Ég veit ekki hvað maður á að halda um umræðuna síðustu daga. Það sem fólk hefur ýmist kallað klámvæðingu skólakerfisins eða vísað í sem einhvers konar mannfjandsamlegan kynusla – að kennsluefni sé beinlínis ætlað að gera stráka að stelpum, stelpur að hommum, homma að kvárum og alla að kynlífsfíklum. Það eru ansi mörg lög sem maður þarf að skræla af vilji maður skilja hvað það er í raun sem gerir fólk svona pípandi brjálað – en í grunninn er þetta auðvitað einmitt bara „bakslag“ einsog fólk kallar það, bara ofstopafullt uppnám og óskiljanleg bræði, og sennilega mest úr ranni fólks sem hefur verið að fussa og sveia við eldhúsborðið heima hjá sér í nokkur ár en blæs nú út. Það er einsog það hafi verið gefið út skotleyfi – og ekki bara á transfólk heldur á frjálslyndi í kynferðismálum almennt. Svo það sé sagt. Ég er sannfærður um að kynfræðsluefni einsog það sem ég hef séð deilt síðustu daga – bæði til þess að skammast yfir því og til þess að fagna því – geti hreinlega bjargað mannslífum. Og einsog það væri ekki nóg að bjarga fáeinum mannslífum þá felst einfaldlega í því heilmikil menntun, fyrir hina sem eru ekki í lífshættu, og í menntun felst léttir, gleði, reisn. Börn þurfa nefnilega að læra að þekkja heiminn einsog hann er. Einsog hann birtist þeim í raunveruleikanum. Ekki einsog einhverjir neo-púrítanar myndu helst vilja að hann væri. Og það er ábyggilega voðalega erfitt fyrir marga en raunveruleikinn er samt sá að sum okkar eru trans – og sum okkar eru það löngu áður en þau verða kynþroska. Öll held ég þess utan að við séum að minnsta kosti pínulítið hinsegin (og öll pínulítið svona ). Þegar kemur að meintri klámvæðingu í námsefni er raunveruleikinn líka sá að börn snerta sig – kannski ekki öll, en mörg – og jafnvel stundum hvert annað, þau uppgötva heiminn hvort heldur sem er, og þau þurfa að vita að það er ekki rangt og ekki ljótt. Þau eiga ekki að þurfa að fyllast skömm yfir því. Og alveg einsog við hin þurfa þau að læra að þekkja mörk – bæði sín eigin og annarra. Það heitir ekki að „grooma“ börn – heldur að gefa þeim verkfæri til þess að skilja heiminn betur, til dæmis svo þau geti borið almennilega kennsl á það þegar á þeim er brotið. Barn sem skammast sín fyrir að hafa orðið fyrir misnotkun, af því allt svona „dóna“ er svo ljótt, segir nefnilega síður frá en það barn sem hefur ekki lært skömm og pukur púrítanana. En umræðan – ég veit ekki hvað þessi hystería er. Ég hef ekki síst áhyggjur af læsi – það er einsog margt fólk sé hreinlega ekki læst, eða vilji alls ekki lesa það sem ber fyrir augu, hafi engan áhuga á að skilja það, heldur haldi fast við rétt sinn til að túlka það allt út frá fordómum sínum eða fyrirframgefnum hugmyndum. Sjái því bara það sem það heldur fyrirfram að standi skrifað. Og vitundin leysist upp í sírenuvæl og reyk, lygar og ýkjur – og já, einmitt, gelt. Hystería er orðið. Mig langar að segja að þetta sé rosalega bandarískt – en það er frjálslyndið kannski líka – og kannski eru vesturlönd bara fyrir löngu orðinn svo mikill grautur að mörkin milli Ameríku og Evrópu hafa máðst út. Stundum líður mér einsog við séum í einhverju illa skrifuðu leikriti. Eða 30 ára gömlum Jerry Springer þætti. Og ef það er satt að við séum á sömu vegferð og Bandaríkjamenn, einsog manni sýnist – nema kannski nokkrum árum á eftir – þá þyrftum við nú fljótlega að reyna að finna einhvern góðan stað þar sem við getum beygt af leið. Og áð og rætt málin – horfst í augu, faðmast, dregið andann. Áður en þetta samfélag sem sagt fer á haugana. Því hér á okkur öllum að líða vel.
