Ég hef alltof lítið náð að spila síðustu vikuna. Ég var eitthvað að möndla við að æfa tóneyrað – aðallega með því að pikka upp hljóma í lögum sem ég hlusta á og spila melódíur sem ég man án þess að hafa neitt til hliðsjónar. En svo var Nadja lasin fyrstu daga síðustu viku og ég svo strax í kjölfarið og gítarsmíðin tók yfir allan lausan tíma frá fimmtudegi (ásamt því reyndar sem ég smíðaði Zelda-sverð fyrir Aram, til notkunar á maskadaginn). Nú er ég að fara til Münster á miðvikudag og kem ekki aftur fyrren á mánudag svo það verður líklega lítið úr spileríi og smíðum. En ég ætti samt að reyna að læra a.m.k. eitt nýtt lag í kvöld eða á morgun. Var að spá í Jesus Left Chicago með ZZ Top. Það er mjög einfalt en ég kannski læri þá textann líka. Það er hægt að gera það gítarlaus í Münster. *** Hlynurinn kom með póstinum á miðvikudag. Ég reif mig upp úr flensunni til að líma hann saman svo ég kæmist með hann til Dodda í Fab Lab á fimmtudeginum – því það er bara opið á fimmtudögum og þriðjudögum. Alla jafna. Það var óþægilega mikil sveigja í spýtunni og við Doddi tókum hana yfir í trésmíðadeild til Þrastar til að spyrja ráða og hann mælti með því að við myndum pressa hana yfir nótt í til þess gerðri pressu. Doddi kom mér þá til bjargar með að hleypa mér inn á föstudeginum þótt það væri alls ekki opið. Við byrjuðum á að fræsa spýtuna niður í 6,5 mm þykkt og fræstum svo fyrir útlínunum.
Ég fór beint með spýtuna heim og sagaði í hana f-gatið og límdi hana fasta á búkinn. Ég vildi gera þetta hratt og örugglega áður en hún myndi sveigjast aftur til baka. Ég gerði líka einhverjar tilraunir með að festa bindingu í f-gatið en þær voru ekki sérlega uppörvandi og kannski sleppi ég bara bindingu þar. Þetta eru mjög skarpar beygjur og erfitt að fá plastið til að setjast almennilega að kantinum. Þegar ég fór að mæla fyrir staðsetningu á hljóðdósum og hálsvasa kom í ljós að sennilega hef ég gert dálitla skyssu. Hálsinn er í Gibson hlutföllum – 628 mm skali – en ég hafði verið að reikna fjarlægð vasans að brú útfrá Fender hlutföllum, sem er með 650 mm skala. Sem þýðir að í staðinn fyrir að brúin komi til með að vera 181 mm frá vasanum verður hún 170 mm frá vasanum – sirka – og færist því fram um heilan sentimetra. Ef ég er ekki eitthvað að rugla. Þetta gæti þýtt að ég þurfi að færa hljóðdósirnar nær hver annarri og skera aðeins í klórplötuna (þessi á myndinni er aukaplata – sú alvöru er í Reykjavík í prentun, það er líka verið að grafa í hálsplötuna). Svo það sé bærilegt pláss fyrir allt. Ég ætla samt ekki að fræsa fyrir hljóðdósum eða hálsi fyrren ég er kominn með hálsinn í hendurnar og get reiknað þetta allt nákvæmlega út. Ég var vel að merkja að fylla út tollskýrsluna fyrir hann og fæ hann vonandi á morgun. Ég fræsti samt fyrir hnappaholinu og tengdi það við innputholið. Það var bölvað moj. Ég var ekki með nógu langan bor og þurfti að koma báðum megin að þessu og bora nokkrum sinnum til að finna leiðina. Svo gerði ég smá trékítti úr gömlu sagi til að fylla í götin. En það er nú ekki sérlega fallegt – skiptir kannski litlu svona innan í, en ég hugsa að ég reyni nú samt aðeins að fixa það. Ég prófaði mig líka áfram með bæsið, bæði á hlyn og mahóní. Ég byrjaði á að bæsa svart á hlyninn og pússa það næstum alveg upp. Svo smá rauðsvarta blöndu sem ég pússaði líka upp, svo nokkur lög af rauðblárri búrgúndarblöndu. Ég setti smá af sömu blöndu á mahóníið til samanburðar, þótt ég sé ekki búinn að grain-fylla það. Þetta er vel að merkja allt afgangsefni (ég nota kannski þennan hlyn einhvern tíma en sný honum þá hinsegin). Mahóníið er ósnert þarna neðri hlutinn. Svarta bæsið dregur svona fram æðarnar í hlyninum – ofan á þetta fer svo tung-olía og bílabón. Næst fræsti ég rásina fyrir bindinguna með dremli og til þess gerðum bita og græju frá Stew Mac. Það var rosalegt moj að ná því sæmilegu án þess að skemma gítarinn. Þessi mynd er tekin áður en ég pússaði rásina með 60 gritta sandpappír. Það skánaði nú umtalsvert við það. Næst notaði ég tonnatak til þess að líma bindinguna fasta. Og hárþurrkuna sem ég gaf Nödju einu sinni til þess að hita og beygja bindinguna. Það var líka mikið þolinmæðisverk og ég er ekki alls kostar ánægður með hvernig til tókst – aðallega vegna þess að rásin var skemmd á a.m.k. einum stað. Þar er dálítið gap milli bindingar og búks sem ég þarf annað hvort að fylla með bindingu uppleystri í acetoni eða tréfylli. Einsog sjá má var drukkið í vinnunni í gær. Þetta er Biska – króatískur snaps úr mistilteini. Mjög gott. Ég keypti á sínum tíma líka þykkari bindingu ef ég skildi klúðra – auðveldara að stækka rásina en minnka hana. Og nýtti mér það í gær þótt það væri reyndar ekki vegna neins klúðurs. Ég ákvað bara að fela alveg skilin á hlyninum og mahóníinu með bindingunni – meðal annars vegna þess óhjákvæmilega litamismunar sem verður eftir bæsingu. Svo veit ég auðvitað ekkert hvernig þetta lítur út undir öllu þessu teipi. Ég kem til með að þurfa að pússa þetta helling til. Ég gerði tilraunir með lím áður en ég valdi eitthvað „industrial grade“ tonnatak og þetta ætti nú að halda. En það er ómögulegt að segja hvort það séu mörg álíka göp undir teipinu fyrren ég er búinn að fjarlægja það og pússa svolítið. Það gerist í kvöld og á morgun kemur vonandi hálsinn og þá fræsi ég fyrir honum. *** Gítarleikari vikunnar er St. Vincent / Annie Clark. Ég átti rosa erfitt með að velja gott myndband – en fann svo þetta best off þar sem hún fer fullkomlega á kostum, og stundum hamförum. Það sakar heldur ekki að signatúr-gítarinn hennar frá Ernie Ball er ógeðslega fallegur – en hann er reyndar ekki í neinni af þessum klippum, hann er ekki nema svona 2-3 ára gamall, svo ég henti bara með einni mynd af honum í bónus. Jack White spilar líka stundum á svona.
id““:““6d99l““
Sagan Nýhils – tólfta brot brotabrots brotabrotabrots
Við sóttum bækurnar á leiðinni út úr bænum. 2004 eftir Hauk Má og Nihil Obstat, sem ég hafði skrifað. Sigurjón í Letri prentaði og fræddi okkur um allar þær sögufrægu bækur sem hann hafði prentað í gegnum tíðina – fyrir Dag Sigurðarson og fleiri. Sennilega fannst okkur við vera einmitt á réttum stað, í réttri rómantík. En fyrst var þessi ljósmynd tekin – þetta er í tröppunum þarna hjá Grænum kosti. Eða þar sem Grænn kostur var að minnsta kosti einhvern tíma, hinumegin við götuna frá Mokka (þar hittum við ljósmyndarann). Hún er kölluð Bítlamyndin, þótt við séum miklu fleiri en Bítlarnir – kannski Lynyrd Skynyrd væri nær lagi (þeir voru sjö). En hver vill líkja sér við þá? Frá vinstri, Ófeigur Sigurðsson, Steinar Bragi, Haukur Ingvarsson, ég, Bjarni Klemenz, Grímur Hákonarson og Haukur Már Helgason. Myndin er tekin skömmu áður en Haukur Ingvars sagði sig úr félagsskapnum og stofnaði Gamlhil. Og þá voru bara sex (eftir á myndinni). Auk þeirra sem eru á myndinni fóru í þennan fyrir hluta túrsins þau Halldór Arnar Úlfarsson, Kristín Eiríksdóttir og Böðvar Yngvi Jakobsson (Böddi brútal – sennilega kom hann fram sem Oberdada von Brutal). Sennilega kom Haukur Ingvars reyndar alls ekki með á fyrsta legginn. Hann hefur bara komið á Mokka til að vera með á myndinni (en þar söfnuðum við líka saman í bílana). Ég man eftir að hafa opnað bókakassann minn á bensínstöð og farið yfir í næsta bíl til að gefa Hauki Má sitt eintak og benda honum á að hún væri tileinkuð honum. Einhvern veginn vorum við farnir að renna svo mikið saman í eitt eftir veruna í Berlín, að við mundum ekkert hver hafði hugsað hvað (enda höfðu flestar hugsanir sprottið upp í einhverjum samræðum). Þess vegna, sumsé, hann átti alveg jafn mikið í henni og ég, einhvern veginn. Ég man eftir að hafa stöðvað í Ríkinu í Selfossi og fyllt annan bílinn af áfengi. Eitthvað var áreiðanlega drukkið í báðum bílunum, en í mínum kláraðist allt og var búið þegar við komum á Seyðisfjörð um kvöldið, við talsvert uppnám í hinum bílnum, þar sem menn héldu að við værum að „spara okkur“. Ég man eftir að hafa gert hlé á ferð okkar við Jökulsárlón. Þar sem var ekki kjaftur – annað en maður á að venjast núna. Og þetta var vel að merkja í byrjun júlí. Ég hafði aldrei komið þangað áður og ég man ekki til þess að náttúra hafi orkað jafn sterkt á mig og í þetta skipti. Ekki að ég kunni að hafa um það orð, mér hafa alltaf þótt ægilegar lýsingar á náttúrunni vera hjárænulegt klám í besta falli og stækur þjóðernisrembingur í versta falli. Og nú skilst mér að þetta sé einhver minnst sjarmerandi staður landsins. Einhvers konar Niagara Falls Íslands. Mér hefur að vísu alltaf þótt Niagara Falls (bærinn) mjög sjarmerandi staður, en það er sérálit. Ég á enga mynd af Nýhil á Jökulsárlóni – þótt mig minni að þar hafi verið tekin hópmynd – en hér er ég í Niagara Falls, árið 2006. Auk okkar var í bílnum Gunnar Þorri Pétursson, þáverandi starfsmaður Víðsjár. Hann gerði nokkuð langt innslag um ferðina og ég man að í þættinum, sem ég á einhvers staðar á kassettu, segir hann frá símtali þar sem Danni – Daníel Björnsson, myndlistarmaður, Berlínarnýhilisti og þáverandi vert á Skaftfelli – hefði tilkynnt þeim (í hinum bílnum) að á Seyðisfirði biði okkar heitur maður. Allir voru uppveðraðir yfir heita