Annað fólk

Þetta hefur verið undarlegt ár. Eða kannski er „óvenjulegar vikur“ réttara orðalag – það er víst enn nóg eftir af árinu. Yfirleitt eru síðustu mánuðir ársins – jólabókaflóðið – orkufrek vertíð sem svo lýkur á jólum og við tekur afar einrænn og rólegur tími hjá mér. Jafnvel umkomulaus og þungur. En í ár hef ég verið á hvolfi í leikritinu og umkringdur fólki langt fram á kvöld alla daga vikunnar. Sennilega er það miklu hollari leið til þess að eyða svartasta skammdeginu en hin. Ég vann svolítið í ljóðabók – það verður brot í næsta TMM – flutti erindi um loftslagsmál, skrifaði stutta grein í leikskrána og nostalgískan pistil í Heimildina. Annars kom ég litlu í verk fyrir utan lestur. Nú er ég í Reykjavík til þess að spila á bassa með Gosa í þáttum sem heita Stúdíó RÚV. Við erum Baldurslausir en Andri fékk Valgeir úr Celebs og Friðrik úr Kvikindi til þess að spila með okkur – og ég held þetta hafi bara svínvirkað. En nú er öll orkan sem ég átti búin. Eftir svolítið langt keyrslutímabil, eiginlega frá því í september – túr, jólabókaflóð, Fiðlari og smá Gosi í restina. Allt hefur þetta samt verið dásamlegt og nærandi, en oft líka keyrt á einhverjum umframorkubirgðum. Ef ég héldi að það gerði mér eitthvað gagn myndi ég sennilega sofa fram á páska en ætli ég reyni ekki fyrst og fremst að tjúna mig svolítið niður, borða hollari mat og hreyfa mig. Og sofa betur, ef ég get. Fiðlarahópurinn var ótrúlegur. Fyrir utan hæfileikana, sem var sannarlega nóg af, var líka bara einhver lífskraftur, gleði og metnaður í samstarfinu. Og ég held við höfum smitað og magnað gleðina, kraftinn og metnaðinn hvert í öðru – með passlegri blöndu af fíflagangi og aga. Það er líka ótrúleg tilfinning að fylgja svona vinnu í höfn og koma á svið verki sem ég held að sé óhætt að fullyrða að hafi raunverulega orðið mjög gott (þótt það hafi ekki alltaf litið út fyrir að svo yrði). Maður verður meyr og fullur kærleika og svo tók við söknuður strax og þessu lauk – alveg þvert ofan í þreytuna, sem ég veit að hrjáði fleiri en mig. Þórhildur hafði á orði á einni æfingunni, þegar við vorum alveg orðin útúrrugluð af kátínu, að alveg væri það furðulegt hvað fólk nútildags dansaði og syngi lítið miðað við hvað það væri augljóslega gefandi. Það er kraftur í því að hreyfa sig sem heild, láta í sér heyra sem heild, sem er til dæmis augljós öllum sem reka heri – þar er þessu beitt sem verkfæri til þess að skapa samkennd milli vígamanna, því heildinni getur auðvitað fylgt öðrun þeirra sem utan hennar standa (= þegar ég tel upp þá sem ég elska er ég líka að telja upp þá sem ég elska ekki; þegar ég tel upp þá sem ég myndi deyja fyrir tel ég líka upp hina). En leikhúsið er ekki vígvöllur, í leikhúsinu er tilgangurinn þveröfugur – þar verður leikhópurinn heild til þess að hræra og uppljóma hina , að drita tilfinningum í gegnum fjórða vegginn – og samkenndin ómenguð af fávitaskap. Ein eftirminnilegasta æfingin, svona eftirá, var ljósaæfingin. Kannski bara af því hún var svo ólík hinum. Hún tók allan daginn og við skiptum okkur niður á vaktir. Það þurfti aldrei nema tvo-þrjá til að standa hér og standa þar meðan tæknifólkið úti í sal réði sínum ráðum. Og sennilega þögðum við uppi á sviðinu mestallan tímann. En ég man við fórum einhvern tíma að tala einmitt um það hvaða menning væri nærandi og hvaða ekki – ef ég man rétt út frá hugmyndinni um að það væri eiginlega alltaf nærandi að fara í bíó, þótt myndin væri léleg, af því þar væri annað fólk, en sama mynd gæti reynst hálfgerð auðn heima í stofu. Eða gæti gert úr manni sjálfum auðn í sófanum, holað mann að innan. Og það væri oftast nærandi að lesa úr bók en ekki endilega af skjá. Þversögnin er svo auðvitað sú að menningarupplifun sem krefst einhvers af manni – einsog t.d. bara að maður standi upp og rölti út í bíó frekar en að kveikja á risaskjánum heima í stofu – skilur við mann hressari á sálina en sú sem á að heita „fyrirhafnarlaus“ og maður velur af því maður nennir ekki hinu. Fyrirhafnarleysið getur hæglega skilið við mann úrvinda og jafnvel hálf-vonlausan; á meðan fyrirhöfnin getur fjörgað mann. En punkturinn var (og er) sem sagt sá að það er yfirleitt alltaf meira nærandi að vera innan um aðra. Og það er meira nærandi og meiri kærleikur í viðstöðulausum fimmaurabröndurum í táfýlumettuðum búningsklefa en í því að liggja einn með fartölvu í kjöltunni og horfa á heimsins færustu fagmenn í gríni leika sínar dýrustu listir. Og eftir margar vikur í einmitt svona táfýlubúningsklefa var þetta svo átakanlega ljóst. Að því sögðu er ég enn talsmaður einverunnar – ég nýt mín mjög vel einn og sennilega þyrfti ég að skipta um starfsvettvang ef það færi að breytast mikið (og nei, eins gaman og það er, blundar ekki í mér löngun til þess að verða dansari, leikari, söngvari eða gítar/bassaleikari, þó ég áskilji mér rétt til þess að sinna slíku í hjáverkum, eftir því sem ég hef orku til). En mikið er annað fólk líka ágætt. Og ekki síst vinir mínir í Fiðlaranum.

Menning og peningar

Hvað eru margar skáldsögur í einum manni? Eru fleiri skáldsögur í mér? Eru þær kannski allar búnar? Svona hugsar maður þegar maður er ekki byrjaður – eða gengur ekkert að byrja – á nýrri skáldsögu. Og einn daginn hlýtur svarið að vera: nei, nú er ég bara búinn með allar skáldsögurnar í mér. Er það ekki? Ég man eftir því að hafa lesið einhvers staðar að það væri a.m.k. ein skáldsaga í öllum – og oft væri hún einmitt ansi æsileg og þaðan kæmi krafturinn sem býr í mörgum byrjendaverkum, og þess vegna væri bók tvö oft svona þunnildisleg. Höfundurinn væri búinn með fríspilið sitt og ekki búinn að átta sig á því að nún þyrfti hann/hán/hún að fara að vinna fyrir hlutunum. Ég man líka eftir að hafa hvæst – þegar ég var enn á þeim aldri að ég hvæsti – á vin minn, sem var að barma sér svipað og ég nú, að ef maður hefði ekkert að segja ætti maður bara að sleppa því að segja eitthvað (ég sagði m.a.s. ábyggilega „halda kjafti“). Það væri ekkert verra en að kreista upp úr sér skáldskap. Að sögur segi maður af þörf – stundum jafnvel kvöð – en ekki af því mann langi að hafa sagt sögu. (Margt af þessu má færa beint yfir á ljóðlist en af því þar virka hlutirnir aðeins öðruvísi – a.m.k. í hausnum á mér – læt ég þau liggja á milli hluta í bili). Og margir hafa líka orðið til þess að benda á að það er nóg af bókum til; maður gæti lesið eintóm meistaraverk það sem eftir lifir ævinnar og aldrei orðið uppiskroppa. En sem sagt, nei, ekki í dag, Satan, ég er ekki hættur. En mér gengur samt ekkert að byrja. *** Talandi um meistaraverk. Ég pantaði mér afar veglegan haug af bókum á dögunum og þær voru næstum allar gamlar. Nýjastar voru bækurnar í árstíðafjórleik Ali Smith en elst Jane Eyre eftir Charlotte Brontë. Stærst og þykkust var ekki Infinite Jest, sem er annars mjög oft mesti doðranturinn í sinni hillu, heldur The Cambridge Centenary Ulysses: The 1922 Text with Essays and Notes. Hún er svo stór að það er nánast kómískt. Þynnst var The Old Man Who Read Love Stories eftir kunningja minn, heitinn, Luis Sepúlveda. Þá eru ótaldar – hvorki þynnstar, þykkastar, elstar eða nýjastar – Gravity’s Rainbow eftir Thomas Pynchon og Mrs. Dalloway eftir Virginiu Woolf. Margar þessara bóka eru reyndar þess eðlis, skilst mér, að þótt maður læsi aldrei aðra bók en bara þá einu myndi manni ekki endast ævin til að komast til botns. Ég hafði samt séð fyrir mér að klára þær í ár. *** Þórdís Gísladóttir, vinkona mín, droppar nokkrum bombum í viðtali í Bara bókum á dögunum, og ein þeirra er áreiðanlega ætluð mér – að besta leiðin til þess að fá tilnefningu til bókmenntaverðlauna sé að skrifa doðrant um fortíðina. Kannski er þetta líka ætlað Dúnstúlku Bjarna og Landi næturinnar eftir Vilborgu – þótt ég myndi ekki sjálfur kalla 300 blaðsíðna skáldsögu doðrant getur verið að aðrir geri það. (Undir 200 er stutt, 200-350 meðallöng, 350-450 löng, 450 plús doðrantur). Ég veit ekki hvort maður á að elta ólar við svona pot en auðvitað skrifar enginn til þess að fá bókmenntaverðlaun eða tilnefningar. Og þegar ég renni yfir listann yfir sigurvegara eru þetta næstum til skiptis bækur um fortíðina eða eitthvað mjög samtímalegt. Sigurvegarinn í ár var einmitt 170 bls samtímaskáldsaga um eldgos á suðurnesjum. *** Ég lauk við Money eftir Martin Amis einhvern tíma í síðustu viku. Hún er á kanónulistanum mínum yfir bækur sem mér finnst að ég eigi að hafa lesið en hef ekki lesið. Kannski mætti líka kalla þetta bækur sem mig hefur lengið langa að lesa en hef veigrað mér við af ólíkum ástæðum. Money hafði ég nú bara ekki lesið af því ég rakst aldrei á eintak fyrren ég gerði mér far um að panta það. Ég er þá búinn að tékka af rúmlega þrjár af þessum lista frá áramótum – House of Leaves eftir Mark Z. Danielewski, Stríð og frið, Money og tæplega tvær bækur úr Dala-lífi Guðrúnar frá Lundi. Money er fyrst og fremst alveg ofsalega kraftmikil bók – hálfgerð textasprengja. Ég sé að BBC gerði úr henni tveggja þátta mini-seríu 2010, sem mér finnst eiginlega að hljóti að hafa mistekist hrapalega – það er varla að ég sjái fyrir mér að hægt sé að þýða hana svo vel sé, hvað þá aðlaga hana að miðli þar sem tungumálið er ekki í aðalhlutverki. Money fjallar um breskan auglýsingaleikstjóra, John Self, sem er að fara að gera sína fyrstu bíómynd í Bandaríkjunum en missir gersamlega stjórn á eigin hamslausu hvötum. Ef maður les fyrir plott held ég að maður myndi fyrst gera athugasemd við hvað það er lengi í gang – það gerist eiginlega ekkert fyrstu 300 síðurnar nema að John Self étur, drekkur, rúnkar sér og horfir á klám. Á meðan undirbúningur bíómyndarinnar situr á hakanum eða í besta falli silast áfram. Svo fer reyndar glæsilegt plott í gang fyrir rest. En það væru samt mistök að taka þessa bók upp til þess að komast í plott – hún er ýkt samtímalýsing (sem einhver sagði reyndar að væri löngu hætt að vera ýkt). Amis hefur sjálfur sagt að Money sé bók um menningarleysi – gott ef hann stillti því ekki upp þannig að það væru tvö öfl í heiminum, peningar annars vegar og menning hins vegar, og að í Money væru peningar fullkomlega í öndvegi. Það var í því samhengi sem hann lét orðin um „krampakennda heimsku“ samtímans falla, sem ég vitnaði til í loftslagspistlinum í síðustu viku – og hann spáði þar líka réttilega fyrir um að sú heimska myndi í framtíðinni virka á okkur sem hálfgerður intellektúalismi. Martin Amis er vel að merkja sjálfur minniháttar sögupersóna í Money. Germaine Greer, sem var ástkona Martins Amis og skrifaði honum frægt 30 þúsund orða ástarbréf, tók viðtal við hann og sagði þessa útgáfu af Martin Amis sem birtist í bókinni vera mjög kontróleraða og að hún sjálf sæi talsvert af Martin í hinum vægast sagt óheflaða John Self. Við þeirri fullyrðingu glotti Martin afar strákslega og svo var klippt áður en nokkuð fleira var sagt.

