Geitaostapasta

Af og til er Nadja* sérstaklega ánægð með matinn og þá reyni ég að nótera hjá mér hvað ég hafi gert. Stundum er það jafn einfalt og að vista einhvern hlekk á uppskrift  en ef ég var að kokka upp úr sjálfum mér er allt eins víst að ég gleymi hvað ég gerði. Pastað í kvöld var sérstaklega gott og þess vegna verður uppskriftinni haldið hér til haga – til viðmiðunar í framtíðinni.

250 grömm ferskt tagliatelle
2 stórir hvítlauksgeirar
1-2 msk ólífuolía
1-2 msk smjör
8 íslenskir „tropical“ tómatar (sirka kirsuberjatómatar)
Hálf geitaostalengja (svona með húð er betri)
Sirka hálfur desilítri af hvítvíni
Lítil lúkufylli af ferskri basiliku
Tvö stór egg
Salt og pipar (vel af pipar)

  1. Ég byrjaði á að sneiða hvítlaukinn og steikja í góðri ólífuolíu á lágum hita.
  2. Pipraði vel og saltaði.
  3. Þegar þetta var farið að ilma skar ég tómatana í fernt og setti þá út í – hækkaði hitann smá en gætti þess að brenna ekki hvítlaukinn.
  4. Eftir smástund setti ég smjörið út í og leyfði þessu að malla þar til það var orðið svolítið sósað.
  5. Þá brytjaði ég geitaostinn niður og bætti honum við – lækkaði hitann aftur.
  6. Eftir 2-3 mínútur setti ég hvítvínið út í og hækkaði hitann í augnablik en lækkaði svo aftur.
  7. Hrærði eggin í skál.
  8. Sauð pastað í vel söltu vatni og geymdi líklega hátt í tvo desilítra af vatninu.
  9. Hellti restinni af vatninu af og setti pastað aftur í heitan pottinn.
  10. Bætti eggjunum út í og hrærði vel svo eggið myndi eldast án þess að steikjast og húða pastað.
  11. Setti svo gumsið af pönnunni út í pottinn og saxaða basilikuna þar á eftir.
  12. Vatnið notaði ég til að þynna sósuna. Ég hélt ég myndi í mesta lagi nota 1 dl en ég endaði á að nota það allt. Hún var ekki þurr en næst geymi ég meira.

Með þessu bar ég fram hvítlauksbrauð og aspas sem var jafn lengi í ofninum – kannski 10-15 mínútur. Aspasinn með ólífuolíu, pipar, sítrónu og parmesan.

* Börnin voru sem sagt ekki heima. Annars hefðu þau fengið að borða líka.

Biskup og bylting og ljóð

Biskup Íslands er að koma til Ísafjarðar. Í næstu viku verða liðin hundrað ár frá atburðum Náttúrulögmálanna. Ég reikna með að það sé þess vegna. Og kem ekki nálægt fjallinu fyrren hún er farin.

***

Ég er enginn flokksmaður. Gekk úr vinstri-grænum út af meðferð stjórnvalda – í skjóli flokksins – á hælisleitendum og gekk í sósíalistaflokkinn eftir að hafa lýst því yfir að ég myndi aldrei aftur ganga í stjórnmálaflokk. Gekk svo úr sósíalistaflokknum þegar hæsthafendur þar voru farnir að mæla með nauðungarvistun fólks í sóttkví. En samúð mín er augljóslega vinstramegin í tilverunni – þar sem hjartað slær – og ég vildi helst að hér væri starfhæfur flokkur vinstramegin við Samfylkinguna. Sem er ekki. VG fór til andskotans vegna þess að hún sinnti ekki grasrótinni og var of dugleg við að „axla ábyrgð“ í borgaralegu stjórnmálalandslagi en sósíalistaflokkurinn implóderaði vegna innri átaka. Og mikilmennskubrjálæðis sjálfskipaðra leiðtoga sem virtust farnir að máta sig við styttur framtíðar. Báðir flokkarnir eru „ennþá til“ en varla samt. Þeir eru í senn autt spjald og vel útfyllt – það veit enginn hvernig þeir koma til með að líta út eða fyrir hvað þeir munu standa næst en þeir dragnast með fáránlega fortíð og illafmáanlega stimpla.

***

Tilfinning mín er sú að þegar hallarbyltingar eru framdar í stöndugri stjórnmálaflokkum þá sé oftast talsverð orka lögð í að halda mönnum góðum þegar átökin eru yfirstaðin. Að bera vopn á klæðin. Finna hinum sigruðu hlutverk – þeir sem fá ekki að vera skipstjórar verði stýrimenn. Af því að hverjum frontmanni fylgja margir kjósendur sem fara í burtu. Fylgjendur. Og fylgjendurnir eru flokksstarfið.

Þá hefur flokkurinn sem slíkur líka ábyrgst þá sem hafa verið í forsvari og trúverðugleiki flokksins í framtíð stýrist af trúverðugleika hans í fortíð. Það er meira að segja þannig að trúverðugleiki nýrra hreyfinga róttækra sósíalista er átomatískt í hættu strax frá byrjun – út af öllum hinum róttæku sósíalistahreyfingunum sem hafa klofnað í heift og frekju. Ef stjórnmálaflokkur lýsir því alltíeinu yfir að margir frambjóðendur úr nýafstöðnum kosningum séu í raun og veru algerir afglapar – og alls ekki þær byltingarhetjur sem flokkurinn kallaði þá þá, þá* er kjósandi úti í bæ ólíklegur til að leggja traust sitt á næsta holl af andlitum.

(Þrjú „þá“ í röð. Það er fyrir svona tilþrif sem maður fær listamannalaun).

Þá er heldur ekki gott fyrir trúverðugleika nýrra valdhafa að þeir frambjóðendur sem er boðið að halda áfram – jafnvel kallaðir óskoraðir leiðtogar – ranghvolfi bara augunum og gangi í burtu. Það lítur svolítið út einsog fólk tali ekkert saman og hafi enga tilfinningu hvert fyrir öðru.

Einhvers staðar kemur líka að því að n´ógu margir séu flognir í veg til þess að vafasamt sé að kalla þetta sama flokkinn. Ef 400 heimdellingar ganga í sósíalistaflokkinn og bola nýju valdhöfunum út samkvæmt reglum lýðræðisins á næsta aðalfundi – til þess að hirða styrkinn – er það þá ennþá sósíalistaflokkurinn? Það er allavega ekki það sem fólk kaus – og það eru atkvæðin sem skila þessum styrk.

