Untitled

Nú er sólin komin og hitinn að skríða í 20 gráður í Kylämä. Það verður ekki finnskara. Við búum inni í miðjum skógi – meira að segja síðasti kílómetri vegarins hingað var grasi vaxinn og trén teygðu sig yfir bílinn. Þetta var einsog að keyra upp í sjálft skaut móður náttúru. Í móðurlífinu er einn bústaður og „sánahús“. Öldruð frænka Nödju og maður hennar búa í bústaðnum, Kirsti og Reine, en við búum í sánahúsinu. *** Sánahúsið er einsog heimavistarherbergi samvaxið sánabaði. Og samt er þar allt til alls. *** Ég tók að mér þýðinguna. *** Yfir morgunmatnum diskúteruðum við gæði ólíkra rúgbrauða og súrdeigshrökkbrauða. Finnar eru mjög elskir að rúgbrauðum og helst eiga þau að vera súr, gömul, seig og hörð. Íslendingum dugði ekki að brjóta niður sykrurnar í rúginum með seyðingunni heldur hafa þeir síðustu 100 árin eða svo blandað það til helminga með sýrópi. *** Leikurinn „ertu rúgbrauð eða fransbrauð“ meikar fullkomið sens í Finnlandi. Á Íslandi gætirðu allt eins spurt börnin hvort þau séu rjómaterta eða fransbrauð. Íslenska rúgbrauðið er sælgæti. *** Rúgbrauð með plokkfiski er einsog ananas á pizzur. Bananar í karríréttinn. Sulta með steikinni. BBQ-sósa á kjúllann. Tómatsósa á pylsuna. *** Hér er svolítið um moskítóflugur. Óvenju lítið, segir fólk, en ansi mikið fyrir mann sem þær eru elskar að. Nadja segir að ég hafi smitað Aram af moskítófóbíu en ég reyni að benda henni á að það sé ekki fóbía þegar maður er allur bólginn, rjóður og klæjandi. *** Ég er að hugsa um að synda yfir stöðuvatnið hérna. Saaresjärvi heitir það. Eyjavatn. Eða eyjuvatn. Það er bara ein eyja í því, það best ég get séð. ***

Untitled

Ég tala ensku við úrið mitt. Þannig er það bara. Ég get að vísu líka talað sænsku við það, en bara við tilteknar aðstæður. Úrið mitt skilur enga íslensku. Þannig er það bara. *** Eitt af því sem úrið gerir sem ég geri ekki er að skilja muninn á e og ä. Í dag sendi ég mági mínum skilaboð „efter du kött?“ í staðinn fyrir „äter du kött?“. *** Annars nota ég þetta mest til að kveikja á hlaupaprógrami eða niðurtalningu. Þegar ég er að elda til dæmis. *** „Countdown 2 minutes“ sagði ég þegar núðlurnar voru komnar í pottin og úrið byrjaði strax að telja niður. „Vad sa du? Jag hör inte“, sagði þá Nadja. „Ég er að tala við úrið“, svaraði ég. Þá kom hún og knúsaði mig. Henni finnst mjög kynæsandi þegar ég tala við heimilistækin. Þegar ég segi þeim fyrir verkum. *** Kannski hlakkar bara svona í henni yfir hnignun íslenskunnar. Svíar eru náttúrulega mjög kólóníal, svona innst inni.

