Gerendameðvirkni

Ég er haldinn heilmikilli gerendameðvirkni. Eða gerendaempatíu. Ég finn til með þeim sem beita ofbeldi og held að það komi nánast aldrei til af því að því einu að viðkomandi séu vondir – þótt ég reyndar trúi á tilvist svo til hreinnar illsku líka, ég held bara hún sé fremur sjaldgæf. Svo bætist við þetta allt fremur lítil trú á gildi og gagn refsinga – og fremur mikil trú á því að fólk taki oft bara að sér þau hlutverk sem þeim er skipað í (ef þú segir manni alla ævi að hann sé glæpamaður er hætt við að hann verði það). Stundum held ég að þetta sé bókmenntunum að kenna. Ég hef lesið svo mikið af bókmenntum um gott fólk sem gerir vonda hluti – Glæpur og refsing er uppáhaldsbókin mín. Og hefur alltaf verið sagt að bókmenntir eigi að auka manni empatíu. Ég fór að hugsa um þetta í dag út af eineltisumræðunni. Mér finnst fólk skilja þetta (les: vera sammála mér) þegar það kemur að börnum. Að börn sem fremja einelti – hvort sem það er að hóta skólasystkinum sínum lífláti eða hreinlega ráðast á þau í stórum hóp – séu ekki vond og það geri takmarkað gagn að refsa þeim. Það þurfi að takast á við þetta á einhvern heildstæðari hátt – taka utan um alla sem eiga hlut að máli. Bera klæði á sárin. En þegar kemur að fullorðnum finnst mér sú afstaða að einfaldast sé bara að læsa þá inni og henda lyklinum sé að verða vinsælli og vinsælli. Að stinga upp á einhverju öðru – jafnvel bara réttlátri málsmeðferð í samræmi við lög, að sönnunarbyrði sé virt í sakamálum – er þá nefnt gerendameðvirkni. Ég er reyndar á því að það sé miklu minni munur á börnum og fullorðnum en við ímyndum okkur gjarnan. Ég er ekki að segja að málefni barna séu eins og málefni barna eða þau eigi að hantera nákvæmlega eins – en mér finnst að sömu gildi eigi að stýra hvorutveggja. En svo er þetta auðvitað ekki alveg einfalt heldur. Einsog t.d. í þessum málum á næsta skólastigi sem hafa verið til umfjöllunar – kynferðisbrot í menntaskólum – þar sem getur komið upp sú staða að það þurfi að flytja manneskju milli skóla til þess að vernda þolanda í ósönnuðu máli. Og þá verður aftur spurning hvort senda megi geranda í annan skóla eða hvort viðkomandi hafi fyrirgert rétti sínum til menntunar. Því þótt maður finni til með gerendum trompar sú empatía ekki þá empatíu sem maður finnur til með þolendum. Kannski er það sem mér finnst erfiðast í þessum ofbeldismálum – ef málin sjálf eru frátalin, þau eru sárust – þessi tilhneiging að vilja einfalda umræðuna um þau niður í hálfgert liðasport. Oft er bara einsog dómarinn flauti til leiks og við þjóðfélagsþegnarnir tökum okkur stöðu, okkar gömlu góðu stöðu sem við völdum eða var úthlutað, og svo hjökkum við sama hringinn enn eina ferðina – gerendameðvirknis-öfgafemínista-hannúðar-karlhatara uppnefnisrúntinn – án þess að ná neinum sjáanlegum framförum öðrum en að styrkja okkur sjálf í trúnni fyrir næstu umferð. Og þannig dýpka skotgrafirnar ár frá ári.

