undan að afþakka upplestra í Reykjavík nú loksins þegar ég er ekki lengur á höfuðborgarsvæðinu. Afþakkaði líka eitthvað sprell í Gísla Marteini. Ég held í vonina um að komast í Vísindaport í Háskólasetrinu á föstudag – það gæti orðið síðasta gigg fyrir jól. Veit auðvitað ekkert hvenær ég smitaðist og get varla sagt að ég sé með „einkenni“ þótt ég liggi í rúminu – með þreytu annars vegar og undarlega lykt í nösunum hins vegar. Ég testa mig út úr húsi á endanum. Annars er fremur jólalegt hérna milli þess sem maður er með böggum hildar yfir ÚTL og Palestínu og skökku niðurstöðunum frá PISA. Ég get varla hugsað af gremju út af fyrstnefndu atriðunum – og hef tjáð mig um þau á FB – en PISA er auðvitað bara að mæla það sem við vitum öll. Ég yrði ekki hissa þótt mælingar myndu líka sýna að okkar eigin lesskilningi – roskinna góðborgara sem fengu fínar PISA niðurstöður á sínum tíma – hafi líka hrakað mjög. Það er allavega alveg á hreinu að bóklestur hefur hrunið. Og bóklestur karla hefur sennilega dregist alveg jafn mikið saman og lesskilningur drengja. Við lesum sjálf nærri því allt á skjá – eða skjám, réttara sagt, með marga glugga opna, skimandi málsgreinar meðan tilkynningar pípa úr öllum áttum og auglýsingar gala á athygli okkar. Og ráðum í samræmi við það illa við að vinna úr þeim upplýsingum sem við meðtökum – og missum af. Þetta er ekki barna- og unglingavandamál heldur vandamál alls samfélagsins. Við erum öll smám saman að verða ólæs. Þetta er eftir öðru því við mælum líka gæði texta – hvort sem það eru bókmenntir eða fréttir eða annað – í smellum. Í því hversu miklar auglýsingatekjur þeir framleiða. Hversu mikinn hagvöxt. Í því hversu hratt við færum okkur frá einum texta að þeim næsta. Sem er eins handónýtur mælikvarði og hann getur orðið, því hann kallar á að við förum á hundavaði í gegnum allt – það má ekkert halda athygli okkar í meira en nokkrar sekúndur af því það er beinlínis gróði í því að við drífum okkur strax yfir í næstu skilaboð, næsta texta. Þessi augnablik sem við veitum hlutum athygli eru markaðsvara – sennilega verðmætasta vara sem fæst á annað borð keypt. Athyglisveiðamaskínan malar gull og það er stórtap á hverjum þeim textaneytanda sem slær slöku við – sá sem slekkur á vélinni er beinlínis ógn við hagkerfið. Lengri textar – að ég tali nú ekki um bækur – keppa ekki við þetta (og eiga ekki að gera það – í guðanna bænum – það sem lengri textar hafa til síns ágætis snýst um hitt, rýmið fyrir sleitulausar ótruflaðar hugsanir og eilífðina sem glittir í að baki þeirra). Og við hömpum bókum líka fyrst og fremst með því að rýna í sölutölur þeirra – sem segja ekkert um gæði, ekkert um endingu, ekkert um hvort þær hafi ögrað skilningi okkar á heiminum, uppljómað okkur eða einu sinni skemmt okkur. Þetta er ekki gott og fer ekki vel.
Nomination to the Icelandic Literary Award!
