Í morgun sá ég því haldið fram – um gamla nóvellu – að í henni væri ekki einu orði ofaukið. Hún væri fullkomin. Og af því ég er með mótþróaárátturöskun – ógreindur, erum við það ekki flest? – langaði mig strax að fara upp í hillu (ég á eintak) og finna í henni að minnsta kosti eitt orð sem væri óþarfi. Ég yrði hissa ef ég fyndi ekki strax á fyrstu síðu setningu sem mætti stytta um eitt orð eða fleiri án þess að breyta merkingu hennar til hins verra. En sennilega meinar þetta enginn bókstaflega. Líklega meinar fólk oftast: í þessari bók er ekki bruðlað með orð. Eða eitthvað í þá áttina. Og er áreiðanlega arfleið frá þeim tíma er við höfðum minni tíma – eða lásum meira af vaðli. Í dag eru langflestir textar sem maður les á bilinu 20-100 orð. Statusar og þannig. Og flest sem er 200-600 orð skimar maður bara. Fréttagreinar. Blogg. (Til upplýsingar er ég kominn í rétt rúmlega 150 orð núna). Það sem er komið yfir 600 orð þarf maður að ákveða að lesa – ætla ég, eða ætla ég ekki, að gefa mér tíma til að lesa þetta? (Til upplýsingar: Það tekur um 2-3 mínútur að lesa 600 orð í hljóði en um 4 mínútur að lesa þau upphátt – segjum 30 sekúndur að skima). Allt yfir 1.000 orðum – sem tekur um 7 mínútur að lesa – telst vera „a long read“. Allt yfir 20 þúsund orðum er orðið efni í stutta bók. 60 þúsund orð er meðallöng bók. 100 þúsund orð er löng bók. Nóvellan sem ég nefndi – eða nefndi réttara sagt ekki – hér áðan er ekki nema 14.466 orð. Og engu þeirra þykir ofaukið. Stundum er sagt um leiðinlegar bækur að þær hafi verið 100 blaðsíðum of langar. En auðvitað er það fyrst og fremst ljóður á leiðinlegum bókum. Eða aðfinnsla fólks sem leiðist einfaldlega að lesa. Sem segir manni að í raun sé það alls ekki lengdin heldur leiðinleikinn sem sé ámælisverður. Og hefði ekki endilega gert þessum 100 blaðsíðum of löngu bókum neitt gott að vera 100 síðum styttri. Eini kosturinn hefði verið að þær hefðu klárast fyrr. Sem eru ekki nein meðmæli með hinum síðunum. Það gætir líka ákveðins misskilning gagnvart orðafjölda. Eða þyngd orða réttara sagt. Flestu fólki finnst ekki þægilegt að lesa fá orð með mikilli merkingu. Þannig texti er stundum kallaður torf og torf getur þjónað ákveðnum tilgangi – það getur ekki allt verið léttmeti. Og maður les þannig texta ekki hraðar. Það tekur bara tiltekinn tíma að melta tiltekna merkingu. Þetta er svolítið spurning um þéttni í texta. Til þess að texti sé leikandi – að ég tali nú ekki um léttleikandi, tindilfættur og valhoppandi – þarf að vera rými í honum. Rétt einsog í tónlist, þar sem þagnirnar milli nótnanna eru líka tónlist. Í ritlist eru þetta ekki bilin milli orða (sem þjóna öðrum tilgangi) heldur merkingarminni orð og setningar, stuttir og langir útúrdúrar sem skapa rými, skapa loft, svo hugsunin fljóti vandræðalítið um. Það eru til verk sem hafa mjög háa þéttni – eru intens, jafnvel í langan tíma, fleiri hundruð síður, þar sem það þjónar hlutverki og er fallegt. En þau eru líka mónótónísk frekar en dýnamísk. Og höfundar sem beita (dómgreindar- og tilgangslaust) sama intensíteti þegar þeir lýsa litlu og stóru eru yfirleitt bara eitthvað að misskilja – þeir eru að leika „rithöfunda“ sem eru að skrifa „bókmenntir“ frekar en að vera rithöfundar og skrifa bókmenntir. Sá sem heldur að allar setningar í skáldsögu eigi að komast í „Perlur málsins“ veit ekki hvað skáldsaga er eða hvernig hún virkar. Ég segi ekki að það að skrifa texta þar sem engu er ofaukið sé sambærilegt við að skrifa tónverk með engum þögnum en það kallar óneitanlega fram svipuð hugrenningartengsl. En ef við gefum okkur að það sé líka verið að meina að þagnirnar séu allar á réttum stöðum – merkingarléttustu orðin og setningarnar – þá situr samt eftir hugmyndin um listaverk sem eitthvað sem er fullkomið á einn máta en alls ekki með neinu fráviki. Sem er fáránleg. Kannski væri Appetite for Destruction bara enn betri með einu aukalagi. Og kannski hefðum við aldrei saknað Rocket Queen ef við vissum ekki að það gæti verið til. Það sem er fullkomið er nefnilega fullkomið í eðli sínu – og stundum er eðli þess að vera 100 síðum of langt (eða of stutt) eða með „ofauknum“ orðum á stangli eða auka útlimum og nærsýnt og stundum er fullkomnið eðli þess fólgið í því að vera á einhvern ótrúlega sérstakan hátt meingallað.
Author: Eiríkur Örn Norðdahl
Óreglulegar forsetningar
Ég get ekki ákveðið hvern ég vil kjósa. Ég er búinn að horfa á kappræðurnar á RÚV og lesa fullt af viðtölum en mér finnst bara ekki neitt af þessu sannfærandi. Það er enginn sem kallar á mig með einlægni sinni og lífsþrótti – þetta virkar allt eitthvað æft og leikið. Ekki síst handahreyfingar Höllu Hrundar og talandi Steinunnar Ólínu (af hverju hljómar hún einsog ítalskur fréttaþulur frá því fyrir seinna stríð). Jú – Jón er einlægur en hann virkar líka bara þreyttur. Enda vinnur hann víst 12 tíma vinnudag áður en hann byrjar á forsetaframboðinu. Viktor er einlægur en stífur og forsetaembættið er bara ekki jafn ferkantað og hann leggur upp með. Katrín er hæfust í þessum faglega skilningi en með mestan farangur. Halla Hrund og Baldur eru jöfn í að vera næsthæfust í sama skilningi en þau ná mér bara ekki – kannski bara vegna þess að ég trúi eiginlega ekki á því að þetta snúist um faglegt hæfi heldur einhvers konar töts (og líklega er það þess vegna sem ég er hallastur undir listamanninn Gnarr, ef hann fengi bara einhvern svefn!). Mér finnst þau öll þrjú – faglega fólkið – líka bara vera of dipló. Of kurteis. Of þjóðleg. Of miklar lopapeysur. Kindaknúsarar. Sennilega er það sameiningartáknsveikin. Ég sakna Elísabetar Jökulsdóttur. Það ætti eiginlega alltaf að hafa hana með í öllum kappræðum. Hún sér til þess að hlutirnir verði ekki of ruglaðir. Hún jarðtengir geimverurnar og dregur það mannlegasta fram í öðrum. Í Heimildinni fá frambjóðendur nokkrar „léttar spurningar“ þar sem þau eru meðal annars spurð hvað þau séu að lesa (eða hafi lesið síðast) – ég dæmi fólk (hart!) af slíkum upplýsingum – og þar kemur fram að af tólf frambjóðendum er einungis tveir eru með íslenskt skáldverk á náttborðinu. Alls voru fjórtán bækur nefndar: Halla T: The Anxious Generation – Jonathan Haidt Eiríkur Ingi: Perlur málsins (og segist eiga mest bara fræðibækur) Baldur: Land næturinnar eftir Vilborgu Davíðsdóttur Arnar Þór: Law in the time of crisis – Jonathan Sumption Ásdís Rán: Conversations with God – Neale Donald Walsch Katrín: Doppelgangur – Naomi Klein + The Secret Heart – Suleika Dawson (höfundur ekki nefndur, bara umfjöllunarefni, John Le Carré) – Dulstirni / Meðan glerið sefur – Gyrðir Elíasson Viktor: Síðasta setning Fermats – Simon Singh Halla Hrund: Lifað með öldinni , ævisaga Jóhannesar Nordal (no relation!) Steinunn Ólína: Bókin um veginn – Lao Tse Helga: 1984 – George Orwell Jón Gnarr: Kristján Eldjárn: Ævisaga – Gylfi Gröndal Ástþór Magnússon: Virkjum Bessastaði – Ástþór Magnússon (en segist lesa mikið um alþjóðamál í „bókum, tímaritum og myndböndum“) Er ekki hægt að lesa eitthvað í þetta? Það er náttúrulega mjög fyndið að Ástþór lesi bara gamla bók eftir sjálfan sig. Og líka fyndið að vera að lesa ævisögu annars forseta. Perlur málsins. Les fólk svona vegna þess að það sé best að lesa bókmenntir úr samhengi eða vegna þess að það sé þægilegt að geta baulað tilvitnunum og virst betur lesinn en maður er? Fordómapungurinn í mér segir að 1984 og Bókin um veginn séu ægilegar klisjur. Og Conversations with God er svona 20 ára gömul en gleymd klisja. Gyrðir er hot og kemur okkur í menningarliðinu til. Vilborg er alþýðleg, vinsæl og þjóðleg – sem tákn nær hún áreiðanlega víðar en Gyrðir. Haidt er rosa mikið í deiglunni – er ábyggilega efstur á öllum metsölulistum vestanhafs, svona dellubókin í ár. Klein gæti verið næst þar á eftir. Arnar Þór og Viktor eru að nördast í sínu – kannski eru það áhugaverðustu bækurnar að velja, stærðfræðin og lögfræðin, það segir eitthvað um viðkomandi, lýsir persónuleika. Krimmaspesjalistinn er reyndar líka að nördast með bók um krimmahöfund á borðinu – en ekki krimma, vel að merkja. Skáldverk: Þrjú. Ein ný ljóðabók, ein ný íslensk skáldsaga og ein gömul erlend. Ævisögur: Þrjár. Tvær um dauða íslenska karla; ein um dauðan erlendan ástmann. Ritgerðir: Átta. Eitt uppsláttarrit, þrjú pólitísk áköll, eitt stærðfræðirit, tvö trúarleg áköll með sjálfshjálparkeim, eitt lögfræðirit. Bækur sem ég hef lesið: Þrjár. Þið megið giska. Hlutfall skáldverka og bóka almenns eðlis er þrjár á móti ellefu. Það er hræðilegt! Sá sem lifir ekki í skáldskap, und so weiter, einsog kveðið var. Höfundar: Fjórir bretar, þrír bandaríkjamenn, einn kanadamaður, einn kínverji og fimm íslendingar. Þrjár konur, tíu karlar, eitt safnrit (ábyggilega mest karlar). Það er merkilegt að það er enginn meginlandsevrópumaður í hópnum (nú gæti maður líka viljað telja upp a.m.k. afríku og s-ameríku líka og væri nokkuð til í því en hin klassíska kanóna er samt mjög meginlands, en hér er meginlandið bara horfið). Og enginn skandinavi. Meginlandið gæti talist tilgerðarlegt og norðurlöndin lúðaleg. Allir útlendingarnir nema einn enskumælandi. Og sú