Untitled

Ég hef í nokkur ár ritstýrt Starafugli og ætla mér að gera það um ókomna tíð – hef tekið að líta á þetta sem langtímaverkefni, sennilega ævistarf, ætla í það minnsta að mæla það í áratugum (nema ég drepist óvænt, þá arfleiði ég Lomma og Hauk Má að þessu, svo það komi bara fram hér, ef þeir láta vefinn drabbast mun ég líta á það sem grófa vanvirðingu við minningu mína). Frá upphafi hefur stefnan verið að ýta undir afdráttarleysi í skrifum um menningu. Einsog Bubbi orðaði það á Facebook í morgun – þetta er upp á líf og dauða og verður að vera svo. Menning er ekki skraut fyrir borgarastétt sem er að drepast úr leiðindum, ekki dútl eða dundur – og maður á að taka skrifum um menningu jafn alvarlega, og sinna þeim af jafn miklu vægðarleysi, og maður sinni sjálfri listinni. *** Ritdómar eiga að stefna að því að vera listaverk – ekki sjálfstætt listaverk, heldur afleitt (pun!) – og það er ekki frekar hlutlaust en fréttirnar. Það er alltaf einhver sem heldur á pennanum, þessi einhver á sér fortíð, hefur tiltekinn smekk, veit vissa hluti, veit ekki aðra, er svona í pólitík, þannig kynjaður, með þessar hneigðir o.s.frv. o.s.frv. og allt sem kemur málinu við á að liggja á borðinu. *** Mér stendur (einsog þið heyrið) ekki á sama um menninguna – og er alltaf að reyna að pota í fólk og fá það til að skrifa fyrir vefinn. Ókeypis, sem er leiðinlegt, en ég sé enga ekonómíska vídd í þessu. Ég hef haft fjögur markmið síðustu misserin og náð einu (því fyrsta) a) Að birta fleiri dóma um nýjar ljóðabækur

b) Að birta fleiri dóma eftir konur

c) Að birta fleiri dóma um myndlistarsýningar

d) Að birta fleiri dóma um barnamenningu *** Mér berast ekki margir neikvæðir dómar til birtingar. Algengasti neikvæði dómurinn sem ég fæ er tölvupóstur frá einhverjum sem fékk bók til umfjöllunar og er sirka svona: „Ég fílaði bókina illa og ég meikaði ekki að skrifa um hana, sorrí“. Yfirleitt, ef ég er ekki að tryllast úr stressi, reyni ég að hvetja manneskjuna til að skrifa samt – heiðarlegur neikvæður dómur er mikilvægur, og það er mikilvægt fyrir menninguna sem slíka að dómar séu ekki allir jákvæðir. Því það er bara lygi. Engum finnst allt frábært. Og vefur sem birtir bara frábærar umsagnir missir strax áhuga lesenda sinna og allt kredibilitet. Melting menningarafurða er að miklu leyti fólgin í einföldu gæðamati sem sprettur beint úr kviðnum, úr hjartanu. Þegar einhver spyr: hvernig fannst þér? svörum við ekki með langri greiningu – hún kemur kannski, en það fyrsta sem við svörum, grunnsvarið er: frábært! / glatað! / mja, veit ekki – og svo framvegis. *** Og við gerum það auðvitað prívat. Við gerum þetta öll prívat. En á síðustu árum og hugsanlega áratugum finnst mér einsog fólk veigri sér meira og meira við því að segja skoðun sína opinberlega. Ég get best trúað að þetta snúist um þessa massífu meðvirkni sem Facebook æsir upp í okkur – að vilja ekki styggja neinn, vilja ekki búa til óvini að óþörfu, og svo hreinlega nenna ekki geislavirku ofanfallinu. Öllum helvítis þráðunum. *** Viðbrögðin við neikvæðum dómi eru alltaf eins. (Og þetta á vel að merkja ekki bara við Starafugl, þetta á við um alla neikvæða dóma – og já, ég geri þetta líka þegar einhver fífl skrifa heimskulegan texta um bækurnar mínar). Þetta er ómálefnalegt. Ef þetta er vel skrifað – hressilega, með einhverju myndmáli til dæmis – þá er það líka rætið. Ef það er karl að skrifa um konu þjáist hann af einhvers konar kvenfyrirlitningu (nema hann langi hreinlega að ríða/drepa höfundinn – einsog einn gagnrýnenda Víðsjár fékk í hausinn fyrir 1-2 árum). Það hefur aldrei verið skrifuð nógu málefnaleg slátrun. *** Sem höfundi verð ég reyndar að segja að ég vil frekar fá almennilega slátrun en svona linkulegt  þetta var nú ágætt . Ég man eftir því þegar Geirlaugur heitinn Magnússon skrifaði um fyrstu ljóðabókina mína að þetta væri óttalegt skuggabox og spurði hvers vegna þessir bítnikkataktar væru ekki löngu dauðir að þá prentaði ég helvítis dóminn út (af netinu, ég bjó í Berlín og komst ekki í blaðið) og hengdi hann upp á vegg í stofunni. Í heilan vetur gekk ég aldrei svo framhjá textanum að hreytti því ekki í Geirlaug heitinn (sem þá var ennþá lifandi) að hann væri lúser. Það var mjög hressandi. *** Að því sögðu geta bókadómar auðvitað verið ómálefnalegir. Og fullir af kvenfyrirlitningu. Og rætnir. En það er mjög ósennilegt að þeir séu það allir. *** Bret Easton Ellis brást við því um árið þegar Buzzfeed ákvað að hætta að birta neikvæða dóma með því að skrifa greinina alræmdu „Generation Wuss“. Þar gerði hann því skóna að fólk (fætt 1989 og síðar) gæti ekki tekið gagnrýni. Það færi bara að væla. Það yrði bara allt brjálað. Þau væru alin upp af sínísku fólki sem hefði engu að síður ofverndað þau. Maður fengi alltaf verðlaunapening, alltaf klapp á bakið, allt sem maður gerði væri frábært – af því maður gerði það. Öll þessi ást – sem síðan breyttist í viðstöðulausan lækstorm, sem svo aftur nú er orðinn hjartastormur, undirtektareiður stormur o.s.frv. *** En ég held þetta sé að nokkru leyti rangt hjá Ellis. Álagið er ekki nærri því jafn mikið og óttinn við álagið. Jújú, það er þreytandi að kýta á Facebook – en það er ekki nærri svo þreytandi að nokkur manneskja með lágmarkskjark ætti að láta það aftra sér frá því að sinna fagurfræðilegri skyldu sinni (og já, þetta er skylda – svo ég vitni aftur í Bubba, þetta er upp á líf og dauða). *** Hugsanlega er fólk sem sagt almennt minna hrætt við neikvæð viðbrögð annarra en það er hrætt við að virðast neikvætt sjálft. Við óttumst ekki hatarann – við óttumst að einhver haldi að við séum hatarinn.

