Untitled

Svo er það búið að vera að gera mig vitlausan í allan dag og alla nótt  að myndin sem fékk í gær Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs, Tyttö nimeltä Varpu, sé alltaf kölluð „Little Wing“ eða „Litli vængur“. Til hvers haldið þið eiginlega að google translate sé? Myndin heitir „Stúlka að nafni Varpu“.

Untitled

Epískur bugunardagur. Við Aino vöknuðum seint. Ég þurfti beinlínis að draga hana á fætur einsog þunglyndan ungling klukkan 10. Hún er fjögurra ára. Og sofnar klukkan átta á kvöldin, vandræðalaust, vaknar ekki á nóttunni eða er með annað svefnvesen. Haustið er bara að gera út af við okkur. *** Sjálfur er ég líka orkulaus. Vanmáttugur. Liðleskja á sál og líkama. Ég veit ekki hvað veldur. Nema það séu fjármálin. Þau eru í hönk. Ég byrjaði daginn á því að skipta kreditkortareikningum og senda út neyðartölvupósta til þeirra sem skulda mér fé. Ég á von á hellings peningum – búinn að selja Óratorrek til Svíþjóðar, Gæsku til Frakklands og Illsku til Spánar – en guð einn veit hvenær þeir skila sér. Uppgjör vegna sölunnar á Óratorrek hér á landi kemur ekki fyrren í júní. Og ég fékk einhvern lífeyrissjóðsreikning í hausinn og einhvern skatt og alls kyns óvænt rugl. Þarf að gæta mín í matarinnkaupum þennan mánuðinn. Og ekki kaupa neinn óþarfa, ekkert neyslurugl! *** Það er svo mikið rugl að vera í svona óreglulegum tekjum. Og það venst aldrei. Aldrei, aldrei, aldrei. *** Haukur Már er með svaka fínt viðtal við tölvukubb í Kvennablaðinu í dag. *** Halla Mía var með magnaða úttekt á Hvalárvirkjunarruglinu á RÚV-vefnum í gær. Langt, ítarlegt, væmni- og hlutlaust – og afhjúpar vitleysuna, sem er ekki síst fólgin í ósnortnum víðernum af óvissu, heilu hálendunum af giski um mögulega framvindu mála á næstu árum og áratugum. Enn sem fyrr segi ég þetta: Mér finnst einsog hér ætli menn að selja sig ódýrt. *** Ég vil samt ekki vera sérfræðingur að norðan (Árneshreppur er nærri því jafn langt frá Ísafirði og Reykjavík). Og mér finnst eitthvað kjánalegt við að „verndun“ þessara svæða sé alltaf á forræði lífsleiðra fínimanna í Reykjavík – forstjóra og lækna. Rosa nýlendufílingur í þeim samskiptum öllum. Og heimamenn fastir á milli IKEA forstjórans öðru megin og Barón von Bongó Liebenstein, eða hvað hann aftur heitir sá ágæti maður, hinumegin. *** Það er líka tómt mál að tala um þjóðgarða og friðlönd sem tekjulind að svo stöddu. Meir að segja þar sem eru friðlönd – einsog á Hornströndum – fylgja því engar tekjur.  Það er einfaldlega engum peningum veitt í þetta. Ef menn vilja múta Árneshreppingum væri miklu nær að taka upp einhvers konar skattaundanþágur – fella niður tekjuskatt í sveitarfélaginu. Eða eitthvað. Tekjur sveitarfélagsins af virkjuninni, þegar hún er komin í gagnið, eru bara 15 milljónir á ári. Það er sennilega einsog samanlagt útsvarið af Tómasi lækni og forstjóra IKEA. *** IKEA í Árneshreppi? Legudeild? Er ekki hægt að vinna eitthvað með þessar hugmyndir? *** Sennilega verður Hvalárvirkjun reyndar að veruleika. Kapítalið ræður, að minnsta kosti þegar rétt fólk á hagsmuni sína undir og HS Orka er í klíkunni. Ef það væri einhvers konar hrein vinstristjórn í kortunum er séns að virkjunin færi út – en einsog niðurstaðan var úr kjörkössunum er það eiginlega jafn útilokað og að Teigskógarmálið leysist á næstu árum. Það verður virkjun og það verður enginn vegur og mér finnst svona heldur sennilegra að það verði sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. *** Ég keypti mér súkkulaðisnúð. Hef séð fyrir mér að hann, og kaffi, muni vinna bug á bugun minni. Falleg setning annars. Muni vinna bug á bugun minni.