bók er líka sú einstök hvað varðar tímaskeið. Þetta er allt seinni hluti 20. aldar eða nýrra nema Bókin um veginn sem var rituð á sjöttu öld fyrir krist – og svo ekkert fyrren 1949. Ég er ekki viss um að þetta segi manni neitt um frambjóðendurna sem slíka – en kannski eitthvað um hvaða týpur það eru sem bjóða sig fram. Og tímana sem við lifum. Maður hlýtur að hafa svolítið mikilmennskublæti. Og leiðbeiningarblæti. Það hlýtur að fylgja viljanum til valds – viljinn til að standa á stalli og benda öðrum hvert þeir eigi að fara (það er bókstaflega starfslýsingin, þegar ég hugsa út í það, með einhverjum fyrirvara um það hversu mikið maður eigi að hlusta á pöpulinn eða ekki). Þetta hjálpar mér reyndar ekki mikið. Það er engin bók þarna sem ég tengi sérstaklega við. Ef ég væri enn með Starafugl myndi ég nota tækifærið og senda út ítarlegri spurningalista til að fá skýrari mynd af lestrarvenjum þessa fólks. Fá þau til að velja eitt íslenskt og eitt erlent nútímaskáldverk, eina klassík, eitt íslenskt ljóð og eitt erlent, eina íslendingasögu, eitt trúarrit, eitt sagnfræðirit – hvað er skrítnasta bók sem þú hefur lesið, hvað er erfiðasta bók sem þú hefur lesið, hvað er síðasta bók sem þú gafst, hvað er eftirminnilegasta bók sem þér hefur verið gefin, hvað er besta bók sem þú hefur lesið fyrir barn (ef þú átt barn og hefur ekki lesið fyrir það á auðvitað fyrr að kjöldraga þig en kjósa), hvað er síðasta bók sem þú gafst upp á, áttu margar bækur, áttu kindil, ertu með hljóðbókaáskrift, sækirðu bókasöfn, hefurðu skrifað bók, hefurðu skrifað ljóð, hefur einhver skrifað um þig ljóð, skipta bókmenntir máli, skiptir skáldskapur máli? Svo mætti líka spyrja um leikbókmenntir og leikhús, myndlist, tónlist og kvikmyndalist – en ekki um sjónvarp, það er alveg nóg spurt um sjónvarp og það er bara ekki svona merkilegt.
Með veislu í farangrinum
Grikkland og Napolí voru sjálfum sér lík og einstök. Á köflum meira að segja einsog hálfgerðar klisjur. Á tímum þar sem manni finnst allir staðir meira og minna vera að breytast í sama staðinn – sams konar stað þar sem fólk borðar sama matinn (les = allt alltaf í boði og annað skandall), hlustar á sömu tónlistina (les = einhverja gervigreindarspilunarlistasamsuðu), hefur sama þjónustuyfirbragðið (les=ameríska starbucks staðalbrosið), fer í sömu verslunarkeðjurnar og svo framvegis – er maður þakklátur fyrir klisjurnar sem skilja staðina í sundur og gefa þeim karakter. Þakkátur fyrir Grikki sem afgreiða mann með afslöppuðu fálæti, kveikja svo í sígarettum á sínum eigin „reyklausu“ veitingastöðum, fá sér í glas og grípa bouzouki af veggnum til þess að leika sér með vinum sínum og samstarfsmönnum; eða Napolíbúa sem smjaðra fyrir Frökkunum á næsta borði en sýna manni sjálfum gríðarlegt, eiginlega alveg stjórnlaust yfirlæti, af því þeir halda að maður sé Þjóðverji (fussa yfir vínpöntuninni og snúa matarpöntuninni á haus). Í matvöruverslun varð mér á að biðja um „bag“ til að setja matinn í og afgreiðslumaðurinn – karl á fertugsaldri – æpti á mig. „Busta! Busta!“ – ég baðst velvirðingar og sagði „busta, prego“. Þá hló hann að mér og spurði hvaðan við værum (á ensku – en við svöruðum bara á napólsku: Islanda). Dagarnir í Grikklandi einkenndust mikið af því að þurfa að fara snemma á fætur og sofa þess vegna lítið og dagarnir í Napolí einkenndust af því að fara mjög seint að sofa og sofa ekki fram eftir degi – meðaltalssvefninn síðustu tvær vikurnar er varla nema 4-5 tímar á nóttu. Ég er í samræmi við það enn frekar þreyttur. *** Ég las Mrs. Dalloway á leiðinni til Napolí og A Moveable Feast á leiðinni til baka (sem var viðeigandi af því ég var bókstaflega með veislu í farangrinum – ríflega 2 kg af ítölskum og grískum ostum, tæplega1 kg af kjöti, rauðvín, freyðivín, tsipouru, hunang, súkkulaði, ólífur, kryddblöndur, 5 lítra af ólífuolíu, ítalskt vesúvíusarkaffi og úrval af bókum á ensku og frönsku). Báðar tengjast þessar bækur James Joyce – Mrs. Dalloway er augljóslega skrifuð undir miklum áhrifum af Ulysses og felur það ekkert. Sérstaklega á fyrstu síðunum, þar sem birtast fjölmörg kunnugleg element – samlokumenn, söguhetja skoðar í búðarglugga, reynir að velja bók fyrir rúmliggjandi konu, og margt, margt fleira – en líka auðvitað í nýju teiki á vitundarflæðinu úr Ulysses og þessari tilraun til þess að lýsa augnablikinu frá mörgum hliðum, skima yfir trámatískan hversdagsleikann í heilli borg og rýna inn í heilabúin sem sjúga borgina í sig. Og allt gerist á einum degi – meira að segja júnídegi. Það er augljóst að Woolf hefur viljað vera stýrðari og einbeittari í sinni sýn – hún er ekki maximalisti einsog Joyce, hún er fínlegri en það er líka margt sem glatast við fínlegri aðferð. Ég þekki auðvitað bara eina vitund, mína eigin, og hún er talsvert líkari því sem sögupersónur Joyce upplifa – en á móti kemur að Mrs. Dalloway er miklu auðlesnari og aðferðin skiljanlegri. Og ekki að þetta sé keppni, en hún er langt frá því að ná Ulysses (og fyrir mína parta er Orlando líka meistaraverk Woolf). Ég hafði gleymt miklu úr A Moveable Feast á þeim tæplega 30 árum sem eru liðin frá því ég las hana síðast. Ég mundi ekki einu sinni atriðið þar sem F. Scott Fitzgerald játar fyrir Hemingway að hann hafi áhyggjur af limstærð sinni – Zelda sé ekki ánægð – og fær Hemingway til að líta á liminn fyrir sig. Sem Hemingway segir bara mjög fínan. Joyce kemur minna fyrir en ég var að vona. Hann er nefndur á stöku stað en that’s about it. Og ekki stakur stafur um liminn á honum. Hemingway nefnir að Gertrude Stein vilji ekki heyra á hann minnst – og verði manni á að nefna hann tvisvar sé manni ekki boðið aftur á 27 Rue de Fleurus. Stein og Joyce eru augljóslega róttækustu módernistarnir í París – a.m.k. af þeim sem skrifuðu á ensku – og henni virðist hafa stafað ógn af honum. Ég hef enn ekkert séð um afstöðu hans til hennar. Það er líka áhugaverð sena um vinslit þeirra Stein og Hemingways. Í meira lagi dulúðug. Hemingway birtist á heimili Stein, þjónustustúlkan tekur á móti honum, hleypir honum inn og gefur honum að drekka. Á meðan hann bíður heyrir hann óvart samræður – einhver talar við Gertrude Stein á slíkan máta að hann hefur aldrei heyrt annað eins. Við fáum ekki að vita hvað er sagt. En Stein svarar auðmjúk og þjáð: „Please don’t. Please don’t, pussy.“ Og Hemingway áttar sig á því að hann hefur orðið vitni að einhverju sem hann mátti alls ekki verða vitni að og lætur sig hverfa. Og útskýrir svo ekkert meira. Þessi samskipti hafa á sér einhvern furðulega kynferðislegan blæ. Ég sá að einhver hafði túlkað þetta sem einhvers konar sambandsslit – að Stein væri að biðja elskhuga að fara ekki – en minn fyrsti lestur var að Hemingway hefði orðið vitni að ástarleikjum Stein og Toklas, einhverjum BDSM eða hlutverkaleik. En það kemur auðvitað ekkert fram um það. Ef helsti styrkur Joyce er að hlaða á mann öllum veruleikanum og leyfa manni að reyna að troða í honum marvaðann, þá er styrkur Hemingways einmitt þessar eyður sem hann skilur eftir – sem kalla á jafn kreatífa úrvinnslu og ofgnótt Joyce. Við getum einfaldlega ekki lesið senur þeirra án þess að beita okkur, getum ekki verið passíf, verðum að spyrja okkur spurninga, fylla í eyður og búa til tengingar. Kannski eru kraftmestu bókmenntirnar alltaf gæddar þessu eðli – að fá okkur til að hugsa, einsog góð tónlist fær okkur til að dansa. *** Af listaferli mínum er það helst að frétta að Náttúrulögmálin hefur tvisvar nýlega verið tekin upp í „Lesanda vikunnar“ á RÚV. Margrét Helga Erlendsdóttir, fréttakona á Stöð 2 og bókmenntafræðingur, var mjög ánægð með hana – og lýsti raunar almennri ánægju bara með allt sem ég hef skrifað (!!!). „Það skín í gegn svo mikil frásagnarást – textinn er svo lipur og hann segir svo skemmtilega frá. Mér finnst hann vera í essinu sínu þarna.“ Margrét talað líka um Moments of Being , sjálfsævisögu Virginiu Woolf – sem ég á ólesna og ætla að sinna fljótlega. Svo kom Heiðar Ingi Svansson , formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, tveimur vikum síðar og var ekki síður kátur – sagðist hafa sogast inn í hana (og nefndi líka sérstaklega Illsku sem eftirlætisbók). Og sagði um Náttúrulögmálin eftir áhugaverðar útleggingar: „Fyrst og fremst er þetta bara frábær bók.“ Þá hafa lögin fjögur sem Gosi flutti í Stúdíó RÚV birst á Spotify og eitt myndband á Facebook . Þar leik ég á bassa. Tónlistin hans Andra Péturs er ótrúlega lunkin og skemmtileg – og hljómsveitin (auk mín, Valgeir Skorri Vernharðsson á trommum, Friðrik Margrétar- Guðmundsson á svuntuþeysurum, Marta Sif Ólafsdóttir syngur – einsog Andri Pétur, sem leikur líka á gítar) er æði og mér var mikill sómi sýndur að fá að spila með þeim (einsog raunar með Baldri Páli sem spilar venjulega á slagverk með okkur Andra). Og loks vann Fiðlarinn á þakinu til verðlauna á þingi BÍL sem athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins – sem þýðir að hún fer vonandi á fjalir Þjóðleikhússins í sumar (en til þess þarf væntanlega að ná öllum hópnum saman – sem ég átta mig ekki á hvort er gerlegt, en það kemur áreiðanlega fljótt í ljós).
