Það eru minningargreinarnar sem halda bæði Mogganum og Facebook gangandi. Ég hélt mig fjarri samfélagsmiðlum þar til nafni minn dó og ég vildi eða þurfti að upplifa sorgina með einhverjum. Þá opnaði ég rifu. Svo kom önnur rifa nú þegar Svavar Pétur dó. Og ég læt moggann (og prentmiðla) eiginlega alveg vera nema þegar sömu ástæður kalla á lestur. Að vísu las ég svolítið dagblöðin í blábyrjun árs en það kom bara fljótt í ljós að þau mega muna sinn fífil fegurri. Ég lét mér kvöldfréttir í sjónvarpi og morgunfréttir í útvarpi nægja þar til ég fór til Svíþjóðar og það passaði ekki lengur inn í rútínuna. Þá fór ég aftur að lesa instagram vikunnar og allar hinar netfréttirnar. Maður les mjög mikinn óþarfa á fréttamiðlunum – eiginlega eru þeir að mörgu leyti verri en samfélagsmiðlarnir. Samfélagsmiðlunum er ekki alls varnað – þótt þeir bjóði, eðli málsins samkvæmt, líka upp á verstu tegund af bæði hjarðhegðun og trigger-trolli. Nú er jólabókaflóðið að hefjast og þar sem ég er með bók – mína fyrstu barnabók, mína fyrstu jólabók og mína fyrstu horrorbók (þetta er allt sama bókin samt) – þarf ég sennilega að opna enn stærri rifu. Þótt ekki væri nema bara til að geta boðið fólki í útgáfuhóf. Ég held ég hefði gott af því að móta mér einhvers konar umgengnisreglur við þessa miðla. Það þýðir ekki bara að vera ekki með appið í símanum þegar maður eyðir bróðurpartinum af deginum við tölvu (hugsanlega væri meira vit að vera bara með öppin og láta þetta alveg vera í tölvunni).
Hvítar skyrtur
Á mig sækir efinn. Ætli það sé bara vegna þess að það er mánudagur og ég var (einsog áður segir) mjög duglegur á smakkbásunum á bjórhátíðinni í Hveragerði? Ég er að lesa Stúlka, kona, annað eftir Bernardine Evaristo og finnst hún oftast eiginlega alveg hræðileg. Inn á milli koma kaflar sem hreyfa við mér. En einhvern veginn er mikið af þessu hálfgerðar tékklistaklisjur – sögupersónur sem manni finnst maður hafa séð þúsund sinnum áður, skrifaðar á þreyttri tilgerðarlegri urban-ljóðrænu, og flestar sögurnar voða beisikk sápuóperur. Harmur á háskaslóð. En svo er þetta áreiðanlega líka dagsformsspurning hjá mér. Það er stutt í óþolið hjá mér. „Er þetta ekki bara drasl?“ ómar í höfðinu á mér, alveg sama um hvað ræðir. Og svo þegar ég átta mig á því hvað ég er ósanngjarn breytist spurningin í „ert það ekki bara þú sem ert drasl, góði?“ Svo var líka maður þarna í Hveragerði sem gekk um og hellti úr jägermeisterflösku beint upp í fólk. Eða – „beint“ er svolítið orðum aukið. Eiginlega hellti hann mest bara yfir hvítu skyrtuna sem ég hafði keypt mér í Kormáki og Skildi um morguninn í staðinn fyrir þá sem ég skildi eftir á hótelherbergi í Frakklandi um daginn og hina sem ég fékk lánaða helgina þar á eftir og eyðilagði þegar það sprakk penni í innanávasanum mínum (sams konar blettur, en nokkuð minni, var einmitt líka á skyrtunni sem týndist í Provence). Ég sem er nýbúinn að ákveða að það fari mér svo vel að vera í hvítum skyrtum. (Nú las ég þessa færslu yfir og hugsaði: „voðalegt drasl er þetta“ – jæja, það kemur ekki í veg fyrir að ég pósti).
