Það er óvenju mikið líf í bloggheimum þessa dagana. Þórdís Gísla, Snæbjörn Arngríms og Hermann Stefánsson birta öll reglulega pistla, líkt og Lóa Björk í Lestinni (yfirskriftin þar er reyndar „Lóa ekki í lestinni“ svo kannski er það einhver önnur Lóa eða bara sama Lóa stigin af Lestinni). Það þarf svo sjálfsagt ekki að taka það fram að Ármann Jakobsson bloggi alla virka daga – það held ég standist alltaf – en það er því miður orðið langt síðan Bragi Ólafsson bloggaði alla daga. En þetta finnst mér gaman og þessi blogg öll skemmtilegri og fróðlegri en bæði fréttasíðurnar og samfélagsmiðlarnir samanlagt. Það eru hlekkir á þessi blogg og fleiri (misvirk) hér hægra megin einsog venjulega. *** Ég er á fjórða degi upplestrarferðar minnar – í kvöld verð ég í sveitaleikhúsi Kómedíuleikhússins í Haukadal. Það er mjög sérstakur staður – yndislegur hreinlega. Ég hef heyrt af einhverjum þreifingum Ísfirðinga sem langar að fara þangað en annars á ég auðvitað mest von á Dýrfirðingum. Í gærkvöldi var ég á Fisherman Café á Suðureyri og í fyrradag á hinum sögufræga Vagni á Flateyri. Allt eru þetta staðir sem er haldið út af hugsjón og ástríðu af góðu fólki sem ber umhyggju fyrir sínu samfélagi – góðir heim að sækja. Ég veð auðvitað blint í sjóinn með hvort nokkur mæti á þennan túr eða hvort ég selji bækur – og lofaði því víst einhvers staðar að alveg sama hversu illa gengi myndi ég aldrei játa annað en stórsigur á þessu bloggi – en get með sanni sagt að þetta hafi verið afar ánægjulegt hingað til. Það er samt pínu skrítið að vera „farinn á túr“ en vera enn heima hjá sér. Það er ekki nema klukkustundarakstur í Haukadal – og á morgun verð ég í Bolungarvík, sem er næsti bær við Ísafjörð – og því er ég auðvitað ekki „farinn“ neitt enn. Ég sef heima hjá mér um nætur. Og oft á dag rekst ég á fólk sem spyr, furðu lostið: „Ert þú ekki farinn?“ eða „Ég hélt þú værir farinn?“ Það er næstum að ég gruni fólkið um að vera byrjað að bardúsa eitthvað sem ég átti alls ekki að verða vitni að – það hafi treyst því að ég væri farinn. Þessu fólki til hughreystingar vil ég nefna að ég fer á föstudagsmorguninn. Eða, svona upp úr hádegi líklega. Ef þið viljið vera alveg viss um að vera í friði við ykkar einkalega bardús skuluð þið ekki sleppa af ykkur beislinu fyrren eftir klukkan eitt.
Author: Eiríkur Örn Norðdahl
Náttúrulögmálin: Upplestrarferðin
Í tilefni af útkomu Náttúrulögmálanna ætla ég í upplestrarferð um landið. Dagskráin er mislöng eftir aðstæðum á hverjum stað en oftast nær er þetta ríflega hálftíma bókarkynning plús myndasýning og spjall um sögusvið og upplegg – en bókin er yfirskilvitleg söguleg skáldsaga sem gerist á Ísafirði árið 1925. Á nokkrum stöðum er ég svo með makkera mér til halds og trausts. Ég ætla líka að fylla bílinn af bókum (ekki bara þessari nýju), er búinn að leigja mér posa, fylla áritunarpennann af bleki, fjárfesta í millistykkjum fyrir allra handa skjávarpa, láta prenta bókamerki (sem fylgja frítt með seldum bókum), panta tíma í dekkjaskipti fyrir bílinn, gera yfirlit yfir hvar sé best að fara í sund, pússa spariskóna og strauja skyrturnar. Nú getur ekkert stöðvað mig (ég treysti samt á að við leggjumst saman á bæn til að stöðva verstu vetrarlægðirnar). Og svo er ég búinn að gera viðburði á Facebook – þið megið endilega melda ykkur ef þið viljið koma. Og láta vini ykkar á viðkomandi stöðum vita, orðið ganga, með guðs blessun mætir þá einhver! 