Hades: Undirheimarnir

Þarna í vinstra horni uppi er Glasnevin kirkjugarður. Bloom stendur einn.

En er eg hafði beðizt fyrir og heitið á draugasæginn, tók eg kindurnar og skar þær á háls ofan í gröfina svo dökkur dreyrinn rann; flykktust þá að vofur hinna dauðu drauga neðan úr Myrkheimi: ógefnar meyjar og frumvaxta sveinar, raunamædd gamalmenni, og ungar stúlkur, hugsárar af nýfengnum harmi: margir vopnbitnir menn, vegnir með eirslegnum spjótum, og báru blóðstorkin vopn; þeir komu flokkum saman úr sinni átt hverr, og flykktust að gröfinni með geysimiklum gný; greip mig þá bleikur ótti.

Úr 11. þætti Ódysseifskviðu

Í kviðu Hómers fer Ódysseifur til undirheima – eða særir þá eiginlega fram – og fær þar að vita hvernig sé best að komast heim til Íþöku og að ástæðan fyrir óförum hans hingað til sé sú að Póseidon sé að refsa honum fyrir að hafa blindað son hans, kýklópann Pólyfemus.

Þemað í kaflanum hjá Joyce er einsog gefur að skilja dauðinn. Við höfum vitað frá því í fyrsta kafla að Leopold Bloom er á leiðinni í jarðarför Paddys Dignam klukkan 11. Kaflinn hefst á því að Bloom – sem er nýkominn úr tyrkneska baðhúsinu – og vinir hans, Jack Power, Martin Cunningham og Simon Dedalus, stíga upp í hestvagn sem mun flytja þá þvert yfir bæinn upp í Glasnevin kirkjugarð, þar sem Dignam verður jarðsunginn.

Lesendur Joyce þekkja alla þessa menn. Simon er auðvitað pabbi Stephens – sterkgáfaður, íronískur, skemmtilegur en dómharður og hræðileg fyllibytta sem er flestum í lífi sínu til óþurftar. Hann hefur verið nefndur fyrr í bókinni og kemur líka fyrir í Portrait of the Artist as a Young Man. Power og Cunningham koma fyrir í smásögunni Grace úr Dubliners. Þar reyna þeir, ásamt M’Coy úr síðasta kafla, að fá Tom Kernan til þess hætta að drekka. Við vitum af frásögu M’Coy í síðasta kafla að Tom Kernan er á bender – svo þetta plan hefur ekki tekist sem skyldi.

Okkur verður síðan fljótt ljóst á tóni samræðanna í vagninum að þótt mennirnir fjórir séu vinir þá er Bloom utanveltu. Hinir þrír eru meiri vinir – Bloom er bara „með“.

Vagninn ferðast yfir fjórar ár – eða tvær ár og tvö síki – einsog það eru fjórar ár í Hades.

Eitt af því fyrsta sem gerist er að gömul kona gægist út um gluggatjöld á þá sorgarklæddu félagana í vagninum – „Nefið hvítflatt á rúðunni“ – og Bloom hugsar að þær (konur, væntanlega) séu líklega „glad to see us go we give them such trouble coming“.

Á leiðinni sjá þeir Stephen sem er á leiðinni niður á Sandymount strand – þar sem hann dólar í þriðja kafla (á þessum stað í bókinni renna sögur þeirra saman í tíma). Klukkan er rétt tæplega ellefu að morgni. Bloom kemur auga á Stephen og nefnir það við félaga sína og Simon spyr hvort „lubbinn hann Mulligan“ hafi verið með syni hans í för – og rantar síðan yfir því hvað Stephen umgangist mikinn „trantaralýð“ og kallar Mulligan samansaumaðan falskan djöfuls fant. „I’ll tickle his catastrophe, believe you me“ þýðir SAM skemmtilega sem „Sanniði til, ég skal dusta á honum drundinn.“ Þetta eru bæði svívirðingar sem ég ætla að hafa á hraðbergi héðan í frá.

