Bon Scott drakk sig í hel. Eða ældi sig í hel. Kvöld eitt í byrjun árs 1979 fór hann á fyllerí með vinum sínum, drapst í bílnum á leiðinni heim (s.s. sofnaði áfengisdauða), var skilinn eftir þar yfir nóttina, gubbaði upp í sig og drapst (s.s. lét lífið). Þar fór góður drengur fyrir lítið. *** Það er ekki lítið áfall að missa vin. AC/DC höfðu meira og minna búið saman í 5-6 ár þegar þetta gerist – og þótt Bon og Angus lifðu mjög ólíkum lífum utan sviðs þá voru þeir fjarska nánir – og frontuðu sveitina saman. Bon var vanur að ganga um með Angus á öxlunum á brjálæðislegustu köflunum. *** Það stóð til að leggja niður hljómsveitina þar til mamma Bons bað þá Youngbræður um að láta þetta ekki stoppa sig, það væri ekki í anda Bons og ekki í anda vinskapar þeirra. Og þá fóru menn að litast um og prófa söngvara. *** Bon Scott hafði einu sinni farið á tónleika með hljómsveitinni Geordie og hrifist mjög af frontmanninum, söngvaranum Brian Johnson, og verið tíðrætt um það við vini sína í AC/DC. Ekki bara væri hann fær um rammhása englaskræki heldur væri hann skemmtilegur sviðsmaður og ótrúlega orkumikill. Þá gerði hann sér lítið fyrir, rumurinn sem hann var, og gekk um með gítarleikarann á öxlunum. „Angus – eigum við ekki að prófa það?“ spurði Bon. *** *** Það er reyndar merkilegt að það tók víst nokkur ár áður en Brian og Angus urðu nógu nánir til þess að gera þetta saman. Einsog þeir þyrftu að þróa með sér vinskapinn fyrst – og kannski vildu þeir forðast samanburðinn. Heimurinn þekkti þetta múv frá Bon og Angus – þótt Bon hafi fengið það frá Brian (og Brian sennilega frá einhverjum öðrum). *** Ímyndið ykkur nú að söngvarinn í eftirlætishljómsveitinni ykkar sé dáinn. Þið kaupið nýju plötuna full efa. Það er hægt að skipta um bassaleikara og trommara, rytmasveitina – svo fremi þeir séu ekki lykilmenn í lagasmíðum – en það er afar sjaldgæft að frontmannaskipti heppnist vel. *** Platan heitir Back in Black – sem undirstrikar að þeir eru komnir aftur. Þetta er ekki nýtt band. Þetta er sama bandið í nýjum fötum. Plötuumslagið er svart. **** Þið setjið ykkur í stellingar. Lagfærið níðþunga hlemmana á eyrunum. Hækkið í botn. Stillið á 33 1/3 snúninga og látið nálina falla. Fyrst heyrist suð. Síðan kirkjubjöllur í fullar 20 sekúndur. Þetta er jarðarför og upprisa. Gítarplokkið í byrjuninni er ískyggilegt – sínister. Hljómsveitin kemur inn einn maður í einu – fyrst Angus, þá Malcolm, svo Cliff og loks Phil. Þeir sækja smám saman í sig veðrið. Það heyrist ekkert í söngvaranum. Hljómsveitin keyrir sig í gang – gítarplokkið breytist í eitthvert flottasta rokkriff gítarsögunnar. Gítarriff rokksögunnar. En hvernig hljómar þessi helvítis söngvari? Það eru liðnar hátt í tvær mínútur – og það eina sem þú vilt vita er hvernig hljómar söngvarinn. Og hvernig í ósköpunum ætlar hann að verja þá óverjandi ákvörðun að koma í staðinn fyrir Bon Scott, rokkguð? *** Ég er þrumugnýr, ég er úrhelli.
Ég sæki fram einsog fellibylur
Elding mín leiftrar yfir himni
Þið eruð bara bernsk, en þið eruð feig.
Ég tek enga fanga, ég sýni enga miskunn
og þið streitist ekki á móti.
Ég held á bjöllunni og leiði ykkur til heljar.
Ég næ ykkur ykkur, Kölski nær ykkur. *** Hann ver ekki ákvörðunina – heldur setur á fullt og hefur einfaldlega sókn af miskunnarlausri grimmd, svo rokklendurnar skjálfa og efasemdarmenn gefast upp, fullsigraðir á fyrstu andköfum. *** Ef svo illa vildi til að þið sneruð plötunni öfugt komust þið ekkert betur undan. *** *** Reis upp í svörtu,
kastaði mér flötum.
Ég var of lengi, gleður mig snúa aftur.
Já, ég er sloppinn
úr snörunni
sem hélt mér hér hangandi.
Ég starði á himininn
og hann ölvaði mig.
Afpantið líkvagninn, því ég dey aldrei. *** Það er mikið af setningum í efsta stigi í þessari umfjöllun minni um AC/DC – en það hefur líka með umfjöllunarefnið að gera. AC/DC er ofsaleg hljómsveit og Back in Black er einhver ofsalegasta plata sem hefur verið samin, spiluð og tekin upp. *** Næsta lag á eftir Hells Bells er Shoot to Thrill. AC/DC eru sérfræðingar í góðum byrjunarleikjum svo upphafslagið hlaut alltaf að vera besta lagið á plötunni. Shoot to Thrill byrjar ekki með neinum bravúr. Þetta er skítsæmilegt riff – alls ekki eitt af þeim bestu – og enginn ástæða til að ætla að það myndi „rætast úr“ laginu meira. AC/DC höfðu fram til þessa ekki þróað lagasmíðar sínar mjög mikið – nema bara úr rólegheitum í æsing og læti. En Shoot to Thrill er einmitt lag sem sækir á. Þar sem því hefði átt að ljúka við venjulegar aðstæður – í upphafi fjórðu mínútu – tekur Angus upp á nýju signatúrmúvi (ég held ég fari rétt með að þetta sé í fyrsta sinn sem hann gerir þetta) sem er svona dempað fingur plokk – og er sennilega frægast úr upphafinu á titillagi næstu plötu, For Those About to Rock. Og lagið neglir mann í hjartað. *** Svo heldur þetta bara áfram með sívaxandi brjálæði. Hvert ómetanlega gítarriffið rekur annað. Brian er að vísu, einsog ég hef tönnlast á, ekki jafn fínn textasmiður og Bon – en Back in Black er samt langskásta skáldverkið hans, og Hells Bells, Back in Black, Rock ‘N’ Roll Ain’t Noise Pollution, Givin’ the Dog a Bone og fleiri eru mjög fín. Hans stærsti galli er ákveðið naívitet. Bon var einlæg undirheimafígura og sem slíkur „kunni“ hann að vera hættulegur. Í Night Prowler til dæmis, daðrar hann við alls konar vafasama hluti, en stígur aldrei yfir línuna – í Dirty Deeds hótar hann perrum heimsins. En Brian kann þetta ekki – Brian er einrænn tedrykkjumaður, rokkari á sviðinu en ekki í lífinu – og gengur þar með oft miklu lengra, vegna þess að hann þekkir ekki mörkin. Þetta eru bara pósur og þeim fylgir enginn raunveruleiki og þar með engin ábyrgð. Bon lifði lögin sín, það gerði Brian ekki. *** Þetta er ekki síst augljóst í Let Me Put My Love into You. Sem er eitt af mörgum uppáhaldslögum mínum í öllum heiminum. En hafi nokkurn tímann verið samið lag sem gerir lítið úr nauðgunum, eða daðrar hreinlega við þær, þá er þetta það. Sennilega er það einhvers konar tímanna tákn að enginn hafi bankað í bakið á Brian og sagt „nei, heyrðu, rólex, þetta er alls ekki hægt“. *** Og svo verður maður reyndar líka að gæta sín á því að rugla ekki ljóðmælanda alltaf saman við skáldið eða líta á kvæði sem einfaldan boðskap. Því má vel halda fram að ljóðmælandi í laginu sé einfaldlega sturlaður, frekar en að Brian sé sjálfur á villigötum. Þá er Let Me Put My Love into You Lolita rokkbókmenntanna. Ef Brian væri færari textasmiður hefði ég gefið því séns. Það er samt ekki. En guð hvað þetta er gott lag. *** Um þessa plötu hef ég skrifað áður – í seríu sem dó drottni sínum (eða er enn ókláruð eftir því hvernig maður kýs að líta á það). Þar er allt önnur saga um uppruna þess að ég byrjaði að hlusta á AC/DC. Hún er að vísu ekki ósamræmanleg þeirri sem var sögð hér, vegna þess að ég er alls ekki viss um að ég hafi áttað mig á því sem barn að T.N.T. og You Shook Me All Night Long væru lög með sömu hljómsveitinni. Sem gefur samt bara alltaf út sama lagið. En ég er löngu hættur að skammast mín fyrir að fíla AC/DC. Sá fugl er floginn. #ACDC
Category: Uncategorized
id““:““6d99l““
Sagan Nýhils – tólfta brot brotabrots brotabrotabrots
Við sóttum bækurnar á leiðinni út úr bænum. 2004 eftir Hauk Má og Nihil Obstat, sem ég hafði skrifað. Sigurjón í Letri prentaði og fræddi okkur um allar þær sögufrægu bækur sem hann hafði prentað í gegnum tíðina – fyrir Dag Sigurðarson og fleiri. Sennilega fannst okkur við vera einmitt á réttum stað, í réttri rómantík. En fyrst var þessi ljósmynd tekin – þetta er í tröppunum þarna hjá Grænum kosti. Eða þar sem Grænn kostur var að minnsta kosti einhvern tíma, hinumegin við götuna frá Mokka (þar hittum við ljósmyndarann). Hún er kölluð Bítlamyndin, þótt við séum miklu fleiri en Bítlarnir – kannski Lynyrd Skynyrd væri nær lagi (þeir voru sjö). En hver vill líkja sér við þá? Frá vinstri, Ófeigur Sigurðsson, Steinar Bragi, Haukur Ingvarsson, ég, Bjarni Klemenz, Grímur Hákonarson og Haukur Már Helgason. Myndin er tekin skömmu áður en Haukur Ingvars sagði sig úr félagsskapnum og stofnaði Gamlhil. Og þá voru bara sex (eftir á myndinni). Auk þeirra sem eru á myndinni fóru í þennan fyrir hluta túrsins þau Halldór Arnar Úlfarsson, Kristín Eiríksdóttir og Böðvar Yngvi Jakobsson (Böddi brútal – sennilega kom hann fram sem Oberdada von Brutal). Sennilega kom Haukur Ingvars reyndar alls ekki með á fyrsta legginn. Hann hefur bara komið á Mokka til að vera með á myndinni (en þar söfnuðum við líka saman í bílana). Ég man eftir að hafa opnað bókakassann minn á bensínstöð og farið yfir í næsta bíl til að gefa Hauki Má sitt eintak og benda honum á að hún væri tileinkuð honum. Einhvern veginn vorum við farnir