My new novel, The Natural Laws , has been nominated to the Icelandic Literary Award 2023. The jury’s motivation said: „Full of humour and written with great eloquence. The story is brimming with cheerful story-telling, stylistic artistry and an off-beat plot. Its vitality and ease notwithstanding, it wrestles with grand philosophical questions resulting in a substantial and remarkable novel.“ The book has been unanimously well received, after a country-wide book tour of 38 stops last month. In the newspaper Heimildin it received four stars: „An immensely ambitious philosophical novel and social depiction that deals with the biggest question of the kingdom of God and man.“ The critics of the TV show Kiljan said (amongst other things): „Incredibly entertaining“, „bursting with life“ and quite simply „Wow and bravo!“. Newspaper Morgunblaðið gave it four and a half stars and said: „It’s doubtful I will read a funnier novel this year.“
Náttúrulögmálin tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna
Náttúrulögmálin hlaut á dögunum tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna við hátíðlega athöfn í Eddu, húsi íslenskunnar. Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars: Söguleg skáldsaga, full af húmor og skrifuð af mikilli orðgnótt. Söguna einkennir rífandi frásagnargleði, listfengi í stíl og frumlegur söguþráður. Þrátt fyrir fjörið og léttleikann er hér tekist á við stórar heimspekilegar spurningar svo úr verður innhaldsríkt og eftirtektarvert skáldverk. Auk Náttúrulögmálanna hlutu tilnefningu í flokki fagurbókmennta fyrir fullorðna bækurnar DJ Bambi eftir Auði Övu , Land næturinnar eftir Vilborgu Davíðsdóttur, Ból eftir Steinunni Sigurðardóttur og Dúnstúlkan eftir Bjarna Bjarnason. Dómnefnd skipuðu: Guðrún Birna Eiríksdóttir, Hlynur Páll Pálsson og Steingerður Steinarsdóttir sem jafnframt var formaður dómnefndar. Tilkynnt verður um sigurvegara á Bessastöðum þann 31. janúar næstkomandi.
„Örugglega ein skemmtilegasta skáldsaga ársins“ ⭐⭐⭐⭐ ½
Náttúrulögmálin fengu fjórar og hálfa stjörnu hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins, Kristjáni Jóhanni Jónssyni, fyrir helgi. Segir hann meðal annars í rýni sinni: „ Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl er örugglega ein skemmtilegasta íslenska skáldsagan sem kemur út þetta árið. Það get ég staðhæft þó að ég hafi ekki lesið þær allar.“ Í sama blaði voru ýmsir rithöfundar spurðir hvað þeir væru að lesa – eða ætluðu að lesa – og voru nokkrir sem nefndu Náttúrulögmálin . Meistaraskáldið Þórarinn Eldjárn var kominn vel á veg og kallaði bókina „mikla veislu“ hjá „veitulum gestgjafa“. Þá sögðust rithöfundarnir Arndís Þórarinsdóttir og Valur Gunnarsson, mjög spennt – og sá síðarnefndi hélt áfram. „Hvernig var Ísafjörður fyrir 100 árum? Og er Eiríkur Örn enn fremsti höfundur sinnar kynslóðar? Hér er komin bók með svör við hvorutveggja.“
„Vá og bravó!“
Gagnrýnendur Kiljunnar, Þorgeir Tryggvason og Sunna Dís Másdóttir, tóku Náttúrulögmálin fyrir í gær, ásamt stjórnanda, Agli Helgasyni. Í sem stystu máli má segja að bókin hafi fengið fullt hús og jafnvel rúmlega það. Hægt er að lesa úrdrátt og sjá dóminn á heimasíðu RÚV .
