Aðalpersónurnar eru skýrt dregnar og nógu áhugaverðar til að leyfa hinum fjölmörgu og fjölbreyttu aukapersónum að blómstra meðfram þeim. Áhrifin eru þau að lesandanum finnst hann vera að lesa ekki bara stóra skáldsögu heldur líka alhliða samfélagslýsingu. James Joyce á að hafa sagt að hægt væri að endurbyggja gervalla Dublin ársins 1904 eingöngu upp úr bók sinni Ulysses. Ég er ekki frá því að það sama sé hægt að segja um Ísafjörð ársins 1925 og Náttúrulögmálin. Þorsteinn Vilhjálmsson skrifar um Náttúrulögmálin í Heimildina .
Author: Eiríkur Örn Norðdahl
Þreytulögin
Líf mitt þessa vikuna er heldur þungbær tilraun um það hversu mörg lög af þreytu maður getur borið. Í fyrsta lagi er það bara 45 ára þreytan. Að vera ekki lengur 25 ára. En ekki samt nógu þroskaður til að kunna að slaka bara á. Í öðru lagi er það túrþreytan. Og hún triggerar kannski mikið af hinu. En hún er líka í lögum. a) Fýsísk þreyta af því að hafa verið mikið í bíl. b) Fýsísk þreyta af því að hafa verið mikið á þeytingi. c) Andleg þreyta af því að hafa verið „on“ linnulítið í mánuð. d) Andleg þreyta af því að hafa verið rútínulaus í mánuð. Í þriðja lagi er það bókaþreytan. Ég vinn of mikið. Ég byrjaði að setja saman þessa bók fyrir þremur árum – með glósum og heimildavinnu (Einlægur Önd var tilbúinn í byrjun árs 2021 og Frankensleikir var löngu tilbúinn) en megnið af henni skrifaði ég samt í ár. Og það tókst bara af því ég tók mér engan frídag í marga mánuði af því ég var svo hræddur um að missa dampinn, detta úr synki. Og þótt það sé á endanum nærandi að skrifa skáldskap – og þótt það hafi verið sérstaklega gaman að skrifa Náttúrulögmálin – tekur það líka rosalega mikið úr manni. Ég er svo þurrausinn að ég get varla skrifað innkaupalista nema með herkjum. Í fjórða lagi jólabókaflóðsþreytan. Þrjú ár af vinnu breytast smám saman í þrjú ár af eftirvæntingu sem puðrast svo út í loftið á örfáum mínútum daginn sem brettin mæta á lager. Þetta er svolítið einsog að fara í fjórfalt heljarstökk og lenda því, að manni fannst fullkomlega, og þurfa svo að bíða í tvo mánuði meðan áhorfendur gera upp við sig hvort þeir ætli að klappa og dómnefndin ræður ráðum sínum um einkunnina. Ég er bara ekki gerður fyrir þannig þolinmæði. Í fimmta lagi þynnka. Ég drakk kannski engin lifandis ósköp á laugardagskvöldið en ég hef varla snert áfengi síðan í ágúst og þetta fór alveg með mig. Samt gaman! (Þetta er allt gaman). Í sjötta lagi skammdegiskvíði. Ég finn að dagurinn er nánast að engu orðinn. Í sjöunda lagi veðrið. Ég er alveg fáránlega viðkvæmur fyrir veðrinu. Það er gott í dag – fallegur og bjartur dagur og nærandi. En síðustu dagar hafa verið myrkir og vindasamir og blautir. Og því fylgir alveg sérstök þreyta. Í áttunda lagi hvíldarþreyta. Ég hef bókstaflega legið í rúminu flesta daga það sem af er þessari viku. Af því ég er svo þreyttur. Og þá fær hálffimmtugur karl í hnakkann og auma hnéð og hælinn og byrjar að fá höfuðverk. Og verður meira þreyttur. Í níunda lagi flensa. Eða „aðkenning“ (einsog ein sögupersóna Náttúrulögmálanna kallar það að vera ekki beinlínis veikur, en samt sennilega með „eitthvað“ í kerfinu). Í tíunda lagi skrollþreyta. Ég er búinn að lesa alla samfélagsmiðlana og alla fjölmiðlana. Búinn að endurhlaða því öllu tólf sinnum á mínútu í rúmlega mánuð. Mig verkjar í fingurna, augnbotnana og ég er kominn með varanlegan framheilaskaða. Í ellefta lagi íþróttaþreyta. Ég fór í ræktina í morgun eftir letiskeið. Ofan í þetta eru svo alls konar nútímaþreytur – þriðjuvaktardót, félagslífskröfur, jólin-á-næsta-leiti und so weiter. Góðu fréttirnar eru þær að ég er allavega ekki kominn í kulnun. Og ef ég bara haga mér einsog ég sé hundrað ára næstu vikurnar þá gengur væntanlega allt nema framheilaskaðinn til baka.
