Hið samhengislega líf

Áðan heyrði ég ungling æpa á vin sinn úti á götu að þetta (hvað sem „þetta“ nú var) væri það „samhengislegasta sem [hann hefði] á ævinni upplifað.“ Og það var á honum að heyra að nú væri komið nóg – hann gæti bara ekki meira samhengi. Svona líður mér oft. Einsog dagana skorti fleiri tilviljanir. Þetta var augnabliki eftir að ég gekk framhjá hópi leikskólastúlkna og heyrði eina þeirra hvísla að vinkonu sinni „hann er mjög suspicious“. Ég var að sönnu með sólgleraugu og hatt og þannig fólk er jafnan mjög suspicious. En kannski var hún ekki að tala um mig. Það er kannski óþarfa sjálfhverfa – kannski mér hafi liðið eitthvað suspicious. Sjálfur tala ég oft um að hitt eða þetta sé „söspekt“ og meina það saman, en segi þetta vegna þess að mér finnst þessi -cious ending falla illa að máli mínu. Á laugardaginn var ég á Aldrei fór ég suður þegar til mín kom ónefnd íslensk stórstjarna (það var krökkt af þeim á svæðinu, eðli málsins samkvæmt) til þess að þakka mér fyrir Náttúrulögmálin. Viðkomandi stjarna lagði meira að segja upp mikla stílgreiningu og hafði augljóslega velt því fyrir sér hvað hún ætlaði að segja – þetta var ekki úr lausu lofti gripið, heldur sýndi skilning og innsæi, og var afar höfðinglega mælt. Eftir dálítil ræðuhöld, sem ég þakkaði fyrir með kurteislegum hneigingum – við stórstjarnan erum málkunnug en þekkjumst ekki beinlínis, pissuðum einu sinni í kross að sumarnóttu fyrir margt löngu síðan og höfum aldrei orðið nánari en sem því nam – hætti stjarnan að tala í miðri setningu og sagði við félaga sína, sem stóðu þarna líka, að hún þyrfti að fara. „Eiríkur er svo órólegur.“ Ég hváði. „Það er svo óróleg orka í þér“, hélt stjarnan áfram. Ég baðst velvirðingar, kannaðist við þetta – var eitthvað vandræðalegur – og sagði, einsog ég geri oft, að það væri ekki tilviljun að ég ynni við að fá ofsjónir, lokaður einn inni í herbergi, stundum dögum, jafnvel vikum (!), saman, ég kynni ekkert að vera innanum fólk og reyndi að gera ekki of mikið af því. „Þú ert ekkert innanum fólk“, sagði stjarnan þá. Ég leit í kringum mig. Ég veit ekki hvað það voru mörg þúsund manns á svæðinu. „Ha?“ sagði ég (við vorum samt ekki í hávaðanum, ég heyrði ágætlega, við stóðum við barinn frammi, en samt umkringd fólk). „Þú ert ekki…“, sagði stjarnan og hikaði í augnablik. „… innanum fólk.“ Ég hló eitthvað, einsog til þess að fullvissa mig (okkur) um að hún væri að gera að gamni sínu, en þá endurtók hún þetta bara. Og sneri sér svo í burtu og fór. *** Ég kláraði Ulysses einhvern tíma um daginn. Og get ekki beðið eftir að lesa hana aftur. Ætla þá að taka SAM-þýðinguna. Er að sinna alls konar í millitíðinni – er búinn með Odysseifskviðu í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar (hef gluggað með í Chapman þýðinguna frá 17. öld), Í Dyflinni í þýðingu SAM og The Most Dangerous Book: The Battle for James Joyce’s Ulysses eftir Kevin Birmingham. Á nátthillunni bíða hin fræga ævisaga Richards Ellmans, A Portrait of the Artist as a Young Man (sem ég hef lesið en man illa) og Finnegan’s Wake – sem verður varla lesin fyrren eftir að ég er búinn að lesa Ulysses a.m.k. einu sinni í viðbót. Svo er ég búinn að horfa á þrjár Hamlet-kvikmyndanir – þá með Laurence Olivier frá 1948, þá með Ethan Hawke frá 2000 (sem gerist í Denmark Corporation) og þá með Smoktunovsky í leikstjórn Grigorís Kozintsev frá 1964. Ég ætla líka að horfa á þá með David Tennant frá 2009 og Hamlet liikemaailmassa (Hamlet Goes Business) með Pirrka Pekka Petelius í leikstjórn Akis Kaurismäki frá 1987. En sú gerist líka í viðskiptaheiminum einsog sú með Ethan Hawke – en ég held að þar sé ekki stuðst við texta Shakespeares einsog í hinum (sú rússneska notar þýðingu Borisar Pasternak – en undirtextinn (!) var frá Shakespeare sjálfum). En þessi verk hanga einsog frægt er svolítið saman. Þetta eru feðradrömu og ástardrömu. Hvað mega konur gera í fjarveru þeirra manna sem þær hafa heitist (fjarveran er ólík – dauði í Hamlet, týndur í stríði í Odysseifskviðu, og erótísk fjarvera og hjónabandsdoði í Ulysses). Og hvað ber sonum þeirra að gera í því til að vernda heiður feðra sinna (og að einhverju leyti mæðra líka)? Ulysses er skrifaður ofan á Odysseifskviðu en með Hamlet-sprettum og vísunum. Einn kaflinn, Skylla og Karibdís, er bókmenntafræðilegar þrætur gáfumannasöfnuðar um feður og syni í Hamlet – þar sem kenningar Stephens Dedalusar (sem er Telemakkus, en líka Joyce sjálfur, og líka Hamlet, sem er líka Hamnet sonur Shakespeares, líka Shakespeare, sem er líka draugurinn og þar með líka afi sinn – ef eitthvað er að marka Stephen Dedalus – og eins myndi ég vilja segja að Joyce sé ekki bara Dedalus hinn ungi heldur líka Bloom hinn gamli og maðurinn í Macintosh frakkanum, að lágmarki) eru í aðahlutverki. En Hamlet og Odysseifskviða tengjast líka sjálfstætt – ekki síst í gegnum Laertes, manninn sem drepur Hamlet, son Pólóníusar, því nafnið „Laertes“ fékk Shakespeare beint frá Hómer: Laertes er faðir Odysseifs, sem hefur dregið sig í hlé á býli sitt til að syrgja Odysseif, en vígbýst og berst með syninum endurkomna og sonarsyni fyrir rest. Ég hef hins vegar ekkert séð út úr þessari tengingu – nöfnin í Hamlet eru sannarlega ekki mjög dönsk og ekki einu sinni með svipaðan uppruna, sum germönsk og önnur latnesk, og kannski eru þau bara gripin af handahófi (nema auðvitað Hamlet, sem er bæði Amlóði og Hamnet Shakespeare). Hamlet er annars líka svolítið einsog hugartilraun um hvað hefði gerst ef Odysseifur hefði bara drepist (kannski í átökunum þegar hann kom heim) og Penelópa hefði gifst einhverjum biðlanna (Evrýmakkus er líkastur Kládíusi). Og Telemakkus hefði þá fyrst lufsast heim frá Spörtu án þess að vera með neitt plan (frekar en fyrri daginn). Það er talsverður væfilgangur – amlóðagangur, hamletska – í Telemakkusi. En ef það er væfilgangur í Stephen Dedalus birtist hann á annan hátt. Í Ulysses er það faðirinn sem er passífur og fullur efasemda en sonurinn sem er fljótur að grípa til vopna – sem í tilfelli Dedalusar eru ógurlegar gáfur hans (og ef maður tekur honum sem staðgengli Joyce, þá á hann það líka sameiginlegt með Odysseifi, föðurnum, að vera mjög sjálfhælinn þegar hann segir „hlutlausar“ sögur af sjálfum sér; en alltaf þegar Odysseifur dulbýst nýtir hann tækifærið til að fara að tala um hvað Odysseifur sé mikill bógur). Sonurinn í Ulysses er líka ofsalegasti drykkjurúturinn í bókinni og uppáferðir hans með mellunum í Nighttown eru kannski spegluð útgáfa af svallveislum biðlanna með ambáttunum í húsakynnum Odysseifs og Penelópu. Því ekki hagar Telemakkus sér svona og ekki einu sinni Hamlet, þótt hann fari óvarlega með Ófelíu sína – frægasti drykkurinn í leikritinu er svo auðvitað drykkurinn sem hann drekkur ekki. Það er altso nóg að hugsa um.

