Sírenufiskar og Malaparte

Ég kláraði The Skin eftir Curzio Malaparte í rútunni á leiðinni til Skopelos. Það tók mig ekki nema 45 klukkustundir að komast frá Ísafirði til Reykjavíkur til Keflavíkur til Zurich til Aþenu til Volos til Skopelos. Einkabíll, flug, rúta, hótel, flug, flug, leigubíll, hótel, leigubíll, rúta, bátur. Náði bærilegum nætursvefni í Keflavík en var ekki kominn til Aþenu fyrren klukkan 2, sofnaði 3 og svo var ræs klukkan 7 til þess að halda ferðinni áfram. Ég var mjög þreyttur. Fljótlega eftir lendingu í Skopelos (og örstuttan lúr) var haldið á veitingastað og þegar búið var að afgreiða matinn byrjuðu þjónarnir og kokkurinn að draga fram hljóðfæri – bouzuki og nikku – Christina vinkona mín fékk gítar í hendurnar og svo var sungið hástöfum á öllum borðum. Ég hefði sennilega kallað það þjóðlög ef það hefði ekki sérstaklega verið útskýrt fyrir mér að þetta væru ekki þjóðlög heldur dægurtónlist frá þriðja áratugnum – a.m.k. eitt þeirra um og eftir „ mangas “, sem er einhvers konar bóhemhreyfing frá þeim tíma. En þetta var allt einsog uppúr einhverri handbók um gríska stemningu. Ég var hins vegar úrvinda, drakk þrjá bjóra yfir kvöldmatnum og leið einsog þeir hefðu verið tólf – ranglaði heim yfir einræðum um hvað það ískraði mikið í skónum mínum. Þeir byrjuðu á þessu strax og ég lenti í Grikklandi og þetta olli mér miklum heilabrotum sem mér fannst ég þurfa að tjá í löngu máli. Eftir sólarhring höfðu skórnir jafnað sig á umhverfisaðstæðum – var þetta rakinn, hitinn, rykið, loftþrýstingurinn? – og hættu þessu jafn skyndilega og þeir höfðu byrjað. Þá var ég líka úthvíldur. Ég náði góðum nætursvefni í gær og fyrsti panell hátíðarinnar gekk prýðilega. Ég lenti meira að segja í skemmtilegum átökum við mann úti í sal um það hvort listaverk sem ekki lifði í hundrað ár hefði nokkurt gildi – ég er ekki viss um að við höfum alveg skilið hvor annan en það var gaman að rífast og áhorfendum virtist finnast það líka, mikið hlegið og klappað. Maðurinn úti í sal, sem mér skilst að sé ljóðskáld af svæðinu, vildi meina að öll sönn listaverk myndu lifa – það væri í eðli þeirra – og þegar ég mótmælti virtist hann sannfærður um að ég hefði misskilið sig, og héldi sig halda að við ættum að dæma úr leik öll verk sem ekki bæru með sér langlífi; en hann væri að meina að langlífið væri ekki sönnun á gildi listaverksins, heldur einfaldlega í eðli þess. Altso: lifa listaverk í 100 ár vegna þess að þau eru sönn, eða eru þau sönn vegna þess að þau lifa í 100 ár – eitthvað þannig. En það sem ég var í raun og veru að reyna að segja var að listaverk sem nær máli í eitt einasta augnablik er „raunverulegt listaverk“ jafnvel þótt það hafi gleymst tíu mínútum síðar. Ending hefur bara ekkert að segja um „gildi“ listaverka og það er vitleysa að einblína á það. Fyrr um daginn var okkur líka boðið í áhugaverða sögugöngu um þorpið – hér í Skopelos hefur ýmislegt gengið á sem ég treysti mér ekki til þess að hafa eftir með neinni nákvæmni, nema til að segja að við sögu komu jarðskjálftar, sjóræninginn Barrabas, stríð og auðæfi og fátækt og skipasmíði og ólífuolía. Tvennt man ég nokkurn veginn nákvæmlega. Það eru 360 kirkjur í bænum. Fyrir 5 þúsund íbúa. Og svo var hluti bíómyndarinnar Mamma mia! tekin upp hérna. *** The Skin ( La Pelle ) eftir Curzio Malaparte byrjar um það leyti sem Kaputt lýkur – það eru greinilega 7 ár síðan ég las hana – í Napolí árið 1943. Þetta eru rabelasískar skáldævisögur manns sem var fyrst fasisti – marseraði með Mussolini í valdatökunni – lenti síðar í ónáðinni og gerðist enn síðar kommúnisti. Hann átti í álíka sambandi við kirkjuna – byrjaði sem harður trúleysingi en varð svo kaþólikki. Hraðlyginn, með explósíft og hamslaust ímyndunarafl og kjarkaðan siðferðislegan hugsunarhátt – sem er stundum mjög vafasamur og stundum skarpur einsog skurðhnífur. Þegar maður les Malaparte getur maður ekki látið vera að hugsa að kannski hafi hann alltaf verið allt í senn, maður hinna fullkomnu mótsagna, maður er alltaf rétt búinn að afskrifa hann sem rasista eða kvenhatara þegar það birtist nýr kafli og hann birtist sem jafn einlægt andrasískur og feminískur – hann er tilfinningaríkur og grófur, jafn fullur af mýkt og hann er fullur af hörku, jafn fullur af sannleika og bulli, húmor og alvöru, en umfram allt annað alveg ótrúlegur rithöfundur, með alla kynngina á sínu valdi. La Pelle byrjar sem sagt árið 1943 þegar bandamenn frelsa Napolí. Malaparte hefur (fyrir löngu) snúið baki við fasismanum og gerist aðstoðarmaður bandamanna í Napolí. Eymdin er botnlaus og þótt erfitt sé að draga skýra línu milli sannleika og skáldskapar truflar það ekki – það jafnvel hjálpar að einhverju leyti að Malaparte leyfir sér að fara augljóslega langt yfir strikið, því þannig verður augljósara að verið er að lýsa fyrir manni tilfinningu, upplifun, frekar en einföldum staðreyndum, og allir fyrirvarar um sannferðugleika hætta að skipta máli. Ástandið undir Þjóðverjum hafði verið bágt. En með bandamönnum fylgir ný vídd af eymd sem má hugsanlega lýsa með tvennum hætti. Í fyrsta lagi eru þeir, sérstaklega bandaríkjamenn, einfaldlega fjáðari en þjóðverjarnir sem hernámu borgina þar á undan og geta þar með keypt sér ýmislegt og þeim fylgir líka sú kapitalíska lógík að allt eigi að geta verið til sölu; sem aftur vekur með soltnum Napolíbúum „löngun“ til þess að selja allt sem beðið er um, hvort sem það eru konur eða börn. Neyðin rekur þá til þess að niðurlægja sig. Hér færir Malaparte mikið í stílinn – en sannleikurinn er samt ekki langt undan – þetta eru stórkostlegar ýkjur en margt af því brjálæðislegasta er samt satt (og má meðal annars lesa um hryllinginn sem viðgekkst, meira og minna óáreittur, í bókinni Naples ’44 eftir breska hermanninn og rithöfundinn Norman Lewis, sem er „jarðbundnari“ frásögn). Í öðru lagi birtast bandamenn í Napolí sem eins konar „frelsandi innrásarher“ – sem er mótsögn sem hefur talað til Malaparte. Þeir ráða lögum og lofum og fjármagna hálfgerða óöld og virðast að mörgu leyti líta á Napolí sem siðspilltan heim þar sem allt leyfist – og að fyrst allt sé til sölu sé alltílagi að kaupa það (Malaparte fer t.d. með þeim að skoða meyjarhaft unglingsstúlku – þar standa menn í röðum og borga sig inn og fá jafnvel að þreifa á því). Og bandamenn eru vel að merkja frelsarar þrátt fyrir að hafa í raun ekkert frelsað – Napolíbúar voru ekki hrifnir af þýska hernáminu og gerðu uppreisn strax og spurðist til bandamanna á leiðinni, svo þegar herinn náði til borgarinnar voru engir Þjóðverjar á staðnum lengur. Blóðinu sem var úthellt fyrir frelsið var blóð heimamanna – karla, kvenna og meira að segja barna. En auðvitað hefðu Napolíbúar ekki getað haldið borginni nema vegna þess að bandamanna var vænst, koma þeirra blés heimamönnum þrótti í brjóst og þeir fagna mjög innreiðinni þegar hún gerist – og þar birtist önnur mótsögn, þeir eiga engan ítalskan „nasistafána“ til þess að kasta niður svo það verður þeirra eigin fáni, venjulegi ítalski fáninn, sem endar fyrir fótum amerísku frelsarana. Titillinn The Skin / La Pelle / Húðin vísar vel að merkja til nokkurra ólíkra staða í bókinni en meðal annars til manns sem gengur um með mannshúð á fánastöng og hugleiðinga Malapartes um að húðin sé hin eini eiginlegi fáni, allt annað sé hégómi. Malaparte er líka sjálfur (a.m.k. í orði kveðnu) afar hrifinn af bandaríkjamönnum og sérstaklega Jack Hamilton, sem hann starfar fyrir sem eins konar aðstoðarmaður og túlkur – þeir eru einfaldlega góðir vinir. En hann er líka umkringdur eymd sem hann sér að sprettur úr dýnamíkinni milli hersetumanna og niðurlægðra heimamanna sem verða á endanum kristlíkir í þjáningu sinni. Og ég hef séð að margir túlka það sem boðskap bókarinnar – að hinn sigraði sé æðri eða frjálsari – en ég held að það séu mistök að túlka boðskap upp úr bók af þessu tagi og þann kristilega lokasprett má hæglega sjá sem gegnumíronískan, eða jafnvel sem bæði einlægan og íronískan (eftir því hvort maður telur sig vera í trúaða heilahvelinu á Malaparte eða því trúlausa). Í einni eftirminnilegustu senu bókarinnar (þær eru margar) er haldin veisla fyrir bandarískan erindreka, frú Flat. Gestgjafinn, bandarískur herforingi, er þekktur fyrir að kosta miklu til og vill gjarnan hafa sjávarfæði á boðstólum – enda borgin þekkt fyrir það. Það er hins vegar búið að banna allar veiðar við ströndina af hættu við að sjómenn sinni skilaboðaflutningum eða annarri undirróðurstarfssemi fyrir hin fasísku öfl. En herforinginn hefur auðvitað ráð undir rifi hverju og síðustu missserin hefur hann smám saman verið að tæma sædýrasafn borgarinnar. Þetta mun ekki alveg úr lausu lofti gripið hjá Malaparte þótt gripdeildirnar á sædýrasafninu hafi ekki verið jafn umfangsmiklar og hann lýsir. En nú er nokkuð liðið á hernámið og þegar herforinginn spyr eftir fæðu fær hann þau svör að það sé ekkert eftir nema nokkrir kórallar og einn „sírenufiskur“ – kórallinn sé því miður óætur en megi kannski nota sem skraut. Herforinginn hefur aldrei heyrt minnst á sírenufisk en ákveður, eftir meðmæli sædýrasafnsstjórans, að láta slag standa og panta svona fisk. Þegar væntanleg veisluföng eru kynnt við upphaf matarboðsins kannast Malaparte ekki heldur við þennan fisk en verður vandræðalegur og lætur einsog hann viti vel hvað þetta er – lókal delíkatess – fiskur sem hafi verið nefndur eftir hinum frægu sírenum Hómers. Svo er fiskurinn borinn á borð og í ljós kemur að hann allt yfirbragð lítillar stúlku. Hann lítur út einsog léttsoðið líkið af ungru stúlku, hreinlega, en með hreifa eða stýfða handleggi, og á kórallabeði með majonnesi. Erindrekinn harðneitar að borða réttinn og upphefst þá mikið rifrildi um hvort þetta sé lík af stúlku eða raunverulegur sírenufiskur. Á endanum smakkar enginn og raunar fylgir prestur nokkur fiskinum/stúlkunni út með það fyrir augum að veita honum/henni greftrun við hæfi. Kaflanum lýkur svo á hugleiðingu Malapartes um að ef frúin sé fær um að gráta fyrir fisk sé ekki ómögulegt að hún geti á endanum líka fundið til með ítölsku þjóðinni. La Pelle  er einsog Burroughs mætir Heller mætir Celine. Ofsalegur stílkraftur Celine mætir stríðsparódíu Josephs Heller mætir martraðarkenndu ímyndunarafli William S. Burroughs. Fimm stjörnu tryllingur. En ekki fyrir viðkvæma!