manninum sem reyndist svo auðvitað vera heitur matur. Svona var nú símasambandið í mínu ungdæmi, börnin mín góð. Einsog gerðist gjarna á þessum tíma hafði ég ekkert sofið um nóttina. Ég vann sem næturvörður á Hótel Ísafirði og yfirleitt þegar ég fór eitthvað á fríhelgum, sem gerðist ósjaldan, fór ég beint af vaktinni suður. Þegar við komum á Seyðisfjörð var ég ekki bara rallandi fullur heldur með hvínandi höfuðverk af því sem ég hélt að væri koffínskortur. Ég vatt mér beint að Danna og spurði hversu margfaldan espresso hann gæti gert – mig minnir að það hafi verið tólffaldur, í það minnsta var glasið stórt og vökvinn þykkur einsog síróp. Ég sturtaði þessu í mig og höfuðverkurinn margfaldaðist á augabragði. Þá fékk ég parkódín forte og meira að drekka. Ég veit ekki alveg í hvaða veröld ég var þegar ég steig á svið um kvöldið – en í henni voru miklir þokubakkar. Ég man líka að Friðrika Benónýs var þarna og kom til mín um kvöldið til að þakka fyrir Heimsendapestir, sem hún hafði skrifað mjög fallega um í DV (minnir mig). Og það var pakkfullt og mikil stemning. Ég færði einhvern tíma upptökur af upplestrunum yfir á tölvuna og var með þær við höndina hér um daginn – en svo skipti ég um tölvu og ég hef sennilega asnast til að eyða þeim. Sem er leitt því þetta var afskaplega gott efni. Stína las úr Kjötbænum og söng línurnar úr Komu engin skip í dag. Offi var manna ölvaðastur og urraði stóran hluta úr Roða – maður skildi minnst nema að þetta fjallaði um „horguðinn“ – og svo byrjaði hann að ýta hljóðnemanum að hátalaranum til að búa til fídbakk, aftur og aftur, aftur og aftur, þar til einhver bar hann af sviðinu við talsverðar mótbárur. Ég las hraðar en ég var vanur (og var vanur að lesa hratt). Það eina sem ég á hérna á netinu – af því ég var búinn að hlaða því upp – var þetta: Oberdada von Brutal flytur Raxö ðiv aná (Öxar við ána) ásamt Halldóri Arnari Úlfarssyni, sem leikur á prótótýpu af dórófóni. Það heyrist reyndar eiginlega ekkert í dórófóninum á þessari upptöku. Hljóðfærinu lýsir Jónas Sen svo: Hvað er eiginlega dórófónn? Það er hljóðfæri sem er hugarfóstur Halldórs Úlfarssonar myndlistarmanns. Þaðan kemur nafnið; dórófónn er stytting á Halldórófónn. Þetta er eins konar selló, að hluta til rafknúið en með hljómbotni og strengjum. Hljómbotninn er furðulegur í laginu, manni dettur í hug plastselló sem einhver hefur ráðast á og lamið í klessu. Notagildi dórófónsins virðist vera mjög sveigjanlegt. Á tónleikum í Norðurljósum í Hörpu á tónlistarhátíðinni Tectonics var spilað á hann eins og selló. En svo voru líka framkölluð með honum undarleg hljóð sem minntu bæði á orgel og rafmagnsgítar. Við sváfum í tómu húsi við hliðina á Skaftfelli – en þar mátti held ég ekki vera með neitt partístand (ég hef sennilega verið of svartur, því ég man ekkert hvort það var eitthvað partístand, sennilega var samt partístand). Mig rámar í að hafa eitthvað verið að þvælast úti með Stínu og Offa (sem voru rétt að byrja að „stinga saman nefjum“ – ég man ekki hvort við uppnefndum þau svo þau heyrðu, en þau voru oft kölluð Sid & Nancy, af augljósum ástæðum). Hér er einhver tímalapsus. Við fórum austur á föstudegi – hugsanlega var upplesturinn þá á laugardegi. Því það var áreiðanlega sunnudagur þegar við fórum. Og þann dag vöknuðum við þunn og keyrðum á Höfn í Hornafirði. Þegar við höfðum keyrt austureftir var mikið talað um yfirstandandi humarhátíð í bænum – og lögð áhersla á að þetta væri fjölskylduhátíð, ekki einhver fylleríishátíð. Sem truflaði okkur lítið, enda vorum við þá þegar frekar volkuð. Að keyra inn á Höfn var samt eftirminnileg reynsla. Það var einsog það hefði fallið partíkjarnorkusprengja á bæjarfélagið. Úti um öll tún voru tómir bjórkassar, yfirgefin tjöld flaksandi í vindinum og hálfklæddir timbraðir hátíðargestir að leita að skónum sínum og/eða bíllyklunum, ringlaðir á grasflötum. Við vorum bókuð með upplestur í Byggðasafninu, sennilega um 17 leytið. Við Ófeigur brugðum okkur á veitingastað niðri í bæ. Þar pöntuðum við okkur hvor sinn bjórinn. Ég man eftir uppgjöfinni í augum afgreiðslukonunnar. Það var einsog hún vildi spyrja hvort þessu ætlaði aldrei að linna. Hvort þessir partísturluðu aðkomumenn gætu ekki bara drullað sér heim. Við Offi tókum bjórana okkar skömmustulegir og settumst út í horn til að spjalla og komum okkur síðan út hið snarasta. Þegar við komum síðan á Byggðasafnið kom í ljós að það hafði ekki upp á neinn samkomusal að bjóða – og samanstóð af mörgum litlum herbergjum. Við enduðum á að lesa upp á bakvið afgreiðslukassann – sem var inni í svona kassalaga diskvirki sem tók upp næstum allt plássið í herberginu. Það var rétt svo ein mannsbreidd utan um það – til að hægt væri að ganga í kringum það. Og þar var áheyrandinn. Sem var kannski tveir, ég man það ekki. En þetta var skásta herbergið og kom auðvitað ekki að sök, fyrst ekki mættu fleiri. Ég held að Bjarni Klemenz hafi verið sá Nýhilistinn sem var í bestu formi þennan daginn – og las að mig minnir einhvern brjálæðislegan texta um alter-egóið sitt, Deleríum Klemenz, og George W. Bush. Eftir upplesturinn var debaterað um hvort við ættum að dveljast í Höfn um nóttina, einsog var í boði, eða drífa okkur í bæinn og reyna að ná á Sirkus fyrir lokun. Síðari valkosturinn varð úr. Og rétt náðist – ég held við höfum náð einum bjór (og kannski svo ráfað í eftirpartí einhvers staðar, sem var sennilega tilgangurinn með innlitinu). Lauk þar fyrsta legg ljóðapartítúrsins 2003.
id““:““f9q0b““
Bon Scott drakk sig í hel. Eða ældi sig í hel. Kvöld eitt í byrjun árs 1979 fór hann á fyllerí með vinum sínum, drapst í bílnum á leiðinni heim (s.s. sofnaði áfengisdauða), var skilinn eftir þar yfir nóttina, gubbaði upp í sig og drapst (s.s. lét lífið). Þar fór góður drengur fyrir lítið. *** Það er ekki lítið áfall að missa vin. AC/DC höfðu meira og minna búið saman í 5-6 ár þegar þetta gerist – og þótt Bon og Angus lifðu mjög ólíkum lífum utan sviðs þá voru þeir fjarska nánir – og frontuðu sveitina saman. Bon var vanur að ganga um með Angus á öxlunum á brjálæðislegustu köflunum. *** Það stóð til að leggja niður hljómsveitina þar til mamma Bons bað þá Youngbræður um að láta þetta ekki stoppa sig, það væri ekki í anda Bons og ekki í anda vinskapar þeirra. Og þá fóru menn að litast um og prófa söngvara. *** Bon Scott hafði einu sinni farið á tónleika með hljómsveitinni Geordie og hrifist mjög af frontmanninum, söngvaranum Brian Johnson, og verið tíðrætt um það við vini sína í AC/DC. Ekki bara væri hann fær um rammhása englaskræki heldur væri hann skemmtilegur sviðsmaður og ótrúlega orkumikill. Þá gerði hann sér lítið fyrir, rumurinn sem hann var, og gekk um með gítarleikarann á öxlunum. „Angus – eigum við ekki að prófa það?“ spurði Bon. *** *** Það er reyndar merkilegt að það tók víst nokkur ár áður en Brian og Angus urðu nógu nánir til þess að gera þetta saman. Einsog þeir þyrftu að þróa með sér vinskapinn fyrst – og kannski vildu þeir forðast samanburðinn. Heimurinn þekkti þetta múv frá Bon og Angus – þótt Bon hafi fengið það frá Brian (og Brian sennilega frá einhverjum öðrum). *** Ímyndið ykkur nú að söngvarinn í eftirlætishljómsveitinni ykkar sé dáinn. Þið kaupið nýju plötuna full efa. Það er hægt að skipta um bassaleikara og trommara, rytmasveitina – svo fremi þeir séu ekki lykilmenn í lagasmíðum – en það er afar sjaldgæft að frontmannaskipti heppnist vel. *** Platan heitir Back in Black – sem undirstrikar að þeir eru komnir aftur. Þetta er ekki nýtt band. Þetta er sama bandið í nýjum fötum. Plötuumslagið er svart. **** Þið setjið ykkur í stellingar. Lagfærið níðþunga hlemmana á eyrunum. Hækkið í botn. Stillið á 33 1/3 snúninga og látið nálina falla. Fyrst heyrist suð. Síðan kirkjubjöllur í fullar 20 sekúndur. Þetta er jarðarför og upprisa. Gítarplokkið í byrjuninni er ískyggilegt – sínister. Hljómsveitin kemur inn einn maður í einu – fyrst Angus, þá Malcolm, svo Cliff og loks Phil. Þeir sækja smám saman í sig veðrið. Það heyrist ekkert í söngvaranum. Hljómsveitin keyrir sig í gang – gítarplokkið breytist í eitthvert flottasta rokkriff gítarsögunnar. Gítarriff rokksögunnar. En hvernig hljómar þessi helvítis söngvari? Það eru liðnar hátt í tvær mínútur – og það eina sem þú vilt vita er hvernig hljómar söngvarinn. Og hvernig í ósköpunum ætlar hann að verja þá óverjandi ákvörðun að koma í staðinn fyrir Bon Scott, rokkguð? *** Ég er þrumugnýr, ég er úrhelli.
Ég sæki fram einsog fellibylur
Elding mín leiftrar yfir himni
Þið eruð bara bernsk, en þið eruð feig.
Ég tek enga fanga, ég sýni enga miskunn
og þið streitist ekki á móti.
Ég held á bjöllunni og leiði ykkur til heljar.
Ég næ ykkur ykkur, Kölski nær ykkur. *** Hann ver ekki ákvörðunina – heldur setur á fullt og hefur einfaldlega sókn af miskunnarlausri grimmd, svo rokklendurnar skjálfa og efasemdarmenn gefast upp, fullsigraðir á fyrstu andköfum. *** Ef svo illa vildi til að þið sneruð plötunni öfugt komust þið ekkert betur undan. *** *** Reis upp í svörtu,
kastaði mér flötum.
Ég var of lengi, gleður mig snúa aftur.
Já, ég er sloppinn
úr snörunni
sem hélt mér hér hangandi.
Ég starði á himininn
og hann ölvaði mig.