Annað þema í kaflanum er vel að merkja hræsni – Simon er alger lubbi og landeyða sjálfur og á lítið með að dæma aðra.

Stephen er vel að merkja líka svartklæddur – klæddur sorginni – einsog mennirnir á leiðinni í jarðarförina. En Stephen er svartklæddur til lengri tíma – í ár minnir mig – því hann syrgir móður sína. Stephen og Bloom eru sem sagt báðir í sorgarklæðnaði alla bókina og báðir lyklalausir.

Reiðikast Simons verður til þess að Bloom fer að hugsa um sinn eigin son og hvernig það væri að eiga hann 11 ára gamlan í Etonbúningi. „My son. Me in his eyes. Strange feeling it would be.“ Og svo fer hann að hugsa um það hvernig hann kom undir. Þá hafði Molly staðið við gluggann og fylgst með hundum eðla sig og kallað á Leopold. „Give us a touch, Poldy. God I’m dying for it.“ Það er alveg ljóst að Bloom telur þetta ekki hafa verið fyrirmyndargetnað og hann tekur það samt alfarið á sig að sonur þeirra hafi dáið („If it’s healthy it’s from the mother. If not from the man.“)

Þeir spjalla um hverjir komi í jarðarförina. Martin Cunningham spyr hvort þeir hafi lesið ræðu Dan Dawson’s í blaðinu – Bloom segir nei og tekur upp blaðið en er sagt að líta á þetta síðar (ræðan kemur aftur upp í næsta kafla). Hann skannar þess í stað dánartilkynningarnar. Svo lætur hann hugann reika og augnabliki eftir að honum verður hugsað til Mollyar og Blaze Boylan („He’s coming in the afternoon. Her songs.“) sér Cunningham Boylan og reynir að heilsa honum en fær ekkert svar. („Just that moment I was thinking.}

Herra Bloom skoðaði neglurnar á vinstri hendi sér, síðan þeirri hægri. Neglurnar, já. Er eitthvað meira í hann spunnið sem þeir hún sér? Hrifning. Versti maður í Dyflinni.

Bloom dvelur aldrei lengi við þessar hugsanir um Boylan og Molly. Ekki einu sinni þótt félagar hans fari í framhaldinu að spyrja hann út í söngferðalagið.

Um leið og þeir aka framhjá styttunni af þjóðernissinnanum sir John Gray sjá þeir mann sem er lýst svo: „Hávaxinn svartskeggjaður maður hökti kengboginn við staf sinn.“ Okkur skilst fljótt að þetta sé gyðingur og okurlánari að nafni Reuben J. Dodd og hafa félagarnir um hann ljót orð en segja líka að þeir hafi allir einhvern tíma þurft að snúa sér til hans eða „Well, nearly all of us“, segir Martin Cunningham. Bloom er auðvitað gyðingur og þeir telja greinilega að það þýði að hann sé ekki líklegur til að verða fórnarlömb félaga sinna. Þarna undirstrika þeir hressilega að Bloom er ekki einn þeirra. Kaldhæðnin er svo reyndar líka að Reuben J. Dodd var raunverulegur maður og alls ekki gyðingur þótt margir héldu það. Bloom byrjar ákafur að segja slúðursögu um Reuben og son hans – sem hafi verið í kvennavandræðum og hafi átt að flytja til Manar – en hinir eru alltaf að grípa fram í og á endanum tekur Martin Cunningham að sér að klára söguna, sem er þannig að strákurinn reyndi að drekkja sér á leiðinni en bátsmaðurinn bjargaði honum og fékk eina flórínu að launum (sem þykir smánarlegt).