Author: Eiríkur Örn Norðdahl
New Novel: The Natural Laws
In the early summer of 1925, the youngest, most beautiful and most reluctant bishop in the history of Iceland summons the country’s priests to the small town of Isafjordur. His purpose is to solidify the power of Christianity and suppress the spread of spiritualism. However, his schemes set off an unforeseen chain of events that span seven tumultuous days. Life in the town takes a sharp detour as inexplicable and catastrophic phenomena unfold, leaving the townspeople grappling with the question of whether the nature of these occurrences is scientific or divine. The Natural Laws is a captivating novel with a glittering tinge of fantasy that offers a distinctive and carnivalesque portrayal of life in a small Icelandic town. Fact and fiction are juggled freely, capturing the town’s atmosphere and local memories, to weave an exhilarating and thrilling narrative. Out in Icelandic with Mál og menning 21.10.2023.
Handled by Reykjavík Literary Agency . English test translation and synopsis available.
Náttúrulögmálin
„Hafið þér heyrt af þjóðtrú þeirri sem segir að ef sjö prestar og einn eineygður standi fyrir dyrum Ísafjarðarkirkju muni Gleiðarhjalli allur losna af Eyrarfjalli og hrynja yfir bæinn? Og þar með verði bundinn endi á alla mannabyggð á Ísafirði?“ Snemma sumars árið 1925 hefur yngsti, fegursti og jafnfram óviljugasti biskup Íslands, herra Jón Hallvarðsson, kallað til prestastefnu á Ísafirði. Megintilgangurinn virðist vera að storka þjóðtrú landans og sýna mátt kristindómsins frammi fyrir hindurvitnum, spíritisma og náttúruöflum. En með uppátæki sínu hleypir biskup af stað ófyrirsjáanlegri sjö daga atburðarás þar sem náttúra staðarins kallast á við náttúru mannsins. Náttúrulögmálin er skáldsaga sem gefur einstaka og karnivalíska mynd af kaupstaðarlífi Ísafjarðar á miklum umbreytingartímum í sögu þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Hér er brugðið á leik með heimildir og sögulegar staðreyndir í hrífandi og bráðskemmtilegri sögu. Mál og menning gefur út. Væntanleg um miðjan október.
Menningarelítan (lætur mig ekki í friði)
Um daginn var ég spurður hvort ég væri ekki í elítunni. Spurningin kom upp vegna þess að ég hafði ekki innanbúðarupplýsingar um tiltekið málefni. Og var sett fram í gríni. En síðan þá er einsog hugtakið menningarelíta hafi elt mig á röndum. Fyrst var það stutt brot sem ég fékk sent – af tik tok, af öllum stöðum – þar sem David Graeber ræðir um það hvers vegna fólk (eða allavega bandarískt fólk) hatar „the liberal elites“ en elskar herinn (eða er a.m.k. í support-the-troops stemmaranum). Í sem stystu máli og með sem fæstum útúrsnúningum rekur hann það til þess að fólk telji – að einhverju leyti réttilega, vill hann meina – að þótt það sé langsótt fyrir manneskju úr verkalýðsstétt að komast í álnir þá sé það samt ekki jafn langsótt og að verða til dæmis leikhúsrýnir hjá New York Times. Að hliðvarslan í bestu stöðurnar í bandarískri menningu sé svo kræf að þú sért líklegri til þess að verða ríkur (ef það er eina markmiðið) en að ná í gegn í menningunni. (Og að nepo-börnin gangi víðast fyrir). En auðvitað er líka hæpið að maður verði ríkur og þá stendur eftir spurningin um hvað maður geti í raun og veru gert – hvaða starf getur þessi manneskja fengið þar sem hún fær sæmileg laun, heilbrigðistryggingu og hlunnindi, og látið í leiðinni gott af sér leiða (eða a.m.k. talið sér trú um að hún láti gott af sér leiða). Hvar