Brotnar niður í náttúrunni

Hvernig sem á því stendur njótum við þess að horfa á öðrum farnast illa. Eftir því sem fólk stendur okkur fjær þeim mun meira abstrakt verður harmurinn sem það gengur í gegnum – á endanum er þetta bara einsog að lesa spennandi ævintýri. Og best af öllu er ef þetta er líka fólk sem við höfum horft upp á rísa upp úr meðalmennskuhafinu sem við hin búum í. Íkarusarþórðargleði. Ekki er verra ef við getum talið okkur trú um að við höfum skapað þau en fall þeirra sé sjálfskaparvíti og helst að þau eigi ekki betra skilið (eða að lágmarki að staða þeirra sé forréttindi sem þau eigi ekki tilkall til – les: we made you, we can break you ). Þekktasta dæmið er auðvitað Britney Spears – engum fannst kannski hún eiga skilið að fara í margra ára (semi-)geðrof í beinni útsendingu en þegar það hófst var fólki líka bara alveg sama. Hún var bara einhver poppari, eitthvað óþolandi drasl í útvarpinu, hæfileikalaus forréttindadúkka smíðuð af sálarlausu bransafólki í æfingabúðum fyrir Disneykrakka. Af hverju mátti hún ekki brenna? Það var gaman að horfa á það. Við fengum öll að sjá á henni píkuna – og súpa hveljur eða fá reisn eftir atvikum. Það er nautn í sensasjónalísku ruglinu. En þessi nautn er ekki einföld þórðargleði samt af því henni fylgir líka hneykslunarnautn. Nautnin af því að dæma aðra – því henni fylgir líka óorðuð yfirlýsing um eigin sjálfsmynd. Ég er kannski ekki fullkominn en ég er þó ekki svona . Kanye – sekur! Britney – sýknuð! Fyrir 100 árum voru glæpirnir aðrir en tilfinningin sú sama. Hin dæmandi nautn eins. Í einhverjum skilningi er þetta bara þorsti okkar í dramatískar sögur ofan af Ólympustindi – og auðvitað er meira gaman þegar þær eru sannar. Eða virðast a.m.k. sannar – oftast fáum við bara mjög lítið og afmyndað brot af sannleikanum, sem búið er að sía í gegnum fimmtíu PR-skrifstofur og tvö hundruð æsifréttamiðla áður en við komum að borðinu með dómarahamarinn. Og það skiptir víst engu máli upp á auglýsingatekjurnar hvort maður smellir til að verða miður sín, reiður, graður eða flissandi yfir kjánaskapnum.

Margfaldir metsöluhöfundar

Næst á eftir áhyggjum af hæfilegri stjörnugjöf hafa höfundar áhyggjur af sölu bóka sinna. Það er í sjálfu sér alveg rétt að margt af því sem situr í efstu sætunum gleymist hratt og sumt af því sem nær engri metsölu verður klassík. En það er samt algengara að klassíkin slái í gegn – og ekki bara eftir sinn tíma. Yfirleitt er meira að segja vandræðagangurinn í kringum útgáfu bóka sem sagt er að hafi átt erfitt uppdráttar að miklu leyti skáldskapur sem ætlað er að selja bókina – fyrst og fremst gott markaðstæki. Og ágætt að taka þannig sögum með saltklípu. Hvað um það. Það langar heldur engan að deyja misheppnaður í trausti þess að maður sé einhver Kafkafígúra sem allir elska eftir dauðann (önnur saga eða sagnaminni sem er gott að taka með saltklípu er einmitt sagan af höfundinum sem vill láta brenna öll sín handrit). Það vilja allir höfundar fá marga (góða) lesendur. Ég er óvanur því að fylgjast með barnabókametsölulistum. Ég leit fyrst á listann vikunni eftir að Frankensleikir kom út – þá gægðist hann inn í sjöunda sæti. Vel flestar glænýjar bækur komast inn vikuna sem bókasöfnin næla sér í eintak. Mér fannst þetta svolítið kaotískur listi, man ég, þótt ég muni ekki alveg hvað var á honum – fannst t.d. skrítið að Fagurt galaði fuglinn sá , sem er bók sem kom út 2021, væri enn ofarlega (gott ef hún var ekki hreinlega í fyrsta sæti). Ég veit síðan vel hverjir eru metsöluhöfundar á fullorðinslistanum en ég var ekkert byrjaður að spá í það hver yrðu Arnaldur eða Auður Ava barnabókalistans. Svo hefur tvennt komið í ljós. Í fyrsta lagi að það eru til bæði barnabókalisti og ungmennabókalisti og ég veit ekki hvernig þeir tengjast. Ég veit bara að ungmennabókalistinn er ekki inni á Eymundsson-síðunni , að Strákurinn með ljáinn eftir Ævar Þór er efst á honum (af því ég sá það á FB) – og að það hafa samt birst (held ég alveg áreiðanlega!) ungmennabækur á þessum barnabókalista. Það gæti verið að barnabækur fyrir yngri lesendur seljist bara svona miklu meira en ungmennabækur og þær séu því teknar út fyrir sviga. (Og auðvitað er mjög undarlegt að einhver bendibók með tveimur orðum á síðu sé í sama flokki og 600 blaðsíðna fantasía fyrir unglinga sem sé í sama flokki og mynda- og kennslubók um fugla með fuglahljóðum). Kannski eru svo líka til sundurliðaðir „bækur fyrir 3-5 ára“, „bækur fyrir 5-8 ára“ o.s.frv. listar – en þá ber að hafa í huga að það er ekki endilega alveg ljóst fyrir hvaða aldur bækur eru skrifaðar (Frankensleikir er t.d. best fyrir fimm til þrettán ára en líka bönnuð innan fjórtán). Í öðru lagi áttaði ég mig ekki á því að margir barnabókahöfundar virðast vera með margar bækur á ári. Og geta þar með eðli málsins samkvæmt verið í mörgum sætum með ólíkar bækur. Í dag eru t.d. fimm höfundar á barnabókalistanum – en tíu bækur. Bjarni Fritzson er með tvær, David Walliams með tvær og Birgitta Hauks með þrjár (þar af eina jólabók frá því í fyrra). Þá er Fuglabókin frá því í fyrra alltaf jafn vinsæl. Hvernig sem á því stendur eru síðan bara níu bækur á barnabókalistanum þessa vikuna (Gunnar Helga á níundu). Kannski seldist engin önnur bók í neinu eintaki. Ég er sem sagt enn að reyna að átta mig á þessu.