Hljóðakona, ljóðakona
Ég las mjög lítið meðan ég var í hringferðinni – ef frá er talið sem sagt að ég las náttúrulega upphátt í allt að tvo tíma á dag – en er að komast aftur í gír og rútínu og hef klárað nokkrar bækur síðan ég kom heim, nú síðast The Silent Woman eftir Janet Malcolm. Þetta er hálfgerð meta-ævisaga – ævisaga um ævisögur – um ævisögurnar sem skrifaðar hafa verið um Sylviu Plath og aðilana sem standa að arfleið hennar, ekki síst systkinin Olwyn og Ted Hughes. Janet Malcolm ræðir ekki allar ævisögurnar í þaula en skoðar frekar atburði og leikendur í þessu drama – bæði fyrir og eftir sjálfsmorð Plath (og raunar á meðan líka) – og gerir manni kannski minna ljóst hvað var satt í því öllu saman og meira hvað sannleikur fólks getur verið súbjektífur og hvernig „sagnafólk“ laðast oft mest að því sem ævintýralegast hljómar. Malcolm gengst ítrekað við eigin hlutlægni og játar að hún sé meira í því að verja Olwyn og Ted – sem hún málar engu að síður upp sem áhugavert en mjög erfitt fólk, og þá sérstaklega Olwyn, sem hafði lítinn áhuga á Sylviu meðan hún lifði en tók svo að sér að sjá um réttindamálin og dánarbúið eftir að hún dó, vegna þess að Ted var ófær um það. Snerist líf Olwynar í raun upp frá því um líf og dauða Sylviu. Olwyn álítur Sylviu auðvitað stórfenglegt skáld (sérstaklega fyrir Ariel) en er í þessum viðskiptum fyrst og fremst varðmaður bróður síns og þær Janet rekast mikið á. Janet fer líka í saumana á árekstrum Olwynar við ljóðskáldið Anne Stevenson, sem skrifaði ævisöguna Bitter Fame um Plath (en grein um þá bók varð kveikjan að Silent Woman ). Olwyn stýrði því með harðri hendi hvað segja mátti í þeirri bók með því að stýra því í hvað Stevenson mátti vitna, hversu mikið og í hvaða gögn hún fengi að glugga – var oft á staðnum og settist bara sjálf við ritvélina og skrifaði ef henni leist ekki á það sem Stevenson ætlaði að segja. Stevenson sá sig á endanum tilneydda til þess að geta þess í formála að Bitter Fame væri eiginlega sameiginlegt verk þeirra tveggja (sem Olwyn vildi alls ekki, af því þá færi hlutleysisstimpillinn). Og sat svo alla ævi uppi með ásakanir um að hún væri „minniháttar skáld“ full af afbrýðissemi í garð þess „meiriháttar skálds“ sem Sylvia Plath væri – og var þessi meinta afbrýðissemi jafnvel tekin upp í ritdómum í virtum tímaritum einsog Times Literary Supplement. Annars staðar kemur fram að ef það hefði ekki verið fyrir fjárhagslegar skuldbindingar – einsog að hafa þegið háar fyrirframgreiðslur sem hún hefði aldrei getað greitt til baka – þá hefði Stevenson aldrei gefið bókina út, eða einu sinni klárað hana. Ég las einhvern tíma einhverja af ævisögum Sylviu Plath en það er mjög langt síðan – og maður þarf alls ekki að hafa lesið neina til þess að njóta þessarar (þótt sennilega sé betra að þekkja aðeins til og hafa lesið Ariel og Bell Jar a.m.k.). Ég man ekki hvaða ævisaga það var sem ég las á sínum tíma en sú sýndi Sylviu í fremur rósrauðu ljósi og málaði Ted ljótum litum og einhvern veginn hefur sú mynd bara setið í mér án þess að ég hafi neitt spáð í það meira. Hér verður myndin ívið margbrotnari – og hallar talsvert meira á Sylviu og það er meiri samúð en ég er vanur að sjá með þeim sem þurftu að díla við hana og veikindi hennar í rauntíma. Maður lærir samt engin ósköp um Sylviu Plath á Silent Woman þótt eitthvað af ljóðum hennar opnist, en verður vel ljóst að þær myndir sem birst hafa af þeim hjónum – sem skipta gjarnan með sér hlutverkum engils og djöfuls – eru kennslubókardæmi um einföldun í sagnamennsku ef