Það hefur verið hljótt á blúsblogginu í nokkrar vikur en blúsbloggarinn hefur alls ekki slegið slöku við. Ég hef legið í ævisögum og fræðiritum – Say No To The Devil: The Life and Musical Genius of Reverend Gary Davis, Josh White: Society Blues; Charley Patton: Voice of the Mississippi Delta; Texas Flood: The Inside Story of Stevie Ray Vaughan; Beyond the Crossroads: The Devil and the Blues Tradition; Mississippi John Hurt: His Life, His Time, His Blues og Blues All Around Me: The Autobiography of B.B. King. Af þessum eru Charley Patton bókin – eftir Elijah Wald, sem er afar snjall – og Reverend Gary Davis bækurnar bestar en allar ágætar. Auk þess að lesa blús hef ég verið blúsaður og leikið blús. Síðastliðinn fimmtudag hélt ég tónleika ásamt Skúla frænda mínum í gömlu bókaverzluninni á Flateyri. Þar skiptumst við á að leika lög og lékum nokkur saman. Ég tók St. James Infirmary Blues, How Long, How Long Blues, Walkin’ Blues, Come On in My Kitchen og Statesboro Blues óstuddur en saman lékum við Folsom Prison Blues, Chocolate Jesus, It Hurts Me Too og Ég ætla heim (eftir Skúla). Ég áttaði mig á því að þrjú af þessum lögum voru fyrst tekin upp árið 1928 (How Long, St. James og Statesboro). Ég var vægast sagt taugaveiklaður og fór í gegnum þetta í einhverju móki. Það er svo skrítið – ég var með mikinn sviðskrekk fyrstu 10 árin sem ég las upp á sviði og þótt ég verði enn pínu stressaður myndi ég ekki kalla það sviðskrekk. En þegar ég fer með gítar upp á svið byrja ég strax að skjálfa. Það er einsog þetta séu tveir óskyldir sviðskrekkir. Þetta voru sem sagt fyrstu en vonandi ekki síðustu blústónleikarnir mínir. Gestir voru sennilega um tíu talsins. Hvað um það. Einsog þetta væri allt saman ekki nóg til að halda mér frá blúsblogginu – sem er auðvitað minn höfuðstarfi – þá horfði ég líka á bíómyndina Crossroads frá árinu 1986. Með börnunum mínum. Sem maður ætti eiginlega ekki að gera. Þetta er ekki barnamynd. En þetta er eiginlega ekki heldur mynd fyrir fullorðna. Kannski er þetta bara mynd fyrir eitísbörn sem mega heyra gamla karla tala um að næla sér í píku og depla ekki augunum við tilhugsunina um að sautján ára flökkustúlkur selji hálfsköllóttum suðurríkjarasistum líkama sinn í neyð (eða geri tilraun til þess). Crossroads var leikstýrt af Walter Hill og í aðalhlutverkum eru Ralph Macchio – Karate Kid – Joe Seneca og Jamie Gertz (úr Lost Boys og Less Than Zero). Seneca var líka tónlistarmaður og sviðsleikari – kom beint á settið á Crossroads úr leikritinu Ma Rainey’s Black Bottom eftir August Wilson sem hafði gert stormandi lukku á Broadway. Hann var eða varð upp úr þessu sérfræðingur í að leika gamla blúsmenn og gerði það meira að segja í einum Matlock þætti (þættinum The Blues Singer). Tónlistin í myndinni er eftir Ry Cooder – sem er sennilega óumdeildasti hvíti blúsmaður tónlistarsögunnar og eitt af betri kvikmyndatónskáldum (mæli ekki síst með Paris, Texas sándtrakkinu, sem byggir á Dark Was The Night, Cold Was The Ground eftir Blind Willie Johnson). Myndin floppaði illa á sínum tíma. „Macchio has got all the soul of a Spaghettio“ skrifaði gagnrýnandi The Toronto Star og flestir voru á sömu línu. Myndinni er hins vegar alls ekki alls varnað – þótt hún sé ekki neinn Ingmar Bergman – og lék áreiðanlega á þandar taugar fleiri ungra gítarleikara en bara mínar á sínum tíma. Þá var hún sennilega lykilatriði í því að Robert Johnson og krossgöturnar festust í alþýðuminninu – frekar en að vera bara anekdóta fyrir músíknörda. Í sem stystu máli fjallar kvikmyndin um ungan gítarleikara – Eugene Martone (Macchio), 17 ára undrabarn og blúsnörd frá Long Island sem nemur klassískan gítarleik við Julliard. Hann hefur bitið í sig að Robert Johnson hafi samið 30 lög en ekki bara þau 29 sem hann tók upp og einsetur sér að hafa upp á 30. laginu með einhverjum ráðum. Hann finnur gamlan félaga Roberts, munnhörpuleikarann Willie Brown (Seneca), á elliheimili fyrir glæpamenn, og telur víst að kunni einhver lagið sé það hann. Willie Brown kannast ekkert við neitt í fyrstu en semur loks við Martone um að ef hann frelsi sig og fari með sig niður til Mississippi þá muni hann kenna honum lagið týnda. Upphefst nú mikil æsiför af buddy-road-movie taginu niður til Mississippi – og á leiðinni slást þeir í för með unglingsstúlkunni Frances, sem er dansari á flótta frá illum stjúpföður, og takast ástir með þeim Martone. Á leiðinni öðlast Martone þá reynslu sem manni er nauðsynleg til að leika blúsinn – kynnist erfiðleikum, lendir í ástarsorg og sýgur í sig fæðingarstað blússins, Mississippi-deltuna. Bakgrunnur alls þessa er auðvitað mýtan um að Robert Johnson hafi selt skrattanum sálu sína á krossgötunum í skiptum fyrir tónlistarhæfileikana. Í myndinni er lagt upp með að þetta hafi Willie Brown líka gert en nú vilji hann freista þess að endurheimta sálina áður en hann hrekkur upp af. Í raunveruleikanum átti Robert Johnson vin sem hét Willie Brown – en sá var eiginlega fyrst og fremst vinur Son House og lék á gítar. Eftir hann liggja þrjú lög en auk þess lék hann undir hjá Son House, Patton og fleirum. Hann þykir sérstaklega mikill snillingur. Hápunkti nær kvikmyndin í frægri lokasenu þar sem Ralph Macchio keppir við skjólstæðing andskotans (sem er reyndar aldrei kallaður annað en Legba eða Scratch í myndinni), Jack Butler, sem Steve Vai leikur. Það er alveg í hæpnasta lagi að kalla Jack Butler blúsgítarleikara þótt hann leiki sinn neoklassíska metal yfir 12 bara blúshljómagang. Í húfi er ekki bara sál Willie Brown heldur líka sál Eugene Martone. Martone og Butler skiptast á likkum – Butler leikur neoklassík og Butler blúsar hana upp. Svo tekur Butler tryllinginn og allt útlit er fyrir að Martone hafi tapað. En eftir dálítið hik teygir Martone sig niður í sálardjúpin – niður í ræturnar – og dregur upp útgáfu af fimmtu etýðu Paganinis sem hefur verið nefnd „Eugene’s Trick Bag“. Butler gerir sitt besta en gefst að lokum upp og gengur bugaður af sviðinu. Martone og Brown leika eitt lokalag og ganga svo út í sólsetrið – Brown viðurkennir loks að Martone sé ekki alveg gersamlega hæfileikasnauður og lofar að fylgja honum til Chicago, kenna honum aðeins meira, en svo sé hann á eigin vegum. Fyrir utan að vera sögð léleg hefur myndin verið gagnrýnd fyrir allt milli himins og jarðar, ekki síst það hvernig hún hanterar kynþáttamálin. Tveir hvítir gítarrúnkarar keppa um það sem í grunninn er auðvitað krúnan – framtíð blússins í lok tuttugustu aldar. Annar er að eltast við að stela tónlist svarta mannsins (týnda laginu, sem reynist ekki vera til), hinn er hreinræktaður metalrúnkari á tímum þegar það er einmitt þungarokkið sem er talið „tónlist djöfulsins“ og sá sem vinnur dregur fram evrópskan jóker, Paganini, til að trompa. Jóker, sem vel að merkja er, einsog Robert Johnson, talinn hafa verið skjólstæðingur andskotans (en í hans tilfelli var það víst mamma hans sem seldi sálina). Þetta eru nokkur lög af symbólík og fólki er alveg vorkunn að vilja afskrifa þetta sem þvæling. Ég er hins vegar svolítið skotinn í þessu öllu saman og þetta er hvað sem öðru líður lýsandi fyrir ákveðna tilvistarkreppu í blústónlist um miðjan níunda áratuginn þegar flestir gömlu svörtu blúsararnir eru að hverfa af sjónarsviðinu og hvítir blúsarar að taka við. Þeir höfðu auðvitað verið með frá því í upphafi sjöunda áratugarins en einhvern veginn lent í öðru boxi – verið kallaðir blúsrokkarar einsog Clapton eða folk-tónlistarmenn einsog Dylan eða eitthvað annað eftir atvikum. Það er ekki fyrren með Stevie Ray Vaughan og Texas Flood sem hvítir tónlistarmenn fara að hala inn Handy-verðlaunum sem dæmi – og eru ekki kallaðir neitt annað en blúsarar. Þá má ekki gleyma því að þeir Butler og Martone eru fyrst og fremst skjólstæðingar lærimeistara sinna – strengjabrúður, skylmingaþrælar, undirsátar svartra karlmanna. Martone er í upphafi fulltrúi gamla blússins en fyrir tilstilli Browns kaupir hann sér telecaster („Muddy Waters invented electricity“ er ein af betri línum myndarinnar), pignose magnara og slide. Butler er fulltrúi einhverrar úrkynjunar sem er talin – af blúshausum – vera sálarlaus, en á vegum Legba (sem er afrískur flærðaguð – sem hafði hugsanlega áhrif á djöflasýn afrísk-amerískra þræla, en er alls ekki heiti sem hefur verið neinum tamt á þeim tíma, einsog er látið í myndinni). Butler hefur farið styttri leiðina – selt sálu sína – og þótt maður geti gert grín að því að tveggja vikna ferðalag um Mississippi eigi að kenna sautján ára stráklingi allt um innstu vé blámans þá er áherslan að minnsta kosti á það sem Brown kallar „mileage“, á sjálfa reynsluna, að maður fái ekkert án þess að vinna fyrir því. Sem er auðvitað líka sannleikurinn um Robert Johnson – í stað þess að selja sálu sína fór hann í læri hjá Ike Zimmerman og æfði sig linnulaust og laug því svo af og til að hann hefði gert samning við andskotann. Það var svokallað markaðstrix. Ef að Jack Butler er Eddie Van Halen þá er Eugene Martone Stevie Ray. En í þeirri sögn gleymist auðvitað að það voru líka svartir blúsarar að gera það gott á þessum tíma – framtíðin var ekki bara hvít – ekki síst Robert Cray. Þegar lokasenan var tekin upp var hún líka miklu lengri og innihélt undanúrslit þar sem svartur blúsmaður tapar fyrir Jack Butler áður en Martone kemur á sviðið – og það er líka til útgáfa í handriti þar sem Jack Butler var svartur. En framleiðendur myndarinnar ráku sig strax á ómöguleikann: það var ekki hægt að gera mynd þar sem hvítur strákur vinnur svartan blúsmann. Hvorki Butler né Martone gátu unnið svartan mann. Það var einfaldlega of viðkvæmt pólitískt, þótt það væri sirka það sem var að gerast á vinsældalistunum. Eitt af vandamálunum við Robert Cray er að hann er í einhverjum skilningi miklu hvítari en Stevie Ray – hann er meira adult contemporary, meiri lyftutónlist. Nú eru sannarlega til upptökur með Cray þar sem skortir ekki skítinn en frami hans byggir samt mjög á öðrum og ómþýðari tónum. Cray og Stevie Ray voru hins vegar báðir aðlaðir af sér eldri blúsmönnum – Albert King tók Stevie Ray upp á sína arma og Albert Collins tók Robert Cray upp á sína.