21. október. Ísafjörður . Byggðasafn Vestfjarða kl. 16. [Facebook-viðburður] 23. október. Flateyri . Vagninn kl. 17. [Facebook-viðburður] 24. október. Suðureyri . Fisherman kl. 20. [Facebook-viðburður] 25. október. Haukadalur . Kómedíuleikhúsið kl. 20. [Facebook-viðburður] 26. október. Bolungarvík . Verbúðin kl. 20. [Facebook-viðburður] 27. október. Bíldudalur . Muggsstofa kl. 16.30. [Facebook-viðburður] 27. október. Patreksfjörður . Prentverkstæðið kl. 20. [Facebook-viðburður] 28. október. Hólmavík . Kaffi Galdur kl. 14. [Facebook-viðburður] 28. október. Blönduós . Apótekarastofan kl. 20. [Facebook-viðburður] 29. október. Sauðárkrókur. Grána Bistro kl. 12. [Facebook-viðburður]
29. október. Dalvík . Gísli, Eiríkur, Helgi kl. 15.30. [Facebook-viðburður] 29. október. Siglufjörður . Alþýðuhúsið kl. 20. [Facebook-viðburður] 30. október. Akureyri . Bókasafn Háskólans á Akureyri kl. 12. 30. október. Akureyri . Amtsbókasafnið kl. 17. [Facebook-viðburður] 31. október. Húsavík . Hérna kl. 17. [Facebook-viðburður] 1. nóvember. Egilsstaðir . Tehúsið kl. 20. [Facebook-viðburður] 2. nóvember. Borgarfjörður eystri . KHB ölstofa kl. 20. [Facebook-viðburður] 3. nóvember. Reyðarfjörður . Bæjarskrifstofan kl. 12. 3. nóvember. Eskifjörður . Hulduhlíð kl. 15. 3. nóvember. Breiðdalsvík. Beljandi kl. 20. [Facebook-viðburður] 4. nóvember. Neskaupsstaður . Breiðablik kl. 15. 4. nóvember. Neskaupsstaður . Þórsmörk kl. 20. [Facebook-viðburður] 5. nóvember. Djúpivogur . Hótel Framtíð kl. 20. Ásamt gímaldin. [Facebook-viðburður] 6. nóvember. Höfn í Hornafirði . Ottó kl. 21. Ásamt gímaldin. [Facebook-viðburður] 7. nóvember. Hvolsvöllur . Midgard kl. 20. [Facebook-viðburður] 8. nóvember. Vestmannaeyjar . Bókasafnið kl. 17. [Facebook-viðburður] 9. nóvember. Selfoss . Bókakaffið kl. 20. [Facebook-viðburður] 10. nóvember. Ölfus . Glæsivellir kl. 20. Ásamt fleirum. 11. nóvember. Reykjavík . Bókabúð Forlagsins, Fiskislóð 39, kl. 15.30. [Facebook-viðburður] 13. nóvember. Akranes . Bókasafnið kl. 16. [Facebook-viðburður] 14. nóvember. Hafnarfjörður . Bókasafnið kl. 17. [Facebook-viðburður] 15. nóvember. Reykjavík. Útgáfuhóf Menningar við ysta haf . Veröld kl. 16. 15. nóvember. Reykjavík. Bókakonfekt Forlagsins. Hannesarholt kl. 21. 16. nóvember. Grindavík . Kvikan kl. 20. [Facebook-viðburður] 17. nóvember. Stykkishólmur . Amtsbókasafnið kl. 17. [Facebook-viðburður] 18. nóvember. Ísafjörður . Opin bók í Edinborgarhúsinu kl. 16. 8. desember. Ísafjörður. Vísindaport, Háskólasetri Vestfjarða, kl. 12.10.
Náttúrulögmálin er komin í búðir!!!
Í dag gerðust þau undur og stórmerki að skáldsagan Náttúrulögmálin kom í búðir – einsog raunar áætlun hafði gert ráð fyrir. Fæst hún þar með á öllum þeim stöðum þar sem fólk kaupir venjulega bækur og mun áreiðanlega á endanum dúkka líka upp á þeim stöðum sem fólk kaupir alls ekki bækur, sem og þeim stöðum þar sem fólk fær lánaðar bækur. Þetta er okkur öllum hér á norddahl.org mikið fagnaðarefni, einsog gefur að skilja. Enn er hægt að hóa í höfundinn ef fólk vill nálgast áritað eintak – eða ná á hann á komandi upplestrarferð um land allt ( sjá hér ) – og það er meira að segja hægt að kaupa hana á heimasíðu forlagsins, Máls og menningar .
Hvers vegna fer maður í upplestrarferð?