Það er heitt og það hitnar

– um hamslausu þenslunnar hamslausu þenslu ( erindi flutt á RECET ráðstefnu Vestfjarðastofu um loftslagsmál og orkuskipti ) I Það er margt sameiginlegt með hagkerfum og hákörlum. Ekki síst að hætti þau að sprikla sökkva þau bæði strax til botns. Við skulum segja að Guð hafi gert hákarlinum þetta í einhverjum kvikindislegum galsa, en það var ekki Guð sem skapaði hagkerfið, það gerðum við sjálf og við sköpuðum það í mynd hákarls og við gáfum því þennan eiginleika: annað hvort stefnir það að viðstöðulausum vexti eða það hrynur og tekur okkur öll – eða segjum velflest – með í fallinu. Ég veit ekki hvort þessi hönnun er viljaverk eða hvort þetta er bara afleiðing þess að hún er verk manns – dýrs sem er í þeirri stöðu að dómínera yfir náttúrunni, frekar en að vera upp á náð hennar og miskunn komin, einsog aðrar skepnur merkurinnar. Allt líf hefur tilhneigingu til þess að vilja sigrast á kringumstæðum sínum og breiða úr sér án tillits til þess skaða sem slík útbreiðsla kann að valda. Það hefur bara ekki öllu lífi tekist að komast í þá stöðu að vera því sem næst ósigrandi – við erum ein um að vera ósigrandi og því fjölgar okkur ekki bara stöðugt heldur verður sífellt breiðara undir rassgatinu á hverju okkar, ekki síst svona að meðaltali. Sem væri kannski ekki vandamál nema fyrir þetta litla smáatriði að hámörkun framleiðslunnar felur í sér meiri ágengni gagnvart reikistjörnunni sem við búum á en hún þolir til lengri tíma – einsog hefur verið tíundað í svo mörgum vísindalegum ritgerðum að maður gæti ætlað að tegundin sem skrifaði þær kynni sér ekkert hóf. En ef það er eitthvað sem getur beint okkur af braut hins viðstöðulausa vaxtar og sjálfstortímingarinnar sem hann boðar er það hitt sem skilur okkur líka frá skepnunum, svo rækilega að það er kennt við okkur, menningin, og þá meina ég menning í víðasta skilningi, að gera hlutina vel, „að geta vitað betur“, að geta lesið í kringumstæður, séð fyrir skaðann sem við völdum og það hvaða afleiðingar hann getur haft fyrir okkur, ekki bara í næstu viku heldur næstu ár og áratugi, og hafa næga samkennd til þess að láta okkur þær varða og bregðast við. Þetta eru valkostirnir: menning eða dauði. II „Íslendingar fara í víking einsog forfeðurnir forðum“ – sagði fulltrúi Skrifstofu viðskiptalífsins í viðtali við blaðamann tímaritsins Vinnunnar árið 1990 og vísaði þar til verslunarferða Íslendinga til Glasgow sem notið höfðu mikilla vinsælda frá því í byrjun níunda áratugarins. Í sama blaði er rætt við húsmæður sem sótt hafa borgina heim fyrir hver jól árum saman. Þær ganga ekki svo langt að tala um víking en segja þetta þó „hreinar vinnuferðir“, enda séu þær mættar fyrir utan búðirnar í Buchanan-street fyrir opnunartíma og láti reka sig út við lokun. Þá fara þær og fá sér nautasteik á einhverju veitingahúsa borgarinnar, enda kostar slíkt lostæti sama og ekkert í paradísar-Glasgow. Bætir ein því við að sig dreymi um að geta einn daginn tekið karlinn með og gert úr þessu skemmtiferð. Á þessum árum þótti vöruverð á Íslandi afar óhagstætt, sérstaklega miðað við skoska verðið, og ef keypt var nóg af ódýrum vörum mátti hæglega afskrifa kostnaðinn við bæði flug og hótel – raunar voru líka dæmi um að fólk flygi einfaldlega út að morgni og kæmi aftur að kvöldi, og núllaði þar með hótelkostnaðinn. Ferðir af þessu tagi voru ekki einsdæmi fyrir Íslendinga – margar þjóðir sóttu og sækja heim nágranna sína í leit að ódýrara vöruverði og í sumum löndum ferðaðist fólk langa vegu innanlands til þess að komast á útsölur heildsölurisa sem haldnar voru í gígantískum lagerbyggingum í fjarlægum sveitum. Vesturlandabúar voru komnir með kreditkort og þurftu að kaupa dúnúlpur á krakkana, spariskó fyrir jólaböllin, æsandi undirföt, samstæða jogginggalla, buxnapils, velúrsloppa, fjarstýrða bíla, teygjulök á rúmið, vinnuskyrtur, star wars kalla, sérrístaup, hársprey og stígvél. „Auðvitað keypti ég fyrir meira en sjö þúsund krónur“, sagði kona ein nýkomin frá Glasgow við blaðamann DV árið 1986, en sjö þúsund krónur var hámarkið sem flytja mátti inn fyrir án þess að greiða toll. „Þeirri upphæð eyddi ég í fríhöfninni“ hélt hún áfram og benti á poka með fleiri hundruð sleikibrjóstsykrum. Voru allir viðmælendur allra fjölmiðla sammála um að enginn léti sér hámarkið duga og að flestir versluðu fyrir á bilinu 40-50 þúsund krónur. (Ég veit ekki hversu mikið það segir manni að 40 þúsund krónur þá séu tæplega 400 þúsund í nútíma krónum en til auka-viðmiðunar má nefna að í sama blaði kemur fram að þetta ár hafi lítil kók kostað 20 krónur en tvö grömm af kókaíni 9 þúsund krónur). III Í sögubókum Vesturlanda blasir þetta við, rétt einsog það gerir í skáldsögum og bíómyndum. Níundi áratugurinn var öld ofgnóttarinnar. Ofan á verslunarferðir bættust sólarlandaferðir, ofan á sólarlandaferðir sólbekkjaferðir, ofan á sólbekkjaferðir kokteilar og kókaín, hlutabréf, spegladiskó, skýjakljúfar, hversdagsleg geðlyfjanotkun, álfelgur, bílasímar og spoilerar, vígbúnaðarkapphlaup og kjarnakljúfar, vasadiskó, vídjótæki og æfingamyndbönd og sístækkandi verslunarmiðstöðvar fyrir sístækkandi fólk með sístækkandi þarfir. Þetta var áratugurinn sem færði heimsbyggðinni Donald Trump, Margaret Thatcher og Ronald Reagan, áratugurinn sem frjálshyggjan tók yfir sem hin ráðandi hugmyndafræði, áratugurinn sem við ákváðum hvort við værum kókfólk eða pepsifólk, makkafólk eða pc-fólk, áratugurinn sem Truman Capote tók fyrir í Bonfire of the Vanities , Don DeLillo tók fyrir í White Noise , Jay McInerney tók fyrir í Bright Lights, Big City og áratugurinn sem Bret Easton Ellis tók fyrir í Less Than Zero og American Psycho . Við drekktum okkur í vellystingum í krafti aukins kaupmáttar og með aðstoð listarinnar horfðumst við í augu við okkur sjálf, keyptum sjálfsþekkinguna í bókum og bíómiðum, svo til óhrædd í fyrstu, kannski jafnvel bara dálítið stolt og glöð, en komumst engu að síður fyrir að rest að óyggjandi niðurstöðu: Við vorum viðbjóðsleg. Þetta hafði verið hræðilegur áratugur. Og ef við héldum svona áfram myndum við fljótt ganga af heiminum dauðum. Nú skyldum við skammast okkar. Síðan þá eru allir okkar dagar ýmist markaðir kapphlaupi eftir óverðskuldaðri hugarró eða tignun eigin grunnhyggni. IV Árið 1989 var heimurinn sem sagt á fleygiferð. En árið 2020 stóð hann kyrr. Ekkert gerðist og við gerðum ekkert. Utan við gluggann geisaði auðvitað heimsfaraldur en inni var kyrrðin svo kraftmikil að brátt fóru að berast út flökkusögur um að þarna úti væri „náttúran“ að leggja undir sig heiminn aftur – að höfrungar og svanir svömluðu í síkjum Feneyja og drukknir fílar skakklöppuðust um kínverskar borgir, skóglendi væri jafnvel að byrja að breiða úr sér út á hraðbrautir. Þetta voru falsfréttir en við sáum þessu sjónvarpað í símunum okkar og þetta var stórfenglegt þótt þetta væri lygi – og það var ekki allt sem við sáum lygi og sumt af því var jafnvel álíka tilkomumikið. Mislægu gatnamótin voru vissulega auð, verksmiðjuskorsteinarnir blésu engum reyk og flugvélar heimsins stóðu kyrrar í skýlum sínum. Á himninum yfir Ísafirði urðu þoturákir sjaldgæfari en glitský. Foreldrar kenndu börnum sínum heima, einstæðingar bökuðu súrdeigsbrauð, skrifstofufólk mætti á fundi í náttfötunum, jafnvel enn uppi í rúmi, og draumóramenn spurðu hvers vegna þetta gæti ekki alltaf verið svona? Þá væri kannski einhver von, sögðu hin heimakæru, meðan aðrir gnístu tönnum. Í stað þess að fara til Tene fórum við upp á næsta fjall. Í stað þess að fara í borgarferðir ferðuðumst við í huganum og í stað þess að fara út að borða lærðum við að elda framandi rétti af YouTube myndböndum. Milli þess auðvitað sem við sulluðum örvilnuð í áfengisbirgðum okkar, skrolluðum facebook, doom-skrolluðum fréttamiðlum, störðum í baðherbergisspegilinn, störðum á sálarlausa kollega okkar á zoom – sjálfsvirðingarlaust fólk sem var ekki einu sinni komið úr náttfötunum – og íhuguðum sjálfsmorð af leiðindum. Heimurinn stóð kyrr. Það gerðist ekkert og við gerðum ekkert. Á einu augnabliki drógust flugferðir ferðamanna milli landa saman um nærri því þrjá-fjórðu hluta – einsog smellt hefði verið fingrum. Þegar rýnt var í tölurnar kom í ljós að svona lítið höfðum við hreinlega ekki flogið frá árinu … 1989. Við ferðuðumst sem sagt jafn mikið þetta ár sem heimurinn stóð kyrr og við gerðum síðasta árið fyrir efnahagslægð tíunda áratugarins, á gullöld sólarlanda- og verslunarferða, þarna rétt undir lok áratugs hinnar hamslausu ofneyslu, þegar fólki þótti ekki tiltökumál að skjótast til Glasgow dagspart til að kíkja í Marks og Spencer. Þá hafði það verið mikið – nýtt met slegið á hverju ári, aldrei höfðu jafn margir farið jafn víða – en þrjátíu árum síðar voru öll þessi met jafngildi fullkominnar kyrrsetu. Sannarlega hafði okkur fjölgað á þessum tíma og fleiri okkar höfðu nú fjárráð til að ferðast, en okkur hafði ekki fjölgað svona mikið og misskiptingin var jafnvel meiri en áður. Það sem hafði breyst var fyrst og fremst afstaða okkar til ferðalaga – það var ekki lengur stórmál að stökkva milli landa. Það fylgdi því ekki lengur viðtal í DV. Þrjátíu árum fyrr hefði helgarferð til Kaupmannahafnar a.m.k. kallað á ljósmyndasýningu fyrir kollegana – seinnipart vikunnar, þegar myndirnar væru loks komnar úr framköllun – en nú tók því varla að nefna það, ekki frekar en bara að Selfyssingur hefði kíkt til Hveragerðis. Og ef maður gerði sér ferð til Glasgow þótti orðið sjálfsagt að taka karlinn með. Kolefnisútblástur hefur einsog þið vitið – einsog hvert mannsbarn veit – aukist ár frá ári frá því mælingar hófust, með einni raunverulegri undantekningu, árið þegar heimurinn stóð kyrr, þegar hann dróst saman um 5%. Þá hafði kolefnisútblástur ekki verið lægri í tíu ár – og var samt nærri 60% hærri en hann var hið herrans neysluár 1989. Einkaneyslan, sem dróst örlítið saman við upphaf faraldurs, náði sér líka fljótt aftur á strik þegar fólk tók að innrétta heimaskrifstofur, kaupa sér líkamsræktartæki, hamstra nauðsynjar og stunda vefverslanir til þess að létta sér lundina – og samdrátturinn, sem afmarkaðist eðlilega fyrst og fremst við ferðalög og skemmti- og veitingastaði, varð aldrei svo mikill að einkaneysla fólks nálgaðist neitt það sem hún var þá rósemdardaga þegar íslenskar húsmæður tóku ekkert með sér til Glasgow nema tómar ferðatöskur undir útlendan lúxusvarning og keyptu 20 þúsund sleikibrjóstsykra í fríhöfninni. Enda hefði þurft meira til: einkaneysla Íslendinga árið 2020 hafði tvöfaldast frá árinu 1989. Við, hinir síflokkandi og meðvituðu nútímamenn, við hin hógværu og vökulu, við hin upplýstu og dómhörðu, við, kolefnisjafnandi rafbílaeigendurnir sem ekki fögnum ofgnóttinni lengur heldur skömmumst okkar fyrir hana, reyndumst þegar til kastanna kom vera margfaldir neytendur á við þá sem börðu sér á brjóst og þóttust ætla að éta alla heimskringluna í einum munnbita fyrir 40 árum síðan. V Líklega erum við löngu hætt að skilja heiminn nema í gegnum neyslu- eða neyslulíka hegðun. Við sofum ekki út nema hafa lært það á námskeiði í dönsku hygge, hendum ekki gömlu náttborði án þess að því fylgi lærð yfirlýsing úr bókum Marie Kondo eða Feng Shui, stundum ekki kynlíf án þess að taka fram dótakassa og leiðarvísa, stingum ekki nefinu inn í lýðræðislega samræðu án þess að taka tillit til þess hvaða ljósi það varpar á vörumerkið sem við erum orðin eða gætum átt eftir að verða, veljum okkur ekki maka nema með aðstoð appa, skrollum andlit eftir andlit og hámörkum ástarneysluna með fjölkærispeki, segjum ekki brandara án þess að telja lækin og nú hefur hollendingum meira að segja tekist að markaðssetja tómið. Niksen – hin hollenska list að gera ekkert í engum sérstökum tilgangi. Það er þegar hægt að kaupa margar bækur um niksen , hægt að horfa á margar myndir um niksen , um niksen hefur verið fjallað í öllum helstu fjölmiðlum, við getum öll tileinkað okkur tómið – því sjá, ég færi yður mikinn fögnuð, niksen mun losa yður undan kulnun og þreytu, undan álagi nútímasamfélagsins, niksen mun færa yður hugarró, hugarró mun gera yður kynþokkafull og auka velgengni yðar: gerið ekkert í engum tilgangi og sjá, það mun hafa tilgang. Og alltíeinu vöknum við upp við að nýjasta merkingarbæra afreksíþrótt hinnar meðvituðu nútímamanneskju er að gera ekkert, alltíeinu er ekkert meira að segja orðið erfitt, orðið stressandi; að ráfa um í tilgangsleysi – maður starir út í tómið og spyr sig, er ég að gera þetta rétt? Er ég að gera ekkert rétt? Hvað segja Hollendingar? Hvað segir Friedrich Nietszche – á niksenið að stara svona til baka? Þegar ekkert er líka orðið neysla – þegar ekki einu sinni ekkert er eftir ómarkaðssett – er allt orðið neysla. VI Loftslagsvandinn er ekki venjulegt praktískt vandamál og hefur ekki verið lengi. Við vitum hvað veldur hlýnun jarðar, við vitum hvaða afleiðingar hlýnun jarðar hefur og við vitum hvað við getum gert til þess að koma í veg fyrir þær afleiðingar. Við vitum líka að þær framfarir sem orðið hafa í framleiðslu, fræðum, orkunýtingu og endurvinnslu – eins stórkostlegar og þær nú oft eru – hafa lítið að segja ef svigrúmið sem þær veita er aldrei nýtt til annars en að framleiða meira, keyra meira, fljúga meira, kaupa meira, græða meira. Loftslagsvandann sem slíkan höfum við leyst – a.m.k. á pappírunum – en kannski er hinn stóri vandi sem eftir situr sá hvernig við förum að því að draga stórlega úr umsvifum okkar á plánetunni án þess að sökkva hákarlinum, án þess að setja hagkerfi heimsins á hliðina. Því við skulum ekkert gera lítið úr því heldur að efnahagshamfarir eru raunverulegar og hafa raunverulegar afleiðingar og að óbreyttu bitna þær afleiðingar fyrst og fremst á þeim sem síst skyldi – þeim sem eiga minnst, eyða minnst, græða minnst, og bera þar með minnsta ábyrgð á vandanum. Við lifum einfaldlega í þannig symbíósu með þessum hákarli að ef við dræpum hann umyrðalaust myndi það ekki bjarga okkur frá annars óhjákvæmilegri glötun heldur þvert á móti flýta fyrir henni. VII Rétt um það leyti sem níundi áratugurinn var að klárast – kannski var það einmitt 1989 – lýsti rithöfundurinn Martin Amis samtíma sínum sem öld heimskunnar, í viðtali við femínistann Germaine Greer. Orðrétt sagði hann að það gengi yfir heimsbyggðina krampakennd heimska – „convulsions of stupidity“ – en bætti svo við að sennilega myndum við engu að síður syrgja þennan tíma, enda myndi heimurinn halda áfram að verða heimskunni að bráð, heimskan myndi ágerast. En að sama skapi myndi heimurinn halda áfram að glata sakleysi sínu, verða lifaðri, reyndari, deyfðari, því að á hverjum gefnum tíma hefði jörðin gengið í gegnum meira en nokkru sinni áður. Maður verður nefnilega aldrei minna lifaður og maður endurheimtir aldrei örðu af því sakleysi sem maður hefur glatað. Einsog áður sagði hefur einkaneysla Íslendinga – einsog flestra þjóða – ríflega tvöfaldast frá árinu 1989. Ef frá eru taldar sígarettur og fáeinar úreltar tækni- og tískuvörur eru eiginlega engar vörur sem við kaupum minna af árið 2024 en við gerðum árið 1989, nema bækur. Meira að segja vínylplötur eru farnar að seljast í álíka upplagi og þær gerðu þá. En bóksala hefur hrunið. Ég skal ekki fara í launkofa með að ég hef ákveðna hagsmuni af því að bóksala sé mikil – því meira sem bækur seljast, því oftar kemst ég til Tene, því oftar get ég endurnýjað hlaupaskóna, keypt blóm fyrir konuna mína og dúnúlpur á börnin – en trú mín á bækur sem boðbera fyrir samkennd, hugsun og jafnvel á köflum hreina og klára visku, er einlæg fyrir því, og ég get ekki heldur að því gert að sjá samræmi í uppgangi popúlisma, þessara sífellt trúðslegri heimskukrampa veraldarinnar, og hnignun bókmenningar. Að það sé samasemmerki milli þess að lesa lítið og illa – eða bara hreinlega þess að vera menningarlaus – og þess að ráða illa við að vinna úr upplýsingum eða sýna samkennd. Við látum stundum einsog heimska samtímans sé afleiðing af kraftmikilli tækniþróun – kennum um hámenntuðum rússneskum hakkaragrúppum sem blekki okkur, óskiljanlegum algóritmum samfélagsmiðlanna, hraðanum í örvilnaðri fjölmiðlun á tækniöld, gervigreind sem hugsi fyrir okkur – og sjálfsagt er það ekki allt alveg úr lausu lofti gripið. En okkur væri samt hollt að gangast við því að vilji einhver stjórna okkur – og þar með sannleikanum – þarf engar ofurtölvur til. Einsog dæmin sanna er nóg að berja í borðið. Donald Trump er ekki að fara að verða valdamesti maður heims – í annað sinn – vegna þess að hann sé svo miklum tæknigáfum gæddur, eina tæknin sem hann hefur á valdi sínu er all-caps-takkinn á lyklaborðinu, og þaðan af síður vegna þess að hann sé mælskur eða klókur. Donald Trump fær að ráða vegna þess að hann tjáir sig einsog hellisbúi. Og við, sem erum sennilega orðin of vön því að valdið tali til okkar í þessum háværa fullyrðingatón höfum reynst of vitlaus til þess að veita því nokkurt viðnám sem nær máli, það er í besta falli að við megnum að garga eitthvað á móti – sem verður svo á endanum ekki til annars en að veita þessum tjáningarmáta heimskunnar þegnrétt í samfélagsumræðunni. Ég skýt ekki heldur loku fyrir að þetta sé viljaverk. Kannski erum við vitlaus – kannski getum við hvorki skilið upplýsingar né miðlað þeim skiljanlega, hvað þá skilið hvert annað – af því við viljum vera það. Mér finnst það stundum meira að segja frekar líklegt. Ég kann vel að merkja bara eina lækningu við heimsku og hún er að lesa bækur. Það er mitt húsráð. VIII Ég var spurður að því í gær hvort hlutverk mitt á þessari ráðstefnu væri að vera með einhvers konar comic relief milli vísindaritgerða og svaraði því til að þá hefðuð þið sennilega ráðið grínista – því rithöfundar bjóði ekki upp á annað en angist. Við skulum þess vegna halda því til haga, hér að síðustu, þótt ekki væri nema til þess að stemma af bókhald mögulegra hugsana – nú þegar öld heimskunnar, einsog Martin Amis kallaði hana, hefur öðlast rósrauða fegurð í baksýnisspeglinum sem tímabil visku og hófsemdar – að það er ekki að öllu leyti ótæk afstaða að gefast einfaldlega upp á þessari plánetu. Eða réttara sagt, að gefast upp á þessu mannkyni – því það er ekkert sem bendir til þess að okkar eigin glötun feli í sér glötun plánetunnar svo ég viti til. Það er meira að segja alveg hugsanlegt að við þessar kringumstæður sé ekkert náttúrulegra en glötun mannsins – að allar þær hamfarir sem loftslagshlýnun kalli yfir okkur séu ekki annað en plánetan að rétta kúrsinn, lofta út áður en allt fyllist af reyk, bjarga sjálfri sér, einsog öllu lífi er eðlilegt. Sjálfsagt mun okkur sem tilheyrum því þykja missir að mannkyni en það er ekkert víst að neinn annan muni neitt um það – þessu hlaut alltaf að ljúka á endanum hvort sem var, og spurning hvort það skipti nokkru hvort það er núna eða síðar. Einhver kynslóð verður alltaf að reka lestina. Spendýr eiga víst almennt ekki nema um milljón ára lífsferil áður en þau deyja út – við erum búin með tvö til þrjú hundruð þúsund ár og ættum því í sjálfu sér að eiga eitthvað eftir. En einsog markþjálfarnir minna okkur gjarnan á er þetta ekki spurning um hversu lengi maður lifir, heldur hversu mikið líf hefur verið í því lífi sem maður lifði. Og ætlar einhver hér að neita því, að við höfum lifað mjög mikið? Blasir það ekki líka við, að við séum að verða svolítið lifuð? Takk fyrir.