Untitled

Í frétt Ríkisútvarpsins um verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í kvöld eru bara talin upp þau verk sem Íslendingar hafa tilnefnt. Þetta er lýsandi fyrir eyjasamfélagið. Okkur er sama um þetta nema að svo miklu leyti sem það viðkemur okkur sjálfum. Verkunum frá hinum norðurlöndunum er líka almennt sýnd lítil virðing eða áhugi. *** Svíar eru líka svolítið svona, nema af ólíkum ástæðum. Svíar eru mjög „sjálfum sér nægir“ – þeim finnst alveg sinn níu milljón manna kúltúr duga sér. Norðmenn, Danir og Finnar eru miklu opnari fyrir umheiminum, fyrir bókmenntum hinna norðurlandanna, sem dæmi. Fyrir þessu hef ég fundið. Íslendingar og Svíar eru „insular“ – einungrunarsinnar, eyjaálfur í sjálfum sér. *** En móðgun samt að Ríkisútvarpið skuli ekki gera betur. Þar innanhúss á fólk einfaldlega að vita betur. *** Ef ég væri tilnefndur myndi ég meira að segja, hér á litla blogginu mínu, nefna við hverja ég væri að keppa. *** Annars var ég að leggja lokahönd á undirbúning nýs ljóðabókaátaks Starafugls og panta allar ljóðabækur útgefnar 2017 (að undanskildum fjórum sem enn hefur ekki tekist að koma út og svo bók ljóðaritstjórans Lomma og minni eigin – við fáum ekki að vera með). Las þar með listann og fór að velta fyrir mér komandi tilnefningum og verðlaunum og þvíumlíku. Ég hef lítið komist yfir að lesa bækurnar enn, vel að merkja, en það sló mig hversu fáar ljóðabækur eldri höfunda eru. Bragi Ólafs er með bók, Kristín og Hallgrímur en annars eru nær allir undir fertugu. *** Nú eru komin ný verðlaun – Maístjarnan – sem er bara ætluð ljóðskáldum. Þau vann Sigurður heitinn Pálsson síðast. Annars eru ljóðskáld auðvitað líka gjaldgeng til annarra bókmenntaverðlauna, svo sem Íslensku bókmenntaverðlaunanna – og bóksalar veita sérstök verðlaun fyrir ljóðabækur. Ljóðabækur hafa líka stundum verið áberandi í menningarverðlaunum DV (finnst mér endilega að ég muni rétt). DV hefur líka oft verið sér á báti – á meðan hin verðlaunin raðast svolítið á sömu bækurnar. *** Dagur Hjartarson fer af stað með látum og fær fimm stjörnur hvívetna. Ætli hann sé þar með ekki sennilegastur? Jónas Reynir er þegar verðlaunaður fyrir Stór olíuskip en gæti bætt á sig. Fríða Ísberg (sem er sú eina sem ég er búinn að kaupa en á ólesna) hefur líka fengið hæp. Mér finnst einsog það fari minna fyrir Eydísi Blöndal núna en þegar hún gaf út Tíst og bast en það gæti líka helgast af því að hún hefur verið í framboði þar til á síðustu helgi. Lommi á eina af bestu bókum ársins en það hefur lítið farið fyrir honum. Kristín Ómars hefur fengið mikið hrós fyrir sína (sem ég efast ekki um að hún á skilið, en ég hef ekki komist í hana enn). *** Ég ætla allavega að spá því að Maístjarnan næst falli í skaut „ungskáldi“ – einhverjum undir 35 ára sem hefur gefið út færri en fimm bækur. *** Og þetta gat ég alveg ólesinn. Hugsið ykkur bara hvað þetta verður auðvelt starf fyrir dómnefndirnar! *** Við þá sem fussa og sveia og spyrja sig hverju svona nokkuð skipti nú eiginlega vil ég segja þetta: Þeir sem vinna verðlaun fá ritlaun, útgáfusamninga, þýðingar erlendis, boð á ljóðahátíðir o.s.frv. Þeir sem vinna verðlaun fá að vinna við að skrifa, hinir fá að skúra gólf og skrifa í frístundum. *** Og þar með skiptir þetta auðvitað mestu fyrir þá sem eru ekki þegar drekkhlaðnir. *** Að því sögðu á besta bókin auðvitað að vinna. Annars glata verðlaunin sjálf gildi sínu fljótlega. Og ég gaf náttúrulega út bestu bókina. En til vara spái ég þá að efnilega ungskáldið fái önnur verðlaun, á eftir mér, sem er bestur.

Untitled

Þegar ég reyni að átta mig á Hvalárvirkjun verður allt svart. Hún framleiðir fullt af rafmagni, meira en við þurfum, og þegar ég spyr hvort þá sé komið nóg er mér tjáð að nei, svo þurfi að virkja meira. Hér og hér og hér (ég man örnefni illa, en þetta er í Djúpinu). Ein stór virkjun og nokkrar minni. Og svo einhverja tengipunkta. *** Og þá er komið nóg. En þá er líka búið að virkja fyrir miklu, miklu meiri orku en við þurfum á að halda. Til þess að við getum fengið hringtengingu. Ef ég er ekki að misskilja eitthvað snýst þetta sem sagt um að láta einingarnar borga hver aðra, koll af kolli, þar til allt er í lagi. Þegar allt er samtengt logar á perunum vandræðalaust og fyrirtækin, svo sem fiskvinnslan, hætta að blæða verðmætum út um logsvíðandi ( trigger warning !) rassgatið í hvert sinn sem rafmagnið fer. Við byggjum Hvalárvirkjun, fáum smá afgangsorku og seljum megnið einhverjum mengunarkapítalistum á meginlandinu (stundum finnst mér einsog við séum eyja, það er auðvitað ekki satt, en við erum samt ekki á hringveginum). Og gróðinn af því borgar næsta legg. *** Þannig fer annar hver foss í Ísafjarðardjúpi í það að halda uppi atvinnu við stóriðju á hringveginum. Því við ætlum að vera stóriðjulaus – stóriðjulausir Vestfirðir er slagorðið – og þá þurfum við ekki alla þessa orku. Mér finnst þar heldur illa farið með „okkar“ auðlindir, ef ég á að segja ykkur alveg einsog er. Þá verður búið að framleiða einhver hundruð megawatta sem við höfum í sjálfu sér ekkert við að gera – í mesta lagi hluta þess, standist raforkuspár (sem ég hef ekkert vit til að meta). *** En okkur er einsog venjulega ekki boðið upp á neitt annað. Það ætlar enginn – enginn – að hringtengja Vestfirði nema í einhverri svona ófyrirsjáanlegri framtíð – svona einsog við ætlum að hætta að treysta á kolefniseldsneyti, einn fagran veðurdag – vegna þess að það tímir enginn að borga fyrir það. Og það þarf ekkert að efast um það, þetta er er dýrt. *** Okkur er boðin hringtenging fyrir fossamergðina. Þetta er næstum einsog í einhverju barnaævintýri. Mér finnst það fullkomlega sturlað en ég get ekki sagt að ég skilji ekki þá sem vilja stökkva á boðið. Ef við hórumst fyrir orkufyrirtækin í einsog áratug í viðbót er útlit fyrir að þjónustan verði komin í gott lag. Pólitíkin tímir okkur ekki. Við erum ekki með í innviðasamneyslunni – vegna þess að við kostum of marga peninga. Kapítalið elskar okkur, ef við elskum það til baka. *** Þetta er einhvers konar realpólitík. Að gera bara það sem til þarf, svo maður nái markmiðum sínum. Ef hringtengingin kostar 200 mw af virkjunum og þrjú hundruð fossa og bandbrjálaða lækna og rithöfunda, þá það, segja menn. En auðvitað er þetta ekki hægt. Meðal annars vegna þess að þetta fer með pólitískt kapítal Vestfjarða – klárar það í stríði við PR-klárasta fólk landsins, til þess að kála víðernum mestmegnis til einskis – og innviðirnir hérna eru ekki þannig að við höfum efni á því, einu sinni fyrir hringtengingu. Atvinnuvegirnir og vegagerðin verða að ganga fyrir. Sjókvíaeldið og Teigsskógur – heilsársvegur til Patreksfjarðar. Fyrir utan kvótakerfið, strandveiðarnar og allt hitt. Við höfum ekki efni á að spreða þessu kapítali. *** Fossar eru verðmæti. Víðerni eru verðmæti. Ég er ekki á því að þau séu ómetanleg – ég myndi henda öllu hálendinu á bálið ef ég fengi fyrir það frið á jörð – en það þýðir ekki að maður megi sólunda þeim í vitleysu. Ef það væru engar aðrar lausnir og það væri gersamlega ólifandi við ástandið, þá mætti kannski athuga þetta. Neyðin kennir naktri konu að selja sig. Það er gott ef hún getur þá selt sig dýrt. En maður kaupir ekki lífrænt ræktaðan grís í kvöldmatinn fyrir öll mánaðarlaunin þegar maður gæti fengið einn sprautaðan fyrir 2000 kr/kg. Eða þú veist, kjúklingabaunir. Maður kaupir ekki hús fyrir meira en maður hefur ráð á. Og fleiri myndlíkingar (þetta kemur allt á bók einn daginn, eins konar best of safni). *** Ég er sem fyrr hlynntur sjókvíaeldi (helst með regnbogasilung, reyndar, sem er miklu betri matfiskur en laxinn og minni hætta með – en það ku ekki markaður fyrir hann, sem er óskiljanlegt, heimurinn er svo vanur að éta lax, og þar til við höfum þjóðnýtt fyrirtæki landsins hef ég víst takmarkað um það að segja hvernig þau haga sér meðan það er innan ramma laganna, og ég veit ekki hvort ég myndi vilja banna laxinn, hann er ágætur líka stundum). *** Og þegar og ef Teigsskógur vex mér yfir höfuð þá stofna ég skæruliðaher og hef höfuðstöðvarnar í kjarrinu – malbika hann innanfrá og brenni hríslurnar, eina af annarri.