Hlutverkaleikur

Gærdeginum eyddi ég í viðtal við sjónvarpsfólk frá finnska ríkissjónvarpinu Yle. Þau eru að gera sex þátta þáttaröð um árekstra pólitískra og listrænna sjónarmiða. Sérílagi hvernig aktífismi og list rekast á. Einn þátturinn kemur til með að fjalla um Hans Blæ – leikrit og bók og havarí. Þetta verður sýnt eftir ár – að minnsta kosti í Finnlandi og Noregi og sennilega fleiri löndum. Og þættirnir fjalla líka um mál – skandala, havarí – sem áttu sér stað í ólíkum löndum. Tilfinning mín eftir á – minningin af viðtalinu í gær – er að þetta hafi verið ekki ósvipað því og ég ímynda mér að það sé að fá hægfara heilablóðfall og keyra á vegg samtímis. Kannski er það bara afleiðing af því að fá ekki heimsmyndina sem maður er að reyna að svara til að ganga upp. Að finnast forsendurnar ósanngjarnar en sýna málstaðnum nægan skilning til þess að geta ekki einfaldlega vísað þeim á bug. Að reyna að svara spurningunni: „Af hverju ertu svona mikill fáviti“ með málalengingum um að þetta sé flóknara – sé ekki allt svona beint af augum. Í bland við að mæta í viðtal hræddur við bæði spurningarnar og svörin. Hræddur við skuggann sinn. Hræddur við að gera of lítið úr sumu og of mikið úr öðru – hræddur við að segjast hræddur, hræddur við að segjast sorgmæddur. Að minnsta kosti get ég ekki sagt með hreinni samvisku að þau hafi verið ósanngjörn eða aðgangshörð umfram það sem hlýtur að teljast eðlilegt (þau spurðu t.d. aldrei bókstaflega hvers vegna ég væri svona mikill fáviti). Ég fer í gegnum þetta aftur og aftur hugsa um það hvernig ég sagði fæst af því sem ég hefði átt að segja og að flest sem ég hafi á annað borð komið frá mér hafi verið óskýrt og illa orðað. Og raunar að kannski hefði það heldur aldrei getað verið öðruvísi – ég hefði kannski getað verið skýrari en það er ekki víst það hefði breytt neinu. Ekki fyrir mögulegar viðtökur. Mér finnst einsog þetta handrit sé löngu skrifað. Ég reyni alla jafna að hugsa á hreyfingu – að vera ekki með tilbúin utanbókarlærð svör, helst vil ég aldrei svara sömu spurningunni eins tvisvar í röð, því afstaða manns á að vera plastísk – og því fylgir kaos. Síðan er auðvitað góð og gild ástæða fyrir því að ég valdi mér starfsvettvang þar sem ég get setið einn yfir orðum mínum, íhugað þau og editerað – ég er í fyrsta lagi einfaldlega ekki mjög mælskur og í öðru lagi vil ég starfa í nafni efans, á gráu svæðunum, en ekki á svæði vissunnar. Því fylgir að stundum gref ég viljandi (og óviljandi) undan sjálfum mér. Sérstaklega þegar ég tala. Og ég er áreiðanlega að gera of mikið úr þessu líka. Að minnsta kosti vona ég það. Hvað sem því líður töluðum við saman í tvo klukkutíma og allur þátturinn – með 6-7 viðtölum – er ekki nema hálftími, af honum á ég í mesta lagi fimm mínútur, svo útkoman stýrist 99% af því hvernig þetta verður klippt. Hvað sé álitið aðalatriði og hvað aukaatriði og hvað skemmtiatriði og hvort YLE-fólkið hafi sjálft fengið skilning á afstöðu minni og áhuga á að koma henni til skila. En það er líka hægt að klippa þetta þannig að ég komi út sem alger fáviti. Ég hef ekki um annað að velja en að leggja það í hendurnar á einhverju fólki sem ég þekki ekki neitt. Sennilega er ég líka brenndur af því að hafa farið í Kveiksviðtal síðasta vetur um mjög viðkvæm málefni þar sem „gleymdist“ að segja mér að viðtalið yrði lagt fyrir panel í sjónvarpssal – þar sem þátttakendur gætu ranghvolft augunum í beinni yfir því sem ég hafði sagt og gert lítið úr því í rauntíma. Það fannst mér kvikindislegt – og ekki forsendur sem ég hefði nokkurn tíma samþykkt aðspurður. Það var soldið einsog að láta henda sér fyrir strætó. Ég hugsa oft – og nefndi áreiðanlega í gær – að sennilega hefði verið betra fyrir mig, a.m.k. svona prívat og persónulega, ef ég hefði aldrei gefið þessa bók út. Og aldrei hleypt leikritinu á svið. Og ekki vegna þess að ég álíti bókina ranga eða sprottna af annarlegum hvötum eða gagnslausa fyrir eilífðina heldur vegna þess að (sumir) aðrir geri það – og þá skiptir engu máli hvort þessir aðrir hafi ekki lesið bókina eða séð leikritið (nær allt havaríið um árið átti sér stað áður en verkið fór á svið – og hálfu ári áður en bókin kom út – það var búið að ákveða hvers lags verkið væri með miklum fyrirvara). Mér var fengið hlutverk í þessari narratífu og sennilega skiptir engu hvað ég segi eða geri. Það kemur allt jafn illa út. Hlutverkinu fylgir túlkun. Maður er nefnilega ekki bara sá sem maður heldur að maður sé – maður er líka sá sem aðrir segja að maður sé. Hvað um það. Það eru átta ár frá því Hans Blær birtist fyrst sem aukapersóna í óútgefinni bók og sjö ár frá því ég byrjaði á bókinni þar sem hán er í aðalhlutverki, sex ár frá því það fór að verða leikrit, fjögur ár frá útgáfu og fjögur og hálft ár frá sviðssetningu leikritsins. Þrjú ár frá því bókin fékk dálitla uppreist æru og varð bók vikunnar á Rás 1 – hún hreyfðist meira og fékk meiri eiginlega umfjöllun ári eftir að hún kom út, þótt það hafi aldrei verið mikið. Tvö og hálft frá því hún kom út á Spáni og tvö frá því hún kom út Frakklandi. Ár frá Einlægum Önd – sem er líka einhver tilraun til að hantera þetta. Og ár þangað til þetta viðtal, sem hefur verið yfirvofandi frá því í vor, birtist. Nú er ég endanlega hættur að tjá mig. Næst þegar kallað verður eftir viðmælenda til að verja verkið þarf að tala við einhvern annan. (Það á vel að merkja líka við um spurningar á FB eða í kommentum á þessu bloggi).

