Niðurtalning

Ef allt fer að óskum kemur ljóðabókin mín út í mars. Hún átti einu sinni að heita mjög ljóðrænum titli en á endanum ákvað ég að láta titilinn ekki þvælast fyrir henni og kalla hana bara Fimm ljóð . Ljóðin í henni – sem vill til að eru einmitt fimm – tala sannarlega saman en mér fannst alltíeinu óþarfi að vera að ákveða fyrir lesandann hvaða þráð væri þægilegast að lesa í gegnum þau, og raunar var titillinn sem ég hafði í huga alls ekki góður þráður, ekki sá mikilvægasti, og það hefur áreiðanlega stýrt ákvörðun minni líka. En það fylgir því líka að kannski langar mig ekkert að segja um bókina, hvorki fyrirfram né eftir útgáfu, langar ekki að vera persónulegur leiðsögumaður neins í gegnum hana – ég held hún krefjist heldur ekki leiðsögumanns, hún krefst þess vona ég bara að maður opni hana og láti berast í gegn. Mér finnst annars einsog ég hafi komið heim úr Náttúrulögmálatúrnum í gær og því alltof snemmt að fara strax að kynna aðra bók. Ég veit heldur ekkert hvað ég geri. Nema að ég fer áreiðanlega ekki aftur hringinn í kringum landið. Það er búið að bjóða mér að lesa á einum stað í Reykjavík. Ég hlýt að lesa eitthvað á Ísafirði – raunar las ég upp úr henni tvisvar hérna í haust. Akkúrat í dag er ég svo þreyttur – við komum heim frá Bangkok í gærkvöldi, ferðin tók tæplega 40 tíma – að ég nenni ekki einu sinni að hugsa um að fara að standa í einhverju húllumhæi. En ég skal koma hvert sem mér er boðið. *** Ég las All Fours eftir Miröndu July í fluginu. Ég var mjög hrifin af smásagnasafninu hennar á sínum tíma og ekki síður af The First Bad Man og hafði orðið var við mikið hæp í kringum All Fours svo væntingarnar voru í botni og því kannski ekkert skrítið að maður verði fyrir vonbrigðum. Sem var raunin, sumsé, þrátt fyrir góða spretti. Hún byrjar mjög vel – ímyndunarafl July nýtur sín afskaplega vel á meðan hún er að raða upp sögusviðinu og búa til plottið en úrlausnin, sem tekur alveg síðustu 60% bókarinnar, er einhvern veginn hversdagsleg eða banal. Sviðið minnkar og minnkar og endar bara ofan í naflanum á miðaldra forréttindakonu sem á of mikinn pening og of mikið kúltúrkapítal og hefur of mikinn tíma til þess að velta sér upp úr krísum sínum (sem virka fyrir vikið allar jafn merkilegar – sem þær eru augljóslega ekki) og ofan í þessum nafla er ekkert perspektíf á neitt af þessu, bara rörsýn, sem er í algerri andstöðu við sjóndeildarhringssprengingarnar í upphafi bókar þar sem manni virtist sem nú gæti heimurinn orðið endalaus. En sprettirnir sem hún á – bæði í mannlegri innsýn og þessum sprengingum í upphafi bókarinnar – gera hana auðvitað vel lestursins virði. Hún er líka til þess að gera fljótlesin miðað við lengd (en hún er samt „of löng“). *** Undarleg þessi draumslikja sem leggst yfir heiminn þegar maður er þreyttur. Hún er ögrun við veruleikaskynið. Mér finnst ekki einsog ég sé að skrifa þessi orð, mér finnst einsog mig dreymi það eða ég haldi bara að ég sé að því eða ég sé að rifja upp hvort ég hafi gert það, skrifaði ég þessi orð, er ég alveg viss, var það kannski einhver annar sem skrifaði þau og sagði mér bara frá því og í tímans rás hef ég einhvern veginn snúið þessu á haus og finnst núna einsog ég hafi skrifað þau, ég sé að skrifa þau. Hvað ætli sé að gerast í heilanum á manni þegar manni líður svona? Er líkaminn að skrá þessar minningar af jafn mikilli festu og aðrar – gleymi ég deginum í dag hraðar en öðrum dögum? Ætli þetta sé eitthvað skylt déjà vu? Er eitthvað sekúndubrot þarna á milli þess sem líkaminn tekur á móti upplýsingum og þar til hann skráir þær sem gerir það að verkum að allt virkar einsog minning – einsog endurkall frekar en bein upplifun? *** Ég veit núna að það er búið að mynda ríkisstjórn. Ég hef fengið meiri fréttir síðasta sólarhringinn en allan mánuðinn þar á undan. Af því að ég hlustaði á útvarpið í bílnum í gær og af því að ég fór í mat til mömmu og pabba. Ég heyrði að Logi væri menningarmálaráðherra – það kom fram í þættinum þar sem RÚV-verðlaunin voru veitt. Og svo spurði ég mömmu og pabba hverjir væru hinir ráðherrarnir og fékk það svona meira og minna upptalið fyrir mig. Svo horfði ég á The Daily Show í morgun og komst að því að það var framin hryðjuverkaárás í New Orleans á áramótunum. Já og mér var líka sagt að Trump ágirnist Grænland. Kannski var það í útvarpsfréttunum. Skógareldarnir í Los Angeles voru líka í útvarpsfréttunum. Einhvern veginn slær þetta mig allt sem frekar gagnslaus þekking. Eða endurtekin. Í öllu falli finnst mér ennþá áhugaverðari upplifun að fylgjast ekki með fréttum en að fylgjast með þeim. Mér finnst ég læra meira af því að heyra ekki af því sem almennt er álitið að maður ætti að frétta. Það hljómar áreiðanlega undarlega en er samt satt. *** Í kvöld ætla ég að fara snemma að sofa.