Untitled

Málefni sem skipta mig svo gott sem engu (ég er ekki að segja að þau séu ekki mikilvæg og langar nákvæmlega ekkert að rífast um mikilvægi þeirra, þau hafa bara ekki „náð“ mér). Evrópusambandsaðild. Krónan. Stjórnarskráin. *** Ég nennti ekki að hugsa um fleiri málefni sem kveikja ekki í mér. Þetta var bara það fyrsta sem kom upp í hugann. Annars er áhugavert hvaða málefni eru sexí og hvaða málefni eru það ekki. Sum málefni eru þannig að þau kannski skipta ekki  æðislega miklu máli – segjum dónaskapur Brynjars Níelssonar, þótt hann sé emblematískur og það allt – en málefnið er einhvern veginn nógu tælandi til að fólk getur látið alla veröldina snúast um það. Svo eru leiðinlegri mál – vegir og loftslagið og launamunur og slíkt – sem einhvern veginn eru bara útrædd í sjálfu sér fyrir löngu, og skortir alla móralska dýpt. Maður sýpur ekkert hveljur og bendir reiðilega, einsog byltingarhetja, á einhvern þingmann fyrir að standa í vegi (pun!) vegaumbótum (einsog einhver Þrándur í Götu samgöngubótanna). Færð ekki mörg læk út á það. *** Mál sem skipta mig máli: Umhverfismál, jöfnuður og byggðamál. Þetta má brjóta frekar niður, í sjálfu sér og núansera.  Ég hef meiri áhyggjur af jöfnuði en jafnrétti og er frekar mikill efnishyggjumaður – rótin að öðrum ójöfnuði og ójafnrétti er þar og ekkert af því verður leyst nema það verði fyrst leyst þar. Ég hef meiri áhyggjur af loftslaginu og hafinu og ruslinu en t.d. hríslunum í Teigsskóg og jafnvel fallegu fossunum (en finnst forkastanlegt að fórna slíkum verðmætum bara til að gleðja einhverja kapítalista). Fossarnir eru samt mjög sexí. Byggðamálin eru alls konar og flókin og ég hef á þeim alls konar ólíkar skoðanir. En fyrst og fremst ætti að bæta fólki utan höfuðborgarsvæðisins þann aðstöðumun sem felst í því að við borgum öll fyrir sentralíseraða þjónustu þar – bróðurparti skattfjár okkar er eytt í Reykjavík, einsog vera ber, en til þess að það meiki sens þarf að sjá til þess að við hin fáum líka grunnþjónustu í bærilegri akstursfjarlægð, þótt hún sé dýrari, okkur séu tryggðar samgöngur til höfuðborgarinnar og um landið allt, og fólki sé gert kleift að lifa mannsæmandi í heimkynnum sínum (og nei, það þýðir ekki að maður verði að fá til sín hátæknisjúkrahús ef maður stofnar byggðalag á miðjum Hvannadalshnúk). Þá held ég að þjóðin hefði gott af því að búa til a.m.k. eina aðra borg – t.d. á Akureyri – af því að einnarborgarþjóðir eiga erfiðara með að kljást við einsleitni, þar eru engin átök, t.d. er stórslys að öll íslensk menning skuli eiga heima í sama póstnúmerinu (og já ég veit að það eru ýkjur, en nógu satt er það samt), það sé bara ein estetísk miðja í landinu, bara ein klíka og ein fagurfræði (og svo stakir útlagar). *** Svo þarf ég að fara að koma mér upp skoðun á þessu þarna. Ég segi já við eitt og þrjú og nei við tvö (á samt eftir að sakna hennar, helst vildi ég fá gömlu seðlana aftur). *** Já og kynferðisofbeldismálin. Út af þeim var víst kosið. Ég lýsi mig hér með andsnúinn kynferðisofbeldi. Og með gegnsærri og réttlátri stjórnsýslu. Hvaða frambjóðanda fæ ég þá?