Víking
Ég fór í víking á helginni, ásamt hljómsveitinni Gosa , til Hveragerðis á Bjórhátíð. Þar lékum við nokkur dægileg lög og smökkuðum fullt af bjór. Annað er ekki að frétta.
Far vel, fagri prins
Ég hafði varla hitt Svavar Pétur þegar ég hét honum ævarandi vináttu. Það var að hans undirlagi, ég þekkti hann ekki neitt – var úti á lífinu ásamt fleirum og var kallaður í stúdíó til að syngja í stórum kór fulls fólks í laginu Friends Forever, sem kom svo út á plötu Rúnks, Ghengi Dahls. Ég kynntist honum ekkert að ráði fyrren í Berlín árið eftir – aftur í stórum hópi. Eiginlega var Svavar mjög oft í stórum hópi, vinamargur þótt hann virkaði líka oft á mann sem einfari. Vinsæll einfari sem var elskur að mörgum. Einu sinni fékk hann lánaða íbúðina mína á Ísafirði þegar ég var í burtu – ég held hann hafi einmitt verið þar með stórum hóp sem fór svo út og málaði bæinn rauðan. Hann skrifaði mér nokkrum dögum síðar til að þakka fyrir sig og sagðist þá hafa farið mjög þunnur inn á baðherbergið mitt um morguninn – alveg svona epískt timbraður, himinn og jörð að farast – og setið þar lengi á dollunni og starað út í alltof bjartan alheiminn um þakgluggann ofan við klósettið áður en hann rak augun í útprentað lesefni sem ég hafði skilið eftir á þvottavélinni. Það var þá útkrotað handritið að óútgefinni skáldsögu Hauks Más Helgasonar sem hét og heitir Svavar Pétur & 20. öldin . Ég man ekki hvað honum fannst eða hvort honum fannst nokkuð eða hvort hann einu sinni las neitt nema titilinn. Sennilega skrifaði hann mér bara til að láta mig vita. Til þess að augnablikið yrði aðeins minna skrítið. Bókin hafði vel að merkja ekkert með Svavar Pétur að gera – Haukur hafði bara fengið nafnið að láni. Þetta fallega nafn. Síðar gerði hann kápur á nokkrar bækur fyrir mig – Maíkonunginn, Hnefa og átti bestu tillögurnar á Gæsku (en ekki þá sem Forlagið valdi á endanum). Við sáumst á tónleikum og upplestrum og í partíum og á laugaveginum. Mest þekktumst við samt bara í gegnum þennan stóra hóp af fólki sem umlék hann á alla kanta. Stundum var einsog hann væri allsstaðar að gera allt. Og gera það allt vel. Fallega hönnun, góðan mat, ótrúleg popplög, frábæra texta – og allt var það svo óumræðilega hans einhvern veginn. Hann átti einhvern tón, einhverja rödd – auðþekkjanlega og einstaka – og meira getur varla neinn listamaður beðið um. Hana eigum við enn og það er ekki svo lítið ríkidæmi til að hugga sig við – listin er hérna enn. En vinur okkar er farinn og eftir situr stór hópur og syrgir sinn besta dreng. Ég sendi fólkinu hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Að drepa útlendinga
Finnar ætla víst að fara að meina Rússum inngöngu í landið. Síðustu daga hafa tugir ef ekki hundruð þúsunda karlmanna á herskyldualdri yfirgefið landið (ég hef séð tölur á bilinu 70-266 þúsund). Augljósasta leiðin úr landi þessa dagana er yfir finnsku landamærin. Mér skilst að Rússar eigi enn að geta sótt um hæli en ég átta mig ekki á því hvað það þýðir – hvort maður fái þá hæli ef maður er bara að reyna að komast undan herskyldu. Mér finnst ekki ósennilegt að Finnar óttist að með þessum hersingum komi óæskileg öfl – annað hvort á vegum Pútíns eða bara ribbaldar. Saga Rússlands og Finnlands er erfið og það grassera hræðilegir fordómar í Finnlandi gagnvart Rússum – ekki bara Pútín, heldur rússnesku þjóðinni sem slíkri. Þetta eru engar vinaþjóðir. Mér finnst herskylda hræðileg. Mér finnst hún líka hræðileg í Úkraínu, þótt aðstæður þar séu skiljanlegri. Að það sé ekki almennt skilgreint sem mannréttindabrot eða stríðsglæpur að skylda fólk til þess að drepa aðra. Einsog það sé ekki nógu vont að fólk drepi aðra sjálfviljugt?