Dagur ljóðsins

Í dag er dagur ljóðsins. Mér finnst ég núorðið vera hálfgerður loddari í ljóðabransanum. Þannig var það sannarlega ekki alltaf en af einhverjum orsökum þá ásækir tilfinningin mig nú reglulega. Til dæmis þegar ég er beðinn um að mæta í útlenskt hlaðvarpsspjall um ljóðlist, einsog gerðist í morgun. Fyrir þessu gætu verið nokkrar ástæður. Fram til sirka 2012 var langmestur gangur í „ferli“ mínum ljóðamegin í tilverunni (en ég hef alltaf skrifað bæði sögur og ljóð og lengst af þýddi ég talsvert líka). Ég var á talsverðu ljóðahátíðaflakki og gaf út ljóðabækur 2001, 2002, 2003, 2005, 2007 (tvær), 2008 (tvær) og 2009. Á sama tímabili gerði ég líka öll hljóðaljóðin og flest myndbandsljóðin – sem fóru á netið og kvikmyndahátíðir – gaf út Booby, Be Quiet , ritstýrði Af steypu og Af ljóðum og Tíu þúsund tregawöttum, þýddi Ginsberg (og allan fjárann annan) og startaði Alþjóðlegu ljóðahátíðinni. Á þessum tíma skrifaði ég vel að merkja líka Hnefa eða vitstola orð – þótt hún kæmi ekki út fyrren 2013. Ýmislegt breyttist þarna upp úr 2009 (og ýmislegt hélt áfram að breytast og sumt breytist enn). Ég gifti mig 2007 (eftir mjög stutta trúlofun sem kom í kjölfar svona tveggja vikna sambands – við konu sem á einmitt afmæli á Degi ljóðsins). Ég varð pabbi 2009 – það breytir öllum rytma og því hvernig maður vinnur. Nýhil lagði upp laupana (sprakk í tætlur). Ég hafði lengi skipt vinnudeginum upp í tveggja tíma rispur – 2 tíma í ljóð, 2 tíma í prósa, 2 tíma í þýðingar og 2 tíma í tölvupósta og bókhald. En eftir að Aram fæddist og ég fór að sofa minna og óreglulegar á nóttunni og það hætti að vera vinnufært heimavið gekk þetta ekki upp – hausinn á mér var að springa. Ég var líka að sökkva í lengstu og umfangsmestu bók sem ég hafði skrifað fram að því (Illsku) og hafði ekki þrek til að splitta mér svona upp. Á tímabilinu 2001-2009 skrifaði ég sem sagt 10 ljóðabækur. Á tímabilinu 2009-2024 hef ég skrifað eina (sem hefur komið út), Óratorrek – sem mörgum finnst ekki einu sinni vera ljóðabók (hún er það samt). Ætli ég hafi mig ekki bara grunaðan um að hafa svikið mína huldumey – snúið mér að öðru? Og finnist ég þess vegna sigla undir fölsku flaggi (svo ég nykri í tilefni af því að ég var spurður áðan hvað það þýddi). En það er líka fleira. Sem ljóðskáld átti ég mér samastað innan Nýhil – sem tilraunaskáld, oft í transgressjón, alltaf í hálfgerðri vitleysu, einhverju tungumálabrjálæði, í leit að einhverju óvenjulegu, í leit að einhverju sem var oft bara mjög óljóðrænt. Þessi ljóðlist mín náði máli í ákveðnum kreðsum erlendis – annars vegar í framúrstefnukreðsunni og hins vegar sem performans (sem er ástæðan fyrir því að ég ferðaðist svo mikið á hátíðir). En utan einhverra Nýhilkreðsa er varla hægt að segja að þetta hafi vakið stormandi lukku á Íslandi (einn þekktur bókmenntajöfur bað mig meira að segja í guðanna bænum að hætta þessu ljóðarugli, ég hefði augljóslega engan talent í þetta – það var vel að merkja snemma á ferlinum og ég fór ekki að þeim ráðum). Við þetta er kannski mikilvægt að bæta því við hér í innskoti að hugsanlega hætti ég líka að njóta þess að vera í þessari ljóðastjórnarandstöðu sem ég hafði sjálfur skipað mig í – lengi fannst mér nefnilega bara gaman ef ritdómarar voru hneykslaðir og enn meira gaman ef lesendur og hlustendur voru hneykslaðir. Ég held það sé ekki einu sinni orðum aukið að ég hafi fiskað eftir þannig viðbrögðum. Og svo það sem meira var: ég hætti að finna mig í því sem aðrir voru að gera. Eftir að ég flutti frá Helsinki og Nýhil hætti var ég ekki lengur í neinni kreðsu – ekki í nærandi samræðu um ljóðlist við neinn, hvorki í gegnum það sem ég las né annars konar félagsskap. Ég á ekki við að mér hafi mislíkað það sem ég var að lesa – ég hef alltaf lesið mikið af ljóðum og finnst margt af því sem hefur komið út síðasta áratuginn vera æðislegt. En það er ljóðlist sem er á annarri vegferð en mín. Og ég hef ekki haft fyrir því að vera jafn leitandi og ég var – kaupi varla nema 2-3 útlenskar ljóðabækur á ári. Hér verður eiginlega að vera annað innskot líka til þess að leggja áherslu á að ég hef aldrei hætt að skrifa ljóð. Ef það skyldi hljóma þannig. Annars vegar er ég langt kominn með ónefnda bók sem inniheldur ljóð sem hafa meira að segja flest birst í einhverri mynd – í TMM, Són, Með Hamraborgir á heilanum, Ljóðabréfi Tunglsins og meira að segja í einhverjum fínum útlendum ritum. Hins vegar hef ég gert tvær heilar bækur með fundnum og tillöguðum textum sem fóru báðar í geymsluskúffuna/ruslatunnuna – önnur var unnin upp úr álitsfrétt um fallegustu staði á Íslandi og var sett á ís þar til teiknarinn sem ég ætlaði að vinna með tæki við sér (síðan eru liðin mörg ár); hin var unnin eftir pöntun upp úr Samherjapóstunum með vilyrði um útgáfu frá manneskju sem hafði þegar til kastanna kom alls ekki neitt vald til að gefa slíkt vilyrði. Báðar voru þessar bækur í raun fullunnar frá minni hálfu, þótt þær kæmu aldrei út (og geri það áreiðanlega ekki héðan af). Sú ljóðlist sem ég skrifa nú – þ.e.a.s. þessi ónefnda bók – er í annarri dýnamík líka en sú sem ég skrifaði einu sinni – ég er að leita að einhverju öðru, með einhverjum öðrum verkfærum, og satt best að segja er ég ráðalausari en ég var og þarf meiri tíma til að fullnægja mínum eigin fagurfræðilegu tiktúrum. Það gengur ágætlega en það gengur ekki beinlínis hratt – og nú er ég alveg á mörkunum að lenda í einhverju „segi alltaf færri og færri orð“ rugli einsog Sigfús, eða fara að haltra við hækuna hans Hallgríms, og sennilega best að ég hætti strax að lýsa því sem ég er að reyna að gera enda „bera fæst orð minnsta ábyrgð“ og allar þær klisjur. Það sem ég vildi sagt hafa var í raun bara þetta: Gleðilegan dag ljóðsins (og til hamingju Nadja, með afmælið, ef þú lest þetta). p.s. svo ætlaði ég líka að minna á LJÓÐAUPPLESTUR á mánudaginn næsta . Gamalt efni og nýtt. Á bókasafninu á Ísafirði kl. 17.

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Ég lá andvaka í nótt og fór að velta fyrir mér eðli paródíunnar – upp úr því að hafa annars vegar rifjað upp Silvíu Nótt með krökkunum og hins vegar verandi búinn með (þaðsemégheldaðséu) paródískustu kaflar Ulysses , Cyclops, Nausicaa og Oxen of the Sun. Ég geri ráð fyrir að flestir þekki til Silvíu en ég skal fara stuttlega yfir þessa kafla. Cyclops gerist á barnum Barney Kiernan’s. Sögumaður er nafnleysingi sem talar í fyrstu persónu („I“ verður „eye“ – auga kýklópsins) og kjarninn í kaflanum eru samræður manna á bar, ekki síst Leopolds Bloom, aðalsöguhetju Ulysses, og manns sem er kallaður „the citizen“ og er síns tíma írskur trumpisti – gyðingahatari og þjóðremba. Umræðuefnið er Írlands gagn og nauðsynjar – írsk menning, írskar íþróttir, innflytjendur (og hverjir séu innflytjendur) und so weiter. Fyrstupersónufrásögnin er síðan brotin upp af alls kyns milliköflum í ólíkum og afar ýktum stílum – t.d. er the citizen fyrst lýst svona: The figure seated on a large boulder at the foot of a round tower was that of a broadshouldered deepchested stronglimbed frankeyed redhaired freelyfreckled shaggybearded widemouthed largenosed longheaded deepvoiced barekneed brawnyhanded hairylegged ruddyfaced sinewyarmed hero. From shoulder to shoulder he measured several ells and his rocklike mountainous knees were covered, as was likewise the rest of his body wherever visible, with a strong growth of tawny prickly hair in hue and toughness similar to the mountain gorse (Ulex Europeus) Þetta heldur reyndar áfram lengi. Alls eru þessi frammígrip í kaflanum ríflega þrjátíu talsins og vel flest ef ekki öll í einhvers konar hetjusagnastíl. Næsti kafli, Nausicaa, er sjálfsfróunarkaflinn frægi. Þá erum við stödd á Sandymount Strand og sagan er aftur í þriðju persónu. Fyrri hluta kaflans sjáum við atburði frá sjónarhorni ungrar stúlku, Gerty MacDowell, sem sér Leopold Bloom álengdar og gerir sér um hann ýmsar rómantískar hugmyndir. Kaflinn nær hámarki sínu þegar hún hefur beygt sig fram svo hann sjái vel upp um pilsið á henni meðan hann fróar sér og fær fullnægingu á sama tíma og flugeldasýning hefst niðri í bæ. Eftir fullnægingu förum við aftur inn í höfuðið á Bloom. Allan tímann sem við erum í höfðinu á Gerty MacDowell er stíll bókarinnar paródía af ástarsögum 19. aldar – hýperrómantískur og afar upptekinn af allri ásýnd hluta. Ef the citizen minnir nútímamann á æstan trumpista minnir Gerty mann á áhrifavald á instagram. Stíllinn er tilgerðarlegur og ýtir jafnvel að einhverju leyti undir þá hugmynd að maður sé alls ekki í höfðinu á Gerty sjálfri, heldur sé þetta fantasía Blooms um hugsanir Gertys. Það þarf ekki að túlka það þannig – það er líka áhugaverður lestur að hún sé sitt eigið viðfang, hin frjálsa unga kona í kaþólsku landi, og þar með lýsing á því hvernig maður kúgar aldrei ímyndunaraflið – en mér finnst sannarlega opið fyrir hitt líka. Loks er það Oxen of the Sun, sem mér skilst að sé almennt álitinn erfiðasti kafli bókarinnar. Sá kafli gerist á Holles Street fæðingarspítalanum þar sem hópur fullra karlmanna situr frammi á einhvers konar biðstofu og bíður þess að frú Purefoy eignist barn sitt – en hún hefur verið í hríðum í þrjá sólarhringa. Kaflinn byrjar sannarlega ekki mjög árennilega – byrjar á heiðnum þulum og fer svo beint út í langan texta sem er sennilega fyrst skrifaður á latínu og svo mjög-hráþýddur yfir á ensku, án beyginga. Svo tekur hver stíllinn við á fætum öðrum – engilsaxneskur, mið-enskur, artúrskur, miltonskur, swiftískur, dickenskur og svo framvegis – og ég held það sé rétt að við hvern stíl færumst við nær nútíma Joyce. Einsog í frammígripunum Cyclops ræður stíllinn líka gjarnan því hvað er sagt – svona er til dæmis sagt frá því að Bloom hafi fáeinum dögum áður komið á spítalann til þess að láta líta á býflugnastungu: And the traveller Leopold was couth to him sithen it had happed that they had had ado each with other in the house of misericord where this learningknight lay by cause the traveller Leopold came there to be healed for he was sore wounded in his breast by a spear wherewith a horrible and dreadful dragon was smitten him for which he did do make a salve of volatile salt and chrism as much as he might suffice. Þetta mun vera í stíl ferðasagna frá miðöldum. Allar bera þessar paródíur merki djúprar ástríðu Joyce fyrir tungumálinu – en það er áhugavert að stundum er gengið út frá því að paródíurnar séu háð og stundum að þær séu tignun, án þess að ég sjái á því nokkurn mun annan en að sumt þykir fínt og sumt ekki (og kannski deildi Joyce þeim smekk síns tíma – en þess sér ekki endilega stað í því hvernig hann skrifar). *** Nú man ég auðvitað ekki hvað það var sem hélt fyrir mér vöku – það var einhver algerlega snilldarlegur samanburður við paródíur nútímans. Það eina sem ég man var að ég hugsaði talsvert um stílinn á sögu Gerty. Þegar ég las hann þótti mér ekki endilega víst að Joyce væri að paródísera hann, frekar en bara sökkva tönnunum í hann – einsog hann gerir svo víða í bókinni, sem er auðvitað í og með ástaróður til enskrar tungu. Textinn er heldur ekkert væmnari eða „hallærislegri“ endilega en margt af því sem þykir gott og gilt í fagurbókmenntunum 21. aldarinnar. Og þegar ég las síðan ritgerðina sem fylgir kaflanum í bókinni minni, eftir Vicki Mahaffay, gladdi það mig að sjá að hún tók í sama streng og sagði raunar kominn tími til að hvíla þann lestur að hér væri Joyce að hæðast (frekar en annars staðar) og benti á rætur orðsins paródía, sem er „para“ (það er að segja „með“ eða „til hliðar við“) og oide, sem er sama orð og óður. Að paródísera er þannig í grunninn „að syngja með“ og þarf ekki að fela í sér háð (hvort það sé svo hægt að herma eftir einhverjum algerlega sviðalaust er önnur spurning). Silvía Nótt kom síðan sem sagt til tals við kvöldverðarborðið í gærkvöldi og við horfðum á Til hamingju, Ísland og það sló mig að hún höfðaði á sínum tíma auðvitað í senn til fólks (barna, ungra stúlkna) a.m.k. hálf óírónískt – sem bara kúl gella – og til fullorðinna gagnkynhneigðra karlmanna sem óírónískt kyntákn – en fyrst og fremst sem einhvers konar gagnrýni á allt saman. Og auðvitað er paródía líka einhvers konar tignun, alveg sama hvað maður hæðist. Sennilega er meira að segja auðveldara að svipta paródíuna háðinu en tignuninni. Og nú, hvað 15 árum síðar eða svo, má segja að þessi paródía hafi snúið aftur sem einlæg tignun. Ef að LXS, Æði, Prettiboitjokkó og allt áhrifavaldagengið í Instagram vikunnar hefði stigið fram fyrir 15 árum hefðum við áreiðanlega flest skilið það sem parodíu, einsog við skildum Silvíu Nótt, Johnny Naz, Ali G eða Tískubloggarann sem paródíu. En við gerum það ekki – eða, a.m.k. ekki sem háð, en kannski sem samsöng, eftirhermu, stælingu? Það er líka áhugavert að halda því til haga að ef Silvía notaði húmor til þess að afhjúpa og svíða, draga línu í sandinn og gagnrýna, þá nota áhrifavaldarnir húmor til þess að breiða yfir ákveðið innihaldsleysi. (Öll notuðu þau svo húmor sennilega fyrst og fremst til þess að skemmta, enda er það ekki ómerkilegasta hlutverk húmors). Annað sem sló mig er að þessi tegund paródíu – sú grimma, sú sem bítur – sé tja … segjum að minnsta kosti í talsverðri lægð. Maður þarf að vera syndugur á allt annan hátt – það er ekki nóg að vera yfirborðskenndur eða vitlaus eða hégómagjarn eða efnishyggjusinnaður til að eiga skilið grimma paródíu (þar sem maður þekkist), heldur þarf almenningi – sem er uppistaðan í „góða fólkinu“ – líka að finnast viðkomandi vondur. Það verður að vera hafið yfir vafa að hann eigi það skilið. Kannski erum við líka komin ofan af heimspekilega sviðinu um hýpóþetískar almennar syndir og niður í eitthvað meira konkret. Og persónulegra. Við segjum kannski ekki lengur að hégómi, hroki, öfund, bræði og ágirnd séu ámælisverðir eiginleikar – heldur að Siggi sé fáviti. Sennilega er það ástæðan fyrir því að PBT er í spilun en ekki Megas. En þá er ég kominn aðeins út fyrir þessa paródíupælingu. Fyrst og fremst finnst mér í raun hressandi að hugsa um paródíuna sem eitthvað annað en háð – eða í það minnsta að háðið sé aukahlutverk við hliðina á samsönginum. Og svo spurningin: er hægt að búa til paródíu algerlega án þess að hæðast að frummyndinni; og er hægt að búa til paródíu algerlega án þess að tigna frummyndina?