Heima
Ég er kominn aftur á skrifstofuna. Líklega hef ég skrúfað fyrir ofninn þegar ég fór – hér er rosalega kalt og ég sit í útifötunum við tölvuna með loppna fingur. Það stendur þó allt til bóta. Ég hef ekki alveg haft tíma til að hugsa síðustu vikurnar en það hefur margt í sjálfu sér dunið á. Eða, tíma hef ég svo sem haft, en kannski ekki eirð. Það komu upp tvö menningarhneyksli – annars vegar var það jólakúlumálið á Ísafirði og hins vegar dramað í kringum Iceland Noir – og ég hef einhvern veginn ekkert náð til botns í þeim ennþá. Þótt ég hafi reyndar talsvert talað um bæði við fólk, nú þegar ég hugsa út í það. En ég skil til dæmis enn ekki hvers vegna Auður Jónsdóttir sagði af sér sem ritstjóri Heimildarinnar – hvað það hafði með Iceland Noir að gera. Eða hvað kom í veg fyrir að annar listamaður yrði gerður að heiðurlistamanni fyrst Öddi vinur minn afþakkaði. Nú heyrist mér á Yrsu að þau viti ekki hvort hátíðin verði haldin aftur. Og það er búið að auglýsa eftir tilnefningum til íþróttamanns ársins í Ísafjarðarbæ – einhver stakk upp á því að peningunum yrði eytt í páskaskraut. Ég er að hugsa um að tilnefna Hillary. Hún er áreiðanlega ekki verri íþróttamaður en hver annar. Sennilega er þetta líka allt komið í einn graut í höfðinu á mér. Hér var haldin Opin bók – þar voru margar spennandi bækur kynntar. Armeló hef ég reyndar lesið og get einlæglega mælt með – ég var eiginlega alveg agndofa þegar ég lagði hana frá mér. Það er svo mikið brjálæði að hafa sjálfsmynd í nútímanum. Og „feykilega vel gert“ einsog það heitir á ritdómaramáli. Hinar á ég enn eftir og byrja sennilega á Ljóð fyrir klofið hjarta eftir Helen Cova, sem gaf út hina æðislegu Sjálfsát fyrir nokkrum árum – þetta er fyrsta bókin sem Helen skrifar á íslensku og hún blandar saman bæði „leiðréttum“ texta, og „óleiðréttum“, ofan í spænskuna. Ég hef heyrt hana lesa upp úr henni í tvígang og þetta er algerlega eitthvað sem talar til mín og þess hvernig ég skil erindi ljóðlistarinnar. Svo er ég víst búinn að lofa að leika (og syngja!) í Fiðlaranum á þakinu. Æfingar eru löngu hafnar og ég hef misst af þeim öllum nema einni. Það eru einhver bókagigg á næstunni þótt túrinn sé búinn – ég ætla í Háskólasetrið að tala um heimildavinnu við skáldskaparskrif, á bókasafnið að lesa upp úr Frankensleiki, í menntaskólann að tala um rithöfundalífið, á elliheimilið að lesa upp úr Náttúrulögmálunum. Svo er von á Víðsjá í bæinn og Mogginn ætlar að hringja á morgun. Ég náði Kiljuviðtali meðan ég var í borginni og það verður spilað á miðvikudaginn. Ég hef bara fengið einn dóm, enn sem komið – mjög lofsamlegan, í Heimildinni, set hlekk þegar hann kemur á netið – jólabókaflóðið hálfnað – en fæ vonandi einhver meiri viðbrögð fljótlega. Ekki þar fyrir að kannski á maður bara að hætta leik þá hæst hann stendur. Láta kalla inn öll kynningareintökin meðan ég er enn á sigurbraut. Svo þarf ég að ganga frá fjármálunum í kringum túrinn. Og komast inn í rútínuna aftur. Og bara hvíla mig og taka því rólega. Og halda yfirveguð, stresslaus jól. Það væri geggjað.