Afpantið líkvagninn, því ég dey aldrei. *** Það er mikið af setningum í efsta stigi í þessari umfjöllun minni um AC/DC – en það hefur líka með umfjöllunarefnið að gera. AC/DC er ofsaleg hljómsveit og Back in Black er einhver ofsalegasta plata sem hefur verið samin, spiluð og tekin upp. *** Næsta lag á eftir Hells Bells er Shoot to Thrill. AC/DC eru sérfræðingar í góðum byrjunarleikjum svo upphafslagið hlaut alltaf að vera besta lagið á plötunni. Shoot to Thrill byrjar ekki með neinum bravúr. Þetta er skítsæmilegt riff – alls ekki eitt af þeim bestu – og enginn ástæða til að ætla að það myndi „rætast úr“ laginu meira. AC/DC höfðu fram til þessa ekki þróað lagasmíðar sínar mjög mikið – nema bara úr rólegheitum í æsing og læti. En Shoot to Thrill er einmitt lag sem sækir á. Þar sem því hefði átt að ljúka við venjulegar aðstæður – í upphafi fjórðu mínútu – tekur Angus upp á nýju signatúrmúvi (ég held ég fari rétt með að þetta sé í fyrsta sinn sem hann gerir þetta) sem er svona dempað fingur plokk – og er sennilega frægast úr upphafinu á titillagi næstu plötu, For Those About to Rock. Og lagið neglir mann í hjartað. *** Svo heldur þetta bara áfram með sívaxandi brjálæði. Hvert ómetanlega gítarriffið rekur annað. Brian er að vísu, einsog ég hef tönnlast á, ekki jafn fínn textasmiður og Bon – en Back in Black er samt langskásta skáldverkið hans, og Hells Bells, Back in Black, Rock ‘N’ Roll Ain’t Noise Pollution, Givin’ the Dog a Bone og fleiri eru mjög fín. Hans stærsti galli er ákveðið naívitet. Bon var einlæg undirheimafígura og sem slíkur „kunni“ hann að vera hættulegur. Í Night Prowler til dæmis, daðrar hann við alls konar vafasama hluti, en stígur aldrei yfir línuna – í Dirty Deeds hótar hann perrum heimsins. En Brian kann þetta ekki – Brian er einrænn tedrykkjumaður, rokkari á sviðinu en ekki í lífinu – og gengur þar með oft miklu lengra, vegna þess að hann þekkir ekki mörkin. Þetta eru bara pósur og þeim fylgir enginn raunveruleiki og þar með engin ábyrgð. Bon lifði lögin sín, það gerði Brian ekki. *** Þetta er ekki síst augljóst í Let Me Put My Love into You. Sem er eitt af mörgum uppáhaldslögum mínum í öllum heiminum. En hafi nokkurn tímann verið samið lag sem gerir lítið úr nauðgunum, eða daðrar hreinlega við þær, þá er þetta það. Sennilega er það einhvers konar tímanna tákn að enginn hafi bankað í bakið á Brian og sagt „nei, heyrðu, rólex, þetta er alls ekki hægt“. *** Og svo verður maður reyndar líka að gæta sín á því að rugla ekki ljóðmælanda alltaf saman við skáldið eða líta á kvæði sem einfaldan boðskap. Því má vel halda fram að ljóðmælandi í laginu sé einfaldlega sturlaður, frekar en að Brian sé sjálfur á villigötum. Þá er Let Me Put My Love into You Lolita rokkbókmenntanna. Ef Brian væri færari textasmiður hefði ég gefið því séns. Það er samt ekki. En guð hvað þetta er gott lag. *** Um þessa plötu hef ég skrifað áður – í seríu sem dó drottni sínum (eða er enn ókláruð eftir því hvernig maður kýs að líta á það). Þar er allt önnur saga um uppruna þess að ég byrjaði að hlusta á AC/DC. Hún er að vísu ekki ósamræmanleg þeirri sem var sögð hér, vegna þess að ég er alls ekki viss um að ég hafi áttað mig á því sem barn að T.N.T. og You Shook Me All Night Long væru lög með sömu hljómsveitinni. Sem gefur samt bara alltaf út sama lagið. En ég er löngu hættur að skammast mín fyrir að fíla AC/DC. Sá fugl er floginn. #ACDC
createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.743Z““
Menningarvikan byrjaði sennilega með árshátíð grunnskólans. Við fórum þrjú að sjá Aram og aðra krakka í 1. til 4. bekk. Þetta er merkilegt menningarfyrirbæri – að hrúga saman öllum krökkunum og láta þau skapa, í samstarfi við kennara, heilu sýningarnar – og gleðin og aðdáunin úti í sal auðvitað meira og minna fullkomin. Fjórði bekkur setti á svið ævintýrið um Aladín og fórst það vel úr hendi. Aram var einn af sögumönnum – og það er nú fátt sem hann gerir áreynslulausar en að lesa upp. Hann sagði okkur að vísu að á einhverri sýningunni hefði hann farið í síðuvillt og ekki fundið réttan texta fyrren eftir dúk og disk. Það var líka alveg eftir honum. Og það er líka allt í takt við framkvæmdina almennt – þetta væri ekki nærri jafn skemmtilegt ef þau væru öll einsog þrautþjálfaðir hermenn. Ég hef orðið vitni að æfingum fyrir slíkt grunnskólasjó – í Víetnam – og það er ekki mjög sjarmerandi, eiginlega bara skelfilegt. Þetta er gaman vegna þess að þetta á fyrst og fremst að vera gaman. Það mættu margir listamenn læra af því. *** Á miðvikudag flaug ég suður og hitti Hauk Má. Við fengum okkur hamborgara á einhverri búllu við Hverfisgötu („þarna götunni þar sem barirnir eru“, sagði afgreiðslustúlkan á American Style, þar sem við stoppuðum fyrst, en gat ekki afgreitt okkur vegna bilunar í posakerfinu) og héldum síðan yfir á Hressó í bjór, kaffi og sígó. Við ræddum ýmislegt og meðal annars hvers vegna Hressó hefði aldrei verið gentrifíeraður – hann er alltaf skemmtilega subbulegur, alþýðlegur, þannig staðir eru ekki á hverju strái í miðbænum. Það þykir líka mjög ófínt að vera þar. Ég fer þangað oft til að vinna þegar ég er í bænum og þarf alltaf að koma með alls konar afsakanir fyrir því gagnvart hváandi vinum mínum og kunningjum. Það sló okkur líka að hugsanlega væri það „sirkusliðið“ – það er að segja okkar kynslóð – sem bæri ábyrgð á gentrifíeringu miðbæjarins. Og væri spes – svona í ljósi þeirrar subbufagurfræði sem var við lýði á sirkusárunum og allri nostalgíunni fyrir þeim árum – að svo væru bara nánast engir staðir eftir þar sem manni liði ekki asnalega á í vinnufötunum. Nema Hressó einmitt – sérstaklega úti á palli. En staðurinn er víst til sölu. *** Það snjóaði á mig í garðinum heima daginn sem ég fór á árshátíðina. Það var mjög leiðinlegt. En Barcelona tók á móti mér með sól og blíðu og var ekki við öðru að búast. Ég kom hingað (þessi orð eru skrifuð á flugvellinum á leiðinni heim) til þess að taka þátt í róttæku bókamessunni Fira Literal. Ég fékk ansi veglegan sess í dagskránni – var aðalatriðið á laugardeginum, en aðalatriðið á sunnudeginum var ítalski femínistinn Silvia Federici. Það mættu að vísu nokkuð fleiri á hana en mig – og skal engan undra – en mér þykir mér mikill heiður sýndur að deila keynote-helgi með annarri eins stjörnu. Bókin – Illska – gengur líka mjög vel og er að detta í þriðju prentun (á spænsku, ekki katalónsku – útgefandinn, Hoja de Lata, er staðsettur í Asturias). Nadja skrifaði mér líka að heiman og sagði að Aram Nói hefði séð Hatara í sjónvarpinu nefna mig sem áhrifavald – ásamt Peaches, Björk, Rage Against the Machine og fleirum – og hefði samstundis vaxið um heila sex sentimetra. Hvorutveggja, hrósið frá Hatara og grobbið í Aram, urðu svo til þess að ég óx um annað eins. Þetta hafa sem sagt verið góðir dagar fyrir egóið, en það er samvaxið hégómann og þótt egóinu líði vel þarf að halda hégómanum í skefjum og því mun ég sennilega næstu daga einbeita mér að því að hlusta á Stormy Daniels lagið þar sem ég er settur í flokk með Sveini Andra og ljóðabók Eyrúnar Jónsdóttur þar sem ljóðmælandi leggur á ráðin um að taka mig af lífi af því ég er svo mikill drullusokkur. (Ég á talsvert auðveldara með að gangast við því síðarnefnda en því fyrrnefnda, þótt það sé skylt – en ég er að gera mitt besta til að vera heiðarlegur og almennilegur, lofa). Ekki þar fyrir að kannski finnst egóinu líka gaman að hata sig. Að minnsta kosti á góðum dögum. *** Ég gekk um stræti og torg Barcelona-borgar – frá Sant Andreu til Gracía og út um allt í miðbænum – með The Anatomy of a Moment / Anatomía de instante eftir Javier Cercas í eyrunum. Ég hef auðvitað líka verið að lesa Impostor eftir sama höfund, einsog hefur verið nefnt hér. Bókin er sannsöguleg og fjallar um valdaránstilraunina á Spáni þann 23. febrúar, 1981. Þarna er lýðræðið á Spáni mjög ungt og árin á undan höfðu einkennst af efnahagslegu og pólitísku kaosi. Umræðan um nauðsyn þess að velta forsætisráðherra, Adolfo Suarez, úr sessi hafði farið fram fyrir opnum tjöldum árum saman – og mælt með bæði mjúkum og hörðum lausnum í því efni. Honum þótti hafa farist vel úr hendi að skipta út hinu fasíska kerfi Francos fyrir evrópskt lýðræði en stjórn hans að loknu þessu breytingarferli þótti fremur léleg. Áætlanir valdaránsmanna gerðu ráð fyrir „mjúku valdaráni“ þar sem ekki yrði hleypt af, en fóru út um þúfur strax og ráðist var inn í þinghúsið. Þá var orðið úr vöndu að ráða enda ljóst að margir þeirra sem stóðu að baki valdaráninu – eða væru líklegir til að gera það nú þegar það var hafið – myndu snúa við þeim bakinu. Það gerðist fljótlega og munaði mestu um að kóngurinn – sem hafði skipað Suarez en studdi hann tæplega lengur og hafði gælt við alls konar pælingar um að losna við hann – lýsti yfir andstöðu sinni við ráðagerðina. Stór hluti valdaránsmanna voru konungssinnar – annar hluti var falangistar, og svo voru þarna alls kyns metnaðarfullir framagosar sem vildu bara sölsa til sín völd. Í raun virðist það ekki síst vera það sem veldur því að þetta fer út um þúfur – valdaránsmennirnir höfðu mjög ólíkar hugmyndir um hvernig þetta ætti allt að fara og voru búnir að vera að blekkja hver annan til þess að fá stuðning við eigin plön. Svo þegar hljóp snurða á þráðinn vissu menn ekki lengur hver ætti að ráða eða hvað ætti að gerast. Bókin fjallar um meira en þetta – fer vítt og breitt um sögu lýðveldisins og fasismans á Spáni. Megnið af henni er lýsingar á alls konar vélráðum og metnaði til valda – maður kemur ekki út úr henni neitt æðislega bjartsýnn fyrir hönd lýðræðisins, en þó með þá vissu að vélráðin og sérhlífnin og græðgin og undirferlið og innihaldsleysi hugsjónanna sé í öllu falli ekki skárri í fasísku kreðsunum. Samt eru þarna nokkur falleg augnablik – það er eitthvað dásamlegt við að einu mennirnir sem hafi neitað að fara úr sætum sínum þegar herinn ruddist inn í þingsalinn hafi verið Adolfo Suarez, fyrrverandi falangisti, fyrirlitinn forsætisráðherra, Mellado, æðsti yfirmaður hersins og aðstoðarforsætisráðherra og og Carillo, formaður kommúnistaflokksins þar sem hann rakst illa og var í eilífum illdeilum við félagsmenn. Kommúnistaflokkurinn á Spáni hafði þá verið „lýðræðislegur“ – fallið frá hugmyndum um alræði öreiganna – í sirkabát korter áður en þetta gerðist. Það voru þannig í einhverjum skilningi andlýðræðislegustu öflin sem neituðu að láta lýðræðið af hendi – fulltrúar falangista, kommúnista og svo hersins (sem var að reyna valdarán). Maður týnist mikið í þessum plottum samt. Þetta er ofsalega mikil og flókin saga og einsog það sé ekki nógu þá eru flestir þátttakendur í henni margsaga um hvað gerðist. Cercas hefur svo sitt sjónarhorn og sína túlkun og maður er mjög meðvitaður um að þegar svona ofsalega einæðisleg bók er fyrstu kynni manns af atburðum sem maður vissi fjarska lítið um fyrir þá þurfi maður að taka öllu með smá saltklípu. Það er reyndar fyndið að þegar ég nefndi það við fólk hérna að ég væri að lesa Cercas þá varð það skrítið í framan og spurði: „En er hann ekki hægrimaður?