Það er líka eitthvað fallegt við að Martone skuli svo spila Paganinibastarðinn. Í fyrsta lagi vegna þess að það er „hans“ kúltúr – ekki bara evrópskur heldur líka Julliard. Í öðru lagi vegna þess að Paganini er líka – einsog blúsinn og metallinn – djöfulleg tónlist. Í þriðja lagi vegna þess sá Paganini sem hann blastar á magnaðann Telecaster er bastarður – tónlistarkennarasnobbið úr Julliard hefði fyrirlitið þetta; þetta er hins vegar músík sem Butler ætti að eiga betra með að spila en ræður samt ekki við. Og í fjórða lagi er útgáfan blússkyld – þetta er ekki bara hans kúltúr, þetta er sándið frá Muddy og Buddy, og blúsinn hefur alltaf verið bæði móttækilegur fyrir utanaðkomandi áhrifum og gjarn á að ryðja sér rúms í annarri tónlist. Það er ekki til nein blúslaus vestræn dægurtónlist. Ef maður skoðar Crossroads sem einhvers konar táknsögu fyrir framtíð blússins er líka eitt og annað fleira sem sker í augun. Í fyrsta lagi eru auðvitað engar konur neins staðar – þrátt fyrir að t.d. Koko Taylor hafi gert það gott á þessum árum. Í öðru lagi – og kannski fylgist þetta einmitt að – er ekkert sungið í framtíð blússins. Willie Brown syngur eitt lag í myndinni – sem Joe Seneca samdi með Ry Cooder – en Eugene syngur ekki píp og Jack Butler segir ekki einu sinni orð. Blúsmenn fortíðarinnar sem vísað er til – Robert, Son House, Muddy og bæði hinn sagnfræðilega kórrétti Willie Brown og Willie Brown myndarinnar – eru hins vegar allir söngvarar og í einhverjum tilvikum (Son og Muddy) að mörgu leyti betri söngvarar en þeir eru gítarleikarar. Stevie Ray og Robert Cray voru báðir söngvarar. Jack Butler og Eugene Martone eru hreinræktaðar gítarhetjur og eiga kannski meira skylt við Joe Bonamassa og Eric Gales – sem þrátt fyrir að syngja eru varla söngvarar nema í algeru aukastarfi. Þá verður manni hugsað til þess sem Muddy Waters sagði á sínum tíma um hvíta blúsara að þeir gætu spilað blús á gítar en þeir gætu ekki sungið (eða vókalíserað, sagði hann) blúsinn.
Category: Uncategorized
id““:““78mtb““
Í gærkvöldi lék hljómsveitin Uncle Doghouse á knæpunni Bankiren í Västerås. Gestur var gítarleikarinn og söngvarinn Thomas Hultman og upphitun var í höndum ungs deltablúsleikara sem kallar sig Preachin’ Lips. Í salnum var meðal annars hinn frægi Kjell Höglund – handhafi Cornelisverðlaunanna – það var klappað sérstaklega fyrir honum en hann var ekki þarna til að skemmta heldur til að láta skemmta sér. Gaman að segja frá því. Gestaþak var 45 manns vegna kórónaveirunnar, allir sátu við sitt borð, miðaverð var 100 SEK (1600 kall – sem er umtalsvert lægra en maður á að venjast), það var matur í boði og þjónað til borðs (ég fékk mér hamborgara, hann var ljúffengur). Hljómsveitin lék tvö sett í gær – hið fyrra var auglýst 17.00 en hið síðara 21.00. Þegar ég keypti miðana, sem ég gerði snemma vegna þess hve fáir voru í boði, var sagt að okkur væri hollast að mæta hálf-fimm til að geta pantað mat og svona. Það reyndist allt fullkominn óþarfi. Tónleikarnir byrjuðu ekki fyrren rúmlega 18.00 og þá vorum við búin að borða. Best hefði verið að mæta bara þá. Bankiren er áhugaverður staður. „Sunkig“ er orðið sem ég notaði til að lýsa honum fyrir Nödju (eftir að ég fór til að kaupa miðana, sem maður þurfti að gera í eigin persónu, og helst í reiðufé). Sjabbí, heitir það sennilega á góðri íslensku, en ég meina það í bestu merkingu – staðurinn er líka gamalgróinn. Þetta er í einhverjum skilningi klassísk úthverfaknæpa – svona í áttina að Catalinu í Kópavogi. En hún stendur alveg í hjarta miðbæjarins þar sem er annars ekkert að finna nema hipsterakeðjur og gleraugnaverslanir og H&M og þvíumlíkt. Mér leið strax frekar vel þar inni þegar ég kom að kaupa miðana. Þá voru fáir gestir og flóamarkaður á sviðinu en það var fullt á tónleikunum. Gestir voru sennilega flestir milli fimmtugs og sextugs, góðglatt fólk, sumir svolítið rauðnefja, áreiðanlega fáir úr efri lögum samfélagsins. Ég hugsa að eini maðurinn þarna inni sem var yngri en við Nadja hafi verið Preachin Lips. Hann mætti upp á svið með gítarinn í tösku – national resonator – snyrtilega greiddur, klæddur í svartar buxur, blankskó, hvíta flibbalausa skyrtu og gamaldags axlabönd. Og svo lék hann deltablús. Og gerði það ágætlega en aldrei þannig að maður yrði agndofa. Kannski truflaði það mig að það var einsog hann vildi gera þetta átentískt – fara í períóðuleikinn, cosplayið – en þá vantaði bara ýmislegt upp á. Þegar mér fannst passa að melódían nyti sín – einsog í upphafinu á Walkin’ Blues – spilaði hann sloppí; og þegar mér fannst að sloppí væri fínt og bítið mæti njóta sín, einsog í Pony Blues, var hann of mikið að eltast við óþarfa krúsídúllur. Hugsanlega hefði hann líka mátt hafa míkrafón við fótinn á sér – maður þarf eiginlega að heyra stappið. En ég vil ekki vera of neikvæður – þetta var mjög skemmtilegt og sannarlega ekki á hverjum degi sem maður fær að heyra deltablús leikinn live. Uncle Doghouse með Thomas Hultman. Svo komu Uncle Doghouse. Þeir byrjuðu á að taka eitt sett með gítarleikaranum og söngvaranum Thomas Hultman, sem virðist vera af Stevie Ray skólanum – spilar blús með sándi sem sker í gegnum allt (sennilega eitthvað svona tube screamer með miðtíðnina í botni dæmi) og syngur alltaf neðan úr þindinni. Þeir léku fimm lög saman – byrjuðu á Sweet Home Chicago í Chicago-blús útsetningu en með gamla textanum hans Roberts Johnson („to the land of California“) og sungu auðvitað um Västerås frekar en Chicago. Svo Riding With The King eftir John Hiatt í útgáfu BB King og Eric Clapton, man ekki næsta (var það Why I Sing the Blues?), svo Talk to Your Daughter eftir JB Lenoir í Robben Ford útsetningunni og loks Can’t Get Enough eftir Bad Company. Þá var stutt pása áður en Uncle Doghouse tók til við sitt eigið sett – sem var sennilega 50/50 þeirra eigin lög og annarra. Hljómsveitin samanstendur af söngvaranum Zoltan Todor, gítarleikaranum Conny Klintberg, trommuleikaranum Ragge Johannesen, nýjum bassaleikara sem ég náði ekki hvað hét og orgel- píanó- og munnhörpuleikaranum Håkan Falknäs. Þétt band og vel æft og greinilega mikil vinátta í hópnum – þetta er alveg áreiðanlega gert vegna þess að þetta er gaman. Það vantaði svolítið upp á sándið úti í sal – sérstaklega var óþarflega lágt í gítarnum. Það er landlægur sjúkdómur hjá gítarleikurum að yfirgnæfa annað hvort allt eða passa sig svo rækilega á að vera ekki gaurinn sem yfirgnæfir allt að þeir þora ekki að hækka almennilega í sér. Sem er eiginlega verra í tónlist sem er fyrst og fremst gítardrifin. Þá var meira gaman að heyra í honum leika þegar hann skipti um gítar – lagði frá sér stratocasterinn og tók upp einhvern eins humbucker ZZ Top gítar sem mér sýnist af heimasíðu bandsins að sé sérsmíðaður (allavega bara merktur „Klintberg“). Það var einsog hann fyndi sig betur með hann. Söngvarinn er af Commitments skólanum og fínn sem slíkur – alltaf með slappan handlegginn upp að síðunni à la Joe Cocker. Mikil tilfinning. Sennilega hreifst ég samt mest af bassaleiknum – það var mikið swing í honum – og orgelleiknum hjá Håkan. Hljómsveitin er frá Västerås og það voru áreiðanlega margir í salnum sem þekktu frumsömdu lögin þeirra en ég var bara búinn að renna plötunum þeirra einu sinni og dró Nödju með mér á þeirri forsendu að sennilega væri þetta betra live. Ekki að lögin séu léleg en þau eru heldur ekkert spes. Og þegar hálft settið manns er síðan grjótharðir klassíkerar er erfitt að ætlast til þess að manns eigin lög séu mjög eftirminnileg. Áherslan – bæði í frumsömdu og ábreiðum – var á hvítt, seventís blúsrokk. Eftirminnilegast var Thunderbird eftir ZZ Top, sem bassaleikarinn söng, (ég meina það ekki söngvaranum til hnjóðs – lagið er bara svo gott) en þarna voru líka Hush eftir Deep Purple og Rock n’ Roll Hoochie Koo með Johnny Winter og álíka titlar. Það hafa verið talsverðar mannabreytingar í bandinu og í þessu myndbandi er nýi söngvarinn kominn, en gamli gítarleikarinn – Ecke, sem mun hafa samið megnið af lögunum – enn í bandinu, sem og gamli bassaleikarinn. Ég sagði frá því síðast að sennilega yrði „þrífari vikunnar“ ekki fastur liður á blogginu. Hér eru hins vegar tvífarar vikunnar – Håkan Falknäs og Palli Hauks, sem stýrir Blúshátíðinni á Patreksfirði (og er vinur minn úr Tottenhamklúbbnum). Ætli stefni þá ekki í einfara vikunnar í næstu viku. Hehe. Palli og Håkan.