standa dyrnar opnar? Þar er ekkert í boði nema herinn. Þessu er auðvitað ekki eins farið á Norðurlöndunum. Eða á Íslandi. Hins vegar held ég að við getum alveg gefið þessu gaum og unnið gegn tendensinum. Fyrir mörgu fólki eru valdastöður í menningunni oft raunverulega mjög fjarlægar – og þær ganga augljóslega að einhverju leyti í arf. Mér finnst fólk á Íslandi – það sem gegnir þessum stöðum – oftar gera lítið úr valdi sínu en gangast við því. Það er bæði fölsk hógværð og blinda – sá sem er vanur því að ráða menningarstofnun eða geta sent lagið sitt beint í spilun eða mætt „af og til“ í Gísla Martein finnst það kannski ekkert merkilegt sjálfum – það verður eins konar núllpunktur. „Þetta er svo lítið land!“ Og fólk tekur því sem mjög alvarlegri ásökun ef að því er ýjað að menningarlífið stýri sér ekki bara sjálft eftir einhverjum náttúrulegum reglum um hæfi og hæfileika. Svo var það Louis Theroux, heimildamyndagerðarmaðurinn, sonur rithöfundarins Paul Theroux (og systkinabarn leikarans Justin Theroux, bróðir rithöfundarins Marcel Theroux, og frændi rithöfundanna Peters og Alexanders Theroux). Ég horfði á langt viðtal við hann á YouTube , þar sem hann talaði talsvert um mikilvægi þess að fá hjálp – að fólk þurfi aðstoð til þess að uppfylla drauma sína. Og að hann sjálfur – sem var alinn upp við ríkidæmi, af menntuðu fólki, sendur í dýran einkaskóla – hefði þrátt fyrir allt þetta forskot aldrei náð árangri ef það hefði ekki líka verið fyrir aðstoð fólks einsog Michael Moore, starfsfólks BBC og annarra sem hefðu séð í sér eitthvað (sem hann sá að sögn ekki sjálfur) og veitt honum ótal tækifæri. Og hvað það hlyti að vera óyfirstíganlega erfitt – eða bara ómögulegt – að ná árangri, komast í menningarelítuna, ef maður hefur ekki þetta forskot. Síðast í morgun rakst ég svo á grein sænska rithöfundarins Ola Larsmo, í tímaritinu Vi , þar sem hann spyr sig meðal annars hverjir það séu sem tilheyri þessari svokölluðu menningarelítu? Eru það allir sem taka bækur á bókasöfnum? Allir sem fara í sinfóníuna? Allir sem kunna á hljóðfæri? Allir sem auðga líf sitt með ríkisstyrktri menningu? Bara þeir sem vinna við að búa hana til? Tilefnið er hegðun og orðfar Sophiu Jarl, sem fer fyrir Moderaterna í borgarstjórn Norrköping, og hefur stundað þar menningarlegt niðurrif af skyldu tagi og kollegar hennar í Kópavogi. Henni hefur í þessu sambandi líka orðið tíðrætt um „ofdekruðu menningarelítuna“. Svo skrifar Ola Larsmo: „Maður gæti […] sagt að hin háleita menning sé staðurinn þar sem samfélagið talar við sjálft sig. Það skiptir ekki allt sem þar er sagt miklu máli. Það þurfa ekki allir að leggja við hlustir. En eftir því sem tíminn líður getum við séð að það er í þessari tjáningu, sem oft er talin útilokandi eða hreinlega skrítin af sinni samtíð, sem nýjar hugsanir um mennskuna, lífið og samfélagið hafa orðið mögulegar. Stundum hafa þær þær hæddar, stundum fagnað. En hverjir eiga þá að hafa aðgang að verkfærunum, orðunum, sjónarhornunum [sem menningin veitir]? Í að minnsta kosti sjötíu ár hefur svar menningarpólítikurinnar verið: allir. Af því það er ómögulegt að vita fyrirfram hver þarf þau eða hvenær.“ Svo bætir hann því við að í dag myndi ferðamálastofa Dyflinnar sennilega ekki vilja vera án Ulysses – sem mér finnst raunar veikja punktinn, af því réttlæting listaverks á ekki að vera í því fólgin að síðar meir verði hægt að mjólka úr því milljarða. Ekki þar fyrir að mig dreymir oft um að fara í Ulysses-ferð til Dyflinnar.