2024

Þetta var ævintýralegt ár, svona í baksýnisspeglinum að minnsta kosti. Ég fór til Grikklands í vor og tók þátt í bókmenntahátíð á Mamma Mia-eyjunni Skopelos – át feta, drakk ouzu og hlustaði á bouzouki-leik síreykjandi verta. Fór þaðan beint til Napólí í góðra vina hópi – að drekka vín og éta pasta. Með undraverðum árangri. Átti góða viku með fjölskyldunni úti í sveit fyrir utan Ekenäs/Tammisaari í Finnlandi, aðra í Helsinki og allavega tvær til í Eystra-Gautalandi og Vestmannalandi. Það var í sumar. Við Nadja gerðum okkur líka sérferðir til Malmö og norður til Skellefteå og Sundsvall. Í haust ráfaði ég svo um Kraká með vestfirskum kennurum og Katowice með pólskum skáldum. Og árinu lauk ég étandi og drekkandi í Bangkok, Ayutthaya og Koh Phayam. Ég lék, söng og dansaði í Fiðlaranum, fyrst í Edinborgarhúsinu og svo í Þjóðleikhúsinu, spilaði á bassa með Gosa, fyrst á Dokkunni á páskum og svo í Stúdíó RÚV með vorinu , hélt sóló-ljóðagigg og fór í gegnum ferilinn á bókasafninu á Ísafirði, stofnaði Tom Waits hljómsveit með 11 snillingum og setti upp heiðurstónleika í Edinborgarhúsinu. Ég lærði að díla við bandalausan fimm strengja Ibanez bassa og líka við kontrabassann hans Dúa vinar míns (sem kveikti mikinn kláða). Ég hélt áfram að læra frönsku og er orðinn bærilega læs og get skrifað bréf með orðabók þótt ég tali lítið. Ég kláraði ljóðabók sem kemur út snemmvors og byrjaði á alls kyns öðrum bókum – sumum, kannski flestum, sigldi ég nú bara í strand en aðrar eru að malla. Ég tók hlaupin – sem ég hef stundað í 12 ár – alvarlegar og ákvað að stefna á maraþon næsta haust. Fyrsta skrefið í því ferli var að koma sér í 10k form og náðist það í miðnæturhlaupinu hérna um daginn. Ég seldi réttinn á Heimsku til Póllands, þar sem hún kemur út í vor, og Náttúrulögmálin til Svíþjóðar. Því verður að vísu ekki neitað að ég var svolítið leiður að Náttúrulögmálin skildu ekki fara víðar og beinlínis í ástarsorg vegna viðskilnaðar við franska útgefandann minn – en sjálfshjálparviska ársins var líka sú að reyna að einblína frekar á bjálkann sem ég á en flísarnar sem ég á ekki. Plokkfiskbókin var svo tekin fyrir hjá uppáhaldssjónvarpskokkinum mínum – Kristni „Soð“ Guðmundssyni. Sú bók er koluppseld og eiginlega orðin fágæti. Ég veit ekki alveg hvað ég las margar bækur – bókabókin varð eftir á Íslandi og ég byrjaði ekki að nota Goodreads fyrren eftir mitt ár – en ég las a.m.k. þær tólf sem ég ætlaði mér og af þeim standa Ulysses, Njála og Infinite Jest óneitanlega upp úr. Og raunar miklu fleiri auðvitað. Ég kannski hripa niður betra lestraruppgjör þegar ég er kominn heim. Ég byrjaði að nota lesgleraugu eftir lesturinn á Ulysses – sem er ekkert skrítið, Joyce varð sjálfur staurblindur af að skrifa hana. Af þeim sem voru ekki á listanum hugsa ég áreiðanlega mest um La Pelle eftir Malaparte. Ég veit svo sem ekki hvað er síðan framundan. Annað en að ég kemst vonandi þetta maraþon í haust og ég ætla til Írlands í Ulyssesferð og ljóðabókin kemur út og það væri gott að komast í resídensíu til að skrifa í friði og ró og vonandi fæ ég að spila einhverja músík með fólki og vonandi tekst mér að leggja fyrir til að kaupa mér ódýran kontrabassa. Ég er ekki alveg búinn að útfæra lestrarmarkmið ársins en ég ætla að lesa bækur á öllum málum sem ég ræð nokkurn veginn við – sem eru þá sænska, enska, franska, þýska, norska og danska auk íslensku. Þýska bókin verður að vera fremur létt, ég hef ekki lesið að ráði á þýsku í næstum 20 ár – norsku og dönsku les ég aldrei en ætti að ræða bærilega við, norska bókin verður áreiðanlega Hamsun (nema ég reyni við Knausgaard, sem ég hef reyndar aldrei fallið fyrir). Og sænska bókin – ég les nú reyndar alltaf nokkrar sænskar bækur á hverju ári, en sú sem ég ætla að velja fyrir þetta – verður einhver langur klassíker, kannski jafnvel fleiri en einn. Kannski Jerúsalem eftir Selmu Lagerlöf (sem er í eftirlæti hjá Nödju) og einhver Strindberg. Ég er alltof illa að mér í sænskri klassík. Franska bókin verður að vera erfiðari en það sem ég hef lesið en samt ekki of þung – ég treysti mér ekki í Proust alveg strax. Kannski vel ég hana ekki fyrren eftir mitt ár – sé til hvað ég tek miklum framförum á þeim tíma. Það er nú ekki ensk bók en ætli Töfrafjallið verði ekki „enska bókin“ (ég les annars alltof mikið á ensku, en þar er úrvalið líka mest) – af því hana á maður að hafa lesið og hana hef ég ekki lesið. Danska bókin verður bók sem ég man ekki hvað heitir eða hvað fjallar um en það er bók sem fjarska gáfuð kona gaf mér einu sinni – hún tók við mig viðtal þegar Illska kom út i Danmörku og rétti þessa bók að mér og sagði: þetta verðurðu að lesa. Og var mjög sannfærandi. Mig minnir að bæði konan og bókin hafi verið af rússneskum uppruna. Og þótt ég muni ekki hvað bókin heitir veit ég hvar hún er í hillunni. Íslenska bókin verður ekki heldur íslensk, en á íslensku, og það er Hringadróttinssaga – sem ég hef ekki lesið áður og sem ég er að lesa núna með Aram (hann kláraði fyrstu bókina síðasta dag ársins og ég byrjaði lestrarárið 2025 á henni). Annars óska ég öllum lesendum bara gleðilegs árs.