Jack Power notar tækifærið til þess að fordæma sjálfsmorð – engin smán sé meiri. Cunningham maldar í móinn og talar um tímabundna geðbilun og maður verði að líta á þetta af samúð. Bloom ætlar að segja eitthvað en hættir við. Hann hugsar vel til Cunninghams og nefnir að hann eigi í svolítið erfiðu hjónabandi – konan hans er áfengissjúklingur sem hefur í sexgang selt undan þeim húsgögnin til þess að fjármagna drykkju sína, en alltaf kaupir hann ný „Það gæti fengið steinhjarta til að bráðna.“

Í síðasta kafla komumst við að því að pabbi Blooms er dáinn og það var voðalegt og „kannski honum fyrir bestu“. Nú áttum við okkur á því – í hugsunum Blooms – að hann framdi sjálfsmorð – drakk eitur á hótelherbergi. Og skildi eftir bréf til sonar síns.

Vagninn tefst dálítið þegar þeir mæta nautgripahjörð sem er á leið til slátrunar. Bloom spyr hvers vegna borgin sé ekki með sporvagna til þess að flytja svona nautgripi niður að höfn. Cunningham tekur undir. Þá bætir Bloom um betur og stingur upp á útfararsporvögnum til að flytja syrgjendur í kirkjugarðinn (og nefnir að þannig sé í Mílanó). Power lýst ekkert á það en hinir eru heldur jákvæðari og Cunningham segir að þá myndu ekki gerast atvik einsog einu sinni þegar líkvagni hvolfdi og kistan „skopraði“ út á götuna.

Nú byrjar Bloom aftur að hugsa. Ímyndar sér að vagninn með Dignam velti. Spyr sig hvort líkum geti blætt. Íhugar að fara að heimsækja Millý í Mullingar. En afræður svo að láta það vera: „She mightn’t like me to come that way without letting her know. Must be careful about women. Catch them once with their pants down. Never forgive you after. Fifteen.“ Millikaflinn þarna um konur með buxurnar á hælunum á augljóslega líka við um Molly.

Næst koma þeir að stað þar sem framið var morð og ræða það – morðinginn var sekur en sýknaður. Bloom veltir fyrir sér hrifningu fólks á svona löguðu. „Menn eru sólgnir í að lesa um það. Mannshöfuð finnst í garð. Hún var klædd í. Hvernig hún varð við dauða sínum. Síðasti glæpurinn. Vopnið sem beitt var. Morðinginn gengur enn laus. Vísbendingar.“

Eitt sem er vert að nefna: Bloom er alltaf með sápuna sem hann keypti handa Molly í vasanum. Stundum truflar hún hann – hann hefur setið á henni alla ferðina. Nú koma þeir í kirkjugarðinn og hann notar tækifærið til þess að flytja hana í brjóstvasann.

Bloom finnst jarðarförin lítil. Martin Cunningham segir Power frá því að sér hafi dauðbrugðið þegar hann fór að tala um sjálfsmorð fyrir framan Bloom – það kemur í ljós að Power hafði ekki hugmynd um sjálfsmorð föður hans.

Næst fara þeir að ræða líftryggingu Dignams og barnafjöldann sem hann skilur eftir sig. Cunningham ætlar að safna peningum fyrir börnin og Bloom gefur duglega í sjóðinn. John Henry Menton, vinnuveitandi Dignams, hefur skráð sig fyrir pundi.

Séra Coffey les yfir líkinu („I knew his name was like a coffin. Domine-namine.“ Bloom veltir því fyrir sér hvers vegna presturinn sé svona þaninn, einsog hann sé fullur af gasi, og að það hljóti að vera allt fullt af gasi og eiturgufum á svona stað. „Down in the vaults of saint Werburgh’s lovely old organ hundred and fifty they have to bore a hole in the coffins sometimes to let out the bad gas and burn it it. Out it rushes: blue. One whiff of that and you’re a goner.“ Dauðinn: Bráðdrepandi.

Bloom finnst annars lítið til Coffey koma. Finnst þetta allt frekar andlaust og leiðinlegt og virðist ekki alveg skilja hvernig nokkur maður nennir þessu eilífa kirkjuhjakki.

Á einum stað nefnir Simon að „hún“ sé grafin þarna – konan hans, heitin, móðir Stephens – og á öðrum nefnir Bloom að hann eigi reit þarna, þar sem foreldrar hans hvíla, og sonurinn Rudy sem dó ellefu daga gamall.