Menningardagbókin, 2. febrúar

Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég las hana svo ógurlega hægt og nákvæmlega en Hygiène de l’assassin eftir Amelie Nothomb er sennilega með kraftmestu bókum sem ég hef lesið lengi. Það hefur áreiðanlega eitthvað með lestrarhraðann að gera – og kraftinn í því að vera að lesa á nýju tungumáli, allt verður nýtt, allt ljómar. En hún er líka frábær (og tungumálið dugði mér ekki í Monsieur Ibrahim et les fleurs du coran, sem mér fannst fín, en ekkert meira en það). Plottið er þetta. Nóbelsverðlaunarithöfundurinn Prétextat Tach fær að vita að hann eigi þrjá mánuði ólifaða og ákveður af því tilefni að taka loks á móti blaðamönnum og veita viðtöl – sem hann hefur aldrei gert áður. Hann er fremur óviðkunnanlegur snillingur, hamslaus nautnaseggur sem er eiginlega of feitur til þess að geta staðið á fætur, hittir aldrei neinn nema umboðsmanninn sinn og sjúkraliðann sem þrífur hann einu sinni í viku. Hann tekur sérstaklega fram að hann vilji ekki tala við konur eða litaða, bara hvíta, franska karla. Þeir fá örfáa daga til undirbúnings. Svo koma þeir inn til hans hver á fætur öðrum og kljást við snillinginn, sem hefur þá auðveldlega undir með hroka sínum og gáfum, svo þeir mega hverfa sneyptir á braut. Eftir viðtölin setjast þeir niður á kaffihúsi handan götunnar og hlusta á upptökuna með kollegum sínum sem komast alltaf að hinni sömu niðurstöðu: blaðamaðurinn er fáviti, stéttinni til skammar, Prétextat Tach er snillingur og ekki skrítið að hann hafi ekki látið bjóða sér þessa vitleysu. Svo lýsa þeir yfir eindregnum vilja til þess að vera næstir og sá sem þann heiður hlýtur fær svo sams konar kjöldrátt og sá á undan. Um miðja bók breytist svo jafnan þegar ung kona smyglar sér inn. Hún á bæði auðveldara með að skylmast við Tach og hefur það augljósa forskot á karlana að hafa lesið öll verk Tachs, og það í kjölinn – en Tach gerir sjálfur talsvert úr því að enginn hafi í raun lesið þessar bækur, og þeir fáu sem hafi reynt að gera það hafi misskilið þær, sem sé augljóst, því ekki sé hægt að lesa þær og vera sami maður á eftir, gott ef þær hljóti ekki óhjákvæmilega að slökkva í manni alla trú á hið góða í mannskepnunni, það sjáist auðveldlega hverjir hafi lesið Prétextat Tach og hverjir ekki. Í fyrstu trúir hann henni ekki einu sinni. Fljótlega kemur í ljós að blaðakonan hefur mestan áhuga á einu bókinni sem Tach hefur aldrei klárað, og gaf út ókláraða. Sú fjallar um fagurt aðalspar á unglingsárum sem lifir í nekt og sakleysi og nær hápunkti sínum þegar stúlkan byrjar að hafa á klæðum og strákurinn myrðir hana til þess að standa vörð um eilífa æsku hennar. Þessa bók vill hún meina að Tach hafi byggt á eigin æviminningum – og hann sé morðinginn. Plottið er ekki bara frábært tryllisplott heldur líka dásamlegt farartæki fyrir heimspekilegar vangaveltur um skáldskap, siðferði og merkingu. Það er auðvelt að hafa viðbjóð á Prétextat Tach en það er líka erfitt að taka ekki undir með honum af og til – og jafnvel vorkenna honum á köflum. Lengst af ævinnar hefur hann engan umgengist – hann skrifar viðstöðulaust frá morgni til kvölds í nokkra áratugi, hættir svo gersamlega og einbeitir sér að nautnum sínum, að éta, drekka og reykja. Að mörgu leyti minnir hann á Michel Houellebecq – en þá ber að hafa í huga að Hygiène de l’assassin kom út árið 1992, 6 árum á undan Öreindunum sem gerðu Houellebecq að súperstjörnu, og jafnvel þá var hann ekki orðinn sú týpa sem hann er í dag. Maður gerir sér í hugarlund að þetta sé kannski eitthvað franskt – tignun miskunnarleysisins í listum, sem er kannski framhald af þessari óbilandi trú (margra) frakka á fegurðina sem æðsta allra gilda. En Tach er líka að reyna að gefa lífi sínu merkingu – bæði með því að skrifa og lifa, og svo því hvernig hann hefur skrifað um eigið líf og hvernig hann vill að spilist úr því sem eftir er af lífi hans, svo það eigi sér ljóðrænan endi. Hann getur ekki lifað án samhengis og merkingar – og það markerar bæði einkalíf hans og bókmenntir (lamar kannski eitt en fjörgar hitt, mætti segja, en það er líka einföldun). Ég las svolítið af Goodreads umsögnunum um bókina þegar ég var búinn og það kom mér á óvart hversu mörgum er illa við hana – nánast einsog óþolið fyrir Tach smitist yfir á bókina. Sem er auðvitað furðulegt en líka týpískur samtímalestur, eða lesblinda, þetta er plága, að halda að þátttaka manns í tilverunni eigi fyrst og fremst að ganga út á að sortera gott frá illu (og það út frá ströngustu hreinlætisreglum). Nú er Tach augljóslega andhetja – og svona álíka viðkunnanlegur og Donald Trump, og augljós skopstæling og gagnrýni á tiltekna sýn á listina og lífið. En hann er líka ofur-mannlegur (í báðum merkingum) og leit hans að merkingu – og vonbrigði hans gagnvart því að finna hana ekki – og það hvernig hann misskilur eigin tilfinningar og annarra, hvernig hann óttast lífið og óreiðu þess, þrátt fyrir að vera augljósum gáfum gæddur – segir manni eitthvað, og bara talsvert, um takmörk mennskunnar. Hvað um það. Tach er ekki meistari, heldur vesalingur – en þessi bók er meistaraverk. *** Við Nadja kláruðum fimmta sísonið af Fargo. Það var margt ágætt í þessu en það fór alltof mikið púður í að láta þetta enda á einhverju feel-good réttlæti. Senan með Jennifer Jason-Leigh og Jon Hamm í fangelsinu var alger rjómi, í versta skilningi þess orðs. Þessi réttlætisþrá er farin að minna á gamaldags Hollywood þar sem fólk þurfti alltaf að fá „það sem það átti skilið“ – og skýrasta vísbendingin um að einhver myndi brátt deyja var að viðkomandi héldi framhjá eða drýgði aðra álíka synd. Þeir einir lifðu af sem voru hreinlífir. Þegar við vorum búin með sísonið athugaði ég hvar það stæði gagnvart hinum – sem ég er auðvitað löngu búinn að gleyma – og uppgötvaði að þetta þykir „a return to form“. Næst þegar mig langar í skammt af Fargo hugsa ég að ég horfi bara á bíómyndina. *** Ég er ekki búinn að sjá Poor Things. Ég uppgötvaði Yorgos Lanthimos síðasta vor og horfði á flestar mynda hans og hef síðan beðið Poor Things í ofvæni. Og nú er verið að sýna hana í Ísafjarðarbíói og það hafa meira að segja verið aukasýningar en ég missi alltaf af henni út af Fiðlaranum. Sem er alveg bölvanlegt. Það er samt mjög gaman í Fiðlaranum. Frumsýndum í gær fyrir stappfullu Edinborgarhúsi – níu sýningar eftir. *** Lag vikunnar er Fais-moi de l’ectricité með Joe Dassin. Ég segi nú bara einsog Þórhildur sagði um Ragúel Hagalíns (sem leikur Mótel) eftir eitt Undranna undur: Hann er svo sætur að hann gæti drepið mann.