Hvers vegna bókar maður upplestrarferð með hátt í fjörutíu stoppum á tæplega þrjátíu dögum? Í nóvember á Íslandi, þegar líkurnar á því að verða veðurtepptur einhvers staðar eru sennilega að minnsta kosti 50%. Ég er búinn að gefa alls konar svör við þessari spurningu síðustu vikurnar. Hér eru flest þeirra. Það segir kannski ekki mikið að mér finnist það sjálfum, en ég er mjög ánægður með bókina og finnst hún eiga það skilið að ég sinni henni eins vel og ég get. Ég er á sæmilegum stað andlega og alveg fær um það. Ég hef stundum farið til Reykjavíkur í 1-2 vikur til þess að fylgja bókum eftir en oftar en ekki eytt meiri tíma í að klóra mér í rassinum en mér finnst réttlætanlegt þegar ég skil Nödju eina eftir með heimilisreksturinn. Ég á Nödju að og hún getur staðið vaktina heima meðan ég fer. (Hún ætlar að vísu að koma og hitta mig í Reykjavík líka). Ef ég fæ ekkert nema hræðilega dóma og allt gengur á afturfótunum er ég a.m.k. ekki heima hjá mér að gera alla vitlausa á meðan. Ég er áhugamaður um afmiðjun íslensks menningarlífs – að við hættum að haga okkur einsog Ísland sé borgríki. Það er ekkert óvenjulegt í nágrannalöndunum við að maður fari í upplestrarferð. Ég hef farið – sem þýddur höfundur – í upplestrarferðir í Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi og Svíþjóð en aldrei á Íslandi (ef frá er talinn Nýhiltúrinn 2003). Ekki svona langar, en samt. Mér fannst inspírerandi að aðstandendur kvikmyndarinnar Volaða lands skyldu fara í túr um landið og sitja fyrir svörum eftir sýningar á myndinni í vor. Kenning mín er sú að fólk fari milli bæja fyrir tónleika en sjaldan fyrir upplestur. Ef ég vil lesa fyrir bolvíkinga – Bolungarvík er korter í burtu – þarf ég eiginlega að fara til Bolungarvíkur. Tónlistarmanni myndi sennilega duga að spila bara á Ísafirðii. Þess vegna kem ég víðar við. Á móti kemur að ég þarf ekki að róta upp mögnurum og trommusetti og gera hljóðprufur. Ég get farið inn og út. Ég þarf heldur ekki að keyra meira þótt ég stoppi oft. Hringvegurinn er alltaf jafn langur. Ég þekki gott fólk um allt land og hefur tekist að snapa mér gistingu víðast hvar – sem dregur talsvert úr kostnaði. Suma daga er ég bjartsýnismaður en aðra daga er ég svartsýnismaður. Bjartsýnismaðurinn ráðfærir sig ekki endilega við svartsýnismanninn þegar hann tekur svona ákvarðanir. Mig langar að hitta lesendur. Alls konar lesendur. Það er skemmtilegt. Ég er frekar góður í að skipuleggja svona hluti. Ég hef oft gert það fyrir verkefni sem fleiri taka þátt í – ég stofnaði og rak ljóðahátíð Nýhils í nokkur ár, ritstýrði Tíu þúsund tregawöttum og Starafugli, skipulagði viðburði og gaf út bækur (annarra) og svo framvegis. Mér finnst það ekkert leiðinlegt. Ég hef yfirleitt haft alls konar fólk með mér í útgáfufögnuðum og fundist erfitt að vera einn – viljað dreifa fókusnum, og stundum beinlínis fela mig á bakvið hæfileikaríka vini mína. Á túrnum er ég oftast – en ekki alltaf – einn og í því er fólgin áskorun sem ég held að mér sé hollt að mæta. Mér finnst líklegt að þetta verði til þess að vekja athygli og jafnvel áhuga á bókinni minni. Ég hefði hvort eð er ekkert skrifað af viti í jólabókaflóðinu og bókin sem ég er með í höfðinu hefur gott af því að marínerast svolítið. Ég fæ nógan tíma í bílnum með hugsunum mínum. Einhverjum mun finnast þetta óþolandi athyglissýki, en ég hef ákveðið að láta það ekki trufla mig. Þetta verður aldrei ferð til fjár – en ég gæti sloppið á sléttu. Ég hef ákveðið að láta það ekki trufla mig heldur. (Án listamannalauna gæti ég þetta samt augljóslega varla). Það vantar samt ferðastyrki fyrir listamenn innanlands. Ég get hæglega fengið styrk til þess að fara á bókmenntahátíð í Rio de Janeiro en ég get ekki fengið styrk til þess að fara á bókamessuna í Reykjavík (og sem stendur eru allar líkur til þess að ég sleppi henni einmitt). Samt er ekki endilega alltaf ódýrara að fara til Reykjavíkur en útlanda, vel að merkja. Með mikilli vinnu væri sjálfsagt hægt að kría eitthvað út hjá menningarnefndum ólíkra sveitarfélaga en þeir smáaurar dygðu varla fyrir vinnunni sem færi í að sækja um þá. Menningarhúsin úti á landi vantar líka styrki til þess að geta boðið fólki sem býr annars staðar að koma til sín. Að ég fari á túr breytir þessu ekki, en það er kannski vísir að því að breyta kúltúrnum – að það verði eðlilegra að menningin eigi sér stað á landsvísu. Það er gaman að gera eitthvað grand. A.m.k. ef það fer ekki allt í handaskolum! En ég er líka alveg nógu æðrulaus þessa dagana (held ég!) til þess að fara ekki af hjörunum þótt eitthvað klikki. Ég fæ tækifæri til að ferðast um landið og hitta vini. Ég ætla t.d. að vera tvær nætur hjá systur minni á suðurlandi sem ég sé alltof sjaldan. Og heimsækja marga bæi sem ég hef kannski bara komið til einu sinni eða tvisvar. Þetta er sennilega ekkert sem ég myndi nenna að gera í hvert sinn sem ég gef út bók. En að gera þetta einu sinni – og kannski venja mig á að gera a.m.k. nokkur stopp fyrir hverja bók – mig langar það. Af því bara. Ég á þetta, ég má þetta.