Untitled

Ég er farinn að halda að listin lifi ekki af pólitík samtímans. Í það minnsta er ljóðlistin farin að láta á sjá. Pólitísk ljóð samtímans – í merkingunni síðustu vikna – eru einsog skopstæling á forminu. Mér líður einsog ég sé staddur í Southpark þætti t.d. þegar ég hlusta á þetta . Með fullri virðingu fyrir málstöðunum öllum, sem ég meira og minna styð. *** Sem er reyndar ekki slæmt. Southpark eru oft fínir. En vandræðalegt þegar manni finnst einsog það hafi alls ekki verið meiningin. *** Einsog Taylor Mali orti um árið í How To Write A Political Poem: Mix current events with platitudes of empowerment.

Wrap up in rhyme or rhyme it up in rap until it sounds true. *** Annars lifir samtíminn – þessi skegglausa og sköllótta rímöld – nú ýmislegt af. Að minnsta kosti hingað til. Ég veit ekki alveg á hvaða stigi brestirnir verða of miklir. Ætli það sé einhver golfstraumur í ljóðlistinni – sem getur vikið af leið og breytt landinu í auðn ef ekki er hlúð að loftslagsmálum fagurfræðinnar? *** Mér gengur ekkert að einbeita mér að vinnunni reyndar. Kannski hefur það með loftslagsmálin að gera líka.

Untitled

Hafið þið tekið eftir fólkinu sem svarar öllu sem ekki smellur að siðferðislegri heimsmynd þeirra með því að ranghvolfa bara augunum? Ekki kannski bókstaflega, en svona … „djísus“, „byrjar þessi“ … o.s.frv. einsog viðkomandi séu í senn svo lífsreynd að þau hafi séð allt áður og svo kúl að þau þurfi aldrei að gaumgæfa neitt. *** Pínu þreytt! *** Djók. *** Annars er óþarfi að þræta um alla hluti. Og þá meina ég að skiptast á skoðunum viðstöðulaust, grafa sig ofan í facebookþræði. Það á við sums staðar og stundum – getur verið gagnlegt – en það á alls ekki alltaf við. Oft er hraðinn einfaldlega of mikill. Hlutir eru skrifaðir of hratt, lesnir of hratt og það heyrir enginn í neinum fyrir öllu garginu. *** *** Við nýtum einkadagana okkar feðgarnir til þess að laga mat. Í gær skrifaði Aram Nói sína aðra uppskrift í uppskriftabókina – að skánskri eggjaköku með beikoni og sultu. Hann er kominn upp á lagið með að brjóta egg (það lærði ég ekki fyrren eftir tvítugt) og finnst þetta gaman, sem er fyrir öllu. Það er enn vetrarfrí í skólanum svo við sváfum út og lágum svo í rúminu og lásum í morgun. Ég hef verið að vinna bara heima, ekki að það skipti máli – hann getur allt eins fundið mig á kontórnum, og svo er hann hvort eð er farinn út á rand með vinum sínum núna. *** Ég er að lesa Museum of Innocence eftir Pamuk, sem ég keypti á samnefndu safni í Istanbul í fyrra, korteri áður en það fór allt til andskotans. Frábær bók, en kannski ekki sá ástaróður, sá óður til ástarinnar, sem kynntur er á bakkápu – Kemal Bey, aðalsöguhetjan, er eiginlega hálfgerður sósíópati, sjálfselskur dekurkjói og í einhverjum skilningi einmitt fullkomlega ófær um að elska. En bókin er góð fyrir það. *** Bíð eftir jólabókaflóðinu. Slitförin eftir Fríðu Ísberg kom út í síðustu viku – ég pantaði hana fyrir löngu en hún er enn ekki komin. Ef hún fer ekki að birtast klaga ég útgefandann (Valgerði Þóroddsdóttur hjá Partus) í landsbyggðarlobbíistann pabba sinn (Þórodd Bjarnason fv. formann Byggðastofnunar) fyrir að sinna ekki okkur dreifurunum sem skyldi. *** Annars bíð ég spenntur eftir Vali Gunnarssyni og Tóta Leifs og Kristínu Eiríks. Ætla að skrifa um Ko Un fyrir Starafugl – hún verður sennilega tekin ásamt ensku ljóðasafni eftir sama mann þegar ég lýk við Pamuk (þetta eru 700 síður af sósíópatískri þráhyggju). Svo skoða ég hvað og hvort ég les fleira úr flóðinu eftir því sem á líður. Ég hef verið í mótþróa gagnvart flóðinu lengi, fundist þessi skyldulestur óþægilegur, en er eitthvað að íhuga að vera með „í umræðunni“ í ár.