Setið með valdinu

Ef einhver hefði varpað sprengju á Bessastaði í gær – sem ég mæli nú ekki með að neinn geri, sérstaklega ekki í gærkvöldi, og ekki bara vegna þess að það er orðið of seint – þá hefði enginn verið eftir til að stjórna íslensku samfélagi nema Bjarni Ben og Sólveig Anna. Annars voru allir þarna. Forseti, forsetafrú og forsætisráðherra, orkumálastjóri, Halldór Benjamín, Lóa Hjálmtýs, forstjóri Hafró, formenn stjórnmálaflokkanna, Gerður Kristný, allir helstu ráðherrar und so weiter. Auk auðvitað Saulis Niinistö og eiginkonu hans, Jenniar Haukio, og nokkurra finnskra herforingja. Svo missirinn hefði ekki bara verið á reikning íslenska þjóðveldisins heldur einnig hins finnska. Hvað um það. Ég sat hjá æskuvini Hauks Ingvars, skólabróður Hjalta Kalla Geirmunds og eiginkonu trommarans í Örkuml. Og raunar fleirum, en á þessum borðsenda. Þið megið giska hver þetta voru en auk þeirra voru í salnum sonur hennar Aðalbjargar sem kenndi mér í sex ára bekk; eiginkona Kristjáns, fyrrverandi ritstjórans míns; dóttir Silju Aðalsteins, annars fyrrverandi ritstjóra míns, og systir Sigþrúðar, núverandi ritstjórans míns; faðir og stjúpa hennar Rutar sem ég kenndi ritlist; æskuvinkona Braga Páls; og svo skilst mér að mamma hans Tóta skáta hafi verið þarna einhvers staðar líka þótt ég hafi misst af henni. Og ótal aðrir. Saman borðuðum við minnstu þríréttuðu máltíð sem ég hef á ævi minni komist í. Grafinn þorsk í forrétt, steinbít í einhvers konar bláskeljafroðu í aðalrétt og svo eina matskeið af ís í eftirrétt. Með þessu fengum við þrjú vín – þar á meðal eitt châteauneuf-du-Pape, sem var eftirlætisvínið hans Frasiers, í samnefndum sjónvarpsþáttum. Allt mjög gott, en þegar ég var kominn aftur í bæinn, hungurmorða, fór ég á Subways og fékk mér ítalskan BMT í oreganobrauði með ólífum, salati, tómötum, rauðlauk og hunangssinnepi. Með þessu hafði ég gulan kristal. Svo glápti ég á eitthvað Netflixsorp fram á nótt. Ég er ekki fastagestur á svona uppákomum. Kannski er þetta mest forvitnilegt þess vegna. Ætli fólk venjist þessu ekki? Mér sýndist stjórnmálamennirnir vera alþýðlegastir allra þarna. Húsvanir. Og kannski var alþýðufólkið upptrekktast. Eða – þeir sem eiga þannig bakgrunn, líklegast telst ekkert okkar, ekki einu sinni við láglaunalistamennirnir, vera alþýðufólk. Ekki þegar það er búið að bjóða okkur á Bessastaði. Sum okkar eru meira að segja farin að skreyta sig með orðum. Það er reyndar líka alltaf spurning, hvort það sé listamaðurinn sem skreyti sig með orðu embættisins, eða embættið sem skreyti sig með því að næla listamanninn fastan við sig. En ég held maður þurfi að vera svolítið verseraður í efri lögum þjóðfélagsins til þess að verða ekki mjög sjálfsmeðvitaður í svona aðstæðum. Hræddur um að borða óvart með vitlausum gaffli. Sjálfur fór ég einu sinni á baðherbergið á meðan á borðhaldinu stóð og var mjög meðvitaður um að það gerði eiginlega enginn – fólk sat bara og pissaði svo þegar borðhaldið var yfirstaðið. Tilfinningin var ekki ósvipuð því læðast út úr leikhússal í miðri sýningu. Það situr annars ýmislegt í mér eftir panelinn sem ég hef verið að melta. Kannski aðallega þetta tal alltaf um sögueyjuna og að á Íslandi gangi allir með bók í maganum og allir lesi og segi sögur og bókmenntirnar séu lifandi afl meðal fólksins o.s.frv. Ég get auðvitað ekki talað fyrir allar kreðsur en ég þekki mjög mikið af fólki sem lifir ekkert í skáldskap – les lítið og dytti aldrei í hug að skrifa neitt – og ég held að slíku fólki fjölgi frekar en hitt. Það eru ekki bara börn sem eru að verða verr og verr læs heldur líka og kannski ekki síður fullorðið fólk. Mér finnst bókmenntirnar – og þetta bókmenntatal – oft leysast upp í hálfgerð slagorð. Einsog í Reykjavík – Bókmenntaborg UNESCO – sem á ekki einu sinni bókmenntahús. Og á bráðum ekki einu sinni bókabíl heldur! Af því bókmenntirnar eru fínar til skrauts á meðan þær kosta sem allra minnst.