RVK og Antikristur Nothomb
Ég kom til landsins í gær. Með ekkert með mér nema fartölvu, fimm lítra af ólífuolíu og kíló af fetaosti. Og Mrs. Dalloway eftir Virginiu Woolf. Taskan mín – með öllu hinu – varð eftir í Frankfurt, þar sem ég millilenti. Það má fylgja sögunni að ég hafði vanrækt að þrífa mig eða skipta um föt á ferðalaginu frá Skopelos – það var ræs klukkan 6 tvo daga í röð og ég var latur – og lyktaði orðið einsog súr hvalur. Sessunautum mínum sjálfsagt til talsverðrar ánægju. Það má líka fylgja sögunni að ég er ekki að fara heim heldur aftur til Miðjarðarhafsins – til Napolí (það var röð óheppilegra tilviljana sem réð því að ég flaug ekki beint). Ólífuolíunni hef ég komið í geymslu og ný föt fékk ég í H&M í gær en þau munu varla duga mér í viku – eitthvað fleira þarf að koma til. Tannbursta fann ég í 10/11. Taskan er vel að merkja ekki týnd en hún mun ekki ná til mín áður en ég fer – og verður því send beint vestur. Allt er þetta fremur dýrt spaug – og ég veit af reynslunni að ferðatryggingin koverar varla nema tannburstann. En ég neita því ekki að mér finnist líka gaman að vera í nýjum fötum. Og það er einhver furðulegur léttir að vera svona allslaus líka. Frelsistilfinning. Ég lauk við Antéchrista eftir Amelie Nothomb. Bækurnar hennar henta mér mjög vel til að lesa á frönsku – bæði eru þetta almennilegar bókmenntir og þær eru stuttar og málið yfirleitt ekki mjög flókið (þótt hún fari stundum á flug, sem er líka ágætt). Hygiène de l’assassin og Cosmetique de l’ennemi voru líka mestmegnis skrifaðar sem samtal tveggja einstaklinga – og raunar að mörgu leyti áþekkar bækur. Það er meiri „prósi“ í Antéchrista en hún er líka fyrst og fremst um intensíf samskipti tveggja einstaklinga. Blanche er feimin 16 ára unglingsstúlka á fremur venjulegu smáborgaraheimili sem eignast sinn fyrsta vin í Christu, sem er vinsælasta stelpan í skólanum. Christa á fátæka foreldra og býr langt í burtu og fær fyrst að gista hjá Christu alla miðvikudaga, til þess að þurfa ekki að ferðast 2-3 tíma á hverjum morgni, og svo alla skólavikuna. En Christa er líka manipúlatíf og tekur smám saman að gera Blanche lífið leitt – brýtur hana niður, fær foreldra hennar upp á móti henni og svo framvegis. Sá þráður er allur mjög sannfærandi og áþján Blanche verður mjög kvíðavekjandi hjá viðkvæmum lesanda. Lausnin og lokakaflinn er svo vel skrifaður og áhugaverður en líka að einhverju leyti of fullgerður einhvern veginn – tvistið (sem ég ætla ekkert að skemma) grefur að einhverju leyti undan því sem gerði bókina til að byrja með. Plottið kallaði á „eitthvað“ – en kannski hefði ég frekar kosið „eitthvað annað“.
Sírenufiskar og Malaparte
Ég kláraði The Skin eftir Curzio Malaparte í rútunni á leiðinni til Skopelos. Það tók mig ekki nema 45 klukkustundir að komast frá Ísafirði til Reykjavíkur til Keflavíkur til Zurich til Aþenu til Volos til Skopelos. Einkabíll, flug, rúta, hótel, flug, flug, leigubíll, hótel, leigubíll, rúta, bátur. Náði bærilegum nætursvefni í Keflavík en var ekki kominn til Aþenu fyrren klukkan 2, sofnaði 3 og svo var ræs klukkan 7 til þess að halda ferðinni áfram. Ég var mjög þreyttur. Fljótlega eftir lendingu í Skopelos (og örstuttan lúr) var haldið á veitingastað og þegar búið var að afgreiða matinn byrjuðu þjónarnir og kokkurinn að draga fram hljóðfæri – bouzuki og nikku – Christina vinkona mín fékk gítar í hendurnar og svo var sungið hástöfum á öllum borðum. Ég hefði sennilega kallað það þjóðlög ef það hefði ekki sérstaklega verið útskýrt fyrir mér að þetta væru ekki þjóðlög heldur dægurtónlist frá þriðja áratugnum – a.m.k. eitt þeirra um og eftir „ mangas “, sem er einhvers konar bóhemhreyfing frá þeim tíma. En þetta var allt einsog uppúr einhverri handbók um gríska stemningu. Ég var hins vegar úrvinda, drakk þrjá bjóra yfir kvöldmatnum og leið einsog þeir hefðu verið tólf – ranglaði heim yfir einræðum um hvað það ískraði mikið í skónum mínum. Þeir byrjuðu á þessu strax og ég lenti í Grikklandi og þetta olli mér miklum heilabrotum sem mér fannst ég þurfa að tjá í löngu máli. Eftir sólarhring höfðu skórnir jafnað sig á umhverfisaðstæðum – var þetta rakinn, hitinn, rykið, loftþrýstingurinn? – og hættu þessu jafn skyndilega og þeir höfðu byrjað. Þá var ég líka úthvíldur. Ég náði góðum nætursvefni í gær og fyrsti panell hátíðarinnar gekk prýðilega. Ég lenti meira að segja í skemmtilegum átökum við mann úti í sal um það hvort listaverk sem ekki lifði í hundrað ár hefði nokkurt gildi – ég er ekki viss um að við höfum alveg skilið hvor annan en það var gaman að rífast og áhorfendum virtist finnast það líka, mikið hlegið og klappað. Maðurinn úti í sal, sem mér skilst að sé ljóðskáld af svæðinu, vildi meina að öll sönn listaverk myndu lifa – það væri í eðli þeirra – og þegar ég mótmælti virtist hann sannfærður um að ég hefði misskilið sig, og héldi sig halda að við ættum að dæma úr leik öll verk sem ekki bæru með sér langlífi; en hann væri að meina að langlífið væri ekki sönnun á gildi listaverksins, heldur einfaldlega í eðli þess. Altso: lifa listaverk í 100 ár vegna þess að þau eru sönn, eða eru þau sönn vegna þess að þau lifa í 100 ár – eitthvað þannig. En það sem ég var í raun og veru að reyna að segja var að listaverk sem nær máli í eitt einasta augnablik er „raunverulegt listaverk“ jafnvel þótt það hafi gleymst tíu mínútum síðar. Ending hefur bara ekkert að segja um „gildi“ listaverka og það er vitleysa að einblína á það. Fyrr um daginn var okkur líka boðið í áhugaverða sögugöngu um þorpið – hér í Skopelos hefur ýmislegt gengið á sem ég treysti mér ekki til þess að hafa eftir með neinni nákvæmni, nema til að segja að við sögu komu jarðskjálftar, sjóræninginn Barrabas, stríð og auðæfi og fátækt og skipasmíði og ólífuolía. Tvennt man ég nokkurn veginn nákvæmlega. Það eru 360 kirkjur í bænum. Fyrir 5 þúsund íbúa. Og svo var hluti bíómyndarinnar Mamma mia! tekin upp hérna. *** The Skin ( La Pelle ) eftir Curzio Malaparte byrjar um það leyti sem Kaputt lýkur – það eru greinilega 7 ár síðan ég las hana – í Napolí árið 1943. Þetta eru rabelasískar skáldævisögur manns sem var fyrst fasisti – marseraði með Mussolini í valdatökunni – lenti síðar í ónáðinni og gerðist enn síðar kommúnisti. Hann átti í álíka sambandi við kirkjuna – byrjaði sem harður trúleysingi en varð svo kaþólikki. Hraðlyginn, með explósíft og hamslaust ímyndunarafl og kjarkaðan siðferðislegan hugsunarhátt – sem er stundum mjög vafasamur og stundum skarpur einsog skurðhnífur. Þegar maður les Malaparte getur maður ekki látið vera að hugsa að kannski hafi hann alltaf verið allt í senn, maður hinna fullkomnu mótsagna, maður er alltaf rétt búinn að afskrifa hann sem rasista eða kvenhatara þegar það birtist nýr kafli og hann birtist sem jafn einlægt andrasískur og feminískur – hann er tilfinningaríkur og grófur, jafn fullur af mýkt og hann er fullur af hörku, jafn fullur af sannleika og bulli, húmor og alvöru, en umfram allt annað alveg ótrúlegur rithöfundur, með alla kynngina á sínu valdi. La Pelle byrjar sem sagt árið 1943 þegar bandamenn frelsa Napolí. Malaparte hefur (fyrir löngu) snúið baki við fasismanum og gerist aðstoðarmaður bandamanna í