Ég ætlaði að taka síðasta AC/DC bloggið í dag en sennilega þarf ég að eyða tímanum í annað. Og kannski skipti ég því líka niður í tvennt. Það þarf annars vegar að afgreiða þessu glæstu endalok – því þau eru endalok, hvað sem hver segir, ef Malcolm rís ekki frá dauðum og Brian fær heyrnina aftur (eða Bon snýr aftur með Malcolm) og Phil verður hleypt úr fangelsinu og Cliff hættir við að vera hættur þá er AC/DC með bara Angusi ekki AC/DC lengur. Hann er augljóslega hin ADHDaða stafnmey þessa skriðþunga ferlíkis – en sveitin er ekki bara hann; hann lifir og tryllist í skjóli festunnar sem sveitin hefur veitt síðustu hálfa öldina. AC/DC er hætt, það á bara eftir að senda út fréttatilkynninguna. *** Viðbót [hér vantaði eitt hins vegar] : Og hins vegar þarf að draga saman ferilinn og ræða hann sem eina heild. *** Snæbjörn, kollegi minn í bloggheimum, fær hótunarbréf þess efnis að hann skuli hætta að mæra Ólaf Jóhann, eða hafa verra af – þar sem nafnlaus höfundur umorðar nokkuð sem ég skrifaði hér um daginn um að grand old men væru alltaf að vígja sér bókmenntaprinsa. Snæbjörn gerir því jafnvel skóna að hér hafi kannski „þekktur rithöfundur“ skrifað undir dulnefni, sem ég tek til mín og þykir eiginlega skot undir beltisstað. *** Ég legg það annars ekki í vana minn að skamma fólk undir dulnefni. Það væri enda fáránlegt, ég er alltaf að skamma fólk og stríða því bara undir mínu eigin vesæla nafni. Ég sé ekki hvað ég myndi græða á því að skrifa einhverju fólki í útlöndum undir dulnefni – og þess utan til að segja því að hætta að hafa gaman af því að lesa Ólaf Jóhann! Einsog það komi mér við. Ég hef ekki einu sinni lesið Ólaf Jóhann. Það er varla að ég hafi spilað Playstation. *** Ég hef reyndar oft haft Snæbjörn grunaðan um að skálda mikið af blogginu sínu. Það gerir það ekki endilega neitt verra. Kannski er það bara vegna þess að ég fæ aldrei nein bréf, sem þetta slær mig oft svona, eða í það minnsta ekki mikið af bréfum frá ókunnugu fólki, nema fólki sem á við mig önnur erindi en t.d. að segja mér hvað ég eigi að lesa. Fólk skammar mig ekki einu sinni fyrir tónlistarsmekkinn, sem ég deili þó ekki nema með litlum hluta vina minna í bókmenntaheiminum – þeirra sem eru líklegastir til að skrifa mér bréf. *** Hann er líka mjög gjarn á að skrifa áþekkar senur – þar sem ónefnt fólk, yfirleitt rithöfundar eða fólk úr bókmenntaheiminum, er bleyður eða dónar eða gerir eitthvað annað sem kveikir áhuga lesendans, eða réttara sagt forvitni hans, stígur rétt svo aðeins út yfir ramma þess sem okkur þykir æskilegur, bara pínkulítið, svo við byrjum að hvískra: Um hvern er Snæbjörn að tala núna? *** Kannski skrifaði ég honum bara í blakkáti. Ég fékk mér einn í gær – sat fram eftir kvöldi og las óútgefin ljóð eftir Fríðu Ísberg (sem er meðal annars þeim kostum búin að kunna að meta AC/DC og spila á SG), drakk einn gamaldags og hlustaði á „classical music for reading“ playlistann á Spotify. Þetta var mjög kósí. En kannski fór þetta úr böndunum og ég endaði rallandi fullur að skrifa níð til Danmerkur. Maður er svo ófyrirsjáanlegur þegar maður er byrjaður að blanda sér í glas. *** Ég er í þeirri öfundsverðu stöðu að vera frekar ósáttur við nýja ríkisstjórn en samt ekki pípandi brjálaður – og finnst eiginlega þeir sem garga beggja vegna línunnar vera jafn mikið á valdi eigin bræði. Þetta var ekkert besta lendingin en úrslit kosninga eru úrslit kosninga og það er glatað að Bjarni Ben skuli alltaf eiga afturkvæmt en það er líka kjósendum hans að kenna. Vinstri velferð, hægri hagstjórn – hann Gylfi vinur minn í Viðreisn er ábyggilega hæstánægður. Ég er hins vegar skíthræddur við hægri hagstjórnir og held þær muni á endanum leiða til þess að þjóðfélagið allt logi, það verði reistar hér fallaxir og gapastokkar á torgum og burgeisarnir ristir upp. Ekki að ég haldi heldur, reyndar, að Samfylkingin eða Viðreisn hefðu komið í veg fyrir það – ég held m.a.s. að Vinstri Grænir séu bara nokkurn veginn á sömu línu og kapítalið með þetta. *** Um daginn hitti ég þingmann sem sagði við mig – a propos ræðuna sem ég flutti á borgarafundinum, um að það væri ofbeldi að breyta heimkynnum fólks í þjóðgarð – að þetta væri áhugaverð líking en að hann vildi búa í þjóðgarði. Ég svaraði þessu engu þá, velti því bara fyrir mér í nokkra daga, hvað þetta þýddi. Er maður þá á móti t.d. þéttingu byggðar? Móti nýjum strætóleiðum? Augljóslega getur fólk búið í þjóðgörðum en það getur ekki gert hvað sem er – margt af því sem mannlífinu fylgir gengur ekki upp í þjóðgörðum. Ef maður