Hér sit ég á náttslopp í kósíbuxum og sýg upp í nefið og hnerra og get ekki annað, hef ekkert um þetta að segja. Ég er búinn að éta svo mikið af verkjalyfjum að það liggur við að ég sjái ekki á skjáinn. Get ekki legið í rúminu meira. Ég á litla jólaöl í ísskápnum sem ég er að treina mér. *** Hvar á ég að byrja? Ég geri þetta sjaldnast í réttri röð. Ég fór með pabba mínum, litla bróður og syni hans á Tottenham-Burnley. Það er orðið svolítið síðan – ætli leikurinn hafi ekki verið 7. des? Þetta var allavega mjög góður leikur og við (Hotspurs) unnum 5-0. Son skoraði alveg ótrúlegt mark – fékk boltann alveg við eigin vítateig, sólaði sig upp völlinn og dúndraði boltanum í mark. Við fórum svo í skoðunarferð um nýja völlinn daginn eftir – það var líka geggjað. *** Við Aram Nói fórum svo á Skálmaldartónleika í Reykjavík. Lokatónleika þeirrar sveitar – a.m.k. „í bili“. Blóðmör og Finntroll hituðu upp. Það var fremur fátt í húsinu þegar Blóðmör spiluðu en þeir eru hörkuband og skiluðu sínu mjög vel – minntu mig skyndilega svolítið á Bootlegs. Aram Nói sagðist hafa verið of feiminn til að headbanga en var kominn í stuð þegar við sáum Finntroll – eftir kvöldverð á víetnömskum veitingastað í pásunni á milli. Og hefur lýst því yfir að Finntroll sé komin hátt á lista yfir eftirlætishljómsveitir. Ég var ekki alveg jafn hrifinn. Gimmikkið er skemmtilegt og þetta er alltílagi músík – en ekkert meira – og mér finnst þeir blikna við hliðina á Skálmöld, sem eru melódískari og þéttari. Einfaldlega sjúklega þétt – eiginlega engu lagi líkt. Ég held ég hafi heldur aldrei tekið eftir því áður hvað sándið hjá Þráni, sem spilar megnið af sólógítarnum, er ótrúlega flott. Það eru ekki margir þungarokkarar sem spila á single coil gítara – þótt það séu nokkrir – og flestir eru með meira smooth sound en það er gritt í þessu hjá Þráni. Mér fannst svolítið fyndið í lokin þegar þeir voru að kveðja – og voru púaðir fyrir að ætla í pásu – að Björgvin maldaði í móinn og sagði að þeir þyrftu að fá að knúsa konurnar sínar, leika við börnin og mæta í vinnuna og svona. Sem er beisiklí allt sem rokkdraumurinn gengur – hefðinni samkvæmt – út á að forðast. Allt smáborgaralífið – launaþrældómurinn, white-picket fangelsið o.s.frv. Ekki þar fyrir að sennilega er minna um svona Mötley-rokklíferni núorðið. Það er jafnan sagt að konur haldi uppi menningarstarfsemi á norðurhveli jarðar – kulturtanten, menningarfrænkan, sem mætir á tónleika og upplestra og kaupir bækur, er sögð halda uppi heilu menningarstofnunum. En bæði Tottenhamleikurinn og Skálmaldartónleikarnir voru karlaviðburðir – þótt það væru konur á báðum voru karlar í miklum meirihluta. En auðvitað er þetta ekki það sem margir hugsa um þegar þeir hugsa um „menningu“. *** Ég horfði á bíómyndina Willow Creek – en hún var skrifuð og henni leikstýrt af Bobcat Goldthwaite, sem er frægastur fyrir að hafa leikið í Police Academy myndunum. Dan, vinur minn, sem er kvikmyndakall, mælti með að ég horfði líka á hana fyrst ég var að horfa á Blair Witch Project. Willow Creek er einmitt einsog Bobcat hafi horft á Blair Witch Project og ákveðið að laga bara misfellurnar í henni – hún er ótrúlega lík, uppbyggingin er sú sama (nema þetta er par, ekki þrímenningar, og þau eru að leita að Stórfóti en ekki Blair-norninni). En hún er líka betri. Það er betra að hafa par í þessu – beiskjan og ástin milli þeirra verður áþreifanlegri. Þá hendir hann inn einu atriði alveg í byrjuninni þar sem þau eru að fara inn í skóginn og rekast á mann – hann er sennilega starfsmaður leynilegs maríjúanaakurs í skóginum – sem rekur þau til baka með miklum þjósti og ógn. Hann kemur ekkert aftur fyrir en bara þetta litla atriði setur alla ógnina í skóginum í annað ljós – það er alltaf séns að maríjúanabændurnir séu að hræða þau. Endirinn – sem ég ætla ekki að hafa eftir – er síðan miklu betri. Endirinn á Blair var beinlínis lélegur en þessi er æði. *** Við Aram Nói fórum líka á Star Wars: Rise of Skywalker (ég geri alls konar með dóttur minni líka, ég lofa, en akkúrat þegar við vorum á Star Wars var hún á jólatónleikum með móður sinni). Hún tikkar í öll box og er auðvitað „léleg“ – en það eru líka allar Star Wars myndirnar „lélegar“, alveg einsog Rocky Horror Picture Show er „léleg“ og ýmislegt fleira sem manni finnst svo samt frábært. Söguþráðurinn er þvæla, sem fyrr, og samtölin stirðbusaleg – leikurinn í besta falli la-la. En það eru geislasverð og sprengingar og allur sjarminn er til staðar – Lando er með, Hans Óli og Lilja eru með, Logi er með, keisarinn er með, vélmennin eru með (og eitt nýtt m.a.s.) og Rey og Kylo Ren og allir hinir nýju. Stórkostleg mynd. Fimm stjörnu sápuópera sem tekur sig ekki of alvarlega (enda væri Star Wars fyrst ónýtt þegar samræðurnar væru orðnar vel skrifaðar og söguþráðurinn kæmi manni á óvart). Barnshjartað í mér sprakk næstum. *** Kvikmyndaklúbbur unga fólksins horfði á Space Balls. Vel að merkja áður en við fórum á Star Wars. Hún endist mjög vel og við veltumst um af hlátri. Söguþráðurinn í Space Balls er auðvitað líka þvæla en samtölin eru vel skrifuð. Þessi sena er t.d. óendanlega góð. Börnin skildu samt ekki alveg þetta vídjóspóludæmi. *** Við kláruðum Watchmenseríuna. Hún var frábær. Hvað situr eftir – ég veit ekki hvort mér þótti pólitíska greiningin eitthvað ægilega merkileg. Það eru margir að tala um hana sem pólitískt meistaraverk en sem greining er hún frekar fyrirsjáanleg. Hún var í sjálfu sér alveg rétt, held ég – svona sem lýsing á þráðum sem liggja og hafa legið um bandarískt samfélag – bara ekkert æðislega groundbreaking. Aðalleikkonan, Regina King, sem ég hef ekki séð áður er ótrúlega góð. Jeremy Irons er dásamlegur. Jean Smart líka. Lúkkið og stemningin eru geðveik. *** Ég horfði á eina og hálfa seríu af You Me Her. Þegar ég er á ferðalagi, sem ég er alltof mikið, þá horfi ég á vondar sjónvarpsseríur. Því ef ég horfi á eitthvað gott stöff er einsog ég sé að ræna því af Nödju. Við þurfum að horfa á svoleiðis saman. You Me Her fjallar um par á fertugsaldri sem er komið með leið hvort á öðru og finna spennuna aftur með því að bjóða ungri háskólastúdínu að ganga í sambandið með sér. Þetta er svona pólídæmi. Fyrstu þættirnir, þegar þau eru að opna sambandið, eru alveg svolítið áhugaverðir en þetta verður fljótt að algerum leiðindum, sem maður á samt erfitt með að slökkva á. Nadja var að lýsa fyrir mér Fortnite spilinu nokkrum dögum eftir að ég kom heim – að það væri ekkert í því, það væri svona sálarlaust gímald sem ýtti bara á alla réttu hnappana í börnum, einsog pavlovskum hundum, svo þeir gætu ekki hætt. You Me Her er svolítið svipað. Þetta er ævintýri fyrir lífsleitt fólk sem fær kikk út úr fantasíunni um að ríða út fyrir hjónabandið – en líka fantasíunni um að brjóta upp formið, fastalífið, að vera „villt“ og „frjáls“ (einsog þau ímynda sér að þau hafi verið þegar þau voru ung en voru í fæstum tilvikum þannig í raun og veru). Pólídæmið er síðan ekki nema lítill hluti þessa ævintýris – sem snýst ekki síst um frekar viðstöðulaust djamm (sem virðist ekki hafa neinar afleiðingar, annað en pólídæmið sem er alltaf alveg að fara að kosta þau eitthvað – þá geta þau verið hauslaus af drykkju og mollýnotkun kvöld eftir kvöld án þess að nokkur í kringum þau hvái eða þau verði þunn í meira en korter). Útkoman er fíknivekjandi en alveg epísk leiðindi og ég gat ekki gert upp við mig hvort ég þoldi persónurnar verr en handritshöfundana eða leikarana. Tónlistin í þáttunum er líka alveg óhuggulega leiðinleg. Ég ætla aldrei að horfa á meira af þessu rusli. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á suður-kóresku kvikmyndina 기생충 eða Meindýr/Parasite. Ég vissi ekkert um hana annað en að hún þykir líkleg til að hirða erlenda óskarinn í ár. Þetta er kolsvört kómedía um fátækt fólk og ríkt fólk, um blekkingar, ofbeldi, snobb, forréttindi, lífsbaráttuna – og einhver besta bíómynd sem ég hef séð lengi. Þarna er stéttagreiningin til dæmis mjög brútal og höfundur skirrist ekki undan því í eina einustu sekúndu að horfast í augu við afleiðingar stéttaskiptingar – þar sem ein fjölskyldan lifir í fullkomnum vellystingum en hin nánast í holræsunum. En hún er samt ekki þannig að maður haldi með neinum – hún er bara brútal. Og fyndin. Og brútal. Og hrikaleg. Maður grætur, hlær og gargar. Nadja segir að ég megi ekki segja of mikið af söguþræðinum og það er ábyggilega rétt. En horfið á þessa mynd. *** The Beautiful Poetry of Donald Trump er ljóðabók sem sett er saman af Robert Sears, sem er grínhöfundur af McSweeneys-kyni. Bókin sver sig í ætt frægrar bókar eftir Hart Seely, sem tók saman búta úr ræðum og viðtölum við Donald Rumsfeld, og birti sem ljóð. Sú ljóðabók var mjög góð – Rumsfeld talaði svolítið samhengislaust stundum, lét hugann reika, og átti það til að vilja raunverulega fílósófera, einsog í frægri ræðu um „the known knowns“ og „the known unknowns“ og „the unknown unknowns“. Mér finnst þetta ekki virka á Trump – þótt stöku ljóð sé skemmtilegt. Í fyrsta lagi eru textarnir miklu meira unnir en hjá Hart Seely. Hver einasta lína hjá Sears kemur úr ólíkri ræðu eða tweeti Trumps en Seely línuskipti bara fallegum hugsunum Rumsfelds. Þá setur Sears neðanmálsgreinar – 1 og 2 og 3 – á eftir hverri línu sem einfaldlega skemmir lúkkið, skemmir „the suspended disbelief“ svo maður getur aldrei notið þess að lesa textann sem ljóð, hann verður alltaf mjög augljóslega og áberandi brandari. Í öðru lagi er Trump bara ekki dreyminn hugsuður, einsog Rumsfeld, Trump beitir tungumálinu einsog sleggju og það er ekki heiglum hent að ætla að raða saman ofsanum í honum í áhugaverðan texta – Trump er áhugaverður í sínu eigin samhengi en hann þýðist ekki yfir á hið ljóðræna svið. *** Slæmi pabbi eftir David Walliams. Aram Nói valdi og við lásum saman þrjú. Við erum búin að lesa svona 5-6 bækur eftir Walliams og þær eru allar skemmtilegar – og áhugavert að hann er mikið til skiptis í einhvers konar woke-þjónkun (siðferðislegu barnauppeldi í gegnum bókmenntir) og að brjóta á einhverjum PC-lögmálum. Þannig er t.d. mjög mikið af óþolandi kvenpersónum í bókum hans en í þessari giftast tvær þeirra í lokin (og báðar teknar í sátt áður en yfir lýkur). Bókin fjallar um Frikka sem á einstæðan pabba sem var einu sinni kappakstursbílstjóri en missti svo fótinn í slysi og hefur ekki getað keyrt – þeir feðgar sökkva í mikla fátækt (en það er undantekningalítið fátækt fólk í forgrunni í bókum Walliams). Það endar með því að pabbinn tekur þátt í bankaráni og fer í fangelsi. Og svo þarf að leysa það einhvern veginn. Þetta er fyndin bók, svolítið langdregin kannski, og veitir innsýn í líf fólks sem á ekki nóg til hnífs og skeiðar. Öðruvísi innsýn en t.d. Sitji Guðs englar en mikilvæga engu að síður. Ég held að börnin mín – og ég sjálfur stundum – fatti ekki alltaf hvað það þýðir að fá ekki alltaf allt sem maður vill og kannski ekki einu sinni það sem maður