Guð er ekki eina appelsínan
Á dögunum las ég Glímuna við Guð eftir Árna Bergmann. Þar vitnar Árni í ljóð eftir nafna minn Erich* Fried Hundur sem deyr og veit að hann deyr eins og hundur og getur sagt að hann viti að hann deyi eins og hundur er maður. (*Ég er skírður í höfuðið á afa mínum Erich Egon Hübner). Þetta ljóð má lesa á marga vegu. Fyrst og fremst blasir við að það sem geri manninn að manni (eða manneskju að manneskju, öllu heldur) sé meðvitund um stöðu sína og færni til þess að tjá sig um hana. Og að því marki að verði dýr fært um eitthvað slíkt hljóti dýrið að vera manneskja. Og sennilega er eitthvað líka þarna um að til þess að vera manneskja þurfi maður að geta dáið. Skyldar spurningar eru í forgrunni skáldsögunnar Frankissstein eftir Jeanette Winterson, frá 2019. Hún gerist á tveimur tímaskeiðum og segir annars vegar frá því þegar Mary Shelley skrifar Frankenstein og hvernig sköpunarverk hennar – dr. Victor Frankenstein – ofsækir hana (ofsækir er kannski orðum aukið – einhvers staðar mitt á milli ofsækir og heimsækir) – og hins vegar frá kynsegin lækninum Ry Shelley í samtímanum og sambandi háns við vísindamanninn Victor Stein, sem vinnur með gervigreind, og sölumanninn Ron Lord, sem selur og framleiðir kynlífsdúkkur. Winterson lætur sögusviðin spegla hvert annað og oft að því marki að bókin og sögupersónur hennar – sem sköpunarverk Winterson – spegla þá sköpun sem aðrir í bókinni stunda, bæði sem höfundar, vísindamenn og einstaklingar. Bókin er bráðsnjöll – leiftrandi á köflum – stundum dálítið kitsí og dettur af og til út í predikanir sem mér fannst stundum frekar PC (en internetið skiptist í tvær fylkingar með það hvort hún sé WOKE eða TERF). Winterson er á jarðsprengjusvæði og hefur fengið bæði lof og last fyrir – aðallega vegna Ry, sem hefur persónulegan frekar en dæmigerðan skilning á sjálfu sér og verður þess utan fyrir bæði fordómum, blætisdýrkun og ofbeldi af hendi samfélagsins sem hán lifir í. Eðlilega verður trans-spurningin í miðju skáldsögunnar viðkvæm þegar henni er stillt upp við hlið skrímslis Frankensteins og mögulegu frelsi líkamlausrar gervigreindar eða helsi kynlífsdúkkunnar. Transfólk vill ekki frekar en aðrir láta kalla sig skrímsli, póst-húman eða kynlífsdúkkur – ég myndi segja að Winterson, eða bókin, geri það ekki (nema hugsanlega að hún spyrji hvort við séum ekki öll póst-húman/skrímsli/kynlífsdúkkur). En listaverk af þessari tegund eru heldur ekki nákvæm – þau eiga ekki að miða beint í mark og væru vond ef þau gerðu það (það heitir áróður – hann kannar ekkert, skoðar ekkert, heldur bara veit og dæmir). Mér fannst sjálfum blasa við að Winterson væri með fjölbreytileikanum í liði, hinu margbrotna og skapandi, þótt hún vildi líka draga inn hætturnar. Að hún vildi hnita í hringi í kringum möguleika sköpunar, sjálfsmyndar og vitundar og sjá hvað kæmi út úr því – hvað það segði um „hið mannlega ástand“. Úr því kom ýmislegt hnitmiðað og annað óhnitmiðað – einsog gengur, Winterson hefur alltaf verið áhugasöm um ævintýrið í hinu mannlega – og það er kannski í og með kaldhæðnislegt og lýsandi (fyrir verkið og samtíma þess) að innsti kjarni bókarinnar skuli fjalla um ábyrgð skaparans á sköpunarverki sínu.