býr í litlu bæjarfélagi getur maður heldur ekki jafn auðveldlega skipt því upp í „vinnustaðahverfi“ og „kaffihúsahverfi“ og „íbúðarhverfi“ – þótt slíkar línur séu stundum dregnar – því allt blandast óhjákvæmilega svolítið saman. Mér hefur aldrei þótt það af hinu verra. *** Annars rifjaði ég það upp – og ég talaði víst ekki um þjóðgarð heldur friðland. Ég held að í friðlandi geri maður ekki neitt. Ef maður býr í friðlandi þarf maður að fara í tveggja tíma bátsferð bara til að komast í sjoppu. *** Augljóslega býr maður heldur ekki í friðlandi eða þjóðgarði með mörgum öðrum. Hitt fólkið raskar allt friðlandinu. Skilgreiningin á því er hreinlega að það fái að vera í friði fyrir manninum – að hann búi ekki þar, vegna þeirra augljósu áhrifa sem hann hefur á umhverfi sitt. (Það er vel að merkja ekki þar með sagt að friðlandið sé „náttúrulegt“ eða „ósnortin náttúra“ – margir helstu spekingar í þeim fræðum eru farnir að líta svo á að slíkt sé einfaldlega ekki til lengur, hugtakið sé bull; það sem maður girðir af er manngerður garður, og friðlönd og þjóðgarðar sem ætluð eru túristum eru bara manngerð söfn). *** En jæja. Ég blogga bara um AC/DC á morgun eða eftir helgi, sjáum til, kannski bæði.
Untitled
Ég er ekki viss um að mér hafi nokkurn tíma verið jafn rækilega misboðið, og hef ég þó „lent í ýmsu“, einsog maður segir.
Untitled
Ég stóð mig að því hvern einasta dag í síðustu viku að hefja daginn á því að drekka morgunkaffið mitt og lesa nauðgunarlýsingar dagsins í fréttamiðlum. Þetta var svona morgunhefðin mín, ritúalið, og hún kom til alveg óvart – ég hafði ekki séð það út að þetta væri besta leiðin til þess að starta deginum, það bara gerðist. *** Í morgun var ég byrjaður á þessu þegar ég bakkaði skyndilega – og hugsaði nei, Eiríkur, hvað ertu að gera? Ég lagði frá mér símann – í miðri shellsjokkaðri núvitund – og dró til mín kindilinn. Og þar mætti mér eiginlega alveg … nei, ekki sami harmurinn, en ofbeldisharmur, í The Unwomanly Face of War eftir Aleksevitsj. Ég las 20 síður og fór svo á fætur. Trámatíseraður í klessu. *** Mér var sagt í Frakklandi á dögunum að hún hefði verið áberandi á bókamessunni í Frankfurt nú í haust löngun útgefenda til þess að gefa út „sannar“ harmsögur. Útgefandinn sem sagði mér þetta gat varla á sér heilum tekið, hann (hún) hrækti út undan sér á meðan hann (hún) talaði – einsog hann (hún) væri að boða heimsendi. Það sló mig líka um árið að Frakkar virtust ekki sérlega hrifnir af Aleksevitsj og mörgum fannst alger skandall að hún fengi Nóbelinn og þeir hafa ekkert náð að tromma upp hjá sér áhuga á Knausgaard, sem einhver sagði við mig að virkaði einsog „200 ára gamall uppvakningur“ á Frakka, sem væru löngu búnir með þessi epísku, endalausu sjálfsævisöguleg skrif. *** Ég hugsa oft til bókarinnar Reality Hunger eftir David Shields. Þar sagði hann – fyrir sjö árum – að tími hins skáldaða væri einfaldlega liðinn og nú tæki við sannsaga. Ein af afleiðingum félagsmiðla er auðvitað sú að við erum í viðstöðulausri tengingu við einhvers konar sýndarsálarlíf hvers annars – og það er allt performans, frá kökubakstri til nauðgunarlýsinga til landsleikjaselfía – og ég meina það ekki sínískt ég meina það bara bókstaflega (öll frásögn er performans). En það er líka leit að einhverju sönnu. Og hinu sanna virðist fylgja einhvers konar ölvun – sem veldur samfélagsmiðlafíkninni sem veldur sennilega þránni eftir sannsögunni. *** En á sama tíma liggur fólk auðvitað í skáldskap – t.d. Netflix seríum (sem er alger óþarfi að gera lítið úr, þar eru margar góðar sögur sagðar, Netflix seríur eru ekki sjálfkrafa verri en íslenskar ljóðabækur, einsog mér fannst „ónefnt skáld“ („Dagur ljóðsins II – the revenge of Dagur ljóðsins“) gefa í skyn í viðtali á dögunum, það fer bara eftir seríunni og ljóðabókinni). Og ég las líka viðtal við lækni á BUGL sem sagði að á meðan stúlkur yrðu háðar lækinu og félagsmiðlum yrðu strákar háðir online-leikjum – sem er auðvitað meiri „veruleikaflótti“, meiri „skáldskapur“ og í andstöðu við þá klisju að stelpur vilji skáldskap en strákar non-fiction, stelpur lesi Harry Potter en strákar Útkallsbækur. *** Og hvað þýðir þetta allt saman? Ég veit það ekki. Þarna á milli einhvers staðar er auðvitað „raunsæisskáldskapur“ – sá sem keppir að sannferðugheitum frekar en sannlíkindum, að þetta gæti gerst frekar en þetta hafi gerst . Mér finnst einsog raunsæið sé meira og minna allsráðandi í fagurbókmenntum og við höfum látið geirahöfundum eftir fantastískari hluti. Kannski er það ekki nákvæm tilfinning.