Untitled

Ég var ekki hrifinn af ljóðlist Sigurðar Pálssonar fyrstu tíu árin. Fyrstu tíu árin sem ég las hann, meina ég. Frá svona 1995 til 2005. Ég kann ekki beinlínis á því neina aðra útskýringu en að ljóðin hans höfðuðu ekki til mín – með fáum undantekningum. Ég var að leita að einhverju öðru, og það er líka alltílagi, manni þarf ekki alltaf að finnast allt frábært og sumt á bara sinn tíma. Ljóð Sigurðar komu til mín síðar. *** Í dag les ég ljóðin hans á netinu – til dæmis þetta dásamlega ljóð á Starafugli – og ég skil ekkert í því hvers vegna ég missti af því sem ég missti af, því þetta er ekki bara góður skáldskapur heldur er í honum miklu meiri leikur og ærsl en ég hélt að væri þarna – og saknaði þá. En maður sér það sem maður sér og fáránlegt að sýta það að eiga eitthvað eftir – ég fékk nánast að frumlesa ljóðin hans tvisvar, fyrst gegn honum og svo með honum. Það er heldur ekkert til að skammast sín fyrir að vera seinþroska. *** Manninn þekkti ég svo til ekki neitt. Það var rétt svo við hefðum hist og heilsast og skipst á fáeinum orðum. Sem er óvenjulegt. Ég þekki alveg fáránlega marga íslenska rithöfunda – svona miðað við að ég á ekki heima í Reykjavík (og þekkti þá fáa þennan stutta tíma sem ég dvaldist þar fyrir langalöngu). Og Sigurður þekkti held ég alla. *** Það leyndi sér ekkert að hann var með allra næsustu náungum, og enn fremur hefur það ekki farið framhjá mér hvað hann – og þá meina ég persóna hans, maðurinn, kennarinn, flannörinn sem ég þekkti ekki – hefur haft mikil áhrif á alla þá sem hann þekktu. Því marga af þeim þekki ég. Sigurður er einn af þessum mönnum – og þeir eru ekki margir – sem allir dásömuðu. *** Og skáldið heldur auðvitað áfram að sprengja í fólki heilana, vefja hjörtu þeirra í voðir og syngja sárum þeirra söngva, á meðan enn er lesið í þessum heimi.