Náttúrulögmálin – myndir
Á flestum stöðum þar sem ég hef komið fram síðustu vikur hef ég sýnt eitthvað af þeim ljósmyndum sem ég hafði fyrir augunum sjálfur meðan ég skrifaði bókina, mér til innblásturs. En á mörgum stöðum hefur líka vantað skjávarpa eða sjónvarp og sums staðar hefur tæknin einfaldlega verið til vandræða og þá hefur þessu verið sleppt – enda fyrst og fremst skraut með textanum. Einhverjum fannst þetta samt leiðinlegt og lofaði ég að birta eitthvað af þeim hér á blogginu. Ég veit vel að merkja ekki hver tók allar þessar myndir, aðallega af því ég hef sankað þeim að mér smám saman héðan og þaðan – bæði ljósmyndað sjálfur upp úr bókum og stolið af Facebook síðum og úr ljósmyndasöfnum á netinu án þess að nótera hjá mér neinar upplýsingar. Það er næsta víst að þær séu ekki í höfundarrétti, en það afsakar þó ekki slugsaháttinn. Meðal ljósmyndara sem eiga margar myndir frá þessu tímabili eru Björn Pálsson, Gunnar Guðmundsson, Sigurgeir Halldórsson, Haraldur Ólafsson, Martinus Simson, Jón Hermannsson og Thyra Juul – þá voru sumar myndirnar úr seríu sem Ágúst Atlason stóð fyrir, þar sem hann hafði hreinsað og fixað til gamlar myndir. Hafa ber þó í huga – einsog ég hef raunar nefnt stundum á upplestrum, enda ein sögupersóna bókarinnar kvenkyns ljósmyndari – að ljósmyndir voru lengst af ekki merktar ljósmyndaranum sem tók þær heldur (karl)manninum sem átti ljósmyndastofuna. Þegar ég sagði frá þessu á einum upplestri dró einmitt ungur maður fram mikið albúm í símanum – sem hann hafði nýlega fengið aðgang að – og sagði mér að þetta væru myndir langömmu sinnar. Þær voru allar með tölu merktar langafa hans, sem hafði aldrei tekið ljósmynd á ævinni. Myndirnar sem ég hafði fyrir augunum (útprentaðar á veggnum hjá mér eða bara í tölvunni) voru reyndar miklu fleiri – en þetta er úrval af þeim sem tengjast bókinni mest.
Tilurð náttúrulögmálanna
Sú skoðun mun þá einnig vera orðin almennust nú, að undrið sé ekki neitt brot á lögum náttúrunnar, heldur séu að verki náttúrulögmál, sem mennirnir þekkja ekki enn og geta því ekki hagnýtt né ráðið við undir venjulegum kringumstæðum. Eimreiðin , 1926, Sveinn Sigurðsson Ég var spurður að því – í tengslum við kynningarmál, áður en Náttúrulögmálin kom út – hvort ég gæti lýst tilurð bókarinnar í nokkrum orðum. Slíkar bollaleggingar eru alltaf eftiráskýringar – ég byrja að skrifa í mikilli óvissu, með þreifingum og kroti. Ég er ekki einsog sumir, að ég þurfi að vita hvernig bókin endar áður en ég byrja – hugsanlega myndi ég ekki einu sinni geta skrifað bók ef ég vissi hvernig hún endaði. Það munaði mjög litlu að ég endaði Einlægan Önd – sem fjallar auðvitað um rithöfundinn Eirík Örn – á dauða aðalsöguhetjunnar. Það var ekki að mig langaði að deyja en ég fann samt fyrir sterkri löngun til þess að losna við „rithöfundinn Eirík Örn“ og ég íhugaði líka alvarlega að hætta að skrifa. Fara að gera eitthvað annað (ég kann ekkert annað). Þessi tilhugsun kemur upp af og til, mest auðvitað þegar þetta er basl (sem þetta er, tilfinningalega og fjárhagslega aðallega) og hangir áreiðanlega líka saman við að verða miðaldra. Maður finnur fyrir tilgangsleysi sínu og verður lítill og feiminn, kannski jafnvel huglaus, hættir að vilja sjást – að einhverju leyti af því maður verður viss um að enginn vilji í raun sjá mann. Að framboðið af manni hafi fyrir löngu farið fram úr eftirspurninni. En ég drap sem sagt ekki Eirík Örn í Einlægum Endi og ég hætti ekki að skrifa en ég vissi að ef ég ætlaði að skrifa fleiri bækur yrði ég