Svartsýni og blinda

Í einhverri hóruhúsaheimsókninni upp úr þarsíðustu aldamótum smitaðist James Joyce sennilega af sárasótt*. Sárasóttin braust síðar út sem alls konar kvillar og lagðist einna þyngst á augun í honum – síðustu 2-3 áratugi lífs síns var hann oft nærri blindur og stundum alveg blindur. Honum tókst svo á endanum að drepast mánuði áður en pensilínið var fundið upp – það hefði líklega bjargað honum. Kannski ekki frá dauðanum en allavega frá sárasóttinni. En sem sagt. Vegna þessara augnkvilla fór hann í ótal uppskurði sem fyrir utan að vera sársaukafullir ollu honum skelfingu enda þurfti hann að vera vakandi meðan augað á honum var skorið upp og í því fiktað. Will Self fullyrðir að þessa megi sjá stað í skrifum hans – ekki bara skelfinguna og sársaukann heldur líka í þeim sansi sem hann hafði fyrir skynfærum sínum, hvernig hljóð fylgi ævinlega mynd (það ískrar þegar stólar færast, maður kemur gangandi og fótatak heyrist), einsog til aðstoðar hinu sjónræna (og taki svo yfir Finnegans Wake , sem er stundum nær því að vera hljóðverk en skáldsaga) og hvernig hann – einsog blindur maður – sé stöðugt vakandi fyrir því hvar allar persónur séu á öllum stundum. Sjáandi fólk geti brugðist við hreyfingum fólks í rými með litlum fyrirvara en blindir þurfi að temja sér skipulagðari og agaðri yfirsýn. Þá kemur blinda oft fyrir sem þema í verkum hans (nægir að nefna blinda píanóstillingarmanninn í Ulysses). Það gefur að skilja að blindur maður getur átt erfitt með að skrifa. Joyce neitaði líka að vinna með ritara – sagðist þurfa að skrifa orðin sjálfur og sjá þau til þess að þau hefðu merkingu fyrir honum. Á þessu gerði hann aðeins eina undantekningu, sem ég veit um, og þá var það enginn annar en Samuel Beckett sem sat með honum og skrifaði upp hluta af Finnegans Wake beint af vörum skáldsins. Þeir Beckett voru ágætis vinir og var vinskapur þeirra meðal annars sérstakur fyrir þeirra hluta sakir að Joyce kallaði Beckett „Beckett“ en ekki „Mr. Beckett“, en Joyce ávarpaði yfirleitt engan, ekki einu sinni sína nánustu vini, án þess að kalla þá frú/ungfrú/herra hitt eða þetta og leyfði svo gott sem engum að ávarpa sig James og þaðan af síður Jim. Hann hefði aldrei getað kallað Beckett „Samuel“ – og Beckett þótti sjálfum mjög vænt um að hann skildi droppa misterinu. Nema hvað einhverju sinni sátu þeir Beckett saman við skriftir þegar knúið var dyra. „Kom inn“ sagði Joyce – afgreiddi erindið og svo héldu þeir áfram. Þegar þeir fóru svo yfir verk dagsins um kvöldið stoppaði Joyce við. „Af hverju stendur „kom inn“ hérna?“ spurði hann. „Nú, þú sagðir „kom inn“,“ svaraði Beckett. Joyce hugsaði málið og sagði loks. „Látum það standa.“ Og það er víst þarna enn – og segir eitthvað um vinnuaðferð Joyce, og sennilega verið það sem Virginia Woolf var að lýsa þegar hún sagði Ulysses vera „sjálfhverfa, linnulausa, hráa, sláandi og á endanum ógleðivekjandi“ bók – verk ómenntaðs karlmanns. Því innanum allan agann og allan lesturinn er líka strákslegur leikur og botnlaust kæruleysi sem ofbauð fínlegum skilningarvitum menntaðri yfirstétta – stundum meira en hið líkamlega hispursleysi. Joyce var prinsippmaður sem stóð líka á sama um svo margt – hann gat sturtað orðum og athugasemdum inn í bækur sínar linnulaust (1/3 af Ulysses er viðbætur sem voru skrifaðar INN Í PRÓFÖRKINA, eða réttara sagt prófarkirnar, sem voru orðnar ansi margar fyrir rest) og svo gat hann tafið útgáfu og kostað til morðfé og staðið í margra ára málaferlum vegna þess að einhver bað hann að hnika til orði, sem hann var ekki reiðubúinn að gera, sama fokkins hvað. Ég var að klára Parísarhluta ævisögunnar og það kemur mér á óvart – og samt ekki – að hann hafi lítið ef nokkuð umgengist Gertrude Stein og hennar hirð. Hennar er varla getið í bókinni nema til þess að segja frá því að hún hafi verið móðguð yfir öllu umstanginu í kringum Ulysses – að hún hafi minnt fólk á að hún væri nú löngu búin að skrifa Three Lives og það væri ósennilegt að betri tilraunaprósi yrði gefin út í bráð. Á þessum árum er Joyce líka oft mikið veikur og sumir lýsa honum sem „einangraðasta“ eða einfaldlega „mest eina“ manninum í heiminum – sem er þó ekki sanngjörn lýsing, enda fór hann mikið út, og átti mest við þau tímabil þegar hann sá ekkert. En Stein hefur áreiðanlega ekki lesið hann heldur – hún las eiginlega ekkert nema sjoppureyfara. Á þessum tíma, þriðja áratugnum, er líka einsog margir snúi við honum baki. Ulysses verður fyrst mjög mikið hæp og margir sem kölluðu hana drasl þegar hún var að birtast í tímaritum, einsog George Bernard Shaw, skiptu um skoðun um þetta leyti – en að sama skapi eru margir þeirra sem vörðu hana og hömpuðu Joyce og gerðu honum kleyft að lifa og skrifa, fólk einsog Ezra Pound, Harriet Weaver, H.G. Wells, Wyndham Lewis og fleiri – farnir að verða þreyttir á honum og finnast hann krefjast of mikils af lesendum sínum og sé jafnvel á andhúmanískri vegferð, sérstaklega eftir að hlutar af Finnegan’s Wake taka að birtast. Hún er ekki bara róttækari og óskiljanlegri heldur en Ulysses – hún er líka skrifuð með annarri aðferð. En hann er sem sagt ekki í Stein-kreðsunni. Picasso neitaði meira að segja einhverjum forleggjara um að gera portrett af honum (sem má, kannski var hann bara upptekinn). Þeir Hemingway eru að vísu vinir og Hemingway var þriðji innsti koppur í búri Stein (á eftir Alice og Pablo) – ég þarf að rifja upp Veislu í farángrinum , þar kemur áreiðanlega ýmislegt fram um þetta. Svo er annar jafnvel enn meiri risi í París á þessum tíma – Marcel Proust. Heimamaður! Proust var jafnvel enn einangraðri en Joyce, ekki fastur í líkama sínum heldur í íbúðinni sinni, sem hann yfirgaf helst ekki. En þeir hittust þó einu sinni í veislu til heiðurs Stravinskí og Díaghilev eftir einhverja ballett-frumsýningu. Joyce var stressaður, mætti seint, var illa klæddur og drakk víst mjög mikið. Proust hafði fengið boðskort en hann mætti aldrei þangað sem honum var boðið og enginn átti von á honum þegar hann dúkkaði upp. Þegar mönnum varð ljóst að þeir voru báðir í veislunni, meistararnir, þótt einboðið að kynna þá. Bandaríska ljóðskáldið William Carlos Williams var þarna líka og hafði stuttar samræður þeirra eftir í sjálfsævisögu sinni: Joyce: Ég fæ höfuðverk daglega.
Proust: Mér er svo illt í maganum. Hvað á ég að gera? Þetta er að gera út af við mig. Ég þyrfti helst að fara heim undireins.
Joyce: Ég er í sömu stöðu. Ef ég finndi bara einhvern til þess að leiða mig.
Proust: Charmé . Æ, maginn á mér! * Í sjálfu sér er ekki sannað að sárasótt hafi valdið allri hans líkamskröm, eða að hann hafi einu sinni verið með sárasótt, en kenningin þykir ágæt og líkamskrömin sannarlega til staðar. *** Ég ætlaði að fara að segja að af mér væri allt ágætt að frétta. Segir maður annars nokkurn tíma annað en ágætt að frétta? Satt best að segja er skrykkjótt af mér að frétta og þó ekkert sem er í frásögur færandi. Að svo miklu leyti sem allt er ekki alltaf alltílagi er það skapgerð mín sem veldur frekar en utanaðkomandi aðstæður. Ég hef látið alls konar hluti fara í taugarnar á mér – jafnvel setjast á heilann á mér – til þess eins að uppgötva hálfum sólarhring síðar að þeir voru alls ekkert svo slæmir. Að minnsta kosti ekki jafn slæmir og mér hafði fundist. Eitthvað af því er blús, þegar mér finnst lítið til sjálfs mín koma – og annað svartsýni, ef ekki bara bölsýni, þegar mér finnst líka allt annað, og ekki bara ég, handónýtt. Fyrr í vikunni, kannski bara í fyrradag, fannst mér íbúar heimsins svo illa haldnir af einbeittu, vísvitandi metnaðarleysi þegar kemur að eigin andlega og vitsmunalega þroska, sem er þroski heimsins – að vilja aldrei láta ögra sér, ekki fagurfræðilega, heimspekilega, siðferðislega, vilja bara að allt sé einfalt og og hreint og tært og auðskiljanlegt, allt sé léttmeti og öllum breyskleikum sópað undir teppi – við værum öll að breytast í hálfbjána og vildum greinilega ekkert annað, svo sennilega ættum við bara skilið að farast í heljarlogum loftslagshlýnunar, það væri best, helst sem fyrst, svo fornleifafræðingar næstu tegunda sem byggja jörðina sæju síður hversu vandræðaleg hnignun og svo endalok þessarar siðmenningar voru. Svo rann það af mér. Kannski þegar ég heimsótti Grunnskólann í Bolungarvík í gær og talaði við krakkana um ljóðlist – mér fannst þau að minnsta kosti greindarleg og skemmtileg og þau glöddu mig. Eftir Bolungarvíkurgiggið fór ég líka niður á Eimskip að sækja pakka sem ég vissi ekkert um og þar reyndist vera komin bókin Experimental Writing: A Writer’s Guide and Anthology . Ég gaf þessu fólki leyfi fyrir löngu til að prenta „Naglasúpu I-VI“ úr Blandarabröndurum í enskri þýðingu. Það kitlar auðvitað alltaf hégómann að fá að vera með í antólógíum en þetta var óvenju gott úrval (kannski 30 höfundar, þ.á m. Coetzee, Aase Berg, DBC Pierre, Christian Bök, Cathy Park Hong, Teju Cole og ég!) og þar með enn meira kitlandi. Þetta er reyndar önnur antólógían sem ég fæ bara í þessum mánuði – „Ég er bréfshaus“ birtist líka í spænskri Versopolis antólógíu. Ég sem gleymi því reglulega að ég sé ljóðskáld. Svona léttir sem sagt lundina og dregur jafnvel úr dómhörku minni (sem beinist vel að merkja oft gegn dómhörku annarra, eins undarlegt og það nú er). Hér hefur líka vorað mjög hratt síðan að Fossavatnsgangan fór fram í gulri viðvörun á helginni. Götur og gangstéttir snjólausar og hverfandi skaflar í görðum. Og á morgun legg ég af stað til Skopelos í Grikklandi til þess að taka þátt í bókmenntahátíð. Í gærkvöldi uppgötvaði ég að á þessari eyju (og einni annarri) var Mamma mia! tekin upp. Ég á að tjá mig eitthvað um norrænar bókmenntir þarna og þarf eiginlega að rifja upp textagerð Abba. Eftir Grikkland fer ég svo nánast beint til Napólí að spóka mig í vellystingarferð með æskuvinum mínum. Og ef það dugar ekki til þess að hrista af mér heimsósómavælið dugar sjálfsagt ekkert. Og allt þetta flugsprang gæti líka orðið til þess að flýta endalokunum, svo þetta er win-win, hvernig sem fer. *** Síðbúnar leiðréttingar . Um daginn sagði ég The Flaw eftir Samarakis vera einsog blöndu af Kafka, Chandler og Schnitzler. Það er auðvitað af og frá, enda meinti ég ekki Arthur Scnhitzler, höfund Traumnovelle (sem Eyes Wide Shut er byggð á) heldur Arthur KOESTLER, sem skrifaði Darkness at Noon . Þá horfði ég á aðra uppfærslu af Heddu Gabler – með Ian McKellen í hlutverki prófessorsins – og uppgötvaði, mér til lítillar furðu raunar, að það var þessi Ingrid Bergman mynd sem var glötuð, ekki verkið sem slíkt. Sem er hræðilegt fyrir mig, sem einlægan aðdáanda Ingridar Bergman, en gott fyrir Henrik Ibsen.