Höfuðborgin

Ég er í höfuðborginni. Mér bauðst að taka þátt í 40 mínútna panel í morgun og vegna þess hvernig flugi er háttað núorðið fól það í sér tveggja sólarhringa ferð. Ég kom með morgunfluginu í gær og fer með morgunfluginu á morgun. En það væsir svo sem ekki um mig. Ég gisti í gestaíbúð forseta Íslands og verð í mat hjá honum í kvöld. Í þessum panel sátu sem sagt forsetafrúr Íslands og Finnlands, Eliza Reid og Jenni Haukio, auk okkar Gerðar Kristnýjar. Eliza er auðvitað þekkt af sinni bókmenntastarfsemi en Jenni er þekkt ljóðskáld í Finnlandi og hefur verið það frá því áður en hún varð forsetafrú. Hún er meira að segja nokkuð gott ljóðskáld. Það situr alltaf í mér lína frá henni um mann sem skrifar bréf á hverjum morgni og setur svo ómerkt í póstkassann til þess eins að taka á móti því endursendu á hverju kvöldi. Það kemur ekki fram, en segir sig sjálft, að viðkomandi hefur þá haft fyrir því að setja heimilisfang sendandans aftan á – það er einhver sér-finnsk kómísk einmanakennd í þessu athæfi. Panellinn tókst annars ágætlega. En það bregst ekki að svona panelar minna mig alltaf á það hvers vegna ég er rithöfundur en ekki til dæmis hlaðvarpsstjórnandi. Ég skil yfirleitt ekki spurningarnar fyrren svona hálftíma eftir að panellinn er búinn, er ekki búinn að finna gott svar við þeim fyrren nokkrum klukkustundum síðar og veit ekki hvernig best væri að orða þau fyrren daginn eftir. Þess vegna tafsa ég, byrja mörgum sinnum á sömu setningunni, reyni að rifja upp spurninguna og svara svo yfirleitt einhverju allt öðru en að var spurt. Þetta kemst ég samt yfirleitt upp með, hvernig sem á því stendur. Sennilega er ég bara svona sætur. Í gær fór ég í dálítinn bókaleiðangur. Leit við í útgáfuhófi Urðarfléttu eftir Ragnheiði Hörpu og Skurnar eftir Arndísi Lóu. Þar fannst mér ég reyndar vera svo illa gerður hlutur – einn á sólóflugi og þekkti engan til að hengja mig við – svo ég ráfaði bara strax út og ég hafði keypt bækurnar á tilboði. Fór í Eymundsson og keypti Máltöku á stríðstímum eftir Natöshu S. Svo rölti ég við hjá Braga Páli og Beggó og gaf þeim eintak af Frankensleiki – Bragi Páll er sérfræðingur í ógeði, ekki síst í barnabókum, og las yfir handritið fyrir mig. Næst kom ég við hjá Berglindi Ósk, höfundi Breytts ástands , sem átti að vera með tvær bækur sem ég lét Steinar Braga kaupa fyrir mig á Tunglkvöldi fyrir meira en ári síðan – bækur Ástu Fanneyjar og Páls Ívans – en týndust. Þær áttu sem sagt að vera fundnar og bíða mín þar – en Steinar er sjálfur í sveitinni. Svo kom í ljós að þetta voru bækur Dags Hjartarsonar og Elísabetar Jökuls og bækurnar mínar eru enn týndar. Sennilega eyddi Steinar bara peningunum mínum í eiturlyfjaskuldir og þorir ekki að viðurkenna það. Ég át kvöldmat á Austurlandahraðlestinni og fór heim að lesa. Kláraði Dag – sömu bók og átti að pranga inn á mig, en í annarri útgáfu. Ljósagangur er svona Steinars-Braga-Sci-Fi nema ef Jón Kalman hefði skrifað það. Eða ég myndi skrifa það utan á hana ef ég ætti að lýsa henni. Því hún er samt líka Dagslegasta bók sem Dagur hefur skrifað frá því fyrsta ljóðabókin hans kom út. Lá svo yfir Urðarfléttu og Máltöku á stríðstímum þar til það var kominn tími til að fara að sofa. Báðar fyrirtak –  Máltakan frekar sár og Urðarflétta einhvern veginn linnulaus – það er niður í henni (öðruvísi niður samt en bók Dags fjallar um). Ég meina það vel, nota bene – og ég held hún þoli marga lestra og krefjist þeirra jafnvel. Í morgun keypti ég líka Hemmets lugna vrå eftir Kristian Lundberg, kunningja minn, heitinn – og las hana með síðdegiskaffinu. Hún er brútal og erfitt að lesa hana – ekki bara vegna þeirra andlegu veikinda sem kostuðu Kristian lífið. Titillinn þýðir sirka „hið friðsæla afdrep heimilisins“ – og bókin er eins konar rannsókn á því sem getur átt sér stað í þessum afdrepum, sem er á köflum hryllilegt. Að síðustu keypti ég líka sænskar þýðingar á ljóðum Arsenís Tarkovskís, pabba Andrejs – en því er haldið fram á bókarkápu að sonurinn hafi verið undir miklum áhrifum frá pabba sínum. Á eftir mun ég líka skiptast á bókum við Lóu Hlín og fá bók hennar Mamma kaka í skiptum fyrir Frankensleiki . Og svo lýkur þessari bókaferð klukkan níu í fyrramálið þegar ég flýg heim. Annað kvöld er ég svo dómari í eins konar upplestrarkeppni á kaffihúsinu Heimabyggð, þar sem fólki býðst að lesa ljóð eftir dauð ljóðskáld. Eða sálug, einsog það heitir á auglýsingunni.

