Untitled

Í dag las ég hljóðaljóð. Þetta geri ég bara einu sinni á ári núorðið held ég. Að minnsta kosti gerist það ekki oftar að ég lesi Úr órum Tobba. Ég sé mest eftir því að hafa tekið af mér tölvuúrið á meðan, því auðvitað hefði verið gaman að lesa í púlsinn á eftir. Þetta tekur mikið á. *** Ég man ekki hvað ég hef eldað margar máltíðir síðan ég yfirgaf Ísland í lok júní. Kannski þrjár. Sem er náttúrulega ekki hægt. *** Ég hef heldur ekkert spilað á gítar, ef frá eru talin tvö augnablik á dvergvaxinn klassískan gítar í eigu sonar Martins Glaz Serup, þegar við vorum á Hald Hovedgaard. *** Vidrigt ástand. *** Ég hef líka eytt of litlum tíma með konunni minni og börnunum mínum. *** Og of litlum tíma með skáldsögunni minni / leikritinu mínu (þetta er sama verkið). Hans Blævi. Týpískt að það skuli vera það síðasta sem mér dettur í hug. Einsog mér sé bara alveg skítsama um þessar helvítis bókmenntir. *** Ég er annars enn að berjast við framvinduna í því verki – sem og pólitíkina. Það er einsog mig langi að ganga yfir öll strik en samt ekki. Einsog ég geti ekki gert upp við mig hvort sé tilgangslausara. Sem er reyndar grundvallarforsenda verksins, held ég.

Untitled

Dagur eitt í Författarskolan för unga að kveldi kominn. Hann fór mestmegnis í kynningar og einföld verkefni. Eftir kvöldmat sátum við ellibelgirnir og ræddum bókamessuna í Gautaborg og vandræðin í kringum þátttöku fasistatímaritsins Nya Tider, sem hefur leitt af sér meiriháttar bojkott. Af þeim okkar sem er boðið er ég sá eini sem hefur þegið. *** Ég mæti. Og við erum í sjálfu sér ekki ósammála um að aðstæður mínar séu aðrar. En ég mæti samt með óbragð í munninum. Og fjarska forvitinn um hvernig allt saman fer. Ég veit ekki hvort forvitnin myndi leyfa mér að sitja bara á Ísafirði meðan herlegheitin fara fram. *** Marét-Anne, samíski kennarinn sem er með í fyrsta sinn í ár, spurði mig í gærkvöldi hvort það væru nokkuð birnir í skóginum. Það eru ekki birnir í skóginum en í morgun þegar ég fór út að hlaupa ímyndaði ég mér samt í hverju skrefi að nú ryddist björn út úr laufþykkninu og biti úr mér stórt stykki. Voðalegt hvað ímyndunaraflið getur farið illa með mann. *** Hér eru ekki einu sinni moskítóflugur í ár. Yfirleitt er varla hundi út sigandi fyrir þessum bitsvíðingum.

Untitled

Ef ég væri jafn vinsæll í öllum borgum og bæjum í Svíþjóð og ég er í Laholm væri ég ríkur maður. En svo er ekki. *** Laholm mætti að ósekju vera aðeins stærri. *** Hins vegar lifi ég nú í ákveðnum lúxus, því verður ekki neitað. Ég er í næturlestinni í einkasvítu. Með klósett og sturtu og hárblásara og ég veit ekki hvað. *** *** Lífið er annars voða rólegt. Ég sakna Nödju og A&A og sé þau ekki í heila viku til viðbótar. Á morgun á ég frídag sem ég þarf ekki heldur að nota til að uppfylla neinar félagslegar skyldur og þá fer sá frídagur í að skrifa og senda út reikninga. *** Það er þetta með hvaða daga maður kallar frídaga. Það eru sennilega dagarnir sem maður notar í það sem manni sýnist. Vel að merkja ætti það ekki að taka mig nema korter að senda reikningana. *** Ég át alltof mikið í dag og er allur uppþembdur. *** Ég keypti mér pizzu meðan ég beið eftir lestinni frá Hässleholm, eiginlega bara af því mig vantaði á klósettið, og svo át ég pizzuna. Sem nær náttúrulega ekki nokkurri átt. Ég hefði líka getað eytt 10 SEK í klósettferð á lestarstöðinni en ég átti bara ekkert klink og það fær maður ekki heldur í hraðbönkum. Eftir stendur að ég hefði líka getað keypt mér bara vatnssopa – eða pissað úti, einsog túristar gera víst – en ég var líka pínkuponsu svangur. Hefði t.d. vel getað borðað eitt croissant. En ég hafði ekkert við þessa pizzu að gera sem var þess utan miklu matarmeiri en ég hafði gert mér í hugarlund. *** Pizzan var ekki heldur góð. Pizzur í Svíþjóð eru það yfirleitt ekki – þótt á því séu augljóslega undantekningar. *** Vondur matur er eiginlega smám saman að hverfa af vesturlenskum veitingastöðum; hipsterbyltingin plús stærri og frekari og meðvitaðri millistétt plús snobb plús innflytjendur plús margir-hafa-ferðast-útum-allt-og-það-breytir-viðmiðinu. Plús sennilega eitthvað fleira. Ég kann ágætlega við vondan mat. Í alvöru. En það gerir hann ekki góðan og maður ætti sennilega ekki að troða í sig pizzu klukkan 23 að kvöldi sérstaklega ef hún er vond bara af því maður var í spreng.