Untitled

Ég skreið lúinn fram úr í morgun – hálfþunnur eftir harða rúmið hérna í Maunula. Inni í eldhúsi stóð Nadja í engu nema nærbuxum og alltof stórum Guns N’ Roses bol og hellti upp á kaffi. Í augnablik fannst mér einsog árið væri 1988. Og ég í senn þrjátíu árum yngri og tíu árum eldri. *** Af því að fyrir þrjátíu árum var ég 10 ára. Og mér leið einsog ég væri 20 ára. Sko. Ekki einsog ég væri fimmtugur. *** Yfir morgunmatnum ræddum við bókamessuna í Gautaborg við mág minn. Og uppgang fasismans. Lýðræðið. Málfrelsið. Jihadisma. Þvert ofan í það sem má lesa í fréttum á Íslandi (og í Danmörku, þar sem íslenskar fréttir fæðast oft) eru Svíar nefnilega alltaf að tala um hlutina. Alveg viðstöðulaust. *** Í dag ætla ég að gera jóga og fara út að hlaupa og vinna örlítið. Mér bauðst að þýða ljóð fyrir rótgróna stofnun fyrir sirka einn fjórða af viðmiðunartaxta Rithöfundasambandsins. Sem er auðvitað mjög gott, yfirleitt gerir maður þetta bara ókeypis. Ég gerði þeim gagntilboð – ég myndi bara þýða annan af tveimur textum og ég myndi gera það fyrir einn þriðja af viðmiðunartaxtanum. Þriðjung af lágmarkslaunum. Og einsog öllum þrælum finnst mér ég í senn hafa verið dónalegur við húsbóndann og óforskammaður af frekju. Er ekki fegurðin verðlaun í sjálfri sér? Og myndi ég ekki gera þetta ókeypis? *** Svarið er jú – sennilega myndi ég gera þetta ókeypis. Ég hef gert það. Ég hef þýtt álíka mikið af texta eftir sama skáld fyrir enga peninga. En þá var heldur enginn húsbóndi í spilinu. *** Ég nýt þess líka að elda mat heima hjá mér en ég myndi samt ekki vinna fyrir 400 krónur á tímann á veitingastað. Þess vegna setti ég hnefann í borðið og sagðist skyldu gera þetta fyrir 600 krónur á tímann. Og á raunar allt eins von á því að verða hafnað. *** Sennilega er þetta líka til marks um að ég eigi alltof mikla peninga. Eða yfirdrátturinn sé sjúklega grunnur. Yfirleitt þigg ég bara allt sem ég fæ og sprikla svo þar til mér finnst einsog hjartað í mér muni springa. *** Kannski er þetta bara til marks um að ég sé í sumarfríi. *** Finnland er alla jafna mjög fallegt á sumrin og veðursældin önnur og meiri en margir ímynda sér. Að vísu er sjaldgæft að hitinn farinn langt yfir 30 gráður, þótt það komi fyrir, en það er samt sólríkt – 20-25 gráður. En ekki núna. Í dag er skýjað og sennilega ekki nema 13-14 gráður. Sem er auðvitað alveg voðalegt. *** Á morgun yfirgefum við borgina og förum út í sveit fram á laugardagskvöld. *** Og nú kom sólin út. Ég ætla líka út. Að hlaupa.