Untitled
Í dag hef ég verið þreyttur, einsog í gær. Ég píndi mig samt út að hlaupa – rauk út á Hnífsdalsveg og ætlaði að hlaupa eftir göngustígnum en þá var ekki búið að ryðja hann og ég var fastur í vegarkantinum. Sennilega hafa bílstjórarnir hugsað mér þegjandi þörfina einsog ég hugsaði snjómokstursyfirvöldum þegjandi þörfina. Ég fór líka með orkídeu til pabba – gróðurhúsbóndans – en annars hef ég mest verið fastur í eldhúsinu, að taka til og ganga frá og þrífa. Gerði nýja gúrkublöndu, eldaði blómkálssúpu úr afgöngum í ísskápnum, hrærði í eitt brauð – og eldaði hádegisverð þarna einhvern tíma í millitíðinni. Mér finnst gaman í eldhúsinu en þetta var helst til mikið gaman í dag og kannski ekki alveg skemmtilegustu verkin heldur (ég er að reyna að koma því að hversu pirraður ég varð af því að vakna síðastur og fá þar með að ganga frá morgunverði hinna fimm heimilismannanna áður en ég gat farið að borða morgunverð sjálfur, að koma því að sem sagt án þess að það hljómi einsog ég sé algert fífl sem nenni aldrei að gera neitt fyrir neinn). *** Nú er ég að drekka Dark ‘n’ Stormy með alvöru Gosling rommi sem ég keypti í stórborginni fyrir sunnan. Ég ætlaði líka að kaupa Peychauds Bitter en stórborgin er greinilega ekki nógu stór fyrir þannig – og því fæ ég víst engan Sazerac í bráð. Annars er orðið til svo mikið af brennivíni í þessu húsi að ég gæti drepið heilt fótboltalið, með varamönnum, þjálfurum, sjúkraliðum, mökum og afkomendum, úr áfengiseitrun. Ef ég lendi einhvern tíma í vandræðum með afborganirnar af húsnæðisláninu sel ég kokteila, ljóðabækur og svitabönd út um eldhúsgluggann – af þessu á ég slíka ógrynni.
Untitled
Á Reykjavíkurflugvelli. – Mamma, sjáðu manninn, hann er alveg einsog pabbi hennar Ainoar.
– Þetta er pabbi hennar Ainoar. *** Það hvarflaði reyndar að mér í augnablik – ég var dálítið rykaður eftir bratta nótt – að þetta væri rétt hjá stúlkunni og rangt hjá móðurinni, ég væri eiginlega meira einsog ég sjálfur en ég væri í raun ég sjálfur. *** Nú er ég kominn heim og þá er viðbúið að ég snúi aftur í þennan draug, þessa eftirlíkingu mína, von bráðar.