Untitled

Ég er enn í heimabæ krakkana í Roxette. Í litlum sumarbústað í útjaðrinum. Í dag er planið að spila minigolf og kasta sér í hafið. Á morgun er svo upplestur í bókabúð í Laholm. Þetta er alger rassgatsbær – 6 þúsund íbúar, sem er einsog 100 manna þorp á íslenskan mælikvarða. En þarna er sjálfstæð bókabúð sem rekur mikið prógram og er afar vinsæl – það var stór grein um hana í síðasta Vi Läser (sem er stærsta bókmenntatímarit Svía – einsog Nýtt Líf um bækur, frekar en TMM). Það kostar 100 krónur inn og mér skilst að það hafi þegar selst nokkuð af miðum. *** Svo erum við bara að mysa, einsog maður segir. Hygge sig, segja dönskukennararnir, en við erum engir dönskukennarar. *** Annað kvöld tek ég næturlestina til Stokkhólms og fer þaðan til Bålsta og Biskops-Arnö til að kenna ritlist í eina viku. Ég er einn á staðnum í sólarhring áður en hinir kennararnir koma og ætla að nota tímann til að vinna í Hans Blævi.

Untitled

Það er alltaf kalt, hvert sem ég fer, og það rignir mikið. Nú er ég í Halmstad, eða nánar tiltekið Tylösand. Héðan er hljómsveitin Roxette og karlinn – Per Gessle – á allt hérna. *** Myndina tók útgefandinn minn og vinur, Per Bergström.

Untitled

Í gær gerði ég tvenn mistök. Hin fyrri voru að segja að við Aram hefðum gist á sófanum hjá Hauki Má þegar við vorum í Berlín. Það gerðum við alls ekki. Við gistum í vellystingum í rúminu hans Hauks Más en Haukur Már svaf sjálfur í ponsulitla sófanum sínum, einsog Kristur krossfestur í jötunni, svo við mættum öðlast góðan svefn. *** Seinni mistökin gerðust á hlaupum í Rejmyreskógi. Ég taldi mig hafa hlaupið sömu leið og venjulega – sem ætti að vera tæplega 7 km hringur – og var satt best að segja ekki mjög vel fyrirkallaður í þá vegalengd, enda lifað á pizzum og kebab og límonaði og bjór í marga daga. En eftir fjóra kílómetra kom ég að sveitabæ sem ég hef aldrei komið að áður. Ég ákvað því að hlaupa bara sömu leið til baka. En þá kom ég ekki aftur á sama stað og ég hafði hlaupið frá, heldur út á hraðbraut. *** Mér fannst sennilegt að nú væri ég norðan við Rejmyre og hljóp því í suðurátt í von um að rekast fljótlega á einhvers konar skilti því til staðfestingar. Eftir 5-6 kílómetra birtist loks skilti og þá kom í ljós að ég var sunnan megin við bæinn og átti að hlaupa í norður en ekki suður. Batteríið í úrinu – sem er með GPS en engu korti – kláraðist þegar ég var kominn 16 km og þá átti ég eftir um 5 km. *** Ég viðurkenni að hljóp ekki alla leiðina. Sérstaklega ekki þessa síðustu 5 km. En ég fór þá sem sagt sirkabát hálfmaraþon, illa fyrirkallaður. Sem er það lengsta sem ég hef farið vel fyrirkallaður – þá undirbjó ég mig mánuðum saman, alla Víetnamdvölina, og hljóp einn af síðustu dögunum. Á miklu betri tíma, að vísu, en samt. *** Ég er í lélegu formi samt. Ég gerði þetta bara á þrjóskunni. *** Í morgun ætlaði ég að taka strætó til Vistinge til að ná öðrum þaðan til Norrköping áður en ég stökk í lest til Malmö. En þá var búið að loka öllum strætóstoppistöðvum í Rejmyre vegna bæjarmarkaðarins. Úr varð heljarinnar hasar, hlaupandi pungsveittur á lúnum leggjum um sveitarfélagið, áður en svili minn kom auga á mig og brást skjótt við – pikkaði mig upp á bílnum sínum og skutlaði mér út á þjóðveg. Þetta hafðist og ég er í lestinni. *** Líf mitt er eitt viðstöðulaust ævintýri. *** Þessir harðstjórataktísku messíasarkomplexar sem hrjá leiðtoga í einkareknu góðgerðar- og umönnunarstarfi eru rannsóknarefni. Eða í öllu falli ástæða til að gaumgæfa rekstrarmódelið. Í sjálfu sér eru þetta að mér sýnist misalvarleg dæmi – sennilega er engin ástæða til að bera saman Stígamót, Hjallastefnuna og Fjölskylduhjálp, við alvarlegri dæmi einsog Landakotsskóla, Breiðavík og Byrgið, en tendensinn er þarna. Einræðisherrastemningin. *** Kannski er hún líka skyld því sem gerðist í alþýðulýðveldunum. Því sem gerist þegar mannúðarstarf verður svo byltingarkennt eða svo réttlátt (eða sjálfsréttlátt, einsog sjálfumgleði heitir á ensku) að ekkert má hamla því; allt verður að láta undan svo ruðningsvélin geti haldið áfram óvéfengjanlegu mannúðarstarfi sínu. Árangur áfram, ekkert stopp, einsog önnur mannúðarmaskína orðaði það um árið. *** Mér hefur líka alltaf þótt skrítið að svo stór hluti góðgerðar- og umönnunarstarfs sé á vegum sjálfseignarstofnana, félaga og fyrirtækja. Mér finnst það til marks um að hið opinbera sé ekki að sinna einhverju sem það ætti að vera að sinna. Í mörgum tilvikum borgar hið opinbera fyrir starfsemi félaganna – en sennilega miklu minna en það myndi gera ef það tæki yfir starfsemina.