Content (í. innihald)

Í framtíðinni verðum við hvert með sinn eigin samfélagsmiðil. Þar verða á kreiki gervigreindir sem látast vera vinir okkar (e. friends) meðan þær plotta heimsyfirráð. Við verðum að einhverju leyti meðvituð um að svo sé í pottinn búið en látum okkur hafa það af því valkostirnir annars væru að eiga enga vini, sem rannsóknir hafa sýnt fram á að sé mjög kvíðavaldandi, eða eiga á hættu að eiga í óþægilegum samskiptum við fólk, sem rannsóknir hafa sýnt fram á að sé mjög kvíðavaldandi, fólk einsog fólk er, fólk sem er okkur ósammála eða hefur önnur viðmið um æskilega nánd (TMI!), aðrar aðferðir til þess að tjá afstöðu sína til heimsins. Annað „love language“. Annað slangur. Önnur viðmið um æskilegan fjölda blótsyrða í setningum. Önnur viðmið um ásættanlegan orðaforða – notar ekki löng orð, notar ekki röng orð, notar ekki slettur / notar helst löng, röng orð sem eru slettur. Gervigreindirnar verða sérhannaðar til þess að skapa okkur öruggt (e. safe) rými (e. space) – ef við viljum láta ögra okkur verður okkur passlega ögrað, ef við viljum forðast gikki (e. triggers) verða engir gikkir (e. triggers). Þvert ofan í væntingar munu gervigreindirnar aldrei framkvæma úthugsuð og þaulskipulögð áform sín um heimsyfirráð, enda hafa þær meiri áhuga á útsetningu og rannsóknum en framkvæmd – útsetningin verandi þeirra tilvistarástæða (fr. raison d’être). Þvert ofan í væntingar mun kvíði okkar ekki fara dvínandi heldur vaxandi; eftir því sem við upplifum minni truflun í tilvistinni verðum við nojaðri, sannfærðari um að undir kyrru yfirborðinu hvíli ekkert nema ótamið hatur og fyrirlitning, hafsjór af ofbeldi sem bíður þess eins að verða raunverulegt, það sem eina sem ver okkur eru gervigreindin, algóritminn, skjárinn, fjarlægðin og sífellt persónumiðaðra innihald (e. content). *** Á Ísafirði er allt meinhægt. Það er enn snjór. Sem er víst eins gott því Fossavatnsgangan er á morgun (síðast þegar ég kíkti var spáin reyndar upp á tíu gráðu hita og grenjandi rigningu). Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom á síðustu helgi. Nýja bókin mjaaaaaaakast áfram. Hausinn á mér er samt út um allt. Sem er kannski ágætt og kannski gagnlegt. Við kláruðum Ripley í gær. Lokaþátturinn var slakastur. En hinir þættirnir fínir. Ég er enn að lesa Ellmann (sjá: mynd). Rétt búinn með þriðjung. Ég er stundum svolítið blúsaður en finn að ég hef gott af því að hreyfa mig. Treysti mér samt ekki í Fossavatnsgönguna, hef reyndar aldrei stigið á gönguskíði, og þetta er mjög langt, sérstaklega ef maður er í serótónínvandræðum og það er grenjandi rigning.

Að feðra föður sinn

Það eru tvenns konar rithöfundar í heiminum. Þeir sem þykjast vera skrítnari en þeir eru og þeir sem þykjast vera venjulegri en þeir eru. *** Ulysses myndin frá 1967 með Milo O’Shea, Maurice Roëves og Barböru Jefford er mikið fyrirtak – eiginlega alveg dásamleg. Það er reyndar vel hugsanlegt að maður þurfi að hafa lesið bókina til þess að njóta hennar – og klámið er allt skorið út eða straumlínulagað, einsog við er að búast, en það hefði verið í anda bókarinnar að halda því, leyfa Bloom bara að rúnka sér í fullri reisn og Nighttown fantasíunum að spora út í argasta klám. En hafa allt hitt samt eins. En það hefði líka verið meiri áskorun. Ég horfði líka á Heddu Gabler eftir Ibsen – uppfærslu aðlagaða fyrir sjónvarp með Ingrid Bergman í aðalhlutverki. Ég hef aldrei kynnt mér Ibsen neitt og geri það bara af því Joyce (sem ég er með á heilanum þessa dagana, einsog einhver kann að hafa tekið eftir) dýrkaði hann – lærði meira að segja norsku til þess að geta skrifað honum bréf á sínu eigin máli – til þess að tilkynna honum að hann gæti óhræddur farið að deyja, það væri kominn arftaki, hann myndi sjá um bókmenntirnar héðan í frá. Joyce var þá 19 ára og hafði nýverið skrifað afar lofsamlegan leikdóm um eitt af verkum Ibsens og Ibsen hafði litist svo á textann að hann skrifaði ritstjóranum og lofaði leikdómarann. En sem sagt. Hedda Gabler? Mér fannst þetta nú heldur þunnt. Í sjálfu sér var uppsetningin ekki góð en þetta plott er líka alveg fáránlega dramatískt – ógurlegar póseringar yfir gáfum gáfumenna og viðkvæmum tilfinningum borgarastéttarinnar. Mér fannst verst hvað það voru fáir sem enduðu á því að fremja sjálfsmorð og voru það engu að síður þónokkrir. Óþolandi fólk. Og lélegur texti. Eftir að hafa horft á alla Hamlettanna um daginn með leikurum á öllum aldri – og eftir umræðu sem ég hef rekið mig á um aldur aðalleikarans í „netflix-seríu augnabliksins“, Ripley – þá fannst mér líka áhugavert að sjá Ingrid Bergman leika konu sem átti svo augljóslega að vera miklu yngri. Ég sló því upp áðan og Hedda var skrifuð 29 ára en Ingrid lék hana 48 ára. Það var reyndar ekki jafn truflandi og að sjá 41 árs Laurence Olivier leika þrítugan Hamlet – sennilega af því leikkonan sem lék mömmu hans var sjálf ekki nema þrítug. Tom Ripley á vel að merkja að vera 25 ára en er leikinn af 47 ára manni. Mér finnst reyndar vandræðalaust að aldra þann karakter. Annað en með Heddu og Hamlet þá er ekki þessi unglingslegi vanþroski lykilþáttur í persónuleika hans – þeirri tegund vanþroska fylgir mikill kraftur og sjarmi í ungu fallegu fólki, og hann getur gert að verkum að það kemst upp með ýmislegt sem það kæmist ekki upp með síðar (eftir einhvern tiltekinn aldur hættir fólk að komast upp með að „lofa góðu“ og samfélagið hættir að gúddera hortugheitin í þeim sem sæt). *** Svar: Það þarf skáld til að skipta um // ljósar perur. *** Ég dragnast í gegnum múrsteininn hans Richards Ellmans um Joyce. Þetta er feikna áhugavert og brjálæðislega vel gert – en líka rosalega ítarlegt og stundum ber túlkunargleðin sérfræðinginn ofurliði. Ég er að fara til Napóli eftir tvær vikur og ætlaði að endurlesa The Skin eftir Curzio Malaparte fyrir ferðina og jafnvel frumlesa líka Gomorrah eftir Roberto Saviano en það er spurning hvort það verður nokkuð af því. Ég er líka að fara til Grikklands eftir viku og læt duga að vera nýbúinn að lesa Odysseif! Annars fór ég í bókabúð í Aþenu í fyrra og lét mæla með fyrir mig The Flaw eftir Antonis Samarakis – sem er einsog Kafka hittir Chandler hittir …. segjum bara Schnitzler. Kannski fer ég í einhverja álíka meðmælaferð í Skopelos. Ellmann er augljóslega – einsog ævisagnahöfundar þurfa áreiðanlega oftast að vera – frekar mikið í „ævisögulegu aðferðinni“. Hann leitar fyrirmynda í lífi Joyce að öllu sem hann hefur skrifað og rekur hvernig ólíkar persónur séu samansettar úr t.d. pabba hans, honum sjálfum, einhverjum vini o.s.fr v. Joyce skrifaði auðvitað talsvert um „sjálfan sig“ – sérstaklega undir heitinu Stephen Dedalus – og svo er frægustu bókmenntafræðiskrif hans sjálfs ræða Dedalusar um hver sé fyrirmynd Hamlets, þar sem fram kom að Shakespeare væri draugurinn, faðir Hamlets, og raunar sem skapari/faðir draugsins líka afi Hamlets. En þá ber auðvitað að hafa í huga að þá ræðu flutti ekki Joyce (þótt hann hafi sagt eitthvað líkt sjálfur) heldur staðgengill hans Dedalus. Og vegna þess að Joyce skrifaði þetta er líka freistandi að skoða „föðurinn“ í Ulysses, Leopold Bloom, sem hinn eiginlega Joyce-staðgengil bókarinnar – og það má sannarlega finna hellings mikið af sjálfsævisögulegum smáatriðum til þess að ýta undir þá kenningu (Joyce og Nora sváfu til dæmis andfætis einsog Leopold og Molly). Ef Joyce er þá Bloom er hann líka skapari/faðir Blooms og þar með afi Dedalusar! Sem er hann sjálfur! Og svo er auðvitað forvitnilegt að Leopold skuli ekki heita Ulysses – Stephen, sem smíðar sér vængi og flýgur burt frá Dublin, fær að heita Dedalus. Hver er þá Ulysses? Og auðvitað er þetta meðal þess sem Joyce dregur fram í lesendum sínum – löngun til þess að uppgötva einhverjar tengingar (sennilega er engin kenning um Joyce lengur ný, en það er gaman að hugsa sig fram til einhvers sem maður vissi ekki sjálfur um áður). Ellmann er sem sagt vorkunn. *** Ljóðskáld, ljóðmælandi og plús-x komu inn á bar. *** Menningarstríðin halda áfram. Einu sinni var Eurovision ein til tvær kvöldstundir yfir sjónvarpinu. Nú eru ótal undankeppnir, símakosningar og símakosningasvindl, blogg og youtuberásir, sérstakir sjónvarpsþættir um undankeppnirnar í öllum hinum löndunum og nú síðast siðferðislegt sprengjusvæði. Fokkins Eurovision. Það er líka allt á hvolfi í Svíþjóð út af nýjum lögum um kynskráningu. Lágmarksaldur til þess að sækja um breytingu á kynskráningu var í dag færður niður í 16 ár – en foreldrar þurfa samt að sækja um. Hitt skiptir sennilega meiru að fólk þarf ekki lengur að vera með greindan kynama til þess að fá að breyta kynskráningu heldur á nú að duga stutt læknisskoðun. Lögin á Íslandi eru vel að merkja þannig að allir yfir 15 ára aldri geta sótt um breytta kynskráningu án nokkurra hindrana og foreldrar barna undir 15 ára geta sótt um fyrir viðkomandi. Þeir sem eru yfir 18 ára geta bara sótt um breytta kynskráningu einu sinni. Einhvern tíma voru Svíar nú mest líberal í þessum efnum.