Það er heldur ekki gott fyrir trúverðugleika fólks sem hefur „betri vinnubrögð“ að slagorði að helmingur þeirra sem hafi unnið með þeim finnist vinnubrögð þeirra bera mark ofríkis og frekju. Og er þá alveg sama hvort maður heitir Gunnar Smári eða Karl Héðinn eða Sólveig Anna (eða hvort manni finnst allir aðrir geðveikir að sjá ekki réttlætið í vinnubrögðunum). Góð og lýðræðisleg vinnubrögð fela í sér ákveðna virðingu fyrir skoðunum þeirra sem maður vinnur með, líka þegar þær fara ekki alveg saman við manns eigin skoðanir – ef nýjum valdhöfum sósíalistaflokksins væri annt um að sýna slíka virðingu hefðu þau gert það frekar en að stefna að hreinni valdatöku og eyða svo næstu dögum í áframhaldandi skærur og brigsl. Sök sér að þeir sem bolað var burt tali beiskum rómi – en eiginlega er beiskjan og frekjan verri hinumegin. Það er mjög undarlegt að fá frekjukast yfir því að hafa fengið allt sem maður óskaði sér.

Og svo er ágætt að hafa það í huga líka að ef maður ætlar að kljúfa stjórnmálaflokk er betra að bitinn sé nógu stór til þess að þola að fara í tvennt. Það getur alveg verið ástæða til þess að fremja hallarbyltingar – þær eru áreiðanlega oft bráðnauðsynlegar – en það verður að vera einhver höll eftir þegar þær eru afstaðnar. Að kljúfa 3% flokk í herðar niður út af reglum um það hvernig er kosið í nefndir og áherslum um það hvort betra sé að eyða sjóðum flokksins í fjölmiðlun eða félagsfundi – no es bueno.

***

Kanadíska ljóðskáldið Paul Dutton lést í morgun – ríflega áttræður. Dutton er goðsögn í framúrstefnuljóðaheiminum. Hann var meðal annars meðlimur í hljóðljóðasveitinni The Four Horsemen, ásamt bpNichol, Steve McCaffery og Rafael Barreto-Rivera. Og gaf út fjöldann allan af tilraunabókmenntum, bæði prósa og ljóðum. Hann var líka einn af þessum mönnum sem inspíreruðu margar kynsl´óðir með (kvabbgjarnri) hlýju sinni, húmor og einurð.

Einsog einhverjir kannski muna átti ég mér einu sinni svolítinn feril sem hljóðljóðaskáld og ferðaðist mikið til þess að koma fram hér og þar. Þegar Aram Nói var lítill og spurður við hvað pabbi hans ynni sagði hann „pabbi öskrar á fólk“ og það var ekki alveg úr lausu lofti gripið.

Nema hvað. Árið 2007 var mér boðið á Scream-hátíðina í Toronto – þar sem var nú almennt ekkert mikið öskrað, þetta var bara ljóðahátíð þótt hún héti þessu nafni – á viðburð sem Angela Rawlings skipulagði. Þar var hefð fyrir því að para fólk saman í upplestrum og Angela paraði mig saman við Paul og við komum þar saman fram. Sá viðburður tókst svo vel að okkur var boðið að koma aftur árið eftir og endurtaka leikinn á stóra sviðinu – en lokadagur Scream fór alltaf fram á Shakespeare sviðinu í High Park fyrir framan ríflega þúsund gesti sem sátu og hlustuðu á ljóð og drukku vín frá því um eftirmiðdaginn og langt fram í myrkur. Það var mjög gaman og ótrúlegur heiður – Paul var ein af hetjunum mínum, að fá að lesa með honum var feykinóg en að við næðum svona vel saman og það gengi upp var hreinlega ölvandi.

Sterkasta minningin frá þessu er samt ekki frá uppákomunum heldur þegar við eyddum hálfum degi í að æfa saman í íbúð Angelu, þar sem ég gisti, í Kensington Market. Kensington Market er rosalega líflegt hverfi og það var stanslaust reggea-dub á blasti hjá rakaranum á neðri hæðinni – kryddmarkaðir og grillstaðir fyrir utan með tilheyrandi ilmum og steikjandi hiti – við þarna inni fyrir framan risastóra og háværa loftkælingu að garga ljóð hver á annan og drekka vatn í lítravís svo það liði ekki yfir okkur.

Mikilmenni er gengið – lengi lifi minniningin!

Sen – og listin að lifa af hálfum bjór

Það er eiginlega bráðfyndið að fá bæði bókasafnssjóð og forlagsuppgjör í sömu vikunni. Bókasafnssjóðurinn var skorinn niður um 21% – sem þýðir 21% skerðing á tekjum fyrir útlán (þetta er eitthvað sem fjármálaráðherra ákveður bara með einu pennastriki og gerir held ég á hverju ári – það er engin regla og ekkert öryggi) og svo eru Storytel tölurnar í forlagsuppgjörinu.

Ég á eina ljóðabók á Storytel sem heitir Hnefi eða vitstola orð – bók sem var ort í hruninu miðju og fjallar meðal annars um verðlausa peninga, í stað blaðsíðutals er gengi krónunnar gagnvart evru (ég bjó í Finnlandi en var með tekjur í krónum). Frábær bók – mæli með henni. Hún var ekki spiluð oft í fyrra – átta sinnum. Og það seldust jafn mörg fýsísk eintök í bókabúðum, átta. Hún er 12 ára gömul og selst væntanlega mest á stóru bókaútsölunni og þar sem ég fæ bara hlutfall af því verði frekar en fast gjald nær það ekki hundrað kalli sem ég fæ fyrir eintakið. En á Storytel fæ ég 2,8 krónur á spilun. 23 krónur ALLS. Og það er ekki á afsláttarmarkaði og maður fær þar jafn mikið fyrir nýjar bækur og gamlar. Til að setja það í samhengi er klassísk – og ágæt – sala á ljóðabók í kringum 300 eintök. Ef sú sala færðist öll yfir á Storytel myndi ég hala inn 840 krónum í höfundalaun. Í gamla daga þegar maður þvældist frá knæpu til kráar með bækur í poka var manni stundum boðinn bjór fyrir bók – sem var yfirleitt kannski hálfrarbókarverð – en maður var blankur og langaði í bjór og þáði það yfirleitt þótt manni þætti það pínu niðurlægjandi. Nú er allt upplagið komið niður í hálfan bjór.

Einu sinni kom ég að kunningja mínum þar sem hann sat yfir hálfum bjór á þriðjudagsmorgni. Ég spurði hvort hann væri dottinn í dagdrykkju og hann svaraði að annar maður – ívið drykkfelldari en við – ætti bjórinn en væri farinn. Hvert er hann farinn, spurði ég. Í meðferð, var svarið. Hann sagði að þetta væri komið gott.

Nú hugsa ég það sama. Þetta er kannski komið gott.