“ Ég varð sosum ekkert var við það – hann ver Suarez að mörgu leyti, kannski bara vegna þess að hann er áhugaverðasta persónan í þessu öllu saman, mótsagnakenndastur og fyrir miðju narratífunnar. En Cercas talar líka um að hann hafi sjálfur verið hallur undir málstað ETA og um svik krata við sósíalismann og fleira sem ætti að gefa til kynna að hann væri vinstrimaður. Fyrst og fremst er hann sennilega samt rithöfundur – og þeim er jafnvel enn verr treystandi en vinstrimönnum. *** Impostor er alveg eins og allt öðruvísi. Hún segir sögu Enrics Marco sem var bifvélavirki, verkalýðsleiðtogi fyrir anarkista, baráttumaður fyrir skólaumbótum og formaður minningarsamtaka um helförina – hann var sjálfur eftirlifandi úr Flossenbürg búðunum og fyrrverandi andófsmaður gegn Franco og anarkisti sem hafði lifað ótrúlegu lífi, hálfgerðu Forrest Gump lífi, þegar í ljós kom á gamals aldri að megnið af þessu var bölvað kjaftæði og hann hafði ýkt mjög og skreytt það sem hann skáldaði ekki beinlínis frá grunni. Hann hafði aldrei verið í Flossenbürg – en farið sem verkamaður til Þýskalands á vegum fasista, til að komast hjá því að fara í stríð, þar sem hann var loks handtekinn fyrir liðhlaup og sat í fangelsi nasista um hríð. Hann átti svo einhverja lauslega snertipunkta við anarkistahreyfinguna og andófið gegn Franco en sennilega ekkert meiri en næstum því hvaða Spánverji sem er – og stjórnmálaskoðanir hans voru út um allt, hingað og þangað. Þegar Enric var afhjúpaður var hann orðinn frægur – mjög frægur í Katalóníu og lítið frægur um allan Spán. Þetta er ekki beinlínis saga lygasjúklings – til þess lýgur hann eiginlega ekki nóg. Lygasjúklingar, það best ég þekki til og hef upplifað, hækka tempóið og kraftinn í lygunum svo hratt að það kemst yfirleitt upp um þá fyrir hádegi á fyrsta degi – þeir ráða bókstaflega ekkert við sig. Marco virðist ráða við sig og stjórna þessu nokkuð vel en þjást af óstjórnlegri þörf fyrir að vera miðpunktur athyglinnar – það er margoft undirstrikað í þessari bók að fortíðin, einsog Faulkner sagði, er alls ekki dauð, eða einu sinni liðin, heldur er hún vídd í samtímanum, og Marco þarf ekki bara að vera miðpunktur hvers samtíma, hvers samkvæmis (sem hann gerir leikandi, verandi sjarmerandi sögumaður) heldur þarf hann að vera miðpunktur fortíðarinnar líka – og með því dómínerar hann yfir samtíma sínum, dómínerar yfir samkvæminu, og sögurnar verða allar magnaðri og ungu stúlkurnar allar æstari í hann (hann nefnir þetta nokkrum sinnum með ungu stúlkurnar – þetta virðist byrja upp úr einhvers konar miðaldurskrísu). Bókin er svo glíma Cercasar við að skrifa hana ekki – stór hluti hennar eru yfirlýsingar um að hann ætli aldrei og geti ekki skrifað þessa bók – og svo glíma hans við sögu Enrics og loks Enric sjálfan. Hún er ekki alveg jafn einæðisleg í staðreynda- og kenningaflutningi og Anatomy of a Moment en næstum því – kaflarnir þar sem hann er að rekja helstu lygarnar á óljósustu æviskeiðunum eru í leiðinlegra lagi en án þeirra hefði maður sennilega ekki komist. Hún er ljóðrænni og meiri „bókmenntir“ að mínu mati – Anatómían fellur nær blaðamennsku, þótt báðar séu á grensunni. Þótt það sé ofsalega mikil frásögn í anatómíunni þá er miklu meiri skáldskapur í Impostor – þótt ekki væri nema bara vegna þess að Enric er svo mikill skáldskapur sjálfur. Mér fannst hann oft minna mig á Rachel Dolezal – sem ég skrifaði um hérna . Rachel gerðist svört – african american – og telur sig það best ég veit enn vera blökkumann þótt hún gangist við því að hún sé ekki komin af neinum blökkumönnum, foreldrar hennar hafi verið snjóhvítir. Einsog Dolezal skapar Enric Marco sögu um sjálfan sig sem verður á endanum miklu stærri og meiri en hann sjálfur – svo stór að hann getur varla tekið hana til baka nema í hænuskrefum, tilneyddur, með sönnunargögnin á borðinu fyrir framan sig. Í öllum lygavefnaðinum verður kjarninn – karakterinn, eða hið skapaða ídentítet – það eina sem viðkomandi upplifir sem fullkomlega satt. Og engu að síður er það lygin sem liggur til grundvallar öllu hinu. *** Ég missti af föstudagskvikmyndaklúbbinum með krökkunum (og veit ekki hvað þau horfðu á) og við frestuðum kvikmyndaklúbbi fullorðna fólksins en ég horfði samt á Hamingjuna, Le Bonheur, eftir Agnesi Varda í hótelherbergiskytrunni minni við Hlemm í gærkvöldi. Henni tekst einhvern veginn að gera myndavélarlinsuna svo látlausa að manni finnst næstum að myndin hafi ekkert perspektíf – að hún sé ekki að „meina neitt“. Á sama tíma og söguþráðurinn er ótrúlega merkingarþrunginn. Sagan er svona (höskuldarviðvörun). Ung hjón eiga tvö börn og eru mjög hamingjusöm og elska hvort annað mikið. Karlinn kynnist konu sem vinnur hjá Pósti & síma og þau hefja ástarsamband og eru mjög hamingjusöm og elska hvert annað mjög mikið. Karlinn er opinn með að hann elski konu sína og ætli ekki að fara frá henni en þau geti samt haldið áfram að hittast af og til og hann elski hana líka og það sé engin ástæða til þess að þau geti ekki bara öll verið hamingjusöm. Seinna, í lautartúr með fjölskyldunni – eftir að börnin eru lögst til síðdegishvílu – segir karlinn konu sinni frá ástkonunni, og hvort þau geti ekki bara öll verið hamingjusöm, hann elski þær báðar, en auðvitað muni hann hætta að hitta ástkonuna ef eiginkonan vill það. Stemningin er látlaus, ekki trámatísk – engin grátur, engin öskur, engin læti. Eiginkonan er efins en virðist svo taka þetta í sátt, fyllist hamingju og þau elskast og sofna. Þegar karlinn vaknar við að börnin eru vöknuð er konan horfin. Þau leita hennar lengi í skóginum og finna hana loks drukknaða í stöðuvatni. Allir verða mjög leiðir í svolítinn tíma en svo kemur ástkonan og gengur börnunum í móðurstað og allir eru mjög hamingjusamir. Þetta býður upp á alls konar lestur. Mín fyrsta tilfinning var að Varda væri að gagnrýna kjarnafjölskylduna og smáborgaralega hamingjuna með póliamorískum hugmyndum – eða hugmyndum um frjálsar ástir. Í upphafi myndarinnar rak ég augu í þennan ramma – þetta birtist bara örsnöggt í sjónvarpi fjölskyldunnar, ég veit ekkert hvaðan það kemur annars: Uppruni hins skipulagða lífs – það er spurningin! En svo hefst ekkert af póliamorískum hugmyndum karlsins annað en harmur og dauði. Póliamoríska fólkið myndi segja að hann hafi farið að þessu mjög illa – en í þessu samhengi er það samt sennilega óþarfa aðfinnsla, hann veður myrkrið og gerir sitt besta til að sætta langanir sínar við samfélagsramma kjarnafjölskyldunnar, eða réttara sagt láta bæði ganga upp. En þá langar mig líka að lesa í þetta sögu um tillitsleysi þeirra sem festast í eigin hamingjuleit – hvernig harmur annarra verður þeim nánast ósýnilegur, af því þeir finna svo sárt til þess sem skortir í eigin lífi. Það er auðvitað svo fráleitur punktur á þessari öld egósins – þar sem allt sem hindrar okkur hið minnsta í að ná 110% sjálfsuppfyllingu er stækasti fasismi – og sérstaklega virkar undarlega á mann að „listamaður“, að ég tali nú ekki um kona eða franskur listamaður eða hugsandi listamaður, búi til verk sem þá sé vörn fyrir kjarnafjölskylduna. Það er líka þarna bara saga um einhvern franskan bastarð sem er að ríða kellingunni á pósthúsinu, þótt hann eigi góða konu og falleg börn heima. Eitthvað svona „týpískt fyrir karl“ dæmi. Sagan styður það – ef þetta væri norrænt sósíal-drama myndi það steinliggja. En stemningin er bara ekki þar. Fagurfræðin er að segja eitthvað annað. Og kannski þarf manni ekki að finnast neitt. Myndin er meistaraverk – alger gullmoli – og hún ýtir við ýmsu innra með manni. Hún þarf ekki að predika neitt. *** Síðast en ekki síst er ég búinn að vera að hlusta á nýjustu plötu Vampire Weekend, Father of the Bride. Ég er bara búinn að renna henni einu og hálfu sinni í gegn og ætti kannski að geyma að segja neitt sérstakt um hana í bili. Allt sem mér dettur í hug enn sem komið er – preppy, vandað, ljóðrænt, mikið pródúserað, mikið útsett menntamannapopp – mætti líka segja um allar hinar plötur sveitarinnar. Og hefur verið sagt. Já, frestum þessu fram í næstu viku, nema ég hafi bara engu við þetta að bæta. Ég ætla líka að lesa dóminn hans Davíðs Roach á RÚV-vefnum. En sjáum til – ef hún lifir vikuna af, ef ég held áfram að hlusta, þá reyni ég að stýra hugsunum mínum í gegnum hana og ef ekki þá ekki. *** Gítarleikari vikunnar er Mary Ford, eiginkona hins fræga (og lipra) gítarleikara og gítarsmiðs Les Paul. Mary mátti svolítið standa í skugga manns síns en var engu síðri gítarleikari nema síður væri, einsog sjá má á þessu myndbandi hér fyrir neðan. Það sem er skemmtilegt við gítarinn sem hljóðfæri er að hann er svo gott performansverkfæri – léttur og meðfærilegur og fallegur og býður upp á svo margs konar sniðugheit. Þetta nýta þau Les og Mary sér í botn.