Menningardagbókin, 23. janúar

Ég lauk við Stríð og frið um daginn. Hún var alltílagi. Soldið mikið Dallas kannski. Einsog reyndar fyrsta bindið í Dalalífi sem ég lauk við um svipað leyti (ég hlustaði á hana á 150% hraða í ræktinni – fólki virðist finnast það eitthvað fyndið). En Tolstoj er samt enginn Dostojevskí. Hitt húsið eftir Rachel Cusk var meira minn tebolli. Og hinumegin á rófinu – alveg ofan í sinni sögupersónu á meðan Tolstoj (og Guðrún frá Lundi) skoða sínar persónur fyrst og fremst sem leiksoppa einhverra örlaga og tilfinningalíf þeirra eru þar með … kannski ekki órannsökuð, en það er ekki kafað ofan í mótsagnir tilfinninganna og tilfinningarnar sjálfar eru allar innan ramma hins kunnuglega. Einhvern langar eitthvað og fær það kannski ekki og þarf að sætta sig við eitthvað annað (eða í versta falli drekkja sér). Eða fær það og það reynist öðruvísi en það átti að vera. En í sálrænu djúpsjávarbókunum – Dostó er þar með Cusk í flokki – langar fólk eitthvað sem það langar ekki, og langar ekki eitthvað sem það langar samt. Og skiptir engu máli eiginlega hvað það fær, það fer aldrei vel. *** Hitt húsið (sem heitir Second place á ensku – íslenski titillinn nær því ekki alveg, en sennilega ekkert betra í boði og bókin prýðilega þýdd af Ingunni Ásdísardóttur) fjallar um konu, M, sem býður frægum myndlistarmanni, L, sem hún þekkir bara úr netsamskiptum, að gista í gestahúsinu hjá sér og manni sínum, Tony. Samband þeirra hjóna er á köflum ansi stirt og hann er mikið upptekinn. Ekki síst þess vegna hlakkar M mikið til þess að L komi. Í fyrsta skiptið afboðar hann sig hins vegar á síðustu stundu, eftir að Tony og M hafa eytt talsverðum tíma í að gera gestahúsið tilbúið. Ári síðar boðar hann komu sína aftur og mætir þá með unga og glæsilega ástkonu, Brett, sem fer mjög í taugarnar á M – enda stelur hún ekki bara athyglinni sem hún ætlaði sjálf að fá frá L heldur nær líka sambandi við táningsdóttur M, Justine, og þiggur af henni alls kyns tískuráð sem hún hafði áður hafnað frá móður sinni. Bókin er vel að merkja öll skrifuð sem bréf til einhvers Jeffers, sem er aldrei útskýrt hver sé – en hún byggir á æviminningum Mabel Dodge Luhan þar sem segir m.a. frá viðburðaríkri heimsókn D.H. Lawrence í listamannaresidensíu hennar. Mabel er þá M og Lawrence L – og Mabel mun hafa skrifað sínar æviminningar til skáldsins Robinsons Jeffers. En ekkert af því skiptir neinu máli og ég hafði ekki hugmynd um það fyrren eftir á. Sagan sem slík er ekki einu sinni neitt merkileg – það eru senur sem eru stórkostlegar (t.d. þegar tengdasonur M les í tvo tíma úr byrjenda-fantasíu-skáldsögunni sinni og allir bara láta sig hafa það; eða þegar M kemur að L og Brett að mála hlæjandi saman einhvern óskapnað sem hún telur víst að sé hún sjálf), en fyrst og fremst eru gæðin í setningunum, flæðinu, stemningunni. Ég verð reyndar að viðurkenna líka að einhvern tíma eftir miðja bók varð ég svolítið þreyttur á þessari obsessjón fyrir að greina eigið tilfinningalíf með einhvers konar intelektúal vöðvaafli. En svo held ég að Cusk sé líka í og með að gera grín að því. Það er allavega alveg hægt að hlæja að því þegar maður man að það er ekki allt alvarlegt sem maður les. Sem ég og gerði fyrir rest. *** Ég er síðan að blaða í bók sem Nadja gaf mér fyrir nokkru síðan og heitir Noir in the North og er greinasafn um norræna krimma, bæði bækur, þætti og kvikmyndir, frá Sjöwall og Wahlöö til Lillyhammer – og raunar eru teknar líka inn bandarískar endurgerðir á norrænum sjónvarpsþáttum og þar er ekki síst áhugavert að sjá hverju er haldið eftir, hvernig maður skapar norræna stemningu í annars bandarískum sjónvarpsþætti. Það er ekki laust við að maður fái það á tilfinninguna að þetta sé mjög mikið paint-by-numbers og kannski er það enginn nema ég sem hneykslast á svoleiðis – eru ekki krimmahöfundar bara frekar opnir með að þetta séu formúlur? Ég held ég hafi samt alltaf talið að það ætti fyrst og fremst við um strúktúrinn en elementin – einsog persónusköpun, stíll, þau þjóðfélagsvandamál sem tekin eru fyrir – væru einstök í hverju tilfelli. En nú sýnist mér að þetta sé nú kannski allt bara voða mikið sama sagan um sama spæjarann að leysa sama málið. Eða svona – ég ýki auðvitað. Ég les ekki nema örfáa reyfara á ári og er því varla neinn sérfræðingur. En formúlan er ansi víðtæk. Annars er alveg sérstakt rannsóknarefni finnst mér hvaða kröfur eru gerðar til reyfara – af bæði lesendum, forlögum og gagnrýnendum. Án þess að nefna nein nöfn þá hef ég þýtt alþjóðlegar metsölubækur sem voru svo vondar að mig beinlínis verkjaði undan. Bækur sem höfðu komið út í 30 löndum en voru þannig frágengnar frá forlagi að það var einsog það hefði aldrei nokkur maður nennt að lesa þær í gegn fyrir útgáfu (eða fyrir aðra til tuttugustu prentun). Fullar af vitleysum sem ættu að hverfa í fyrsta yfirlestri. Og jújú, auðvitað sleppur alltaf eitthvað í gegn – en stundum er þetta bara á hverri síðu. Og virðist ekki trufla nokkurn mann. Og já, ég veit vel að það eru líka til léleg fagurbókmenntaverk – og meira að segja nokkur sem fara á alþjóðlegt metsöluflug. En þær halda þó einhvers konar lágmarksstandard. Þær detta aldrei niður á Da Vinci-lykils-levelið af bulli. Þær hafa fengið lágmarks ritstjórn. Og já, ég veit líka vel að það eru til margir fyrsta klassa reyfarar. *** Nadja gaf mér The Heart of Saturday Night með Tom Waits í jólagjöf. Hún hefur farið nokkra hringi. Þetta er önnu stúdíóplata Waits – á eftir Closing Time en fyrir Nighthawks at the Diner. Mér finnst allt sem Tom Waits hefur komið nálægt vera skíragull og þýðir ekkert að ræða neitt annað við mig. Ég lærði að meta hann um tvítugt og hlustaði varla á aðra músík fyrren eftir þrítugt. Það eru ansi hressileg mótunarár. Þetta er líka fyrir tónlistarstreymi svo plöturnar bárust mér eftir því sem ég hafði efni á að kaupa. Geisladiskinn – sem ég á líka, Nadja gaf mér plötu – keypti ég á sínum tíma í Tutl í Þórshöfn í Færeyjum. Ég átti heima þar í hálft ár sumarið 2000 og vann í skipasmíðastöðinni og skrifaði og drakk einsog ég væri á bóhemmannalaunum. Ég tengi hana ekki síst við göngutúrana heim úr vinnunni – ég leigði herbergi með Mella vini mínum í Argir og það tók alveg hálftíma að rölta heim. Ég man hvað ég var ánægður að eiga alveg eins bindi og Waits er með framan á plötunni. *** Við fjölskyldan horfðum á Space Balls. Aram er að reyna að fá systur sína til að kynnast Star Wars – ég held reyndar að hann telji sjálfan sig vaxinn upp úr því en líti svo á að þetta sé ákveðin kanónuþekking sem maður verði að hafa, ætli maður að teljast gjaldgengur. Þetta er menningarprójekt. En hún er treg og þess vegna var Space Balls skotið inn á milli – Aino hefur séð hana áður og finnst hún frábær. Sem hún er. Við Nadja og Aram horfðum líka á Snatch í síðustu viku. Hana hafði ég ekki séð síðan hún kom út. Nýmælin – klippingarnar og tempóið – eru ekki jafn mikil nýmæli lengur en hún er samt hröð og skemmtileg. Sennilega yrði sjónarhornið á bæði gyðingana og sígaunana talsvert annað í dag. Sem minnir mig á að gyðingagrínið í Space Balls – „the druish princess“ með stóra nefið (sem hún lét fjarlægja) – hafði einhvern veginn alveg farið framhjá mér til þessa. Eða kannski tók ég eftir því en finnst það meira áberandi núna. Meira stuðandi. En Mel Brooks er gyðingur og sennilega má fólk gera grín að klisjum um sjálft sig. Það er samt merkilegt hvað maður er orðinn fær í svona lestri – við erum öll með doktorspróf í fordæmandi góðmennsku. Ég horfði á Un Triomphe til þess að hlusta svolítið á frönsku. Hún byggir á sannsögulegum atburðum um það þegar sænski leikstjórinn Jan Jönsson setti upp Beðið eftir Godot með föngum og þeir flúðu eftir nokkrar sýningar. Ég þekki ekki vel til þess máls og myndin víkur líka mikið frá staðreyndum (hún gerist t.d. í Frakklandi samtímans, frekar en í Svíþjóð á níunda áratugnum). Hún var fremur þunn en alltílagi skemmtun, miðað við það sem er í boði á Netflix á frönsku. Það gerðist reyndar líka rúmlega áratug síðar að nokkrir fangar sem áttu að taka þátt í leikriti eftir Lars Norén stungu af og frömdu bankarán og drápu svo tvær löggur á flóttanum. En það er sennilega ekki jafn gott efni í gamanmynd. Og þó. Svo er auðvitað frægt dæmið um Jack Abbott – falsara sem sat inni þegar hann stakk mann til bana en fór síðar að skrifast á við Norman Mailer, sem útvegaði honum útgáfusamning og barðist fyrir því að fá hann lausan úr fangelsi. Sem tókst. Daginn áður en fyrstu ritdómar birtust stakk Jack Abbott annan mann til bana og fór aftur í fangelsi (þar sem hann hengdi sig á endanum). *** Sjónvarp. Við erum búin að vera að malla í gegnum bandaríska Office. Sem er fínt en fremur átakalaust. „Bara sitcom“. Ansi fyndið á köflum og persónurnar algerlega yndislegar. Í samanburði við breska Office er þetta samt fremur þunnt, ekki síst vegna þess að persónurnar þar voru alls ekki yndislegar. Það er líka svo líkt bandaríkjamönnum að þurfa að gera níu season með ríflega 20 þáttum í hverju seasoni. En þetta er þægilegt svona „slökkva á heilanum á sér“ efni þegar maður kemur heim klukkan ellefu eftir Fiðlaraæfingu og þarf að ná sér aðeins niður. Og svo er nóóóóóóg til af þessu líka. Svo byrjuðum við á Fargo – ætli þetta sé fimmta season? Ég er hreinlega ekki viss. Og er þetta nordic noir? Veit það einhver? Frumforsendan – að sögusviðið sé þannig úr garði gert að það virðist við fyrstu sýn vera sakleysislegt, og sögupersónurnar allar ein stór, traust fjölskylda, en svo kraumi allt mögulegt undir, bæði félagsleg vandamál, hræðileg leyndarmál úr fortíðinni og alls kyns ofbeldi – er sannarlega til staðar. Jon Hamm á stórleik í þessu. *** Annars á Fiðlarinn meira og minna hug minn allan.