Untitled
Ég er ennþá veðurtepptur. Þetta er rosa mikið limbó, að vera in transit, mér finnst ekki vit að gera nokkurn skapaðan hlut af viti. Helst vildi ég bara stara á vegg þar til verður flogið. *** Ég tek mig til á svona tveggja-þriggja mánaða fresti og skoða lesturinn á Starafugli. Smellina, réttara sagt, þótt ég reikni reyndar með að þar sé bærilegt hlutfall á milli – bærilegra en í ýmsum dólgafréttum sem fjalla ekki um það sem þær virðast í fyrstu, til dæmis. Mig langar að fólk lesi hann meira. Finnst efnið eiga það skilið – líka greinarnar sem gera fólk reitt (og fá mestan lestur, reyndar). Venjulegur lestur á grein eða ljóði er á bilinu 100 til 400 lesendur. Stakar færslur geta svo rokið upp. Týpísk „viral“ færsla tífaldar þennan lestur og mest lesna færslan – sem fylgdi frítt niðurhal af nýju lagi Prins Póló – náði um sjö þúsund lesendum. *** Að rýna í þetta er einmitt svolítið einsog að stara á vegg. *** Nær allir lesendur koma af Facebook. Það eru örfáir sem detta inn á Starafuglsforsíðuna og velja sér efni þar. Ef efni er ekki deilt, þá er það ekki lesið – svo einfalt er það. Ef maður vill styðja við Starafugl þá deilir maður, hlekkjar, lækar o.s.frv. Starafuglssíðan á Facebook er einsog aðrar síður þannig að hún birtist ekki jafn gjarna í fréttaveitu annarra og einstaklingssíður. Það munar t.d. nokkuð um lesturinn bara við að ég fari í FB-frí, einsog ég er í núna. Ég deili þá engu á meðan. *** Það munar líka miklu hvort textinn fjallar um íslenska bók eða erlenda. Og hvort höfundarnir – bókar og texta – séu vinsælir og vinsælir á félagsmiðlum. Neikvæður dómur um íslenska bók fær alltaf lestur – honum er deilt því um hann er tekist, það er mjög sjaldan sem neikvæðum dómum er ekkert svarað. Jákvæðir dómar fá læk frá vinum skáldsins en raunar virðast fáir smella á þá og það verður sjaldan nein umræða í kringum þá. Kannski er ástæðan fyrir misræminu milli læka og lesturs fólgin í því að fólk sé búið að lesa „hnotskurnina“ sem menn hnýta við deilinguna – „frábær bók, sannkallað meistaraverk“ – og finnist það ekki þurfa að vita annað en að vini þeirra gengur vel í lífinu. Jákvæðir dómar eru auðvitað átakalausari og ekki jafn forvitnilegir – líka vegna þess að þeir eru miklu, miklu fleiri. Fólk nýtur þess að lesa bækur og nýtur þess að hæla hvert öðru. Fyrr mætti nú vera. *** Þá skilst mér að einhverjir af þeim neikvæðu dómum sem birst hafa á Starafugli hafi valdið sölukippi í bókunum. Neikvæður dómur sem 3.000 manns lesa vekur kannski meiri jákvæða athygli á bók en jákvæður dómur sem 120 manns lesa. Forsendan fyrir þessum sölukipp hlýtur þó að vera sú að lesendur séu almennt ósammála gagnrýnandanum eða fagurfræðilegri afstöðu hans – a.m.k. að nógu margir séu það. Og þeir stökkva þá til og kaupa bókina til að verja sína fagurfræðilegu afstöðu, með grjóthörðu reiðufé og nístandi athyglisgáfu. Einhverjir kaupa sennilega líka af forvitni, einfaldlega til að leggja mat á átökin. *** Rýnin mín, sem birtist í gær, er af versta tagi. Hún fjallar um ljóðskáld sem er útlendingur, gamall asíubúi (frekar en t.d. ungur ameríkani, sem ég ímynda mér að fái meiri athygli). Hún er löng. Hvorki þýðandi né forlag eru með Facebooksíðu og því ekki hægt að tagga neinn þegar Starafugl deilir – en hvorutveggja er búst á lestur – og hvorki við því að búast að þýðandi eða forlag deili sjálft til síns fólks, af sömu sökum. Ég skrifaði hana og ég er í Facebookfríi og deili henni því ekki. *** Annars er það ekki sérstakur mínus að ég skrifi greinar. Ég er mjög ánægður með textann, vandaði mig mjög mikið. En þetta er líka jákvæður dómur, það er aldrei gott. Kannski þetta hefði farið betur ef mér þættu þessi ljóð vera algert helvítis drasl og hefði sakað þýðandann um að hafa gert þetta allt í einhverju fylleríismóki o.s.frv. *** Það var annars gaman á ljóðakvöldinu í gær. Við Lommi völdum lænöppið og því kannski ekki skrítið að við höfum skemmt okkur vel. Ég vona að aðrir hafi líka skemmt sér vel. Ég ákvað sjálfur – í einhverju bríaríi – að lesa upp úr Nihil Obstat og Heimsendapestum, frekar en jólabókinni minni, Óratorreki. 