id““:““ehbpa““
Ég var að róta í vínylkassanum í Musikshopen á dögunum og rakst þá á þennan titil. Blues På Svenska með þeim Peps Persson og Slim Notini. Ég hafði aldrei heyrt á þá minnst áður en þessi Peps virkaði svo ótrúlega kunnuglegur samt. Lögin á plötunni eru allt blúsklassíkerar þýddir á sænsku – konseptið ekki svo ólíkt plötunni Blús með KK – pródusentinn er enginn annar en blúsvökumaðurinn Sam Charters, sem bjó áratugum saman í Svíþjóð og var ekki bara sænskur ríkisborgari heldur þess utan einkavinur (og þýðandi) Tomasar Tranströmer. Hef ég nýverið uppgötvað. Platan kostaði bara hundrað sænskar svo ég kippti henni með mér (ásamt einni Best of Freddie King) og skellti mér svo á kaffihús til að vinna svolítið. Dagarnir mínir fara svolítið mikið í að vera á vergangi niðri í bæ að leita mér að eirð og vinnufrið. Og þá sló það mig. Peps minnti mig svona mikið á annan íslenskan blúsmann – Tómas Ævar, sem ég þekki fyrst og fremst sem kærasta vinkonu minnar Fríðu Ísberg. Ég sendi auðvitað Fríðu skilaboð undir eins. Hún hló (eða skrifaði haha á spjall held ég eða sendi einhvern hláturkarl) og sagði að þetta væri kannski framtíðarTómas og þá baðst ég velvirðingar, Peps væri vissulega ellilegri en hennar ástkæri (ég komst að því reyndar síðar að Peps er yngri en Tómas þegar platan er gerð, ekki þrítugur – en að sönnu ellilegri samt, sennilega var lífið bara óskammfeilnara). Næst rak ég augun í að barítónsaxofónleikarinn á plötunni heitir Per Erik Isberg. Eftir að hafa látið Fríðu vita af þessu líka lagði ég frá mér plötuna og fór snarhendis aftur að skrifa ódauðlegan skáldskap, einsog ég fæ laun fyrir. Það fyrsta sem ég gerði eftir vinnu – þegar ég var búinn að kaupa í matinn og tæma úr pokunum – var að setja Blues På Svenska á fóninn og uppgötva, mér til talsverðrar gleði, að Peps er ekki bara sænskur heldur skánskur. Það er einhvern veginn blúsaðra að vera skánskur en að vera til dæmis (og kannski sérílagi) stokkhólmskur. Ég gæti líka trúað á norrlenskan blús – þar er bæði harmurinn djúpur, náttúran grimm og fólkið gætt mikilli sál – en trúi því engu að síður að skánski hreimurinn gefi sig betur að blústónlist, allir þessir rænulitlu sérhljóðar og gruggugu samhljóðar. Stokkhólmsbúar eru líka of hreinlífir í sínum lífsnautnum – þeir drekka of fín vín, borga of mikið fyrir (vegan) steikina og fara of oft í bað. En språkärring sa till morsan
innan jag sett dagens ljus
– Det e en grabb på väg
pigg på att leva bus.
Hans aptit på livet
blir större än nån kan förstå
Tills hela världen undrar
vad i helvete som står på.
Du vet, jag e här
alla vet att jag e här
Jag e en HOKUS POKUS MAN
alla vet att jag e här. Það eru 10 lög á plötunni, sem kom út árið 1975. Opnunarlagið er Hokus Pokus Man (Hoochie Cooche Man eftir Willie Dixon) og svo eru hápunktarnir sennilega Ropar På Min Snoppa (Howlin’ for My Darlin’ eftir Howlin Wolf) Allt Det Som Sårar Dej (It Hurts Me Too eftir Elmore James) og Liten Rö Tocke (Little Red Rooster eftir Willie Dixon). Í sem stystu máli sagt er þetta andskoti vel gert og ekki nærri eins mikið noveltí-ítem og ég hafði ímyndað mér. Í … hvað kallar maður „liner notes“ á íslensku? Formála að plötu? Í formála sínum skrifar Sam Charters: Blús á sænsku … Blús er sannarlega ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar maður hugsar um sænska tónlist. Nei, sennilega er Svíþjóð síðasti staður á jarðríki sem maður hugsar um þegar blúsinn er annars vegar. Þetta hlýtur að hafa verið skrítið fyrir Sam. Á sjötta áratugnum var blúsinn afar jaðarsettur – og hann hafði einsett sér að koma honum á framfæri við almenning, ekki síst til þess að vinna bug á landlægum rasisma í Bandaríkjunum. 20 árum síðar hefur blúsinn lagt undir sig gervallan hinn vestræna heim – það var blús alls staðar – og hann er mikið til leikinn af hvítu fólki. Þrátt fyrir hikandi byrjun eys hann nú talsverðu lofi á þá Peps og Slim en klykkir út með: En þessi músík hefur fengið sænska umgjörð, sína eigin kryddblöndu og eigið vörumerki. Þetta er blús. En þetta er blús á sænsku. Og það má til sanns vegar færa. Og kannski er þetta enn fremur bara blús á pepska – og slimska – vísu. Það erfiðasta við að spila blústónlist, hvort sem maður er frá Clarksdale eða Klippan, er að gæða hana persónuleika – því því verður einfaldlega ekki neitað að þessi tónlist er endurtekningasöm, stundum svo jaðrar við zeníska geðbilun, og þá eru það díteilarnir, sándið og einfaldlega persónuleikinn sem gerir músíkina. Það er erfitt að spila blús einmitt vegna þess að hann er einsleitur í grunninn. Margir blústónlistarmenn eru hálfgerðir períóðuleikarar – klæða sig upp í sokkabuxur og spila á lútu eftir kúnstarinnar reglum til þess að hljóma einsog eitthvað ídeal um blúsmanninn. Og geta kannski brugðið fyrir sig bæði Blind Blake og Mississippi John Hurt og hljómað eitthvað einsog báðir. En svo eru hinir sem gætu aldrei hljómað einsog neitt annað en þeir sjálfir. Muddy og Wolf léku báðir ótal lög eftir Willie Dixon og tilviljun réði því oft hver fékk hvaða lag en þeir hljómuðu aldrei einsog hinn – og heldur aldrei einsog Willie Dixon. Og þegar Peps leikur þessi lög hljómar hann bara einsog Peps. Kvöldið eftir var ég síðan að lesa ævisögu KK – Þangað sem vindurinn blæs eftir sveitunga minn Einar Kárason* – og þar skaut Peps aftur upp kollinum. KK bjó í rúman áratug í Malmö og kynntist að vísu aldrei Peps en mun hafa haldið upp á hann – og Einar gerir einmitt aðeins úr því að þeir hafi verið svolítið líkir, rauðhærðir grannir og svolítið teknir blúsmenn. Kannski er þetta bara eitthvað norrænt blúsgen – nú eða keltneskt. Þegar KK var í Svíþjóð (frá 77 minnir mig) var Peps Persson hins vegar mestmegnis að leika reggítónlist – vatt kvæði sínu í kross og er held ég þekktastur í Svíþjóð sem reggítónlistarmaður. Blues På Svenska var síðasta blúsplatan hans í 20 ár – en 1995 sneri hann aftur í ræturnar og gaf þá út plötuna Rotblos þar sem má meðal annars finna þessa dásemd: Min Trollmoj Funkar.
Þrífarar vikunnar. Kristján, Peps og Tómas. Mér finnst ósennilegt að þetta verði fastur liður á blúsblogginu, en aldrei að segja aldrei. . Hér eru svo loks að gamni Howlin’ for My Darlin’ með Howlin’ Wolf, Peps Persson (Ropar på min snoppa) og KK (Þrettán skref). .
* Bók Einars um KK er mjög skemmtileg – Einar er náttúrulega æðislegur sögumaður og innlifun hans afar smitandi og ævi KK áhugaverð. Það er hins vegar einsog Einar – eða útgefandi, prófarkalesari eða aðrir samstarfsmenn – hafi ákveðið að slá ekki upp nema íslenskum orðum og heitum. Þannig er varla orð, setning, nafn eða heiti á erlendum málum – ef frá er talin enska – sem ekki er vitlaust stafsett. Sables-D’Olonne verður Sable de Loné, Cornelis Vreeswijk verður Wreeswiik, Krogen er Krugen, sænska ö-inu er skipt út fyrir ø í einhverjum nöfnum og meira að segja Stevie Ray verður Steve Ray. Þetta er kannski smámunasemi en var nógu algengt til að vera orðið óþolandi fyrir rest. Aukaefni: Textar og formáli
createdTimestamp““:““2024-12-03T08:40:02.569Z““
Yasin heitir sænskur rappari, fæddur undir lok síðustu aldar. Hann er uppalinn í Rinkeby-hverfi Stokkhólms en af sómölsku bergi brotinn, og raunar skyldur nokkrum frægum tónlistarmönnum (á norðurlöndunum). Hann hefur verið að gera tónlist frá því hann var um 16 ára gamall en sló fyrst í gegn 21 árs, fyrir tveimur árum, með laginu DSGIS (sem stendur fyrir Det som göms i snö – „það sem snjórinn hylur“ er fyrri hluti máltækis sem endar „birtist í þíðunni“). Síðan þá hefur hann undantekningalítið raðað lögum sínum í efstu sæti Spotify-listanna. Þegar DSGIS kom út var hann nýstiginn út úr fangelsi en hann hafði rúmu ári áður verið dæmdur í 27 mánaða fangelsi fyrir gróft brot á vopnalögum en var sleppt snemma (reyndar var lausn hans frestað einu sinni um mánuð vegna slæmrar hegðunar í fangelsinu). Hann hefur löngum verið talinn háttsettur í glæpaklíkunni Shottaz sem hefur orð á sér fyrir að vera sú ofbeldisfyllsta í Stokkhólmi – og það er nú alveg svolítið, klíkuheimurinn í Svíþjóð er bara frekar harður í seinni tíð, mikið um skotárásir, sérstaklega undanfarið. Viku eftir að DSGIS kom út var hann handtekinn grunaður um morð – í nýárspartíi sem hann hélt á hæð í hóteli sem hann leigði í Stokkhólmi – og haldið í varðhaldi í rúma tvo mánuði áður en honum var sleppt (og málinu ekki fylgt frekar eftir). Í apríl í fyrra var síðan sautján ára gömlum sænskum rappara rænt. Hann er víst frægur en er hvergi nefndur á nafn í blöðum og ég hef ekki haft fyrir því að gúgla mig fram um það hver hann er (og myndi sennilega ekki þekkja hann hvort eð er). Rapparinn ungi var niðurlægður í myndböndum á samfélagsmiðlum, látinn skríða um á fjórum fótum með hundaól, hann stunginn, barinn, klæddur í kjóla og kvenmannsnærföt og látinn bera hárkollur o.s.frv. Á endanum var honum síðan sleppt en hann – sem er líka tengdur klíkuheiminum, þó ekki Shottaz – neitaði að vinna með lögreglu eða leggja fram nokkurs konar kæru. Yasin lá víst undir grun strax í fyrra en var ekki handtekinn fyrren í upphafi árs og þá á grundvelli sönnunargagna sem lögregla hefur úr Encrochat-spjallforritinu – og fær frá frönsku lögreglunni sem krakkaði forritið síðasta sumar. Yasin gaf út tvær plötur í fyrra – þá fyrri í maí og þá síðari í október. Sú fyrri var í fjórða sæti á plötulistanum eftir 21 viku og öll þrettán lögin af þeirri síðari fóru á topp-50 listann í Svíþjóð vikuna sem platan kom út. Hann var svo tilnefndur og vann bæði „hipphopplistamaður ársins“ og „nýgræðingur ársins“ á P3-verðlaunahátíðinni nú í mars (P3 er ein af ríkisútvarpsrásunum). P3 ákvað að taka hann ekki úr spilun – enda ætti að meta hann út frá listrænum eiginleikum frekar en glæpsamlegum gerðum í einkalífinu – en dró þó úr spilun laga hans, á þeim forsendum að fólki gæti þótt óþægilegt að heyra þau og það þyrfti að fara einhvern milliveg. Þá reyndi Yasin að senda bréf úr fangelsinu til þekkts klíkumeðlims í Stokkhólms þar sem hann stakk upp á því að einhverjum á P3 yrði hótað