að gera það á öðrum forsendum og með öðrum aðferðum en ég væri vanur. Ég man ekki alveg hvernig ég valdi sögusviðið en sennilega var það byggt á misskilningi. Mér var einhvern tíma sagt að það hefði verið haldin prestastefna á Ísafirði í byrjun sumars árið 1925 og tekin mynd af sjö prestum (eða níu prestum eða sjö og einum eineygðum) til að ögra þjóðtrúnni um að þá myndi Gleiðarhjalli hrynja. Í ljós kom að þetta var ekki satt en hins vegar hafði verið hér nokkuð af prestum í tengslum við vígslu grænlensks prests í frægri grænlendingaheimsókn til Ísafjarðar í ágúst 1925. Og þá var tekin mynd af níu prestum og fleiri grænlenskum fyrirmennum – sem voru á leiðinni til Scoresby-sunds, þar sem átti að nema land til þess að tryggja konungsríki dana yfirráð yfir Grænlandi öllu. Það er stórmerk saga sem mig langaði líka að gera skil – en komst bara aldrei svo langt. Ég festist bara á Ísafirði á þessum tíma og endaði á því að lúslesa öll bæjarblöðin frá fyrstu áratugum aldarinnar, með ekkert sérstakt fyrir stafni, annað en að fantísera. Svo vatt þetta bara upp á sig. Fyrren varði var ég fastur á prestastefnu sem mér finnst núorðið furðulegt að hafi ekki átt sér stað – mér líður meira einsog ég hafi skreytt hana en skapað. En áður en ég var byrjaður að skrifa eyddi ég sem sagt heilmiklum tíma í að byggja heim sem er eiginlega Ísafjörður 1925 en lýtur samt sínum eigin lögmálum – og kannski verð ég bara þar það sem eftir er af rithöfundaferli mínum (og kannski lýkur honum bara hér, ég er hættur að lofa meiru en morgundeginum). Niðurstaðan er kannski bara enn ein eiríksbókin – ég veit það ekki – en upplifunin af því að skrifa hana var allt önnur en ég er vanur. En það sem ég skrifaði þegar ég var spurður um tilurðina – einsog ég nefndi hér í upphafi – var eftirfarandi. Og það er ekki rangt, þótt það sé sumsé eftiráskýring, heldur lýsir það tilfinningu sem ég bar ekki kennsl á fyrren eftirá. „Mig langaði að skrifa bók um það hvernig vestrænt nútímafólk í litlum kaupstað á Íslandi árið 1925 myndi bregðast við ef það lifði skyndilega á biblískum tímum – á tímum kraftaverka og undra; ef það kæmist ekki lengur upp með að vera einfaldar skynsemisverur, og skefjalaus trú þeirra á hið fjarstæðukennda í heiminum – Guð og kukl og spíritisma og þjóðtrú – fengi skyndilega sviðið óskipt; um fáránleikann og glundroðann og kátínuna og óttann og kærleikann sem það myndi óhjákvæmilega kalla fram. Og kannski langaði mig samtímis til þess að nota tækifærið og velta fyrir mér öllu hinu sem við köllum líka „Guð“ – fegurðinni, óttanum, ástinni, þránni, lífsfyllingunni, ölvuninni, voninni, tilfinningunni fyrir heimili og tilfinningunni fyrir nýjum og ókunnugum stað, tilfinningunni fyrir óendanlegri stærð heimsins og smæð. Öllu þessu óræða og rómantíska sem er uppistaðan í yfirdrifnum skáldskap, en er á sama tíma svo ógurlega hversdagslegt að það einkennir hvert einasta augnablik sem við lifum. Ég veit að ég vildi líka forðast að rómantísera eða exótísera náttúru hins guðdómlega – einsog svo oft er gert – og þess í stað skrifa bók þar sem náttúra Guðs (og manns) er dregin niður á jörðina, ekki til upphafningar, hvorki prestlegrar eða skáldlegrar, og ekki heldur til „grannskoðunar“ eða „greiningar“, heldur til þess að leika mætti við hana, fíflast með hana, hlæja með henni og að henni og gráta yfir henni og með henni af öllum þeim hversdagslegu sálarkröftum sem við – ég og lesandinn – ættum til.“ P.S. Í dag er útgáfuhóf fyrir bókina í bókabúð Forlagsins á Fiskislóð kl. 15.30.