að renna svo mikið saman í eitt eftir veruna í Berlín, að við mundum ekkert hver hafði hugsað hvað (enda höfðu flestar hugsanir sprottið upp í einhverjum samræðum). Þess vegna, sumsé, hann átti alveg jafn mikið í henni og ég, einhvern veginn. Ég man eftir að hafa stöðvað í Ríkinu í Selfossi og fyllt annan bílinn af áfengi. Eitthvað var áreiðanlega drukkið í báðum bílunum, en í mínum kláraðist allt og var búið þegar við komum á Seyðisfjörð um kvöldið, við talsvert uppnám í hinum bílnum, þar sem menn héldu að við værum að „spara okkur“. Ég man eftir að hafa gert hlé á ferð okkar við Jökulsárlón. Þar sem var ekki kjaftur – annað en maður á að venjast núna. Og þetta var vel að merkja í byrjun júlí. Ég hafði aldrei komið þangað áður og ég man ekki til þess að náttúra hafi orkað jafn sterkt á mig og í þetta skipti. Ekki að ég kunni að hafa um það orð, mér hafa alltaf þótt ægilegar lýsingar á náttúrunni vera hjárænulegt klám í besta falli og stækur þjóðernisrembingur í versta falli. Og nú skilst mér að þetta sé einhver minnst sjarmerandi staður landsins. Einhvers konar Niagara Falls Íslands. Mér hefur að vísu alltaf þótt Niagara Falls (bærinn) mjög sjarmerandi staður, en það er sérálit. Ég á enga mynd af Nýhil á Jökulsárlóni – þótt mig minni að þar hafi verið tekin hópmynd – en hér er ég í Niagara Falls, árið 2006. Auk okkar var í bílnum Gunnar Þorri Pétursson, þáverandi starfsmaður Víðsjár. Hann gerði nokkuð langt innslag um ferðina og ég man að í þættinum, sem ég á einhvers staðar á kassettu, segir hann frá símtali þar sem Danni – Daníel Björnsson, myndlistarmaður, Berlínarnýhilisti og þáverandi vert á Skaftfelli – hefði tilkynnt þeim (í hinum bílnum) að á Seyðisfirði biði okkar heitur maður. Allir voru uppveðraðir yfir heita manninum sem reyndist svo auðvitað vera heitur matur. Svona var nú símasambandið í mínu ungdæmi, börnin mín góð. Einsog gerðist gjarna á þessum tíma hafði ég ekkert sofið um nóttina. Ég vann sem næturvörður á Hótel Ísafirði og yfirleitt þegar ég fór eitthvað á fríhelgum, sem gerðist ósjaldan, fór ég beint af vaktinni suður. Þegar við komum á Seyðisfjörð var ég ekki bara rallandi fullur heldur með hvínandi höfuðverk af því sem ég hélt að væri koffínskortur. Ég vatt mér beint að Danna og spurði hversu margfaldan espresso hann gæti gert – mig minnir að það hafi verið tólffaldur, í það minnsta var glasið stórt og vökvinn þykkur einsog síróp. Ég sturtaði þessu í mig og höfuðverkurinn margfaldaðist á augabragði. Þá fékk ég parkódín forte og meira að drekka. Ég veit ekki alveg í hvaða veröld ég var þegar ég steig á svið um kvöldið – en í henni voru miklir þokubakkar. Ég man líka að Friðrika Benónýs var þarna og kom til mín um kvöldið til að þakka fyrir Heimsendapestir, sem hún hafði skrifað mjög fallega um í DV (minnir mig). Og það var pakkfullt og mikil stemning. Ég færði einhvern tíma upptökur af upplestrunum yfir á tölvuna og var með þær við höndina hér um daginn – en svo skipti ég um tölvu og ég hef sennilega asnast til að eyða þeim. Sem er leitt því þetta var afskaplega gott efni. Stína las úr Kjötbænum og söng línurnar úr Komu engin skip í dag. Offi var manna ölvaðastur og urraði stóran hluta úr Roða – maður skildi minnst nema að þetta fjallaði um „horguðinn“ – og svo byrjaði hann að ýta hljóðnemanum að hátalaranum til að búa til fídbakk, aftur og aftur, aftur og aftur, þar til einhver bar hann af sviðinu við talsverðar mótbárur. Ég las hraðar en ég var vanur (og var vanur að lesa hratt). Það eina sem ég á hérna á netinu – af því ég var búinn að hlaða því upp – var þetta: Oberdada von Brutal flytur Raxö ðiv aná (Öxar við ána) ásamt Halldóri Arnari Úlfarssyni, sem leikur á prótótýpu af dórófóni. Það heyrist reyndar eiginlega ekkert í dórófóninum á þessari upptöku. Hljóðfærinu lýsir Jónas Sen svo: Hvað er eiginlega dórófónn? Það er hljóðfæri sem er hugarfóstur Halldórs Úlfarssonar myndlistarmanns. Þaðan kemur nafnið; dórófónn er stytting á Halldórófónn. Þetta er eins konar selló, að hluta til rafknúið en með hljómbotni og strengjum. Hljómbotninn er furðulegur í laginu, manni dettur í hug plastselló sem einhver hefur ráðast á og lamið í klessu. Notagildi dórófónsins virðist vera mjög sveigjanlegt. Á tónleikum í Norðurljósum í Hörpu á tónlistarhátíðinni Tectonics var spilað á hann eins og selló. En svo voru líka framkölluð með honum undarleg hljóð sem minntu bæði á orgel og rafmagnsgítar. Við sváfum í tómu húsi við hliðina á Skaftfelli – en þar mátti held ég ekki vera með neitt partístand (ég hef sennilega verið of svartur, því ég man ekkert hvort það var eitthvað partístand, sennilega var samt partístand). Mig rámar í að hafa eitthvað verið að þvælast úti með Stínu og Offa (sem voru rétt að byrja að „stinga saman nefjum“ – ég man ekki hvort við uppnefndum þau svo þau heyrðu, en þau voru oft kölluð Sid & Nancy, af augljósum ástæðum). Hér er einhver tímalapsus. Við fórum austur á föstudegi – hugsanlega var upplesturinn þá á laugardegi. Því það var áreiðanlega sunnudagur þegar við fórum. Og þann dag vöknuðum við þunn og keyrðum á Höfn í Hornafirði. Þegar við höfðum keyrt austureftir var mikið talað um yfirstandandi humarhátíð í bænum – og lögð áhersla á að þetta væri fjölskylduhátíð, ekki einhver fylleríishátíð. Sem truflaði okkur lítið, enda vorum við þá þegar frekar volkuð. Að keyra inn á Höfn var samt eftirminnileg reynsla. Það var einsog það hefði fallið partíkjarnorkusprengja á bæjarfélagið. Úti um öll tún voru tómir bjórkassar, yfirgefin tjöld flaksandi í vindinum og hálfklæddir timbraðir hátíðargestir að leita að skónum sínum og/eða bíllyklunum, ringlaðir á grasflötum. Við vorum bókuð með upplestur í Byggðasafninu, sennilega um 17 leytið. Við Ófeigur brugðum okkur á veitingastað niðri í bæ. Þar pöntuðum við okkur hvor sinn bjórinn. Ég man eftir uppgjöfinni í augum afgreiðslukonunnar. Það var einsog hún vildi spyrja hvort þessu ætlaði aldrei að linna. Hvort þessir partísturluðu aðkomumenn gætu ekki bara drullað sér heim. Við Offi tókum bjórana okkar skömmustulegir og settumst út í horn til að spjalla og komum okkur síðan út hið snarasta. Þegar við komum síðan á Byggðasafnið kom í ljós að það hafði ekki upp á neinn samkomusal að bjóða – og samanstóð af mörgum litlum herbergjum. Við enduðum á að lesa upp á bakvið afgreiðslukassann – sem var inni í svona kassalaga diskvirki sem tók upp næstum allt plássið í herberginu. Það var rétt svo ein mannsbreidd utan um það – til að hægt væri að ganga í kringum það. Og þar var áheyrandinn. Sem var kannski tveir, ég man það ekki. En þetta var skásta herbergið og kom auðvitað ekki að sök, fyrst ekki mættu fleiri. Ég held að Bjarni Klemenz hafi verið sá Nýhilistinn sem var í bestu formi þennan daginn – og las að mig minnir einhvern brjálæðislegan texta um alter-egóið sitt, Deleríum Klemenz, og George W. Bush. Eftir upplesturinn var debaterað um hvort við ættum að dveljast í Höfn um nóttina, einsog var í boði, eða drífa okkur í bæinn og reyna að ná á Sirkus fyrir lokun. Síðari valkosturinn varð úr. Og rétt náðist – ég held við höfum náð einum bjór (og kannski svo ráfað í eftirpartí einhvers staðar, sem var sennilega tilgangurinn með innlitinu). Lauk þar fyrsta legg ljóðapartítúrsins 2003.
createdTimestamp““:““2024-05-19T11:58:23.708Z““
Ég hef alltof lítið náð að spila síðustu vikuna. Ég var eitthvað að möndla við að æfa tóneyrað – aðallega með því að pikka upp hljóma í lögum sem ég hlusta á og spila melódíur sem ég man án þess að hafa neitt til hliðsjónar. En svo var Nadja lasin fyrstu daga síðustu viku og ég svo strax í kjölfarið og gítarsmíðin tók yfir allan lausan tíma frá fimmtudegi (ásamt því reyndar sem ég smíðaði Zelda-sverð fyrir Aram, til notkunar á maskadaginn). Nú er ég að fara til Münster á miðvikudag og kem ekki aftur fyrren á mánudag svo það verður líklega lítið úr spileríi og smíðum. En ég ætti samt að reyna að læra a.m.k. eitt nýtt lag í kvöld eða á morgun. Var að spá í Jesus Left Chicago með ZZ Top. Það er mjög einfalt en ég kannski læri þá textann líka. Það er hægt að gera það gítarlaus í Münster. *** Hlynurinn kom með póstinum á miðvikudag. Ég reif mig upp úr flensunni til að líma hann saman svo ég kæmist með hann til Dodda í Fab Lab á fimmtudeginum – því það er bara opið á fimmtudögum og þriðjudögum. Alla jafna. Það var óþægilega mikil sveigja í spýtunni og við Doddi tókum hana yfir í trésmíðadeild til Þrastar til að spyrja ráða og hann mælti með því að við myndum pressa hana yfir nótt í til þess gerðri pressu. Doddi kom mér þá til bjargar með að hleypa mér inn á föstudeginum þótt það væri alls ekki opið. Við byrjuðum á að fræsa spýtuna niður í 6,5 mm þykkt og fræstum svo fyrir útlínunum.
