Untitled

Það fer allt í taugarnar á mér í dag. Bókstaflega allt. Sennilega þýðir það þá frekar að sökina sé að finna hjá mér en öllu – en ég útiloka þó ekki að allt sé einfaldlega glatað, óviðbjargandi vitleysa, stjórnlaus hégómi og rugl. *** Ég notaði helgina í að setja upp hillur og koma með bækur á skrifstofuna. Þrjár stórar billyhillur og svo var hér ein vöruhilla fyrir, sem geymir nú bækurnar mínar – það er að segja eintök af bókunum sem ég hef skrifað. Dró líka fram bókmenntaverðlaunabikarinn minn og Don Kíkóta styttuna. Gunnar – myndlistarmenntaði maðurinn í næsta herbergi – sagði að bókmenntaverðlaunin væru ljót, en það þýddi ekki endilega að ég hefði ekki verið vel að þeim kominn. Kannski fer líka allt í taugarnar á honum í dag. *** Þetta eru aðallega ljóðabækur – svo bókmenntatímarit og bækur um bókmenntir, einhver örlítil heimspeki og svo allar „Illskubækurnar“, bækur um popúlisma, helförina og öfgahægrið. Á borðinu hjá mér eru svo bækurnar sem hef í huga meðan ég skrifa Hans Blævi. Transgender Voices – Beyond Women and Men, The Guilt Project: Rape Morality and the Law, Happiness: A history, Colonel Barker’s Monstrous Regiment og How To Make Love Like A Porn Star. Að minnsta kosti í augnablikinu. *** Það er góð tilfinning að vera búinn að bóka sig svona upp. Nú þarf ég bara að raða ljóðabókunum í stafrófsröð – annars gengur víst ekkert að finna þær. ***

Untitled

Ég veit ekki hvort heilsa mín þolir miklu fleiri fertugsafmæli. Þetta er sennilega yfirgengilegasta djammtímabil ævinnar, nú þegar vinir manns eiga – hver á fætur öðrum, gersamlega miskunnarlaust – stórafmæli. *** Ég er með höfuðverk að borða skonsur með sinnepi og skinku. Á eftir ætla ég út að hlaupa, lesa meira í Argonauts og fara með bækur á skrifstofuna. Í gær skrúfaði ég saman þrjár billy hillur. Og er þá loks raunverulega fluttur inn á kontórinn. Ég hef setið á honum berum í sirka ár, held ég. Góður kontór. Og gott að komast út af heimilinu til að vinna.