Þegar Guðbergur aflýsti áttræðisafmælinu sínu (kafli úr Hans Blævi)

Guðbergur Bergsson. Kóngurinn. Ekki bara færasti listamaðurinn heldur öflugasta tröllið. Guðbergur veit alltaf hvað maður á ekki undir neinum kringumstæðum að segja. Listamaðurinn lætur okkur gráta, lætur okkur fyllast hlýju og hlæja; en tröllið setur okkur af sporinu, kemur okkur úr jafnvægi og neyðir okkur til þess að verja þær skoðanir okkar sem við héldum að væru yfir gagnrýni hafðar. Það er fíllinn sem gerir okkur ljóst að við höfum breytt lífum okkar í postulínsverslanir. Muniði eftir Gillzmálinu? Gillz var kannski ekki alltaf fínlegasta tröllið og svo sannarlega ekki það gáfaðasta – en hann náði árangri. Gillz var jarðýta í bransanum. Hann skemmti hinum Þórðarglöðu og ýfði fjaðrir hinna skælandi stétta. „Það þarf bara að gefa þessum leiðinda rauðsokkum einn granítharðan í háruga bílskúrinn til þess að þagga niður í þeim.“ Muniði eftir þessu? Ofsa-lol! Þessi tími, fyrsti áratugur 21. aldarinnar, var gullöld tröllsins og Gillz átti ekki í neinum erfiðleikum með að heilla lýðinn, allra síst þvenghoruðu menningarvitana með tjúguskeggin sem honum þótti svo gaman að gera gys að – hann lofaði meðal annars að „kjöta upp“ Sjón – sem á móti líktu drengjasveitinni hans á kallarnir.is við Fjölnismenn, gerðu við hann útgáfusamninga, réðu hann í vinnu á helstu fjölmiðlum landsins, og hrósuðu honum ad absurdum. „Hann er mjög vel máli farinn, talar litríkt mál.“ Muniði eftir þessu? Hehe. Eða eru allir búnir að gleyma – hló ekkert ykkar þegar hann kallaði konur ílát til að sprengja í? Enginn? Það var óhjákvæmilegt að hann lenti að endingu í hakkavélinni sjálfur. Ærslatröllum er ekki annað skapað en að farast í eigin rauðabruna. Þann 2. desember, 2011, birtust fréttir í öllum helstu fjölmiðlum um að Gillzarinn, Gillzenegger sjálfur, Egill Einarsson – einkaþjálfari, útvarpsmaður, kvikmyndastjarna, kellingabani – hefði, ásamt unnustu sinni, verið kærður fyrir nauðgun og alltíeinu var internetið mjög alvarlegt. Alltíeinu var gríðarlega alvarlegt mál að tala óvarlega um sakleysingja. Alltíeinu var bráðnauðsynlegt að kæra dónalegt fólk fyrir meiðyrði – heilu hópana, alla sem dirfðust að gera því skóna að Egill, aumingja litli Egill, væri sekur um annað og meira en að raka sig á pungnum. Ónefnt listaháskólatröll varð fyrir þeim ósköpum að uppnefna Stóra G, sjálfan Störe, Þykkeh „rapist bastard“, var dæmdur fyrir meiðyrði, sennilega í einhverjar botnlausar sektir. Svo korteri síðar var sama listaháskólatröll sjálft sakað um nauðganir í fjölmiðlum. Og þá fannst tröllinu skyndilega gríðarlega alvarlegt mál að tala óvarlega um sakleysingja – fólk sem hafði ekki einu sinni verið dæmt! Hvað var eiginlega að verða um internetið? Hvað var að verða um sómatilfinningu þjóðarinnar? Og