15 og 14 ára bókum. Unglingunum mínum. Það var rosa furðulegt ferðalag í tíma og ég veit ekki hvað mér finnst um það sjálfum. Eitt ljóðið leysist til dæmis upp – hættir að vera ljóð og verður í heila málsgrein eins konar röflkennd málsvörn fyrir eigin fagurfræði. Svo er þetta allt frekar klámfengið. Heimsendapestir er rómantískari, það er meiri ölvun í henni, en Nihil Obstat er svolítið þynnkan og tremminn, svo að segja. *** Ef ég tek þetta einhvern tíma saman í selected works þegar ég er orðinn nógu grand old man (við verðum þannig allir, það eru einhverjir hormónar sem byrja að kikka inn um það leyti sem kyngetan fer að dala) þá ætla ég að skrifa sumt af þessu upp á nýtt. Krukka og skera. Ekki beinlínis til að draga úr kaosinu, heldur bara vegna þess að þetta eru textar sem bjóða upp á það að hreyfast – þeir eru kaos. Ég sé fyrir mér að það gæti líka verið gaman. Í gær las ég t.d. upp eitt ljóð sem ég hélt að væri í Heimsendapestum en ég hafði augljóslega hent. Ég tileinkaði það ónefndum grínista, en ég get sagt ykkur það hér, að hann er rauðhærður og sköllóttur og dálítið feitur og hefur verið í fréttum upp á síðkastið. *** *** Síðast þegar ég las titilljóðið – eða það er bara titilljóð á ská, heitir Nýhil Obstat (Nýhil stendur í veginum vs. Ekkert stendur í veginum) – varð það næstum til þess að karlahópur femínistafélagsins afpantaði upplestur frá mér, á þeirri forsendu að ég væri karlremba (sem er einmitt rætt í ljóðinu, ljóðið fullyrðir að afstaða þess sé ekki kvenfjandsamleg, en ver sig kannski fullharkalega til að maður taki það 100% alvarlega). Þetta var eftir að ég hafði lesið ljóðið upp á Grand Rokk. Ég sagðist vera femínisti, þetta væri alltílagi, og fékk að lesa – upplesturinn var í Skífunni, hljómplötuversluninni, á menningarnótt. Og þá voru færri femínistar og fleiri hljómplötur til sölu, eða, þið vitið, geisladiskar. Hálftómt á upplestrinum, að mig minnir. *** Svo vildi til að ég las svo aftur í svona rakarastofu í dag. Ég var rekinn á fætur fyrir allar aldir til þess að mæta á fund sem haldinn var af Kvennaathvarfinu fyrir karla, í tilefni af 35 ára afmæli stofnunarinnar. Ég vissi satt best að segja ekki hvað þetta þýddi. Fyrir karla. Hvort þetta væri stuðningshópur karla, hvort þetta væru karlar sem hefðu orðið fyrir ofbeldi sjálfir, hópur gerenda í bata – ekkert, opið öllum eða hvað, nema að þetta væru karlar á vegum Kvennaathvarfsins, og hinn ágæti Árni Matt væri að skipuleggja þetta. Þegar ég kom á staðinn skýrðist þetta allt fljótt. *** Ég veit í sjálfu sér ekki hvernig mönnum var boðið eða hverjir voru valdir en þarna voru fyrst og fremst samankomnir einhvers konar menn með völd. Ráðherrar, þingmenn, háttsettir embættismenn o.s.frv. og fundurinn var haldinn til þess að ræða kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi út frá forsendum karla – hvernig mætti stuðla að því að karlar beittu minna ofbeldi (meðal annars með því að forða þeim sjálfum frá ofbeldi og hjálpa þeim að vinna úr því ofbeldi sem þeir verða fyrir, var á mönnum að heyra). *** Þarna las ég ekki úr Nihil Obstat. Heldur Ljóð um dóttur mína – einsog Árni hafði beðið mig um – úr Óratorreki. Í því ljóði er reyndar líka einhver subbuskapur, ég skil hann víst aldrei alveg við mig, þetta er áreiðanlega einhver bölvun.
Untitled
Ég er veðurtepptur í Reykjavíkurborg og gisti hjá Hauki vini mínum – í því sem brátt verður einhvers konar AirBnB paradís. Í kvöld les ég upp á Bar Ananas með fjölda góðs fólks. Þið mætið öll þangað. Á Starafugli er ritdómur eftir mig um ljóð Ko Un í þýðingu Gyrðis Elíassonar. Þið lesið það bara, ég er ekkert að hafa þetta lengra í dag, það myndi bara enda með ósköpum.