Að lesa Ulysses

Ég hef gert tvær fyrri atlögur að Ulysses – ef ég tel ekki með skiptið sem ég reyndi að kaupa hana í enskri bókabúð í Berlín fyrir 25 árum og fékk neitun við kassann, þetta væri síðasta eintakið og það gæti engin alvöru bókabúð verið án eintaks af Ulysses. Í fyrra skiptið náði ég mér einfaldlega í frítt kindileintak og byrjaði að lesa og varð fljótt villtur. Í seinna skiptið hafði ég ákveðið að það hefði verið enskan sem þvældist fyrir mér í fyrra skiptið og varð mér úti um eintak af þýðingu SAM – ég komst eitthvað aðeins lengra en villtist fljótt aftur. Um það leyti lýsti ég því hátíðlega yfir, einsog maður gerir, að þetta væri leiðinleg bók og Joyce væri leiðinlegur höfundur og þetta væri allt bara eitthvað rugl – flækjur flækjanna vegna, ekki skáldsaga heldur sudokugáta. Innst inni held ég að ég hafi auðvitað vitað að þetta væri bara uppgjöf í mér, svona einsog maður sem snýr við í miðri fjallgöngu og lýsir því yfir að útsýnið hafi hvort eð er ekkert verið merkilegt, sennilega séu útsýni bara glötuð almennt, og best að vera inni. Ég er ekki kominn nema ríflega þriðjung inn í bókina núna. Þessa stærstu bók sem ég á – risavaxið eintak með ljósprenti af fyrstu útgáfu bókarinnar, óteljandi athugasemdum og ritgerðum fyrir hvern einasta kafla. Yfirleitt les ég fyrst kaflann, fletti svo aftur að ritgerðinni, horfi kannski á nokkur YouTube-myndbönd, gúgla einhverjum skrifum, glugga í þýðingu SAM, og les svo kaflann aftur. Og er nýbyrjaður á hljóðbókinni með (frá byrjun). Glósa og undirstrika og skil alltaf meira og meira en aldrei allt – og skilst maður nái nú aldrei svo langt heldur. Nokkrum sinnum hefur hvarflað að mér að fara bara beint í næsta kafla eftir fyrsta lestur – ég hafi nú náð svona megninu og þetta hafi nú kannski ekki verið skemmtilegasti kaflinn í bókinni. En svo þegar ég læt mig hafa það samt að gægjast undir yfirborðið verður það undantekningalítið til þess að kaflinn opnast upp á nýtt og verður margfalt skemmtilegri og áhugaverðari – ekki bara vegna þess að maður sér íþróttina, kannski síst hennar vegna, og meira vegna þess að sjálfur kjarninn verður ljósari, persónurnar og staðurinn lifna við. Þessi kjarni er svo margir ólíkir hlutir í raun – það er ekki bara á yfirborðinu sem Ulysses er margræð. Ulysses er bók um tilviljanir en hún er líka bók um augnablikið og fortíðina, um einmanaleikann, um tilraunir okkar til þess að rjúfa einmanaleikann – hún er bók um jöðrun fólks, fátækt, Guð, þjóðrembu og þjóðrembu í undirokaðri nýlendu. Það segir sína sögu að „lægsta“ persónan í bókinni hingað til, einfættur betlari, er ekki írskur heldur enskur – og syngur stöðugt „For England / Home and Beauty“ – þótt hinir undirokuðu séu Írar, eru Írar líka máttarstólpar þjóðrembunnar og kaþólskunnar, og þeir kúga líka hver annan. Samt er þetta í og með bók um nýlendustefnu Englendinga. Og svo er þetta bók um fjölskyldur, framhjáhald og fyllerí, búksorgir og basl, hæversku og grobb, söng og gleði og þunglyndi – og bók um bókmenntir, ekki bara Hómer og ekki bara Shakespeare, þótt þeir fari setji báðir mikið mark á bókina, heldur alla epík (hugsanlega er Ulysses síðasta raunverulega epíkin, síðasti alvöru bautasteinninn), biblíuna og aðrar trúartexta, alþýðuljóð og auglýsingatexta, írsku bókmenntaendurreisnina, erótískar sjoppubókmenntir, fræðirit og slúðursögur. Eitt af því stórkostlega við að lesa hana (í dag) er síðan að skilja og finna fyrir því að maður er að lesa hana í samtali við 100 ár af lestri annarra, þetta er kollektíft verk og því er ekki einu sinni lokið – sjálfsagt er hægt að lesa hana „kalt“ og án þess að fletta upp neinu, giska bara á vísanir eftir bestu getu og njóta póesíunnar, en það væri að mínu (byrjenda) mati misskilningur á verkefninu, misskilningur á þeirri lestrarupplifun sem bókin býður upp á. Enda lagði Joyce upp með að hún væri full af leyndardómum – gott ef hann sagði ekki eitthvað á þá leið að nú ættu bókmenntafræðingar næstu alda að hafa nóg um að hugsa – og þótt hann hafi neitað alveg í fyrstu að gefa mikið af lyklum þá liðu ekki mörg ár þar til hann var farinn að hjálpa lesendum sínum heilmikið. Í öllu falli finnst mér sjálfum uppljómandi og upplífgandi að lesa hana samhliða grúski um hana og sé fyrir mér að í þessu megi lúðast mörg misseri í viðbót án þess að manni fari að leiðast – af því bæði má lesa bókina sjálfa ítrekað (held ég mér sé óhætt að fullyrða) og svo er til svo mikið af bókum um hana og útfærslur á henni og svo auðvitað ævisögur Joyce. Planið er svo að fara til Dyflinnar á næsta ári. En manni liggur ekkert á. Raunar held ég að það sé lykilatriði í þessari tilteknu lestrarnautn að vera ekki að drífa sig.