þarf. *** Escaping the Delta: Robert Johnson and the Invention of the Blues eftir Elijah Wald. Ég er búinn að vera að lesa alls konar bækur um blús síðustu misseri og þær eru margar mjög góðar. Ég er eiginlega farinn að hallast að því að fáar bækur sem ég hef lesið hafi kennt mér meira um margbreytileika sjálfsmyndar og menningarsögu en þessar. Wald gengur út frá nokkrum staðreyndum. Í fyrsta lagi að blúsinn sem svart fólk hlustaði á á sínum tíma – á gullöld delta-blússins – hafi verið allt önnur músík en síðar varð vinsæl sem deltablús. Þetta er í sjálfu sér ekki umdeilt – Leroy Carr og Josh White voru aðalkarlarnir 1928 en 1958 voru það Robert Johnson og Son House, sem voru nánast óþekktir. Carr og White eru meira slikk – nútímalegri flytjendur, poppaðri, meiri skemmtikraftar. Son House og Johnson eru meiri listamenn, hrárri, „upprunalegri“ (með gæsalöppum) o.s.frv. Og það voru fyrst og fremst hvítir karlkyns hlustendur sem upphófu þá – en helstu hlustendur og plötukaupendur Carrs og Whites voru svartar konur (mikið af fyrstu blúsurunum voru líka konur – Mamie Smith, Bessie Smith, Ida Cox, Ma Rainey o.s.frv.). Þessi blústónlist – sem er ýmist kölluð köntríblús eða deltablús – var mikið til gleymd og grafin upp úr 1958, nema hjá fáeinum áhugamönnum. Rafmagnaður blús hafði að einhverju leyti komið í staðinn – hinir ólíku stílar Muddy Waters, John Lee Hooker og BB King – og svo auðvitað bara sálartónlist, R&B og eitt og annað fleira. Og þar kemur að annarri hugmynd Walds, sem er að deltablúsmenn hafi alls ekki gert neinn æðislegan greinarmun á því hvaða tónlistarstefnu þeir voru að spila. Það sem var tekið upp – af hljómplötufyrirtækjum en líka mikið af þjóðfræðingum – hafi verið köntríblúsefnið en líklega hafi flestir þessara köntríblúsara verið að leika allt milli himins og jarðar á sínum böllum (og þeir voru allir ball-listamenn – það er ekki fyrren í Carnegie hall, mörgum áratugum seinna, sem fólk sest niður til að hlusta á þessa tónlist í góðu tómi, deltablúsinn var dansmúsík). Sú sýn sem við höfum á þessa tónlist í dag er sýn þeirra sem kallaðir eru „blues revivalists“ – ungir hvítir karlar í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum. Og sú sýn hefði aldrei náð flugi ef þetta litla blúsæði hefði ekki smitast til Englands þar sem Eric Clapton, John Mayall, Bítlarnir og Rolling Stones fengu bóluna og tóku hana aftur með sér yfir hafið. Rolling Stones drógu Howling Wolf með sér í Ed Sullivan Show þegar allir voru búnir að gleyma honum. Paul McCartney hellti sér yfir fólk í Chicago fyrir að þekkja ekki Muddy Waters – sínar eigin stórstjörnur – og þá voru þeir búnir að liggja yfir þeim í Englandi árum saman. Rolling Stones sögðust bókstaflega bara vera í hljómsveit til að benda öðru fólki á þessa tónlist – mestmegnis rafmagnsblús en rafmagnsblús sem átti uppruna sinn í deltablúsnum. Og svo tóku flestir þessara tónlistarmanna upp lög eftir deltablúsarana (Wald bendir á að í fyrstu hafi þeir allir spilað lögin einsog þeir spiluðu sín eigin lög – með greddu og rafmagni og vælandi gítörum; en þegar á leið hafi þeir farið að skilja meira á milli, taka þau meira í orginalútsetningum). Og þessi hugmynd þeirra gengur auðvitað mikið til út frá þeirra eigin fagurfræði. Þeir sóttust í hið villta og brjálaða – sóttust frekar í brjálaða spámenn einsog Son House og andsetna menn einsog Skip James en prófessjónal og fjölhæfa, menntaða og færa blúsmenn einsog Leroy Carr eða Josh White. Margir þeirra blúsmanna sem náðu nýrri – eða sinni fyrstu – fótfestu á blues revival árunum höfðu ekki leikið þessa tónlist árum og áratugum saman. Sumir höfðu bara hætt – en sumir höfðu bara verið að leika aðra, meira slikk, músík árum saman. Og yfir það var þá bara dregin hula – það passaði ekki inn í söguna. Annar punktur sem Wald kemur með er að það hafi verið miklu meiri hvítur blús á sínum tíma og það sé bara rugl að skilja fólk einsog Gene Autry eða Jimmie Rodgers utan við blússöguna – og bendir líka á að bæði léku svartir tónlistarmenn oft með hvítum og í hvítum hljómsveitum, og öfugt, og svo spiluðu þessi bönd líka músík þvert á allar kynþáttalínur. Hins vegar voru það plötufyrirtækin sem röðuðu öllu niður á bása og tóku helst ekki upp nema heil svört bönd og heil hvít bönd og lög sem voru samin af réttum kynþætti. Þetta er auðvitað mjög tötsí umræðuefni – Amiri Baraka myndi taka tryllinginn ef hann hefði lesið þetta – en Wald fer vel í það og það er mjög erfitt að taka ekki mark á málflutningi hans. Enda einmitt menningarsagan og sjálfsmyndin miklu flóknari heldur en við göngum almennt út frá núorðið – á þessum sjálfsmyndaruppteknu tímum. *** Blues Breakers with Eric Clapton er sennilega frægasta „hvíta blúsplata“ allra tíma og síðasta platan sem Eric Clapton lék á áður en hann stofnaði Cream með Jack Bruce og Ginger Baker. Hún er oft kölluð „Beanoplatan“ af því að Clapton situr með teiknimyndasögublaðið Beano á kápumyndinni. Lögin eru flest blússtandardar og öll eru þau einhvern veginn útsett til þess að leggja áherslu á hæfileika Claptons. Gítarsándið var eitthvað sem gítarleikarar sjöunda áratugarins sátu víst yfir og grufluðu í einsog þeir frekast gátu – þetta er „breska blússándið“ – og leyndardómurinn er fyrst og fremst Les Paul gítar (þessi tiltekni, Beanogítarinn, hvarf af yfirborði jarðar fyrir löngu síðan – og er líklega einn dýrmætasti gítar á jarðríki) inn í fyrsta Marshall kombómagnarann, sem hefur æ síðan ekki verið kallaður annað en Marshall Bluesbreaker, og allt stillt í botn. Síðan er búið að gera milljón pedala til að ná þessu sándi – Bluesbreaker pedalar eru álíka íkonískir og Tubescreamer pedalar og Blues Driverar (sem er ekki það sama og Blues Breaker, vel að merkja) eða í seinni tíð Klon-pedalar. *** Við hjónin kláruðum líka Silicon Valley í gær. Mikið er það nú fín sería. Skemmtilegar persónur – óþolandi án þess að vera óþolandi, breyskar án þess að bresta. Og endaði vel. Það er víst alls ekki sjálfsagt. *** Gítarleikari vikunnar er þá auðvitað Eric Clapton. Lagið er All Your Love eftir Willie Dixon af Beanoplötunni. Þarna sjáiði líka Clapton með blaðið, mjög krúttlegur.
Category: Uncategorized
id““:““bipnr““
Ég vaknaði í morgun, leit inn á internetið og fannst alltíeinu einsog ég væri lentur í ritdeilu við Spaugstofuna. Íhugaði að segja eitthvað um „fýldardaga“ og að láta teflonhúða á sig fiðrildaduftið (ég er að lesa Bláa hnöttinn fyrir Aram í þriðja eða fjórða sinn – hann veit ekki að Andri skráði mig í Framsóknarflokkinn) og svo hugsaði ég: Á ég kannski bara að snúa mér aftur að AC/DC maraþoninu? Er það ekki bara best fyrir alla? *** Highway to Hell var besta plata AC/DC þegar hún kom út. Back in Black kom næst og var besta plata AC/DC þegar hún kom út. For Those About to Rock var besta plata AC/DC alveg þangað til fyrsta lagið – titillagið – var búið. Því restin af henni er bara alls ekki nógu góð. Það er einsog pródúsentinn Mutt Lange – sem sat við stjórnborðið á þessum þremur plötum – hafi verið farinn að ganga of langt á bandið. Á Highway eru þeir enn hráir og grófir, á Back in Black eru þeir passlegir, og á Those er búið að fínísera þá of mikið – og lagasmíðarnar orðnar of trixí. Angus ofnotar dempplokkið, útsetningarnar ganga of mikið út á að láta rytmasveitina elta sönglaglínuna, og það er alltof mikið hangið í bakraddakórnum. Svo eru laglínurnar bara ekkert spes. *** Night of the Long Knives er til dæmis bara lélegt. Samt hafa strákarnir í Poison stolið einu riffi úr því og gert Unskinny Bop. Ekki að þeir hafi verið miklir smekkmenn. *** Nokkur lög eru ágæt. Inject the Venom (aðallega viðlagið), Let’s Get it Up (þar sem Brian reynir að máta sig við Bonska tvíræðni með slökum árangri), Evil Walks, Spellbound … en heilt yfir er platan svolítið einsog Huey Lewis með rafmagnsgítar. Það hefur verið svolítið rætt um skort á lífsháska í skáldskap upp á síðkastið. Og það er einmitt það sem vantar hérna – lífsháskann, allt-í-botnið, samanherpta hringvöðvann – og er auðvitað sérlega vandræðalegt í ljósi þess að það er einmitt lífsháski sem AC/DC sérhæfir sig í. *** En það er undantekning. Til að sanna regluna. Einsog ég hef áreiðanlega nefnt eru AC/DC sérfræðingar í að opna plötur, byrja þær – slá tóninn. Titillagið á For Those About to Rock er eitt af allra rosalegustu lögum sveitarinnar og gullstandard á tónleikum. Back in Black hófst á einu fallegasta og yfirgengilegasta proppsi hljómsveitarsögunnar – sérsmíðaðri 2000 punda steyptri bronsbjöllu sem hefur fylgt þeim á túr um heiminn í nærri fjóra áratugi. Og hvað gerir maður þegar maður vill toppa sig eftir svoleiðis – ef manni finnst einsog kirkjubjallan sé ekki nóg? Þá fjárfestir maður í fallbyssum. *** #ACDC
createdTimestamp““:““2024-05-23T12:22:43.037Z““
Teiknimyndin Upp er fyrsta bíómyndin í fullri lengd sem Aram Nói horfði á. Við vorum tveir saman í Helsinki að þvælast – hann hefur verið á bilinu einsog hálfs til næstum tveggja. Planið var að fara í dýragarðinn en þegar við komum loks þangað eftir mikið strætóvesen reyndist hann loka fremur snemma. Þegar við komum á staðinn var enn opið en Aram þurfti að komast á klósettið og þegar við vorum búnir að sinna þeim erindum var ekki lengur sleppt inn. Aram varð eðlilega fremur leiður yfir þessu og skildi ekki alveg hvers vegna við máttum ekki fara inn fyrst við vorum komnir og enn fólk í garðinum. Og ég skildi það ekkert mikið betur sjálfur. Til þess að bæta honum þetta upp ákvað ég að við færum í bíó. Við strætóuðum okkur aftur niður í bæ til þess eins að finna enga barnamynd í sýningum á ásættanlegum tíma. Þá fórum við aftur í íbúðina sem við vorum með í láni, drógum fyrir gluggatjöldin svo íbúðin var alveg myrkvuð, poppuðum og horfðum á ólöglega niðurhalað eintak af Upp með ensku tali. Ég átti frekar von á að hann myndi bresta þolinmæði en hann sat grafkyrr allan tímann, einsog dáleiddur. Meðal annars af þessum orsökum er myndin í uppáhaldi hjá mér. Og þetta var s.s. myndin sem kvikmyndaklúbbur fjölskyldunnar horfði á síðastliðin föstudag. Ég valdi. En þótt hún sé í uppáhaldi finnst mér hún ekki jafngóð í gegn. Fyrstu fimm-tíu mínúturnar – þegar farið er í gegnum æviskeið herra og frú Fredricksen – eru svakalegar. Ég lýg því ekki að ég græt alltaf þegar ég sé byrjun myndarinnar – og ekki endilega vegna þess að draumar þeirra rætist ekki, ekki af þannig sorg, heldur einfaldlega af því það er eitthvað ótrúlega fallegt við líf fullt af kærleika og vonbrigðum og sigrum og þetta er mjög stór skammtur og vel fram borinn. Ferðalagið með húsinu til S-Ameríku er líka skemmtilegt og samband þeirra Russells er gott. Ég næ hins vegar lítilli tengingu við ævintýrið í S-Ameríku – með talandi hundum og risafuglum og kaldlynda ævintýramanninum Charles Muntz. Myndin flýtur samt alveg út á enda á tilfinningum mínum í garð gamla mannsins og drengsins . *** Með börnunum las ég Handbók fyrir ofurhetjur IV: Vargarnir koma . Aino valdi. Við erum búin að lesa þennan bókaflokk frá því upphafi og bíðum alltaf eftir nýrri bók. Aino finnst þessi best af þeim sem komnar eru, þarnæst koma þrjú og eitt saman í öðru sæti og loks önnur. Það er mest aksjón í þessari – slagsmál og læti – og með henni er þessum hluta ævintýrisins lokið, Vargarnir og Wolfgang eru sigraðir (a.m.k. í bili). Það er mjög augljós feminísk slagsíða í bókinni og gert í því að láta aðalsöguhetjuna – Lísu – vera dómínerandi og sterka þrátt fyrir ákveðinn sjálfsefa, á meðan strákarnir eru flestir lúðalegri og/eða breyskari. Ég er ekki viss um að maður taki neitt eftir því ef maður er ekki vanur því að lesa „gamaldags“ ofurhetjubækur (ekki frekar en Aino setur neitt spurningamerki við að 80% af öllum prinsessubókunum hennar fjalli um einhvers konar pönk/uppreisnar prinsessur; það er engin andstæða við prinsessu í hennar huga eða uppgjör við neitt, hún þekkir ekki annað en það sé eðlilegt). Mér finnst fyrsta bókin best. Þegar Lísa finnur handbókina og fer að æfa ofurhetjutaktana. Þar er kynjavinkillinn ekki jafn kreistur og það er skemmtilegt touch að láta ofurhetjukrafta vera eitthvað sem hver sem er getur æft upp (ef viðkomandi kann æfingarnar og hefur trú á sér). Fjórða bókin er klassískasta ofurhetjubókin og líður svolítið fyrir að höfundarnir eru betri í dramatískri framvindu en hasartempói – það leysist alltof hratt og auðveldlega úr áhlaupi ofurhetjanna. Bókin er bara alltíeinu búin – „og svo unnu góðu og vondu töpuðu“, eða þannig. *** Ég kláraði tvær bækur í vikunni. Sú fyrri heitir Mosquito Coast og er eftir Paul Theroux – pabba heimildamyndagerðarmannsins viðkunnanlega Louis Theroux. Myndin fjallar um ameríska fjölskyldu. Elsti sonurinn, Charlie, er sögumaður en aðalsöguhetjan er í raun pabbi hans, Allie. Allir er eins konar survivalisti, uppfinningamaður og beiskur snillingur, sem hefur fengið nóg af bandarískri neyslumenningu og almennri heimsku samtímans. Hann tekur fjölskylduna með sér til Hondúras og flytur út í frumskóginn. Þar stofna þau nýlendu og hann býr til risastóra ísgerðarvél (sem býr sko til klaka, ekki rjómaís). Lífið er erfitt – ekki bara vegna þess að frumskógurinn er auðvitað svakalegur heldur ekki síst vegna þess að Allie er svo mikið dikk, sérsinna þráhyggjufullur drullusokkur sem engum hlífir (og alls ekki sjálfum sér). Dag einn rekast þau á nokkra hvíta menn með hópi af indíánum sem þau telja að stundi hvítt þrælahald. Þau koma þeim skilaboðum til mannanna að ef þeir komist yfir fjallið í nýlenduna þeirra bíði þeirra betra líf. Einhverju síðar birtast mennirnir og kemur fljótt í ljós að þeir voru alls ekki fangar indíánanna heldur lifðu á þeim sníkjulífi og hyggjast nú lifa sams konar sníkjulífi á nýlendubúunum. Allie reynir að koma þeim út með góðu en þegar það gengur ekki bíður hann þeim svefnstað í ísgerðarvélinni – sem lítur út einsog hvert annað hús – og kveikir svo á henni og læsir þá inni. Þeir reyna að skjóta sér leið út sem verður til þess að vélin springur í loft upp og áin og allt umhverfið mengast. Við þetta verður Allie ennþá geðveikari og fjölskyldan fer á hálfgerðan vergang í frumskóginum, lifir á drullu og ógeði á meðan einæði karlsins verður verra og verra. Ég læt vera að segja frá endanum. Frábær bók. Ef ég hefði lesið Sjálfstætt fólk myndi ég líkja Allie við Bjart en ég læt duga að líkja honum við Ahab. Ég hafði séð fyrir mér að ég myndi kannski læra eitthvað um Hondúras af lestri bókarinnar – þar sem ég er búsettur næstu mánuði – en svo var ekki. Í raun hefði bókin getað gerst í nánast hvaða frumskógi sem er (segi ég sem sérstakur spesíalisti í generískum frumskógum). Það var líka gaman að lesa hana og geta alltaf litið út um gluggann og upp í fjall og ímyndað sér að þarna væru þau, inn á milli trjánna – þetta er umhverfið. Þemun – úrkynjun vestræns lifnaðar og hin ógnvekjandi náttúra manns og skógar – eiga hins vegar ágætlega við hérna. Ég er meira í úrkynjuninni, auðvitað, og gætt allan sólarhringinn af byssumönnum, en hitt er allt hérna – Cerro Jilinco fjallatindurinn og frumskógurinn öðru megin við húsið en San Pedro Sula hinumegin, sem fram til 2016 var sú borg í heiminum þar sem flest morð voru framin miðað við höfðatölu (186 af 100.000). *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Bollywood-myndina Ankhon Dekhi. Hún fjallar um annars konar fjölskylduföður en Mosquito Coast, en kannski að mörgu leyti líka dómínerandi og sérsinna. Sá heitir Bauji og þegar myndin hefst er fjölskyldan í uppnámi vegna þess að dóttir hans hefur verið að hitta mann sem bróðir hans og fleiri segja að sé flagari og svikahrappur. Karlarnir í fjölskyldunni fara saman til að hrekja hann á flótta – og berja hann svolítið – en Bauji nær einhverri tengingu við hann og fullyrðir að hann sé ekki flagari heldur lamb og góðmenni. Upp úr þessu ákveður Bauji að hætta að leggja trúnað á neitt sem hann hefur ekki upplifað sjálfur – að gera eigin reynslu að eina mælikvarðanum á heiminn. Upp úr þessu segir hann upp starfi sínu á ferðaskrifstofu (af því hann getur ekkert sagt um staðina sem farið er á; hann hefur ekki komið þangað) og alls konar erfiðleikar hljótast af þessu – en hann endar líka með hóp af lærisveinum. Alls konar fjölskylduvinjettur eru sagðar – bræðrunum sinnast, einn sonurinn er að falla í stærðfræði, annar kemur sér í spilaskuldir, Bauji sver þagnareið og svo framvegis. Myndin endar svo á brúðkaupi dótturinnar og hins ætlaða flagara. Eða – það er smá meira í endann en ég læt líka vera að segja frá því, þótt ég ætli raunar alls ekkert að mæla með myndinni. Mér fannst hana skorta bæði þyngd og léttleika – einsog hún vissi ekki hvort hún vildi vera og tækist ekki að vera bæði í senn. Í stað þyngdar og léttleika komu þyngsli og losaraleiki. Frumspekipælingarnar um sannleikann og flugið og það allt saman voru líka bara á einhverju barnaskólaleveli. *** Loks las ég White eftir Bret Easton Ellis. Ég veit ekki hvort á að kalla þetta eina ritgerð eða ritgerðarsafn. Maður þarf svolítið að hafa fyrir því að minnsta kosti að tengja þetta allt saman í eitt – nema maður leyfi þemanu bara vera „hlutir sem BEE var að spökulera“. Bókin hefur farið mjög misvel ofan í marga og skildi engan undra enda er hún árás eldri manns á þá kynslóð sem ræður diskúrsinum í menningarkreðsum samtímans. Hún hefði fyrst misheppnast ef henni hefði verið vel tekið. Og raunar leggur BEE upp með að „sérálitið“ sé eina álitið sem máli skipti – og samtíminn, sem er mjög konsensusmiðaður og vill helst ekki líða mikla misklíð í samræðunni (sá sem segir ranga hluti er rangur), vilji bara geta dæmt rétt/rangt fremur en að ræða gráu svæðin (enda sé sú umræða ævinlega særandi). Reyndar má líka nefna það – og það er mikilvægur hluti af mismuninum milli gullaldar BEE og samtímans – að BEE varð frægur fyrir að skrifa bækur sem voru ofsalega brútal árásir á hans eigin kynslóð, á siðleysið og brjálæðið og sinnuleysið á níunda áratugnum. Um þetta fjalla Less Than Zero og American Psycho. Að hann haldi áfram að láta ungt fólk fara í taugarnar á sér – og sjái það sem fyrsta skrefið að nýrri og ónýtri veröld – er það sem hann hefur unnið við frá því hann var innan við tvítugt (hann er 21 þegar sú fyrri kemur út – byrjaði á henni 16 ára – og 27 ára þegar sú seinni kemur út). Hann er heldur ekki óvanur mótlæti og neikvæðri krítík – bækur hans hafa allar verið mjög umdeildar og Simon & Schuster hætti við að gefa út American Psycho á síðustu stundu, dömpaði henni bara, og bókmenntaheimurinn hafnaði henni á þeirri forsendu að hún væri full af kvenfyrirlitningu og viðbjóði (sem hún er; en hún mælir nú ekki beinlínis fyrir því samt). Það er gaman að hugsa með BEE og hann er augljóslega leiftrandi í White. Mér fannst líka lengst af mjög skrítið til þess að hugsa að fólk hefði reiðst bókinni – eða hrist höfuðið yfir henni vandlætandi eitthvað um að djísus hvað þetta væri glatað, next – af því stærstur hluti hennar er bara hálfgerðar æviminningar listamanns sem var mjög lengi í hringiðunni (og er kannski að mörgu leyti enn) og fremur vönduð menningarumfjöllun. Og hún er – einsog æviminningar hálfsextugs manns eru oft – að mörgu leyti bara nostalgísk. Hann rifjar upp horfna tíma og telur þeim margt til tekna – ver þá gagnvart sumum breytingum samtímans. Nú gæti maður sagt sem svo að þetta sé rangt, samtíminn sé augljóslega betri en níundi áratugurinn, en það væri að falla í gildruna um gott og vont. Heimurinn er fyrst og fremst breyttur – hafi meðlíðan og tillitssemi aukist er ekkert skrítið að viðkvæmni og taugaveiklun aukist líka. Breytingar eru fyrst og fremst bara breytingar og þeim fylgja ævinlega kostir og gallar – lífið er ekki saumlaus framgangur þar sem allt bara batnar. Svo er líka bara ágætt að einhver verji siðlausari tíma á siðavöndum tímum – hvort sem mann langar að slaka á siðavönduninni eða ekki. Ég tel henni til tekna að vera ekki of formföst, of aristótetelísk og ljóðræn – að hún sé svolítið sundurlaus, svolítið pönk, svolítið hingað og þangað. Bandarískar bókmenntir – sérstaklega ritgerðirnar en líka skáldsögurnar – eru oft alltof lokaðar og kláraðar einingar, svona MFA-gullinsnið eitthvað. Mér finnst það alveg hryllilega leiðinlegt og ófrjótt, svona einsog að hlusta á ofpródúseraða músík (sem ríður reyndar líka röftum). Ég er ekki viss um að Bret Easton Ellis hafi nokkurn tíma talið sig sérstaklega þaggaðan eða kúgaðan – það er a.m.k. ekki að sjá á bókinni, þótt honum verði tíðrætt um andrúmsloft þöggunar. Þar á hann við stemningu sem ég held að margir þekki – að það hafi aldrei verið mikilvægara að gæta þess að segja ekki einhverja vitleysu því það geti kostað mann mjög mikið (og það jafnt þótt maður biðjist afsökunar eða hafi þegar beðist afsökunar fyrir löngu), og þar rekur hann ótal dæmi og flest þeirra af valdamiklu fólki (einsog leikstjóra Guardians of the Galaxy). Í restina af bókinni er samt einsog hann sé búinn að pólarísera sig út í horn og sjálfur farinn að sjá allt í svart-hvítu. Óþol hans fyrir PC-fólkinu nær algerlega yfirhöndinni – þegar hann fer að skammast í hverjum hollywoodleikaranum á fætur öðrum fyrir að skammast yfir Trump (einsog það sé rangt eða glatað að skammast yfir forsetum og pólitík) og nær einhvers konar hámarki þegar hann hnýtir í klámmyndaleikkonuna Stormy Daniels fyrir að hafa selt söguna af því þegar hún reið Trump. Þá finnst manni hann vera farinn að væla jafn mikið og fólkið sem hann gagnrýnir – bara röfla og væla, ekki trolla, ekki vekja upp umræðu, bara svona mje-mje-mje. Það breytir svo litlu um að lýsingar hans á níunda og tíunda áratugnum eru áhugaverðar og stór hluti af gagnrýni hans á samtímann virkar bara frekar trúverðug. Og þrátt fyrir alla sína galla – og kannski meira að segja aðallega vegna þeirra – er þetta bók sem ástæða er til að setjast niður og lesa og leyfa sér að hugsa með (og gegn). *** Gítarleikari vikunnar er Bonnie Raitt.