Skýrsla: Vísað á dyr á Kaffi Vest
Ég kom til höfuðborgarinnar í gærkvöldi og verð með aðsetur hér næstu daga, meðan ég sinni upplestrum í nærsveitum. Á morgun er svo útgáfuhóf á Fiskislóð, klukkan 15.30, og þangað mæta auðvitað allir (ég hef tvisvar haldið útgáfuhóf í Reykjavík og það var messufall í bæði skiptin, svo ég er dálítið nervus). Þar verður allavega boðið upp á veitingar og ég les eitthvað upp – ég hef ekki gert það upp við mig hvort ég taki eitthvað styttra eða lesi bara einsog ég hef verið að gera (sem tekur þá á bilinu 25-40 mínútur og hefur yfirleitt falið í sér eitthvað spjall). Það verður engin myndasýning – forlaginu tókst ekki að útvega skjávarpa og ég nenni því ekki sjálfur, Nadja er í bænum og ég vil heldur eyða tíma mínum í að hangsa með henni. Það hefur gerst alls konar síðustu daga. Ég hef rekist á truflaðar eftirlegukindur djammsins á Eskifirði („ég var vakandi í alla nótt að horfa á Gordon Ramsay, alveg kokkaður“ eru orð sem ég mun áreiðanlega stela og nota einhvers staðar, víðar en hér, kannski bara aftur og aftur), átt tvo æðislega daga með systur minni í sveitinni, orðið veðurtepptur í Eyjum og rambað þar á gamlan vin sem ég kynntist í ógæfunni í Færeyjum fyrir tuttugu árum síðan, hann er nú orðinn Sprettubóndi og gotterísframleiðandi; fílósóferað um músík við Gímaldin – og Jonna og Hrein á menningarstofu Austurlands – og snætt kvöldverð með bókmenntadoktornum Soffíu Auði á Höfn, fengið mér lúr við þjóðveginn og látið Ævar Þór njósna um mig (og njósnað um hann á móti) á pizzustað í Vík; rætt matreiðslu hrafna á Höfn, hlustað á ljóðskáld ræða sláturtíð, breytingarskeiðið og sútun á Hvolsvelli, mætt Tóta Leifs, sem virðist vera kominn með meirapróf (ég er ekki viss um að hann hafi séð mig), allavega með fulla rútu af túristum, og sennilega var þetta Bergsveinn Birgisson sem veifaði mér úr bíl á Hverfisgötunni í morgun (það var stór bíll, en krafðist líklega ekki meiraprófs). Já og svo kom fjöldamorð í gróðurhúsum til tals á Selfossi. Nú síðast var mér svo vísað á dyr á Kaffi Vest fyrir að taka upp tölvu á „no electronics“ svæði við eina lausa borðið í húsinu. Ég reyndi að þykjast ekki skilja ensku en afgreiðslukonan sá í gegnum mig og ég endaði á að þurfa að sinna mínum erindum í bílnum með tölvuna í kjöltunni – og fór svo á Kaffi Læk, en missti af Steinari Braga, sem fór á Kaffi Vest af því hann hélt ég væri að grínast með að hafa verið vísað á dyr. Hattinum var auðvitað stolið á Egilsstöðum, en ég þarf varla að segja ykkur frá því – það var rætt í bæði DV og Síðdegisútvarpinu (og hefur hatturinn þar með fengið meiri fjölmiðlaathygli en bókin), og þar villtist ég líka inn á rennsli á nýju verki eftir Þór Tulinius, sem var mjög skemmtilegt. Útgáfuhófið á morgun er vel að merkja ekki lokahnykkur túrsins, einsog einhverjir hafa haldið, heldur verð ég á Akranesi á mánudag, Hafnarfirði á þriðjudag, Reykjavík á miðvikudag, Grindavík á fimmtudag (ef guð og eldfjallið lofar), Stykkishólmi á föstudag og heima á Ísafirði á laugardag eftir viku. Þar verð ég svo bara að öllum líkindum fram að jólum – ég er ekki bókaður í neitt nema Vísindaport háskólasetursins á Ísafirði (til að ræða heimildavinnu) og það er í göngufæri. Ég er almennt frekar lítill bílakall og þetta hafa verið talsverð tilbrigði fyrir mig – og hluti af mér verður alveg ánægður að losna út úr bílnum. En mér er samt farið að þykja hann mjög heimilislegur, svona ef ég á að segja alveg einsog er. Með kaffibolla og Rás 1 eða hljóðbók. En veðrið og færðin hafa líka verið til stakrar fyrirmyndar. Þetta hefur sem sagt allt gengið bærilega og mælst vel fyrir, ef frá er talinn örlítill snúður í sumum kollegum, en ég leiði það mestmegnis hjá mér. Annað kvöld eftir útgáfuhófið ætlum við Nadja í leikhús – á Svartþröst, sem Vignir vinur minn leikstýrir – og svo á ég langþráðan frídag á sunnudag. En nú ætla sem sagt ég að fá mér lúr og eftir það keyri ég á Glæsivelli í Ölfusi – þar sem ég les í kvöld ásamt Elísabetu Jökuls og Lilju Magnúsdóttur (Sigmundur Ernir forfallast víst, en líklega verður samt lesið úr bók hans).