Lögregla fann mann
Þessa fyrirsögn las ég á Vísi áðan. Í fréttinni kom fram að mynd hefði verið fjarlægð en ekki hvort lögreglan hefði fjarlægt hana. Annars er fátt að frétta – nema að ég hef ákveðið að skrifa eitthvað hér daglega. Og reyna að hemja mig svolítið. Jú í morgun gerði ég í tilraun til að semja lag.
Að lesa og kjósa og vera ungur
Ungir Svíar kjósa hægri öflin. Þetta hefur svolítið verið til umræðu í Svíþjóð. Það er hallærislegt að vera sósíaldemókrati – að vera sossi er samheiti fyrir að vera nískur, sagði eitt ungmennið. Við viljum ódýrt bensín, sagði annað. Stór hluti Svía býr fremur afskekkt og það fólk treystir á bíla sína á annan máta en unga fólkið í borgunum. Og margt af þessu unga fólki kýs sem sagt ekki bara Moderatarna – Sjálfstæðisflokk þeirra Svía – heldur ekki síður Svíþjóðardemókratana, þá húsvönu nasista. Þeir eru sem sagt einna vinsælastir hjá þeim kjósendum sem eru að kjósa í fyrsta sinn. Útskýringin, segja sum ungmenni, er meðal annars einhvers konar uppreisn gegn fullorðinsheiminum – eða dómhörðu kynslóðinni sem er nú rétt að hætta að teljast til ungmenna. Þá kom fram í fréttum að þetta væri alls ekki bara sænskt trend heldur gilti sama um Marine Le Pen í Frakklandi og Meloni á Ítalíu, báðar njóti talsverðra vinsælda meðal ungs fólks. Sú síðarnefnda notar japanskar anime-teikningar til þess að kynna sig – það er hennar myndmál, myndmál æsku og mýktar, eins ólíkt hinu harða maskúlín myndmáli Mussolinis og maður kemst. Stöndum vörð um hina hefðbundnu fjölskyldu, segir Meloni-Chan (en svo heitir anime-avatar Giorgiu Meloni). Annað sem ég las í sænskum fréttum í vikunni var að 11% Svía læsu enga bók á ári. Jafn margir töldust bókaormar og lásu fleiri en 30 bækur á ári. 27% Svía lásu eina til þrjár bækur á ári og 18% lásu fjórar til sex– restin las svo eitthvað á milli sex og þrjátíu bækur. Mér fannst þetta forvitnilegt. Með kynjamuninum komu karlar enn verr út – 16% karla lásu enga bók en 6% kvenna. Allir voru meira og minna sammála um að þeir vildu gjarnan lesa meira. Við lok síðasta árs fannst mér einsog ég væri eitthvað að missa fótanna í lestri. Og las þó rúmlega bók á viku – minnir að ég hafi verið með um 70 titla í lestrardagbók heimilisins. Mikið af því var ekki skáldskapur – ég lá í blússögu og alls konar þannig grúski. Ég ákvað að taka mig taki, hætta helvítis símahangsinu og vera alltaf með bók á mér. Ég ákvað líka að lesa meiri skáldskap, meira á íslensku og hætta t.d. að forðast þýðingar úr ensku, nota bókasafnið og bókabúðina og ráðast í allar þessar ólesnu bækur sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Á fyrri hluta ársins las ég að meðaltali 25 bækur á mánuði og ákvað því á afmælinu mínu – sem er akkúrat á miðju árinu – að halda þessum ánægjulega dampi og klára 300 titla fyrir áramót. Það hefur enn sem komið er ekki kostað mig neina sérstaka fyrirhöfn