id““:““b3cpi““
Áðan las ég frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem vitnað er til viðbragða Lönu del Rey við gagnrýni sem hún hefur fengið fyrir að syngja lög þar sem hún er sögð „upphefja ofbeldi“. Sem dæmi um slíka texta er nefnt lagið Ultraviolence og textabrotið: „He hit me and it felt like a kiss“. Þetta er tregafullt lag en þó ekki blús og verður ekki til umfjöllunar frekar hér. Það sem vakti hins vegar athygli blúsbloggarans voru lokaorð varnarræðu Lönu del Rey: But I also feel it really paved the way for other women to stop ’putting on a happy face’ and to just be able to say whatever the hell they wanted to in their music—unlike my experience where if I even expressed a note of sadness in my first two records I was deemed literally hysterical as though it was literally the 1920s.” Það var sem sagt þetta með bókstaflega þriðja áratuginn sem vakti athygli mína. Ég er svo sem vanur því að sjá ungt fólk trúa því að það hafi ekki náðst neinar raunverulegar framfarir í félagsmálum fyrren þau byrjuðu í háskóla og fóru sjálf að láta til sín taka – og man ágætlega hvernig það er að líða þannig. Sú óþolinmæði er forsenda margra framfara og ég lasta hana í sjálfu sér ekki. Íhaldssemi og frjálslyndi hafa samt að einhverju leyti alltaf sveiflast fram og til baka og það eru til tímar og staðir þar sem meira frjálslyndi ríkti en við almennt ímyndum okkur – jafnvel í fortíðinni. Oft horfir fólk þá til hippatímabilsins, sem ég held að sé nú talsvert ofmat, en á ábyggilega við einhver rök að styðjast. Ég hugsa oft sjálfur til Berlínar á þriðja áratugnum – þar sem t.d. fyrsta kynskiptiaðgerðin átti sér stað, og fólk lifði við mikið frjálsræði í kynferðismálum, það var allt morandi í sósíalistum og anarkistum og brjáluðum listamönnum. Þá voru tímar og staðir í kringum bítskáldin á fimmta og sjötta áratugnum – og lýsingar Gore Vidal á æsku sinni meðal auðuga og valdamikla fólksins (t.d. JFK) benda ekki til mikillar íhaldssemi. Á flestum stöðum og á flestum tímum hafa þetta hins vegar verið átök og ekki sama hvort maður er Jón eða séra Jón eða svarti Jón eða Jóna o.s.frv. Það sem komið hafði upp í huga minn þegar ég byrjaði að lesa þessa frétt var samt einmitt þriðji áratugurinn í bandarískri tónlist, áður en Lana fór að gera lítið úr honum – fyrst og fremst svartri tónlist og fyrst og fremst lagið Tain’t Nobody’s Business (If I Do). Auðvitað er einfaldlega fjarstæða að halda því fram að depurð í lagasmíðum hafi ekki átt upp á pallborðið á þriðja áratugnum – eða, maður verður þá allavega að tiltaka mjög nákvæmlega hvaða stað maður er að meina, kannski var depurð ekki í móð á bryggjuböllum á Siglufirði, ég veit það ekki – en það var mikið sungið um depurð og harm í deltunni og vaxandi stórborgum bæði í norðri og suðri Bandaríkjanna, og Tain’t Nobody’s Business er ágætis dæmi um það – og tilefni til að skoða sögu þess lítillega. Þetta lag er einn af fyrstu blússtandördunum og var upphaflega skrifað á tvo píanóleikara, Porter Grainger og Everett Robbins og tekið upp með söngkonunni Önnu Meyers. Þema textans er frelsi ljóðmælanda til að gera hvað sem henni (stundum honum) sýnist. Þriggja línu erindi þar sem fyrstu tvær leggja upp aðstæður og sú þriðja er alltaf eins: það kemur þér bara andskotann ekkert við. If I go to church on sunday
and strutt my stuff on monday
tain’t nobody’s business if I do. Eða If I should take a notion
to jump into the ocean
tain’t nobody’s business if I do. Einsog var svo algengt þegar lög slógu í gegn var þetta svo tekið upp af annarri hverri söngkonu á næstu árum – þar á meðal Söru „the Famous Moanin’ Mama“ Martin og Albertu Hunter. En þekktasta útgáfan frá þessu tímabili er án efa útgáfa Bessie Smith – sem er tregafyllri, minna einfalt stuðlag og hún nær einhvern veginn að miðla alvöru efnisins best. Að þetta er ekki alveg einfalt heldur margbrotið – frelsið er best en það er líka sárt og flókið og það er ekkert frelsi nema maður hafi réttinn til að gera alls konar vitleysu líka. Kannski var það líka fyrst þá sem fólk staldraði almennilega við eitt erindið (á wikipediusíðu lagsins er m.a.s. mjög greinilega gefið í skyn að Bessie hafi verið fyrst til að syngja þetta erindi, en það er alls ekki raunin): I swear I won’t call no copper
if I get beat up by my poppa
tain’t nobody’s business if I do. Um þetta er margt að segja. Í fyrsta lagi að ofbeldi var daglegt brauð í í lífi þessa fólks. Þetta er alls ekki eina blúslagið sem fjallar um ofbeldi af þessari tegund og á þennan hátt – en það var raunar ekki síður algengt að konur syngju lög um að hefna sín á ótrúum mökum sínum. T.d. Sleep Talking Blues með Ma Rainey – þar sem maðurinn hennar missir út úr sér nafn ástkonu sinnar í svefni og vaknar aldrei aftur. Bessie átti líka frægt lag sem heitir Send Me To The ’Lectric Chair: I love him so dear
I cut him with my barlow
I kicked him in the side
I stood here laughing o’er him
While he wallowed around and died Og eitt frægasta lag Memphis Minnie fjallar um einkabílstjóra sem hún heldur fyrir elskhuga: „But I don’t want him / To be ridin’ these girls / To be ridin’ these girls around /So I’m gonna steal me a pistol, shoot my chauffeur down.“ Og listinn yfir lög blúskarla um að skjóta konurnar sínar fyrir sams konar glæpi myndi fylla bók einn og sér – mörg þeirra eru miklu grófari. Frægast er kannski 22-20 Blues eftir Skip James eða Crow Jane – og þau eru allavega alls ekki færri en lög kvennanna. Ég man þó engin lög þar sem þeir syngja um að hafa verið barðir sjálfir. Það annars úir einfaldlega og grúir af ofbeldi í þessum lögum einsog það gerði í veruleika þessa fólks – þótt það sé lítið skrifað, ort eða sungið um ofbeldið sem blökkumenn urðu fyrir af hendi hvítra. Því er reyndar gjarnan líka haldið fram, án þess að ég kunni að sannreyna það, að mörg þessara laga um að skjóta konurnar sínar séu dulbúin lög um plantekrueigendur – það sé í raun verið að syngja um þeirra svik og fá útrás fyrir ofbeldisþrá í þeirra garð, en þeim skipt út fyrir konurnar – því annað kostar bókstaflega hengingu, um það þarf ekki að efast – og það er áreiðanlega a.m.k. eitthvað til í því, en það á samt varla við í lögum einsog Tain’t Nobody’s Business. Í öðru lagi hafa margir vitrir spekingar skrifað um þetta sem svartan húmor við svartar aðstæður – og það ber öllum sögum saman um það að þegar sungið var um kynlíf og ofbeldi á juke joint skemmtistöðunum í deltunni hafi fólk hlegið dátt. Þetta er upprunalega slappstikk – a.m.k. í og með. Sem þýðir ekki að það vísi ekki í raunverulega lífið – hættur fólks og áhyggjur og nevrósur. Það gerir svartur húmor alltaf. Í þriðja lagi má hafa í huga að þessi lög eru skrifuð og sennilega að mestu leyti samin af körlum. Þegar ég segi að mestu leyti á ég ekki bara við að þeir hafi samið flest lögin heldur að það er bara ekki víst að þótt þeir séu skrifaðir fyrir þessum lögum hafi þeir samið þau og alls ekki að öllu leyti. Það var pínu tilviljanakennt hver var skrifaður fyrir hverju og margir sem reyndu jafnvel að skrá á sig alþekkta sálma – ekki af neinum óþokkaskap heldur vegna þess að þeir litu á sína útgáfu sem nýja og þannig frumsamda (sem er miklu eðlilegra viðhorf en við búum við í dag að mínu mati). Svo púsluðust lög saman þegar þau fluttust frá einni hljómsveit til annarrar. Engu að síður er mikilvægt að hafa í huga að söngkonur einsog Bessie Smith sungu ekki hvaða rusl sem var – og hún söng aldrei neitt án þess að meina það og gæða það nýrri merkingu. Hún var listamaður en ekki glymskratti og hún var þrátt fyrir tímann og aðstæðurnar ekki viljalaust peð. En lagið er samt líklega a.m.k. að stærstum hluta samið af tveimur körlum. Um lagið og flutning Bessiear skrifaði Angela Davis meðal annars í Blues Legacies and Black Feminism: Bessie Smith’s recorded performance of Porter Grainger’s ”Tain’t Nobody’s Bizness If I Do”-a song also associated with Billie Holiday – is one of Smith’s most widely known recordings. Like ”Outside of That,”it has been interpreted as sanctioning female masochism. It is indeed extremely painful to hear Smith and Holiday sing the following verse so convincingly: [vitnar í sama og að ofan]. The lyrics of this song touched a chord in black women’s lives that cannot be ignored. While it contradicts the prevailing stance in most of Bessie Smith’s work, which emphasizes women’s strength and equality, it certainly does not annul the latter’s sincerity and authenticity. Moreover, the song’ seeming acquiescence to battering occurs within a larger affirmation of women’s rights as individuals to conduct themselves however they wish – however idiosyncratic their behavior might seem and regardless of the possible consequences. Þegar ég las þetta á sínum tíma hugsaði ég líka talsvert út í merkingu þess að hringja í lögregluna. Á þessum tíma – og að nokkru leyti enn, einsog þekkt er – hafði svart fólk í Bandaríkjunum ekkert æðislega mikla ástæðu til þess að treysta því að það hefði mikið að segja að hringja í lögguna. Ekki veit ég hvað lögreglan í Clarksdale hefði sagt ef svört kona hefði hringt árið 1923 til þess að kvarta undan því að hún hefði verið slegin – ekki getur það hafa verið alveg út í hött, fyrst það er nefnt í laginu (á þeirri forsendu að það að hringja ekki sé eitthvað sem maður verði fyrir gagnrýni fyrir). Og kannski var það öðruvísi í Atlanta en í Clarksdale. En eitthvað segir mér að það hafi kannski ekki alltaf gert illt betra að hafa lögregluna með í ráðum og það felist ákveðin ógn í orðinu „copper“ sem sé ekki minni en í orðinu „poppa“. Frank Stokes var líklega fyrsti karlinn til að syngja þetta lag – í köntríblúsútgáfu árið 1928. Þá er textinn mikið breyttur en það var líka alvanalegt að snúa textum upp á haus, bæta við einhverju frá eigin brjósti (og hefði verið algerlega fordæmalaust, held ég, að karl hefði sungið í orðastað konu). Lagið er reyndar líka svo mikið breytt að hann hefði alveg getað gefið það út sem sitt eigið – þetta er tólf bara blús sem ber keim af orginalnum en ekki mikið meira en það. Sennilega nýtti hann sér einfaldlega líkindin við vinsælt lag til að selja plötuna. Eða, og það er enn líklegra, var það bara útgefandinn – því Stokes syngur ekki einu sinni „if I do“ í viðlaginu heldur „nobody’s business but mine“ sem hljómar nú meira einsog klassísk köntríblúsbreyting til að eigna sér lag. Þetta er svo sama útgáfa og Mississippi John Hurt gerði það gott með í blúsendurreisninni – og sú sem Woody Guthrie tók upp. Einsog Angela nefnir tók Billie Holiday lagið svo upp síðar. Ég myndi nú segja að það væri minniháttar punktur á hennar mikla ferli. Jimmy Witherspoon átti hins vegar mikinn smell með þessu 1949 og syngur þá í fyrsta erindinu Some of these days I’m goin’ crazy
buy me a shotgun and shoot my baby
ain’t nobody’s business if I do Þessu erindi var nú svo yfirleitt bara sleppt – og Jimmy sleppti því held ég oft sjálfur live (einsog Lana sleppir barsmíðalínunni sem vitnað er til að ofan) – en það er mikill hræringur með textann og hann er svo sem ekki alltaf tandurhreinn miðað við þá standarda sem menn dæma texta Lönu del Rey (t.d. standard-erindi um að það komi engum við þótt maður sé eina stundina að rífast við skvísuna sína en þá næstu sé bara allt í góðu – ég held það kveiki á milljón viðvörunarbjöllum hjá hinum viðkvæmu, klassískt dæmi um narsissískan persónuleika og gaslýsingu!). Yfirleitt hefst hann núna á því sem áður var síðasta erindið: If one day we have ham and bacon
and the next day, there ain’t nothin’ shakin’
ain’t nobody’s business if I do Það eru svo auðvitað til ótal mismunandi útgáfur – enda myndi þetta varla annars reiknast sem standard. Otis Spann á útgáfu sem er alltílagi, BB King tók þetta upp í sínum stíl og svo aftur live-útgáfu með Ruth Brown, Hank Williams jr. gerði köntríútgáfu af Witherspoon versjóninni (án fyrsta erindisins) árið 1990, og svo framvegis og og svo framvegis. En ein fallegasta seinni-tíma útgáfan er án efa útgáfa Freddie King. Svo er „ekki hægt að láta hjá líða“, einsog heitir, að nefna útgáfu Taj Mahal – sem er kannski ekki jafn falleg og hjá Freddie en skemmtilegri sem því nemur. Þar breytir hann líka fyrsta erindinu í: Champagne don’t drive me crazy
cocaine don’t make me lazy
ain’t nobody’s business but my own Sem er nú óneitanlega vinalegra. Bónusútgáfa – af því það er svo erfitt að hætta þegar maður er byrjaður – er live-útgáfa BB King og Ruth Brown. Ekki bara af því þau eru einhvers konar heimsmeistarar í að vera krúttleg heldur líka af því þau eru svo skemmtileg gröð!
createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.684Z““
Það væri ofsögum sagt að Between Two Ferns: The Movie sé góð og það væri lygi að segja að hún væri slæm. Kannski er hún fyrst og fremst – einsog þættirnir sem hún er byggð á – sérvitur. Zach Galifianakis leikur samnefndar karakter sem er með „public access“ sjónvarpsþátt í Bandaríkjunum þar sem hann tekur viðtöl við frægt fólk (sem kemur til hans af því Will Ferrell, sem birtir viðtölin á Funny or Die og græðir á því peninga, skipar þeim að gera það). Hann er ekki beinlínis heimskur en honum er frekar illa við viðmælendur sína og leyfir fyrirlitningu sinni að skína í gegnum yfirbragð sem annars verður varla öðruvísi lýst en sem algert áhugaleysi. Hann langar að gera þetta – hann segir það oft, þetta er draumurinn hans – en hann langar það samt ekki svona. Honum finnst leikarar heimskir og hégómlegir og oft á tíðum jafnvel hæfileikalausir sem leikarar. Í formattinu afhjúpast samtímis miklir fordómar – bæði gagnvart einhverjum svona útnáratýpum einsog Zach en líka gagnvart Hollywoodleikurum – og það afhjúpast einhverjir sannleikar um hégóma þeirra og lífsviðhorf og kerfislægar aðstæður og valdið milli hinna frægu og hinna ófrægu. Plottið í myndinni gerir ekki mikið annað en að víkka hugmyndina úr þáttunum aðeins út – gera aðstæðurnar aðeins skiljanlegri (ég held að karakterinn hafi aldrei annars sést nema í viðtölunum sjálfum). Það gengur út á að hann þarf að taka 10 nýja þætti á tveimur vikum og koma þeim til Wills Ferrell og þá fái hann alvöru sjónvarpsþátt á alvöru sjónvarpsstöð. Að einhverju leyti minnir myndin á aðra mynd sem fjallaði líka um skrítinn mann á public access sjónvarpsstöð sem þurfti að berjast fyrir tilvist sinni – Weird Al Yankovic myndina UHF. Between Two Ferns er alltaf á jaðri þess að fara að verða listaverk – negla mann einhvers staðar annars staðar en bara í hláturvöðvana, stíga út úr meinstríminu á vit módernískrar sögu um tilgang lífsins, eitthvað svona Hal Hartley hittir On the Road hittir Freddy Got Fingered – en gerir það á endanum ekki (hvort sem það er með vilja eður ei). *** Skáldsagan The End of Eddy (En finir Eddy Bellegueule) eftir Édouard Louis (né Belleguele) kom út á ensku í fyrra eftir að hafa skekið evrópskt bókmenntalíf árið 2014. Það er mjög skrítið að hún hafi ekki komið á íslensku – sérstaklega af því hún er stutt og því frekar ódýrt að gefa hana út (svona miðað við eitthvað einsog Min Kamp a.m.k.). Bókin er skáldævisaga samkynhneigðs höfundar sem elst upp í fátækt í frönsku smáþorpi. Lýsingar Édouards á ævi sinni eru svakalegar og minna mann frekar á lýsingar þeirra sem ólustu upp á sjöunda og áttunda áratugnum en manns sem er fæddur 1992 – ekki endilega vegna fátækarinnar, sem er svo sannarlega viðvarandi vandamál alls staðar enn í dag, heldur vegna íhaldsseminnar og ofbeldisins og drykkjumenningarinnar í kringum hann. Það eru allir alltaf að slást, blindfullir og æpa eitthvað um ógeðslega homma. Édouard er sjálfur engin undantekning þar og gerir sér far um að leggja yngri strák í einelti fyrir hommaskap – til að losna undan slíkum stimpli sjálfur. Ég veit ekki alveg hverju ég átti von á. Mér fannst einsog hann væri meira á efnahagslegu línunni og bókin myndi afhjúpa eitthvað meira þar – segja mér eitthvað um stéttir. Ég átti kannski bara von á sósíalískara verki. Þetta er götustrákabók og hún segir manni talsvert um frönsku sveitina – smábæina, a.m.k. ef maður tekur hana á orðinu, og sú lýsing er langt í frá fögur. Sem bókmenntaverk er hún nú kannski engin stórtíðindi – hún er ekki fagurfræðilega frábrugðin öðrum álíka bókum og sögur af svona fólki eru í nærri öllum sjálfs- og skáldævisögum. Það þýðir ekki að sagan sé ekki áhrifarík. Og það sem hún hefur þá fram að færa sem tíðindi er að heimurinn sé sums staðar og stundum alltaf eins. *** The Dead Don’t Die er nýjasta mynd Jims Jarmusch. Einsog margar mynda hans er hún skreytt miklum stjörnufansi – Bill Murray, Tilda Swinton, Tom Waits, Adam Driver, Steve Buscemi og Chloe Sevigny eru í burðarhlutverkunum og aukaleikararnir eru ekkert minna sjarmerandi fólk. Hún ber þess merki að vera verk höfundar sem þarf ekki lengur að sanna eitt eða neitt. Framvindan er mjög kæruleysisleg – það er ekkert verið að eyða tíma í útskýringar eða endahnýtingar. Verkinu bara vindur fram, fólkið í henni verður fyrir sögumennskunni, og allt er þetta mjög óeðlilegt og klunnalegt og meikar ekkert sens. Sem svo aftur er allur sjarminn – myndin er bókstaflega frábær fyrir þetta. Snyrtilegri zombímynd (þetta er zombímynd) hefði áreiðanlega ekki staðist neinn samanburð við þetta undarlega verk; heldur verið fyrirsjáanlegt rusl. Samtöl og senur eru öll dásamleg og svo má ekki vanmeta þennan leikarahóp – það eru aldrei minna en tvö hundruð kíló af hreinum sjarma í mynd í einu og stundum miklu meira. *** Ég fór á samtal við rithöfundinn Arundhati Roy á bókamessunni í Lviv á föstudag. Þetta var tveggja tíma viðtal og það var farið um víðan völl. Hún byrjaði spjallið á að hafna öllum skilgreiningum á sér sem bókmenntastjörnu, hún væri bara venjuleg kona sem hefði gaman af að lifa í bókum. Mig langaði svolítið að standa upp og spyrja hvort hún hefði þá líka þurft að sækja um styrk fyrir fluginu sínu (einsog við gestir bókamessunnar á b-farrými þurftum að gera – ég var svolítið pirraður yfir þessu, af því ég hafði fengið að vita það svo seint, löngu búinn að þiggja boðið, og veit enn ekki hvort ég fái styrkinn en augljóslega búinn að leggja út fyrir fluginu, allt mjög bagalegt og hafði ekkert með Arundhati Roy að gera, vel að merkja). Mest talaði hún um indverskt samfélag og sagði meðal annars, sem mér þótti áhugavert, að sennilega tignuðu indverjar hina friðsamlegu baráttu – non-violence – einmitt vegna þess að líf þeirra væru öll mörkuð ástríðu fyrir ofbeldi, ofbeldi væri lausn indverja á öllu. Þá talaði hún líka talsvert um að Indland væri enn koloníserað en nú af hindúum – að vísu með þeim fyrirvara yfirleitt að „margir álitu“ þetta, frekar en að hún væri óhikað að segja þetta sjálf. Hún eyddi líka talsverðum tíma í að ræða hugmyndir um róttæka endursköpun skáldsögunnar sem listforms – og að það væri tilraunin sem væri fólgin í nýju bókinni hennar, The Ministry of Utmost Happiness. Sem mig fór þá að langa að lesa aftur. Ég einhvern veginn náði henni ekki nógu vel á sínum tíma. *** Við Haukur Már skelltum okkur á sýninguna Garten der irdischen Freuden í Gropiusbau í Berlín. Á sunnudag, hefur það verið. Sýningin er með útgangspunkt í verki Hieronymusar Bosch, Í garði hinnar jarðnesku sælu, og hangir miðmyndin í triptýkinni í einum salnum. Í þessum garði „kenndi margra grasa“ einsog maður segir og verkin voru afar misáhugaverð. Ég var því miður of latur að nótera hjá mér nöfn höfunda og kenni flugþreytu (og þynnku) um. Frammi í stóra salnum var margra hæða stofumubla með pottaplöntum og gömlum litlum sjónvörpum og stöku bók á stangli – þær áttu það allar sameiginlegt að vera um kynþáttamál og fyrst og fremst bandarískra blökkumanna. Í sjónvörpunum var verið að ræða svipaða hluti. Við sátum lengi fyrir framan Bosch og töldum fiska, skoðuðum skuggaverur, og reyndum að koma auga á nýja og nýja hluti. Það er auðvitað mjög mikið í þessu. Þetta er hin orgíulausa orgía – erótík án hins skaðlega hungurs, án ástríðu. Í einum salnum var mold á gólfinu og stórir sjónvarpsskjáir á undarlegum fótum sem sýndu grænku og hljóðverk úr hátölurum sem var búið að búa um einsog fuglakofa (setja tréþak á þá og fót). Þessi stemning var góð – ég fílaði þetta – en ég man ekki hvað hljóðverkið var einu sinni. Besta verkið var myndbandsverk sem maður skoðaði með því að leggjast á gólfið og horfa á það í loftinu. Ramminn var egglaga og í honum gerðist ýmislegt – það var svo nátengd Bosch-verkinu að það hlýtur eiginlega að vera byggt á því (verkin voru samt áreiðanlega ekki gerð fyrir þetta sjó). Aftur voru líkamar, nekt, gróður og aftur einhvern veginn alveg berir og í mikilli nærmynd en samt ekki agressífir, ekki gredduvekjandi eða gredda í þeim. Ég man eftir konum í leðjuslag og nærmynd af putta að pota í pung. Oft voru nærmyndirnar samt einmitt þannig að maður var ekkert alveg viss hvað maður væri að horfa á. Yayoi Kusama var með doppuverk. Herbergi fullt af doppum og túlípanar, minnir mig. Mjög doppótt. Eitt verkið var bara brotnar kókflöskur á stórum palli. Merkilega fínt – einhvern veginn aðlaðandi og ljúft. Mann langaði að leggjast í þetta. Og á sama tíma auðvitað alls ekki. *** Í Lviv fór ég líka á samtal við rithöfundinn Mark Forsyth sem gaf út bókina A Short History of Drunkenness. Hann sagði ýmislegt áhugavert – t.d. að upplifun fólks af áfengisvímu væri mjög mismunandi milli menningarheima. Ef maður byggist við því að verða yfirvegaður og fullur af höfgi af áfengi þá yrði maður yfirvegaður og fullur af höfgi, ef maður byggist við því að verða ofbeldisfullur yrði maður það, ef maður byggist við því að dofna dofnaði maður, ef maður byggist við því að æsast upp og fara að dansa og syngja þá gerði maður það. Í menningarheimum þar sem fólk sér ofsjónir í áfengisvímu sér fólk ofsjónir þegar það drekkur; þeir sem fara á vit Guðs í gegnum flöskuna sjá Guð. Að vísu var höfundurinn að staupa sig á sviðinu svo ég veit ekki hvað var að marka hann. Hann nefndi líka að áfengisbannið í Bandaríkjunum hefði verið feminískt prójekt á sínum tíma og sett á til þess að hlífa konum við því að karlarnir færu út á bar með öll launin og kæmu svo fullir heim og berðu þær. Á þeim tíma voru konur víst svo gott sem bannaðar á knæpum (ég reikna með, þótt hann hafi ekki tekið það fram, að vændiskonur hafi verið undanskildar) og þar var mikið slegist. Ég man eftir að hafa lesið í bók um kokteilamenninguna í San Francisco að þegar menn voru að lauma einhverju í glasið hjá fólki á börum á nítjándu öldinni hafi það verið til að ræna karlmenn frekar en nauðga konum. Nema hvað. Drykkju lauk auðvitað ekki með áfengisbanninu heldur færðist inn á hinar svonefndu speakeasys og sagði Forsyth að það hefði í raun verið fyrst þar sem konur fóru að drekka af einhverju viti og sú drykkjumenning sem við þekkjum í dag hafi orðið til. Forsyth, sem er óhætt að segja að sé mikill talsmaður drykkju, var þannig nokkuð óvænt bara mjög ánægður með áfengisbannið og vildi meina að það hafi þjónað tilgangi sínum mjög vel – þegar því lauk hafi drykkjumenningin stórskánað. Ég er sjálfur mikill áhugamaður um knæpur – ekki bara að sitja þar sjálfur að sumbli, þótt það komi fyrir, heldur um fyrirbærið sem rými í veruleikanum þar sem að jafnaði hafa gilt aðrar og frjálslegri reglur en úti á götu. Svona saturday night fever reglur á sumum börum en subbulegri á öðrum – knæpur voru lengi afdrep jaðarfólks (t.d. Stonewall – en líka bara Keisarinn). Þar situr fólk í reykfylltu myrkri með deyfð skynfæri, oft í háværu skvaldri eða tónlist, og segir hluti sem það myndi aldrei segja … ja, t.d. í ræðustól Alþingis … fær útrás (án þess ég ætli að hætta mér neitt út á þá braut að verja klaustursdólgana vel að merkja). Þar ríkir samtímis meira álag og meira umburðarlyndi og einn af grunnkostum knæpunnar sem rýmis er að það er hægt að stíga út úr henni og aftur út í upplýstan veruleikann. Maður velur að vera þar inni – fara þar inn – en auðvitað er maður ekki alltaf alveg viss um hvað maður er að samþykkja með því að fara þar inn eða hverjar félagslegar reglur staðarins eru (og á síðustu 100 árum hafa þær smám saman orðið áþekkari reglunum í hvaða kringlu eða kirkju sem er). Ég veit aldrei alveg hvað mér finnst um tilraunir til þess að hreinsa til á knæpunni – breyta henni í upplýst rými. Aðferðirnar eru margar – í fyrsta lagi er náttúrulega reykingabannið, í öðru lagi breyttar siðvenjur (t.d. held ég að tolerans fyrir klípingum og dónalegum athugasemdum sé alveg fyrir bí), í þriðja lagi öryggismyndavélar, í fjórða lagi símamyndavélar og twitter (við höfum mjög kraftmikið eftirlit hvert með öðru), í fimmta lagi alls kyns dresskóðar og svo framvegis og svo framvegis. Sennilega er (í alvöru) bara tímaspursmál hvenær það verður tabú að vera fullur á knæpu – og jafnvel bara bannað. *** Ég er enn að díla við nýja Stratocasterinn minn – sem er dásemd. Af því tilefni er gítarleikari vikunnar „hinn“ meistari Stratocastersins – Stevie Ray Vaughan.
