Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Rango. Vestra um samnefnt gælukameljón sem villist í villta vestrinu og lendir í smábæ sem er undir hælnum á illmennum. Einsog gefur að skilja er Rango reyndar nafnlaus einsog allar alvöru vestrahetjur – hann velur sér nafnið Rango af skilti. Rango er hugleysingi en góður leikari og tekst að sannfæra alla um að hann sé mikill byssufantur – klaufast svo til þess að drepa hauk sem ofsækir bæjarbúa og er gerður að skerfara. En bæjarstjórinn hefur sölsað undir sig allt vatn bæjarins og bæjarbúar eru bókstaflega að drepast úr þorsta. Nú þarf Rango að taka á honum stóra sínum – en auðvitað ekki fyrren hann verður fyrst vonlaus um eigin getu, rekst á „anda vestursins“ og fær sjálfstraustið aftur og klaufast enn á ný til þess að bjarga öllu. Það er áhugavert hvernig það er aldrei sá hæfasti í barnabókum sem bjargar málunum, heldur sá hugprúði, klaufalegi, indæli sem sveiflast milli góðlegs mikilmennskubrjálæðis og eyðileggjandi minnimáttarkenndar. Og hann bjargar yfirleitt ekki málunum með hæfni sinni – sem er ekki til staðar – heldur hugrekki sínu. Að láta bara vaða, reyna, gera sitt besta. Og aldrei aðstoðarlaust, vel að merkja, heldur með því að blása hinum í brjóst sams konar fífldirfsku. Í myndinni er líka einhvers konar umhverfisádeila og kapítalísk ádeila. Hvorugt er óalgengt í barnaefni – og stórmerkilegt raunar hversu mikil kapítalísk ádeila kemur úr Hollywood almennt. Ég man varla til þess að hafa séð kaupsýslumann í bíómynd sem var ekki fyrst og fremst einhvers konar illmenni. Ekki ætla ég að verja kaupsýslumenn eða kapítalismann en það segir manni eitthvað að kapítalisminn skuli framleiða áróður gegn sjálfum sér – og maður verður alveg svolítið nojaður af því. *** Ég las Kviku eftir Þóru Hjörleifsdóttur. Þetta er mjög stutt bók og skrifuð í stuttum einföldum mónólógum. Hún fjallar um stelpu sem byrjar með strák. Strákurinn er manipúlerandi kúgari og stelpan svona týpa sem vill að öllum líki vel við sig og setur því engum mörk í samskiptum. Eða í það minnsta ekki honum. Hann notar þetta til að ganga sífellt lengra og lengra – heldur framhjá og kennir henni um það, pissar á hana, tekur hana óviljuga í rassinn og svo framvegis og svo framvegis. Söguröddin er rosalega ung – eða naív. Það skapar ákveðinn ugg. Manni finnst einsog stelpan muni aldrei segja stopp. Ég man ekki hvort það kemur fram hvað þau eiga að vera gömul í bókinni en mér finnst oft einsog þau séu 15 ára – þótt þau séu líklegri til að vera 25. Ég man eftir svona tilfinningum sem unglingur – bæði þessari ofsalegu löngun til að þóknast og þessari fórngjörnu ást en líka þessari rosalegu löngun til þess að stýra og láta elska sig (ég held að svona skíthælahegðun sé oft það – fólk að láta reyna á ást hins, láta hinn aðilann sanna ást sína með að þola viðbjóðinn). Bókin er svolítið „ritlistarleg“ – einsog margar bækur síðustu árin. Ég kann ekki að greina það betur, eða hef ekki lagt mig í það, en það er einhver svona tónn – og tilfinning fyrir því að hlutirnir hafi verið „hugsaðir til enda“. Að jafnaði er það talið gott en ég er alls ekki sérstaklega hrifinn af því. Það vantar tilraunina og óvissuna. Ég er nánast að kalla eftir því að bækur séu verr skrifaðar, eins undarlega og það nú hljómar, það sé meiri tensjón í sjálfri hugsuninni. Ég hugsaði svolítið um feminískt raunsæi vs. sósíal raunsæi. Það er hættulegt að greina þannig eigin tíma í bókmenntum en mér finnst einsog við lifum á tímum feminísks raunsæis. Efnistök og boðskapur femínismans eru mikilvæg og stíllinn á ekki að vera fullyrðandi eða debaterandi heldur presenterandi – reynslan er í forgrunni, reynsluheimar. Eitthvað sem hefur raunverulega gerst eða gæti raunverulega gerst eða er raunverulega að gerast – og presentasjón af tilteknum pólitískum veruleika þar sem X er undirokaður og Y undirokar. Ekki beinlínis greining á valdi – og raunar alls ekki – heldur sýning á valdi. Þannig er Aftur & aftur eftir Halldór Armand, sem er önnur bók sem ég las í vikunni, alveg