Dinnerljóð

Einhvern tíma á Nýhilárunum þegar ég var orðinn þreyttur á ljóðapartíum – þreyttur á endurtekningunni – bloggaði ég um einmitt það. Að þetta væri alltaf eins. Fyrirsjáanlegt. Við værum að breytast í allt sem við þoldum ekki. Paint-by-numbers flón að látast vera ljóðskáld frekar en að vera það. Þetta vakti skiljanlega litla lukku hjá vinum mínum sem höfðu skipulagt ljóðakvöldið þar á undan – kvöldið þar sem ég varð fullsaddur. En á þessum tíma var samt einhvern veginn eðlilegra að vera ósammála um hluti. Og eðlilegra að skipta um skoðun. Eðlilegra að takast á. Það var ekki uppi nein krafa um harmoníu. Við bara þrættum og ég útskýrði hvað ég ætti við og baðst afsökunar á að hafa sært þá sem ég særði. Sennilega baðst ég meira að segja efsökunar og það þótti bara alls ekki glæpur.

Um svipað leyti – sennilega bara beint í kjölfar þessa kommentakerfisstríðs við vini mína – gekk ég með þá hugmynd í maganum að snúa ljóðapartíinu alveg á hvolf. Að hanna ljóðaviðburð þar sem ljóðlistin væri einsog dinnertónlist. Hún væri viðstöðulaust í bakgrunni. Lágt en ekki þannig að maður heyrði hana ekki. En gestir væru í raun að fást við eitthvað annað. Sósíalísera. Borða mat af hlaðborði. Þessari hugmynd var álíka vel tekið og þegar ég stakk upp á því að við myndum halda ljóðakvöld á strippklúbbnum Vegas. Sem sagt bara alls ekki vel. Og því varð aldrei neitt úr neinu heldur.

Um daginn tók ég upp eitt ljóð úr Fimm ljóðum. Ég var að fara að lesa upp einhvers staðar og var að æfa mig og ákvað að taka það upp til að hlusta. Svo fiktaði ég aðeins í hljóðinu af því mér finnst þanniglagað gaman og úr varð þessi upptaka sem hefur legið á harða drifinu mínu í nokkrar vikur. Og hún sem sagt minnir mig á þessa hugmynd mína um dinnerljóðakvöld.

Lyklavöld – úr Fimm ljóðum

Af sprúðlandi fullnægingarlýsingum og smørrebrødsnautninni

Þriðjudagur. Ég var í Víðsjá í dag. Viðtalið hefst þegar það er svona hálftími liðinn af þættinum. Ég hlusta mjög sjaldan á viðtöl við sjálfan mig en ég hlustaði á þetta og þetta var alltílagi þótt ég hefði mátt segja sjaldnar „hérna“ og „sko“ og „sem sagt“ og kannski tala aðeins hægar.

Annars hef ég tekið eftir því að fólki finnst það ekkert tala hratt þegar það talar hratt. Því finnst það bara tala eðlilega.

Í morgun fékk ég þau skilaboð að kontrabassinn minn væri kominn til Reykjavíkur og færi af stað vestur ´a morgun eftir uppsetningu. Ég er rosalega peppaður.

„Fullnægingarlýsingarnar þóttu mér vægast sagt framandlegar“. Þetta var fyrirsögn á bókadómi í Dagens Nyheter í morgun. „Jag känner mig djupt främmande inför beskrivningarna av orgasmer.“ Um daginn var önnur fyrirsögn í sama blaði: „Skilnaðarskáldsaga Helle Helle er jafn mikil nautn og smørrebrød.“ Sennilega væri þjálla að segja „Að lesa skilnaðarskáldsögu Helle Helle er jafn mikil nautn og að borða smørrebrød“ en ég er bara ekki viss hvert gagnrýnandi var að fara með þessu og þori ekki neinum túlkunarþýðingum. Mér finnst það samt skemmtilegt enda er ég sérstakur áhugamaður um það hvernig maður tjáir sig um nautnina að lesa – mér finnst ekki endilega að gagnrýni eigi alltaf að vera analýtísk fyrst og fremst, heldur megi hún líka bara lýsa lestrarupplifun tiltekins einstaklings. Og þessi smurbrauðslýsing segir eitthvað. Einsog þetta með fullnægingarlýsingarnar. Þetta er allavega skemmtilegra en konfektviðlíkingarnar og allt það.

Annars tók ég eftir því að orðið „sprúðlandi“ var notað í auglýsingu fyrir Fimm ljóð á dögunum. Reyndar var það notað til þess að lýsa Náttúrulögmálunum. „Frá höfundi hinnar sprúðlandi skáldsögu“ stóð, minnir mig. Ég held að þetta orð sé eiginlega bara notað til þess að lýsa skáldsögum. Arngrímur Vídalín skrifaði aðeins um orðið fyrir nærri 20 árum síðan (þegar hann var sennilega 13 ára) og ég fann líka Facebook-umræðu um það en allir stóðu svolítið á gati. Hins vegar þykir mér alveg ljóst að hér sé komin sænska sögnin „sprudla“ – sem þýðir að búbbla eða tindra eða iða af lífi. Mér skilst að Þórbergur hafi notað þetta í ljóði en ég hef Pál Baldvin grunaðan um að hafa komið þessu í umferð í bókadómum. En ég finn líka eldri dæmi frá Soffíu Auði, sem hefur haldið upp á þetta á tímabili – og elsta dæmið úr bókadómi er frá Dagnýju Kristjáns 1980, sem fjallar um Hvunndagshetju Auðar Haralds.