Untitled

Við höfum mjög miklar áhyggjur af tilfinningum hvers annars og því hvernig við virðumst – ímynd okkar, sjálfsmynd. Kannski er það gott. Bensi segir eitthvað sem meiðir, Bjarni Ben segir eitthvað sem meiðir, Steingrímur Joð segir eitthvað sem meiðir. Ímynd þeirra býður skaða og þeir gera sitt besta til að bæta fyrir það með því að biðjast afsökunar. Nei, sennilega baðst Bjarni ekki afsökunar – en hann fór heldur ekki út fyrir hinn almennt ásættanlega orðaforða. Hann hastaði á 18 ára karlmann, nei fyrirgefiði, 18 ára barn, sem gagnrýndi hann harkalega. „Fyrirsátin í Versló“, köllum við það, og aldrei átti Bjarni Ben von á fyrirsát í Versló. Þegar mamma gekk í skólann var innritunareyðublöðum fyrir Sjálfstæðisflokkinn dreift í tímum. Þeir tímar eru greinilega liðnir. *** Nema hvað. Við höfum áhyggjur af sjálfum okkur. Og áhyggjur af öðrum. Og áhyggjur af því að við virðumst bera í brjósti neikvæðar tilfinningar til annarra. Af því það kostar. Sindri Eldon, hinn orðhvassi fyrrum tónlistargagnrýnandi Reykjavík Grapevine – sem ég tók viðtal við um krítík fyrir nokkrum árum – skrifar opinbera afsökunarbeiðni  á Facebook til þeirra tónlistarmanna sem hann skrifaði neikvætt um á sínum tíma – eða allavega þeirra sem hann sýndi hroka (það kemur ekki fram til hverra nákvæmlega afsökunarbeiðnin er – kannski allra sem hann skrifaði nokkru sinni um – mér finnst sennilegt að öll viðkvæmu egóin sem hann særði taki þetta til sín, viðkvæmum egóum finnst líka allt snúast um sig, einsog segir í laginu). Það fylgir reyndar sögunni að Sindri telji sig ekki hafa notið sannmælis sem tónlistarmaður vegna þessara skrifa – að hann hafi verið látinn gjalda þeirra. Um það er auðvitað ómögulegt að segja án þess að fá einhver konkret dæmi – það gæti alveg verið að fólki finnist tónlistin hans bara ekki skemmtileg og hann leiti orsakana þarna (einsog tónlistarmennirnir sem hann skrifaði um kenndu honum áreiðanlega um ófarir sínar). En hann virkar óneitanlega lúinn í þessari ræðu – einsog maður sem hefur einfaldlega gefist upp. Það er líka ótrúlega mikið álag sem felst í því að skrifa heiðarlegan og litríkan prósa um listaverk og fáir sem endast í því. Það get ég einfaldlega staðfest, bæði sem gagnrýnandi og ritstjóri. *** Mér finnst (já  mér finnst! ) þetta allt heldur sjálfhverft. Einhvern tíma var því haldið fram við mig að sjálfhverfan – þessi brjálæðislega viðstöðulausa sjálfhverfa sem samtíminn er að kikna undan – væri bein afleiðing af heimspeki nýfrjálshyggjunnar, sem skilur ekkert nema einstaklinginn og hefur engin stærri samfélagsleg gildi. Það verður engin mergð, ekkert torg, enginn kór. Þannig hefur nýfrjálshyggjusamfélag engan respekt fyrir gagnrýni sem slíkri – hinni pólífónísku rödd ólíkra miðla, ólíkra gagnrýnenda, átaka um fagurfræðilegt mat – því hún getur ekki séð heildarmyndir og upplifir þessar stöku raddir því bara sem innlegg í eineltiskúltúr. *** Þetta helst svo auðvitað í hendur við að gagnrýni fækkar svo að pólifóníukórinn verður að einum og einum hrópanda – geisladiskur fær kannski bara eina rýni, ljóðabók kannski eina (fyrir utan stjörnurnar frá mömmu á Goodreads) o.s.frv. Það verður enginn kór lengur, bara einn guðlegur gagnrýnandi sem tekur ákvörðun um endanleg gæði verksins. Sem er ekki heldur lengur afurð hópsins heldur hrein og tær tjáning sálar – gott ef ekki sálin hlutgerð, íkoníseruð – og öll gagnrýni á téða afurð því sambærileg við að níða niður listamanninn, pissa í skólatöskuna hans og hrækja á gröf móður hans. *** Gagnrýni er auðvitað – einsog list – persónuleg tjáning. Ég á ekki við að hún verði slitin fullkomlega úr samhengi hins sjálfhverfa. En hún verður að eiga í einhvers konar sambandi við hið stóra  – við kúltúrinn. Og ég stend við það sem ég sagði einhvern tíma fyrir langa löngu, þegar ég var hrokafullur ungur maður (og sagði líka oft heimskulega og hrokafulla hluti – það er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að neita að vera hræddur) að maður þyrfti að læra að bera passlega blöndu af virðingu og vanvirðingu fyrir listinni, maður þyrfti að leyfa henni að hræra í sér á alla mögulega vegu. Því sá sem elskar einfaldlega  listina og finnst allt frábært – „út frá því sem verkið ætlar sér sjálft“, einsog það heitir á átomatíkínni – gerir á endanum ekkert nema kitsch, ef viðkomandi er listamaður, og ef viðkomandi er gagnrýnandi varðar hann leið kitschsins að hjarta mannsins, sem svo visnar og deyr.