úti á túni. Hún er af Bret Easton Ellis / Douglas Coupland / David Foster Wallace skólanum. Mikil samtímagreining, miklar tíðarandaveiðar, langlokur um tækni og framtíð. Samt er hún reyndar ekkert úti á túni og rekst raunar alls ekkert á Kvikuheiminn – það er meira einsog þessar strákabókmenntir eigi sér stað á annarri tímalínu. Bergur Ebbi er þarna líka. Dagur Hjartar og Jónas Reynir eiga snertipunkta þarna inn en ekki jafn afgerandi. Aftur og aftur fjallar um ungan strák sem lendir í því að verða forstjóri startöppfyrirtækis, nánast bara af því eigandanum finnst hann eitthvað svo töff. Og hún fjallar líka um eigandann – fyrrum trommuleikara í sveitaballabandi sem svo fer að smygla dópi en verður loks farsæll kaupsýslumaður. Báðir eru forréttindamenn – sá ungi er ráðherrasonur og sá eldri sonur útrásarvíkings sem lendir í fangelsi. Ég las Kviku í striklotu á ströndinni í Útila meðan krakkarnir voru að snorkla og byrjaði svo á Aftur & aftur strax og ég kom heim og ég man að mér fannst fyrst einsog ég væri núna kominn inn í hausinn á stráknum í Kviku. Strákahaus sem er fyrst og fremst nógu upptekinn af sjálfum sér og því nýjasta sem ber fyrir augu til þess að eiga gríðarstóra blinda bletti (ég er að tala um söguhetjuna, vel að merkja, ekki höfundinn). Einsog hann hafi raunverulega engan áhuga á líðan einstaklinganna í kringum sig (en þeim mun meiri á stóru sögunni, samfélagslíðaninni). Enda lendir söguhetjan í því í tvígang að vera sagt upp af kærustum sem hann virkar annars frekar áhugalaus um – og það kemur honum gersamlega í opna skjöldu og hann verður mjög leiður. Þessi hugdetta entist ekki mjög langt inn í bókina – til þess eru þeir of ólíkir karakterar – en samt eitthvað. Reyndar eru karakterarnir tveir í Aftur & aftur nógu líkir í hugsun til að vera næstum sami maðurinn á ólíkum lífsskeiðum. Það vantaði talsvert upp á að aðskilja raddir þeirra – ef það var á annað borð ætlunin. Báðar þessar bækur eru reyndar brjálæðislega áhugaverðar, vel skrifaðar og vel hugsaðar. Ég veit ekki hvort það var bara einhver gremja í mér, þreyta eða annað, en þær náðu mér samt ekki og ég var sífellt að þræta eitthvað við þær og höfunda þeirra í huganum á meðan á lestrinum stóð. „Nei, kommon!“ sagði ég kannski við sjálfan mig inn á milli. Eitthvað þannig. Ég náttúrulega henti frá mér A Tale of Two Cities í pirringi í síðustu viku svo ég er kannski bara ekki í fíling þessa dagana. En svo er það kannski líka einkenni á bókum sem eitthvað er varið í að maður hugsar talsvert um þær eftirá. Ég er enn að melta þessar báðar. Við sjáum bara hvað setur. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins gleymdi sér í gær. Aðra vikuna í röð. Horfum kannski á eitthvað á morgun (erum að gera annað í kvöld). *** Þriðja bókin sem ég las þessa vikuna var Eitur fyrir byrjendur. Sem ég skrifaði sem sagt sjálfur og kom út fyrir 13 árum. Bókin sem ég var að klára og guð veit hvenær kemur út er (mjög sjálfstætt) framhald af henni og ég hafði ekki lesið hana síðan árið 2010. Þá kom hún út á sænsku og ég las hana í rútu á leiðinni á Littfest í Umeå svo ég væri fær um að svara spurningum upp úr henni. Þetta er eina bókin mín sem ég hef lesið í heild sinni eftir að hún hefur komið út og nú hef ég lesið hana tvisvar. Reynslan af að lesa hana í rútunni 2010 var mjög spes. Mér fannst þetta mjög langur tími – fjögur ár – og hún rifjaði upp alls konar. Það eru senur í henni sem áttu sér stað í raunveruleikanum – áreksturinn fyrir utan Bókabúð Máls og menningar til dæmis, og strákurinn sem rífst dauðadrukkinn við hjásvæfu sína á Lækjartorgi var ég sjálfur og svo framvegis. En það var ýmislegt fleira smálegt sem var skrítið að lesa. Díteilar. Omeletta me tiri – til dæmis – einföld fetaostomeletta sem ég var vanur að gera en hafði gleymt. Siggi Gunnars vinur minn, sagnfræðingur og ljósmyndari frá Ísafirði, sagði mér einu sinni að hann hefði haldið dagbók sem barn og í hana hefði hann skráð mjög hversdagslega hluti. Til dæmis að hann hefði borðað seríos í morgunmat og