Tæland

Rúmlega vika eftir af Tælandsdvölinni. Hvað þarf að færa til bókar? Miðnæturmaraþonið – sem var 10 kílómetrar hjá mér og ekki meira en 21 hjá neinum – var feykilega skemmtilegt. Ég veit að mörgum finnst hræðilegt að hlaupa og það er stundum hræðilegt að hlaupa – best er auðvitað að sitja, það vita allir – en þetta var samt skemmtilegt. Ég hef aldrei tekið þátt í svona íþróttaviðburði og hef ekki fengið medalíu frá því ég var 10 ára og fékk silfurverðlaun í dorgveiðikeppni fyrir að veiða minnsta fiskinn (fyrstu verðlaun voru fyrir stærsta og þriðju fyrir flesta). Þar á undan fékk ég að vísu bronsverðlaun í 60 metra hlaupi 6-7 ára drengja. Og nú á ég þrjár medalíur. Mig langar helst að ganga með þá nýjustu öllum stundum og alltaf vera í Bangkok Midnight Marathon bolnum mínum. Einsog gefur að skilja hef ég fengið mikið af góðum mat. Ég er þó ekki jafn yfirgengilega hrifinn og ég var af matnum í Víetnam. Kannski hef ég ekki ratað á réttu staðina. Maturinn er víðast hvar góður – bara ekki jafn frábær jafn víða og ég hafði reiknað með. En væntingarnar voru auðvitað í botni svo ég get sjálfum mér um kennt. Ég hef lesið svolítið. Kláraði Gravity’s Rainbow, sem var átak – hún er stundum mjög skemmtileg og stundum mjög leiðinleg. Las líka Njálu – hún var alltaf skemmtileg og miklu skemmtilegri en ég hafði reiknað með, kannski skemmtilegasta Íslandssagan. Báðar voru þær hluti af átaki sem gekk út á að lesa í ár 12 af þeim bókum sem mér fannst að ég ætti að hafa lesið en hafði ekki lesið (hinar tíu voru Ulysses, Infinite Jest, Dalalíf, Karitas án titils, Stríð og friður, Mrs. Dalloway, árstíðafjórleikur Ali Smith (tæknilega fjórar bækur), Money eftir Martin Amis, Jane Eyre og House of Leaves). Ulysses ætla ég svo að lesa aftur fljótlega og fara í ferð á Bloomslóðir og Dedalusar- til Dyflinnar í vor með tveimur vinum mínum. Ég las líka Orbital eftir Samönthu Harvey sem mér skilst að skipti fólki í fylkingar. Pólaríseri. Ég var frekar hrifinn af henni. Hún minnti mig á ferðalag sem ég fór í einu sinni til Parísar með vini mínum þar sem við eyddum viku í að sitja úti í glugga í íbúðinni sem við höfðum fengið lánaða, reykja sígarettur, drekka svart kaffi, maula bagettur og drekka rauðvín. Nautnina af hinu fyrirsjáanlega. Nautnina af augnablikinu. Nautnina af því að það gerist ekkert og maður þurfi ekki á því að halda. Nautnina af því að veröldin bara malli. En mér finnst ekkert skrítið að margir meiki hana ekki – það er ekkert dópamínkikk í henni, hún einhvern veginn bara er. Aðfangadagsbókin mín var Friðsemd eftir Brynju Hjálmsdóttur. Sem er svolítið einsog ef Douglas Adams hefði skrifað The Crying of Lot 49. Algert æði. Fyndin og rugluð og falleg og fullkomlega laus við að taka sig alvarlega. Ég bókstaflega sporðrenndi henni – og held hún verði mjög eftirminnileg, einhvern veginn engu lík. Nú er ég að lesa Memories of the Memories of the Black Rose Cat eftir Veeraporn Nitiprapha. Tælenskt töfraraunsæi hefur auðvitað annan blæ en suður amerískt en byggingin er samt kunnugleg – ættarsaga, 3-4 kynslóðir, ástir og ævintýri, stríð og sorgir. Ég er ekki frá því að ég sé hrifinn af þessu. Mig hefur líka langað að fara að endurlesa 100 ára einsemd í dálítinn tíma – ætli það komi ekki að því á nýja árinu. En það breytir líka öllu í kringum mig – hérinu nú, núinu hér – að lesa tælenska skáldsögu – og breytir miklu fyrir mig að hún sé alvöru tælensk en ekki eitthvað vestrænt eat-love-pray-sull eða bók eftir þriðju kynslóðar expat í Kaliforníu/London/Marseille sem er alinn upp á sögum ömmu sinnar og fetisjerar sjálfan sig í gegnum hálf-ímyndaða útgáfu af gamla landinu, einsog er raunin um mikið af „asískum“ eða „afrískum“ bókum og ég er farinn að hafa fjarska litla þolinmæði fyrir. Nitiprapha er verðlaunaður metsöluhöfundur sem býr hér og skrifar á tælensku – það er samhengi sem skiptir máli í heimi þar sem allt er að renna saman, öll hugsun að verða eins. Og einsog í öllum svona ættarsögum – eða vel flestum – liggur mikil saga undir og maður lærir hér mikið um Tæland á 20. öldinni. Þetta eru þrír staðir sem við höfum dvalið á hingað til og verða líklega ekki fleiri. Bangkok er ógurleg stórborg og eiginlega margir staðir og maður nær líklega aldrei að sjá nema brot af þeim. Við erum í Sukhumvit sem er einhvers konar miðbær. Umkringd verslunarmiðstöðvum á alla kanta. Hér eru djammgötur og götur þar sem nuddstofurnar eru augljóslega ekki bara nuddstofur og aðrar götur þar sem nuddstofurnar eru greinilega fyrst og fremst nuddstofur. Hér eru krár og veitingastaðir – bæði vestrænir og tælenskir og annars lags. Það eru aldrei meira en 20 metrar í næstu kannabisverslun og aldrei meira en 5 metrar í næsta Seven-Eleven. Samt er túristamettunin alls ekki svo mikil – það er miklu túristaþéttara í miðbæ Reykjavíkur en hér. Ayutthaya var ég eitthvað búinn að tala um. Musteri og dýralíf og það var mikil hátíð þegar við vorum í bænum – aðalgarðurinn fullur af bleikum fílum og sölubásum með djúpsteikt skordýr. Mikil túristaborg en langstærstur hluti túristanna asíubúar og sennilega flestir tælendingar. Mikið af fólki í sparifötum – einstaka í cosplay-búning – að láta mynda sig við musterisrústirnar. Koh Phayam er lítil eyja. Varla nema 6-7 kílómetrar að lengd og kannski 3 á breidd. Við vorum á strönd sem var kannski ekki afskekkt – enda varla hægt – en við skulum segja afsíðis. Þar voru samt nokkrir gististaðir og allir með sinn eigin veitingastað og auk þess barinn Hippie Bar, sem er eins konar risavaxinn trékofi sem byggingarreglugerðir hefðu bannað hvar sem er annars staðar. Þar eru börn bönnuð eftir klukkan 14 á daginn. Koh Phayam virðist vera talsverð djammeyja – og hér eru túristarnir svo til allir hvítir – en okkar afsíðis strönd var róleg og næs (Hippie Bar var á hinum enda strandarinnar og þar var að vísu dálítil dúnka-dúnka músík á jóladagskvöld þegar „DJ Svensson Technotronic“ lék lausum hala). Snorklið var frekar lélegt en það var gaman að sigla í kringum eyjuna – ég núvitundaði mig í botn, ber að ofan liggjandi á þilfarinu, starandi út í ljósbláan alheiminn meðan sjórinn gekk yfir bátinn. Börnin léku sér talsvert á alls konar brimbrettum á stóru ströndinni hinumegin á eyjunni. Annars var þetta mest afslöppun (og ákveðið frí í því að netið var lélegt og 4G notkun kostar morðfjár). Jólin. Við héldum þau. Á Heaven Beach. Ég pantaði mér kjúkling og franskar. Svo fórum við í kofann okkar til að opna gjafir. Ég fékk stefnumót við klæðskera (ég fer í fyrramálið), frumsamið ljóð, penna sem er merktur „elsku pabbi“, spa-heimsókn með Nödju og tælenskan stuttermabol. Við krakkarnir gáfum Nödju nýjan kindil í stað þess sem glataðist, ég gaf henni fallegt hálsmen, Aram fékk miða á Green Day og Weezer í Stokkhólmi í sumar og Aino fékk ýmislegt smálegt og dekurdag með mömmu sinni í Bangkok. Í dag átum við svo jólaskinku sem Nadja og pabbi hennar keyptu í IKEA – og graflax og hofmeistarasósu og allar græjur. Ég er ábyggilega að gleyma einhverju sem ég ætlaði að nótera hjá mér. Það kemur þá vonandi bara með næst.