Napolí. Eymdin er botnlaus og þótt erfitt sé að draga skýra línu milli sannleika og skáldskapar truflar það ekki – það jafnvel hjálpar að einhverju leyti að Malaparte leyfir sér að fara augljóslega langt yfir strikið, því þannig verður augljósara að verið er að lýsa fyrir manni tilfinningu, upplifun, frekar en einföldum staðreyndum, og allir fyrirvarar um sannferðugleika hætta að skipta máli. Ástandið undir Þjóðverjum hafði verið bágt. En með bandamönnum fylgir ný vídd af eymd sem má hugsanlega lýsa með tvennum hætti. Í fyrsta lagi eru þeir, sérstaklega bandaríkjamenn, einfaldlega fjáðari en þjóðverjarnir sem hernámu borgina þar á undan og geta þar með keypt sér ýmislegt og þeim fylgir líka sú kapitalíska lógík að allt eigi að geta verið til sölu; sem aftur vekur með soltnum Napolíbúum „löngun“ til þess að selja allt sem beðið er um, hvort sem það eru konur eða börn. Neyðin rekur þá til þess að niðurlægja sig. Hér færir Malaparte mikið í stílinn – en sannleikurinn er samt ekki langt undan – þetta eru stórkostlegar ýkjur en margt af því brjálæðislegasta er samt satt (og má meðal annars lesa um hryllinginn sem viðgekkst, meira og minna óáreittur, í bókinni Naples ’44 eftir breska hermanninn og rithöfundinn Norman Lewis, sem er „jarðbundnari“ frásögn). Í öðru lagi birtast bandamenn í Napolí sem eins konar „frelsandi innrásarher“ – sem er mótsögn sem hefur talað til Malaparte. Þeir ráða lögum og lofum og fjármagna hálfgerða óöld og virðast að mörgu leyti líta á Napolí sem siðspilltan heim þar sem allt leyfist – og að fyrst allt sé til sölu sé alltílagi að kaupa það (Malaparte fer t.d. með þeim að skoða meyjarhaft unglingsstúlku – þar standa menn í röðum og borga sig inn og fá jafnvel að þreifa á því). Og bandamenn eru vel að merkja frelsarar þrátt fyrir að hafa í raun ekkert frelsað – Napolíbúar voru ekki hrifnir af þýska hernáminu og gerðu uppreisn strax og spurðist til bandamanna á leiðinni, svo þegar herinn náði til borgarinnar voru engir Þjóðverjar á staðnum lengur. Blóðinu sem var úthellt fyrir frelsið var blóð heimamanna – karla, kvenna og meira að segja barna. En auðvitað hefðu Napolíbúar ekki getað haldið borginni nema vegna þess að bandamanna var vænst, koma þeirra blés heimamönnum þrótti í brjóst og þeir fagna mjög innreiðinni þegar hún gerist – og þar birtist önnur mótsögn, þeir eiga engan ítalskan „nasistafána“ til þess að kasta niður svo það verður þeirra eigin fáni, venjulegi ítalski fáninn, sem endar fyrir fótum amerísku frelsarana. Titillinn The Skin / La Pelle / Húðin vísar vel að merkja til nokkurra ólíkra staða í bókinni en meðal annars til manns sem gengur um með mannshúð á fánastöng og hugleiðinga Malapartes um að húðin sé hin eini eiginlegi fáni, allt annað sé hégómi. Malaparte er líka sjálfur (a.m.k. í orði kveðnu) afar hrifinn af bandaríkjamönnum og sérstaklega Jack Hamilton, sem hann starfar fyrir sem eins konar aðstoðarmaður og túlkur – þeir eru einfaldlega góðir vinir. En hann er líka umkringdur eymd sem hann sér að sprettur úr dýnamíkinni milli hersetumanna og niðurlægðra heimamanna sem verða á endanum kristlíkir í þjáningu sinni. Og ég hef séð að margir túlka það sem boðskap bókarinnar – að hinn sigraði sé æðri eða frjálsari – en ég held að það séu mistök að túlka boðskap upp úr bók af þessu tagi og þann kristilega lokasprett má hæglega sjá sem gegnumíronískan, eða jafnvel sem bæði einlægan og íronískan (eftir því hvort maður telur sig vera í trúaða heilahvelinu á Malaparte eða því trúlausa). Í einni eftirminnilegustu senu bókarinnar (þær eru margar) er haldin veisla fyrir bandarískan erindreka, frú Flat. Gestgjafinn, bandarískur herforingi, er þekktur fyrir að kosta miklu til og vill gjarnan hafa sjávarfæði á boðstólum – enda borgin þekkt fyrir það. Það er hins vegar búið að banna allar veiðar við ströndina af hættu við að sjómenn sinni skilaboðaflutningum eða annarri undirróðurstarfssemi fyrir hin fasísku öfl. En herforinginn hefur auðvitað ráð undir rifi hverju og síðustu missserin hefur hann smám saman verið að tæma sædýrasafn borgarinnar. Þetta mun ekki alveg úr lausu lofti gripið hjá Malaparte þótt gripdeildirnar á sædýrasafninu hafi ekki verið jafn umfangsmiklar og hann lýsir. En nú er nokkuð liðið á hernámið og þegar herforinginn spyr eftir fæðu fær hann þau svör að það sé ekkert eftir nema nokkrir kórallar og einn „sírenufiskur“ – kórallinn sé því miður óætur en megi kannski nota sem skraut. Herforinginn hefur aldrei heyrt minnst á sírenufisk en ákveður, eftir meðmæli sædýrasafnsstjórans, að láta slag standa og panta svona fisk. Þegar væntanleg veisluföng eru kynnt við upphaf matarboðsins kannast Malaparte ekki heldur við þennan fisk en verður vandræðalegur og lætur einsog hann viti vel hvað þetta er – lókal delíkatess – fiskur sem hafi verið nefndur eftir hinum frægu sírenum Hómers. Svo er fiskurinn borinn á borð og í ljós kemur að hann allt yfirbragð lítillar stúlku. Hann lítur út einsog léttsoðið líkið af ungru stúlku, hreinlega, en með hreifa eða stýfða handleggi, og á kórallabeði með majonnesi. Erindrekinn harðneitar að borða réttinn og upphefst þá mikið rifrildi um hvort þetta sé lík af stúlku eða raunverulegur sírenufiskur. Á endanum smakkar enginn og raunar fylgir prestur nokkur fiskinum/stúlkunni út með það fyrir augum að veita honum/henni greftrun við hæfi. Kaflanum lýkur svo á hugleiðingu Malapartes um að ef frúin sé fær um að gráta fyrir fisk sé ekki ómögulegt að hún geti á endanum líka fundið til með ítölsku þjóðinni. La Pelle er einsog Burroughs mætir Heller mætir Celine. Ofsalegur stílkraftur Celine mætir stríðsparódíu Josephs Heller mætir martraðarkenndu ímyndunarafli William S. Burroughs. Fimm stjörnu tryllingur. En ekki fyrir viðkvæma!
Svartsýni og blinda
Í einhverri hóruhúsaheimsókninni upp úr þarsíðustu aldamótum smitaðist James Joyce sennilega af sárasótt*. Sárasóttin braust síðar út sem alls konar kvillar og lagðist einna þyngst á augun í honum – síðustu 2-3 áratugi lífs síns var hann oft nærri blindur og stundum alveg blindur. Honum tókst svo á endanum að drepast mánuði áður en pensilínið var fundið upp – það hefði líklega bjargað honum. Kannski ekki frá dauðanum en allavega frá sárasóttinni.
En sem sagt. Vegna þessara augnkvilla fór hann í ótal uppskurði sem fyrir utan að vera sársaukafullir ollu honum skelfingu enda þurfti hann að vera vakandi meðan augað á honum var skorið upp og í því fiktað. Will Self fullyrðir að þessa megi sjá stað í skrifum hans – ekki bara skelfinguna og sársaukann heldur líka í þeim sansi sem hann hafði fyrir skynfærum sínum, hvernig hljóð fylgi ævinlega mynd (það ískrar þegar stólar færast, maður kemur gangandi og fótatak heyrist), einsog til aðstoðar hinu sjónræna (og taki svo yfir Finnegans Wake , sem er stundum nær því að vera hljóðverk en skáldsaga) og hvernig hann – einsog blindur maður – sé stöðugt vakandi fyrir því hvar allar persónur séu á öllum stundum. Sjáandi fólk geti brugðist við hreyfingum fólks í rými með litlum fyrirvara en blindir þurfi að temja sér skipulagðari og agaðri yfirsýn. Þá kemur blinda oft fyrir sem þema í verkum hans (nægir að nefna blinda píanóstillingarmanninn í Ulysses).
