Í gærkvöldi var Donald Trump skotinn í eyrað. Nokkrir særðust, einn lést og leyniþjónustan skaut árásarmanninn – sem var hvítur repúblikani. Trump var fljótur að sjá að þetta væri stórkostlegt ljósmyndatækifæri – og sennilega er reiðin honum líka eðlilegt viðbragð við mörgu – svo hann reisti sig við og rak hnefann á loft og lét taka af sér eina íkonískustu ljósmynd síðustu ára. Manni sýnist sem fátt geti nú forðað því að hann verði forseti Bandaríkjanna – aftur. Og líklega er stórveldistíð Bandaríkjanna þar með í raun liðin undir lok – þetta er hin vandræðalega hnignun sem sjálfsagt beið alltaf. Hnignunartímabilið verður sársaukafullt fyrir þá sem þar búa og fyrir okkur öll sem þurfum að eiga í einhvers konar sambandi við Bandaríkin, hvort sem það er persónulegt eða einfaldlega í gegnum stjórnmál og menningu. Bandaríkin eru ekki bara miðlæg í vestrænu samfélagi – og víðar – það er stundum beinlínis einsog þau séu eini veruleikinn sem nokkru máli skiptir. Þegar yfir lýkur verða Bandaríkin ekki lengur land þar sem fasisti þarf að bjóða sig fram til að ná völdum, þar sem fasisti þarf að þola ágang réttarríkisins vegna glæpa sinna – heldur klassískara einræði, kannski eftir s-amerískri forskrift, land þar sem traust er fyrir bí og forsetinn gerir bara það sem honum sýnist og beitir ríkinu eftir hentisemi. Heimurinn hrynur áður en hann rís á ný. Þegar ég var unglingur var Dan Quayle varaforseti George Bush eldri. Quayle var þekktur fyrir að taka klaufalega til orða og eitt af því fyrsta sem blasti við manni þegar maður fékk aðgang að internetinu – í mínu tilviki tveimur árum eftir að hann lét af embætti – voru heimasíður sem höfðu safnað saman allri vitleysunni sem hann lét út úr sér. „Framtíðin verður betri á morgun“ – „Það er kominn tími til að mannkyn fari til sólkerfisins“ – „Það er ekki mengunin sem er að eyðileggja umhverfið, það eru óhreinindin í loftinu og vatninu“ o.s.frv Og manni fannst þrettán ára gömlum ótrúlegt að annars eins kjáni gæti orðið varaforseti jafn máttugrar þjóðar, þjóðar sem leggur jafn mikið upp úr ágæti og Bandaríkjamenn gera – og varð hneykslaður einsog bara þrettán ára krakkar geta orðið hneykslaðir. Clinton og Quayle tóku síðan við og voru sannarlega oft kjánalegir líka en ekki eins svakalegir – en svo kom Bush yngri og setti alveg nýjan standard, nýjan botn, með dyggri aðstoð Donalds Rumsfeld, varnarmálaráðherra, sem lét reglulega hafa eftir sér svo undarlega hluti, sem hljómuðu jafnvel mystískir í vitleysunni, að þeim var safnað saman á ansi fína ljóðabók. Stærstu tíðindin við forsetatíð Obama – á eftir húðlitnum – voru að forseti Bandaríkjanna væri mælskur. Að það væri reisn yfir honum. Ekki ætla ég að verja neinn þann mann sem rekið hefur bandarísku stríðsmaskínuna en Obama var engu að síður gæddur þeim eiginleika að fá mann til þess að halda með sér. Manni fannst hann eiga virðingu skilda. Og honum fannst hann greinilega þurfa að sannfæra mann, þurfa að sýna reisn. Stærsta ekki-fréttin við forsetatíð hans var að hún myndi valda enn meiri sundrungu í bandarísku þjóðfélagi – ég veit ekki hvenær það byrjaði að gliðna svona svakalega, kannski strax með Clinton, kannski í einhverri fortíð sem ég þekki ekki, en allavega frá og með Bush yngri og 11. september, tepartíruglinu og þeirri ídentítetsöld sem reið svo í garð með ofuráherslu sinni á allt sem skilur okkur að – trú, þjóðerni, húðlit, kyn, kynhneigð – á öllu hinu pólitíska litrófi, sem kom í stað ákveðinnar (að sönnu barnalegrar) áherslu tíunda áratugarins á að allt þetta ætti ekki að skipta máli, heldur ætti hver maður að dæmast á eigin orðum og gjörðum og engu öðru. Svo kom forsetatíð Trump og svo forsetatíð Biden og nú sitjum við – sem höfum Ameríku fyrir heimsmiðju – uppi með einn forsetaframbjóðanda sem ber öll merki þess að vera farinn að kalka (og þau merki gætu orðið miklu meira áberandi áður en Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu – þegar farið er að halla undan fæti eldist fólk stundum mjög hratt) og annan sem er froðufellandi fasisti. Ég held það sé engin ástæða til þess að hafa um það neitt kurteislegri orð. Froðufellandi fasisti er eiginlega í það passlegasta. Og ég held einsog margir að seinni forsetatíð hans verði miklu verri en sú fyrri – hann er reiðari og vondari en stuðningsmenn hans eru líka skipulagðari. Þeir hafa nýtt árin fjögur, kjörtímabil Bidens, til þess að undirbúa sig fyrir það sem þeir töldu sjálfsagt alltaf óhjákvæmilegt – reikningsskilin. Nýtt kjörtímabil Trump verður bara fjögur ár en afleiðingarnar af því að hluta í sundur réttarríkið og koma handbendum MAGA fyrir í áhrifastöðum endast lengur. Svipaðir straumar – svipaðir klofningar – eiga sér svo stað í Evrópu 2-10 árum síðar, að jafnaði. Við hreyfum okkur eftir svipuðum takti, svipaðri músík og endum í svipuðum stellingum – enda löngu byrjuð að dansa. Ég veit ekki hvernig þetta endar í Bandaríkjunum og er ekkert sérstaklega bjartsýnn á að við getum gert margt til þess að einu sinni koma í veg fyrir að eins fari fyrir Íslendingum – eiginlega þoli ég illa að ég skuli vera svo sínískur að ég telji mig einlæglega fátt geta gert annað en að fylgjast með þessu fara í ruslið, en þannig er það samt. Ég held vel að merkja að vandamálið liggi miklu dýpra en í því hver er við stjórnvölinn – leiðtogar okkar eru spegilmyndir af því hver við erum, hvaða reglur við viðhöfum í allri umræðu, hvernig við fremjum lýðræðið dag frá degi. Og við erum ekki bara þjóðfélag sem tignar eigin forheimskun heldur erum við að miklu leyti hætt að trúa á sameiginleg gildi, og þar með hætt að takast á um þessi sameiginlegu gildi. Ég held að þetta botni í einhvers konar trú á hið eina sanna – hvort sem það er MAGA liðið, Covid-umræðan, PC-málefnin, Katrín Jakobsdóttir eða vinstristefnan – að það sé ein sönn og rétt lína sem einungis einhver útvalin(n) geti skilgreint, einhver því sem næst heilagur og ofsóttur af hinu illa – og þá narratífu vann Trump í gærkvöldi, og ekki í fyrsta og ekki í síðasta skiptið. Kannski er klofningur þá ekki heldur nákvæmasta orðið nema maður meini margklofningur, hægri og vinstri, upp og niður, og átakalínur samfélagsins meira einsog línurnar í mölbrotnum spegli en landsvæði með tveimur skotgröfum. Eitt held ég að sé a.m.k. alveg ljóst. Fasisminn verður ekki sigraður nema með tveimur aðferðum. Annars vegar er hægt að gera tilraun til þess afvopna hann með því að hætta að taka þátt í orðræðunni sem honum er eðlislægust – garginu, skriðdrekasamræðunni, frekjunni – og hefja til einhvers vegs og virðingar hófsemi og réttmæti, gera kröfu hvert á annað um vitsmuni og sanngirni. Að halda klassa, halda stíl, halda prinsipp – fara aldrei niður á þeirra plan, gera sanngirnisviðmið þeirra aldrei lögmæt (reyndar erum við gengin svo langt á þessari braut að við neyðumst til þess að svipta fávitaskapinn lögmæti sínu, gera hann ómögulegan, að einhverju sem kallar skilyrðislaust á afsögn, endalok hins pólitíska ferils). Hins vegar er hægt að grípa til vopna og skjóta fasistana alla í hausinn, hvern á fætur öðrum, þar til enginn er eftir og halda því svo áfram þar til nýir hætta að spretta upp. Mér finnst báðar í sjálfu sér ólíklegar en ég veit hvor mér finnst skynsamlegri.