Untitled

„Við erum í borg þar sem enginn veit hvar allt er“, sagði Aram Nói við systur sína þegar við þrömmuðum yfir Mannerheimintie fyrr í kvöld, hvert okkar með sinn sjeik í hönd. Hann var að reyna að sannfæra systur sína um að leiða sig. Ekki svo að hún týndist, vel að merkja – hún leiddi mig með hinni hendinni – heldur svo að hann týndist ekki sjálfur. *** Við erum í borg þar sem enginn veit hvar allt er. Í gærkvöldi kláraði ég Kaputt eftir ítalska höfundinn Malaparte (þetta er höfundarnafn; leikur að Bonaparte). Hann var fyrrverandi fasisti, hafði setið inni fyrir svik við málstaðinn, en gerðist svo stríðsfréttaritari í seinni heimsstyrjöldinni eftir að hafa talað til tengdason Mussolinis. Og ferðaðist því frítt út um allt og lýsir því í tveimur bókum. Önnur þeirra er safn þeirra frétta sem hann skrifaði – líka þeirra sem fengust ekki birtar á sínum tíma – en hin er Kaputt, eins konar sturlaður óður til stríðsins, skáldskaparins og mannkynsins. Bókin er á köflum grótesk, á köflum rabelasísk, fantastísk – útúrsnúningar, ýkjur og furðulegir órar. *** Og hann er hraðlyginn, blessaður maðurinn. Lýsir átakanlegri göngu í gegnum gettóið í Varsjá – klæddur í herbúning fasista – sem átti sér aldrei stað. Og ýmsu öðru. Samúð hans er að vísu heilbrigð – en hugsanlega er eitthvað af því eftiráspeki. Bókin kemur út áður en stríðinu lýkur, en þegar hann hefur að skrifa hana lá samúð hans víst nær fasistaliðinu – þá hélt hann að Hitler myndi vinna, en þegar hallaði undan fæti hjá Þjóðverjum editeraði hann eitt og annað til samræmis. Sneri bröndurum um englandskonung yfir á Hitler og svo framvegis. *** Þessi ítalski höfundur skrifar talsvert um Svíþjóð og Finnland og er hrifinn af þeim. Ekki síst Finnlandi, þar sem hann dvaldi langdvölum. Hann hefur mikla unun af að sletta finnsku (misvel, sýnist mér) og lýsa staðarháttum og húsum og bæjum og skógum og fólki í smáatriðum. Sennilega hefur hann verið afar minnugur (og óskammfeilið skreytinn). Hann hefur húmor fyrir Finnum og ber talsverðan kærleika til þeirra. Á einum stað skrifar hann að þegar Evrópubúar deyi vonist þeir til þess að komast til Himnaríkis; en þegar Finnar deyi vonist þeir til að komast til Ameríku. Og þrátt fyrir að Malaparte hafi í raun verið pípandi kommúnisti – og gengið í flokkinn strax eftir stríð – er alveg ljóst að samúð hans liggur hjá Finnum í þessu máli. *** Atwood skrifar á kápu að enginn geti skilið mannlega hlið stríðsins án þess að lesa Kaputt. Kundera skrifar einhvers staðar að Kaputt sé bókmenntaverk með svo sterkan og augljósan fagurfræðilegan ásetning að það þurrki út allt samhengi sagnfræðinnar, blaðamennskunar, stjórnmálagreiningarinnar eða ævisagnaritarans. *** Fyrir mér er Kaputt allt það sem fólk segir að Min Kamp sé – sterk, ideosynkratísk og ótrúlega vel stíluð, um mikilvæga atburði, en stappfull af dreymandi hversdagsleika (ég upplifi Min Kamp meira einsog Bold and The Beautiful með fágaðri stíl og meiri gáfumanna- millistéttarvandamálum). Fimm stjörnu tryllingur. *** Annars eyddum við deginum í tivolíinu Linnanmäki. Og í sundi. Es war sehr schön. Molto bello. Erittain kiva.