Ég fór beint með spýtuna heim og sagaði í hana f-gatið og límdi hana fasta á búkinn. Ég vildi gera þetta hratt og örugglega áður en hún myndi sveigjast aftur til baka. Ég gerði líka einhverjar tilraunir með að festa bindingu í f-gatið en þær voru ekki sérlega uppörvandi og kannski sleppi ég bara bindingu þar. Þetta eru mjög skarpar beygjur og erfitt að fá plastið til að setjast almennilega að kantinum. Þegar ég fór að mæla fyrir staðsetningu á hljóðdósum og hálsvasa kom í ljós að sennilega hef ég gert dálitla skyssu. Hálsinn er í Gibson hlutföllum – 628 mm skali – en ég hafði verið að reikna fjarlægð vasans að brú útfrá Fender hlutföllum, sem er með 650 mm skala. Sem þýðir að í staðinn fyrir að brúin komi til með að vera 181 mm frá vasanum verður hún 170 mm frá vasanum – sirka – og færist því fram um heilan sentimetra. Ef ég er ekki eitthvað að rugla. Þetta gæti þýtt að ég þurfi að færa hljóðdósirnar nær hver annarri og skera aðeins í klórplötuna (þessi á myndinni er aukaplata – sú alvöru er í Reykjavík í prentun, það er líka verið að grafa í hálsplötuna). Svo það sé bærilegt pláss fyrir allt. Ég ætla samt ekki að fræsa fyrir hljóðdósum eða hálsi fyrren ég er kominn með hálsinn í hendurnar og get reiknað þetta allt nákvæmlega út. Ég var vel að merkja að fylla út tollskýrsluna fyrir hann og fæ hann vonandi á morgun. Ég fræsti samt fyrir hnappaholinu og tengdi það við innputholið. Það var bölvað moj. Ég var ekki með nógu langan bor og þurfti að koma báðum megin að þessu og bora nokkrum sinnum til að finna leiðina. Svo gerði ég smá trékítti úr gömlu sagi til að fylla í götin. En það er nú ekki sérlega fallegt – skiptir kannski litlu svona innan í, en ég hugsa að ég reyni nú samt aðeins að fixa það. Ég prófaði mig líka áfram með bæsið, bæði á hlyn og mahóní. Ég byrjaði á að bæsa svart á hlyninn og pússa það næstum alveg upp. Svo smá rauðsvarta blöndu sem ég pússaði líka upp, svo nokkur lög af rauðblárri búrgúndarblöndu. Ég setti smá af sömu blöndu á mahóníið til samanburðar, þótt ég sé ekki búinn að grain-fylla það. Þetta er vel að merkja allt afgangsefni (ég nota kannski þennan hlyn einhvern tíma en sný honum þá hinsegin). Mahóníið er ósnert þarna neðri hlutinn. Svarta bæsið dregur svona fram æðarnar í hlyninum – ofan á þetta fer svo tung-olía og bílabón. Næst fræsti ég rásina fyrir bindinguna með dremli og til þess gerðum bita og græju frá Stew Mac. Það var rosalegt moj að ná því sæmilegu án þess að skemma gítarinn. Þessi mynd er tekin áður en ég pússaði rásina með 60 gritta sandpappír. Það skánaði nú umtalsvert við það. Næst notaði ég tonnatak til þess að líma bindinguna fasta. Og hárþurrkuna sem ég gaf Nödju einu sinni til þess að hita og beygja bindinguna. Það var líka mikið þolinmæðisverk og ég er ekki alls kostar ánægður með hvernig til tókst – aðallega vegna þess að rásin var skemmd á a.m.k. einum stað. Þar er dálítið gap milli bindingar og búks sem ég þarf annað hvort að fylla með bindingu uppleystri í acetoni eða tréfylli. Einsog sjá má var drukkið í vinnunni í gær. Þetta er Biska – króatískur snaps úr mistilteini. Mjög gott. Ég keypti á sínum tíma líka þykkari bindingu ef ég skildi klúðra – auðveldara að stækka rásina en minnka hana. Og nýtti mér það í gær þótt það væri reyndar ekki vegna neins klúðurs. Ég ákvað bara að fela alveg skilin á hlyninum og mahóníinu með bindingunni – meðal annars vegna þess óhjákvæmilega litamismunar sem verður eftir bæsingu. Svo veit ég auðvitað ekkert hvernig þetta lítur út undir öllu þessu teipi. Ég kem til með að þurfa að pússa þetta helling til. Ég gerði tilraunir með lím áður en ég valdi eitthvað „industrial grade“ tonnatak og þetta ætti nú að halda. En það er ómögulegt að segja hvort það séu mörg álíka göp undir teipinu fyrren ég er búinn að fjarlægja það og pússa svolítið. Það gerist í kvöld og á morgun kemur vonandi hálsinn og þá fræsi ég fyrir honum. *** Gítarleikari vikunnar er St. Vincent / Annie Clark. Ég átti rosa erfitt með að velja gott myndband – en fann svo þetta best off þar sem hún fer fullkomlega á kostum, og stundum hamförum. Það sakar heldur ekki að signatúr-gítarinn hennar frá Ernie Ball er ógeðslega fallegur – en hann er reyndar ekki í neinni af þessum klippum, hann er ekki nema svona 2-3 ára gamall, svo ég henti bara með einni mynd af honum í bónus. Jack White spilar líka stundum á svona.
id““:““5i5la““
Blow Up Your Video er ellefta hljóðversplata AC/DC og kemur í kjölfar 3,9 platna niðurlægingarskeiðs í sögu bandsins og sú síðasta áður en Guns N’ Roses endurreisa list gítarrokksins og færa hana í nýjar hæðir með frumraun sinni, Appetite for Destruction. *** Eftir því sem maður kynnist hljómsveit betur þeim mun betur sér maður mismuninn – þú veist, blús er ekki bara eitt lag, frekar en dauðarokk eða djass eða ópera, einsog mörgum finnst sem heyra bara ávæninginn annað veifið og finnst hann kunnuglegur. Ég hef verið manna fyrstur til þess að taka undir með Angus Young, sem játaði því að þeir hefðu nú eiginlega bara alltaf gefið út sömu plötuna. Það verður hins vegar minna og minna satt eftir því sem maður sökkvir sér ofan í þetta. *** Í fyrsta lagi er ég farinn að heyra Geordie áhrifin. Þessar diskórokklaglínur voru að vísu þarna á Bon-árunum líka (t.d. í Touch too much) en þær skerpast mikið með Brian – hann er einfaldlega miklu meira clean cut en Bon og skotnari í poppmelódíum. Hugsið ykkur You Shook Me All Night Long og Mistress for Christmas (af næstu plötu, Razors Edge) versus Highway to Hell eða Riff Raff. Hér er Nick of Time augljósa Geordie lagið. *** *** Í öðru lagi er ég farinn að taka eftir þróunum hjá Angusi. Hann fær dellur fyrir tilteknum trixum og fullkomnar þær á nokkrum árum og snýr svo að einhverju öðru. Ég hef áður nefnt þetta hvernig hann hálfvegis krosspikkar sóló riff (krosspikkar er auðvitað rangt, því hann fer oft ekkert á milli strengja – en hann er að stökkva milli áttunda á sama hátt), hvernig hann fer skyndilega að demp-plokka þriggja strengja hljóma neðarlega á hálsinum. Á þessu niðurlægingarskeiði á hann sínu bestu kafla þegar hann stillir allt gain svoleiðis í botn að gítarinn vælir við minnstu snertingu og svona hálfpartinn titrar svo yfir strengina – slengir fingrunum til og frá svo það koma flaututónar og alls kyns óhljóð ofan í sjálfar nóturnar. Tónninn verður einmitt lýsandi fyrir þetta grunnelement í konseptinu AC/DC – mann finnst einsog hann sé að leiða rafmagn úr gítarnum í hlustirnar á manni. *** Í þriðja lagi er ég farinn að taka miklu meira eftir því hver er að tromma. Hér spilar Simon Wright – einsog á síðustu tveimur – og hann er bara hálfvonlaus. Vantar allan kraft og attitúd í hann – Phil Rudd er vandræðafígúra, augljóslega, en hann er samt fantatrommari. Með sterka upphandleggsvöðva og kann að tromma fast. Það er mikill kostur í svona bandi. Simon Wright vantar bara allt úmf – hann meinar þetta ekki nógu hart. *** Í fjórða lagi eru þessar plötur bara svo misgóðar. Frá algerlega óeftirminnilegum klisjum yfir í sturlað og ógleymanlegt rokk. Og stutt á milli samt – samt er næstum einsog þetta sé allt sama lagið. Þetta er eilíft stríð við herslumuninn. *** Blow Up Your Video er ekki sérstök, þannig lagað. Ég var að hlusta á Highway to Hell á vínyl áður en ég setti hana aftur á í gegnum Spotify til að skrifa þetta og það er rosalega langt á milli þeirra í gæðum. Sándið í græjunum skiptir máli, en það er líka mixið, líka að Brian er ekki að standa sig, lagasmíðarnar eru upp og ofan (Malcolm er þarna á barmi þess að fara í meðferð) og svo er bara mid eighties og það var ekki góður tími fyrir þessa músík, var enginn að uppskera mikið á gítarekrunum. *** Brian er sterkari á þessari en síðustu þremur. Einsog hann sé að ná vopnum sínum aftur. Gítarinn er veikari en á köflum mjög fínn samt (þetta er náttúrulega alltaf sterkasta vopn sveitarinnar – þessir bræður eru dýrðlegir á sínum versta degi). *** Það er líka augljóst að þeir eru á uppleið. Það er búið að snúa skútunni við – og styttist auðvitað í Razors Edge. Auðvitað voru þeir löngu búnir að sanna sig – maður gefur ekki út plötur einsog Highway to Hell og Back in Black og gleymist neitt í bráð – en þetta var búið að vera ansi þunnt í nokkur ár og fer nú loks að þykkna. Lög einsog This Means War, That’s the Way I Wanna Rock and Roll og Meanstreak eru einfaldlega frábær lög og hefðu sómt sér vel á hvaða Acca Dacca plötu sem er – þótt þau hefðu kannski aldrei orðið singlar. *** #ACDC