Fiðlari á þakinu? Hljómar það undarlega?

Gyðingaofsóknir í rússneskri Úkraínu – þar sem hnefarétturinn ríkir, pogromin vofa yfir og hvert þorpið er tæmt á fætur öðru, fólk er sent á vergang og örlög einstaklinga og þjóða hanga á bláþræði. Misskipting, upplýsing, ástir í meinum, basl og fátækt og yfirvofandi byltingar. Einhvern veginn finnst manni einsog Fiðlarinn á þakinu flytji með sér ansi mikla aukamerkingu árið 2024, þegar stríð geisar bæði í Úkraínu og í Ísrael, þar sem stjórnvöld ástunda álíka ofsóknir gagnvart Palestínumönnum og íbúar Anatevka verða fyrir af hendi rússneskra yfirvalda í leikritinu, yfirvalda sem nú reyna nú í raunveruleikanum að sölsa aftur undir sig þá Úkraínu sem þau áttu þá. Í heimi þar sem flóttamenn og hælisleitendur ráfa um álfur bjargarlitlir og landlausir. Og allt er þetta auðvitað varið með hugmyndinni um stöðugleikann – siðvenjuna – og óttann við náungann. Og þótt þar véli um önnur lögmál og önnur ógn en grimmd mannsins þá er Íslendingum nú ekki alveg ókunnugt um þá sorg heldur þegar heilt samfélag þarf að yfirgefa sitt heimaþorp. *** Eitthvert gáfnaljósið sagði að mannkynssagan endurtaki sig aldrei en hún rími – og má til sanns vegar færa. Atburðir gerast ekki í tvígang, ekki eins, en þeir geta snúið aftur og haft á sér kunnuglegan blæ, einsog maður sem ber gamlan ættarsvip. Annað ekki síðra gáfnaljós sagði að maður stigi aldrei tvisvar í sömu ána, því eðli árinnar væri síbreytilegt – hún bókstaflega flæðir fram. En þeir vita það sem hafa vaðið á að skrefunum svipar engu að síður yfirleitt saman. Það sem ég vildi sagt hafa: Munurinn skiptir máli – en það gera líkindin líka.
***
Einsog ég held ég hafi nefnt hérna einhvern tíma þá er ég að leika/syngja/dansa í uppsetningu Litla leikklúbbsins og Tónlistarskóla Ísafjarðar á Fiðlaranum á þakinu. Ég leik bóksalann, Avram, er talsvert á sviðinu, fæ nokkrar línur á stangli og syng meira að segja eitt stutt sóló. Þetta kemur mér allt saman a.m.k. jafn mikið á óvart og ykkur, enda vissi ekkert okkar að ég væri söngvari og dansari, og allra síst ég. Bergþór Pálsson, sem leikur Tevje, tók mig einfaldlega á löpp í sánunni í haust og áður en ég vissi af var ég kominn í raddprufu hjá Beötu Joó, sem sagði að ég gæti sungið, og ekki rífst ég við hana, enda hefur hún talsvert meira vit á því en ég. Augnabliki síðar var svo sjálf Þórhildur Þorleifsdóttir mætt og manni er nú bara hollast að gera einsog hún segir. Þórhildur tók með sér danshöfundinn Chantelle Carey, sem er – ofan í að vera skapandi og skemmtileg – einsog prófessjónalisminn holdi klæddur og hún hefur ekki gert neinar alvarlegar athugasemdir við mín dansspor. Ég er auðvitað skíthræddur en það er samt talsverð hughreysting að vera í jafn færum höndum. *** Auðvitað getur verið að einhverjum þyki skrítið að hópur gojim Ísfirðinga (og nærsveitamanna) klæði sig upp sem Gyðinga og mazeltovi í allar áttir, þótt það sé á leiksviði. Þannig hefur það ekki alltaf verið – þetta er söngleikur sem hefur verið settur upp um víða veröld af öllu mögulegu fólki – en þannig er það nú. Það urðu talsverð læti af því síðasta sumar þegar fyrstu myndir bárust úr kvikmyndinni Maestro og í ljós kom að Bradley Cooper léki Leonard Bernstein með gervinef. Cooper er heldur ekki gyðingur. Svo er líka skammt að minnast uppsetningar Íslensku óperunnar á Madame Butterfly, en þar ollu búningar nokkru fjaðrafoki. Þetta er samt ekki glæný viðkvæmni. Það þótti ekki heldur kosher þegar Norman Jewison – sem þrátt fyrir nafnið er ekki gyðingur – var fenginn til þess að leikstýra bíómyndinni um Fiðlarann árið 1971. Hann mun hafa gert sér sérferð til Ísrael og lagt mikið upp úr því að „fást samþykktur“. Og sennilega hefði einhverjum þótt skrítið ef höfundur Tevjes hefði verið … ja segjum bara dönsk kona af mótmælendatrú. Ekki þar fyrir reyndar að búningar fólks í Anatevka undir lok 19. aldar eru alls ekki óáþekkir búningum Ísfirðinga um svipað leyti – aðallega snjáð spariföt og hattar. Og ég á ekki von á því að neinn verði með gervinef. Við förum samt upp á svið og segjumst vera Gyðingar í vel ríflega tvo tíma, syngjum klezmer músík, dönsum gyðingadansa og förum með gyðingabænir. Til viðmiðunar er hér gömul mynd af sjálfum mér, að leika ekkert nema sjálfan mig, og með sama hatt og ég mun nota í sýningunni. Og örlítið síðara skegg. Ég segi þetta bara aftur. Munurinn skiptir máli, en það gera líkindin líka. Og með skáldskap skilur maður fleira en bara sjálfan sig. Til þess er hann. *** Ég las bók Sholems Aleikhems, Tevje kúabóndi og dætur hans , fyrst á menntaskólárunum og endurlas hana á helginni. Þetta er smásagnasafn skrifað á fremur löngu tímabili og í henni er það Tevje mjólkurbóndi sem ávarpar Sholem Aleikhem beint og segir honum sögurnar – og klykkir gjarnan út með því að biðja Sholem að vera nú ekki að setja þetta í bækurnar sínar og ef hann geri það þá megi hann gjarnan kenna þær við einhvern annan en sig, hann vilji helst ekkert að þetta berist mikið út. Fimm sagnanna, af átta, segja af makamálum sjö dætra Tevjes, og eru það allt nokkrar harmsögur, a.m.k. fyrir rest. (Vilji maður koma kaldur að Fiðlaranum er best að hætta að lesa núna fljótlega – en hafa má í huga að hér að neðan er lýst söguþræðinum í smásögunum, vel að merkja er nokkuð vikið frá þeim í söngleiknum. Annars er hægt að skrolla hratt niður að næstu stjörnumerkingu líka, þar sem hætt verður að rekja söguþráð.) Fyrsta sagan segir af því hvernig Tevje, sem þá er skógarhöggsmaður, hjálpar nokkrum vegalausum konum heim til sín, og gjalda ættingjar þeirra honum ríkulega fyrir, bæði í rúblum og með því að gefa honum kú. Tevje söðlar því um og gerist mjólkurbóndi. Í næstu sögu er Tevje farinn að þéna dálítið og lætur frænda konu sinnar, Mendel, sannfæra sig um að fjárfesta hjá sér – þeir peningar glatast allir. Þá er komið að makamálunum og fá fimm af sjö dætrum Tevjes um sig slíkan kafla. Þrjár þeirra sagna eru í Fiðlaranum (í örlítið breyttri mynd). Fyrst er Tzeitel sem giftist Motel, fátækum klæðskera (þrátt fyrir að hafa boðist ríkur slátrari), sem svo deyr úr tæringu og skilur hana eftir með sæg af börnum. Næst er Hodel sem giftist Perchik, menntamanni frá Jehúpets (Kíyv), byltingarsinnar, sem er sendur í fangabúðir í Síberíu, þangað sem hún eltir hann og ekkert spyrst til hennar frekar. Þriðja, Khava, fremur hinn versta glæp þegar hún giftist kristnum manni, Fjedka, og skiptir um trú – henni afneitar Tevje og bannar öllum í fjölskyldunni að nefna hana á nafn. Sú fjórða, Sprintze, verður ástfanginn af ríkum manni, Aronsík, og þau ætla að giftast – en fjölskylda Aronsíks er mótfallin brúðkaupinu, reynir að múta Tevje, stöðva hjúskapinn og Sprintze drekkir sér í ánni. Loks er það Bélka sem nær því göfuga markmiði að giftast ríkum manni, Podotsúr, en hann skammast sín svo fyrir tengdaföður sinn að hann mútar honum með stórfé til þess að láta sig hverfa og fara til helga landsins, Ísrael. Einsog kemur fram í síðustu sögunni verður reyndar aldrei neitt af því að Tevje fari, því einmitt um það leyti sem hann ætlar að leggja af stað deyr klæðskerinn Mótel, og Tevje verður að taka að sér Tzeitel og hennar börn. Þá er Golda vel að merkja líka látin og Tevje orðinn ekkjumaður. Tevje er því enn á staðnum þegar rússarnir í bænum tilkynna honum að þeir muni fljótlega þurfa að berja svolítið á honum og sennilega brjóta rúður í húsinu hans – það sé ekki illa meint, en gyðingaofsóknir séu hálfgerð skylda núorðið og það gæti virst grunsamlegt ef þeir sýndu ekki einu sinni lit („Siðvenja! Siðvenja!“). Augnabliki síðar kemur lögreglustjórinn og tilkynnir gyðingum bæjarins að þeir hafi þrjá daga til að pakka sínum pjönkum saman og láta sig hverfa. Tzeitel segir að þau geti ekki farið án Khövu (sem einsog áður segir skipti um trú og Tevje afneitaði), hann verður alveg brjálaður en jafnar sig þegar í ljós kemur að Khava hefur yfirgefið Fjedka og ætlar að fylgja fjölskyldu sinni í útlegð. Þessum átta sögum er svo púslað saman í eina í leikritinu. Þar eru Sprintze og Bélka bara börn og giftast engum – og Tevje leikhússins getur talið dætur sínar á fingrum annarrar handar, því Teibl og önnur ónefnd dóttir, hafa gufað upp. Svo er ýmsu fleiru hnikað til í söguþræði sem ég fer ekki út í hér. *** Ég hjó eftir því í formála bókarinnar að byltingarsinninn Perchik og Sholem Aleikhem eiga það sameiginlegt að hafa verið kennarar á heimilum – Sholem hjá ríku fólki, en Perchik fyrir matarbita hjá Tevje – og að hafa í framhaldi af því tekið saman við dætur húsráðenda. Aleikhem var ekki jafn lánsamur og Perchik að fá leyfi og þurftu hann og hans kærasta, Olga Loev, því að hlaupast á brott. Þá hét Olga ekkert annað en Hodel að millinafni. Annars lýsir sagan þeim heimi sem Sholem Aleikhem hefur alist upp í – samfélaginu í litlum gyðingabæ á seinni hluta 19. aldar. Hann var sjálfur fæddur í Pereiaslav og alinn upp í Voronkiv, nálægt Kiyv. Hann flúði sjálfur pogromin og ofsóknirnar þar um slóðir árið 1905 og bjó eftir það mest í New York og Sviss. *** Önnur áhugaverð saga úr þessum sama formála – sem minnir á ólíkindalætin í Tevje – er að faðir Sholems varð ekkjumaður með tólf börn, þegar Sholem var 13 ára, gifti sig svo aftur án þess að segja nýju frúnni frá börnunum sínum, en laumaði þeim svo einu og einu inn á heimilið í tímans rás. Við takmarkaðan fögnuð nýju konunnar í hvert sinn. *** Æfingar á söngleiknum ganga bara furðu vel – enda leikhópurinn meira og minna mannaður hálfgerðum snillingum og valinn maður í hverju rúmi í hljómsveitinni. Og manni finnst maður vera í afar styrkum höndum hjá þeim Þórhildi, Beu og Chantelle. Það eru enn rúmar tvær vikur í frumsýningu (1. febrúar) og hafandi alls ekki nokkurt vit á því ímynda ég mér samt að þetta geti bara hreinlega gengið upp.