Author: kolbrunarskald
Hvert er húfan mín? Hvert er hempan mín?
Víða í Svíþjóð er lenska að skipta út orðinu „hvar“ fyrir orðið „hvert“ – „var“ fyrir „vart“. „Hvert eru skærin?“ „Hvert eru skórnir mínir?“ o.s.fr v. Sérstaklega er þetta áberandi í sumum mállýskum og hjá sumum þjóðfélagshópum, t.d. börnum. Einhvern tíma var þetta álítið lýti en hefur nú verið tekið í sátt, a.m.k. í talmáli, kannski svipað og „mér langar“. Mér hefur stundum verið sagt að nýbúar á Íslandi eigi til að furða sig á sumum málvillum Íslendinga og hér er svipað um mig farið – ég get ekki sætt mig við þetta „vart“, þetta misbýður mér og ég skil ekki að svíar láti þetta yfir sig ganga. Og já, ég veit að ég var að skrifa pistil um daginn um að málvöndunarsinnar væru hálfóþolandi. En það voru íslenskir málvöndunarsinnar og ég er nógu mótsagnakenndur – og nógu sáttur við eigin mótsagnir – til þess að finnast líka svolítið rómantískt að fara í stríð við málvillur. Við komum til Svíþjóðar rétt fyrir mánaðamót. Krakkarnir hafa verið í Reymýri allan tímann en við Nadja skutumst til Málmeyjar í tvo daga. Fyrir tilviljun gáfum við hvort öðru áþekkar jólagjafir síðustu jól – hún gaf mér ferð til Málmeyjar með gistingu á lúxushóteli í tvær nætur og ég gaf henni ferð með næturlest til Skellefteå og gistingu á öðru eins lúxushóteli. Fólki finnst almennt að ferð til Málmeyjar hljómi stórfenglega en það er mjög hvumsa að nokkur skuli láta sér detta í hug að bjóða ástkonu sinni til Skellefteå. Þetta er 35 þúsund manna smáborg í norður Svíþjóð sem er helst þekkt fyrir löngu niðurlagðar gullnámur. Ég er auðvitað talsverður norðursinni og hef fulla trú á að þetta sé skemmtileg borg en verð þó að viðurkenna að ég valdi hana fyrst og fremst vegna þess að ég var að leita að stað sem hvorugt okkar hefði komið á og þangað sem hægt væri að ferðast með næturlest – en Nadja hefur mikla ást á slíkum ferðamáta, en ekki ég (sökum lengdar minnar og stuttra rúma í lestum). Svo er þarna þetta hótel, Wood Hotel, ein stærsta trébygging heims. Og allavega nokkrir góðir veitingastaðir. Ég hef svo sem nefnt það hér einhvern tíma áður að Svíþjóð getur verið svolítið erfið viðfangs. Planið var alltaf að taka næturlest fram og til baka og gera þetta þannig að þriggja nátta ferð. Og á heimasíðu sænsku járnbrautanna birtust margar næturlestir skráðar sem kæmu í sölu síðar – einhvern tíma í byrjun júní birtist loks næturlestin til Skellefteå en bakaleiðin lét standa á sér. Að síðustu áttaði ég mig á því að allar þessar ferðir færu ekkert í sölu og þó ég skoðaði bara morgundaginn á pöntunarsíðunni birtust líka margar ferðir sem „kæmu í sölu síðar“ – en yrði augljóslega aldrei neitt af. Lausnin var að taka lest á öðrum degi til Sundsvall – sem er næstum jafn spennandi borg og Skellefteå – gista þar eina nótt og halda svo áleiðis til Hrábæjar í Vesturási (það var reyndar alls ekki auðvelt að bóka þá leið heldur – SJ lét mig panta það eftir alls konar krókaleiðum, en það hafðist þó). Þessa ferð förum við í vikunni. Ég dokúmenteraði vel og vandlega á Facebook átök mín við sænska bjúrókrasíu, ríkis og einkarekna, þegar við bjuggum í Vesturási 2020-21, og hversu erfitt það er að gera nokkurn skapaðan hlut ef maður er ekki með sænska kennitölu, sænskan bankareikning, Swish og sænskt símanúmer. Margar breytingar hafa átt sér stað síðustu ár og eru þær fæstar til hins betra. Verst allra er nýtekið ástfóstur svía við smáforrit. Þannig ætluðum við að fara á „ókeypis“ tónleika í Gröna Lund í Stokkhólmi en eyddum næstum klukkustund í að hlaða niður öppum og skrá okkur í klúbba og fara inn á „mínar síður“ til að finna réttan QR-kóða sem veita myndi okkur aðgang að tívolíinu – og þurftum vel að merkja á endanum samt að borga tæplega 30 þúsund fyrir fjóra, þreytt og pirruð en sú yngsta var þó allavega glöð að geta þá skotist í hið fræga draugahús, enda þá með armband sem átti að duga í öll tæki. Þegar inn var komið kom í ljós að armbandið gilti í öll tæki nema fræga draugahúsið og þar þurftum við að punga út 1500 kalli í viðbjóð. Viðbót, meina ég. Nokkrum dögum síðar fórum við svo á veitingastað – stór hópur, sennilega 12-14 manns – settumst niður og biðum eftir afgreiðslukonu sem kom og spurði okkur hvort við hefðum komið áður og hvort við þekktum hugtakið „app-veitingastaður“. Upphófst nú nokkuð moj við að reyna að hlaða niður öppum í ólíka síma – einhver stakk upp á að eitt okkar myndi ná í appið og sjá um að panta fyrir alla, en þá hefði viðkomandi, auk þess að bera ábyrgð á pöntunum (sem afgreiðslufólk gerir venjulega), líka þurft að standa í uppgjöri við hina ólíku hópa um reikninginn. Að mojinu loknu ákváðum við fara frekar á indverskan veitingastað í næstu götu. Á leiðinni út tilkynnti mín heittelskaða afgreiðslufólkinu að þetta fyrirkomulag „suger“ – ég held maður hljóti að þýða það með sögninni „sökkaði“ – og það mætti gjarnan koma því áleiðis til þeirra sem rækju staðinn og þætti sniðugt að pína fólk svona. Börnunum þótti þetta fádæma ókurteisi og gott ef ekki ólíðandi orðbragð og snupruðu móður sína (í einhverjum tilvikum frænku) viðstöðulaust alla leiðina yfir á indverska staðinn. Annars fer nú ágætlega um okkur. Veðrið mætti vera betra. Svolítið mikið rok og rigning þótt hitastigið sé hærra en heima. Við Aram eigum tvær vikur eftir af ferðinni en Nadja og Aino verða í mánuð til.