Untitled

Ég synti sextíu og þrjár ferðir í sundhöll Guðjóns Samúelssonar í kvöld. Laugin er nánast á dyraþrepinu hjá mér. Fallegasta sundhöll landsins. Og að sögn með þeim stystu. Hún er sextán metrar á lengd og sextíu og þrjár ferðir því það næsta sem maður kemst því að synda einn kílómetra, ef maður vill ekki stoppa á miðri leið. Í sjálfu sér gæti maður líka synt sextíu og tvær ferðir en þá væri maður undir kílómetranum – jafn langt undir og maður fer annars yfir – og það er erfiðara að muna töluna sextíu og tveir. Sextíu og þrír er jafn margar ferðir og það eru þingmenn í landinu. Því gleymir maður ekki svo glatt, sérstaklega ekki þegar það er svona stutt til kosningar. *** Ég fór síðan í sánu. Rakaði mig. Fór aftur í sánu. Að venju var ég eini nakti maðurinn í sánunni. Mér gengur ekkert að venja sveitunga mína af þessu sundfatarugli – opna bréfið sem ég skrifaði vegna baðfatasturlunar þessarar er horfið af internetinu, út af því að bb.is endurnýjaði sig (og gamli.bb.is virðist ekki virka lengur) en það má lesa um þetta í endursögn Morgunblaðsins (ef maður man ekki neitt, það man auðvitað enginn neitt lengur, en þetta var stórmál og komst meira að segja í útlenska fjölmiðla). *** En ég er nú sosum ekki að bögga fólk með þessu heldur. Sánan er heilagur staður – ekki staður fyrir bögg. Og það böggar mig enginn að ég skuli vera á rassinum. *** Ég get ekki gert upp við mig hvað ég á að kjósa. VG, Pírata eða Samfylkingu, annað kemur tæpast til greina. Ég átta mig ekki á því hvernig landið liggur í kjördæminu, hverjir eru tæpastir – það getur skipt máli – en svo er maður óttalega hræddur við að atkvæðið manns verði síðan til þess að einhver bavíani annars staðar af landinu fari á þing. *** Mér finnst ég vita miklu minna um hvar flokkarnir standa en ég vildi. Mér finnst ég fá mjög lítið af konkret svörum. Mikið af við viljum styrkja/efla/styðja allt sem er gott og skera upp stríðsör gegn því sem er slæmt. Og allir eru meira og minna sammála um hvað sé gott og hvað sé slæmt. Hægriflokkarnir sverja af sér einka(vina)væðingu og lofa einkaframtaki. Vinstriflokkarnir sverja af sér skattpíningu fátæklinga og lofa allri velferðinni sem enginn stóð skil á síðast. Bjarni Ben segist ætla að setja milljarðatugi í bankakerfið. Sennilega er hann að tala um að selja það – ég las ekki fréttina samt, sá bara fyrirsögnina. *** Ég respektera auðvitað íhugunina – ég beinlínis vinn við að íhuga, í einhverjum skilningi. Og vinstrimenn eru íhugarar – þeir vilja skoða málin, ræða þau, taka til greina alla núansana. Ég fíla það. En svo sakna ég þess samt að það sé dúerar. Hægrimenn eru dúerar, þeir bara setja lög og gera hluti – storma áfram. Eina vandamálið er að þeir gera frekar vonlausa hluti. Þeir framkvæma hægristefnu, sem er glötuð og mun á endanum gera jörðina óbyggilega. Ég væri til í smá vinstri dúera. Mér sýnist þeir ekki í boði. Og kannski myndi ég bara skíta í mig af pirringi ef þannig fólk kæmist til valda – gersamlega æfur yfir