Í laufhúsum

Þjóðfélög reyna oft, a.m.k. í seinni tíð, að búa sér til lista yfir sameiginlega kanónu – einhvern öndvegislista þeirra verka sem hvert menntað mannsbarn á að þekkja til. Bókmenntakanóna hlýtur hins vegar eðli málsins samkvæmt að vera æði ólík frá manni til manns – og snýst ekki bara um „smekk“. (Sérstaklega í ljósi þess að yfirleitt hefur ekki einu sinni sprenglært fólk lesið 100 mestu öndvegisverkin á neinum lista – það þykir gott að vera hálfnaður). Það er tilfallandi hvað einum manni finnst að „maður eigi“ að hafa lesið og þegar maður hefur lesið það sem maður „á“ að hafa lesið lengist listinn sjálfkrafa, það bætast á hann titlar, stundum með slíku offorsi að manni finnst sem að því meira sem maður les, því meira eigi maður „eftir“. Sem er auðvitað ekki neikvætt heldur jákvætt – útsýnið á heiminn hefur einfaldlega batnað. Eitt af því sem ég ætla mér í ár er að strika nokkrar stórar bækur af listanum yfir ólesnar bækur sem ég „á“ að hafa lesið. Þær eru margs konar – sumar íslenskar, sumar útlenskar, frá ólíkum tímum og svo framvegis, og eiga fátt annað sameiginlegt en að þykja merkilegar – fyrir utan auðvitað að ég hef ekki lesið þær. Að vísu eru margar þeirra í lengra lagi – löngu bækurnar vilja finna sér leið neðst í ólesna bunkann (enda bunkinn þannig stabílli). Fyrst á listanum – einfaldlega vegna þess að ég átti eintak, sem ég hafði einhvern tíma opnað og ekki komist langt inn í – var stórvirkið House of Leaves eftir Mark Z. Danielewski, sem kom út árið 2000. Ég átta mig reyndar ekki á því núna hvers vegna mér fannst svona erfitt að komast inn í hana um árið – í þetta sinn rann hún einsog vel brýndur skautasleði, 709 stórar síður á þremur dögum. En það er sannarlega hægt að gefa sér lengri tíma til að lesa hana og hægt að lesa hana mörgum sinnum ef maður vill ráða allar hennar gátur. Internetið er bókstaflega krökkt af þannig lestri – það er engu logið um áhugann sem fólk hefur á að leysa allar þær undarlegu ráðgátur sem finna má í House of Leaves, fólk fær alvarlega þráhyggju fyrir þessari bók. Bókin er þremur lögum og það mætti jafnvel skipta hverju lagi upp í fleiri lög. Söguþráðurinn er sirka svona. Kvöld eitt fær 25 ára gamall tattú-lærlingur í Los Angeles, Johnny Truant, símtal frá vini sínum, djammaranum Lude, sem segir að hann hafi fundið óhemju af pappírum í íbúð látins gamlingja, Zampanò, og Johnny þurfi að skoða þetta, það sé eitthvað óvenjulegt við þessa pappíra. Johnny les sig í gegnum ósköpin, fær þau á heilann, og byrjar að skrifa textann upp, skipa honum í rétta röð og gera við hann athugasemdir, með það fyrir augum að fá textann útgefinn – og missir smám saman tökin á raunveruleikanum – milli þess sem hann djammar með Lude, stundar kynlíf með ýmsum konum, segir langar lygasögur til þess að heilla þær, og kynnist (og þráir) strippara sem kemur stundum á tattústofuna, og hann kallar Thumper (hún heitir eitthvað annað og fyrir rest fær Johnny að vita það en lesandinn aldrei). Johnny átti erfiða æsku – faðir hans var flugmaður sem lést af slysförum þegar hann var smábarn, mamma hans missti vitið og fór á hæli (og hefur sennilega reynt að drepa hann), og hann ólst upp á fósturheimilum, mest hjá ofbeldisfullum stjúpföður. Þessi sár ýfast öll upp í gegnum bókina. Þá er það handrit Zampanòs. Í raun eru þetta bara haugar af pappírum í íbúð – og minnir á lýsingar af því þegar Kerouac og Ginsberg fóru til Tangers og hirtu Naked Lunch upp af gólfinu hjá Burroughs (samband Johnnys og Ludes er líka áþekkt sambandi Kerouacs og Neal Cassady, gleðikúrekans úr On the Road – báðir frekar villtir en annar ívið villtari en hinn). Pappírarnir eiga það sameiginlegt að vera einhvers konar endursögn og greining á frægri heimildarmynd, The Navidson Report. Við lærum mjög fátt um Zampanò og það sem við lærum kemur flest frá Johnny (þ.e.a.s. ekki í texta Zampanos).Zampanò var blindur (að skrifa um heimildarmynd) og hafði í gegnum tíðina fjölda aðstoðarmanna sem allt voru ungar konur. Einsog Johnny virðist hann hafa misst tökin á veruleikanum við þessa vinnu og Johnny greinir hann með grafómaníu (og getur vel að merkja trútt um talað). Þá er Zampanò augljóslega mikið lærður – hann vitnar í alla helstu heimspekinga, sálfræðinga og vitringa, gerir það á öllum mögulegum tungumálum, bollaleggur villt og skrifar endalausar neðanmálsgreinar. Stundum er það snjallt og stundum er það stjarnfræðilega bilað – og oft eru það bara nærri því endalausar upptalningar á hlutum sem gætu mögulega tengst einhverju í textanum. Á einum stað birtist til dæmis í neðanmálsgrein mjög langur listi af ljósmyndurum (500 talsins) sem ein af aðstoðarkonum Zampanòs segir Johnny að hún hafi skrifað upp fyrir hann meira og minna af handahófi (hún fletti tímaritum, lýsti myndum og hann sagði já eða nei, eftir því hvort þeir ættu að vera með á listanum). Þriðja lagið er sjálf heimildarmyndin, The Navidson Report – sem er sá hluti bókarinnar sem dregur mann áfram, spennusagan sem heldur þessu öllu saman. Við fáum lýsingar af henni fyrst og fremst úr texta Zampanòs. Will Navidson er heimsfrægur stríðsfréttaljósmyndari hvers hjónaband er á leiðinni á haugana af því að kærastan hans og barnsmóðir, Karen Green, fyrrum tískumódel, er komin með nóg af því að hann rjúki alltaf út í heim til þess að stefna sér í voða á átakasvæðum, meðan hún er heima að sinna börnunum þeirra, Chad og Daisy. Hjónin ákveða að gefa þessu einn séns í viðbót og flytja saman til Virginíu þar sem Will (sem meira að segja tvíburabróðir hans, Tom Navidson, kallar „Navy“) ætlar að venda kvæði sínu í kross og gera heimildarmynd um hversdagsleika fjölskyldunnar í nýja húsinu. Hann setur upp myndavélar og hreyfiskynjara alls staðar nema á klósettunum. Dag einn bregður fjölskyldan sér af bæ og þegar þau koma aftur hefur eitt herbergið í húsinu stækkað – það hefur myndast dálítill skápur. Þau skilja auðvitað ekki neitt í neinu – þetta er undarlegur hrekkur, að læðast inn í hús og byggja þar skáp að íbúum forspurðum – og fara og ná sér í teikningar af húsinu (húsið er mjög gamalt og teikningarnar eru gerðar eftir mælingum á húsinu, en húsið ekki byggt eftir teikningunum). Navy fer strax að mæla og bera saman og finnur að þarna hefur augljóslega a.m.k. verið pláss fyrir skáp inni í einhverju holi milli veggja. En við sömu mælingar kemur í ljós að ein hlið hússins er lengri að utan en að innan. Sem getur auðvitað ekki staðist. Navy mælir þetta aftur og aftur, fær bróður sinn til að koma og hjálpa sér, nær svo í verkfræðiprófessor – og alltaf komast þeir að sömu niðurstöðu. Á meðan á þessu stendur er Karen að smíða bókaskáp eftir einum veggnum endilöngum („besta bókastoðin er veggur“) og þegar því lýkur rekur prófessorinn sig utan í bók á einni bókahillunni, svo þær falla allar einsog dómínókubbar – og sú síðasta fer á gólfið. Bókahillan nær ekki lengur milli veggja. Þarnæst birtist heill gangur. The five and a half minute hallway. Hann er augljóslega djúpur, nær langt út fyrir mörk hússins, þar inni er allt kolbikasvart (með grárri áferð) og frostkalt. Karen hefur bannað Navy að taka þátt í hættulegum ævintýrum – eða lofað að yfirgefa hann ella – og prófessorinn, Reston (sem er í hjólastól eftir slys, sem Navy einmitt ljósmyndaði), kallar á ævintýramanninn Holloway, sem tekur með sér tvo aðra, og gera þeir nokkra leiðangra inn í ganginn – sem er síbreytilegur og inniheldur meðal annars stiga sem tekur stundum marga daga að klífa og stundum innan við mínútu. Allt þetta er kvikmyndað með ólíkum vélum – mest af því birtist okkur samt einsog Blair Witch Project efni, í stuttum mónólógum og frásögnum, enda kolniðamyrkur. Ítrekað kemur þó fram að það efni sem Navy tekur – hann fer á endanum inn líka – sé í allt öðrum gæðum. Það er mikið lagt upp úr því að hin listræna sýn geti bæði veitt skýrari mynd – en líka afbakað eða kallað á óþarfa túlkun. Ég ætla ekki að fara lengra inn í söguþráðinn, vegna þeirra sem gætu viljað lesa bókina – ég hef merkilega litlu spillt enn. Í endursögn Zampanòs er öllu mögulegu velt upp – fortíð persóna, sambandi þeirra á staðnum, það er rýnt í augnatillit og orð, rýnt í þögn og grettur, persónur bornar upp að goðsagnafígúrum og biblíupersónum (t.d. er vitnað í 900 blaðsíðna rit um samanburð bræðranna Toms og Navys við Esaú og Jakob). En textarnir eru líka sumir endasleppir – enda bara pappírshaugar – og sumir þeirra hafa skemmst (eitthvað hefur Zampanò strikað yfir, t.d. allt sem hefur með mínótára að gera, en birtist manni samt sem læsilegt, annað hverfur betur, sumu sleppir Johnny – hann er auðvitað alltaf að laga þetta til – og annað er fullt af dularfullum brunagötum). Svo er Johnny sjálfur sífellt að grípa fram í til þess að segja okkur af sínu lífi – kvennafari, erfiðleikum í vinnunni, óreglunni á Lude, samræðum sínum við fyrrum aðstoðarkonur Zampanòs, bernsku sinn o.s.frv. Í 100 blaðsíðna viðauka birtast svo alls kyns aukatextar – talsvert af ljóðum Johnnys (sem fjalla öll um pelíkana), safn tilvitnana um hús, færslur frá Zampanò sem hafa ekki með söguna að gera, myndir af textabrotum úr handritinu, listi yfir myndir og gröf sem ættu að birtast og hvar, fjöldi bréfa sem Johnny fékk frá móður sinni þegar hann var barn og hún á hæli og fleira og fleira. *** Allt er þetta auðvitað skáldskapur, en í skáldskapnum er sumt af þessu líka skáldskapur – eða í það minnsta hugsanlega skáldskapur. Eitt af því sem Johnny segir strax í upphafi bókarinnar er að heimildarmyndin sem Zampanò skrifi um eigi sér enga stoð í raunveruleikanum – hún sé einfaldlega ekki til, né heldur, auðvitað, öll þau fræðirit sem um hana eiga að hafa verið skrifuð. Annars staðar í bókinni koma svo fram upplýsingar, frá ritstjórum, sem vekja a.m.k. upp efa um að þetta sé rétt hjá Johnny. Kannski sé myndin bara til. En hafi myndin verið til þá er Zampanò auðvitað afar óáreiðanlegur sögumaður – hann er með árátturöskun, grafómaníu, þráhyggjur og hefur (að sögn Johnnys) beitt mjög vafasömum aðferðum við að setja saman sína texta. Ekki bara eru ljósmyndararnir 500 bara einhverjir ljósmyndarar heldur er svo löng neðanmálsgreinarupptalning augljóslega skopstæling á fræðimennsku – en hver er að skopstæla, er það Zampanò, Johnny sem skrifar þetta upp eða Danielewski, höfundur bókarinnar? Þá eru alls kyns kóðar í sumum þessara neðanmálsgreina – stundum mynda upphafsstafir nafnanna einhverjar setningar. Ofsóknarbrjáluð móðir Johnnys skrifar honum bréf með sams konar kóða þegar hann er barn – og ýmsar þannig vísbendingar eru um tengsl milli hugsana Johnnys og Zampanòs og móður Johnnys, sem ýta stoðum undir kenningar um að annað hvort hafi Johnny skreytt texta Zampanòs eða þetta séu allt sögusagnir úr sagnaglöðum huga hans, eða Zampanò og Johnny séu hugsanlega sami maðurinn, og jafnvel Navy líka, enda skarast þeir aldrei á æviskeiðum. Johnny er barn og ungi maðurinn, Navy sá miðaldra og Zampanò sá gamli. Hugsanlega eru kvenpersónur bókarinnar líka ein. Þetta er altso sem sagt í lögum. Laufhús Danielewskis er völundarhús og á að vera það – en einsog kemur fram í einum af öllum þessum textum er ekki vandi að komast út úr völundarhúsi ef maður hefur alltaf höndina á einum vegg og gengur bara beint af augum án þess að sleppa. Mér fannst ekki bókin torlesin en sennilega þarf maður að geta gefið sig að henni. Áður en fer að ræða þemu og merkingu í bókinni þá vil ég aðeins nefna umbrotið á henni. Af því sögurnar eru stöðugt að grípa hver fram í fyrir annarri eru sögumenn með sitt eigið letur – sem hjálpar talsvert, ekki síst þegar Johnny fer að gera neðanmálsgreinar við neðanmálsgreinar Zampanòs – en auk þess er textinn á síðunni gjarnan settur upp með hliðsjón af því sem er að gera. Stundum gisnar hann mjög og það eru ekki nema örfá orð á síðu, stundum þarf að snúa bókinni við og lesa á hvolfi – á nokkrum stöðum er bara hægt að lesa textann með því að bera upp að honum spegil (en það er óþarfi, því sami texti er hinumegin á sömu síðu, maður er bara að horfa aftan á hann). Þetta er vandmeðfarið en vel gert – og sem betur fer ekki ofnotað. Þá lýsir þetta ýmist andlegu ástandi þess sem skrifar, textunum einsog Zampanò hefur skilið við þá (dáið frá þeim) og ferðalaginu inn í þetta undarlega hús, þar sem rúmfræðilögmálin hafa látið undan. Svo eru sumir textar í rauðu og/eða yfirstrikaðir (t.d. allt sem hefur með mínótára að gera, sem eru þá kenningar sem Zampanò hefur hætt við) og orðið hús birtist alltaf í dökkbláum lit, svo dökkbláum að maður tekur næstum ekki eftir því (en samt poppar orðið alltaf fram). [Smellið á örina til að sjá fleiri myndir] *** Danielewski hefur sjálfur sagt að hann hafi byrjað að skrifa bókina í langri rútuferð þvert yfir Bandaríkin á leiðinni að dánarbeði föður síns, Tads Danielewski, sem var pólsk-amerískur framúrstefnukvikmyndaleikstjóri. Og sú túlkun sem liggur þá beinast við er að skoða söguna sem leiðangur um rangala áfalla, bæði það hvernig þau verka á okkur – birtast skyndilega, breyta öllu, breyta svo sjálfum sér, hverfa tímabundið, eru endalaus, köld, myrk og vekja óhug með öllum sem koma of nærri þeim – og það hvernig við reynum að kanna þau, sama hvað það kostar, af ölllu því hugrekki sem við eigum til (einsog Navy, sem breytir því í ævintýralega hættuför), skilja þau (einsog Zampanò sem leggur alla heimsins þekkingu undir) eða deyfa þau (með kynlífi, djammi, áfengi, eiturlyfjum og annarri auðsóttri stundarhamingju, einsog Johnny). Og líka forðast þau – einsog Karen, sem á sín eigin áföll, með og án Navys, en vill varla tala um húsið eða taka þátt í neinu, og vill ekkert frekar en að sleppa bara úr húsinu og að Navy komi með sér. Húsið er hið myrka tráma – sem sumir rekja til þess þegar móðir Johnnys, sem þá er aðalsögumaður, hugsanlega sá eini, reyndi að drepa hann þegar hann var sjö ára – og allt sem gerist er aðferð til þess að díla við það. Og niðurstaðan er fyrirsjáanlega myrk fyrir sögutíma sinn – 10. áratugurinn var ekki bara saklaus, hann var líka vonlaus og sínískur – það er eiginlega engin lausn, trámað mun alltaf gleypa þig. *** House of Leaves er mikil strákabók, einsog þið heyrið. Aðalsöguhetjurnar eru strákslegar erkitýpur – sá sem getur allt (Navy), sá sem veit allt (Zampanò) og sá sem er viðkvæmur, bláeygur, fagur og þjáður (hugsið Kurt Cobain). Konurnar í kringum þá koma aldrei alveg í fókus en eru þó einhvern veginn alltaf fyrir miðju frásagnarinnar (sem er skemmtilegur kontrast við hljóðbókina sem ég er að hlusta á í ræktinni – Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi – þar sem þessu er eiginlega öfugt farið og allt snýst í augnablikinu um það hver fær að giftast Jóni Jakobssyni). Strákarnir hringsnúast í kringum þær og langanir þeirra – jafnvel þegar þeir eru ekki að gera einsog þær helst vildu. Konum Johnnys má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er það mamma hans og trámatískt samband hans við hana – ofsafengin ást hennar á honum og skaðinn sem ranghugmyndir hennar geta og hafa valdið honum. Í öðru lagi eru það hjásvæfurnar – hálfgerður klámmyndalosti einkennir samskipti hans við þær konur, sem aftur gæðir atriðin óraunveruleikablæ, svo maður veltir ósjálfrátt fyrir sér hvort hann hafi riðið þeim eða bara fantíserað um það eftirá. Í þriðja lagi er svo stripparinn Thumper, sem hann þráir en fær ekki – og vill svo ekki þegar hann loksins á að fá (og faðmar „nánast föðurlega“). Konur Zampanòs eru aðstoðarkonurnar. Zampanò er blindur og þarf augljóslega aðstoð við að sjá – þótt ekki komi fram að konurnar hafi horft á heimildarmyndina með honum (og Johnny spyrji þær aldrei hvort þær hafi séð hana; hann sem heldur því fram að hún hafi ekki verið til). Þær virðast líka mikið til vera tungumálakonur og koma oft til sögunnar til þess að hjálpa Johnny við að þýða einhver textabrot – þótt ekki komi fram, það ég muni, að þær hafi þýtt brotin fyrir Zampanò, þótt það megi ímynda sér það. Navy á bara eina konu. Dóttir hans, Daisy, birtist bara sem barn – og börnin eiginlega bara sem propps, í besta falli statistar. Karen Green er tæplega fertug, fyrrverandi módel, heldur sér vel en óttast að eldast. Nöfnin í bókinni eru mörg augljósar vísanir – Navy er flotinn, hetjan; Johnny er Truant að eftirnafni, skrópagemlingur úr lífinu; ruddinn Holloway er hinn holi vegur, hann fer inn the hallway, verður þar eftir, Holloway og Hallway verða eitt; Reston getur ekki staðið á fætur, he rests on a wheel chair, Lude er stytting á kvíðalyfinu quaalude (og orðinu ludicrous) og svo framvegis. Það er freistandi að ímynda sér að hugtakið „ Karen “ hafi verið til fyrren það varð til – Karen þráir ekkert meira en að vera þess lags úthverfamamma, heimtar frið og ró líka þegar það er bara alls ekki í boði, og er áreiðanlega líka fullkomnunarsinni og kvabbari. En það er erfitt að ímynda sér að eftirnafnið – Green, græningi – sé tilviljun. Hún er sú sem tekst ekki á við trámun. Hún veit ekki neitt – um sig, um Navy, um húsið, um heiminn – vegna þess að hún vill það ekki (öll þekking gæti leitt að sárri þekkingu, öll þekking er hættuleg). Hlutverk hennar er að vera sú sem hvetur til hins passífa lífsstíls – fyrir sína hönd en líka fyrir hönd Navys; en svo verður ekki horft framhjá því að hún valdi sér einmitt svona mann (og hann valdi sér svona konu); þau sækja eitthvað hvort til annars. Og á endanum spila gjörðir Karenar lykilhlutverk – það er hún sem bjargar Navy. Á yfirborðinu er það lítil hetjudáð – Karen ferðast ekki langt og gerir ekki margt – en aðdragandinn að því og sú staðreynd að hún er annars konar manneskja en testósterónkarlarnir sem óðu lengst ofan í þetta myrka djúp hússins gerir hennar dáð kannski meiri, hennar sigur stærstan. Annað sem er áhugavert í sambandi þeirra Karenar og Navys er að hún er kynvera en hann ekki. Hún fær á sig druslustimpil sem er ekki alveg innistæðulaus (hún hefur einu sinni tekið framhjá – sem er áreiðanlega lítið í ljósi fjarvera Navys, kuldans í sambandi þeirra og tækifæranna sem fyrrum módeli bjóðast) en er blásinn upp í sumum þeirra texta sem Zampanò vitnar í. Það er einsog Navy fái alla sína kynferðislegu útrás í hættuförum sínum á útlenskum átakasvæðum – þar sem hann þykir fram úr hófi penn í samskiptum við konur, miðað við kollega sína. Sem leiðir mann óneitanlega að því að vilja túlka gatið í húsinu sem einhvers konar alheimsvagínu sem Navy sé sífellt að reyna að serða til fullnægingar – einsog vagína er hún teygjanleg að lögun, langt um fram það sem maður gæti ímyndað sér við fyrstu sýn, það býr í henni myrkur og ókönnuð djúp (inni í hverri vagínu er heil manneskja!); en annars er hún spegill vagínu: hún er köld, full af vansælu og gleypir líf frekar en að þrýsta því út. Sem minnir mig á að Thumper, stripparinn í lífi Johnnys, kallaði píkuna á sér „the happiest place on earth“. Og gott að hafa í huga að þegar til kastanna kom hafnaði Johnny boði þangað. *** Sem minnir líka á þetta sítat í Valerie Solanas, í þýðingu Dr. Usla (útg. Nýhil, 2009). „[Karlmaðurinn] er tilbúinn að synda yfir fljót af hori, vaða nasadjúpa ælu kílómetrum saman, ef hann heldur að vinaleg píka bíði á hinum endanum.“ *** Ein vinsæl kenning um það hver sé „raunverulegur“ höfundur The Navidson Record (á heimasíðu aðdáenda House of Leaves fara menn meira að segja svo varlega að fullyrða ekki einu sinni að Danielewski hafi skrifað bókina) er að móðir Johnny, Pelafina H. Lièvre, hafi skrifað allt saman. Lièvre þýðir vel að merkja „héri“ á frönsku – og „Thumper“ er nafn á héra úr bíómyndinni um Bamba, sem hún er með tattúveraðan á sig, skammt ofan við áðurnefndan unaðshól. Þá er það hún sem fyrst notar upphafsstafakóðann, einsog áður segir, til þess að skrifa bréf til Johnnys þegar hann er barn, og hann dúkkar svo aftur upp í neðanmálsgreinum Zampanòs. *** Eitt af því skemmtilegasta við að lesa bókina er að reyna að ráða í alla þessa rangala – og Danielewski má eiga það að þótt það sé ólíklegt að bókina megi neitt „leysa“, þetta er ekki þess lags þraut, þá er gaman að þvælast um þetta undarlega hús og vísbendingum hefur haglega verið komið fyrir. Bókin er gjarnan kölluð meistaraverk og það er óhemja af fólki sem stundar lestur á henni einsog trúarbrögð – af áfergju og prinsippfestu. Og ég myndi nú aldrei segja að hún hefði valdið mér vonbrigðum þótt ég eigi erfiðara með meistaraverkskonseptið (kannski finnst mér það bara mjög sjaldan eiga við, kannski næ ég bara ekki sambandi við konseptið sem slíkt). Það eru kaflar af henni sem eru óþægilega juvenile , þetta er ógurlega gröð bók og mikið karla-aksjón – ég get alveg varið slíkt og fundist það jafnvel dásamlegt, svo ég veit ekki alveg hvers vegna ég hika hérna. Kannski er greddan og aksjónið bara of mikið Hollywood – go figure, bókin gerist að miklu leyti í L.A. Einhverjir al-amerískir stælar sem ég hef innbyrt of oft til þess að þeir hafi fullan kraft lengur. En samt. Geggjuð bók. Æðisleg smíði.