Framan af virðist þetta líka hafa verið mikið notað um leikhús en tekið stökk í notkun upp úr miðjum fyrsta áratug þessarar aldar og þá aðallega um bókmenntir. Og kannski bara skáldsögur. Er ljóðabókum lýst sem sprúðlandi? Eru plötur nokkurn tíma sprúðlandi? Sjónvarpsþættir?

***

Á RÚV er viðtal við framkvæmdastjóra kvikmynda´hátíðarinnar Stockfish sem segir fjölda kvikmyndahátíða á Íslandi „umhugsunarefni“.

Þessar hátíðir fylgja ekki beint framboði og eftirspurn. Þetta veltur meira á því hverjum dettur í hug að vera með kvikmyndahátíð og framkvæmir það. Það er hollt að taka stöðuna og spyrja okkur hvað þurfum við margar kvikmyndahátíðir og hverju eru þær að þjóna?

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekkert. Eiga kvikmyndahátíðir að fylgja framboði og eftirspurn? Eru það ekki Marvel-st´údíóin sem eiga að gera það? Ef manni dettur í hug að halda kvikmyndahátíð og kemur henni í framkvæmd – er maður þá að valda einhverjum skaða? Hefði maður betur sleppt því? Hver á að „taka stöðuna“ og ákveða hversu margar kvikmyndahátíðir eru nógu margar kvikmyndahátíðir og hversu margar of margar? Hver eru þessi „við“ sem eiga að spyrja að þessu?

Á Ísafirði er eitt bíó og þar eru tvær kvikmyndahátíðir á ári. Ég myndi alveg lifa það af þótt þær væru fjórar. Hugsanlega myndi ég meira að segja ráða við fimm.

Furðulegt nokk

„Það hefur aldrei verið auðveldara að vera sósíalisti.“ Þetta var fyrirsögn í Dagens Nyheter í morgun. Á grein eftir Ninu Björk. Kannski er það satt, svona í kenningunni – það er allavega augljós þörf fyrir sósíalíska hugsjón. En á sama tíma hafa samtök sósíalista ekki mikið aðdráttarafl – og flokksbundnu sósíalistarnir virðast allir löðrandi í vanlíðan.

„Samtímalaxinn er stressaður einstaklingur.“ Segir einhver norðmaður á ensku í YouTube-auglýsingu. Ég veit þetta „hljómar betur“ á ensku („the modern salmon is a stressed individual“) en er það er ekki bara vegna þess að enskan er enn undirlagðari af sálfræðijargoni en íslenskan?

En hvort ætli sé erfiðara að vera sósíalisti eða samtímalax?

Ég stend mig að því að vera stöðugt fullur furðu þessa dagana. Mér finnst allir tala svo undarlega. Hugsa svo undarlega. Þetta er ekki endilega neikvætt – hvorki að fólk tali og hugsi undarlega né að ég fyllist furðu yfir því – en það hefur einhver áhrif á raunveruleikaskynið. Mér finnst svolítið einsog ég eigi að vera að lesa í þennan súbtexta. Hvað er laxamaðurinn að meina? Er þetta ekki einhver myndlíking? Er nokkuð til nema einstaklingar lengur – sagði ekki Thatcher eitthvað í þá veruna? Og eru ekki allir stressaðir?

Ég ýti vel að merkja alltaf á skip á YouTube-auglýsingum – ég þoli þær svo illa að ég hleyp jafnvel þvert yfir herbergið til þess að ýta á skip strax og á því er gefinn kostur. Svo ég veit ekki hvar þetta með stressaða laxinn endar. Í einhverri kví, grunar mig, með mikið af laxalús. Ekki vel semsé.

Dag Solstad er annars dáinn. Mér finnst vandræðalegt að hafa ekkert lesið eftir hann. Ég ætti að bæta úr því. Ég ætla samt ekki að fara að stressa mig á því – ætla ekki að hætta á að verða stressaður einstaklingur.

Dagbók 16. mars, 2025

Við eigum orðið svo mikið af orðum yfir allt sem hægt er að gera á okkar hlut að við getum varla rætt annað. Orðalistinn tekur engan enda. Og við vitum að sá okkar sem tekst að sannfæra fundarmenn – því lífið er líka viðstöðulaus fundur nema þegar það er beinlínis réttarhöld – um að hann sé fórnarlamb ofbeldis er sá eini sem verður ekki á endanum fundinn sekur um að hafa beitt ofbeldi.

Já, ég var víst að lesa nokkra þræði af innanflokksdeilum sósíalista. Herregud.

***

Tvö útgáfuhóf að baki og eitt ljóðaboð að auki. Allt hefur gengið bara einsog í sögu held ég. Ég las Þríhjól í Svíþjóð hjá Ljóðum & vinum – ég ætlaði ekki að gera það en svo langaði mig það og ég gerði það og ég held ég geri það aldrei aftur. Það er ekki ljóð sem á að lesa upphátt. Eða ekki ljóð sem´ ég á að lesa upphátt.

Næsta föstudag verð ég á Patreksfirði hjá Skriðu útgáfu og Birtu Ósmann. Það verður áreiðanlega mjög gaman. Og eftir tæpar tvær vikur verð ég á bókmenntahátíðinni á Flateyri. Ég er búinn að fara í Kiljuviðtal og í Víðsjá og það birtist einhvern tíma á næstu 10-12 dögum, reikna ég með.

