Stærsti kosturinn við að vera lasinn rithöfundur er að þurfa ekki að fara fram úr til að byrja að vinna. Maður teygir sig bara í íbúfendunkinn, fartölvuna og kókflöskuna, treður svolítið af extrakoddum undir bakið á sér og byrjar að ljúga. Stærsti ókosturinn er að höfuðverkurinn – sem maður losnar aldrei alveg við, sama hvað maður tekur margar íbúfen – hægir á allri hugsun og hefur áhrif á hjartað, á tilfinningalífið, sem smita sér inn í bókina. Það vildi til að það fyrsta sem ég þurfti að skrifa í dag var lýsing á manni sem vaknar við óútskýranlegar þjáningar (ekki hræðilegar – bara óútskýranlegar). Á morgun þyrfti ég helst að skrifa gleðilegri kafla en hef litla von um að mér verði batnað að ráði. Þetta er hræðileg flensa (ekki óútskýranleg, bara hræðileg) og ég verð áreiðanlega flatur í nokkra daga til. Annar ókostur, sem hefur ekki bara með starfið að gera, er sá að þegar ég er lasinn hef ég skerta einbeitingu til lesturs. Það er mjög miður – því það myndi sannarlega gylla sótthitavímuna að geta gleymt sér í bók. Ég get alveg lesið en ekki nema svona hálftíma í senn. Ég er líka að lesa mjög góða bók – The Book of Dave eftir Will Self, sem fjallar um alkóhólíseraðan og lífs-reiðan leigubílstjóra í foræðisdeilu sem verður á að skrifa hálfgerða biblíu í geðrofi, um „ the knowledge “ (gatnakerfið í Lundúnum) og foreldrajafnrétti (þar sem hallar pínupons á konur). 500 árum síðar í post-apokalyptísku og kynjaskiptu samfélagi Lundúnaborgar er bók Daves orðin að raunverulegu trúarriti. Og stefnir í uppgjör. Mikið af samræðunum í bókinni eru skrifaðar á framtíðar-cockney mállýsku sem er ekki alveg fyrir lasna heilann í mér að greiða úr – þótt það sé mjög ánægjulegt annars. Iss tym, Runti, Carl cooed, tym fer yer slorta, yeah? Ve Acks partë ul B eer vis tariff or ve nex, an Eye gotta tayk yer bak 2 ve manna.
– Slorwa, the moto said wonderingly, slorwa.
– Thass rì, Runti, slorta. Weel uze yaw meet 2 feed ve Ack an iz dads, yer oyl fer vair woonz, an yul be wiv Dave á lars, yeah.- In Nú Lundun.
– Yeah, thass rì, Carl said, kissing Runti delightedly, in Nú Lundun. Will Self segir sjálfur einhvers staðar að skáldsagan (sem slík, listformið) sé fullkomlega sjálfstæð heild í þeim skilningi að hún kenni manni að lesa sig sjálf, allar upplýsingar sem maður þarf eigi að vera í henni sjálfri. Að ef maður rekist á orð sem maður skilji ekki eigi maður ekki að smella á kindilinn sinn til að fá skilgreininguna (eða „a brief video where trained thespians act it out“) – það er óeðli og Will Self hatar tölvur – heldur eigi maður að bíða þess að orðið birtist aftur í nýju samhengi og útskýri sig þannig smám saman. Svona einsog maður lærir flest orð, eiginlega, við sem erum með Gutenbergheila. En í Book of Dave er samt orðalisti aftast upp á fleiri, fleiri blaðsíður. Hins vegar er satt að þetta venst hratt – og í raun þarf maður ekki orðalistann nema bara rétt til að koma sér af stað í algengustu hugtökunum (mikið af orðunum eru úr leigubílabransanum en fá nýja merkingu – headlight er t.d. sólin o.s.frv.). Annað sem ég hef tekið eftir er að Self, sem hatar líka Harry Potter bækurnar, kallar geðsjúkrahúsið sem Dave fer inn á „St. Mungo’s hospital“. En það sjúkrahús er, eftir því sem ég kemst næst, hvergi að finna nema í þessari bók – og svo auðvitað í Harry Potter bókunum.
Author: Eiríkur Örn Norðdahl
Dagur 16 af 90: Að segja eitthvað
Ég held að það sé þreytumerki að mig langar mest að tjá mig bara um Eflingardeiluna. Eða Brotkast Frosta Logasonar. Eða eitthvað annað af því sem er í deiglunni. Instagram vikunnar. Gengi landsliðsins á HM – er það búið? Erum við hætt að rífast um það? Ég sá að fyrirliði danska landsliðsins – sem datt í það eftir sigurinn – lét hafa eftir sér að mannshöfuð væri þungt. Það er nú eitthvað sem taka mætti upp hér á þessum síðum. Fyrst: vinnuskýrsla. Ég hef náð lágmarkinu alla daga. Tvisvar hef ég tvöfaldað það – sem er nokkuð sem ég forðast, ég vil ekki gera þetta á sprettum – og í bæði skiptin var það föstudagur. Hvað sem það á að þýða. Álíka oft hefur lágmarkið náðst með herkjum, sem er ekki heldur optimalt. Í gær vaknaði ég með höfuðverk og pirraður og byrjaði daginn á ritstjórnarmóð sem kostaði mig þúsund orða holu sem ég svo vann upp. Alveg þar til fyrir svona fjórum dögum svaf ég vel en þá datt ég úr sinki og hef verið illa haldinn af svefnleysi síðan. Í nótt gafst ég bara upp og fór á fætur – með viðlagið í Los Ageless eftir St. Vincent á viðstöðulausri lúppu í höfðinu („how can anybody have you and lose you and not lose their mind too“). Settist niður og skrifaði í næturþögninni og var búinn með lágmarkið fyrir klukkan 7. Ég hlustaði á Will Self flytja fyrirlestur í gær. Eða horfði á 5 ára gamla upptöku af slíkum fyrirlestri, réttara sagt. Þar var hann á kunnuglega svartsýnum nótum og fannst mjög lítið til alls konar koma. Meðal annars sagði hann að stærstu bækur samtímans – þær tvær bækur sem hefðu verið stærsta „water-cooler