Untitled

Tilfinningar sem bærðust í hjarta mér í liðinni viku og hugsanir sem bærðust í höfði mér. *** Ha, aftur? Deja fokking vú. *** Af hverju kemur þetta fólki á óvart? Voru allir í viðstöðulausu í blakkáti á djammárunum? Er fólk svona heilagt upp til hópa – hefur það aldrei gert neitt eða lent í neinu? Aldrei verið ósvífið og aldrei lent í ósvífni? Og ef svo lukkulega vill til, hvar var það þegar öll hin hasstöggin ruddust yfir heiminn? Man enginn #6dagsleikinn og #fokkofbeldi og allar gulu og appelsínugulu prófílmyndirnar? Hefur það ekki lesið blöðin síðasta áratuginn? *** Ógleði. Djöfull sem það er erfitt að innbyrða svona stjórnlaust flóð af harmi. Ég á ríflega 2.200 vini á facebook, ætli helmingur sé ekki konur. Ég get ekki átt svona marga trúnaðarvini. Get ekki farið á 1.100 manna trúnó. Ekki vegna þess að það sé ekki mikilvægt að geta talað um hlutina heldur einfaldlega vegna þess að þetta er trámatíserandi – mannskepnan ég hefur ekki kapasítet til þess að kljást við jafn mörg einstök tilfelli af harmi í einu. Til þess er tölfræðin, svo maður kafni ekki á bitunum. *** Ég hataði heiminn. Hataði sjálfan mig. Og rifjaði upp allt – allt sem hefur komið fyrir mig, allt sem ég hef gert, allt sem ég hef orðið vitni að. Ég eyddi sennilega um áratug í versta kaosinu og á það til að heimsækja það enn. Það er ansi mikið sem gæti sætt endurskoðun – ég var aldrei sérlega ósvífinn sjálfur en samt. Kannski var ég það bara víst. *** Það voru miklu oftar konur sem stigu yfir mín mörk en karlmenn. Sumar þeirra eru vinir mínir á FB og skrifuðu sínar eigin sögur. Til dæmis þessi þarna sem bauð mér upp á óumbeðinn skrúfusleik á 22 – áður en hún yrti á mig. Og önnur gerði svipað á Ölstofunni. Sennilega fannst mér það bara töff. Að einhver vildi fara í skrúfusleik við mig. Langaði mig ekki í skrúfusleik, var ég ekki alltaf að kvarta undan því að ég kæmist aldrei í skrúfusleik? Ef ég hefði tekið því verr hefði það sennilega haft aðra merkingu á endanum. En ég gerði það ekki og of seint að fara að láta núna einsog ég hafi móðgast þá. Ég er ekki fb-vinur þeirrar sem skreið upp á mig áfengisdauðan í partíi fyrir hundrað árum. Og þótt ég hafi ekki tekið því vel, tók ég því samt ekkert brjálæðislega illa. Ég til dæmis vaknaði ekki. *** Það sló mig líka að margir sem þurftu raunverulega að opna sig og gerðu það voru reknir aftur inn í skápinn. Af því þeir voru karlmenn sem sagt. „Þú stelur þessu ekki“, sagði ein við einn. „Þetta er ekki ykkar dagur“. „Þið verðið bara að fá ykkar eigið átak seinna“. Og ég hugsaði: Þetta er ekki fyrsta svona átakið og þau eru ekki auðveld og þau fara augljóslega sínar eigin leiðir – eða þangað sem við stýrum þeim. Það eru allir sammála um að vandamál karla – sem þolendur kynferðislegrar áreitni, ofbeldi og nauðgana – eru mjög dulin. Og ég spurði mig: Hver er munurinn á því að reka einn svona karl aftur inn í skuggann – vegna þess að mann grunar hann um græsku, eða af öðrum sökum – og að segja konu að vera ekki að bera vandamál sín á torg, saka fólk um alls kyns óhæfuverk án sannanna? Ef þetta átak, þessi skriðþungi, hefði orðið til þess að opna á aðra flóðbylgju karlmanna, sem færu að ræða þá misnotkun sem þeir hefðu orðið fyrir – hefði það verið svo slæmt? Hefði það gert minna úr konunum? Var einhver nefnd búin að ákveða nákvæmlega hvernig þetta átak átti að líta út eða hvernig það mætti þróast? Virkar internetið þannig? *** Ég þekki all lives matter rökin gegn black lives matter og þau eru ekki góð. En þessir vinir mínir voru ekki að segja: Öll kynferðisbrot eru slæm eða gefa í skyn að #metoo konurnar væru að gera lítið úr kynferðisbrotum sem karlar verða fyrir með því að tala upphátt um sína reynslu. Þeir voru að segja: Þetta kom fyrir mig. Ég er hérna líka. Og ég er ekki viss um að það sé nokkurn tíma rétt viðbrögð að segja manneskju í þeim sporum að halda kjafti, og það jafnt þótt það sé gert af góðum hug og kurteisi. *** Ekki „haltu kjafti og vertu sæt“ einsog einn orðaði það, sem bar sig illa, heldur „haltu kjafti og harkaðu af þér“. *** Er ég að flækja hlutina af einhverri meðfæddri eða lærðri kvenfyrirlitningu? Ég spyr í alvöru, en er ekki viss um að ég treysti neinu einu svari. Vonandi er ég bara að leita að núönsum vegna þess að mér finnst núansar mikilvæg tæki til þess að komast að niðurstöðu – finna eitthvað sem er rétt. *** Og ég var sár og reiður að þurfa að rifja enn einu sinni upp alla skapaða hluti úr mínu eigin lífi. Hluti sem ég hef bælt, vísvitandi eða óvart, og hluti sem ég hef tekist á við og melt þúsund sinnum síðasta áratuginn eða svo. Að vera óspurður dreginn í sirkusinn upp á nýtt. Auðvitað átti ég bara að slökkva á Facebook. Það voru engar fréttir í þessu fyrir mig. *** Mér datt í hug leikur. Hvað ef við töggum alla sem við höldum að hafi hugsanlega verið sekir um eitthvað? Alla sem við vitum að hafa gert eitthvað. Eða bara þá sem virka þannig týpur. Frökku gaurana. Þá sem fannst dr. Venkman í Ghostbusters vera aðeins of sniðugur. Og kannski frökku gellurnar líka. Taggtagg. Ég er viss um að þið eruð með eitthvað ljótt í pokahorninu, reynið bara að neita því. *** Ég rifjaði upp samræður við sænskan sálfræðing (ekki minn) sem sagði mér að fólk misskildi oft tilgang sálfræðimeðferðar og héldi að hún væri einfaldlega og alltaf til þess ætluð að „lækna“ fólk. Augljóslega ætti hún að reyna að hjálpa fólki að takast á við versta skaðann, en þessi hversdagslega sálfræðimeðferð – fyrir fólk sem er ekki beinlínis ofarlega á veikindakvörðunum – snerist oft um að gera illt verra, sagði hann og hló og dró svo eitthvað aðeins í land. En sem sagt þetta: Oft hjálpar það manni ekki með að líða betur að grafa svona í naflann á sér. En það getur hjálpað manni að skilja eigin vandamál – sem er svo hugsanlega forsenda einhverra breytinga. En markmiðið er ekki endilega andleg vellíðan eða öryggi. (Og það eru til önnur markmið sem geta skipt meira máli). *** Hugsið þetta svona: Þegar maður flýgur úr landi byrjar maður á tveggja tíma öryggisprósess þar sem maður er stöðugt minntur á að terroristar gætu sprengt manni í loft upp ef maður fer ekki úr skónum og lætur gegnumlýsa sig og farangurinn sinn. Svo fær maður að kaupa ilmvatn. Og þegar maður er loksins kominn um borð fær maður fimm mínútna fyrirlestur um allt sem gæti farið úrskeiðis ef terroristar ræna vélinni. Hún gæti hrapað eða