Nadja er farin til Frakklands í endurmenntun eða símenntun eða allavega einhverja menntun. Aino er að fara til Ungverjalands á sundmót. Aram er að fara að spila með hljómsveitinni sinni – Villimönnum – á setningu skíðavikunnar.

Kontrabassinn sem ég er að reyna að kaupa ætti að koma til landsins næstu daga, svo þarf væntanlega að láta fiðlusmið líta á hann og senda mér hann vestur. Og svo vantar mig statíf og poka og helst hljóðnema líka. Fyrir liggja æfingar með Gosa sem er að fara að spila á Aldrei fór ég suður. Sem er sennilega það fullorðinslegasta sem ég hef gert í þessu hljóðfærabrölti mínu. Svo ætla ég að læra að djassa svolítið þegar ég er kominn með kontrabassann. Frönskunám gengur heldur hægar en ég vildi en maður hefur ekki tíma til alls.

Af öðrum áhugamálum – sem eru aðallega skokk og matreiðsla – er allt gott að frétta. Hljóp 10 kílómetra í gær og eldaði egg Benedikts í hádeginu og kóreska blómkálsvængi fyrir okkur Aram í gær. Sem minnir mig á að ég þarf eiginlega að fara að gera kvöldmatinn.

Dagbók 12. mars, 2025

Í gær hélt ég útgáfuhóf. Þar var margt um gott fólk og skemmtilegt að vera. Á eftir er svo ljóðakvöld í Mengi á vegum Ljóða og vina þar sem ég fæ að lesa í fríðum flokki.

***

Eftir útgáfuhófið í gær stökk ég í bíó og sá Anoru. Það er alveg óhætt að mæla með henni. Hún fjallar um strípidansmær sem verður fyrir þeim ósköpum að tælast af og giftast syni einhvers rússnesks óligarka – ungum og værukærum djammara með vinalegan hlátur sem reynist jafnvel enn saklausari en maður heldur í fyrstu. Það er eitthvað sérstakt væb í henni. Hún er klámfengin og jafnvel ofbeldisfull á köflum og ekki fílgúdd mynd á neinn hátt en samt er hún eiginlega líka lj´úfsár.

Og eftir bíóið var ég svangur og datt í hug að fara á Vitabar í fyrsta skiptið í áreiðanlega 20 ár. Þar var enginn gráðostaborgari á matseðlinum en hins vegar var maturinn á ívið skaplegra verði en gengur og gerist. Og ekki bara skaplegri miðað við miðbæ Reykjavíkur heldur bara vegasjoppur. Hamborgaratilboð með frönskum og sósu á 1900 kr.

***

Ofan í heillandi en ómögulegar hugmyndir um að skrúfa ofan af allri digitalíseringu og nettengingu – að hætta á samfélagsmiðlum, lesa ekki netmiðla, blogga ekki, fá sér fávitasíma (eða bara heimasíma), leggja kindlum og snjallúrum fyrir sólúr og steintöflur – bætast nú heillandi en ómögulegar hugmyndir um að bojkotta bandarískar vörur. Þetta hefur mikið verið í fréttum í Svíþjóð síðustu daga – hvort það stóð ekki að þriðjungur Svía sé með slíkt bojkott á sínum prjónum. Mér sem finnst nógu erfitt að lesa á kóríanderboxið í búðinni og humma fram af mér Söngvakeppnina. Það er líka dálítið erfitt að sjá hvar bandaríkin byrja og hvar þeim lýkur. Var Anora bandarísk mynd? Hún gerist í Bandaríkjunum og það er áreiðanlega stærstur hluti þeirra sem störfuðu við hana og fjármögnuðu hana bandaríkjamenn. Hún vann óskarinn! Chimamanda Ngozi Adichie var að gefa út nýja bók – forlagið er bandarískt. Netflix auðvitað, HBO og Disney – það eru allar streymisveiturnar sem ég er áskrifandi að. Amazon (kindillinn minn er að gefa upp öndina eftir ríflega áratugs þjónustu). Í göngutúr í morgun heyrði ég frábært lag með Söruh Vaughan – Great Day – hún var bandarísk. Og það er áreiðanlega ameríkani sem fær streymistekjurnar. Svo er það maturinn. Ætli það myndi ekki mest bitna á cheeriospökkunum – ég er eiginlega alveg hættur að éta það sjálfur þótt mér finnist það ágætt en börnin mín borða það. Ég gæti þá ekki klárað White Lotus. Ekki haldið áfram að lesa Raymond Chandler. Playlistarnir mínir á Spotify yrðu ekki svipur hjá sjón eftir að búið væri að hreinsa út ameríku. Þeim myndi fækka drastískt bíóferðunum. Ég horfi talsvert á alls konar youtubemyndbönd – mest grín eða innlegg um tónlist/hljóðfæri og hlaup – það er ansi mikið af því bandarískt. Ég held við ´séum enn að spá í að endurtaka Tom Waits kvöldið – ég má ekki einu sinni hlusta á Tom Waits! Eða Guns N Roses! Það er þá bara AC/DC og Nick Cave í öll mál. Ætli bandaríski söngvarinn í Viagra Boys, sem hafa verið að skemmta mér upp á síðkastið, sé með sænskan ríkisborgararétt? Hann hefur búið þar árum saman. Er það nóg?