Untitled

Ég skil ekki alveg þá sem eru mótfallnir því að glæpamenn fái uppreist æru. Sennilega eru lögin úrelt og kerfið náttúrulega alls ekki nógu gott. En mér finnst samt hugsunin rétt. Að maður eigi endurkvæmt til samfélagsins. Ef við viljum ekki að fólk geti snúið aftur – það geti lifað eðlilegu lífi á ný – þá er einfaldast og heiðarlegast að sleppa því bara ekkert út úr fangelsi. *** Og mér finnst ekkert skrítið að fólk skuli skrifa upp á fyrir vini sína. Mér finnst það í hæsta máta eðlilegt og sé ekki neitt samasemmerki milli þess og að það leggi blessun sína yfir voðaverkin sem mennirnir voru dæmdir fyrir. *** Þegar búið er að leggja niður uppreist æru verðum við samt að gæta að því að fólk fái einhvers konar endurhæfingu – sálfræðimeðferð og svo framvegis – og svo verðum við að vera tilbúin til að styðja það í að endurreisa æru sína. Ekki bara þeirra vegna heldur okkar vegna. Ærulaus maður er hættulegur maður. Hann hefur engu að glata – voðaverkin kosta hann ekkert. Dyrnar inn í mannlegt samfélag þurfa að standa opnar. *** Og nei, auðvitað er æra ekki stimpill og auðvitað þarf að hafa auga með fólki sem hefur gerst sekt um barnaníð. Og auðvitað ætti augljós iðrun að vera frumforsenda fyrir uppreistri æru. Og auðvitað eiga menn ekki endilega tilkall til sama lífs og þeir áttu áður. Fjárglæframenn ættu ekki að fá að sýsla með peninga og barnaníðingar ættu ekki að vinna á leikskólum. Og svo framvegis. En samfélag sem kann ekki að fyrirgefa er handónýtt. *** Annars hef ég það bara gott í London, takk fyrir að spyrja. Pínu þunnur. Pínu pons. Og leikurinn var víst markalaus. En þetta er góður fótbolti.

Untitled

Það fer sennilega ekki framhjá neinum sem lítur hingað inn oftar en einu sinni á ári að mér finnst stundum einsog „rödd landsbyggðarinnar“ – eða kannski fremur sjónarhornið frá Ísafirði, mín sýn á umhverfi mitt, eða rödd umhverfis míns, svo ég ætli mér ekki um of – veki ekkert alltof mikla athygli eða njóti sannmælis þegar það nýtur hennar. Yfirleitt heyrist ekkert í „okkur“ nema þegar við erum byrjuð að garga, ragna og blóta, og þá er svarið úr siðmenningunni yfirleitt það sama: Hvers vegna eruð þið alltaf að garga og ragna og blóta svona mikið? *** Svarið er auðvitað: vegna þess að annars hlustar enginn. Ég hef sagt það áður – hin yfirvegaða kurteisi er forréttindi þeirra sem hafa vald og/eða aðgang að því. *** Og mér hefur fundist að vegna þess að ég er maður sem er með fótinn í tveimur heimum – að minnsta kosti – einhvers konar treflakreðsum í Reykjavík annars vegar og einhvers konar slorstígvélakreðsum hér á Ísafirði hins vegar – þá beri mér hálfgerð skylda til þess að flytja orðið þangað sem það ekki berst af sjálfu sér. (Ég held að Ísfirðingar heyri mun betur í treflakreðsunum en Reykvíkingar heyra í slorstígvélakreðsunum, og upplifi því minni aðköllun, áríðun, brýnun á að flytja hljóð í þá áttina – þótt ég geri það líka, sérstaklega í kringum úthlutun listamannalauna). *** Ég verð þó að gæta mín og fara varlega því í raun hef ég nákvæmlega núll áhuga á að gerast talsmaður eins eða neins – og allra síst stórgróssera eða virkjana (sem slíkra), þótt ég sé efnishyggjusósíalisti og hlynntur atvinnusköpun. Og ekki kæri ég mig um að standa reikningskil á verkum annarra. Það væri fáránlegt. *** En ég fór sem sagt eitthvað í þessu sambandi að velta því fyrir mér í morgun – á meðan Aino var að klæða sig (hún var óvenju lengi að klæða sig í morgun og ég hef fyrir reglu að reyna að reka sem minnst á eftir henni; við iðkum munað tímans fyrir hádegi og vöknum hægt) – ég fór sem sagt að velta því fyrir mér hvaða heimum ég tilheyrði fleirum. Hvar ég hafi plantað öllum fótum mínum. *** Augljósast er auðvitað að nefna Svíþjóð. Ekki bara í gegnum Nödju – hún fylgist lítið með íslenskum fjölmiðlum, er sennilega meira með á nótunum í Frakklandi, Finnlandi og Svíþjóð, auk alþjóðamála, en íslenskum dægurmálum. Ég öfunda hana oft af þessu. *** En ég hef líka innsýn í aðrar kreðsur í Svíþjóð, rithöfundakreðsur sem hún sér ekki endilega jafn vel inn í. Ég hef innsýn í málefni foreldra og að einhverju leyti málefni barna. Ég hef enga innsýn í málefni kokka þótt ég eldi mikið og það sé – ásamt gítarleik – eitt af mínum helstu áhugamálum. Kannski er það það sem skilur áhugamál frá einhverju sem er meira integralt? Maður sér skilin milli sín og áhugamálsins – en allt hitt er summan af því sem maður einfaldlega er, og getur ekkert gert í. Ef maður getur hætt einhverju – sjálfviljugur – þá er innsýn manns í þann heim innsýn gestsins. *** Sem er í sjálfu sér ekki ónýtt – það er líka innsýn. Glöggt er gests auga og það allt saman. En gestsaugað er samt ekki jafn næmt og auga heimamannsins, þess sem á framtíð sína undir heilbrigði lífheimsins. Það kemur hugsanlega auga á aðra hluti – en það missir af hundrað þúsund samhengjum, heila samfélagsvefnaðinum. *** En ætli það þýði að ég sé líka sænskur rithöfundur? Aram Nói var eitthvað að halda því fram í gær við mömmu sína að hún væri alls ekki neitt íslensk. Ég mótmælti þessu, því þótt henni sé mikilvægt að vera sænsk (og finnsk) þá er ekki þar með sagt að hún sé ekkert íslensk. Maður er auðvitað fjári margt. Og maður er fleira fyrir sakir internetsins – maður skilur ekki lengur við heima einsog maður áður gerði, þegar maður flytur, heldur er viðstöðulaus þátttakandi í mörgum heimum.