id““:““6jctc““
Highway to Hell, Back in Black og For Those About to Rock eru allt mjög grand plötur með stóru sándi og miklu flugeldum. Eða réttara sagt miklum fallbyssuskotum og þungbærum bjölluhljómi. Þetta eru þær þrjár plötur sem Mutt Lange pródúseraði og eftir þær þrjár voru AC/DC komnir með nóg. Þá langaði ekki að dútla sér í stúdíói mánuðum saman. Þá langaði að gera eitthvað beisik. Og pródúseruðu Flick of the Switch því sjálfir. Þegar ég var í menntaskóla keypti Teddi vinur minn sér Camaro Trans Am (leiðrétt). Ísfirskir unglingar áttu (margir, ekki allir) alltaf fáránlega mikla peninga – það var næg vinna, við bjuggum hjá foreldrum okkar, og Teddi var alltof reglusamur til að drekka þá alla einsog við hinir (ég átti bara Mitsubishi Colt). CamaroTransAminn drakk samt dálítið mikið af peningunum hans. Nema hvað – þegar maður fór á rúntinn með Tedda þurfti maður alltaf að sitja kyrr í bílnum í svona tíu mínútur eftir að hann startaði honum og áður en maður keyrði af stað. Annars drap hann bara á sér. Þetta var rosalegt tryllitæki og það var alveg svolítið kikk að sitja bara í honum, finna allan þennan kraft streyma í gegnum sig og keyra svo varlega af stað þegar bíllinn var tilbúinn. Þetta lag er svolítið einsog að fara á rúntinn með Tedda sumarið 1997. No bullshit, en samt einhvern veginn svo mikið bullshit. Og ég meina það mjög vel. Sumarið 1995 fór ég á Mitsubishi Coltinum mínum upp á Breiðadalsheiði (þessa sem er yfir Vestfjarðagöngunum). Þar var malarvegur og frekar skuggalegur á köflum en efst á þessum hæsta fjallvegi landsins var líka langur beinn spotti. Þar keyrðum við Skarpi vinur minn einu sinni – eða ég keyrði, ég get ekki kennt neinum um nema sjálfum mér – og ég kreisti dolluna upp í 140 kílómetra hraða áður en ég missti stjórn á bílnum á mölinni, svo hann flaut bara stjórnlaust áfram út í eilífðina. Ég vissi betur en að nauðhemla og bað bara bænirnar upp á að við færum ekki út af. Sem við gerðum ekki (ég átti eftir að fara út af á þessari heiði síðar sama sumar, en það var bara á 40). Landslide er doldið einsog að fara á rúntinn yfir Breiðadalsheiðina með Skarpa. Veturinn 2004 gaf ég út fyrstu skáldsöguna mína og keypti mér bíl fyrir fyrirframgreiðsluna. Vegna þess að ég er ekki Camilla Läckberg var fyrirframgreiðslan mín bara rétt svo temmileg og dugði fyrir 1989 módeli af Nissan Pulsar, sem gerði mér þann greiða reglulega að bila, aðallega þegar ég keyrði í gegnum Hólmavík – sem ég gerði ansi oft. Ég endaði sennilega á að gefa öllum bifvélavirkjum í Hólmavík eintak af Hugsjónadruslunni fyrir aðstoðina – sem var alla jafna mjög lipur og ódýr. En einu sinni komst ég í gegnum Hólmavík og upp á Steingrímsfjarðarheiðina – sem gegnir hlutverki erkióvinar í lífi mínu í dag, en ég hafði enn ekki lent neitt sérstaklega illa í henni þá. Ég slapp líka yfir hana þrautalaust í þetta sinn, þótt það væri snjóþungt. Í Ísafjarðardjúpi var hins vegar flughált – það var hnausþykkt skautasvell yfir öllu og svo snögghlýnaði og fór að rigna. Ég keyrði allt djúpið í fyrsta gír – fór sennilega aldrei hraðar en 20 km á klukkustund. Á einum tímapunkti ætlaði ég að fara út að pissa en áttaði mig á því að ég gat ekki stöðvað bílinn – ef ég stöðvaði hann þá rann hann bara í burtu, hvort sem var á jafnsléttu eða annars staðar. Og þá ekkert að gera nema bara að halda honum á yfirvegaðri siglingu og vona að maður kæmist þetta á þolinmæðinni. Það skall svo á vetrarnótt – þetta var í desember og ég var að koma úr því að túra landið sem upphitunaratriði fyrir Ödda Mugison – og tunglið lýsti upp djúpið og það var enga aðra bíla að sjá. Deep in the Hole er svolítið svona, einsog að rúnta einn um djúpið á 20 km hraða undir tunglinu og nóttinni. Einu sinni húkkaði ég mér far á þýskri bensínstöð. Eða – ég húkkaði mér alls ekkert far. Ég steig út úr bílfari – það var mjög fínn Benz og bílstjórinn var að koma frá Amsterdam, útúrkókaður og hafði æpt á mig yfir brjálæðislega hátt stillta Lenny Kravitz rokkið sitt að það væri alveg frábært dóp í Amsterdam aftur og aftur í tvo-þrjá tíma. Þegar hann setti mig úr á þessari bensínstöð, sem ég man ekkert hvar var – nálægt Hamborg allavega – stoppaði mig Marokkómaður sem sat á gangstéttinni með kaffibolla og sagðist ánægður með gítarinn minn, kassagítarinn Héðinn, eða nánar tiltekið límmiða á honum sem á stóð „Alle Menschen sind Ausländer – fast überall“ (allt fólk er útlendingar, næstum alls staðar) og spurði hvort ég (og kærastan mín) værum að leita að fari. Ég jánkaði því og hann sagðist mjög þreyttur – hefði keyrt í meira en sólarhring – og spurði hvort við værum nokkuð með bílpróf. Sem við vorum með (kærastan meira að segja með meirapróf). Hann sagðist ætla að keyra aðeins lengra en svo væri gott ef við gætum tekið við stýrinu. Hann var ekkert að grínast með að hann væri þreyttur – hann dottaði við stýrið á Mazdadruslunni sinni á fimm mínútna fresti, hrökk við á 150 km hraða og sló sig utan undir, teygði sig í kaffibollann, og alltaf spurðum við hvort við ættum ekki að taka við, þetta væri ekki nógu gott, hann gæti hvílt sig. Hann sagði jájá, jájá, skiptum á næstu bensínstöð – og brunaði svo framhjá henni (kannski sofandi). Eftir nokkrar klukkustundir af þessu ákvað hann einfaldlega að stoppa og sofa í bílnum, enda komið kvöld, og við kærastan fórum inn í eitthvað rjóður til að sofa sjálf. Badlands er svolítið einsog að keyra eftir Autobahn með syfjuðum Marokkómanni – furðu spennandi – og Brainshake er einsog að keyra eftir Autobahn með útúrkókuðum Þjóðverja. #ACDC
id““:““9o5du““
Aftur að því sem máli skiptir. Breiðskífan Highway to Hell kom út þann 27. júlí árið 1979. Í millitíðinni höfðu drengirnir sent frá sér live-plötuna If you want blood you’ve got it . *** Einsog ég hef nefnt eru nokkrir mælikvarðar til þess að mæla AC/DC lög. Gæði er einn, og gildur flokkur, en eitt af því sem kveikir í mér – og er oft í samfloti við gæði, en alls ekki alltaf – er einfaldlega hversu mikið AC/DC er þetta AC/DC lag? Þú veist, á skalanum frá 1-10. Þetta er sérstaklega relevant spurning vegna þess að tónlist AC/DC snýst um einhvers konar kjörnun, frekar en framþróun eða feril – þótt slíkt sé auðvitað óhjákvæmilegt líka. En þetta eru ekki Bítlarnir. Það er ekki verið að finna upp hjólið – það er verið að fullkomna það. *** *** Highway to Hell, titillagið og fyrsta lag plötunnar, er fyrsta lagið á ferli sveitarinnar til að ná 10 á AC/DC skalanum – AC/DC-aðasta lagið á ferlinum til þess og nógu AC/DC-að til að það verður ekki toppað, þetta er í besta falli hægt að jafna (og á eftir að gerast oft). Hrein tía – ekki besta tían (sennilega er það Hells Bells), ég er ekki einu sinni viss um að þetta sé besta lagið á plötunni – en ótrúleg kjörnun. Engu lagi líkt. Það vissi enginn að þetta væri einu sinni hægt. *** Besta lagið á plötunni er samt Touch too Much. En það er ekki nema nía á AC/DC skalanum. Það er sennilega hátt í tíuprósent ABBA í þessu – sjáið þetta bara fyrir ykkur, heyrið það fyrir ykkur, í þröngum latexgöllum, Björn á bassa, Benny á keytar og Agnetha og Anni-Frid á háu c-unum. *** *** Á Highway to Hell finna þeir líka sándið sitt – eða fínpússa það eða hvernig maður vill orða það. Þeir halda því ekki hreinu í gegn en það er þarna. Og kemur að vísu ekki til af góðu. Þeim hafði ekki lánast að slá í gegn í Bandaríkjunum – eða fá þar útgefna plötu – og voru þvingaðir til að skipta um pródusent. Það var ekki síst sársaukafullt vegna þess að annar í dúettnum sem hafði pródúserað þá fram til þessa var stóri bróðirinn – George Young – og hinn, Harry Vanda, var auðvitað orðinn náinn þeim líka, nánast einsog hver annar bróðir. *** Við tökkunum tók Eddie nokkur Kramer sem ætlaði að fá þá til að gefa út einhvers konar koverlagaplötu – eða í það minnsta láta singlana vera koverlög. Honum þótti alls ekkert til lagasmíða bræðranna koma. Og var í kjölfarið hrakinn á flótta með munnsöfnuði sem verður ekki endurtekinn hér. Næstur kom Robert „Mutt“ Lange til sögunnar – og hvað sem manni finnst um árin á undan og árin á eftir – þá eru næstu þrjú árin undir hans stjórn algerlega fúndamental í sögu hljómsveitarinnar. Þar er borað að innsta kjarna rokkgrýtisins og allur krafturinn virkjaður. *** Ég ætla ekki að hafa þetta of langt í dag. En það væri fáránlegt að setja ekki inn Night Prowler. Fjöldamorðinginn Richard Ramirez hélt mikið upp á þetta lag og var einlægur aðdáandi sveitarinnar. Hann kallaði sig sjálfur Night Stalker. Það vakti auðvitað mikið umtal á sínum tíma – verstu pótintátarnir kenndu AC/DC bara um allt saman. It’s the devil’s music o.s.frv. Og það orðspor átti eftir að elta þá næstu árin. Lagið fjallar samt bara um eitthvað næturhangs – og að heimsækja kærustuna sína í foreldrahúsum að næturlagi. *** #ACDC
createdTimestamp““:““2024-06-06T09:02:48.601Z““
Þetta mjatlar áfram. Skúli frændi (mennski) leit við í gær og ég ætlaði að monta mig af gítarnum en hann sagði að hann vildi nú ekki vera leiðinlegur, en að hann liti miklu betur út á myndum. Sem er auðvitað alveg satt. Það er eitt og annað sem sést illa á myndum. Til dæmis er sveigjan á búknum niðri við innputið ekki alveg rúnnuð. Svo eru smotterís skemmdir hér og þar – í kringum brúarstoðirnar og hér og þar við bindinguna. Sumt dylst nú þegar ég er farinn að bæsa en annað verður eiginlega meira áberandi. Bæsið sest illa þar sem hefur sullast mikið af lími, til dæmis. Allt sem ég geri í höndum er pínu off – ég er auðvitað gersamlega hæfileikalaus smiður, annálaður klaufi og hef ekkert að vinna með nema þolinmæðina. Gunnar vinur minn, sem er myndlistarmenntaður, segir hins vegar að þetta sé allt mjög impónerandi og ég eigi ekkert að vera að láta Skúla skyggja á grobbið í mér. Ég hef auðvitað enn mestar áhyggjur af því að hann eigi ekki eftir að sánda – hitt er aukaatriði. Ég er hins vegar, eftir 17 ár í bókaútgáfu, orðinn alveg ófær um að leggja mat á eigin verk. Ég tek bara mark á öllum öðrum – í þeirri röð sem þeir koma. En hvað gerði ég svo í vikunni? Ég fræsti fyrir pikköppunum. Svo æðafyllti ég mahóníið og pússaði það niður. Mér tókst að skemma bindinguna með því að pússa mig í gegnum hana á einum stað – versta stað eiginlega, ofaná búknum vinstra megin, þar sem það blasir við að eilífu. Ég fjarlægði það sem var eftir af henni og festi svo nýja – bræddi hana saman við gömlu með asetóni en það mun alltaf sjást svolítið. Önnur samskeytin hurfu næstum alveg en lituðust svo upp þegar ég bæsaði hann. Og það birtist óvænt líka lína hinumegin. Þetta er áður en ég bæsaði. Ég gleymdi að taka mynd af hinu og hann er úti í bílskúr að þorna (ég var að olíubera hann). En þið sjáið staðinn þar sem ég er búinn að bera brædda bindingu í sárið. Það er brún lína þarna undir sem kom aftur og betur í ljós þegar ég pússaði þetta niður. Ég veit ekki hvernig er best að díla við þetta. Nadja stakk upp á að ég myndi bara lita hana en ég veit ekkert hvaða lit er best að nota – hvað festist á svona – og er eiginlega bara pínu lost. Svo pússaði ég hann og gerði hann fínan. Ég gerði spýtu með vírlykkju á endanum sem ég gat fest í hálsvasann. Svo teipaði ég bindinguna og vasana, stakk plastpoka í f-gatið og eldhúspappír í holurnar fyrir brúarstoðirnar. Fyrst bæsaði ég hann svartan, leyfði því að þorna og pússaði það niður. Þetta er til þess að æðarnar komi betur í ljós. Þarna sést líka hvar hefur sullast lím – t.d. á milli pikköppvasanna, við brúarstólpana, norðan af pottavösunum og einn blettur þarna