***

Ég hló að inngangi Jónasar Sen um Carmina Burana. Um kórastarfið. Það minnti mig kannski á stemninguna úr Fiðlaranum í fyrra. Það þarf alveg sérstakt verklag og undarlega blöndu af aga og kæruleysi til þess að halda úti svona stórum hópi í áhugamennsku. Og það verður alltaf léttgeggjað. Ég var líka næstum búinn að senda þetta á konuna mína með broskalli – hún er í kvennakórnum og var nýkomin úr kórdjammtónleikaferðalagi. Og ég hef heyrt frá a.m.k. einhverjum úr þeim kór sem fannst þetta líka fyndin lýsing.

En kannski er bara ekki lengur í tísku að hafa húmor fyrir sjálfum sér? Á einhverju bili áhugamennsku og fagmennsku hlýtur fólk líka að taka sig mest alvarlega – það fylgir kannski bara. Þar sem maður er að slíta sér út og reyna að sanna sig. Viss tegund áhugamennsku er á því leveli að manni dugar að koma fólki á óvart – „ekki vissi ég að hann gæti haldið lagi.“ En önnur er að reyna að gera sig gildandi á einhverju æðra stigi. Og þá er spurning hvort maður vilji að gagnrýnandi hanteri kórinn einsog hann væri kór atvinnumanna eða kór áhugamanna.

Svo er þetta reyndar tvennt aðskilið. Dómurinn og inngangurinn. Og kannski var kerskninni í innganginum verr tekið vegna þess að dómurinn var ekki mjög jákvæður.

Ég er með veika kenningu sem gengur út á að það sé erfiðara að vera gagnrýnandi eftir því sem maður þarf að gagnrýna fleira fólk í einu. Ef þú skrifar neikvæða ljóðabókagagnrýni verður ljóðskáldið sárt –og kannski mamma háns. En ef þú skrifar t.d. um leiksýningu þar sem 30 manns koma að siturðu uppi með heilan her af fólki sem fer saman á barinn til að baktala þig og æsir hvert annað upp. Og ef þú hefur þetta að atvinnu þarftu ekki að vera óánægður með nema eina sýningu á ári til þess að fólki finnist þú vera alger sadisti. Fólk sér nefnilega ofsjónum yfir ærlegri neikvæðni.

Ég bað einu sinni hóp af fólki að skjóta á hlutfall neikvæðra dóma á Starafugli – sem hafði fengið á sig orð fyrir að vera mikið í slátrunum. Flestir skutu á sirka helming, fáir fóru undir þriðjung. Staðreyndin var að það náði ekki fimm prósentum. En fólk les frekar neikvæða dóma – og kannski var helmingurinn af lestrinum á neikvæðu dómunum.

Kenningin hefur samt tvo veika punkta. Annars vegar þá eiga ljóðskáld stundum vini og stundum ekki. Ég hef horft upp á gagnrýnendur fá yfir sig ægilegar holskeflur vegna ljóðabókadóma af því ljóðskáldin voru vinamargar týpur eða fólk sem kallar fram einhverja tegund af samstöðu og kærleika (fólkið sem „gengur inn í herbergi og lýsir það upp“ – en er ekki endilega betri ljóðskáld en þeir sem gera það ekki). Og ég hef horft upp á ljóðabókum slátrað í fullkominni kyrrþey – sem er eiginlega bara mjög sorglegt. Þetta varnarviðbragð reiðra vina er kannski líka fallegt og kannski líka hluti af lífkerfinu – þótt það geri gagnrýnendum oft erfitt fyrir.

Sem ritstjóri Starafugls fékk ég mikið af skilaboðum frá fólki sem vildi ekki skrifa lengur af því tilfinningalega álagið af því að hafa dissað eitthvað var of mikið – fólk (segjum það bara: milleníalar) lenti í einhverjum vítahring samviskubits og gremju eftir atlögur netleiðis frá reiðum stuðningsmönnum ljóðskálda. Og ákvað að fara bara að sinna einhverju öðru. Krísa gagnrýni á síðustu árum – sífellt færri fagmenn, sífellt verr borgað, sífellt færri almennilegir staðir til birtingar – er nefnilega líka krísa áhugans á því að gagnrýna. Og það er bara að verða mjög algeng afstaða að þetta sé ekki til neins – hvers vegna ætti einhver karl úti í bæ að hafa skoðun á skáldsögu/kvikmynd/skúlptúr? Kemur einhverjum við hvað honum finnst og er verið að segja að skoðun hans sé merkilegri en skoðun mín – sem las sömu bók, sá sömu kvikmynd og sama skúlptúr? Eru ekki bara allar upplifanir jafnar? Og þessa hugsun spegla gagnrýnendur líka oft sjálfir – bæði með því að hætta og með yfirdrifinni auðmýkt gagnvart eigin skoðunum (ég hef líka oft hitt fólk sem hefur gagnrýnt eitthvað listaverk og það komið mér á óvart hvað þeim fannst í raun og veru – og hvernig þau breiddu yfir það með því sem sumir kalla kurteisi og fagmennsku).

Hinn veiki punkturinn í kenningunni er að þeir gagnrýnendur þjóðarinnar sem mér koma til hugar og hafa helst leyft sér að vera með … hvað eigum við að kalla það, snúð, miklar listrænar kröfur, skæting? – eru flestir að sinna mannmörgu listgreinunum, stórsveitartónlist og leiklist. Og að minni reynslu er það líka fólkið í þeim bransa sem er mótfallnast gagnrýni sem slíkri. Ég þekki leikhúsfólk sem vill hreinlega láta banna gagnrýnendur í húsi – ef ekki bara brenna á báli – en öll ljóðskáldin sem ég þekki þyrstir í gagnrýni (og það var ekki öðruvísi upp úr aldamótum þegar neikvæðir bókadómar voru algengari).

Rassgat á floti

Á dögunum sat ég einn á kaffihúsi. Á næsta borði voru tvær konur með ungbarn. Lattémamma og vinkona hennar sem var að sjá barnið í fyrsta skipti. „Hann er algert rassgat,“ sagði vinkonan um ungbarnið. Og ég hugsaði: Er þetta ekki svolítið eitraður talsmáti? Af hverju þarf hún að líkja barninu við sóðalegasta op líkamans? Það er ekkert við ungbörn – og alls ekki þetta ungbarn – sem kallar á svona talsmáta. Ungbörn eru einmitt yfirleitt sérstaklega hrein, einhvern veginn – meira að segja það sem kemur út um „rassgatið“ á þeim sjálfum er undarlega hreint. Ég bjóst við að nú yrði uppi fótur og fit en mér til furðu virtist lattémamman alls ekki taka þetta nærri sér. Og raunar þvert á móti. „Ég veit!“ hrópaði hún upp yfir sig. Og hló. Það vantaði bara að hún þakkaði vinkonu sinni fyrir þessa hárfínu en nákvæmu greiningu á barninu hennar. Hvað er ég eiginlega að hlusta á? hugsaði ég ´a næsta borði. Eru mæður orðnar svo uppteknar af instagramfullkomnuninni að minnsti „galli“ á börnum þeirra verði til þess að þær taki undir með ljótustu svívirðingum vina sinna í þeirra garð – svona einsog þær hefðu óvart keypt ólögulega peysu á Shein! Eða klúðrað góðri myndlíkingu. Ég gat vel að merkja ekki séð neinn galla á þessu barni, það virtist alveg jafn fullkomið og önnur ungbörn, en eitthvað hlýtur að hafa kallað fram þessi viðbrögð. Kannski var það með asnalegan fæðingarblett, sem ég gat ekki séð (þótt ég væri nú reyndar farinn að teygja höfuðið svolítið) – en jafnvel þó svo væri! Halló!