createdTimestamp““:““2024-05-19T11:58:23.677Z““
Kvikmyndaklúbbur barnanna gerði sér lítið fyrir að þessu sinni og fór í bíó í Cinemark í City Mall. VIP-sæti – s.k. letipiltsstólar. Það var mjög vel loftkælt og við illa klædd. Myndin sem við sáum var endurgerð hinnar sögufrægu Lion King. Ég sá hana sennilega oft með frændsystkinum þegar ég var lítill en líklega aðeins of gamall til að hafa áhuga á henni sjálfur sem barn. Við höfum líka séð hana uppsetta sem söngleik í M.Í. Ekki er brugðið neitt út af sögunni svo ég hafi tekið eftir og sumar senurnar eru ramma fyrir ramma nákvæmlega einsog í teiknimyndinni. Þetta er óttalegt rúnk og rúnkað í allar áttir. Ef kjósendur Obama og kjósendur Trumps geta mæst einhvers staðar þá er það á þessari mynd – og sennilega allir gengið glaðir eða reiðir út eftir því hvernig þeir voru stemmdir þegar þeir komu inn. Þetta er bæði algert PC Gone Mad dæmi og hálfgerður prótófasískur áróður. Repúblikanarnir geta fagnað testósterónboðskapnum (ef þú drepur kónginn ertu kóngur) og því hvernig útlenda hyskinu (hýenunum) er haldið úti. Demókratar geta fagnað áróðri fyrir skordýraáti og vináttu meðal spendýra og ákveðnum svona fjölbreytileikaboðskap. Þá eru auðvitað woke-hetjur á borð við Beyoncé og Donald Glover í aðalhlutverkum. Rojalistar fá eðli málsins samkvæmt líka talsvert fyrir sinn snúð. Glover er lélegur í sínu hlutverki. Ég hugsaði ítrekað hvers vegna þau hefðu ekki bara fengið Kanye. Hann er mjög sannfærandi í mikilmennskubrjálæði sínu. Donald Glover er frábær gamanleikari og óhuggulega snjall handritshöfundur en hann hefur ekkert í svona dramatískt hlutverk að gera (hann leikur Simba). Virkar aldrei sannfærandi. Mér fannst Svarthöfði heldur ekki góður sem Múfasa – hann var líka í fyrri myndinni og ég man bara ekki hvernig hann var þar. Restin stóð sig ágætlega. Endurgerðir laga voru alltílagi – enginn Elton samt. Það er líka eitthvað sjúklega mikið kits við að færa svona teiknimynd yfir í „raunverulegri“ mynd. Og antropómorfíseringin kominn á eitthvað annað level. Og er viðeigandi því Lion King er myndin sem hóf þessar Aesópsku trakteringar í annað veldi á sínum tíma (og börnin sem ólust upp við að horfa á hana eru öll veganar). *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins missti úr síðasta sunnudag. Við komum dauðþreytt heim frá Copán seint að kvöldi og ætluðum að taka þetta bara daginn eftir en svo langaði okkur að klára þriðju seríu af Fargo. Við þurfum að ná okkur aftur á strik í kvöld (veit ekki hvernig það gengur; Nadja er á köfunarnámskeiði í allan dag og verður sennilega mjög þreytt). Ég hef ákveðið að segja eitthvað um sjónvarpsseríur þegar ég klára þær. Dokumentera áhorfið (ég veit að hér eru fáir lesendur en þetta er ekki beinlínis skrifað fyrir neinn nema sjálfan mig; ég bið þá sem ráða ekki við sig að lesa líka það sem þeim finnst leiðinlegt velvirðingar og ef það er ekki nóg fer ég bara aftur að blogga líkamshita mínum og innbyrtum kalóríum og hananú). Fargo var mjög fín. Hugsanlega besti árgangurinn hingað til. Einsog fyrri seríur og bíómyndin er þetta bærilega plottað farartæki fyrir góða leikara til að láta ljós sitt skína. Ewan McGregor, í hlutverki tvíbura, er smástund að venjast en nær sér á flug áður en yfir lýkur – Carrie Coon (úr Leftovers) er frábær í aðalhlutverkinu og Mary Elizabeth Swango líka. David Thewlis er hins vegar ekkert minna er stórkostlegur; ég man varla eftir öðrum eins performans úr sjónvarpsseríu, ekki frá því Omar Little var skotinn. *** Ég las The Green Mile eftir Stephen King. Þetta er mikil plebbavika (eða næstum tvær frá síðustu skrifum) og ef Jóhann Helgi les þetta kjöldregur hann mig sennilega. Ég var nefnilega byrjaður á A Tale of Two Cities og nennti svo ekki að lesa hana. Aram er svo mikið með kindilinn minn (kominn í Hungurleikana ofan í sænsku fantasíurnar) að ég neyðist til að sætta mig við hið takmarkaða úrval bóka sem hér er hægt að fá keyptar. Grænu míluna sá ég auðvitað í bíó fyrir þarna 20 árum eða hvenær það var og þótti sosum ekkert merkileg og bókin er áreiðanlega ekki heldur ein af betri bókum Kings. Það er í henni svipuð stemning og í Shawshank (sem ég man samt sem nokkuð betri bók). En það er einbeitingarskortur í mér þessa dagana – stundum held ég að ég sé með árstíðabundin athyglisbrest – og þægilegt að lesa eitthvað þar sem ég þekkti söguna og gerði ekki miklar kröfur á mig. Sagan, einsog oft hjá King en ekki alltaf, er fyrst og fremst bara saga. Það er ekki í henni nein sérstök „sögn“ – hún er ekki að leitast við að kryfja hið mannlega eðli eða gera neinar byltingar í félags- eða fagurfræði. Það mætti ábyggilega lesa eitthvað mjög rasískt í hana og hefur sjálfsagt verið gert af fólki með fleiri háskólagráður en ég, en hún er eiginlega of meinlaus til að það taki því – eða, orðið er kannski ekki meinlaust heldur „decent“. Stephen King, og mikið af aðalsöguhetjum hans, virka á mann sem svo almennilegt fólk að jafnt þótt það beri með sér alls konar fordóma tekur maður þá ekki alvarlega. *** Hér er sennilega rétt að taka fyrir uppistand Aziz Ansaris. Sem við Nadja horfðum á í vikunni. Right Now, heitir það. Það er mjög skemmtilegt og Aziz virkilega naskur í átökum sínum við woke-stemninguna. Hann er bljúgur gagnvart sjálfum sér og fortíðinni og fer í gegnum gömul listaverk – á borð við Hangover-myndina – og hvernig þau myndu ekki þykja ásættanleg í dag, áratug síðar, en líka hvers vegna við ættum ekki að leggja woke-mælikvarða 2019 á alla hluti. Græna mílan er 20 ára gömul og maður tekur strax eftir því sem væri „viðkvæmt“ í dag – fyrst og fremst noble savage frumskógarfábjáninn með lækningamáttinn sem stendur í miðri mynd. Við börnin lásum líka Ævintýri úr þúsund og einni nótt – og ekki veit ég hvað maður gerir við hana ef Hangover er yfir strikið. Ég fékk allt heila klabbið í jólagjöf frá ömmu minni þegar ég var 9, 10 og 11 ára – þrjú hnausþykk og falleg bindi sem ég gúffaði í mig fyrir áramót á hverju ári og á enn í dag. Ég kíkti á þetta fyrir nokkrum árum og þetta er sannarlega ekki mikið barnaefni – ekkert nema sifjaspell, klám og ofbeldi ofan í vafasaman boðskap. Þessi bók sem við lásum er bara nokkur ævintýri og alls ekki þau verstu – en t.d. bara þá koma konur varla fyrir nema sem gjaldmiðill. Ævintýri af þessu tagi eru börn síns tíma og bla bla bla en þetta eru líka sögur sem börn í dag spegla sig í og það er pínu óþægilegt. Af því, einsog Aziz bendir á, nú er 2019 og á þeirri spýtu hangir eitt og annað. Ég myndi heldur ekki lesa Hans Blævi fyrir 9 ára transbarn. Ég held reyndar vel að merkja ekki að börn séu svo viðkvæm að þau bara molni niður og verði aumingjar eða rasistar eða kvenhatarar af því að lesa „rangar“ bækur – eða svona. Almennt held ég að við vanmetum börn og ofmetum fullorðna. Þúsund og ein nótt fer ekki nærri jafn illa með barnsheilann og Græna mílan fer með fullorðinsheilann. Eða eitthvað. Ég er hálft í hvoru að grínast og veit aldrei alveg hvað mér finnst um þessa hluti. En þeir brjótast um í manni. Í lok uppistands síns fer Ansari að tala um hversu glaður hann sé að fá að standa þarna og tala við fólk – hversu þakklátur hann sé fyrir forréttindastöðu sína og svo framvegis. Hann var auðvitað metoo-aður – það var frekar mikið diet-dæmi, hann var fyrst og fremst sakaður um að vera svolítið ónærgætinn á stefnumóti – en átti að vera afboðaður eftir mikla grein í einhverju stóru blaði en fékk svo aftur að vera með. A.m.k. ef eitthvað er að marka vinsældir uppistandsins. Þetta er að mörgu leyti mjög óþægileg sena, þótt hún hafi átt að vera hugljúf. Ansari er að þakka heiminum fyrir að hafa ekki tekið sig af lífi (fyrir hálfgerðan tittlingaskít). Þá er líka áhugavert að þótt hann ræði talsvert afboðunarkúltúrinn í uppistandinu þá lætur hann vera öll þau mál sem hugsanlega væri hægt að verja. Hann tekur bara grófustu málin – Jackson kemur fyrir, R. Kelly, Cosby – en ekki t.d. kollegar Ansaris, Louis C.K. eða Woody Allen. Það er eitthvað maóískt við alla þessa auðmýkt og þakklæti. *** Ég byrjaði svo aftur A Tale of Two Cities. Las hálfan en hugsa að ég láti bara gott heita í bili. Engar aðfinnslur sem gætu ekki átt við hvaða Dickensbók sem er – hann er orðmargur (look who’s talking) og þetta er auðvitað á köflum mikið melódrama. En mig langar bara ekki að lesa hana núna – hugurinn hafnar henni í sífellu – og við það situr. Sorrí, Jói, segi ég af innilegri og maóískri auðmýkt. EKKI HATA MIG. *** Gítarleikari vikunnar er Eddie Van Halen.
createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.663Z““
id““:““8mkdg““
Um þriðjungur mannkyns mun hafa fengið spænsku veikina á sínum tíma í fjórum bylgjum og á bilinu 17-50 milljónir manns féllu í valinn. Faraldurinn hófst árið 1918 og stóð til 1920, þegar fyrsta blúsbylgjan hófst fyrir alvöru með Crazy Blues með Mamie Smith. Í ljósi þess að blúsinn er í grunninn alþýðutónlist og sem slíkur topikal – þ.e. hann fjallar um það sem er í deiglunni, um örlög starfsmanna á plani og plantekru – þá vekur athygli að tiltölulega fá lög fjalla um þennan ofsalega flensufaraldur. Að vísu dóu þá nokkuð færri í Bandaríkjunum en víða annars staðar – á bilinu 500-850 þúsund manns (miðað við 200 þúsund af Covid þegar þetta er skrifað) eða 0,5-0,8% af heildarmannfjöldanum – en margir veiktust og einn af hverjum 200 er heldur ekki ekki-neitt. Eðlilegasta útskýringin held ég að sé sú að fyrsta áratuginn eða svo – áratug blúsdrottninganna svonefndu – var blúsinn alls ekki alltaf harmrænn. Það var meiri áhersla á hedónisma og ákveðið siðleysi – og tónlistin var lækning við bláma sálarinnar, aðferð til þess að reka hina svörtu hunda á brott, frekar en einfaldur harmsöngur. Einsog Ida Cox söng: „Wild women don’t worry / wild women don’t get no blues“. Þegar að hinir þunglyndari gítaristar mæta á svæðið til að segja sínar sögur er flensan einfaldlega gleymd og grafin undir fargi nýrra harmleikja – Mississippi áin flæðir yfir bakka sína, ofbeldi Jim Crow tímabilsins og Ku Klux Klan er í algleymingi, kreppan er hafin og brauðstritið þrúgandi. Það voru aðrar sögur sem þurfti að segja. Önnur útskýring er að blúsinn er gjarn á að fjalla um hið sértæka frekar en hið almenna. Þannig er nóg til af blúslögum um sjúkdóma – Blind Lemon syngur í Pneumonia Blues að hann sé kominn með lungnabólgu af því að standa úti og bíða eftir ástinni sinni sem aldrei kemur; Bukka White syngur í High Fever að hann fari til læknisins til að kvarta undan sótthita en læknirinn segir að hann sé bara ekki nógu duglegur að fá sér knús; Victoria Spivey er vinalaus með berkla í TB Blues; Memphis Minnie er nær dauða af lífi af heilahimnubólgu í Meningitis Blues – en giska fá um faraldra. Þriðja útskýring er einfaldlega að gospeltónlistin – sem var gjarna stillt upp sem andstæðu blússins – átti sterkara tilkall til frásagna um veikindi og dauða. Þegar að blústónlistarfólk syngur um almennar flensur og veikindi, feigð og dauðalegu, er það yfirleitt að syngja gospel – með sínu nefi, en samt. Það vill síðan til að þessi togstreita milli blúss og gospels, drottins og syndarinnar, dauðaþrárinnar og lífsnautnarinnar markaði líf margra blústónlistarmanna og þess vegna eigum við lög einsog John the Revelator með Son House (sem predikaði jafnvel milli laga og fyrirvarð sig fyrir að vera annars að spila sína djöfullegu músík): Lagið John the Revelator er alþýðugospel sem Blind Willie Johnson var fyrstur til að taka upp. Um Blind Willie má það segja að hann er ýmist kallaður blús- eða gospeltónlistarmaður. Mér vitanlega söng hann aldrei um lífsins yndissemdir eða dásamaði syndina – öll hans lög fjalla um dýrð drottins og textarnir eru príma gospel. En hann spilar þau í stíl sem er ekki hægt að kenna við gospel með góðu móti – til þess er of mikið af blúsnótum, of mikill andskoti í röddinni. Ég á ekki við að hann sé ekki gospeltónlistarmaður – bara að hann sé augljóslega ekki ekki blústónlistarmaður líka. Og Blind Willie er þess vegna sá eini sem ég hef getað fundið frá þessu tímabili sem syngur um inflúensufaraldurinn (sem slíkan). In the year of 19 and 18, God sent a mighty disease. It killed many a-thousand, on land and on the seas. Well, we done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. We done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. Great disease was mighty and the people were sick everywhere. It was an epidemic, it floated through the air. Well, we done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. We done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. The doctors they got troubled and they didn’t know what to do. They gathered themselves together, they called it the Spanishin flu. Well, we done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. We done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. Seinna í sama lagi koma svo línur sem einhverjum gætu þótt kunnuglegar í dag: Well, the nobles said to the people, ”You better close your public schools.” ”Until the events of death has ending, you better close your churches too.” We done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. Fyrir þá sem eru hrifnari af Cowboy Junkies er líka til fín útgáfa af þessu lagi með þeim – af plötu þar sem ýmsir samtímamenn okkar votta Blind Willie virðingu sína , þar á meðal Tom Waits, Sinead O’Connor og Lucinda Williams. Blind Willie er raunar tíðrætt um spænsku veikina – og syngur líka um hana í uppáhalds laginu mínu með honum, God Don’t Never Change („God in the time of sickness / god and a doctor too / in the time of influenza / he truly was a god to you“). Besta inflúensulagið er hins vegar sungið af annars óþekktri söngkonu sem heitir Essie Jenkins. 1919 Influenza Blues. Ég hef verið að reyna að grafast eitthvað fyrir um hver hún var og komist litlu nærri (ég hef meira að segja lagt inn fyrirspurn á twitter til Ted Gioia, sem er einhver ofsalegasti blúsfræðingur samtímans). Lagið er að hluta til eftir hana sjálfa og tekið upp 1962 og gefið út af Arhoolie útgáfunni árið 1965. Essie er sjálf sennilega fædd 1931 og dó þá í ár – 25. febrúar, rétt í upphafi kórónafaraldursins. En þetta eru getgátur. Lagið er, einsog mörg blúslög, byggt á eldra lagi sem heitir Memphis Flu frá 1930 og er eftir mann sem kallast Elder David Curry. Lag Currys fjallar hins vegar um seinni flensufaraldur sem gekk yfir árið 1929 – og er nánast samhljóma laginu Influenza sem Ace Johnson söng fyrir þjóðfræðinginn John Lomax 1939. Þegar Essie snýr upp á það fjallar það hins vegar um spænsku veikina 1919. It was nineteen hundred and nineteen;
Men and women were dying,
With the stuff that the doctor called the flu.
People were dying everywhere,
Death was creepin’ all through the air,
And the groans of the rich sure was sad. Það er eitt og annað áhugavert að gerast í þessum texta. Eitt af því sem skilur harm flensunnar frá öðrum harmi og dauða á þessari gullöld harmsins er að flensan gerir ekki mannamun – einsog Bjarni Ben benti á erum við öll í sama bátnum (samt ekki, ekki varðandi aðrar afleiðingar – og ég veit ekki hvernig það var þarna 1919 en kórónaveiran leggst harðar og verr á fátækt fólk og jaðrað, af ýmsum ástæðum). Þórðargleðin leynir sér ekki þegar Essie syngur um kvein hinna ríku – loksins mega helvítin þjást með okkur hinum. Well it was God’s almighty plan,
He was judging this old land,
North and south, east and west,
It can be seen,
He killed the rich, killed the poor,
And he’s gonna kill some more,
If you don’t turn away from the shame. En í grunninn er auðvitað leiðinlegt að við séum að drepast svona fyrir tímann og eina leiðin til þess að komast hjá því er að við snúum baki við skammarlegum lífsháttum okkar. Hér bergmálar líka orðræða umhverfisverndarsinna og grænkera frá því í vor – að við getum sjálfum okkur um kennt að éta kjöt (kórónaveiran kemur úr kjötvinnslu) og með henni létti þunganum af móður jörð (við fljúgum minna, keyrum minna o.s.frv.). Allt slæmt sem kemur fyrir okkur er í grunninn afleiðing af gjörðum okkar – við erum sjálf hið vonda í heiminum. Þegar ég kópípeistaði textann tók ég eftir að sá sem skrifaði hann upp hafði skrifað „it killed the rich“ o.s.frv. frekar en „he killed the rich“. Það fannst mér áhugaverð misheyrn. Því hjá Essie fer ekkert á mili mála að það er ekki flensan sem drepur okkur – það er Drottinn sem drepur okkur. Flensur don’t kill people, God kill people, einsog segir í orðskviðunum. Down in Memphis, Tennessee,
The doctor said it soon would be,
In a few days influenza would be controlled.
Doctor sure man he got had,
Sent the doctors all home to bed,
And the nurses all broke out with the same. Það er alveg sama hvað læknarnir rembast. Loforð um sóttvarnir og bóluefni eru til einskis. Dauðinn kemur og sækir hina feigu. Influenza is the kind of disease,
Makes you weak down to your knees,
Carries a fever everybody surely dreads,
Packs a pain in every bone,
In a few days, you are gone.
To that hole in the ground called your grave. Og þannig er það nú bara. AUKAEFNI Influenza með Ace Johnson. Það hafa oft komið upp dellur í blúsnum – í kjölfar TB Blues Victory Spivey hér að ofan komu ótal margir berklablúsar. Það eru nú nokkur ár á milli þessara lungnabólgublúsa Blind Lemons, Big Bill Broonsy og Lightnin’ Hopkins, en það hlýtur samt að mega kalla þetta dellu. Og auðvitað verður enginn veikur einsog Skip James. Bukka White er ekkert lasinn – hann þarf bara að fá smá ást. Hér eru Cowboy Junkies með Blind Willie Johnson lagið sem var hér að ofan líka. Memphis Minnie er bókstaflega við dauðans dyr. Nú erum við kominn til samtímans. Ágætis kassagítarsblús frá Lane Steinberg. Þetta er einhvers konar indí-blús. Jonas Alaska er norskur „folk“ tónlistarmaður. Maður þarf ekki að horfa mjög lengi á þetta til að sjá hver hans helsta fyrirmynd er. Að lokum er það auðvitað minn maður. Ginsberg er veikur og nær honum ekki upp – sennilega er það slæma karmað eftir að hafa riðið öllum sætu strákunum.