createdTimestamp““:““2024-06-10T09:38:46.152Z““
Ég er að gleyma einhverju. Ég hef ekkert lesið – varla litið í bók – svo það er ekki það. En ég er að gleyma einhverju. *** Ég las upp sjálfur í Madrid á föstudag – með Önnu Axfors, Adam Horovitz og Gaiu Ginevri Giorgi. Ég held talsvert upp á Önnu, sem er sænsk og ég hef þýtt, en þekkti ekki Adam og Gaiu fyrir. Hann er breti, frá Stroud, og hóf ferilinn á því að lesa upp – átta ára gamall – með Allen Ginsberg. Pabbi hans var stórbokki í ensku performanssenunni í gamla daga og þetta æxlaðist bara einhvern veginn. Hann var að hluta til með músík undir, sem gerði lítið fyrir mig, en ljóðin voru góð. Gaia, sem er ítölsk, var líka með músík og looper – tók upp og talaði ofan í sjálfa sig. Ég skildi ekki ljóðin og það var engin þýðing (ekki heldur á spænsku) en heyrðist þau vera í rómantískari kantinum (það sem ég skildi). Þetta var hluti af Versopolis-dagskrá – sem er evrópskt ljóðaprójekt og samstarf milli hátíða – og einsog hefði býður voru gefin út hefti með ljóðunum okkar á frummáli, ensku og markmáli hátíðarinnar. Heftin hjá Poetas hátíðinni voru mjög falleg og þegar þeim var raðað saman á borðinu mynduðu forsíðurnar borðspil – og við fengum kalla og teninga með til að spila. *** Seinna kvöld Poetas hátíðarinnar var Griotskvöld. Griot er vestur-afrískt hugtak yfir ljóðskáld og sögumenn og höfundarnir áttu það allir sameiginlegt að vera af afrískum uppruna – en á ólíkan hátt. Sumir voru frá Ghana, aðrir svartir katalónar og enn aðrir frá Jamaica. Ég kom inn þegar Mutombo da Poet var að flytja sögur og leist eiginlega ekkert á blikuna. Hann var mjög upptekinn af internetinu og á köflum var þetta eiginlega meira einsog að hlusta á einhvern röfla um samfélagsmiðla – hvað þeir væru frábærir og hvað þeir væru samt hættulegir – og ég sá ekki alveg hvað þarna var sagnamennska eða skáldskapur. Á eftir honum kom Koleka Putuma frá S-Afríku. Hún byrjaði ofsalega sterkt – kannski spilaði inn hvað skáldið á undan var leiðinlegt, kannski spilaði inn hvað hún er ung (tuttuguogeitthvaðlítið) – en mér leið nánast einsog ég væri að horfa á eitthvað sögulegt. Hún hélt svo ekki alveg dampi og seinni helmingur upplestrarins var ekki jafn svakalegur, textinn ekki jafn sterkur – en alltaf góður. Ég ætla að kaupa bókina hennar, Collective Amnesia, og langar að þýða a.m.k. 1-2 ljóð úr henni. D’Bi Young Anitafrika var næst. Frá Jamaica. Hún las blaðlaust einsog Mutombo en var jafn grípandi og hann var það ekki – kallaði þetta dub-ljóðlist, las, talaði, söng, æpti, hvíslaði. Ég veit ekki hvort það var nokkuð varið í textann – sem ljóðlist – hún var einfaldlega of töfrandi og fær, of mikill ofsi í henni til að maður gæti lagt nokkuð yfirvegað mat á það. En svo skiptir það kannski ekki neinu máli – maður á ekki að gefa blaðsíðunni þetta æðislega vægi. Á sviðinu birtust bókmenntirnar sem flutningur og hún negldi salinn með sögum. Ég þoli yfirleitt ekki neitt sem minnir of mikið á slamm – og þetta gerði það sannarlega – en þetta var epískt. *** Casa de Papel – þriðja þáttaröð. Þetta er nú ljóta sorpið! Fyrsta serían byrjaði skemmtilega en þynntist hratt út. Önnur serían hraðspólaði út í melódrama og ódýrar lausnir – en þriðja er alveg gersamlega út úr kú. Prófessorinn er alltaf búinn að hugsa fyrir öllu en lausnirnar eru gersamlega sértækar. Plottholurnar eru á stærð við budgetið, tónlistin er generískt stemningsrokk (ég fíla alveg Black Keys, en ég meina kommon). Leikararnir eru alltaf með tárin í augunum. Af hverju er ég að horfa á þetta! Af hverju er ekki búið að cancela þessu! *** Brooklyn 99 – fimmta þáttaröð. Jafn mikil dásemd og Casa de Papel. Rosalega næs, fyrirsjáanlegt en fyndið. Jafn gott og meinstrím-skemmtisjónvarp getur orðið. Og eitthvað svo heilnæmt – PC og millennial en heilnæmt. Ef Bill Cosby hefði ekki reynst vera Bill Cosby væri Cosby-show líkingin við hæfi hérna. Sögupersónurnar eru mjög mótaðar og fyrirsjáanlegar og kunnuglegar og þetta er stundum einsog að vera á færibandi – en bara of vel gert til að maður geti haft neitt á móti því. *** Ég horfði loksins á Roma. Mér fannst hún frábær þegar ég slökkti á sjónvarpinu. En svo situr eiginlega fátt eftir. Sagan – um þjónustustúlku ríka fólksins sem verður ólétt eftir einhvern dólg – er bæði falleg og átakanleg og realísk. Tökurnar eru ótrúlega vel gerðar – upphafssenan þar sem vélin starir lengi ofan í poll af skúringavatni sem skolast til og frá og svo birtist flugvél sem speglast af himninum – er einsog svona konfektmolalistaverk. Eitt af því sem truflaði mig á meðan ég var að horfa á hana – sennilega það eina – var einmitt hvað hún var falleg. Það skyggði nánast á sjálfa söguna, á harminn – setti hana í eitthvað instagram-filterbox af óraunveruleika. Kannski er það bara vandamál í samtímanum að allt er orðið listgert – allt er stílíserað – og þar með verður jafnvel mjög góð stílísering hálfgert kits. Samt frábær mynd, einhvern veginn. Svolítið óþægilega miklir stétt-með-stétt straumar fyrir sósíalistann í mér – en samt frábær mynd. Segjum það bara. *** Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó eftir Þorvald Þorsteinsson er sennilega bara ein af bestu barnabókum í heimi. Hún er ofsalega falleg, sorgleg, djúp og dásamleg – og á þannig máli að ég skil varla að börnin mín, sérstaklega það yngra, hafi enst í að hlusta á mig lesa hana alla án þess að kvarta yfir ljóðrænu orðfærinu. Það var áreiðanlega fullt af orðum og orðasamböndum sem þú skildu ekki. En bókin er einhvern veginn alveg fullkomlega dáleiðandi og við vorum öll sprengfull af höfgi þegar lestri lauk. *** Ace Ventura. Það var Ace Ventura sem ég var að gleyma. Úff. Frábær mynd. En úff. Meistaraverk í slappstikk – Jim Carrey er magnaður. En jesús almáttugur hvað hún er hómófóbísk. Fyrir þá sem ekki muna – eða hafa ekki séð hana – gengur plottið (spoiler alert!) allt út á að höfrungaþjófurinn er geðsjúkur f.v. fótboltakappi sem hefur breytt sér í konu – þegar það uppgötvast eru allir spýtandi í sífellu af viðbjóði. Ég velti aðeins vöngum yfir nokkru. Sameiginlegt einkenni minnar kynslóðar og sambands okkar við barnamenningu foreldra okkar er að við tengdum lítið – hvort sem það var Roy Rogers eða Ármann Kr. Einarsson – og ástæðan var áreiðanlega eitthvað sakleysi. Samband mitt og minnar barnamenningar við börnin mín er svo öðruvísi – yfirleitt finnst þeim þetta allt mjög skemmtilegt (og Aram var í skýjunum með Ace Ventura). Við foreldrarnir erum hins vegar stundum einsog kleinur yfir þessu. Á aðra höndina er mikið af mjög góðu stöffi þarna og ég er 100% talsmaður þess að maður hafi innsýn inn í aðra tíma en sína eigin – önnur viðmið. Á hina höndina fylgja auðvitað allir fordómarnir með. Annað sem ég velti síðan vöngum yfir var hvort það væri síðan í grunninn nokkuð að því að gagnkynhneigðum karlmanni þætti ógeðslegt að kyssa (óvitandi) annan karlmann. Mér finnst það ekki sjálfum en ég held ég skilji alveg tendensinn (og hugsa að ég væri ekki sáttur við blekkingarnar). Tendensinn er svo náttúrulega líka til staðar með breyttum gerendum – lesbía sem léti karlmann plata upp á sig keleríi á fölskum forsendum væri sennilega ekkert í skýjunum með það. En það er aðallega ekki sambærilegt vegna pólitískra aðstæðna (sem börn eru sem áhorfendur að einhverju leyti stikkfrí frá – þau hafa nægan tíma til að öðlast sögulega vitund seinna og hluti af því er að þekkja heiminn einsog hann hefur verið). Þriðja var síðan bara hvað þetta var landlægt í gríni á tíunda áratugnum og hvað maður spáði lítið í því. Þetta var samt ekki einhlítt – þetta er líka áratugur Priscillu og Rocky Horror gekk endalaust í leikhúsum – og ef maður færir fókusinn yfir í dramað erum við með allt frá Philadelphia til Fresa y Chocalate til Fucking Åmål og svo framvegis og svo framvegis. Ég held það hafi margt opnast og kannski var ekki alveg tilviljun að grínið hafi líka verið meira riskí – kannski fór það bara ágætlega saman að Andrew Dice Clay hafi verið á fullu á sama tíma (og ég er ekki viss um að þetta hafi verið pólitískir kontrastar beinlínis, heldur einhvers konar undarlegir samferðarmenn – maður átti að vera á jaðrinum og Dice og My Own Private Idaho uppfylltu þau skilyrði. *** Gítarleikari vikunnar er The Surrealist. Lagið heitir Enigma.