augnablikið“ í vestrænum (eða bara breskum) bókmenntum síðustu áratugi væru ómerkilegar. Bækurnar sem fönguðu ímyndunarafl þjóðanna, fólksins við vatnskælanna, sem allir höfðu skoðun á. Aðra þeirra – Söngva Satans – hefði eiginlega enginn lesið og það væri óþarfi því hún væri ekki góð og það vísaði aldrei neinn til hennar „sem bókmenntaverks“ því við vissum að hún væri ekki góð. Hina hefðu allir lesið og mjög margir hreinlega upphátt – Harry Potter og viskusteinninn , og ekki væri hún skárri. Það sem hefur elst verst úr þeim ranti er merkilegt nokk varnarræða hans fyrir JK Rowling, sem hann segir að allir séu sammála um að sé afskaplega viðkunnanleg og vel gefin kona, sem enginn skilji hvernig hafi getað skrifað svona hræðilega sögu. Það var ekki löngu eftir þetta að Rowling fór í Twitter-meltdown og eftir það hefur eiginlega engum dottið í hug að kalla hana viðkunnanlega – en margir raunar orðið til þess að verja bækurnar sem góðar þrátt fyrir að höfundurinn sé skass. Will Self sagði fleira. Til dæmis að ritlistin – sem hann kennir, vel að merkja – sé eins konar dvalarheimili skáldsögunnar, þangað sem hún hafi komið til þess að kalka í friði og drepast. Hann, sem leiðbeinir fólki á doktorsstigi, hló líka mjög innilega að því að hægt sé að taka doktorsgráðu í ritlist – og að fólk sem er að klára sína fyrstu skáldsögu sé látið skrifa 35 þúsund orð um sitt eigið skapandi ferli. Einsog maður viti eitthvað um það, hafandi skrifað eina andskotans skáldsögu. Hann talaði líka illa um Philip Roth og vísaði því eiginlega á bug að nokkur skyni gefinn maður gæti eytt nægum tíma í að hugsa um Norman Mailer, hvað þá lesa hann, til að vera illa við hann. Og fleiri – hann talaði illa um of margt til þess að ég geti rakið það allt hér. Í grunninn snerist fyrirlesturinn – sem hafði yfirskriftina Skáldsagan á tímum Trump – um að skáldsagan væri þýðingarlaus, tími hennar væri liðinn, og kæmi ekki aftur. Ekki vegna þess að listformið væri dautt eða einskis virði heldur vegna þess að stærstur hluti fólks hefði ákveðið að sér stæði á sama um hana. Fólk hefði kannski aldrei lesið mjög mikið en allir hefðu haft áætlanir um að gera það einhvern daginn – I’ll read the classics when I retire, sagði fólk. Og trúði því, sem Self segir að sé vitleysa, að innra með öllum sé a.m.k. ein skáldsaga. Allir geti skrifað eina skáldsögu. Af því það hafi verið álíka gerningur að segja einhvern skáldsögulausan og að segja viðkomandi sálarlausan. Slík hafi verið staða skáldsögunnar meðan hún hafði þýðingu fyrir þjóðfélagið. Nú þykist fólk ekki einu sinni lesa lengur. Mér varð oft hugsað til þess sem ég las einhvern tíma í vetur um að gagnrýnendur – og í þessum skilningi held ég að Will Self teljist gagnrýnandi – sem hafa trú á menningunni leyfi sér að vera svartsýnir og neikvæðir, en þeir sem hafi í raun litla trú á henni finnist þeir stöðugt þurfa að tala hana upp, styrkja hana, hugga hana: þú getur þetta, þú ert frábær . Nú er ég ekki að segja að Will Self sé í raun bjartsýnismaður sem hafi óbilandi trú á menningunni sem hann úthúðar – en ég fæ það á tilfinninguna að hann sé að prófa hana, athuga hvað hún þolir, á þeirri forsendu að ef hún þoli ekki álagið sé hún einskis virði hvort eð er. Hann sparkar og á hálft í hvoru von á því að draslið falli saman – þá er hann í versta falli frjáls. Svo er hann auðvitað líka bara að skemmta og velta sér upp úr eigin tilfyndni – sem er talsverð. Af skyldum meiði er svo óttinn við fagurfræðileg átök. Að finnast maður ekki þurfa að dæma listaverk út frá forsendum listamannsins sem skapaði það, heldur leyfa sér að dæma það út frá sínum eigin. Þá getur maður til dæmis sagt: Hér er allt frábærlega gert, allt gengur upp sem listamaðurinn ætlaði sér, og þetta stenst fullkomlega samanburð við álíka listaverk, en þetta er engu að síður íhaldssamt, gamaldags, tilgangslaust og maður ætti heldur að lesa fyrirmyndirnar. Hér er alls ekki síður við akademíuna að sakast en popúlismann – akademían kallar jafnvel ekki annað „fagleg vinnubrögð“ en þau vinnubrögð sem ganga út frá ætlun listamannsins, a.m.k. fyrst og fremst ef ekki einni saman. Ég held að þetta sé sérstaklega algengt í minni menningarheimum þar sem maður er hreinlega óvanur því að allir teknískir fletir listaverks gangi upp – allt er gert af svolitlum vanefnum – og þá klappar maður ósjálfrátt bara fyrir því að ljósin hafi virkað, enginn hafi sungið falskt, leikararnir ekki dottið, rithöfundarnir stafsett rétt og svo framvegis. Sem er auðvitað líka verðskuldað – stór hluti listarinnar snýst um að renna ekki á rassgatið of oft – en í hamaganginum gleymum við stundum að verkið sem við fengum í hendurnar hafði kannski annan tilgang en að ganga teknískt upp. Það átti kannski líka að segja manni eitthvað. *** PS. Hér verður hugsanlega bloggað dálítið stopult næstu vikurnar. Ég minni á póstlistann (sjá hér að neðan) fyrir þá sem vilja ekki þurfa að endurhlaða þessa síðu á tíu mínútna fresti alla daga.