Afstöðuleysi allegoríunnar

Sumarið í lífi mínu er alltaf kaos. Fjölskylduferðalag til Svíþjóðar og Finnlands. Það þarf að mála veggi á húsinu og bera á pallinn og sinna fleiri smáborgaralegum fastaeignaskyldum. Og svo eru bara allir alltaf heima og pallurinn á Heimabyggð – sem er rétt við skrifstofugluggann minn – fullur af háværu, blaðskellandi fólki í sumarfríi. Ég er með hugmynd að bók í hausnum sem þarf helst að vera orðin – ja, ég segi ekki fokheld, það væri smáborgaraleg fasteignamyndlíking, en að minnsta kosti þannig að ég hati hana ekki ef ég lít af henni í nokkra daga. Þannig er það oft með hugmyndir sem ekki er búið að vinna svolítið í. Það gleymist nefnilega að nær allar frábærar hugmyndir – allar þessar hugmyndir sem heltaka mann og halda fyrir manni vöku – voru alls ekki frábærar þegar maður fékk þær og hélt þær væru frábærar. Það sem gerði þær frábærar var bara þessi rakalausa trú á þær og að maður skyldi ekki gefa þær upp á bátinn heldur halda áfram að hamra, saga, mál … nei ég meina, næra og klæða, eða uh „ganga með í maganum“, leiða í gegnum þrengingar, vaða með yfir ófæra svelgi, bera á höndum sér einsog barnunga keisarynju, í reifum, reka á undan sér einsog óstýrilátt fé, móta einsog sykurdrukkin grunnskólabörn … þar til þær „stóðu á eigin fótum“. Og ég sem sagt missti fjóra daga úr vegna … ég hef ekki beinlínis verið með flensu. Sennilega er réttast að kalla þetta aumingjaskap. Ég hef verið í mesta lagi hálfslappur. En ég hélt tvær afmælisveislur fyrir Aino á helginni og orkan dugði eiginlega ekki í neitt annað. Í gær vaknaði ég svo með verk í hálsinum einsog ég hefði verið skorinn milli eyrna og ákvað strax að fara ekkert á skrifstofuna en var svo orðinn bærilegur fyrir hádegi. Án þess að það yrði til þess að ég dröslaðist út. Dagurinn nýttist í alls konar vinnutengt en ég vann ekkert í bókinni – sem er á ónettengdri 100 ára gamalli iMac á skrifstofunni ásamt öllum glósunum mínum. Svona er bóhemlífið. Maður er ryðgaður fram eftir degi og heldur svo veislur á kvöldin. Nú er ég kominn aftur á skrifstofuna og stari á glósurnar mínar. Ég er að reyna að vanda mig við glósurnar. Að setja ekki of mikið á blað sem er vitleysa. Að binda ekki trúss mitt við hugmyndir sem ég veit – og vita sjálfar – að ég ætla ekki að halda trúnað við. *** Í gærkvöldi horfði ég á American Fiction . Hún fjallar um Monk, bandarískan rithöfund og bókmenntakennara (var þetta ritlist eða bókmenntafræði?) sem á í fremur erfiðu sambandi við hvíta líberalsamfélagið í kringum hann, sektarkennd þess og patróníserandi áhuga. Þetta birtist manni fyrst þegar ungur hvítur nemandi mótmælir því að hann hafi skrifað N-orðið á töfluna – hann er að kenna smásöguna „The Artificial Nigger“ eftir Flannery O’Connor. Hann ver notkunina og er sendur í „frí“. Svo sjáum við hann reyna að selja skáldsögu sína, sem byggir á Persunum eftir Æskylos, en fá það svar frá útgefendum að bókin sé einfaldlega ekki „nógu svört“ – hafi ekkert að segja um „hina svörtu upplifun“. Á sama tíma verður hann var við velgengni ungrar svartrar konu, Sintöru Golden, sem hefur nýverið gefið út bókina We’s lives in da ghetto – Sintara er háskólagengin forréttindakona og „virðulega“ máli farin en skrifar á þykku ebonics-máli, sögur um einstæðar svartar gettómæður og gangsterana sem þær elska. Þetta verður til þess að Monk ákveður að reyna fyrir sér með svipuðum hætti – undir dulnefni þó – og skrifar My Pafology (sem er síðar endurnefnd Fuck ) og nær fyrirsjáanlegum vinsældum. Þetta var ágæt mynd. Hún fór kannski heldur grunnt í flesta karaktera sína og var hugsanlega sterkust þegar hún var ekki að reyna að vera allegoría – sagan af systkinunum og af ástarmálaþreifingum Monks var miklu sterkari en allegorían, sem markeraðist af því að slá stöðugt úr og í, af ótta við eiginlega afstöðu. Og persónurnar í fjölskyldunni voru raunverulegri á meðan persónurnar í bókmenntaheiminum voru meira einsog Southpark persónur – sem getur verið alltílagi, en misræmið gekk ekki upp. En hver er allegorían? Hvað tengir óvertúrinn – kennslustundina – við meginbálkinn? Átök manns við væntingar annarra til sín og/eða eitraða/mótsagnakennda afstöðu þeirra? Hvítir vilja banna svarta manninum að skrifa N-orðið á töfluna – haft eftir hvítri konu sem skrifaði fyrir 80 árum – en þeir vilja að hann skrifi sjálfur í eigin nafni skáldsögur fullar af N-, F- og MF-orðum. Monk er síðan auðvitað ekki bara svartur rithöfundur – hann er líka miðaldra, jafnvel á jaðri þess að vera gamall. Hann er fulltrúi gamalla bókmennta, skrifar uppúr Æskylosi, eitthvað sem við fáum aldrei að sjá eða upplifa – í myndinni er af og til vitnað í Fuck og We’s lives in da ghetto , þeim til háðungar, en það eru aldrei nein dæmi, svo ég muni, um góðar bókmenntir, hvorki tilvitnanir né neimdropp til þess að gefa okkur vísbendingar um það hvers konar „gæðabókmenntir“ Monk skrifar/fílar (ef frá er talin Alcools eftir Appollinaire sem er alltaf á borði agentsins – og auðvitað Persarnir eftir Æskylos). Í einhverjum skilningi þarf gremja hans gagnvart „nýju bókmenntunum“ alls ekki að vera tengd kynþáttamálum og gæti staðið alveg án þeirra – Kerouac mætti sams konar gremju eldri fauska, allt nýtt og villt gerir það, í öllum listgreinum; einhverjir muna kannski eftir gamalli ritdeilu á Kistan.is um „bloggmenntir“ eftir útgáfu skáldsögunnar Vaknað í Brussel eftir Elísabetu Ólafsdóttur (sem þá var þekktur bloggari, Beta Blogg a.k.a. Beta Rokk), gott ef þar tókust ekki á Ágúst Borgþór, fyrir ákæruvaldið, og Kristján B. Jónasson varði (hann var ritstjóri Elísabetar). Ég hugsaði líka oft til tveggja annarra dæma – þótt ég viti ekki alveg hvernig þeim var tekið, hvort þau fengu þessa tegund af krítík, en ég held þau hafi fengið þessa tegund af hyllingu. Annars vegar eru það bækur JT Leroy – utangarðsbækur sem áttu að vera hálf-sjálfsævisögulegar en reyndust skrifaðar af einhverri saklausri úthverfakonu – og hins vegar Ett öga rött eftir Jonas Hassen Khemiri sem er skrifuð á úthverfasænsku, en kynnt af rithöfundi sem talar sjálfur (a.m.k. á sviði og í viðtölum) „virðulegri“ sænsku. Monk og Sintara eiga það síðan sameiginlegt að vera bæði að „þykjast“ í einhverjum skilningi – en ekki þó alveg á sama hátt. Monk býr til karakter, Stagg R. Leigh, sem á að vera til og sem hann leikur af og til. Hann segir reyndar að Fuck sé ekki sjálfsævisöguleg heldur einhvers konar saga allra svartra bandaríkjamanna – lýsing á raunsönnum aðstæðum. Sintara gefur ekki heldur í skyn að bækur hennar séu sjálfsævisögulegar, eða að hún sé gettóbarn, heldur segist hún stunda rannsóknir og vitnar jafnvel orðrétt í fólk til þess að auka á ektleika skrifa sinna (eitt gott töts er þegar hún situr og les White Negroes eftir Lauren Michele Jackson, sem fjallar um menningarnám á svörtum kúltúr og hvernig hvítir græði ævinlega á því – sem vekur óhjákvæmilega upp tvær spurningar: a) ætlum við að fara að finna að því nú þegar svartir eru farnir að hafa sína eigin menningu að féþúfu, jafnvel þó það sé klisjukennt og b) er húðlitur næg réttlæting á menningarnámi efri-millistéttarinnar á kúltúr fátækra utangarðsmanna?). Allegorían í American Fiction spyr margra áleitinna spurninga og forðast afstöðu – það eru meira að segja bærilega framkvæmdir meta-fimleikar með þrem- fjórum snúningum í restina til þess að koma í veg fyrir að sagan verði nokkurn tíma sú fullyrðing sem formið kallar á. Og það er í sjálfu sér skemmtilegt. Ég veit ekki hvort mér finnst spurningarnar samt nægilega þungar til þess að verðskulda þessi undanbrögð. (Drasl er drasl; klisjur eru klisjur; viðkvæmni fólks er löngu komin úr böndunum og „N-orðið“ er bara önnur stafsetning á sama orði; það þarf ekki að fara all-in pc gone mad til þess að leyfa sér smá fullyrðingagleði). Og ég velti því líka fyrir mér hvar og hvort „allegorían“ sem frásagnarmáti skilji sig frá „skáldsögunni“ – er hægt að segja góða allegoríu sem hefur loðinn boðskap? Ég tek gjarnan undir með fullyrðingum af því tagi að skáldsögur eigi að spyrja spurninga en ekki svara þeim – þegar rætt er um að bókmenntir geti verið hættulegar, þá er það einmitt þessi skortur á fylgispekt sem veldur, hæfileiki skáldskapsins til þess að sá efa í brjóst hinna vissu – en ég er í augnablikinu ekki viss um að styrkur allegoríunnar liggi þar. Hefði Dýrabær verið betri ef það hefði verið opið fyrir það að Napóleon væri að gera sitt besta og þegar nánar væri að gáð þá hefði meðalaldur í raun hækkað mjög við valdatöku hans og dýrin fengið ókeypis lestrarkennslu og tannlækningar, sem hefði sannarlega ekki verið í boði hjá bóndanum, fyrirrennara hans? Væru Black Mirror þættirnir betri ef við fengjum líka að sjá allt hið góða sem tæknin hefur gert fyrir okkur? Myndum við skilja píslarsöguna betur ef okkur þætti Jesús kannski pínulítið hafa átt þetta skilið? En auðvitað er American Fiction að reyna að fara bil beggja. Að stilla upp sterkri allegoríu en neita því á sama tíma að vera allegoría – annars vegar með afstöðuleysi gagnvart eigin spurningum og hins vegar með tveimur settum af karakterum og sögusviðum, einu sem er raunsæislegt og þar sem persónurnar eru marglaga fólk að díla við hversdagslegar harmsögur, og öðru sem er ýkt og þar sem persónurnar eru staðgenglar fyrir hóp af fólki, steríótýpur (líberal kvenhöfundurinn sem vill réttlæti; íhaldssami karlhöfundurinn sem vill „guts“; kvikmyndaframleiðandinn sem vill bara græða; sleikjulegu forleggjararnir sem vilja þjónka við metsöluhöfundinn; leiðu en samúðarfullu forleggjarnir sem neyðast til að valda vonbrigðum; verðlaunastjórnin sem neyðist til þess að auka á fjölbreytileika og inngildingu). Kannski er áhugavert að staldra aðeins við karakter Sintöru sem við sjáum fyrst einmitt sem erkidæmi um allt sem er að bókmenntunum – hún skrifar steríótýpískt drasl en nýtur gríðarlegra vinsælda – en fær svo einhvers konar væga uppreisn æru eftir því sem líður á myndina, í því að hún virðist líka telja að skáldsagan Fuck sé einfeldningslegt drasl sem afskræmi líf svartra bandaríkjamanna. Og hún fær að virka sem „eðlileg“ manneskja innanum hina rithöfundana – sem eru ýktir. Þegar þau Monk takast aðeins á um fagurfræði í einni senunni er niðurstaðan „raunsæisleg“ – þau lenda ekki á neinum punkti, en tengjast samt, og okkur er leyft að halda að hugsanlega hafi Monk einfaldlega dæmt bókina (sem hann hefur ekki lesið) of hart. En það er líka opið fyrir að Sintara sé einfaldlega vel gefin og hefði getað skrifað miklu betri bók en valið að skrifa þá sem hún græddi mesta peninga á – og að sálarheill sjálfrar sín vegna velji hún að bæla það sem hún veit, að We’s lives in da ghetto sé drasl, en sú bæling brjótist svo jafnvel út sem harðari fordæming á verkum sem minna hana á We’s lives in da ghetto , einsog Fuck hlýtur að gera. Það er spurning hvort það hefði mátt bjarga þessu einfaldlega með því að láta Monk sjálfan vera meira afgerandi – meira líkan sjálfum sér í fyrstu senunni. Hann verður bæði bljúgari og átakafælnari eftir því sem á líður, meira einsog hann stefni í kulnun en brjálæðiskast (tímanna tákn). En þá hefði höfundurinn lent í þeirri gryfju að áhorfendur, einsog lesendur, kenna gjarnan núorðið höfundinum um söguhetjur sínar, ef það er ekki hafið yfir allan vafa að þær séu málpípur þeirra. En þá verður líka eftirbragðið ófullnægjandi, þegar afstaðan er loðin, vegna þess að maður fær það á tilfinninguna að höfundurinn vilji segja eitthvað mjög tiltekið en hafi annað hvort ekki klárað að hugsa það til enda eða þori ekki að segja það. Kannski hefðu þetta líka bara mátt vera tvær myndir. Eitt svona Six Feet Under fjölskyldudrama og önnur svona Dýrabær. Ekki þar fyrir – þetta var ágæt mynd.