neðst vinstra megin. Eitthvað af þessu minnkaði svo þegar ég fór að nudda bæsinu betur í. Gunna fannst þetta eitthvað rorschachlegt svo ég pússaði aðeins niður og bæsaði bara létt yfir það. Liturinn er eitthvað í áttina að búrgundí – rauður með smá, smá bláu. Næst á dagskrá var að skrapa bæsið af bindingunni. Það var auðvitað kolómögulegt að hylja þunna kantinn svo hann var allur orðinn rauður. Þetta var talsvert þolinmæðisverk – en Nadja var í strandagöngunni og krakkarnir hjá vinum sínum svo ég sat bara og skrapaði með rakvélarblaði meiripart sunnudags. Svo raðaði ég öllu saman til að sjá hvernig þetta myndi lúkka. Mig vantar enn skrúfurnar í klórplötuna og krómaða ramma utan um pikköppana (er ég alveg hættur að segja hljóðdósir?). Ég ákvað líka að nota rhythm/treble hringinn af Gibsoninum mínum – sem hefur aldrei verið á honum, vel að merkja, fylgdi bara með. Þetta skítlúkkar allavega á mynd. Það liggur við að mig langi að bæsa blátt inn í f-gatið. Í morgun kom svo tung-olían frá Byko. Ég er búinn að bera á hann eitt lag og mun skjótast út í bílskúr annað veifið yfir daginn til að setja fleiri. Svo þarf ég bara að pússa hann og bóna hann og festa allt við hann. Næsta áskorun er að tengja vírana alla rétt. Ég kann víst enn minna um rafmagn en ég kann í smíðum. *** Ég ætlaði að útnefna Nitu Strauss og Angel Vivaldi sem gítarleikara vikunnar. Þau eru ofsalegar gítarhetjur af shreddaraskólanum – hún hefur spilað með The Iron Maidens og Alice Cooper, og er gestur í einu lagi hjá honum. Hann er ekki skyldur Vivaldi, hinum eina og sanna, en hún er hins vegar skyld öllum frægu Straussunum og mér skilst að allir aðrir í fjölskyldunni séu klassískir tónlistarmenn. Lagið hans Vivaldis er bara svo æðislega leiðinlegt að ég hætti við. Í staðinn er það Angus Young – sem er einn af mínum allra uppáhalds. Í síðustu viku las ég Blues People eftir ljóðskáldið LeRoi Jones – síðar Amiri Baraka – þar sem hann ítrekar að afskipti hvíta mannsins af blústónlistinni hafi alltaf snúist um að beisla hana, siða hana til, laga hana að evrópskum tónstigum, og það eigi við alveg frá því farið var að taka upp blúsinn, eigi ekki bara við um hvíta blúsleikara heldur allan bransann – og ekki síst manninn á upptökutækjunum. Nú snýst blúsinn auðvitað um alls konar míkróteygðar þríundir og sjöundir – auk blúsnótunnar frægu, lækkuðu fimmundinni – og er betri eftir því sem hljóðfærið er færara um að svíkja evrópska tónstiga. Blús á píanó er sjaldan góður – nema hann sé verulega djassaður og þá er hann að verða eitthvað annað, jú og auðvitað þegar hann er sunginn af einhverjum sem getur unnið gegn hinum hreinu tónum, einsog Ninu Simone. Blús á slædgítar – sem ber ekki virðingu fyrir neinu, helst frekar illa stilltur bara og jafnvel „lélegur“, surgandi – er yfirleitt frábær. Ég verð að viðurkenna að Angus kom oft upp í hugann sem möguleg undantekning frá reglunni um hinn siðaða hvíta mann – meira að segja góðu hvítu blúsararnir, Clapton, Stevie Ray, Page, eru allir frekar evrópskir, frekar klassískir og kontróleraðir. En spilamennska Angusar liggur í einhverju öðru – og hún snýst ekki heldur um réttu riffin eða sófistikeruð múv, einsog mikið af Chicago-blúsnum, heldur einhverja snertingu, einhverja tilfinningu, einhverja leit út úr því sem hljóðfærið á að vera fært um. Og á sér kannski enga hliðstæðu á uppteknum tímum nema hjá Jimi Hendrix.
createdTimestamp““:““2024-05-13T05:35:38.433Z““
Ég er þreyttur og gamall í kvöld. Illt í bakinu og lúinn í liðunum og verkjar í lungun og vorkenni sjálfum mér mjög mikið. Nadja og Aram eru í Finnlandi og við Aino hittum þau í Svíþjóð á fimmtudag. Ég er að þrífa og skúra og taka til, sem væri sennilega ekkert mál ef ég væri ekki svona lúinn. Sennilega er ég bara með nokkrar kommur. *** Ég hlustaði á Life eftir Keith Richards og einhvern leynihöfund. Aðallega þegar ég var að mála í síðustu viku en líka aðeins með skúringunum. Þetta var mikið líf hjá honum, og er enn og verður sennilega um ófyrirsjáanlega framtíð. Ég hugsaði ýmislegt á meðan ég hlustaði á þessi herlegheit en megnið af því er fyrir bí – hefur bara gleymst. Bókin er 25 tímar í lestri. Mesta furða að hann muni svona mikið. Það eru þrír upplesarar sem skipta með sér bókinni – Joe nokkur Hurley les megnið, en Johnny Depp les fyrstu tímana og góðan slurk í seinnihluta bókar. Keith les svo sjálfur sirka síðasta klukkutímann. Hann er auðvitað með svolítið mikilmennskubrjálæði. Og gefur að skilja. Það hlýtur að vera erfitt að miklast ekki af því að vera Keith Richards. Hann gerir reyndar mjög mikið úr því hvað Mick Jagger hafi orðið merkilegur með sig í gegnum tíðina. Sem er fyndið, því það er ekki beinlínis einsog Keith sé eitthvað að drepast úr hógværð sjálfur. Hann gerir mjög mikið úr opnu stillingunni sem hann spilar í. Að stilla í „Keef“ er að spila opinn G og losa sig við efsta strenginn. Fimm strengir – G D G B D. Hann talar um þetta einsog þetta hafi í senn verið ægileg uppgötvun og enginn hafi vitað þetta – hann hafi verið að sýna frægum blúsurum þessa stillingu baksviðs og þeir bara gapað. En á sama tíma viðurkennir hann að þessi stilling var ekki bara mikið notuð í blús nokkurn veginn frá sköpun blússins heldur er þetta auk þess standard stilling t.d. á fimm strengja banjóum. Opnar stillingar eru gríðarlega algengar í allri alþýðutónlist. Þannig nær hann að búa þetta sem bæði fullkomna nýjung og algerlega upprunalegt – sem er auðvitað það sem er kallað að vera „orginal“. Bæði nýtt og gamalt í senn. Kannski er flest í bókinni þessu merkt – reykur og speglar, galdrabrögð til að láta hið nýja virðast gamalt og hið gamla nýtt í senn. Og ætli það sé ekki bara ágætis lýsing á tónlist Rolling Stones líka? *** Ég las Tímaþjófinn eftir Steinunni Sigurðardóttur. Ég á að vísu eftirmálann eftir. Það er mikið snilldarbragð að vera ekkert að drífa sig að lesa bækur sem eiga að heita skyldulesning. Ég er allavega mjög sáttur við að eiga góðan slatta af slíkum eftir. Einn daginn mun ég jafnvel lesa Sjálfstætt fólk! Tímaþjófurinn er stórkostleg bók – meistaraverk – og ég er stærri fyrir að hafa loksins lesið hana en mér lá ekkert á að stækka; lífið er langt. Alda er auðvitað fullkomlega óþolandi – það eru fá orð um hana hafandi, sé maður heiðarlegur, sem myndu ekki hljóma einsog stækasta kvenhatur. Herramaður lætur ekki slíkan munnsöfnuð eftir sér. En á sama tíma er hún auðvitað líka dásamleg og maður tengist henni djúpum böndum, elskar hana og vorkennir henni. Bókin er síðan drifin áfram af þessum feiknalega persónuleika sem birtist manni í því ágenga, skemmtilega og ljóðræna tungumáli sem Steinunn ljáir henni – það er listin. Það gladdi mig líka hvað hugmynd bókarinnar er í senn einföld og hvað er kafað djúpt í hana. Það eru engin sniðugheit í þessari hugmynd og ekkert plott, ekkert sem kemur á óvart þar – en hugsanir Öldu og þráhyggjur hennar og rómantík og sjálfselska hennar og sárin hennar riða þennan heim saman og rífa hann í sundur; sem og sýn hennar á heiminn í kringum sig, sem er stundum kosmópólítan víðsýni og stundum alger borgaraleg þröngsýni og bæði drifið áfram af sömu vélinni. Forréttindablindu og frekju – sem er líka frelsi hennar og styrkur og staðfesta. Bæði hugmyndaveruleiki bókarinnar og stíllinn – sem veður hingað og þangað í dagbókarbrotum, frásögnum, þönkum, ljóðum – er eins langt frá þessu ameríska MFA-módeli hinnar aristótelísku formfestu og sniðugheita einsog hugsast getur. Tímaþjófurinn er lífrænt listaverk sem vex af eigin veruleika, vex af sjálfu sér, evrópsk bók – einsog Steinunn er auðvitað evrópskur höfundur. *** Aram er í Finnlandi og því lesum við Aino ein. Við bíðum með fjórðu ofurhetjubókina þar til við hittum Aram aftur en höfum verið að lesa styttri myndasögur alla vikuna. Þar bar hæst Ótrúlega sögu um risastóra peru eftir Jakob Martin Strid. Ég hef haldið mikið upp á Strid frá því ég las teiknimyndasögurnar hans fyrir fullorðna sem unglingur – ætli það hafi verið í Politiken? Ég las ekki margar þeirra en nóg til að nafnið festist í höfðinu á mér. Þær voru mjög dónalegar – mig rámar í eina af manni sem pissaði bara á fasista þegar hann var ósammála þeim. Það fannst mér mjög fyndið. Svo kynntist ég honum aftur sem barnabókahöfundi fljótlega eftir að Aram fæddist. Það eru engar kvenkyns persónur í Perubókinni. Í bíómyndinni – sem er annars að öllu leyti verri en bókin – er Mitsó kvenkyns og frá því við sáum hana hef ég bara leyft mér að hafa hana kvenkyns. Mitsó er þess utan langhressasti karakterinn í bókinni. Plottið er klassísk barnabókaendaleysa – bara skemmtilegri en þær flestar – sem ég veit ekki hvort ég nenni að rekja á bloggi sem er eiginlega hvort eð er mest fyrir sjálfan mig. Stóra breytingin milli myndar og bókar er að í bókinni eru öll vandamál leyst með góðsemi og greiðum. Mitsó og Bastían gefa sjóræningjunum vatnsmelónur í skiptum fyrir íslensku rafhlöðurnar sem þau þurfa í humáttavitann; og fá einfaldlega steininn af dularfullu eyjunni í gjöf frá Ódysseifi Karlssyni, að best má skilja í skiptum fyrir góðan félagsskap. Í myndinni er þetta allt leyst með átökum og undirferli – hlutum er stolið og allt gerist í einhverju aksjón – allir eru andstæðingar og enginn gerir neitt fyrir neinn. Og merkilegt nokk er sagan leiðinlegri þannig. *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Frozen. Aino valdi þessa vikuna. Við feðgin keyptum okkur stóra pizzu með skinku og ananas og átum yfir hinu mikla meistaraverki Disney-fyrirtækisins. Aino var mjög glöð að geta valið hana nú þegar Aram er ekki á svæðinu. Reglur kvikmyndaklúbbsins eru þannig að það má beita neitunarvaldi ef maður vill ekki sjá einhverjar myndir. Aram hefur séð Frozen um það bil þúsund sinnum, hélt mikið upp á hana þegar hann var yngri og honum er alveg vorkunn að vilja ekki sjá hana núna. Aino sér hana þess utan alltaf annað veifið hjá vinum sínum. Það er margt fallegt við Frozen. Við höfum lesið nokkrar sögur í stórri Disneybók frá því mæðginin héldu út og þær eru nú margar fremur hallærislegar (verst er samt Froskaprinsinn, held ég, að nokkur skuli vilja eiga þann skúnk mun ég aldrei skilja) – og þar kemur Frozen vel út í samanburði. Það er til dæmis gott tvist á mátt hinnar nýfundnu rómantísku ástar að láta hana a) reynast villuljós af því prinsinn er drullusokkur og b) hina sönnu ást vera systraástina. Hér mætti spegla Frozen í Tímaþjófi Steinunnar – þar finnst manni einmitt ást systranna Öldu og Ölmu vera miklu raunverulegri en þrá yngri systurinnar eftir einhverjum vitleysiskalli sem ekkert vill nema eigin framgang. Í Frozen áttar Anna sig reyndar í tæka tíð og kýlir sinn drullusokk fram af brú. Anna er líka miklu „heilsteyptari“ manneskja en aumingjans Alda. (Sem maður ætti samt ekki að vorkenna, hún er óttalegur drullusokkur líka – en svona er þetta, maður ræður ekkert hvar samúð manns lendir). Auðvitað er Frozen óttaleg sykurleðja samt. Tónlistin og útlitið og meira að segja húmorinn. Sagan víkur rétt nóg af „beinu“ brautinni til að gleðja mann – og hefði sennilega aldrei notið þeirra vinsælda sem hún gerir ef hún hefði farið lengra af brautinni. Verst finnst mér samt hvað Anna fellur í skuggann af systur sinni – þessi saga fjallar eiginlega ekki neitt um Elsu en samt fær hún að vera aðal. En hún neglir börn í hjartastað – a.m.k. bæði mín, á ákveðnum aldri, og til þess er víst leikurinn gerður. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins – sem þessa vikuna var skipaður mér einum – horfði á Blue is the Warmest Color/ La Vie d’Adèle – Chapitres 1 & 2 eftir Abdellatif Kechiche. Þetta er frönsk mynd um unga stúlku sem verður ástfangin af annarri aðeins eldri stúlku, þær byrja saman, elska hver aðra mjög mikið og búa saman í nokkur ár, sú yngri heldur að sú eldri sé að halda framhjá sér, fer sjálf að halda við strák, það kemst upp, þær hætta saman og sú eldri byrjar með þessari sem sú yngri hélt að hún væri að halda framhjá með en hin verður mjög, mjög, mjög óhamingjusöm í mjög, mjög langan tíma. Ekki jafn langan og Alda í Tímaþjófinum – en allavega mörg ár og sér raunar ekkert fyrir endann á eftirsjá hennar og þunglyndi þegar myndinni lýkur. En auðvitað fjallar myndin ekkert um það. Eða þannig. Ég man að einn ónefndur vinur minn var alveg ónýtur eftir að hafa séð hana – eða allavega mikið eftir sig, þetta væri bara gegndarlaust lesbíuklám. Í vikunni sá ég líka einhverjar lýsingar á nýjustu mynd Kechiche , sem var frumsýnd á Cannes. Leikararnir gengu víst út af henni, einsog allir aðrir, og það voru bara viðstöðulausar myndir af rössum og tuttugu mínútna munnmakasena inni á klósetti. Hún er sögð versta mynd í sögu Cannes (en þess sem ég sá vann Gullpálmann). Aðrar myndir hans eru víst svolítið í sama dúr. Maður sér vel í La Vie d’Adèle að slíkur höfundur er til staðar en hún er miklu minna gróf en ég átti von á og hlutgervingar kannski að mörgu leyti óhóflegar en það er bara alls ekki óviðeigandi (og þar með eru þær auðvitað hóflegar). Persónur ræða kvenlíkamann í listum, hina kvenlegu þrá; þær setja það í samhengi við Sartre, Egon Schiele, Gustav Klimt – Emma (sú eldri, Adèle er sú yngri) er málari sem málar konur og líkama. Þær heimsækja safn með klassískum styttum sem myndavélin hlutgerir einsog aðra líkama – sem var áhugavert, augun á mér festust alveg við spékoppana. Þetta var einn maður með tvo rassspékoppa þétt saman beint ofan við rasskinnarnar og svo kona með tvo spékoppa aðeins hærra en talvert lengra í sundur. En einsog manneskjan er bæði líkami og sál án þess að í því séu fólgnar nokkrar óleysanlegar (eða óviðlifanlegar) mótsagnir þá dregur hlutgerving myndavélaraugans á þeim ástkonum alls ekkert úr samlíðan okkar með þeim. Hún bara er, einsog þær eru, og eitt undirbyggir hitt – fólk elskar og elskast og þráir og missir og klúðrar og eyðileggur fyrir sjálfu sér og grefur sér þráhyggjugrafir, og það gerist allt meðal annars vegna þess að við erum (ofan í allt annað) líkamar, erum hlutir. Það getur vel verið að þetta sé klámmynd – og það má áreiðanlega analýsera hana í ræmur eftir pólitískum vanköntum – en hún er ekki minna listaverk fyrir það. *** Það sagði nú eiginlega sjálft hver yrði gítarleikari vikunnar.
createdTimestamp““:““2024-05-13T22:48:17.453Z““
id““:““5sb44″“
Auk þess að vera á þremur samfélagsmiðlum og skrifa blogg held ég fýsíska dagbók. Svo er ég auðvitað með nokkrar bækur í smíðum á hverjum gefnum tíma – svo ég geti gripið í þá sem ég er best stemmdur fyrir. Stundum líður mér í þessum skrifofsa öllum saman einsog manni sem hrapar til jarðar og baðar út öngunum í von um að fljúga. Baðar út öngunum á sex-sjö vígstöðvum samtímis. Með því á ég ekki við að mér finnist ég ekki kunna að skrifa – mér finnst ég satt að segja kunna fátt annað – en það er ekki víst það geri mikið gagn þegar maður er í frjálsu falli. En stundum flýgur maður samt. Og ekki hef ég skollið á jörðinni enn. En það var ekki það sem ég ætlaði að segja. Yfirleitt skrifa ég mjög stutt í fýsísku dagbókina – á löngu tímabili voru þetta bara hraðritaðir listar yfir það sem ég ætlaði að gera, óskiljanlegar glósur og alls kyns hrat, innkaupalistar, þyngdartölur, hlaupnir kílómetrar, hvað var í matinn o.s.frv. Eitthvað til að markera tímann og tilvist mína. Á enn lengri tímabilum hef ég enga dagbók haldið. Fyrir fáeinum vikum síðan tók ég mig taki og ákvað að sýna dagbókinni meiri virðingu. Að skrifa til dæmis þannig að ég skilji það sjálfur viku síðar. Rithöndin mín getur orðið alveg hrikaleg og þegar ég hraðrita fyrir sjálfan mig skrifa ég alltaf „færri og færri orð“ – því hver hefur nokkuð við persónufornöfn að gera? Hvað þá sérnöfn? Setning þarf ekki bæði sagnir og nafnorð – það er bara bruðl. Ef eitthvað er óþolandi og maður þarf að létta á sér er best að henda bara í eitt vel valið „andskotinn“ – ef maður man ekki hvað það var sem kallaði fram viðbrögðin var það sennilega ekkert merkilegt hvort eð var. En nú skrifa ég sem sagt eitthvað aðeins meðvitaðra og jafnvel úthugsaðra í þessa bók. Það er ekki endilega að þetta sé efni sem „eigi ekki erindi“ við neinn annan – þótt það komi fyrir – og sömuleiðis er dagbókin ekki full af efni sem „gæti misboðið“ einhverjum, þótt það komi líka fyrir og manni sé hollt að eiga stað fyrir þær hugsanir sínar sem eru óþægilegar. Ef maður kemur þeim hugsunum hvergi fyrir er hætt við að það komi drep í þær og fyrr en varir situr maður uppi með þær einsog rotnandi lík í stofunni. Ég nenni nú samt sjaldnast að röfla við sjálfan mig þannig. Ég er ekki alltaf glaður í dagbókina mína en ég er sjaldan beiskur. Mest eru þetta einhverjir heimspekilegir þankar – stundum eitthvað sem mér finnst of sjálfsagt eða banalt til að segja við aðra, stundum eitthvað sem ég veit ekki alveg hvert er að fara með en þarf að orða. En nú á laugardaginn lýsti ég deginum áður. Þetta var mjög góður dagur. Við Nadja fórum til Stokkhólms og gistum í svítu á Hotel Gamla Stan í boði foreldra minna, sem gáfu okkur þetta í jólagjöf. Við fórum líka út að borða á asískan veitingastað sem heitir MoonCake (og fær okkar bestu meðmæli) og eyddum morðfé. Spjölluðum meira að segja við fólkið á næsta borði – einsog það væri hreint enginn faraldur. Þegar máltíðinni lauk var allt lokað – í Svíþjóð lokar allt 20.30 – og Nadja vildi fara í göngutúr en mig langaði að fara að horfa á sjónvarpið. Ég veit ekki hvers vegna ég beit þetta í mig. Við eigum sjónvarp en það er ekki tengt línulegri dagskrá – bara notað í tölvuleiki og Netflix – og mig langaði svo að horfa á línulegt föstudagssjónvarp. Svo var mér líka mál á klósettið svo við frestuðum göngutúrnum fram á morgun og fórum upp á hótel (þar sem okkar beið líka kampavínsflaska). Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom inn var að finna fjarstýringuna – hlut sem þrátt fyrir miklar hótellegur síðustu ár ég snerti afar sjaldan – og kveikja á sjónvarpinu. Það var stillt á einhverja útlenska sjónvarpsstöð svo ég smellti bara þar til ríkissjónvarpið birtist – man ekki hvort það var rás 1 eða 2. Við okkur blasti spjallþáttur – tveir karlmenn á skjánum, annar bakvið „spyrilsborð“ og hinn í sófa. Veckans Ord med Kristian Luuk . Þáttarstjórnandinn spyr gest sinn, sem ku „sérfræðingur“, hver sé skítugasti hluturinn í hverju hótelherbergi. „Það er ekki spurning“, svarar gesturinn. „Það er sjónvarpsfjarstýringin. Hún er viðbjóðsleg gerlagildra. Ég myndi heldur drekka úr klósettskálinni en snerta fjarstýringuna.“ Orð vikunnar var „hótel“ og þátturinn var mjög skemmtilegur. Þar kom meðal annars fram að elsta hótel í heimi var standsett árið 705 í Japan og hefur verið í rekstri sömu fjölskyldunnar í 52 kynslóðir. Þetta skrifaði ég í dagbókina mína og væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að næstu klukkustundirnar greip mig kunnugleg tilfinning sem ég skildi samt ekki alveg. Mig langaði að kíkja í dagbókina, líta aftur á þessa sögu. Fyrst hélt ég að ég hefði gleymt að skrifa eitthvað eða gert einhver mistök sem ég áttaði mig ekki alveg á. En svo rann það upp fyrir mér. Mér fannst þessi saga um fjarstýringuna svo sniðug sjálfum að ég var að athuga hvort ég hefði ekki fengið einhver læk. En það var alveg sama hvað ég kíkti oft – ég fékk engin læk. Ekki einu sinni komment. *** Plata vikunnar er I Ain’t No Bad Gal með Memphis Minnie, sem er án nokkurs vafa frægust þeirra blúskvenna sem léku á gítar á fyrri hluta 20. aldar – nær allar stórstjörnur blússins af kvenkyni voru fyrst og fremst söngkonur, en Minnie var líka frumkvöðull í gítarleik. Á þessari plötu er hún á tindinum – þroskaður listamaður, ennþá grittý, en með alla færnina og þokkann og öryggið. Minnie fæddist árið 1894* og hét þá Lizzie Douglas – var kölluð „Kid“ af fjölskyldunni. Hún var reyndar alls ekki frá Memphis en flutti þangað þegar hún flúði að heiman 13 ára gömul, tveimur árum eftir að hún eignaðist sinn fyrsta gítar. Þar lék hún á götunum og á einhverju tímabili – vonandi aðeins síðar – hafði hún aukatekjur af vændi. Fyrsti eiginmaður hennar var Casey Bill Weldon úr Memphis Jug Band og þótt hann komi lítið við sögu í ferli hennar annars er talið að hann hafi verið hennar helsti kennari á fyrri hluta þrítugsaldurs – þegar Minnie var að verða Minnie. Nafnið fékk hún eftir að hún tók saman við Kansas Joe McCoy – einsog ég las söguna einhvers staðar var það plötuútgefandi sem fannst það hljóma vel saman, Kansas Joe og Memphis Minnie. Joe söng mörg af lögunum sem þau léku saman en hún sá um flóknari hluta undirspilsins. Þau slógu í gegn með Bumble Bee árið 1929, þegar Minnie var 33 ára, og áttu marga slagara á næstu 6 árum áður en þau skildu 1935. Að því er segir á plötuumslagi þessu – í ágætri ritgerð Petes Welding – átti Kansas Joe erfitt með að þola hversu miklu meiri vinsælda og virðingar Minnie naut. Sama ár kynntist hún öðrum Joe – Ernest „Little Son Joe“ Lawler – sem varð þriðji eiginmaður hennar og skráður höfundur allra laganna á I Ain’t No Bad Gal (það er þó talið nokkuð víst að hún hafi samið megnið af þessu sjálf). Platan er tekin upp í maí og desember 1941 – Minnie er fíníseraðri en hún var áður, upptökurnar eru betri, en hún er ekki orðin alveg jafn „borgarleg“ og hún varð seinna. Það er enn í þessu passlega mikill sveitabragur. Í seinni upptökunni leikur Minnie á rafmagnsgítar – að ég held í fyrsta skipti á upptöku. Platan er fyrst gefin út 1988 en ríflega helmingur laganna hafði komið út í einhverri mynd áður. Allra frægast þar á meðal er Me and My Chauffeur Blues. Won’t you be my chauffeur
Won’t you be my chauffeur
I wants him to drive me
I wants him to drive me downtown
Yes he drives so easy, I can’t turn him down
But I don’t want him
But I don’t want him
To be ridin’ these girls
To be ridin’ these girls around
So I’m gonna steal me a pistol, shoot my chauffeur down Þetta er af kassagítarhliðinni – en það er hin hliðin sem ég held meira upp á. Þar leikur Lawler enn á kassagítar en Minnie er með rafmagnsgítarinn og tekur þátt í að leggja grunninn að Chicago-blúsnum. Hún plokkar og hendir í sólólínur en Lawler tekur bassalínur og strömmar. Svo tekur hún ofsalega fínt sóló – og hrópar og æpir á meðan „Play it! Play it for me, boy!“ og er væntanlega að tala við Joe í undirspilinu (eða gítarinn sinn?) Hann á allavega ekki þetta sóló – en hann á sólóið í næsta lagi á plötunni, titillaginu, sem er reyndar líka mjög gott (en allt öðruvísi). *** * Mikið af þessum ártölum orka tvímælis – fer eftir því hvaða heimild maður treystir. Ég leyfi mér að fara bara eftir upplýsingunum á plötuumslaginu þar sem þær eru til staðar. Wikipedia segir t.d. að þau Lawlers hafi ekki byrjað saman fyrren 1938. Ég á líka einhvers staðar hérna ævisögu hennar í bókarformi en hún er bara hálflesin af því hún var svo leiðinleg – og um svo margt annað en hana, endalausar upptalningar á fólki. Minnir mig. Ég kannski lít á hana aftur – það er alveg hugsanlegt að ég hafi bara verið þreyttur og gramur þegar ég las hana.