Untitled

Ef ég væri dýr væri ég páfugl. Ég geri eiginlega ekki neitt nema til að sýna mig. Kannski þýðir það að ég sé ómerkilegur. *** Í dag fór ég í sund og synti einn kílómetra fram og til baka í 16 metra langri laug. Það var fínt. En undir það síðasta varð lyktin öðru megin í sundhöllinni óbærileg. Einhver – sennilega kona – hefur farið í heita pottinn útmakaður í einhverjum dýrum kremum eða næringum eða ilmvötnum og skilið allt saman eftir í pottinum þegar hann fór. *** Þegar ég hafði lokið mér af við sundið – grænn af viðbjóði í framan – beið ég í góðar 20 mínútur áður en ég treysti mér til að fara í pottinn. Þá hafði lyktin hjaðnað en það var svona hvít slikja í pottinum. Pom (baðvörðurinn) bauðst til þess að tæma pottinn og fylla hann upp á nýtt en ég nennti ekki að bíða og lét mig hafa þetta. *** Við Aino gerðum gnocchi saman í kvöldmat. Með grænkálspestói. *** Ég fór eitthvað að velta þessu fyrir mér í gær með manninn og boltann. Mér sýnist algengt nú til dags að það sé farið í bæði – sumir fara í manninn og aðrir fara í boltann. Og eðlilega, segi ég, það er a.m.k. engin ástæða til þess að horfa framhjá því  hver ræðir – hvaða hagsmunir liggja þar að baki, hvaða rödd þetta er, hvaða sjónarhorn og hvaða almennu samfélagsviðhorf má greina þar í gegn. Þetta er bara vitleysisklisja, að það eigi ekki að fara í manninn – meira að segja í fótbolta er oft ástæða til þess að fara í manninn. *** Nema hvað. Þegar á svo að fara að svara er pakkað í vörn fyrir manninn – oft (ekki alltaf) í staðinn fyrir að verja málstaðinn. Af því það er auðveldara.  Hvað hefur þú á móti Hönnu Birnu / Lækna Tómasi / Móður Teresu / Genghis Khan o.s.frv.?  Allt sem hán er kemur því ekkert við hvað hán segir – það er algerlega ótengt .  Hán er vel gefið, nýtur velgengni í starfi, er myndarlegt og lyktar einsog vorið.  *** Ég hef verið latur við að lesa ljóð upp á síðkastið. Hef verið svo eirðarlaus.