aðra en þá að þegar ég hef ekkert annað að gera tek ég upp bók frekar en síma. Þegar ég las þessa sænsku frétt um lesturinn saknaði ég þess að fá ekki gamlar tölur til samanburðar. Hefðu þeir sem lásu 30 bækur á ári talist bókaormar fyrir 40 árum síðan? Er það mikið? Mér finnst einsog ég sjái oft að fólk setji sér markmið að lesa 100 bækur á einu ári. En svo er „bók“ auðvitað mjög undarlegur mælikvarði. Stysta bókin sem ég hef lesið í ár var kannski 30-40 afar gisnar síður. Og sú lengsta rétt um þúsund þéttar síður. Og ekkert sem segir að stutta bókin geti ekki haft meira afgerandi áhrif á mann en sú langa – lifað með manni lengur og jafnvel kostað mann meiri lestrartíma, ef maður þarf að sökkva sér í hvert einasta orð. Allavega. Í könnun frá MMR hér um árið kom í ljós að á meðan kjósendur ysta vinstrisins (eða VG – sem tradisjónelt er ysta vinstrið, þótt það séu kannski ekki allir sammála um hvar sá flokkur stendur síðustu árin) lesi mest þá lesi kjósendur popúlistaflokka (í þessu tilfelli Flokks fólksins) minnst. Heil 37% kjósenda Flokks fólksins, 2019, sögðust aldrei lesa sér til ánægju – sambærileg tala hjá kjósendum VG var 6%. Mér finnst eðlilegt að draga af þessu þá ályktun að annað hvort verði maður fáviti af því að lesa ekki eða það séu bara fávitar sem ekki lesa. En það er auðvitað svolítið pólaríserandi afstaða.
Bassanótur og bókaglósur
Þessa dagana fer mikill hluti míns frítíma í að sinna sífellt fyrirferðarmeiri ferli mínum sem skallapoppari. Þessi ferill er reyndar margþættur – ég hef auðvitað verið að spila á gítar í mörg ár og jafnvel leyft mér að syngja örlítið. En síðasta vor var mér boðið að leika á bassa í indíbandinu Gosa og þáði það og nú hefur það undið upp á sig og við erum búnir að læra heilt ballprógram, ofan í indípoppið. Við höfum leikið þrisvar opinberlega. Í fyrsta skipti var það off-venue á Aldrei fór ég suður síðustu páska. Svo í innflutningspartíi hjá vinum okkar Hauki og Vaidu. Þá bættum við nokkrum slögurum við. Á síðustu helgi lékum við svo á balli á Skrímslasetrinu á Bíldudal – tókum fyrst Gosaprógramið og svo sirka 15 laga ballprógram. Á næstu helgi er svo árshátíð Ísafjarðarbæjar og við erum trommuleikaralausir – trommarinn okkar, Baldur Páll, er í Reykjavík á annarri árshátíð, en Jón Mar vinur okkar hleypur í skarðið. Þá þurfum við að spila í sirka þrjá tíma – í möppunni eru um sextíu lög, sum þeirra að vísu mjög einföld en önnur krefjandi. Og við reiknum ekki með því að spila nein Gosalög enda ballgestir sennilega bara í stuði fyrir Stevie Wonder og bítlana. Fyrir mann sem er enn að læra á bassa er þetta eldskírn og áskorun. Það hefur auðvitað verið nokkur bassaleikaraskortur í íslenskum bókmenntum frá því Bragi hætti í Sykurmolunum. Eða lagði þá niður. Eða hvernig það gerðist. Frá því Bragi hætti að spila opinberlega. Á þarnæstu helgi eru svo tvö gigg fyrir