createdTimestamp““:““2024-05-23T02:46:56.526Z““
Ég hef lítið lesið síðustu daga – eða lesið hægt, bók um sögu blússins sem ég er hvergi nærri búinn með – en mikið horft og ekkert dokumenterað. Það eru margir póstar sem þarf að segja frá og ég ætti að gæta mín á að segja ekki of mikið um hvern og einn. Svo er reyndar líka merkilegt hvað þetta er fljótt að hverfa úr minninu. *** De kommer att drunkna i sina mödrars tårar eftir Johannes Anyuru. Hún fjallar um konu úr hliðarveruleika sem rankar við sér í miðri hryðjuverkaaðgerð. Í veruleikanum sem hún á heima í átti þessi aðgerð sér líka stað, þótt hún tæki ekki þátt í henni, og varð til þess að fasistar tóku völdin og múslimar urðu kúgaður og pyntaður minnihlutahópur með svipuðum aðferðum og í helförinni og/eða abu ghraib. Konan lifir aðgerðina af og endar á hæli og rithöfundur – Johannes Anyuru sjálfur? – fer reglulega og ræðir við hana um hennar sýn á lífið. Þetta er í senn sci-fi og harðkjarna raunsæi – sósíal-realísk bók sem samt einblínir á sálarlífið. Mjög góð og meðmælist innilega. Eini gallinn, fyrir mig, var einhver asnalegur kjánahrollur yfir vissum elementum í hliðarveruleikanum. Hann var því betri sem hann var realískari en eitthvað hallærislegur þegar farið var að tala um „sensogram“ (sem er Facebook með bara texta) og annað álíka dót í hliðarveruleikanum. Fullkominn óþarfi – passar ágætlega í annars konar bækur en reif mann alltaf upp úr þessari, svona einsog maður væri annað veifið staddur í einhverju Andrésblaði. *** Kláraði lokaseríuna í Orange is the new black kvöldið áður en við áttum að fara frá Hondúras (við lentum í afar dýrum vandræðum og lögðum ekki af stað heim fyrren degi seinna en við ætluðum). Eftirminnilegasta senan fyrir mig verður alltaf sú þegar Blanca ákveður að elta manninn sinn, sem hefur verið vísað úr landi, og flýgur til San Pedro Sula: Hvað ertu að gera hér, í morðhöfuðborg heimsins, þegar þú gætir verið hvar sem er annars staðar? spyr Diablo. Fyrir ástina, svarar Blanca. Ég átti hins vegar völ á því að taka ástina með mér frá San Pedro Sula og er mjög þakklátur fyrir það. Lokaserían var langdregin og það gerðist ekkert nýtt eða áhugavert í henni. Það var talsvert verið að strjúka súper-aðdáendunum og væmnast yfir því að þetta væri búið – sem var ábyggilega gott fyrir þá sem voru djúpt sokknir en minna fyrir okkur hin sem vorum farin að missa áhugann. Mér finnst líka bara almennt fleiri og fleiri svona seríur lenda í vandræðum með söguþráðinn – þetta er allt byggt í kringum einhverra narratífuhúkka og þegar þeim sleppir áttar maður sig á því að persónurnar eru, í allri sinni djúpu baksögu, voðalega keimlíkar – eða a.m.k. einsog þær hafi allar orðið til í sama think-tankinu sem mannað var fólki með mjög keimlíkan og þröngan bakgrunn (kannski ólíkan húðlit og kynhneigð en útskrifað úr sömu skólunum, með sömu gráðurnar) hafandi lesið sömu bækurnar). Áhugaverðast í lokaseríunni var útúrdúrinn – fangabúðir hælisleitenda og flóttamanna – en virkaði eiginlega bara fyrir þá karaktera sem við vorum búin að kynnast. Egypska kynfæralimlesta lesbían sem þaut inn í líf okkar og hvarf svo aftur markaði lítil spor í tilfinningalíf mitt – eða svona, bara einsog lítil frétt í blaði hefði gert. Mjög sorglegt en ég náði ekki að kynnast henni að ráði og kannski sérstaklega ekki vegna þess að höfundar reyndu að tvíhenda henni ofan í kokið á mér. Annars fínt. Ég er að kvarta meira en þetta átti skilið. *** Good Place – 3. sería. Eftirlífskómedía sem er skemmtileg meðan ég horfi á hana – kannski bara af því allir eru svo myndarlegir – en ég man ekki alveg um hvað þetta var. Fallegt fólk held ég, sem er dautt. Ted Danson alltaf flottur. *** Kvikmyndin US virkaði ágætlega. Fín hrollvekja. Svolítið einsog það væri búið fullmikið búið að túlka merkingu hennar ofan í áhorfendur – táknsagan aðeins of augljós, ég hefði viljað vinna meira af vinnunni sjálfur og að merkingin væri svolítið óljósari. Merking myndlíkingarinnar er annars sirka: Byltingin er að koma og ríkt forréttindafólk verður skorið milli eyrnanna og heimurinn ferst og sennilega er byltingarfólkið skítugt og ljótt og vont og hættulegt (einsog raunar líka í Tímakistunni, sem við börnin erum að lesa – bæði verk sem virðast hálfvegis með byltingunni í liði en sjá hana líka sem stjórnlaust eyðileggingarafl). Þetta birtist okkur sem zombísaga með því tvisti að zombíarnir eru doppelgangerar. Ég hélt hún væri meira artí. Var í þannig stellingum. Annað hvort meira Guillermo del Toro eða Romero – en þetta var meira bara svona Single White Female. Gæti algerlega orðið einhvers konar klassík en pródúksjónin er samt mjög meinstrím og hefði mátt vera vogaðri. *** Gítarnörd elska John Mayer. Þetta hefur mér skilist á poddköstum og youtubemyndböndum. Hann er með besta sándið, tæknilega flottastur, spilar og syngur af ofsalegri tilfinningu. Svo er hann líka mjög sætur. Ég hef nokkrum sinnum reynt að gefa þessu séns en aldrei fattað neitt. Þegar Josh Scott (pedalahönnuður; JHS) nefndi svo á youtubinu sínu að Continuum með John Mayer, frá 2006, hefði breytt gítarheiminum ákvað ég að gefa þessu séns. Þetta er í sjálfu sér fínasta popp. En sennilega ekkert fyrir mig. Það virðist ekki mega gefa út tónlist nema ofpródúsera hana svolítið hressilega. Og þótt gítarleikurinn sé að sönnu góður fer bara frekar lítið fyrir honum – nema kannski í Bold as Love koverinu. Það sem mér finnst skemmtilegt í gítarleik – það sem kveikir í mér – er stjórnleysið og hávaðinn. Þegar skepnunni er hleypt á skeið og reiðmaðurinn gerir sitt besta til að halda aftur af henni – missa ekki sjónar á bítinu og reyna svona sirkabát, en ekki alveg, að halda sig innan hins melódíska slóða. Þetta gera Charley Patton og Son House, þetta gera Hendrix og Stevie Ray, þetta gera Django og Wes – meira að segja Steve Vai og Eddie Van Halen gera þetta. John Mayer reynir aldrei á þolmörk þessa nornakústar, hvorki í lagasmíðum né spilamennsku, heldur er hann svolítið einsog … hérna … sko. Þegar ég var barn og unglingur lék ég oft tölvuleiki. Einhvern tíma uppgötvaði ég síðan svokölluð cheat. Ef maður hélt niðri fimm ólíkum tökkum í 10 sekúndur og ýtti svo á tvo aðra fékk maður endalaus líf og varð ódrepandi og gat vaðið í gegnum öll borðin. John Mayer er svolítið svoleiðis. Rífur í sig tölvuleikinn einsog alger meistari – án þess að vera meistari, án þess að taka nokkra áhættu. Þetta er einsog leiðinlegustu hliðar Claptons, nema leiðinlegra. Wonderful Tonight á fínna kókaíni. *** Ég horfði á Antman. Hún var held ég fín. Mest til að drepa tímann í flugvél. Minnir að mér hafi þótt hún ágæt. *** Ég horfði líka á Captain Marvel. Ég man að mér fannst hún betri en Antman. En um hvað var hún aftur? Einmitt já, hún hélt hún væri geimvera en var mannvera (spoiler alert, sorrí). Ætli mér hafi ekki þótt leikkonan góð líka, ég held það. Söguþræðirnir í þessum myndum renna svolítið saman fyrir mér. En ég fíla þær samt. Það þarf ekki allt að vera eftirminnilegt og það er ekki eini mælikvarðinn á gæði. *** Sideways. Gamall klassíker. Líka í flugvél. Ekki nógu woke, held ég, sennilega myndi því fólki finnast hún fullmikið normalísera eitthvað toxískt. Hún fjallar um tvo misheppnaða náunga. Annar á bágt með að leyfa fólki að elska sig af því hann hatar sig sjálfur svo mikið og hinn á bágt með að elska aðra, sennilega af því hann er of sjálfselskur. Þeir fara í ferðalag um vínekrur Kaliforníu til að velja vín í brúðkaup þess sjálfselska – sem hefur einnig hugsað sér að ríða mjög mikið á þessum lokametrum fyrir hnappheldu, og koma hinum vonlausa vini sínum upp á kvenmann. Bæði tekst í sjálfu sér en hefur alls konar neikvæðar afleiðingar. Þegar myndin var gerð hafði enginn vit á víni. Að hafa vit á víni – eða bjór eða ólífum eða súrdeigsbrauði eða öllu hinu – var eitthvað sem oflátungar höfðu. Það þótti mjög fyndið að heyra þessi merkikerti rífast um merlot. Þetta hefur breyst mjög mikið. Nú hafa allir skoðun á merlot – eða, flestir eru komnir í náttúruvín, held ég. Eru þau líka merlot? Ég er svo mikill oflátungar að ég er yfir þetta hafin – grobba mig beinlínis af því að kaupa bara vínflöskur út frá verðinu (ég er svona 2.500-3.000 króna flösku maður í ríkinu – fer hærra í fríhöfninni og geymi þær flöskur fyrir sérstök tilefni). Í alvöru er þetta samt bara af því ég hef ekki tíma til að vita allt og það eru of mörg vín í ríkinu. *** Once upon a time in Hollywood. Nú er hætt við að ég verði ofsalega margorður en ég ætla að standast það. Þetta er besta mynd Quentins Tarantino frá Pulp Fiction – eða í það minnsta Kill Bill – og hugsanlega sú sem höfðaði mest til mín. Ég er orðinn rosalega þreyttur á sögum sem draga mig áfram á plottpunktum og vendingum – þessu netflix-heilkenni, keppninni um athygli okkar, þetta horfðu á mig horfðu á mig horfðu á mig – og var eiginlega bara mjög þakklátur fyrir að fá svona sögu þar eru engir eiginlegir plottpunktar fyrren í lokin. Fyrstu tveir og hálfi tíminn eru bara einsog ljóð úr kvikmyndaminnum og fegurðarblæti – svo kemur ofsalegt þriggja mínútna kaþarsis. Knús og kómedí í lokin. Ég lenti í stuttri rimmu um myndina á Facebook – við Gunnar Smára. Hann tók woke-afstöðuna og las í þetta kvenhatur, barnaskap og hægrimennsku – kvað meira að segja upp Reagan og sagði myndina andsnúna hippum. Gekk meira að segja svo langt að segjast ekki vita „hvers kyns fólk Manson og