flogið á fjall eða aðra flugvél og þá er sem sagt gott að vera í öryggisbelti og vita hvar súrefnisgríman er. Af þessu öllu saman líður manni ekki vel. Maður er afskaplega meðvitaður, maður skilur betur áhættuna sem maður tekur, en manni líður illa. Og þá fær maður að kaupa litlu brennivínsflöskurnar. Svo flýgur maður og maður flýgur aftur og aftur og á endanum verður maður sennilega ónæmur fyrir þessu. Eða nærist á kvíðastillandi. Og litlum brennivínsflöskum. *** Öryggisráðstafanir eru ekki endilega til að minnka okkur kvíða – því þær minna okkur líka stöðugt á að við séum eiginlega bara alveg að fara að deyja. *** Af hverju beita karlmenn öllu þessu ofbeldi annars? Það er hægt að rífast um hverjir verði fyrir því – karlmenn eru ansi duglegir að meiða aðra karlmenn líka – en það eru karlmenn sem beita sennilega 9/10 hlutum af öllu ofbeldi í heiminum. Hvað veldur? Og nei, ég meika ekki billegar útskýringar einsog „toxísk karlmennska“ eða „það er klámið“ eða tölvuleikirnir eða Woody Allen myndirnar – þótt þar sé að finna vísbendingar um eitt og annað, eða í öllu falli einkenni. Eitt er auðvitað að þeir eru stærri, við, meina ég, við erum stærri. Mér hefur ekki staðið ógn af þeim konum sem hafa áreitt mig eða – það er fáránlega erfitt að segja nauðgað. Alveg absúrd. Mér finnst ég ekki eiga neitt tilkall til orðsins. Samt var ég sem sagt áfengisdauður og frétti þetta ekki fyrren daginn eftir. En ofbeldi hlýtur einhvern veginn alltaf að vera þegar stóri lemur litla – og ég er kannski bara of stór til að verða fyrir ofbeldi. *** Og sennilega er það líka billeg útskýring. „Konur eru bara svo aumar“ – það gengur ekki alveg upp. *** Og ég hugsaði að þetta væri kannski einsog hungurklámið frá því ég var barn. Og að ég þyrfti ekki að fá myndir af öllum börnum í heiminum sem eru að svelta í hel til að átta mig á vandanum. Þær væru bara til að valda mér vanlíðan. Og svo er það kannski ekki heldur satt. Kannski þarf maður það allt. Ég man eftir að hafa hugsað sem unglingur að dagblöðunum bæri skylda til að sýna hvert einasta lík í Írak, við þyrftum að sjá ofbeldið, a.m.k. allir sem eru með í NATO. Kannski á maður vanlíðanina skilið. En ég get gengið úr NATO – get neitað að borga skatta eða flutt úr landi, í NATOlaust land. *** Ég á ekki við að maður megi vera vondur. Ég á við að það er rangt að vera góður innan þess ramma að það sé eðli manns – eða hreinlega einhvers konar misskilningur. Maður á að gera sitt besta til að vera góður. En það hlýtur að gerast út frá því að manni geti … mistekist? Að kannski muni það ekki alltaf takast, kannski muni maður ekki alltaf vera góður, og það sé hægt að lifa við það – og hægt að bæta fyrir það – nema maður gangi yfir einhverja línu. Ég er ekki alltaf viss um að ég viti hvar sú lína liggur og ég veit að það er freistandi – það er beinlínis kynþokkafullt – að dansa á henni. Sá sem neitar því lifir í einhverjum öðrum heimi en ég. Lífsháski er hættulegur. Og kannski þarf maður þá bara að taka afleiðingunum af honum. *** Ofbeldisverk vinnur maður ekki bara fyrir mistök, þótt það sé stundum raunin – ekki bara fyrir kjánaskap og heimsku heldur, ekki bara vegna þess að maður var ekki að horfa, var ekki að fylgjast með sjálfum sér og hreyfingum sínum í gegnum heiminn. Maður vinnur líka ofbeldisverk vegna þess að það er eitthvað vont í manni. Okkur öllum. Eitthvað eigingjarnt – eitthvað sem vill og vill og skeytir ekki um aðra – en líka hreinlega eitthvað sem vill ekkert annað en eyðileggingu, að valda skaða. Eitthvað vont . Ég meina það ekki biblískt en ég meina það næstum biblískt. Þetta viðbragð er blessunarlega afar takmarkað í okkur flestum en ég hef enn engan hitt sem er svo góður að það sé ekkert illt í honum. *** En ofbeldi er samt sturlað. Og það er fyrst og fremst á forræði karlmanna – ég neita því ekki svo auðveldlega. Karlkyn er sameiginlegi nefnarinn. Og já maður ber meiri ábyrgð ef maður er stór – það er bara þannig. Það er ekki það sama ef Nadja kýlir mig og ef ég kýli hana (við höfum aldrei kýlt hvort annað nema kannski þegar við erum bæði í blakkáti – djók, Nadja hefur ekki farið í blakkát í 20 ár og ég rota hana aldrei nema í gríni). *** Annar sameiginlegur nefnari – næstum jafn algengur – er áfengi eða aðrir vímugjafar. *** Mig langar samt að standa vörð um ruddaskap. Um dónaskap og ósvífni. Ég veit ekki hvers vegna mér finnst það mikilvægt – ég er hrifnari af hinu beinskeytta í tilverunni. Og það sem tekur við af dónaskap og ósvífni – og þetta finnst mér þegar alveg ljóst – er passíf-agressjón og eins konar samkeppni í gæsku sem mér finnst sennilegt að verði fljótt miklu grimmari en dónaskapurinn og ósvífnin. Það er eitthvað heiðarlegt við ósvífnina – eitthvað sem gengst við sjálfu sér, við breyskleikanum, og hefur húmor fyrir honum. *** Og nei það þýðir ekki að maður megi misnota fólk og segja bara að maður hafi verið að djóka. Það var ekki það sem ég var að meina. *** Það er voða tilgangslaust að tala út um annað munnvikið um að það megi ekki skrímslavæða nauðgara (því þetta sé svo algengt, þetta sé venjulegt fólk) og að skrímslavæða þá út um hitt (þeir eigi helst ekki að vinna innanum fólk eða taka þátt í lífinu á eðlilegum forsendum og þeim sé engin vorkunn o.s.frv.). Raunar skiptir voða litlu máli hvort einhverjum finnist að það eigi eða eigi ekki að skrímslavæða nauðgara – það er alveg ljóst hvert álit samfélagsins á slíku fólki er. Og það er ekkert nýtt heldur – ég man eftir því að á Ísafirði fyrir 20 árum fór heilt ball af fílefldum karlmönnum í partí í bænum og barði strák til óbóta sem var sakaður um að hafa nauðgað stelpu fyrr um kvöldið. Mér finnst einsog slíkar barsmíðar hafi verið hluti af hinni „toxísku karlmennsku“ frá því ég man eftir mér og áreiðanlega miklu lengur. Að vernda konur – fór ekki Don Kíkóti af stað til að vernda konur? Svona ofan í þetta með vindmyllurnar. *** Og nei, þeir sem beita ekki ofbeldi eru ekki sekir um neitt og þurfa ekki að fara í sérstök átök. Við sem beitum ekki ofbeldi – að því marki sem nokkur lögráða manneskja getur haldið slíku fram – getum ekki hætt að beita ofbeldi og okkur ber ekki að taka á okkur neina hópsekt, jafnt þótt við séum svipað kynfæruð. Mér ber ekki að ala upp karlmenn sem beita ofbeldi, af þeirri einu orsök að ég er með lim sem svipar til þeirra lims. Mér ber það kannski sem faðir eða sem manneskja