Já, nei sennilega þarf að fara einhverja skynsamlega leið að þessu. En ég er alls ekki viss hvar maður dregur línuna eða hvort maður byrjar á þessu. Og ég verð að viðurkenna líka að það er eitt af því sem heillar mig við tilhugsunina um að prófa þetta. Ætli maður myndi ekki reyna að takmarka fyrst og fremst tekjuflæðið til Bandaríkjanna – ég á t.d. allan Tom Waits á geisladisk og svolítið af Tom Waits á vínyl og gæti annað hvort reynt að kaupa restina notaða eða keypt mér evrópskan geislaspilara (ég á ekki svoleiðis tæki) eða gefið undanþágu og sagt að Tom Waits og allir sem honum tengjast, Anti-Records sumsé, megi fá pening frá mér – enda verði hann áreiðanlega frekar nýttur til góðs en ills. Og svo væri svona ráðstöfun tæplega til langrar framtíðar, meira spurning hvort maður ráði við mánuð, sex vikur eða hálft ár.

Og því er auðvitað eins farið með lúddítísku tiktúrurnar – ég kemst ekki langt án rafrænna skilríkja og heimabankans og sæti pikkfastur alla daga ef ekki væri fyrir heimasíður flugfélaganna.

Ég þarf að hugsa aðeins um þetta.

Dagbók, 10. mars, 2025

Ég er veðurtepptur. Átti að vera í upptökum fyrir Kiljuna. En sit þess í stað heima í eldhúsi og ét carbonara afganga. Sem eru að vísu ágætir. Kannski kemst ég seinnipartinn – fluginu var frestað frá 9 í morgun til klukkan 15. En tökunum er lokið. Ég kemst vonandi í útgáfuhófið mitt á morgun. Til að fyrirbyggja misskilning þá er veðrið prýðisgott. Og mér sagði flugmaður í gær að það yrði að öllum líkindum flogið – en með þeim fyrirvara þó að það væri ómögulegt að sjá fyrir tiktúrur Flugfélagsins. Sem ætlar víst hvort eð er að hætta að fljúga hingað á næsta ári. Þá vantar tvö ár upp á 100 ára flugsögu til Ísafjarðar. Þórbergur Þórðasson flaug hingað (sem farþegi) með Súlunni og lenti 3. júlí 1928.

Þannig er því farið um margt. Það virkar ekkert. Ekki pósturinn. Ekki heilbrigðisþjónusta. Ekki almenningssamgöngur. Ekki bótakerfið. Og alltaf er það arðsemiskrafan sem eyðileggur allt. Ég er ekki viss um að fólk hafi alltaf spurt fyrst um arðinn þegar það var að byggja þetta þjóðfélag. En það er með arðsemiskröfuna á lofti sem það er hlutað í sundur og hent í ruslið.

Sá sem getur ekki haldið úti flugsamgöngum við Ísafjörð – með Loftbrú og öðrum niðurgreiðslum – er annað hvort að drepast úr arðsemisgræðgi eða einfaldlega ekki hæfur til að sinna viðskiptum og ætti að finna sér gott djobb við eitthvað annað. Á færibandi. Á kassa. En ekki í rekstri.

***

Það er ekkert að frétta af lestri. Ég lötra í gegnum Lady in the Lake. Hugsa eitthvað um eðli glæpasögunnar. Og hvar Chandler víkur frá forminu. Því er gjarnan haldið fram að bækur hans fjalli meira um stemningu – samfélagslýsingu – en glæpinn sjálfan og þá gjarnan vísað til þess að hann leysir ekki alltaf sína glæpi. En sú samfélagslýsing er augljóslega allt önnur og ekki jafn bundin af realisma og samfélagslýsingin í scandi-noir bókunum. Ekki þar fyrir að hún sé eitthvað fantastísk en hún er meira bíó – karakterarnir meiri steríótýpur, samfélagið ýktara. Scandi-noir samfélagið er svo sem ýkt líka – og kannski er þessi munur bara munurinn á tíðarandanum. Bæði gamla noirið og scandi-noirið bera þess merki að vera ort upp úr dagblöðunum. Og það var meira yfirborð í gömlu dagblöðunum – meira verið að lýsa hlutum og athöfnum, en alltaf með þessi fororði að undir öllu saman kraumaði siðspilling, morð og framhjáhöld og drykkja og barsmíðar. Í scandi-noirinu er yfirborðið gegnsærra – einsog í opinskáum einkaviðtölum eða kaþartískum facebook-póstum. Samtíminn er allur á viðstöðulausu trúnó og þegar allir eru á trúnó getur ekkert kraumað undir yfirborðinu. Kannski er það þess vegna sem scandi-noirið grípur svo oft til þess að nota „gömul leyndarmál“ stýra sögunni – af því að í fortíðinni er yfirborð sem felur eitthvað, þar er eitthvað til að afhjúpa. Og svo er ´í sjálfu sér líka algengt, held ég, að scandi-noirið takist á við það hvernig þetta opinskáa einkaviðtal er líka performans, líka yfirborð sem getur reynst tóm lygi þegar nánar er að gáð. En ég er ekki alveg viss um það.