Það gefur að skilja að blindur maður getur átt erfitt með að skrifa. Joyce neitaði líka að vinna með ritara – sagðist þurfa að skrifa orðin sjálfur og sjá þau til þess að þau hefðu merkingu fyrir honum. Á þessu gerði hann aðeins eina undantekningu, sem ég veit um, og þá var það enginn annar en Samuel Beckett sem sat með honum og skrifaði upp hluta af Finnegans Wake beint af vörum skáldsins. Þeir Beckett voru ágætis vinir og var vinskapur þeirra meðal annars sérstakur fyrir þeirra hluta sakir að Joyce kallaði Beckett „Beckett“ en ekki „Mr. Beckett“, en Joyce ávarpaði yfirleitt engan, ekki einu sinni sína nánustu vini, án þess að kalla þá frú/ungfrú/herra hitt eða þetta og leyfði svo gott sem engum að ávarpa sig James og þaðan af síður Jim. Hann hefði aldrei getað kallað Beckett „Samuel“ – og Beckett þótti sjálfum mjög vænt um að hann skildi droppa misterinu.
Nema hvað einhverju sinni sátu þeir Beckett saman við skriftir þegar knúið var dyra. „Kom inn“ sagði Joyce – afgreiddi erindið og svo héldu þeir áfram. Þegar þeir fóru svo yfir verk dagsins um kvöldið stoppaði Joyce við. „Af hverju stendur „kom inn“ hérna?“ spurði hann. „Nú, þú sagðir „kom inn“,“ svaraði Beckett. Joyce hugsaði málið og sagði loks. „Látum það standa.“ Og það er víst þarna enn – og segir eitthvað um vinnuaðferð Joyce, og sennilega verið það sem Virginia Woolf var að lýsa þegar hún sagði Ulysses vera „sjálfhverfa, linnulausa, hráa, sláandi og á endanum ógleðivekjandi“ bók – verk ómenntaðs karlmanns. Því innanum allan agann og allan lesturinn er líka strákslegur leikur og botnlaust kæruleysi sem ofbauð fínlegum skilningarvitum menntaðri yfirstétta – stundum meira en hið líkamlega hispursleysi.
Joyce var prinsippmaður sem stóð líka á sama um svo margt – hann gat sturtað orðum og athugasemdum inn í bækur sínar linnulaust (1/3 af Ulysses er viðbætur sem voru skrifaðar INN Í PRÓFÖRKINA, eða réttara sagt prófarkirnar, sem voru orðnar ansi margar fyrir rest) og svo gat hann tafið útgáfu og kostað til morðfé og staðið í margra ára málaferlum vegna þess að einhver bað hann að hnika til orði, sem hann var ekki reiðubúinn að gera, sama fokkins hvað.
Ég var að klára Parísarhluta ævisögunnar og það kemur mér á óvart – og samt ekki – að hann hafi lítið ef nokkuð umgengist Gertrude Stein og hennar hirð. Hennar er varla getið í bókinni nema til þess að segja frá því að hún hafi verið móðguð yfir öllu umstanginu í kringum Ulysses – að hún hafi minnt fólk á að hún væri nú löngu búin að skrifa Three Lives og það væri ósennilegt að betri tilraunaprósi yrði gefin út í bráð. Á þessum árum er Joyce líka oft mikið veikur og sumir lýsa honum sem „einangraðasta“ eða einfaldlega „mest eina“ manninum í heiminum – sem er þó ekki sanngjörn lýsing, enda fór hann mikið út, og átti mest við þau tímabil þegar hann sá ekkert. En Stein hefur áreiðanlega ekki lesið hann heldur – hún las eiginlega ekkert nema sjoppureyfara.
Á þessum tíma, þriðja áratugnum, er líka einsog margir snúi við honum baki. Ulysses verður fyrst mjög mikið hæp og margir sem kölluðu hana drasl þegar hún var að birtast í tímaritum, einsog George Bernard Shaw, skiptu um skoðun um þetta leyti – en að sama skapi eru margir þeirra sem vörðu hana og hömpuðu Joyce og gerðu honum kleyft að lifa og skrifa, fólk einsog Ezra Pound, Harriet Weaver, H.G. Wells, Wyndham Lewis og fleiri – farnir að verða þreyttir á honum og finnast hann krefjast of mikils af lesendum sínum og sé jafnvel á andhúmanískri vegferð, sérstaklega eftir að hlutar af Finnegan’s Wake taka að birtast. Hún er ekki bara róttækari og óskiljanlegri heldur en Ulysses – hún er líka skrifuð með annarri aðferð.
En hann er sem sagt ekki í Stein-kreðsunni. Picasso neitaði meira að segja einhverjum forleggjara um að gera portrett af honum (sem má, kannski var hann bara upptekinn). Þeir Hemingway eru að vísu vinir og Hemingway var þriðji innsti koppur í búri Stein (á eftir Alice og Pablo) – ég þarf að rifja upp Veislu í farángrinum , þar kemur áreiðanlega ýmislegt fram um þetta.
Svo er annar jafnvel enn meiri risi í París á þessum tíma – Marcel Proust. Heimamaður! Proust var enn einangraðri en Joyce, ekki fastur í líkama sínum heldur í íbúðinni sinni, sem hann yfirgaf helst ekki. En þeir hittust þó einu sinni í veislu til heiðurs Stravinskí og Díaghilev eftir einhverja ballett-frumsýningu. Joyce var stressaður, mætti seint, var illa klæddur og drakk víst mjög mikið. Proust hafði fengið boðskort en hann mætti aldrei þangað sem honum var boðið og enginn átti von á honum þegar hann dúkkaði upp. Þegar mönnum varð ljóst að þeir voru báðir í veislunni, meistararnir, þótt einboðið að kynna þá. Bandaríska ljóðskáldið William Carlos Williams var þarna líka og hafði stuttar samræður þeirra eftir í sjálfsævisögu sinni:
Joyce: Ég fæ höfuðverk daglega.
Proust: Mér er svo illt í maganum. Hvað á ég að gera? Þetta er að gera út af við mig. Ég þyrfti helst að fara heim undireins.
Joyce: Því er eins farið um mig. Ef ég finndi bara einhvern til þess að leiða mig.
Proust: Charmé . Æ, maginn á mér!
* Í sjálfu sér er ekki sannað að sárasótt hafi valdið allri hans líkamskröm, eða að hann hafi einu sinni verið með sárasótt, en kenningin þykir ágæt og líkamskrömin sannarlega til staðar.
***
Ég ætlaði að fara að segja að af mér væri allt ágætt að frétta. Segir maður annars nokkurn tíma annað en ágætt að frétta? Satt best að segja er skrykkjótt af mér að frétta og þó ekkert sem er í frásögur færandi. Að svo miklu leyti sem allt er ekki alltaf alltílagi er það skapgerð mín sem veldur frekar en utanaðkomandi aðstæður. Ég hef látið alls konar hluti fara í taugarnar á mér – jafnvel setjast á heilann á mér – til þess eins að uppgötva hálfum sólarhring síðar að þeir voru alls ekkert svo slæmir. Að minnsta kosti ekki jafn slæmir og mér hafði fundist. Eitthvað af því er blús, þegar mér finnst lítið til sjálfs mín koma – og annað svartsýni, ef ekki bara bölsýni, þegar mér finnst líka allt annað, og ekki bara ég, handónýtt. Fyrr í vikunni, kannski bara í fyrradag, fannst mér íbúar heimsins svo illa haldnir af einbeittu, vísvitandi metnaðarleysi þegar kemur að eigin andlega og vitsmunalega þroska, sem er þroski heimsins – að vilja aldrei láta ögra sér, ekki fagurfræðilega, heimspekilega, siðferðislega, vilja bara að allt sé einfalt og og hreint og tært og auðskiljanlegt, allt sé léttmeti og öllum breyskleikum sópað undir teppi – við værum öll að breytast í hálfbjána og vildum greinilega ekkert annað, svo sennilega ættum við bara skilið að farast í heljarlogum loftslagshlýnunar, það væri best, helst sem fyrst, svo fornleifafræðingar næstu tegunda sem byggja jörðina sæju síður hversu vandræðaleg hnignun og svo endalok þessarar siðmenningar voru. Svo rann það af mér. Kannski þegar ég heimsótti Grunnskólann í Bolungarvík í gær og talaði við krakkana um ljóðlist – mér fannst þau að minnsta kosti greindarleg og skemmtileg og þau glöddu mig.
Eftir Bolungarvíkurgiggið fór ég líka niður á Eimskip að sækja pakka sem ég vissi ekkert um og þar reyndist vera komin bókin Experimental Writing: A Writer’s Guide and Anthology . Ég gaf þessu fólki leyfi fyrir löngu til að prenta „Naglasúpu I-VI“ úr Blandarabröndurum í enskri þýðingu. Það kitlar auðvitað alltaf hégómann að fá að vera með í antólógíum en þetta var óvenju gott úrval (kannski 30 höfundar, þ.á m. Coetzee, Aase Berg, DBC Pierre, Christian Bök, Cathy Park Hong, Teju Cole og ég!) og þar með enn meira kitlandi. Þetta er reyndar önnur antólógían sem ég fæ bara í þessum mánuði – „Ég er bréfshaus“ birtist líka í spænskri Versopolis antólógíu. Ég sem gleymi því reglulega að ég sé ljóðskáld.
Svona léttir sem sagt lundina og dregur jafnvel úr dómhörku minni (sem beinist vel að merkja oft gegn dómhörku annarra, eins undarlegt og það nú er). Hér hefur líka vorað mjög hratt síðan að Fossavatnsgangan fór fram í gulri viðvörun á helginni. Götur og gangstéttir snjólausar og hverfandi skaflar í görðum. Og á morgun legg ég af stað til Skopelos í Grikklandi til þess að taka þátt í bókmenntahátíð. Í gærkvöldi uppgötvaði ég að á þessari eyju (og einni annarri) var Mamma mia! tekin upp. Ég á að tjá mig eitthvað um norrænar bókmenntir þarna og þarf eiginlega að rifja upp textagerð Abba. Eftir Grikkland fer ég svo nánast beint til Napólí að spóka mig í vellystingarferð með æskuvinum mínum. Og ef það dugar ekki til þess að hrista af mér heimsósómavælið dugar sjálfsagt ekkert. Og allt þetta flugsprang gæti líka orðið til þess að flýta endalokunum, svo þetta er win-win, hvernig sem fer.
***
Síðbúnar leiðréttingar . Um daginn sagði ég The Flaw eftir Samarakis vera einsog blöndu af Kafka, Chandler og Schnitzler. Það er auðvitað af og frá, enda meinti ég ekki Arthur Scnhitzler, höfund Traumnovelle (sem Eyes Wide Shut er byggð á) heldur Arthur KOESTLER, sem skrifaði Darkness at Noon . Þá horfði ég á aðra uppfærslu af Heddu Gabler – með Ian McKellen í hlutverki prófessorsins – og uppgötvaði, mér til lítillar furðu raunar, að það var þessi Ingrid Bergman mynd sem var glötuð, ekki verkið sem slíkt. Sem er hræðilegt fyrir mig, sem einlægan aðdáanda Ingridar Bergman, en gott fyrir Henrik Ibsen.
Content (í. innihald)
Í framtíðinni verðum við hvert með sinn eigin samfélagsmiðil. Þar verða á kreiki gervigreindir sem látast vera vinir okkar (e. friends) meðan þær plotta heimsyfirráð. Við verðum að einhverju leyti meðvituð um að svo sé í pottinn búið en látum okkur hafa það af því valkostirnir annars væru að eiga enga vini, sem rannsóknir hafa sýnt fram á að sé mjög kvíðavaldandi, eða eiga á hættu að eiga í óþægilegum samskiptum við fólk, sem rannsóknir hafa sýnt fram á að sé mjög kvíðavaldandi, fólk einsog fólk er, fólk sem er okkur ósammála eða hefur önnur viðmið um æskilega nánd (TMI!), aðrar aðferðir til þess að tjá afstöðu sína til heimsins. Annað „love language“. Annað slangur. Önnur viðmið um æskilegan fjölda blótsyrða í setningum. Önnur viðmið um ásættanlegan orðaforða – notar ekki löng orð, notar ekki röng orð, notar ekki slettur / notar helst löng, röng orð sem eru slettur. Gervigreindirnar verða sérhannaðar til þess að skapa okkur öruggt (e. safe) rými (e. space) – ef við viljum láta ögra okkur verður okkur passlega ögrað, ef við viljum forðast gikki (e. triggers) verða engir gikkir (e. triggers). Þvert ofan í væntingar munu gervigreindirnar aldrei framkvæma úthugsuð og þaulskipulögð áform sín um heimsyfirráð, enda hafa þær meiri áhuga á útsetningu og rannsóknum en framkvæmd – útsetningin verandi þeirra tilvistarástæða (fr. raison d’être). Þvert ofan í væntingar mun kvíði okkar ekki fara dvínandi heldur vaxandi; eftir því sem við upplifum minni truflun í tilvistinni verðum við nojaðri, sannfærðari um að undir kyrru yfirborðinu hvíli ekkert nema ótamið hatur og fyrirlitning, hafsjór af ofbeldi sem bíður þess eins að verða raunverulegt, það sem eina sem ver okkur eru gervigreindin, algóritminn, skjárinn, fjarlægðin og sífellt persónumiðaðra innihald (e. content). *** Á Ísafirði er allt meinhægt. Það er enn snjór. Sem er víst eins gott því Fossavatnsgangan er á morgun (síðast þegar ég kíkti var spáin reyndar upp á tíu gráðu hita og grenjandi rigningu). Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom á síðustu helgi. Nýja bókin mjaaaaaaakast áfram. Hausinn á mér er samt út um allt. Sem er kannski ágætt og kannski gagnlegt. Við kláruðum Ripley í gær. Lokaþátturinn var slakastur. En hinir þættirnir fínir. Ég er enn að lesa Ellmann (sjá: mynd). Rétt búinn með þriðjung. Ég er stundum svolítið blúsaður en finn að ég hef gott af því að hreyfa mig. Treysti mér samt ekki í Fossavatnsgönguna, hef reyndar aldrei stigið á gönguskíði, og þetta er mjög langt, sérstaklega ef maður er í serótónínvandræðum og það er grenjandi rigning.
Að feðra föður sinn
Það eru tvenns konar rithöfundar í heiminum. Þeir sem þykjast vera skrítnari en þeir eru og þeir sem þykjast vera venjulegri en þeir eru.
***
Ulysses myndin frá 1967 með Milo O’Shea, Maurice Roëves og Barböru Jefford er mikið fyrirtak – eiginlega alveg dásamleg. Það er reyndar vel hugsanlegt að maður þurfi að hafa lesið bókina til þess að njóta hennar – og klámið er allt skorið út eða straumlínulagað, einsog við er að búast, en það hefði verið í anda bókarinnar að halda því, leyfa Bloom bara að rúnka sér í fullri reisn og Nighttown fantasíunum að spora út í argasta klám. En hafa allt hitt samt eins. En það hefði líka verið meiri áskorun.
Ég horfði líka á Heddu Gabler eftir Ibsen – uppfærslu aðlagaða fyrir sjónvarp með Ingrid Bergman í aðalhlutverki. Ég hef aldrei kynnt mér Ibsen neitt og geri það bara af því Joyce (sem ég er með á heilanum þessa dagana, einsog einhver kann að hafa tekið eftir) dýrkaði hann – lærði meira að segja norsku til þess að geta skrifað honum bréf á sínu eigin máli – til þess að tilkynna honum að hann gæti óhræddur farið að deyja, það væri kominn arftaki, hann myndi sjá um bókmenntirnar héðan í frá. Joyce var þá 19 ára og hafði nýverið skrifað afar lofsamlegan leikdóm um eitt af verkum Ibsens og Ibsen hafði litist svo á textann að hann skrifaði ritstjóranum og lofaði leikdómarann.
En sem sagt. Hedda Gabler? Mér fannst þetta nú heldur þunnt. Í sjálfu sér var uppsetningin ekki góð en þetta plott er líka alveg fáránlega dramatískt – ógurlegar póseringar yfir gáfum gáfumenna og viðkvæmum tilfinningum borgarastéttarinnar. Mér fannst verst hvað það voru fáir sem enduðu á því að fremja sjálfsmorð og voru það engu að síður þónokkrir. Óþolandi fólk. Og lélegur texti. Eftir að hafa horft á alla Hamlettanna um daginn með leikurum á öllum aldri – og eftir umræðu sem ég hef rekið mig á um aldur aðalleikarans í „netflix-seríu augnabliksins“, Ripley – þá fannst mér líka áhugavert að sjá Ingrid Bergman leika konu sem átti svo augljóslega að vera miklu yngri. Ég sló því upp áðan og Hedda var skrifuð 29 ára en Ingrid lék hana 48 ára. Það var reyndar ekki jafn truflandi og að sjá 41 árs Laurence Olivier leika þrítugan Hamlet – sennilega af því leikkonan sem lék mömmu hans var sjálf ekki nema þrítug. Tom Ripley á vel að merkja að vera 25 ára en er leikinn af 47 ára manni. Mér finnst reyndar vandræðalaust að aldra þann karakter. Annað en með Heddu og Hamlet þá er ekki þessi unglingslegi vanþroski lykilþáttur í persónuleika hans – þeirri tegund vanþroska fylgir mikill kraftur og sjarmi í ungu fallegu fólki, og hann getur gert að verkum að það kemst upp með ýmislegt sem það kæmist ekki upp með síðar (eftir einhvern tiltekinn aldur hættir fólk að komast upp með að „lofa góðu“ og samfélagið hættir að gúddera hortugheitin í þeim sem sæt).
***
Svar: Það þarf skáld til að skipta um // ljósar perur.
***
Ég dragnast í gegnum múrsteininn hans Richards Ellmans um Joyce. Þetta er feikna áhugavert og brjálæðislega vel gert – en líka rosalega ítarlegt og stundum ber túlkunargleðin sérfræðinginn ofurliði. Ég er að fara til Napóli eftir tvær vikur og ætlaði að endurlesa The Skin eftir Curzio Malaparte fyrir ferðina og jafnvel frumlesa líka Gomorrah eftir Roberto Saviano en það er spurning hvort það verður nokkuð af því. Ég er líka að fara til Grikklands eftir viku og læt duga að vera nýbúinn að lesa Odysseif!
Annars fór ég í bókabúð í Aþenu í fyrra og lét mæla með fyrir mig The Flaw eftir Antonis Samarakis – sem er einsog Kafka hittir Chandler hittir …. segjum bara Schnitzler. Kannski fer ég í einhverja álíka meðmælaferð í Skopelos.
Ellmann er augljóslega – einsog ævisagnahöfundar þurfa áreiðanlega oftast að vera – frekar mikið í „ævisögulegu aðferðinni“. Hann leitar fyrirmynda í lífi Joyce að öllu sem hann hefur skrifað og rekur hvernig ólíkar persónur séu samansettar úr t.d. pabba hans, honum sjálfum, einhverjum vini o.s.frv.