Að hugsa sér

Ég veit ekki hvort það er lestrar- eða skriftarvandamál en suma daga finnst mér ég varla geta komið frá mér óbjagaðri setningu. Ég sem sagt skrifa eitthvað niður – svona, einsog þetta hér – og les það svo aftur og ef setningin virkar ekki beinlínis röng á mig þá virkar hún í það minnsta vandræðalega kauðsleg. Og stundum er einsog eina leiðin til þess að gera setninguna þokkafullri sé að miðla málum um hugsunina sem í hana á að fara. Hugsa eitthvað annað. Eitthvað rangt. Einhverja klisju. Ég gef ekkert uppi um hvaða meðferð þessar setningar hafa fengið – hvað hefur gerst áður en þið komið til sögunnar – en það var ekki fallegt. Var það Nabokov sem lýsti rithöfundastarfinu þannig að fyrst skrifaði maður bók og svo starði maður á allar setningarnar í henni – í réttri röð – þar til þær hættu að vera svona bjánalegar? Fjarlægði nástöður, mótsagnir, ofstuðlanir, klisjur, nykranir og svo framvegis þar til þetta ólesanlega drasl væri orðið mönnum bjóðandi? Margir hafa orðið til þess að benda á að það sem maður skrifar verði oft, í krafti endurskrifta, á endanum gáfaðra, fallegra og þokkafyllra en maður sjálfur – sem er auðvitað bara önnur leið til þess að benda á að maður er voða vitlaus, ljótur og klaufalegur í grunninn. Í fyrra lagðist ég yfir rithöfundaviðtöl á YouTube og rak mig fljótt á að sama fólkið var alltaf að dúkka upp – voru greinilega vinsælustu viðmælendur, bæði oftast tekin upp, mest lækuð, á vinalegustum nótum við algóritmann – ekki endilega alltaf bestu höfundarnir, þótt flestir þeirra væru góðir, heldur fólkið sem var best í presentera sig og var fært um að hugsa sirkabát heilar hugsanir live. Og ég sem hélt við hefðum öll orðið rithöfundar af því okkur fannst svo erfitt að hugsa upphátt undir augnaráði annarra – að við vildum hugsa í skrifuðum (og leiðréttum, endurleiðréttum, endurendurleiðréttum, ritstýrðum og prófarkalesnum) setningnum bakvið luktar dyr. Sumt af þessu fólki hugsaði sig kannski um. Þagði lengi á sviði og kom svo með eitthvert svar. Ég hef reynt þetta. Ef ég þegi á sviði slokknar bara á hausnum á mér. Það eina sem ég er að hugsa þá er: „ætli ég virðist vera að hugsa núna eða ætli fólk sjái á mér að ég veit ekkert hverju ég á að svara?“ Svo segi ég bara eitthvað. Sennilega hefur mér gefist best að vera bara svolítið óðamála, segja svolítið margt – ég rekst þá yfirleitt á eitthvað gáfulegt fyrir rest. Aðrir voru afslappaðir – spurðu kannski bara á móti, „ég veit ekki, hvað finnst þér?“ en þá oftast til þess að grípa orðið strax aftur og segja eitthvað sem var ekki alltaf gáfulegt, þótt það væri það oft, en virtist ævinlega vera það. Hafði gáfulegt yfirbragð og var borið fram af sjálfsöryggi. Sumt fólk segir svo bara heimskulega hluti með sjálfsöryggi og þeim gengur líka ágætlega. En ég er sem sagt ekki að tala um þau. Ég þekki líka fólk í fjölmennari löndum sem er einfaldlega undirbúið og segir alltaf sömu hlutina – til þess þarf maður eðlilega að vera að tala við ólíkt fólk í hvert skipti. Á Íslandi er maður alltaf að tala við sömu 20 bókabéusana, hvort sem maður er í Kiljunni, Víðsjá eða Bókmenntahátíð, viðtöl ársins koma yfirleitt öll í beit, og maður getur bókstaflega fengið skammir fyrir að endurtaka sig. Ekki þar fyrir að ég missti líka svolítið virðinguna fyrir sumu af þessu fólki í fjölmennu löndunum þegar það rann upp fyrir mér að það átti bara tíu vel æfð og úthugsuð svör við öllum heimsins spurningum. Það er eitthvað sálarlaust við það. Ekki þar fyrir að lífið er leiksvið og la tí da. Elvis. Annars hefur maður ótrúlega litla æfingu í lengri samtölum um bókmenntir. Sjónvarpsviðtal er yfirleitt um 5 mínútur – útvarp kannski 10-15. Á Íslandi er hefð fyrir því að troða helst a.m.k. þremur í hvern panel og gefa honum 40 mínútur. Kannski vegna þess að við erum flest svo léleg í þessu? Sjálfsagt er það líka spurning um hænur og egg. En það eru þá ríflega 10 mínútur á mann. Sem er ekki neitt. Það segir enginn neitt á 10 mínútum. En það nennir heldur enginn að hlusta á lengra viðtal. Er það mótsögn? Þversögn? Refhvörf? Catch-22? Og já, ég veit að hlaðvörpin eru löng – en eru ekki líka allir sammála um að þau séu of löng? Er þetta líka ekki allt bara eitthvað ævisagnablaður? (Ég hlusta aldrei á hlaðvörp; þau eru alltof löng). Hvað um það. Það sem ég vildi sagt hafa: hausinn á mér er fullur af leðju. Ég hef heldur ekkert gert alla vikuna annað en að kvarta undan verkjum og eymslum – sennilega eftir að ég las grein í Dagens Nyheter um að fljótlegasta leiðin til þess að eldast fyrir aldur fram væri að kvarta undan verkjum og eymslum. Þar hafði ríflega sjötug kona orðið. En mér er illt í bakinu og illt í hælnum og ég er búinn að vera með höfuðverk frá því um miðja síðustu viku. Ég ætla að vera skýrari eftir helgi. Og helst eitthvað fram eftir vori a.m.k.

Um uppgang hins íslenska gæsastofns

Hvað er eiginlega að gerast? Þeir sem voru uppburðarlitlir skápa-rasistar fyrir fáeinum vikum eru orðnir stoltir, útbelgdir og háværir rasistar; þeir sem voru alls ekki rasistar, jafnvel einhvers konar andrasistar, eru nú farnir að máta sig við alls konar gæsagang; og þeir sem voru bara heilmiklir rasistar fyrir, alveg þannig að manni þótti nóg um, eru nú orðnir alveg pípandi vitlausir. Meira að segja Samfylkingarmenn –  frjálslyndir vinstrimenn í stjórnarandstöðu – falla nú hver um annan þveran við að auglýsa „ábyrga“ afstöðu sína til „útlendingamála“ og taka þar með beinlínis undir með þeim sem hafa haldið því fram að stefnan hafi hingað til verið „óábyrg“ – og meina þá ekki að hún hafi verið niðurlægjandi, tilgangslaus eða grimmileg, heldur að hingað hafi þvælst óhemja af rumpulýð sem ógni samfélagssáttmálanum (og velferðarkerfinu, segja þessir yfirlýstu sósíaldemókratar). Og þessi lausung sé auðvitað ríkisstjórninni að kenna. Miðflokksmenn kætast að vonum – Bergþór Ólason, frægastur fyrir að hafa uppnefnt ráðherra „skrokk sem typpið á mér dugði í“, fór meira að segja í pontu á þingi á eftir Jóhann Páli, Samfylkingarmanni, til að fagna því að nú væri allir farnir að hljóma einsog Miðflokksmenn. Og þá hló þingheimur, ef eitthvað er að marka Vísi. Dómsmálaráðherra semur síðan harðara „útlendingafrumvarp“ þar sem fólki er meðal annars gert erfiðara að sækja um fjölskyldusameiningu. Baráttan gegn laxeldi á landi er orðin að baráttu gegn erlendu vinnuafli. Íslandsvinurinn Bashar Murad tekur þátt í Eurovision og gröfturinn vellur upp á yfirborð samfélagsmiðla – menntaskólakennari og fyrrverandi formaður Þjóðfylkingarinnar (!) fer svo mikinn að honum er gert að segja af sér starfi. Og hann er svo sannarlega ekki einn á ferð – fyrirferð grófra rasista hefur aldrei verið neitt í líkingu við jafn mikil og síðustu vikur – í takt við þessa „ábyrgu“ stefnu virðulegri stjórnmálamanna í svo til ÖLLUM flokkum. Og svo framvegis og svo framvegis. Þetta ár byrjar satt að segja ekki alveg nógu vel. Því það þarf enginn að efast neitt um að það er svona sem fasisminn festir sig í sessi, leggur undir sig ný landsvæði – með orðljótum og oft ofbeldisfullum vitleysingum í grasrótinni og „ábyrgum“ stjórnmálamönnum sem „hlusta á áhyggjur fólksins“ í fararbroddi. Og sem stendur er bókstaflega ekkert viðnám sem nær máli. Flokkar sem reikna má með að styðji harðari „innflytjendastefnu“ – Miðflokkur, XD, Samfylking, VG, Framsókn og Flokkur fólksins – eru með samanlagt 76,3% atkvæða samkvæmt síðustu könnun Gallup. Ekki veit ég hvað þau ætla að gera í raun og veru – nema jú, kannski skilja eftir fleira fólk á Gaza af því það hentar betur að fólk drepist þar en að það komi hingað. Annars eru innflytjendur á Íslandi aðallega fólk úr Evrópusambandinu – varla vill Samfylkingin segja upp EES samningnum? Varla vill Sjálfstæðisflokkurinn skera niður túrismann – sem kallar á allt þetta starfsfólk? Ekki það – ég veit ekki hvernig maður vindur ofan af svona. Ástandið hefur í sjálfu sér verið að stigversna í a.m.k. 30 ár en mér sýnist vera hafinn nýr kafli hér á landi – með innblæstri úr því lélegasta sem er að gerast austan- og vestanhafs. Reynslan þar hefur líka sýnt okkur að það gerir hvorki gagn að „sýna þessu skilning“ né að reyna hrópa þetta niður. Þessi fávitaskapur er einhvern veginn þannig vaxinn að allt verður honum að vopni.