mitt í öllu kófinu birtist hann. Kóngurinn. Guðbergur er annars konar tröll en Gillz – Gillz meikaði aldrei að láta hata sig, Gillz vildi bara láta fólk hlæja með sér þegar hann híaði á minnihlutahópa. En Guðbergur hefur alltaf verið hataður og þekkir ekkert annað. Samkynhneigður maður fæddur árið 1932 í pínulitlu sjávarþorpi í hómófóbísku landi. Sennilega hefur hann lært að hata sjálfan sig fyrstan allra – lært skömmina nógu snemma til að skilja hana endanlega við sig á mótunarárunum. En umfram allt annað hlýtur hann að hafa lært að skilja samfélagið í kringum sig – og allt sem það stendur fyrir – sem rangt, sem samansafn af villuráfandi fábjánum, læmingjum og fíflum. Guðberg vantaði korter í áttrætt. Og hvað gerir þjóðin við sín stærstu skáld þegar þau verða áttræð? Hún heldur veislu. Heldur ráðstefnur. Gefur út gullbryddaðar bækur með fleygum orðum – perlur úr verkum Guðbergs. Það eru blóm. Langar greinar í blöðunum. Fálkaorðan. Samfélagið sem lagði fæð á Guðberg og allt sem hann stóð fyrir ætlaði nú að elska hann. Einsog ekkert af hinu hefði nokkru sinni átt sér stað, einsog fortíðin skipti engu máli. Það ætlaði að sýna honum – og sjálfu sér – að það léti sko ekki smá hommaskap stöðva sig í hyllingunni, let bygones be bygones, og látum kærleikann ráða ríkjum. Og hver haldið þið að nenni því? Ekki kóngurinn. Kóngurinn hefur engan áhuga á kærleika samfélagsins – einmitt vegna þess að samfélagið er rangt. Rangstæða samfélagsins er óskiljanlegur hluti af grunnstillingu tröllsins. Það eina sem samfélagið á skilið er að gráta og öskra. Og þá skrifaði Guðbergur í blöðin: „Svo henti það, sem alltaf gerist, að glæsimennið er ásakað fyrir að hafa farið í óleyfi upp á stelpu og hún heimtar hjónaband eða pening. Áður var hlegið í þorpum að þannig stelpupussulátum en nú er öldin önnur á íslenska menningarlandinu. Þar er komin í spilið viss nunnuvæðing í nútímastíl og meyjarhaftavörn sem kallast femínismi. […] Stundum er engu líkara en kaþólski Rannsóknarrétturinn frá liðnum öldum hafi verið endurvakinn í nútímahjörtum hér á landi.“ Og þegar tröllið gaggar gjóta hænurnar allar í einu. Það er stundum sagt að netheimar logi. En þeir loga ekki, þeir iða, einsog ormagryfjan sem þeir eru. Hrææturnar fara allar af stað, allar með nefið upp í loft af vandlætingu, með skoltana opna í leit að fæðu, taka andköf hver í kapp við aðra og það ískrar í þeim einsog hýenum á móðurspena. Þegar áttræðisafmælið rann upp þagði þjóðin bara. Það var helst að einn og einn forhertur menningarviti minntist fæðingar módernismans í íslenskum skáldskap – meistaraverksins, Tómas Jónsson – metsölubók – fólkið sem hafði beinlínis eignað líf sitt bókunum hans henti í status á Facebook, og hafði á kærleika sínum alla fyrirvara. Hið fullkomna tröll. Kóngurinn.