farið í skólann og svo ekkert meira. En hann sagði að það væri ótrúlegt hvað þessir hversdagslegu hlutir gætu framkallað miklar og sérstakar minningar – það var einsog dagarnir lifnuðu við og skyndilega mundi hann þá einsog þeir hefðu gerst í gær. Það var svipað að lesa Eitrið þarna 2010 – omeletturnar og árekstrarnir tendruðu öll ljós í minninginum mínum frá sirka 2003-2006, sem eru sirka skemmtilegustu í nýhilfélagsskapnum, óreglu og ást og kaosi og kærleika. Það var minna af svoleiðis núna og miklu minni nautn í lestrinum. Ég er búinn að vera á leiðinni að byrja á henni lengi en hef verið viðkvæmur fyrir textanum – vandræðalegur yfir honum og vildi að hún væri öll einhvern veginn öðruvísi. Það rann af mér á meðan ég las hana en kaflarnir eru sannarlega misgóðir og ég hafði augljóslega ekki nægan tíma til að skrifa hana – þetta er allt skrifað á kvöldin eftir vinnu á Bæjarins besta eða þegar ég var næturvörður á Hótel Ísafirði. Hins vegar kveikti ég á alls konar hlutum sem ég gerði ekki 2010. Til dæmis því að það eru allir með heimasíma og það er enginn með snjallsíma – fólk er að sms-a hvert annað til að láta vita hvar megi finna Noah Wyle og söngvarann í Darkness. Þá er alls staðar reykt inni – t.d. á Mokka. Fólki er fundið til foráttu að nenna aldrei að mynda sér skoðanir á neinu (ha ha ha!), það þykir skrítið að strákur sé að læra kynjafræði og svo framvegis. Alltíeinu er bókin orðin bók um fortíðina. Og þá kannski ekki seinna vænna að gera framhald. *** Við Aino lékum Monument Valley II á iPhoninum mínum. Fyrir fjórum árum lékum við Aram einmitt fyrri leikinn þegar við bjuggum í Víetnam. Ég er ekki mikill tölvuleikjakall lengur – þótt ég hafi mikið leikið alls konar leiki á unglingsárunum. Monument Valley er völundarhúsaleikur sem reynir á rýmisskynjunina og er afskaplega fallegur. Það er varla hægt að segja að það sé mikill munur á I og II. En þeir eru skemmtilegir og gaman að leika þá saman og síðast en ekki síst eru þeir voða fallegir. *** Gítarleikarar vikunnar eru tveir. Keb Mo’ og Taj Mahal. Þetta lag er líka alveg frábært.
Author: Eiríkur Örn Norðdahl
createdTimestamp““:““2024-06-05T14:07:12.220Z““
createdTimestamp““:““2024-12-04T15:41:59.553Z““
Það er búið að aflétta hömlum á bólusetta að mestu leyti – bæði á landamærum Svíþjóðar og Danmerkur og ytri landamærum Íslands. Sem þýðir að Nadja og börnin komast vandræðalítið með ferjunni frá Gautaborg til Fredrikshavn og inn í Ísland. Ég aftur á móti fæ ekki bólusetningu í þessu jävla satans rassgati – aðallega af því íslenska og sænska kerfið tala ekkert saman, þetta er eins konar samstarf í því að vera ósammála og sýna enga samstöðu – og þarf að bóka (dýrt) PCR-próf í Gautaborg fyrir brottför úr landi, sem ætti svo að duga mér til að komast um borð í Norrænu í Hirtshals. Þar verð ég aftur prófaður strax og ég kem um borð – af einhverjum orsökum þarf maður að borga fyrir það próf, þótt PCR-próf séu annars ókeypis í Danmörku (skilst mér). Það er nokkur bót í máli að sóttkví hefst í raun strax og ég kem um borð – og ég er frjáls til að fara um allt og sleikja allt og alla einsog mér sýnist meðan ég er ebb í bátnum. Sem er tvær nætur. Ég þarf svo væntanlega að sitja í þrjár aukanætur á hóteli á Egilsstöðum og þá má ég ekki svo mikið sem anda á aðra. Og Nadja og krakkarnir verða þá annað hvort að bíða eftir mér eða halda áfram án mín. Þessu fylgir nokkur existensíalískur leiði. Það eru allir svo glaðir og kátir að vera sloppnir úr þessum covid-höfuðverk. Nema ég! Mér líður svolítið einsog ég hafi verið valinn síðastur í liðið eftir að hafa eytt ári í að bíða eftir leiknum. Geggjað spenntur og er svo sagt að vegna ytri aðstæðna þurfi ég að sitja á bekknum allan tímann. En ég fái að vera í búning á meðan. Þetta er svolítið antíklímax. Til þess að PCR-testið mitt dugi mér bæði yfir dönsku landamærin og upp í ferjuna sólarhring síðar þarf ég að taka það sennilega 31. júlí – af því við komum seint til Gautaborgar 1. ágúst (ekki tími til að taka prófið þar og bíða) og förum svo yfir