Jarðsprengjusvæði
Ég man eftir því að hafa rifist við vini mína í Ungum sósíalistum um alþjóðlegt bann við jarðsprengjum. Þetta var upp úr aldamótum einhvern tíma. Ungir sósíalistar voru gjarnan með frekar kategórísk svör á höndum og í þessu máli tönnluðust þeir á því að jarðsprengjur væru „vopn fátæka mannsins“ og tilgangurinn með banninu – sem var mjög í deiglunni á þessum tíma – væri einfaldlega að afvopna byltingarsinna með því að gera þeim illmögulegt að útvega sér ódýrustu og áhrifamestu vopn sem þeir hefðu völ á. Heimsvaldasinnar hefðu dýrari og fínni græjur í sínu vopnabúri og gætu því leyft sér að vera án jarðsprengja í baráttunni um brauð og frelsi. Þessi kenning náði eins langt og hún náði – og var áreiðanlega kúbönsk að uppruna, enda skilst mér að þar sé það fyrst og fremst rosalegt jarðsprengjubelti sem skilji herstöð bandaríkjamanna í Guantanamo frá sósíalíska alþýðulýðveldinu. En meðal þeirra sem neituðu að skrifa undir sáttmálann á sínum tíma voru – auk kúbana – flest fastaríki öryggisráðs SÞ, ekki vegna þess að þau væru háð því að nota jarðsprengjur, heldur vegna þess að þau höfðu hagsmuni af því að mega selja þær. Mér fannst þetta ekki beinlínis órökrétt – en mér fannst samt hitt líka rétt að jarðsprengjur færu hryllilega með saklaust fólk og gerðu það jafnvel áratugum saman eftir að stríðsátökum lauk. Og að það væri í sjálfu sér óásættanlegt. Þetta sá ég svo berlega síðar þegar ég bjó í Víetnam – þar er fólk nefnilega enn að stíga á sprengjur og tapa útlimum. Slíkum efasemdum var svarað með því að tilgangurinn helgaði meðalið – að byltingin væri ekkert teboð, einsog það var einhvern tíma kallað. Nema hvað. Mér varð hugsað til þessara röksemda um vopn fátæka mannsins þegar ég las nokkrar álitsgreinar í morgun um ástandið í Ísrael og Gaza. Þær áttu það flestar sameiginlegt að harma það ástand sem palestínumenn hafa mátt þola síðustu áratugina – því var jafnvel lýst sem hræðilegu, óásættanlegu og svo framvegis – en svo var einhverju bætt við um að stríðsmenn Hamas væru verri, hefðu með gjörðum sínum jafnvel „glatað mennskunni“, hugsanlega ætti að tala um þá sem „dýr“. Og ég verð að viðurkenna að ég byrja svolítið að svitna þegar fer að skína í viljann til þess að skilgreina mannfólk sem eitthvað annað en mennskt. Höfum samt hitt á hreinu. Aðgerðirnar síðasta laugardag eru eins hrottalegar og stríðsglæpir verða. Hamasliðar hafa skotið jafnt börn, sjúka og gamalmenni og reynt að valda Ísraelsmönnum – ekki bara hermönnum, ekki bara stuðningsmönnum Netanjahú, heldur bara hverjum sem er – eins miklum skaða og þeim var frekast unnt, og með þeim hætti að slái sem mestri ógn í hjarta þeirra sem voðaverkin beinast gegn. Með öllum tiltækum ráðum. Það er ekki kærleiksríkt – en það er því miður mennskt. Mótsögnin – sem er víst best að horfast í augu við þótt hún sé ógeðfelld – er síðan þessi: voðaverkin voru kannski eina verkfærið sem Hamasliðum stóð til boða til að reyna að hreyfa við óþolandi ástandinu – fátækum, menntlausum, einangruðum og án nokkurs annars pólitísks atbeinis en ofbeldis. Heimsbyggðin hefur fullkomlega brugðist þeim – ekki bara ár og ár, heldur í margar kynslóðir – og fylgst með af tiltölulega kaldranalegu hlutleysi þegar þeirra eigin saklausu börn og gamalmenni hafa verið skotin, sprengd, fangelsuð, pyntuð og svelt. Við sem stöndum utan deilunnar höfum löngu sætt okkur við að svona sé þetta bara. En höfum líka á hreinu að í þessari deilu – átökum, stríði, hvað maður vill kalla það – er bara annar aðilinn með töglin og hagldirnar, bara annar aðilinn getur beitt fyrir sig „siðmenntuðum“ stríðstólum, bara annar aðilinn getur stuðlað að nauðsynlegum umbótum. Hinn aðilinn býr í fangabúðum, er alinn þar upp og gerir áreiðanlega ráð fyrir að drepast þar, annað hvort sem fórnarlamb eða píslarvottur. Svo er hitt auðvitað jafn ljóst að þessar breytingar sem knýja á fram með ofbeldi geta orðið hverjar sem er, og langlíklegast að þær komi Gazabúum alls