Vinnumaur

Þriðjudagsmorgun. Ég sit og geispa. Mér finnst þetta oft undarlegt líf. Að eiga að stýra tíma sínum svona sjálfur. Sinna þessari oft frekar abstrakt vinnu. Í gær svaf ég til dæmis yfir mig. Vaknaði ekki fyrren eftir tíu. Og það var enginn sem skammaði mig. Varla einu sinni neinn sem tók eftir því. Ég þyrfti líklega að sofa mjög rækilega yfir mig alla daga í svona 4-5 ár áður en nokkur tæki eftir því. Nokkur annar en ég, sem sagt. Eftir 4-5 ár færi einhver að spyrja að afköstunum. Þá yrði ég sviptur listamannalaunum og hýddur í kommentakerfunum. En þangað til gæti ég bara setið hér og geispað. Stundum bregð ég mér frá tölvunni og spila tónlist í klukkutíma. Gutla á gítar. Bara í leit að einhverjum innblæstri eða til að drepa tímann – kannski er ég þá bara að bíða eftir því að eirðarleysið verði nóg til að ég skrifi. Að eitthvað kalli á mig. Stundum fer ég í göngutúr. Eða út að hlaupa. Stundum baka ég brauð. Ég er samt ekki bakari. Tek þetta aldrei fram í ritlaunaumsókninni. Þegar ég var enn að stimpla mig inn og fá borgað tímakaup – sem var síðast á Bæjarins besta 2007 – skrifaði ég yfirleitt á kvöldin. Sumar vikur skrifaði ég meira en ég geri núna. En ég vann þá líka átta tíma á héraðsfréttablaðinu og svo átta tíma í viðbót þegar ég kom heim. Átti ekki börn, ekki maka, eldaði sjaldan og umgekkst fólk lítið á virkum dögum. Og hafði meira þrek svona almennt. Sennilega var ég líka gáfaðri. Núna þarf ég að minnsta kosti að hugsa lengur áður en ég kemst að niðurstöðu. Og hún er ekki alltaf mjög gáfuleg. Ég laumaðist líka stundum til þess að skrifa í vinnunni. En aðallega vann ég bara í vinnunni og vann svo þegar ég kom heim og fór svo að sofa. Og svaf reyndar mjög oft yfir mig líka þá. Og var sjaldan skammaður ef það bitnaði ekki mikið á afköstunum.