Í vaskinn

Í gærkvöldi missti ég kvöldmatinn í vaskinn. Þetta var gufusoðinn þorskur með hvítlauki, chili, engifer og sojasósu. Ég var nýbúinn að samþykkja að vinkona Ainoar myndi borða með okkur. Allir voru sestir. Ég tók bambuskörfuna upp úr wokpönnunni, lagði hana frá mér á kantinn á vaskinum, af því ég ætlaði að finna eitthvað til að hafa undir henni á borðstofuborðinu. Ég vildi að ég gæti sagt að ég væri jafnaðargeðstýpan sem léti nú ekki svona smámuni koma mér úr jafnvægi en í sannleika sagt fannst mér þetta bara frekar sárt. Ég tók samt ekkert brjálæðiskast. Ég æpti eitthvað í augnablikinu, sparkaði svo í eldhúsinnréttinguna fimm sekúndum síðar, og setti upp fámálan fýlusvip í þrjátíu mínútur – sem sótti svo á mig af og til aftur yfir kvöldið, þegar ég mundi allan þennan góða mat í vaskinum, og meira að segja núna, daginn eftir, verð ég leiður við tilhugsunina. Svo gekk ég frá. Sendi vinkonu Ainoar heim. Og við fórum á Thai Tawee. Suma daga gengur bara allt á afturfótunum. Sem betur fer er aukadagur í ár. Ég hlýt að líta svo á að hann sé gjöf til þess að bæta upp fyrir gærdaginn. Mér sýnist reyndar að þessir tveir – 28. og 29. febrúar – verði varla nema hálfgóður hvor, það gengur ekki betur en svo í dag, en samanlagt er þetta kannski heill dagur, það fór einn dagur í vaskinn en eftir stendur sem sagt hinn. Að meðaltali. *** Ég sofnaði ellefu í gærkvöldi en vaknaði aftur fyrir tólf. Var svo vakandi til svona hálffjögur. Kláraði Bonfire of the Vanities – eða réttara sagt hinar sögurnar í þeirri bók (BoV er löng smásaga, gefin út á bók með þremur öðrum). Hlustaði á klukkustund af Dalalífi. Og starði út í loftið. Í stað þess að sofa út í morgun fór ég á fætur til að kveðja Nödju, sem er að fara suður yfir helgina. Settist svo yfir Lótus-ætunum og tveimur ritgerðum í Ulysses-doðrantinum mínum. Ætlaði að fara út að hlaupa en guggnaði á því og fór upp að sofa – svaf í korter og er búinn að vera með höfuðverk síðan. Át yfir mig í hádeginu (pad thai afgangar frá því í hittifyrradag). Horfði á Stephen Colbert mónólóga. Kom á skrifstofuna rétt fyrir tvö til þess að halda áfram að glósa nýja bók og skrifa nokkra pósta (og blogga). *** Kiljuútgáfan af Náttúrulögmálunum kom í búðir í dag. Ég á von á mínum eintökum með póstinum. Ég á ljóð –  Lyklavöld – í TMM sem birtist í póstkassanum í morgun. Það eru allar líkur til þess að NL komi líka út á sænsku – það er tilboð í loftinu og klúðrast varla úr þessu. Mér skilst að það sé mjög gott ef litið er til lengdar bókarinnar – það er víst ekki sama umhverfi og þegar Illska kom út í þúsund löndum fyrir áratug. Bókmenning stendur víðar höllum fæti en á Íslandi, því miður, peningarnir eru á þrotum, markaðsdrifin popúlísk íhaldsstefna í framsókn. En Svíþjóð er (líklega) í höfn. *** Ég leit inn á Facebook á dögunum og fannst tónninn hafa harðnað. Og jú – pólarísering, það má kannski nefna það, fólk er líka reitt vinstra megin – en fyrst og fremst fannst mér einsog tónninn í hægrimönnum væri herskárri. Eða, réttara sagt, tónninn í útlendinga … krítískum? Heitir það það? Ég veit í öllu falli ekki hvort það er gagnlegt eða rétt að tala um hatur – auðvitað eru þeir til sem hata útlendinga en þeir eru miklu fleiri sem eru hræddir við þá, eða hræddir við breytingarnar sem fylgja þeim (og allar aðrar breytingar), og finnst ekki að þeir eigi að bera ábyrgð á bræðrum sínum (en sama fólki finnst oft aðrir ekki nógu duglegir að lesa biblíusögurnar sínar, læra kristinfræðina sína, og muna ekki hvað drottni finnst um þá sem gæta ekki bræðra sinna, eins merkilegt og það nú er). Það var sem sagt svolítið mikið af myndum af múslimum að ríða sauðfé. Og svolítið mikið af statusum um að það ætti að vana (brúna) leigubílstjóra sem fremja kynferðisbrot. Svolítið miklar áhyggjur af stöðu ISIS á Akureyri. Af stöðu Hamas á Reykjanesi. Og mér brá. Svona töluðu færri fyrir nokkrum mánuðum. Hitt hafði ég auðvitað séð í millitíðinni, yfirlýsingar Bjarna og Kristrúnar í fjölmiðlum og stjórnmálamenn sem blanda saman a) hælisleitendum sem er boðið sérstaklega til landsins b) öðrum hælisleitendum c) flóttamönnum d) innflytjendum utan ESB og e) innflytjendum frá ESB. Þetta gerir fólk yfirleitt af óheiðarleik – eða ég get ekki skilið það öðruvísi, það hlýtur að þurfa einbeittan brotavilja til, maður þarf ekki nema lágmarksinnsýn til þess að skilja að hingað geta milljónatugir flutt vandræðalítið, að það gera fáir en þeir sem það gera halda uppi þjóðfélaginu með því að taka að sér vanþakklátustu og verst launuðu störfin, að okkur ber þess utan skylda – bæði lagaleg og siðferðisleg – til þess að afgreiða hælisleitendur og taka á móti flóttamönnum. Og ef við vanrækjum þá skyldu versnar vandinn – spennan í heiminum vex og með henni harmurinn og óttinn (líka okkar megin virkismúranna). Þetta hangir allt saman. Við þurfum að búa okkur undir að geta tekið á móti fólki með miklu meiri skilvirkni en við gerum í dag – og láta ekki bjúrókrasíuna bera velferðarkerfið ofurliði (því það er fyrst og fremst bjúrókrasían sem kostar – og auðvitað þessar tryllingslegu ferðir þar sem fólk fær lögreglufylgd til Grikklands svo megi henda þeim á götuna í Aþenu – og þessi „lokuðu búsetuúrræði“ verða ekki ókeypis, né heldur fangabúðirnar sem sumar þjóðir eru að koma sér upp í þriðja heiminum, ef fer sem horfir verða þær líka okkar Gaza, okkar óleysanlega martröð, staðurinn þar sem við geymum brúna fólkið). *** Ljóðskáldið Lyn Hejinian lést á dögunum. Ég þýddi á sínum tíma brot úr þekktasta ljóði hennar, My Life, og birti í Af steypu, ásamt ritgerð. Hún var eitt af þekktustu „sprokskáldunum“ – language poets – og My Life einhvers konar tilraun til þess að hliðskipa minninu. Ég er ekki viss um að þýðingin mín hafi verið neitt sérstök en það má alveg mæla með bókinni – hún er erfið aflestrar en samt einhvern veginn létt og fljótandi.

Annað fólk

Þetta hefur verið undarlegt ár. Eða kannski er „óvenjulegar vikur“ réttara orðalag – það er víst enn nóg eftir af árinu. Yfirleitt eru síðustu mánuðir ársins – jólabókaflóðið – orkufrek vertíð sem svo lýkur á jólum og við tekur afar einrænn og rólegur tími hjá mér. Jafnvel umkomulaus og þungur. En í ár hef ég verið á hvolfi í leikritinu og umkringdur fólki langt fram á kvöld alla daga vikunnar. Sennilega er það miklu hollari leið til þess að eyða svartasta skammdeginu en hin. Ég vann svolítið í ljóðabók – það verður brot í næsta TMM – flutti erindi um loftslagsmál, skrifaði stutta grein í leikskrána og nostalgískan pistil í Heimildina. Annars kom ég litlu í verk fyrir utan lestur. Nú er ég í Reykjavík til þess að spila á bassa með Gosa í þáttum sem heita Stúdíó RÚV. Við erum Baldurslausir en Andri fékk Valgeir úr Celebs og Friðrik úr Kvikindi til þess að spila með okkur – og ég held þetta hafi bara svínvirkað. En nú er öll orkan sem ég átti búin. Eftir svolítið langt keyrslutímabil, eiginlega frá því í september – túr, jólabókaflóð, Fiðlari og smá Gosi í restina. Allt hefur þetta samt verið dásamlegt og nærandi, en oft líka keyrt á einhverjum umframorkubirgðum. Ef ég héldi að það gerði mér eitthvað gagn myndi ég sennilega sofa fram á páska en ætli ég reyni ekki fyrst og fremst að tjúna mig svolítið niður, borða hollari mat og hreyfa mig. Og sofa betur, ef ég get. Fiðlarahópurinn var ótrúlegur. Fyrir utan hæfileikana, sem var sannarlega nóg af, var líka bara einhver lífskraftur, gleði og metnaður í samstarfinu. Og ég held við höfum smitað og magnað gleðina, kraftinn og metnaðinn hvert í öðru – með passlegri blöndu af fíflagangi og aga. Það er líka ótrúleg tilfinning að fylgja svona vinnu í höfn og koma á svið verki sem ég held að sé óhætt að fullyrða að hafi raunverulega orðið mjög gott (þótt það hafi ekki alltaf litið út fyrir að svo yrði). Maður verður meyr og fullur kærleika og svo tók við söknuður strax og þessu lauk – alveg þvert ofan í þreytuna, sem ég veit að hrjáði fleiri en mig. Þórhildur hafði á orði á einni æfingunni, þegar við vorum alveg orðin útúrrugluð af kátínu, að alveg væri það furðulegt hvað fólk nútildags dansaði og syngi lítið miðað við hvað það væri augljóslega gefandi. Það er kraftur í því að hreyfa sig sem heild, láta í sér heyra sem heild, sem er til dæmis augljós öllum sem reka heri – þar er þessu beitt sem verkfæri til þess að skapa samkennd milli vígamanna, því heildinni getur auðvitað fylgt öðrun þeirra sem utan hennar standa (= þegar ég tel upp þá sem ég elska er ég líka að telja upp þá sem ég elska ekki; þegar ég tel upp þá sem ég myndi deyja fyrir tel ég líka upp hina). En leikhúsið er ekki vígvöllur, í leikhúsinu er tilgangurinn þveröfugur – þar verður leikhópurinn heild til þess að hræra og uppljóma hina , að drita tilfinningum í gegnum fjórða vegginn – og samkenndin ómenguð af fávitaskap. Ein eftirminnilegasta æfingin, svona eftirá, var ljósaæfingin. Kannski bara af því hún var svo ólík hinum. Hún tók allan daginn og við skiptum okkur niður á vaktir. Það þurfti aldrei nema tvo-þrjá til að standa hér og standa þar meðan tæknifólkið úti í sal réði sínum ráðum. Og sennilega þögðum við uppi á sviðinu mestallan tímann. En ég man við fórum einhvern tíma að tala einmitt um það hvaða menning væri nærandi og hvaða ekki – ef ég man rétt út frá hugmyndinni um að það væri eiginlega alltaf nærandi að fara í bíó, þótt myndin væri léleg, af því þar væri annað fólk, en sama mynd gæti reynst hálfgerð auðn heima í stofu. Eða gæti gert úr manni sjálfum auðn í sófanum, holað mann að innan. Og það væri oftast nærandi að lesa úr bók en ekki endilega af skjá. Þversögnin er svo auðvitað sú að menningarupplifun sem krefst einhvers af manni – einsog t.d. bara að maður standi upp og rölti út í bíó frekar en að kveikja á risaskjánum heima í stofu – skilur við mann hressari á sálina en sú sem á að heita „fyrirhafnarlaus“ og maður velur af því maður nennir ekki hinu. Fyrirhafnarleysið getur hæglega skilið við mann úrvinda og jafnvel hálf-vonlausan; á meðan fyrirhöfnin getur fjörgað mann. En punkturinn var (og er) sem sagt sá að það er yfirleitt alltaf meira nærandi að vera innan um aðra. Og það er meira nærandi og meiri kærleikur í viðstöðulausum fimmaurabröndurum í táfýlumettuðum búningsklefa en í því að liggja einn með fartölvu í kjöltunni og horfa á heimsins færustu fagmenn í gríni leika sínar dýrustu listir. Og eftir margar vikur í einmitt svona táfýlubúningsklefa var þetta svo átakanlega ljóst. Að því sögðu er ég enn talsmaður einverunnar – ég nýt mín mjög vel einn og sennilega þyrfti ég að skipta um starfsvettvang ef það færi að breytast mikið (og nei, eins gaman og það er, blundar ekki í mér löngun til þess að verða dansari, leikari, söngvari eða gítar/bassaleikari, þó ég áskilji mér rétt til þess að sinna slíku í hjáverkum, eftir því sem ég hef orku til). En mikið er annað fólk líka ágætt. Og ekki síst vinir mínir í Fiðlaranum.