sunnan – en bæði með Gosaprógraminu (sem við kunnum orðið ágætlega). Á föstudegi leikum við í Mengi og á laugardegi á Bjórhátíð í Hveragerði. Kvöldin fara í þetta bassastúss og dagarnir fara enn sem fyrr í bókmenntirnar. Á mánudaginn birtist fyrsta eintakið af barnahryllingsjólabókinni minni, Frankensleiki , í póstkassanum. Ég skrifaði hana fyrir börnin mín á aðventunni í hittifyrra. Okkur fannst hún fyndin en svo verður bara að koma í ljós hvað öðrum finnst. Hún kemur allavega í búðir eftir mánuð. Ég er búinn að skila ritlaunaumsókn – það er leiðinlegasta bókmenntagreinin – og skipuleggja upplestur með sveitungum mínum, Helen Cova, Gretu Lietuvninkaite og Satu Rämö, auk Birtu Ósmann Þórhallsdóttur sem kemur til okkar af suðurfjörðunum. Svo hef ég mest verið að lesa mig í gegnum það sem ég er búinn að vera að skrifa síðustu mánuði, bæði ljóð og prósa, og skrifa hjá mér glósur í rólegheitunum. Nú þegar aukaverkunum og bassastússinu er að ljúka tek ég svo ærlega törn í eiginlegum skrifum. Sennilega hef ég lesið bók á dag frá því ég krafsaði mig í gegnum Sögu af nýju ættarnafni um daginn. Meðal annars tvær nýútkomnar bækur sem voru báðar fyrirtak – Breytt ástand eftir Berglindi Ósk (sem kemur held ég formlega út á morgun) og Auðlesin eftir Adolf Smára. Annars ber hæst Ótti markmannsins við vítaspyrnu eftir Peter Handke, Ett öga rött eftir Jonas Hassan Khemiri, Undrun og skjálfti eftir Amelie Nothomb, Daloon-dagar eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Ferðataskan eftir Sergej Dovlatov. Lágpunkturinn var Diktet minner om verden eftir Jan Erik Vold – í henni er að vísu eitt gott ljóð, sem í sjálfu sér getur alveg verið nóg, en uppistaðan er rímuð pólitísk ljóð af svipaðri tegund og Hallgrímur Helgason og Þórdís Elva hafa fengist við. Ég er með svo mikið ofnæmi fyrir þessari bókmenntagrein að ég get ekki einu sinni lagt mat á það hvort þetta sé vel eða illa gert. Vold er samt dálítið kúl týpa – norskt bítskáld. Sem minnir mig á, mér var sagt um daginn að það væri loksins búið að slaufa Allen Ginsberg – líklega hefur farið lítið fyrir því fyrst ég varð eiginlega ekki var við það nema af afspurn. Ginsberg var auðvitað voðalegur dónakall og meðlimur í NAMBLA en hafði líka orð á sér fyrir gætni og mýkt – helgaði líf sitt friði og ástum, eftir óstýrilátan þrítugsaldur. Það hafa mér vitanlega aldrei komið upp neinar hrottasögur af honum en hann sagðist sjálfur elska unga drengi – einsog hann sem ungur drengur elskaði eldri menn. Með því meinti hann sennilega eldri unglinga, sem var sannarlega ekki jafn umdeilt á sjöunda og áttunda áratugnum og það er núna (þá var samkynhneigðin umdeildari en aldursmunurinn). Einhvern veginn hef ég lengi beðið þess að annað hvort kæmi eitthvað ljótara upp úr dúrnum um hann eða að samtíminn tæki hann bara haustaki, einsog samtíminn gerir stundum þegar honum leiðist.