Untitled

Um daginn hélt ég því fram að það væri Daloon dagur. Þetta sönglar reglulega í höfðinu á mér. „Það er Daloon dagur í dag“. En ég veit ekki hvað Daloon er. Vörumerki – jú, augljóslega. En fyrir hvað? Rúmföt? Hrísgrjón? Skyndirétti? Sápu? Er þetta eitthvað heimilistæki kannski? Ekki segja mér það, ég vil ekki vita það. *** Ég fylgist oft ekki nógu vel með. Um daginn spurði Nadja mig hvernig sundskýlan mín liti út. Ég gat ekki lýst henni. Ég veit núna að hún er svört og græn en bara vegna þess að ég kíkti. Ég gæti heldur ekki lýst sundfötum barnanna eða sundfötum Nödju. Ég vona að þetta sé vegna þess að ég sé að taka eftir einhverju öðru og hugsa um eitthvað annað því það væri voðaleg tilhugsun ef ég væri bara ekki að hugsa um neitt. Nema það væri það ekki – ég sé einhvers konar gangandi nirguna brahma. *** Haukur Már skrifar um mikilvæg málefni á bloggið sitt í dag. Mál dagsins – brottvísun flóttamanna. Og þess vegna er undarlegt að ég skuli ætla að segja það sem ég ætla að segja um bloggið hans Hauks Más, því auðvitað er það tittlingaskítur í samhenginu, eða ekki, kannski alls ekki, en allavega þá hefur mér alla tíð – alveg frá því við kynntumst fyrir tæplega 20 árum síðan – haft unun af að lesa texta sem Haukur Már skrifar og öfundað hann af … hvað kallar maður það, tækninni? Ritstílnum? Allavega, þegar ég verð stór ætla ég að skrifa einsog Haukur Már. *** Ég las samt ekki bloggið hans um Sjálfstætt fólk nema á algeru hundavaði. Hann sendi mér hlekk í spjalli með spoiler alert (ég hef ekki lesið hana) og ég ætlaði að lesa bloggið en svo bara gerðist það ekki, ég skimaði það, einsog ég bara rynni á rassinn og súrraðist svo í gegn þar til það var búið. Og ég er engu nær. Bókin er um einhvern bónda, ég sá það, en vissi það svo sem fyrir, og gott ef hann er ekki alltaf með leiðindi við fólkið sitt af því hann langar svo að standa á eigin fótum og þurfa ekki að treysta á aðra. Það er skiljanlegt. En þetta vissi ég allt líka fyrir. *** Haukur veit ekki að ég hef ekki lesið færsluna. Ég lét bara einsog ekkert væri, einsog ég væri bara að lesa hana, og svo las ég hana ekki. *** Í sumar hélt ég því fram að ég hefði greint sterk áhrif frá hljómsveitinni Free í gítarleik Angusar Young og gúglað því en ekki fundið neitt – nema að trommarinn hefði einhvern tíma mætt í áheyrnarpróf hjá AC/DC. Nú er ég að lesa nýútkomna ævisögu Angusar og þar kemur ítrekað fram að Angus elskaði Free. Gítarleikarinn Paul Kossof dó hins vegar bara fljótlega eftir að AC/DC byrjuðu. *** Eftir 25 ára feril af því að lesa ekki Sjálfstætt fólk (hún er sennilega ekki fyrir neinn yngri en 14) er ég bara orðinn ónæmur. Allt sem henni viðkemur hrekkur af mér einsog vatn af gæs. *** Í gær fékk þýðandinn minn – og þýðandinn okkar margra – Eric Boury verðlaun frá forseta Íslands (ásamt Vicky Cribb, sem þýðir úr ensku) fyrir ómetanlegt framlag til íslenskrar menningar. Þannig held ég að það sé orðað allavega. Og varla get ég ímyndað mér nokkurn mann sem er betur að því kominn en hann. Ég hitti gjarna lesendur í Frakklandi sem ausa hann lofi – sem bíða eftir næstu þýðingu frá honum. Slíkt er vald hans á tungumálinu. Og það þarf heldur enginn að efast um sem hefur unnið með honum – þar elskast nákvæmnin og ástríðan. Svo er hann líka svo skemmtilegur og góður maður og það er alltaf gaman þegar skemmtilegt og gott fólk fær það sem það á skilið. Ég blandaði mér basílikugimlet hér í Sjökvist í gærkvöldi og skálaði fyrir þessum frábæru tíðindum áður en ég fór í rúmið (og vaknaði svo með missed call frá meistaranum sjálfum). *** Var ekki eitthvað fleira sem ég ætlaði að segja? Ég er að fara í jarðarför á eftir. Hjá gömlum vinnufélaga og bróður vinar míns. Eða vina minna – tvo bræður hans þekki ég og systir hans vinnur á leikskóla Ainoar. Það er stundum sagt að maður sé sérstaklega verndaður frá heiminum þegar maður býr í litlu samfélagi – frekar en í stórborg til dæmis. En þessi nánd er meiri. Þegar fólk deyr á Ísafirði – sérstaklega ungt fólk, auðvitað, sem enginn á von á að deyi í bráð – þá deyr það frá öllum bænum, og í öllum húsum finnur fólk til með nærstöddum. Allt bæjarfélagið flaggar í hálfa stöng. *** Og þá er líklega best að fara í sturtu og raka sig. *** À bientôt.