eða þeim rænt ef lög hans væru ekki meira spiluð (einu sinni á tveggja tíma fresti var nefnt sem lágmark). Bréfið var stoppað af eftirlitinu í fangelsinu en komst í fréttirnar – og P3 sagði að þetta skipti engu til eða frá um hversu mikið hann yrði spilaður. Í byrjun mánaðarins var svo haldin sænsk Grammy-verðlaunahátíð, sem Yasin komst ekki á frekar en á P3-hátíðina, og þar vann hann aftur „hipphoppari ársins“ fyrir plötuna 98.01.11 – en var auk þess tilnefndur fyrir plötu ársins, sem textahöfundur ársins og sem listamaður ársins. Vinur Yasins, rapparinn Haval – sem situr einnig fangelsaður fyrir sama brot – var tilnefndur sem nýgræðingur ársins en laut í lægra haldi fyrir Monu Masrour. Nokkur umræða spannst um þetta allt saman, einsog gefur að skilja, og hvort eðlilegt sé að horfa framhjá glæpum tónlistarmanna við spilun, umfjöllun eða verðlaunatilnefningar – hvort verkin standi sjálfstæð og hvort það sé ábyrgðarhlutur að hampa ofbeldismönnum. Yasin hefur stundum sagt að hann sé hættur í glæpalífinu. En hann hefur verið dæmdur og kærður og þykir sennilegt að hann verði dæmdur aftur – ef það er borið saman við t.d. glæpi Auðs, sem hefur verið tekinn úr spilun á Íslandi, hefur lítt birst um það nema óljósar ásakanir á samfélagsmiðlum og engar kærur eða ákærur og þaðan af síður dómar. Þá hefur fólk nefnt að ef aðstæðurnar væru aðrar hefði fólk tekið þessu alvarlegar. Pistlahöfundurinn Hanne Kjöller bar málið saman við mál Paolo Roberto sem er fyrrverandi boxari sem starfaði við sjónvarp og var þess utan orðinn hálfgert vörumerki fyrir pasta, ólífuolíu og þess háttar – nokkurs konar Jamie Oliver Svía. Paolo er vel að merkja afturhaldsseggur í skoðunum – barðist gegn hjónabandi samkynhneigðra og hefur sagt sig mikinn andstæðing femínismans (en ákafan stuðningsmann „jafnréttis“). Nema hvað – ekkert af því kostaði hann æruna. Hann var hins vegar handtekinn í fyrra fyrir að kaupa sér þjónustu vændiskonu og í kjölfarið var hann rekinn úr sjónvarpsþáttum sínum á TV4 og vörumerkið Paolos var lagt niður. Honum var sem sagt aflýst og hefur lítið til hans sést frá miðju ári í fyrra – fyrir það sem Hanna segir að sé augljóslega miklu minna brot en það sem Yasin hefur verið sakaður um. Hún ber þetta líka saman við dóma og kærur sem Cornelis Vreeswijk mátti þola – en hann sat nokkrum sinnum inni fyrir minni brot (meðal annars fyrir fylleríisakstur, slagsmál á krám og fyrir að hóta og skera – lítillega – eina af tveimur transkonum sem höfðu fylgt honum heim til ástarleikja – um þetta samdi hann meðal annars lag). Hanna tekur reyndar fram að henni þyki aflýsingarmenningin hroðbjóður – en gangsteragælurnar séu engu skárri. Þá hafa aðrir nefnt að ef fórnarlamb Yasins – hinn ónefndi, barnungi rappari – hefði verið barn úr millistéttinni, einhver saklaus 17 ára pólópeysustrákur frá Östermalm, hefðu viðbrögðin verið önnur. Það sé gengisfelling á lífum hinna jaðarsettu að láta einsog þau séu ekki nægilega mikils virði til að taka andköf yfir – og jafnvel einhvers konar Wire-hugsunarháttur, að af því strákurinn sé „in the game“ (altso meðlimur í klíku) þá sé ofbeldið sem hann verður fyrir bara eitthvað bíó (sem færi gerandanum street cred sem megi jafnvel verðlauna sem dramatíska list). Einnig hefur verið nefnt að tekið hefði verið harðar á þessu ef rapparinn ungi hefði verið kona og hún áreitt kynferðislega (margt af því sem gert var við strákinn – t.d. að berhátta hann og klæða hann í efnislítinn nærfatnað og mynda það – hefði verið kallað kynferðislegt ofbeldi í umræðunni ef hann væri stúlka). Það sé litið mun alvarlegri augum en niðurlæging litaðs unglingsstráks úr gettóinu. Af þeirri umræðu að dæma má ímynda sér að mál Auðs hefði ekki endilega verið hanterað neitt öðruvísi í Svíþjóð. Og væri kannski nær að bera það saman við mál grínistans Sorans Ismail sem var þó kærður fyrir eitt og annað – kynferðisofbeldi, vændiskaup o.s.frv. – en ekki ákærður fyrir nema eitt málanna og held ég ekki sakfelldur fyrir neitt. En missti þó ferilinn (ef frá er talin heimildamynd sem var gerð um hann – Persona Non Grata – og hans mál, hefur ekkert sést til hans í nokkur ár). Var hann þó, annað en Paolo Roberto, mjög afgerandi hluti af „góða fólkinu“ sjálfur – meðal annars beitt sér mikið gegn Svíþjóðardemókrötunum. *** Ég verð ekki bólusettur í Svíþjóð. Ég hef staðið síðustu vikur og endurhlaðið síðuna og fylgst með ártalinu færast nær og nær fæðingarári mínu – hér er maður ekki boðaður í bólusetningu heldur fær maður að bóka sér tíma þegar kemur að ártalinu manns. Þegar kom loks að mér hringdi ég umsvifalaust – símsvarinn lofaði að hringja í mig til baka og þuldi upp númerið mitt en svo var ekkert hringt. Sjálfsagt af því númerið er ekki sænskt. Ég beið því eftir að Nadja kæmi heim með sænskan síma og hringdi aftur. Þá var hringt til baka stuttu síðar. Fyrst var mér sagt að ég yrði að snúa mér til hælisleitendaþjónustunnar, hún sæi um alla sem væru ekki skráðir í landið, og svo spurði konan í símanum hvenær ég færi úr landinu (3. ágúst) og þá sagði hún að ég gæti ekki látið bólusetja mig fyrir þann tíma. Það væri enginn tími laus fyrr en 22. júní og ég þyrfti svo að bíða a.m.k. í sjö vikur á milli sprauta og þá væri kominn 9. ágúst. Það yrði enginn sprautaður með fyrri sprautunni sem gæti ekki lofað að vera til staðar til að þiggja þá seinni. Þetta er auðvitað mjög bagalegt. Sennilega teldist ég ekki fullbólusettur fyrir heimferðina nema ég hefði náð seinni sprautunni um miðjan júlí – eða fengið Janssen (sem Svíar eru einmitt að lána Íslendingum 24 þúsund skammta af). En það er enginn sveigjanleiki um þetta frekar en annað. Ég held ég hafi aldrei kynnst annarri eins bjúrókratískri þvermóðsku og í þessu landi. Ég hef sosum nefnt það áður – en ég get t.d. ekki pantað pizzu með appi af því til að borga þarf maður Swish og til að fá Swish þarf maður sænskan bankareikning. Ég get ekki borgað fyrir strætó með appi af því appið er bara í boði í sænska appstore. Alls konar opinbera þjónustu get ég ekki nýtt mér af því ég er ekki með sænsku rafrænu skilríkin – Bank-ID. Ég gat ekki pantað blóm til Nödju fyrren hún fékk sænskan síma af því blómasalinn gat ekki sent sms í útlenskt númer. Get ekki fengið póst til barnanna minna afhentan á pósthúsi nema vera með þau og passann þeirra með mér (fyrir utan að ég stend alltaf í korter meðan póststarfsmenn eru að reyna að hantera passann minn – sem passar ekki inn í kerfið af því hann er ekki esb-passi og ekki ekki-esb-passi og alls ekki sænskt nafnskírteini). Þetta er land ferhyrningsins og allt sem er ekki ferhyrnt verður að gerast ferhyrnt eða fokka sér. En ég þarf þá áreiðanlega að fara í sóttkví þegar ég kem heim. Hugsanlega börnin líka af því þau teljast ferðast með mér – geta ekki valið um að vera bara í för með bólusettri móður sinni. Og þarf sennilega tvö dýr PCR-próf – eitt til að komast inn í Danmörku og annað til að komast um borð í Norrænu og frá borði á Seyðisfirði. Fyrir utan auðvitað að ég þarf að ferðast óbólusettur – sem er nú ekki bara áhætta fyrir mig. Ég verð þá heldur ekki fullbólusettur þegar ég þarf að snúa aftur mánaðamótin ágúst-september til þess að taka þátt í bókmenntahátíð – ætli ég aflýsi því ekki bara, kemur í ljós. Ég fer allavega ekki í sóttkví á leiðinni heim því Aram á afmæli daginn eftir að ég kem til baka. Jæja. *** Plata vikunnar er Super Session með Mike Bloomfield, Al Kooper og Stephen Stills. Al Kooper var nýbúinn að fá djobb sem plötupródúsent og vissi ekkert hvað hann ætti að gera – og ákvað að gera bara djammsessjón plötu. Upprunalega pælingin var að fá bara Mike Bloomfield, sem var þá nýhættur í Electric Flag eftir að fyrsta platan þeirra floppaði (en hafði stungið af úr Paul Butterfields Blues Band til að stofna Electric Flag). En Bloomfield var hálfgert hrak. Hann hafði alltaf verið þjakaður af ofsalegri minnimáttarkennd og alvarlegu svefnleysi – við það bættist almenn tilvistarkrísa og dálítil heróínfíkn. Hann mætti samt, spilaði fyrsta daginn – var ofsa hress og kátur, einsog hann átti vanda til, lék á als oddi og spilaði músík einsog hann væri andsetinn. Þegar upptökunum lauk fór hann upp á hótel og hrundi bara – þunglyndið helltist yfir hann og hann lagðist aldrei til svefns heldur læddist út og náði fyrsta flugi heim til sín (og eyddi næstu árum í að reyna að gera eins lítið og hann komst upp með – en var stundum þvingaður úr húsi til þess að gera upp skuldir við útgáfufyrirtækið vegna Electric Flag floppsins). Al Kooper vaknaði við að aðstoðarmaður hans hringdi og spurði hvort Mike hefði náð fluginu. Hann vissi auðvitað ekkert hvaða flug hann væri að tala um – Mike væri sofandi í næsta herbergi. Hann reyndist auðvitað ekki vera þar – bara miði þar sem hann baðst afsökunar, hann gæti þetta bara ekki. Góð ráð voru dýr – Kooper mátti ekki við því að klúðra fyrstu plötunni sinni sem pródúsent – og hann fann Stephen Stills sem kom og kláraði seinni daginn með honum. Þá tóku þeir meðal annars upp hittara plötunnar, Season of the Witch – sem Donovan hafði gefið út árið áður. Fyrsta lagið var hins It Takes a Lot to Laugh, It Takes a Train to Cry, sem Mike Bloomfield hafði einmitt leikið á með Dylan á Highway 61 Revisited. Það var svo einhver kaldhæðni örlaganna að hafandi eytt óhemju af tíma og peningum í frumraun Electric Flag, sem var sannarlega ofsapródúseruð og ofhugsuð, skyldi Bloomfield fyrst ná almennilegri metsölu með þessum fimm lögum sem voru tekin upp óæfð í einni beit á einum afslöppuðum eftirmiðdegi korteri fyrir einhvers konar taugaáfall. Þetta er uppáhaldslagið mitt af plötunni. Stop var upprunalega leikið af The James Gang en útgáfan á Super Session er svolítið öðruvísi. Sveitin hafði ekki tíma til að læra allt lagið og allar skiptingarnar svo þeir tóku bara eitt grúv úr laginu og endurtóku það – slepptu öllum söng – og Kooper og Bloomfield skiptast á að sólóa yfir grúvið. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að sólóin séu ekki samin heldur spunnin.