til Danmerkur morguninn eftir. Morguninn 3. ágúst er ég þá á mörkunum með að PCR-testið sé enn gilt. Annar möguleiki er að keyra eldsnemma til Gautaborgar og taka rándýrt (50 þúsund vs. 25-30 þúsund) PCR-test og fá niðurstöðurnar á fjórum tímum. Nei, sennilega myndi mér duga 12 tíma opsjón. Ég efast um að þessu verði aflétt áður en ég fer heim (3. ágúst) – þótt það gæti svo sem gerst. Það eru svo fáir sem þurfa (eða velja) að ferðast óbólusettir – og hreinlega verða sennilega mjög fáir evrópubúar óbólusettir í ágúst. Sem aftur þýðir að þrýstingurinn er enginn – óþægindin lenda á svo fáum. Og taugaveiklunin er og verður í yfirgír næstu misserin. Þess utan hefur þetta þau (að sumum finnst æskilegu) aukaverkun að hefta för þriðja heims skrílsins – mörkin milli „okkar“ og „þeirra“ verða skarpari. Ég tala nú ekki um ef bólusetningarleysið þar fer að verða til þess að önnur og verri afbrigði vírussins dúkki upp hjá „okkur“ næstu misserin. En ég er líka nógu svartsýnn til að hluti af mér telur að það sé allt eins líklegt að það verði öllu skellt aftur í lás áður en við komumst heim. Smá Delta, smá Gamma, smá Epsilon – ruggi báturinn verður sennilega ekkert hikað. Það myndi nú varla duga til að halda okkur úti en það gæti gert heimferðina erfiðari og dýrari. En það er nú ekki líklegt. Held ég. Vona ég. Það er það áreiðanlega ekki. Svo þarf ég náttúrulega ekki annað en að mælast jákvæður til að vera fastur í nokkrar vikur í viðbót. En herregud hvað ég hlakka til að koma heim. Ég er alltof heimakær á fullorðinsárum fyrir svona langa útvist. Þegar ég var yngri vildi ég helst alltaf vera á ferðalagi – og svo sem kann ég ágætlega við það ennþá. En það er annar móður líka, að vera einn og ábyrgðarlaus, annar handleggur. *** Ég er búinn að lesa inn alla Gæsku fyrir Storytel. Nú erum við að ræða næstu skref. Hugsjónadruslan er líklegust. Annars er Studio Västerås liðið komið í sumarfrí og ég verð farinn þegar þeir koma aftur. En Gæska ætti sem sagt að detta inn einhvern tíma fljótlega. *** Peps Persson lést í gærmorgun. Ég hef fjallað um hann á blúsblogginu . Af því tilefni er Blues på Svenska plata vikunnar.
createdTimestamp““:““2024-05-25T00:43:29.359Z““
Stundum set ég bara á Lights með Journey og læt mér líða vel. Sennilega hófst þetta eftir hafnaboltaleikinn í SF í sumar. *** Með fullri virðingu fyrir íslenskum kollegum mínum finnst mér þetta jólabókaflóð einkennast af góðum þýðingum. Sennilega eru frumsömdu verkin ekkert verri en venjulega, heldur meira að koma út af góðum þýðingum – bæði á samtímaverkum og klassík – en maður á að venjast. Ég hef ekki talið það saman, þetta er „tilfinning“. *** Angústúra er með tvær bækur – Veisluna í greninu eftir Villalobos, sem ég skrifaði um fyrir Starafugl, og Einu sinni var í austri eftir Xialou Guo. Ugla gefur út Ethan Frome eftir Edith Wharton og Mrs. Dalloway eftir Virginiu Woolf, auk Sagna frá Rússlandi – með smásögum allra helstu „meistaranna“. Opna gefur út Orlandó sama höfundar – ég byrjaði á henni í gær, hef beðið lengi eftir þýðingunni, og held mikið upp á orginalinn. Benedikt er með Orðspor Juan Gabriel Vasquez (sem ég las og er frábær), Sögu af hjónabandi eftir Gulliksen, Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström og Norrænar goðsagnir Neils Gaiman. Sæmundur er með Predikarastelpu Tapios Koivukari, Neonbiblíuna eftir Kennedy-Toole og Kalak eftir Kim Leine, auk ljóða Knuts Ødegårds. Bjartur með Grænmetisætu Han Kang, Allt sem ég man ekki eftir Khemiri og Hnotskurn Ians McEwans, auk annars bindis í Smásögum heimsins og lokabindisins í Napolífjórleik Ferrante. Dimma með Sólsetursvatn Léveille, Síðasta úlf Krasznahorkais , Pnín Nabokovs og Konu frá öðru landi eftir Sergej Dovlatov, auk ljóða Ko Uns og Christine De Luca og Birtuna yfir ánni , ljóðaþýðingar Gyrðis. Skrudda með Faðir Goriot eftir Balzac. Salka með Rútuna eftir Almeida. LaFleur, sem ég hélt að væri ekki til lengur, er með þrjár nóvellur eftir Soffíu Tolstaya, eiginkonu Tolstojs (sem er skráður meðhöfundur í