Untitled

Ein helsta vísbendingin um að maður búi í stéttasamfélagi er að sumt fólk virðist halda að allir aðrir hafi það jafn gott og það sjálft. Til dæmis þegar Össur Skarphéðinsson heldur að „venjulegt fólk“ geti skottast um heiminn fyrir lítið fé – og það hafi ekki að gera með stöðu hans eða tekjur, heldur með uppgang „deilihagkerfisins“. *** Annað dæmi er að því finnst ákveðin vinna vera fyrir neðan virðingu þeirra. Einsog þegar Agli Helgasyni finnst fásinna að „venjulegt fólk“ eigi að skanna vörurnar sínar sjálft í stórmörkuðum. Því venjulegt fólk vill ekki „vinna á kassa í Bónus“. *** En auðvitað vinnur venjulegt fólk á kassa í Bónus. Og venjulegt fólk getur ekki leyft sér að ferðast út um allar trissur án þess að setja efnahag sinn á hliðina – hvað sem líður „deilihagkerfinu“ (sem er auðvitað ekki deilihagkerfi heldur harðkjarna markaðshagkerfi). *** Og þetta skrifar maður sem skottast um heiminn, vill ekki vinna á kassa í Bónus og AirBNBar heimili sitt á meðan hann eyðir sumrinu í Svíþjóð. Sem er sennilega ekki mikið ódýrara en að eyða því á Folegandros eða Boston, þótt flugmiðinn kosti minna. *** Þetta hefur að vísu meira með stöðu mína að gera en stétt – að minnsta kosti í þeirri merkingu að ég hef frekar lágar tekjur (langt, langt undir landsmeðaltali). En ég fæ ansi mikið af ókeypis flugmiðum vegna starfs míns. *** Mig grunar samt að ég hafi það betra en flestir. Í það minnsta betra en mjög, mjög margir. *** Í sumar fer ég í tvígang í eiginlegt frí. Annars vegar var helgarferðin til Berlínar með Aram – við keyptum okkur ódýrasta miða með Norwegian, án þess að tékka inn farangur, og gistum á sófanum hjá Hauki Má. Óvæntasti og dýrasti liður ferðarinnar var að við neyddumst til þess að leggja í dýrara stæði á Arlanda en við ætluðum – ódýru stæðin voru öll full – og það setti okkur næstum á hliðina. *** Í hinu fríinu förum við Nadja til San Francisco í sex daga. Það er um miðjan ágúst, rétt áður en við komum heim. Nadja fékk flugmiðana í jólagjöf (og ég leitaði einfaldlega að ódýrustu tilboðunum eitthvert út fyrir Evrópu). Þar er deilihagkerfið svo langt á veg komið að það er ódýrara að búa á hóteli en á AirBNB. *** Sennilega hefði ég ekki efni á neinu af þessu ef ég ynni á kassa í Bónus. Eða ef ég væri næturvörður á hóteli eða blaðamaður á héraðsfréttablaði, einsog ég var, eða starfsmaður í skipasmíðastöð, rækjuvinnslu, sambýli, leikskólakokkur eða ræstitæknir í skemmtiferðaskipi, einsog ég hef líka verið, og svo sannarlega ekki sem öryrki eða sjúklingur, sem ég hef blessunarlega aldrei verið. *** Ég hef verið sjálfstætt starfandi rithöfundur í tíu ár um þessar mundir og af þeim árum hefði ég kannski getað leyft mér eitthvað svona lagað í tvö. Tvö önnur gat ég varla leyft mér að taka strætó. *** Samt hef ég alltaf verið venjulegt fólk.