John Henry Menton spyr hver Bloom sé og Ned Lambert svarar því og þeir virðast sammála um að Molly sé alltof „finelooking woman“ fyrir hann. Menton segist hafa lent upp á kant við Bloom einu sinni í keiluspili. Bætir svo um betur gagnvart Bloom og kallar hann „halanegra“.

Blaðamaðurinn Hynes segir brandara um mann sem kom fullur í kirkjugarðinn að leita að leiði vinar síns og kvartaði svo undan því að jesúlíkneskið við leiðið væri alls ekkert líkt honum.

Bloom hugsar málin einsog honum er vant – hingað og þangað. Hugsar um auglýsinguna fyrir Keyes sem hann þarf að selja. Molly virðist hafa truflað hann þegar hann var að skrifa heimilisfangið á svarbréfið til Mörthu. Hvort það væri hægt að ná sér í „unga ekkju“ á þessum stað. „Ástir innanum legsteina“. „In the midst of death we are in life.“ Svo fer hann að íhuga hvort ekki væri hægt að spara pláss með því að grafa fólk upprétt. Og hvort líkin séu ekki góður áburður – grasagarður borgarinnar er rétt hjá. Einhver hefur sagt honum að valmúi vaxi vel í kínverskum grafreitum og sá valmúi verði besta ópíumið. En það sé auðvitað mikið af möðkum í jörðinni. Hugsar um grafarana í Hamlet (það ku vera stytta af frægum írskum leikara í garðinum, klæddum upp einsog Hamlet).

Og þá er komið að kallinum í Macintosh frakkanum. Regnfrakka hefur SAM það í fyrstu – sem það kannski er – en allavega hefur nafnið þýðingu. Bloom sér hann álengdar og veltir því fyrir sér hver þetta sé. Hann kemur svo aftur og aftur fyrir í bókinni án þess að því sé nokkurn tíma svarað hver hann sé eða neinn eigi (eftir því sem ég man best) nokkur samskipti við hann. Sumir segja að þetta eigi að vera vofan af föður Bloom – einsog vofa föður Hamlets ofsækir hann – aðrir að þetta sé Joyce sjálfur (hann var á kreiki í Dublin þennan dag, 16. júní, 1904, þetta er dagurinn sem hann fór á fyrsta stefnumótið með eiginkonu sinni Noru Barnacle). Því verður aldrei svarað en gátan er þarna. Og Bloom telur „bera hausana“ (karlana) og kemst að því að þeir eru tólf, þrettán með Macintosh-manninum: „Tala dauðans.“

Ofan í gripasporvagna fyrir naut til slátrunar og útfararsporvagna til að flytja líkin í kirkjugarðinn þar sem þau ætti helst að grafa upprétt veltir Bloom því nú fyrir sér hvort ekki sé hægt að straumlínulaga þetta ferli enn frekar:

Aumingja Dignam! Hinsta hvíla hans í jörðinni í þessum kassa. Þegar hugsað er til þeirra allra virðist það vera hreinasta sóun á tré. Allt sundurnagað. Það mætti finna upp fallegar líkbörur með rennibraut og fellihurð svo hægt væri að skurra þeim niður. Já, en þá kynnu menn að heimta hver sína eigin rennihurð. Þeir eru svo smámunasamir.

Í smástund hefur hann svo áhyggjur af því að verið sé að grafa Dignam lifandi. Og stingur upp á lausn á því líka:

Það ættu að vera lög um að hjartað sé gegnumstungið til öryggis eða höfð sé rafmagnsbjalla eða sími í kistunni og einhvers konar loftrenna úr segldúk.

Blaðamaðurinn Hynes kemur og man greinilega ekki hvað Bloom heitir – en spyr bara um fornafnið til að fá bæði. Bloom biður hann að skrifa líka niður nafn M’Coys, einsog hann var beðinn um í síðasta kafla. Hynes spyr hvort hann viti hver þetta sé þarna maðurinn í … „the Macintosh?“ spyr Bloom og Hynes, viðutan, svarar: „M’Intosh. Ég veit ekki hver hann er. Heitir hann það?“ Þegar Bloom svarar er Hynes horfinn á braut.