Untitled
Ég skrifaði pólitíska færslu um millistéttina og hætti svo við að birta hana. Svo datt mér í hug að skrifa eitthvað örstutt um allar mest lesnu fréttirnar á Vísi (ísfirska klámstjarnan sem ég kenndi einu sinni er þar efstur á blaði, víetnamski kokkurinn sem fær ekki að búa á landinu næstur, svo Davíð, Styrmir, Arna Ýr, hún þarna Snapchatdrottningin, og Weinstein, Spacey og Morrissey reka lestina, ekkert um jökulinn eða stjórnarmyndunarviðræður eða Zimbabve eða Mugabe eða Norður Kóreu eða Trump og fílabeinið) en ég nennti því ekki heldur. *** Ég verð sennilega veðurtepptur í fyrramálið. Fastur í Reykjavík og þá tekur því ekki að fara heldur með seinni vélinni, jafnvel þótt hún næðist, því ég á pantað flug aftur til Reykjavíkur á miðvikudagsmorgun. Svona er þetta. Ég er búinn að gera ráðstafanir til að láta þetta allt ganga upp. *** Ég átti annars ljóð á Starafugli í síðustu viku. Það er birt af tilefni ljóðakvölds sem verður á Bar Ananas á miðvikudagskvöldið. Kvöldið heitir Bláa Hawaii en ljóðið mitt, sem er úr Nihil Obstat og birtist með hljóðupptöku, þar sem ég leik tónlist og hvaðeina, heitir Ástir og ananas (en það var einmitt rúvþýðingin á titli kvikmyndarinnar Blue Hawaii með Elvis Presley). Þið finnið þetta hér . Starafugl birtir eitt ljóð eftir alla sem lesa upp á kvöldinu fram að upplestri. *** Ég lauk við Hnotskurn og byrjaði á The Unwomanly Face of War eftir nóbelsverðlaunatrúbadorinn Svetlönu Aleksevitsj. Sú bók heitir á sænsku Kriget har inget kvinnligt ansikte. Stríðið á sér enga kvenlega ásjónu – sem er ekki sama og Ókvenleg ásjóna stríðsins, þótt túlka megi bæði eins, þá halla þeir hvor í sína áttina. *** Titillinn sem sagt. Í senn má segja að hann tjái að hlið kvenna í stríðinu – seinni heimsstyrjöldinni – hafi ekki verið sögð og því skorti þessa ásjónu, þessa representasjón, einsog Aleksevitsj reyndar ítrekar í formála, en líka þannig að stríðið sé alls ekki kvenlegt, einsog er líka sums staðar gefið í skyn, og jafnvel – sem er áreiðanlega ekki meiningin – að stríðið sé enginn staður fyrir konur (af því þær séu minnimáttar). Reyndar verður manni ekki síst ljóst af lestrinum að þvert ofan í það sem Aleksevitsj segir sjálf í formálanum, þá er stríð kvenna alls ekki ósvipað stríði karla – a.m.k. ekki einsog það birtist í bókmenntum – og einkennist í senn af því hversu þungbært það er að drepa annað fólk og því hversu auðveldlega það kemst upp í vana. Og það er áhugavert að í frásögnum karlanna – sem hafa vissulega haft orðið – skáldsögum og ævisögum þeirra, er stríðinu jafnan lýst sem ómennsku, en ef maður tekur Aleksevitsj á orðinu þá er það ekki ómennskt heldur karllægt. Þetta er sennilega eitthvað hírarkíuspursmál. *** En þá er ágætt að minna sig á að bókin er skrifuð 1987, í Belarús, og sagan af stríðinu var allt önnur handan járntjaldsins. Þetta sjónarhorn – með drullunni og skítnum – er sennilega sjaldséðara þar en til dæmis í Finnlandi, þar sem sú frásögn hefur viðgengist og verið endurtekin ad nauseam/gloriam a.m.k. frá því Vaino Linna gaf út Óþekkta hermanninn 1954. Í austantjaldslöndunum var sennilega meiri dýrð yfir stríðinu. *** Þá er líka áhugavert að Alexevitsj gerir því fyrst skóna að það hafi ekki verið hlustað á konur vegna þess að þær hafi ekki sagt „réttu“ söguna af stríðinu – og svo fer hún strax sjálf að tala um að konurnar sem hún talaði við hafi margar hverjar verið ósáttar við bókina, því Aleksevitsj hafi verið að leita að öðrum sögum en þær vildu segja, stýrt verkefninu þannig að saga þeirra skældist – þeim fannst of lítil dýrð og of mikil drulla. Aleksevitsj lætur þetta sér í jafn léttu rúmi liggja og körlunum sem hún hafði rétt lokið við að lýsa – nema að hún kemur gagnrýninni í orð í formálanum. Því auðvitað er hún ekki bara spegill – hún er rithöfundur, listamaður, og hún hefur einhvers konar agenda, sem hún orðar meira að segja, að í stað þess að leita að stóru narratífu stríðsins sé hún að leita að litlu narratífu tilfinninganna. *** Og svo skortir reyndar ekki – a.m.k. ekki enn, ég er búinn með fjórðung – ekkert á stríðsdýrðina, þótt svo sé látið í formála. Þarna er fólk að kasta sér svo til óvopnað á skriðdreka nasista og fleygja sér á sprengjur til að bjarga félögum sínum og skrá sig í herinn af fullkominni og jafnvel yfirgengilegri ástríðu – og einhverjar hreinlega fyrir ástina, til þess að geta elt kærastann í opinn dauðan. Það er mikið drama þarna og kunnuglegt, og móðurlandsástin ristir djúpt í þessum óttalausu ungmennum. *** Ég veit ekki alveg hvort þetta er að gera mikið fyrir mig samt. Sagði hann kaldranalegur. Sem bókmenntir meina ég, hélt hann áfram þegar hann var farinn að fyrirverða sig fyrir kaldranaleikann. Þessi collagetækni finnst mér oft góð og ég er mikið gefinn fyrir Reznikoff, Heimrad Bäcker, NourbeSe Philips, Kenneth Goldsmith og fleiri sem nýta sér trámatískar frásagnir annarra til þess að gera úr þeim bókmenntir. Kannski finnst mér bara vanta meira samhengi – eitthvað kraftmeira. Kannski meiri úrvinnslu – betra samhengi, frekar en að hún spyrji bara spurninga og svo komi 12 svör hvert á fætur öðru. Kannski er hún sjálf og nærvera hennar að þvælast fyrir mér. Kannski eru nóbelsverðlaunin að þvælast fyrir mér – eru þetta nóbelsverðlauna viðtöl? Og hvað þýðir það eiginlega? Líklega er ég að ofhugsa þetta allt – Nadja las bókina um daginn og hún sáði einhverjum efasemdarfræjum hjá mér, sem ég er að vinna úr. Þrír-fjórðu eftir og svo ýmislegt fleira í höfundarverkinu. Ef Nadja hefði ekki keypt þessa fyrir bókaklúbbinn sinn hefði ég sennilega byrjað á Secondhand Time eða Tsjernóbilbókinni.