allri vitleysunni sem það myndi framkvæma. *** En ég er alveg frekar sínískur í pólitík. Sem þýðir ekki neitt. Fram fram fylking. Vaki vaki vaskir menn. *** En hvaða spurningar eru það sem ég myndi vilja fá hrein og klár svör við – svona dúerasvör? *** Ég gæti spurt um bókaskattinn – en það virðast allir sammála um að fella hann niður og hvers vegna ætti ég þá að spyrja um það? Ég gæti spurt kannski í staðinn hvernig í ósköpunum þeir hafa haldið hingað til að þetta væri góð hugmynd? Eða hvað hafi orðið þess valdandi að þeir skiptu um skoðun. *** Kannski væri ágætt að fá einhvern orðavaðal um byggðamálin. Og fáein loforð. Ég á ekki við að það ætti að lofa tiltekinni vegagerð um Teigsskóg – en kannski loforð um að þetta yrði leyst á kjörtímabilinu. Ekki „vonandi finnst ásættanleg“ ble ble heldur bara „við fixum þetta. Byrjum að vinna að því á fyrsta degi og svo fixum við það.“ *** Svo mætti alveg lofa líka að leggja meira fé í rannsóknir á fiskeldi. Lofa lögum um eignarhald. O.s.frv. *** Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu. Ég myndi helst vilja að einhver segði að það þyrfti að draga hana til baka. Kannski í þrepum – en sem sagt að heilsugæsla sé bara á forræði hins opinbera. Og hugsanlega fleira – ég reikna ekki með að fá mörg jákvæð svör – en a.m.k. grunnþjónustan. *** Fjárfesting í landsneti. Byggja upp flutningskerfi raforku. Svara því bara skýrt og greinilega hvernig megi hringtengja Vestfirði – ef ekki er hægt að gera það án þess að virkja (t.d. Hvalá) þá þarf það einfaldlega að liggja fyrir. Það þarf plan – og ef það er ekki til plan þarf að setja plan um hvenær planið á að vera tilbúið. Deddlæn. Ef ég redda þessu ekki fyrir næsta haust segi ég af mér og einhver annar fær að vera forsætisráðherra. Þannig plan. *** Hvað fleira skiptir mig máli? Háskólastarfsemi – og í guðanna bænum ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Ég get ekki ímyndað mér neitt verra en að kjósa óvart einhvern búra sem vill loka háskólasetrum úti á landi og þjappa öllu saman í einhvern ofurskóla á melunum (er ekki HÍ á „melunum“ – mér finnst ég allavega hljóma mjög reykvíkingslega þegar ég segi „melarnir“, ég sem rata ekki yfir Ingólfstorg án Google Maps). *** Fella niður komugjöld á spítala. Hækka persónuafslátt og stuðla að launajöfnuði milli stétta. Niðurgreiða innanlandsflug (þjóðnýta Flugleiði). Halda áfram að styrkja innviði samgöngukerfisins. Leggja niður æfingaflug í borginni áður en Reykvíkingar missa vitið og stinga rýtingi í hjartað í Vatnsmýrinni. Burt með kvótakerfið – binda kvóta við tiltekin svæði á miðunum á tilteknum tímum (einsog stendur er bara gefinn út einn kvóti fyrir hverja fisktegund á alla landhelgina – fiskurinn er svo sópaður upp á 2-3 stöðum í kringum landið, sem er einsog það væri gefin út veiðileyfi á lax og svo sætu allir í kringum sömu 2-3 hylina). *** En guð hvað maður verður leiður af að hugsa um þetta. Getur ekki einhver troðið upp í mig chilikjúklingi svo ég lifi leiðindin af?