Menning og peningar

Hvað eru margar skáldsögur í einum manni? Eru fleiri skáldsögur í mér? Eru þær kannski allar búnar? Svona hugsar maður þegar maður er ekki byrjaður – eða gengur ekkert að byrja – á nýrri skáldsögu. Og einn daginn hlýtur svarið að vera: nei, nú er ég bara búinn með allar skáldsögurnar í mér. Er það ekki? Ég man eftir því að hafa lesið einhvers staðar að það væri a.m.k. ein skáldsaga í öllum – og oft væri hún einmitt ansi æsileg og þaðan kæmi krafturinn sem býr í mörgum byrjendaverkum, og þess vegna væri bók tvö oft svona þunnildisleg. Höfundurinn væri búinn með fríspilið sitt og ekki búinn að átta sig á því að nún þyrfti hann/hán/hún að fara að vinna fyrir hlutunum. Ég man líka eftir að hafa hvæst – þegar ég var enn á þeim aldri að ég hvæsti – á vin minn, sem var að barma sér svipað og ég nú, að ef maður hefði ekkert að segja ætti maður bara að sleppa því að segja eitthvað (ég sagði m.a.s. ábyggilega „halda kjafti“). Það væri ekkert verra en að kreista upp úr sér skáldskap. Að sögur segi maður af þörf – stundum jafnvel kvöð – en ekki af því mann langi að hafa sagt sögu. (Margt af þessu má færa beint yfir á ljóðlist en af því þar virka hlutirnir aðeins öðruvísi – a.m.k. í hausnum á mér – læt ég þau liggja á milli hluta í bili). Og margir hafa líka orðið til þess að benda á að það er nóg af bókum til; maður gæti lesið eintóm meistaraverk það sem eftir lifir ævinnar og aldrei orðið uppiskroppa. En sem sagt, nei, ekki í dag, Satan, ég er ekki hættur. En mér gengur samt ekkert að byrja. *** Talandi um meistaraverk. Ég pantaði mér afar veglegan haug af bókum á dögunum og þær voru næstum allar gamlar. Nýjastar voru bækurnar í árstíðafjórleik Ali Smith en elst Jane Eyre eftir Charlotte Brontë. Stærst og þykkust var ekki Infinite Jest, sem er annars mjög oft mesti doðranturinn í sinni hillu, heldur The Cambridge Centenary Ulysses: The 1922 Text with Essays and Notes. Hún er svo stór að það er nánast kómískt. Þynnst var The Old Man Who Read Love Stories eftir kunningja minn, heitinn, Luis Sepúlveda. Þá eru ótaldar – hvorki þynnstar, þykkastar, elstar eða nýjastar – Gravity’s Rainbow eftir Thomas Pynchon og Mrs. Dalloway eftir Virginiu Woolf. Margar þessara bóka eru reyndar þess eðlis, skilst mér, að þótt maður læsi aldrei aðra bók en bara þá einu myndi manni ekki endast ævin til að komast til botns. Ég hafði samt séð fyrir mér að klára þær í ár. *** Þórdís Gísladóttir, vinkona mín, droppar nokkrum bombum í viðtali í Bara bókum á dögunum, og ein þeirra er áreiðanlega ætluð mér – að besta leiðin til þess að fá tilnefningu til bókmenntaverðlauna sé að skrifa doðrant um fortíðina. Kannski er þetta líka ætlað Dúnstúlku Bjarna og Landi næturinnar eftir Vilborgu – þótt ég myndi ekki sjálfur kalla 300 blaðsíðna skáldsögu doðrant getur verið að aðrir geri það. (Undir 200 er stutt, 200-350 meðallöng, 350-450 löng, 450 plús doðrantur). Ég veit ekki hvort maður á að elta ólar við svona pot en auðvitað skrifar enginn til þess að fá bókmenntaverðlaun eða tilnefningar. Og þegar ég renni yfir listann yfir sigurvegara eru þetta næstum til skiptis bækur um fortíðina eða eitthvað mjög samtímalegt. Sigurvegarinn í ár var einmitt 170 bls samtímaskáldsaga um eldgos á suðurnesjum. *** Ég lauk við Money eftir Martin Amis einhvern tíma í síðustu viku. Hún er á kanónulistanum mínum yfir bækur sem mér finnst að ég eigi að hafa lesið en hef ekki lesið. Kannski mætti líka kalla þetta bækur sem mig hefur lengið langa að lesa en hef veigrað mér við af ólíkum ástæðum. Money hafði ég nú bara ekki lesið af því ég rakst aldrei á eintak fyrren ég gerði mér far um að panta það. Ég er þá búinn að tékka af rúmlega þrjár af þessum lista frá áramótum – House of Leaves eftir Mark Z. Danielewski, Stríð og frið, Money og tæplega tvær bækur úr Dala-lífi Guðrúnar frá Lundi. Money er fyrst og fremst alveg ofsalega kraftmikil bók – hálfgerð textasprengja. Ég sé að BBC gerði úr henni tveggja þátta mini-seríu 2010, sem mér finnst eiginlega að hljóti að hafa mistekist hrapalega – það er varla að ég sjái fyrir mér að hægt sé að þýða hana svo vel sé, hvað þá aðlaga hana að miðli þar sem tungumálið er ekki í aðalhlutverki. Money fjallar um breskan auglýsingaleikstjóra, John Self, sem er að fara að gera sína fyrstu bíómynd í Bandaríkjunum en missir gersamlega stjórn á eigin hamslausu hvötum. Ef maður les fyrir plott held ég að maður myndi fyrst gera athugasemd við hvað það er lengi í gang – það gerist eiginlega ekkert fyrstu 300 síðurnar nema að John Self étur, drekkur, rúnkar sér og horfir á klám. Á meðan undirbúningur bíómyndarinnar situr á hakanum eða í besta falli silast áfram. Svo fer reyndar glæsilegt plott í gang fyrir rest. En það væru samt mistök að taka þessa bók upp til þess að komast í plott – hún er ýkt samtímalýsing (sem einhver sagði reyndar að væri löngu hætt að vera ýkt). Amis hefur sjálfur sagt að Money sé bók um menningarleysi – gott ef hann stillti því ekki upp þannig að það væru tvö öfl í heiminum, peningar annars vegar og menning hins vegar, og að í Money væru peningar fullkomlega í öndvegi. Það var í því samhengi sem hann lét orðin um „krampakennda heimsku“ samtímans falla, sem ég vitnaði til í loftslagspistlinum í síðustu viku – og hann spáði þar líka réttilega fyrir um að sú heimska myndi í framtíðinni virka á okkur sem hálfgerður intellektúalismi. Martin Amis er vel að merkja sjálfur minniháttar sögupersóna í Money. Germaine Greer, sem var ástkona Martins Amis og skrifaði honum frægt 30 þúsund orða ástarbréf, tók viðtal við hann og sagði þessa útgáfu af Martin Amis sem birtist í bókinni vera mjög kontróleraða og að hún sjálf sæi talsvert af Martin í hinum vægast sagt óheflaða John Self. Við þeirri fullyrðingu glotti Martin afar strákslega og svo var klippt áður en nokkuð fleira var sagt.