bókatíðindum). Forlagið er með Ugg og andstyggð eftir Hunter S. Thompson og ljóðaþýðingar Kristjáns Árnasonar. *** Þetta er svona það sem fljótt á litið telst til fagurbókmennta í þýðingaflóðinu. Vantar reyndar útgefin verk Sagarana, sem eru ekki í bókatíðindum – þar er allavega ein ljóðabók og bæklingur með upphafi Baráttu minnar eftir Knausgård. *** Heldur finnst mér hlutur míns góða forlags, Forlagsins (með ákveðnum greini og stórum staf!), lítill í þessari útgerð. Svona miðað við að það á að heita stærsta og stöndugasta forlagið. Hálfdrættingur á við nýstofnaðan Benedikt – rétt jafnar enn nýstofnaðri Angústúru. Öll forlagsmaskínan er einsog tveir Benedikt LaFleur (hvað hann myndi segja um þá talnaspeki er svo önnur Ella). *** Starafugl hefur náð að skrifa um furðu mikið þarna og sennilega ástæða til að reyna að gera enn betur. Það gæti verið efni í nýtt átak eftir áramótin. Ef það verður ekki búið að gera út af við alla gagnrýnendurnar okkar. Það birtist aldrei svo neikvæður dómur að hann fái ekki svo neikvæð viðbrögð að gagnrýnandinn endurskoði stöðu sína í samfélagi gagnrýnenda – og þar sem margir gagnrýnendur Starafugls eru nýir heltast þeir einfaldlega úr lestinni. Tvisvar á síðustu vikum hafa mér borist skilaboðin: „Ég er hættur að gagnrýna“ (og jafn oft: „Ég get ekki skrifað um þetta verk því ég hef ekkert jákvætt að segja“). Jákvæðni er skilyrðislausa skylduboð samtímans. Að vera kurteis og góður. Og alls ekki flippaður eða einlægur eða spontant. *** Að gefast upp á að gagnrýna vegna mótlætis er reyndar líka tímanna tákn. Það eru allir einhvern veginn of shell-shocked til þess að takast á við álag. Þetta fólk þyrfti að hlusta meira á Journey. ***
createdTimestamp““:““2024-05-19T11:58:23.397Z““
id““:““fer5g““
Í dag er Finnland 100 ára. Það eru 20 ár frá því Slim Shady EP kom út og Johnny Halliday er látinn. Og hér er ég bara að hlusta á Buddy Guy, dilla mér, og hengja upp skáldsöguskema á vegginn. *** *** Ljóðið er eftir Pentti Saarikoski úr bókinni Hvað er að gerast? (Mitä tapahtuu todella?) frá 1962. Þýtt úr dönsku upp úr safninu Den gale mands hest og andre digte, þar sem tekin eru saman ljóð Penttis Saarikoski í þýðingu Hilkku og Bents Søndergaard. Með finnskuna til hliðsjónar. Bls. 37. *** *** Trigger warning: Það er nauðgunarathugasemd í laginu hér að ofan. *** *** Ég veit ekkert hvað Johnny er að syngja um. En hann er voða sætur. *** Skema. #hansblær A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Dec 6, 2017 at 7:52am PST //platform.instagram.com/en_US/embeds.js
createdTimestamp““:““2024-06-10T14:32:31.324Z““
Ég er alltaf að reyna að hafa þetta stutt. Það hefur gengið fremur illa. Það hljóta að vera til einhver lyf við þessari munnræpu. Það er aðallega vegna þess að ég skammast mín gagnvart ykkur samt – hver er ég að láta einsog off-the-cuff vangaveltur mínar um eitt eða neitt komi einhverjum við nema sjálfum mér? Af hverju er þetta ekki bara lokuð dagbók? Nú eða svolítið hamin dagbók til lesturs fyrir aðra? Ég er ekki einu sinni byrjaður. Samt eru komnar margar setningar. Hvaðan komu þessar setningar? Ég er í Münster. Þessar setningar voru ekki hérna þegar ég kom. *** Ég sá sinfóníuna spila. Tvisvar. Meðal annars hluta úr Pétri Gauti og 5. sinfóníu Sibelíusar – en líka söngverk og alls konar. Þau mættu og spiluðu tvo ókeypis tónleika í íþróttahúsinu á Ísafirði, einsog þau hafa gert af og til – síðast fyrir 2-3 árum. Hugmyndin er held ég að fyrst við höfum annars ekki aðgengi að henni getum við fengið að sjá hana frítt þá sjaldan það aðgengi batnar. Annars veit ég ekki hver pælingin er en það gleður mig mjög mikið, hver sem hún er, ekki bara vegna þess að þá fæ ég frítt heldur getur alls konar fólk sem annars hefur ekki efni á miklu farið á fína tónleika. Einleikarar voru þrír – þar af tveir frá Ísafirði, Mikolaj Ólafur, ungur píanóleikari sem er að gera það gott, og Dísa Jónasar, óperudívan okkar. Bæði eru þau tónlistarkennarabörn – Dísa reyndar dóttir tónlistarskólastjórans að auki, og tónskálds. Þriðji einleikarinn