Gösta, áhrifavaldur
Það opnaðist eitthvað í mér þegar ég las Gösta Berlings Saga eftir Selmu Lagerlöf í fyrsta skipti, uppnuminn yfir því hvernig hið yfirskilvitlega var samofið hinu hversdagslega á máta sem ég kann ekki að kalla annað en lífsjátandi. Ég var líka langt kominn með Náttúrulögmálin og sennilega talaði þessi prestasaga Lagerlöf enn frekar til mín af þeim sökum. Hún segir af drykkfelldum presti – ægilega myndarlegum – sem er sviptur hempunni fyrir óreglu og ætlar að svipta sig lífi í framhaldinu, en er bjargað af majorsfrúnni á Eikabæ (kannski talaði þetta nafn líka til mín!) Þessi maður er auðvitað Gösta Berling, guðsmaður, ósigrandi kvennaljómi og fyllibytta. Eftir lífgjöfina flytur Gösta á Eikabæ þar sem majorsfrúin heldur heilan hóp af mislukkulegum og afar skrautlegum „kavalérum“ sem lifa bílífi á ríkidæmi hennar. Sögunni vindur svo áfram með alls kyns vendingum og margar ólíkar persónur enda í fókus áður en yfir lýkur – en sameiginlegt þema er annars vegar átök lífsgleðinnar og lífsbaráttunnar og hins vegar þetta hvernig þjóðsögur og trúmál ryðjast yfir allt, eru jafn raunveruleg og önnur viðfangsefni lífsins. Ég veit ekki hvort það er algengur lestur – mér sýnist ekki – en ég las hana alltaf þannig að það væri opið að hið yfirskilvitlega væri afleiðing lífsgleðinnar, og fólkið á og í kringum Eikabæ skynjaði kannski ekki heiminn sama skilningi og einhverjir meðaljónar, að öll þessi lífsgleði og lífsbarátta gerði þau næmari og nojaðri, svona einsog maður hlýtur að vera ef maður er alltaf ýmist drukkinn eða þunnur, ástfanginn eða hamslaus af losta, sérstaklega á tímum þar sem ekki var búið að faststilla veruleikann jafn rækilega og í dag. Ég tengdi bókina aldrei sérstaklega við töfraraunsæið fyrren ég sá það gert einhvers staðar annars staðar – það kemur úr annarri átt, hefur annan blæ. Og ég er ekki mikill töfraraunsæismaður – þótt ég hafi hrifist af Hundrað ára einsemd þegar ég var unglingur. Áður en ég las Gösta Berling hafði ég meira haft í huga skáldsögur einsog Gestaboð Babette , East of Eden , Meistarinn og Margaríta og staka tilvitnun í Siri Hustvedt, sem hefur bergmálað í hausnum á mér í einhver misseri, um að það að skrifa skáldsögu sé áþekkt því að „rifja upp eitthvað sem hafi aldrei átt sér stað“ (sem rímar við tilvitnun sem ég hafði lengi eftir Hemingway, en hefur aldrei tekist að slá upp, um að í skáldskap lýsi maður ekki atburðum einsog þeir „gerðust“ heldur einsog þeir „voru“). Þá benti Vera, ritstjórinn minn, mér líka á ákveðin líkindi við Glataða snillinga , sem er bók sem mér hefur alltaf þótt vænt um. Það hefur sjálfsagt ekki heldur farið framhjá neinum sem ratar hingað inn að ég er búinn að vera að velta fyrir mér Ísfirskum bókmenntum um dálitla hríð – þ.e.a.s. bókum sem gerast hér eða á næstu grösum – og sú bæjarsýn sem má finna hjá Rúnari Helga, Bennýju Sif, Nirði P. Njarðvík, Huldari Breiðfjörð, Arnrúnu á Felli o.s.frv. hefur augljóslega haft heilmikil áhrif á það hvernig ég sé minn eigin ísfirska bókmenntaheim. Og svo ég nefni annan sænskan höfund, þá spegla ég stundum Vestfirðina í íslenskum bókmenntum í Norrlandi í sænskum bókmenntum, og féll kylliflatur fyrir Norrlandssögum Torgnys Lindgren, ekki síst Lokasuðunni ( Pölsan ) sem var að koma út í íslenskri þýðingu Heimis Pálssonar. Og auðvitað gæti ég haldið áfram endalaust að rifja upp verkin sem hafa lónað í höfðinu á mér meðan ég var að skrifa – skilin eru sannarlega ekki skýr, og allt hefur áhrif, allt litar út frá sér, og ég fagna slíku, lít á bókmenntirnar sem heildarverk okkar allra, það á að flæða á milli. En ég læt samt staðar numið í bili.