Bíódagar I

Ég sat í bíó í gær frá 18 til miðnættis. Fyrstu tvær bíómyndirnar voru eins ólíkar hugsast getur en fjölluðu þó báðar um unga gítarleikara sem voru fastir í smábæjum þar sem fábreytni ræður ríkjum. Foreldradauði spilaði stóra rullu og frumsamin tónlist. Og þær enda báðar með því að gítarleikararnir fara til stórborgarinnar með ekkert í farteskinu nema gítar og stóra drauma. Sú fyrri heitir Lunana: Jakuxi í kennslustofunni og fjallar um ungan kennara í Bútan sem er sendur til afskekktasta þorps í Bútan (og hugsanlega veröldinni), Lunana, til þess að kenna börnum. Þessi ungi kennari er trúbador í hjáverkum og dreymir um að flytja til Ástralíu. Hann langar sem sagt ekki að fara Lunana og það fyrsta sem hann ákveður þegar hann kemur – eftir langa rútuferð og sex daga göngutúr upp í fjöll – er að fara aftur til baka til höfuðborgarinnar. En það þarf að hvíla hestana og á meðan þeir eru að hvíla sig binst hann börnunum og svæðinu sterkum tilfinningum. Hann nær ótrúlegum árangri með þau – hann kennir þeim dásemdir vísindanna (lestur og reikning og ensku) og þau kenna honum auðmýkt og að bera virðingu fyrir náttúrunni (þar á meðal jakuxanum sem er komið fyrir í kennslustofunni hans). Á endanum kemur svo að því að hann þarf að fara – eða snjóa inni ella yfir allan veturinn og missa af tækifærinu til að flytja til Ástralíu. Þetta er sennilega eini hluti söguþráðarins sem fer gegn klisjunni, því kennarinn yfirgefur þorpið. Í lokasenunni er hann kominn til Sydney, situr uppi á sviði á pöbb og glamrar eitthvað vestrænt popp. Svo hættir hann skyndilega að spila. Gestirnir þagna. Og kennarinn syngur lag sem hann lærði í fjöllunum og allir eru djúpt hrærðir. The end. Happy FKN Sunshine fjallar um smáþorp í Kanada þar sem allir vinna í sömu sögunarmyllunni. Það er verkfall og lífið er glatað, ömurlegt, allt er viðbjóðslegt og allir eru hrottalegir og fólk notar mikið af eiturlyfjum til að deyfa sig og dreymir um að komast út úr þessu krummaskuði. Aðalsöguhetjan er ungur gítarleikari sem dreymir um að stofna hljómsveit. Sem hann gerir með hópi furðufugla – bassaleikarinn er lygasjúkur, söngvarinn egótískur (leikstjórinn kallaði hann sósíópata í viðtali eftir myndina, sem er kannski svolítið mikið í lagt – en það var allavega ekki alltílagi með hann). Trommarinn er stelpa og foreldrar hennar eru ekki úr verkalýðsstétt, einsog foreldrar hinna. Hún er líka sá karakter sem maður sér minnst til – hún er hálfgerður statisti í myndinni, uppfyllir bara þá rullu að vera ekki af sömu stétt og hinir. Skapar smá kontrast. Fyrirsjáanlega fer þetta allt í handaskolum einmitt þegar útlit er fyrir að draumurinn geti verið að rætast (það er m.a.s. mætt svona Mr. Big týpa til að hlusta á bandið). Myndin endar á því að gítarleikarinn flytur til Toronto og lofar stóru systur sinni (sem er eiturlyfjasali og neytandi) að koma aldrei aftur í þessa skítaholu. Ég þarf kannski ekki að taka fram að þessi saga var eiginlega jafn kunnugleg og sú fyrri. Þótt báðar myndirnar hefðu sinn eigin stíl og legðu sitthvað til þessa ævaforna og margendurtekna smábæjarminnis, þá var þetta fullmikið paint-by-numbers fyrir minn smekk. Þriðja sýning kvöldsins var halarófa. Fyrst var klukkutíma löng heimildarmynd um ítalska smábátasjómenn. Þeir voru mest bara að tala um sjálfa sig og þetta líf og inn á milli voru löng skot af fiskvinnslunni. Þetta var merkilega heillandi og sjómennirnir frábærar týpur – einhvern veginn í senn mjög líkir okkar smábátasjómönnum og ólíkir. Tónlistin – píanó og fiðlur – var hins vegar óbærileg, og sömuleiðis sjómannaljóð leikstjórans sem birtist inn á milli. Svo komu nokkrar stuttmyndir. Best þeirra – og virkilega verulega frábær – var A Brief History of Us eftir Etgar Keret, sem er ekki síður þekktur sem rithöfundur og var meðal annars gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Þetta er teiknimynd sem rekur söguna frá tilurð lífs á jörðinni í gegnum þróun mannsins, ástarinnar og að einsemdinni – í einum samfelldum þræði og á um það bil þremur mínútum. Í dag byrjar dagskráin klukkan fjögur. Ég ætla að taka mér pásu milli átta og tíu til að koma mat í fjölskylduna, en annars sit ég til miðnættis aftur, nema eitthvað komi til.

PIFF

Í dag hefst kvikmyndahátíðin PIFF á Ísafirði. www.piff.is fyrir þá sem hafa áhuga. Ég ætla að reyna að fara á eins margar myndir og ég kemst á. Það er líka ókeypis inn, sem er gurlaður lúxus. Í dag hefst dagskráin klukkan 18, á morgun 16, svo 14 og loks 12 á sunnudag. Og stendur meira og minna til miðnættis alla dagana nema á sunnudag – þá er lokahóf og verðlaunaafhending. Við strákarnir í Gosa eigum að spila þar nokkur lög. Í dag fæ ég líka höfundareintökin mín af Frankensleiki. Þau bíða úti á pósthúsi. Svo kemur hún í búðir eftir viku. Þetta er svolítið einsog að fá að gefa út fyrstu bók aftur – að vera kominn í jólahryllingsbarnabókabransann eftir áratugi af einhverri tilgerð. Loksins frjáls. Svo er líka skólafrí. Foreldraviðtöl í dag. Starfsdagur á morgun. Svo vetrarfrí fram á miðvikudag. Aino er þess utan búin að vera slöpp heima í tvo daga. Það er eiginlega bara spurning hvort hún rati í skólann aftur þegar hún loks snýr aftur.