lék á horn. Þau voru öll rosaleg en Dísa kannski rosalegust, með ofsalegt kontról ekki bara á tónlistinni heldur líka sviðsframkomu og hreinlega útgeislun. Þó samanburðurinn endi þar er ekki úr vegi að líkja henni við Mugison þannig – maður einhvern veginn fellur ofan í eitthvað tónlistarhol með þeim og finnst nánast einsog það sé enginn annar í heiminum rétt á meðan. Sinfónían er heldur engu lík og Daníel Bjarnason stjórnar henni vel (segi ég, einsog ég hafi eitthvað vit á því – en ég gat sem sagt ekki betur séð). Ef ég ætti að koma með eina aðfinnslu þá væri hún að sveitin – sem var ábyggilega klöppuð upp í fjórgang – myndi fá sér nýtt uppklappslag (það var Á Sprengisandi, einsog síðast). Daginn eftir voru svo aftur tónleikar um morguninn og einleikarar voru aftur tveir heimamenn. Þórunn Arna og Pétur Ernir, léku og sungu ýmis lög sem tengjast verkum Astridar Lindgren. Aftur var stappfullt upp í rjáfur og aftur ókeypis inn – það var starfsdagur í skólunum en það var reyndar alls ekki þannig að allir áheyrendur væru börn. Þetta var ekki minna skemmtilegt. Ég þurfti að vísu að pína litla rokkarann minn með – á þeirri forsendu að þetta væri mikilvægur hluti tónlistaruppeldisins – en hann hafði gaman af þessu þegar hann var kominn og nánast skammaðist sín fyrir hvað áhuginn var mikill. Aino Magnea hins vegar raulaði með öllum lögunum á sænsku, einsog hún gerir annars aðallega þegar hún er ein með sony-spilarann sinn. Allir fá fimm stjörnur og Dísa fær fimm stjörnur plús. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins fór á Hvítan, hvítan dag. Ég er enn að melta hana. Hún er mjög, mjög góð – eitthvað í söguþræðinum var kannski full melódramatískt, hún var alltaf á grensunni. Jón Kalman (og Gyrðir) fá þakkir í henni og það leynir sér ekkert að leikstjórinn er Kalmansmaður – tilfinningarnar eru stórar og óhamdar. Hins vegar örlar ekki á þeirri exótíseringu sem plagar margar bíómyndir sem gerast á landsbyggðinni. Þótt Hlynur, leikstjórinn, sé dreifari þá eru þeir nú oft bara í sjálfs-exótíseringu. Vald Hlyns á myndmiðlinum er eiginlega alveg absúrd gott – hann t.d. klárar bara Íslandsfetisjismann á fyrstu tveimur mínútunum, dregur hann niður á jörðina, og þar með út úr hinni narratífsku þróun – landslagið er ekki látið bera stígandina í myndinni heldur fær sagan að vaxa sjálf, án þess að það þurfi að færa myndina inn í hús. Bara svona smáatriði einsog að malbikið í vegasenunni í upphafi sé allt stagbætt – þá fattaði ég alltíeinu að svona líta íslenskir vegir út, sennilega hafa leikstjórar jafnan valið stílhreinna malbik til að filma. Og þótt myndin sé melódramatísk þá gælir hún líka við módernismann og jafnvel tilraunamyndir. *** Ég hef ekkert lesið nema stök ljóð á stangli. Að vísu heilan helling af þeim en enga bók klárað. Svona er skrifstofulífið á mér oft. Ljóð eru frábær – þau fá öll fimm stjörnur. *** Casa de Papel fyrsta sería. Ég held að þetta sé ekki gott. Ég held að leikararnir séu flestir frekar lélegir og söguþráðurinn einsog hann sé skrifaður jafn óðum af sex ára barni (og svo … og svo … svo bara var prófessorinn búinn að sjá þetta fyrir og það er sko risastór BROWNING … og þau SKJÓTA ALLT Í KLESSU). En þetta er á spænsku, svo hver veit, þetta virkar alltaf svolítið líka einsog Almódovar, mjög kúltúrelt og svona. Stephen King fílar þetta í botn og ég fíla Stephen King – eða er allavega með stóran soft spot fyrir honum – og Twitter logar af meðmælum og Facebook logar af meðmælum og Nadja mælti með þessu. Að vísu er þetta allt mjög spennandi. Ég horfði rólega á fyrstu seríu, hámaði í mig síðustu þættina og er langt kominn með aðra seríu núna. Svo kannski verður endurmat að viku. *** Ég seldi bassaleikaranum í Hjaltalín, Guðmundi Óskari, telecasterinn minn á Reykjavíkurflugvelli og keypti mér svo stratocaster þegar ég kom til Münster – eða í næsta bæ, Ibbenbüren, þar sem er afar vegleg hljóðfæraverslun. Af því tilefni er meistari stratocastersins gítarleikari vikunnar – frá tónleikum í varaheimalandi mínu, Svíþjóð.