Fiðlari og faraldsfjölskylda
Síðustu tíu dagar hafa verið svolítið yfirdrifnir. Fyrst fór ég suður á stífar fiðlaraæfingar – sem enduðu á sýningu fyrir pakkfullu Þjóðleikhúsi síðasta laugardagskvöld. Sýningin tókst held ég að mér sé óhætt að segja afar vel – þrátt fyrir erfiðar aðstæður og fáein skakkaföll í leikaraliðinu. Forföll kostuðu okkur tvo leikara og einn músíkant, og óvænt veikindi kostuðu okkur eina aðalstjörnuna til viðbótar. En með nokkrum hlutverkaskiptingum, tveimur nýjum kórliðum og einum bjargvætti sem var sóttur alla leið til Leipzig, og það eiginlega á allra síðustu stundu, gekk þetta sem betur fer allt upp. En til þess máttum við – 40-50 manna hópur – líka taka okkur margra daga frí frá vinnu, koma okkur sjálf suður, redda okkur gistingu og æfa svo bókstaflega frá morgni til kvölds. Sveit og lúin og marin og illa lyktandi. Og ekki skil ég hvernig tæknifólkinu okkar tókst að láta allt sitt ganga upp – að flytja lýsingu og hljóð úr einu rými í annað með nánast engum fyrirvara eftir margra mánaða sýningahlé. Aðstaðan í Þjóðleikhúsinu er auðvitað ágæt en sýningin var hönnuð inn í allt annað rými og mér finnst jafn óhugsandi að þetta hafi tekist, þótt ég hafi horft á það gerast, og skil ekki hvernig það hefði átt að takast ef við hefðum komið inn í húsið daginn fyrir – einsog var víst upprunalega planið. Þá urðu eymsl á sýningu – Dýri „salto mortale“ Arnarson fór úr hnjálið í síðasta heljarstökkinu sínu í rússasenunni fyrir hlé, en var (eftir að hafa ráðfært sig við hjúkrunarfræðing, sem við áttum í leikhópnum) mættur í flöskudansinn sem gyðingur eftir hlé. Ég varð sjálfur fyrir öllu ómerkilegri meiðslum í brjóstkassa, sem ég tók ekki einu sinni eftir fyrren tveimur dögum seinna – sennilega eftir slagsmálasenu í sama brúðkaupi, og meira af því ég er að breytast í gamalmenni en af því ég sé heljarstökkvandi ofurhugi. Í dag er ég aftur farinn að geta andað djúpt og lyft handleggjunum og fyrir það er ég þakklátur. En þetta var í heildina stórkostlegt. Þá skipti ekki minnstu fyrir okkur í hópnum að nærri því allir – líka þeir sem forfallast höfðu á æfingunum og gátu ekki verið með í sýningunni – voru með okkur lokadaginn, þótt það væru ekki allir á sviðinu. Því þetta var umfram allt annað samvinnuverkefni. *** Á sunnudeginum eftir sýningu flugum við fjölskyldan svo til Svíþjóðar – ekki þó fyrren eftir að ég og Aino höfðum litið við á fjölskyldupönknámskeiði í Iðnó. Sem er í sjálfu sér svolítið skrautlegt konsept – að pönk sé fjölskylduvænn hlutur sem þú lærir á námskeiði er eitthvað sem hefði áreiðanlega farið öfugt ofan í einhverja pönkara á sínum tíma. En námskeiðið var skemmtilegt. Í Stokkhólmi gistum við svo tvær nætur hjá gömlum vinum, spiluðum spil, drukkum Cava og átum snakk. Á mánudeginum litum við í Gröna Lund – sem er skemmtilegur skemmtigarður sem haldið er í gíslingu af appsjúkum og gráðugum kapitalískum bjúrókrötum – og þar sáum við tónleika með hljómsveitinni Dina Ögon. Sem var ágæt. Daginn eftir átum við ís og náðum ferjunni yfir til Finnlands. Aram og Nadja fóru út í sveit en við Aino héngum í Helsinki einn sólarhring til þess að hitta vini okkar, fara í sund og borða vöfflur, og svo komum við í kjölfarið. Nú erum við skammt fyrir utan Ekenäs – gestir á fjórða vinaheimilinu frá því síðasta föstudag. Ég er svo þreyttur að ef ég hef verið vakandi í meira en klukkustund langar mig bara að fara aftur að sofa. Og skiptir þá engu hvað ég hef farið oft að sofa þann sólarhringinn. Lúrarnir þyrftu helst að vera samhangandi yfir daginn og renna saman við nætursvefninn í nokkrar vikur. Þá kemur sér ágætlega að vera í sumarfríi en mig grunar samt að ég þurfi að gera eitt og annað – og einhverjar hugmyndir hafði ég nú líka um að vinna í fríinu líka. Sjáum til hvernig það fer.
Orðsendingar úr kynhlutlausu bergmálsklefunum
Kannski er ekkert skrítnara við bergmálshellana en að þar skuli svona mikið vera þráttað. Ég veit ekki betur en við séum öll meira og minna sammála um það eitt að lífssýn okkar sé að þrengjast og bilin sem skilja okkur að – kynslóðir, búseta, fjárhagur/stétt, sjálfsmynd – að breikka vegna þess að við eigum minna samneyti hvert við annað, sérstaklega fólk sem er okkur ósammála; en á sama tíma eru allir sífellt gargandi hver á annan. Sem þýðir væntanlega að í bergmálshellunum sé gestkvæmt – þar sé statt og stöðugt fólk úr öðrum bergmálshellum með aðrar skoðanir að viðra þær með þjósti? Eða hvað? *** Það er margt undarlegt í umræðunni um kynhlutlaust mál og kannski er sumt af því einkennandi fyrir það hvernig skautun virkar. Ég hef séð fólk tína til alls konar hluti gegn kynhlutlausu máli sem eru miklu eldri en það – t.d. að maður skipti hratt úr málfræðilegu kyni í raunkyn í miðri setningu, einsog þegar maður segir „Fólkið á kajanum var blautt og hrakið enda höfðu þau ferðast lengi“ eða „Mikið mæddi á ráðherranum þessa helgi enda var frumvarpið sem hún lagði fram í hættu“. Þetta hef ég alltaf gert og verið kennt að sé í stakasta lagi – og mér finnst sjálfum umtalsvert klaufalegra að vera sífellt að tala um að „það“ hafi gert hitt og þetta í aukasetningu eftir aukasetningu. Þá finnst mér áhugavert að enginn, mér vitanlega, hafi nefnt að í nánasta ættingja íslenskunnar – færeyskunni – er að minnsta kosti vísir að kynhlutlausu máli og ævinlega talað um „öll“ frekar en „alla“ nema þegar sérstaklega er vísað til karla. Ég man að mér fannst þetta skrítið þegar ég bjó í Þórshöfn – Öll fara á ball á helginni. En líka svolítið töff. Í finnsku, sem er vissulega ekki mjög skyld íslensku þótt hún sé norðurlandamál, er síðan bara eitt orð fyrir hann og hún – hän – og gengur upp alveg án þess að allt fari á hliðina eða allir verði ruglaðir. Annað áhugavert í norrænu kynhlutleysi er sú tilhneiging í Svíþjóð til þess að nóta hán (eða réttara sagt „hen“) sem kynhlutlaust orð á meðan á Íslandi það er eiginlega bara notað um kvár. Það er að segja, í fréttum í Svíþjóð er hán stundum notað ef ekki er vitað hvers kyns viðkomandi er. „Vegfarandi sást veifa nasistafána í kröfugöngu. Hán hvarf skömmu síðar.