í samfélagi – en limur minn gerir mig ekki sekan um neitt, einn og sér. *** Og já, sennilega beita allir ofbeldi. Sennilega eru allir sekir. Og sennilega eru þeir sem eru stærri – líkamlega, hafa meiri völd, meiri peninga – almennt sekari en aðrir. *** Maóískar játningar á borð við #ihave hafa lítið að segja. Þeir sem stíga fram – þeir sem hafa stigið fram – eru fyrst og fremst þeir sem hafa lítið að játa eða eitthvað mjög gamalt. Og þá lendum við líka í klemmunni að fara að læka sjálfar játningarnar – einn kunningi minn gerði þetta í einhverju af hinum átökunum og var fyrst klappaður upp sem hetja og hugrakkur en svo níddur niður fyrir að vera kallaður hetja og hugrakkur (nánast einsog hann hefði krýnt sig sjálfur). Húrra fyrir þér, hæ-fæv og fokkaðu þér fimm sinnum alla leiðina til helvítis. *** Sennilega er þetta „vandamálið við internetið“. Það er bara kaos. *** Maður dömpar kannski ekki ofbeldislýsingum eða yfirlýsingum á fólk. Ekki án þess að hafa ærna ástæðu til. Ekki af léttúð. *** Það er að mörgu leyti auðveldara að játa það sem hefur komið fyrir mann en það sem maður hefur gert. Sögurnar sem við eigum úr seinni heimsstyrjöldinni, sem dæmi, úr helförinni, eru sögur fórnarlambanna. Þeir sem börðust í stríðinu sögðust einfaldlega ekki vilja tala um það, því stríð væri viðbjóður. Þeir sem sögðu eitthvað sögðu frá því sem þeir höfðu séð, ekki því sem þeir gerðu. Og þeir sem unnu í útrýmingarbúðunum voru kallaðir fyrir rétt og játningarnar píndar upp úr þeim. Simon Wiesenthal stofnunin biður ekki helfararforingjana að vinsamlegast stíga fram svo megi ræða glæpi þeirra án þess allrar skrímslavæðingar (því það var líka bara venjulegt fólk sem vann í Treblinka). *** Fyrir svo utan hitt að þessar sögur eru eða ættu að vera á forræði þolendanna. Myndi nokkur þolandi kæra sig um gerandinn færi að úttala sig um það sem þeim fór á milli – stjórna frásögninni – jafnt þótt það sé gert í skjóli nafnleyndar? Maður veit það sjálfur og á sína eigin útgáfu af sögunni, þar sem ekki er borið í neina bætifláka (það er réttur gerenda að koma með afsakanir, vel að merkja, maður gerir manneskju varla neitt verra en að ræna hana sinni hlið veruleikans). Og þeir rífa þá upp sár sem einhver ætlaði að láta í friði? Þess getur gerst þörf, en það hlýtur þá alltaf að vera á forræði þess sem mátti þola helvítis gjörninginn – nema kannski í allra þynnstu dæmunum. *** Ég man eftir tilfellum – sérstaklega frá því ég var yngri, blindfullur 15 og 16 ára hreinn sveinn – sem eru óafsakanleg. Man eftir því að hafa káfað á stelpu – utan á gallabuxunum – sem var að minnsta kosti jafn full og ég. Óumbeðinn, alveg upp úr þurru og var ýtt burt. Og ég man eftir einhverju fleiru og flest af því er óljóst og í áfengismóðu og ég treysti mér ekki til að fara rétt með. Ég hef beðið konur afsökunar, ég hef spurt hvort ég hafi gengið yfir mörk, hvað gerðist eiginlega og fengið svarið: nei, ég held ekki, ég man það ekki. Ég man ekki til þess að ég hafi verið spurður að slíku sjálfur. *** Ég hugsaði um öll börnin og unglingana á Facebook. Hvað um börnin! hugsaði ég. Ætlar enginn að hugsa um börnin?!! Alla taugaveiklunina sem hlýtur að grípa um sig. Ef mér líður svona af þessu, ef ég fæ æluna upp í kok fimm sinnum á dag – að vera af þessu kyni, að vera fastur í þessu kyni, sekur vegna tengsla ef ekki annars (sennilega líka annars, ég trúi því ekki að neinn sé saklaus, ekki heldur konurnar) – í holskeflu af ofbeldislýsingum, hvernig líður þeim þá? Ef maður vill ræða um aukinn kvíða hjá ungu fólki sem hangir í símanum allan daginn hlýtur maður að vilja athuga hvað þau eru að skoða – og það er ekki bara klám, mörg þeirra horfa aldrei á klám og líður samt illa. Ef einhver tæki börn – eða þessa yngri unglingar sem eru þó á Facebook – afsíðis og færi að messa ofan í þau kynferðisofbeldislýsingar (sem voru margar grófar í mínu fréttaflæði) yrði maður sennilega stoppaður af. Bíómyndir af þessu tagi eru bannaðar innan sextán. *** En mér finnst reyndar alveg ástæðulaust að vanmeta börn. Þau hantera það sem þau á annað borð skilja alveg áreiðanlega betur en margir. *** Ég geri nú ekki annað en að vera í mótsögn við sjálfan mig hérna. Jæja. *** Og mér ofbauð fórnarlambsnarsissisminn. Og mig langaði ekki að taka þátt í honum (ég er að taka þátt í honum). Mig langaði að það væri eitthvað stærra, einhver gjörð sem snerist ekki um sjálfið, ekki um persónulega vitundarvakningu, ekki um mig – af því ég held að sjálfhverfan sé alveg næg (ekki bara mín, heldur samfélagsins), hún er kannski að kæfa samfélagið. Og það er eitthvað sikk við að fara um internetið lækandi sögur af tráma. Hæ-fæva fólk sem er að segja frá ofbeldinu sem það hefur orðið fyrir. Það er kannski ágætt ef þú getur það en ég get það ekki. *** Og sennilega er mér engin vorkunn. *** Hvað varðar listaverkin – myndir Weinsteins eða annað – þá eru góð listaverk (þau sem eiga nafnbótina skilið) þess eðlis að þau hefja sig yfir einstaklingana sem gera þau. Þau eru flóknari og stærri og merking þeirra einfaldlega ekki auðráðin – ávöxtur þeirra vex hjá okkur sjálfum. Þess vegna er alltílagi að lesa Ezra Pound, Knut Hamsun og FT Marinetti þótt þeir hafi verið card carrying fasistar (og í tilfelli Hamsun a.m.k., ef mér skjöplast ekki, óttalegur kvenníðingur). Vond listaverk eru svo hryllingur, sérstaklega ef málstaðurinn er réttur – þau draga ekki bara úr mennsku manns, heldur úr gildi listarinnar og málstaðarins. *** Og kannski finnst mér, innst inni, að það sé ekki hægt að gera þá kröfu að maður komist í gegnum lífið án þess að verða fyrir neinu ofbeldi. Mér finnst einsog í kröfunni sé fólgin hugmynd um að allt verði beislað niður – það taki enginn áhættu, sýni enginn ósvífni – heldur fari maður um í kæfandi björgunarvesti hvers hlutverk er ekki síst að minna mann viðstöðulaust á að maður er í hættu á að drukkna. Og þá þarf maður kvíðastillandi og þunglyndislyf til að komast í gegnum daginn. Eða þarna litlu brennivínsflöskurnar. *** Og já, virðing fyrir hugrekkinu. Fyrir að bregðast við af þunga þegar maður telur nauðsyn til. Virðing fyrir samstöðunni (þótt hún hafi ekki náð til karla). Og vonandi – sennilega – verður þetta til þess að eitthvað breytist (þótt við verðum aldrei örugg og þurfum líka að kunna trappa niður trámað og óttann). *** Nú ætla ég að fara aftur að hugsa um AC/DC, byggðamál og bókmenntir.