Nýja árinu kennir illur ræðari

Ég fékk ekki hjartaáfall í fyrstu heimsókn minni á líkamsræktarstöð á þessu herrans ári, 2024, þrátt fyrir ótæpilega neyslu sykurs, fitu, salts – og meira að segja tóbaks og áfengis – yfir hátíðirnar. Það get ég engu þakkað öðru en góðum genum, ef ég fengi það sem ég á skilið væri ég áreiðanlega steindauður. Ég sór alls kyns eiða á áramótum og stend meira og minna við þá alla. Ég hef aldrei átt erfitt með standa við það sem ég ætla mér – það snýst ekki um annað en að kunna sér hóf og þekkja sjálfan sig. Flestir sneru eiðarnir að andlegri og líkamlegri heilsu, en næstflestir að menntun – bóklestri og tungumálanámi. Ég setti mér engin markmið í músík (önnur en að taka þátt í Fiðlaranum) – en það verður nú áreiðanlega eitthvað músíserað samt. Líkt og í upphafi árs 2021 er ég hættur að nota samfélags- og fréttamiðla. A.m.k. í bili en kannski bara fyrir fullt og allt. Við þetta sparast óhemju tími. En á móti kemur að ég var fyrst að frétta núna að Guðni Th. ætli ekki að bjóða sig fram til forseta. Degi seinna en flestir aðrir. Ég hef því einum degi færra til þess að undirbúa mitt eigið framboð, ef svo kynni að fara að ég vildi bjóða mig fram, þegar fólk er búið að koma að máli við mig og ég leggjast undir feld. Ég er degi á eftir. Og líka degi á eftir með að skora á aðra ef ég, af örlæti mínu, eftirlæt embættið einhverjum öðrum. Hvern myndi maður skora á? Kannski Hermann Stefánsson – hann skrifar svo fallega um Náttúrulögmálin á bloggið sitt í gær. „Bók ársins“ segir Hermann. Góður forseti þarf einmitt að vera góður og glöggur lesandi. Ég hugsa líka að Hermanni þætti skemmtilegt að vera forseti og ekkert er mikilvægara en að manni finnist það skemmtilegt sem maður tekur sér fyrir hendur. Maður þarf að njóta ferlisins, vinnunnar, öðruvísi verður maður aldrei góður í henni. Á móti kemur að þá myndi Hermann sennilega skrifa færri bækur á meðan – en bækur hans myndu vekja meiri athygli, líka eldri bækur hans. Annars yrði Lommi líka flottur forseti. Og Ásta Fanney. Að vera forseti er ekki svo ósvipað því að vera framúrstefnuljóðskáld. Svo gæti Davíð loksins orðið forseti og þá yrði Morgunblaðið frjálst. Það er hláka á Ísafirði. Í gærkvöldi varð skyndilega funheitt í húsinu þegar hitinn úti fór skyndilega úr 11 mínusgráðum í 5 plúsgráður. Við fjölskyldan vorum að horfa á Star Wars Episode I og vorum öll farin að hátta okkur ískyggilega mikið í sófanum áður en yfir lauk. Ég hélt fyrst þetta væri bara meltingin í mér – líkami minn er brennslumusteri fyrir hangikjöt og jólaöl. Eitt af því sem ég ætla að gera meira af á nýja árinu er að drekka instant-kaffi. Það er betra en af er látið og svo á maður bara að venja sig af snobbi (það er samt of flókið nýársheit að „venja sig af snobbi“ – gæti þýtt hvað sem er).