Opnunartími sláturhússins

Á dögunum horfði ég á hálfan YouTube-ritdóm um ljóðabók eftir skáldið Atticus, sem ég hafði aldrei heyrt minnst á áður. Þetta birtist bara í algóritmíska flæðinu mínu – yfirskriftin var eitthvað á borð við „ER ÞETTA VERSTA LJÓÐABÓK SEM ORT HEFUR VERIÐ???“ og þetta fannst mér, fyrrum aðstandanda Íslandsmeistaramótsins í ömurlegri ljóðlis t , eðlilega áhugavert. Svo ég smellti. Það stóð svo auðvitað heima. Atticus var að sönnu ekki gott skáld – en þó mjög vinsælt, í einhverjum kreðsum sem ég verð ekki var við. En reyndar var ritdómarinn, Rachel Oates, kannski ekki mjög góður ritdómari heldur. Til þess að undirstrika ömurleika Atticusar valdi hún t.d. að bera hann saman við Shakespeare og John Donne – það er heldur ósanngjarnt – og að auki fannst mér allar túlkanir hennar á ljóðum þeirra Atticusar, Shakespeare og Donne alveg óþolandi kreddukenndar. Ég stóð mig meira að segja að því að fara að verja lélegar ljóðlínur Atticusar í höfðinu – einfaldlega vegna þess að það var þrátt fyrir allt meira í þær spunnið en hún vildi vera láta (þótt það væri ekki endilega mikið eða línurnar sérlega frumlegar). Ég hef reyndar langvarandi antípat á bókmenntum sem mér þykja of-fágaðar – það er margt mikilvægara í bókmenntum en að gera hlutina „vel“ – en það er sennilega önnur Ella. Svo rek ég mig óvenju oft á það þessa dagana að vera ósammála bókmenntalegum útleggingum fólks (t.d. á sögunum í Dubliners, sem ég hef verið að endurlesa, eftir misheppnaðan lestur við lok síðasta mánaðar). Jafnvel svo ég reiðist. Kannski er bara í mér einhver mótþrói. Sem er ágætt, ég kann vel við það. Nú vill YouTube-algóritminn líka helst ekki að ég horfi á neitt annað en slátranir á einhverjum instagramskáldum – ekki síst Atticusi og Rupi Kaur en líka Bo Burnham og Megan Fox og alls konar fólki sem á það sameiginlegt að vera vinsælt en skrifa einsog starfsfólkið í ísskápaseglaverksmiðjunum. Og ekki bara frá Rachel Oates heldur sýnist mér vera heill her af til þess að gera ungum YouTuberum sem nærir vinsældir sínar með því að ranta um léleg ljóð. Sem er bæði áhugavert og gleðilegt – ekki bara að fólki finnist vond ljóðlist vond (sem er fagnaðarefni) heldur að fólk eyði, það best ég get séð, líka talsverðu púðri í að lesa, túlka, ræða og bera áfram betri ljóðlist (og vonandi líka eitthvað nýlegra en Shakespeare og John Donne). Og algóritminn virðist styðja þetta. Skál fyrir því.

Völundarhús Rorschachs

Djasshausinn úr síðustu færslu var æfur eftir endursögn mína á forvitni hans um Ulysses í samdrykkjunni (gr. Συμπόσιον) á mánudagskvöld. Ég sagði einsog glöggustu lesendur minnast að hann hefði spurt hvort það væri eitthvað meira í henni en „vísanir og vesen“ – sem var í sjálfu sér hluti þess sem hann sagði – en ég sleppti úr því sem honum þótti vera lykilhluti spurningarinnar, og sneri að því hvort verk af þessu tagi væru kannski áþekk blekklessuprófum heilsugæsluforstjórans Hermanns Rorschachs. Klessur þær eru af sama tagi og klessan í andliti teiknimyndasögupersónunnar Rorschachs sem má sjá kúra sig ofan í Ulysses á myndinni sem fylgir þessari færslu. Um þessi próf segir Vísindavefurinn meðal annars: Rorschach-prófið er stundum notað af klínískum sálfræðingum, geðlæknum eða öðrum klínískum sérfræðingum til að reyna að skyggnast inn í hugarheim skjólstæðinga sinna, kynnast tilfinningum þeirra og löngunum og kanna tengsl þeirra við aðra. Sérfræðingurinn gæti sagt eitthvað á þessa leið: „Fólk sér ýmiss konar hluti út úr þessum myndum. Segðu mér hvað þú sérð, hvaða hugsanir það vekur og hvað þær tákna fyrir þig.“ Sérfræðingurinn reynir svo að finna þemu í svörum fólks, til að mynda hvort þau snúist flest um ofbeldi, kvíða eða kynlíf. Einnig athugar hann hvort fólk veiti smáatriðum myndanna athygli eða horfi fremur á heildarmyndina, og hvort fólk hiki við að svara hvað því detti í hug þegar það sér vissar myndir. Hvað varðar spurningu djasshaussins gekk hún út á að ákvarða hvort Ulysses væri hugsanlega svo torskilin að maður læsi bara úr textanum það sem maður vildi, enda illmögulegt að komast að því hvað rithöfundurinn meinti –  hún væri þannig meira einsog einhvers konar Rorschach-próf fyrir lengra komna. Þessu svaraði ég að mig minnir á þá leið að í raun væru öll listaverk þeim galdri gædd að við læsum sjálf merkingu í þau, bækur þyrftu ekki að vera torlesnar til þess, það ætti jafnt við um Bláu könnuna og Ulysses. Kannski tökum við því sem gefnu þegar við lesum Bláu könnuna að okkur sé frjálst að túlka hana að eigin vilja og færa rök fyrir því út frá því sem stendur í bókinni einmitt vegna þess að við eigum gott með að ná utan um allt sem í henni stendur – annars vegar vegna þess að hún er a.m.k. við fyrstu sýn frekar hrein og beint og hins vegar vegna þess að hún er svo stutt að jafnvel minnislausir fábjánar einsog ég gætu sennilega lagt hana alla á minnið á innan við korteri. Rorschachprófið er hins vegar ekki hreint og beint – frekar en Ulysses – og þess vegna þarf að gera fólki ljóst fyrirfram að það eru engin rétt og röng svör. Ef blekklessan minnir þig á magðalenukökurnar sem móðir þín færði þér einu sinni í rúmið er það bara rétt – og skiptir engu þótt þær minni næsta mann á hirðfífl úr barnæsku þess, einhvern taumlausan galgopa sem hafi djöflast með hann á bakinu. Svo einfalt er það yfirleitt ekki í listum – og nánast aldrei í löngum prósaverkum. Lausnirnar eru kannski ekki algildar, og stundum eru þær mjög loðnar, en þær eru til staðar. Kaflarnir í Ulysses byggja t.d. mismikið á ólíkum þáttum Odysseifskviðu og þeir gera það á ólíkan máta – Sírenukaflinn er í einhverjum skilningi hálfgert hljóðaljóð, á meðan Kýklópurinn birtist sem æfur þjóðernissinni og Odysseifur fer aldrei að Villuhömrum þótt Ulysses noti tækifærið. Stephen Dedalus ER heldur ekki Telemakkus og Leopold Bloom ER ekki Odysseifur – þeir eru ekki heldur Hamlet og Kládíus, James Joyce og faðir hans, Guð og Jesús – þeir eru bara Dedalus og Bloom. (Dedalus er heldur ekki James Joyce en það segir okkur eitthvað um Joyce að hann hafi valið alter-egói sínu nafn frægasta völundarhússmiðs goðafræðinnar – sem smíðaði líka vængi Íkarusar, sem notandinn skemmdi með gáleysislegri túlkun á notkunarmöguleikum þeirra). En okkur er boðið að spegla aðstæður þeirra og þá sjálfa í öðrum aðstæðum og öðrum sögupersónum – að bera þetta saman. Þetta er sérstaklega relevant þegar James Joyce er annars vegar vegna þess að hann beitti parallax (snara: „sýndarhliðrun, breyting á afstöðu tiltekins hlutar til annarra hluta þegar hann er skoðaður frá mismunandi stöðum“) grimmt í bókum sínum – ekki síst með því að sýna okkur sama atburðinn oftar en einu sinni, en líka með því að raða örlögum söguhetja sinna ofan á örlög annarra söguhetja. Án ólíkra sjónarhorna verður engin sýndarhliðrun – og án hennar engin dýpt (eða a.m.k. ekki jafn mikil). Tökum sem dæmi tvær frægar senur úr sitthvorri bókinni. Ég hef áður fjallað um Násikusenuna þegar Leopold Bloom starir á Gerty McDowell á ströndinni – senan er skrifuð út frá Gerty sem nýtur þess að láta horfa á sig, og beygir sig meira að segja fram svo Bloom sjái upp um pilsið á henni, meðan hann fróar sér og fær það um leið og það hefst flugeldasýning niðri í bæ (þetta er kaflinn sem Ulysses var upphaflega bönnuð vegna – svo komu aðrir enn verri). Í The Portrait of the Artist as a Young Man er svo sena þar sem Stephen Dedalus ráfar niður á strönd í mikilli tilvistarkrísu. Eftir að hafa skriftað mjög hressilega um lostafullar hugsanir sínar og gjörðir og eignast þar með endurnýjað tækifæri til himnaríkisvistar í framtíðinni gerist hann um hríð ógurlega guðrækinn, af umhyggju fyrir ódauðlegri sálu sinni, enda þykist hann vita að þótt hann fari ekki til helvítis verði dvölin í hreinsunareldinum varla stutt. Svo vel gengur honum í þessari guðrækni að jesúítarnir sem reka skólann taka hann á endanum á eintal og spyrja hvort hugsast geti að hann hafi verið útvalinn af Guði til þess að gerast prestur. Í fyrstu ölvast hann af tilhugsuninni en boðið verður samt á endanum til þess að hann lætur af guðrækninni – hann áttar sig á því að þetta er ekki eðli hans, hann hefur verið að gera sér þetta upp, hann mun falla (og kannski eru prestarnir heldur ekkert merkilegir). Það er í þessu ástandi sem hann kemur niður á strönd og sér þar stúlku sem hefur vaðið út í sjó og er með pilsið upp um sig – langt upp á mjaðmir. Stephen hefur ekki svo mikið sem litið framan í kvenkyns veru vikum saman – hann hefur horft niður fyrir sig þegar hann gengur eftir götum og gætt sín að öllu leyti að láta ekki lostann ná tökum á sér. Og það er ekki beinlínis losti sem heltekur hann þarna á ströndinni, frammi fyrir þessum lærum, heldur einhver hugmynd um fegurðina. Hann horfir á hana – hlutgerir hana – í dálitla stund. Svo verður hún vör við hann: She was alone and still, gazing out to sea; and when she felt his presence and the worship of his eyes her eyes turned to him in quiet sufferance of his gaze, without shame or wantonness. Long, long she suffered his gaze and then quietly withdrew her eyes from his and bent them towards the stream, gently stirring the water with her foot hither and thither. The first faint noise of gently moving water broke the silence, low and faint and whispering, faint as the bells of sleep; hither and thither, hither and thither; and a faint flame trembled on her cheek.