Dagur 9 af 90: Til punkts
Mig minnir að það hafi verið Thomas Mann sem sagt var um að hann hefði alltaf staðið upp frá skrifborðinu við sama orðafjölda, jafnvel þótt hann væri í miðri setningu. Mér finnst líklegt að hann hafi skrifað með penna svo hann hefur þá stöðugt þurft að vera að telja. Ég geng ekki svo langt og þarf ekki að telja sjálfur. Oft kemst ég í stuð við að fara í gegnum textann í annað sinn og byrja að fita hann og sjá á honum alls konar skemmtilega vinkla en ég reyni að stramma mig samt af – það er drjúgt að eiga þann innblástur til góða þegar maður sest niður næst, andlaus og illa sofinn. Ég svaf reyndar vel í nótt – sem er einsog lesendur þessa bloggs vita kraftaverki næst. Kominn tíund í gegnum þetta átak og þótt ég hafi sinnt mínu finnst mér ekki einsog ég sé tíund nær marki og er strax farinn að íhuga hvort ég eigi að framlengja átakið eða breyta skipulaginu einhvern veginn. Líklega eru það ótímabærar áhyggjur. Hluti af mér þráir heitt að klára þessa bók fyrir vorið svo það megi gefa hana út í haust. Annar hluti af mér vill helst aldrei klára hana og alls ekki vera með í þriðja jólabókaflóðinu í röð. Sá hluti er sennilega líka tilfinningalega markaður af því að þegar ég byrjaði á þessari bók ákvað ég að nálgast hana einsog þetta væri síðasta bókin mín – eða hugsanlega bara sú eina. Skyldar hvatir hafa sprottið upp í mér áður – alls ekki alltaf að vísu og ég hef aldrei verið jafn meðvitaður um tilfinninguna. Eða hvað maður kallar það. Kenndina. Ákvörðunina. Hvötina. Þetta er löngun til þess að tala út – komast til botns – og kannski líka þrá eftir því að hvíla sig, án þess að finna til skyldunnar að grípa strax í næstu sögu. Og líka löngun til að vera um kyrrt. Þegar ég byrjaði lýsti þetta sér praktískt í því að ég ákvað að smíða sögusvið sem ég gæti jafnvel endurnýtt mörgum sinnum – þar sem segja mætti margar sögur, þar sem ég gæti sest að til frambúðar. Nú tveimur árum síðar finnst mér í sjálfu sér ólíklegt að sviðsmyndin standi af sér ósköpin sem þar dynja á – eða að þar verði sagðar fleiri sögur – og ekki undarlegt að þeirri uppljómun fylgi ákveðinn heimsslitabragur. Ég smíðaði heiminn og ég sé hann fyrir mér þurrausinn með vorinu og því fylgir léttir og ótti. Ég vil kannski tala til punkts en ég óttast líka merkingu punktsins og það sem er handan hans.
Dagur 6 af 90: Miðjan og markið
Zadie Smith segir að í miðri skáldsögu verði höfundurinn hugsjúkur og allt annað hverfi sjónum hans. Öll samskipti litist af því sem er að gerast í sögunni – eða hún hreinlega taki yfir. Allar fréttir í blöðunum hafi beint með söguna að gera. Öll tónlist streymi beint inn í hana. Makar breytist í risastórar semíkommur og börn verði þankastrik. Í raun sé ekkert til nema bókin. Mér varð hugsað til þessa áðan þegar ég leit upp í miðri setningu og sá þetta: Þetta eru auðvitað geðþóttatölur – eitthvað slump. En ég er þá hálfnaður að slumpuðum endalokum. Ég veit ekki hvort ég hef nokkurn tíma séð Nödju breytast í semíkommu en ég kannast við tilfinninguna um að finnast allt sem maður rekst á einhvern veginn tengjast því sem maður er að gera – og engin tengsl verða nógu langsótt, allt brúast með hægð. Kannski er þetta skylt því þegar fólk fellur fyrir samsæriskenningum um eðlufólk og frímúrara – eða lendir í geðrofi. Alltíeinu hverfist allur heimurinn um bókina og allt sem getur truflað hana – sem er fátt – vekur óstjórnlega gremju, en allt sem frjóvgar hana – sem er næstum allt – vekur óstjórnlega kátínu. Zadie Smith tekur vel að merkja fram að miðja skáldsögunnar sé ekki endilega landfræðileg miðja hennar – ekki akkúrat þegar maður er búinn að skrifa helming orðanna. Hún getur verið hvar sem er í ferlinu. Fyrir sumum er hún kannski í endurskriftunum – fyrir öðrum þegar heimildavinnunni er lokið, strax og fyrsta orðið er sett á blað. Og sennilega birtist hún mér í þessari sögu einmitt þarna fyrir 5-6 þúsund orðum þegar mér fannst skyndilega – eftir tveggja ára streð/pauf/dútl/þrældóm – stefnan og heimurinn orðin nógu skýr til þess að ég gæti bara sett allt í botn og keyrt áfram. Ég get ekki lýst því með orðum – og er það þó mitt fag – hvað þetta er fullnægjandi tilfinning. Helst vildi ég vera hér að eilífu og komast aldrei út á enda, klára aldrei þessa sögu. En þessi saga er af tiltekinni stærð – þótt sú stærð sé slumpuð – og sennilega er það, ef ég á að vera heiðarlegur við sjálfan mig (og ykkur), líka hluti af gleðinni: að sjá í mark.
Dagur 4 af 90: Súrdeigsmaður
Allt gengur einsog … í sögu (hehe). Þanniglagað. Fyrstu tvo dagana var innblástur bærilegur, í gær var hann ekki alveg nógu góður – en það sem mér tókst að skrifa var samt sennilega mjög gott og mikilvægt þótt það væri erfitt að koma því í orð – og í dag var ég eiginlega bara búinn að „öllu“ fyrir klukkan 11. Með „öllu“ meina ég þá það sem ég ætlaði mér. Búinn að dagsverkinu. Í stað þess að þramma bara áfram einsog sköpunarferlið væri járnmaður ákvað ég að nálgast það einsog súrdeigsmóður, baka úr þessu sem ég skóflaði upp í morgun, en skilja líka helling eftir í krukkunni, mata hana með einhverju, og sjá hvort það verður ekki allt sprúðlandi af sköpunargleði hérna á morgun líka. Ég hef líka nóg annað að spekúlera – pota í strúktúrinn, krota hjá mér glósur fyrir einn stóran nýjan þráð, og svo hef ég bara gott af því að lesa aðeins. Ég leit líka á viðtöl við Jonathan Franzen og Don DeLillo að gamni. Í dag eru þeir mitt vatn og hveiti. Það er ekki alveg vandkvæðalaust að blogga um ritstörf þegar maður vill helst ekki láta of mikið uppi um hvað maður er að skrifa. Það er alveg hugsanlegt að ég hafi nefnt það eitthvað á netinu – af og til hef ég verið spurður á förnum vegi og það er upp og ofan hvort ég sný mig bara út úr því, segist ekkert vilja gefa upp, eða blaðra öllu um söguþráð, helstu persónur, fyrirætlanir mínar og hvernig þessar persónur vilja stundum ekki hlýða mér. Kannski hef ég meira að segja sagt eitthvað í viðtölum – ég myndi alveg trúa mér til þess! Ég hef mjög litla stjórn á sjálfum mér. En það er auðvitað mjög misráðið. Í raun og veru ætti maður kannski aldrei að segja neitt og kannski ekki heldur gefa neitt út – bókmenntir eru mjög prívat, svona þegar ég hugsa út í það. En ég hef samt frá ýmsu áhugaverðu að segja. Ég er t.d. að íhuga að taka allt bláa kennaratyggjóið af strúktúrblöðunum mínum – sem hanga upp á vegg svo ég geti horft á bókina úr fjarlægð – og skipta því út fyrir gult kennaratyggjó. Ég er meira að segja búinn að kaupa gult kennaratyggjó. Mér er sagt að það haldi betur. Glósurnar mínar eru nefnilega alltaf skakkar og stundum losna þær og detta á gólfið. Ekki eru þetta nú þungir miðar samt. Svo þarf ég að kaupa svartan tóner í prentarann minn – hef aldrei gert það áður – en það reið fjárhagnum næstum að fullu að kaupa þetta gula lúxus kennaratyggjó svo ég veit ekki. Kannski get ég bara prentað í gulu og bláu fram á vor. ps. Ef maður vill fá tilkynningar um fleiri álíka færslur – og geta þannig fylgst með því hvernig kennaratyggjó- og tónerævintýrum mínum vindur fram – er eyðublað hér fyrir neðan.