ekki hreinlega bara æsiblaðamennsku. Þá snýst ein af áhugaverðari hugleiðingum Malcolm um þau kaflaskil sem verða almennt í umfjöllun um fólk þegar það deyr og hvernig þau lýsa sér í tilviki Sylviu. Malcolm lýsir því þannig að þegar Sylvia deyi fái heimurinn skyndilega leyfi til þess að glugga í öll hennar skjöl, dagbækur, bréf til móður hennar, og svo framvegis, og delera allan fjárann út frá þeim upplýsingum án tillits til þess að þetta séu nýskeðir atburðir og flestir leikendur í sögunni enn í fullu fjöri – eigi mjög mikið líf eftir, mikinn feril, Ted hefur ekkert getað skrifað sem ekki hefur verið skilið í ljósi Sylviu, börnin auðvitað bara börn – og án þess að Sylvia sé sjálf til staðar til þess að mótmæla (sem eina raunverulega yfirvaldið um eigin frásögn). Þau sem standa henni næst eru heldur ekki í stöðu til þess að mótmæla – þótt þau geri það, og segi ítrekað að fólk hafi alls ekki „rétta“ mynd af Sylviu (sem aftur vekur upp spurningar um hvaða hliðar séu „réttar“ á nokkrum manni) – vegna þess að hin nojaða/reiða/veika Sylvia hefur ásakað þau öll í bréfum sínum, verkum og dagbókum, og allar athugasemdir hljóti þar með að skiljast sem sjálfsvörn hinna seku. Og svo bætist við, sem Malcolm ítrekar og Ted segir best á einum stað sjálfur, að þegar fólk byrji að delera um Sylviu átti það sig seint á því að helmingurinn af því sem það er að segja sé alls ekki um hana heldur um hann, enda líf hennar samtvinnað hans (og hans líf líka samtvinnað hennar, langt fram yfir andlát hennar). Bréfin séu ýmist til hans eða frá honum, og skrifin stundum um hann og stundum bara túlkuð þannig að þau sé um hann þótt þau séu það ekki (og hann viti betur, en enginn tekur mark á honum). Og þar með fái hann eiginlega fullan skammt af þessari meðferð sem yfirleitt er spöruð fyrir látið fólk. Malcolm ræðir það ekki sem slíkt en mér fannst áhugavert að velta því fyrir mér líka hvernig tvær vinsælustu narratífurnar í kringum Plath eru þekktar klisjur, hvor úr sínum heiminum en líka hvor á sínum pólnum – annars vegar um „konuna“ sem þjáð fórnarlamb feðraveldisins, sem fái ekki að njóta sannmælis, sé haldið heimavið, jafnvel gerð óstöðug („gaslýst“) svo hafa megi stjórn á henni; og hins vegar um „skáldið“ sem snilling sem eirir engu í kringum sig í hamslausum eltingarleik við fegurðina og sannleikann. Ég man ekki hver það var í bókinni sem sagði einmitt að ef Plath hefði fundið einhvers staðar mann sem hefði getað hjálpað henni (meira en Ted) að verða betra skáld hefði hún án nokkurs vafa yfirgefið Ted á punktinum og aldrei litið um öxl. En hvort hlutverkið Sylvia fær að leika – gerandann eða þolandann – stýrist af því hvaða sögu ævisagnaritarinn vill segja. Og svo virðist sem það sjaldnast rými til þess að segja báðar – eða ímynda sér einhverja allt aðra (sem væri sjálfsagt alveg hægt). En kannski sprettur krafturinn í „sögunni um Plath“ – og þar með túlkun ljóðanna – úr því að hún flytji með sér þessa illsamræmanlegu þversögn.
„Að afbera guðdóminn“ ⭐⭐⭐⭐
Aðalpersónurnar eru skýrt dregnar og nógu áhugaverðar til að leyfa hinum fjölmörgu og fjölbreyttu aukapersónum að blómstra meðfram þeim. Áhrifin eru þau að lesandanum finnst hann vera að lesa ekki bara stóra skáldsögu heldur líka alhliða samfélagslýsingu. James Joyce á að hafa sagt að hægt væri að endurbyggja gervalla Dublin ársins 1904 eingöngu upp úr bók sinni Ulysses. Ég er ekki frá því að það sama sé hægt að segja um Ísafjörð ársins 1925 og Náttúrulögmálin. Þorsteinn Vilhjálmsson skrifar um Náttúrulögmálin í Heimildina .