createdTimestamp““:““2024-12-06T11:24:48.435Z““
Það er hellings umræða um bókmenntakrítík í sænskum miðlum í vikunni eftir að Linda Skugge – sem er sennilega þekktust á Íslandi sem einn höfunda Píkutorfunnar – birti gagnrýni um nýja bók eftir Kristinu Sandberg, margverðlaunaðan metsöluhöfund hinnar svonefndu Maj-trílógíu (sem hefur ekki komið út á íslensku – en er til á ótal öðrum málum). Bókin er sjálfsævisöguleg og fjallar um viðbrögð Kristinu sjálfrar við því að vera greind með krabbamein. Í sem stystu máli er dómur Lindu Skugge sá að bókin sé algert drasl – og hún fer ekki beinlínis fínt í það. Titillinn á gagnrýninni er „Verður ekki list bara fyrir að fjalla um krabbamein“. Skugge segir bókina þungaða af sensasjónalisma – og telur það afleiðingu af Storytel-væðingu forlagsins, Norstedt (sem Storytel á) – og bera þess merki að höfundur sé (illa) ritlistarmenntaður. Ekki kemur fram hvort Skugge er þar að gagnrýna rithöfundaskólann á Biskops-Arnö eða Litterär Gestaltning í Gautaborg, en Sandberg er með diplómu frá báðum. Skugge segir bókina ekki hafa neitt að segja. „Vilji hún skrifa um sína persónulegu einkahagi, sem eiga nákvæmlega ekkert erindi við okkur hin, ætti hún ekki í það minnsta að reyna að vera svolítið skemmtileg? Með smá heppni geta þá orðið úr því bókmenntir.“ Og bætir svo við: „Einsog t.d. þegar ég skrifa fljótlega um það þegar ég las nýlega upp pistil í útvarpið með WeVibe í píkunni á mér.“ Þá segir hún afstöðu Sandbergs til dauðans – sem er kjarni bókarinnar – hversdagslega og áhyggjur hennar af að krabbameinið taki sig aftur upp ómerkilegar. „Tja, velkominn til lífsins. Lífið er allt ein áhætta. Maður getur alltaf orðið fyrir strætó. Eða lent í öndunarvél vegna covid-19 og smám saman kafnað í hel. Þess utan held ég að það sé skárra að deyja sjálfur en að missa einhvern sem maður elskar.“ Þá bætir hún við að titill bókarinnar – Einmanalegur staður – sé út í hött. 65 þúsund manns greinist með krabbamein árlega. Sjálf sé hún með Addisons og í hvert sinn sem hún fái niðurgang eða uppköst standi hún frammi fyrir dauðanum. Sandberg sé því alls ekki á „einmanalegum stað“. Svo klykkir hún út með að ef Sandberg og maður hennar eigi í vandræðum með kynhvötina (sem virðist koma fram í bókinni) þá ættu þau að prófa svona WeVibe, það sé engu líkt. Einsog gefur að skilja hefur þetta vakið talsvert umtal. Flestir eru á því að dómurinn sé of grimmdarlegur – en einhverjir benda líka á að hann sé góður, taki upp sértækar spurningar og laus við hið almenna orðalag sem annars plagi flesta gagnrýni – „vel skrifað“ og „mikilvægt verk“ og „ákveðinn byrjendabragur“ eða „skortir heildarsýn“ og það allt saman, sem segi mest lítið um bæði verk og afstöðu gagnrýnanda, feli hana í svona „faglegum“ og „hlutlausum“ og fullyrðingarögum menntaskólastíl. Þá hafi Skugge fagurfræðilega afstöðu – gegn metnaðarlausum sensasjónalisma – og taki skýr dæmi um hvað sé vont í bókinni. Einhverjir nefna WeVibe-ið sem dæmi um bæði afturbeygða metakrítík – að byggja inn svona sensasjónalískt element í textann – og aðrir nefna að með því afhjúpi Skugge sjálfa sig og beri sig, svipti sig hulu hins ósnertanlega og ógagnrýnanlega gagnrýnanda, gefi viljandi höggstað á sér, hafandi slegið frá sér lyfti hún upp handleggjunum og bjóði fólki að slá á móti. Þá eru nú kannski flestir á því líka að dómurinn sé skemmtilegur. Sem er auðvitað ljótt að segja, af því hann er líka kvikindislegur. Umræðan er í öllu falli áhugaverð og áhugavert líka að það hefur enginn krafist þess að dónaskapurinn „hafi afleiðingar“ eða höfundurinn fái afsökunarbeiðni – þótt Åsa Linderborg segi reyndar að Linda muni á endanum fá samviskubit og biðjast afsökunar. Raunar hafa tilfinningar höfundar lítt verið ræddar og blaðamenn alls ekki falast eftir neinum viðbrögðum. Svíar eru almennt frekar uppteknir af því að reyna að viðhalda stórþjóðastandard – þeir ná því svona „næstum því oftast“ – og hann er auðvitað í ofsalegum kontrast við smáþjóðarblaðamennskuna á Íslandi. Ég man t.d. ekki eftir því að hafa nokkurn tíma séð sænsk dagblað skrifa frétt upp úr Facebook- eða Twitter-umræðum – og hvað þá þeir stundi svona „sniðugast af Twitter á helginni“ eða „Instagram vikunnar“ bílífi. Íslenskir fjölmiðlar eru miklu persónulegri en sænskir og ekki nærri jafn vandir að virðingu sinni. Það er líka óhugsandi í Svíþjóð að gerð væri uppsláttarfrétt um skoðun einhverrar manneskju á einhverju fyrirbæri nema manneskjan væri vottaður sérfræðingur í málefninu. Á Íslandi eru reglulega gerðar fréttir um að einhverjum sem er með eitthvað poddkast eða skrifar stundum á Twitter finnist eitthvað. Væntanlega af því að viðkomandi kann að gera sig breiðan. Þó eru einmitt dæmi einsog nefndur texti Skugge, sem má kalla lærðan sensasjónalisma eða álíka – það eru persónur (oft konur, a.m.k. í seinni tíð – Kajsa Ekis Ekman, Ebba Witt-Brattström, Åsa Linderborg, Cissi Wallin o.fl. o.fl.) sem skrifa skoðanagreinar sem verða mjög umtalaðar og allir þurfa að lesa og taka afstöðu til. Umdeildar. En það þarf venjulega að vera einhver intelektúal-vinkill á þeim. Og það er óhugsandi að fjölmiðlar myndu gera „best-of viðbrögðin á samfélagsmiðlum“ frétt upp úr því – en hins vegar fremur líklegt fastir pistlahöfundar, þekktir menningarkrítíkerar/álitsgjafar og ritstjórar blaða skrifi um það næstu daga og þar er talsvert algengara að „sitt sýnist hverjum“. Það þykir til marks um sjálfstæða hugsun að skila séráliti – og þykir að einhverju leyti óþarfi að leggja fram sama vinkilinn mörgum sinnum. Íslendingar sýnist mér gjarnan taka einhvern einn pól í hæðina, sérstaklega í erfiðum málefnum, og hamra svo bara á honum einsog einhver sé að rífast við þá (sem einhver gerir kannski í hálfum hljóðum og þarf svo að biðjast afsökunar á eftir). *** Annars er fátt að frétta. Ég er of meiddur til að halda maraþonáformunum til streitu en ætti að geta verið í styttri hlaupum. Þarf að gera meira langtímaplan – kannski fyrir næsta vor. Nenni varla að vera í heilsusamlegu líferni í haust, nýkominn heim. Langar að drekka bjór með vinum mínum og grilla óhollan mat. Það er sól og blíða. Ég hef verið duglegur að kaupa plötur upp á síðkastið. Plata vikunnar er Rainbow People með Eric Bibb. Hann er giftur finnski/sænskri konu, einsog ég, og býr í Stokkhólmi og hefur gert áratugum saman (fyrir utan nokkur ár í Kirkkonummi í Finnlandi). Hann er fæddur 1951 og alinn upp innanum alls kyns stórstjörnur í tónlistarheiminum – Pete Seeger og Paul Robeson voru fjölskylduvinir. Hann byrjaði að spila á gítar sjö ára og fékk meðal annars tilsögn frá Bob Dylan 11 ára („hafðu það einfalt – gleymdu öllu prjáli“). 19 ára yfirgaf hann Bandaríkin og hefur lítið búið þar síðan. Rainbow People er önnur platan hans og kom út 1977, þegar Bibb var 26 ára. Hún er tekin upp í Svíþjóð og er lágstemmd blús-„heimstónlistar“-folk-djass-plata. Hljómar ekki endilega vel en er gott. Fyrir utan klassísk blúsáhrif var hann víst undir áhrifum frá Milton Nascimento, Antonio Carlos Jobim (sem samdi Stúlkuna frá Ipanema) og George Gershwin. Platan er öll falleg en þetta er uppáhaldslagið mitt af henni:
createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.713Z““
createdTimestamp““:““2024-06-10T09:38:46.152Z““
Ég er að gleyma einhverju. Ég hef ekkert lesið – varla litið í bók – svo það er ekki það. En ég er að gleyma einhverju. *** Ég las upp sjálfur í Madrid á föstudag – með Önnu Axfors, Adam Horovitz og Gaiu Ginevri Giorgi. Ég held talsvert upp á Önnu, sem er sænsk og ég hef þýtt, en þekkti ekki Adam og Gaiu fyrir. Hann er breti, frá Stroud, og hóf ferilinn á því að lesa upp – átta ára gamall – með Allen Ginsberg. Pabbi hans var stórbokki í ensku performanssenunni í gamla daga og þetta æxlaðist bara einhvern veginn. Hann var að hluta til með músík undir, sem gerði lítið fyrir mig, en ljóðin voru góð. Gaia, sem er ítölsk, var líka með músík og looper – tók upp og talaði ofan í sjálfa sig. Ég skildi ekki ljóðin og það var engin þýðing (ekki heldur á spænsku) en heyrðist þau vera í rómantískari kantinum (það sem ég skildi). Þetta var hluti af Versopolis-dagskrá – sem er evrópskt ljóðaprójekt og samstarf milli hátíða – og einsog hefði býður voru gefin út hefti með ljóðunum okkar á frummáli, ensku og markmáli hátíðarinnar. Heftin hjá Poetas hátíðinni voru mjög falleg og þegar þeim var raðað saman á borðinu mynduðu forsíðurnar borðspil – og við fengum kalla og teninga með til að spila. *** Seinna kvöld Poetas hátíðarinnar var Griotskvöld. Griot er vestur-afrískt hugtak yfir ljóðskáld og sögumenn og höfundarnir áttu það allir sameiginlegt að vera af afrískum uppruna – en á ólíkan hátt. Sumir voru frá Ghana, aðrir svartir katalónar og enn aðrir frá Jamaica. Ég kom