“ En þá ber auðvitað að geta þess að nafnorð í sænsku – einsog vegfarandi – eru ekki kynjuð á sama hátt og á íslensku. Vegfarandi væri annars „den“. Svo finnst mér líka sumir málfræðingarnir furðu ferkantaðir í skilningi sínum á tungumálinu. Tungumálið er ekki fullkomlega rökrétt og margt mun aldrei skiljast nema af samhengi sínu og setningar verða aldrei 100% skýrar – margt af því sem við skiljum ágætlega er í raun óskiljanlegt – þetta vita allir sem hafa lesið Wittgenstein. Það er fullkomið rugl að taka dæmi um einhvern misskilning sem gæti komið upp ef fólk hagar máli sínu svona eða hinsegin við þessar eða hinar aðstæðurnar og segja að orðnar breytingar séu ómögulegar þess vegna. Tungumálið úir og grúir í alls konar rökleysum og rugli og er satt best að segja ekki verra fyrir það. En svo ég tali gegn málstað kynhlutleysunnar líka – og ekki bara til að gæta jafnræðis – þá hef ég talsverðar efasemdir um að tungumál breyti hugsun á þann máta sem sumir talsmenn þess virðast meina (og ég held að þar séu málvísindamenn mér upp til hópa sammála í seinni tíð). Að það sé til dæmis hægt að nota það til þess að útrýma fordómum. Auðvitað þurfum við að eiga orð til þess að lýsa veruleikanum sem blasir við okkur en handstýring á orðavali verður oft ekki til annars en að breyta kurteisisstaðli og búa til orðhengilsþrætur sem ekkert leiða og ekkert segja. Þeir sem aðhyllast þá kenningu að tungumálið móti hugsun vitna gjarnan til málvísindamannsins Victors Klemperer sem hélt frægar dagbækur á tímum þriðja ríkisins þar sem hann dokumenteraði ýmsar breytingar sem urðu á málinu á þeim tíma – og halda því fram að þar sjái maður svart á hvítu hvernig tungumálið móti sýn fólks á umhverfi sitt. En þeir sem lesið hafa bækurnar vita að þar er því alls ekki haldið fram að tungumálið hafi breytt veruleikanum, og raunar frekar lagt upp með að því hafi verið öfugt farið og tungumálið aðlagast breyttum tíma, endurspeglað það sem fólk vildi hugsa. Það er að segja, tungumálið breytti ekki veruleikanum heldur breyttist með honum og var síðan notað til þess að viðhalda honum, til þess að festa orðinn veruleika í sessi. Klemperer varar við þessum tilhneigingum til tískuorða og handstýringar sem hann upplifir sem kúgunartaktík sem gangi út á að þrengja að tjáningu og beina umræðunni í farveg meginstraumsins. En þá er hann auðvitað að tala um meginstraum nasismans. Sem er kannski svolítið annað dæmi, þótt Klemperer hafi líka verið að tala á almennum nótum. Annars er líka of lítið gert úr því hvað það hvernig við tölum er bæði sjálfsmyndarskapandi – þ.e.a.s. segir okkur hver við erum – og hópmyndarskapandi – þ.e.a.s. segir öðrum hvaða hóp við tilheyrum. Og hvernig málsnið skapar líka gjár – og hefur alltaf gert. Ég tók eftir því á VG þingi sem ég var beðinn um að tala á í fyrra eða hittifyrra að kynhlutlausa málið sagði manni með nánast fullkominni nákvæmni hvort að sá sem hafði orðið væri borgar-vinstrigrænn eða landsbyggðar-vinstrigrænn. Sú sem hafði orðið, meina ég. Hán sem hafði orðið. Línurnar voru hlægilega skýrar. Vesturlandabúar hafa heldur aldrei verið jafn uppteknir af þessum sjálfsmyndum sínum – sem sýnir sig á allri umræðu, hvort sem hún er hægri eða vinstri, þjóðernissinnuð eða prógressíf kynjapólitík. Og vel að merkja gefur kynhlutlaust mál líka þeim sem vilja markera sig utan hópsins færi á að gera það – með því að leggja ofuráherslu á „allir“ og „menn“ – og kynhlutlaust mál sem einhvers konar siðferðislegt skylduboð skapar síðan óverðskuldaða paranoju gagnvart þeim sem finnst „konur bara vera menn“ og hafa rétt á að vera ekki tortryggðir fyrir sína máltilfinningu, jafnt þótt þau séu gamaldags (að ég tali nú ekki um þegar þau eru einfaldlega gömul ofan í kaupið). *** Skemmtilegast í þessu öllu saman er samt alltaf að það skuli vera þeir femínistarnir og þær karlremburnar.
Vonarvöl
Forsetakosningarnar snúast um Katrínu Jakobsdóttur. Og það er ekki Katrínu að kenna eða stuðningsmönnum hennar heldur andstæðingum Katrínar – ekki meðal frambjóðenda heldur úti í þjóðfélaginu. Ég held þetta afhjúpi eitthvað sem maður kannski vissi um sárindin innan raða vinstrimanna sem höfðu fyrir rúmum áratug ofsalega tröllatrú á Katrínu (og hafa sumir enn, þótt vinsældakapítalið hafi talsvert þynnst). Og þótt ég haldi að það sé vissulega orðum aukið hjá bæði Jóni Ólafssyni og Berglindi Rós að það sé fyrst og fremst vegna þess að hún sé kona held ég að sárindin séu meiri þess vegna – kannski bara 10% meiri, en meiri samt. Ég sagði mig vel að merkja sjálfur úr VG fyrir löngu út af einhverjum málamiðlunum sem mér hugnuðust ekki – hef skammast mín fyrir að hafa kosið þessa stjórn sem hefur svo oft brugðist. Og kýs ekki Katrínu núna út af þeim farangri sem er óhjákvæmilegt að hún flytji með sér. Ég er hins vegar ekki nema svona 30% sammála þeim sem tala mest gegn Katrínu og finnst réttast að nota öll orðin í orðabókinni og öll upphrópunarmerkin – kannski varla nema 25%, 15%, 10%, sum þeirra eru hreinlega komin langleiðina með að sannfæra mig um að kjósa hana. Af gremju í þeirra garð. Það er áreiðanlega meðvirkni en það er líka þreyta gagnvart því sem mér finnst ekkert vitlaust að kalla trumpisma og á sér stað í öllum herbúðum þessa dagana – og lýsir sér á svona ippon-taktík, að taka alltaf stærst upp í sig, ræða við annað fólk einsog maður keyrir jarðýtu yfir hús (eða piparúðar mótmælendur) með það eitt fyrir augum að ná einhverju fyrirframgefnu markmiði. Látum vera að kjósa taktískt – en það er þreytandi að horfa á fólk stunda samræður taktískt, því það er í þessari samræðu sem lýðræðið fer fram, miklu frekar en í kjörklefanum, þar sem við hugsum sem samfélag, og ef samræðan er óheiðarleg er lýðræðið „rotnandi hræ“ svo ég vitni í einn gamlan og sínískan karl sem færði sér rotnun þessa hræs í góð nyt. Annars finnst mér þetta líka kalla á samræðu um hvað sé ofsi og hvað ástríða. Sú lína getur augljóslega ekki legið nákvæmlega á sama stað hjá tveimur einstaklingum – og það sem ég upplifi sem ástríðu hjá samherja mínum er líklegt að ég upplifi sem ofsa hjá andstæðing mínum, einsog sést berlega á undirtektum og útleggingum á öllum greinum sem komið hafa út upp á síðkastið og dreift hefur verið á Facebook. Þar er bæði ljóst að greinarhöfundar eru mikið til bara að keppast um hver sé fastastur fyrir og að lesendur meta þær nær einvörðungu út frá þeirri afstöðu sem þar birtist, frekar en því hvort nokkurt vit sé í hugsuninni eða einu sinni stíll á skrifunum. Það sem einum finnst blasa við finnst öðrum frámunalega fáránlegt – og kæmi okkur kannski ekki á óvart ef þar færu andstæðingar sem hefðu eytt lífinu í ólíka lífssýn, en nú fara þar oftar og oftar andstæðingar sem hingað til hafa verið með svipaðar grundvallarskoðanir á tilverunni. Samherjar úr Palestínubaráttunni – sem dæmi. Samherjar úr náttúruvernd. Samherjar úr jafnaðarmennsku. Og svo framvegis. En línan getur ekki bara legið þannig að ef andstæðingur minn byrsti sig æpi ég „einelti“ og saki svo viðkomandi um siðblindu. Samfélag sem getur ekki ræðst við af virðingu endar á því að verða popúlismanum að bráð – þar vinnur bara sá sem hefur hæst. Um það eigum við mýmörg mjög nýleg dæmi og þar erum við á sömu braut og þjóðfélögin í kringum okkur. En samfélag þar sem íbúar þurfa að tipla á tánum hver í kringum annan eru ekki heldur mjög lýðræðisleg – „kurteisi kostar ekkert“, stóð á barmmerkjum þegar ég var unglingur, en hún gerir það bara víst. Kurteisi við vald sem fer yfir mörk kostar helling. Stundum er ástríðan hreinlega nauðsynleg – sem og ókurteisin sem henni fylgir. Ég hef sagt það áður að það þarf meira til að ofbjóða mér í þeim efnum en baráttu um það hvort Halla T eða Katrín J fær að bera forsetabuffið næstu fjögur árin – mér finnst það ekki það ragnarakaspursmál sem mörgum öðrum finnst – og finnst ágætis þumalputtaregla að fara sparlega með hneykslan mína. Og ég ákveð auðvitað ekki upp á mitt einsdæmi hvenær sé komið nóg og þjóðfélagið sé á vonarvöl. Það gerir þjóðfélagið sjálft.