Hégómi verkalýðsins

Það er algengt viðkvæði þegar ég tala við kollega mína að verkalýðsbaráttan hjá RSÍ sé alltof slök. Gömlu prentbókasamningarnir séu að mörgu leyti lélegir – engin ákvæði um fyrirframgreiðslu (lágmarksfjárfestingu útgefanda í bók) og engin skylda til að fylgja „rammasamningnum“ svo sum forlög láta höfunda sína jafnvel greiða sjálfa fyrir útgáfu. Nýju samningarnir – fyrir rafbækur og hljóðbækur – eru hlægilegir og ég held það séu allir sammála um það. Fólk bara ypptir öxlum og segir að það sé ekkert hægt að gera. Listamannalaunin eru skipulögð þannig að starfsöryggi er ekkert. Og svo framvegis. Ég gæti sjálfur bætt við að helstu hlunnindi félagsins, einsog hundódýrir leikhúsmiðar ef maður kaupir miðann samdægurs, geri landsbyggðarrottu lítið gagn. Og ferðastyrkir félagsins eru bara til kynninga á verkum erlendis. Ég get sem sagt fengið styrk til að fara frá Reykjavík til London eða Kaupmannahafnar en ekki frá Ísafirði til Reykjavíkur og er þó slíkt ferðalag ekki endilega ódýrara. Og ef ég fæ styrkinn til að fara erlendis þarf ég samt að koma mér sjálfur suður – aðrar millilendingar, t.d. í London á leiðinni til Manchester, teljast til „ferðalagsins“. RSÍ er mikið Reykjavíkurfélag. Í rithöfundastétt er líka fólk úr ýmsum „stéttum“ – og með mjög misjafnar tekjur. Alveg frá fólki sem hefur mjög miklar tekjur af bókum sínum yfir í fólk sem sennilega kemur yfirleitt út í mínus. Sumir hafa líka miklar tekjur af einhverju öðru og þurfa ekki velgengni á bókamarkaði til að lifa af. Aðrir hafa engar tekjur af neinu og eru bara í endalausu harki. Sagan segir okkur að það séu ekki endilega ómerkilegustu höfundarnir, vel að merkja. Og þótt það sé lítið starfsöryggi í listamannalaununum (það er einsog að vera með tveggja vikna uppsagnarfrest – og stundum er fólk ekki rekið heldur fært niður í hálf laun eða jafnvel fjórðung) þá er enn minna starfsöryggi án þeirra, eðli málsins samkvæmt. Ég hef oft rætt við kollega mína, sérstaklega meðal yngri ljóðskálda (þegar ég var yngra ljóðskáld sjálfur), um þennan undarlega veruleika þegar manni er boðið á einhverja ótrúlega fína ljóðahátíð einhvers staðar, þar sem allar máltíðir eru gullúðað risotto á Michelinveitingastöðum og áfengið allt dýrasta kampavín – en á milli viðburða á maður kannski varla fyrir kaffibolla ef maður þarf að borga hann sjálfur. Jafnvel fátækustu rithöfundar fá stundum að vera dúkkulísur í húsum hinna auðugu. Ég veit ekki hvort ég er að lýsa sameiginlegum hagsmunum rithöfunda eða ólíkum. Að mörgu leyti er þetta auðvitað ekki heldur nein stétt. Ekki nema í takmörkuðum skilningi. En það er í sjálfu sér áhugavert að þessu verkalýðsfélagi,af öllum, sem er meira og minna mannað af fólki með narsissískar persónutruflanir – fólki sem beinlínis hefur það að atvinnu að láta dýrka sig hömlulaust – sé stýrt af fólki sem getur skilið narsissísku persónutruflanirnar sínar eftir heima.