ekki til góða. Ísraelsk yfirvöld eru ekki beinlínis þekkt fyrir linkind. Kannski verður niðurstaðan bara sú að Gaza verði þurrkað út – Netanjahú hefur lofað að þurrka út Hamas, og ég er ekki viss um að honum sé treystandi til þess að gera mikinn greinarmun á saklausum og sekum, frekar en Hamasliðum. Kannski veðja Hamasliðar einfaldlega á að Netanjahú gangi nógu langt til þess að alþjóðasamfélagið verði nauðbeygt til þess að grípa fram fyrir hendurnar á honum (og að það sé hægt). Og kannski eru þeir löngu búnir að gefa upp alla von um einhvern „sigur“ – kannski ætla þeir bara að valda jafn miklum skaða og þeir geta, falla í dýrðarljóma og fá verðlaun í paradís. Ég horfði annars á viðtal í morgun við Isaac Asimov. Það var tekið eftir að fyrstu tvær Star Wars myndirnar voru komnar í bíó, en fyrir þá þriðju – það er að segja einhvern tíma í upphafi níunda áratugarins. Þar var Asimov beðinn um að spá fyrir um framtíðina í ýmsum efnum og reyndist merkilega sannspár – talaði um ljósleiðara og genatækni og að við myndum öll geta rekið okkar eigin sjónvarpsstöð – nema að hann var líka spurður um framtíð stríðsrekstrar og sagðist þá halda að eftir 30 ár (þ.e. fyrir 10 árum) myndum við sennilega hafa lagt niður allt slíkt. Að öðrum kosti værum við áreiðanlega búin að gera út af við mannkyn með öllu. Og þá veit maður ekki hvort maður eigi að líta á það sem klúður að hafa ekki tekist að leggja niður vopnaskak – eða hvort það sé þvert á móti varnarsigur að hafa ekki tortímt öllu lífi á plánetunni.
Yfirskegg
Bloggsíðan mín býður nú upp á að ég láti gervigreind skrifa titilinn fyrir mig. Titlarnir sem hún stakk upp á voru allir klénir og ófrumlegir, svo það sé nú bara sagt, en kannski mataði ég hana ekki á nógu óklénum og frumlegum upplýsingum um það sem ég ætlaði að skrifa. Kannski er meira að segja tímafrekara og erfiðara – meiri list – að mata gervigreindina á réttum upplýsingum til þess að fá góðan titil, en að búa bara til góðan titil sjálfur. Yfirskriftina. Sem er núna yfirskegg . Fyrir nokkrum vikum áttum við dóttir mín einlæga samræðu um orðið yfirskegg . Ég var að lesa fyrir hana bók og þar kom þetta fyrir – nema ég las alltaf yfirvaraskegg. Sem er miklu betra orð, þokkafyllra, lengra og nákvæmara. Og jú víst, lengra er oft betra, yfirskegg er nýsprok (newspeak) fyrir einfeldninga í tímahraki – vængstyttur viðbjóður. Nema hvað. Dóttir mín sem sagt tók eftir þessu og í stað þess að spyrja hvers vegna ég læsi alltaf „yfirvaraskegg“ spurði hún hvers vegna (í ósköpunum!) stæði alltaf „yfirskegg“ þegar „yfirvaraskegg“ væri ekki bara betra heldur líka fallegra og réttara. Við þessu átti ég svo sem ekkert annað svar en að taka undir, þetta væri undarlega skrifuð bók, en sem betur fer væri hægt að laga hana í upplestri. Á dögunum var ég svo að blaða í minni nýju skáldsögu og rak mig þá á þennan hroðbjóð. Það stendur sem sagt „yfirskegg“ í bókinni minni! Þetta verður að sjálfsögðu lagað í endurprentun, og ég sýni því fullan skilning ef þið viljið bíða þar til bókin er uppseld og endurprentuð, en ég er samt miður mín. Ég hélt fyrst að þetta hefði kannski gerst í prófarkarlestri, af því ég vil alltaf kenna öðrum um eigin fáræði, en finn þetta líka í nærri þriggja ára gömlu uppkasti – og þá hafði enginn snert það nema ég. Orðið kemur bara einu sinni fyrir, sem betur fer, og fallega orðið „yfirvaraskegg“ sömuleiðis einu sinni (það er meira að segja verið að tala um sama skeggið). Sennilega hef ég eitthvað verið að rembast – eða verið að máta mig við þetta og ekki verið kominn með sama ógeð og ég er með núna. *** Hér var stuð á helginni annars. Fullt af fólki í bænum til að taka þátt í dagskrá vegna útgáfu bókarinnar Menning við ysta haf – útgáfuhóf í Safnahúsinu, upplestur í Edinborg og stemning. Á sunnudeginum fékk ég svo Hermann Stefánsson og Oddnýju Eir (og hennar átta ára Ævar) í mat. Það var ekki minna gaman. Þau rétt komust svo heim til sín á mánudeginum áður en veðrið varð vitlaust.
