Ég skrifaði heila færslu um barnamálaráðherramálið í síðustu viku sem ég svo eyddi. Það er gaman að velta sér upp úr þessu, með og á móti – gaman að hneykslast auðvitað og gaman að verja og ekki síst gaman að relatívisera. Hvað ef bæði hefðu verið ári eða tveimur yngri eða eldri? Hvað ef kynjahlutverkunum væri svissað? Hvað ef þetta hefði gerst í fyrra? Gaman að velta sér upp úr því hvað sé trúnaðarbrestur, hvað sé tálmun, hvað sé fullorðinn einstaklingur – hvar allar þessar línur liggja. Því það er bara langt í frá eitthvað augljóst. Þetta eru æsandi umræðuefni. En kannski einmitt þess vegna eiga þau betur heima á kaffistofum en bloggsíðum og samfélagsmiðlum. Við þurfum áreiðanlega að geta speglað okkur í þessu – borið þetta saman við önnur siðferðismál, sett okkur í spor hinna ólíku þátttakenda, fundið til með fólki, jafnvel hlegið svolítið, hneykslast smá – þannig skiljum við okkur sjálf. Hvað hefðum við sjálf gert 15 ára? Hvernig vorum við sjálf 22 ára? En það er eitthvað hræðilega klámfengið við opinbera birtingarmynd þessa á samfélagsmiðlum. Hvernig fólk stekkur til og túlkar alla fréttapunkta linnulaust – með fingurinn á lofti, fýlusvip í framan og augun upp á gátt – á meðan myndin er enn að skýrast – til að óa sig og æja í þessu sífellt háværara fuglabjargi þar sem þeir sem augljóslega vita og hugsa minnst garga undantekningalítið af mestum ákafa.
Ég sem sagt stóð mig að því að hafa raðað mér í gargröðina og undirbúið ræðuna en mér bar gæfa til að eyða henni. Sjálfur hef ég ákveðið að hafa enga skoðun á þessu aðra en þá að það sé ágætt að fólk víki úr mikilvægum embættum hafi það ekki almennt trúnaðartraust til þess að sinna sínum störfum – og það getur líka gerst án þess maður hafi gert eitthvað sem er raunverulega siðferðislega ámælisvert, það getur alveg gerst að ósekju. Traust snýst líka um ímynd – ef ímyndin er löskuð er líklegt að það hamli manni í starfi. Maður þarf kannski ekki að vera flekklaus – það væri ekki gott – en maður getur ekki verið með mikinn farangur heldur. Af því maður þarf líka að mæta fólki sem hefur ekki samúð með manni.
Og svo getur það auðvitað gerst af því maður hagaði sér einsog alger djöfuls drulluháleistur – t.d. af því maður varð uppvís að því að reka skúffufyrirtæki á aflandseyjum til að skjóta fé undan skatti. Það þýðir kannski ekki að maður eigi einhverja allsherjar slaufun skilið – en maður ætti helst ekki að sitja á þingi. Slíkt snýst hins vegar yfirleitt og því miður um sómakennd hvers einstaklings – og því getur kannski ekki verið öðruvísi farið – og einsog við vitum hefur fólk mjög mismikla sómakennd. Og því fer sem fer. Fólk með sómakennd segir af sér, fólk án sómakenndar situr sem fastast.
***
Er þetta færsla um barnamálaráðherramálið? Er þetta einhvers konar metagagnrýni á „umræðuna“ – er gagnlegt að stunda slíka gagnrýni? Ég veit það ekki.
Ég fór til Patreksfjarðar á föstudag og las upp á Prentverkstæðinu hjá Birtu Ósmann og Grími manni hennar. Þau eru miklir höfðingjar heim að sækja. Buðu upp á humarsúpu og heimagerðan harðfisk. Ég fékk að gista hjá þeim um nóttina og keyrði svo heim daginn eftir. Þetta er samt ótrúlega stutt þegar leiðin er opin yfir Dynjandisheiði. Rétt rúmir tveir tímar á lölli – ég keyri mjög hægt. Á móti kemur að heiðin er ekkert mokuð á helgum og ef það hefði eitthvað snjóað aðfararnótt laugardags hefði ég þurft að fara lengri leiðina – í gegnum Reykhóla og yfir Þröskulda og upp Ísafjarðardjúp. Það tekur sjö tíma að keyra þá leið. Samt á þetta að heita sama svæði út frá margri stjórnsýslu – þetta er t.d. sama lögregluumdæmi.
Á fimmtudag hefst síðan B´ókmenntahátíðin á Flateyri. Þar verður mikið að gerast. Fyrir utan lókal höfunda – mig, Helen Cova (sem á veg og vanda að hátíðinni), finnska metsöluhöfundinn Satu Rämö, leikarann og leikhúsgrúskarann Elfar Loga, pólska þrillersmiðinn Jarek Czechowicz, og litháíska skáldsagnahöfundinn og ritlistarkennarann Gretu Lietuvninkaite – koma hingað höfundar einsog Sjón, Gerður Kristný, Angela Rawlings, Elee Kraljii Gardiner, Elías Rúni, Bergrún Íris, Sindri Sparkle, Tessa Rivarola, María Rut Kristinsdóttir, Maó Alheimsdóttir, Elías Knörr og fleiri.
***
Ég hef verið að sinna samfélagsmiðlum síðustu vikurnar og það er alveg ótrúlegt hvað þetta hefur neikvæð áhrif á allan minn lestur. Strax og ég opna fyrir þessa vítisgjá missi ég alla einbeitingu – og jafnvel lestrarnautnina líka. Ég er þarna einsog venjulega til að prómótera og kannski er það tilgangslaust en mér finnst samt alltaf einsog ég eigi að gera það – að ég skuldi bókinni það. Þegar hurðin er á annað borð opin skrolla ég samt bara einsog heilalaus draugur. Og þegar ég tek upp b´ók fylgir lestrarmynstrið mér – augun skima bækurnar og taka ekki inn nema hluta af því fyrir þau ber.
En eftir Bókmenntahátíðina á Flateyri eru engar skipulagðar uppákomur fyrirliggjandi (nei, ég verð ekki á bókmenntahátíð í RVK frekar en fyrri daginn – a.m.k. ekki sem þátttakandi í neinu bókmenntaprógrammi, það er ekki 100% óhugsandi að ég fari sem gestur) og þá slekk ég aftur á vítisvélinni. Þið verðið bara að lofa mér að vera dugleg að fylgjast með Mogganum og Kiljunni og Bókmenntavefnum og Lestrarklefanum og Heimildinni ef það skildi berast einhver krítík – það er ósennilegt að ég dreifi henni.