90 dagar
Ég hef tekið ákvörðun um að hætta að paufast í skáldsögunni minni og setja mér einhver raunveruleg markmið, einsog það heitir í sjálfshjálparbókunum. Síðustu misserin hef ég mikið sinnt öðru – greinarskrifum, bókarkynningu, ferðalögum, lagasmíðum, heimasíðugerð, húsnæðisviðhaldi og veseni – ofan í oft mjög ómarkvissa heimildavinnu. Eða bara leyft mér að standa álengdar og íhuga hana án þess að koma miklu í verk. Oft hreinlega engu svo vikum skiptir. Kannski er þetta eitthvert form ritstíflu – einhver átakaflótti. Mig langar að þessi bók verði góð. Mjög mikið. Ég má ekki til þess hugsa að hún verði það ekki. Mér þykir of vænt um það sem er komið, um persónurnar og konseptið og stemninguna og ég vil ekki klúðra þessu. Ég svo sem lagði upp með að gefa mér góðan tíma – drífa mig ekki, heldur leyfa henni að klárast á sínum eigin hraða. Og það hefur áreiðanlega í og með verið hollt en nú er samt nóg komið af drolli. Samkvæmt áætlun er ég sirka hálfnaður í gegn – eftir tvö ár – en ég gef mér þrjá mánuði til þess að klára. Þetta er auðvitað ekki sanngjarn samanburður, tvö ár annars vegar og þrír mánuðir hins vegar, af því heimildarvinnan er öll í þessum tveimur árum og langflestar kreatífar ákvarðanir – auk þess sem ég hef hent óhemju af texta og glósað. Og þetta er alveg gerlegt. Ég þarf ekki að skrifa að meðaltali nema um 600 orð á dag. En þá þarf ég líka að skrifa 600 orð á dag alla daga, sem er ekki alveg jafn auðvelt og það gæti virst samt. 1000 orð er svona klassískt markmið fyrir fimm daga vinnuviku – sumir skrifa 2000-3000 orð skilst mér. Sumir skrifa líka alltaf, alla daga. Kerouac náði 5700 orðum á dag þegar hann skrifaði On the Road – 120.000 orðum á þremur vikum. En hann svaf heldur ekki og var á eiturlyfjum – og það var um þetta ævintýri sem Truman Capote sagði „That’s not writing, that’s typing“. Bloggfærslan mín hérna um daginn – þar sem ég rak starfsferilinn í grófum dráttum frá því ég ákvað að byrja að skrifa og þar til það var orðið sæmilega stabílt – var einmitt í þeirri lengd og skrifuð á einum degi. Og það var einmitt ekki writing, það var mest bara typing. Ég skrifa frekar hægt. Eitt af því sem mér finnst erfiðast við að skrifa er að halda einbeitingu til lengri tíma. Ef ég þarf að sinna einhverju öðru í marga daga á milli – t.d. fara á einhverja bókmenntahátíð eða skrifa einhverja grein – reynist mér oft erfitt að komast aftur inn í handrit. Það getur tekið marga daga, jafnvel vikur. Og í átakinu við að komast aftur inn enda ég líka oft á því að breyta einhverju lykilatriði – kannski bara einhverju í tóninum, kannski í strúktúr, nú síðast bætti ég inn karakter sem þarf að vera með frá byrjun bókar – sem svo kallar á það sem er komið verði endurskrifað. Hvað um það. Ég hef nú ýtt frá mér öllum öðrum verkefnum, klárað eða aflýst – og tek engin ný að mér. Ég fer ekki neitt úr bænum og tek ekki frí. Ekki á helgum, ekki á páskum, ekki einu sinni á maskadaginn. Næstu 90 dagana – eða 88 dagana, ég byrjaði í gær – ætla ég að komast út á enda í þessari helvítis bók. Ég lofa svo að láta ykkur vita hvernig það gengur, svona um það bil jafn óðum.
Ófleygur
Lífið gengur sinn vanagang og ég veit ekki hvort ég hef frá nokkru að segja. Það er föstudagurinn þrettándi. Fyrir viku var þrettándinn föstudagur. Ég svaf sama og ekkert í nótt – tvo tíma kannski. Þetta er að verða svolítið þreytt. Ég er að verða svolítið þreyttur. En þetta eru ekki beinlínis tíðindi. Á morgun ætlum við meðlimir aðdáendaklúbbs Tyrfings Tyrfingssonar að fara til Reykjavíkur á Sjö ævintýri um skömm . Menningarreisa. Og í kvöld ætlum við sem ekki erum þegar farnir suður að hita upp með Villibráð í Ísafjarðarbíói. Það eru tíðindi. Mér hefur gengið bærilega að berja saman grein mína um ísfirskar bókmenntir í vikunni. Ég hef stundum haldið því fram (og er ekki mín frumlega hugmynd) að þegar maður skrifi og endurskrifi verði textinn á endanum gáfaðri en maður sjálfur – stærri og fallegri. En ég hef verið að taka eftir því upp á síðkastið að frumdrögin eru oft umtalsvert vitlausari en maður sjálfur. Maður þarf að byrja á því að gefa sér leyfi til að vera vitlaus – og muna svo að láta þar ekki staðar numið. Margir flaska á þessu. Annað eða þriðja uppkast er svo á pari við mann sjálfan og fjórða og fimmta farið fram úr manni. Hver skilur þetta, hugsa ég þá – þetta er alltof gáfulegt fyrir svona götustrák einsog mig. Hver skrifaði þetta eiginlega? Þá óttast ég líka að ég sé farinn að bulla, að skáldskapurinn sé að hlaupa með mig í gönur – stundum gef ég þá í og stundum dreg ég úr, allt eftir því hvernig er stemmdur. Ég er reyndar líka óvenju vitlaus svona illa sofinn – að ekki sé talað um ómyndarlegur og samanskroppinn. Ófleygur. Það er líka einhver nístandi óþefur af mér sem minnir á aceton og er sennilega svitalykt. Svo er Jeff Beck látinn. Það á ekki af manni að ganga.