Bíó
Þegar ég skrifaði Illsku rakst ég á nokkra stutta kvikmyndabúta sem höfðu verið teknir í Jurbarkas árið 1927. Ég var langt kominn með bókina og það var mjög undarleg tilfinning að sjá þetta – hina raunverulegu Jurbarkas, þar sem ég hafði í einhverjum skilningi þó dvalið lengi. Og auðvitað hafði ég séð ljósmyndir og þekkti ýmislegt – og það var ekkert úr þessum myndböndum sem ég „notaði“ beinlínis. En ég var samt einhvernveginn alveg sleginn. Bíó getur verið svo magnað. Breytir öllu, lífgar allt og fjörgar. Ég hef ekki horft á þessi brot – sem eru fleiri en þetta eina hér að ofan – í mörg ár. En fyrir svona ári síðan – þegar ég var langt kominn með Náttúrulögmálin – lenti ég í svipaðri reynslu með myndband af Ísafirði frá árinu 1923, tveimur árum áður en bókin á að gerast. Nema nú þekkti ég auðvitað miklu fleira – ekki síst þessi fjöll, sem hafa ekkert haggast á 100 árum. En líka hús og staði. Þetta er tekið hér og þar. Fyrst sér maður niður reitana í áttina að Hinum sameinuðu íslensku verslunum – sem var síðar breytt, gluggar fjarlægðir, húsið steinað og breytt í pósthús. Það er enn merkt Pósti og síma þótt pósturinn sé annars staðar. Svo er einsog fólk sé að koma niður Fjarðarstrætið, þar sem síðar var Íshúsfélag Ísfirðinga, úr einhverjum fögnuði sem mér finnst líklegt að hafi þá verið á Eyrartúni (þar sem tveimur árum síðar reis sjúkrahús – nú safnahús). Einsog kemur berlega fram er myndbandið tekið á 17. júní. Ég er hins vegar svo hægfattandi að það var ekki fyrren eftir svolítinn tíma að ég fór að spyrja mig hverju í fjáranum fólkið hefði verið að fagna 17. júní 1923 . Einhver stakk upp á því að kannski hafi vestfirðingar þá þegar verið farnir að agitera fyrir því að 17. júní yrði hátíðisdagur og má vel vera. Ég hef svo sem ekkert reynt að grafast fyrir um það, en fólk er prúðbúið og það er greinilega gaman. Mér sýnist reyndar líka að það sé verið að flagga danska fánanum [viðbót: missýn, en er þetta íslenski?]. Svo kemur smá skeið af fyrsta bílnum – sem var áreiðanlega eini bíllinn á Ísafirði þetta sumar. Síðan eru nokkrar yfirlitsmyndir, þá dálítil bátsferð og loks yfirlitsmynd af Flateyri. Það er samt eiginlega skemmtilegast að horfa bara á fólkið. Ótrúlega gamansamt og hresst – fólk er svo oft alvarlegt á ljósmyndum, en á þessum hreyfimyndum er stuð, fólk fíflast, stríðir hvert öðru, ýtist jafnvel. Einhvern veginn er þetta allt önnur mynd af fortíðinni en sú sem maður fær á ljósmyndum eða skrifuðum heimildum. *** Af túrnum er það helst að frétta að ég er kominn í Fjarðabyggð. Búinn að lesa fyrir starfsmenn bæjarskrifstofunnar og fer á Hulduhlíð á eftir og verð svo á Beljanda í kvöld. Ég ætla að gangast við því hér að vera orðinn svolítið ferðalúinn – og ætla að fá mér síðdegislúr á eftir til að vera í toppformi í kvöld.
Sjó: Ferðaskýrsla, fyrsti kafli
Það er undarlegt að halda bara sjó í jólabókaflóðinu milli þess sem maður hlustar á fréttir. Ég er á löngu bókaðri ferð og eðli málsins samkvæmt upptekinn við að hugsa um annað en barnsmorð á Gaza og skammast mín fyrir það alltaf þegar hugurinn hvarflar aftur þangað – sem gerist auðvitað oft á hverri klukkustund, því stríðið er alls staðar í sameiginlegri vitund okkar, í fréttum og á samfélagsmiðlum og samræðum og eins manns hljóðum. Einsog ég eigi að vera að gera eitthvað annað og alls ekki að ganga vel. Ekki það að skömm mín hafi neinn tilgang eða ég ætli að skreyta mig með henni. Hún bara er og mér fannst ég þurfa að nefna hana. Ferðin gengur annars vel, sem sagt, og bókakassarnir eru að verða tómir. Forlagið ætlar að redda mér nýjum kössum sem ég get vonandi sótt á Egilsstöðum á morgun. Það er svolítið misvel mætt, einsog ég hafði auðvitað reiknað með – það er ekki alveg einfalt að prómótera svona ferð með nákvæmlega ekkert budget – og ég er afar þakklátur öllum sem deila viðburðum á Facebook eða láta af upplestrunum vita á annan hátt. Bókmenntir eru word-of-mouth bransi, það er bara þannig. Heilt yfir hafa viðtökurnar hins vegar verið mjög góðar og á stöku stað (halló Patreksfjörður! halló Siglufjörður!) var tekið á móti mér einsog konungbornum og ég hreinlega leystur út með gjöfum.