Mér varð svo aftur hugsað til þessa þegar ég las frétt í DV um hlaðvarpsstjórnanda sem hafði orðið fyrir svipaðri reynslu nema hann sat nærri hópi karla sem kölluðu hver annan aumingja og viðhöfðu alls kyns vægast sagt óvinalegar svívirðingar hver í garð annars. Mikið er, hugsaði ég, að einhver er farinn að taka tungumálið alvarlega. Mikið er að einhver skilur að orðin sem við beitum hafa bókstaflega merkingu sem má fletta upp í orðabók og samskipti fólks eru ekki einhver „leikur“ þar sem hægt er að skýla sér á bakvið að maður hafi meint eitthvað annað en maður sagði BÓKSTAFLEGA.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar, segi ég nú bara. Kurteisi kostar ekkert.

***

Í algerlega ótengdum fréttum held ég að þessi þjóð mætti alveg við því að verða læsari á texta – talaðan og ritaðan.

***

Fyrir mjög löngu síðan kenndi ég stórkostlegum ungum manni ritlist. Þessi maður var með einhverja greiningu sem var útskýrð fyrir mér þá en ég gæti ekki haft eftir núna. En hún birtist meðal annars með þeim hætti í skrifum hans að hann átti gríðarlega erfitt með að segja ósatt og gat eiginlega ekki skilið á milli þess að ljúga og að skálda. Til að byrja með skilaði hann bara inn verkefnum sem voru sannsöguleg – það er sannarlega alltílagi, mörg bestu skáld heimsins ljúga aldrei (viljandi). En eina vikuna bað ég hann sérstaklega að gera tilraun til þess að segja upplogna sögu – búðu til persónur, sagði ég, sem eru ekki til, og láttu þær gera eitthvað, það þarf ekki að vera merkilegt. Viku síðar fékk ég þannig sögu – mjög einfalda sögu um karl og kerlingu í koti sínu nema hver einasta setning innihélt einhvers konar fyrirvara. „Karl og kerling bjuggu í koti sínu nema það var ekki til í alvöru, bara hérna í sögunni. Þau áttu son sem var ekki heldur til en ég bý hann til hérna af því Eiríkur sagði mér að gera það.“ Og svo framvegis. Þetta var alveg dásamlegur texti og til marks um það hvað hömlur geta verið skapandi – hvernig þær geta þvingað okkur til þess að gera eitthvað virkilega frumlegt. Og þegar þær eru okkur jafn eðlislægar og þessar hömlur þessa manns þá eru þær líka nánast hjartskerandi einlægar.

***

Gosi er búinn að gefa út plötuna Á floti. Í dag sem sagt – á streymisveitum og vínyl. Gosi er fyrst og fremst Andri Pétur Þrastarson en stundum miklu fleira fólk og í hljómsveitaruppstillingu erum við Baldur Páll Hólmgeirsson sennilega algengustu meðlimirnir. Við spilum í tveimur lögum á plötunni – Anda Klaka og Hafið – en kunnum þau orðið öll og ætlum að spila þau með fleirum (allavega Söru Hrund Signýjardóttur og Ástu Kristínu Pjetursdóttur og Mörtu Sif Ólafsdóttur) þann 29. þessa mánaðar í Edinborgarhúsinu.

Smellið hér til að hlusta hjá sænsku arðránsmafíunni.

Hvítur reykur

Það er kominn hvítur reykur. Þegar þetta er skrifað er samt ekki vitað hver verður nýr páfi. Svíar þykjast líklegir til sigurs – og gætu þar með unnið bæði Páfagarð og Eurovision sömu vikuna. Eurovisionlagið – Bara bada bastu – er samt eiginlega næstum finnskt. Ég hef ekki heyrt það – hef varla heyrt Væblagið.

Ekki langar mig í kreddur kaþólsku kirkjunnar. En það er ekki laust við að ég öfundi fólki af andlegri sannfæringu. Og að traustar stofnanir vekji með manni aðdáun á upplausnaröld – a.m.k. þegar upplausnin er mestanpartinn fasísk.

* * *

Fagurbókmenntir eru að víkja fyrir léttmeti. Lestur er að víkja fyrir hlustun. Íslenskan er að víkja fyrir ensku. Skáldsagan að víkja fyrir sjónvarpinu. Ritlistin að víkja fyrir gervigreindinni. Og það er allt útlit fyrir að lærdómi verði útvistað til hennar líka – á svipaðan hátt og upplýsingum var útvistað til internetsins. Það er að segja, lærdómur hættir ekki að vera til frekar en upplýsingar eða upplýsingamiðlun, heldur leysist hann upp og við firrumst honum – í marxíska skilningnum – einsog maður firrist öllu verki við að beita stórtæku verkfæri, einsog það er ekki það sama að smíða borð með höndum og smíða borð með mannlausri verksmiðju. Að ýta á takka og fá borð. Að ýta á takka og fá ritgerð. Ýta á takka og fá skáldsögu.

Hvaða tilgangi þjóna þá listrænar bókmenntir? Eru þær einhvers konar viðnám? Rými þar sem annars konar veruleiki, lærdómur, upplifun getur átt sér stað? Eða eru þær bara lútuleikur á öld tölvunnar? Eða bæði?

Á öld sjálfsins og representasjónarinnar – fulltrúunar – er kannski ekkert eðlilegra en að við fáum öll klæðskerasniðnar sögur um okkar eigin sjálf. Mamma mín hefur skrifað þannig sögur fyrir barnabörnin sín öll – með myndum, þar sem þau geta séð sig sjálf í bókum. Það er fjarska fallegur gjörningur. Ég er ekki viss um að það verði jafn fallegt á stórum skala.