Úr kúltíveruðum kindarhausnum (menning við ysta haf)
Næsta laugardag verður opnuð bókasýning í Safnahúsinu sem ég hef átt þátt í að stýra, ásamt starfsmönnum Bókasafns Ísafjarðar, ekki síst þeim Robertu Šoparaite og Eddu Kristmundsdóttur. Sýningin heitir þessu nafni, Úr kúltíveruðum kindarhausnum, og á henni má sjá fjölda bóka sem tengjast Vestfjörðum með ýmsum hætti – ljóðabækur eftir Vestfirðinga, vestfirskar barnabækur, vestfirskar bækur eftir höfunda sem eru af erlendu bergi brotnir (en slíkir eru t.d. nú í meirihluta á Vestfjörðum), bækur sem gerast á Ísafirði og svo framvegis. Þetta er auðvitað ekki nein heildarútstilling á slíkum verkum heldur dálítið sýni sem er ætlað að sýna breiddina. Sýningin er haldin í tilefni af útgáfu bókarinnar Menning við ysta haf: Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og Stranda í ritstjórn Birnu Bjarnadóttur og Inga Björns Guðnasonar, þar sem ég á greinarkorn um ísfirskar bókmenntir sérstaklega – það er úrvinnsla á þessari dellu sem ég fékk á heilann fyrir nokkrum misserum (og tengist auðvitað vinnunni við Náttúrulögmálin ). Verður hún opnuð samhliða útgáfufögnuði bókarinnar þar sem fram koma Ármann Jakobsson, Andrew McGillivray, Birna og Ingi Björn, Gunnar Þorri Pétursson og Oddný Eir Ævarsdóttir. Sú síðastnefnda mun fjalla um Eirík Guðmundsson heitinn en bókin er tileinkuð minningu hans, vors besta sonar, sem lést í fyrra langt fyrir aldur fram – en átti mikinn þátt í verkefninu og málþingunum sem bókin byggir á. Um kvöldið verður svo skemmtidagskrá í Edinborgarhúsinu. Þar verða flutt gömul og nú verk í bland – ég les sjálfur úr minni nýju bók en auk þess koma fram skáldin Helen Cova, Hermann Stefánsson, Oddný Eir, Ólína Þorvarðardóttir og nýjasta viðbótin í rithöfundasúpu Ísafjarðarbæjar, spennusagnahöfundurinn Jarosław Czechowicz, sem mun segja frá pólskum bókum sínum á ensku (ein hverra gerist einmitt á Ísafirði). Tónlistaratriði verða í fimum höndum þeirra Skúla mennska og Gosa. Dagskráin í Safnahúsinu hefst klukkan 15 en kvölddagskrá klukkan 20.
Hress
Síðan ég hætti að drekka kaffi er ég farinn að vera fremur syfjaður á kvöldin. Sem sagt, nokkuð fyrr en ég kæri mig um að vera syfjaður. Ég veit ekki hvað það á að þýða. Ég ætlaði reyndar aldrei að vera kaffilaus nema í mánuð og hann er löngu liðinn, mér hefur bara ekki tekist að ákveða hvenær fari best á því að ég byrji aftur á þessum dásamlega ósið. Kannski er ég bara að bíða eftir því að ég sakni þess nóg. Ég verð líka að viðurkenna að þótt ég hafi ekki alltaf sofið jafn vel frá því að ég hætti – og þótt ég hafi raunar byrjað að sofa betur strax í sumarfríinu í Montpellier – þá hef ég samt sofið betur en ég geri venjulega. Ég fékk fyrsta eintakið af Náttúrulögmálunum í hendurnar í vikunni. Hún er fjarska falleg. Svo falleg að ég hef ekki skilið hana við mig síðan ég fékk hana. Tek hana með mér í vinnuna á morgnana og heim á kvöldin. Ekki að ég sé að nota hana neitt, mér finnst bara gott að hafa hana hjá mér. Svo les ég upp úr henni á helginni – og sveifla henni framan í fólk. Aram lagaði kvöldmat upp úr Plokkfiskbókinni í dag. Hann bað sjálfur um að fá að laga mat einu sinni í viku og hefur gert lasagna og velskan héra (welsh rarebit) og fleira í haust. En mér þótti auðvitað sérstaklega vænt um að hann skyldi laga plokkfisk upp úr Plokkfiskbókinni. Og hann var líka óvenju góður – vel pipraður einsog mér finnst best. Annars er fátt að frétta nema rólegheitin.
Um reynslu
Sumir rithöfundar eiga það til að telja sammannlega reynslu sértæka reynslu – t.d. kvenlega reynslu og lýsa heiminum þannig að reynsla, sem allir ættu að geta tengt við, virðist fyrst og fremst tilheyra öðru kyninu. Og aðrir rithöfundar eiga það stundum til að telja að öll sértæk reynsla hljóti að vera sammannleg. Að það hljóti að vera hægt að heimfæra allt sem þeir hafi sjálfir upplifað upp á alla aðra.
Þetta er ekki alvitlaust þótt auðvitað séu þetta fyrst og fremst gildrur til að forðast. Það er ágætis þumalputtaregla að ef það virðast bara vera tveir valkostir í boði eru þeir jafnan báðir rangir – eða í öllu falli óþarflega takmarkandi. Í grunninn er öll reynsla sammannleg og ein af furðum mannkyns er hversu fær við erum um að skilja upplifanir sem við höfum ekki lent í sjálf. En við erum líka að sama skapi fljót að alhæfa um slíkar upplifanir, skilja bara klisjukenndustu útgáfu þeirrar upplifunar, fella hana í sama mót og missa af því að öll upplifun er í rauninni sértæk. Og hún er ekki bara sértæk þannig að t.d. konur eigi sameiginlegan reynsluheim sem karlar hafi ekki innsýn í, heldur þannig að hvert og eitt okkar hefur sína eigin sértæku reynslu. Það veit engin kona hvernig það er að fæða öll börn – bara þau sem hún hefur fætt sjálf, og sú upplifun getur verið marglaga og á ólíkum tímaskeiðum, hver fæðing er ekki bara misjöfn heldur er upplifunin af fæðingunni ekki sú sama og upprifjunin af fæðingunni o.s.frv. Þetta á við um alla persónulega reynslu, frá því ómerkilegasta til þess merkilegasta. Rithöfundastarfið gengur þannig alls ekki út á að setja sig í spor annarra þjóðfélagshópa þegar skrifað er um fólk sem tilheyrir öðrum þjóðfélagshópum, einsog gjarnan er haldið fram, heldur að setja sig í spor tiltekinna einstaklinga sem aldrei hafa verið til – en lifa þó sínu eigin heila lífi, margbrotnu og mismeðvituðu. Reynsla þessara einstaklinga þarf ekki að standa reikningsskil við reynslu annarra („raunverulegri“) einstaklinga – en hún þarf auðvitað að vera trúverðug.
***
Það er áreiðanlega að bera í bakkafullan lækinn að skrifa meira sænskt bókmenntaslúður – jafnt þó nú sé að bresta á með bókamessuhelgi í Svíþjóð. Ég skrifa auðvitað slíkt slúður reglulega og nú er Þórdís Gísla búin að skrifa tvær þannig færslur á fáeinum dögum . En í dag hefur bókmenntasvíþjóð logað – a.m.k. á Facebook – eftir að bókmenntaritstjóri Aftonbladet birti manifestó í morgun. Í þessu manifestói byrjar hann á því að segja að hann hugsi um bókmenntaheiminn sem tvö hverfi í stórri borg – annars vegar séu fagurbókmenntirnar í miðbænum en hins vegar vinsældabókmenntir í verslunarhverfi í útjaðri bæjarins. Svo kemur eitthvað alls konar um hámenningu og lágmenningu og eitt og annað um bækur sem sitji þarna á milli – brjóti niður múrana – og sitthvað um að þetta sé nú ekki nógu gott menningarástand, bókabúðum fækki, ekki nema 10% útgefinna bóka fái gagnrýni o.s.frv., það þurfi alltaf að velja og hafna. Svo klykkir hann út með því að af þessum ástæðum (!) hafi hann ákveðið að draga stórlega úr birtingu gagnrýni um fagurbókmenntir og einbeita sér frekar að vinsælli bókum, ekki síst genre-bókmenntum (krimmum, ástarsögum, teiknimyndasögum, sci-fi o.s.frv.
Nú vill auðvitað til að þetta eru þær bækur sem forlögin ýta mest undir – þær sem mest eru auglýstar, fá mesta dreifingu, keypt pláss í bókabúðum og á forsíðum netbókaverslana – og því finnst ýmsum nóg um að síðasta vígi fagurbókmenntanna, kúltúrsíður stóru dagblaðanna, sé að falla. Maður spyr sig líka hvað hafi breyst – kannski var einhvern tíma tími, einsog Will Self bendir reglulega á , þegar krefjandi fagurbókmenntir voru meira áberandi á metsölulistunum, en það var þá gullöld, eitthvað augnabliksástand. Doris Lessing var kannski vinsæl en hún seldi aldrei nema brotabrotabrot af því sem Sidney Sheldon seldi. En hún fékk ábyggilega fleiri ritdóma, meiri akademíska athygli, bækur hennar lifðu lengur í umræðunni og hún var almennt áreiðanlega tekin öðrum tökum – með þeim rökum, hélt ég, að það væri meira að spekúlera í. Það gerir varla minna úr afþreyingu að fullyrða að hún kalli síður á krufningu? Eða er það er ekki það sem gerir hana eftirsóknarverða sem afþreyingu? Sem þýðir auðvitað ekki að það sé tilgangslaust að spá í poppkúltúr (hér má skrolla upp og skoða aftur fullyrðinguna um það þegar það eru bara tveir valkostir í boði).
Þetta hefur annars þegar haft þær afleiðingar – fyrir utan pistlaraðir á Facebook, og m.a.s. nokkra í vefmiðlunum nú þegar – að einn gagnrýnandi blaðsins, með 40 ára starfsreynslu, sagði upp störfum með þeim orðum að starf gagnrýnandans fælist ekki síst í því að „bera kennsl á gæði og sortera burt ruslið“ og slíkt væri ekki í boði undir slíkri ritstjórn, og leiklistarritstjóri Aftonbladet hefur séð sig nauðbeygða til að lýsa því yfir á Facebook að hún muni ekki fara sömu leið og láta bara gagnrýna vinsælustu sýningarnar – heldur muni hún eftir sem áður láta gæði ráða för.