Untitled

Kæri Snæbjörn. Ég gleymdi víst alltaf að þakka fyrir blómin. Sennilega komu þau bara svona flatt upp á mig. Ég eyddi deginum í að dást að þeim og bresta út með: „Nei, sko! Ha ha!“ Blómin (takk fyrir þau!) komu líka alveg á réttum tíma, svo að segja, ekki alveg að tilefnislausu – þótt ekki hefði minn maður unnið nóbelinn (ég hélt með Sjón, lét berast með í æsingnum og er að lesa Codexinn – það er svakaleg bók) – því svo vildi til að rétt í þann mund sem mér barst þessi blómvöndur, já og okkur fjölskyldunni, þá fékk ég sem sagt þau skilaboð að franski útgefandinn Editions Metailie, hefði ákveðið að kaupa réttinn á skáldsögunni Gæsku – en þau hafa áður gefið út Heimsku og Illsku og bara gengið nokkuð vel. Ég var þess vegna þá þegar „festiv“ – í hátíðarskapi – og má segja að ég hafi verið að bíða eftir að einhver sendi mér blómvönd. Þetta gast þú auðvitað ekki vitað – og þó, þú hefur náttúrulega verið lengi í bókaútgáfu og kannski sér maður þetta bara fyrir þegar maður er „eldri en tvævetur“ í bransanum. Fyrir þetta fæ ég auðvitað böns af monní og útlit fyrir að ég eigi einmitt efni á blómum eitthvað fram eftir vetri. Húrra, yo! Um kvöldið áttum við Nadja síðan svokallað „deitkvöld“ – ótengt réttindasölunni, þetta var ákveðið áður – en þá borðum við seint eftir að börnin eru farin í háttinn og Nadja má ekki vinna, annars vinnur hún flest kvöld, enda í 67% stöðu sem menntaskólakennari og það er miklu meira en flestir þola. Ég gerði spænskt tapas, meira og minna upp úr sjálfum mér. Kartöflueggjaköku, bakaða sveppi fyllta með geitaosti (úr costco!) og heimatilbúnu grænkálspestói, tannstöngla með ólífum (costco), manchego-osti (costco) og kirsuberjatómötum (nettó), súrdeigsbruschettu með karamellíseruðum lauk og geitaosti (costco) annars vegar og mozzarella (costco) og basiliku (bónus) hins vegar. Ég man ekki hvort það var eitthvað fleira þarna. Þetta var allavega mjög gott og ég sem sagt raðaði tapasinu í kringum blómvöndinn en þurfti svo að færa hann aðeins til hliðar, enda er hann svo stór að við sáum ekki hvort annað – og það er ekki alveg hægt á „deitkvöldi“, ekki einu sinni þótt vöndurinn sé fagur. Í dag var svo síðbúin afmælisveisla fyrir krónprinsinn, Aram Nóa Norðdahl Widell – hann varð átta ára þann 3. september síðastliðinn – og vöndurinn var aftur í hávegum, á miðju langborðinu. Börnin fengu pylsur – grænmetis, merguez, vínar og beikon (allt úr Nettó) – rækjusalat og heimalagaðar súrar gúrkur, auk annars hefðbundins tillbehör á íslenskum pylsubar (gleymdi reyndar að kaupa remúlaði – sem hefði samt passað vel við vöndinn, bæði einhvern veginn danskt). Í eftirrétt var einhvers konar marensparadís – Nadja tók þetta að sér og ég sá ekki betur en að auk marens væri í þessu vanilluís, jarðarber, bláber og súkkulaðisósa. Þá var hægt að hræra út í það rjóma, hann stóð bara á borðinu – prinsinn vill ekki rjóma sjálfur, nefnilega. Við þetta tækifæri breiddum við svolítið úr vendinum svo stilkarnir standa langt út á borðsendana einsog spjót – hann er ekki síður tígulegur þannig. Vonandi hafið þið fjölskyldan það gott í Espergærde. Kær kveðja að vestan,

Eiríkur og fjölskylda PS. Ég taldi upp allan þennan mat ekki síst vegna þess að ég þykist vita að þú sért matmaður, einsog ég reyndar líka, en svo er auðvitað alls ekkert víst að þér finnist þá sjálfkrafa gaman að lesa upptalningar á mat. Ef svo er ekki biðst ég bara forláts og vona að þú hafir skemmt þér betur yfir þeim hlutum þessa bréfs sem ekki snúast um mat, nema í besta lagi óbeint, svo sem eftirskriftinni.

Untitled

Má ég opna? spurði konan mín. Á sænsku. Får jag öppna. Og mynd. Okkur höfðu borist blóm. *** *** Ha, já, ha? Svaraði ég. Hvað er þetta? Já opnaðu bara. *** *** Satt og rétt.