2019) og þýðingu úr spænsku á Snyrtistofunni eftir Mario Bellatin (Skriða
Vestfirðir hafa löngum verið líflegur bókmenntaheimur, ekki bara sem sögusvið, heldur sem heimkynni og vinnustaður starfandi rithöfunda, bæði fólks sem er uppalið á svæðinu og annarra sem hafa tekið það í fóstur. Á þessu fyrsta kvöldi vestfirskra heimsbókmennta mæta til leiks fimm höfundar sem hafa allir ólíka tengingu við svæðið og ólíkan uppruna – hin finnska Satu Rämö, sem hefur nýverið skrifað sinn fyrsta krimma, sem gerist einmitt á Ísafirði; Helen Cova frá Venesúela sem hefur verið búsett á Flateyri og Þingeyri síðustu ár, og gefið út bæði barna- og fullorðinsbækur, og er við það að standsetja forlag á Flateyri sem sérhæfir sig í rómansk-amerískum bókmenntum; Eiríkur Örn Norðdahl, sem er uppalinn Ísfirðingur frá Kópavogi, Akranesi, Iserlohn og Norðurárdal; Birta Ósmann Þórhallsdóttir, smásagnahöfundur og ljóðskáld sem rekur bókaforlagið Skriðu á Patreksfirði; og hin litháíska Greta Lietuvninkaite, sem auk þess að kenna ritlist á Ísafirði hefur gefið út vinsæla bók í Litháen, sem fjallar meðal annars um Ísland og Lithaén. Vonir standa til þess að vestfirsk heimsbókmenntakvöld geti orðið að reglulegum viðburði þar sem lögð verður áhersla á höfunda á og frá Vestfjörðum auk bóka sem gerast á svæðinu. Nánar um höfundana: Birta Ósmann Þórhallsdóttir er fædd árið 1989 og er aðstoðarmaður kattarins Skriðu. Hún nam ritlist við Háskóla Íslands og myndlist við Listaháskóla Íslands og Escuela Nacional de Pintura, Escultura y Grabado „La Esmeralda“ í Mexíkóborg. Nú í haust kemur út hennar fyrsta ljóðabók, Spádómur fúleggsins, en hún hefur áður gefið út örsagnasafnið Einsamræður (Skriða, 2019) og þýðingu úr spænsku á Snyrtistofunni eftir Mario Bellatin (Skriða, 2021). Hún hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2016. Skriða bókaútgáfa var stofnuð árið 2019 og er ein af fáum bókaútgáfum á landsbyggðinni, staðsett í Merkisteini á Patreksfirði, en stofnandi og rekandi útgáfunnar er kötturinn Skriða. Skriðu er annt um fegurðina í smáatriðum og handverki og því eru bækurnar úr góðum pappír og handverkið í hávegum haft. Takmarkað upplag er einnig af bókunum, þar sem Skriða kýs að taka ekki þátt í offramleiðslu og sóun, heldur halda í heiðri bókinni sem grip. Eiríkur Örn Norðdahl er rithöfundur frá Ísafirði. Hann hefur gefið út ótal bækur, ljóð, skáldsögur, ritgerðir og meira að segja matreiðslubók. Fyrir þær hefur hann hlotið ýmsa upphefð – meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin og tilnefningu til Prix Medici Étranger og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Bækur hans hafa verið gefnar út á ótal tungumálum. Nýjasta bók hans er skáldsagan Einlægur Önd, en undir lok októbermánaðar kemur barnajólahryllingsbókin Frankensleikir í búðir, og er það fyrsta barnabók Eiríks. Á þessum vestfirska heimsbókmenntakvöldi hyggst Eiríkur hins vegar lesa úr óútgefinni ljóðabók sem fjallar meðal annars um Hamraborgirnar tvær, sjoppuna á Ísafirði og hverfið í Kópavogi. Greta Lietuvninkaitė er litháískur rithöfundur, búsett á Ísafirði. Hún gaf nýverið út sína aðra bók, Milli tveggja stranda (Between Two Shores), þar sem hún býður lesandanum að kanna ólíkar hliðar hins kvenlega, sem og að horfast í augu við persónulegar skuggahliðar sínar. Fyrsta bók hennar, Feluleikur (Slėpynės) vakti mikla athygli í Litháen og er löngu uppseld. Hana gaf Greta út þegar hún var 25 ára gömul eftir að hafa útskrifast úr sálfræði og búið í Kanada í eitt ár. Næst ætlar Greta að skrifa um sjálfa sig og söguna af því hvernig hún flutti til Íslands í væntanlegu verki sem nefnist „Hennar rödd“ (Her Voice) sem og í tímariti Ós Pressunnar. Á Ísafirði er Greta þekkt fyrir að halda ritlistarsmiðjur undir heitinu „Write it out“ þar sem þátttakendum er kennt að beita ótal aðferðum til þess að vingast við vetrarblúsinn. Helen Cova er Venesúelafæddur rithöfundur, stofnandi Karíba útgáfu og núverandi forseti Ós Pressunnar. Fyrsta barnabók hennar, Snúlla finnst gott að vera einn, kom út árið 2019 á íslensku, ensku og spænsku. Önnur bók hennar Sjálfsát, að éta sjálfan sig, smásagnasafn fyrir fullorðna, kom út árið 2020 á íslensku og ensku. Smásagnasafn Cova hefur verið valið af Þjóðleikhúsinu til að breyta í leikrit. Sömuleiðis hefur hún tekið þátt í mörgum viðtölum og upplestri víðs vegar um Ísland. Hún vinnur nú að fjölbreyttum bókmenntaverkefnum og er stefnt að því að önnur bókin í Snúlla seríunni komi í verslanir í lok árs 2022. Satu Rämö er finnskur rithöfundur, búsett á Ísafirði. Hún hefur gefið út fjöldann allan bókum sem hafa náð metsölu og hlotið ýmis verðlaun, allt frá ferðabókum um Ísland til endurminninga og væntanlegrar bókar um íslenskt prjón. Fyrsta skáldsaga hennar er glæpasagan Hildur. Hún fjallar um rannsóknarlögregluna Hildi Rúnarsdóttur sem rannsakar mannshvörf hjá lögreglunni á Ísafirði. Ásamt finnska starfsnemanum og kollega sínum, Jakob Johanson – sem er mikill prjónasnillingur – afhjúpar hún dularfullar glæpaflækjur í samheldnum smábæ í kjölfar óútskýrðs hvarfs tveggja skólastúlkna. Seinni bókin í þessum flokki, Rósa & Björk, kemur út í mars 2023 og sú þriðja síðar sama ár. Á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru frá útgáfu Hildar í Finnlandi hefur bókin selst í 60 þúsund eintökum. Hún er væntanleg á þýsku, dönsku, eistnesku, sænsku og hollensku. Dagskráin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Staðsetning og tími: Bryggjusalur, 6. október kl. 20:00
id““:““e66hn““
Nú er allt að eiga sér stað. Smám saman. Páskar í lofti. Ísafjörður er byrjaður að fyllast af Reykvíkingum í lopapeysum – sumir eru hálfgerðar Mugisondúkkulísur, búnir að safna skeggi og farnir að ganga svona með hressilegu vaggi, rétta öllum spaðann og alltaf gjöðbilað hressir. Svona eru þeir aldrei á Laugaveginum. Sennilega er bara eitthvað þunglyndislegt við Laugaveginn. En það er auðvitað bara einn Mugison. Og kannski einn Örn Elías og einn Öddi. Aino á fjögurra ára afmæli á þriðjudag. Hún fær Frozentertu og froskalappir (ekki segja henni samt, það er leyndarmál). Hún er ógurleg sunddrottning og hefur eiginlega verið synd frá því áður en hún varð tveggja ára. Við fórum svo mikið í sund þegar við bjuggum í Víetnam. Og hún er svo óhrædd, annað en við kjúklingarnir skyldmenni hennar. Ég er að ljúka við þýðingu. Eða var að því, ég er nú bara í einhverju snurfusi. Á leikriti. Og að fara að gefa út bók auðvitað, alveg á nippinu – Óratorrek – kominn með kassa af bókum en hún fer ekki í búðir fyrren eftir páska. Svona er að vera höfundurinn, því fylgja alls konar fríðindi, þið mynduð ekki trúa því ef ég segði ykkur frá því. Á fimmtudag les ég úr bókinni í tvígang – fyrst í Gallerí Úthverfu, þar sem ég ætla að endurtaka gjörning sem ég framdi fyrst í Norræna vatnslitasafninu í Skärhamn og lesa sama ljóðið aftur og aftur í eina klukkustund. Ljóðið heitir „Ljóð um list þess að standa kyrr í galleríi“ og var samið fyrir opnun á sýningu úr Guerlain-safni Pompidou. Í Úthverfu er það opnun hjá Erni Alexander Ámundasyni, sem er það heitasta í íslenskri myndlist. Og um kvöldið er ljóðalistatónlistarkvöld í Tjöruhúsinu með Skúla mennska, Björk Þorgríms, Kött Grá Pje og Lomma. En annars er ég bara í páskafíling. p.s. Það er skandall að Stryper skuli aldrei hafa verið boðið á Aldrei fór ég suður. Þeir ættu auðvitað að spila í páskamessu á Ísafirði. Hér myndi ég tagga rokkstjórann en það er bara ekkert hægt að tagga í þessu ömurlega bloggkerfi.