indentation““:0}}
My new novel, Einlægur Önd (literally „Sincere Duck“ – but for now called „Earnest“ in English) is out in Icelandic in a few weeks. Eirikur Orn could not, with all his infamous writerly prowess, have imagined a worse fate for himself. Not in his deepest bouts of self-pity. For if there was one thing in the world that Eirikur hated more than being penniless, alone and disgraced then it was being penniless, alone and disgraced in Reykjavik, that pathetic slush-drenched clump of houses, whose image now assaulted him through three, large living room windows… When Eirikur Orn Norddahl, the story’s main character, accepts a teaching job in creative writing for a foreign corporation, his decision is met with protest through an anonymous threat. And now he has burned all his bridges through his writing and public behavior. To escape reality he sinks into his work, the story of Felix Ibaka from the fictional country of Arbitrea, where the natives punish one another by throwing bricks at people. In Earnest Eirikur Orn Norddahl works at the threshold of fiction and reality to discuss repudiation, punishment and forgiveness. For more info „call my agent“: Forlagið Rights Agency .
id““:““oy3x510214″“
„Embracing melancholy through nordic poetry“. Bloggkerfið mitt, einsog allt annað sem birtist á tölvuskjánum mínum, er mjög áfram um að sannfæra mig um að nota gervigreind til þess að hjálpa mér að semja færslur. Og stakk sem sagt upp á þessu – að ég knúsi sorgmæðina í gegnum norræna ljóðlist. Eða fjalli um þá meintu knúsun sorgmæðarinnar. Kannski í tilefni þeirra tíðinda að Ursula Andkjær Olsen sé á leiðinni til landsins – bæði á líkamlegu formi, sem gestur á viðburðaröð Fríðu Ísberg og Brynju Hjálmsdóttur, og ljóðrænu formi á útgefinni bók. Ég er ekki búinn að panta mér bók (aðallega af því mér finnst svo leiðinlegt að fara inn á banka-appið mitt) en mér heyrist að gervigreindin sé búin að því. Ég ætla ekki að fjalla um neina knúsun. *** Í kvöld ætla ég að flytja ávarp við kertafleytingu til minningar um kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hírósíma og Nagasakí. Það verður kl. 22.30 í Suðurtanga. Á sama tíma í gær var ég að lesa upp á Act Alone á Suðureyri. Annað hvort eru svona viðburðir farnir að verða seinna og seinna á kvöldin eða ég bara orðinn svona gamall. Síðast þegar ég kom fram á Act Alone – þá var ég tíu árum yngri – steig ég reyndar ekki á svið fyrren á miðnætti, svo kannski er þetta alltaf fyrr og fyrr. En í gær fór ég samt bara heim að sofa þegar ég var búinn. *** Talandi um melankólíu í norrænni ljóðlist fékk ég sennilega hugmynd að ljóði í morgun sem gæti lokað næstu ljóðabók. Ég þarf að skoða það betur, kannski er þetta eitthvað ofmat, og kannski verður ekkert úr þessu ljóði – hugmyndin er pínu óljós, sem er reyndar ekkert verra. Allt sagt án ábyrgðar og auðvitað á maður helst ekki að hafa orð á svona hlutum. Ég er reyndar ekkert viss um að þetta verði melankólískt ljóð. Það er ekki útilokað en alls ekki víst. En ég kemst væntanlega ekki hjá því að það verði norrænt. *** Annars samdi ég einu sinni ljóð sem heitir „Kardínalinn var svo áhugasamur um norrænar bókmenntir“. Og „gerði“ hljóðaljóð upp úr fallegum lestri Viðars Eggertssonar sem ég stal úr Víðsjá. Kardinálinn var svo áhugasamur um Norrænar bókmenntir Í ár er mest fjallað um Norrænar bókmenntir. Eftir áramótin verður síðan áhersla lögð á Norrænar bókmenntir. Skáld sem leggja metnað sinn í að yrkja eins og hin eina sanna ættjörð þeirra sé fornar Norrænar bókmenntir. Þar í landi hafa Norrænar bókmenntir hafið innreið nútímans í Norrænar bókmenntir. Af því að þar eru Norrænar bókmenntir. Þar má nálgast Norrænar bókmenntir, fjölmargar greinar um Norrænar bókmenntir, leggja út af kuldanum í umfjöllun sinni um Norrænar Bókmenntir. „De store nordiske“ eða Norrænar bókmenntir. Hann drakk í sig Norrænar bókmenntir og vísindi; nýjar Norrænar bókmenntir, Norrænar bókmenntir sem tengjast hafinu. Dugnaðarverðlaun Soffíu frænku eru veitt þeim sem duglegastur er að lesa Norrænar bókmenntir.