Untitled

Nótt á Clarion. Í lúxus. Í afmælisgjöf frá Nödju. *** Svíar tala um að fara í stéttarferðalag – og meina reyndar yfirleitt eitthvað sem ég myndi kalla stéttarflutning. Að hætta að vera fátækur og verða ríkur (hitt er kallað „öfugt“ stéttarferðalag, að hætta að vera ríkur og verða fátækur). En við erum á sannkölluðu ferðalagi. Gerðum þetta líka um jólin og fórum í japanskt spa í Stokkhólmi. Það er merkilegt að umgangast fólk sem finnst þessi lúxus svo augljóslega sjálfsagður. *** Ríkt fólk er heilbrigt ásýndar og í góðu líkamlegu ásigkomulagi. Með fallega húð. Það er kurteist, upp til hópa, frjálslynt og röggsamt. Það sýnir þjónustufólki biðlund. *** Sennilega eru á þessi mikilvægar undantekningar. Ef maður er ríkur getur maður líka leyft sér að vera mjög óhóflega ruddalegur ef manni svo sýnist. Ef maður er illa fyrirkallaður. Þá kannski bara lemur maður þjónustustúlkuna og borgar henni svo fyrir að halda kjafti. *** Þess eru allavega fordæmi. Og það er hægt. *** Í herberginu er skilti þar sem stendur að sé 150 evru sekt við því að reykja inni. Fyrir sumum er það áreiðanlega algert smotterí. *** Ég sá fyrirsögn í vikunni þar sem fullyrt var að ríkt fólk keypti ekki drasl á yfirsprengdu verði. Ég held að ríkt fólk – og ég minni á þá innsýn sem ég hef öðlast af því að sofa eina nótt undir sama þaki og þessi stétt manna – beri ekkert skynbragð á verðmiða. Það veit ekkert hvað hlutir eiga að kosta. En það hefur engan áhuga á drasli. Það hneykslast ekki á verðinu. Það hneykslast á gæðunum. *** Í mörgum kreðsum á Íslandi er ekki gerður neinn greinarmunur á því að vera frjálslyndur og að vera vinstrimaður. Við köllum alls konar fólk vinstrimenn sem eru fyrst og fremst frjálslyndir – og oft nánast sama um efnahagslega faktorinn. Það vill jafnrétti en er sama um jöfnuð. Sennilega er mjög lítið um raunverulega vinstrimenn á Íslandi – þeir eru kallaðir efnishyggjumenn eða óraunsæir draumóramenn. Ég held það sé enginn eftir í Samfylkingunni og kannski þrír í Vinstri Grænum. Þess vegna tóku svo margir Sósíalistaflokknum vel í vor. *** Helsta hugmyndafræði þessarar frjálslyndu „vinstristefnu“ sprettur annars úr einkareknum, kynjaskiptum leikskóla. Reynið einhvern tíma að útskýra það fyrir útlendingi. *** Íslenskir vinstrimenn eru mjög ginnkeyptir fyrir fagurgala. Ef orðin eru rétt skiptir stefnan minna máli. Þess vegna erum við líka svona hrifin af mönnum einsog Trudeau og Macron. Pistlahöfundur Guardian kallaði þann fyrrnefnda einu sinni „ the social media equivalent of a puppy video “. Mér fannst það fyndið. Og sennilega er það líka rétt. *** (Og já, þeir eru samt skárri en Trump; en kannski er eitt það versta við Trump hversu hann hefur lækkað standardinn).