Siðrof, alla daga siðrof
Mig rámar í að hafa verið kominn með svipað óþol fyrir forsetakosningunum síðast. En á sama tíma er einsog mig minni að mér hafi nú bara líkað ágætlega við flesta frambjóðendurna – ef ekki bara alla. Ég kaus Andra Snæ og hafði fulla trú á að hann yrði ágætur forseti en varð ekki fyrir neinum vonbrigðum þegar Guðni vann. Og um daginn var ég í pönkgöngu með Sigurjóni Kjartanssyni um Ísafjörð og stóð fyrir aftan Guðna og hugsaði hvað það væri mikil synd að hann væri að hætta og hvað hann hefði verið heilnæmur. Í einhverri könnun svaraði ég því meira að segja til að hann væri eftirlætis forsetinn minn – meira eftirlæti en Vigdís, sem voru kannski ýkjur í augnabliksæði, en samt. Og Elísabet Jökuls er minn eftirlætis forsetaframbjóðandi allra tíma. Það er einsog minningin sé tvískipt – þetta hafi annars vegar verið glatað og hins vegar skemmtilegt. Ætli því hafi ekki verið eins farið líka síðast að það hafi fyrst og fremst verið kosningaskjálftinn í æstustu fylgjendum frambjóðenda sem hafi valdið mér óþoli? Frekar en sem sagt frambjóðendurnir sjálfir eða persónulegar herferðir þeirra. Skrímsladeildirnar eru víða og þær eru kannski misslæmar – þeim gengur misgott til – en þær eiga það allar sameiginlegt að halla máli einsog þær frekast ráða við og gera jafnvel minnsta tittlingaskít að tilefni til þess að grípa í öll upphrópunarmerkin í bókinni. Það eru alveg frambjóðendur í boði í ár sem ég myndi helst ekki vilja að ynnu. En ég get samt ekki hugsað mér að kjósa taktískt – að kjósa gegn einhverjum. Ég orðaði það þannig í samtali um daginn að ef ég gæti ekki kosið með hjartanu í forsetakosningum þá gæti ég það sjálfsagt aldrei, en ég held það hafi verið svokallað cop-out – í raun og veru finnst mér bara afskræming á lýðræðinu að kjósa taktískt, sama í hvers lags kosningum það er. Það er mórölsk afstaða hjá mér frekar en eitthvað annað. Kannski Kantísk – einhver tilfinning fyrir því að það sé „sleip brekka“ ef allir byrja að reyna að sjá út hvað hinir ætli að kjósa og fari svo að kjósa einhvern fimmta, sjötta, sjöunda valkost af því hann virðist eiga séns. Að við förum að dæma pólitíska valkosti út frá sennilegum vinsældum hjá öðrum frekar en eigin hugsjónum. Ég segi ekki að ég myndi aldrei kjósa taktískt. En það þarf allavega meira til en það sem er í boði. Ef það verður einhvern tíma bara svona Macron-Le Pen í boði skal ég fara og kjósa frjálshyggjupésann. Akkúrat núna finnst mér líklegast að Halla Tómasdóttir vinni þetta. Ekki kannski mest mannkosta sinna vegna heldur vegna þess að hún skorar hæst af andstæðingum Katrínar Jakobsdóttur – sem hafa nánast lýst því yfir að það verði siðrof ef hún verði forseti. Hún er á flugi. Og síðast kom hún betur út í kosningununum en skoðanakönnunum. Og margir ætla greinilega að hlamma sér á hvern þann sem gæti unnið Katrínu. Að vísu spáði ég því fyrir nokkrum vikum að Halla væri með of mikinn taparastimpil á sér eftir síðustu kosningar til að fara yfir 10%, svo ég veit ekki hvað það er að marka mig í svona spám. Og kannski ýtir það undir þessa tilfinningu hjá mér að hún sé núna óstöðvandi. (Ég ætla að kjósa Jón Gnarr, er ég svona 95% viss um, ef þið skylduð vera að velta því fyrir ykkur).
Sannleikurinn um eðlufólk
Hvenær gerðist það eiginlega að Íslendingar fóru að verða svona hallir undir samsæriskenningar amerískra jaðarrepúblikana, malandi um World Economic Forum og Davos og Soros, og hvað er langt í að umræðan um eðlufólkið nái upp á yfirborðið líka? Hvers vegna var verið að spyrja forsetaframbjóðendur út í fóstureyðingar í sjónvarpinu mínu í gær? Byrjaði þetta í hruninu – þegar reiðin rann saman við vonbrigðin yfir að takast ekki að breyta neinu? Og þurfti að finna sér nýjan farveg? Fékk þessi reiði kannski vítamínsprautu í covid-rifrildinu um hvort stjórnvöld væru að reyna að myrða okkur með bóluefninu eða með því að senda okkur öll hóstandi út að smita hvert annað í tilraunaskyni fyrir lyfjafyrirtækin? Í fordæmaleysinu þegar veruleikinn virtist leysast upp í augnablik? Eða hófst þetta kannski strax ellefta september? Ég man eftir róttæklingum frá fyrstu árum aldarinnar – vinum mínum – sem settu upp tjald við Tjörnina í Reykjavík til þess að sýna heimildarmyndir. Ég sat meira að segja yfir þessum myndum einn dag – passaði tjaldið. Sumt af þessu voru bara myndbönd af skrítnum körlum að röfla um eitthvað einsog burðarþol tvíburaturnanna og bræðslumark stáls í 3-4 klukkutíma á meðan maður stóð út í gætt og reykti. Efni sem hefði sennilega orðið hlaðvarp eða YouTubemyndband í dag. Annað var vandaðra. Mig minnir að þarna hafi líka verið sýnd mynd um Robert Faurisson – franskan bókmenntafræðing sem hélt því fram að helförin hefði aldrei átt sér stað og var dæmdur fyrir það – en kannski sá ég hana annars staðar. Í þeirri mynd tók allavega Noam Chomsky til máls og varði málfrelsi Faurrisons. Það fannst manni, sem róttækum vinstrimanni á þeim tíma, vera fullkomlega réttlát afstaða – kannski sú eina réttláta. Út frá prinsippinu sem Chomsky orðaði fyrir mann að ef maður styddi ekki málfrelsi þeirra sem segðu hluti sem manni þættu óviðurkvæmilegir styddi maður í raun ekki málfrelsi heldur bara viðhald sinnar eigin heimsmyndar – og í framhaldinu stöðnun og intelektúal dauða. Kenningar Faurrisons væru auk þess augljós vitleysa og það væri hægðarleikur að mæta þeim sem slíkum – þar stæði ekki steinn yfir steini. Það var kannski ekki almennt álitið að með málfrelsi hlytu bestu hugmyndirnar að vinna – því auðvitað var öllum ljóst að auðvaldið gæti hagrætt myndinni sér í hag – en það þótti ljóst að án málfrelsis gætu þær ekki annað en tapað. Prinsippin væru þannig að í vissum atriðum stæðu hinir göfugu – wokesterar fyrsta áratugs þessarar aldar – einfaldlega með óvinum sínum. Af því það væri rétt. Ég átta mig ekki á því hvenær afstaða róttækra vinstrimanna í þessu efni breyttist – hvenær sú afstaða sem í dag mótar alla umræðu og löggjöf um hatursorðræðu varð til (og augljóslega hafði hugmyndafræði Chomskys aldrei yfirhöndina – þá hefði Faurrison aldrei verið rekinn eða dæmdur – sem gerðist fyrst 1979 og aftur 2006). Sjálfsagt gerðist það bara smám saman og var viðbragð við auknum sýnileika hatursorðræðu. Eftir því sem réttindi minnihlutahópa urðu sjálfsagðari því reiðari urðu þeir sem þoldu ekki þróunina, og því einangraðri og orðljótari; og á sama tíma veitti internetið okkur sífellt betri innsýn í gardínulausa tilveru þeirra. Það var ekki lengur bara verið að uppnefna fólk á einhverri lokaðri kaffistofu heldur á almannafæri – á bloggum og kommentakerfum og svo samfélagsmiðlum – og þetta var ekki einn og einn eingraður vitleysingur heldur gátu allra verstu vitleysingarnir beinlínis rottað sig saman og magnast hver af öðrum. Og, sem skipti kannski meira máli, þegar þeir voru komnir nokkrir saman gátum við hin farið að ímynda okkur að þetta væru risastórar hersingar. Þrjátíu manns á sama kommentakerfinu virkar nefnilega einsog breið þjóðarsamstaða, þótt að baki geti bara verið þéttur vinahópur – sem nær ekki 0,1 PRÓMILLI af þjóðinni. Aldrei hafa jafn fáir getað virst jafn margir og þar með jafn hættulegir. En það breytir svo sem engu um upplifun minnihlutahópanna af óhróðrinum. Eða hinu að margir þeirra sem kvarta í dag yfir skorti á málfrelsi eru bara að kvarta undan gagnrýninni umræðu. Við erum öll svo ægilega viðkvæm. Aftur að tjaldinu. Á þessum tíma stafaði manni af einhverjum orsökum nógu lítil ógn af vitleysingum til þess að það mætti sýna svona og velta efninu einfaldlega fyrir sér – var eitthvað til í þessu? Hvað var þetta með burðarþol stáls? Maður gat óhræddur kynnt sér afstöðu þeirra sem afneituðu helförinni án þess að hafa áhyggjur af því að maður sjálfur – og varla nokkur annar – færi að falla fyrir rökunum. Þetta var bara forvitnilegt – ekki síst bara frá mannfræðilegu sjónarhorni, að þetta væri til. Kannski vegna þess að það var ekki svo auðvelt að sökkva sér ofan í kanínuholur kenninganna – efnið var einfaldlega ekki jafn ínáanlegt. Í dag smellir maður á einn hlekk og svo annan og stígur svo ekki upp frá tölvunni fyrren tveimur mánuðum síðar og þá með algerlega nýja heimsmynd. Og þar með er nám alltíeinu orðið hættulegt. Sem og allar kenningar sem standa utan þess sem almennt eru viðurkenndar. Af því gagnaflóðið er orðið svo mikið – og að einhverju leyti fjölbreytt og mótsagnakennt – að maður getur í raun ratað hvaða leið sem er í gegnum það, treyst sínum eigin sérfræðingum og fundið það sem styður það sem maður vill halda um heiminn, eða til vara látið aðra spekúlanta leiða sig í gegnum völundarhúsið og mála upp fyrir sig einhverja spennandi mynd, sem maður hefur sjálfur hvorki meiri né minni forsendur til þess að dæma úr leik en þá sem menntamálaráðuneytið vill helst hafa á námsskrá og viðskiptaráð vill hafa í fréttunum. Og þá stendur valið skyndilega milli þess að trúa á eðlufólk eða treysta hinu opinbera og/eða markaðinum fyrir heimsmynd sinni. Ef það versta við upplýsingaóreiðuna er allar röngu upplýsingarnar og fólkið sem trúir á þær, þá er það næstversta alveg áreiðanlega vantraust allra upplýsinga nema hinna opinberu útskýringa – og þar með vangetan til þess að efast um eða endurskoða heimsmyndina, einu sinni hýpóþetískt (án þess að breytast í eðlufólk).