Untitled

Lækna-Tómas skrifar grein í Fréttablaðið í dag um hvað hann sé ofsóttur og vitnar út og suður. Einhver efaðist víst um kynhneigð hans. Öðrum fannst hann tala niður til Vestfirðinga (hann er fáránlega patróníserandi og ég skil ekki fólk sem sér það ekki – byrði hvíta mannsins er alveg að sliga hann). Svo klykkir hann út með að það sé fáránlegt að kalla hann óvin Vestfjarða – hann sem hafi þvælst hér út um öll fjöll og firnindi. Sem er svolítið einsog að koma því að – í umræðu um atvinnuhagsmuni blökkumanna – að maður eigi allar plöturnar með James Brown. Geta þessir negrar ekki bara spilað á bassa? Það er heiðarleg atvinna og öllum er sómi og gleði af henni. Tónlistin er þeim líka í blóð borin. *** Einhver sagði að það þyrfti að búa til klúbb eða hasstagg fyrir fólk sem er ekki hlynnt virkjunum en meikar samt ekki Lækna-Tómas. *** Það er lenska nútildags að krossfesta sjálfan sig með allra verstu dæmunum um það sem hefur verið sagt um mann. Allir sem „lenda í umræðunni“ – ég tala nú ekki um þeir sem kasta sér í hringiðuna einsog þeir séu eina fólkið á jarðríki sem hafi velt fyrir sér verðmætum og hagsmunum – fá ein og önnur ummæli um sig á kaffistofum samtímans, athugasemdakerfunum. Og innlitið á kaffistofuna er ekki alltaf gott – þar er allt látið flakka og menn spæna sig upp í alls kyns kjafthátt og vitleysu. Sennilega var þetta miklu verra einu sinni. Mig minnir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi einhvern tíma verið spurður hvort hann tæki ekki „umræðuna á netinu“ nærri sér og hann hafi svarað því til að maður sem hefði mestmegnis stundað kosningabaráttu með því að þvælast milli beitningaskúra á Vestfjörðum færi nú ekki að fölna yfir kommentakerfunum. *** Það segir kannski sitt. Og ekki endilega allt gott um sveitunga mína. Eða – þessi talsmáti er kannski ekki alltaf taktískastur. Heimurinn er hrifnari af fínhreyfingum og kurteisi en hann var einu sinni. Sú stemning hefur ekki borist jafn rækilega hingað. Því miður og sem betur fer. *** Nú á að boða til „borgarafundar“ á Ísafirði í lok mánaðarins. Um laxeldi, Teigskóg og Hvalárvirkjun. Ég meika það ekki alveg heldur. Pétur Markan vinur minn í Súðavík talar um „herkvaðningu“ – þá fæ ég mikinn aulahroll. Í hvaða hjólför erum við að fara? Já – sérfræðingarnir að sunnan eru patróníserandi og já millistéttin í Reykjavík virðist ekki alveg á því að hagsmunir okkar skipti máli. En ég er ekki viss um að hergöngumarsar séu málið. *** Ég skil heldur ekki hvers vegna það er verið að rugla þessu öllu saman í eitt. Samgöngumálum, raforkumálum og atvinnumálum (þótt þau tengist í umhverfismálunum). Svona fundur er sennilega bara upp á stemninguna og ekkert annað. Það er enginn tími til þess að ræða þrjú svona stór mál á einu bretti (jú, ókei, Teigsskóg á ekkert að þurfa að ræða lengur – tvö mál). Það er verið að búa til falskan pakka – smygla öllu inn á einu bretti. *** Ég er mótfallinn Hvalárvirkjun. Ég held það hafi komið fram hér áður. Frábærir fossar og það allt. Ég væri hlynntur henni, hins vegar, ef það væri gulltryggt – með aðgerðaáætlun, fjármögnun, lögum, öllu sem til þarf – að hún myndi laga raforkuástandið í fjórðungnum. Þá mætti loka þessum fossum fyrir mér og Tómas gæti bara farið eitthvert annað að ganga – til dæmis í Hornstrandafriðlandið með Nanný og Rúnari. Það er hins vegar ekki. Og mér finnst ástæðulaust að kasta þessum fossum í eitthvað veðmál, sem er líklegra en ekki að við töpum. *** Laxeldið. Hlynntur því. Var ég búinn að koma því að einhvern tíma? Mér finnst það liggja beint við og held að allir sem kynntu sér það – og á annað borð kæra sig um að fólkið hérna njóti líka vafans (því auðvitað eru áhættur í öllu) – myndu sjá það. Enda flest fólk skynsemdarfólk. *** Teigsskóg ætti bara ekkert að þurfa að ræða lengur. Nenni því ekki einu sinni.