***

Ég las viðtal á helginni við David Lagercrantz. Hann var að skrifa krimma um sænska bókmenntasamfélagið og talar mjög illa um það – þar vaði sósíópatar um og stýri öllu. Og ekki alltaf ljóst hvort hann er að tala um höfundana eða bissnissmennina á bakvið höfundana og stundum blandar hann því saman á hátt sem er ekki alveg sannfærandi (það er t.d. alveg satt að listamönnum hefur gjarnan leyfst að vera gallagripir og erfiðir í umgengni – en hið sama verður ekkert sagt um ritstjóra og það er engin rómantík í kringum millistjórnendur sem skeyta skapi sínu á öllum og/eða mæta fullir í vinnuna – að sama skapi eru höfundarnir oft valdalausir gagnvart bissnissákvörðunum og hafa takmarkaðra vald hver yfir öðrum). Einhvern veginn sló þetta viðtal mig falskt. Mér fannst hann vera að saka alla um að vera óheiðarlegir til þess eins að undirstrika hvað hann væri heiðarlegur og góður sjálfur – og mér fannst það bara ekkert styrkja þá hugmynd að hann væri heiðarlegur og góður eða einhver varðmaður smælingjanna, heldur þvert á móti, fór ég að leita að minnstu vísbendingum þess að hann væri það ekki. Samt var ég vel að merkja ekki ósammála neinu einu sem hann sagði neins staðar – mér fannst hann bara vera að tikka í of mörg sjálfsögð og fyrirsjáanleg box. Nefna Trump og að hann væri vondur – tékk. Nefna Harvey Weinstein og að hann væri vondur – tékk. Þetta var of mikið paint-by-numbers.

Ég las líka EKKI grein í New Yorker af því hún var handan gjaldmúrs. En ég sá glitta í punktinn í fyrirsögn og fáeinum málsgreinum. Sem var að bókstafstrúin – literalisminn – væri að gera út af við bíómyndir. Þessi bókstafstrú gengur ekki út á að túlka margræð og mótsagnarkennd trúarrit heldur þvert á móti að skrifa eitthvað sem er svo skýrt að það getur enginn misskilið það. Það er meining – hún er í 99% tilvika eitthvað sem 99% ætlaðra áhorfenda verða sammála (altso, það er predikað fyrir kórinn) – og það fer aldrei neitt á milli mála hver meiningin er. Það er ekkert rými til að túlka.

Ég veit ekki hvort þetta er satt – þótt ég þykist kannast við tendensinn úr bókum –  en ég fór á Mickey 17 á föstudag og hún þjáist dálítið af þessu. Eða réttara sagt þjáist seinni hluti hennar af þessu. Fyrri hlutinn er frábært existensíalískt drama en seinni hlutinn er mjög literalísk geimsápa – alveg skemmtileg en uppfyllir ekki loforð fyrri hlutans. Er eiginlega bara önnur mynd.

Á laugardag horfði ég síðan á aðra álíka geimmynd sem er líka með Robert Pattinsson og að mörgu leyti áþekkum söguþræði – við skulum segja að hann hálfrími (ég ætla ekki að rekja hérna söguþræðina, það er tilgangslaust fyrir þeim sem hafa séð myndirnar og þvælist bara fyrir hinum, sem gætu líka bara gúglað plottinu). High Life. Hún fer eiginlega alveg þveröfuga átt, estetískt, og maður veit varla almennilega hver söguþráðurinn er þegar hún er búin. Og samt er alveg ljóst frá fyrstu stundu hvar sagan endar – hvernig fer. Tímaflakkið er notað til að leysa mann undan allri plottkvöð – og það verða aðrir hlutir sem maður þarf að reyna að giska sig fram úr. Manni er ekki sagt hverjar reglurnar séu í þessum framtíðarheimi eða hvers vegna fólkið hagar sér einsog það gerir eða hvernig það lenti þar sem það lenti – heldur verður maður sjálfur að draga ályktanir. Á milli senanna eru eyður sem maður þarf að fylla upp í sjálfur. Og hún er hæg. Meira Solaris eða Stalker eða 2001: Space Odyssey. En ekki jafn fyndin og Mickey 17. En í sjálfu sér samt fyndin. Og falleg.

Kannski er ástæðulaust að leita að einhverri millileið til að sætta þessar öfgar. Þær mega bara vera svona. En Mickey 17 var samt aðeins of mikið on the nose einsog maður segir.

Sprengt fyrir friði

Nú stefnir allt í að Evrópa vígvæðist. Og hefur í sjálfu sér gert síðustu ár. Ég man eftir að hafa furðað mig á því fyrir nokkrum árum að hin nútímalega Sanna Marin, fv. forsætisráðherra Finna, skyldi fara í áróðursför um álfuna til þess að hvetja Evrópuþj´óðir til að eyða meira í vopnaframleiðslu. Af því mér fannst það afstaða sem væri meira viðeigandi fyrir sextugan karl fyrir 30 árum. Ungar konur gera ekki svona, sögðu fordómarnir/áróðurinn, það var búið að lofa manni að konur væru diplómatískari, ljúfari stjórnendur – það væri feðraveldið sem sprengdi drasl í tætlur. Konur myndu semja og eyða skattpeningum í sjúkrarúm og kennslustofur og leikskólapláss. Nú er Kristrún Frostadóttir á svipuðum slóðum og Sanna Marin. Og allir bara á þessum slóðum, þetta eru einu slóðirnar. Sprengjur fyrir friði.