Bókaárið

Ég nenni ekki að setja bókaárið upp í excel einsog ég gerði í fyrra. Það er líka eitthvað óskáldlegt við það, finnst öðrum, ekki mér, en ég er hégómagjarn og vil ekki að fólk geri grín að mér svo ég sleppi því bara. Við höldum samt lestrardagbók fjölskyldan og setjum okkur meira að segja markmið um lestur, svo ég veit hvað ég las. Í ár sýnist mér að Aino verði ein um að ná sínum markmiðum (og færi langt fram úr þeim ef það mætti telja með endurhlustun á hljóðbókum). Að því gefnu að ég klári enga bók það sem eftir er dags – sem er ólíklegt í ljósi þess að ég kláraði bók í gærkvöldi (Rambó er týndur) og hef ekki í hyggju að byrja á annarri fyrren í fyrsta lagi eftir miðnætti – verð ég fimm bókum frá markmiðinu með 95 lesnar bækur. Sem er meðalár hjá mér en talsvert lægra en árið á undan – samfélags- og vefmiðlalausa árið. Eftirminnilegasta bókin er endurlesturinn á Búddenbrooks og hugsanlega ekki bara af því ég kláraði hana fyrir örfáum dögum. Annað eftirminnilegt var t.d. Kramp eftir Maríu José Ferrada frá Síle, The Flaw eftir Antonis Samarakis frá Grikklandi, Hör bara hur ditt hjärta bultar i mig eftir Bodil Malmsten frá Svíþjóð, Book of Dave eftir Will Self frá Englandi, endurlestur á Generation X eftir Douglas Coupland frá Ameríku og úr jólabókaflóðinu Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur frá Íslandi. Þá var mjög eftirminnilegt að lesa Monsieur Ibrahim et les fleurs du Coran því þótt mér hafi ekki þótt bókin frábær – hún er ágæt, en kannski full poppuð fyrir minn smekk – þá var þetta fyrsta „alvöru“ bókin sem ég las á frönsku. Og ég hef í hyggju að halda áfram frönskunámi mínu á nýja árinu (ég er ekki jafn sleipur í henni og maður gæti ímyndað sér, af því að dæma að ég hafi lesið heila skáldsögu á frönsku – það var ekki síst gert á þolinmæðinni). Einsog ég hef stundum nefnt er sjaldgæft að ég lesi ljóðabækur spjaldanna á milli nema þær séu beinlínis til þess gerðar – ég „grúska“ mest í ljóðum, er með lifandi bókaskáp við skrifborðið í vinnunni, kippi út bókum eftir behag og löngun, les smá, hef liggjandi á glámbekk og skila viku síðar. En eftirminnilegustu ljóðabækurnar sem ég las í gegn voru Jag är ingen mördare eftir UKON, Gluggi Draumskrá eftir Ástu Fanneyju, Anatómía fiskanna eftir Sölva Björn Sigurðsson og svo hin fallega Íslenskir málshættir eftir Birtu Ósmann, sem inniheldur myndljóð í anda klassískrar bókar Óskars Árna Án orða, sem kom út í ritröð Bjarts og frú Emilíu. Í ár ætla ég að lesa enn færri bækur en reyna að hafa þær svolítið langar – ég er búinn að gera smá lista yfir bækur sem ég á ólesnar, langa klassík. Ég ætla ekki að birta hann núna en þessar bækur munu sjálfsagt koma fyrir á blogginu eftir því sem þær klárast. Kannski stefni ég bara að þessum klassísku 52. Það er a.m.k. skylda að setja einhverja tölu í kladdann. *** Af persónulega sviðinu er ég strax búinn að gleyma öllu sem gerðist. Enda gerist ekkert nema í skáldskap. Jú, ég fór í reisu um landið, sem var skemmtileg. Við Nadja vorum í Frakklandi að frílysta okkur í tvær vikur í sumar. Og ég annað eins í Svíþjóð (en hún lengur). Ég teygði líka á einni bókamessuferð til Grikklands og eyddi aukaviku í Aþenu. Í ár er útlit fyrir a.m.k. eina aðra bissnissferð til Grikklands, mánaðardvöl í Bangkok hjá mági mínum, ljóðahátíð í Póllandi, einhvern þvæling um Svíþjóð, vinaferð til Napólí og svo blóðlangar mig til Frakklands til að æfa frönskuna mína, en hef ekki hugmynd um hvernig ég á að koma því fyrir innanum allan hinn þvælinginn, ef ég ætla líka að koma einhverju í verk (og ekki eyðileggja plánetuna með koltvísýringsfrekju). Því það er líka viðbúið að ég fari í fleiri bissnissferðir. Ég er svo mikill bissnisskall. Ég gaf út bók. Hún gekk vel. Hún er ennþá til og kemur út í kilju og svo vona ég að hún verði þýdd eitthvað og síðan verði gerð bíómynd – eða kannski öllu heldur sjónvarpsþáttaröð, hún hentar í slíkt – einhver vefi söguþráðinn í veggteppi, skrifi upp úr honum epískt ljóð, kóði hann í bakteríu og sendi út í geim svo hún megi lifa að eilífu. Eiginlega finnst mér það lágmark. En það er kannski bara ég. Annars er framtíðin frekar óráðin. Ég er langt kominn með ljóðabók sem ég veit ekkert hvað mér finnst um. Ef ég sættist ekki við hana kemur hún sjálfsagt aldrei út. Skáldsagnapælingar eru ekkert nema óljósar glósur hingað og þangað – ég er alltaf að skipta um skoðun. Mig langar að klára að þýða a.m.k. eitt styttra verk, sem er samt talsverður höfuðverkur. Það er orðið langt síðan að ég þýddi eitthvað af viti. En fyrst og fremst langar mig í – einsog alltaf, alltaf, alltaf – hugarró og lágmarks sjálfsþekkingu.

Búddenbrooks

Maður segir varla neitt nýtt um Búddenbrooks úr þessu. Ég las hana fyrst þegar hún kom út í íslenskri þýðingu Þorbjargar Bjarnar Friðriksdóttur fyrir aldarfjórðungi síðan – hugsanlega þetta sama eintak og ég tók nú aftur á bókasafninu. Ég fæ merkilega mikið út úr því að geta loksins sagst hafa gert jafn fullorðinslega hluti fyrir „aldarfjórðungi“ – og þetta var meira að segja á síðustu öld, sömu öld og bókin kom út. Það er hefð að taka það fram, þegar Búddenbrooks er til umræðu, að það sé hálfsturlað að þetta sé verk rétt rúmlega tvítugs manns – hann er 26 ára þegar hún kemur út – það hefur aldrei neitt verið skrifað um Búddenbrooks án þess að þess sé getið, og engin furða, enda er það hálfsturlað. Látum vera að hafa jafn breiða innsýn í félagslegan veruleika 19. aldarinnar en að hafa ofan í kaupið jafn agaðan talent – því þetta er engin On the Road, ekki persónu- eða tíðarandalýsing skrifuð af tilfinningu, æskuástríðu og látum, heldur vandlega stúderað listaverk fullt af Wagnerískum leitmótífum, sem spannar fleiri áratugi, inniheldur fjölda sögupersóna, stekkur til í stílum og stemningum og endar á hálfmódernískum nótum. Ef maður vill fá ærslafullt og eðlilegt „æskuverk“ frá Thomasi Mann væri nær að opna Felix Krull – sem Mann náði ekki að klára, hálfáttræður, vegna þess að hann dó (ég vissi reyndar ekki að hún væri ókláruð þegar ég las hana fyrst og fannst endirinn bara fínn – fínt að gera punkt þarna og í takti við fjörið í bókinni). Búddenbrooks segir frá hnignun samnefndrar fjölskyldu, einsog frægt er, á tæplega fimm áratugum. Aðalsöguhetjur eru nokkrar og fer sennilega svolítið eftir því hvar maður fókuserar sjálfur í lestrinum – ég hékk mest í Tómasi og Tóný systur hans, en finnst einsog ég hafi meira verið að spá í Kristjáni og Hannó síðast. Tómas er sá sem fær forstjórastólinn í arf og þar með framtíð fjölskyldunnar og Tóný er systir hans, kraftmikil og þrjósk, jafnt þegar hún vill vera dramatísk og þegar hún er í aktífri bælingu á eigin hvötum. Heimspekilegu átök bókarinnar eru milli viðskipta og lista annars vegar, og einstaklings og fjölskyldu hins vegar. Eða jafnvel bara milli einstaklings og einhvers konar heildar – hvort maður sé kraftaverk í sjálfum sér eða kraftaverk í nafni þess hlutverks sem maður gegnir í heildinni, hvort maður sé „nóg“ eða hvort það sé nóg að sinna hlutverki sínu gagnvart hinu stóra (sem í Búddenbrooks er Búddenbrooks – fyrirtæki og fjölskylda). Mann svarar þessu ekki beinlínis þótt ljóst sé að öld eintaklingshyggjunnar sé að ganga í garð þegar bókinni lýkur – en bókin er undarlega markeruð af einhverri blöndu af kærleika og svartsýni; fólk er gott og gallað, kærleiksríkar smásálir, fórnarlömb aðstæðna sinna og skaparar sömu aðstæðna, og það er eiginlega alveg sama hvaða afstöðu maður hefur gagnvart þessum átökum hins skapandi einstaklings og hins skyldurækna fjölskyldumeðlims, allt stefnir til glötunar hvort eð er. Fjölskyldumeðlimurinn deyr vegna þess að fjölskyldan deyr – fer niður með skipinu – og einstaklingurinn deyr vegna viðkvæmni sinnar, ýmist fyrir hálfgerða tilviljun, eða vegna þess að hann er sér ber að baki bróðurlaus. Bókin kom út 1902 og hlýtur að hafa slegið mann öðruvísi þá, þegar evrópubúar eru kannski að miklu leyti að reyna brjótast út úr fjölskyldu- og hefðarklöfum – hún lýsir kæfandi veruleika og ákveðnu öryggisleysi gagnvart því sem muni taka við, nú þegar hann hefur gengið sér til húðar. Ríflega 120 árum seinna er einstaklingshyggjan allsráðandi og tilhugsunin um að einhver fórni einhverju fyrir fjölskyldu sína fáránleg – við stöndum að vísu gjarnan í rifrildi um það hver fórni sér mest, en það eru píslarvættislæti þess sem vill fá að gera minna fyrir hina og meira fyrir sig. Og við stundum þessi rifrildi alltaf með stórri prófílmynd, jafnvel sem talandi tilhafðir hausar í storys. Með filter. Ég er ekki endilega að segja að það sé verra – það fer eftir fleiri þáttum – en þetta er allavega eitthvað allt annað, og kannski ekki lífvænlegra til lengdar en þessi áhersla á dygð skyldunnar. Hvað um það. Þessi endurlestur var sennilega með áhugaverðari lestrarupplifunum ársins – og ánægjulegri. Meðal þess sem mér varð ljóst er hvers vegna ég lenti í þrætum við alla fjölskylduna þegar við horfðum saman á Titanic fyrr í ár – en aðstæðum Rose í Titanic og Tóný í Búddenbrooks svipar nokkuð saman, báðar eiga að giftast manni sem þær vilja eiginlega ekki eiga, og verða ástfangnar af öðrum (hugsanlega má reyndar ímynda sér að Jack eigi sér minni hliðstæðu við lækninn sem Tóný verður fyrst ástfangin af, og meiri við hinn lífsglaða seinni eiginmann hennar, Permaneder – sem veldur Tóný vægast sagt vonbrigðum fyrir rest). Þrætur mínar við fjölskylduna sneru að því hvort Rose bæri einhverja ábyrgð á hlutskipti sínu sjálf – mér fannst blasa við að þetta kjarnakvendi væri líklegri til þess að hafa grafið sér þessa gröf að einhverju leyti sjálf, hugsanlega af fórnfýsi en alls ekki sökum þvingunar (meira að segja sjálfsmorðstilraun hennar er til marks um að hún vilji ekki láta stjórna sér). Í Titanic kemur auðvitað ekkert fram um það hvernig Rose lendir í þessum aðstæðum – þetta er einföld ævintýraklisja, prinsessan á að giftast vondum prins – en í Búddenbrooks er því öðruvísi farið, þar er ljóst að Tóný er gerandi í eigin lífi og þegar til kastanna kemur er það hún sem vill stuðla að glæsileika fjölskyldunnar, jafnvel á kostnað eigin hamingju. Hún er fórnarlamb sömu félagslegu aðstæðna og aðrir – frekar en að hún sé frjáls en viljalítill andi kúgaður af félagslegum kröfum annarra. Einsog aðrar persónur bókarinnar er hún ekki síst þolandi sjálfrar sín – og ég hef túlkað Rose í ljósi Tónýar og ekki viljað sjá hana sem hlýðin hvolp móður sinnar, sem er auðvitað ekki nærri því eins áhugavert (eða trúverðugt) og að hlýðni hennar sé við sjálfa sig sem óaðskiljanlegan hluta af heildinni. Rose er ekki bara Rose, hún er líka mamma sín, einsog Tóný er ekki bara Tóný heldur líka Búddenbrook.