createdTimestamp““:““2024-06-09T05:31:44.342Z““
Það eru tvær vikur síðan ég skrifaði í menningardagbókina og maður gæti haldið að þetta hafi smám saman verið að mjatlast inn en í sannleika sagt er ég frekar latur að lesa eða hlusta eða horfa á ferðalögum. Megnið af þessu er frá allra síðustu dögum, frá því að ég kom heim eða var a.m.k. á heimleið. *** Ég horfði á Birdman í vélinni heim frá París. Það var ekki síst viðeigandi í ljósi nýlegra deilna um gæði Marvel-mynda versus gæði listabíós. Myndin fjallar um leikara sem er frægastur fyrir að hafa leikið ofurhetjuna Birdman – leikarinn er leikinn af Michael Keaton og Birdman minnir óneitanlega svolítið á Batman. Leikarinn vill hins vegar láta taka sig alvarlega(r) og er þess vegna að setja upp eigin aðlögun á smásögu Raymonds Carver What We Talk About When We Talk About Love. Í eigin leikstjórn með sjálfan sig í aðalhlutverki. Hann er afar tæpur og fær til sín annan leikara, Edward Norton, sem er jafnvel enn tæpari en þykir mjög hæfileikaríkur og hann ýtir Keaton lengra af sporinu. En svo má segja að sögnin í myndinni sé að listin verði til á þessum tæpa stað – í hinni hráu tilfinningu, brjálæðislegu nautn, ótta, dauðaþrá, greddu jafnvel. Þessu var lengi vel held ég tekið sem gefnu – en eftir leikhús-metoo finnst mér einsog það verði varla lengur. Í stað þess að leikhúsið sé staður þessa brjálæðis á það að vera vinnustaður þar sem maður getur talið sig óhultan – faglegur vinnustaður þar sem vinnur faglegt fólk. Hvað sem því líður er Birdman frábær mynd – a.m.k. snappsjott af ástandi ef maður tekur henni ekki sem fagurfræðilegu manifestói. *** Ég horfði á uppistandið Bangin’ með Nikki Glaser. Það var ekki spes. Ég var búinn að sjá treilerinn og bestu brandararnir voru þar. Sennilega væri þetta skemmtilegra ef maður væri átján ára. Kannski ekki samt – ekki mjög woke. Best kannski ef maður er fertugur en átján ára í anda. *** Fyrsta jólabókaflóðsbókin sem ég las var Við erum ekki morðingjar eftir Dag Hjartarson. Bókin fjallar um unga konu sem gaf út bók sem setti líf hennar úr skorðum – maður veit ekki mikið meira en það kemur smám saman í ljós þessa einu nótt sem bókin annars spannar, meðan hún segir manni sem hún býr með (þau leigja sitthvort herbergið) alla sólarsöguna. Það er eitthvað gott að gerast í fyrrihlutanum, einhver stemning – faglegheit, for lack of a better word, en líka eitthvað næmi, stíll, innsýn. Það truflaði mig stundum hvað bókin vísar oft í samtíma-Reykjavík og hvað kærasti konunnar – Benni – á sér augljósa fyrirmynd (það er ekki síst lúðalegt í ljósi þess hvert sagan svo leitar). Á einum stað segir stúlkan við sambýlismanninn að hluta vandræða hennar megi rekja til þess að á Íslandi lesi allir skáldsögur með símaskrána til hliðsjónar (eða eitthvað álíka, ég man þetta ekki orðrétt). Kannski er það eitthvað svona meta-komment á Við erum ekki morðingjar sem er einmitt full af símanúmerum sem maður getur auðveldlega tengt við raunverulegt fólk – án þess þó að vera lykilróman eða mikil tíðarfarslýsing, bókin dvelur fyrst og fremst í sársauka aðalsöguhetjunnar og þessir lyklar segja manni ekkert annað en hvar höfundurinn sótti fyrirmyndir sínar. Ekki heldur um fólkið sem er fyrirmyndir. Þetta er svolítið einsog að sjá bíómynd þar sem maður þekkir mikið af statistunum í bakgrunni – og einn af aðalleikurunum hefur verið rækilega tæpkastaður. En jæja. Ég var nú samt að fíla þetta alveg fram í blálokin. Plottpunkturinn – þegar maður kemst loksins að því hvað það var sem olli öllum þessum harmi – er síðan ekki góður. Ég held ég hafi hreinlega æpt upphátt „nei!“ þegar hann loks birtist og liðið svona einsog þegar maður er að spila jenga og er alveg að vinna en rekur sig svo klaufalega utan í og allt hrynur. Að því sögðu var heilmikið að gerast fram að hruni og þetta leit að mörgu leyti vel út – var sprúðlandi sálfræðiþriller nokkuð fram yfir hlé. *** Serían Live With Yourself er með Paul Rudd í aðalhlutverki. Uppleggið er mjög fínt. Þunglyndur fjölskyldufaðir uppgötvar kóreskt spa sem lofar honum – fyrir 50 þúsund dollara – algerlega endurnýjuðum lífskrafti og lífsviðhorfi og hann hefur ástæðu til að trúa því að þetta virki (vinnufélagi hans hefur gert þetta og farið í gegnum ferlið). Hann slær til – það fer eitthvað úrskeiðis þegar er verið að svæfa hann og hann vaknar lifandi grafinn úti í skógi nokkrum klukkustundum síðar. Skakklappast heim til sín en finnur þar fyrir sjálfan sig – hamingjusamari útgáfu – sem veit ekki heldur hvaðan á sig stendur veðrið. Í ljós kemur að hann hefur verið klónaður án galla sinna og átti að deyja – einsog aðrar frummyndir klóna til þessa. Þeir þurfa svo að finna einhverja leið til þess að vera báðir til í heiminum. Fyrstu 3-4 þættirnir eru fínir. Svo verða skrifin alltaf væmnari og væmnari og maður fær engu meiri innsýn í persónurnar – þær hætta að þróast og mikið af upprunalega vandamálinu (þunglyndinu) er bara látið óhrært, einsog það hafi aldrei verið til. Eiginkona Rudds er ekki nema sjónarmun verr skrifuð en hann sjálfir (já, sjálfir) en það munar samt einhverju – allt of þunnt. Þetta endar svo á ótrúlega heimskulegu glotti. Já og Paul Rudd er góður í að leika svona næs en ringlaða sæta náunga – en það er hrikalegt að láta hann leika í mjög dramatískum senum, alveg út í hött, hann bara getur þetta ekki. *** Ég ætlaði fyrst að sjá Joker á fríkvöldinu mínu í París en þegar ég kom í bíóið var biðröð út á næsta horn og ég sá ekki betur en allir í röðinni væru þegar með miða. Ég fór leiður heim á hótel en fattaði svo að ég ætti annað fríkvöld í Keflavík daginn eftir og þar var auðvitað líka verið að sýna Joker – í hálftómum sal, bara ég og nokkrir Pólverjar (sennilega höfðar myndin betur til meginlandsbúa). Ég er búinn að sjá svo marga skrifa að þeir ætli nú að bera í bakkafullan lækinn um þessa mynd að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég fílaði hana. Að því sögðu er Joker auðvitað ekki góðmenni – eða neins konar Che Guevara fígúra heldur. Ekki Greta Thunberg. Engin fyrirmynd vestrænna sósíalista. Hann er fórnarlamb kerfis sem stendur á sama um smælingja – geðsjúkur maður sem fær ekki hjálp. Í myndinni krystallast þetta ástand og reiðin í þjóðfélaginu vellur og vellur. En Joker sem útleið er auðvitað ekki bara hinn fátæki og reiði, heldur líka trúðurinn, vitleysingurinn, Trump og Boris og Vigdís Hauks og Sigmundur í ósamstæðum skóm að éta hakk á ritzkexi á Snapchat. *** Næst á jólabókaflóðslistanum var Korngult hár, grá augu eftir Sjón. Sjón er einfaldlega einn allra besti rithöfundur sem Íslendingar hafa átt og sá þeirra sem höfðar einna mest til mín – hann hefur sína eigin auðþekkjanlegu fagurfræði, sem er kannski sprottinn af súrrealismanum en er löngu orðin að einhverju öðru í hans meðförum, og ég les bækurnar hans ölvaður af aðdáun einsog veiklað fanboi. Að því sögðu er ég ekki alveg sannfærður um þessa tilteknu bók – hún er allavega ekki jafn augljóst meistaraverk og síðustu tvær (Codexinn og Mánasteinn). Það er margt í henni sem nær til mín en að sama skapi gríp ég sums staðar í tómt – kannski þarf ég bara að lesa hana aftur og kannski er ég bara löngu orðinn saddur af nasisma og kannski er ég að leita eftir einhverju sem ég átti von á en er ekki til staðar og þá þarf ég sennilega fyrst að komast yfir það. Miðkaflinn í bókinni fannst mér bestur – bréfin og skjölin. Þar finnst mér Gunnar Kampen og heimurinn sem hann lifir í birtast skýrast. Sennilega er leiðin að hjarta þessarar bókar í gegnum persónuna fyrst og síðan að restinni – þaðan stækki hún. En meira að segja bara rétt svo í meðallagi góð Sjónsbók er samt Sjónsbók – samt frábær – hún hefur vaxið frá því ég lét hana frá mér og ég yrði ekkert hissa þótt hún ætti eftir að halda því áfram um dálítið skeið. *** Þriðja jólabókaflóðsbókin var Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu. Ástin Texas – kom hún út bara í fyrra? Hún var allavega frábær og Aðferðir til að lifa af er það líka. Aðferðirnar er ekki smásagnasafn en samt smásagnasafn – og jafnvel örsagnasafn. Sagan vindur sér á milli sögumanna og sjónarhorna sem ryðja mjög gætilega yfir mann heilum mannsævum af tráma og ást og sérkennilegheitum. Einhvern veginn bæði þægilega óþægilegt og óþægilega þægilegt aflestrar – minnir mig á bækur sænskrar vinkonu minnar, Idu Linde, a.m.k. að þessu leyti, og líka þannig að þær undirstrika svo rækilega hvað er alltílagi að vera svolítið fokkt opp, að vera ringlaður og í rugli, hornskakkur í tilverunni. Mér finnst alltaf aðeins auðveldara að standa á fætur þegar ég hef lesið – allavega þessar síðustu tvær Guðrúnar Evu. *** Fjórða jólabókaflóðsbókin var Gráskinna eftir Arngrím Vídalín. Það er eitthvað lífrænt við þessa bók og það er eitthvað mjög ólífrænt við hana. Ég er ekki viss um að mér finnist hún alveg ganga upp. Fyrstu 120 síðurnar eru nánast einsog formáli að endalokunum, síðustu 20 síðunum – og hugsanlega hefði hún bara verið betri sem óplottuð mannlýsing/ævisaga. Að því sögðu er plottið mjög flott, sem og snúningurinn á því, og endirinn góður og aðalsöguhetjan – eina persónan sem maður tengist nokkuð af viti – vel sköpuð. Ég hefði viljað dvelja meira í mónómaníu Jóhannesar og minna í einhverjum sögum af ættmennum hans – sem þess utan virka stundum mjög anakrónískar, manni finnst stundum nánast einsog Jóhannes sé að alast upp á stríðsárunum, þessi borgaralegi Grönvold-heimur á miklu meira skylt við sagnaheim gullaldar Kiljans en síðustu 30 árin. Og þá meina ég ekki að borgarastéttin sé ekki til, hún sé ekki íhaldssöm og hómófóbísk – það bara lítur ekki svona út lengur, held ég, er öðruvísi í laginu. Stíllinn er mjög lillgammal líka – gamall fyrir aldur fram og þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart sem hefur lesið Vídalín fram til þessa. En fínn, sem sagt, mestmegnis rembingslaus og samræmi út í gegn. *** Preacher – lokasería. Við Nadja höfum verið að dunda okkur í gegnum Preacher síðustu misserin. Þetta er sería byggð á teiknimyndasögublöðum um predikara – Jesse Custer – kærustuna hans, Tulip, og besta vin þeirra sem er vampíra (og ástfanginn af Tulip). Jesse hefur hlotið mátt sem nefnist Genesis og gerir honum kleyft að skipa fólki fyrir verkum. Þrímenningarnir eru að leita Guðs, sem er bókstaflega horfinn úr himnaríki, og í lokaseríunni stefnir allt í heimsslit, sem orkestreruð af Guði í samstarfi við sértrúarsöfnuð og messías, sem er ekki Kristur heldur þroskaheftur sonur Krists, Humperdink, eftirlæti afa síns, Drottins almáttugs. Þetta er ógeðslega blóðugt og ógeðslega skemmtilegt. Mikið rugl, mikið gaman, mikið kaos, mikill töffaraskapur og húmor. *** Kanadíska bíómyndin Mommy var sýnd á RÚV á dögunum en við Nadja horfðum á hana í gærkvöldi. Hún fjallar um einstæða móður, son hennar sem er brjálæðislega – glæpsamlega – ofvirkur og vinkonu þeirra, stamandi nágranna. Móðirin og sonurinn eru svokallað hvítt hyski, inn að beini, og allt þeirra fas ber merki stjórnlausrar hysteríu frammi fyrir óleysanlegum vandamálum í heimi sem er aldrei með þeim í liði. Gleðin birtist þegar vandamálin eru hunsuð – þegar það er hægt að hunsa þau – og hverfur einsog dögg fyrir sólu þegar ekki er lengur hægt að hunsa þau. Þau eyða gríðarmiklum tíma í að ræða vandamál sín, þekkja þau, fantasera um leiðir út úr þeim en aldrei þannig að maður – sem áhorfandi – trúi því að þetta muni hafast. Maður sér ekki einu sinni leiðir út úr þessu sjálfur. Strákurinn er stórhættulegur, ofbeldishneigður rasisti, og á sama tíma (einsog Gunnar Kampen – en samt ekki) viðkvæmt blóm. Þeir sem gefast upp á honum – eða ógna honum, reyna að konfrontera hann – eru ekki sýndir í mjög sympatísku ljósi en samt sér maður ekki sjálfur hvernig maður gæti hanterað hann í eigin lífi, jafnt þótt manni hafi lærst að þykja vænt um hann og mömmu hans á þessum tveimur tímum sem myndin starði mann niður. *** Ég fór í plötubúð í París í síðustu viku og var næstum búinn að kaupa Jeff Beck plötuna Jeff Beck Group fyrir 8 evrur en hætti við vegna þess að ég náði aldrei almennilega sambandi við Blow by Blow sem ég keypti í fyrra. Svo setti ég hana á á Spotify þegar ég var að fljúga af stað úr bænum – áður en ég byrjaði að horfa á Birdman – og fannst ég einsog algert fífl, af því Jeff Beck Group er frábær. Miklu lífrænni tónn en á Blow by Blow, meira svona fyrir mig. Allavega – ég keypti reyndar Graceland með Paul Simon og fyrstu plötu Stray Cats (og Seventh Son of the Seventh Son fyrir Aram) en ég sé eftir að hafa ekki keypt þessa líka. Og þess vegna er Jeff Beck gítarleikari vikunnar, af því að ég er fífl. Lagið er að vísu af Wired, en það er sama.