Þetta er vel að merkja ekki bara upplestur – heldur meira einsog fyrirlestur um bókina með litlum upplestrum á milli, þetta er sjó. Og svo er spjall á eftir. Stundum læt ég gamlar myndir malla með – stundum sýni ég myndband. Og það hefur alltaf verið gaman. Í dag er fyrsti dagurinn á ferðinni sem ég les bara einu sinni – á Húsavík kl. 17, á kaffihúsinu Hérna – og ég hef notað tækifærið til að taka því rólega. Fór út að skokka í morgun, eldaði mér heitan mat í hádeginu og hringdi í pabba sem er úti á Benidorm. Áður en ég læt mig hverfa úr bænum (ég er enn á Akureyri) ætla ég líka að taka aðeins til í bílnum. Eftir upplesturinn á Húsavík brenni ég svo yfir á Egilsstaði þar sem ég gisti í nótt – og verð varla kominn fyrren seint. Ferðaveðrið hefur verið algert dekur hingað til en nú var minn maður á Veðurstofunni, sem hefur haldið utan um þetta fyrir mig, að greinast með covid og mér sýnist að það verði orðið hvasst þegar ég fer að keyra eftir suðurlandinu. Ef það fer að snjóa er ég sem betur fer með gott fólk líka hjá Vegagerðinni sem hefur lofað að halda öllum vegum opnum. Þetta eru annars næstu (opnu) upplestrar – þið megið endilega láta orðið ganga: 31. október. Húsavík . Hérna kl. 17. [Facebook-viðburður] 1. nóvember. Egilsstaðir . Tehúsið kl. 20. [Facebook-viðburður] 2. nóvember. Borgarfjörður eystri . KHB ölstofa kl. 20. [Facebook-viðburður] 3. nóvember. Breiðdalsvík. Beljandi kl. 20. [Facebook-viðburður] 4. nóvember. Neskaupsstaður . Þórsmörk kl. 20. [Facebook-viðburður]
Mitt bardús og bardús annarra
Það er óvenju mikið líf í bloggheimum þessa dagana. Þórdís Gísla, Snæbjörn Arngríms og Hermann Stefánsson birta öll reglulega pistla, líkt og Lóa Björk í Lestinni (yfirskriftin þar er reyndar „Lóa ekki í lestinni“ svo kannski er það einhver önnur Lóa eða bara sama Lóa stigin af Lestinni). Það þarf svo sjálfsagt ekki að taka það fram að Ármann Jakobsson bloggi alla virka daga – það held ég standist alltaf – en það er því miður orðið langt síðan Bragi Ólafsson bloggaði alla daga. En þetta finnst mér gaman og þessi blogg öll skemmtilegri og fróðlegri en bæði fréttasíðurnar og samfélagsmiðlarnir samanlagt. Það eru hlekkir á þessi blogg og fleiri (misvirk) hér hægra megin einsog venjulega. *** Ég er á fjórða degi upplestrarferðar minnar – í kvöld verð ég í sveitaleikhúsi Kómedíuleikhússins í Haukadal. Það er mjög sérstakur staður – yndislegur hreinlega. Ég hef heyrt af einhverjum þreifingum Ísfirðinga sem langar að fara þangað en annars á ég auðvitað mest von á Dýrfirðingum. Í gærkvöldi var ég á Fisherman Café á Suðureyri og í fyrradag á hinum sögufræga Vagni á Flateyri. Allt eru þetta staðir sem er haldið út af hugsjón og ástríðu af góðu fólki sem ber umhyggju fyrir sínu samfélagi – góðir heim að sækja. Ég veð auðvitað blint í sjóinn með hvort nokkur mæti á þennan túr eða hvort ég selji bækur – og lofaði því víst einhvers staðar að alveg sama hversu illa gengi myndi ég aldrei játa annað en stórsigur á þessu bloggi – en get með sanni sagt að þetta hafi verið afar ánægjulegt hingað til. Það er samt pínu skrítið að vera „farinn á túr“ en vera enn heima hjá sér. Það er ekki nema klukkustundarakstur í Haukadal – og á morgun verð ég í Bolungarvík, sem er næsti bær við Ísafjörð – og því er ég auðvitað ekki „farinn“ neitt enn. Ég sef heima hjá mér um nætur. Og oft á dag rekst ég á fólk sem spyr, furðu lostið: „Ert þú ekki farinn?“ eða „Ég hélt þú værir farinn?“ Það er næstum að ég gruni fólkið um að vera byrjað að bardúsa eitthvað sem ég átti alls ekki að verða vitni að – það hafi treyst því að ég væri farinn. Þessu fólki til hughreystingar vil ég nefna að ég fer á föstudagsmorguninn. Eða, svona upp úr hádegi líklega. Ef þið viljið vera alveg viss um að vera í friði við ykkar einkalega bardús skuluð þið ekki sleppa af ykkur beislinu fyrren eftir klukkan eitt.