Gísli Hjartar
Það er frábært viðtal við Andra Ólafsson í hlaðvarpinu Eftirmál um Gísla Hjartarmálið . Þar segir hann frá upplifun sinni af því að skrifa „afdrifaríkustu frétt fjölmiðlasögunnar“ einsog Jakob Bjarnar kallar það í fyrirsögn, þegar Gísli var sakaður um barnaníð og settur á forsíðu DV undir fyrirsögninni „Einhentur kennari sagður nauðga piltum“. Það er bíó að lesa um havaríið svona eftir á og Andri virðist fær um að sjá þetta furðu skýrt – sem mér hefur þótt fáir gera. Hann segir að auðvitað hafi blaðið ekki drepið Gísla, einsog margir héldu fram, en kemur líka inn á mikilvægan punkt: eftir á að hyggja, ef maður horfir á þetta alveg kalt, nokkrum árum seinna þá skapaðist það ekkert bara af þessari einu frétt. DV hafði verið mjög áberandi og umdeilt í umræðunni í langan tíma fram af þessu. Í hugum margra var þetta kornið sem fyllti mælinn. Fólk var búið að fá upp í kok af þessu blaði og vildi það bara í burtu. Ég man eftir því að hafa fundist stemningin á blaðinu – sem ég var áskrifandi að – skemmtilega hortug í fyrstu. Þetta var götustrákablað og maður tók það oft upp og hló hryssingslega að því hvað þeir gátu gengið langt. Þeir hlífðu engum. Fólk fékk alls konar uppnefni og varð að fastagestum – einn hét „hestariðillinn“ eða eitthvað álíka, svo var „ofbeldissystirin“, „kafteinn kókaín“ og þar fram eftir götunum. Innanum var alls konar rugl – t.d. var Gillzenegger með pistla um fótbolta sem gengu mest út á að kalla útlenska knattspyrnumenn þroskahefta. Ég held að þessi stemning hafi verið klöppuð upp af ákveðinni þórðargleði – og jafnvel réttlætiskennd – og blaðamennirnir spiluðu með. Þegar á leið missti almenningur hins vegar smekkinn fyrir þessu, eftirbragðið var beiskt, og ég held að sjálfsmorð Gísla hafi verið spádómurinn að uppfyllast: fyrr eða síðar drepur sig einhver í þessum hamagangi . Svipuðu hefur verið haldið fram með metoo vel að merkja – að þar sigri kapp stundum forsjá – og rétt einsog þar mun, þegar að því kemur, sá sem drepur sig fyrst og fremst hafa drepið sig sjálfur og ástæðan verður sennilega bara einmitt sú sem Andri nefnir í viðtalinu: viðkomandi getur ekki horfst í augu við afleiðingar gjörða sinna. Þótt auðvitað sé líka til í dæminu að fólk drepi sig vegna skammar sem það á ekki skilið – einsog þegar Benny Fredriksson, framkvæmdastjóri borgarleikhússins í Stokkhólmi, drap sig fyrir fimm árum eftir ásakanir um „óviðeigandi hegðun“, en hann varð sannarlega fyrir einhvers konar einelti fjölmiðla. Gengið var mjög hart að honum á mörgum vígstöðvum á þriggja mánaða tímabili sem endaði með sjálfsmorði – hann var síðar sýknaður í öllum rannsóknum, fjölmiðlar (Aftonbladet þar fremst í flokki) kærðir og sakfelldir fyrir framgang sinn, og borgarleikhúsið í Stokkhólmi veitir nú árlega 1,5 milljón í menningarstyrki í minningu hans. Þessu var auðvitað öfugt farið með Gísla – hann drap sig strax og þetta komst í fjölmiðla. Eða eiginlega nóttina áður. Og hann var alveg áreiðanlega sekur. Ég þekkti Gísla ágætlega þótt ég hefði ekki heyrt þennan orðróm fyrren rétt áður en þetta kom í DV. Ég kynntist honum þegar ég var barn og bar út til hans þetta sama blað – Dagblaðið Vísir. Þá bönkuðu blaðabörn upp á einu sinni í mánuði til að rukka blaðið og Gísli bauð mér stundum inn og gaf mér kók á meðan hann skrifaði tékkann – sem var tímafrekara fyrir hann en tvíhent fólk. Hann var svona „hress karl“, síblaðrandi og gerandi gamni sínu. Og hann var umkringdur strákagengi – svona mest á aldrinum 14-18 á að giska, einhverjir yngri og einhverjir eldri. Sumir voru a.m.k. með bílpróf og maður sá þá oft á bílnum hans. Marga þeirra var hann með í einhvers konar heimanámsaðstoð – þótt mér hafi á sínum tíma þótt það pínu langsótt að stilla honum upp sem kennara, þá var það ekki alveg út í hött. Það voru strákar úr þessu gengi sem urðu fyrir barðinu á honum – og aðrir strákar úr þessu gengi sem vörðu hann harðast þegar ásakanirnar komu fram. Fljótlega eftir að ég réði mig sem blaðamann á Bæjarins besta stoppaði Gísli mig á götu og bauð mér á rúntinn með sér. Sem var vel að merkja óvenjulegt – ég þekkti hann ekki meira en bara til að spjalla mjög stuttlega á förnum vegi. Gísli vildi ræða við mig um blaðamennskuna. Hann var sjálfur fyrrverandi blaðamaður á Vestfirðingi og Skutli og ætlaði að ráða mér heilt. Gísli sagði að Sigurjón, ritstjóri Bæjarins besta, væri – einsog flestir blaðamenn – alger aumingi sem þyrði aldrei að tækla neitt mál af alvöru og ef ég ætlaði mér einhvern feril í þessu starfi skyldi ég fyrst af öllu sætta mig við þá staðreynd að alvöru blaðamaður gæti ekki átt neina vini, en safnaði þess heldur óvinum. Sjálfur hefði hann aldrei hlíft neinum, enda væri samfélagið rotið inn að kjarna – það væru til menn sem hann hefði skrifað um og afhjúpað fyrir áratugum síðan sem hefðu aldrei fyrirgefið honum og myndu aldrei gera það. Og það væri alltílagi, það væri bara eðli starfsins. Þegar Gísli drap sig sló það mig auðvitað strax að hann hefði líklega ekki farið mýkri höndum um sig sjálfur – kannski sá hann aldrei forsíðu DV en hann sá hana kannski fyrir sér. Og þá var hún kannski bara í hans anda. Þetta mál kom annars inn á borð hjá mér nokkrum vikum fyrr. Hugsanlega var það milli jóla og nýárs – kannski rétt fyrir jól. Og þegar ég segi „kom inn á borð hjá mér“ þá meina ég hornborðið á Langa Manga einhvern tíma milli tvö og þrjú á laugardagskvöldi. Gísli var ekki nefndur á nafn – fólkið sem kom til mín var aðstandendur og vildi vita hvort Bæjarins besta gæti gert eitthvað með upplýsingar af þessu tagi . Þá var ritstjórnarstefna Bæjarins besta þveröfug við ritstjórnarstefnu DV – í sakamálum birtum við ekkert nema opinber gögn og ég sagði fólkinu að ef það yrði kært myndum við strax birta frétt en án kæru væri engin frétt. Ég er ekki frá því að svona hafi ritstjórnarstefnan verið víðar – jafnvel hjá sumum landsblöðunum – og kannski hafði þetta pólaríserast einmitt út af DV. Þetta hefur auðvitað breyst mjög mikið síðan – sérstaklega eftir metoo. Þetta byrjaði svo auðvitað allt með kæru – og kemur mér á óvart svona eftir á að það líða hátt í tvær vikur frá kæru og þar til þetta er komið í DV. Og ekki kom þetta í BB allan þann tíma enda birtum við eiginlega bara fréttatilkynningar, hagstofufréttir og endursögðum rifrildi úr bæjarpólitíkinni – og vissum ekkert um neinar kærur. Ég man svo ekki hvenær ég heyrði að þetta væri Gísli, að það væri komin fram kæra eða að það hefði verið gerð húsleit hjá honum – kannski var það bara daginn áður, þegar Andri var byrjaður að hringja, og kannski kvisaðist það út eitthvað fyrr. Ég man allavega að áður en ég fór úr vinnunni daginn áður vissi ég að þetta yrði í blaðinu daginn eftir – ætli DV hafi ekki falast eftir ljósmyndum frá BB? – það hafði verið rætt hvort við ættum að hringja eitthvað og grennslast fyrir, sennilega hafði einhver hringt í lögguna og ekkert fengið staðfest og það látið þar við sitja. Fljótlega eftir að ég mætti í vinnuna daginn eftir spurðist síðan út að Gísli hefði stytt sér líf en það var líklega ekki komið í fréttir fyrren seinnipartinn. Eitthvað var svo skrifað um málið á BB-vefinn, endursagnir úr DV og kannski af fleiri miðlum, en ekkert af því endaði í prentaða blaðinu – að hluta til áreiðanlega af praktískum ástæðum. Gísli drap sig þriðjudaginn 10. janúar og þá hefur verið búið að setja blaðið sem kom út morguninn eftir – BB var aldrei beinlínis að springa af nýjustu fréttum. Viku síðar var þetta bara orðið of gamalt – en þá fjallaði nafnlausi dálkurinn Stakkur lítillega um málið, vottaði aðstandendum Gísla samúð en sagði DV sannarlega eiga rétt á sér þótt það færi fram úr sér og að nærgætni væri þörf og la tí da. Kannski var þetta síðasta alvöru upphlaupið fyrir samfélagsmiðla. Í dag eru svona læti í einhverjum skilningi algengari – en kannski daufari líka? Við veðraðri? Andköfin æfðari? Og nánast absúrd tilhugsun að stór fjölmiðill hafi setið á skúbbi í bróðurpartinn úr sólarhring til þess að geta birt það á prentaðri forsíðu daginn eftir.
Fleipur
Ég fór með alls konar fleipur um Sterk Margrétar Tryggvadóttur hér í fyrradag. Sem ætti að kenna manni að tjá sig ekki um bækur sem maður hefur ekki lesið – að treysta ekki bara á lýsingar annarra. Í fyrsta lagi er bærinn fyrir vestan alls ekki ótiltekinn, einsog ég hélt fram, heldur bara Ísafjörður undir sínu eigin nafni. Ég náði ekki alveg tímalínunni en ef ég misskildi ekki þá gengur aðalsöguhetjan, Birta, í grunnskóla á Ísafirði og byrjar svo í MÍ en hættir og fer suður í Tækniskólann, í kjölfar þess að bestu vinir hennar rjúfa trúnað og slúðra því út um allt að hún sé trans. Í öðru lagi býr Birta ekki á Ísafirði heldur er hún sveitastelpa – mér fannst innanúr Djúpi en ég held það komi ekki fram. Selbjörg hljóma í öllu falli einsog þau gætu verið nálægt Hrafnabjörgum. Hún sækir skóla með skólabíl. Í þriðja lagi eru Ísfirðingar eða Djúpmenn ekki allir drullusokkar þótt þeir séu sannarlega látnir gegna hlutverki „hins fordómafulla“ í þessari sögu – engum þeirra kynnumst við mikið en Birta er greinilega trámatíseruð af atlæti sínu í sveitinni og á Ísafirði, þar sem fólk slúðrar um hana annars vegar og sýnir henni fálæti eða kemur fram við hana einsog hún sé eitruð hins vegar. Ekki virðist vera neitt kynsegin fólk í skólanum eða í bænum – sem auðvitað er í raunveruleikanum, sem og í grunnskólanum – heldur er Birta mjög ein. Kennararnir í Menntaskólanum á Ísafirði – þar sem Birta vill allt gera til þess að sækja aldrei tíma framar – eru líka rænulausir og virðast ekki frekar en nemendurnir vita neitt hvernig þeir eigi að taka henni. Ekki er heldur vikið orði að Veigu Grétarsdóttur, ísfirsku transkonunni sem var mjög áberandi í bæjarfélaginu (og landinu öllu) einmitt á sögutímanum og árunum þar fyrir – réri kajak rangsælis í kringum Ísland sumarið 2019 og var þá í öðrum hverjum fréttatíma. Auk Birtu hittum við tvo Vestfirðinga í eigin persónu í bókinni. Annars vegar einn af æskuvinum Birtu, Geir, og hins vegar pabba hennar. Báðir eiga það sameiginlegt að „skilja þetta nú ekki“ og hafa brugðist