Söguflækjur vs. söguþræðir
Síðasta bloggfærsla varð að frétt í morgunblaðinu. Upp úr því fékk ég tölvupóst frá ónefndum rithöfundi sem vildi vita hvort dónalegi Frakkinn héti nokkuð D***d. Þá kom í ljós að téður rithöfundur hafði verið þarna með enn einum rithöfundinum (er aldrei hægt að segja hér sögur af fólki úr öðrum stéttum?) og þau höfðu einmitt rekið sig mjög illa á þennan dónalega Frakka líka. Svo illa að þennan rithöfund grunaði að hugsanlega hefði D***d verið hefna sín á okkur vegna erjanna við þau – enda allir íslenskir rithöfundar meira og minna sami höfundurinn í augum Frakka. Það greip mig ógurleg lesleti í vikunni og ég rétt slefaði í gegnum annað bindið af Napólífjórleik Elönu Ferrante, Saga af nýju ættarnafni . Ég veit ekki hvort mér fór að finnast hún leiðinleg vegna þess að ég missti dampinn eða hvort ég missti dampinn vegna þess að mér fór að finnast hún leiðinleg. Þetta er svolítið einsog að hlusta á mjög langa slúðursögu stundum. „Og gvöð, svo giftist vinkona mín Stefano en hann fór að berja hana og hún, sko hún, hún var ástfangin af Nino en ég var LÍKA ástfangin af Nino en Nino valdi hana auðvitað, hún er svo frábær, og svo gáfuð, það er alveg sama hvað ég læri ég verð aldrei jafn gáfuð og hún, þótt hún læri aldrei, og svo varð hún bara ÓLÉTT og gvöð hún segir að Stefano eigi ekki barnið!“ Þetta er auðvitað ósanngjarnt. Mér fannst fyrri bókin frábær og þessi er eiginlega alveg eins. Ég bara missti þolinmæðina fyrir þessu. Sakna einhvers – kannski einhvers sem ögrar mér. Þegar mér fer að leiðast fer ég líka að lesa mjög mjög hægt og það er bara ekki gott. Og þá fer ég að leita að göllunum og hugsa stanslaust af hverju mér finnist þetta ekki lengur skemmtilegt. Og lesandi sem treystir ekki bókinni getur ekki notið hennar. Ferrantebækurnar eru líka að mörgu leyti líkar Sally Rooney bókunum, sem ég er nýbúinn með. Hvíla mjög á melódramatískum söguþræði og vilja manns til þess að fylgja fólki inn í vandræðaleg og jafnvel ofbeldisfull ástarsambönd. Þetta eru eiginlega söguflækjur frekar en söguþræðir og halda endalaust áfram – sérstaklega hjá Ferrante. Þá eru aðalsögupersónurnar líka allar annað hvort eða bæði mjög gáfaðar eða mjög hæfileikaríkar/andríkar. Alls ekkert venjulegt fólk. Ég horfði á eitt og annað og áreiðanlega fullmikið á sumt. Byrjaði og kláraði aðra árstíð af Mindhunter seríunni. Eða hvernig segir maður aftur síson á íslensku? Talar maður kannski um aðra seríu af Mindhunter sjónvarpsþáttaröðinni? Þetta er ruglandi. Og Mindhunter var ekkert spes. Kláraði líka síðustu tvo þættina af Brooklyn 99 sem var ágætt bara, alveg fínt slútt á góðu léttmeti. Þá horfði ég á fyrsta þáttinn í Bæir byggjast , þáttum Egils Helgasonar, en hann fjallaði um Ísafjörð. Elísabet vinkona mín átti þar stórleik og það var mikið af skemmtilegu myndefni. Svo var líka minnst á Brúna yfir Tangagötuna . Við Aram Nói kósuðum okkur á laugardagskvöldið og horfðum á tvær bíómyndir í röð um hljómsveitir sem geta ekki hætt að rífast. Sú fyrri var Commitments eftir skáldsögu Roddy Doyle en sú síðari heimildamyndin Some Kind of Monster um Metallicu. Commitments er ruddalega fyndin án þess að eldast sérlega illa – og er þó á jarðsprengjusvæði: hvítir krakkar stofna hljómsveit, lýsa sig „the saviors of soul“ og segjast í raun vera blökkumenn Evrópu. En þau eru of sjálfshæðin og gróf og hreinlega utangarðs – og myndin hreinlega of mikið um hvað þau séu miklir rugludallar – til þess að slík gagnrýni stæði undir eigin þunga. Ég