Skeyti úr stjörnuathugunarstöðinni

Ég var eitthvað að hreykja mér af því að hafa fengið fjögurra stjörnu dóm í bókablaði Stundarinnar þegar vinur minn settist niður og reiknaði út að meðalstjörnugjöfin í bókablaðinu hefði verið 4.125 stjörnur og Frankensleikir því tæknilega séð undir meðallagi góð bók. Þetta fannst mér kvikindislegt. En það stendur samt heima. Það eru fjórir fimm stjörnudómar í blaðinu og fimm fjögurrastjörnu (og tveir þriggja og einn þriggja hálfrar). Fjögurra stjörnu dómur er samt fjögurra stjörnu dómur, segi ég. Það eina sem er meira en fjórar stjörnur eru fimm stjörnur og fimm stjörnur er hugbreytandi meistaraverk. Og hananú. Ég fór samt í kjölfarið að velta því fyrir mér hvort fólk hugsaði almennt um þessa stjörnugjöf sem einhvern fasta – einsog einkunn á krossaprófi – eða sem eitthvað innbyrðis afstætt. Ef maður hugsar um stjörnugjöfina sem fasta byrja allar bækur með fimm stjörnur og fá frádregið fyrir galla. Eða byrja á núlli og hafa möguleika á x mörgum plúsum. Þá er t.d. tæknilega mögulegt að allar bækur fái bara fimm stjörnur – því þær séu allar fimm stjörnubækur. Allar með fullt hús. Ef maður hins vegar hugsar um stjörnugjöf sem afstæða þá gæti ritdómari (eða ritstjóri hóps ritdómara) ákveðið að besta bók ársins eigi að fá fimm stjörnur og sú versta eina (eða hauskúpu!) og allar aðrar bækur eigi að fá eitthvað þar á milli. Þá getur frábær bók tæknilega séð fengið eina stjörnu ef allar hinar bækurnar voru ennþá frábærari. Og hræðileg bók fengið fimm stjörnur ef allar hinar voru verri. Svo er reyndar líka hægt að hugsa um þetta menningarpólitískt og þá getur maður hafa séð að einhver bók sem maður fílaði ekki fékk fjórar stjörnur og viljað að aðrar bækur fái þá meira – af því maður vill breyta landslaginu og hírarkíunni, krýna nýjan konung/drottningu. Ég hef aldrei „þurft“ að gefa stjörnur þótt ég hafi skrifað rýni víða. Ekki það ég muni a.m.k. Sennilega er það mest tilviljun. En fyrir nokkrum árum skráði ég mig inn á Goodreads (sem ég nota reyndar eiginlega ekkert – ég held að kindillinn minn sé enn stilltur þannig að bækur sem ég les á honum fari þar inn, en það er allt og sumt). Og þá settist ég niður og gaf ábyggilega 200 bókum stjörnur á svona hálftíma. Þá miðaði ég ískalt við að það yrði að vera eitthvert innra samræmi. Ég gaf fimm bókum fimm stjörnur. Sæmundareddu, Glæp og refsingu, Tender Buttons, East of Eden og The World According to Garp. Ég hef sennilega verið nýbúinn að lesa þá síðastnefndu og myndi ekki gefa henni fimm stjörnur í dag. Ekki setja hana ofar en fjögurra stjörnu bækurnar Heimsljós, A Clockwork Orange eða Ariel. Ég veit ekki með East of Eden – hún er ein af bókunum mínum, ég fékk hana á heilann rétt eftir tvítugt og hugsaði um hana fram og aftur – las vinnudagbækur Steinbecks og ýmislegt fleira tengt henni – en það er langt síðan ég hef lesið hana og ég held hún sé melódramatísk og kannski ekki „mjög góð“ ef ég miða við fagurfræði mína í dag. En hún og Glæpur og refsing eru líka báðar um hið sama í kjarnann – að þótt maður hafi verið vondur, gert eitthvað vont, þá þurfi maður ekki að vera vondur. Að maður megi ekki skilgreina sig sem vondan eða leyfa öðrum að gera það – því þá gefist maður upp fyrir illskunni í sjálfum sér. Sá sem missi sjónar á því fagra og góða í sjálfum sér sé glataður. Þetta ættu að vera kunnuglegar pælingar – ekki bara fyrir þá sem lesa mínar eigin bækur heldur líka bara þá sem lesa þetta blogg. Þetta eru pælingar sem hafa mótað mig og ég vík mér ekkert undan því. Í Danmörku leystu menn (tímabundið) þennan stjörnuvanda með því að bæta bara við einni stjörnu. Þar er hægt að gefa sex stjörnur. En auðvitað ætti ekki að vera neitt þak – sumar bækur eru virði allra stjarnanna í heiminum. Og sumar geta kannski aldrei fengið nógu fáar. Ég á hins vegar bágt með að taka undir þegar fólk krefst þess (eða biður kurteislega) að stjörnugjöf sé felld niður – hún nefnir leysir annað atriði sem mér þykir mikilvægt, hún krefur gagnrýnandann um afstöðu til gæða bókarinnar. Margir gagnrýnendur vilja nefnilega víkja sér undan þeirri kröfu og segja bara eitthvað mjög almennt – eða láta sér duga að greina. En góður gagnrýnandi gerir allt í senn – lýsir, greinir og metur.