illa við áður en virðast vera af vilja gerðir til þess að „mennta sig“ og gera betur í framtíðinni. Þeir eru kannski sveitalubbar en þeir eru með hjartað á réttum stað. Hið sama verður ekki sagt um móður Birtu og hinn æskuvin hennar, Pétur – sem virðast lítið vilja leggja á sig í þessum efnum – og áhugavert að þessi pör, pabbinn og mamman annars vegar og Geir og Pétur hins vegar, skuli spegla svona hvort annað. Foreldrar Birtu slá mann reyndar sem miklu eldra fólk en þau eiginlega geta verið – ég held að aldur þeirra komi ekki fram. Þau eru á móti „fínum mat“ á veitingastöðum, drekka gallsúrt kaffi, éta þegjandi yfir útvarpsfréttum og hafa aldrei ferðast neitt nema einu sinni til Danmerkur. En ef Birta er fædd um það bil 2002 – sem mér sýnist að gæti verið raunin (bókin gerist í janúar-febrúar 2020) – þá gætu foreldrar hennar þess vegna verið milleníalar. Það verður í öllu falli enginn búmer af því einu að vera bóndi. Það fólk sem Birta hittir í Reykjavík er ekki sama marki brennt – hvort sem þeir sem um ræðir eru foreldrar eða systkini vinkvenna og elskenda, pólskir sambýlismenn, erítreskar og rúmenskar sambýliskonur, vinnuveitendur, samnemendur eða aðrir. Meira að segja vondu kallarnir í bókinni virðast ekki tiltakanlega illa haldnir af transfóbíu sem slíkri – og eru þeir þó mjög vondir. Annars er nóg af öðrum klisjum þarna líka. T.d. Reykjavíkurklisjum – það er viðstöðulaust slabb í bókinni. Og trans klisjum – Birta er auðvitað í forritun. Og stelpuklisjum – þær stöllurnar, Birta, Jóhanna og Blær eru alveg fáránlega fullkomnar, með 9,5 í öllu og þegar Jóhanna stingur upp á því að skrópa svo þær Birta geti farið í sleik segist Birta heldur bara vilja bíða og fara í sleik seinna. Þetta er í sjálfu sér ekki óviðeigandi í ungmennabók – eða bara reyfurum, og öllum bókum að einhverju marki – þar sem hið kunnuglega veitir ákveðna fró. Klisjur og alhæfingar eru líka haldreipi. Svo eru klisjur auðvitað ekki átomatískt réttar eða rangar – þær eru bara endurteknar. Sterk er síðan vel að merkja eiginlega meiri unglingareyfari en hún er þroskasaga trans stúlku. Þunginn liggur ekki síst í glæpaplottinu og samfélagslýsingin er miklu breiðari en sem nemur málefnum trans fólks – bókin fjallar í raun ekki minna um aðstæður erlendra verkamanna á Íslandi. Og minnir um margt á gamaldags ævintýrabækur – Enid Blyton kemur upp í hugann – einsog Birta nefnir reyndar á einum stað í skemmtilegri athugasemd. Loks ber að hafa í huga að Ísafjörður eða Vestfirðir koma ekki mikið við sögu – eru bara í bakgrunni – og fá bara þessa áherslu hér í mínum skrifum vegna þess að ég er sérstaklega að spekúlera í því hvernig Ísafjörður og nágrenni birtist í íslenskum bókmenntum almennt.
Staðleyseyri í Skutulsfirði
Fyrir eitthvað rúmlega ári síðan gerði ég skurk í því að lesa bækur sem gerast á og í kringum Ísafjörð eða voru skrifaðar hér eða af höfundum héðan. Þetta eru í sjálfu sér engin ósköp – a.m.k. ekki bækurnar sem gerast hérna – kannski 40-50 bækur, gróft talið. Ég hef litla yfirsýn yfir smásögurnar og veit bara um fáeinar ljóðabækur sem eru skrifaðar hér – eða nota þetta sögusvið – og sennilega eru ljóðabækur gjarnan staðlausir stafir. Gerast í innra lífinu eða sjálfu tungumálinu eða á einhverju konseptsviði. Ég bloggaði aðeins um þennan lestur í fyrra og upp úr því var ég narraður til að skrifa grein – án þess að vita raunar hvað það væri sem ég vildi segja. Ég er byrjaður á greininni en veit það ekki enn. Kannski skiptir það ekki öllu og kannski er það mjög misráðið. Það kemur væntanlega í ljós bara. En ég átti alltaf nokkrar „ísfirskar bækur“ eftir og úr því er ég að bæta nú. Þar bar hæst síðustu tvær bækurnar í þríleik Jóns Kalman og Útlaginn eftir Jón Gnarr. Svo uppgötvaði ég nýlega að ein Ísafjarðarbók Hagalíns – Segið nú amen, séra Pétur – hafði farið framhjá mér og að Sterk eftir Margréti Tryggvadóttur væri með kaupstað á svæðinu í baksýnisspeglinum. Ég veit enn ekki hvort hún gerist þar nokkuð – rakst bara á þetta brot úr (annars mjög jákvæðum) ritdómi Arngríms Vídalín á vef Tímarits Máls og menningar : Eitt er þó minna sannfærandi og það er skerandi andstæðan milli Vestfjarða og Reykjavíkur, því svo virðist sem Birta mæti sama og engum fordómum eða háðsglósum fyrir sunnan. […] Þannig lítur Reykjavík út eins og paradís við hliðina á heimabyggð Birtu þar sem fordómar og illt umtal grasserar. Þessar andstæður þóttu mér heldur svarthvítar. Bærinn er ekki nefndur – en þar er a.m.k. 10. bekkur í grunnskóla svo það fækkar valkostunum. Kannski eru fleiri vísbendingar í bókinni, sem er á náttborðinu hjá mér, en ég ræði hana hér ekki að öðru leyti en út frá þessum orðum Arngríms. A.m.k. í bili. Þetta er auðvitað klassískt þema – íhaldssami sveitalubbinn. Og kannski má það oft til sanns vegar færa – í öllu falli held ég að það blasi við að í stærra samfélagi sé auðveldara að umkringja sig sínum líkum og þá getur jaðrað fólk notið sín betur, ekki vegna þess að samfélagið sé ekki íhaldssamt eða fordómafullt, heldur vegna þess að