Höfuðverkir
Ef það merkilegasta sem maður hefur að segja við heiminn er að maður fái ekki lengur höfuðverk, eftir að hafa hætt kaffidrykkju fyrir rúmlega viku síðan, þá er kannski ekki mjög margt að gerast hjá manni. En það er sem sagt þannig. Ég fékk að vísu aldrei neitt ægilegan höfuðverk en ég var pínu sloj fyrstu vikuna. Nú er ég bara einsog ég á að mér að vera. Hvorki skárri né verri eiginlega. Ég sef sennilega betur jú – en það er ekki alveg marktækt því það byrjaði áður en ég hætti að drekka kaffi, þegar ég fór í almennilegt sumarfrí. Þetta er annars bara tímabundið ástand, mér finnst svo líklegt að eftir þrjár-fjórar vikur fari ég að drekka kaffi aftur að það má vel vera að ég setji það bara í dagatalið mitt. *** Ég var spurður hvort ég ætlaði ekki að skrifa minningargrein um Guðberg. Ég var meira að segja beðinn um að koma í viðtal til þess að ræða Guðberg og áhrif hans á mig. Ég svaraði báðu með einföldu nei-i. Ég hef aldrei skrifað minningargrein og byrja ekki á Guðbergi, þótt mér þyki vænt um bækurnar hans. Og ég er ekki heldur sérfræðingur í þeim bókum, þótt Guðbergur hafi verið mér hugstæður. Ég hitti hann ekki nema þrisvar, það ég man í fljótu bragði. Í fyrsta skiptið fékk ég hann (og Elísabetu Jökuls og Eyvind Pétur Eiríksson) til þess að koma á bókmenntakvöld á vegum nemendafélags Menntaskólans á Ísafirði veturinn 1996. Þau Elísabet voru þá veðurteppt í marga daga og ég hitti þau eðlilega talsvert þótt tæplega væri hægt að segja að með okkur hafi tekist mikil kynni. Næst hitti ég Guðberg á Bessastöðum þegar ég fékk verðlaun og hann mætti í móttökuna. Hann óskaði mér innilega til hamingju og fór svo að tala um hvað ég ætti fallegt reiðhjól. Ég skildi ekkert, enda átti ég ekki reiðhjól, en þá kom í ljós að hann hafði séð mynd af mér og Aram á reiðhjóli á blogginu mínu – en því reiðhjóli hafði ég hent eftir að það brotnaði. Síðast hitti ég hann í fyrra í jarðarför Eiríks Guðmundssonar. Hann sat á ská fyrir framan mig og við rétt heilsuðumst. Það var í fyrsta skipti sem ég sá hann – í eigin persónu eða fjölmiðlum – án þess að hugsa hvað hann væri djöfulli ern alltaf. Hann átti fullt í fangi með að standa á fætur og setjast í takt við fyrirskipanir prestsins. Flateyjar-Freyr og Froskmaðurinn eru annars mínar Guðbergsbækur. Ég féll aldrei fyrir Tómasi, þótt ég skilji byltinguna í henni, og ekki heldur Svaninum. *** Annars bölvaði ég sjálfum mér fyrir að hafa ekki farið í þetta viðtal þarna. Að afþakka viðtal við stóran fjölmiðil þegar það er rétt rúmur mánuður í útgáfu bókar flokkast sennilega undir sjálfsskaða. Og ég afþakkaði bara vegna þess að ég var of upptekinn af að hafa áhyggjur af því að fá ekki næga athygli í jólabókaflóðinu. Sagðist vera „of annars hugar“. *** Annars er ýmislegt á döfinni. Í næstu viku þarf ég að fyrirlesa um plokkfisk. Svo er ég með í að skipuleggja bókasýningu í Safnahúsinu þar sem verður stillt upp vestfirskum bókum í tilefni af útgáfu bókar um „sköpunarkraft Vestfjarða“ – þar sem ég á líka litla grein. Það gengur vel að bóka upplestra fyrir haustið, en margt þó enn óunnið. Ég ætla aldrei þessu vant að gerast bóksali sjálfur og leigja posa og árita og selja út um allar trissur. Þá þarf að ganga frá synopsis og prufuþýðingum með Reykjavík Literary Agency. Svo þarf auðvitað að skrifa nýjar bækur – og árlega ritlaunaumsóknin er líka á næsta leyti. Nóg að gera altso – guði sé lof bara að ég er ekki með koffínhöfuðverk.