hans lið var“ – það væri kannski bara búið að demónísera þau svona. Smári er yfirleitt mjög læs á stórsöguna, þótt hann eigi til að missa sjónar á díteilum og mikilvægum undantekningum, en eitthvað held ég hann hafi misst úr nokkra kafla í menningarsögunni þegar hann er farinn að lesa Reaganisma út úr höfundarverki Quentin Tarantino og einfalda hippa úr Manson og kompaní. Nema bara veröldin sé öll komin á hvolf. Annars er það vel að merkja alveg satt að það er ýmislegt misfagurt í myndinni og sjónarhornið og karakterarnir eru ekki endilega neitt æðislega réttlát – þetta er mynd um misheppnað en fallegt fólk og sjónarhornið er á tíma sem voru misheppnaðir en fallegir. Einsog allt fólk og allir tímar eru misheppnuð og falleg strax og maður stígur upp úr eigin skinhelgi og sér það í perspektífi. Þetta lærði ég af hippanum Allen Ginsberg (raunar mætti segja að Howl/Ýlfur Ginsbergs sé svipað byggt og af álíka fetisjisma fyrir eigin sögu – Ýlfur fjallar líka um gallað og ljótt fólk sem er fallegt og heilagt). Það má reyndar lesa eitthvað í söguna um samtímann – ég segi það alls ekki – og það er ekki allt einhver dýrðarsöngur um (móralska) vinstrimenn. Ég held það sé ekki tilviljun að woke-drottningin Lena Dunham er látin tilheyra Mansongenginu. Og það er ekki tilviljun að þau halda ræður um skemmtanabransann – sem hafi gert þau að morðingjum, spillt þeim. Móralska krafan sem hangir yfir Hollywood – sem er ásamt tölvuleikjahönnuðum og tónlistarmönnum kennt um að búa til siðleysingja, morðingja, sjálfsmorðingja, aumingja, úrhrök og svo framvegis – er þrúgandi og Tarantino hefur ábyggilega fengið kaþarsis út úr því að slátra henni bara svona metaforískt. Og það má alveg halda því til haga að þangað til á allra síðustu árum kom þessi siðsemiskrafa ekki síst frá hægri – og a.m.k. ekki vestræna vinstrinu – og náði þá hápunkti sínum hjá áðurnefndum Reagan og hans ágætu frú, Nancy. Jú og Tipper Gore líka – ef við viljum kalla hana „vinstri“ þá er vinstrið ekki alveg saklaust af þessu heldur. *** Continuum gengur hér í bakgrunninum. Þetta er nú soldið næs þótt þetta sé gelt. Svo það sé sagt. Ég er náttúrulega á rétta aldrinum fyrir adult contemporary (sem ég hafði annars dellu fyrir þegar ég rétt skriðinn yfir tvítugt). Hann mætti nú samt syngja af aðeins minni tilfinningu stundum, hann John. Það er ekki hægt að ná neinum toppum ef maður byrjar alltaf í botni. En hann getur líklega ekkert gert að því að vera svona rosalega tilfinningasamur maðurinn. *** Ég fór á Bossa Nova tónleika í Edinborg. Það var líka eins gott – missti af Salóme Katrínu á Tjöruhúsinu og mun missa af austurrísku sveitinni Fräulein Hona á Húsinu á laugardag (erum að fara í Flatey með gjafakort til að fagna 12 ára brúðkaupsafmæli). Ef ég hefði misst af öllum þremur hefði ég orðið mjög leiður. Ife Tolentino og Óskar Guðjónsson léku aðallega lög eftir – eða í útsetningu – Joao Gilberto. Þetta var bæði skemmtilegt og fróðlegt. Bossa Nova er í grunninn samba-taktar spilaðir á klassískan gítar – endurframleiðsla á nístandi toppum ásláttarhljóðfæra á hljóðfæri sem hefur enga toppa, er náttúrulega kompressað, ljúft og tamið. Hitinn og þunginn hvíldi á Ife á gítarnum allan tímann – hann söng líka, í þessum sérstaka söngstíl sem á uppruna sinn í einhverju héraði í Brasilíu sem ég man ekki hvað heitir, og var tekinn upp í Bossa Nova (sem þýðir bara „nýbylgja“, vel að merkja). Óskar leikur sér að þessu – að vísu var hann stundum aðeins of mikið á sjálfstýringu, en það er helvíti mikið á spunasólóista lagt að halda 100% einbeitingu allan tímann. Meira að segja Hendrix datt öðru hverju úr zóninu. Ég tala nú ekki um þegar menn eru hangandi í bíl allan daginn milli gigga og spila á hverju kvöldi. Hann átti líka geggjaða spretti og var auðvitað Óskar Guðjónsson alla tónleikana, og það leika ekki margir eftir, og ég er ekki að segja að þetta hafi ekki verið frábært! *** Ég hlustaði á podcast-viðtal við Vanessu Place, ljóðskáld sem skrifaði bók sem er í grunninn ekkert annað en sægur af nauðgunarbröndurum aðallega frá sjónarhóli gerenda. Einsog þið getið kannski ímyndað ykkur tók samtíminn bókinni ekki alveg fagnandi og hún var auðvitað afboðuð og fær sjaldan boð um upplestra eða annað í bókmenntakreðsunum í Bandaríkjunum. Hún var að vísu alltaf umdeild og var a.m.k. búið að hálfafboða hana fyrir að tísta allri Gone with the Wind, orðrétt, á twitter. Það þótti mjög ljót endurvinnsla á rasískri bók en vakti aðallega athygli og úlfúð sem hálfgerð framhaldsathygli og framhaldsúlfúð í óveðrinu þegar Kenneth Goldsmith – postuli „uncreative writing“ og fundinna texta – las upp krufningarskýrslu Michael Browns á uppákomu í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum. Þá var Vanessa afboðuð eiginlega bara af því fólkið var hvort eð er með kvíslarnar á lofti og hún þvældist fyrir þeim á leiðinni heim. Rape Jokes hefur verið í Amazonkörfunni minni um nokkra hríð en ég hef ekki keypt hana enn – en hef heyrt Vanessu lesa næstum alla bókina á netinu. Þetta er fyndið og alls ekki fyndið og hrikalegt og allt í senn. Merkingarlítið sem stakir brandarar en nær einhverjum skriðþunga svona hver á fætur öðrum í deadpan flutningi innanum fólk sem veit ekkert hvernig það á að bregðast við. Annars er hún líka umdeild fyrir fræðistörf sín. Hún er lögfræðingur og raunar lögmaður – ver verstu skítseyðin, fólk sem er sakað um nær ólýsanlega ljóta glæpi – og hefur skrifað bók þeim og sér til varnar. Þá bók hef ég lesið og man kannski helst eftir því sem hún skrifaði um DNA-rannsóknir í glæpamálum og oftrú okkar á þá annars ágætu tækni. Jú og almennt um takmarkanir laganna og hvað við eigum erfitt með að sætta okkur við að lögin skuli ekki leysa öll vandamál, að réttlætið sé hreinlega ekki alltaf í boði. Mér var reyndar bent á hvað þetta viðtal væri hræðilega pródúserað. Þetta er símaviðtal á einhverju heimapoddkasti og gaurinn sem tekur það er með meira agenda en Vanessa, sem er kúl. Annars er svo mikið af ljóðapoddköstunum sem ég hef hlustað á svo brjálæðislega lo-fi – bara eitthvað fólk með iphone á milli sín í klukkutíma – að ég tek ekki eftir svona lengur. *** Við Aino lásum Hvernig á að passa afa eftir Jean Reagan. Hún fjallar um strák sem passar afa sinn meðan foreldrar hans fara út. Er eins konar leiðarvísir. Textinn er skrítinn, ég átta mig ekki á því hvort bókin er illa þýdd eða bara illa skrifuð, en þetta er ruglingslegt. Aino finnst hún samt skemmtileg. Verksmiðjulegar teikningar. Við lásum líka Það er tígrisdýr í garðinum eftir Lizzy Stewart. Hún er nú ekki illa þýdd! Enda amma Ainoar Magneu og hálfnafna, Herdís Magnea, sem þýddi og hún kastar sko ekki til hendinni. Bókin fjallar um stelpu sem leiðist heima hjá ömmu sinni (sem er held ég undarlegur og ókunnur veruleiki fyrir Aino og ömmu hennar) og er send út í garð á þeirri forsendu að þar sé tígrisdýr, ísbjörn og ýmislegt fleira ævintýralegt. Stelpan er vantrúuð á þetta en fer samt og auðvitað stendur þetta allt heima. Mjög skemmtileg bók og fallegar teikningar. *** Það er kannski ekki beinlínis menningarviðburður en ég gekk í fangið á einu uppáhalds ljóðskáldinu mínu á dögunum, hinum suður-kóreska Ko Un. Það var eiginlega alveg fáránlegt. Ko Un var einn allra líklegasti kandídatinn til þess að fá nóbelsverðlaun þar til hann lenti í einhverjum áreitniskandal sem ég kann ekki mikið um – en held hafi verið mínímal – og svo þegar akademían lenti sjálf í epískum áreitnisskandal – fremur maxímal – þá dó sú von held ég alveg. Ko Un er samt alltaf og verður eitt allra besta skáld samtímans – ég held að enginn tali jafn sterkt til mín. Og svo bara birtist hann hérna – einsog hver annar Alexander Skarsgård (sem Andri Snær dró mig einu sinni út í bjór með á Tjöruhúsinu). Ég var lasinn heima og fékk skilaboð frá kunningja mínum á Flateyri, Eyþóri Jóvinssyni, sem sagði Ko Un hafa rambað inn í bókabúðina sína. Í svona fimm mínútur sat ég bara og velti því fyrir mér hvort ég ætti að gera eitthvað. Hvort ég væri of gamall til að láta einsog ég væri fimmtán ára, árið væri 1965 og Ko Un væri John Lennon. Átti ég að fara á áritunarveiðar? Var ég of kúl fyrir það? Var kannski ekkert lúðalegra en að vera of kúl fyrir áritunarveiðar þegar maður veit af átrúnaðargoði á næstu slóðum? Á endanum ákvað ég að ég gæti ekki minna gert en farið úr húsi og náð í bækurnar mínar ef ég skyldi fá tækifæri til að biðja um áritun. Ég hjólaði niður á kontór, náði í þær upp í hillu og þegar ég kom út aftur var Ko Un og fjölskylda hans fyrsta fólkið sem ég sá. Hann tók mér vel og áritaði bækurnar og þau sögðu mér aðeins af ferðum sínum og að þau væru að vonast til að það yrði einhver viðburður í Reykjavík þann 23. ágúst en strandaði á einhverju, sem ég áttaði mig ekki á hvað ætti að vera. Svo þakkaði ég bara fyrir mig af öllum innileik og lét mig hverfa. Ég er ekki viss um að maður græði neitt á því að kynnast átrúnaðargoðum sínum – það er kannski bara til að gera út af við galdurinn. Hluti af mér er svo auðvitað á því að ég hefði bara átt að elta hann út á enda veraldar, sitja við fótskör hans og nema eilífðarvísindin. En það verður ekki sleppt og haldið og sennilega hefði fjölskyldunni hans bara þótt það vandræðalegt. *** Gítarleikari vikunnar er John Mayer. Ég reyndi að finna eitthvað live og svolítið hrátt en hann verður bara ekkert hrárri en þetta. Samt mjög góður – og auðvitað frábært lag.