Untitled

Grænmetisætan er farin úr bænum og því ætla ég að borða lambakjöt alla daga þar til hún kemur aftur. Eða allavega eitthvað kjöt. Búinn að lofa sjálfum mér köfte og hugsanlega kebab og í kvöld verður eldað upp úr blogginu hennar Nönnu – hakk og halloumi . Svo langar mig í eitthvað langeldað marokkóskt. Við erum bara tveir í kotinu, feðgarnir, en ég slepp samt sennilega ekki við að gera pizzu á morgun. Lambapizza? Það verður allavega kjöt á minni. *** Annars ekkert að frétta. Kláraði Veisla í greninu eftir Juan Pablo Villalobos – það verður eitthvað um hana á Starafugli fljótlega. Var líka hafarí bakvið tjöldin á fuglinum í dag, meiðyrði, kæruhótanir, fjölmiðlar, andaskytterí, you name it. Það er ólíkt meiri hasar í ritstjórahluta lífs míns en rithöfundahluta lífs míns. Eða allavega ólíkt meira hrópandi hasar. Hans Blær (skáldsagan) er á góðum rekspöl og ef fer sem horfir akkúrat núna kemur hún næsta haust. Hans Blær (leikritið) verður frumsýnt strax í byrjun mars, held ég. En þetta fer nú líka eftir því hvernig ýmislegt annað spilast.

Untitled

Október. Það er október sem er grimmasti mánuðurinn. Það er ekkert helvítis grillveður, bara kalt og dimmt og trámun berast manni í hlössum, svo mann verkjar í hnén, verkjar í hnakkann, verkjar í gagnaugun og drekann og megnar ekki að fara á fætur á morgnana. Af því allt er svo ógeðslega ömurlegt. Allir eru sturlaðir af ofbeldisþrá og almennri frekju eða á stjórnlausu narsissistafylleríi í hamstrahjólinu. Skriftir og syndajátningar eru orðnar að einhvers konar skylduperformans – sama vitundarvakningin endurtekur sig í sífellu og alltaf er einn eða tveir sem er ennþá hissa, einn eða tveir sem heldur að það séu einhverjir ósnertir af heiminum, einhverjir saklausir, en nei, það er enginn ósnertur og enginn saklaus. *** Ég skal reyna að vera í betra skapi á morgun samt.