Untitled
Ég gisti í svítunni á Holiday Inn í Toulon en þarf að fljúga svo snemma frá Marseille í fyrramálið að ég var fluttur í einhverja skúringageymslu alveg við flugvöllinn í nótt. Mér finnst einsog ég hafi lækkað í virði, ég hafi jafnvel verið svívirtur, og nú sé ég – óskabarnið – ætt minni allri til skammar. Ég hefði getað haft stíl, hefði getað verið kempa. Ég hefði getað verið einhver . Í staðinn fyrir að vera núll og nix. Sem ég er. *** Mér lá svo á að lesa jólabókaflóðið í ár að ég byrjaði óvart á jólabókaflóðinu 2018 og veit hvaða bók verður besta bók flóðsins – hugsanlega sannasta og brjálæðislegasta skáldsaga næsta áratugs. Það er allavega langt síðan ég las aðra eins bók. Hún er eftir vin minn og þið eigið áreiðanlega ekki eftir að taka neitt mark á mér fyrren þið lesið bókina sjálf. *** Ég er samt ekki búinn að lesa margt í flóðinu í ár. Er núna að lesa Hnotskurn eftir Ian McEwan. Hún er fín – fjarskaplega fyndin, afska skemmtileg. *** Annars er merkileg þessi tilhneiging (sem ég sýni hér að ofan) hjá bókmenntafólki (sem finnur til sín) til þess að vilja vígja aðra höfunda til riddara. Það fer svolítið fyrir þessu á blogginu núorðið og auðvitað krökkt af þessu á Facebook. Í sjálfu sér er þetta í senn fallegt og einlægt og ærlegt og einhvern veginn alger kollegaskjallsskítafýla – og í verstu tilfellunum finnst manni einsog höfundur vilji með því setja sig yfir náunga sinn. Ég man eftir svona loksins, loksins umfjöllunum ráðsettra skálda um önnur ráðsett skáld , sem voru löngu fram komin og búin að vinna til allra mögulegra verðlauna, og ekkert augljósara að annar ætti að vígja hinn frekar en öfugt. Þá fannst mér einsog skjallarinn væri fyrst og fremst að segja að hann væri kóngur en hinn væri mjög efnilegt peð, gæti sennilega orðið riddari, ef hann héldi áfram að skrifa einsog kónginum sæmdi. *** Því þið vitið, ef ég fer að skjalla einhvern einsog hann sé the great new hope íslenskra bókmennta, þá er ég ekki bara að vígja hann eða hana til riddara heldur sjálfan mig til grand old man of letters (ég myndi sennilega sletta minna ef ég vildi að fólk tæki mig alvarlega samt). *** En þessi bók (sem ég held leyndu hver er) er samt alveg stórfengleg. Ég tók andköf og hún snýst í hringi í höfðinu á mér og ölvar mig. Oss er frelsari fæddur, hann er minn einkasonur o.s.frv. og ef þið krossfestið hann er mér að mæta og það er samt bannað að elska hann meira en mig. Þið skuluð bara einn guð tigna, en verið góð við frelsarann, og ekki gleyma því að hann er þarna í mínu nafni, snilld hans á að varpa góðu ljósi á mig. *** Í öðrum leynifréttum þá byggði ég gróðurhús á síðustu helgi með systkinum mínum. Pabbi minn, Hrafn M. Norðdahl, sjómaður, rækjuverkamaður, kjötverkunardroppát (sagaði af sér fingur), verkstjóri og timburlangari, varð sjötugur nú á föstudag. Hann hélt upp á afmælið í Riga í Lettlandi með mömmu. Gróðurhúsið er afmælisgjöfin hans frá fimm af sex systkinum (það sjötta fór út með honum til Riga) og mömmu. Við þrjú sem erum fyrir vestan byggðum það síðan. Hann fékk myndband af byggingarstarfinu í gær og kemur heim og sér húsið á morgun. Mér skilst að hann sé mjög ánægður með þetta. Hann er með hænur í garðinum, svo þetta er viðbót í búskap sem var þarna fyrir. *** Þetta var soldið moj. Við reistum það á gömlu kartöflubeði sem var eiginlega bara orðið að drullubing. Nóvember er auðvitað ekki alveg skemmtilegasti tími ársins til þess að vera að reisa gróðurhús – en við vorum bærilega heppin með veður samt, miðað við árstíma. Það var lítið frost í jörðu þótt það væri snjór, en Eyri við Skutulsfjörð er alræmt grjótbeð, svo það var ekki