Untitled

Hér er allt að gerast. Íslendingar eru sviknir um nóbelsverðlaun á hverjum degi. Að minnsta kosti þessa vikuna. *** Nema Snæbjörn. Það liggur við að maður ætti að senda honum blóm. En hann á sennilega fyrir sínum eigin blómum. *** Ég kláraði leikritið – Hans Blævi – í gær og sendi á Óskabörn ógæfunnar sem ætla að setja þetta upp. Sennilega á ég reyndar eftir að breyta helling – kannski ekki í strúktúr en það þarf að stytta hér og þar og árétta hitt og þetta, reikna ég með – en þau eru allavega komin með eitthvað í hendurnar til þess að lesa saman. *** Svona alveg án þess að taka afstöðu til Brexit eða Katalóníu eða uppgjörstilraunarinnar í Grikklandi um árið þá er áhugavert að sjá hversu kerfið er orðið gott í að standa vörð um sjálft sig – um status quoið. Sem sagt kapítalíska kerfið. Niðurstaðan frammi fyrir öllum stórum breytingum er: Ef þið ruggið bátnum tekur við óstöðvandi Mad Max kaos og svo svelta þeir í hel sem  ekki gerast útlagar eða eru drepnir af útlögum áður en þeir ná að svelta í hel. Einsog þeir sögðu í Star Trek: We are the Borg, resistence is futile. *** Ég var mjög hrifinn af Never Let Me Go. Svo það sé bara sagt – hvað sem stendur hér fyrir neðan sat hún í mér, ég kvabba líka. Ég skrifaði þetta um hana þegar ég las hana (á blogg sem er horfið – þetta er eiginlega færsla á horfnu bloggi um færslu á öðru horfnu bloggi og svo hverfur þetta blogg): *** Apríl – 2008 Í gærkvöldi kláraði ég Slepptu mér aldrei eftir Kazuo Ishiguro. Á sínum tíma pönkaðist ég eitthvað á fólki (Bjarti) fyrir að slá upp kommentinu “A masterpiece of craftsmanship”, sem hent var á lofti um þessa bók þegar hún kom út. Ég skrifaði um þetta á gamla bloggið mitt, Bjartur brást við (enda eldheitur Ishiguro maður) og loks dró nafniminn Guðmundsson mig inn í Víðsjá til að ræða sótthreinsaðar bókmenntir – sem ég vildi bera saman við sótthita bókmenntir Dostójevskís. Bloggið er löngu horfið, sem og úbbartsviðtalið, en á heimasíðu Bjarts segir m.a.: “Eiríkur segir: “Ég hef það á tilfinningunni að sótthreinsaðar bókmenntir séu að verða vinsælli og vinsælli – “A masterpiece of craftsmanship” segir í dómi um nýjustu bók Ishiguro. “Send a copy to the Swedish Academy” – handbragðið nýtur svo mikillar virðingar að menn hugsa til þess með hjartað í buxunum að bækur þeirra verði óvart prentaðar með einni einustu bögu. En það gerist ekki, því eftir yfirlestra frá 40 manns, situr ekki einn einasti agnúi eftir. Sem er að einhverju leyti miður, því agnúar eru þrátt fyrir allt snertifletir.” Æ! Þvílíkt endemis rugl. Eru mannanna verk svo fullkomin að það þurfi að hafa áhyggjur af því?” Nú er ég sumsé búinn að lesa bókina. Hún var fín, eins og ég vissi sosum, en óttalega sívílíseruð. Prótagónisti Ishiguros, Kathy, er voðalega meinlaus, og hugsun bókarinnar þar af leiðandi einhvern veginn, já, kannski er sótthreinsuð orðið sem ég er að leita að. Uppbygging og texti, meina ég. Það er margt í bókinni magnað, og margt sem hreyfir við manni – einna helst hversu allir í sögunni eru sáttir við örlög sín, hvernig veröldin er. Það er ógnvekjandi, því það er líka algerlega satt. Við lifum eins og hlýðnir hundar, og beitum svipunni óhikað á okkur sjálf. Eitt atriði við bókina var þó verulega þreytandi, en það var stílbragð nokkuð sem jafnan er beitt til að gera sögur lífrænar, gera þær slíkar að útlit sé fyrir að einhver sé að segja stóra kaotíska sögu og hún sé ekki línuleg, passi ekki inn í ramma frásagnarinnar. Kazuo Ishiguro var alltaf að segja frá því sem var alveg að fara að gerast, því sem var á næstu grösum. Ég held það liggi við að allir kaflarnir séu þannig uppbyggðir – minnst er á hlut/atvik sem koma mun við sögu, og hvernig hluturinn/atvikið hafði áhrif á persónur bókarinnar og aðstæður þeirra, áður en sagt er frá því hver hluturinn/atvikið er. Ég er ekki með bókina með mér, og get því ekki tekið dæmi, nema skáldað (ég er minnislaus með afbrigðum, ef ég skyldi aldrei hafa minnst á það): “Ég veit ekki hvenær Gunnar hætti að haga sér illa, en það hafði kannski eitthvað að gera með bréfið sem hann fékk þá um haustið. Hann hafði verið óstýrilátur allt sumarið, en fréttirnar sem bárust með bréfinu virtust breyta skapferli hans, á einhvern hátt.” Ble ble. Seint og um síðir fær maður svo að vita að í bréfinu var Gunnari sagt að hann hafi verið ættleiddur, hann eigi tvíburabróður en foreldrar hans hafi látist í flugslysi. Þetta er ágætis stílbragð, ekkert undan því að kvarta – fjarska fágað og sívíliserað, lávarðaútgáfan af cliffhangernum. En það mætti alveg fara sparlegar með það mín vegna, að minnsta kosti í einni bók.