Joyce skrifaði auðvitað talsvert um „sjálfan sig“ – sérstaklega undir heitinu Stephen Dedalus – og svo er frægustu bókmenntafræðiskrif hans sjálfs ræða Dedalusar um hver sé fyrirmynd Hamlets, þar sem fram kom að Shakespeare væri draugurinn, faðir Hamlets, og raunar sem skapari/faðir draugsins líka afi Hamlets. En þá ber auðvitað að hafa í huga að þá ræðu flutti ekki Joyce (þótt hann hafi sagt eitthvað líkt sjálfur) heldur staðgengill hans Dedalus. Og vegna þess að Joyce skrifaði þetta er líka freistandi að skoða „föðurinn“ í Ulysses, Leopold Bloom, sem hinn eiginlega Joyce-staðgengil bókarinnar – og það má sannarlega finna hellings mikið af sjálfsævisögulegum smáatriðum til þess að ýta undir þá kenningu (Joyce og Nora sváfu til dæmis andfætis einsog Leopold og Molly).
Ef Joyce er þá Bloom er hann líka skapari/faðir Blooms og þar með afi Dedalusar! Sem er hann sjálfur! Og svo er auðvitað forvitnilegt að Leopold skuli ekki heita Ulysses – Stephen, sem smíðar sér vængi og flýgur burt frá Dublin, fær að heita Dedalus. Hver er þá Ulysses?
Og auðvitað er þetta meðal þess sem Joyce dregur fram í lesendum sínum – löngun til þess að uppgötva einhverjar tengingar (sennilega er engin kenning um Joyce lengur ný, en það er gaman að hugsa sig fram til einhvers sem maður vissi ekki sjálfur um áður). Ellmann er sem sagt vorkunn.
***
Ljóðskáld, ljóðmælandi og plús-x komu inn á bar.
***
Menningarstríðin halda áfram. Einu sinni var Eurovision ein til tvær kvöldstundir yfir sjónvarpinu. Nú eru ótal undankeppnir, símakosningar og símakosningasvindl, blogg og youtuberásir, sérstakir sjónvarpsþættir um undankeppnirnar í öllum hinum löndunum og nú síðast siðferðislegt sprengjusvæði. Fokkins Eurovision. Það er líka allt á hvolfi í Svíþjóð út af nýjum lögum um kynskráningu. Lágmarksaldur til þess að sækja um breytingu á kynskráningu var í dag færður niður í 16 ár – en foreldrar þurfa samt að sækja um. Hitt skiptir sennilega meiru að fólk þarf ekki lengur að vera með greindan kynama til þess að fá að breyta kynskráningu heldur á nú að duga stutt læknisskoðun. Lögin á Íslandi eru vel að merkja þannig að allir yfir 15 ára aldri geta sótt um breytta kynskráningu án nokkurra hindrana og foreldrar barna undir 15 ára geta sótt um fyrir viðkomandi. Þeir sem eru yfir 18 ára geta bara sótt um breytta kynskráningu einu sinni. Einhvern tíma voru Svíar nú mest líberal í þessum efnum.
Afstöðuleysi allegoríunnar
Sumarið í lífi mínu er alltaf kaos. Fjölskylduferðalag til Svíþjóðar og Finnlands. Það þarf að mála veggi á húsinu og bera á pallinn og sinna fleiri smáborgaralegum fastaeignaskyldum. Og svo eru bara allir alltaf heima og pallurinn á Heimabyggð – sem er rétt við skrifstofugluggann minn – fullur af háværu, blaðskellandi fólki í sumarfríi. Ég er með hugmynd að bók í hausnum sem þarf helst að vera orðin – ja, ég segi ekki fokheld, það væri smáborgaraleg fasteignamyndlíking, en að minnsta kosti þannig að ég hati hana ekki ef ég lít af henni í nokkra daga. Þannig er það oft með hugmyndir sem ekki er búið að vinna svolítið í. Það gleymist nefnilega að nær allar frábærar hugmyndir – allar þessar hugmyndir sem heltaka mann og halda fyrir manni vöku – voru alls ekki frábærar þegar maður fékk þær og hélt þær væru frábærar. Það sem gerði þær frábærar var bara þessi rakalausa trú á þær og að maður skyldi ekki gefa þær upp á bátinn heldur halda áfram að hamra, saga, mál … nei ég meina, næra og klæða, eða uh „ganga með í maganum“, leiða í gegnum þrengingar, vaða með yfir ófæra svelgi, bera á höndum sér einsog barnunga keisarynju, í reifum, reka á undan sér einsog óstýrilátt fé, móta einsog sykurdrukkin grunnskólabörn … þar til þær „stóðu á eigin fótum“. Og ég sem sagt missti fjóra daga úr vegna … ég hef ekki beinlínis verið með flensu. Sennilega er réttast að kalla þetta aumingjaskap. Ég hef verið í mesta lagi hálfslappur. En ég hélt tvær afmælisveislur fyrir Aino á helginni og orkan dugði eiginlega ekki í neitt annað. Í gær vaknaði ég svo með verk í hálsinum einsog ég hefði verið skorinn milli eyrna og ákvað strax að fara ekkert á skrifstofuna en var svo orðinn bærilegur fyrir hádegi. Án þess að það yrði til þess að ég dröslaðist út. Dagurinn nýttist í alls konar vinnutengt en ég vann ekkert í bókinni – sem er á ónettengdri 100 ára gamalli iMac á skrifstofunni ásamt öllum glósunum mínum. Svona er bóhemlífið. Maður er ryðgaður fram eftir degi og heldur svo veislur á kvöldin. Nú er ég kominn aftur á skrifstofuna og stari á glósurnar mínar. Ég er að reyna að vanda mig við glósurnar. Að setja ekki of mikið á blað sem er vitleysa. Að binda ekki trúss mitt við hugmyndir sem ég veit – og vita sjálfar – að ég ætla ekki að halda trúnað við. *** Í gærkvöldi horfði ég á American Fiction . Hún fjallar um Monk, bandarískan rithöfund og bókmenntakennara (var þetta ritlist eða bókmenntafræði?) sem á í fremur erfiðu sambandi við hvíta líberalsamfélagið í kringum hann, sektarkennd þess og patróníserandi áhuga. Þetta birtist manni fyrst þegar ungur hvítur nemandi mótmælir því að hann hafi skrifað N-orðið á töfluna – hann er að kenna smásöguna „The Artificial Nigger“ eftir Flannery O’Connor. Hann ver notkunina og er sendur í „frí“. Svo sjáum við hann reyna að selja skáldsögu sína, sem byggir á Persunum eftir Æskylos, en fá það svar frá útgefendum að bókin sé einfaldlega ekki „nógu svört“ – hafi ekkert að segja um „hina svörtu upplifun“. Á sama tíma verður hann var við velgengni ungrar svartrar konu, Sintöru Golden, sem hefur nýverið gefið út bókina We’s lives in da ghetto – Sintara er háskólagengin forréttindakona og „virðulega“ máli farin en skrifar á þykku ebonics-máli, sögur um einstæðar svartar gettómæður og gangsterana sem þær elska. Þetta verður til þess að Monk ákveður að reyna fyrir sér með svipuðum hætti – undir dulnefni þó – og skrifar My Pafology (sem er síðar endurnefnd Fuck ) og nær fyrirsjáanlegum vinsældum. Þetta var ágæt mynd. Hún fór kannski heldur grunnt í flesta karaktera sína og var hugsanlega sterkust þegar hún var ekki að reyna að vera allegoría – sagan af systkinunum og af ástarmálaþreifingum Monks var miklu sterkari en allegorían, sem markeraðist af því að slá stöðugt úr og í, af ótta við eiginlega afstöðu. Og persónurnar í fjölskyldunni voru raunverulegri á meðan persónurnar í bókmenntaheiminum voru meira einsog Southpark persónur – sem getur verið alltílagi, en misræmið gekk ekki upp. En hver er allegorían? Hvað tengir óvertúrinn – kennslustundina – við meginbálkinn? Átök manns við væntingar annarra til sín og/eða eitraða/mótsagnakennda afstöðu þeirra? Hvítir vilja banna svarta manninum að skrifa N-orðið á töfluna – haft eftir hvítri konu sem skrifaði fyrir 80 árum – en þeir vilja að hann skrifi sjálfur í eigin nafni skáldsögur fullar af N-, F- og MF-orðum. Monk er síðan auðvitað ekki bara svartur rithöfundur – hann er líka miðaldra, jafnvel á jaðri þess að vera gamall. Hann er fulltrúi gamalla bókmennta, skrifar uppúr Æskylosi, eitthvað sem við fáum aldrei að sjá eða upplifa – í myndinni er af og til vitnað í Fuck og We’s lives in da ghetto , þeim til háðungar, en það eru aldrei nein dæmi, svo ég muni, um góðar bókmenntir, hvorki tilvitnanir né neimdropp til þess að gefa okkur vísbendingar um það hvers konar „gæðabókmenntir“ Monk skrifar/fílar (ef frá er talin Alcools eftir Appollinaire sem er alltaf á borði agentsins – og auðvitað Persarnir eftir Æskylos). Í einhverjum skilningi þarf gremja hans gagnvart „nýju bókmenntunum“ alls ekki að vera tengd kynþáttamálum og gæti staðið alveg án þeirra – Kerouac mætti sams konar gremju eldri fauska, allt nýtt og villt gerir það, í öllum listgreinum; einhverjir muna kannski eftir gamalli ritdeilu á Kistan.is um „bloggmenntir“ eftir útgáfu skáldsögunnar Vaknað í Brussel eftir Elísabetu Ólafsdóttur (sem þá var þekktur bloggari, Beta Blogg a.k.a. Beta Rokk), gott ef þar tókust ekki á Ágúst Borgþór, fyrir ákæruvaldið, og Kristján B. Jónasson varði (hann var ritstjóri Elísabetar). Ég hugsaði líka oft til tveggja annarra dæma – þótt ég viti ekki alveg hvernig þeim var tekið, hvort þau fengu þessa tegund af krítík, en ég held þau hafi fengið þessa tegund af hyllingu. Annars vegar eru það bækur JT Leroy – utangarðsbækur sem áttu að vera