Samhengislítill næturvaðall

Klukkan er að verða sex. Ég hef verið vakandi frá þrjú. Aldrei þessu vant ekki vegna þess að ég sé andvaka heldur vegna þess að ég er að reyna að snúa sólarhringnum við. Snúa sólarhringnum enn meira við, meina ég. Ætli klukkan sé ekki að verða ellefu að kvöldi á Ísafirði? Sem þýðir að ég hef farið á fætur um það leyti sem kvöldfréttirnar … nei það eru líklega áratugir frá því kvöldfréttir voru klukkan átta. Það er samt veruleikinn sem ég er alinn upp við. Kvöldfréttir klukkan átta. Ekkert sjónvarp á fimmtudögum. Prins Póló í opnum álpappírsumbúðum (súkkulaðistykkið, ég reikna með að strákurinn hafi verið í Don Cano galla eða í versta falli Henson). Good times. Í mínum heimi verða eðlilegar kvöldfréttir alltaf klukkan átta. Ég er svolítið þreyttur. Á morgun – altso, aðra nótt – er Bangkok Midnight Marathon og strax og það er búið brunum við út á flugvöll. *** Ég hef ekkert fylgst með fréttum. Bókstaflega ekki neitt. Ekki heldur horft á kvöldfréttir eða hlustað á útvarp. Það eina sem ég veit um síðustu tvær vikurnar er það sem fólk hefur sagt mér. Tengdafaðir minn sagði mér t.d. eitthvað um að … uh … Google kannski … hefði fundið upp einhvern tölvukubb sem væri … hvað sagði hann? Það var einhver ægileg tala. Og tölvukubburinn var svo mörgum sinnum kraftmeiri en næstkraftmesti tölvukubburinn í heiminum. Þetta mun breyta öllu. Svo var víst einhver rappari skotinn í Svíþjóð. Steinar Bragi sagði eitthvað í Lestinni sem fór fyrir brjóstið á fólki á Facebook – kannski hugsanlega að fólkið í Kiljunni væri ómarktækir gamlingjar. Og að hann hefði fundið upp gervigreindina. Svo fékk hann þann dóm í þeim sama þætti að hann ætti bestu bók ársins. Halldór Armand er áfram skiljanlega svekktur að fá ekki listamannalaun og stillir því, að því mér er sagt, þannig upp að það sé vegna þess að hann skrifi bækur sem eru fagurfræðilega, siðferðislega og/eða pólitískt of langt frá meginstraumnum, misbjóði úthlutunarnefndinni – hann sé eins konar Burroughs/Celine/Duras sinnar kynslóðar. Ég veit ekki hvort það er búið að mynda ríkisstjórn en mér finnst það ólíklegt. Er forsvaranlegt að segja svona fréttir? Sem eru ekki fréttir. Fréttir sem berast manni frá öðru fólki – frekar en í gegnum skjái, hátalara eða pappír – eru ekki fréttir heldur slúður. Eða upplýsingaóreiða. Ég veit ekki einu sinni hvort bókmenntafréttirnar hafa verið í fréttunum eða bara á Facebook eða bara í einhverju kaffihúsaspjalli. Einu sinni hélt ég hérna lestrardagbók – skrifaði jafn óðum um allt sem ég var að lesa, meðan ég var að lesa það – og fékk bágt fyrir vegna þess að eðli málsins samkvæmt var ég yfirleitt að skrifa um bækur sem ég var ekki búinn með . Þetta er kannski svipað. Nema þetta sé meira einsog ég sé að skrifa um bækur sem einhver hefur bara sagt mér frá. Ég var þó allavega byrjaður á þessum bókum þarna í gamla daga. Ég veit ekki einu sinni af hverju ég er að missa. Stríðin geisa væntanlega enn? Af og til eru hælisleitendur sendir úr landi. Einhver er „svarti folinn“ á metsölulistanum en annars er Arnaldur alltaf í fyrsta sæti. Vinsælustu bækurnar (sem eru ekki krimmar) unnu bóksalaverðlaunin – Hallgrímur og Gunnar, kannski? Það var áreiðanlega a.m.k. ein Kristín tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. *** Ég er mjög þreyttur. Planið er að reyna að sofna klukkan sex í dag og vakna svo klukkan þrjú. Úthvíldur í það skiptið. Mörgum finnst ekkert mál að hlaupa tíu kílómetra en mér finnst það heilmikið.