Strokleðurbandalagið
Í morgun sá ég því haldið fram – um gamla nóvellu – að í henni væri ekki einu orði ofaukið. Hún væri fullkomin. Og af því ég er með mótþróaárátturöskun – ógreindur, erum við það ekki flest? – langaði mig strax að fara upp í hillu (ég á eintak) og finna í henni að minnsta kosti eitt orð sem væri óþarfi. Ég yrði hissa ef ég fyndi ekki strax á fyrstu síðu setningu sem mætti stytta um eitt orð eða fleiri án þess að breyta merkingu hennar til hins verra. En sennilega meinar þetta enginn bókstaflega. Líklega meinar fólk oftast: í þessari bók er ekki bruðlað með orð. Eða eitthvað í þá áttina. Og er áreiðanlega arfleið frá þeim tíma er við höfðum minni tíma – eða lásum meira af vaðli. Í dag eru langflestir textar sem maður les á bilinu 20-100 orð. Statusar og þannig. Og flest sem er 200-600 orð skimar maður bara. Fréttagreinar. Blogg. (Til upplýsingar er ég kominn í rétt rúmlega 150 orð núna). Það sem er komið yfir 600 orð þarf maður að ákveða að lesa – ætla ég, eða ætla ég ekki, að gefa mér tíma til að lesa þetta? (Til upplýsingar: Það tekur um 2-3 mínútur að lesa 600 orð í hljóði en um 4 mínútur að lesa þau upphátt – segjum 30 sekúndur að skima). Allt yfir 1.000 orðum – sem tekur um 7 mínútur að lesa – telst vera „a long read“. Allt yfir 20 þúsund orðum er orðið efni í stutta bók. 60 þúsund orð er meðallöng bók. 100 þúsund orð er löng bók. Nóvellan sem ég nefndi – eða nefndi réttara sagt ekki – hér áðan er ekki nema 14.466 orð. Og engu þeirra þykir ofaukið. Stundum er sagt um leiðinlegar bækur að þær hafi verið 100 blaðsíðum of langar. En auðvitað er það fyrst og fremst ljóður á leiðinlegum bókum. Eða aðfinnsla fólks sem leiðist einfaldlega að lesa. Sem segir manni að í raun sé það alls ekki lengdin heldur leiðinleikinn sem sé ámælisverður. Og hefði ekki endilega gert þessum 100 blaðsíðum of löngu bókum neitt gott að vera 100 síðum styttri. Eini kosturinn hefði verið að þær hefðu klárast fyrr. Sem eru ekki nein meðmæli með hinum síðunum. Það gætir líka ákveðins misskilning gagnvart orðafjölda. Eða þyngd orða réttara sagt. Flestu fólki finnst ekki þægilegt að lesa fá orð með mikilli merkingu. Þannig texti er stundum kallaður torf og torf getur þjónað ákveðnum tilgangi – það getur ekki allt verið léttmeti. Og maður les þannig texta ekki hraðar. Það tekur bara tiltekinn tíma að melta tiltekna merkingu. Þetta er svolítið spurning um þéttni í texta. Til þess að texti sé leikandi – að ég tali nú ekki um léttleikandi, tindilfættur og valhoppandi – þarf að vera rými í honum. Rétt einsog í tónlist, þar sem þagnirnar milli nótnanna eru líka tónlist. Í ritlist eru þetta ekki bilin milli orða (sem þjóna öðrum tilgangi) heldur merkingarminni orð og setningar, stuttir og langir útúrdúrar sem skapa rými, skapa loft, svo hugsunin fljóti vandræðalítið um. Það eru til verk sem hafa mjög háa þéttni – eru intens, jafnvel í langan tíma, fleiri hundruð síður, þar sem það þjónar hlutverki og er fallegt. En þau eru líka mónótónísk frekar en dýnamísk. Og höfundar sem beita (dómgreindar- og tilgangslaust) sama intensíteti þegar þeir lýsa litlu og stóru eru yfirleitt bara eitthvað að misskilja – þeir eru að leika „rithöfunda“ sem eru að skrifa „bókmenntir“ frekar en að vera rithöfundar og skrifa bókmenntir. Sá sem heldur að allar setningar í skáldsögu eigi að komast í „Perlur málsins“ veit ekki hvað skáldsaga er eða hvernig hún virkar. Ég segi ekki að það að skrifa texta þar sem engu er ofaukið sé sambærilegt við að skrifa tónverk með engum þögnum en það kallar óneitanlega fram svipuð hugrenningartengsl. En ef við gefum okkur að það sé líka verið að meina að þagnirnar séu allar á réttum stöðum – merkingarléttustu orðin og setningarnar – þá situr samt eftir hugmyndin um listaverk sem eitthvað sem er fullkomið á einn máta en alls ekki með neinu fráviki. Sem er fáránleg. Kannski væri Appetite for Destruction bara enn betri með einu aukalagi. Og kannski hefðum við aldrei saknað Rocket Queen ef við vissum ekki að það gæti verið til. Það sem er fullkomið er nefnilega fullkomið í eðli sínu – og stundum er eðli þess að vera 100 síðum of langt (eða of stutt) eða með „ofauknum“ orðum á stangli eða auka útlimum og nærsýnt og stundum er fullkomnið eðli þess fólgið í því að vera á einhvern ótrúlega sérstakan hátt meingallað.