id““:““68la7″“
Það eru allir í bleikþvottinum þessa dagana og því var ekkert öðruvísi farið á metalfestivalinu Skogsröjet í Rejmyre á síðustu helgi þar sem einn torgsalanna hafði kolefnisjafnað suðurríkjafánann (sem er klassískt þungarokkstákn ofan í allt annað) með regnbogafána samkynhneigðra. Næstu fánar fyrir neðan á stönginni eru hefðbundinn sjóræningjafáni með hauskúpu og beinum og svo Liverpool-fáni. Ég var einmitt búinn að vera að velta því fyrir mér hvernig þetta yrði tæklað í metalheiminum. En þar er í sjálfu sér hefð fyrir að stefna saman ólíklegustu táknum og þetta því kannski viðbúið. Og hvað gerðist svo á Skogsröjet? Ég missti af Jono og Magnum – við því var ekkert að gera – og Doro afbókaði vegna umferðarvandræða á þýskum autoböhnum (sem mig grunar að sé nýja „bassaleikarinn fingurbrotnaði“ afsökunin). Skid Row ollu mér ólýsanlega miklum vonbrigðum. Hljómsveitin er á öðrum söngvara frá því Sebastian Bach var rekinn fyrir nærri 20 árum – fyrir að hafa bókað sveitina til upphitunar fyrir KISS – og eru svolítið einsog fimmta skolvatn af útspýttu hundskinni. Ég stóð samt stjarfur allan tímann og lét þetta yfir mig ganga. Sándið var lélegt, sérstaklega í byrjun, og nýi söngvarinn getur bara einfaldlega ekki sungið. Að vísu stendur um hann á Wikipediu að hann sé „þekktur fyrir ótrúlegt raddsvið sitt“ og að „brjóströdd“ (e. chest voice) hans ein og sér höndli „ríflega fjórar áttundir“. En ég held mér sé alveg óhætt að fullyrða af fenginni reynslu að það sé ekki satt, það er bara bull, hann heldur ekki einu sinni lagi. Hugsanlega nær hann úr hæstu tónum niður á þá dýpstu – á þessum fjögurra áttunda sviði – en það vantar þá meiripartinn af nótunum þar á milli. Hlustið bara á þetta – byrjunina á 18 And Life: //www.youtube.com/get_player og svo þetta, einsog það er á plötunni: Ég hefði alveg getað fyrirgefið Sebastian Bach að hafa misst röddina og notið þessa samt – en það er óafsakanlegt að ráða ósyngjandi söngvara þegar aðrir eru í boði. Hann hlýtur að vera alveg rosalega skemmtilegur í rútunni. Á móti kom að Europe – með Joey Tempest enn í fararbroddi – kom bara talsvert á óvart. Bæði þekkti ég fleiri lög með þeim en ég átti von á (þ.e.a.s. a.m.k. tvö ef ekki þrjú plús Final Countdown og Carrie) og svo voru þeir bara vel spilandi og með gott sjó (mér finnst samt einsog ég sé að glata rosalega miklum trúverðugleika við að viðurkenna þetta). Sirkabát annað hvert lag virtist vera af nýrri plötu og það var bara alltílagi efni. Svo var stemningin auðvitað sturluð – að hafa séð Europe spila Final Countdown í Svíþjóð – í miðri evrópukrísu – bætir mér eiginlega upp að hafa (rétt svo) misst af Scorpions spila Wind of Change við tíu ára afmæli múrfallsins í Berlín árið 1999. Af yngri hljómsveitum leist mér best á stelpurnar í Crucified Barbara – og þar á eftir strákana í Hardcore Superstar. Stelpurnar í Thundermother voru flottar líka en máttu gjalda fyrir lélegt sánd (það var eiginlega regla á öðru sviðinu að sándið væri slæmt í byrjun, einsog hljóðmaðurinn væri eitthvað ringlaður).
Queensrÿche voru fínir en lagasmíðarnar höfða mismikið til mín – Jet City Woman kannski það eina sem virkilega kom mér til. Ég var illa stemmdur á Dream Theater. Þeir eru mikið í því að vera bara fáránlegir virtúósar og eiga það alveg skuldlaust (ég veit ekki hvort nokkur hljómsveit rokksögunnar stenst þeim þar snúning) en það vantar aðeins í þá stuðbandið, það verður alveg að viðurkennast. Það er einhver leiði í þessu proggrokki, þótt maður geti í sjálfu sér staðið á öndinni líka af aðdáun yfir spilamennskunni. Bloodbound voru góðir – en samt einhvern veginn furðu óeftirminnilegir. Ég man ekkert nema að mér fannst gaman. Udo Dirkschneider og félagar í U.D.O. áttu stórleik. Gítarleikararnir voru báðir af þeirri tegundinni sem virðast hafa vaxið saman við hljóðfærin sín einhvern tíma í fyrndinni og eiga þar með álíka erfitt með að hrista út úr erminni epísk gítarsóló eða þéttriðin metalriff og aðrir eiga með að klóra sér í rassgatinu. Það skiptir auðvitað engu máli fyrir rödd Udos að hann skuli eldast – stíllinn er þannig að það gerir eiginlega bara gott betra, hann eldist einsog sá gamli stálraspur sem hann er – og melódíurnar eru bornar uppi af hljómsveitinni (sem syngja líka bakraddir og eru sirka hundrað árum yngri en Udo – og var væntanlega talið það til tekna í ráðningarferlinu að geta haldið lagi, annað en nýja söngvaranum í Skid Row). Ég tók þetta myndband af sólói sem verður að Für Elise og rennur svo í lokin á Accept-slagaranum Metal Heart (sem þeir voru að spila áður en sólóið hófst – þetta er svipað á plötunni). //www.youtube.com/get_player Saxon, sem voru að fagna 35 ára starfsafmæli, er svo eiginlega sami pakki – nema Bill Byford gat og getur enn sungið. Hann er líka eini frontmaðurinn í svona stadiumrokki sem ég hef séð verða innilegur við salinn (ekki reyndar einsog ég sé alltaf á stórum tónleikum) – var alltaf að spjalla við einhverja krakka fremst í 5-10 þúsund manna krádi, einsog hann væri að spila á litlum pöbb. En þarna er maður auðvitað ekki síst að hneigja sig fyrir tónlistarsögunni – og tilbiðja við altari þungarokksins – og verða lítið barn á ný. Það er langt síðan ég hef skemmt mér jafn vel. Þetta er myndband frá því í fyrra, af Crusader – þarna eru þeir með talsvert stærra set-up en í Rejmyre – en það kom ekkert að sök. Ég sá í sjálfu sér nokkur fleiri bönd – en ekkert sem orð er á hafandi miðað við þessi.