Tímabundið heilaleysi
September er hinn eini sanni fyrsti mánuður ársins. Allar aðrar ársbyrjanir eru feik. Og 1. janúar er verst af öllum. Það lýkur engu 31. desember og byrjar ekkert 1. janúar. Flugeldarnir fara upp í loft öðrumegin og detta niður hinumegin. Í september byrja skólarnir fyrir alvöru, fyrstu bækur jólabókaflóðsins líta dagsins ljós, sumarfríum er lokið, veturinn – sem er eina alvara lífsins – byrjar að gíra sig upp (það verður stormur á helginni). Og svo framvegis. Hringrásin hefst á ný. Eiginlega ættum við að gera einsog Víetnamar og eldast bara öll í einu 1. september. Systir mín og sonur ná því næstum því – á 2. og 3. september. Af þessu tilefni er ég kominn í bindindi á allan fjárann. Kaffi, áfengi og óhollustu almennt. Ég hef ekki lifað kaffilausan dag svo ég muni í svona 30 ár. Ég hætti í gær og hef verið hálfheilalaus síðan. Og talsvert verri í dag en í gær. En hugmyndin er nú sú að ég verði fær um að hugsa aftur þegar fráhvörfin eru liðin hjá. Og að ég sofi betur, kvíði minna, gremjist síður. Annars fara dagarnir mest í dútl og skipulagningu. Að beisla kaos. Breyta draumum í veruleika. Ég er í allt öðrum fasa en í vor þegar ég var að klára bókina. Þá svaf ég áreiðanlega hálfan sólarhringinn – eða lá a.m.k. í rúminu, dormaði milli svefns og vöku og mátaði hugmyndir, reis svo úr rekkju til þess að skrifa einsog óður maður í nokkra klukkutíma áður en ég var úrvinda og sofnaði í hægindastólnum á skrifstofunni minni. Og endurtók það síðan áður en ég fór heim að sofa meira. Í morgun var ég mættur á skrifstofuna klukkan hálfátta. Enda er ég ekki að skrifa og hef því næði til þess að lifa því heilbrigða lífi sem músunum sem ég á allt mitt undir (þær eru mýs, ekki músur) hugnast ekki að ég lifi. En í staðinn er ég sem sagt nánast fullkomlega heilalaus.
Chez moi
Eftir því sem ég kemst næst eiga Frakkar sér ekkert orð fyrir „heima“. Þeir eru bara „í húsinu“ eða „hjá sér“. Merkingin er svo bundin í setningagerðina – à la maison er heima en dans la maison bókstaflega í húsinu. Þegar ég hef svarað fyrir skáldsöguna Heimsku – mest einmitt í Frakklandi – hef ég oft delerað um sifjar orðsins, hvernig heimska sé það að vera alltaf heima, sjá aldrei næsta fjörð og hvað þá önnur lönd, en hvernig orðin heima og heimur séu líka náskyld. Enda heimurinn heimili okkar. Og þá komið að þeim punkti líka að maður geti orðið alveg jafn heimskur af því að reyna að svolgra í sig allan heiminn í einu – ef maður gefi sér ekki tíma til að skilja heldur stundi lífshlaupið einsog það væri keppni (en það er kannski hjartað í skáldsögunni Heimsku ). Kannski verður það síðan enn ljósara með gervigreindinni að maður skilur ekkert með því einu að vita eða muna. Mér skilst að stærsti munurinn á fúnksjón gervigreindar og mannsgreindar sé sá að gervigreindin noti skrilljón gagnapunkta til þess að komast að niðurstöðu á meðan maðurinn sé einmitt fær um að draga ályktanir og skilja ýmislegt út frá mjög fáum gagnapunktum. Manni þarf held ég að leiðast til að geta verið mennskur – og það eru vélar augljóslega enn ekki færar um (en það er vel að merkja það sem gerist í kvikmyndinni Her – vélinni fer að leiðast). Og raunar er spurning líka hvort að sæborg sem dregur upp símann í hvert sinn sem leiðinn vofir yfir verði ekki á endanum meiri vél en maður. *** Ég er að lesa nýjustu ljóðabók Þórarins Eldjárn – Hlustum frekar lágt . Þórarinn hefur átt einhverja taug í mér frá því ég var unglingur – það eru fáir höfundar á Íslandi sem hafa skrifað af jafn mikilli leikgleði og ástríðu fyrir því hvernig tungumálið hljómar. Í mínum huga er það líka einmitt það sem ljóðlistin er – eða allavega þar sem hún er best – þegar leikið er á tungumálið einsog hljóðfæri. Í Hlustum frekar lágt nýtur þessi list sín jafnt í hversdagslegum athugasemdum, heimsósómakveðskap og meira að segja í hryggðarljóðum – sem og auðvitað í þeim fyndnu ljóðum sem Þórarinn er sennilega frægastur fyrir. Og stundum – eða jafnvel oftast – vefur hann þessu öllu saman í eitthvað innilega Eldjárnskt – með kómískum sorgarsvip og sorgbitnu brosi í senn. Einsog í upphafsljóðinu þar sem ljóðmælandi kemur heim og hengir grímuna sína á vegginn: Gríman er með grettu
glott sem henni er tamt
stjarfa freðna fettu