Dýraríki

Það eina sem ég veit um hesta er að maður á aldrei að standa fyrir aftan þá nema maður vilji láta þá drepa sig með afturfótasparki. Þegar ég fer út að hlaupa í suðaustur-Asíu lendi ég iðulega í einhverjum … hvað á ég að kalla það, ævintýrum, samskiptum, útistöðum? – við dýr. Ég kannast ekki við að þetta eigi við í öðrum heimshlutum sem ég hef hlaupið í. Og þó – einu sinni réðst á mig hundur þar sem ég var að hlaupa við Dónárbakka og hélt mér föngnum með ofsa sínum um hríð, meðan drukkinn eigandi hans bað mig í guðanna bænum að vera rólegan (mig, sem stóð grafkyrr, sem frosinn hreinlega, og hefði ekki getað verið rólegri, a.m.k. ekki á ytra byrðinu). Ég sagði sjálfsagt frá því í greininni sem ég skrifaði um Víetnamdvöl okkar fjölskyldunnar í TMM – og allt gott fólk hefur lesið og lagt á minnið – þegar ég fældi buffalahjörðina og þegar kýrin reyndi að stanga mig út af göngustígnum og ofan í hrísgrjónaekrurnar (hrísgrjónaekrur eru á votu). Og frá horuðu villihundunum sem hunsuðu mig alltaf, hreinlega einsog ég væri ekki til, meðan þeir sleiktu viðbjóð úr göturæsinu; frá lausu varðhundunum sem trylltust þegar ég hljóp framhjá og eltu mig geltandi þar til þeim fannst ég kominn hæfilega langt frá heimili sínu. Og hér um daginn hafði ég áreiðanlega á orði að ég hefði hlaupið fram á hest sem þveraði göngustíginn – hann var að vísu bundinn og alls ekki með neina stæla. En sama dag var ég líka að hlaupa eftir auðu ómalbikuðu bílastæði og steig næstum því á hund sem lá þar sofandi – ljósbrúnleitur og samlitur þurrum jarðveginum. Hann gerði nú ekki meira en að spretta á fætur og varð mér meira bylt en honum. Korteri áður hafði laus varðhundur – tælenskur, ekki víetnamskur – einmitt elt mig geltandi um skeið (og þá var ég auðvitað að hlaupa niður blindgötu og þurfti að læðast framhjá honum aftur örskömmu síðar, undir illu auga). Við stíg einn spratt eitthvað stórt í gegnum sefið og skaust út í ána – ég held það hafi verið varanus salvator , eðla nokkur sem er ríflega metri yfirleitt og við sáum við önnur tilfelli, en ég sá það ekki vel. Við enda þess stígs kom ég svo út á hanamarkaðnum, bakdyramegin, við mikla furðu hanasölumanna sem skildu ekkert hvaðan þessi tveggja metra Íslendingur kom, kófsveittur og grettur af glímu við hitann og fæturna á sjálfum sér og dýraríkið í bænum. Nema hvað. Í gær var ég að hlaupa í Benchakitti garðinum í Bangkok. Þetta er fallegur garður umleikis stöðuvatn – myndin sem fylgdi síðustu færslu er tekin þar – og þarna er gjarnan mikið af hlaupurum í kringum ljósaskiptin. Og þá sópaðist eitthvað undan fæti mér, eitthvað mjúkt en dálítið þungt í því, dálítill súbstans, og ég leit niður og sá þar stóreflis rottu þeysast áfram nokkra metra undan (óviljandi) sparki mínu og skjótast svo inn í runnana strax og ferðinni lauk, af umtalsvert meiri snerpu en ég sýndi þarna úti á hlaupastígnum. Svona nokkuð gerist aldrei á gönguferðum, bara þegar ég hleyp, og bara í Suðaustur-Asíu. Eða við Dónárbakka.

Óreiða beint úr hlaupinu

Þessa mynd tók ég í ljósaskiptunum um daginn, þegar ég var úti að hlaupa. Á henni er enginn filter, birtan var bara svona. Það er stundum sagt að við lifum á tímum mikillar upplýsingaóreiðu en kannski erum við bara meðvitaðri um þá litlu upplýsingaóreiðu sem við við lifum við vegna þess að allar upplýsingar eru meira og minna einn smell í burtu – kannski hefur hin eiginlega upplýsingaóreiða aldrei verið minni, upplýsingarnar sem í umferð eru aldrei verið áreiðanlegri. Ég hélt því fram á dögunum að H.P. Lovecraft hefði skotið sig í hausinn eftir að hafa komist að því að mamma hans var dauðvona. Mér hefur verið bent á að þetta sé alls ekki satt. Að vísu er þetta ekki alls kostar ósatt heldur – það var bara ekki HP heldur vinur hans sem gerði þetta. Þannig hefur flökkusagan orðið til. Ég hefði betur slegið því upp um leið og ég sló upp aldri hans þegar hann dó (46 ára, úr krabbameini – en ég hef dánarorsökina að vísu bara eftir sömu heimild og hitt, að hann hafi ekki skotið sig í hausinn í kjölfar þeirra tíðinda að móðir hans hafi greinst með ólæknandi sjúkdóm og myndi brátt deyja, þ.e.a.s. frá glöggum lesanda, ég hef engu slegið upp enn). En það er óverjandi að halda þessu fram við þessar aðstæður. Ég dreg allt til baka. Lýsi orð mín dauð og ómerk. *** Við erum komin til baka til Bangkok frá Ayutthaya. Síðasta deginum eyddum við á laugarbakkanum svo nú er ég sólbrenndur – ég sem sólbrenn aldrei. Ég er að berjast í gegnum Gravity’s Rainbow eftir Thomas Pynchon og kannski er það bara þess vegna sem ég er sólbrenndur. Mér finnst það ekkert ólíklegra en hitt að ég hafi sólbrunnið vegna þess að ég var of lengi að spóka mig á sundlaugarbakkanum. En á endanum kláraðist rafhlaðan í kindlinum og þá kom í ljós að snúran hafði orðið eftir í höfuðborginni og þá neyddist ég til að fara að gera eitthvað annað. Annars væri ég miklu verr leikinn á öxlunum. Við borðuðum mikið í Ayutthaya og gerðum næstum alltaf sömu mistök: að álykta að skammtarnir væru minni en þeir svo reyndust og panta of mikinn mat. Og gera heiðarlega tilraun til þess að klára hann á þeim forsendum að noti maður ekki kjaftinn á sér fyrir ruslafötu sé maður að stuðla að matarsóun, með tilheyrandi loftslagsáhrifum og auknu hungri í heiminum. Svona erum við meðvituð og samviskusöm. Í gærkvöldi reyndum við líka að fara á „roof top bar“ en þar mætti okkur vaskur barþjónn sem sagði grafalvarlegur (eða nei, skælbrosandi) að hér væri ekkert í boði nema bjór. Fyrir aftan hann stóð fremur fáklædd ung kona með brjóstin langleiðina upp úr þröngu haldi – ég dreg af því mínar ályktanir. Í öllu falli fórum við ekki upp á þak að fá okkur bjór heldur á götukaffihús þar sem börnin gerðu þau mistök að kaupa sér „taro“ smúðing – í skiljanlegri og virðingarverðri tilraunagleði – en fannst svo báðum hann afar vondur. Ég fékk mér bjór – hefði í raun getað gert það á „roof top bar“ líka – en Nadja glataði vatnsmelónukokteilnum sínum ofan í yngra barnið, sem bar sig afar illa. Svo fórum við á veitingastað og pöntuðum okkur áreiðanlega þrjátíu ólíka rétti sem voru samt flestir djúpsteiktur kjúklingur (þótt tvö okkar fjögurra borði ekki einu sinni kjúkling) og ég hafði varla neina matarlyst aftur fyrren í kvöld. Eftir fimm daga erum við Nadja skráð í Bangkok Midnight Marathon. Við ætlum ekki að hlaupa maraþon samt, enda er það ekki í boði, og ekki heldur hálfmaraþon, þótt það sé reyndar í boði, heldur 10 kílómetra. Bangkok Midnight Marathon hefst ekki heldur á miðnætti heldur klukkan fjögur að nóttu – eiginlega stenst ekkert í heitinu nema „Bangkok“ (ætla ég rétt að vona). Ég hef aldrei áður tekið þátt í neinu svona skipulögðu hlaupi – eiginlega varla nokkurn tíma hlaupið öðruvísi en einn. Þetta verður áreiðanlega mjög gaman. Mér skilst maður fái frían bol. Úr hlaupinu förum við svo beint upp í flugvél með öllu sænska slektinu hérna og fljúgum til Koh Phayam þar sem til stendur að jóla jólin í ár.