Untitled

Guns sviku ekki. Hafi nokkrum dottið það í hug. Og kom heldur ekkert á óvart, vel að merkja. Það eru heilu tónleikarnir úr ferðalaginu á YouTube og búið að skrifa þúsund jákvæðar umfjallanir um allt saman. *** Þeir spiluðu í rúmlega þrjá klukkutíma. Eru að mér sýnist farnir að spila næstum allt tónleikaprógramið sitt í hvert einasta sinn. Settið var hálftíma styttra á Bandaríkjatúrnum. *** Og byrjuðu seint. Sennilega ekki eftir þann tíma sem til stóð að fara á svið, en seint. Það var auglýst að dyrnar opnuðu klukkan 15 og ég sá fyrir mér dagtónleika. Nadja var búinn að bóka einhvern lúxus fyrir okkur í Helsinki í um kvöldið og þangað ætluðum við og sáum fyrir okkur að vera komin þangað svona 22 (það er 1,5 tíma akstur/lest til Hämeenlinna). Þegar klukkan var sjö og hvorug upphitunarhljómsveitin byrjuð afbókuðum við það. Fengum svo aftur pössun í kvöld og förum núna. Þetta er s.s. afmælisgjöfin mín. *** Hálfátta sirka byrjaði Michael Monroe úr Hanoi Rocks að spila drulluþétt glamrokk og spranga um sviðið einsog 15 ára unglingur (hann er 55 ára; jafnaldri Axl). Og söng mjög vel. Þeir spiluðu sennilega í 30-40 mínútur og 30-40 mínútum eftir það tóku The Darkness við og voru … bara hressir. Ég sveiflaðist á milli þess að finnast þeir fínir og finnast þeir þreyttir. Það er hluti af sjarmanum að vera alltaf að kvarta („Ég vil þakka þeim sjö sem tóku undir“) en varð leiðinlegt til lengdar. Sennilega ættu þeir bara að fara að vinna í verksmiðju ef þeim finnst þetta svona leiðinlegt. *** Og svo tók við svolítil bið. Ég er ekki viss hvað klukkan var þegar við byrjuðum að bíða en við biðum til klukkan tíu og vorum sannarlega orðin ansi lúin. Við vorum mætt í bæinn klukkan 13 – fórum og fengum einhvern þann albesta tælenska mat sem ég hef étið, alveg sturlaðan, fyrir algera tilviljun uppúr Yelp-appinu – hittum svo bróður Nödju á lestarstöðinni og komum okkur niður eftir. Vorum þar í bolaröðinni klukkan rétt um 15. *** A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jul 1, 2017 at 5:38am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js *** En það er hluti af kúltúrnum að bíða. Ef maður hefur ekki beðið fullur eftirvæntingar hefur maður ekki farið á Guns N’Roses tónleika. Að vilja sleppa biðinni er svona einsog að hraðspóla 4 ’33 eftir Cage. *** Settlistinn er á netinu. Þið getið gúglað honum. Allt var hápunktur. Koverin voru sum dálítið skrítin. Eina lagið sem mér fannst Axl ekki valda var Estranged – en djöfull sem var gaman að heyra það samt. Slash hefur aldrei verið betri – sennilega eru fingurnir á honum ekki jafn liprir og þeir voru fyrir 30 árum, en hann er heldur ekki alveg jafn fullur þegar hann er að spila (er að vísu alger meistar í að spila fullur, það eru til myndbönd af honum að brillera í ástandi þegar hann getur ekki staðið í fæturna). *** Duff setti upp kúluhatt mér til heiðurs. Það þótti mér fallega gert. *** Ég saknaði Izzy mest í Nightrain. Hann á fyrri hlutann af sólóinu – Richard Fortus ræður ekki við þannig blús. Hann lúkkar svolítið einsog Izzy – eða er með skylt lúkk, eitthvað úr Rolling Stones fataskápnum – en hann er miklu meiri Buckethead í spileríinu. Teknískur og full gefinn fyrir að spila einfalda lítt úthugsaða skala mjög hratt. En ófrumlegri í skalavali en Buckethead. Voða mikið bara eitthvað pentatónískur. Samt mjög góður. En ég skil að það gekk auðvitað engan veginn að láta hann vera burðarmann í svona bandi – hann er óravegu frá því að vera nokkur jafnoki Slash, og rétt svo ræður við að vera sidekick. Sem Izzy er snillingur í. Hann keyrir ekki vélina og reynir það ekki, heldur fyllir í sprungurnar og viðheldur þéttleikanum. *** Slash var fokkins ótrúlegur. Valdið sem hann hefur á ólíkum stílum – rokk og blús segir sig sjálft, og metall að einhverju leyti, en líka alls kyns latínóbrjálæði, fönk, köntrí og obskúr etnóinflúensar. Þegar hann datt í reggíkaflann í Knockin’ on Heaven’s Door (sem Dylanfólk hefur aldrei getað sætt sig við að ER einfaldlega Gunslag) kom Axl aftan að honum, bankaði í öxkina og sagði „Ja man“. Ég hló. *** Það erfiðasta við að vera svona hetjugítarleikari er að vera viðstöðulaust intressant. Á þriggja tíma konsert eru kannski þrjú korter af sólóum. Flest þeirra eru auðvitað samin – Slash kastar ekki til hendinni, hann er ekki bara að krúsídúlla út í loftið, þetta eru lýrískar kompósísjónir með pásum á réttum stöðum, hárnákvæmum teygjum og vibratói sem titrar alla leiðina úr sálinni á honum út í himingeiminn. En innan þessara tónsmíða er síðan rými til að hrista sig svolítið – breyta út af og skreyta – og þetta rými notar Slash af fádæma innsæi til þess að koma okkur sem þekkjum hverja einustu nótu alltaf aðeins á óvart. Stundum er það lævíst, einsog að færa sig til á hálsinum svo nótur sem við þekkjum á þremur neðstu strengjunum birtist okkur á vöfnum strengjum, eilítið dekkri en sömu nóturnar – og stundum er það augljóst, einsog þegar hann trillar í kringum nótur í laglínum. *** En nú fer ég að sinna öðru. Kannski fylli ég betur út í þessa skýrslu á eftir eða á morgun.

Untitled

Áttundi þáttur af nýja Twin Peaks var einsog Un Chien Andalou – súrrealistamynd Dalis og Bunuel – hittir lokakaflann í 2001: A Space Odyssey. Með smá opnunarskvettu af Reservoir Dogs hittir Barton Fink hittir Lost Highway. *** Mér er illt í heilanum. Mér fannst ég verða að koma þessu að. *** En það er auðvitað ekkert að skilja hérna. Þetta er ekki þannig symbólismi. En maður getur leitað að ljósinu (Gotta light?) án þess að hætta að ráfa í myrkrinu. Einsog hefur sýnt sig. *** Tesan er þessi. Illskan á sér upphaf. Og saga þess er stráð táknum og ferlum af ólíkum gerðum – fæðingum og hreyfingum, ógn og sakleysi. *** Ég las samantekt af þættinum og er ekki með neinar kenningar. Sammála öllu og ósammála því. Þetta er bara einsog það er.