Ég segi ekki að ég sé einhamur í þeirri afstöðu minni að það sé vond hugmynd að eyða pening í stríð. Í varnir, meina ég. Í vopn. Í að drepa þá sem ráðast á okkur eða aðra sem eiga ekki skilið að láta ráðast á sig. Mér finnst líka vonlaus staða að Vladimír Pútín geti vaðið inn í öll þau lönd sem hann kærir sig um að eiga – og innantómt hjal að tala um að „semja frið“ við hann ef engar útskýringar fylgja á því hvernig sá friður á að líta út eða hvernig honum eigi að framfylgja (einsog Selenskí nefndi í Hvíta húsinu um daginn hefur Pútín 25 sinnum svikið sín eigin friðarsamkomulög). Og auðvitað verður að halda því til haga að Sanna Marin er Finni – það er hærri fórnarkostnaður í þessari jöfnu fyrir þjóðir einsog Finna, Eystrasaltsþjóðir og auðvitað Úkraínumenn. Og ég kaupi bæði þau rök að Íslendingar séu í góðri stöðu til þess að taka prinsippafstöðu með friði (þótt varla láti Trump Ísland vera ef hann ætlar að taka Grænland – enda lítur Ísland út fyrir að vera hluti af Grænlandi á kortinu hans) og að það sé ódýrt og jafnvel prinsipplaust að taka þannig prinsippafstöðu bara af því maður hefur sennilega engu að tapa. Af því sprengjurnar springa ekki nógu nálægt manni.

Ég kann ekki á þessu neina lausn, vel að merkja. Það má vel vera að Sanna og Kristrún og Macron og Starmer hafi bara rétt fyrir sér. Og kannski er standpína vopnaiðnaðarins bara óþægileg hliðarverkun.

Annað í þessu veldur mér samt ugg og mér finnst það minna rætt. Ef fer sem horfir munu borgaralegar stjórnir sósíaldemókrata og allra þjóða sjálfstæðisflokka margfalda fjárframlög til vopnaiðnaðarins á næstu árum; en á sjóndeildarhringnum eru líka kosningasigrar fasískra afla. Evrópa á eftir að lenda undir hælnum á sínum eigin drullusokkum – þó Trump og Pútín láti okkur vera. Við gætum þannig hæglega setið uppi með gríðaröfluga heri í öllum löndum Evrópu – sem væri stýrt af Svíþjóðardemókrötum, Frönskum þjóðfylkingum og þ´ýskum AFD-mönnum. Og Snorra Mássyni. Það er auðvitað nú þegar staðan í bæði Ungverjalandi og á Ítalíu. Og það finnst mér ekkert voðalega kræsileg tilhugsun, svona ykkur að segja.

Dagbók, 6. mars, 2025

Kæra dagbók. Gott fólk. Ég vil byrja á að þakka auðsýnda samúð vegna táarinnar sem ég nefndi í síðustu færslu. Henni – þar af leiðandi mér, okkur báðum – líður betur og í morgun fórum við út að skokka með ónefndum ljósameistara. Það var gott. Í gær fórum við líka í gufubað með ónefndum rokkgítarleikara og kannski hafði það sitt að segja fyrir tána. Finnar segja að það sem gufubað lækni ekki sé sennilega banvænt.

Dagurinn fór í að skipuleggja upplestra mánaðarins. Þessi mánuður er svolítið púsluspil – við Nadja skiptumst á að fara úr bænum. Upplestrana sjáið þið hér í reitnum vinstra megin. Hægra megin ef þið eruð að horfa út um skjáinn á mig. Sem er ósennilegt. ´Það má vera að eitthvað bætist við en það kemur þá bara í ljós.

Á eftir er ég svo að fara að dæma í stóru upplestrarkeppninni. Aram ætlar að sjá um kvöldmatinn og eftir mat fer ég á hljómsveitaræfingu með Gosa – ég kannski nefndi það hérna að Gosi er að fara að gefa út plötu (þar sem ég leik í þremur lögum, held ég) og við erum að æfa fyrir ´útgáfutónleikana.

Ég hef ekkert lesið nema á kvöldin. Ég er á fjórðu Marlowe bókinni – Lady in the Lake – sem er ágæt en síst samt af þessum fjórum. A.m.k. enn sem komið er. Ætli Farewell, My Lovely sé ekki í eftirlæti núna – en ég hlakka til að lesa The Long Goodbye, þá sjöttu, sem kunnugir segja mér að sé staðbest. Og það er varla að ég fái mig til að opna Appollinaire þýðingarnar – en ég ætlaði að vera búinn með Appollinaire fyrir lok febrúar. Ljóðskáld marsmánaðar átti að vera Linda Vilhjálms – en ég var svo sem byrjaður á heildarverkum hennar í nóvember. Og svo á maður ekki að lesa ljóð með skeiðklukku heldur. Ég er bara dálítið ferkantaður stundum.

Dagbók, 3. mars, 2025

Mér er illt í puttanum. Vísifingri á hægri hendi. Eftir kontrabassaleik. Og mér er illt í tánni. Tærnar heita ekki neitt, einsog frægt er, nema litlatá, en ef þær hétu eitthvað væri það baugtá á vinstri fæti sem um ræddi. Það er hugsanlega eftir hlaup og hugsanlega eftir óþarflega nærgöngular naglasnyrtingar. Svo er ég líka voðalega þreyttur – hugsanlega með aðkenningu af einhverri pest sem er þá annað hvort á út- eða innleið. Ég hef bara ekki tíma til að vera með pestir.

Það fór sjálfsagt ekki framhjá neinum (sem á annað borð ratar hingað inn) að ég hlaut tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs á fimmtudaginn síðasta. Fyrir Náttúrulögmálin. Af því tilefni fór ég suður og mætti í móttöku í Gunnarshúsi. Svo fundaði ég með forlagsfólki vegna nýju ljóðabókarinnar minnar og mætti í langt viðtal hjá Oddnýju Eir og Vigdísi Gríms á Samstöðinni. Daginn eftir var ég veðurtepptur og notaði tímann til að sinna einhverjum samfélagsmiðlaviðtölum á vegum forlagsins. Síðan kom ég mér fyrir á kústaskápshóteli í boði Icelandair og lá þar einsog slytti fram á næsta dag þegar ég komst aftur heim.