flíms og hryggðar jafnt. Það er líka umhugsunarvert að Þórarinn skuli hefja bókina á bókina á eins konar yfirlýsingu um grímuleysi – og að bókin hefjist á að hann komi heim, „inn úr ani“, enda á skáldið alltaf fyrst og fremst heima í bókum sínum – og ljúka henni á ljóði um að maður skuli ekki líta niður á neinn, né horfa upp til eins né neins, með dásamlegu lokalínunni: „Dýrð sé guði í augnhæðum“. Það hefur kannski aldrei verið mikilvægari boðskapur – að líta grímulaust á aðra sem jafningja sína – en nú á tímum eftirsannleika, linnulauss leikaraskaps og stigveldis áhrifavaldanna. *** Ég sendi handritið að Náttúrulögmálunum suður með flugfrakt í gær. Það var síðasta próförk sem ég sé. Handritið er sex hundruð blaðsíður og 3,2 kg. Bókin verður jafn löng en eitthvað léttari, gæti ég trúað. Þegar ég var með þetta monstrosítet á borðinu hjá mér í gær varð mér hugsað til senu í byrjun kvikmyndarinnar La vie de bohème eftir Aki Kaurismäki. Franski rithöfundurinn Marcel Marx kemur inn á knæpu og hefur að fyrirlesa um smámunasemi útgefanda sem vilji ekki gefa út bókina hans og það séu allir í þessum heimi, a.m.k. þeir sem einhverju ráði, pípandi fávitar. Barþjónninn sem hlustar á vælið býðst þá til þess að lesa bókina og gefa álit. „Kannt þú að lesa?“ spyr monsieur Marx. Og barþjónninn segist jájá hafa gengið í barnaskóla úti í sveit – tvo-þrjá bekki. Þá lifnar yfir monsiernum. „Já! Að fá álit alvöru alþýðumanns – til fjandans með þessa skræðunjóla á forlögunum!“ Svo beygir hann sig yfir leðurtöskuna sína og tekur upp risavaxið handrit – a.m.k. 600 síður og áreiðanlega 3,2 kg – og skellir á borðið. Þar lýkur vel að merkja senunni og við heyrum aldrei aftur af þessu handriti. Fyrir mína parta vona ég að bæði skræðunjólar og alþýðan hafi gaman af Náttúrulögmálunum .
Deux amoureux
Ostrur – tékk. Tartare de bœuf – tékk. Dúfa – tékk. Morbier – tékk. Comté – tékk. Phoenicienne – tékk. Bagettur (classique, tradition, rustique) – tékk. Champagne – tékk. Degustation de vin – tékk. Lesa bók á frönsku – tékk. Rautt, hvítt og rósa – tékk. Læra lag á frönsku – tékk. Plat du jour – tékk. Croissant – tékk. Skrifa dagbók á frönsku – tékk. Baða sig í hafinu – tékk. Fara í artí bíó – tékk. Fara í útibíó – tékk. Pain au chocolat – tékk. Fara á nútímalistasafn – tékk. Fara á gamltímalistasafn – tékk. Pastís – tékk. Fara á tónleika – tékk. Carpaccio – tékk. Kaupa Cent mille milliards de poèmes – tékk. Fara í grasagarðinn – tékk. Í Montpellier er maður víðast hvar ávarpaður á frönsku. Og raunar alltaf. Ég lenti að vísu í því í fyrsta sinn áðan að þjónninn skipti í ensku þegar hann áttaði sig á því að ég skildi ekki allt sem hann hafði sagt – eða las það í einbeitingarsvipinn á mér sennilega, því ég skildi hann alveg nóg. Ég svara mest með stökum orðum og bendingum, sem kannski setur fólk úr jafnvægi, en ég vil gjarnan að það tali frönsku við mig svo ég læri eitthvað (ég hef reyndar oft lent í því í Svíþjóð líka að afgreiðslufólk – sem talar sænsku – ávarpi mig á ensku; og þó tala ég sænsku reiprennandi, kannski er þetta bara einhver ára, einhver örlög). Hér er líka furðu lítið af erlendum keðjum sem maður ber kennsl á – langflestar búðir virðast vera annað hvort sjálfstæðar verslanir eða franskar keðjur. Og heitt. Hér er mjög heitt. Líka langt fram á kvöld – það er einsog það kólni ekkert fyrren sólin beinlínis sest. Marga daga hefur mesti hitinn verið milli sex og átta. Þetta er ansi ljúft líf. Og ég hef lítið unnið þrátt fyrir góðan ásetning – en eytt þeim mun meiri tíma í að læra frönsku. Og ætla að halda því áfram bara, held ég – þótt ég verði líka að spýta í lófana og sinna vinnunni minni. Þegar ég kem heim tekur líka við eitthvað meinlætalíf – hollusturispa – maður verður hræðilega sloj af la bonne vie . Að ekki sé minnst á hvað maður verður blankur. Ég legg af stað annað kvöld en Nadja verður í viku í viðbót – vinkona hennar hér aðeins sunnan af heldur fimmtugsafmælið sitt í næstu viku. Ég er búinn að vera nóg að heiman og ætlaði líka á ættarmót – sem var að vísu aflýst – og sakna krakkana og vinnunnar. Verð eina nótt á Kastrup – hafði séð fyrir mér að kaupa mér aðgang að lounge og lúra bara þar en svo loka þau víst yfir nóttina, svo ég verð væntanlega bara á gólfinu.