id““:““39vt5″“
Fátækt á þriðja og fjórða áratugnum. Seinni heimsstyrjöldin. Víetnam. Katrina. Blúsinn er kannski alltaf í grunninn pólitísk tónlist, einsog Angela Davis hefur viljað meina – tónlist frelsunar og félagslegrar pólitíkur hins persónulega – en hann einblínir samt fyrst og fremst á reynslu einstaklingsins og er sjaldan narratífur og hentar því illa í dæmisögur eða breiðar samfélagslýsingar eða mótmælasöng. Blúsinn fjallar ekki um það þegar allir vöknuðu kvenmannslausir í kulda og trekki, hann fjallar um það þegar ÉG vaknaði kvenmannslaus í kulda og trekki. En það eru samt tímabil hér og þar og einstakir listamenn sem voru og eru pólitískir. Einsog stundum fyrir þessar færslur gerði ég langan spilunarlista með helstu „pólitísku blúsunum“ og síðan raðaði ég lögunum eftir ártali til þess að fá einhvers konar yfirsýn yfir þróunina. Það sem blasti við voru fjórar kveikjur – kreppan, stríðið, Víetnam og Katrina. Auðvitað væri hægt að gera lista með einu lagi frá hverju ári ef maður vildi skoða þróun pólitíska blússins sem slíks en þá myndi maður missa af lægðunum, svo að segja. Það er líka áhugavert að fátæktarlögin á fyrsta tímabilinu byrja áður en kreppan skellur á. Nobody Knows You When You’re Down and Out er auðvitað þekkt og fjallar um fallvaltleika ríkidæmisins – ekki beinlínis neitt kommalag, þótt það sé frábært – og kemur út rétt fyrir hrunið 1929. En heilu ári fyrr gefur Bessie út Poor Man’s Blues þar sem fátæka konan snýr sér að ríka manninum og ákallar hann: While you livin’ in your mansion
You don’t know what hard time means
While you livin’ in your mansion
You don’t know what hard time means
Oh, workin’ man’s wife is starvin’
Your wife is livin’ like a queen
Sem er náttúrulega áminning um að þrátt fyrir allt grobbið og glitsið í kringum blúsinn á hinum hvínandi þriðja áratug fyrir kreppu var lítill jöfnuður meðal manna og bara fámenn klíka sem Jay Gatsby lífsstílnum. Ríkidæmið í kringum þær týpur er í sjálfu sér stundum lofsungið, en það undirstrikar líka óréttlætið að þeir sem fljóta upp úr fátæktinni inn í millistéttir, efri-millistéttir og hástéttir er allt hvítt fólk. Þá undirstrikar ríkidæmið líka bara hið almenna óréttlæti kapítalismans, að sumir eigi fullt og aðrir fátt. Söngkonur einsog Bessie virðast líka hafa lagt sig eftir því að syngja pólitísk lög allan þriðja áratuginn – í blábyrjun ferils síns, 1923, syngur hún til dæmis hið feminíska Sam Jones Blues. Þegar ódámurinn sem hefur farið illa með hana birtist við dyrnar syngur hún: I used to be your lawful mate
But the judge done changed my fate
Was a time you could-a’ walked right in
And call this place your home sweet home
But now it’s all mine, for all time
I’m free and livin’ all alone
Don’t need your clothes, don’t need your rent
Don’t need your ones and twos
Though I ain’t rich, I know my stitch
I earned my strutting shoes
Say, hand me the key that unlocks my front door
Because that bell don’t read Sam Jones no more, no
You ain’t talkin’ to Mrs. Jones
You speakin’ to Miss Wilson now Það eru ekki endilega fleiri örbirgðarblúsar eftir kreppu en fyrir – gítarblúsararnir sem tóku við af hinum fjölmennu og glitrandi vaudeville-sveitum voru vissulega fátækir og lifðu í kulda og trekki en þeir lifa líka til hliðar við hið breiða samfélag manna og litu ekki á sig sem málsvara eins eða neins, nema í besta falli dansgólfsins og lífsnautnanna (sem voru aðallega landi og konur). En þeir voru samt nokkrir og þar á meðal sá allra fallegasti blús sem ég hef nokkurn tíma heyrt og ég hef líklega deilt hér tvisvar nú þegar með höfundinum, Skip James, og kominn tími til að fá kover. Þetta er Buddy Guy á plötu frá 2004. Þá er ekki síður áhugavert að þótt kveikjurnar séu þarna á tilteknum tímabilum þá er ekki þar með sagt að öll lögin séu bara alltaf um Víetnam og kreppuna og stríðið og Katrínu – heldur er meira einsog þjóðfélagsstemningin kalli á tiltekna afstöðu til lífsins, að annað óréttlæti verði líka ljósara. Big Bill Broonzy semur t.d. When Will I Be Called a Man árið 1928 (en það kemur ekki út í hans útgáfu fyrren 55), sem fjallar um kynþáttahatur, og Billie Holiday gefur út Strange Fruit árið 1939 (með talsverðum erfiðismunum eftir að Colombia hafnar því), sem fjallar um aftökur á svörtum mönnum. Á árunum í kringum stríðið syngur Lead Belly Bourgeois Blues, Take This Hammer og Jim Crow Blues – ekkert þeirra fjallar um stríðið en svo á hann auðvitað líka Mr. Hitler.
En Lead Belly var gjarnan pólitískur og það voru t.d. Josh White og J.B. Lenoir líka, alveg sama hvenær maður kom að þeim. Josh White er sennilega einn af fyrstu alvöru dægurlagasöngvurum vesturlanda sem gerir hreinlega út á að vera pólitískur söngvari. Josh var prestssonur og kommúnisti frá suðrinu sem náði gríðarmiklum vinsældum í Bandaríkjunum og komst meira að segja í gott vinfengi við Roosevelthjónin á stríðsárunum – þau voru guðforeldrar sonar hans og nafna. Síðar syrti í álinn þegar McCarthyisminn hóf innreið sína í bandarískt samfélag og hann dregur sig mikið í hlé. Hann afneitaði kommúnismanum við nefndina, sagðist hafa verið leiddur á villigötur, en neitaði að gefa upp nöfn félaga sinna – sem var helsti gjaldmiðillinn ef maður vildi fá að lifa og starfa áfram óáreittur (í umræðu um svartlistun og „aflýsingu“ er gjarnan látið einsog það sé ekki ritskoðun nema maður hafi helst pappír upp á að maður hafi verið svartlistaður – eða að það eigi enginn frægð sína heldur sé hún forréttindi sem hægt sé að innkalla ef maður reynist ekki í húsum hæfur – bæði er að einhverju leyti satt og helbert kjaftæði, en fyrst og fremst er þetta allt grátt svæði). Í öllu falli hraktist White úr landi til Englands og var þar fram til 1955 – en sama ár kom þetta lag:
Free and Equal Blues er samið löngu fyrr og byggir á hinu fræga St. James Infirmary, sem enginn veit hver samdi, en Josh hafði sjálfur átt stóran smell með árið 1944. En textinn er ólíkt pólitískari – í stað þess að fjalla um mann sem finnur elskuna sína látna á spítala er það um mann sem fer á spítala og spyr lækni hvort blóðplasmi sem hann rekur augun í sé úr svörtum manni eða hvítum og læknirinn fer að útskýra að á slíku sé ekki nokkur munur. Forsendan er einföld og boðskapurinn didaktískur – fyrsta erindið kannski banalt – en svo tekur White á flug og textinn verður miklu brjálaðri (og nánast rappaðri) en í orginalnum: So I stayed at that St. James Infirmary.
(I couldn”t leave that place, it was too interesting)
But I said to the doctor, ”Give me some more of that scientific talk talk,” and he did:
He said, ”Melt yourself down into a crucible
Pour yourself out into a test tube and what have you got?
Thirty-five hundred cubic feet of gas,
The same for the upper and lower class.”
Well, I let that pass . . .
”Carbon, 22 pounds, 10 ounces”
”You mean that goes for princes, dukeses and countses?”
”Whatever you are, that”s what the amounts is:
Carbon, 22 pounds, 10 ounces; iron, 57 grains.”
Not enough to keep a man in chains.
”50 ounces of phosophorus, that”s whether you”re poor or prosperous.”
”Say buddy, can you spare a match?”
”Sugar, 60 ordinary lumps, free and equal rations for all nations.
Then you take 20 teaspoons of sodium chloride (that”s salt), and you add 38
quarts of H2O (that”s water), mix two ounces of lime, a pinch of chloride of
potash, a drop of magnesium, a bit of sulfur, and a soupֱon of hydrochloric
acid, and you stir it all up, and what are you?”
”You”re a walking drugstore.”
”It”s an international, metabolistic cartel.”
And that was news, yes that was news, Þetta sama ár, 1955, birtist svo Muddy Waters og svaraði spurningunni sem Big Bill hafði spurt á tónleikum 1928 (en ekki gefið út fyrren einmitt þetta sama ár líka), hvenær hann yrði kallaður maður, með laginu Mannish Boy. Einsog ég hef nefnt kemur óþolinmæðin með rafmagnsblúsnum – og skal engan undra. Útlegging Muddys var enda sú að hann skildi kallaður maður strax, umyrðalaust, og ekkert kjaftæði. Af því ég er búinn að spila það hérna áður (og allir þekkja það) læt ég nægja að spila stórgóða og afar ólíka útgáfu Jimis Hendrix frá 1967. Hippaárin eru gjöful þegar kemur að pólitískum blúsum. Það syngja næstum allir eitthvað um Víetnamstríðið – JB Lenoir er með Vietnam Blues (1965), John Lee Hooker með I Don’t Wanna Go To Vietnam (1968), Champion Jack Dupree með Vietnam Blues (1971), Lightnin’ Hopkins með Vietnam Wars Pt. 1 & 2 (1968) og hið frábæra Please Settle in Vietnam ári síðar. Þar harmar Lightning sannarlega stríðið en sér líka ákveðnar jákvæðar hliðar á því, með sínu eigin sérstæða Pollýönnunefi: My girlfriend got a boyfriend fighting
She don’t know when that man coming back home
I said I hope he’ll stay forever
Cuz I ain’t gonna leave that girl alone Og svo framvegis og svo framvegis; en það eru líka lög um annan harm og óréttlæti – Nine Simone er með nokkur geggjuð, t.d. Four Women (um örlög fjögurra kvenna) og Backlash Blues (um allra handa óréttlæti, m.a. Víetnam), Mimi og Richard Farina eru með Mainline Prosperity Blues („Well, companion, you’ll forgive me / if I seem unwilling to succeed“). Upp úr 1970 er svo að koma þreyta í mannskapinn og árið 1972 koma Little Feat með lagið A Apolitical Blues – sem Van Halen koveruðu á plötunni OU812 (sem er einmitt fyrsta platan sem ég átti á geisladisk og ég fékk að gjöf frá móðurbróður mínum, Tryggva Hübner, sem er heiðursfélagi í Blúsfélagi Íslands og einhver allra besti gítarleikari landsins). Lagið er einsog létt útlegging á forhippískum smelli Bítlanna, Revolution, þar sem Maó formaður hringir í ljóðmælanda en ljóðmælandi bara nennir ekki að tala við hann í dag. Þetta ku versti blús allra blúsa („that’s the meanest blues of all“) – að vakna ekki bara kvenmannslaus heldur þreyttur á samfélagsmálunum, algerlega ópólitískur, hugsanlega bara samviskulaus. Í útgáfu Little Feat upplifir maður þetta sem í senn grín og alvöru – það er eitthvað létt og skiljanlegt í því – en Van Halen útgáfan er einhvern veginn kaldari. Einsog Little Feat viti betur en að halda að maður þurfi að nenna Maó (eða Maóistum) til að vera pólitískur – á meðan Van Halen vilji bara skreyta sig með því að vera sama.
Stóru augljósu lægðirnar í pólitískum blúsum sýnast mér vera um miðjan fjórða áratuginn og frá stríðslokum og fram til 1960 – með þeim undantekningum þó að á þeim tíma er JB Lenoir á fullu, Muddy gefur út Mannish Boy og Floyd Jones kemur með verkalýðsblúsinn Stockyard Blues: Frá því um 1970 og hreinlega fram að fellibylnum Katrínu 2005 er fátt um fína drætti. Auðvitað eru lög – það eru alltaf lög og yfirleitt góð lög – en pólitískur blús er hvorki í tísku né nær hann máli að ráði. Stevie Ray koverar bítlalagið Taxman (með svolítið harðari beiskju), Louisiana Red semur Reagan is for the Rich Man, Sunnyland Slim tekur upp Be Careful How You Vote, Odetta koverar Jim Crow Blues eftir Lead Belly og RL Burnside á kombakk á bakinu á Jon Spencer’s Blues Explosion og gefur út hið æææææææææðislega og fullkomlega súrrealíska Tojo told Hitler.