Það er heitt og það hitnar

– um hamslausu þenslunnar hamslausu þenslu ( erindi flutt á RECET ráðstefnu Vestfjarðastofu um loftslagsmál og orkuskipti ) I Það er margt sameiginlegt með hagkerfum og hákörlum. Ekki síst að hætti þau að sprikla sökkva þau bæði strax til botns. Við skulum segja að Guð hafi gert hákarlinum þetta í einhverjum kvikindislegum galsa, en það var ekki Guð sem skapaði hagkerfið, það gerðum við sjálf og við sköpuðum það í mynd hákarls og við gáfum því þennan eiginleika: annað hvort stefnir það að viðstöðulausum vexti eða það hrynur og tekur okkur öll – eða segjum velflest – með í fallinu. Ég veit ekki hvort þessi hönnun er viljaverk eða hvort þetta er bara afleiðing þess að hún er verk manns – dýrs sem er í þeirri stöðu að dómínera yfir náttúrunni, frekar en að vera upp á náð hennar og miskunn komin, einsog aðrar skepnur merkurinnar. Allt líf hefur tilhneigingu til þess að vilja sigrast á kringumstæðum sínum og breiða úr sér án tillits til þess skaða sem slík útbreiðsla kann að valda. Það hefur bara ekki öllu lífi tekist að komast í þá stöðu að vera því sem næst ósigrandi – við erum ein um að vera ósigrandi og því fjölgar okkur ekki bara stöðugt heldur verður sífellt breiðara undir rassgatinu á hverju okkar, ekki síst svona að meðaltali. Sem væri kannski ekki vandamál nema fyrir þetta litla smáatriði að hámörkun framleiðslunnar felur í sér meiri ágengni gagnvart reikistjörnunni sem við búum á en hún þolir til lengri tíma – einsog hefur verið tíundað í svo mörgum vísindalegum ritgerðum að maður gæti ætlað að tegundin sem skrifaði þær kynni sér ekkert hóf. En ef það er eitthvað sem getur beint okkur af braut hins viðstöðulausa vaxtar og sjálfstortímingarinnar sem hann boðar er það hitt sem skilur okkur líka frá skepnunum, svo rækilega að það er kennt við okkur, menningin, og þá meina ég menning í víðasta skilningi, að gera hlutina vel, „að geta vitað betur“, að geta lesið í kringumstæður, séð fyrir skaðann sem við völdum og það hvaða afleiðingar hann getur haft fyrir okkur, ekki bara í næstu viku heldur næstu ár og áratugi, og hafa næga samkennd til þess að láta okkur þær varða og bregðast við. Þetta eru valkostirnir: menning eða dauði. II „Íslendingar fara í víking einsog forfeðurnir forðum“ – sagði fulltrúi Skrifstofu viðskiptalífsins í viðtali við blaðamann tímaritsins Vinnunnar árið 1990 og vísaði þar til verslunarferða Íslendinga til Glasgow sem notið höfðu mikilla vinsælda frá því í byrjun níunda áratugarins. Í sama blaði er rætt við húsmæður sem sótt hafa borgina heim fyrir hver jól árum saman. Þær ganga ekki svo langt að tala um víking en segja þetta þó „hreinar vinnuferðir“, enda séu þær mættar fyrir utan búðirnar í Buchanan-street fyrir opnunartíma og láti reka sig út við lokun. Þá fara þær og fá sér nautasteik á einhverju veitingahúsa borgarinnar, enda kostar slíkt lostæti sama og ekkert í paradísar-Glasgow. Bætir ein því við að sig dreymi um að geta einn daginn tekið karlinn með og gert úr þessu skemmtiferð. Á þessum árum þótti vöruverð á Íslandi afar óhagstætt, sérstaklega miðað við skoska verðið, og ef keypt var nóg af ódýrum vörum mátti hæglega afskrifa kostnaðinn við bæði flug og hótel – raunar voru líka dæmi um að fólk flygi einfaldlega út að morgni og kæmi aftur að kvöldi, og núllaði þar með hótelkostnaðinn. Ferðir af þessu tagi voru ekki einsdæmi fyrir Íslendinga – margar þjóðir sóttu og sækja heim nágranna sína í leit að ódýrara vöruverði og í sumum löndum ferðaðist fólk langa vegu innanlands til þess að komast á útsölur heildsölurisa sem haldnar voru í gígantískum lagerbyggingum í fjarlægum sveitum. Vesturlandabúar voru komnir með kreditkort og þurftu að kaupa dúnúlpur á krakkana, spariskó fyrir jólaböllin, æsandi undirföt, samstæða jogginggalla, buxnapils, velúrsloppa, fjarstýrða bíla, teygjulök á rúmið, vinnuskyrtur, star wars kalla, sérrístaup, hársprey og stígvél. „Auðvitað keypti ég fyrir meira en sjö þúsund krónur“, sagði kona ein nýkomin frá Glasgow við blaðamann DV árið 1986, en sjö þúsund krónur var hámarkið sem flytja mátti inn fyrir án þess að greiða toll. „Þeirri upphæð eyddi ég í fríhöfninni“ hélt hún áfram og benti á poka með fleiri hundruð sleikibrjóstsykrum. Voru allir viðmælendur allra fjölmiðla sammála um að enginn léti sér hámarkið duga og að flestir versluðu fyrir á bilinu 40-50 þúsund krónur. (Ég veit ekki hversu mikið það segir manni að 40 þúsund krónur þá séu tæplega 400 þúsund í nútíma krónum en til auka-viðmiðunar má nefna að í sama blaði kemur fram að þetta ár hafi lítil kók kostað 20 krónur en tvö grömm af kókaíni 9 þúsund krónur). III Í sögubókum Vesturlanda blasir þetta við, rétt einsog það gerir í skáldsögum og bíómyndum. Níundi áratugurinn var öld ofgnóttarinnar. Ofan á verslunarferðir bættust sólarlandaferðir, ofan á sólarlandaferðir sólbekkjaferðir, ofan á sólbekkjaferðir kokteilar og kókaín, hlutabréf, spegladiskó, skýjakljúfar, hversdagsleg geðlyfjanotkun, álfelgur, bílasímar og spoilerar, vígbúnaðarkapphlaup og kjarnakljúfar, vasadiskó, vídjótæki og æfingamyndbönd og sístækkandi verslunarmiðstöðvar fyrir sístækkandi fólk með sístækkandi þarfir. Þetta var áratugurinn sem færði heimsbyggðinni Donald Trump, Margaret Thatcher og Ronald Reagan, áratugurinn sem frjálshyggjan tók yfir sem hin ráðandi hugmyndafræði, áratugurinn sem við ákváðum hvort við værum kókfólk eða pepsifólk, makkafólk eða pc-fólk, áratugurinn sem Truman Capote tók fyrir í Bonfire of the Vanities , Don DeLillo tók fyrir í White Noise , Jay McInerney tók fyrir í Bright Lights, Big City og áratugurinn sem Bret Easton Ellis tók fyrir í Less Than Zero og American Psycho . Við drekktum okkur í vellystingum í krafti aukins kaupmáttar og með aðstoð listarinnar horfðumst við í augu við okkur sjálf, keyptum sjálfsþekkinguna í bókum og bíómiðum, svo til óhrædd í fyrstu, kannski jafnvel bara dálítið stolt og glöð, en komumst engu að síður fyrir að rest að óyggjandi niðurstöðu: Við vorum viðbjóðsleg. Þetta hafði verið hræðilegur áratugur. Og ef við héldum svona áfram myndum við fljótt ganga af heiminum dauðum. Nú skyldum við skammast okkar. Síðan þá eru allir okkar dagar ýmist markaðir kapphlaupi eftir óverðskuldaðri hugarró eða tignun eigin grunnhyggni. IV Árið 1989 var heimurinn sem sagt á fleygiferð. En árið 2020 stóð hann kyrr. Ekkert gerðist og við gerðum ekkert. Utan við gluggann geisaði auðvitað heimsfaraldur en inni var kyrrðin svo kraftmikil að brátt fóru að berast út flökkusögur um að þarna úti væri „náttúran“ að leggja undir sig heiminn aftur – að höfrungar og svanir svömluðu í síkjum Feneyja og drukknir fílar skakklöppuðust um kínverskar borgir, skóglendi væri jafnvel að byrja að breiða úr sér út á hraðbrautir. Þetta voru falsfréttir en við sáum þessu sjónvarpað í símunum okkar og þetta var stórfenglegt þótt þetta væri lygi – og það var ekki allt sem við sáum lygi og sumt af því var jafnvel álíka tilkomumikið. Mislægu gatnamótin voru vissulega auð, verksmiðjuskorsteinarnir blésu engum reyk og flugvélar heimsins stóðu kyrrar í skýlum sínum. Á himninum yfir Ísafirði urðu þoturákir sjaldgæfari en glitský. Foreldrar kenndu börnum sínum heima, einstæðingar bökuðu súrdeigsbrauð, skrifstofufólk mætti á fundi í náttfötunum, jafnvel enn uppi í rúmi, og draumóramenn spurðu hvers vegna þetta gæti ekki alltaf verið svona? Þá væri kannski einhver von, sögðu hin heimakæru, meðan aðrir gnístu tönnum. Í stað þess að fara til Tene fórum við upp á næsta fjall. Í stað þess að fara í borgarferðir ferðuðumst við í huganum og í stað þess að fara út að borða lærðum við að elda framandi rétti af YouTube myndböndum. Milli þess auðvitað sem við sulluðum örvilnuð í áfengisbirgðum okkar, skrolluðum facebook, doom-skrolluðum fréttamiðlum, störðum í baðherbergisspegilinn, störðum á sálarlausa kollega okkar á zoom – sjálfsvirðingarlaust fólk sem var ekki einu sinni komið úr náttfötunum – og íhuguðum sjálfsmorð af leiðindum. Heimurinn stóð kyrr. Það gerðist ekkert og við gerðum ekkert. Á einu augnabliki drógust flugferðir ferðamanna milli landa saman um nærri því þrjá-fjórðu hluta – einsog smellt hefði verið fingrum. Þegar rýnt var í tölurnar kom í ljós að svona lítið höfðum við hreinlega ekki flogið frá árinu … 1989. Við ferðuðumst sem sagt jafn mikið þetta ár sem heimurinn stóð kyrr og við gerðum síðasta árið fyrir efnahagslægð tíunda áratugarins, á gullöld sólarlanda- og verslunarferða, þarna rétt undir lok áratugs hinnar hamslausu ofneyslu, þegar fólki þótti ekki tiltökumál að skjótast til Glasgow dagspart til að kíkja í Marks og Spencer. Þá hafði það verið mikið – nýtt met slegið á hverju ári, aldrei höfðu jafn margir farið jafn víða – en þrjátíu árum síðar voru öll þessi met jafngildi fullkominnar kyrrsetu. Sannarlega hafði okkur fjölgað á þessum tíma og fleiri okkar höfðu nú fjárráð til að ferðast, en okkur hafði ekki fjölgað svona mikið og misskiptingin var jafnvel meiri en áður. Það sem hafði breyst var fyrst og fremst afstaða okkar til ferðalaga – það var ekki lengur stórmál að stökkva milli landa. Það fylgdi því ekki lengur viðtal í DV. Þrjátíu árum fyrr hefði helgarferð til Kaupmannahafnar a.m.k. kallað á ljósmyndasýningu fyrir kollegana – seinnipart vikunnar, þegar myndirnar væru loks komnar úr framköllun – en nú tók því varla að nefna það, ekki frekar en bara að Selfyssingur hefði kíkt til Hveragerðis. Og ef maður gerði sér ferð til Glasgow þótti orðið sjálfsagt að taka karlinn með. Kolefnisútblástur hefur einsog þið vitið – einsog hvert mannsbarn veit – aukist ár frá ári frá því mælingar hófust, með einni raunverulegri undantekningu, árið