Það er mokað í gröfina. Syrgjendur halda sinn veg. Félagarnir rölta yfir að gröf „Leiðtogans“ – Charles Stewart Parnell. Sá kemur ítrekað fyrir í Ulysses og raunar hinum ´bókunum líka. Hann var eins konar frelsishetja sem miklar vonir voru bundnar við áður en hann lenti í slaufun fyrir að vera í tygjum við gifta konu (í strangkaþólsku landi). Hann missti æruna en gafst ekki alveg upp en lagði svo hart að sér í næstu kosningabaráttu að hann veiktist – stóð úti í rigningunni of lengi – fékk lungnabólgu og drapst. Hann er einhvern veginn í senn píslarvottur frelsisbyltingarinnar og allar hennar brostnu vonir.

Herra Power segir:

„Sumir segja að hann sé alls ekki í gröfinni. Að kistan hafi verið fyllt grjóti. Að hann birtist aftur einn góðan veðurdag.“

Hynes segir að svo verði ekki. „Friður sé með dufti hans.“

Bloom byrjar aftur að velta vöngum. Hugsar meðal annars um að það þyrfti að taka upp raddir hinna látnu svo maður gleymi þeim ekki.

Eftir mat á sunnudögum. Leggja veslings gamla langafa á fóninn. Kraahraark! Hallóhallóhall, enhvaðþaðergaman kraark virkilegaman hallóhalló égeróg kopþsj. Minnir mann á röddina einsog ljósmyndin minnir mann á andlitið.

Í lok kaflans snýr Bloom sér að Menton til þess að segja honum að hann sé með beyglu í hattinum. „John Henry Menton starði á hann stutta stund án þess að hræra legg eða lið.“ Það er ekki fyrren Martin Cunningham bendir honum á beygluna að hann réttir hana og þakkar (Martin) fyrir.

„Herra Bloom var daufur í dálkinn og dróst nokkur skref afturúr til að heyra ekki um hvað þeir voru að tala.“

Svo ganga þeir að hliðinu og yfirgefa Hades.

Af öllum köflum Ulysses er Hades sá sem á sér flestar beinar samsvaranir í kviðu Hómers. Og þetta er líka fyrsti kaflinn sem Joyce byrjaði að plotta – upprunalega átti þetta að vera smásaga um kokkálaðan gyðing sem fer í jarðarför og þaðan með vinum sínum á krá þar sem gert er lítið úr því að hann sé alvöru Íri (seinni hlutinn kemur síðar). Og hefði þá líklega endað í Dubliners.

Dignam er Elpinor, stríðsmaður Ódysseifs sem datt fullur í sjóinn og drukknaði (það er talað um að hjartað hafi drepið Dignam en af ítrekuðum vísbendingum í gegnum bókina má fullyrða að það sem hafi drepið hjartað hafi verið brennivínsdrykkja).

Cunningham er Sýsifos – sá sem veltir steininum ítrekað upp fjallið til þess að endurtaka leikinn síðar. Konan hans, fyllibyttan, er brekkan og húsgögnin eru steinninn.

Árnar eru fjórar, einsog áður segir.

Reuben, sem gaf bátsmanninum flórínu – bátsmaðurinn er Karon (sem þiggur mynt til að flytja menn yfir Styx – sú mynt er gjarnan lögð á augu hinna látnu).

Séra Coffey er hundurinn Cerberus – honum er lýst sem hundslegum. Og það er bara fyrir hans orð/blessun sem maður fær að fara yfir í ríki hinna dauðu.

John O’Connell – raunverulegur maður – er umsjónarmaður kirkjugarðsins og sjálfur Hades, undirheimakóngur. Hades er giftur frjósemisgyðju og kona O’Connells hefur borið honum átta börn.