Untitled

Costco mun ekki fylla í gatið á sálum okkar. Ekki heldur Facebook eða snjallsímar. Kannski mun ekkert fylla í gatið á sálum okkar. Gapandi holuna. Það verður þá bara að hafa það. *** Það er miðvikudagur – hin endanlega sönnun þess að vikan hefst ekki á mánudegi, einsog félagslegir fílístear halda fram, heldur sunnudegi. *** Ég hugsaði um það í morgun hvað mér þykir vænt um menningarlega fílísteann í sjálfum mér. *** Svo gleymdi ég að klára blogg dagsins. Dag bloggsins. Ég man ekkert hvað ég var að hugsa um þarna í morgun þegar ég skrifaði ofangreint. Eitthvað um fílístea, held ég, menningarlega og félagslega.

Untitled

Ég missti alveg af ranti Braga Ólafssonar um bókadóm Braga Páls  um ljóðabók Jónu Kristjönu – Skýjafar. Þar prýðir Bragi Ólafsson sig bókstaflega „hatri, blóði og hráum tilfinningum“ þegar hann segir að Bragi Páll eigi „þannig lagað“ ekkert betra skilið en meðferðina sem Willem Dafoe fær í myndbandinu við Cut the World með Antony and the Johnsons (hann er skorinn á háls í frekar brútal senu) fyrir að segja að ljóðskáld eigi að prýða sig „hatri, blóði og hráum tilfinningum“ (sem Braga Ólafs finnst „óendanlega hallærislegt). Ég missti af því sem sagt alveg þangað til Snæbjörn Arngrímsson fór að verja Braga. *** Ég sé reyndar núna að þeir félagar hafa birt færslur sínar samdægurs. Fyrir þremur dögum. Sem er eilífð á internetinu. Þetta er svipað og bók fari framhjá manni í fjörutíu ár. *** Bragi uppnefnir líka Starafugl – fer aðra leið en Einar Kárason sem talaði um „Sterafugl“ og talar þess í stað um „Stafaruglið“. Nú skil ég hvernig Samspillingunni og Sjálfgræðgisflokknum hlýtur að líða. *** Ég held – einsog ég hef þúsund sinnum nefnt – að það sé mjög mikilvægt fyrir menninguna að fólk segi skoðanir sínar á henni umbúðalaust. Ein helsta ástæðan fyrir ótta fólks við ljóðlistina hefur einmitt að gera með alla upphafninguna og tátiplið – fólki (sérstaklega utan innvígðu mennignarkreðsunnar) finnst að það geti ekki haft á henni rétta skoðun – allt sem er sagt um hana opinberlega er svo lært og yfirvegað, svo djúpt og svo rétt. *** Þessu tengt. Áðan fór ég í Lucky Records og keypti plötur. Þar afgreiddi mig Bob Cluness – held ég alveg áreiðanlega – sem er ekki síst þekktur fyrir ofsafengna afstöðu sína til tónlistar. Ég keypti af honum sex plötur – tvær AC/DC, tvær Tom Waits og tvær með Guns (Use Your Illusion I & II). Og það hvarflaði að mér að ég ætti að skammast mín fyrir þetta. Að minnsta kosti fyrir Gunsplöturnar. Sennilega er þetta svolítið einsog að láta einmitt Braga Pál afgreiða sig um Skýjafar og Ansjósur. En það er líka valdeflandi. Ég var alveg næstum því búinn að hvæsa á Bob að þetta væru víst góðar plötur þegar ég gekk út. Og ég veit ekki einu sinni hvort honum finnst þetta drasl. *** Eyddi nóttinni á hóteli á beisnum. Hótel Ásbrú. Gekk út á strætóstoppistöð í morgun í rokinu og hugsaði að Bandaríkjamenn hefðu nú varla getað valið sér ömurlegra bæjarstæði eða skipulagt bæinn verr. Stór hús, langt á milli, marflatt, viðstöðulaust rok og hvergi skjól. Ég hef aldrei áður vorkennt bandaríska hernum. En aumingjans, aumingjans bandaríski herinn.