Thailand

Við flugum frá Helsinki niður Evrópu, skutum okkur undir Rússland og fórum svo að segja milli stríða austur til Bangkok. Með Úkraínu og Rússland norðan við okkur og Sýrland og Ísrael/Palestínu sunnan við okkur. Flugið var langt og ég svaf sama og ekkert. Í fluginu frá Íslandi til Helsinki lenti ég fyrir aftan einhvern duckfaced áhrifavald sem hafði framfæturna uppi á sætinu fyrir framan sig, hallaði bakinu aftur á mig – ég bókstaflega æpti þegar ég fékk það á hnén – og sat svo og skrollaði myndum af kjólum alla leiðina. Í lengra fluginu hafði ég bókað og borgað fyrir betra sæti sem ég svo fékk ekki. Með þessum afleiðingum að ég kom svefnlaus til Bangkok. Og það fyrsta sem ég gerði þegar við komum heim til mágs míns og fjölskyldu var að skríða inn í herbergi og leggjast fyrir í klukkutíma. Síðan þá hafa orðið nokkrir leiðangrar niður í bæ. Mér finnst mjög gaman að flannera sjálfum og ekki síður að hlaupa um garðana en það er svona misvinsælt hjá öðrum í fjölskyldunni, sem eru auðvitað sumir hverjir, ef ekki hreinlega allir, með styttri lappir en ég. En ég fékk þó Aram með mér í einn fimm tíma leiðangur fyrsta heila daginn okkar. Nú erum við komin til Ayutthaya, sem var hugsanlega – segja sérfræðingar – einu sinni stærsta borg heims. Ég hef bæði séð því haldið fram að hér hafi búið þrjár milljónir og ein milljón. Ekki veit ég hvað ég á að gera með það misræmi annað en yppta öxlum. Nú búa hérna 50 þúsund manns sem flestir lifa af því að sýna musterisrústirnar. Hér er mjög mikið af musterisrústum. Það er auðvitað margt hérna sem rifjar upp veturinn sem við eyddum í Víetnam fyrir sléttum tíu árum síðan – þegar það var hægt að setja Aino á bakið og Aram á bögglaberann – en af einhverjum orsökum hefur Kúba líka margoft komið upp í hugann. Kannski sem kontrast. Ég fór auðvitað til og um Kúbu áður en það voru neinir farsímar og maður vill útskýra fyrir börnunum hvernig maður spurði fólk – sem maður deildi engu tungumáli með – hvenær það kæmi rúta eitthvert og fékk mjög óljós svör en sat svo bara í þrjá tíma og beið í trausti þess að það kæmi rúta. Hvernig maður treysti alls kyns svörtum leigubílum og öðru fólki til að segja manni satt og fara með mann þangað sem maður ætlaði. Og hvernig maður stikaði sér leið um Habana útfrá hnitakerfinu – þar sem strætin eru númeruð. Hvernig maður sat kannski á dyraþrepinu einhvers staðar klukkustundum saman og beið eftir að viðkomandi birtist – sem vissi ekki að væri von á manni, þótt maður þættist vita að maður mætti gista í nokkra daga. Og hvernig maður fór í burtu í mánuð og hafði ekkert samband við neinn heima allan þann tíma (ef frá er talið þriggja mínútna símtal til mömmu og pabba á aðfangadag – sem kostaði einsog tíu rommflöskur). Í dag sáum við talsvert af bleikum fílum. Annars er í sjálfu sér fátt að frétta.

Ef 46 væri 27

Ég nefndi einhvern tíma í sumar – sennilega í kringum afmælið mitt – að George Orwell, David Foster Wallace og Albert Camus hefðu allir átt það sameiginlegt að deyja 46 ára. Í gær rakst svo á tvo í viðbót – Charles Baudelaire og Oscar Wilde. Fjörutíuogsex er greinilega tuttuguogsjö rithöfunda. Baudelaire fékk heilablóðfall, lamaðist og dó svo – allt afleiðing ólifnaðar. Oscar Wilde lést úr heilahimnubólgu – fátækur og ofsóttur og til þess að gera nýsloppinn úr fangelsi (þar sem hann sat fyrir kynhneigð sína). Orwell dó úr berklum, Camus í bílslysi og DFW framdi sjálfsmorð –  einsog var rætt hér áður . 27 skáld er annars gott ljóð eftir Val Brynjar. Og kynslóð 27 er heiti yfir hóp höfunda á Spáni sem áttu sameiginlegt að koma fram 1927. Það styttist í 2027. Nú þyrfti ég góðan talnafræðing til að rýna í þetta allt saman fyrir mig. En 27 er ekki talan, 46 er talan. Ég er 46, söngleikurinn Grease er 46, Harry Martinson – sem er frægastur fyrir að hafa veitt sjálfum sér Nóbelsverðlaunin – dó fyrir 46 árum. Einu sinni bjó ég í heilan mánuð í Villa Martinson í Jonsered, skammt utan við Gautaborg, sem kennd er við hann, þá var ég 36 ára (17 í rithöfundaárum), og villan stendur við William Gibsons väg (sem er ekki William Gibson höfundur Neuromancer heldur William Gibson iðnjöfur í Jonsered) … nei nú er ég kominn út fyrir efnið. HP Lovecraft dó líka 46 ára. Þá eru þeir sex. Lovecraft skaut sig eftir að hafa fengið þær fréttir að móðir hans, sem var mikið veik, myndi ekki lifa af. Ég hef lítið lesið hann en þó lítinn kviðling sem hafði talsverð áhrif á mig – löngu áður en ég byrjaði að lesa ljóð var ég mjög fasíneraður af textanum á legsteini skrímslisins Eddies utan á Live After Death plötu Iron Maiden (sem er með bestu live plötum). That is not dead / Which can eternal lie / Yet* with strange aeons / Even death may die. Vinur minn átti stóran fána þar sem ég las þetta og ég fór oft með þetta. Og þetta fjallar auðvitað um dauðann og eilífðina. Að vera 46 ára. Þetta „yet“ er „and“ hjá Lovecraft – en við höfum það einsog ég lærði það. Er líf eftir 46? Það er svo stóra spurningin. Ég er allavega með eina bók sem kemur út áður en ég verð 47. Allt sem gerist eftir 1. júlí 2025 er svo bara bónus. Kannski fer ég bara aftur í rækjuna.