Parnell er Agamemnon – hjúskaparbrot kostuðu hann lífið (Agamemnon er reyndar myrtur af eiginkonu sinni og elskhuga hennar).

Menton er Ajax sem neitaði að tala við Ódysseif út af einhverjum gömlum smámunum.

Og svo framvegis.

Við færumst sífellt nær Bloom, sem er einhvern veginn alltaf í senn þjakaður en samt að axla byrðina. Hann er ægilega breyskur og mannlegur og það er alveg lífsins ómögulegt annað en að finna til með honum. Honum finnst að hann hafi stuðlað að dauða sonar síns. Konan hans er að fara að halda framhjá honum. Dóttir hans, sem hann er náinn, er að fjarlægjast og fullorðnast. Vinir hans eru lélegir vinir. Hann er gyðingur og Írar hafa upp til hópa fordóma gagnvart gyðingum. Og hann er gyðingur en samt kaþólikki og á ekkert samneyti við aðra gyðinga (í sláturhúsinu um morguninn ætlar hann eitthvað að fara að tala við slátrarann, sem er gyðingur, en lætur það svo vera á síðustu stundu). Og finnst trúarbrögð öll hálfgert húmbúkk – en samt stundum vinalegt húmbúkk. Borgin í kringum hann er þjökuð af áfengissýki og fátækt en hann hefur ekki einu sinni vit á að drekka það frá sér. Og einsog honum finnst þetta allt erfitt sligar það hann ekki – það sigrar hann ekki – það er einsog hann andvarpi svolítið, sjái ljósu hliðarnar, dökku hliðarnar, skrítnu hliðarnar, og taki svo annað skref, haldi áfram. Honum þykir augljóslega vænna um fólkið í kringum hann en fólkinu þykir um hann og kannski líður honum betur þess vegna – það fyllir hann a.m.k. ekki beiskju. Hann nýtur kærleikans og sennilega er það kærleikinn sem bjargar honum.

Bloom fær hins vegar engar vísbendingar um það í heimi hinna dauðu um það hvernig hann eigi að komast heim, né heldur fær hann neinar upplýsingar um það hvers vegna allt gangi á afturfótunum hjá honum. Það er ekkert samsæri, enginn Póseidon sem hefur lagt á hann bölvun. Ég held ég taki samt undir með bloggaranum „Kelly“ á Blooms&Barnacles sem skilur kaflann svona:

The rituals on offer to soothe the grief of losing a friend are of no use to Bloom because he doesn’t believe in their power – they’re simply a bunch of nominedomines. He doesn’t have intimate connections with his fellow mourners to lean on for support. Even poor Paddy seems like an acquaintance at best. Odysseus traveled to the underworld to learn his fate from the seer Tiresias, but Bloom leaves Glasnevin with no such illumination. He re-emerges, instead, with the knowledge of pain of the living world and his place within it. He is not engulfed in supernatural horror or a fear of hell. He does the most life-affirming thing that he can: he goes on living.

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * *

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

One thought on “Hades: Undirheimarnir”

  1. Mér hefur oft þótt Ódysseifur og Bloom ólíkir – sérstaklega af því Bloom er þrátt fyrir alls kyns tráma ekki líklegur til að fara að slátra stórum hópum fólks. Eða einu sinni brýna raustina. En í nýrri grein um Ódysseif í Guardian endar höfundur á þessum orðum, sem ríma við orð Kellyar hér að ofan:

    „The Iliad is the poem of death. Death stalks its lines, blood soaks it. Countless young men appear in the poem only to be cut down. Its hero, Achilles, scythes mercilessly through hundreds of bodies in an attempt to slake his grief and fury at the killing of his beloved companion, Patroclus. But at the heart of the Odyssey there is life, and survival. This survival isn’t pretty, or comforting, or dignified. It involves deep loss: of comrades, of home, of a sense of place, of status, of belonging, of identity – and when those things are restored, it is not certain, exactly, what has been regained. But Odysseus is alive. He is alive, he breathes, he goes on.“

Skildu eftir svar við Eiríkur Örn Norðdahl Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *