Í einverunni neyðist ég til þess að horfa á jóladagatalið einn. Ég sleppi samt sænska dagatalinu. Það er ekkert sérstaklega gott í ár. Mikið budget utan um frekar snauða sögu. Og ekkert smá budget heldur – þetta lítur út einsog Game of Thrones fyrir börn. Íslenska dagatalið er frábær saga og sennilega er budgetið bara passlegt – nema líklega hefðu allir mátt fá betur borgað, ég meina það ekki, en það vantar ekkert að gera þetta neitt flottara. Væri ekki betra ef það liti út einsog Game of Thrones eða Gael Garcia Bernal léki stórt aukahlutverk. Það neyðir mig enginn til að horfa á fótbolta og ég sleppti því reyndar alveg þangað til í dag. Ég er svona karl sem horfir á fótbolta þegar stórmótin eru í gangi og þarf aðeins að hafa fyrir því að gíra mig upp. Finnst samt alltaf gaman þegar ég er kominn í stemningu. Katararnir voru ekki að gera okkur stemningsmönnunum neina greiða með verkalýðslöggjöfinni sinni og hommahatrinu. Ég hef ekkert þurft að hafa fyrir því að hunsa mótið. Í dag ákvað ég nú samt að missa ekki af úrslitaleiknum. Til þess að gera langa sögu stutta hef ég aldrei séð annan eins fótboltaleik. Að vísu hafa margir séð fleiri fótboltaleiki en ég – en sérfræðingarnir í sjónvarpinu voru á svipuðum nótum. Eftir leikinn fóru þau að bera saman Messi og Maradona og komust að þeirri niðurstöðu að Messi myndi aldrei njóta sömu ástar í Argentínu og Maradona einfaldlega vegna þess að hann sé ekki nógu breyskur. Nú hefur Messi unnið alla titla sem hann getur unnið og flesta þeirra tvisvar og því kjörið tækifæri til að bæta úr þessu með breyskleikann og verða háður kókaíni. Það er aldrei of seint. Messi er ekki nema fjórum árum eldri en Maradona þegar Maradona lenti í fyrsta leikbanninu fyrir eiturlyfjanotkun.
Author: Eiríkur Örn Norðdahl
Menningin nærir börnin sín
Halló? Er einhver þarna? Ég slökkti á samfélagsmiðlum og fréttum – að frátöldum útvarpsfréttum þegar ég man eftir að kveikja. Nú ríkir þögnin ein. Samt er ég með höfuðverk, hvernig sem á því stendur. Nadja fór með börnin suður í dag. Þau halda svo áfram til Svíþjóðar og ég næ þeim í næstu viku, í tæka tíð fyrir jólahátíðina. Ég er eitthvað að vesenast – þreif ofninn og ísskápinn og byrjaði að vinna í gólfhitanum og parkettinu. Ætlaði að halda áfram fram á kvöld en nennti því svo ekki. Fór og keypti mér tælenskt teikavei og byrjaði að horfa á Andor. *** Berglind Ósk skrifar í dag um það sem Svíar kalla kúltúrbörn – það er að segja það fólk sem fæðist með tengsl inn í menningarheiminn, við rithöfunda, útgefendur, gallerista, myndlistarmenn og forstöðumenn helstu menningarstofnana (þess má þá geta hér að kærasti Berglindar, Steinar Bragi, er afabarn fv. forstöðumanns stofnunar Sigurðar Nordal – bara svo það sé allt uppi á borðum hér!). Og raunar fleira – hvað það getur verið erfitt að komast inn í þennan heim og njóta þar sannmælis. Berglind tekur dæmi af því hverjir virðast fá mest pláss í bókablaði Stundarinnar – sem er ritstýrt af afabarni nóbelsskáldsins með dóttur djöflaeyjuskáldsins sér til halds og trausts. Þetta er auðvitað satt og rétt og kunnuglegt. Í þessum heimi þrífst fólk á góðu tengslaneti og visnar án þess. Það fylgja því augljós forréttindi í menningunni að vera af menningarætt – til dæmis bara þau að líklega var því besta í menningunni haldið að manni frá unga aldri, manni fannst sjálfsagt að fólk starfaði við listræna sköpun og hinu að sennilega mætti Halldór Guðmundsson, don Corleone menningarheimsins (eða einhver áþekkur) í fermingarveisluna manns og var hugsanlega byrjaður að spyrja mann um „handrit“ áður en maður var einu sinni búinn að læra alla stafina í stafrófinu. Ekki að ég þekki til af eigin reynslu – ég er að ímynda mér líf sem ég öfundaðist einhvern tíma út í – það næsta sem ég kemst því að kúltúrrisa í fjölskyldunni er að móðurbróðir minn er heiðursfélagi í hinu íslenska blúsfélagi. Hann er að vísu langbesti blúsgítarleikari landsins, en það er önnur saga. Fyrir tuttugu árum, þegar ég var að byrja að gefa út, var ég með mikla minnimáttarkennd gagnvart menningarbörnunum – mér fannst einsog öll ungskáldin sem ég kynntist ættu þjóðskáld að foreldri. Eða í það minnsta bjúrókrat í menntamálaráðuneytinu með árskort í sinfó. Allir höfðu leikið í Skaupinu þegar þeir voru börn, eða barnasýningu í Þjóðleikhúsinu, eða verið í Rokklingunum. Fólk vitnaði í Njálu einsog aðrir sögðu skrítlurnar aftan af Andrésblöðum. Ekki þar fyrir að ég hlaut menningarlegt atlæti yfir meðallagi hjá grunnskólakennaranum og sjómanninum sem ólu mig upp – og voru bæði mikið bókafólk – en þetta var mér samt allt svo fjarri. Þegar ég flutti suður fannst mér alveg nógu ótrúlegt að mæta Ladda á laugaveginum. Að hann væri bara til. Af holdi og blóði. Og ég veit að mörgum menningarbörnunum fannst tengslin við foreldra sína meira vera dragbítur en hitt – einu slagsmálin sem ég hef lent í hófust þegar ég líkti vini mínum við pabba sinn (stórskáld) og hann kýldi mig. Mér finnst það alveg skiljanlegt líka. Ég held að þetta snúist ekki um að neinn vilji halda manni úti – þótt plássið sé sannarlega af skornum skammti. Það er bara einfaldara að taka viðtal við vini sína, fá þá til að skrifa um bækur, vera með pistla og svo framvegis – manni finnst vinir sínir skemmtilegir og gáfaðir og maður veður blint í sjóinn með það hvort eitthvað fólk sem maður þekkir ekki neitt er það líka. Og þar með þurfa utanaðkomandi að hafa tvöfalt fyrir því að skapa sér pláss – og bera hégóma sinn, athyglisþörf sína, á máta sem þeir sem fæðast í kastljósinu þurfa aldrei. Það er líka talsvert aukaálag að teygja sig út fyrir tengslanetið sitt og fyrir slíkt aukaálag fær enginn á þessu landi greitt. Ég lagði talsvert upp úr því á Starafugli að hóa í fólk sem ég þekkti ekki neitt – en samt voru þau sem ég þekkti miklu líklegri til þess að gefa mér jákvætt svar. Og þegar ég var í tímahraki voru það þau sem redduðu mér. Eitt af því sem ég er stoltastur af við Starafugl er samt höfundalistinn – sem má sjá vinstra megin á forsíðunni . Þar eru næstum því 300 nöfn. En það breytir því ekki að þau sem hjálpuðu mér við ritstjórn og voru fastapennar voru flest rækilega í „tengslanetinu“ mínu. Ég er heldur ekki viss um að þetta einskorðist við menninguna – mér sýnist alltaf sama fólkið vera í öllum sjónvarpsþáttum, alltaf sama fólkið hafa skoðanirnar sem skipta þjóðina máli, alltaf sama fólkið vera með einu sönnu greiningarnar á þjóðfélagsástandinu. Það sem er kannski mest áberandi við þá kreðsu er að hún er öll með lögheimili í akstursfjarlægð frá Efstaleitinu. Í raun og veru held ég að menningarliðið sé frekar opið fyrir fólki sem á ekki þjóðleikhússtjóra fyrir föður eða tónskáld fyrir móður – svona heilt yfir að minnsta kosti. En þetta er samt kreðsa með sinn eigin innri kúltúr og maður finnur oft – ég m.a.s. ennþá, þótt ég hafi mitt eigið kapítal og sé byrjaður að kenna börnunum mínum hvernig maður heilsar forsetanum þegar maður tekur á móti íslensku bókmenntaverðlaununum – að maður kann ekki alveg að tala tungumálið. Og þá verður fólk oft dálítið undarlegt á svipinn þegar maður lætur sig samt hafa það að taka til máls.
Uppljóstrun
Ég fæ yfirleitt ekki mikil viðbrögð við þessum færslum mínum, ekki einu sinni þegar þær fá mikinn lestur – sem gerist af og til. Stundum einhver komment á Facebook og svona. Ekki bréf. Ekki sms. Skilaboðaforritin mín loga ekki. En nú bregður svo við að allir og amma hans vilja vita um hvaða hræðilegu bækur ég var að tala hérna í gær. Hver skrifaði svo vitleysislega bók að hún fór fyrir brjóstið á mér og hver skrifaði svo ægilegt torf að jafnvel ég, með allar mínar margfrægu gáfur, botnaði ekkert í henni? Ég hef engum sagt það enn. En er þó svo miskunnsamur við lesendur mína að nefna að sennilega myndu þeir ekki þekkja þær þótt ég nefndi þær. Báðar bækurnar eru nefnilega sænskar og hvorug þeirra neitt heimsfræg – og alls ekki neitt úr íslenska jólabókaflóðinu einsog svo margir virtust hafa ályktað. Þær eru ekki einu sinni nýjar og voru líklega aldrei metsölubækur. Og ekki skáldsögur. Sú tormelta er ljóðabók og sú léttmelta teiknimyndasaga. Ljóðskáldinu hef ég mætur á þótt mér líki ekki þessi bók og teiknimyndasöguhöfundinn hef ég ekki lesið áður. Meira fáið þið ekki að vita enda ætti þetta að vera feykinóg. *** Ég gleymdi víst að nefna það hér í gær að Frankensleikir er kominn á Spotify . Þið getið t.d. bætt honum á jólalagaplaylistann ykkar og gyllt með því jólahátíðina. Eiginlega er alls óvíst hvort jólin koma nokkuð ef þið sleppið því. Svo heyrðist í honum í útvarpinu í gær. *** Nú er ég að gíra mig upp í að slökkva aftur á samfélagsmiðlum. Jólabókaflóðinu er kannski ekki alveg lokið en þetta drífur sig meira og minna á eigin vélarafli síðustu dagana. Ekki það ég hafi verið að gera mikið gagn heldur, en það er önnur saga. Ég verð enn sem áður hér á blogginu – en lesturinn fer vel að merkja alltaf niður í svona tíu prósent af því sem hann annars er þegar ég slekk á ófrenjunni. Facebook er gáttin sem allir nota til þess að finna sér lesefni og því sem ekki er deilt þar má segja að eigi sér stað í bakherbergjum internetsins. Ef ekki bara bakherbergjum veruleikans. Ef það á sér yfirleitt stað. *** Annars er ekki allt slæmt við algóritmann. Í dag benti hann mér á skemmtilegt viðtal við Fran Lebowitz í Guardian, lista Book Riot yfir 30 bestu bækur ársins (spoiler, 27 eru eftir konur og meirihluti karlabókanna – þ.e.a.s. 2 af 3 – eru hinseginsögur; allar eru amerískar og engin er þýdd; fimm eru „hefðbundnar“ fagurbókmenntir en fantasían dómínerar). Já og Guardiangrein um að listamönnum úr verkalýðsstétt hafi fækkað á síðustu fimmtíu árum – í takti við fækkun fólks úr verkalýðsstétt, en samt þannig að maður er enn þrisvar sinnum ólíklegri til þess að hasla sér völl í tónlist, bókmenntum og myndlist ef foreldrar manns eru úr verkalýðsstétt. Og eiginlega hefur maður aðeins minni líkur á að ná því í dag en 1970. Svo fann ég umræðu um neikvæða dóma í sænskumælandi Finnlandi – sem eru til umræðu nú eftir að ljósmyndasýning Davids Lynch á Helsingfors Fotofestival fékk mikla útreið (mér skildist á persónulegum samræðum við finnskan vin á dögunum að þar í landi væri almennt talsverð umræða um það þessas dagana hvernig fólk sem er frægt í einum bransa nýtir þá frægð til þess að fá athygli í öðrum bransa). Útgangspunkturinn í finnsku umræðunni var að neikvæð krítík hverfi þegar krítíkerarnir upplifi sjálfir að listformið sem þeir rýna í – og hafa gjarnan ást á – sé sjálft í útrýmingarhættu, en þegar listformið standi sterkt leyfi gagnrýnendur sér heldur að slátra hægri vinstri ef þess gerist þörf. Jákvæðnin sé eins konar vopn til þess að endurvekja áhuga fólks á list í útrýmingarhættu. Ég gat ekki varist að setja þetta í samhengi við stjörnuregn haustsins og þá fullyrðingu, sem ég hef séð ítrekað haldið fram, að það sé tilkomið vegna þess að skáldsagan sé svo sterk í ár – þetta sé svo sterkt haust. Alveg burtséð frá gæðum verkanna má velta því fyrir sér hvort jákvæðnin í dómunum sé til marks um einhverja tilvistarkrísu bókmenntanna. *** Þetta verður síðasta færslan sem ég deili á samfélagsmiðlum í bili. En ykkur er alveg óhætt að líta hér inn á morgun líka. Og hinn. Og héðan gætuð þið haldið bloggrúntinum áfram yfir til Brynjars , Ármanns eða Berglindar – og jafnvel Snæbjörns , ef hann afþaggar einhvern tíma í sjálfum sér, og Ásgeirs , ef hann er ekki hættur. Zuckerberg verður ekki ánægður með að þið sleppið milliliðnum en við hin tökum ykkur samt fagnandi að venju. Allavegana ég.
Tvær hræðilegar bækur
Á dögunum las ég tvær bækur. Það skiptir ekki máli hvaða tvær bækur. Sú fyrri var einhvern veginn þannig að mér fannst hún misbjóða vitsmunum mínum með því að útskýra stöðugt fyrir mér eitthvað sem mér þótti algerlega sjálfsagt – eða enn verr, bera eitthvað á borð einsog það væri djúpvitur viska sem var augljóst að höfundurinn hafði ekki hugsað neitt um og var ekki á leiðinni að fara að íhuga neitt heldur. Svona einsog hræðilegustu málshættir. Alveg hræðilegt þunnildi, fannst mér, en ég hugsaði á sama tíma að ef ég hefði lesið hana þegar ég var á þrítugsaldri hefði mér kannski fundist hún betri. Henni var augljóslega beint að þeim aldurshópi – voða mikið tilvistarkrísudjamm og kærustuparavesen. Í hinni bókinni var mikið frumskrifað torf en líka stöðugt vitnað í einhverja stærðfræðinga og rökfræðinga og þungaviktarheimspekinga til þess að koma boðskapnum á framfæri – en ég fann tilfinnanlega fyrir því að mig skorti bæði vitsmuni og sennilega líka metnað til þess að komast til botns í því sem verið var að segja. Ég gæti ekki einu sinni sagt ykkur, svo vel væri, um hvað hún var. Þetta er, vona ég, ekki bara spurning um vitsmuni og metnað heldur traust. Treysti ég því að það sem bókin ætlar að segja mér með torfinu sé erfiðisins virði. Sumum finnst að vísu erfiðið sjálft vera verðlaunin og það er ekki alveg úr lausu lofti gripið – það er eitthvað í því – en ég myndi gjarna vilja vita það fyrirfram. Því þetta er líka stundum einsog einhverjar intellektúal pósur. Ég þarf að finna einhverja samúð með prójektinu til þess að leggja þetta á mig. Og ég þarf kannski líka að hafa einhverja tilfinningu fyrir því fyrirfram út í hvað ég er að leggja. Allavega. Ég veit ekki alveg hvert ég er að fara með þessu, annað en að segja að það er ýmislegt sem þarf til að bækur hitti mann í hjartastað.
Óbeisluð jól
Búinn að skera laufabrauð, missa af jólahlaðborði og borða eintóman graflax í kvöldmat (tvisvar). Jólahefðirnar tínast inn ein af annarri – það er tékkað í boxin. Við losnum við jólahreingerninguna í ár af því við förum til Svíþjóðar um jólin, nema ég sinni henni einn í næstu viku – Nadja og krakkarnir fara á undan og það væri kannski ekkert geggjað leiðinlegt að koma heim í sæmilega röð og reglu. Það gæti líka verið að ég leggi gólfhita í eldhúsið. Ég á allt í það og hef verið að fresta því síðan í ágúst. En þá er ólíklegt að ég taki mikið til. Annars kannast ég ekki alveg við þetta jólastress sem fólk talar um. Eða – ég kannast alveg við að árstíðin sé stressandi en yfirleitt er þetta stress allt öðruvísi útlítandi heima hjá mér en mér sýnist hjá flestum. Nadja er fyrst og fremst að klára skólaárið og því fylgja slímsetur við tölvuna og þetta dæmigerða kennaraálag – ég er oftast með bók í jólabókaflóðinu og því fylgir stundum talsverð aukavinna en líka bara einbeitingarskortur og hégómaeitrun. Ég þyrfti eiginlega að fá tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna vikulega frá því um miðjan september, bara svo mér finnist ekki einsog veröldin sé að leggja sig í líma um að gleyma mér. En þetta þarna jólastress með að þrífa og skreyta og baka – það er bara ekki mjög kunnuglegt. Við þurfum ekki að mæta í nein ósköp af jólaboðum – ég er ekki á neinum vinnustað og jólahlaðborð MÍ er eftir að Nadja er farin. Við erum með nokkur ljós sem fara í gluggana og dót sem fer upp úr kössum og á borð og í gluggakistur. Ég tók til og skúraði og leyfði svo Nödju og krökkunum að koma því fyrir. Þegar við erum heima er jólatré – því fylgir smá umstang. Reyndar er jólatréð frá því í fyrra ennþá úti í garði. Það er að vísu ekkert barr á því. Sjálfur er ég alinn upp við að vera með lítið gervijólatré og finnst allt mæla með því – en það er víst nóg á skógarelskandi skandínavann lagt að flytja hana til þessarar gróðurauðnar sem þetta land er að ég fari ekki að setja mig upp á móti „alvöru“ jólatrénu líka. Stundum er svolítið stress að ná öllum jóladagatölunum í tæka tíð – svo það sé líka hægt að lesa (við lesum enn fyrir krakkana á kvöldin og svo lesa þau líka sjálf – þetta er frekar tímafrekt kvöldritúal). Nadja og krakkarnir hlusta á sænska útvarpsdagatalið á morgnana en eftir kvöldmat horfum við öll saman á íslenska og sænska sjónvarpsdagatalið. Svo þarf að æfa fyrir jólatónleika tónlistarskólans – Aram sér núorðið alveg um sitt sjálfur en við Aino tökum stutta æfingu daglega. Við bökum þegar og ef við höfum tíma. Nadja gerði piparkökudeig og mér finnst sennilegt að hún baki eitthvað úr því áður en hún fer á fimmtudag. Ég fer varla að baka fyrir sjálfan mig eða til að taka með mér þegar ég fer (viku á eftir þeim). En ég hef yfirleitt bakað að minnsta kosti eina sort. Svo er alltaf smá stress í kringum matinn þegar við erum heima – og sosum líka þegar við erum úti, en það deilist þá á fleira fólk. Ég á líka eftir að kaupa flestar gjafir en ég er í sjálfu sér með svona fremur skýrar hugmyndir um hvað þær eiga að vera. Svo erum við öll búin að vera lasin, sem er nú góðs viti því þá verðum við vonandi ekki lasin yfir sjálfar hátíðirnar. Nema við fáum einhverja glænýja flensu í Svíþjóð. En svo hef ég ekkert verið yfirdrifið upptekinn í ár heldur. Í jólabókaflóðinu, meina ég. Ég hef mest verið að elta skottið á sjálfum mér. Hvað sem líður viðtökum Frankensleikis – sem eru frábærar – þá hef ég eiginlega ekki haft neitt að gera við að fylgja bókinni eftir. Ég hef lesið upp einu sinni og það var í forföllum fyrir Bergsvein Birgisson, sem komst ekki á Opna bók. Jú og reyndar líka í útgáfuhófinu mínu. Fór í eitt viðtal í Fréttablaðinu og eitt í Ísland í dag. Ég hef í sjálfu sér ekkert verið að eltast við að gera meira – hef ekki verið neitt mjög hress í haust – en mér hefur heldur ekki verið boðið að gera neitt meira. Í þessum blúsaða gír hentar mér þá ágætlega að vinna bara einn með sjálfum mér. Það var þannig sem Frankensleikislagið kom til. Ég byrjaði að semja það snemma í haust eftir prófarkalestur bókarinnar – þegar ég var líka stopp í skáldsögunni sem ég er að vinna í (ég er aftur stopp núna). Síðan varð ég meira blúsaður og fannst þetta lag bara vandræðalega hræðilegt og lagði það til hliðar – eiginlega var bara handvömm að ég eyddi því ekki. Þetta er líka mjög undarlegt lag. Erindin eru rúm mínúta á lengd af einhverju hálfblúsuðu indídóti en viðlagið er 10 sekúndur af ofsahressleika. Ég man ekkert hvað ég var að hugsa – nema jújú ég vildi að það væri hopp á milli. Að kaflarnir væru ólíkir. En fyrr má nú andskotans vera! Þetta er kannski ástæðan fyrir því að ég er ekki tónlistarmaður. Jæja, hvað um það. Þegar leið að útgáfuhófinu datt mér í hug að fá vini mína í Gosa til að spila með mér nokkur jólalög og þegar Baldur spurði hreinlega hvort það væri ekki ástæða til að henda í eitt frumsamið játaði ég að ég ætti til hálfklárað lag sem væri kannski hægt að flytja. Sem við og gerðum við góðan orðstír, einsog heitir. Þá um kvöldið var ég með ofsastórar hugmyndir um að klára þetta – fá strákana til að taka það upp með mér frá grunni, eða bara Sjökvist eða bara bæði og svo eitthvað all stars af lókal snillingum – Ödda og Rúnu, Stebba Baldurs, Árnýju Margrétu, Celebs-systkinin og Venna pabba þeirra, Bergþór Páls, Denna og dóttur hans, Hauk Magg, Madis og lúðrasveitina, Villa Valla, Gumma Hjalta – gera myndband, bóka Madison Square Garden og slá í gegn. Fá allt í senn humar, frægð og heimsyfirráð. Smám saman varð þetta að svo mikilli vinnu í höfðinu á mér – bara að ákveða nákvæmlega hvað það var sem mig langaði, hvað væri raunhæft, hvað væri skemmtilegt og hvað væri leiðinlegt – að það var alveg orðið óyfirstíganlegt að byrja. Nokkrum sinnum prófaði ég að opna lagið en tölvan var með endalaus leiðindi – fraus og ég gat ekki einu sinni hlustað á það sem ég var búinn að taka upp. Sem var furðulegt nokk ekki mjög hvetjandi til að halda áfram. Svo ég bara snerti ekki á þessu í tæpa tvo mánuði. Og þar við sat sem sagt alveg þar til í byrjun síðustu viku að forritið alltíeinu hrökk óvænt í gang – frostlaust. Þá endurútsetti ég viðlagið í snatri, lagaði textann, forritaði nýjar trommur og gerði nýjan millikafla og spilaði þetta svo allt inn upp á nýtt sjálfur á þremur dögum og 20 rásum. Leyfði svo Frankensleiki að taka gítarsóló í lokin. Á laugardaginn stökk svo Orri Harðar (sem á afmæli í dag! til hamingju með afmælið Orri!) inn á milli knattspyrnuleikja og masteraði upptökuna fyrir mig. Nú er ég búinn að henda þessu inn á allar helstu veitur (það er smá bið eftir Spotify – kemur vonandi upp úr helgi) og hafði meira að segja fyrir því að senda það á útvarpsstöðvarnar. Ef ég þéna meira en 18 evrur hef ég náð inn fyrir kostnaði. Nú eru tólf dagar til jóla og ég veit ekkert hvað ég á að gera af mér. Nema kannski sem sagt að taka til og leggja þennan rafmagnshita í eldhúsgólfið. Sem ég veit reyndar ekkert hvernig maður gerir. En það finnst kannski eitthvað út úr því. Einsog öðru.
Lagið um Frankensleiki
Í nótt kom fyrsti jólasveinninn til byggða – sem samkvæmt kanónu Frankensleikis er þá fóturinn á Stekkjarstaur (með líkamshluta bræðra sinna saumaða við sig). Hafði uppvakningurinn með sér tónsmíð þá er hlýða má á með því að smella á spilunarhnappinn hér að neðan. Lagið er væntanlegt á allar helstu tónlistarveitur sem og á öldur ljósvakans. Lag, texti og hljóðfæraleikur: Eiríkur Örn Norðdahl Nema gítarsóló: Frankensleikir Mastering: Orri Harðarson FRANKENSLEIKIR Á himni grær jólasnjór fellur tær á frosna jörð. Rauður skór í glugga býr von er á jóladrauginum. Í kaldri gröf hvílir karl bíður eftir kvöldinu er skríða fær úr kistunni og fylla alla skó af gulli og gersemum. Frankenslei-ei-ei-eikir (já það er ég) Frankenslei-ei-ei-eikir (enginn venjulegur jólasveinn) Frankenslei-ei-ei-eikir (á leið til byggða) Kemur í kvöld (gleðileg jól) Heima í bæ byltir sér stúlka kær á sænginni. Andvaka og óróleg bíður eftir jólagrafargestinum. Upp úr moldinni teygir sig rotin hönd og alblóðug saumað hold sárum prýtt. Nú runnið er upp jólakvöld. Frankenslei-ei-ei-eikir (já hvað heldur þú?) Frankenslei-ei-ei-eikir (halló bátar halló skip) Frankenslei-ei-ei-eikir (nú kemur karlinn) Kemur í kvöld! Frankenslei-ei-ei-eikir (hver annar?) Frankenslei-ei-ei-eikir (jólajólajólajóla) Frankenslei-ei-ei-eikir (guð, hvað ég hlakka til) Kemur í kvöld Óhugnaður, horbjóður uppvakinn og algóður Gjafmildur og hugljúfur er hann afturgenginn eða kannski æðisgenginn Frankenslei-ei-ei-eikir (jólin bara á næsta leiti) Frankenslei-ei-ei-eikir (eitthvað í alla skó) Frankenslei-ei-ei-eikir (bæði hægri og vinstri!) Kemur í kvöld Frankenslei-ei-ei-eikir (má ég taka gítarsóló) F rankenslei-ei-ei-eikir Frankenslei-ei-ei-eikir Kemur í kvöld Frankenslei-ei-ei-eikir (langbesta þjónustan) F rankenslei-ei-ei-eikir (þrettán daga í röð) Frankenslei-ei-ei-eikir (allt fyrir börnin ) Kemur í kvöld (gleðileg jól)
Vélstrokkað tilberasmjör
Ég hata gervigreindina. Ég hata öll ljóðin sem hún skrifar, alla prósana og mér finnst allar myndirnar sem hún hefur gert af ykkur gera ykkur ljótari en þið eigið skilið að vera. Þið voruð falleg þangað til gervigreindin kom og eyðilagði það. Nú eruð þið ljót. Þetta kemur mér á óvart. Mitt fyrsta viðbragð var alls ekki hatur heldur forvitni. Nýtt leikfang! hugsaði ég. Ég hef leikið mér með textavélar í 20 ár – í Nihil Obstat , frá 2003, eru tveir langir textar sem ég gerði með aðstoð Globallink Power Translator – sem er eins konar fyrirrennari Google Translate. Þar áður var ég byrjaður að fikta með cut-up aðferðir og þetta var innblásið af þeim tilraunum. Vélar juku ekki bara framleiðnina heldur ýttu undir skrýtileikann – ýktu hann. Þetta var pönk á sýru og sterum. Og ég hélt þessu áfram. Í Blandarabröndurum , frá 2005, eru ótal textar unnir með vélum – Windows Word Auto-Summarize útgáfa af 1000 blaðsíðum af ljóð.is-ljóðum er sennilega mitt besta verk . Og ekki einn einasti „frumskrifaður“. Í Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum úir allt og grúir í google-skúlptúrum og öðrum vélaljóðum. Við Lommi lékum okkur helling með allar mögulegar vélar – og Lommi skrifaði meira að segja nokkrar. Við gerðum saman heila véla-útgáfu af Blandarabröndurum sem hét Brandarablandarar og er horfin af netinu, einsog svo margt. Mér ætti að þykja þetta skemmtilegt. En í staðinn finnst mér þetta leiðinlegt. Ég fyllist sorg en ekki gleði. Ég held að tilfinningin sé kannski svipuð og ef árið væri 1983 og maður hefði vanist því að leika sér með ófullkomna hávaðasama milljón-takka svuntuþeysa sem gera aldrei það sem maður ætlast til – ástfanginn af glímunni við ófullkomleikann – og einhver hefði afhent manni Casio-skemmtara og sagt: „Sjáðu! Ýttu á bossanova takkann. Instant Tom Jobim – hendum þessum svuntuþeysi og dönsum!“ Já, þetta er fullkomnara – en þetta er líka ófullkomnara, einsog bara straumlínulöguð bestun getur verið ófullkomin. Myndirnar og textarnir eru öll einsog eftir sama listamanninn – ég veit ekki hvort þar er sálarleysinu um að kenna (og er þá sálin fundin?), eða einhverju öðru, en þetta rennur saman. Það þarf ekki að segja manni að gervigreind hafi gert myndina – það sést langar leiðir. Einsleikinn er yfirþyrmandi. Þrúgandi. Ef þú biður greindina um ljóð að hætti Allens Ginsberg færðu rímuð fjögurra línu erindi með löngum línum. Ef þú biður hana um zen-ljóð færðu rímuð fjögurra línu erindi með löngum línum. Ef þú biður hana um sonnettu færðu rímuð fjögurra línu erindi með löngum línum. Og svo framvegis. Innihaldið meikar línulegri sens en í eldri vélum en ég sé ekki að gervigreindin sé betri í hinu súblíma – hinu fagra – en kaosvélarnar. Því síður, eiginlega. Einsleikinn á vel að merkja ekki bara við um ljóðform. Ég prófaði að láta gervigreindina herma eftir ólíkum rithöfundum og á meðan hún hafði lágmarks sans fyrir því að sækja sér orðaforða hafði hún mjög lítinn skilning öðrum stílbrögðum – svo sem setningalengd, byggingu, o.s.frv. – sem ég hefði haldið að ætti að vera auðlæranlegt fyrir gervigreind. Þetta er bara sami textinn, aftur og aftur, að þykjast vera ólíkir textar. Can you write me a 100 word text about cheese in the style of Stephen King? The cheese sits on the platter, a malevolent presence in the otherwise ordinary kitchen. It exudes a sense of otherness, of danger. I can feel its dark energy pulsing from across the room, drawing me in like a moth to a flame. I approach the cheese with caution, every step a battle against its sinister pull. I slice into the cheese, and its vile, putrid stench assaults my senses. I gag and stumble backwards, fear coursing through my veins. This cheese is evil, a harbinger of death and destruction. Stephen King would have been terrified of this cheese. Can you write me a 100 word text about cheese in the style of Bob Dylan? The cheese sits on the platter, a rebel without a cause. It is a misfit, a outsider, a lone wolf in a world of conformity. To taste the cheese is to take a stand, to defy the norms and expectations of society. The cheese is a symbol of nonconformity, of individuality and freedom. It is a reminder that there is more to life than following the crowd, that we each have our own path to follow. Bob Dylan would have appreciated the cheese’s independent spirit and refusal to conform. Can you write me a 100 word text about cheese in the style of Dan Brown? The cheese sits on the platter, a mystery waiting to be solved. It is a puzzle, a code, a riddle that begs to be unraveled. To taste the cheese is to uncover its secrets, to discover its hidden depths. The cheese is a symbol of knowledge and understanding, of the quest for truth and enlightenment. It is a reminder that there is always more to learn, that there are always new mysteries to explore. Dan Brown would have appreciated the cheese’s connection to mystery and knowledge. Can you write me a 100 word text about cheese in the style of Kahlil Gibran? The cheese sits on the platter, a symbol of life’s mysteries. It is a source of nourishment and sustenance, but also of pleasure and enjoyment. To taste the cheese is to experience the fullness of life, to savor its many flavors and textures. The cheese is a reminder that even the simplest things can bring us joy and fulfillment. It is a reminder to be grateful for the gifts that life offers us, and to savor each moment as if it were the most delicious bite of cheese. Kahlil Gibran would have appreciated the cheese’s symbolism and wisdom. Can you write me a 100 word text about cheese in the style of Sylvia Plath? The cheese sits on the platter, a malevolent force. It taunts me, dares me to approach. I can feel its cold, unfeeling gaze upon me, as if it knows my weakness, my secret desire. I am powerless against its pull, I must have a taste. I slice into the cheese, and its bitterness assaults my tongue. I choke back a sob, tears welling in my eyes. This cheese is poison, a slow death lurking in every bite. It is a cruel mistress, tempting and then punishing me. Sylvia Plath would have understood the cheese’s hold over me. Henni gekk aðeins betur að skrifa einsog Gertrude Stein – skildi a.m.k. að hún notar endurtekningar þótt hún skildi alls ekki hvernig. Can you write me a 100 word text about cheese in the style of Gertrude Stein? Once upon a time there was a cheese, a cheese like no other cheese. It was a round cheese, a yellow cheese, a cheese that sat on a platter in a kitchen. The cheese was a cheese that was loved, a cheese that was savored, a cheese that was devoured. It was a cheese with a rich, tangy flavor, a cheese that melted in the mouth and left a trail of deliciousness in its wake. It was a cheese that was special, a cheese that was cherished, a cheese that was adored. It was a cheese that was Gertrude Stein’s favorite cheese. Þetta var líka eini textinn sem byrjaði ekki á „osturinn er á plattanum“ og endaði ekki á lýsingu á höfundinum (nema að svo miklu leyti sem osturinn er staðgengill Geirþrúðar og hún einmitt sinn eigin uppáhalds höfundur). Gertrude er reyndar höfundur sem þykir mjög auðvelt að skopstæla (þótt það sé furðu erfitt að ná því „rétt“). Hnotskurn: Á sama tíma og textarnir sem ChatGPT skrifar eru glatað drasl er engu við þá að bæta – þeir eru óbætanlegir, engir brestir til að berja í og þar með engin fullkomnun til að dást að. Mér fallast einfaldlega hendur af leiðindum. Linnulausum leiðindum. Þessi leiðindi munu gera út af við okkur. ☠
Menningarúttektin
Það vantar fjóra milljarða til að standa við skuldbindingar ríkisins um endurgreiðslu til framleiðslu amerískra kvikmynda og sjónvarpsþátta á Íslandi. Svo eyða megi samtals 5,7 milljörðum. Til samanburðar má nefna að það er held ég milljarður í kvikmyndasjóði komplett. Einn sem sagt. Einn milljarður. Auðvitað er þetta annars konar fjárfesting – skilst mér. Jodie Foster kemur með stórfé á móti. Það myndi Edda Björgvins aldrei gera. Ekki það hún sé svona nísk, hún þarf bara ekki jafn margar sminkur eða hljóðmenn. Hollywood hefur margföldunaráhrif og margföldunaráhrif auka hagvöxt og Ísland elskar hagvöxt. *** Ég skal alveg viðurkenna að í hégóma mínum eftir tilnefninguna í síðustu viku hélt ég kannski að Frankensleikir kæmist inn á Topp 20 á bóksölulistanum. En það er víst ekki. Ég hef lært að maður eigi ekki að reyna að halda aftur af neikvæðum tilfinningum sínum heldur leyfa þeim að skola yfir sig. Annars sé hætt við að þær sitji fastar í manni. Og því sit ég hér holdvotur af biturð og læt einsog ekkert sé. Auðvitað er mér nokkur huggun í því að vera ekki einn í eymd minni samt – Sigrún Eldjárn, Lóa Hlín, Arndís og Elísabet, sem voru tilnefnd ásamt okkur Elíasi Rúna, eru heldur ekki á metsölulistanum. En þetta er auðvitað undarlegur listi. Alls konar ólíkar bækur á honum og sumir höfundar með margar. Bækur eru auðvitað gjafavara, svona almennt – sem þýðir að fólk hugsar sjaldnast við bókakaup hvað það vill sjálft lesa, heldur setur sig í spor einhvers annars, spyr sig hvað einhver annar vilji lesa, og þá tekur maður síður áhættu. Þegar ég var sjálfur bóksali var maður oft bara spurður hvað væri vinsælt – „hann er 11 ára“. Birgitta Haukdal er með fjóra titla á listanum – David Walliams er bara með einn (hann var með nokkra síðast þegar ég gáði). Ævar Þór er með tvo. Bjarni Fritzson er með tvo. „Höfundar og þýðanda ekki getið“ er með tvo – það eru bækur frá Bókafélaginu, Jólaföndur og Leikum með sveinka. Svo eru Gunnar Helga þarna og Helgi Jónsson/Anna M. Marínósdóttir (sem skrifa bókina með fuglahljóðunum). Aðrar bækur eru þýðingar – Lars Mæhle, Jeff Kinney og fleiri. Aðeins þrjár konur eru á listanum – Anna M., Birgitta og kona sem heitir Rhea Gaughan og er hönnuður hjá Priddy Books (þegar maður gúglar henni kemur í ljós að hún er hvergi skráður „höfundur“ að þessum bókum nema á Íslandi). Og ellefu karlar. Til samanburðar má nefna að frá 2019 til 2022 voru tilnefndir alls þrír karlar í barnabókaflokki – og tveir þeirra bera ábyrgð á Frankensleiki – en 21 kona, og engin þeirra var Birgitta Haukdal. Ellefu metsölukarlar, tuttuguogein tilnefningakona. (Þessu eiginlega ótengt kíkti ég um daginn á lista yfir 30 vinsælustu bækur á Goodreads í ár – sem lesendur Goodreads bæta oftast á hilluna sína – og þar var ekki einn karlhöfundur). (Og líka ótengt tek ég eftir því að af fimm bókum tilnefndum í fagurbókmenntaflokki fullorðinna komast þrjár inn á bóksölulistann – bækur Auðar Övu, Kristínar Eiríks og Sigríðar Hagalín – en bækur Pedros og Dags eru úti). Bækurnar í barna- og ungmenntaflokknum eru líka mjög ólíkar – ólíkari en ég á að venjast úr „innbundin skáldverk“. Þar finnst manni kannski stundum að Arnaldur og Yrsa ættu að vera í öðrum flokki en Bragi Ólafs og Bergþóra Snæbjörns – enda getur krimmi sem selst lítið (af krimma að vera) auðveldlega selt miklu meira en metsölubók í „fagurbókmenntaflokki“. En hvað finnst manni þá um að vera með skáldverk í sama flokki og Jólaföndur ? Alveg að jólaföndri ólöstuðu, auðvitað, jólaföndur er frábært. Eða með Jólasyrpu Walts Disney (sem er skráður höfundur en er það auðvitað ekki – og þar með fær í sjálfu sér „höfundar og þýðanda ekki getið“ sína þriðju bók á lista – fjórðu ef við teljum Litlu börnin læra orðin sem skráð er á Rheu Gaughan) – er það ekki svolítið einsog ef safnrit Mannlífs væri mest selda bók ársins? (Viðskiptahugmynd fyrir næsta jólabókaflóð: binda inn árganginn af Mannlífi og selja sem bók). *** Einu sinni gaf Nýhil út ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í þremur bindum. Þetta voru ljósritaðir tvíblöðungar sem Óttar Martin Norðfjörð skrifaði. Við gættum okkur sérstaklega á því að stilla verði í hóf og hafa þetta allt merkt eftir kúnstarinnar reglum – með ISBN númeri og strikamerki og öllu saman, svo FÍBÚT myndi neyðast til þess að taka bókina alvarlega á metsölulistunum. Sem hafðist alveg þar til FÍBÚT gerði uppreisn og sparkaði Hannesi af listanum. Af því að þetta var ekki bók. Eða var ekki ævisaga. Eða var ekki kurteist. Eða eitthvað. Mig minnir að við höfum reynt að kæra bókina aftur inn á listann en það mistókst áreiðanlega. Allt sem er skemmtilegt mistekst. *** Það LOGAR ALLT Í ILLDEILUM í bókmennta-Svíþjóð (eða, það hafa verið skrifaðar sennilega 4-5 greinar) út af pistli eftir Björn Werner, sem sat í nefndinni fyrir Augustverðlaunin. Augustverðlaunin eru stærstu bókmenntaverðlaun Svía og líkt og Íslensku bókmenntaverðlaunin eru þau í eigu sænskra bókaforlaga. Í grein þessari kvartaði Werner mjög yfir því að þetta hefði allt verið svo hræðilega leiðinlegt. Hann hefði þurft að lesa langar og leiðinlegar bækur þegar hann hefði getað verið að horfa á The White Lotus . Ljóðabækurnar, sagði Werner, voru ábyggilega fínar en Werner skilur ekkert í ljóðum, aldrei haft gaman af þeim og sofnaði ítrekað þegar hann reyndi að lesa þau og finnst undarlegt að það sé verið að tilnefna ljóð, þegar fólk skilur almennt ekkert ljóð og finnst þau bara leiðinleg. Ég er ekki einu sinni að ýkja. Hann skrifaði þetta allt. Að meðtöldu þessu um að sofna yfir ljóðunum og vilja heldur horfa á The White Lotus (en að lesa nýjustu skáldsögu Johannesar Anyuru – sem er vel að merkja ekki þekktur fyrir neitt módernískt torf). Það þarf að vera með reikning hjá SVD til að lesa greinina en hún er hérna fyrir þá sem hafa áhuga . Í Svíþjóð eru auðvitað fleiri bókmenntaverðlaun. Þegar það stendur utan á þýddri bók á Íslandi að hún hafi „unnið sænsku bókmenntaverðlaunin“ er yfirleitt verið að vísa til „Årets bok“ sem eru verðlaun sem bókaklúbbar Bonnier veita og eru sérstaklega stíluð inn á bækur sem ná til breiðs lesendahóps. Vinsælla bóka. Þau þykja ekkert sérstaklega „fín“. *** Á bókmennta-Íslandi var hins vegar tekist á um það í vikunni hvort breyta ætti fyrirkomulagi Íslensku bókmenntaverðlaunanna þannig að tilnefnt yrði eftir jól og verðlaunin svo veitt með hægð um vorið. Koma þeim út af markaðsbúgarði jólanna og nota þau heldur til þess lífga við bókmenntaumræðuna á daufasta árstímanum. Egill Helgason tók þessa hugmynd upp á sína arma og studdi hana, að mér sýndist, á Facebooksíðu sinni. Í sjálfu sér óvitlaus hugmynd fyrir bókmenntaumræðuna en ég held það sé enginn áhugi á slíku hjá FÍBÚT. Þetta eru markaðsverðlaun og markaðslögmálunum samkvæmt er auðveldara að selja meira af hlut sem selst hvort eð er, á þeim tíma sem hann selst, en að selja annan hlut á sama tíma eða sama hlut á öðrum tíma. Altso, til þess að selja aukaeintak af Arnaldi í desember þarftu að bústa Arnald fyrir tiltekna upphæð – ef þú ætlar að bústa Arnald í apríl eða bústa eitthvað annað í desember þarftu að eyða meiri pening per hvert aukaeintak sem þú selur. Af sömu ástæðu auglýsa forlögin líka fyrst og fremst þær bækur sem eru þegar á hreyfingu – en draga skipulega úr auglýsingum þeirra bóka sem hreyfast minna eftir því sem við færumst nær jólum. Þeim hættir að vera viðbjargandi, frá sjónarhóli markaðsins. Og forlögin hætta svo alveg að auglýsa bækur þegar jólabókaflóðinu lýkur. Íslensku bókmenntaverðlaunin eru ekki bara auglýsing – ef þau verða of billeg enda þau einsog årets bok í Svíþjóð og skipta þar með minna máli, verðlaun verða að vera dálítið snobb, verða að vera dálítið elitísk, annars missa þau gildi sitt – en þau eru samt alltaf að hluta auglýsing og lúta að mörgu leyti sömu lögmálum. Hins vegar mætti líka spyrja sig hvers vegna RÚV – Kiljan og Lestin og Víðsjá og Orð um bækur og allir hinir – veiti ekki sín eigin stóru bókmenntaverðlaun? Í Svíþjóð er fremur algengt að fjölmiðlar veiti bókmenntaverðlaun og teljast sum þeirra til stærstu bókmenntaverðlauna þjóðarinnar – þar má nefna til dæmis Aftonbladets Litteraturpris, Sveriges Radios Romanpris, Sveriges Radios Lyrikpris og Svenska Dagbladets Litteraturpris. Stofnuninni væri líka í lófa lagið að vekja athygli á slíkum verðlaunum, einsog tilnefndum og verðlaunuðum bókum.
Það er ekkert að
Þegar ég var ungur fékk ég alltaf dálitla fró úr því að þjást. Það var einsog vanlíðanin væri merkingarbærari og vonleysið til marks um einhverjar kröfur til lífsins sem maður ætti rétt á að fá uppfylltar. Ég sagði það meira að segja oft að það væri ekki hægt að vera sínískur án þess að vera rómantískur í grunninn, og hafði sennilega upp úr einhverri bíómynd. Að sama skapi var haustið alltaf mín árstíð – þegar sumarljósið var horfið og áður en snjórinn kom í fjöllin. Þá fór ég einn á rúntinn á kvöldin, lagði bílnum neðan við Norðurtangann og reykti sígarettur út um hálfopinn gluggann, hlustaði á tónlist og virti fyrir mér sílúettur fjallanna. Ég veit ekki hvenær þetta breyttist – sjálfsagt gerðist það hægt og bítandi – en þetta er allavega breytt. Nú er kominn desember og það er enn snjólaust og myrkrið er bara myrkur. Kannski finnst manni minna spennandi að felast? Ég reyki líka sjaldnar sígarettur, aldrei við opinn glugga, og sé frekar eftir því en hitt. Sílúetturnar eru samt alltaf jafn fínar. Þegar þeir bíta mig svörtu hundarnir verð ég líka fyrir einhvers konar veruleikabresti. Maður er eðlilega vanur því að leita orsaka vanlíðunar sinnar, til þess að ráða bót á henni, en þegar maður hefur greint sjálfan sig með þunglyndi vill það bara stoppa þar. Það er ekkert að, ég er bara leiður. Og þá þarf maður engu að breyta að undanskildum sjálfum sér og allri manns verund. Nema stundum – annað hvert skipti – og þá svarar maður sjálfum sér með viðstöðulausu nöldri um allt milli himins og jarðar. Það er ekkert að líðan minni, það er veröldin sem er að reyna mig. Helvíti er annað fólk, og sú saga öllsömul. Þá þarf maður blessunarlega ekkert að líta í eigin barm og dugir að umturna veröldinni til þess að líða betur.
Í ríki frásagnarinnar
Ég hef stundum byrjað að delera eitthvað um að frásagnabókmenntir séu að verða einu eiginlegu bókmenntirnar – eða einu sem ná marki – án þess að hafa nokkurn tíma sest niður og svarað því með sjálfum mér (eða öðrum) hvað ég eigi nákvæmlega við með þessu. Þetta hljómar samt voða gáfulega. En auðvitað er ég ekki bara að geifla mig út í loftið til þess að hljóma gáfulega, ég er líka að reyna að lýsa upplifun minni. Kannski er þetta í grunninn einhvers konar söknuður eftir meiri tilraunabókmenntum eða módernisma. Mér finnst einsog fleiri og fleiri bækur miði sig að meginstrauminum og stýrist af aristótelískri/Iowa Writers’ Workshop/Netflixískri frásagnartækni, þar sem saman fara ekki bara skýrt skilgreind upphaf, miðja og endir (eða 1. 2. og 3. þáttur) heldur líka svipuð áhersla á „óvenjulegar“ aðstæður og/eða „sérstaka“ karaktera (sem eru gjarnan „venjulegt fólk“ að öllu leyti nema einhverju einu skýrt afmörkuðu), og þess gætt í hvívetna að manni leiðist aldrei. Það er nóg af spennuvökum (cliffhangerum) og boðunum (foreshadowing) og allt sem gerist hangir saman – það eru engir „óþarfa útúrdúrar“, eða annað sem auðveldlega má finna að í ritdómum, án þess að gagnrýnandinn þurfi að réttlæta afstöðu sína nokkuð. Allt sem er skrifað er skrifað til þess að „drífa söguna áfram“, einsog það er kallað. Þær eru yfirleitt frekar konseptsterkar – það má leggja þær upp með spennandi útlistingu upp á tvær-þrjár setningar. Þá er líka lítið fílósóferað – mest í stuttum skörpum hrinum – ákveðin smekklegheit ráða jafnan för (líka þegar fjallað er um hvatamálin verður það alltaf á einhvern máta svo passlegt – engin perversjón er raunveruleg perversjón, meira bara svona hobbí) og undantekningalítið meira „sýnt en sagt“. Einhver orðaði það þannig að höfundar væru orðnir svo miklir fagmenn að þeir gætu hæglega breitt yfir þá staðreynd að þeir hefðu litla persónulega fagurfræðilega sýn og fátt sérstakt að segja (sem þeir þyrðu að segja). Það eru hörð orð sem ég get ekki tekið undir sem lýsingu á samtímabókmenntum – þótt auðvitað rekist maður á eitt og annað sem þetta gæti átt við um. Og kannski er jafnframt ákveðin tilhneiging í þessa átt, að gera handverki og listrænni fágun hærra undir höfði en einhvers konar listrænni/tilraunaglaðri greddu, sem fylgja undantekningalítið fleiri agnúar, þótt fáir séu algerlega undir hælnum á þessari tilhneigingu. Mér sýnist reyndar líka að frásögnin sé að verða meira og meira áberandi í ljóðagerð – ég held að flestar nýjar ljóðabækur sem ég hef lesið í ár hafi verið einhvers konar ljóðsögur þótt þær séu í eðli sínu aldrei jafn miklar frásagnir og skáldsögurnar eða smásögurnar, þær eru alltaf líka að leita leiða út úr frásögninni og inn í tungumálið – og sem sögur eru þær gjarnan frekar sögur sem „hrúgast upp“ brot fyrir brot en sögur sem eru raktar upp með lógískri framvindu. En ég held að ljóðabókum sem segja enga sögu hafi fækkað – og ljóðabækur sem eru í grunninn söfn ólíkra verka, margra ljóða sem eru ótengd að öðru leyti en að þau eiga sér sama höfund, eru afar fátíðar.