Annars væri áhugaverð spurning – fyrir Black Mirror höfunda, ef engan annan – hvort fólk myndi heldur vilja skáldsögur um sig og sín vandamál eða fantasíur? „Skrifaðu 300 blaðsíðna sögu um hálffimmtugan tveggja barna föður á Ísafirði sem er að æfa fyrir maraþon og er alltaf að slíta á sér kálfavöðvana“ vs „Skrifaðu 300 blaðsíðna sögu um hálffimmtugan geimriddara í fjarlægu sólkerfi sem sigrast á geimfasískum öflum“. Hefðbundið hlutverk sagna er að gera þetta tvennt – stundum bæði í einu. Að veita einhvers konar fulltrúun – sem getur verið að segja sögur þeirra sem fá annars ekki sagðar um sig sögur, en líka að greina og ræða vandamál einstaklinga og hópa í tilteknum (sögulegum) aðstæðum – og hjálpa okkur að stíga út úr kvíðvænlegum raunveruleika. Sem er ekki bara að veita skemmtun, en er líka að veita skemmtun (listrænar skáldsögur eiga líka að veita skemmtun; léttmeti þarf ekki að veita neitt umfram skemmtun).

En svo stendur sagnamennska ekki og fellur með bókmenntum. Þörfin til þess að segja og heyra sögur er ´óháð miðli og gæti reynst óháð því hvort sögurnar eru sagðar af mönnum eða vélum. Það á eftir að koma í ljós.

Það sem helst kemur í veg fyrir að klæðskerasniðnar og persónulegar sögur taki yfir „bókamarkaðinn“ er þörf okkar til þess að upplifa sameiginlegan veruleika – til þess að ræða Dallasþáttinn frá því í gær eða bókina efst á vinsældalistanum. Og það sem ver höfundinn fyrir gervigreindinni er einfaldlega seleb-kúltúr – enda eiga frægustu höfundar samtímans það allir sameiginlegt að vera á einn veg eða annan fjölmiðlavænir. M.a.s. þeir sem spila Pynchonleikinn vekja áhuga fyrir að vera dularfullir og lítt gefnir fyrir að fara í viðtöl. Það er líka múv – þótt það sé áreiðanlega útgefandans/agentsins að gera það áhugavert. En við viljum að höfundurinn sé „persóna“.

Annars er alveg líka spurning hversu mikið maður eigi að vera að velta þessum dauða fyrir sér – því er eins farið um dauða bókmenntanna og dauða manns sjálfs að hann kemur þegar hann kemur og ef maður eyðir tíma sínum í að hafa áhyggjur af honum er allt eins líklegt að maður missi af því sem skipti máli: lífinu.

* * *

Nýr páfi er: Robert Prevost. Leó fjórtándi.

Þú last það fyrst hér.

Hey, hey; maí, maí

Það er fyrsti maí. Apríl búinn. Svo ég tíðfæri frægt ljóð eftir Andra Snæ. Svona fer tíminn með bókmenntirnar. Það ætti kannski einhver að skrifa bók um það.

Ég stend mig stundum að því að íhuga hvort ég meini vel. Ég veit ekki hvers vegna það blasir ekki við. Kannski vegna þess að ég tel að maður sé alltaf að einhverju leyti líka fórnarlamb fleiri hvata. Eða fýsna. Ég finn alveg að það er eitthvað innra með mér sem glennir upp augun af spenningi þegar allt fer til andskotans. Sem hrópar jei! þegar Trump er kosinn forseti. Af hreinum og klárum leiða, býst ég við. Megirðu lifa áhugaverða tíma – var ekki kjaftæði að það sé kínversk bölvun? Las ég það ekki einhvers staðar? En það er allavega áhugaverð spurning hvort maður vilji eða vilji ekki lifa áhugaverða tíma. Og hvort áhugaverðir tímar séu nokkurn tíma trámalausir. Ég er að horfa á Say Nothing og stend mig að því að halda stundum með IRA. Eða allavega Dolours. Og þegar einhver er á flótta undan löggunni vona ég að viðkomandi komist undan. Samt veit ég að þau hafa kannski verið að sprengja fullt af saklausu fólki í loft upp. Myndi nokkur hugsa svona, sem meinti vel? Kannski er það þess vegna sem ég efast.

En sennilega vill maður nú samt bara lifa svona mátulega áhugaverða tíma. Það er gaman í rússíbönum alveg þar til vagnarnir fara að þeytast af teinunum á fullri ferð.

Svo er spurning hvað það er sem gildir. Að meina vel við enda dags. Þegar er allt kemur til alls. Eða hvort maður þurfi að meina vel í hverju skrefi, hverja sekúndu, hverri hugsun. Og hvort maður eigi að refsa sér – með skömm, ef ekki öðru – fyrir allar ljótar hugsanir. Sekúndubrotin sem maður brýtur af sér.

En kannski er það líka vegna þess að ég kæri mig illa um að láta segja mér hvað mér eigi að finnast um hitt og þetta. Eða að ég megi ekki efast um hitt og þetta. Megi ekki einlæglega krefjast þess að ég sé sannfærður með rökum frekar en siðferðislegu skylduboði. Ég held ég hafi nú samt mannúð og jöfnuð og virðingu að leiðarljósi og niðurstöðurnar séu eftir því.

Ætli það sé til fólk sem hugsar aldrei ljótt? Það er víst stutt frá hugsun að gjörðum líka svo maður ætti i sj´álfu sér að gæta sín að því hvað maður hugsar. Jafnvel þótt það sé smátt.

Annars hugsaði ég ekkert lj´ótt í dag. Ég veit ekki hvers vegna ég er að spá í þessu. Ég fór í ræktina og vinnuna og kröfugöngu og horfði á son minn spila með lúðrasveitinni og konuna mína syngja í kvennakórnum og hlustaði á ræður og skemmtiatriði og borðaði kökur í Guðmundarbúð og spjallaði við kanadískan rithöfund um sköpunargáfuna og gerði tómatsúpu í kvöldmat og æfði mig á kontrabassann og á eftir ætla ég í ókeypis bíó í boði verkalýðsfélagsins. Þetta var góður dagur, fullur af fallegum hugsunum.

Bamm

Ráðherra vill að leigubílstjórar tali íslensku. Er fyrirsögn í einhverju blaðanna sem ég sá áðan. Mér finnst svo sem ástæða til þess að fólk sem stundar þjónustustörf á Íslandi geri það á íslensku, einsog það ræður við. Mér finnst ekkert óeðlilegt að gerð sé krafa um það. En er ekki dálítið skrítið að setja lög um það?

Síðast þegar ég var í Reykjavík þurfti ég sjálfur að stimpla götuheitið inn í google maps leigubílstjórans af því hann skildi ekki hvað ég var að segja – altso götuheitið. Og rataði auðvitað ekkert sjálfur. Mér varð hugsað til skáldsögunnar The Book of Dave eftir Will Self sem fjallar um leigubílstjóra í London fyrir tilkomu gps-tækja (a.m.k. í hverjum vasa). Og prófsins sem allir leigubílstjórar þurftu að taka. The Knowledge, var það kallað, Þekkingin – og var nánast guðleg að stærð. Að rata um London. Hugsa sér. En þeir þurftu auðvitað ekki að gera það á íslensku.

Vill ráðherra að rithöfundar tali íslensku? Ég hjó eftir því að dagskrá Bókmenntahátíðar var sem fyrr öll á ensku. Meira að segja pöbbkvissið. Þó gat ég ekki séð að þar væru neinir íslenskir rithöfundar að tala hver við annan á ensku einsog hefur gerst og er mjög lúðalegt. Í ár voru einfaldlega engir viðburðir nema með erlendum gestum. Upplestrar fóru reyndar fram á móðurmáli höfunda. Þetta er held ég af því að Bókmenntahátíð í Reykjavík er í raun eins konar sölumessa. Stór hluti gesta eru erlendir útgefendur. Erlendu höfundarnir presentera sig fyrir íslenskum lesendum – sumir með bók á málinu, aðrir ekki – og íslensku höfundarnir presentera sig fyrir erlendum útgefendum. Það skýtur þannig skökku við að á meðan mér finnst lúðalegt að hátíðin fari fram á ensku þá saknaði ég þess líka að vera ekki boðinn – ég vildi líka fá að kynna mig fyrir erlendum útgefendum. Meðal annars vegna þess að mér gengur bölvanlega að koma Náttúrulögmálunum út á öðrum málum. Ég átti erindi í ár. Hefði getað selt mig! Að vísu myndi bókmenntahátíð kannski ekki hjálpa þar mikið til af því staðreyndin er einfaldlega sú að útgefendur eru mjög hikandi gagnvart löngum bókum. Og hún verður ekkert styttri við að ég fái að tala um hana á ensku í Iðnó. Og ég er líka hræðilegur networker – er feiminn og kem illa fyrir og segi bara vitlausa hluti eða ekkert (ég skrifa af því ég kann ekki að tala). En af því það var ekki í boði að koma og kynna sig þá finnst mér endilega einsog það hefði auðvitað gert herslumuninn.

Er dagskrá Iceland Noir öll á ensku líka? Það er eina hátíðin (í heiminum) sem ég hef beðið um að fá að taka þátt í – og eina sem hefur synjað mér. Að minnsta kosti persónulega. Bókmenntahátíð á Flateyri, sem skartaði þónokkrum erlendum höfundum, var á íslensku alls staðar þar sem það gekk – sem var langoftast. Um aðrar alþjóðlegar bókmenntahátíðir á þessu landi er víst ekki að ræða. Svo ég viti.

Stundum hugsa ég að það væri ágætt að hafa einhvern vettvang þar sem íslenskir rithöfundar gætu mæst án þess að vera í jólabókaflóðsgírnum eða réttindasölugírnum. Kannski er það bókaballið? Ég hef bara einu sinni farið á það – 2011 var mér boðið að lesa ljóð á hátíðinni. Man eftir útlenskum höfundi sem öllum fannst voða fyndið að væri að klípa í allar konurnar á dansgólfinu. Þetta var fyrir metoo og ég man ekki hver höfundurinn var og sá þetta ekki – stóð úti og reykti bróðurpartinn af kvöldinu og fylgdist með konunum koma út, krossa sig og segja „hann er rosalegur þessi maður!“ Og svo var hlegið. Fílingurinn var svolítið einsog á góðu sveitaballi.

Mér var reyndar – svo því sé haldið til haga – boðið að spila í bókabandinu. Sem hefði verið geðveikt. En ég hefði þurft að koma í bæinn á þriðjudag eftir páska til að æfa og það bara gekk ekki.

Kannski finnst mér bara svolítið billegt að ætlast til þess að leigubílstjórar tali íslensku og hía á forsetann fyrir að segja „pope Francis“ ef maður getur svona auðveldlega gert hana að aukaatriði sjálfur. Og kannski myndi það gera heilmikið fyrir tungumálið ef við myndum temja okkur að nota túlka meira – einsog er gert mjög víða. Okkur vantar fagstétt af túlkum – og hún verður ekki til nema einhver skapi störfin.

p.s. Það kemur áreiðanlega ekkert um Lestrygónakaflann í Ulysses fyrren í næstu viku.

Varðturninn

Woke er ekki hugmyndafræði heldur heiti á tilhneigingu. Hnjóðsyrði, fyrst og fremst, til þess að hafa um hina skinhelgu. Þá sem eru stöðugt að leita að misfellum í hegðun náungans. Þá sem eru með prótókol og siðferðislega fágun á heilanum. Hnjóðsyrðið þjónar þeim tilgangi að tjá gremju yfir því að við sem þjóðfélag séum of æst í að dæma rangstæðu hvert á annað. Réttlætanlega gremju, finnst mér, því þótt ég myndi áreiðanlega sjálfur mælast frekar hátt á wokeskalanum í hvaða skoðanakönnun sem er, þá finnst mér þetta oft verða óþolandi lögguleikur.

Mörgum finnst að þeir geti ekki „verið þeir sjálfir“ innanum hina skinhelgu – ekki vegna þess að þeir þurfi stöðugt að vera að segja einhverja rasistabrandara heldur vegna þess að maður verður (eðlilega) svo sjálfsmeðvitaður þegar manni finnst að fólkið í kringum mann sé í lögguleik, verður hræddur um að stíga á línur sem einhver annar hefur teiknað, sem maður veit ekki nákvæmlega hvar liggja fyrren það er búið að flauta (og einsog gildir um rangstæðuregluna færist línan líka stöðugt til í leiknum eftir því hvar hinir leikmennirnir eru staddir). Maður veit að það hefur enga þýðingu að „hafa meint vel“ og það skiptir engu máli hver bakgrunnur manns er – hversu læs maður er á þessa prótokolla, hversu vanur maður er. Það er brot í sjálfu sér að kunna þá ekki.

Skinhelgin er síðan líka óþægileg vegna þess að við vitum öll að hin skinhelgu eru ekki syndlaus sjálf (engin er syndlaus; en þau eru heldur ekki syndlausari en aðrir). Hin skinhelgustu reynast meira að segja stundum vera svona upptekin af eigin skinhelgi einmitt vegna þess að þau eru að breiða yfir eitthvað ljótt í eigin fari. Þau eru að tryggja stöðu sína í hjörðinni – markera sér stað með „góða fólkinu“ vegna þess að þau óttast að verða útlæg ger. Og stundum eru þau að vinna yfirbót – svona einsog manni gæti dottið í hug að ganga í klaustur af því maður gerði eitthvað ljótt, og endað svo í heiftúðugu og fanatísku stríði við syndina í fari annarra. Með reyr og belti.