alveg þrautalaust að grafa fyrir grunninum fyrir það. Svo var auðvitað skíthelvíti kalt – ég var í þremur lopasokkum hverjum yfir öðrum og þykkum vetrarklossum og samt loppinn á tánum eftir báða dagana, sérstaklega þann fyrri af aðaldögunum. Við fórum fjóra daga í röð en gerðum mest fyrstu tvo – meðan það var helgi – hina dagana vorum við bara að fínísera í kring, leggja rafmagn og svona. *** Það blés reyndar hressilega aðfararnótt sunnudagsins – nógu hressilega til að hrekja litla bróður fram úr. Hann mætti um miðja nótt til að gæta að húsinu – hvort það kæmist nokkurs staðar gustur inn, sem gæti feykt því á loft. En það var auðvitað alltílagi. *** Svo tókst mér líka að eyðileggja tvö pör af hönskum – fáránlegt rugl af mér að fara með þá fyrri, sem ég fékk að gjöf á feðradaginn í fyrra (í ár fékk ég bjór og vodka – það var víst Aino sem stakk upp á þessu). Hinir voru bara svo eitthvað drasl úr Nettó en maður á samt að fara vel með drasl líka – þótt ekki væri nema bara af umhverfisástæðum. Ég hefði keypt mér almennilega vinnuvettlinga – svoleiðis kemur sér oft vel – en það var bara lokað í Húsasmiðjunni. ***
Untitled
Það er byrjað að kvarnast úr VG og ekki einu sinni búið að mynda stjórnina. Það boðar ekki gott fyrir framhaldið. Ef Kata kemur ekki beinlínis með massífa þjóðnýtingu, úrsögn úr NATO, fimm ára plan um móttöku 40 þúsund flóttamanna og höfuðið á Harvey Weinstein – stjaksett á fána lýðveldisins – er þessu sennilega bara sjálfhætt. Það er ofbeldi að mynda ríkisstjórn í trássi við vilja meirihluta kjósenda sinna – og þá skiptir engu hversu mikla „ábyrgð“ mann langar að axla. Maður hefur ekkert helvítis umboð til þess. *** Ég er ekki í flokknum og kaus hann ekki – og finnst ég hafa sloppið bærilega. Kaus hann fyrir ári. Ég hafna allri ábyrgð á þessu þrátt fyrir sósíalískar kenndir og þrátt fyrir að ég styðji flokkinn í anda. *** Er kominn tími til að vekja rassinn? Frétt með þessum titli vakti athygli mína. Ég smellti á hana, hugsaði að miðilllinn hefði gott af auglýsingatekjunum, sennilega eru menn eitthvað farnir að örvænta. Fréttin stóðst auðvitað engan veginn væntingar mínar. *** Dagur Hjartar veitir Vigdísi Gríms og Gunnari Helgasyni verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þetta heitir á sænsku að vera „lillgammal“. Ljóðabókin hans er annars að gera allt vitlaust, fær fimm stjörnur úti um allt. Eða í versta falli fjórar og hálfa. Ég man ekki hver fékk hana fyrir Starafugl en hún var komin út og von á dómi. Verst að við gefum engar stjörnur. En svona jákvæðir dómar hafa sem sagt ekki sést síðan mogginn birti minningargreinarnar um Sigfús Daðason. Bókin hlýtur að vera til í fríhöfninni. *** Annar skil ég ekki hvers vegna forlögin eru ekki duglegri í að reyna að mýkja mig upp og hreinlega gefa mér bækur. Það er ekki nóg með að ég ritstýri Starafugli heldur á ég fallegasta ljóðabókasafn landsins og safna ljóðabókum. Ljóðin eiga heima hjá mér. Og ég er ótrúlega grimmur og langrækinn við þá sem sleikja mig ekki upp, það verður bara að segjast. *** Hitti Steinar í kaffi. Hann sagði að lífsháskinn væri miðja einhverrar 20. aldar fagurfræði og við værum dauðir gamlir höfundar sem skildum ekkert lengur – gætum allt eins sest í helgan stein, strax og Rúblan verður seld (svo fjölga megi lundum og fækka bókum). Nei, hann sagði þetta ekki, en hann fór ansi nærri því. *** Rákumst á Ástu Fanneyju líka. Hún var með mann upp á arminn og sagðist þurfa að læra sænsku. Helst á þriðjudaginn. Það vantar ekki í hana lífsháskann. *** Nú er ég kominn til Keflavíkur. Sef á flugvallarhóteli í nótt. Ég er svo þreyttur að ég vona að hún komi fljótt.