það er auðveldara að komast hjá því að rekast á þá samfélagslegu krafta. Maður sækir aðra bari, aðra viðburði, aðra dansleiki og fer jafnvel í aðrar kirkjur. Það eru álíka mörg fífl í öllum samfélögum, en maður verður mismikið var við þau. Stærsti kostur og stærsti galli smærri samfélaga er að þar lifa allir og hrærast í einum graut – þar getur bæjarróninn rifist við kvótakónginn á barnum og skúringakellingin verið í bókaklúbb með kvenforstjóranum (samt eru bara konur í flestum bókaklúbbum, vel að merkja). Þessu fylgir ákveðin viðsýni og umburðarlyndi – innsýn í ólíkar veraldir – en líka árekstrar. Maður kemst t.d. ekki undan því að hitta líka þá sem hafa gert manni eitthvað (eða þá sem maður hefur sjálfur gert eitthvað). Hins vegar má alveg halda því til haga líka að sumarið áður en Sterk kom út var vinkona mín Veiga Grétarsdóttir, fjallkona bæjarins, og í ræðu sinni sagði hún hvergi betra að vera trans en á Ísafirði . Svo sennilega hefur Margrét bara verið að hugsa um Bolungarvík eða Patreksfjörð! Ég er svo kominn hálfa leið inn í Harm englanna sem höfðar talsvert betur til mín en Himnaríki og helvíti gerði – nema ég sé bara sjálfur betur stilltur inn á þessa rómantík. Ég er auðvitað svag fyrir henni – JKS er með Tom Waits sem eitt helsta fagurfræðimódel og fáa menn hef ég tignað jafn ákaft og hann – þegar vel tekst til hittir Jón á allar þær taugar, svo manni finnst maður í senn geta öskrað niður norðanáttina (sem lemur miskunnarlítið á húsinu í dag) og rifið upp úr freðinni jörðinni hreinustu ljóð, en þegar illa tekst til er þetta einsog að fá sama TW viðlagið aftur og aftur í 9 klukkutíma streit. Sem er auðvitað þeim mun verra ef maður elskar TW heitt – þá finnst manni klæmst á fegurðinni. Þetta er líka spurning um í hvaða stemningu maður er sjálfur, hvað maður er móttækilegur. Í öllu falli tekst mér að gleyma mér í Harminum á máta sem mér tókst aldrei í H&h . Sem mig grunar reyndar að hafi eitthvað að gera með lausari strúktúr – það er einsog ég þoli frekar hið hástemmda ef strúktúrinn er „lífrænni“. Annars er eitt af því áhugaverðasta við allar þessar bækur hversu oft er farið í kringum örnefnin – ýmist með því að búa til ný heiti á bæi og fjöll eða með því að tala bara um „þorp“ eða „bæ fyrir vestan“ eða eitthvað álíka. Maður gæti ímyndað sér að þetta væri algengara hjá einhverjum utanbæjarlúðum sem eru bara alls ekki kunnugir staðháttum – en Rúnar Helgi og Njörður P. Njarðvík gera þetta líka. Rúnar í Ekkert slor og Njörður í Í flæðarmálinu – en báðir negla sig svo vel að merkja betur á tiltekinn stað í seinni bókum sínum. Og svo Hagalín auðvitað sem kallaði Ísafjörð alltaf Tangakaupstað. Þetta á svo eðlilega ekki við um æviminningar, einsog Útlagann eða Skáldið á Þröm, eða sögulegar skáldsögur einsog Dauðamenn eftir Njarðvík eða stríðsárabækur Sindra Freyssonar. Það er helst að erlendir höfundar einsog Satu Rämö – sem er að vísu Ísfirðingur líka – noti Ísafjörð fyrirvaralaust sem fyrirmynd, geri sér þar sitt eigið sögusvið milli fjallanna, með sínum eigin sögupersónum, sem eiga sér ekki endilega neinar fyrirmyndir í fólkinu á svæðinu, það best ég veit a.m.k. En staðurinn heitir sínu nafni, göturnar sínum nöfnum. Svona svipað og flestir gera þegar þeir skrifa sögur sem gerast í Reykjavík. Ég hef farið svipað að sjálfur og myndi líða mjög undarlega með skálda upp nýtt nafn á bæinn – nema ég væri að skrifa einhvers konar fantasíu. Við Satu eigum auðvitað bæði heima hérna – en það átti Hagalín líka, lengst af (en Njörður og Rúnar eru vel að merkja expat-höfundar á höfuðborgarsvæðinu). Ég veit ekki hvaða merkingu þetta hefur. En væntanlega er þetta svipað og þegar maður notast við fólk sem fyrirmyndir og vill hafa fjarvistarsönnun – þetta ert ekki þú! – jafnvel þegar það blasir við. Ætli fólk upplifi þá að bæjarbúar – Ísfirðingar jafnt sem aðrir, því þetta á við um alla smábæi í íslenskum bókmenntum, og jafnvel bíómyndum líka – séu hálfgerður „einstaklingur“ sem muni hugsanlega bregðast við, móðgast, fyrtast? Eða viljum við gjarnan – við lesendur – að bækur gerist í hálfgerðum staðleysum, gætu verið hvar sem er, og bæir séu of „mikið staðir“ – það sé auðveldara að láta fólk ráfa um borgir, jafnvel litlar borgir einsog Reykjavík, í nafnleysi og staðleysu? Í mörgum tilvikum geta höfundar alls ekkert þrætt fyrir sinn fyrirmyndarfjörð. Stundum eru jafnvel önnur örnefni „rétt“ og oft eru kynlegir kvistir af svæðinu, öllum kunnugir, auðþekkjanlegir. Einhvern veginn finnst mér sjálfsagt að það fólk fái ný nöfn af því það er verið að láta það gera alls konar hluti sem það hefur kannski aldrei gert (fátt held ég að rithöfundum sárni samt jafn mikið og þegar þeir eru sjálfir notaðir svona í skáldskap annarra – undir nafni eður ei) – það verður sögupersónur . En ég næ hinu samt ekki alveg, þessari hvöt til að skipta um eða breiða yfir nöfnin á bæjunum. Næ bara ekki taki – ekki einu sinni nóg til að mynda mér almennilega skoðun á því. Sem er sem sagt það sem ég er að reyna að gera í þessari blessuðu grein minni.