Lán og laun

Það er búið að úthluta listamannalaunum fyrir næsta ár og þess vegna eru allir listamenn landsins hættir að tala um stjórnarmyndun og kosningar í þessu nú vinstriflokkslausa landi. Menningarmálaráðherra – kannski sá besti sem við höfum haft – er líka farin úr embætti. Hún hlustaði á kröfur um að auka hlut nýliða – en þar með rýrðist hlutur „lengra kominna“ og að mér sýnist mest hlutur karla milli þrítugs og fertugs; Dagur, Jónas, Halldór Armand, Björn Halldórs fara allir niður í núll. Ég reikna með því að það verði nýliðaþétt á listanum sem birtist á fimmtudagsmorgun. Ég fékk 12 mánuði. Verð áfram í vinnunni minni næsta árið. Ég er ekki „þakklátur“ fyrir að hafa ekki verið rekinn og ekki svo auðmjúkur heldur að ég sé ekki löngu farinn að taka þessu sem gefnu. Mér finnst ég alveg þurfa að vinna fyrir laununum mínum en ég er – einsog ég hef nefnt áður – farinn að bera mig meira saman við fólk sem er í vinnu við aðra hluti. Konan mín er menntaskólakennari og hún þarf ekki að búa við það að fá bréf einu sinni á ári um það hvort hún fái að vinna áfram á næsta ári – hvort hún verði færð niður í hálft starf eða bara sett út af sakramentinu (einsog Elísabet Jökuls – ef það segir okkur eitthvað þá segir það okkur að enginn er óhultur). Ég reikna með að það sé hægt að reka hana en það er þá fyrir afglöp í starfi eða álíka. Hér eyddi ég einhverri einræðu um tekjur höfunda – hef sagt það sama of oft, þetta er hungurlúsabransi þegar maður er á fullum launum og fátæktargildra þegar maður er það ekki. Margir „stærstu höfunda þjóðarinnar“ lifa í þeirri gildru ár eftir ár. Og sumir sem manni finnst eiginlega að ættu bara vera á föstum tekjum – það er óþarfa skrifræði að vera að láta þá sækja um – eru teknir niður, kannski bara vegna formgalla eða veikinda eða einhvers sem ætti alls ekki að spila neina rullu. Ég nefni bara Gyrði, Elísabetu og Einar Kára – sem hafa öll lent í þessu síðustu ár. Það er sóun á hæfileikum þeirra – og mætti svo sem tína fleiri til. Fjórmenningana hér að ofan til dæmis. Til hvers var verið að eyða peningum í að leyfa þeim að skerpa list sína ef það á svo ekki að nýta það til neins annars en að leyfa þeim að finna sér eitthvað annað að gera? Það er ekki góð nýting á almannafé að ala upp höfunda til þess að þeir geti svo bara farið og fokkað sér. *** Svo er bara spurning hvaða ríkisstjórn við fáum og hvernig fari um menninguna þar? Ég hef svolitlar áhyggjur af því að Inga Sæland sé ekki mikil áhugamanneskja um menningarstyrki og að þær Kristrún og Þorgerður hafi kannski meiri áhuga á True Detective: Night Country menningarpólitík en tilraunaljóðlist.