Untitled

„Pabbi, hvað þýðir porn?“ *** Við erum rétt fyrir utan smábæinn Nykil í Svíþjóð. Sem minnir óneitanlega á Nýhil en er ekki Nýhil heldur Nykil. Hér eru tveir sumarbústaðir, stöðuvatn og náttúra. Hér dokum við ekki, enda væri það úr takti við allt, heldur förum til Rejmyre strax seinnipartinn. *** Við Aram komum frá Berlín í nótt klukkan þrjú eftir 3 1/2 klukkustundar bíltúr frá Arlanda. Í Berlín dvöldumst við tvær nætur í góðu yfirlæti hjá Hauki Má. *** Fyrsta daginn fórum við í dýragarðinn. Eftir nokkra klukkutíma þar fór skyndilega að rigna mikið, á endanum var hálfgert flóð á vissum stígum. Við flúðum aftur til Neukölln, fengum okkur kebab og fórum á nýju Spidermanmyndina í bíó. Eftir bíó lásum við Mómó, Aram fór að sofa og við Haukur sátum á svölunum fram eftir nóttu. *** Seinni daginn fórum við á DDR safnið, skoðuðum Sjónvarpsturninn og múrinn, drukkum límonaði í sólinni og átum meira á imbißi á Danziger Strasse. *** Það var mikið rætt um ofurhetjur í ferðinni. Það er óhætt að segja að ferðin hafi verið mjög vel heppnuð og við feðgar báðir í skýjunum. *** Und mit Menschen. A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jul 23, 2017 at 6:32am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js *** Það fyrsta sem gerðist samt – fyrsta kvöldið, þar sem við Aram sátum í neðanjarðarlestinni á leiðinni að hitta Hauk, var að ég frétti að gömul vinkona mín frá Ísafirði hefði látið sig hverfa, stytt sér leið, eða hvernig maður orðar það þegar maður vill ekki nota ljótustu orðin. Hún er allavega ekki til lengur og allir sakna hennar mjög og óhætt að taka undir það sem sagt hefur verið um glaðværð hennar í leik og starfi. *** Hún vann á bókasafninu og var alltaf glöð að sjá alla. Heilsaði öllum einsog þeir væru gamlir vinir nýkomnir úr löngu ferðalagi. Þegar við vorum ung vann hún á Sjallanum – á því tímabili þegar ég kom þangað nærri daglega til að drekka kaffi, reykja og skrifa. Og við spjölluðum alltaf. Hún var í mörg ár líka kærasta eins af bestu vinum mínum. *** Óskiljanlegt og hryllingur eru orð sem koma upp í hugann en sem fyrr duga engin orð beinlínis – eða nándar nærri – til þess að útskýra neitt um það hvers vegna ung manneskja í blóma lífsins velur að segja skilið við það. *** Okkur líður ekki alltaf nógu vel. Við þurfum að huga betur hvert að öðru. *** Þeir sem eftir standa eru sennilega í öllu litrófi tilfinninganna – ást og sorg og reiði og undrun og ekki-undrun og öllu hinu. Við sem eftir stöndum, meina ég. Og samúð og samhugur til þeirra sem stóðu henni næst. Þvílíkur botnlaus harmur. *** Aram þekkti hana líka og við ræddum þetta í ferðinni. Ég ætlaði ekkert að fara að tala um þetta við hann en það varð samt einhvern veginn að gerast. „Svona er lífið stundum“, sagði hann við mig í gær í bílnum, þegar ég var augljóslega leiður að reyna að tala mig í gegnum þetta. Stundum er hann svo miklu eldri en ég og þótt það kannski breyti engu, að svona sé lífið stundum, þá er það líka alveg satt. Svona er lífið stundum. *** Ég verð í Rejmyre í nótt og aðra nótt, fer síðan til Malmö að lesa upp á einhverjum reiðhjólatúr – þetta er eitthvað nýmóðins bókmenntaprógram – og svo til Halmstad til að spjalla í bókabúð. Og þaðan til Biskops-Arnö að kenna ritlist. Hasarinn heldur áfram.