N’importe qui
Á meðan Nadja situr námskeið um hvernig maður kennir frönsku sit ég heima á hóteli og læri frönsku einn og óstuddur. Eða svona – ég nota duolingo, youtube og smásagnahefti. Og nýja tvíhálsa bassa-og-tenór ukuleleið mitt til þess að syngja Les Champs Elysée. Í gær fór ég líka í bíó á stórgóða ítalska mynd með frönskum texta – Vers un avenir radieux / Il sol dell’ avvenire – og skildi allt sem ég þurfti að skilja. Ég hef í sjálfu sér lengi getað stautað mig í gegnum einfalda franska texta án þess að geta notað málið að ráði – ég skil illa það sem aðrir segja og orðaforðinn minn er nær allur passífur (þ.e. ég þekki orðin oft þegar ég sé þau skrifuð, en get illa kallað þau fram sjálfur). Eiginlega er synd hvað ég er góður í bæði frönsku og þýsku án þess þó að vera nógu góður til þess að þau gagnist mér að ráði – ég get eiginlega ekkert talað þau og lítið lesið af bókmenntum. Nema hvað. Loturnar hér eru þá: skrifa, læra, skrifa, spila á ukulele, læra, skrifa, borða, skrifa, læra, spila á ukulele, göngutúr, borða, göngutúr, sofa. Með þessu öllu hef ég ógrynni af svörtu kaffi, eitthvað af víni, smá pastís, smá bjór og talsvert af hvítu brauði. *** Áður en við komum sáum við Barbie myndina með krökkunum. Það var í Västerås. Sennilega er þetta meira fullorðins mynd en barna – eða meiri barna og fullorðins en minni unglinga. Krökkunum (10 og 14 ára) fannst hún alveg skemmtileg en ég held þau hafi átt von á meiru. Kannski hélt ég bara sjálfur að þau yrðu upprifnari og varð hissa þegar þau urðu það ekki – internetið blekkir mann stundum svo, lætur mann halda að fólk sé spenntara en það er. Mér fannst hún fyndin en kannski ekki mikið meira en það – það truflaði mig sennilega talsvert þegar farið var að gera grín að körlum sem spila á gítar fyrir kærusturnar sínar („Ekki mynd fyrir óörugga karlmenn“ var einhver fyrirsögn, kannski í mogganum, og ég þekkti mig þar aftur – ég er líka aldrei eins óöruggur og þegar ég sit með gítar í fanginu og reyni að komast yfir tilhugsunina um að einhver heyri í mér). En nei, grín, það truflaði mig ekkert (mjög) – hins vegar gat ég ekki látið hjá að hugsa að þessi mynd væri svolítið einsog markaðsdeildin hefði skrifað hana sjálf og ákveðið að velja ekki neinn sérstakan markhóp heldur tikka bara í öll boxin. Þannig er hún bæði ægileg kroppasýning og body-positive, bæði langdregin auglýsing fyrir glóbal vörumerki og gagnrýni á kapítalismann (og svona gagnrýni á kapítalisma er auðvitað löngu orðin markaðsvara í sjálfri sér – ég á líka bolinn og hann var áreiðanlega saumaður af launalausu barni í Bangladesh), bæði alvörulaus skemmtun, óður til léttleikans og brýn gagnrýni á ónýtan heim. Það mætti meira að segja segja að hún sé bæði feminísk og andfeminísk – ef það er túlkað svo að Barbie-heimurinn sé Raunveru-heimurinn á hvolfi eru Barbie og vinkonur hennar auðvitað ígildi Karla, sem þrátt fyrir augljóst hæfi sitt og vanhæfi hins kynsins missa stöðu sína í nafni innihaldslausrar félagsfræði sem einhver heilalaus dúfus nær í á háskólabókasafni í útlöndum (einsog þar sé eitthvað hægt að læra). Mér finnst blasa við að það sé a.m.k. þannig sem karlrembunum líði upp á síðkastið. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart síðan að mynd sem höfðar til allra skuli verða vinsælasta mynd ársins. Annars er ég líka búinn að vera að lesa – endurlas frú Bovary og frumlas Tenth of december og gaf Annie Ernaux sinn þriðja séns, eftir að hafa fundist tvær bækur hennar æði ómerkilegar, og það reyndist auðvitað algerlega þess virði. The Years, einsog hún heitir á ensku – þar sé ég loks höfund sem á öll sín nóbelsverðlaun skilið, þar er samband höfundarins við minnið – sem hún er svo prísuð fyrir – loksins eitthvað til þess að bíta í, og hversdagsleikinn meira en bara eitthvað meh.