hef ekki séð hana síðan 1991 – þegar ég var jafn gamall Aram – og fannst mjög gaman að rifja hana upp og Aram hló mikið (sérstaklega að reiða trommaranum). Some Kind of Monster var dálítil vonbrigði. Konseptið er frábært og margt í myndinni mjög gott. Metallica er að reyna að gera plötu í kjölfar þess að Jason Newstead, bassaleikarinn hættir. Þeir fá til sín kvikmyndagerðarmenn til að taka upp prósessinn og vinnustaðasálfræðing (sem fær 40 þúsund dollara á mánuði) til þess að stilla til friðar. Það byrjar illa og svo stingur James Hetfield bara af í nærri því ár – fer í meðferð og vinnur í sjálfum sér. Þá byrja þeir aftur og á endanum kemur út plata og þeir reka sálfræðinginn. Það er eitthvað fyndið – ef ekki hreinlega fin-de-siecle – við að horfa á þessa menn rekja úr sér garnirnar og greina tilfinningar sínar einsog menn í þreyttu hjónabandi. Því þessi hljómsveit er auðvitað stórveldisöld þungarokksins líkömnuð og við vitum núna nærri 20 árum síðar að þeir náðu sér aldrei á strik í lagasmíðum – þótt þeir séu auðvitað enn stærsta liveband þungarokksbransans. Svo eru þeir svo miklir rassvasaspekingar – tala gjarnan mjög passíf-agressíft þerapíumál sem minnir á spakmælin sem fólk lætur ganga á Facebook. En allt er það gott bíó – galli myndarinnar er bara skortur á góðu tempói og yfirgengileg lengd miðað við efnivið (hún er tveir og hálfur tími). Það er líka bara of langur tími fyrir venjulegt fólk til þess að vera í parameðferð með þessum handónýtu sívælandi afturbatarokkurum. Heyrðu já svo kláraði ég líka að lesa upphátt Harry Potter og Fönixregluna. Þetta er fimmta og lengsta bókin. Harry tengist Voldemort hugrænum böndum sem verður til þess að koma honum í vandræði. Mjög spennandi dót og tempóið fíknivekjandi – dýnamík milli persóna í allar áttir og viðhaldið af feykilegri kúnst. Mig grunar hins vegar að Rowling geti farið illa út úr því sem best má lýsa sem viðvarandi endurmati á verkum hennar í ljósi dvínandi vinsælda vegna bæði hrottalegra staðhæfinga um menn og málefni – aðallega transkonur – og þess að henni hefur ekki tekist að fylgja HP bókunum neitt eftir af viti. HP bækurnar eru bara einsog þær hafa alltaf verið (segi ég, sem er að lesa þær fyrst núna) en þegar maður les þær í leit að einhverju óviðurkvæmilegu þá finnur maður það auðvitað út um allt – það gildir um allar bækur og því meira sem bækurnar eru lengri og fjalla um fleira fólk. Þá kannski einblínir maður minna á að Harry og vinir hans verði fyrir einelti (eða Lúna Lovegood vinkona þeirra) og meira á að þau leggja eiginlega Völu væluskjóðu í einelti. Og höfundur er gjarn á að hafa fávita svolítið vel í holdum. Allt má það til sanns vegar færa – ekki síst þetta með að skoðanir Rowling á transfólki séu henni til ævarandi skammar – en mér finnast nú samt þessi knee-jerk viðbrögð að Harry Potter bækurnar hafi þar með aldrei verið „góðar“ svolítið missa marks – einsog allt fólkið sem stökk fram til að segjast aldrei hafa fílað Megas síðasta haust (og gerði eins við Woody Allen fyrir nokkrum árum – aldrei verið fyndinn, sá maður). Þetta er bara mórölsk fýla og hún er alltaf jafn leiðinleg. Það er jafn mikilvægt að meta hið góða sem fólk gerir því til tekna og það er að fordæma hið illa sem það gerir. Svo horfðum við líka á myndina – Harry Potter fimm. Þetta er stysta myndin eftir lengstu bókinni (ein myndin er styttri – en það er önnur þeirra sem gerðar eru upp úr lokabókinni, sem er skipt upp). Og eftir því einfölduð. Eiginlega er hún bara léleg.