Óreglulegar forsetningar
Ég get ekki ákveðið hvern ég vil kjósa. Ég er búinn að horfa á kappræðurnar á RÚV og lesa fullt af viðtölum en mér finnst bara ekki neitt af þessu sannfærandi. Það er enginn sem kallar á mig með einlægni sinni og lífsþrótti – þetta virkar allt eitthvað æft og leikið. Ekki síst handahreyfingar Höllu Hrundar og talandi Steinunnar Ólínu (af hverju hljómar hún einsog ítalskur fréttaþulur frá því fyrir seinna stríð). Jú – Jón er einlægur en hann virkar líka bara þreyttur. Enda vinnur hann víst 12 tíma vinnudag áður en hann byrjar á forsetaframboðinu. Viktor er einlægur en stífur og forsetaembættið er bara ekki jafn ferkantað og hann leggur upp með. Katrín er hæfust í þessum faglega skilningi en með mestan farangur. Halla Hrund og Baldur eru jöfn í að vera næsthæfust í sama skilningi en þau ná mér bara ekki – kannski bara vegna þess að ég trúi eiginlega ekki á því að þetta snúist um faglegt hæfi heldur einhvers konar töts (og líklega er það þess vegna sem ég er hallastur undir listamanninn Gnarr, ef hann fengi bara einhvern svefn!). Mér finnst þau öll þrjú – faglega fólkið – líka bara vera of dipló. Of kurteis. Of þjóðleg. Of miklar lopapeysur. Kindaknúsarar. Sennilega er það sameiningartáknsveikin. Ég sakna Elísabetar Jökulsdóttur. Það ætti eiginlega alltaf að hafa hana með í öllum kappræðum. Hún sér til þess að hlutirnir verði ekki of ruglaðir. Hún jarðtengir geimverurnar og dregur það mannlegasta fram í öðrum. Í Heimildinni fá frambjóðendur nokkrar „léttar spurningar“ þar sem þau eru meðal annars spurð hvað þau séu að lesa (eða hafi lesið síðast) – ég dæmi fólk (hart!) af slíkum upplýsingum – og þar kemur fram að af tólf frambjóðendum er einungis tveir eru með íslenskt skáldverk á náttborðinu. Alls voru fjórtán bækur nefndar: Halla T: The Anxious Generation – Jonathan Haidt Eiríkur Ingi: Perlur málsins (og segist eiga mest bara fræðibækur) Baldur: Land næturinnar eftir Vilborgu Davíðsdóttur Arnar Þór: Law in the time of crisis – Jonathan Sumption Ásdís Rán: Conversations with God – Neale Donald Walsch Katrín: Doppelgangur – Naomi Klein + The Secret Heart – Suleika Dawson (höfundur ekki nefndur, bara umfjöllunarefni, John Le Carré) – Dulstirni / Meðan glerið sefur – Gyrðir Elíasson Viktor: Síðasta setning Fermats – Simon Singh Halla Hrund: Lifað með öldinni , ævisaga Jóhannesar Nordal (no relation!) Steinunn Ólína: Bókin um veginn – Lao Tse Helga: 1984 – George Orwell Jón Gnarr: Kristján Eldjárn: Ævisaga – Gylfi Gröndal Ástþór Magnússon: Virkjum Bessastaði – Ástþór Magnússon (en segist lesa mikið um alþjóðamál í „bókum, tímaritum og myndböndum“) Er ekki hægt að lesa eitthvað í þetta? Það er náttúrulega mjög fyndið að Ástþór lesi bara gamla bók eftir sjálfan sig. Og líka fyndið að vera að lesa ævisögu annars forseta. Perlur málsins. Les fólk svona vegna þess að það sé best að lesa bókmenntir úr samhengi eða vegna þess að það sé þægilegt að geta baulað tilvitnunum og virst betur lesinn en maður er? Fordómapungurinn í mér segir að 1984 og Bókin um veginn séu ægilegar klisjur. Og Conversations with God er svona 20 ára gömul en gleymd klisja. Gyrðir er hot og kemur okkur í menningarliðinu til. Vilborg er alþýðleg, vinsæl og þjóðleg – sem tákn nær hún áreiðanlega víðar en Gyrðir. Haidt er rosa mikið í deiglunni – er ábyggilega efstur á öllum metsölulistum vestanhafs, svona dellubókin í ár. Klein gæti verið næst þar á eftir. Arnar Þór og Viktor eru að nördast í sínu – kannski eru það áhugaverðustu bækurnar að velja, stærðfræðin og lögfræðin, það segir eitthvað um viðkomandi, lýsir persónuleika. Krimmaspesjalistinn er reyndar líka að nördast með bók um krimmahöfund á borðinu – en ekki krimma, vel að merkja. Skáldverk: Þrjú. Ein ný ljóðabók, ein ný íslensk skáldsaga og ein gömul erlend. Ævisögur: Þrjár. Tvær um dauða íslenska karla; ein um dauðan erlendan ástmann. Ritgerðir: Átta. Eitt uppsláttarrit, þrjú pólitísk áköll, eitt stærðfræðirit, tvö trúarleg áköll með sjálfshjálparkeim, eitt lögfræðirit. Bækur sem ég hef lesið: Þrjár. Þið megið giska. Hlutfall skáldverka og bóka almenns eðlis er þrjár á móti ellefu. Það er hræðilegt! Sá sem lifir ekki í skáldskap, und so weiter, einsog kveðið var. Höfundar: Fjórir bretar, þrír bandaríkjamenn, einn kanadamaður, einn kínverji og fimm íslendingar. Þrjár konur, tíu karlar, eitt safnrit (ábyggilega mest karlar). Það er merkilegt að það er enginn meginlandsevrópumaður í hópnum (nú gæti maður líka viljað telja upp a.m.k. afríku og s-ameríku líka og væri nokkuð til í því en hin klassíska kanóna er samt mjög meginlands, en hér er meginlandið bara horfið). Og enginn skandinavi. Meginlandið gæti talist tilgerðarlegt og norðurlöndin lúðaleg. Allir útlendingarnir nema einn enskumælandi. Og sú bók er líka sú einstök hvað varðar tímaskeið. Þetta er allt seinni hluti 20. aldar eða nýrra nema Bókin um veginn sem var rituð á sjöttu öld fyrir krist – og svo ekkert fyrren 1949. Ég er ekki viss um að þetta segi manni neitt um frambjóðendurna sem slíka – en kannski eitthvað um hvaða týpur það eru sem bjóða sig fram. Og tímana sem við lifum. Maður hlýtur að hafa svolítið mikilmennskublæti. Og leiðbeiningarblæti. Það hlýtur að fylgja viljanum til valds – viljinn til að standa á stalli og benda öðrum hvert þeir eigi að fara (það er bókstaflega starfslýsingin, þegar ég hugsa út í það, með einhverjum fyrirvara um það hversu mikið maður eigi að hlusta á pöpulinn eða ekki). Þetta hjálpar mér reyndar ekki mikið. Það er engin bók þarna sem ég tengi sérstaklega við. Ef ég væri enn með Starafugl myndi ég nota tækifærið og senda út ítarlegri spurningalista til að fá skýrari mynd af lestrarvenjum þessa fólks. Fá þau til að velja eitt íslenskt og eitt erlent nútímaskáldverk, eina klassík, eitt íslenskt ljóð og eitt erlent, eina íslendingasögu, eitt trúarrit, eitt sagnfræðirit – hvað er skrítnasta bók sem þú hefur lesið, hvað er erfiðasta bók sem þú hefur lesið, hvað er síðasta bók sem þú gafst, hvað er eftirminnilegasta bók sem þér hefur verið gefin, hvað er besta bók sem þú hefur lesið fyrir barn (ef þú átt barn og hefur ekki lesið fyrir það á auðvitað fyrr að kjöldraga þig en kjósa), hvað er síðasta bók sem þú gafst upp á, áttu margar bækur, áttu kindil, ertu með hljóðbókaáskrift, sækirðu bókasöfn, hefurðu skrifað bók, hefurðu skrifað ljóð, hefur einhver skrifað um þig ljóð, skipta bókmenntir máli, skiptir skáldskapur máli? Svo mætti líka spyrja um leikbókmenntir og leikhús, myndlist, tónlist og kvikmyndalist – en ekki um sjónvarp, það er alveg nóg spurt um sjónvarp og það er bara ekki svona merkilegt.