Fimm ljóð kemur í búðir á morgun. Ég ábyrgist ekki að hún verði komin í útstillingu strax en kassarnir eiga allavega að koma í hús á morgun. Ég hef verið að skirrast við að ramma hana inn – segja „um“ hvað hún sé. Kannski vegna þess að mér finnst ljóð alls ekki vera um neitt – í eiginlegum skilningi. En enn líklegra er að mér finnist bara óþægilegt að ákveða það fyrir aðra um hvað hún sé. Að mér þyki eðlilegast að hver ákveði það bara fyrir sig. Hún er mjög „persónuleg“ fyrir mig en ég er ekkert endilega viss um að það skíni alltaf í gegn. Og ég held það komi ekkert að sök. Best væri auðvitað ef hún reyndist vera persónuleg fyrir lesandann líka – í þeim skilningi að lesandinn hitti þar fyrir sjálfan sig, frekar en að ég sé að þvælast mikið fyrir.

Fram undan er ýmislegt. Mig vantar stað til að halda útgáfuhóf í Reykjavík (Skálda er bókuð báða dagana sem koma til greina). Og eiginlega á Ísafirði líka. En ég mun koma fram á Ljóðum og vinum í Mengi þann 12. mars. Og 27. mars verð ég í einhverju sprelli með Sjón á nýrri bókmenntahátíð sem Helen Cova stendur fyrir á Flateyri. Þá er fyrirliggjandi einhver spilamennska með Gosa þegar líður á vorið. Ég reikna með að eignast kontrabassa fyrir næstu mánaðamót. En það hefur ekki gengið mjög vel (reyndi að panta að utan en þá var ekki hægt að senda, reyndi að panta innanlands en eintökin sem voru til reyndust ekki í söluhæfu ásigkomulagi). Hugsanlega kemst ég líka í eitthvað ljóðasprell með annarri hljómsveit en það verður þá tilkynnt síðar. Eða ekkert tilkynnt og kemur bara á óvart.

Ég er að vona að tilnefningin verði til þess að ýta við einhverjum erlendum forlögum að gefa út Náttúrulögmálin. Hingað til er það bara Rámus í Svíþjóð sem ætlar að gefa hana út. Lengdin stendur í fólki. Ég vona líka að það verði einhverjir viðburðir á Norðurlöndunum – Norðurlandaráð er nefnilega búið að slaufa verðlaunaafhendingunni. Sjálfsagt í kjölfar þess að listamennirnir voru sumir hverjir farnir að nota tækifærið – með salinn fullan af norrænum þingmönnum – til þess að halda eldræður. Á tímum vaxandi fasisma voru þessar ræður oft mikilvægar. En þeim er auðvitað vorkunn, Sönnu Finnunum og Svíþjóðardemókrötunum og öllum hinum, að vilja ekki láta lesa yfir hausamótunum á sér í fínum kokteilboðum. Og því sviptu þeir bara listamennina gjallarhorninu. Nú er í staðinn framleiddur sjónvarpsþáttur þar sem allt er tekið upp fyrirfram – og jafnvel þótt einhver segði eitthvað í þeim þætti þá hefur viðkomandi ekki athygli norrænna þingmanna þar frekar en bara í Kiljunni.

En ég sem sagt vona að maður fái samt eitthvað að sprella út á þetta.

Ég hef verið að lesa Alcools eftir Guillaume Appollinaire í tvímálaþýðingu Donalds Revell. Ég les þá frönskuna en reyni að hafa enskuna bara til stuðnings en það hjálpar bara svo lítið af því þýðing Revells er vægast sagt frjálsleg. Hún er sjálfsagt í einhverjum skilningi ljóðræn endursköpun – einsog þýðingar þurfa gjarnan að vera – en tónninn í henni er líka annar en hjá Appollinaire og mikið af breytingunum eru bara ekki góðar. Ég sé heldur ekki tilganginn með þeim. Ekki er hann að eltast við rím eða form – þar sem er rímað rímar hann alls ekki, sem er alltílagi mín vegna, en þá ætti maður að hafa metnað fyrir að vera aðeins nákvæmari. Þar á undan las ég Calligrammes í tvímálaþýðingu Anne Hyde Greet – sem er afbragð – og kannski fer þetta meira í taugarnar á mér þess vegna.

Annars hef ég mest verið í gömlum reyfurum. Chandler og Hammett og Cain. Og las líka Gun, With Occasional Music eftir minn gamla vin Jonathan Lethem – sem skrifaði líka Motherless Brooklyn. Sú er hálfgert framtíðar-sci-fi ofan í reyfarastemninguna sem er tekin beint upp úr Chandler. Og alveg dásamleg – á pari við Motherless Brooklyn (sem ég þýddi á sínum tíma af eigin frumkvæði – ég vara samt við bíómyndinni, hún er ekki góð).

Slátrun ársins

Í Svíþjóð eru veitt verðlaun fyrir slátrun ársins. Årets sågning. Sá bókmenntagagnrýnandi sem þykir hafa gengið hreinlegast til verks, svo að segja, fær verðlaun. Gyllta sög, skilst mér. Í Svíþjóð slátra gagnrýnendur ekki heldur saga.