inn þegar Mutombo da Poet var að flytja sögur og leist eiginlega ekkert á blikuna. Hann var mjög upptekinn af internetinu og á köflum var þetta eiginlega meira einsog að hlusta á einhvern röfla um samfélagsmiðla – hvað þeir væru frábærir og hvað þeir væru samt hættulegir – og ég sá ekki alveg hvað þarna var sagnamennska eða skáldskapur. Á eftir honum kom Koleka Putuma frá S-Afríku. Hún byrjaði ofsalega sterkt – kannski spilaði inn hvað skáldið á undan var leiðinlegt, kannski spilaði inn hvað hún er ung (tuttuguogeitthvaðlítið) – en mér leið nánast einsog ég væri að horfa á eitthvað sögulegt. Hún hélt svo ekki alveg dampi og seinni helmingur upplestrarins var ekki jafn svakalegur, textinn ekki jafn sterkur – en alltaf góður. Ég ætla að kaupa bókina hennar, Collective Amnesia, og langar að þýða a.m.k. 1-2 ljóð úr henni. D’Bi Young Anitafrika var næst. Frá Jamaica. Hún las blaðlaust einsog Mutombo en var jafn grípandi og hann var það ekki – kallaði þetta dub-ljóðlist, las, talaði, söng, æpti, hvíslaði. Ég veit ekki hvort það var nokkuð varið í textann – sem ljóðlist – hún var einfaldlega of töfrandi og fær, of mikill ofsi í henni til að maður gæti lagt nokkuð yfirvegað mat á það. En svo skiptir það kannski ekki neinu máli – maður á ekki að gefa blaðsíðunni þetta æðislega vægi. Á sviðinu birtust bókmenntirnar sem flutningur og hún negldi salinn með sögum. Ég þoli yfirleitt ekki neitt sem minnir of mikið á slamm – og þetta gerði það sannarlega – en þetta var epískt. *** Casa de Papel – þriðja þáttaröð. Þetta er nú ljóta sorpið! Fyrsta serían byrjaði skemmtilega en þynntist hratt út. Önnur serían hraðspólaði út í melódrama og ódýrar lausnir – en þriðja er alveg gersamlega út úr kú. Prófessorinn er alltaf búinn að hugsa fyrir öllu en lausnirnar eru gersamlega sértækar. Plottholurnar eru á stærð við budgetið, tónlistin er generískt stemningsrokk (ég fíla alveg Black Keys, en ég meina kommon). Leikararnir eru alltaf með tárin í augunum. Af hverju er ég að horfa á þetta! Af hverju er ekki búið að cancela þessu! *** Brooklyn 99 – fimmta þáttaröð. Jafn mikil dásemd og Casa de Papel. Rosalega næs, fyrirsjáanlegt en fyndið. Jafn gott og meinstrím-skemmtisjónvarp getur orðið. Og eitthvað svo heilnæmt – PC og millennial en heilnæmt. Ef Bill Cosby hefði ekki reynst vera Bill Cosby væri Cosby-show líkingin við hæfi hérna. Sögupersónurnar eru mjög mótaðar og fyrirsjáanlegar og kunnuglegar og þetta er stundum einsog að vera á færibandi – en bara of vel gert til að maður geti haft neitt á móti því. *** Ég horfði loksins á Roma. Mér fannst hún frábær þegar ég slökkti á sjónvarpinu. En svo situr eiginlega fátt eftir. Sagan – um þjónustustúlku ríka fólksins sem verður ólétt eftir einhvern dólg – er bæði falleg og átakanleg og realísk. Tökurnar eru ótrúlega vel gerðar – upphafssenan þar sem vélin starir lengi ofan í poll af skúringavatni sem skolast til og frá og svo birtist flugvél sem speglast af himninum – er einsog svona konfektmolalistaverk. Eitt af því sem truflaði mig á meðan ég var að horfa á hana – sennilega það eina – var einmitt hvað hún var falleg. Það skyggði nánast á sjálfa söguna, á harminn – setti hana í eitthvað instagram-filterbox af óraunveruleika. Kannski er það bara vandamál í samtímanum að allt er orðið listgert – allt er stílíserað – og þar með verður jafnvel mjög góð stílísering hálfgert kits. Samt frábær mynd, einhvern veginn. Svolítið óþægilega miklir stétt-með-stétt straumar fyrir sósíalistann í mér – en samt frábær mynd. Segjum það bara. *** Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó eftir Þorvald Þorsteinsson er sennilega bara ein af bestu barnabókum í heimi. Hún er ofsalega falleg, sorgleg, djúp og dásamleg – og á þannig máli að ég skil varla að börnin mín, sérstaklega það yngra, hafi enst í að hlusta á mig lesa hana alla án þess að kvarta yfir ljóðrænu orðfærinu. Það var áreiðanlega fullt af orðum og orðasamböndum sem þú skildu ekki. En bókin er einhvern veginn alveg fullkomlega dáleiðandi og við vorum öll sprengfull af höfgi þegar lestri lauk. *** Ace Ventura. Það var Ace Ventura sem ég var að gleyma. Úff. Frábær mynd. En úff. Meistaraverk í slappstikk – Jim Carrey er magnaður. En jesús almáttugur hvað hún er hómófóbísk. Fyrir þá sem ekki muna – eða hafa ekki séð hana – gengur plottið (spoiler alert!) allt út á að höfrungaþjófurinn er geðsjúkur f.v. fótboltakappi sem hefur breytt sér í konu – þegar það uppgötvast eru allir spýtandi í sífellu af viðbjóði. Ég velti aðeins vöngum yfir nokkru. Sameiginlegt einkenni minnar kynslóðar og sambands okkar við barnamenningu foreldra okkar er að við tengdum lítið – hvort sem það var Roy Rogers eða Ármann Kr. Einarsson – og ástæðan var áreiðanlega eitthvað sakleysi. Samband mitt og minnar barnamenningar við börnin mín er svo öðruvísi – yfirleitt finnst þeim þetta allt mjög skemmtilegt (og Aram var í skýjunum með Ace Ventura). Við foreldrarnir erum hins vegar stundum einsog kleinur yfir þessu. Á aðra höndina er mikið af mjög góðu stöffi þarna og ég er 100% talsmaður þess að maður hafi innsýn inn í aðra tíma en sína eigin – önnur viðmið. Á hina höndina fylgja auðvitað allir fordómarnir með. Annað sem ég velti síðan vöngum yfir var hvort það væri síðan í grunninn nokkuð að því að gagnkynhneigðum karlmanni þætti ógeðslegt að kyssa (óvitandi) annan karlmann. Mér finnst það ekki sjálfum en ég held ég skilji alveg tendensinn (og hugsa að ég væri ekki sáttur við blekkingarnar). Tendensinn er svo náttúrulega líka til staðar með breyttum gerendum – lesbía sem léti karlmann plata upp á sig keleríi á fölskum forsendum væri sennilega ekkert í skýjunum með það. En það er aðallega ekki sambærilegt vegna pólitískra aðstæðna (sem börn eru sem áhorfendur að einhverju leyti stikkfrí frá – þau hafa nægan tíma til að öðlast sögulega vitund seinna og hluti af því er að þekkja heiminn einsog hann hefur verið). Þriðja var síðan bara hvað þetta var landlægt í gríni á tíunda áratugnum og hvað maður spáði lítið í því. Þetta var samt ekki einhlítt – þetta er líka áratugur Priscillu og Rocky Horror gekk endalaust í leikhúsum – og ef maður færir fókusinn yfir í dramað erum við með allt frá Philadelphia til Fresa y Chocalate til Fucking Åmål og svo framvegis og svo framvegis. Ég held það hafi margt opnast og kannski var ekki alveg tilviljun að grínið hafi líka verið meira riskí – kannski fór það bara ágætlega saman að Andrew Dice Clay hafi verið á fullu á sama tíma (og ég er ekki viss um að þetta hafi verið pólitískir kontrastar beinlínis, heldur einhvers konar undarlegir samferðarmenn – maður átti að vera á jaðrinum og Dice og My Own Private Idaho uppfylltu þau skilyrði. *** Gítarleikari vikunnar er The Surrealist. Lagið heitir Enigma.
id““:““e66hn““
Nú er allt að eiga sér stað. Smám saman. Páskar í lofti. Ísafjörður er byrjaður að fyllast af Reykvíkingum í lopapeysum – sumir eru hálfgerðar Mugisondúkkulísur, búnir að safna skeggi og farnir að ganga svona með hressilegu vaggi, rétta öllum spaðann og alltaf gjöðbilað hressir. Svona eru þeir aldrei á Laugaveginum. Sennilega er bara eitthvað þunglyndislegt við Laugaveginn. En það er auðvitað bara einn Mugison. Og kannski einn Örn Elías og einn Öddi. Aino á fjögurra ára afmæli á þriðjudag. Hún fær Frozentertu og froskalappir (ekki segja henni samt, það er leyndarmál). Hún er ógurleg sunddrottning og hefur eiginlega verið synd frá því áður en hún varð tveggja ára. Við fórum svo mikið í sund þegar við bjuggum í Víetnam. Og hún er svo óhrædd, annað en við kjúklingarnir skyldmenni hennar. Ég er að ljúka við þýðingu. Eða var að því, ég er nú bara í einhverju snurfusi. Á leikriti. Og að fara að gefa út bók auðvitað, alveg á nippinu – Óratorrek – kominn með kassa af bókum en hún fer ekki í búðir fyrren eftir páska. Svona er að vera höfundurinn, því fylgja alls konar fríðindi, þið mynduð ekki trúa því ef ég segði ykkur frá því. Á fimmtudag les ég úr bókinni í tvígang – fyrst í Gallerí Úthverfu, þar sem ég ætla að endurtaka gjörning sem ég framdi fyrst í Norræna vatnslitasafninu í Skärhamn og lesa sama ljóðið aftur og aftur í eina klukkustund. Ljóðið heitir „Ljóð um list þess að standa kyrr í galleríi“ og var samið fyrir opnun á sýningu úr Guerlain-safni Pompidou. Í Úthverfu er það opnun hjá Erni Alexander Ámundasyni, sem er það heitasta í íslenskri myndlist. Og um kvöldið er ljóðalistatónlistarkvöld í Tjöruhúsinu með Skúla mennska, Björk Þorgríms, Kött Grá Pje og Lomma. En annars er ég bara í páskafíling. p.s. Það er skandall að Stryper skuli aldrei hafa verið boðið á Aldrei fór ég suður. Þeir ættu auðvitað að spila í páskamessu á Ísafirði. Hér myndi ég tagga rokkstjórann en það er bara ekkert hægt að tagga í þessu ömurlega bloggkerfi.