Untitled

Ég byrjaði vinnudaginn á því að lesa grein um einkavædda barnavernd í Noregi. Punkturinn var ekki sá sem hann er yfirleitt þegar ég les um barnavernd í Noregi – að hún sé oft á tíðum ótrúlega gröð í að fjarlægja börn af heimilum – eða bara að furða sig á því að hægt væri að einkavæða barnavernd, sem er svo sem ástæða til að skrifa nokkur þúsund dagblaðapistla. Heldur að fyrirtækin á „barnaverndarmarkaðinum“, sem sennilega reka barnaheimili frekar en að taka ákvarðanir um að fjarlægja börn af heimilum, séu meira og minna á vegum fyrirtækja sem eru skráð í einhverjum Tortólum. Í fréttinni kom fram að gróðinn af meðalbarnaverndarfyrirtæki sé allt að þrefaldur á við meðalgróðann í öðrum brönsum í Noregi. *** Fyrst hélt ég að ég væri að verða geðveikur. Eða í það minnsta fá sótthita. Svo fór ég að velta því fyrir mér hvort að norskan mín væri bara ekki betri en þetta – þetta gæti varla staðist. *** „Ifølge en rapport gruppen har bestilt fra De Facto kunnskapssenter for fagorganiserte, er lønnsomheten i barnevernet større enn i noen annen bransje i Norge. Ifølge rapporten har de fem konsernenes totalrentabilitet ligget på 22-23 prosent i perioden 2011-2015, mens gjennomsnittet for alle næringer lå på 7-8 prosent.“ – VG *** Og ég bara .. ha? Ha? *** Ég gúglaði norska barnevernet til að lesa mér til um þessa „einkavæðingu“ – eða útboð – og önnur niðurstaðan var þá frétt af BBC sem fjallaði einmitt um að norska barnaverndin væri umdeild vegna þess að hún færi of geyst í að fjarlægja börn af heimilum – sérstaklega þegar foreldrarnir væru innflytjendur. Og einhvern veginn get ég ekki látið vera að hugsa að þetta tengist – þótt nefndin sé á vegum ríkisins og barnaheimilin á vegum einkaaðila. Að börnin séu seld. *** En ég tek fram að ég hef ekkert vit á þessu – var bara að uppgötva þetta – og til að taka af allan vafa (þetta vefst svolítið fyrir fólki) þá er allt sem birtist á þessari síðu „blogg“ en ekki „grein“ og þaðan af síður „ritgerð“ eða „fréttaskýring“. *** Þetta er bara dagbókin mín og ég er bara að hugsa. *** En það er mikill misskilningur á Íslandi – og sennilega minnkandi dönskukunnáttu um að kenna – að það sé eitthvert norrænt módel eftir. Það er löngu farið á haugana.