Þetta er að mörgu leyti skiljanleg og jafnvel nauðsynleg hegðun í hjörð. Að hjörðin setji sér reglur um rétta framkomu og einstaklingarnir framfylgi þeim með skömm og jafnvel útskúfun. En dómharka og fyrirgefningarleysi á samt ekki að vera dyggð og skömm er ekki gagnlegt stjórntæki til lengdar. Ekki heldur þegar hún birtist okkur í nafni kærleikans.

Að því sögðu finnst mér rétt að taka fram að mannréttindabarátta sem er ekki líka transréttindabarátta er ekki neitt sem maður ætti að taka mark á. Og mannréttindabarátta sem gerir í því að skilja transréttindi – eða önnur réttindi minnihlutahópa – útundan er belgingsleg minnimáttarkennd sem á heima á bekkjum sálfræðinga en ekki pistladálkum dagblaðanna.

Því má svo líka alveg halda því til haga að mannréttindabarátta getur verið frekari á athygli en hin efnahagslega barátta og það getur alveg verið ástæða til þess að markera henni tiltekið pláss innan t.d. verkalýðshreyfingarinnar, svo hún taki ekki yfir þá mikilvægu baráttu heldur styðji hana frekar. Við sjáum að fjölmiðlar veita mannréttindabaráttu meiri athygli en stéttabaráttu – það er meira krassandi að skrifa um einhvern sem var laminn fyrir það hver hann er en allt það fólk sem þarf að lifa af smánarlaunum eða bótum. Bæði er allrar athygli vert, bæði eru systemísk vandamál sem þarf að leysa – en annað er frétt vegna þess að það brýtur á velsæmishugmyndum okkar flestra og hitt er veruleiki sem við virðumst hafa sætt okkur við. Það er hægt að halda hundrað ráðstefnur um launamun kynjanna – sem er mannréttindamál – en það eru engar ráðstefnur haldnar um launamun stéttanna. Fyrirtæki, smá og stór, eyða peningum í að vera (og sýnast) græn og feminísk og hossa sér fyrir að veita fólki af ólíkum bakgrunni tækifæri – en það þætti hálfgert brjálæði að reyna að jafna laun skúringakonunnar og forstjórans (og reyndar ímynda ég mér að mörg þeirra fyrirtækja sem hafa jafnlaunavottað sig hafi meðal annars gert það með því að „útvista“ skúringunum – skítadjobbin, sem eru oft kvennastörf, tilheyra öðrum fyrirtækjum).

Við þær aðstæður skil ég að hin frjálslynda skinhelgi fari í taugarnar á þeim sem standa í því stappi að reyna að hífa upp laun skúringakvenna. Afsakið, skúringastarfsfólks.

Þreytan er raunveruleg

Þreytan er raunveruleg og þreytan er djúp. Síðasta vika var rosaleg.

Aino kom heim á miðvikudag. Hún hafði verið á sundm´óti í Ungverjalandi og orðið 12 ára í ferðinni. Á pálmasunnudag. Fyrsta mál á dagskrá var að fagna því með pompi og prakt. Út að borða og svo morgunmatur og gjafir að morgni skírdags.

Sama dag lék Aram á tónleikum við setningu Skíðavikunnar. Fyrst sem trommari Lúðrasveitar tónlistarskólans og síðan sem trommari og söngvari í bílskúrsbandinu Ulla (ekki nefnd eftir sænskum konum, heldur sögninni – sem mér skilst að sé bara til á íslensku). Þau eru botnlausir snillingar, með skemmtilegra fólkið og hafa leikið nokkrum sinnum áður koverlög en voru nú í fyrsta sinn með eitt frumsamið á prógraminu. Og stóðu sig ótrúlega vel – þótt það hafi verið afar kalt í veðri (sem kallaði á stillingarvesen) og hljóðkerfið hafi verið með ákveðin leiðindi. Og sérstaklega var frumsamda lagið gott.

Á skírdag var generalprufa hjá Gosa. Vinkona Arams kom líka í heimsókn að sunnan og við fengum af því tilefni unglingastóð í kvöldmat. Já og samdægurs birtust vinir mínir Jóel og Michael (sem ég var reyndar að kynnast þar) óvænt í kaffi.

Á föstudaginn langa byrjaði Aldrei fór ég suður. Þar naut ég þeirra forréttinda að fá að spila á bassa með Gosa og gosalýðnum – sem var óvenju stór í þetta skiptið, auk okkar Andra og Baldurs voru Ásta Kristín á víólu og röddum, Sara Hrund á lykla og röddum, Valgeir Venna á slagverk og Marta í röddum. Við lékum sjö lög, mest af væntanlegri plötu, Á floti, sem kemur á vínyl og stafrænu í maí (það verða rosalegir útgáfutónleikar, sennilega í júní). Og stóðum okkur bara mjög vel, þótt ég segi sjálfur frá. Ég var frekar rólegur á sviðinu eftir að hafa fengið hálfgert spennufall á sándtestinu um daginn – í tveggja hljóma byrjunarlaginu varð hugurinn á mér svo heiður að ég mundi aldrei hvaða hljómur átti að koma næsta (sem var þá alltaf bara hljómurinn sem ég var ekki að spila, hinn hljómurinn í laginu). Og eftir sándtestið fór ég heim, lagðist í rúmið dauðuppgefinn – klukkan 15 um daginn – og steinsvaf í 90 mínútur. En var þá bara búinn með stressið um kvöldið, sem var ágætt.

Um kvöldið buðu himinhvolfin upp á stærstu og fallegustu norðurljós sem ég hef séð síðan 1994.

Á laugardeginum byrjaði ég á því að drífa mig upp í netagerð að þeyta skífum fyrir Skúla frænda minn mennska sem var þar með plötumarkað. Svo f´ór ég að róta trommusetti með Aram – sem var aftur að spila með lúðrasveitinni en nú á Dokkunni. Þaðan lá leiðin upp í Oddfellowhús þar sem við Ingi Björn söxuðum grænmeti af miklum móð, til þess að preppa fyrir hádegisverð á poppstefnu AFÉS daginn eftir. Svo beint á lúðrasveitartónleika og að róta settinu aftur til baka með trommuprinsinum.