Nothomb

Lauk við Nafnabókina eftir Amélie Nothomb rétt í þessu. Í þýðingu Guðrúnar Vilmundar. Í sem stystu máli fjallar Nafnabókin um unga stúlku sem ætlar að verða dansmeyja hvað sem það kostar. Ég gæti rakið meira af söguþræðinum fyrir ykkur en það myndi samt ekki skýra þessa bók almennilega út. Ég gæti líka sagt eitthvað um að hún fjalli um þær kröfur sem samfélagið gerir á konur – um feðraveldið (þótt skúrkarnir hér séu reyndar oft konur eru eitruðu gildin oft þau sem eru kennd við feðraveldið – fegurð konunnar, styrkur hennar til að lama sig) en það væri líka ótrúleg einföldun. Kannski fjallar hún um mónómaníu – um það þegar einstrengingslegur sigurvilji í annars ómótaðri stúlku mætir þessum kröfum. Og kannski má túlka forsöguna – söguna af móður dansmeyjarinnar, sem birtist í upphafi og er enn einstrengingslegri og trylltari, en skortir þessar utanaðkomandi kröfur, móðirin vill bara fá frið – á einhvern annan veg. Þar virðist móðirin í aðra röndina ætla að verja dóttur sína fyrir feðraveldinu en kostar hana á sama tíma allt. Og í lokin á bókinni – er ekki óþarfi að setja spoiler alert á svona sundurlausar lýsingar á 20 ára gamalli bók? – lagast allt þegar kjarnafjölskyldan kemur aftur saman. Eða ný myndast – í stað þeirrar sem var tortímt í upphafi. Kannski er þetta miklu „íhaldssamari“ bók en manni virðist í fyrstu. En hún er víst jafn góð bók fyrir það. Ég er allavega „skekinn“. Og niðurstaðan er eftir sem áður alveg rétt: það bjargar manni ekkert nema ástin.

Fagurfræðileg markþjálfun

Fyrir skömmu sá ég einhvers staðar einhvern sem ég ber virðingu fyrir mæla með Alkemistanum eftir Paolo Coelho og í staðinn fyrir að fella viðkomandi af stallinum eða einu sinni lækka stallinn hugsaði ég hvort verið gæti að ég hefði dæmt Coelho of harkalega síðast þegar ég las hann fyrir aldarfjórðungi síðan – þá fannst mér þetta alger fávitalitteratúr. Nú man ég ekki lengur hver þetta var (ég er hræðilega minnislaus, einsog hefur áreiðanlega komið fram hérna – ekki það ég muni slíkt). Ég segi þetta af því fyrsta setning þessarar færslu átti að vera tilvitnun í dóttur mína, sem sagði í gærkvöldi, áður en hún fór að sofa: Í dag var góður dagur. Og svo ætlaði ég að bæta einhverju við um að þetta hefði verið rétt hjá henni – dagurinn var góður, ekki síst hjá okkur tveimur, sem höfðum bakað kirjálapírökur saman og lært að spila Happy Birthday, Johnny með St. Vincent (hún á bassa og ég á kassagítar) – en að maður veitti því sennilega sjaldan eftirtekt. Að maður gleymi að muna góðu dagana, skrásetja hjá sér að þeir hafi verið góðir. En svo fannst mér þetta eitthvað of markþjálfalegt hjá mér, og sjálfshjálparcoelho-eitthvað, og ég bara hætti við og þá mundi ég þetta með Coelho – hver sagði þetta? – og hugsaði að kannski ætti ég bara að segja þetta samt. Því varla er þetta neitt minna satt og ekki geri ég þá kröfu á mína persónulegu dagbók, sem er sama og ekkert lesin, að hún sé róttækar/sínískar bókmenntir? En ef ég geri það ekki, hvers vegna geri ég þá kröfu á bókmenntirnar mínar? Eða geri ég kannski alls ekki þá kröfu – er það bara eitthvað sem ég gerði? Þessu tengt: Stundum finnst mér einsog ég hafi ekki hugsað skýra hugsun svo árum skiptir.

Innidagsmorgunn

Er ekki sagt að einungis andlaust fólk tali um veðrið? Nóg er reyndar af veðurlýsingum í helstu heimsbókmenntum – en þetta er líka samræðuhækja. Nú eru allir að tala um veðrið en veðrið er eiginlega ekki hér. Síðasta haust og fyrripart vetrar gerðist það ítrekað að það herjuðu einhverjar lægðir á landið sem náðu aldrei almennilega vestur. Því eigum við ekki að venjast – ég held hreinlega að sjálfsmynd okkar byggist að töluverðu leyti á því að hér sé veðrið jafnan verst. Og nú er þessi vetur að hefjast með sama takti og sá síðasti. Þá fengum við reyndar ósköpin yfir okkur seinnipart vetrar – storm ofan í storm ofan í storm ofaní bandvitlausa blindhríð. Ekki að veðrið sé neitt spes – ég hef sjálfur haldið innidaginn heilagan þótt aðrir heimilismenn, sem minna mark taka á veðurspá gærdagsins, hafi verið úti á þvælingi.