hálf-sjálfsævisögulegar en reyndust skrifaðar af einhverri saklausri úthverfakonu – og hins vegar Ett öga rött eftir Jonas Hassen Khemiri sem er skrifuð á úthverfasænsku, en kynnt af rithöfundi sem talar sjálfur (a.m.k. á sviði og í viðtölum) „virðulegri“ sænsku. Monk og Sintara eiga það síðan sameiginlegt að vera bæði að „þykjast“ í einhverjum skilningi – en ekki þó alveg á sama hátt. Monk býr til karakter, Stagg R. Leigh, sem á að vera til og sem hann leikur af og til. Hann segir reyndar að Fuck sé ekki sjálfsævisöguleg heldur einhvers konar saga allra svartra bandaríkjamanna – lýsing á raunsönnum aðstæðum. Sintara gefur ekki heldur í skyn að bækur hennar séu sjálfsævisögulegar, eða að hún sé gettóbarn, heldur segist hún stunda rannsóknir og vitnar jafnvel orðrétt í fólk til þess að auka á ektleika skrifa sinna (eitt gott töts er þegar hún situr og les White Negroes eftir Lauren Michele Jackson, sem fjallar um menningarnám á svörtum kúltúr og hvernig hvítir græði ævinlega á því – sem vekur óhjákvæmilega upp tvær spurningar: a) ætlum við að fara að finna að því nú þegar svartir eru farnir að hafa sína eigin menningu að féþúfu, jafnvel þó það sé klisjukennt og b) er húðlitur næg réttlæting á menningarnámi efri-millistéttarinnar á kúltúr fátækra utangarðsmanna?). Allegorían í American Fiction spyr margra áleitinna spurninga og forðast afstöðu – það eru meira að segja bærilega framkvæmdir meta-fimleikar með þrem- fjórum snúningum í restina til þess að koma í veg fyrir að sagan verði nokkurn tíma sú fullyrðing sem formið kallar á. Og það er í sjálfu sér skemmtilegt. Ég veit ekki hvort mér finnst spurningarnar samt nægilega þungar til þess að verðskulda þessi undanbrögð. (Drasl er drasl; klisjur eru klisjur; viðkvæmni fólks er löngu komin úr böndunum og „N-orðið“ er bara önnur stafsetning á sama orði; það þarf ekki að fara all-in pc gone mad til þess að leyfa sér smá fullyrðingagleði). Og ég velti því líka fyrir mér hvar og hvort „allegorían“ sem frásagnarmáti skilji sig frá „skáldsögunni“ – er hægt að segja góða allegoríu sem hefur loðinn boðskap? Ég tek gjarnan undir með fullyrðingum af því tagi að skáldsögur eigi að spyrja spurninga en ekki svara þeim – þegar rætt er um að bókmenntir geti verið hættulegar, þá er það einmitt þessi skortur á fylgispekt sem veldur, hæfileiki skáldskapsins til þess að sá efa í brjóst hinna vissu – en ég er í augnablikinu ekki viss um að styrkur allegoríunnar liggi þar. Hefði Dýrabær verið betri ef það hefði verið opið fyrir það að Napóleon væri að gera sitt besta og þegar nánar væri að gáð þá hefði meðalaldur í raun hækkað mjög við valdatöku hans og dýrin fengið ókeypis lestrarkennslu og tannlækningar, sem hefði sannarlega ekki verið í boði hjá bóndanum, fyrirrennara hans? Væru Black Mirror þættirnir betri ef við fengjum líka að sjá allt hið góða sem tæknin hefur gert fyrir okkur? Myndum við skilja píslarsöguna betur ef okkur þætti Jesús kannski pínulítið hafa átt þetta skilið? En auðvitað er American Fiction að reyna að fara bil beggja. Að stilla upp sterkri allegoríu en neita því á sama tíma að vera allegoría – annars vegar með afstöðuleysi gagnvart eigin spurningum og hins vegar með tveimur settum af karakterum og sögusviðum, einu sem er raunsæislegt og þar sem persónurnar eru marglaga fólk að díla við hversdagslegar harmsögur, og öðru sem er ýkt og þar sem persónurnar eru staðgenglar fyrir hóp af fólki, steríótýpur (líberal kvenhöfundurinn sem vill réttlæti; íhaldssami karlhöfundurinn sem vill „guts“; kvikmyndaframleiðandinn sem vill bara græða; sleikjulegu forleggjararnir sem vilja þjónka við metsöluhöfundinn; leiðu en samúðarfullu forleggjarnir sem neyðast til að valda vonbrigðum; verðlaunastjórnin sem neyðist til þess að auka á fjölbreytileika og inngildingu). Kannski er áhugavert að staldra aðeins við karakter Sintöru sem við sjáum fyrst einmitt sem erkidæmi um allt sem er að bókmenntunum – hún skrifar steríótýpískt drasl en nýtur gríðarlegra vinsælda – en fær svo einhvers konar væga uppreisn æru eftir því sem líður á myndina, í því að hún virðist líka telja að skáldsagan Fuck sé einfeldningslegt drasl sem afskræmi líf svartra bandaríkjamanna. Og hún fær að virka sem „eðlileg“ manneskja innanum hina rithöfundana – sem eru ýktir. Þegar þau Monk takast aðeins á um fagurfræði í einni senunni er niðurstaðan „raunsæisleg“ – þau lenda ekki á neinum punkti, en tengjast samt, og okkur er leyft að halda að hugsanlega hafi Monk einfaldlega dæmt bókina (sem hann hefur ekki lesið) of hart. En það er líka opið fyrir að Sintara sé einfaldlega vel gefin og hefði getað skrifað miklu betri bók en valið að skrifa þá sem hún græddi mesta peninga á – og að sálarheill sjálfrar sín vegna velji hún að bæla það sem hún veit, að We’s lives in da ghetto sé drasl, en sú bæling brjótist svo jafnvel út sem harðari fordæming á verkum sem minna hana á We’s lives in da ghetto , einsog Fuck hlýtur að gera. Það er spurning hvort það hefði mátt bjarga þessu einfaldlega með því að láta Monk sjálfan vera meira afgerandi – meira líkan sjálfum sér í fyrstu senunni. Hann verður bæði bljúgari og átakafælnari eftir því sem á líður, meira einsog hann stefni í kulnun en brjálæðiskast (tímanna tákn). En þá hefði höfundurinn lent í þeirri gryfju að áhorfendur, einsog lesendur, kenna gjarnan núorðið höfundinum um söguhetjur sínar, ef það er ekki hafið yfir allan vafa að þær séu málpípur þeirra. En þá verður líka eftirbragðið ófullnægjandi, þegar afstaðan er loðin, vegna þess að maður fær það á tilfinninguna að höfundurinn vilji segja eitthvað mjög tiltekið en hafi annað hvort ekki klárað að hugsa það til enda eða þori ekki að segja það. Kannski hefðu þetta líka bara mátt vera tvær myndir. Eitt svona Six Feet Under fjölskyldudrama og önnur svona Dýrabær. Ekki þar fyrir – þetta var ágæt mynd.
Opnunartími sláturhússins
Á dögunum horfði ég á hálfan YouTube-ritdóm um ljóðabók eftir skáldið Atticus, sem ég hafði aldrei heyrt minnst á áður. Þetta birtist bara í algóritmíska flæðinu mínu – yfirskriftin var eitthvað á borð við „ER ÞETTA VERSTA LJÓÐABÓK SEM ORT HEFUR VERIÐ???“ og þetta fannst mér, fyrrum aðstandanda Íslandsmeistaramótsins í ömurlegri ljóðlis t , eðlilega áhugavert. Svo ég smellti. Það stóð svo auðvitað heima. Atticus var að sönnu ekki gott skáld – en þó mjög vinsælt, í einhverjum kreðsum sem ég verð ekki var við. En reyndar var ritdómarinn, Rachel Oates, kannski ekki mjög góður ritdómari heldur. Til þess að undirstrika ömurleika Atticusar valdi hún t.d. að bera hann saman við Shakespeare og John Donne – það er heldur ósanngjarnt – og að auki fannst mér allar túlkanir hennar á ljóðum þeirra Atticusar, Shakespeare og Donne alveg óþolandi kreddukenndar. Ég stóð mig meira að segja að því að fara að verja lélegar ljóðlínur Atticusar í höfðinu – einfaldlega vegna þess að það var þrátt fyrir allt meira í þær spunnið en hún vildi vera láta (þótt það væri ekki endilega mikið eða línurnar sérlega frumlegar). Ég hef reyndar langvarandi antípat á bókmenntum sem mér þykja of-fágaðar – það er margt mikilvægara í bókmenntum en að gera hlutina „vel“ – en það er sennilega önnur Ella. Svo rek ég mig óvenju oft á það þessa dagana að vera ósammála bókmenntalegum útleggingum fólks (t.d. á sögunum í Dubliners, sem ég hef verið að endurlesa, eftir misheppnaðan lestur við lok síðasta mánaðar). Jafnvel svo ég reiðist. Kannski er bara í mér einhver mótþrói. Sem er ágætt, ég kann vel við það. Nú vill YouTube-algóritminn líka helst ekki að ég horfi á neitt annað en slátranir á einhverjum instagramskáldum – ekki síst Atticusi og Rupi Kaur en líka Bo Burnham og Megan Fox og alls konar fólki sem á það sameiginlegt að vera vinsælt en skrifa einsog starfsfólkið í ísskápaseglaverksmiðjunum. Og ekki bara frá Rachel Oates heldur sýnist mér vera heill her af til þess að gera ungum YouTuberum sem nærir vinsældir sínar með því að ranta um léleg ljóð. Sem er bæði áhugavert og gleðilegt – ekki bara að fólki finnist vond ljóðlist vond (sem er fagnaðarefni) heldur að fólk eyði, það best ég get séð, líka talsverðu púðri í að lesa, túlka, ræða og bera áfram betri ljóðlist (og vonandi líka eitthvað nýlegra en Shakespeare og John Donne). Og algóritminn virðist styðja þetta. Skál fyrir því.