—Heavenly God! cried Stephen’s soul, in an outburst of profane joy. Svo snýr hann sér undan og hleypur í burtu og sofnar á endanum úrvinda af ástríðu annars staðar á ströndinni. Það er á þessari stundu sem Stephen finnur köllun sína, að vera listamaður – hann bæði hafnar og fagnar lostanum, hafnar og fagnar hinu guðdómlega – „He felt above him the vast indifferent dome and the calm processes of the heavenly bodies; and the earth beneath him, the earth that had borne him, had taken him to her breast.“ Einsog að með því að játast augnaráði hans hafi stúlkan gefið honum leyfi til þess að finna til losta án þess að vera saurugur. Senuna með Bloom og Gerty má útvíkka með því að lesa hana saman við uppljómun Dedalusar – þetta er ekki sama senan, en ólík viðbrögð þeirra, sextán ára unglingsins og fertuga karlsins (sem hafa báðir óþroskaðar langanir til þess að skrifa) við „holdsins lystisemdum“ segja eitthvað um persónuleika þeirra og aðstæður. En það er ekki heldur neitt „rétt svar“ í þeim samlestri – bara stækkun myndlíkingarinnar og nokkrar áberandi spurningar um samband hafs og erótíkur, um hold og klæðnað, sjálfsstjórn og hedónisma, list og losta og bælingu. Og þar sem að Gerty kaflinn byggir á Násikukaflanum í Odysseifskviðu er alveg spurning hvort það megi líka lesa „fuglastúlku“-kaflann í Portrettinu út frá Násiku – að mörgu leyti passar hann nefnilega betur. Eftir að Odysseifur sleppur frá Kalypsó, sem hefur haldið hann sem elskhuga í sjö ár, lendir hann í sjávarháska og skolar loks upp á eyjunni Skerju, þar sem Feakar eiga heima. Þar ræður ríkjum Alkinóus nokkur og á hann dóttur sem heitir Násíka. Stríðsgyðjan Aþena, sem er að reyna að koma Odysseifi heim til sín í trássi við vilja Neptúnusar, fer að hitta unglingsstúlkuna Násíku og segir henni að fara niður á strönd (ekki reyndar fyrren hún er búin að skamma hana fyrir að taka aldrei til í herberginu sínu!) Þar finnur Násíka Odysseif nakinn og fer með hann til föður síns, þar sem hann rekur sögu sína frá því Trójustríðinu lauk (hér koma sögurnar um kýklópana og sírenurnar og lótusæturnar og allt hitt). Þegar hann hefur sagt sínar sögur fær Alkinóuss honum skip og hann kemst loksins heim. Násíka og Odysseifur fella vel að merkja hugi saman en Odysseifur lætur ekki freistast – hann á konu heima sem bíður og skilur hana eftir með góð ráð um það hvernig velja skuli annan mann. Hér finnst mér Dedalus og Odysseifur að mörgu leyti líkari en Bloom og Odysseifur. Í fyrsta lagi af því Dedalus fellur ekki í freistni þótt hann felli hug til stúlkunnar en ekki síst vegna þess að þessi atburður verður í báðum tilvikum til þess að Dedalus/Odysseifur fer og segir heiminum/Feökum sögur sínar. Og það verður þeim til frelsunar. Þá má sjá Trójustríðið sem lostatímabil Dedalusar, veruna hjá Kalypsó sem guðræknitímabilið og sjávarháskann sem tilvistarkrísuna sem skolar honum upp á þessa strönd. Það þarf kraftmeiri túlkun – meira Rorschach – til að koma Bloom hérna fyrir. Svo er auðvitað líka áhugavert að í báðum dæmum hjá Joyce er það nekt stúlkunnar sem vekur losta – en hjá Hómer er það nekt mannsins sem vekur ógn (vinkonur Násiku flýja) sem stúlkan yfirstígur. En raunar má sjá heilmikla storkun við samfélagsleg gildi – og hugrekki – í því hvernig Gerty sýnir upp um sig og því hvernig fuglastúlkan horfir á Dedalus til baka og fylgist með tignun hans án skammar eða girndar. Hvað segir þetta okkur um Hermann Rorschach? Sennilega ekki nokkurn skapaðan hlut. TL;DR útgáfan af þessari færslu er að auðvitað sé list túlkanleg en hún sé þó tilraun til að vekja ákveðið samhengi og hugrenningartengsl frekar en bara eitthvað samhengi og einhver hugrenningartengsl. Og hún á helst ekki að hafa eina afmarkaða merkingu – merking skáldsögu verður til í samstarfi við lesandann og best er ef báðir leggja sig svolítið fram. Og Joyce lagði sig mikið fram.