Svo kemur 9/11 og fjórum árum síðar fellibylurinn og þá verður sprenging. Otis Taylor kemur með Rosa, Rosa (2002) og Ten Million Slaves (2003), Guitar Shorty er með We, The People (2006), Norman og Nancy Blake eru með Don’t Be Afraid of Neo-Cons (2006), Charlie Musselwhite með Black Water (2006), Watermelon Slim er með samnefnt lag ári síðar, BB King koverar Backwater Blues eftir Bessie Smith (sem fjallar um flóðin í Mississippi 1927, sem var algengt þema í blúslögum þá – má líka nefna When the Levee Breaks eftir Memphis Minnie, sem Led Zeppelin gerðu að sínu – en vísar auðvitað í Katrínu og New Orleans þegar BB tekur það), Derek Trucks tekur Band-lagið Down In The Flood (2009), Roy Zimmerman er með Chickenhawk (2006) og svo framvegis. Yfirsýn mín verður verri eftir því sem nær dregur samtímanum en ég held að botninn hafi svolítið dottið úr þessu upp úr 2010. Ég er ekki með neitt lag frá 2009 til 2018 – þegar Delgrés gefa út hina geðveiku Mo Jodi plötu þar sem meðal annars má finna Mr. President. 2019 gefur Gary Clark jr. (sem er kannski ekki minn tebolli þótt lagið venjist) út This Land. En í þessu grúski rakst ég líka á eitt lag eftir Corey Harris, sem ég hef haldið upp á þótt þetta lag hafi farið framhjá mér. Corey var í stóru hlutverki í fyrstu myndinni í fimm kvikmynda seríu Scorseses um blúsinn, Feel Like Going Home, og ég uppgötvaði hann fyrir 1-2 árum í gegnum kover af God Don’t Ever Change eftir Blind Willie Johnson. Nánast í þessum orðum skrifuðum renndi ég yfir lagalistana á síðustu plötum hans – af því ég hef fylgt honum á Twitter og veit hann er pólitískur þótt ég hafi lítið spáð í það í tengslum við lögin (mest hlustað á koverin hans) – og þá bara birtist þetta og ég hlustaði á það og ég get svoleiðis svarið það að mér lá við að fara grenja. Það er greinilega nýbúið að hlaða laginu upp á YouTube en það er tveggja ára gamalt af plötunni Free Water Way. AUKAEFNI: Listinn – og hlekkur á playlistann á Spotify . Ég hefði getað tiltekið miklu fleiri lög frá bissí árunum – en mjög lítið fleira frá lægðarárunum. 1923 Sam Jones Blues – Bessie Smith 1928 Poor Man’s Blues Bessie Smith 1928 When Will I Be Called a Man – Big Bill Broonzy (tekið upp 1955) 1929 (What Did I Do to Be So) Black and Blue Louis Armstrong 1930 When the War Was On – Blind Willie Johnson 1931 orginall, 2004 með Buddy – Hard Time Killing Floor Buddy Guy 1937 Bourgeois Blues Lead Belly 1939 Strange Fruit Billie Holiday 1940 Take This Hammer Lead Belly 1940 Jim Crow Blues Lead Belly 1941 Southern Exposure Josh White 1941 Uncle Sam Says – Josh White 1942 Mr. Hitler Lead Belly 1943 War Song Buster Brown 1947 Stockyard Blues Floyd Jones 1951 Black, Brown and White Big Bill Broonzy (samið 45) 1954 Eisenhower Blues – J.B. Lenoir 1954 I’m in Korea J.B. Lenoir 1954 Livin’ In The White House J.B. Lenoir 1955 Free & Equal Blues (samið 40ogeitthvað) – Josh White 1955 Mannish Boy Muddy Waters 1960 Democrat Man – John Lee Hooker 1963 Red’s Dream – Louisiana Red 1965 No Payday Here J.B. Smith 1965 Vietnam Blues J.B. Lenoir 1965 Mainline Prosperity Blues Mimi And Richard Farina 1966 Four Women – Nina Simone 1967 Backlash Blues – Nina Simone 1967 Politician – Cream 1968 Big Boss Man – Jimmy Reed 1968 I Don’t Wanna Go To Vietnam John Lee Hooker 1969 Please Settle in Vietnam Lightnin’ Hopkins 1969 Vietnam T-Bone Walker 1969 Poor Moon – Bonus Track Canned Heat 1969 Why I Sing the Blues – BB King 1970 This is not a song, it’s an outburst: or the establishment blues – Rodriguez 1972 A Apolitical Blues Little Feat (líka til með Van Halen!) 1983 Reagan is for the Rich Man – Louisiana Red 1986 Taxman – Stevie Ray Vaughan 1989 Be Careful How You Vote – Sunnyland Slim 1996 Tojo Told Hitler R.L. Burnside 2001 Jim Crow Blues Odetta 2002 Ten Million Slaves Otis Taylor 2003 Rosa Rosa – Otis Taylor 2004 The Problem – JJ Cale 2006 Waves Of Grain Two Gallants 2006 We The People Guitar Shorty 2006 Don’t Be Afraid Of the Neo-Cons Norman Blake, Nancy Blake 2006 Chickenhawk Roy Zimmerman 2006 Black Water Charlie Musselwhite 2007 Bring The Boys Back Home David Evans 2007 Jesus And Mohammed Candye Kane 2007 You Don’t Really Wanna Know Charlie Wood 2008 A Time For Peace Eddy Clearwater 2009 Dubb’s Talkin’ Barnyard Blues Doug MacLeod 2009 Down in the Flood – Derek Trucks 2018 Mr President Delgres 2018 I Can’t Breathe – Corey Harris
2019 This Land – Gary Clark Jr.
createdTimestamp““:““2024-06-03T10:11:40.051Z““
id““:““b3e5c““
Ég er með höfuðverk. Sennilega er það svarti dauði. Ef ekki eitthvað þaðan af verra. Það er ekki alveg jafn sumarlegt og var hérna á helginni. Skýjað en hlýtt. Ég er að ýta á undan mér að senda frá mér stóran reikning. Af því þegar ég hef gert það þarf ég að snúa mér að skáldsögunni minni. Þeirri sem kemur sennilega ekki út fyrren í fyrsta lagi 2023 eða 2024 jafnvel. Þá hef ég enga afsökun lengur og er bara byrjaður að fresta út í loftið. Það tekur ekki nema tíu mínútur í mesta lagi að ganga frá reikningnum. En meðan ég á það ógert er það hann sem ég er að fresta og ekki bókin. *** Eiríkur nafniminn Guðmundsson bað Hallgrím Helgason afsökunar í útvarpinu í gær. Það var þá þriðja afsökunarbeiðnin, skilst mér – sú fyrsta var prívat fyrir sex árum. Önnur var á Facebook og þriðja núna í útvarpinu. Eftir því sem mér best skilst tók Hallgrímur fyrstu afsökunarbeiðninni og síðan þeirri annarri og nú hefur hann tekið þeirri þriðju – sem hann kallar samt snautlega og nefnir Eirík í sömu mund og Samherja. Eiríkur gerði sem sagt atlögu að Hallgrími, alveg einsog Samherji, með því að skrifa pistil fyrir sex árum hvers innihald var harðorð gagnrýni á sjálfhverfu rithöfunda (sem höfðu hver á fætur öðrum stokkið til og skrifað skáldævisögu sömu jólin – beint í kjölfar sigurgöngu Knausgaards á ensku). Hallgrímur talar um að hann hafi ekki beðið um þriðju afsökunarbeiðnina heldur viljað að Víðsjá brygðist „mannalega“ við – sem maður hlýtur að skilja svo að það hafi átt að reka Eirík. Eða kannski gera sérþátt um það hvers vegna mætti ekki fjalla um bókmenntaverk í menningarþætti nema af ítrustu nærgætni? Þetta er eiginlega sprenghlægilegt. Og minnir mig reyndar á það sem gerðist þegar Ebba Witt-Brattström skrifaði pistil í sænskt dagblað þar sem hún vitnaði í ritgerð kollega síns við Helsinkiháskóla um barnagirnd í verkum Karls Ove Knausgaard (eða unglingagirnd – girnd miðaldra karls í unglingsstúlkur – sem Knausgaard hefur bæði fjallað um í illa dulbúnum skáldsögum og ódulbúið í skáldævisögum). Karl Ove, sem öðlaðist heimsfrægð meðal annars fyrir að berhátta alla í kringum sig og delera um eðli þeirra (við miklar skammir), varð feykireiður og spurði hvort Ebba gerði sér ekki grein fyrir því að hann ætti börn sem væru að komast á þann aldur að þau gætu séð blöðin og ættu ekki að þurfa að lesa svona um pabba sinn? Það held ég reyndar fólkið sem Hallgrímur hefur sært með skrifum sínum í gegnum tíðina standi í röðum og bíði eftir afsökunarbeiðni frá manninum sem eitt sinn varð á orði að valið stæði milli þess að vera „góð manneskja“ og „góður rithöfundur“, þegar hann þurfti að réttlæta það fyrir sér að hafa orðið minningu látinnar konu til skammar. Ég varði hann í því máli og stend enn við það – skáldskapurinn verður að leyfa sér ýmislegt. En það gilda ekki sérreglur um Hallgrím Helgason og það sem maður ber á torg í verkum sínum verður maður að þola að sé rætt á torgum og staðreyndin er sú að þótt Eiríkur Guðmundsson hafi vitnað í ruddalegan texta í sinni umfjöllun þá skrifaði hann ekki umræddan texta og tók ekki undir þann gildisdóm sem í honum fólst heldur fordæmdi. Það sem hann hins vegar gerði – og fellur undir heiðarlega menningarkrítík – var að spyrja hvort þessi sjálfhverfa (í Hallgrími og fleirum) væri afurð þess sensasjonalíska samfélags sem þarf alltaf stærra og meira kikk. Ég held að svarið við þeirri spurningu sé tvímælalaust já. *** Ég hljóp aðeins í gær. Bara örlítið. Kálfinn þoldi það alveg en ég tók líka ekkert á. Svo veit ég ekkert hvort ég á að kalla þetta „verk“ eða „sársauka“. Mér skilst það sé alveg eðlilegt að maður finni aðeins til – bara á meðan það sé ekki „sársauki“, þá eigi maður að hætta strax. *** Ég hef fengið tvö boð í bólusetningu á Íslandi en gengur ekkert að fá tíma hér úti í Svíþjóð. Sem er bölvanlegt. Ef það eru sex vikur á milli sprauta þarf ég að fara að fá þetta í gegn ef ég á að vera fullbólusettur þegar við förum heim – sem myndi auðvelda allt (sök sér að fara í sóttkví heima – verra ef ég þarf að sitja í tíu daga sóttkví í Danmörku á leiðinni, því við eigum miða með Norrænu). *** Ég las Snöru eftir Jakobínu Sigurðardóttur. Eða reyndar las Arnar Jónsson hana. Ég hlustaði. Merkileg bók. Bæði frásagnaraðferðin (allur textinn er annar hlutinn af samræðu – allt sem einn maður segir, en ekkert af því sem hinn segir á móti) og textinn – Jakobína hafði næmt eyra fyrir talmáli og það má furðum sæta að textinn gangi upp í þessu formi, sem virkar svo brothætt. *** Plata vikunnar er tvenna einsog síðast, en nú tveir karlar. Tommy Johnson, jóðlarablúsarinn – og Sleepy John Estes, vælarablúsarinn. Frægustu lög Tommys eru Canned Heat Blues (sem hljómsveitin er nefnd eftir) og Cool Drink of Water Blues, með hinni frægu og síendurómandi línu „I asked for water but she gave me gasoline“ (sem Howlin’ Wolf gerði að sinni). Það var alls ekkert óvenjulegt að blúsarar jóðluðu á þessum tíma. Þótt það hefði verið eitthvað um jóðl í vaudeville-sýningum áratugum saman voru það fyrst og fremst vinsældir köntrísöngvarans Jimmy Rodgers sem varð mönnum einsog Tommy Johnson innblástur að sínu jóðli. Sleepy John Estes var einsog Tommy fæddur upp úr aldamótum. Hann var blindur á öðru auga. Á sínum yngri árum vann hann allan daginn og djammaði og spilaði blús allar nætur og átti það til að sofna á sviði og fékk þess vegna viðurnefnið Sleepy John. Hans langfrægasta lag er Diving Duck Blues, sem meðal annars Taj Mahal og Johnny Winter koveruðu – og Keb’ Mo og Taj Mahal tóku líka saman í kassagítarsútgáfu á nýlegri plötu. Tommy Johnson er sá sem djöflamýtan var fyrst sögð um – að hann hefði selt sálu sína á krossgötunum – sem var síðar færð yfir á Robert Johnson. Hann kemur líka fyrir í bíómyndinni O, Brother Where Art Thou (leikinn af Chris Thomas King). Hann tók ekkert upp eftir 1930 og lést 1956 (eftir tónleika) en Sleepy John lifði til 1977 og náði þar með að vera með í blúsendurreisnarstemningu sjöunda áratugarins og tók þá upp nokkrar plötur til viðbótar.