Þreytulögin
Líf mitt þessa vikuna er heldur þungbær tilraun um það hversu mörg lög af þreytu maður getur borið. Í fyrsta lagi er það bara 45 ára þreytan. Að vera ekki lengur 25 ára. En ekki samt nógu þroskaður til að kunna að slaka bara á. Í öðru lagi er það túrþreytan. Og hún triggerar kannski mikið af hinu. En hún er líka í lögum. a) Fýsísk þreyta af því að hafa verið mikið í bíl. b) Fýsísk þreyta af því að hafa verið mikið á þeytingi. c) Andleg þreyta af því að hafa verið „on“ linnulítið í mánuð. d) Andleg þreyta af því að hafa verið rútínulaus í mánuð. Í þriðja lagi er það bókaþreytan. Ég vinn of mikið. Ég byrjaði að setja saman þessa bók fyrir þremur árum – með glósum og heimildavinnu (Einlægur Önd var tilbúinn í byrjun árs 2021 og Frankensleikir var löngu tilbúinn) en megnið af henni skrifaði ég samt í ár. Og það tókst bara af því ég tók mér engan frídag í marga mánuði af því ég var svo hræddur um að missa dampinn, detta úr synki. Og þótt það sé á endanum nærandi að skrifa skáldskap – og þótt það hafi verið sérstaklega gaman að skrifa Náttúrulögmálin – tekur það líka rosalega mikið úr manni. Ég er svo þurrausinn að ég get varla skrifað innkaupalista nema með herkjum. Í fjórða lagi jólabókaflóðsþreytan. Þrjú ár af vinnu breytast smám saman í þrjú ár af eftirvæntingu sem puðrast svo út í loftið á örfáum mínútum daginn sem brettin mæta á lager. Þetta er svolítið einsog að fara í fjórfalt heljarstökk og lenda því, að manni fannst fullkomlega, og þurfa svo að bíða í tvo mánuði meðan áhorfendur gera upp við sig hvort þeir ætli að klappa og dómnefndin ræður ráðum sínum um einkunnina. Ég er bara ekki gerður fyrir þannig þolinmæði. Í fimmta lagi þynnka. Ég drakk kannski engin lifandis ósköp á laugardagskvöldið en ég hef varla snert áfengi síðan í ágúst og þetta fór alveg með mig. Samt gaman! (Þetta er allt gaman). Í sjötta lagi skammdegiskvíði. Ég finn að dagurinn er nánast að engu orðinn. Í sjöunda lagi veðrið. Ég er alveg fáránlega viðkvæmur fyrir veðrinu. Það er gott í dag – fallegur og bjartur dagur og nærandi. En síðustu dagar hafa verið myrkir og vindasamir og blautir. Og því fylgir alveg sérstök þreyta. Í áttunda lagi hvíldarþreyta. Ég hef bókstaflega legið í rúminu flesta daga það sem af er þessari viku. Af því ég er svo þreyttur. Og þá fær hálffimmtugur karl í hnakkann og auma hnéð og hælinn og byrjar að fá höfuðverk. Og verður meira þreyttur. Í níunda lagi flensa. Eða „aðkenning“ (einsog ein sögupersóna Náttúrulögmálanna kallar það að vera ekki beinlínis veikur, en samt sennilega með „eitthvað“ í kerfinu). Í tíunda lagi skrollþreyta. Ég er búinn að lesa alla samfélagsmiðlana og alla fjölmiðlana. Búinn að endurhlaða því öllu tólf sinnum á mínútu í rúmlega mánuð. Mig verkjar í fingurna, augnbotnana og ég er kominn með varanlegan framheilaskaða. Í ellefta lagi íþróttaþreyta. Ég fór í ræktina í morgun eftir letiskeið. Ofan í þetta eru svo alls konar nútímaþreytur – þriðjuvaktardót, félagslífskröfur, jólin-á-næsta-leiti und so weiter. Góðu fréttirnar eru þær að ég er allavega ekki kominn í kulnun. Og ef ég bara haga mér einsog ég sé hundrað ára næstu vikurnar þá gengur væntanlega allt nema framheilaskaðinn til baka.