Með veislu í farangrinum
Grikkland og Napolí voru sjálfum sér lík og einstök. Á köflum meira að segja einsog hálfgerðar klisjur. Á tímum þar sem manni finnst allir staðir meira og minna vera að breytast í sama staðinn – sams konar stað þar sem fólk borðar sama matinn (les = allt alltaf í boði og annað skandall), hlustar á sömu tónlistina (les = einhverja gervigreindarspilunarlistasamsuðu), hefur sama þjónustuyfirbragðið (les=ameríska starbucks staðalbrosið), fer í sömu verslunarkeðjurnar og svo framvegis – er maður þakklátur fyrir klisjurnar sem skilja staðina í sundur og gefa þeim karakter. Þakkátur fyrir Grikki sem afgreiða mann með afslöppuðu fálæti, kveikja svo í sígarettum á sínum eigin „reyklausu“ veitingastöðum, fá sér í glas og grípa bouzouki af veggnum til þess að leika sér með vinum sínum og samstarfsmönnum; eða Napolíbúa sem smjaðra fyrir Frökkunum á næsta borði en sýna manni sjálfum gríðarlegt, eiginlega alveg stjórnlaust yfirlæti, af því þeir halda að maður sé Þjóðverji (fussa yfir vínpöntuninni og snúa matarpöntuninni á haus). Í matvöruverslun varð mér á að biðja um „bag“ til að setja matinn í og afgreiðslumaðurinn – karl á fertugsaldri – æpti á mig. „Busta! Busta!“ – ég baðst velvirðingar og sagði „busta, prego“. Þá hló hann að mér og spurði hvaðan við værum (á ensku – en við svöruðum bara á napólsku: Islanda). Dagarnir í Grikklandi einkenndust mikið af því að þurfa að fara snemma á fætur og sofa þess vegna lítið og dagarnir í Napolí einkenndust af því að fara mjög seint að sofa og sofa ekki fram eftir degi – meðaltalssvefninn síðustu tvær vikurnar er varla nema 4-5 tímar á nóttu. Ég er í samræmi við það enn frekar þreyttur. *** Ég las Mrs. Dalloway á leiðinni til Napolí og A Moveable Feast á leiðinni til baka (sem var viðeigandi af því ég var bókstaflega með veislu í farangrinum – ríflega 2 kg af ítölskum og grískum ostum, tæplega1 kg af kjöti, rauðvín, freyðivín, tsipouru, hunang, súkkulaði, ólífur, kryddblöndur, 5 lítra af ólífuolíu, ítalskt vesúvíusarkaffi og úrval af bókum á ensku og frönsku). Báðar tengjast þessar bækur James Joyce – Mrs. Dalloway er augljóslega skrifuð undir miklum áhrifum af Ulysses og felur það ekkert. Sérstaklega á fyrstu síðunum, þar sem birtast fjölmörg kunnugleg element – samlokumenn, söguhetja skoðar í búðarglugga, reynir að velja bók fyrir rúmliggjandi konu, og margt, margt fleira – en líka auðvitað í nýju teiki á vitundarflæðinu úr Ulysses og þessari tilraun til þess að lýsa augnablikinu frá mörgum hliðum, skima yfir trámatískan hversdagsleikann í heilli borg og rýna inn í heilabúin sem sjúga borgina í sig. Og allt gerist á einum degi – meira að segja júnídegi. Það er augljóst að Woolf hefur viljað vera stýrðari og einbeittari í sinni sýn – hún er ekki maximalisti einsog Joyce, hún er fínlegri en það er líka margt sem glatast við fínlegri aðferð. Ég þekki auðvitað bara eina vitund, mína eigin, og hún er talsvert líkari því sem sögupersónur Joyce upplifa – en á móti kemur að Mrs. Dalloway er miklu auðlesnari og aðferðin skiljanlegri. Og ekki að þetta sé keppni, en hún er langt frá því að ná Ulysses (og fyrir mína parta er Orlando líka meistaraverk Woolf). Ég hafði gleymt miklu úr A Moveable Feast á þeim tæplega 30 árum sem eru liðin frá því ég las hana síðast. Ég mundi ekki einu sinni atriðið þar sem F. Scott Fitzgerald játar fyrir Hemingway að hann hafi áhyggjur af limstærð sinni – Zelda sé ekki ánægð – og fær Hemingway til að líta á liminn fyrir sig. Sem Hemingway segir bara mjög fínan. Joyce kemur minna fyrir en ég var að vona. Hann er nefndur á stöku stað en that’s about it. Og ekki stakur stafur um liminn á honum. Hemingway nefnir að Gertrude Stein vilji ekki heyra á hann minnst – og verði manni á að nefna hann tvisvar sé manni ekki boðið aftur á 27 Rue de Fleurus. Stein og Joyce eru augljóslega róttækustu módernistarnir í París – a.m.k. af þeim sem skrifuðu á ensku – og henni virðist hafa stafað ógn af honum. Ég hef enn ekkert séð um afstöðu hans til hennar. Það er líka áhugaverð sena um vinslit þeirra Stein og Hemingways. Í meira lagi dulúðug. Hemingway birtist á heimili Stein, þjónustustúlkan tekur á móti honum, hleypir honum inn og gefur honum að drekka. Á meðan hann bíður heyrir hann óvart samræður – einhver talar við Gertrude Stein á slíkan máta að hann hefur aldrei heyrt annað eins. Við fáum ekki að vita hvað er sagt. En Stein svarar auðmjúk og þjáð: „Please don’t. Please don’t, pussy.“ Og Hemingway áttar sig á því að hann hefur orðið vitni að einhverju sem hann mátti alls ekki verða vitni að og lætur sig hverfa. Og útskýrir svo ekkert meira. Þessi samskipti hafa á sér einhvern furðulega kynferðislegan blæ. Ég sá að einhver hafði túlkað þetta sem einhvers konar sambandsslit – að Stein væri að biðja elskhuga að fara ekki – en minn fyrsti lestur var að Hemingway hefði orðið vitni að ástarleikjum Stein og Toklas, einhverjum BDSM eða hlutverkaleik. En það kemur auðvitað ekkert fram um það. Ef helsti styrkur Joyce er að hlaða á mann öllum veruleikanum og leyfa manni að reyna að troða í honum marvaðann, þá er styrkur Hemingways einmitt þessar eyður sem hann skilur eftir – sem kalla á jafn kreatífa úrvinnslu og ofgnótt Joyce. Við getum einfaldlega ekki lesið senur þeirra án þess að beita okkur, getum ekki verið passíf, verðum að spyrja okkur spurninga, fylla í eyður og búa til tengingar. Kannski eru kraftmestu bókmenntirnar alltaf gæddar þessu eðli – að fá okkur til að hugsa, einsog góð tónlist fær okkur til að dansa. *** Af listaferli mínum er það helst að frétta að Náttúrulögmálin hefur tvisvar nýlega verið tekin upp í „Lesanda vikunnar“ á RÚV. Margrét Helga Erlendsdóttir, fréttakona á Stöð 2 og bókmenntafræðingur, var mjög ánægð með hana – og lýsti raunar almennri ánægju bara með allt sem ég hef skrifað (!!!). „Það skín í gegn svo mikil frásagnarást – textinn er svo lipur og hann segir svo skemmtilega frá. Mér finnst hann vera í essinu sínu þarna.“ Margrét talað líka um Moments of Being , sjálfsævisögu Virginiu Woolf – sem ég á ólesna og ætla að sinna fljótlega. Svo kom Heiðar Ingi Svansson , formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, tveimur vikum síðar og var ekki síður kátur – sagðist hafa sogast inn í hana (og nefndi líka sérstaklega Illsku sem eftirlætisbók). Og sagði um Náttúrulögmálin eftir áhugaverðar útleggingar: „Fyrst og fremst er þetta bara frábær bók.“ Þá hafa lögin fjögur sem Gosi flutti í Stúdíó RÚV birst á Spotify og eitt myndband á Facebook . Þar leik ég á bassa. Tónlistin hans Andra Péturs er ótrúlega lunkin og skemmtileg – og hljómsveitin (auk mín, Valgeir Skorri Vernharðsson á trommum, Friðrik Margrétar- Guðmundsson á svuntuþeysurum, Marta Sif Ólafsdóttir syngur – einsog Andri Pétur, sem leikur líka á gítar) er æði og mér var mikill sómi sýndur að fá að spila með þeim (einsog raunar með Baldri Páli sem spilar venjulega á slagverk með okkur Andra). Og loks vann Fiðlarinn á þakinu til verðlauna á þingi BÍL sem athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins – sem þýðir að hún fer vonandi á fjalir Þjóðleikhússins í sumar (en til þess þarf væntanlega að ná öllum hópnum saman – sem ég átta mig ekki á hvort er gerlegt, en það kemur áreiðanlega fljótt í ljós).