þegar heimurinn stóð kyrr, þegar hann dróst saman um 5%. Þá hafði kolefnisútblástur ekki verið lægri í tíu ár – og var samt nærri 60% hærri en hann var hið herrans neysluár 1989. Einkaneyslan, sem dróst örlítið saman við upphaf faraldurs, náði sér líka fljótt aftur á strik þegar fólk tók að innrétta heimaskrifstofur, kaupa sér líkamsræktartæki, hamstra nauðsynjar og stunda vefverslanir til þess að létta sér lundina – og samdrátturinn, sem afmarkaðist eðlilega fyrst og fremst við ferðalög og skemmti- og veitingastaði, varð aldrei svo mikill að einkaneysla fólks nálgaðist neitt það sem hún var þá rósemdardaga þegar íslenskar húsmæður tóku ekkert með sér til Glasgow nema tómar ferðatöskur undir útlendan lúxusvarning og keyptu 20 þúsund sleikibrjóstsykra í fríhöfninni. Enda hefði þurft meira til: einkaneysla Íslendinga árið 2020 hafði tvöfaldast frá árinu 1989. Við, hinir síflokkandi og meðvituðu nútímamenn, við hin hógværu og vökulu, við hin upplýstu og dómhörðu, við, kolefnisjafnandi rafbílaeigendurnir sem ekki fögnum ofgnóttinni lengur heldur skömmumst okkar fyrir hana, reyndumst þegar til kastanna kom vera margfaldir neytendur á við þá sem börðu sér á brjóst og þóttust ætla að éta alla heimskringluna í einum munnbita fyrir 40 árum síðan. V Líklega erum við löngu hætt að skilja heiminn nema í gegnum neyslu- eða neyslulíka hegðun. Við sofum ekki út nema hafa lært það á námskeiði í dönsku hygge, hendum ekki gömlu náttborði án þess að því fylgi lærð yfirlýsing úr bókum Marie Kondo eða Feng Shui, stundum ekki kynlíf án þess að taka fram dótakassa og leiðarvísa, stingum ekki nefinu inn í lýðræðislega samræðu án þess að taka tillit til þess hvaða ljósi það varpar á vörumerkið sem við erum orðin eða gætum átt eftir að verða, veljum okkur ekki maka nema með aðstoð appa, skrollum andlit eftir andlit og hámörkum ástarneysluna með fjölkærispeki, segjum ekki brandara án þess að telja lækin og nú hefur hollendingum meira að segja tekist að markaðssetja tómið. Niksen – hin hollenska list að gera ekkert í engum sérstökum tilgangi. Það er þegar hægt að kaupa margar bækur um niksen , hægt að horfa á margar myndir um niksen , um niksen hefur verið fjallað í öllum helstu fjölmiðlum, við getum öll tileinkað okkur tómið – því sjá, ég færi yður mikinn fögnuð, niksen mun losa yður undan kulnun og þreytu, undan álagi nútímasamfélagsins, niksen mun færa yður hugarró, hugarró mun gera yður kynþokkafull og auka velgengni yðar: gerið ekkert í engum tilgangi og sjá, það mun hafa tilgang. Og alltíeinu vöknum við upp við að nýjasta merkingarbæra afreksíþrótt hinnar meðvituðu nútímamanneskju er að gera ekkert, alltíeinu er ekkert meira að segja orðið erfitt, orðið stressandi; að ráfa um í tilgangsleysi – maður starir út í tómið og spyr sig, er ég að gera þetta rétt? Er ég að gera ekkert rétt? Hvað segja Hollendingar? Hvað segir Friedrich Nietszche – á niksenið að stara svona til baka? Þegar ekkert er líka orðið neysla – þegar ekki einu sinni ekkert er eftir ómarkaðssett – er allt orðið neysla. VI Loftslagsvandinn er ekki venjulegt praktískt vandamál og hefur ekki verið lengi. Við vitum hvað veldur hlýnun jarðar, við vitum hvaða afleiðingar hlýnun jarðar hefur og við vitum hvað við getum gert til þess að koma í veg fyrir þær afleiðingar. Við vitum líka að þær framfarir sem orðið hafa í framleiðslu, fræðum, orkunýtingu og endurvinnslu – eins stórkostlegar og þær nú oft eru – hafa lítið að segja ef svigrúmið sem þær veita er aldrei nýtt til annars en að framleiða meira, keyra meira, fljúga meira, kaupa meira, græða meira. Loftslagsvandann sem slíkan höfum við leyst – a.m.k. á pappírunum – en kannski er hinn stóri vandi sem eftir situr sá hvernig við förum að því að draga stórlega úr umsvifum okkar á plánetunni án þess að sökkva hákarlinum, án þess að setja hagkerfi heimsins á hliðina. Því við skulum ekkert gera lítið úr því heldur að efnahagshamfarir eru raunverulegar og hafa raunverulegar afleiðingar og að óbreyttu bitna þær afleiðingar fyrst og fremst á þeim sem síst skyldi – þeim sem eiga minnst, eyða minnst, græða minnst, og bera þar með minnsta ábyrgð á vandanum. Við lifum einfaldlega í þannig symbíósu með þessum hákarli að ef við dræpum hann umyrðalaust myndi það ekki bjarga okkur frá annars óhjákvæmilegri glötun heldur þvert á móti flýta fyrir henni. VII Rétt um það leyti sem níundi áratugurinn var að klárast – kannski var það einmitt 1989 – lýsti rithöfundurinn Martin Amis samtíma sínum sem öld heimskunnar, í viðtali við femínistann Germaine Greer. Orðrétt sagði hann að það gengi yfir heimsbyggðina krampakennd heimska – „convulsions of stupidity“ – en bætti svo við að sennilega myndum við engu að síður syrgja þennan tíma, enda myndi heimurinn halda áfram að verða heimskunni að bráð, heimskan myndi ágerast. En að sama skapi myndi heimurinn halda áfram að glata sakleysi sínu, verða lifaðri, reyndari, deyfðari, því að á hverjum gefnum tíma hefði jörðin gengið í gegnum meira en nokkru sinni áður. Maður verður nefnilega aldrei minna lifaður og maður endurheimtir aldrei örðu af því sakleysi sem maður hefur glatað. Einsog áður sagði hefur einkaneysla Íslendinga – einsog flestra þjóða – ríflega tvöfaldast frá árinu 1989. Ef frá eru taldar sígarettur og fáeinar úreltar tækni- og tískuvörur eru eiginlega engar vörur sem við kaupum minna af árið 2024 en við gerðum árið 1989, nema bækur. Meira að segja vínylplötur eru farnar að seljast í álíka upplagi og þær gerðu þá. En bóksala hefur hrunið. Ég skal ekki fara í launkofa með að ég hef ákveðna hagsmuni af því að bóksala sé mikil – því meira sem bækur seljast, því oftar kemst ég til Tene, því oftar get ég endurnýjað hlaupaskóna, keypt blóm fyrir konuna mína og dúnúlpur á börnin – en trú mín á bækur sem boðbera fyrir samkennd, hugsun og jafnvel á köflum hreina og klára visku, er einlæg fyrir því, og ég get ekki heldur að því gert að sjá samræmi í uppgangi popúlisma, þessara sífellt trúðslegri heimskukrampa veraldarinnar, og hnignun bókmenningar. Að það sé samasemmerki milli þess að lesa lítið og illa – eða bara hreinlega þess að vera menningarlaus – og þess að ráða illa við að vinna úr upplýsingum eða sýna samkennd. Við látum stundum einsog heimska samtímans sé afleiðing af kraftmikilli tækniþróun – kennum um hámenntuðum rússneskum hakkaragrúppum sem blekki okkur, óskiljanlegum algóritmum samfélagsmiðlanna, hraðanum í örvilnaðri fjölmiðlun á tækniöld, gervigreind sem hugsi fyrir okkur – og sjálfsagt er það ekki allt alveg úr lausu lofti gripið. En okkur væri samt hollt að gangast við því að vilji einhver stjórna okkur – og þar með sannleikanum – þarf engar ofurtölvur til. Einsog dæmin sanna er nóg að berja í borðið. Donald Trump er ekki að fara að verða valdamesti maður heims – í annað sinn – vegna þess að hann sé svo miklum tæknigáfum gæddur, eina tæknin sem hann hefur á valdi sínu er all-caps-takkinn á lyklaborðinu, og þaðan af síður vegna þess að hann sé mælskur eða klókur. Donald Trump fær að ráða vegna þess að hann tjáir sig einsog hellisbúi. Og við, sem erum sennilega orðin of vön því að valdið tali til okkar í þessum háværa fullyrðingatón höfum reynst of vitlaus til þess að veita því nokkurt viðnám sem nær máli, það er í besta falli að við megnum að garga eitthvað á móti – sem verður svo á endanum ekki til annars en að veita þessum tjáningarmáta heimskunnar þegnrétt í samfélagsumræðunni. Ég skýt ekki heldur loku fyrir að þetta sé viljaverk. Kannski erum við vitlaus – kannski getum við hvorki skilið upplýsingar né miðlað þeim skiljanlega, hvað þá skilið hvert annað – af því við viljum vera það. Mér finnst það stundum meira að segja frekar líklegt. Ég kann vel að merkja bara eina lækningu við heimsku og hún er að lesa bækur. Það er mitt húsráð. VIII Ég var spurður að því í gær hvort hlutverk mitt á þessari ráðstefnu væri að vera með einhvers konar comic relief milli vísindaritgerða og svaraði því til að þá hefðuð þið sennilega ráðið grínista – því rithöfundar bjóði ekki upp á annað en angist. Við skulum þess vegna halda því til haga, hér að síðustu, þótt ekki væri nema til þess að stemma af bókhald mögulegra hugsana – nú þegar öld heimskunnar, einsog Martin Amis kallaði hana, hefur öðlast rósrauða fegurð í baksýnisspeglinum sem tímabil visku og hófsemdar – að það er ekki að öllu leyti ótæk afstaða að gefast einfaldlega upp á þessari plánetu. Eða réttara sagt, að gefast upp á þessu mannkyni – því það er ekkert sem bendir til þess að okkar eigin glötun feli í sér glötun plánetunnar svo ég viti til. Það er meira að segja alveg hugsanlegt að við þessar kringumstæður sé ekkert náttúrulegra en glötun mannsins – að allar þær hamfarir sem loftslagshlýnun kalli yfir okkur séu ekki annað en plánetan að rétta kúrsinn, lofta út áður en allt fyllist af reyk, bjarga sjálfri sér, einsog öllu lífi er eðlilegt. Sjálfsagt mun okkur sem tilheyrum því þykja missir að mannkyni en það er ekkert víst að neinn annan muni neitt um það – þessu hlaut alltaf að ljúka á endanum hvort sem var, og spurning hvort það skipti nokkru hvort það er núna eða síðar. Einhver kynslóð verður alltaf að reka lestina. Spendýr eiga víst almennt ekki nema um milljón ára lífsferil áður en þau deyja út – við erum búin með tvö til þrjú hundruð þúsund ár og ættum því í sjálfu sér að eiga eitthvað eftir. En einsog markþjálfarnir minna okkur gjarnan á er þetta ekki spurning um hversu lengi maður lifir, heldur hversu mikið líf hefur verið í því lífi sem maður lifði. Og ætlar einhver hér að neita því, að við höfum lifað mjög mikið? Blasir það ekki líka við, að við séum að verða svolítið lifuð? Takk fyrir.