Tómur bílskúr

Tvennt hef ég ætlað að nefna hérna. Annars vegar að Tom Waits tónleikarnir í Edinborgarhúsinu tókust vonum framar og jafnvel rúmlega það. Húsið var stappfullt, stemningin einsog í draumi og grúvið í hljómsveitinni himneskt. Hins vegar að ég gladdist mikið að sjá Birgittu Björg tilnefnda til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Moldin heit – það þótti mér verðskuldað. *** Vinur minn er að skrifa ritgerð og spurði mig á dögunum hvernig á því stæði að svo margir Íslendingar lékju tónlist, væru í kór eða spiluðu á hljóðfæri, ýmist í hljómsveit eða bara heima hjá sér. Ég hef svo sem litla innsýn inn í Ísland allt en ég hef oft velt þessu fyrir mér með Ísafjörð – því ég þykist vita að hér spili a.m.k. talsvert fleiri tónlist en þar sem ég hef búið erlendis. Ég held að tónlistarskólinn leiki þar stóra rullu og sú staðreynd að þar hefur nám jafnan verið á viðráðanlegu verði svo að tónlistarnám er ekki jafn elitískt og það er víða erlendis, í gegnum tíðina hafa flestir geta ráðið við að senda börnin sín. Þá er líka hægt að vera í tónlistarnámi án þess að það heltaki allt manns líf; ég þekki fullorðinn Svía sem spilar ekki á píanó í dag þrátt fyrir 12 ára nám vegna þess að námið var bara svo stíft, árangurs var krafist umfram spilagleði, og þótt hún geti leikið klassíkina fram og aftur gefur það henni ekkert nema upprifjun slæmra minninga. Nú held ég vissulega að maður geti komist í elitískt nám í TÍ – a.m.k. á sum hljóðfæri – en valkosturinn að vilja bara læra svolitla músík, eiga dálitla músík í lífi sínu, að njóta tónlistar sem gerandi, er held ég hornsteinn starfsins. Tónlistarstarfið í bænum er líka eiginlega jafn gamalt og bærinn sjálfur – hér hefur verið ríkulegt tónlistarstarf síðan hér fór að vera fleira fólk en bara danski kaupmaðurinn og presturinn. En auðvitað kemur líka fleira til en skólinn. Kórarnir tilheyra ekki allir skólanum og það eru hljómsveitir og það eru settir upp söngleikir bæði hjá MÍ og LL og Leiklistarhópi Halldóru. Þá er Tónlistarfélag sem heldur reglulega tónleika, Edinborg býður upp á heimsklassa djass 5-6 sinnum á ári, það er live tónlist á börum og tónlistarhátíðir – Við Djúpið og Aldrei fór ég suður. Já og svo er annar skóli þar sem er líka kennt á píanó og var lengi kennt á gítar – Listaskóli Rögnvaldar (þar með held ég að Ísafjörður hljóti raunar að eiga höfðatölumet í fjölda tónlistarskóla). Og fyrst og fremst er ríkulegt tónlistarlíf eitthvað sem verður til í symbíósu, í grósku og þetta nærist allt hvert á öðru einsog ólík stig í sama lífkerfinu. Einn strákur byrjar að læra á gítar í einhverri dellu eftir Aldrei fór ég suður, eignast hljóðfæri, hættir svo, systir hans tekur hljóðfærið upp þremur árum seinna og kennir sjálfri sér í nokkur ár, stofnar svo hljómsveit með vini sínum sem kann ekkert og skráir sig á bassa í tónlistarskóla til að ná hraðari framförum, til þeirra kemur strákur sem hefur verið að læra á píanó í 100 ár, unnið keppnir og gert það gott, og hann þekkir stelpu sem var dregin nauðug í barnakór af því foreldrar hennar eru kórafólk, og getur því sungið, hún á frænda sem getur lánað þeim magnara, til þeirra kemur strákur sem langar að vera trommari en á ekki trommusett og kann ekki að tromma en hefur aðgang að því sem mestu skiptir: bílskúr – svo finnst trommusettið í geymslu hjá einhverjum (af því það er svo mikið af fólki alls staðar sem hefur lært á hljóðfæri, verið í hljómsveit, því fylgir krítískur massi af hljóðfærum), og svo haltra þau af stað, nokkrum árum seinna spilar hljómsveitin á Aldrei og hringurinn byrjar upp á nýtt. Tónlistarskólinn fær fleiri nema, það myndast fleiri hljómsveitir, fleiri byrja í kór, fleiri taka þátt í söngleikjum, fleiri byrja að semja lög, fleiri gera tónlistina að lífi sínu, verða atvinnutónlistarmenn og tónlistarkennarar sem kenna næstu kynslóð af fólki sem fær stjörnur í augun á Aldrei. Einsog önnur lífkerfi getur þessi gróska verið viðkvæm. Bregðist einn eða fleiri hlekkir dregur hratt úr henni og á einhverjum tímapunkti snýst slagurinn ekki lengur um að viðhalda gróskunni, að rækta garðinn sinn, heldur að berjast við visnun. Þannig er t.d. leiðinlegt að Aldrei hefur verið hálf lokuð fyrir heimamönnum frá því atriðum var fækkað fyrir nokkrum árum, menntaskólinn er eiginlega alveg hættur að halda tónleika (og menntstock hefur ekki verið haldið í 20 ár) – mér sagt það sé aldrei spiluð live tónlist á grunnskólaviðburðum og þannig er eiginlega enginn vettvangur fyrir unglingahljómsveitir að spila (það var þó ein sem spilaði á markaðsdeginum í Bolungarvík í fyrra og ein mun spila við tendrun jólatrésins á Silfurtorgi á morgun). En það er alveg áreiðanlega enginn hlekkur í þessari keðju jafn mikilvægur og tónlistarskólinn, og tónlistarskólinn er í verkfalli vegna þess að kennararnir lifa við óþolandi kjör. Það hefur verið sagt að tónlistarskólaverkfall komi ekki við marga – að það hafi ekki nægan slagkraft – og það má að einu leyti til sanns vegar færa: tónlistarskólar eru ekki sams konar „geymslustaðir“ og þeir skólar þar sem nemendur eyða meiri tíma. Börn lenda ekki í langtíma reiðuleysi ef þeir loka – foreldrar lenda ekki í vandræðum með að koma börnunum fyrir, þurfa ekki að taka sér frí frá vinnu til að sinna þeim sem komast ekki í 2×30 mín gítartíma á viku. Skipulag hagkerfisins raskast ekki. En að öðru leyti getur slagkrafturinn til lengri tíma orðið mjög mikill – á meðan það er ekki kennt visnar það ríkulega tónlistarlíf sem við njótum. Við þurfum sennilega að glenna aðeins upp augun og gaumgæfa þróunina – sjá nokkra leiki fram í tímann – til að skilja margföldunaráhrifin af tónlistarnámi barna – að tónlistin sem við njótum í lífi okkar sprettur ekki upp úr engu. Dag einn stendur maður upp og áttar sig á því að tónlistin hefur hljóðnað. Symbíósan er hætt. Alltíeinu er enginn til að kenna byrjandanum á bassa, elítupíanóleikarinn er fluttur til að fá kennslu annars staðar, fyrir rest er enginn stuðningur, enginn gítar bakvið sófa, ekkert trommusett í bílskúrnum hjá frænda, engir kórar, engir tónleikar, engir söngleikir, engir magnarar, ekkert nema tómur bílskúr og leiðindin ein. Og það þarf raunar engin verkföll til. Léleg kjör valda sama skaða – á Ísafirði hefur ekki verið barnakór eða söngkennsla síðan í vor út af kennaraskorti. Barnakórinn var í sérstökum blóma, nýkominn heim af kóramóti í Danmörku – hópeflið og kærleikurinn alveg í botni. Það er ekki gefið að sá skriðþungi verði til staðar þegar og ef starf hans hefst að nýju. Og það er ekki heldur gefið að nemendur snúi allir aftur blússandi mótiveraðir úr löngu verkfalli – það verður áreiðanlega brött brekka fyrir marga að koma sér aftur í gírinn. En það er ekki nóg að „leysa verkfallið“ – þessu tiltekna verkfalli lýkur reyndar 20. desember, hvort sem semst eða ekki – heldur þarf að tryggja tónlistarkennurum (og öðrum kennurum) almennileg kjör. Ef kennarar koma út úr þessu með einhverja „meh“-lausn, allir þjakaðir og slitnir, tekur þetta sig bara upp aftur þegar búið er að safna nýjum verkfallssjóðum. Og svo aftur og aftur og aftur meðan námi í landinu hnignar og tónlistin hljóðnar.