Untitled

Í gær spratt upp umræða um þjóðsönginn á Facebook – Óttari Martin fannst eitthvað pínu nasískt að syngja um „Íslands þúsund ár“ í ljósi hugmynda um þúsundáraríki Hitlers. *** Hugmyndin um þúsundáraríkið er auðvitað ekki frá Hitler. Þúsundáraríkið er úr biblíunni (og hugsanlega/sennilega eldra) – það sem tekur við eftir síðari komu Krists. Þá hefur öllum syndurum verið tortímt og á jörðinni búa einungis réttlátir og Jesús ræður ríkjum í þúsund ár, eða þar til lokadómur er kveðinn upp. Sirkabát, minnir mig. *** Þetta á sér augsýnilega samsvörun í hreinleikahugmyndum Hitlers. *** En þúsundáraríkið er líka vísun í hið heilaga rómverska ríki – þýska keisaraveldið – sem stóð í nærri því þúsund ár, frá 962 til 1806. Sem einhvers konar fordæmi fyrir stöðugleika og langdrægni. *** Þúsund ár Íslands – í þjóðsöngnum – hefur svo ekkert að gera með þetta, annað en að árafjöldinn er sami og ein þjóðremba er öðrum skyld. En það er svolítið einsog með hakakrossinn – sem nasistar fundu ekki upp, og er til dæmis afar venjulegur í Víetnam, þar sem ég bjó um hríð, en manni finnst hann samt óþægilegur. Það er ekki beinlínis spurt um einhver rökræn tengsl, enda virka symból og hugtök ekki bara rökrænt – óþægindin geta verið alveg þau sömu. *** Þess vegna var hakakrossinn til dæmis fjarlægður úr Eimskipalógóinu. *** Svo er ekkert óhugsandi að Matta hafi verið hugsað til þúsundáraríkis Krists eða hins heilaga rómverska ríkis þjóðverja. Hugrenningartengslin eru til staðar strax og maður talar um þúsund ára líftíma ríkis. Og Matta var vissulega nokkuð hugsað til guðs. *** Hins vegar hjó ég eftir þeim hugmyndum í þessari samræðu, sem komu mér á óvart, að íslensk þjóðernishyggja – eða þjóðernishyggja 19. aldarinnar, ættjarðarrómantíkin – væri einhvern veginn alveg fullkomlega óskyld því sem gerðist í Þýskalandi og víðar í Evrópu á þriðja og fjórða áratugnum. Hefði ekkert með uppgang nasismans í Evrópu að gera. Það væri jafnvel fáránlegt að gera því skóna – því Lofsöngur hefði verið ortur löngu fyrir tíma Hitlers. *** Um það er auðvitað að segja: húmbúkk. Hitler gerðist ekki í sögulegu tómi og nasisminn var ekki hreinþýskt fyrirbæri og ættjarðarrómantík var ein af grunnstoðum hans. Um þetta hafa verið ritaðar ótal bækur. Það voru ekki bara nasistar á Íslandi heldur og nasískir straumar í hinum ýmsustu kreðsum. Og eru enn – þeirra má til dæmis sjá mjög greinilega stað í allri bjúrókrasíu sem tengist hælisleitendum, flóttamönnum og innflytjendum. *** Það þýðir vel að merkja ekki að allir sem syngi með í þjóðsöngnum á fótboltaleikjum séu nasistar. Því fer raunar fjarri. Það eru ekki bein tengsl – ekki einu sinni slippery slope – en það er samt absúrd og sennilega hættulegt að hafna skyldleikanum með öllu, einsog manns eigins þjóðernishyggja geti aldrei haft chauvinískar afleiðingar vegna þess að maður sjálfur sé svo almennilegur og meini svo vel. Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að fólk hefur – sérstaklega síðustu 60-70 árin – haft varann á gagnvart ættjarðarástinni/þjóðernishyggjunni. Hún hefur víða leitt menn í gönur, ekki bara í Þýskalandi – og leiðir þá enn í gönur. *** Shalom Auslander skrifaði einu sinni að vildi maður skilja nasista yrði maður fyrst að átta sig á því að stefnan byggir ekki (fyrst og fremst) á hatri, heldur á von – von um betri heim. Að tilfinningarnar sem liggja nasismanum til grundvallar eru ekki (bara) froðufellandi vitleysa, heldur margt af því fallegasta sem við eigum: ástin, samstaðan, fegurðin og – einsog Adorno benti á – ljóðlistin. *** Og þá er ég ekki heldur að segja að allir sem lesi ljóð séu nasistar. Ekki einu sinni allir sem skrifa ljóð eru nasistar. En ég er að gangast við því að fegurðin sé próblematísk – hún sé ölvandi og svipti mann jafnvel dómgreindinni á köflum, og manni beri að umgangast hana af varúð og virðingu. *** Kannski er samt skrítnast að syngja þjóð sinni lof, þegar maður skammast sín fyrir hana – hvernig hún agerar pólitískt, hvernig hún sendir sína aumustu út á guð og gaddinn, á þeirri forsendu að þeir tilheyri ekki „okkur“ – og það alveg jafnt þótt sumir þegnanna séu góðir í fótbolta og það sé gleðiefni.