Um kvöldið las ég ljóð með hljómsveitinni Reykjavík! Við erum vinir frá því á menntaskólaárunum og gerðum þetta oft í gamladaga, bæði þannig að þeir komu á ljóðahátíð með mér og drógu mig á svið á tónleikum hjá sér. Ég skrifaði líka „liner notes“ fyrir allar plöturnar þeirra. Ég átti meira að segja að gera þetta á Aldrei 2005 eða 2006 en gleymdi mér eitthvað og var bara á Langa Manga (hellaður) þegar ég var kallaður á svið – og varð auðvitað ekkert úr neinu. Það var því sérstaklega ánægjulegt að fá loksins að bæta upp fyrir það lúðalega klúður. Og alveg burtséð frá minni eigin þátttöku í gigginu var brjálæðislega gaman að sjá hljómsveitina aftur – sem ég hef líklega síðast séð spila á Norræna bókasafninu í Helsinki 2007 (Aino finnst mjög fyndið að Reykjavík! hafi spilað á bókasafni, og það er rétt, það er mjög fyndin tilhugsun).

Eftir ofsalegt lokaatriði kvöldsins – FM Belfast – fór ég heim að klára krossgátuna mína á meðan Nadja fór út á lífið. Ég er í seinni tíð undir áhrifum einhverrar bölvunar sem veldur því að ég sofna aldrei fyrren hún kemur heim – bara einhver algerlega óþörf óró (Nadja er ekki týpan sem fer sér að voða). Og af því ég er miðaldra karl vakna ég samt klukkan sjö. Ég sem sagt svaf alveg fáránlega lítið.

Það var samt meira að gera á sunnudaginn. Það byrjaði á því að við Ingi og Geiri kláruðum að gera matinn. Svo var poppstefna þar sem við Kristján Freyr – hinn ótrúlega ötuli rokkstjóri – reyndum að hafa smá fororð og stýra samræðum við tónlistarmennina. Ég gekk út frá pistli sem ég flutti fyrir mörgum árum en tókst ekki að finna – reyndi bara að muna pælingarnar. Eftir matinn fórum við Smári Karls svo með hersinguna í sögugöngu um Ísafjörð – ég sagði frá árinu 1925 (sem er árið sem Náttúrulögmálin gerast) en Smári tók að sér að fjalla um „gasasvæðið“, sem er staðurinn á milli Krúsarinnar og Sjallans þar sem Jet Black Joe voru gasaðir á sínum tíma.

Eftir göngu var farið í siglingu. Í svona klukkustund húktum við úti á þilfari úti á miðju djúpi og horfðum á hnúfubaka skemmta okkur. Og fallegustu raddir landsins sungu saman lagið um hann Jörund hundadagakonung. Í blíðskaparveðri. Um þetta væri áreiðanlega hægt að kveða mörg falleg ljóð og sannarlega var ég hrærður en þetta er þess konar fegurð sem þarf aðra fagurfræði til að miðla en þá sem ég kann – ég verð bara vandræðalegur þegar ég byrja að tvinna saman nógu mikið af lýsingarorðum til að ná utan um þetta. En þetta verður í minnum haft og maður verður áreiðanlega alltaf svolítið mjúkur inni í sér af tilefninu.

Næst var áð við Vébjarnarnúp til að dást að fjallinu. Svo var sangría á Verbúðinni í Bolungarvík og Pálmi Gests hélt tölu um bæinn og sýndi svo fólki húsið sitt. Fordrykkur var drukkinn á Skarfaskeri – í blíðskaparveðri, það var alltaf blíðskaparveður, lognið sinnti sínu lögheimili alla helgina. Og kvöldmatur og partí í Félagsheimilinu í Hnífsdal. Þar var mikið sungið og dansað og meira að segja samin lög og stofnaðar hljómsveitir og einsog það hafi ekki verið nóg var farið á Pallaball í Edinborgarhúsinu og ég leit meira að segja við í eftirpartí með eftirlætis tónlistargagnrýnandanum mínum.

Einsog gefur að skilja gerði ég ekki margt annan í páskum. En nú, á þeim þriðja, er ég allur að skríða saman. Næstu páska verð ég áreiðanlega orðinn svo gott sem nýr.

Aldrei

Það eru komnir páskar. Skírdagur. Þá er hefð fyrir því að láta mannkynsfrelsarana skrúbba á manni fæturna áður en maður svíkur þá í hendur auðvaldinu.

Ætli Jesús sé ekki annars með betri týpum? Svona ef maður ætlar að fara að leyfa sér að gera upp á milli góða fólksins þá held ég að ég kunni best við hann. Sennilega mest vegna þess að hann útdeildi dómhörku sinni fyrst og fremst til valdsmanna en bað almúgann að vera ekki að gr´ýta steinum innbyrðis – nema að vera handvissir um eigið syndleysi, sagði hann, sem er trikk question því það er enginn syndlaus og sá sem heldur að hann sé það er augljóslega fyrst og fremst sósíópati. En líka af því hann átti sjálfur misgóða daga. Hreytti jafnvel ónotum í fólk. Honum til afsökunar þá átti hann mjög erfiðan föður. En fyrst og fremst þetta með fyrirgefninguna. Við lifum á tímum þar sem valdið á mjög auðvelt með að etja smælingjunum saman og telja þeim trú um að hagsmunir þeirra séu ósamræmanlegir – incels séu frá mars en wokesters frá venus. Allir eru syndlausir og allir grýta steinum og allir eru sannfærðir um að ef þeir hættu að grýta steinum muni siðmenningin „einsog við þekkjum hana“ líða undir lok – síðasta vígið sé grjótkast smælingja. Þar sem ég sit og skrifa þetta á ég meira að segja bágt með að trúa því ekki sjálfur. Bágt með að rifja það upp að málsvörum incel/white trash/íhaldsins á valdastólum er drullusama um skjólstæðinga sína. Að þetta snýst ekki um að stoppa fjölbreytileikann. Snýst ekki um „the woke mind virus“. Snýst ekki einu sinni um frjálslyndið. Þetta snýst um peninga og völd. Óreiðan er bara verkfæri til þess að sölsa undir sig peninga og völd. Ef það borgaði sig að styðja transfólk og málfrelsi og jafnrétti til náms myndu þeir allir snúa við á punktinum. En það borgar sig fyrir þá að kynda bálið og því skíðlogar.

Annars er orðið langt síðan ég las guðspjöllin í gegn. Styttra síðan ég sá Jesus Christ Superstar. Eða las Passíusálmana (og eru þó sjálfsagt að verða 20 ár síðan ég gerði það). Ég held að þar sé ekkert um syndlaust fólk og grjótkast. Jesús veltir þar borðum víxlaranna – en ekki man ég til þess að sá Jesus hafi velt við „stólum dúfnasalanna“. Kannski eru dúfnasalar ekki lengur jafn umdeildir.

Ég ætti að rifja þetta allt upp í tilefni af páskum. Það verður þó kannski ekki mikið af því – ég er að spila með Gosa á Aldrei fór ég suður annað kvöld og svo er bara lífið svo sósíalt á páskum á Ísafirði. Enginn tími fyrir guðdóminn eða fyrirgefninguna. Bara tími fyrir stuð.