Að þessum verðlaunum stendur hlaðvarpið Gästabudet – þær Mikaela Blomquist og Lyra Ekström – en með þeim í dómnefnd situr rithöfundurinn Agri Ismaïl. Verðlaunin voru fyrst veitt í fyrra. Þá fékk Anders Mortensen verðlaunin fyrir sögun sína á ævisögu Jespers Högström um skáldið Gunnar Ekelöf. Vel að merkja mun Mortensen þessi sjálfur vera með bók í smíðum um Ekelöf. Í ár var það svo Gunilla Kindstrand sem fékk verðlaunin fyrir sína sögun á sjálfsævisögulegri skáldsögu/ritgerð Daniels Sjölin, Fältskärsv. Sú fjallar meðal annars um misnotkun sem höfundur/sögumaður/báðir verður fyrir sem barn – af hendi annars barns (sem bæði eru á forskólaaldri, ef mér skjátlast ekki). Ég hef ekki lesið þá gagnrýni – hún er handan gjaldmúrs – og ekki heldur bókina svo sennilega ætti ég ekki að hafa mörg orð um hana. Auk þess kannast ég lítillega við Sjölin sem ég kann vel við og það sem ég hef lesið eftir hann finnst mér gott.

Til verðlaunanna var stofnað til þess að auka á umræðuna og Daniel tók því boði og hefur meðal annars gagnrýnt að svo virðist sem aðstandendur Gästabudet hlaðvarpsins lesi ekki bækurnar sem eru til umfjöllunar, heldur bara gagnrýnina – og þetta vill hann meina (í grein í Expressen) að sé almennt mein í sænskri bókmenntaumræðu og vísar sérstaklega til greinar sem Blomquist birti í október þar sem hún biður um „värdelös litteratur“ – altso bókmenntir sem hafa ekkert gildi, eru ekki baráttutól eða sálfræðileg útrás, í stað bóka einsog Fältskärsv og fleiri. Þá spyr hún sig hvers vegna engin setji spurningamerki við það hvort 4-5 ára gamalt barn sé einu sinni fært um kynferðisofbeldi.

En já. Almennt mein, segir Sjölin. Hann segir álitsgjafa eftir álitsgjafa mæta fullyrðingaglaðan á vígvöllinn til að segja skáldsögur/ fagbækur/ ljóðabækur vera rusl, meira og minna, en ráði svo ekki við að benda á eitt einasta dæmi (annað en Guðrún Helgadóttir í pistlinum sem vitnað var til í síðustu færslu).

Það vill til að sænsk bókmenntafjölmiðlun verðlaunar upphrópanir – og oft verður úr því heilmikið og skemmtilegt húllumhæ svo menningarumfjöllunin endar á forsíðum. Ég man t.d. eftir umfjöllun um nýjar Danteþýðingar sem voru margsinnis á forsíðu annað hvort Expressen eða Aftonbladet. Ef maður vill vera fullyrðingaglaður er leiðin inn í kastljós menningarsíðnanna greið.

Mikaela Blomquist svaraði auðvitað Sjölin og sagði það alls ekki satt að hún læsi ekki bækurnar sem hún fjallaði um – hún hefði bara alls ekki verið að fjalla um bókina hans heldur það tilfinningaþrungna tungutak sem var notað til að lýsa henni. Ég held að þar séu þau Daniel ekki ósammála um neina eiginlega staðreynd – Daniel finnst bók sín vera til umfjöllunar þegar gagnrýni um hana er til umfjöllunar, en Mikaelu finnst það ekki.

Ég veit ekki hvort „årets sågning“ á sér fyrirmynd í breskum verðlaunum sem kölluðust „hatchet job of the year“ – á ensku er hvorki sagað né slátrað, heldur unnið með öxi. Að þessum verðlaunum stóð síðan Omnivore. Hvað sem fyrirmyndum líður tala þær stöllur í Gästabudet meira um mikilvægi þess að upphefja vitræna bókmenntaumræðu en að þær fagni eigin þórðargleði – alæturnar með axirnar voru agressífari og vildu „hvassa, fyndna og heiftúðuga texta“ (sú tegund af kvikindislegri gagnrýni er auðvitað þjóðarsport í Bretlandi, mörgum til ama en öðrum til gamans). Bresku verðlaunin voru skammlíf, einungis afhent þrisvar sinnum á árunum 2012 – 2014, og eitthvað segir mér að þetta verði ekki mikið langlífara prójekt í Svíþjóð.

Mér finnst sjálfum áhugavert að á sama tíma og Gästabudet verðlaunar neikvæða gagnrýni gera þær sér far um að hæðast að óþarflega (að þeirra mati) jákvæðri gagnrýni. Kannski vegna þess að sjálfum finnst mér volga gagnrýnin leiðinlegust – sú ástríðulausa sem felur fagurfræði sína jafnvel á bakvið uppgerðarhlutleysi og ver sig þannig fyrir öllum fagurfræðilegum debatt: þetta er ekki fagurfræðilegt mat, þetta er hámenntuð úttekt á faktískum eiginleikum. Ég vil miklu heldur öfgarnar – og endilega að fólk svari gagnrýni hástöfum (ef ekki aðrir gagnrýnendur eða almennir lesendur, þá bara höfundarnir sjálfir).

En þegar ég hugsa út í það gef ég sjálfur næstum öllum bókum 3-4 stjörnur á Goodreads – og nánast aldrei svara ég gagnrýnendum mínum – svo ég er kannski ekki sjálfum mér samkvæmur. En líklega er ég líka lunkinn við að sjá fyrir hvað mér finnist gaman að lesa – og niðurstaðan væri áreiðanlega önnur ef ég fengi eitthvert slembival í hendurnar.