Hýði mannsins

Í dag fylgir bókakálfur með Stundinni. Þar skilst mér að sé jákvæður dómur um Frankensleiki, sem ég hef samt ekki séð. Ég fékk bréf um þetta rétt í þessu. „Til hamingju með góðan dóm“ stóð í bréfinu. „Fjórar stjörnur.“ En áður en bréfið barst – það var bankað hér á skrifstofunni og glaðlegur bréfberi í bláum stuttbuxum færði mér bréfið, sem var eiginlega meira skeyti eða kort – hafði ég ákveðið að skrifa hér eitthvað um tilvist þessa bókakálfs. Eða í raun til þess að segja annars vegar eitthvað um að metnaðurinn gleðji mig og hins vegar að stundum – þegar jólabókaflóðið er að hrökkva í gírinn og allir mótorar að fara á yfirsnúning – sakni ég þess að bókmenntaumfjöllun sé ekki átaksverkefni. Það er ekkert svo langt síðan að maður tók varla upp dagblað þar sem ekki var að finna a.m.k. einn bókadóm. Og auðvitað verður fjarvera þeirra meira áberandi þegar dómarnir fara svo loks að birtast. En auðvitað er þetta gleðiefni á meðan á því stendur. Maður ætti kannski ekki að leita sér að einhverju til að nöldra yfir. Gylfi, nágranni minn, stríddi mér á þessu um daginn. Ég kom gangandi niður Tangagötuna og gat varla horft út úr augum fyrir sólskini – Gylfi hafði verið úti að sporta og stóð sveittur við grindverkið hjá sér – og ég sagði eitthvað um að veðrið væri frábært núna og hefði verið það í allt haust, en ég gæti ekki annað en haft áhyggjur af að þetta myndi alltaf jafnast út í janúarlægðunum. Þær yrðu ábyggilega hálfu verri út af öllu þessu góðviðri. Þetta fannst Gylfa ekki til fyrirmyndar – að bölva því þegar það er óveður að það verði ábyggilega alltaf óveður og bölva því svo í blíðviðrinu að það sé ábyggilega alveg að fara að bresta á með óveðri. Það er reyndar ekki lengur sama blíðan. Sem sannar auðvitað bara að ég hafði rétt fyrir mér. Annars upplifi ég mig voða mikið í lausu lofti í þessu barnajólahryllingsbókaflóði. Ég veit ekkert hvað ég á að vera að gera eða hvort ég á að vera að gera eitthvað. Ég veit ekki einu sinni hvort mig langar að vera að gera neitt. Mig langar hálfpartinn bara að leggjast í hýði. Í híði , meina ég.