Untitled

Við flugum frá Íslandi til Stokkhólms og komum til Helsinki með bátnum í morgun. Þessi morgunflug eru alger draumur og mikið sem sætin í flugvélum WOWAir eru dásamleg. *** Á morgun eru það Guns N’ Roses í Hämeenlinna. Og afmælið mitt. *** Í gær átum við hádegismat með tengdaföður mínum í Nacka, gegnt borði þar sem Britney Spears sat einu sinni og át grísanoisette fyrir 75 sænskar krónur, að því er fram kom í innrammaðri frétt á vegnum. *** Eftir matinn ræddi tengdafaðir minn um áhyggjur sínar af íslamíseringunni, sem ætti að róa huga allra sem telja að „þessi málefni“ séu ekki til umræðu í Svíþjóð. Hann samþykkti að vísu að tölfræðilega líklegra væri að hann yrði fyrir myntugrænum Moskvíts gangandi á höndum á hjólabraut í Sundsvall – og bílstjórinn væri með áunna sykursýki – en að hann yrði drepinn af hryðjuverkamanni. Og þurfti ekki miklar fortölur til. *** Nú fer vel um okkur í íbúð vinafólks okkar í Maunula. Þau stungu að vísu af til Tékklands rétt í þessu og verður saknað. *** Það er stundum sagt að listamenn verði að búa yfir sérstaklega mikilli sjálfsgagnrýni. Það held ég að sé í sjálfu sér alveg satt, en að sama marki er satt að fólk sem býr yfir sérstaklega mikilli sjálfsgagnrýni verður aldrei listamenn. Það rústar ferli sínum sjálft áður en hann er einu sinni hafinn. Það verður þá a.m.k. að fylgja með mjög mikið úthald fyrir sjálfsgagnrýni. Því ekki losnar maður við endalaust innra röflið í sjálfum sér.

Untitled

Leifsstöð. Ég svaf í þrjá tíma. Börnin í þrjá og hálfan. Nadja sama og ekki neitt, skilst mér. *** Ég er að reyna að ákveða hvort ég geti lifað án þess að eiga Apple Watch. Mér sem er illt í hnénu og get líklega ekkert hlaupið næstu daga. *** Í gær hittum við franska sendiherrann. Hann átti erindi við Nödju en var áhugasamur um að hitta mig líka. Ásamt menningarfulltrúa frá Alliance Francaise og þriðja sendiráðsstarfsmanni. Of mikið af samtalinu fór fram á frönsku. Fólk er almennt hryllilegt með að skilja aðra út undan með tungumálamúrum. Ég reyni að taka því vel en stundum gengur það allhressilega á þolinmæði mína. Í gær var ég farinn að hanga bara í símanum á meðan hinir töluðu saman. Og það var alveg ljóst, fannst mér, að öllum fannst ég vera sá dónalegi. *** Við fórum líka í sveitina til Maju systur. Hún er alveg að verða sjálfbær, held ég hreinlega. Leysti mig út með alls kyns heimalöguðu heimaræktuðu marmelaði og bbq-sósum og chilimauki. Ég stakk því í farangurinn og ætla að njóta þess í allt sumar. *** Það gengur hægt að lesa Kaputt. En vel. Þetta er alvöru bók. Dokument sem er líka skáldskapur. Myndi prýða sér vel í skáldævisagnaæðinu. *** Talandi um það er ég fyrir lifandis löngu kominn með leið á Knausgaard og liggur við að mér sé skítsama á hvaða tungumáli hann talar. Almennt er heimsborgarabragur á að ræða við fólk á eigin tungumáli og heimóttarskapur að gera það á amrísku. Og ástæðan fyrir því að færri og færri skilja talaða skandinavísku er að við heyrum hana sjaldnar og sjaldnar. *** Öðru máli gegnir um persónuleg samskipti, vel að merkja. Það er full ástæða til þess að reyna að hafa þau á jafningjagrundvelli – frekar en á blandinavísku nýlenduherranna. Og ég hef verið talsmaður enskunnar í norrænu samstarfi, ekki síst vegna Íslendinga og Finna, sem annars eru aldrei fullgildir meðlimir.

Untitled

Hér með lýsi ég gentrifieringu Kópavogs formlega hafna.