createdTimestamp““:““2024-05-23T20:34:12.122Z““
Aðventan hefst víst ekki fyrren á sunnudag en hún hefst nú samt eiginlega alltaf fyrsta desember, hvað sem hver segir. Þegar jólalögin „mega“ byrja að heyrast í útvarpi (ég hlusta aldrei á útvarp og veit ekki hvort þau gera það). Við fjölskyldan í Sjökvist fögnuðum aðventunni – og fullveldisdeginum, sem sonur minn átta ára kallaði lýðveldisdaginn í gær, og hlýtur að hafa frá einhverjum fullorðnum því ég er ekki viss um að hann hafi kunnað orðin fullveldi og lýðveldi í síðustu viku – með því að opna fjöldann allan af jóladagatölum. Í fyrsta lagi eru það tvö súkkulaðijóladagatöl, svo er eitt Bamsedagatal (Bamse er sænskur teiknimyndabangsi), eitt sænskt útvarpsdagatal (útvarpssöguna hlustum við á yfir morgunverðinum – í sitthvoru hollinu, mæðginin snemma og feðginin seint), eitt sænskt sjónvarpsdagatal (ég lýg þessu; við gleymdum sjónvarpsdagatalinu en tökum þá bara tvöfaldan skammt á morgun) og svo eitt trédagatal með litlum hurðum sem maður getur fyllt með hverju sem maður vill. „Prinsinn“ – því hvað kallar maður eina son heimilisins annað en prins, á heimili þar sem fullorðna fólkið hagar sér ævinlega einsog það sé konungborið? – ákvað að í hvert hólf ættu að fara fyrirskipanir. Ekki veit ég hvaðan hann hefur þennan … hvað kallar maður það, áhuga á valdboði? … allavega ekki frá mér. Fyrirskipan dagsins var að kaupa jólaseríur og hengja upp. Það hafðist með herkjum. *** Ég gerði pizzur og brenndi mína meðan ég stóð á snakki um jólaseríurnar. *** Í fyrradag gerði ég gamaldags með blönduðu maltviskí – heitir það blandmöltungur? – Monkey Shoulder og það var mjög gott en í dag komst ég að því að þetta á maður alls ekki að gera, maður á að nota rúgvíski eða búrbon, svo ég endurtók þetta með Makers Mark og það var bara alls ekki jafn gott. Í gær gerði ég svipuð mistök með Manhattan, sem ég blandaði mér og drakk yfir óútgefnu ljóðahandriti eftir Lomma, þar sem ég setti blandmöltung í staðinn fyrir búrbon og það var alls ekki nógu gott – og er víst Rob Roy en ekki Manhattan, með þessum skiptum. *** Geiri vinur minn er búinn að kaupa tónleika með AC/DC á Blue-Ray. Úr Highway to Hell tónleikaferðinni 1979. Geiri á rosalegt sjónvarp (hann á líka rosalegt klósett – japanskt með heilu stýriborði – en það er í sjálfu sér óskylt hinu) og ég hlakka mikið til að vera boðið í tónleikapartí. Ég hef séð talsvert úr myndinni á YouTube – Riff Raff útgáfan er … já hvað getur maður sagt? Hún er engu lagi lík. Muniði eftir bílnum í nýju Mad Max myndinni, með gítarleikaranum sem hangir í keðjum á grillinu og spilar viðstöðulaust meðan heimurinn ferst í kringum hann og vélin undir honum malar og dekkin ryðja undir sig eyðimörkina? Hún er svoleiðis. Ég get bókstaflega ekki beðið eftir að sjá hana á Blue-Ray. Ég er ekki viss um að ég hafi séð neitt á Blue-Ray – samt eru ábyggilega 15 ár síðan það hóf innreið sína – og ég hef svo sannarlega ekki séð AC/DC í Blue-Ray. *** Á morgun er laufabrauðsgerð hjá Smára og Siggu. *** Ég ryð mér í gegnum óútgefnar bókmenntir þessa dagana og ljóðabækurnar raðast upp á borðinu hjá mér og ég er sennilega ekki kominn nema svona 30-40 blaðsíður inn í Orlandó. Mér heyrist að höfundar séu nervus að fá enga dóma, ég er það líka þótt ég viti að ég fái enga dóma – það eru engir gagnrýnendur á blöðunum á vorin og bækur sem koma út að vori þykja steindauðar að hausti. Ég get þó huggað mig við að Óratorrek á eftir að koma út á sænsku, dönsku og grísku og sennilega ensku líka, og þar fæ ég þó áreiðanlega einhverja dóma. Annars veit ég ekki hvaða þráhyggja þetta er í mér fyrir að fá ritdóma. Kannski bara vegna þess að einu sinni var þetta sjálfsagður hluti af ferlinu. Svona einsog lénsherrarnir söknuðu prima noctis þegar það var aflagt – þótt það hafi sennilega verið öllum til bóta á endanum. *** Mig dreymdi að ég og minn gamli félagi Þorleifur Örn hefðum sett upp Grease söngleikinn í ljósi #metoo byltingarinnar (eftir að Óskabarna-Viggi hafnaði samstarfi við mig sökum ósmekklegra hugmynda í handriti). Það var svakalegt. Ég get ekki einu sinni lýst því hvað það var svakalegt (ekki án þess að lenda í einhvers konar meiðyrðamáli). Þjóðin var í sárum á eftir og við Þorleifur báðir ærulausir, sem og Viggi og allir aðrir sem komu að draumförum þessum. Ég þarf kannski að róa mig í kokteilagerðinni á kvöldin. ***