Heima
Ég er kominn aftur á skrifstofuna. Líklega hef ég skrúfað fyrir ofninn þegar ég fór – hér er rosalega kalt og ég sit í útifötunum við tölvuna með loppna fingur. Það stendur þó allt til bóta. Ég hef ekki alveg haft tíma til að hugsa síðustu vikurnar en það hefur margt í sjálfu sér dunið á. Eða, tíma hef ég svo sem haft, en kannski ekki eirð. Það komu upp tvö menningarhneyksli – annars vegar var það jólakúlumálið á Ísafirði og hins vegar dramað í kringum Iceland Noir – og ég hef einhvern veginn ekkert náð til botns í þeim ennþá. Þótt ég hafi reyndar talsvert talað um bæði við fólk, nú þegar ég hugsa út í það. En ég skil til dæmis enn ekki hvers vegna Auður Jónsdóttir sagði af sér sem ritstjóri Heimildarinnar – hvað það hafði með Iceland Noir að gera. Eða hvað kom í veg fyrir að annar listamaður yrði gerður að heiðurlistamanni fyrst Öddi vinur minn afþakkaði. Nú heyrist mér á Yrsu að þau viti ekki hvort hátíðin verði haldin aftur. Og það er búið að auglýsa eftir tilnefningum til íþróttamanns ársins í Ísafjarðarbæ – einhver stakk upp á því að peningunum yrði eytt í páskaskraut. Ég er að hugsa um að tilnefna Hillary. Hún er áreiðanlega ekki verri íþróttamaður en hver annar. Sennilega er þetta líka allt komið í einn graut í höfðinu á mér. Hér var haldin Opin bók – þar voru margar spennandi bækur kynntar. Armeló hef ég reyndar lesið og get einlæglega mælt með – ég var eiginlega alveg agndofa þegar ég lagði hana frá mér. Það er svo mikið brjálæði að hafa sjálfsmynd í nútímanum. Og „feykilega vel gert“ einsog það heitir á ritdómaramáli. Hinar á ég enn eftir og byrja sennilega á Ljóð fyrir klofið hjarta eftir Helen Cova, sem gaf út hina æðislegu Sjálfsát fyrir nokkrum árum – þetta er fyrsta bókin sem Helen skrifar á íslensku og hún blandar saman bæði „leiðréttum“ texta, og „óleiðréttum“, ofan í spænskuna. Ég hef heyrt hana lesa upp úr henni í tvígang og þetta er algerlega eitthvað sem talar til mín og þess hvernig ég skil erindi ljóðlistarinnar. Svo er ég víst búinn að lofa að leika (og syngja!) í Fiðlaranum á þakinu. Æfingar eru löngu hafnar og ég hef misst af þeim öllum nema einni. Það eru einhver bókagigg á næstunni þótt túrinn sé búinn – ég ætla í Háskólasetrið að tala um heimildavinnu við skáldskaparskrif, á bókasafnið að lesa upp úr Frankensleiki, í menntaskólann að tala um rithöfundalífið, á elliheimilið að lesa upp úr Náttúrulögmálunum. Svo er von á Víðsjá í bæinn og Mogginn ætlar að hringja á morgun. Ég náði Kiljuviðtali meðan ég var í borginni og það verður spilað á miðvikudaginn. Ég hef bara fengið einn dóm, enn sem komið – mjög lofsamlegan, í Heimildinni, set hlekk þegar hann kemur á netið – jólabókaflóðið hálfnað – en fæ vonandi einhver meiri viðbrögð fljótlega. Ekki þar fyrir að kannski á maður bara að hætta leik þá hæst hann stendur. Láta kalla inn öll kynningareintökin meðan ég er enn á sigurbraut. Svo þarf ég að ganga frá fjármálunum í kringum túrinn. Og komast inn í rútínuna aftur. Og bara hvíla mig og taka því rólega. Og halda yfirveguð, stresslaus jól. Það væri geggjað.