Hljóðbókasvindlið
Það er margt í sænsku umræðunni sem speglar þá íslensku þessa dagana. Annars vegar var SVT að sýna sjónvarpsþætti sem mér skilst að hafi verið mjög „trans-krítískir“, ef ekki hreinlega mjög transfóbískir – ég hef ekki séð þá en ég hef ekkert gott séð um þá, virðist hafa verið alveg hræðilegt fúsk ofan í allt annað, og nafnið eitt ætti líka að segja manni sitthvað: Transkriget . Sem hljómar einsog nafn á einhverri seventís exploitation mynd. Hins vegar er uppnám yfir ímyndaðri kynfræðslu í leikskólum í Malmö – og hafa yfirvöld þurft að margítreka að það sé ekki kennd NEIN kynfræðsla í leikskólum og þar með ekki heldur sú bók sem vefmiðlatröllin vísa í, þar sem þau debatera eigin ímynduðu lífssýn á netinu. Upplýsingaóreiða? Það held ég nú. *** Ég hef verið spurður hvort það komi ekki hljóðbók af Náttúrulögmálunum – sem hefði reyndar aldrei orðið fyrren næsta vor í fyrsta lagi. En ég get upplýst að það verða að minnsta kosti ekki upptökur í haust og sennilega verður einhver annar en ég fenginn til að lesa hana upp. Fólk eltir víst vinsæla upplesara á Storytel, frekar en höfunda. Svo verðum við bara að sjá hvað verður. Ég veit ekki alveg hvaða afstöðu ég á að hafa til Storytel – sem er reyndar sjálfstæð spurning, því hljóðbækur eru líka til sölu á Forlagsvefnum (þótt það seljist lítið af þeim). Heildartekjur mínar frá Storytel í fyrra, fyrir hlustun á átta titlum, náðu ekki 25 þúsund krónum samanlagt. Ég er alltaf að búast við því að hljóti að verða samið upp á nýtt – þetta geti ekki átt að vera svona – en það gerist aldrei neitt. Einhvern tíma fáruðust rithöfundar mikið yfir misnotkun á Hljóðbókasafni Íslands – sem lánar um 270 þúsund bækur á ári – af því það var (leiðréttið mig endilega ef þetta er rangt) ekki tekið með í úthlutun úr bókasafnssjóði og þar með ekki greitt fyrir útlánin. Þá var líka algengt að fólk væri að lána lykilorðið sitt og svona – ég þekki sæg af fólki sem er hvorki blint né lesblint og hafði í lengri eða skemmri tíma aðgang að hljóðbókasafninu. Og þess utan var bókasafnssjóður minni og þar með minna greitt per útlán. Nú er svo komið að höfundar fá jafnvel talsvert minna fyrir hverja hlustun á Storytel en þeir fá fyrir útlán á hljóðbókasafni – þótt það fari eitthvað eftir lengd bóka, ef ég skil formattið rétt (en það er líka frumskógur að skilja tekjumódel Storytel). Hildur Knútsdóttir segir hér frá því að hún fái 32 krónur fyrir hverja hlustun á Myrkrið milli stjarnanna , en 70 krónur fyrir Slátt (sem er lengri) – en 131 krónu fyrir hvert útlán í hljóðbókasafninu. Þá hlýtur maður að spyrja sig til hvers Storytel er eiginlega – og af hverju hljóðbókasafnið sé ekki bara opnað fyrir alla? Þá þyrfti að vísu að stækka bókasafnssjóð – en það er ábyggilega tittlingaskítur í stóra samhenginu. Ég hef hins vegar haft ákveðna búbót af því að lesa bækurnar mínar upp – bæði fyrir Forlagið og fyrir Storytel beint. Ég hef gert það í mínu heimastúdíói, í stúdíói Forlagsins, hjá Mugison í Súðavík, hjá forvera Storytel, Skynjun, og í sænsku stúdíói í Västeras. Það er ljúf vinna og kannski ekki frábærlega launuð, en ekki illa launuð heldur. Og ekkert í líkingu jafn illa borguð og streymið. Ég þekki höfunda sem setja ekki bækur sínar inná Storytel – og ég þekki höfunda sem hafa ákveðið að framleiða hljóðbækur sínar alveg sjálfir til þess að losna við milliliðina úr þessu ferli, selja svo Storytel tilbúna framleiðslu og fá meira fyrir hvert streymi. Flestir held ég að vilji samt „vera með“ – viðkvæði Storytel manna (a.m.k. í Svíþjóð) er að streymið sé „hrein viðbót“ við bókamarkaðinn, en á sama tíma og hljóðbókin er í sókn fækkar bókakaupendum. Stór hluti lesenda (alls ekki allir samt) hafa að hluta eða öllu leyti flutt sig inn á Storytel og stunda þar sína bókmenningu. Þar er ekki bara eftir tekjum að slægjast, þótt það þurfi augljóslega að bæta kjörin umtalsvert, heldur því sem er kannski stundum mikilvægara: áheyrn. Ekki þar fyrir að stundum langar mig líka bara að skrifa fyrir sjálfan mig og kannski mína sjö heitustu lesendur. Leevi Lehto sagði að það væri hámarkið – hann vissi sínu viti.