Sigur athyglinnar

Ég lauk aldrei við síðasta pistil. Ég held ég hafi ætlað að spyrja hvort maður væri hræddastur einn? Og hvort það væri þá ekki eitthvað fallegt við það – að maður sækti öryggið í aðra, í samfélagið, frekar en einmitt að maður óttaðist fólkið í kringum sig (sem maður gerir áreiðanlega ef maður hefur heimsmynd sína úr fréttatímunum, sem sýna auðvitað undantekningarmynd af samfélaginu en sem margir telja raunsanna). *** En pistill dagsins á auðvitað ekki að fara í að ljúka þriðjudagspistlinum. Sérstaklega ekki vegna þess að ég skrifaði ekki stakt orð í gær (en það var bara vegna þess að ég var on a roll í skáldsögu – það gafst enginn tími). Í dag var ekkert veður til að fara út að hlaupa og þá brá mér ég í líkamsræktarstöðina og hljóp á hlaupabretti í staðinn. Hlaupabretti eru góðir staðir til þess að láta hugann reika – þar er ekki umferð eða fólk með hunda eða krakkar á Hopp-hjólum eða óvænt hálka heldur líður maður bara átakalaust … tja ekki áfram. Maður líður kyrr, einsog í lausu lofti. Og bara hugsar. Í dag fór ég að hugsa um fólkið sem er alltaf að skvetta málningu á málverk til þess að vekja athygli á loftslagshlýnun. Og almennt hvað maður geri til þess vekja athygli á málstað sínum. Mér finnst í sjálfu sér ekkert skrítið að fólk sem trúir heitt á sinn málstað beiti alls konar aðferðum til þess að berjast fyrir honum. Það á alls ekki síður við um málstaði sem ég trúi alls ekkert á – mér finnst til dæmis ekkert skrítið að þeir sem álíta þungunarrof vera barnamorð gangi mjög langt. Ef ég grunaði fólk um skipulagt barnamorð myndi ég vonandi gera allt sem í mínu valdi stæði til þess að stöðva það. Eiginlega þykir mér hitt skrítnara, að til sé fólk sem álítur þungunarrof vera skipulagt barnamorð og gerir ekkert. Að því sögðu er ótrúlegur fábjánaskapur að hafa þannig skoðanir á þungunarrofi – og beinlínis óhugnanlegt að níðast á þeim sem nýta sér slík úrræði. Bara svo það sé sagt. Hvað um það. Mér finnst líka ótrúlegur bjánaskapur að skvetta málningu á málverk til þess að vekja athygli á loftslagshlýnun. Ég trúi á fegurðina og listina og að hafi mannlífið einhvern tilgang þá sé hann að finna í fegurðinni og listinni – já og ástinni – án þeirra má þessi pláneta mín vegna stikna í helvíti. Sá sem gerir listina vísvitandi að óvini sínum gerir mig líka að óvini sínum. En ég hef líka velt því fyrir mér hvers vegna ég upplifi þessa gjörninga öðruvísi en þegar Kodduhópurinn fyllti Floru Islandica – vandað risaprent af Flóru Íslands, með teikningum Eggerts Péturssonar af íslenskum blómum – af matarleifum og kallaði „Fallegustu bók Íslands“. Ég er ekki alveg viss. Kannski vegna þess að niðurstaðan var nýtt listaverk; kannski vegna þess að til voru 499 ósködduð eintök af Floru Islandica. Kannski vegna þess að verkið, Fallegasta bók Íslands, birtist á sýningu í stóru samhengi hrunkrítíkur og með því að hafa listina með voru þau í einhverjum skilningi líka að gefa í skyn að þau sjálf – listamennirnir, listin – væru ekki stikkfrí. Það var punktur með því sem mér fannst meika sens. Gjörningur málverkamálaranna er ekki gagnlegur – ég hef enga trú á að hann afli málstað þeirra neins fylgis, þvert á móti – en það er samt ekki það sem truflar mig. Það er eitthvað annað. Og ekki er það að málverkin séu ónýt – þau eru varin gleri, þetta er árás á listina en hún er táknræn. Svarið sem er gjarnan gefið um þennan gjörning er eitthvað á þá leið að þessi „ómetanlegu“ málverk megi sín lítils gagnvart framtíð alls lífs á jörðinni, sem sé það sem sé í húfi. Og hver ætlar að mótmæla því? Ef til jarðarinnar kæmu geimverur sem hótuðu að sprengja annað hvort upp allt þéttbýli á jörðinni eða Sólblómin eftir Van Gogh þá myndum við leyfa þeim að sprengja upp Sólblómin. Og sennilega myndum við hleypa þeim í Sólblómin jafnvel þótt miklu færri líf væru í húfi. Og er þetta þá ekki bara allt í góðu? Málverkin eru heil, málstaðurinn fékk umræðu, heiminum er bja … eða þið vitið, við höfum allavega eitthvað að tala um næstu vikuna. „Þetta vakti athygli“ einsog þau segja – sem ætti auðvitað að vera slagorð þeirra sem stunda stjórnmál í anda Donalds, þeirra sem stunda listir metsölulistanna, list hins hreina impakts. Sem þetta er – vinstri-trumpismi – og líklega er það bara það sem fer í taugarnar á mér. Þetta er árás sensasjónalísku heimskunnar – ekki bara á listaverkin heldur á vitundir okkar sem látum okkur heiminn varða. Þetta er móðgun við vitsmuni okkar. Kannski var eina niðurstaða gjörningsins þá sú að vekja athygli á því hve einskisnýt listaverk eru – sem þau eru, þau þjóna engum tilgangi, ekki utan þess sem þau gera hverjum og einum, þau eru ekki verkfæri. Lag er bara lag. Ljóð er bara ljóð. Og þar með liggur beint við að rústa þeim bara, ef minnsti séns er á að það bjargi jörðinni. Á hlaupabrettinu velti ég fyrir mér ýmsum öðrum aðferðum sem mætti beita til þess að vekja athygli á loftslagshlýnun, sem gætu náð svipuðum árangri, þ.e.a.s. vakið athygli og umræðu – og verið þess virði ef gengið er út frá því að framtíð alls lífs á jörðinni sé í húfi. Hryðjuverk koma auðvitað fyrst upp í hugann – og var mikið notuð taktík í Evrópu á seinni hluta 20. aldarinnar. Baader Meinhof, ETA, IRA – Unabomber var á svipuðum slóðum. En það hlýtur að vera margt vægara hægt að gera en að sprengja fólk og hús og annað í tætlur. Til dæmis mætti fara inn á bókasöfn og safna saman bókum til að brenna? Er það ekki meira að segja eðlislíkt þessum málverkagjörningum? Langflestar þessara bóka eru til á öðrum bókasöfnum hvort eð er. Gjörningurinn væri táknrænn á sama máta. Bækur eru neysluvara, neysla er vond, og bækur eru þar með vondar og svo margar þeirra alls ekki um loftslagshlýnun – til dæmis mörg leikrit Becketts, ef ég að taka dæmi algerlega af handahófi. Það væri hægt að ryðjast upp á svið á tónleikum og skemma hljóðfærin, hrinda ljóðskáldum sem eru að selja bækur sínar á börum, pissa á glerskápinn sem geymir handritin, setja covid-hor á leikskrár leikhúsanna, fella útvarpsmöstrin og svo framvegis. Svo mætti kannski taka íþróttamenn fyrir líka – skrúfa laus dekkin á reiðhjólum þeirra, grafa felligildrur á gönguskíðabrautunum, setja kláðaduft í sundskýlurnar og skíta í sandinn sem langstökkvararnir lenda í. Kannski mætti líka koma saman og brjótast inn í handavinnustofur grunnskólanna til þess að skvetta málningu á teikningar barna? Hvað eru nokkur grenjandi börn samanborið við framtíð alls lífs á jörðinni? Frábært fréttaefni og þar með frábært fyrir málstaðinn. En svo gæti maður sagt að nei, ekkert af þessu sé sérstaklega góð hugmynd, og það skipti máli þegar maður fremur táknrænan gjörning að maður sé sæmilega táknlæs og velji af kostgæfni hvern og hvað maður skilgreinir sem óvin baráttu sinnar. Það er enginn sigur fólgin í því einu að „vekja athygli“.

Hryllingur

Við Nadja höfum verið að horfa á Guillermo Del Toro’s Cabinet of Curiosities. Eigum nokkra þætti eftir. Þetta eru hryllingssögur héðan og þaðan – mikið byggt á smásögum, bæði gömlum og nýjum. Guillermo stýrir þessu en ólíkir leikstjórar sjá um hvern þátt og fá um það bil klukkustund fyrir sína sögu – og að manni sýnist heilmikið fjármagn. Að minnsta kosti lítur þetta mjög vel út. Eitt hafa allar sögurnar átt sameiginlegt og það er gríðarleg einvera aðalsöguhetju sem ráfar um sögusvið þar sem eitthvað „leynist í myrkrinu“. Sögusviðið hefur verið heimili, geymsluhúsnæði, bráðabirgðakrufningastofa og neðanjarðargöng – og í einu tilfelli var sögusviðið breiðara en þá var aðalsöguhetjan að manni virtist líka sú eina sem sá hryllinginn. Hún var ein um upplifun sína. Í fjórum tilfellum af fimm var aðalsöguhetjan drifin áfram af einhverri synd – tvær af græðgi (sem átti uppruna sinn í fátækt, vel að merkja), ein af hégóma (sem átti uppruna sinn í útskúfun) og ein af hroka. Fimmta persónan er sú eina sem hægt er að segja að hafi „unnið“ sína sögu – þótt ekki hafi endalokin verið beinlínis gleðileg. Þetta er í sjálfu sér kunnuglegt módel fyrir hryllingssögu. Alla jafna hvílir sagan þá a.m.k. í einhvern tíma á möguleikanum að söguhetjan sé að ímynda sér allt hið hryllilega og hinn eiginlegi hryllingur sé þá í því fólgin að söguhetjan hafi misst vitið. Bæði er þá eiginlega jafn hræðilegt og oft ástæðulaust að svara spurningunni um hvort hafi verið raunin. En það kom mér samt á óvart að grunnurinn í jafn mörgum og jafn ólíkum sögum skildi samt vera hinn sami. Kannski er það meðvitað val hjá Del Toro. Kannski er það jafnvel uppleggið. Og kannski eru þessar þrjár sögur sem við eigum eftir að horfa á allt öðruvísi.

Áreitið

Mér finnst nánast sársaukafullt að hugsa til þess að ég hafi eytt allri föstudagsfærslunni í að tala um nagladekk. Ég bið ykkur að fyrirgefa mér. Ég er byrjaður aftur á samfélagsmiðlum og sogaðist inn í eitthvað svona málefnasvarthol. Mér finnst reyndar alveg jafn ljóst núna þegar ég er byrjaður aftur að „fylgjast með“ og þegar ég hætti að „fylgjast með“ um síðustu áramót að þetta skekki mann einhvern veginn – maður fari skyndilega ómeðvitað að eyða miklum tíma í að hugsa um það sama og flestir aðrir, daginn út og daginn inn. Eða í öllu falli það sama og bergmálsklefinn mann kastar í mann. Ekki endilega bara til að vera sammála, líka til að vera ósammála eða einfaldlega til þess að líða illa yfir. Í grunninn er þetta auðvitað bara að tilheyra samfélagi fólks – en samfélagsmiðlar eru bara svo mannmörg kaffistofa, það verður svo óyfirstíganlegt að vinna úr öllu áreitinu. Kannski er ég eitthvað óþarflega viðkvæmur en þegar ég skrolla mig í gegnum vanlíðan og fögnuð til skiptis – einn er beittur óréttlæti, annar á afmæli, þriðji vill steypa ríkisstjórninni, fjórði var að fá góðan dóm, fimmti er hugsi, sjötti póstar þorstagildru, sjöundi kokteil og áttundi líki – á mjög háu tempói þá verð ég á endanum hvefsinn. Einsog það sé viðstöðulaus dissonans í höfðinu á mér – tíu útvörp í gangi öll stillt á sitthvora rásina. Helstu áhrifin sem það hefur út á við er eins konar óþol gagnvart öllu ójafnvægi í kringum mig. Og af því veröldin er limbó jafnvægis og ójafnvægis fer mjög mikill hluti af orku minni í gremjustjórnun – sem getur lýst sér í þegjandahætti og mjög óskýrum hugsunum, og jafnvel að ég tali mér þvert um hug af einhverjum orsökum (ekki bara í einhverju devil’s advocate dæmi – heldur beinlínis bara að ég finni þörf fyrir að sanna réttmæti einhverrar skoðun sem ég hef ekki eða vil hafa). En lýsir sér kannski helst þannig á netinu að ég skrifa status eða komment og eyði því síðan – skrifa og eyði, skrifa og eyði, skrifa og eyði – af því engar samræður virðast þess virði. Þær virðast flestar bara auka á hávaðann. Þetta passívítet og þetta óþol fyrir ójafnvægi er líka líklegt til þess að gera úr manni óþarflega mikinn íhaldsmann. Það og þessi hlutverkaskipan auðvitað – internetið er fullt af yrðingum um hvíta miðaldra gagnkynhneigða sís karlmenn og hvað þeim finnst um lífið og á endanum hlýtur maður að taka það bara til sín. Því ekki fer maður að leiðrétta það. Ég hef samt engan áhuga á að verða íhaldsmaður. Eða að hafa skoðun á nagladekkjum. Bara svo það sé sagt. Í hjarta mér er ég anarkisti á sumardekkjum.

Gangandi vegfarandi undir stýri

Ég keyri mjög lítið. Eiginlega aldrei nema ég sé annað hvort að fara úr bænum eða að flytja eitthvað þungt. Einu sinni silaðist ég um bæinn á hjóli en svo áttaði ég mig á því að með þessu var ég ekki að næla mér í aukahreyfingu – einsog hafði verið raunin þegar ég keypti hjólið í Västerås – heldur að spara mér hreyfingu. Það er tímafrekara að ganga en það er meiri hreyfing. Og hér fer ekki svo mikill tími í þessar samgöngur – eiginlega finnst mér þægilegra að það taki mig a.m.k. þrjár-fjórar mínútur að komast á milli. Ég stekk upp á hjólið ef ég er seinn eða ef ég þarf t.d. að skjótast eftir einsog einu steinseljubúnti í miðri eldamennskunni. Bíllinn, Mitsubishi Outlander PHEV, er á nagladekkjum. Nokian Hakkapeliitta 9. Þetta voru þau dekk sem voru til á landinu og komu best út í prufum. Ég á líka harðkornadekk sem fylgdu með honum (og sumardekk auðvitað). Líklega hefði ég látið þau duga en Nödju leist ekkert á að sénsa með þetta. Ef við byggjum í Reykjavík liti það eðlilega öðruvísi út. En við búum hér og keyrum lítið – þegar allt kemur til alls skiptir það langmestu máli, hvort sem verið er að hugsa um slit á vegum, lýðheilsu eða annað. Að keyra lítið. Mér finnst það sjálfum mjög auðvelt vegna þess að mér finnst leiðinlegt að keyra stuttar vegalengdir. Ég get alveg gírað mig upp í langferðir – þegar við förum saman fjölskyldan styttum við okkur stundir við að búa til playlista og tala saman. Þá keyrir Nadja líka yfirleitt. Þegar ég fer einn vel ég mér einhverja góða hljóðbók. Bestu bækurnar eru svona sex tímar. Kannski rétt tæplega. Þá næ ég að klára þær áður en ég kem inn í borgarumferðina og missi einbeitinguna. En ég nenni ekki að stökkva upp í bíl til að hlusta á hálft samtal (um nagladekk, á Bylgjunni) og 5 auglýsingar (um nagladekk, á Bylgjunni) áður en ég hleyp inn í Bónus og næ svo hálfu samtali (um rafbíla, á Bylgjunni) og 5 auglýsingum (um rafbíla, á Bylgjunni) á leiðinni heim. Reyndar er ég á því að ég fari alltof lítið til nágrannabæjanna. Að ég ætti að fara oftar í sund í Bolungarvík og svona. En það er önnur saga. Ég nota bílinn ekki síst þegar veðrið verður til þess að flug falla niður – og það er þá oft í óskemmtilegu veðri (stundum fellir Iceland Air reyndar niður flug við mjög góðar aðstæður – en það er líka önnur saga). Oftast rýk ég af stað út í veðurmókið vegna þess að ég þarf að ná millilandaflugi. Þá er ég voða þakklátur fyrir naglana. Ónegld harðkornadekk koma vel að merkja ágætlega út í prufum og mörg þeirra koma betur út en mörg nagladekk. Flestir þeirra sem eru á nagladekkjum gætu verið á betri vetrardekkjum sem eru ónegld. En bestu dekkin – þau sem eru best í allar mögulegar vetraraðstæður frá Ísafirði til Reykjavíkur, sköflum, bleytuhálku, slabbi – eru samt nagladekk. En ef ég þyrfti að keyra í Reykjavík meira en 2-3 daga á hverjum vetri myndi ég samt ekki vera á nagladekkjum. Það væri fantaskapur. En mestu munar samt alltaf um að keyra lítið.