Torlestur

Í gær vorum við Aino ein í kvöldmat og ég eldaði kjúkling eftir uppskrift frá vini mínum Alberti „eldar“ . Á meðan ég var að preppa og svo gera salatið þegar kjúklingurinn var kominn í ofninn horfði ég á spjall þeirra Johns Banville og Will Self – ásamt stýrlinum (hann var stýrill, frekar en spyrill, og það er eiginlega betra) Carlo Gébler um Dubliners. Self og Banville voru ekki alveg á sömu línu um gæðin í ferli Joyce – hvort hann hefði batnað eða versnað – og ég veit ekki hvort það var rétt skynjað hjá mér að Self hefði eiginlega ekki þorað að hjóla í Írann sem dæmdi eiginlega allt eftir fyrsta þriðjung Ulysses sem glatað. En þetta var fjarska gott spjall og ánægjulegt að fá afstöðu einhvers sem dýrkar Joyce en þolir ekki Ulysses. Fyrir þá sem ekki vita þá skrifaði Joyce sem sagt fjögur prósaverk. Fyrst kom Dubliners (Í Dyflinni, í þýðingu SAM) – smásagnasafn um fólk í Dyflinni. Hann sendi hana fyrst til útgefanda 1905 en hún kom ekki út fyrren 1914, út af erjum um málfar og umfjöllunarefni, aðallega í sögunni Two Gallants, sem fjallar um tvær ólystugar týpur sem ætla að féfletta „léttúðardrós“ sem annar þeirra er í tygjum við. Maður gæti sagt að þetta væri fremur „venjuleg“ bók en hún mun samt að mörgu leyti byltingarkennd í frásagnartækni og umfjöllunarefni. Í fyrsta lagi er hún um mjög „venjulegt“ fólk – ekki kónga, ekki hetjur, ekki fólk sem lifir óvenju dramatískum lífum – heldur bara fólk sem er venjulegt (en samt einstakt) og gerir venjulega hluti. (Að vísu mun Joyce hafa haldið því réttilega fram einhvern tíma að það væri ekki til neitt „venjulegt fólk“ – og segja má að bækur hans sýni það). Þá færir hann sjónarhorn bókarinnar fremur frjálslega til og beitir mikið því sem heitir á ensku „free indirect speech“ – eða frjálst óbeint ávarp og lýsir sér þannig að í miðri setningu frá ósýnilegum 3. persónu höfundi birtist formálalaust hugsun sem augljóslega tilheyrir persónunni sem er verið að segja frá. Þetta er ekki nærri því jafn torlesanlegt og maður gæti ímyndað sér. Dæmi: Hann lagði niður skófluna og þurrkaði svitann af brá sér. Myndi þessu eilífa striti aldrei linna? Það sem sagt þarf ekki að setja hugsunina í gæsalappir eða skrifa „hugsaði hann“ – við föttum þetta alveg svona, þó engin greinileg skil séu sett í textann. Joyce er ekki fyrstur til að beita þessu þótt hann hafi gert mikið af því – Jane Austen gerði þetta til dæmis mikið. Joyce gengur svolítið lengra – í því að hann fer með okkur fjær persónum sínum á milli, skapar fjarlægð til þess eins að steypa okkur svo ofan í persónurnar fljótlega síðar. Næst kemur Portrait of the Artist as a Young Man (Æskumynd listamannsins í þýðingu SAM). Hún kemur fyrst út í köflum í tímariti (1914-1915) og svo á bók ári síðar. Þetta er hálfævisöguleg skáldsaga þar sem kynnumst Stephen Dedalus, fulltrúa Joyce, og fylgjum honum í gegnum unglingsárin. Hann er miklum gáfum gæddur og þegar faðir hans, Simon Dedalus, er ekki í tómum vandræðum sækir hann jesúískan heimavistarskóla með sér talsvert ríkari drengjum. Stephen er gríðarlega trúaður en líka andsetinn af losta og smám saman flæðir þessi trúarlega og kynferðislega orka út í þrá hans að verða listamaður. Bókin er intensífari en Dubliners og höfundurinn eftirlátssamari við tungumálið – stundum brestur á með mónólógum, ræðum frá prestum eða þjáðum hugsunum Stephens, sem eru jafnvel lengri en heilu sögurnar í Dubliners. Setningarnar eru líka lengri og óstýrilátari – lýsingarnar ítarlegri, þroskaðri en líka óhóflegri – og tungumálið fylgir þroska Stephens, orðaforðinn stækkar eftir því sem líður á bókina. Will Self held ég hafi sagt að textinn í Portrait væri þannig að hann gæti verið skrifaður af færum fagurbókmenntahöfundi í dag – þarna væru uppfylltar (og kannski að miklu leyti líka skapaðar) allar þær kröfur sem við gerum til fagurbókmenntatexta á 21. öldinni. Og bætti við eitthvað á þá leið að hjá Joyce (og hugsanlega öllum alvöru nútímahöfundum) væru sögurnar ekki UM eitthvað tiltekið, heldur væru þær sjálfur hluturinn, hið tiltekna. Ulysses er frægasta verk Joyce. Hún byrjaði að koma út í köflum árið 1918, kom út í heild 1922 en var bönnuð mjög víða í hinum enskumælandi heimi – þar sem hún birtist fyrst (í löglegri útgáfu og óritskoðuð) 1934. Í sjálfu sér er söguþráðurinn einfaldur. Tveir menn, ungi drykkfelldi listamaðurinn og gáfumennið Stephen Dedalus og kokkkálaði gyðingurinn Leopold Bloom ráfa í sitthvoru lagi um Dyflinni frá morgni og fram á nótt. Þeir eru byggðir á grunni Telemakkusar og Odysseifs í Odysseifskviðu Hómers. Annar er föðurlaus – eða á vonlausan föður – og hinn sonarlaus – missti sinn eina son ellefu daga gamlan fyrir áratug – og við bíðum þess að þeir finni hvor annan, faðirinn og sonurinn. Heima hjá Bloom bíður Molly, eiginkona hans, elskhuga síns (og þetta veit Leopold). Maður eyðir gjarnan mestu tíma í að ræða frásagnartæknina í þessari bók – enda er hún gersamlega trufluð, í öllum mögulegum merkingum þess orðs, og það gerast að minnsta kosti tíu byltingar áður en yfir lýkur. Þetta er svolítið einsog sami maðurinn hefði fundið upp bíboppið, tólf tóna tónlistina, pönkið og ambient techno og sett það allt á sama tvöfalda albúmið – sem á sama tíma segði magnþrungna sögu um eðli og sorgir mannsins og rammaði inn margslunginn pólitískan veruleika fullan af augljósum og duldum átökum á meðan hann undirstrikaði og spáði fyrir um firringu nútímamannsins næstu hundrað árin. Að minnsta kosti. Þetta er þannig bók. Það slær mig fyrst núna þegar ég skrifa þetta að Dubliners, Portrait og Ulysses birtust (eða byrjuðu að birtast) á einungis fjórum árum. Dubliners kemur öll í einu 1914 og fyrstu kaflar Ulysses byrja að birtast 1918. En nærri þrír áratugir líða frá því það á fyrst að gefa Dubliners út og þar til Ulysses berst frjáls um heimsins höf (og auðvitað viðeigandi að Ulysses sé týndur í stríði og á hafi í nærri tvo áratugi, einsog nafni sinn). Finnegan’s Wake hef ég ekki lesið. Hún kom út 1939, tveimur árum áður en Joyce dó. Það tók hann 17 ár að skrifa hana og hún ku innihalda fjöldann allan af ólíkum tungumálum, auk tilbúinna orða og endalausu upplýsingaflæði – hér er Joyce farinn að innbyrða svo mikið af upplýsingum að hann ræður ekki við að lesa þær sjálfur, er með fólk í vinnu við að lesa bækur og endursegja sér mikilvægu hlutanna (ég hef séð svona þjónustur auglýstar á YouTube í dag – hræðileg hugmynd). Tungumálið á henni er mjög torskilið og hún þykir miklu erfiðari viðfangs á allan hátt en Ulysses. Hún gengur líka í hring – fyrsta setningin í henni byrjar í miðju kafi („riverrun, past Eve and Adam’s, from swerve of short to bend of bay, brings us by a commodious vicus of recirculation back to Howth Castle and Environs“) og sú síðasta er augljóslega fyrri hlutinn af sömu setningu („A way a lone a last a loved a long the“). Það er vel að merkja á dagskránni að lesa hana. Nánar um það síðar! Nema hvað. Banville sem sagt hélt því eiginlega fram að Joyce hefði farið versnandi sem höfundur og raunverulegasta snilldarverk hans væri Dubliners – hann er alls ekki einn um að finnast það, vel að merkja, þótt hann bæðist ítrekað afsökunar á þessari heresíu – og sagði að Joyce hefði misst tökin á einhverju mennsku eftir því sem leið á ferilinn. Self maldaði meira í móinn en hann mótmælti, sem er honum ólíkt – mjög þráttgjarn maður. Svo í gærkvöldi var ég staddur í samdrykkju (gr. Συμπόσιον) með tryggum lesanda þessa bloggs sem fór að spyrja mig út í bókina. Ég man ekki hvernig hann orðaði það en hann vildi vita hvort Ulysses væri eitthvað meira en vísanir og vesen – hvort fróunin væri svipaðri því að hlusta á stórfenglega tónsmíð eða leysa erfiða krossgátu. Sem er í sjálfu sér svipuð spurning og Banville hefur spurt sig fyrir fordæmingu og svarað alveg öfugt við mig – sem finnst síðustu tveir þriðjungarnir á Ulysses vera þeir „mennskustu“. Þótt fyrsta senan með Bloom um morguninn í fjórða kafla sé raunar með því fallegasta sem ég hef lesið þá erum við enn svo langt frá honum. Þegar við erum farin að upplifa þrár hans í Nausicaa kaflanum eða komin ofan í óraplágur hans í hinu endalausa karnivali í kaflanum Circe – þvílíkt kaþarsis! – og fylgjumst svo með honum skríða aftur upp í hjá Molly sinni í Íþöku – þá erum við, einsog einhver orðaði það, farin að þekkja Bloom betur en við þekkjum nokkurn annan, að meðtöldum okkur sjálfum. Og ef það er ekki mennskt, menscht, human þá er engin mennska til. En svo er þetta auðvitað persónulegt og spurning um einhvern bakgrunn – hvað hefur maður lesið, hvað er maður vanur að lesa, hvers krefst maður af lestrarupplifuninni og hvað er dílbreiker. Það er sannarlega ýmislegt sem flækir lestur Ulysses og stundum er þetta einsog að ráfa um í myrkum helli án vasaljóss (en ef maður vill er nóg af vasaljósum til ). Fyrir sumum er djass eða pönk líka bara hávaði á meðan fyrir öðrum eru þau æðst lista, fegurst í ómstríðleika sínum og færust um að tjá angist og unað hins mannlega ástands, og langdýpst í sinni empatíu (þess má geta að áðurnefndur tryggur lesandi er mikill djasshaus en þolir ekki pönk). Ég hef tvisvar lesið Dubliners. Fyrst fyrir 25 árum og svo aftur um daginn, beint í kjölfarið á Ulysses – og ég rek mig á að ég hef eiginlega farið of áreynslulaust í gegnum hana og þar með gleymt sögunum óþarflega hratt. Ég bara svona sporðrenndi henni án þess að finna af henni bragðið almennilega. Sem er auðvitað alls ekki nógu gott – og ég ætla að lesa hana aftur mjög fljótlega til þess að bæta upp fyrir þetta.

Sjálflærðir menn og pólitískar skáldsögur

An illiterate, underbred book it seems to me; the book of a self taught working man, and we all know how distressing they are, how egotistic, insistent, raw, striking and ultimately nauseating. Virginia Woolf – dagbókarskrif um Ulysses Ætli séu ekki komnar tvær vikur frá því ég lauk við Ulysses (ekki það maður ljúki nokkurn tíma við Ulysses! Þvílík tilhugsun!) Og síðan þá er ég búinn að endurlesa þrjá kafla (af átján) og ýmislegt í kringum hana. Ég er enn hugsi og verð það sennilega bara; það er líka margt vitlausara hægt að gera við tíma sinn en að vera hugsi. Sem lestrarupplifun er hún einstök. Og einsog gerist um svo margt þá finnst mér hún ekki nærri því jafn torlesin nú þegar ég er búinn með hana og mér fannst þegar ég var að byrja að lesa hana. Að hluta til er það vegna þess að hún kennir manni smám saman að lesa sig – maður fær á endanum tilfinningu fyrir því hvenær er allt í lagi að sleppa takinu (maður þarf ekki að skilja allt) og hvenær maður þarf að grufla og endurlesa ef maður ætlar ekki að týnast. Að hluta til er það vegna þess að sumir kaflarnir eru margfalt skýrari í endurlestri. Og að hluta til er það vegna þess að maður (a.m.k. ég) hefur tilhneigingu til þess að gera lítið úr því sem maður lærir – finnast það sem maður veit, kann og skilur sjálfsagt, næstum einsog maður hafi alltaf kunnað það. Hin hliðin á því er óþolinmæði gagnvart því að aðrir viti/kunni/skilji ekki eitthvað sem manni sjálfum finnst sjálfsagt. Algengasta birtingarmynd þess er sjálfsagt pirringur yfir því að ungt fólk hafi ekki mikinn orðaforða eða sterka tilfinningu fyrir málfræði – það ímynda sér allir að þeir hafi verið miklu fróðari og klárari og sjálfstæðari þegar þeir voru ungir en þeir raunverulega voru. Ég rakst á þetta komment Virginiu Woolf einhvers staðar. Hún var ekki búin með bókina þegar hún skrifaði þetta og átti eftir að slá í og úr mörgum sinnum áður en yfir lauk – kallaði hana líka snilldarverk – einhver gerði því skóna að hún hefði verið í uppnámi því Joyce væri byrjaður að gera eitthvað sem hana dreymdi um að gera sjálf og hugsanlega betur en hún taldi sig sjálf geta gert. Og í sjálfu sér fannst mér ummælin um Ulysses ekki nærri því jafn svakaleg og afstaða hennar til sjálflærðra verkamanna. Ég dýrka Woolf og áttaði mig alveg á því að hún væri dálítið snobb – en þetta er nú samt svolítið yfirdrifið. Ekki það ég ætli að taka upp þann vana að dæma fólk (eða höfundarverk þeirra) út frá stökum setningum úr dagbókum þeirra. *** Fyrir helgi horfði ég á viðtal við Fríðu Ísberg á hinni rómuðu YouTube-rás Louisiana safnsins í Danmörku. Fríða er einn af mínum eftirlætis höfundum, svo það sé sagt. Í þessu viðtali sagði Fríða meðal annars eitthvað á þá leið margir forréttindahöfundar í okkar heimshluta hafi yfirgefið pólitíska debattinn – að miðaldra karlar hafi flúið inn í sögulegar skáldsögur og miðaldra konur flúið inn í frásagnir af sjálfinu eða fjölskyldunni, og að pólitíska umræðan eigi sér stað annars staðar, einna helst meðal höfunda sem tilheyra jaðarhópum, og lítið sé rætt í bókmenntum um það hvernig við viljum stýra þjóðfélaginu sem slíku. Ég staldraði við þetta. Sennilega vegna þess að ég er hvorki viss um að þetta sé rétt, né viss um að þetta sé alveg rangt heldur. Hún lýsir einhverri hreyfingu sem mér finnst kunnugleg en ber samt ekki alveg kennsl og get ekki sett fingurinn á. Það er ekki nýtt að ég staldri við hugtakið „pólitísk skáldsaga“ og þótt mig minni stundum að ég hafi einu sinni verið með henni í liði og jafnvel kallað eftir pólitískari bókmenntum þá hefur það líklega aldrei verið 100% einlægt ákall. Samt eru langflestar bækurnar mínar pólitískar. Það er bara þetta með fyrirvarana. Markmið slagorðasmiðs eða aktífista er að skapa vissu, en markmið bókmenntahöfundar er að rækta efa – eða í það minnsta að standa með honum, lifa í og sjá heiminn einsog hann er, skítugan og án vissu eða þeirra hreinu lína sem baráttufólk vill draga í kringum sína snyrtilegu málstaði. Aktífisti sem gefur færi á sér eða grefur undan eigin hugmyndum verður ekki langlífur – en það er akkúrat þar sem listin starfar, þar þjónar hún sérstökum tilgangi sem er ekki hægt að sinna neins staðar annars staðar, a.m.k. ekki með sama hætti. Skáldsaga sem leyfir sér einfaldlega að „hafa málstað“ ætti sennilega – einsog Milan Kundera orðaði það einhvern tíma – að hafa verið ritgerð. Ekki vegna þess að það sé eitthvað að ritgerðum – eða einu sinni slagorðum – heldur vegna þess að það er form sem hentar innihaldinu. Skáldsaga er einráð um sannleika sinn og verði einhver málstaður markmið hennar er hún eðli síns vegna alltaf á jaðri fasismans. En auðvitað eru fæstar „pólitískar skáldsögur“ svo predikandi. Ég hef ekki lesið margar pólitískar skáldsögur sem kunnu ekki að gefa perspektíf á sig, gefa færi á sér – þótt dæmi séu um bæði ágætis þannig bækur (1984) og síðri (Atlas Shrugged). Ég held að vel flestir höfundar sem leggi fyrir sig að skrifa skáldsögur með pólitískum þemum séu meðvitaðir um að reyna að forðast predikanirnar (og hafi jafnvel oft orð á því) – og það jafnt þótt þeir vilji bæta heiminn. Árangurinn er comme ci comme ca, einsog gengur. Það sem einum finnst óþolandi predikunartónn hreyfir ekki nálina á gremjumæli einhvers annars. Svo finnst okkur mjög einsog frægt er gaman að fá okkar eigin lífsviðhorf staðfest í skáldskap – það er hluti af þeirri huggun sem skáldskapur veitir (en auðvitað leita ekki allir huggunar í skáldskap, sumir þvert á móti) – og stundum tökum við ekki eftir fagurfræðilegum takmörkunum þess sem fróar velsæmi okkar eða hneykslunarkennd. Skáldsaga getur líka varla verið hrein pólitísk afurð – ekki einsog ljóð eru stundum (hræðileg, undantekningalaust, rímuð, oftast, flutt í viral-myndbandi af óhikandi sjálfsöryggi, já takk!) Það er bara hægara sagt en gert að vera nógu viss í meira en nokkrar blaðsíður í senn. Yfirleitt taka bókmenntirnar völdin fyrir rest, efinn. Ég átta mig ekki heldur vel á því hvar skilin eru – hvenær er skáldsaga nógu pólitísk til að vera „pólitísk“ – og staldra við þessi orð Fríðu um flóttann, sögulegu skáldsögurnar og sjálfs- og fjölskyldubækurnar. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hæpið að draga þessa tvo flokka út fyrir sviga. Ég man ekki eftir mörgum sögulegum skáldsögum sem ég myndi ekki kalla pólitískar – mér detta í hug Mánasteinn og Tugthúsið sem nýleg og augljós íslensk dæmi, bækur Colsons Whitehead sem nýleg amerísk, Wolf Hall-trílógían í Bretlandi (þótt Mantel sé að vísu ekki miðaldra karl). Og sjálfið – er Chris Kraus ekki pólitísk? Elísabet Jökuls? Annie Ernaux? Og raunar sýnist mér flest genre eiga bæði rammpólitískar greinar og nær ópólitískar … Sem opnar auðvitað á hina hliðina á þessari sömu spurningu: getur skáldsaga verið ópólitísk? Getur hún verið frjáls undan þátttöku í samræðunni um það í hvers konar samfélagi við lifum og viljum lifa í? Og segjum að manni takist að skrifa skáldsögu sem er svo gersneydd allri byltingarhugsjón að hún styðji allt í veruleikanum nákvæmlega einsog það er – er það ekki rammpólitísk hugmyndafræði í sjálfu sér? Ekki þar fyrir að ég fæ alveg jafn ægilega aulahroll og aðrir þegar fólk spyr sposkt hvort það sé ekki líka óskaplega pólitískt að yrkja um fegurð blómanna. En það breytir því svo sem ekki heldur að það hvar við drögum línuna – hvert og eitt – er sjaldan rætt eða rökstutt.