Hýdra
Mig langar í nýtt hljóðfæri. Í vor var ég mikið að skoða fimm og sex strengja bassa – einhvern eins ólíkan þeim sem ég á (Fender Jazz Bass með flatwound strengjum) og hugsast getur, eitthvað agressíft hljóðfæri með biti. Síðustu daga hef ég svo haft augastað á tvíhálsa hýdru frá Ortega – sem er tenór-ukulele að neðan en bassa-ukulele að ofan. Ég hef líka verið að skoða mandólín. Áðan las ég svo grein í New Yorker – frekar tilgerðarlega, einsog við á í því riti, en samt einlæga, hugsa ég, og að mörgu leyti fallega – um það hvað hljóðfæri gætu kennt manni um lífið og tilveruna. Og þá fór ég að hugsa um oud og dan bau og fleira gott. Ég er vel að merkja hljóðfærislaus á ferðalagi. Við erum núna hjá bróður Nödju og þar er blessunarlega bassi og klassískur gítar sem ég rauk í strax og við komum inn um dyrnar. Einsog fíkill eftir viku abstínens. Í Svíþjóð er allt annars gott. Vinir okkar, Dóra og Bjarki og fjölskylda, hafa verið í heimsókn. Við eyddum nokkrum dögum í bústað – syntum í stöðuvatni og héngum í heitum potti og grilluðum og sulluðum í bjór. Nú erum við í Västerås – þar sem við höfum meðal annars sýnt þeim fyrstu H&M búðina. Á morgun ætlum við svo að skoða dómkirkjuna. Milan Kundera dó og þá fór ég að rifja upp Óbærilegan léttleika tilverunnar – ég les alltaf Brandarann reglulega en hef ekki litið í léttleikann frá því upp úr aldamótum. Sennilega fer samtíminn fram á að maður lesi hana með kynjagleraugunum einum saman – með þótta ef ekki festu – sem er synd því hún er stórmerkileg ef maður leyfir þeim ekki að vera eina túlkunarlinsan. Og hugsanlega segir manni hún einmitt líka margt um feðraveldið ef maður leyfir henni að tala án þess að líta á hana sem manífestó um konur (sem mér hefur stundum sýnst fólk gera). Ég er ekki heldur viss um að það þyki fínt lengur að vera mjög gáfaður rithöfundur. Eða vera á öndverðum meiði við velmeinandi fólk. Í næstu viku förum við Nadja svo til Frakklands. Þar er víst fremur óþægilega heitt. Við verðum í tvær vikur – ég að vinna og Nadja á ráðstefnu. Ég sef illa – vakna yfirleitt eftir 4 tíma og móki svo í 8 tíma í viðbót og fer þá fram úr gríðarþreyttur. Enn með hælspora og fótafúinn einsog gamalmenni. Þreyttur í öxlum og baki en fæ endalausar auglýsingar á netmiðlum við verk í mjóbaki – sem er um það bil það eina sem hrjáir mig ekki. Samt finnst mér einsog netið sé að njósna um mig. Því ég hef engu gúglað og ekkert gert til að gefa í skyn verki mína – nema þetta, hér, nú, að blogga um það. Annars líður mér ágætlega.