Untitled

Ég er í þráttafríi fram á helgi. Þá fer ég til Gautaborgar að kljást við nasista sem ætla að herja á bókamessuna. Ekki er nóg með að tímaritið Nya Tider – sem er eins konar Breitbart – sé með bás á messunni heldur hafa stærstu nýnasistasamtök norðurlandanna, Nordiska Motståndsrörelsen, fengið gönguleyfi frá lögreglunni. Þau ætla að safnast saman fyrir utan bókamessuna. Þetta verður eitthvað. *** Haukur Már bjó til nýja grúppu á Facebook fyrir ný orð í íslensku. Ein af fyrstu tillögunum var gaslýsing – sem ég held að eigi við þegar maður lætur við fólk einsog upplifun þess af raunveruleikanum sé röng (ég kommentaði auðvitað að viðkomandi væri klikkaður að halda að „gaslýsing“ sé eitthvurt helvítis orð). En þetta orð, sem er í sjálfu sér ágætt, er dálítið PC-Gone-Mad viðkvæmt. Í gær las ég til dæmis grein þar sem því var haldið fram að þegar foreldrar tryðu ekki börnum sínum, þegar þau segðust vera södd, væru foreldrarnir að gaslýsa börnin. Sem er sennilega tæknilega rétt – en þá er líka ekki alltaf rangt að gaslýsa fólk. Upplifun barnanna minna á því hvenær þau eru södd er í öllu falli ekki í neinum tengslum við hinn fýsíska veruleika þeirra. *** Ég las annars óvenju mikið PC-Gone-Mad dæmi í gær. Ljóðabókaútgáfan BookThug í Kanada ætlar að skipta um nafn eftir að því var haldið fram að Thug væri of kynþáttahlaðið. Það væri sem sagt svokallað „racial slur“. Ekki ætla ég að rífast um málskilning við heimamenn, en jæja, já, alltílagi. *** Svo las ég líka grein um (mjög vinstrisinnaðan) háskólaprófessor sem gagnrýndi hugmyndir um að halda dag þar sem hvítir nemendur ættu að vera heima – til að vekja athygli á kynþáttamálum – og var svo til húðstrýktur af nemendum og svo skólastjórninni. Það var vægast sagt mjög spes lesning. *** Annars bara frekar rólegur. Fór í ræktina í morgun og hitti Rúnu. Hún segir að Öddi nenni ekki að koma með sér. Það sé svo langt að keyra úr Sluddunni. Og hlíðin er ekki skemmtileg og göngin sennilega númer 100 á listanum. Annars lokar Stúdíó Dan í febrúar og þá verða góð ráð dýr. Það hefur eitthvað verið talað um að bærinn blandi sér í málið og það verði komið upp aðstöðu uppi á Torfnesi. Ætli það strandi ekki á blankheitum einsog allt annað. Það er ekki einu sinni hægt að laga göturnar. (Helvítis göturnar, ég hata þessar götur). *** Svo er vandræðaástand að vera orðinn þreyttur á pólitík í upphafi vetrar þar sem verður gengið til kosninga tvisvar. Hið minnsta. Ég þyrfti eiginlega að komast í vetrarfrí til Kanarí. Hlaða batteríin. Því ekki kemst ég út á land. *** Ég eyddi gærkvöldinu í að fínpússa sólóin í Back in Black og Hells Bells. Þetta er allt að koma, einsog skáldið kvað. Ég verð lipur gítarleikari fyrir rest.