Hið samhengislega líf

Áðan heyrði ég ungling æpa á vin sinn úti á götu að þetta (hvað sem „þetta“ nú var) væri það „samhengislegasta sem [hann hefði] á ævinni upplifað.“ Og það var á honum að heyra að nú væri komið nóg – hann gæti bara ekki meira samhengi. Svona líður mér oft. Einsog dagana skorti fleiri tilviljanir. Þetta var augnabliki eftir að ég gekk framhjá hópi leikskólastúlkna og heyrði eina þeirra hvísla að vinkonu sinni „hann er mjög suspicious“. Ég var að sönnu með sólgleraugu og hatt og þannig fólk er jafnan mjög suspicious. En kannski var hún ekki að tala um mig. Það er kannski óþarfa sjálfhverfa – kannski mér hafi liðið eitthvað suspicious. Sjálfur tala ég oft um að hitt eða þetta sé „söspekt“ og meina það saman, en segi þetta vegna þess að mér finnst þessi -cious ending falla illa að máli mínu. Á laugardaginn var ég á Aldrei fór ég suður þegar til mín kom ónefnd íslensk stórstjarna (það var krökkt af þeim á svæðinu, eðli málsins samkvæmt) til þess að þakka mér fyrir Náttúrulögmálin. Viðkomandi stjarna lagði meira að segja upp mikla stílgreiningu og hafði augljóslega velt því fyrir sér hvað hún ætlaði að segja – þetta var ekki úr lausu lofti gripið, heldur sýndi skilning og innsæi, og var afar höfðinglega mælt. Eftir dálítil ræðuhöld, sem ég þakkaði fyrir með kurteislegum hneigingum – við stórstjarnan erum málkunnug en þekkjumst ekki beinlínis, pissuðum einu sinni í kross að sumarnóttu fyrir margt löngu síðan og höfum aldrei orðið nánari en sem því nam – hætti stjarnan að tala í miðri setningu og sagði við félaga sína, sem stóðu þarna líka, að hún þyrfti að fara. „Eiríkur er svo órólegur.“ Ég hváði. „Það er svo óróleg orka í þér“, hélt stjarnan áfram. Ég baðst velvirðingar, kannaðist við þetta – var eitthvað vandræðalegur – og sagði, einsog ég geri oft, að það væri ekki tilviljun að ég ynni við að fá ofsjónir, lokaður einn inni í herbergi, stundum dögum, jafnvel vikum (!), saman, ég kynni ekkert að vera innanum fólk og reyndi að gera ekki of mikið af því. „Þú ert ekkert innanum fólk“, sagði stjarnan þá. Ég leit í kringum mig. Ég veit ekki hvað það voru mörg þúsund manns á svæðinu. „Ha?“ sagði ég (við vorum samt ekki í hávaðanum, ég heyrði ágætlega, við stóðum við barinn frammi, en samt umkringd fólk). „Þú ert ekki…“, sagði stjarnan og hikaði í augnablik. „… innanum fólk.“ Ég hló eitthvað, einsog til þess að fullvissa mig (okkur) um að hún væri að gera að gamni sínu, en þá endurtók hún þetta bara. Og sneri sér svo í burtu og fór. *** Ég kláraði Ulysses einhvern tíma um daginn. Og get ekki beðið eftir að lesa hana aftur. Ætla þá að taka SAM-þýðinguna. Er að sinna alls konar í millitíðinni – er búinn með Odysseifskviðu í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar (hef gluggað með í Chapman þýðinguna frá 17. öld), Í Dyflinni í þýðingu SAM og The Most Dangerous Book: The Battle for James Joyce’s Ulysses eftir Kevin Birmingham. Á nátthillunni bíða hin fræga ævisaga Richards Ellmans, A Portrait of the Artist as a Young Man (sem ég hef lesið en man illa) og Finnegan’s Wake – sem verður varla lesin fyrren eftir að ég er búinn að lesa Ulysses a.m.k. einu sinni í viðbót. Svo er ég búinn að horfa á þrjár Hamlet-kvikmyndanir – þá með Laurence Olivier frá 1948, þá með Ethan Hawke frá 2000 (sem gerist í Denmark Corporation) og þá með Smoktunovsky í leikstjórn Grigorís Kozintsev frá 1964. Ég ætla líka að horfa á þá með David Tennant frá 2009 og Hamlet liikemaailmassa (Hamlet Goes Business) með Pirrka Pekka Petelius í leikstjórn Akis Kaurismäki frá 1987. En sú gerist líka í viðskiptaheiminum einsog sú með Ethan Hawke – en ég held að þar sé ekki stuðst við texta Shakespeares einsog í hinum (sú rússneska notar þýðingu Borisar Pasternak – en undirtextinn (!) var frá Shakespeare sjálfum). En þessi verk hanga einsog frægt er svolítið saman. Þetta eru feðradrömu og ástardrömu. Hvað mega konur gera í fjarveru þeirra manna sem þær hafa heitist (fjarveran er ólík – dauði í Hamlet, týndur í stríði í Odysseifskviðu, og erótísk fjarvera og hjónabandsdoði í Ulysses). Og hvað ber sonum þeirra að gera í því til að vernda heiður feðra sinna (og að einhverju leyti mæðra líka)? Ulysses er skrifaður ofan á Odysseifskviðu en með Hamlet-sprettum og vísunum. Einn kaflinn, Skylla og Karibdís, er bókmenntafræðilegar þrætur gáfumannasöfnuðar um feður og syni í Hamlet – þar sem kenningar Stephens Dedalusar (sem er Telemakkus, en líka Joyce sjálfur, og líka Hamlet, sem er líka Hamnet sonur Shakespeares, líka Shakespeare, sem er líka draugurinn og þar með líka afi sinn – ef eitthvað er að marka Stephen Dedalus – og eins myndi ég vilja segja að Joyce sé ekki bara Dedalus hinn ungi heldur líka Bloom hinn gamli og maðurinn í Macintosh frakkanum, að lágmarki) eru í aðahlutverki. En Hamlet og Odysseifskviða tengjast líka sjálfstætt – ekki síst í gegnum Laertes, manninn sem drepur Hamlet, son Pólóníusar, því nafnið „Laertes“ fékk Shakespeare beint frá Hómer: Laertes er faðir Odysseifs, sem hefur dregið sig í hlé á býli sitt til að syrgja Odysseif, en vígbýst og berst með syninum endurkomna og sonarsyni fyrir rest. Ég hef hins vegar ekkert séð út úr þessari tengingu – nöfnin í Hamlet eru sannarlega ekki mjög dönsk og ekki einu sinni með svipaðan uppruna, sum germönsk og önnur latnesk, og kannski eru þau bara gripin af handahófi (nema auðvitað Hamlet, sem er bæði Amlóði og Hamnet Shakespeare). Hamlet er annars líka svolítið einsog hugartilraun um hvað hefði gerst ef Odysseifur hefði bara drepist (kannski í átökunum þegar hann kom heim) og Penelópa hefði gifst einhverjum biðlanna (Evrýmakkus er líkastur Kládíusi). Og Telemakkus hefði þá fyrst lufsast heim frá Spörtu án þess að vera með neitt plan (frekar en fyrri daginn). Það er talsverður væfilgangur – amlóðagangur, hamletska – í Telemakkusi. En ef það er væfilgangur í Stephen Dedalus birtist hann á annan hátt. Í Ulysses er það faðirinn sem er passífur og fullur efasemda en sonurinn sem er fljótur að grípa til vopna – sem í tilfelli Dedalusar eru ógurlegar gáfur hans (og ef maður tekur honum sem staðgengli Joyce, þá á hann það líka sameiginlegt með Odysseifi, föðurnum, að vera mjög sjálfhælinn þegar hann segir „hlutlausar“ sögur af sjálfum sér; en alltaf þegar Odysseifur dulbýst nýtir hann tækifærið til að fara að tala um hvað Odysseifur sé mikill bógur). Sonurinn í Ulysses er líka ofsalegasti drykkjurúturinn í bókinni og uppáferðir hans með mellunum í Nighttown eru kannski spegluð útgáfa af svallveislum biðlanna með ambáttunum í húsakynnum Odysseifs og Penelópu. Því ekki hagar Telemakkus sér svona og ekki einu sinni Hamlet, þótt hann fari óvarlega með Ófelíu sína – frægasti drykkurinn í leikritinu er svo auðvitað drykkurinn sem hann drekkur ekki. Það er altso nóg að hugsa um.