id““:““9coq1″“
Það hefur verið hljótt á blúsblogginu í nokkrar vikur en blúsbloggarinn hefur alls ekki slegið slöku við. Ég hef legið í ævisögum og fræðiritum – Say No To The Devil: The Life and Musical Genius of Reverend Gary Davis, Josh White: Society Blues; Charley Patton: Voice of the Mississippi Delta; Texas Flood: The Inside Story of Stevie Ray Vaughan; Beyond the Crossroads: The Devil and the Blues Tradition; Mississippi John Hurt: His Life, His Time, His Blues og Blues All Around Me: The Autobiography of B.B. King. Af þessum eru Charley Patton bókin – eftir Elijah Wald, sem er afar snjall – og Reverend Gary Davis bækurnar bestar en allar ágætar. Auk þess að lesa blús hef ég verið blúsaður og leikið blús. Síðastliðinn fimmtudag hélt ég tónleika ásamt Skúla frænda mínum í gömlu bókaverzluninni á Flateyri. Þar skiptumst við á að leika lög og lékum nokkur saman. Ég tók St. James Infirmary Blues, How Long, How Long Blues, Walkin’ Blues, Come On in My Kitchen og Statesboro Blues óstuddur en saman lékum við Folsom Prison Blues, Chocolate Jesus, It Hurts Me Too og Ég ætla heim (eftir Skúla). Ég áttaði mig á því að þrjú af þessum lögum voru fyrst tekin upp árið 1928 (How Long, St. James og Statesboro). Ég var vægast sagt taugaveiklaður og fór í gegnum þetta í einhverju móki. Það er svo skrítið – ég var með mikinn sviðskrekk fyrstu 10 árin sem ég las upp á sviði og þótt ég verði enn pínu stressaður myndi ég ekki kalla það sviðskrekk. En þegar ég fer með gítar upp á svið byrja ég strax að skjálfa. Það er einsog þetta séu tveir óskyldir sviðskrekkir. Þetta voru sem sagt fyrstu en vonandi ekki síðustu blústónleikarnir mínir. Gestir voru sennilega um tíu talsins. Hvað um það. Einsog þetta væri allt saman ekki nóg til að halda mér frá blúsblogginu – sem er auðvitað minn höfuðstarfi – þá horfði ég líka á bíómyndina Crossroads frá árinu 1986. Með börnunum mínum. Sem maður ætti eiginlega ekki að gera. Þetta er ekki barnamynd. En þetta er eiginlega ekki heldur mynd fyrir fullorðna. Kannski er þetta bara mynd fyrir eitísbörn sem mega heyra gamla karla tala um að næla sér í píku og depla ekki augunum við tilhugsunina um að sautján ára flökkustúlkur selji hálfsköllóttum suðurríkjarasistum líkama sinn í neyð (eða geri tilraun til þess). Crossroads var leikstýrt af Walter Hill og í aðalhlutverkum eru Ralph Macchio – Karate Kid – Joe Seneca og Jamie Gertz (úr Lost Boys og Less Than Zero). Seneca var líka tónlistarmaður og sviðsleikari – kom beint á settið á Crossroads úr leikritinu Ma Rainey’s Black Bottom eftir August Wilson sem hafði gert stormandi lukku á Broadway. Hann var eða varð upp úr þessu sérfræðingur í að leika gamla blúsmenn og gerði það meira að segja í einum Matlock þætti (þættinum The Blues Singer). Tónlistin í myndinni er eftir Ry Cooder – sem er sennilega óumdeildasti hvíti blúsmaður tónlistarsögunnar og eitt af betri kvikmyndatónskáldum (mæli ekki síst með Paris, Texas sándtrakkinu, sem byggir á Dark Was The Night, Cold Was The Ground eftir Blind Willie Johnson). Myndin floppaði illa á sínum tíma. „Macchio has got all the soul of a Spaghettio“ skrifaði gagnrýnandi The Toronto Star og flestir voru á sömu línu. Myndinni er hins vegar alls ekki alls varnað – þótt hún sé ekki neinn Ingmar Bergman – og lék áreiðanlega á þandar taugar fleiri ungra gítarleikara en bara mínar á sínum tíma. Þá var hún sennilega lykilatriði í því að Robert Johnson og krossgöturnar festust í alþýðuminninu – frekar en að vera bara anekdóta fyrir músíknörda. Í sem stystu máli fjallar kvikmyndin um ungan gítarleikara – Eugene Martone (Macchio), 17 ára undrabarn og blúsnörd frá Long Island sem nemur klassískan gítarleik við Julliard. Hann hefur bitið í sig að Robert Johnson hafi samið 30 lög en ekki bara þau 29 sem hann tók upp og einsetur sér að hafa upp á 30. laginu með einhverjum ráðum. Hann finnur gamlan félaga Roberts, munnhörpuleikarann Willie Brown (Seneca), á elliheimili fyrir glæpamenn, og telur víst að kunni einhver lagið sé það hann. Willie Brown kannast ekkert við neitt í fyrstu en semur loks við Martone um að ef hann frelsi sig og fari með sig niður til Mississippi þá muni hann kenna honum lagið týnda. Upphefst nú mikil æsiför af buddy-road-movie taginu niður til Mississippi – og á leiðinni slást þeir í för með unglingsstúlkunni Frances, sem er dansari á flótta frá illum stjúpföður, og takast ástir með þeim Martone. Á leiðinni öðlast Martone þá reynslu sem manni er nauðsynleg til að leika blúsinn – kynnist erfiðleikum, lendir í ástarsorg og sýgur í sig fæðingarstað blússins, Mississippi-deltuna. Bakgrunnur alls þessa er auðvitað mýtan um að Robert Johnson hafi selt skrattanum sálu sína á krossgötunum í skiptum fyrir tónlistarhæfileikana. Í myndinni er lagt upp með að þetta hafi Willie Brown líka gert en nú vilji hann freista þess að endurheimta sálina áður en hann hrekkur upp af. Í raunveruleikanum átti Robert Johnson vin sem hét Willie Brown – en sá var eiginlega fyrst og fremst vinur Son House og lék á gítar. Eftir hann liggja þrjú lög en auk þess lék hann undir hjá Son House, Patton og fleirum. Hann þykir sérstaklega mikill snillingur. Hápunkti nær kvikmyndin í frægri lokasenu þar sem Ralph Macchio keppir við skjólstæðing andskotans (sem er reyndar aldrei kallaður annað en Legba eða Scratch í myndinni), Jack Butler, sem Steve Vai leikur. Það er alveg í hæpnasta lagi að kalla Jack Butler blúsgítarleikara þótt hann leiki sinn neoklassíska metal yfir 12 bara blúshljómagang. Í húfi er ekki bara sál Willie Brown heldur líka sál Eugene Martone. Martone og Butler skiptast á likkum – Butler leikur neoklassík og Butler blúsar hana upp. Svo tekur Butler tryllinginn og allt útlit er fyrir að Martone hafi tapað. En eftir dálítið hik teygir Martone sig niður í sálardjúpin – niður í ræturnar – og dregur upp útgáfu af fimmtu etýðu Paganinis sem hefur verið nefnd „Eugene’s Trick Bag“. Butler gerir sitt besta en gefst að lokum upp og gengur bugaður af sviðinu. Martone og Brown leika eitt lokalag og ganga svo út í sólsetrið – Brown viðurkennir loks að Martone sé ekki alveg gersamlega hæfileikasnauður og lofar að fylgja honum til Chicago, kenna honum aðeins meira, en svo sé hann á eigin vegum. Fyrir utan að vera sögð léleg hefur myndin verið gagnrýnd fyrir allt milli himins og jarðar, ekki síst það hvernig hún hanterar kynþáttamálin. Tveir hvítir gítarrúnkarar keppa um það sem í grunninn er auðvitað krúnan – framtíð blússins í lok tuttugustu aldar. Annar er að eltast við að stela tónlist svarta mannsins (týnda laginu, sem reynist ekki vera til), hinn er hreinræktaður metalrúnkari á tímum þegar það er einmitt þungarokkið sem er talið „tónlist djöfulsins“ og sá sem vinnur dregur fram evrópskan jóker, Paganini, til að trompa. Jóker, sem vel að merkja er, einsog Robert Johnson, talinn hafa verið skjólstæðingur andskotans (en í hans tilfelli var það víst mamma hans sem seldi sálina). Þetta eru nokkur lög af symbólík og fólki er alveg vorkunn að vilja afskrifa þetta sem þvæling. Ég er hins vegar svolítið skotinn í þessu öllu saman og þetta er hvað sem öðru líður lýsandi fyrir ákveðna tilvistarkreppu í blústónlist um miðjan níunda áratuginn þegar flestir gömlu svörtu blúsararnir eru að hverfa af sjónarsviðinu og hvítir blúsarar að taka við. Þeir höfðu auðvitað verið með frá því í upphafi sjöunda áratugarins en einhvern veginn lent í öðru boxi – verið kallaðir blúsrokkarar einsog Clapton eða folk-tónlistarmenn einsog Dylan eða eitthvað annað eftir atvikum. Það er ekki fyrren með Stevie Ray Vaughan og Texas Flood sem hvítir tónlistarmenn fara að hala inn Handy-verðlaunum sem dæmi – og eru ekki kallaðir neitt annað en blúsarar. Þá má ekki gleyma því að þeir Butler og Martone eru fyrst og fremst skjólstæðingar lærimeistara sinna – strengjabrúður, skylmingaþrælar, undirsátar svartra karlmanna. Martone er í upphafi fulltrúi gamla blússins en fyrir tilstilli Browns kaupir hann sér telecaster („Muddy Waters invented electricity“ er ein af betri línum myndarinnar), pignose magnara og slide. Butler er fulltrúi einhverrar úrkynjunar sem er talin – af blúshausum – vera sálarlaus, en á vegum Legba (sem er afrískur flærðaguð – sem hafði hugsanlega áhrif á djöflasýn afrísk-amerískra þræla, en er alls ekki heiti sem hefur verið neinum tamt á þeim tíma, einsog er látið í myndinni). Butler hefur farið styttri leiðina – selt sálu sína – og þótt maður geti gert grín að því að tveggja vikna ferðalag um Mississippi eigi að kenna sautján ára stráklingi allt um innstu vé blámans þá er áherslan að minnsta kosti á það sem Brown kallar „mileage“, á sjálfa reynsluna, að maður fái ekkert án þess að vinna fyrir því. Sem er auðvitað líka sannleikurinn um Robert Johnson – í stað þess að selja sálu sína fór hann í læri hjá Ike Zimmerman og æfði sig linnulaust og laug því svo af og til að hann hefði gert samning við andskotann. Það var svokallað markaðstrix. Ef að Jack Butler er Eddie Van Halen þá er Eugene Martone Stevie Ray. En í þeirri sögn gleymist auðvitað að það voru líka svartir blúsarar að gera það gott á þessum tíma – framtíðin var ekki bara hvít – ekki síst Robert Cray. Þegar lokasenan var tekin upp var hún líka miklu lengri og innihélt undanúrslit þar sem svartur blúsmaður tapar fyrir Jack Butler áður en Martone kemur á sviðið – og það er líka til útgáfa í handriti þar sem Jack Butler var svartur. En framleiðendur myndarinnar ráku sig strax á ómöguleikann: það var ekki hægt að gera mynd þar sem hvítur strákur vinnur svartan blúsmann. Hvorki Butler né Martone gátu unnið svartan mann. Það var einfaldlega of viðkvæmt pólitískt, þótt það væri sirka það sem var að gerast á vinsældalistunum. Eitt af vandamálunum við Robert Cray er að hann er í einhverjum skilningi miklu hvítari en Stevie Ray – hann er meira adult contemporary, meiri lyftutónlist. Nú eru sannarlega til upptökur með Cray þar sem skortir ekki skítinn en frami hans byggir samt mjög á öðrum og ómþýðari tónum. Cray og Stevie Ray voru hins vegar báðir aðlaðir af sér eldri blúsmönnum – Albert King tók Stevie Ray upp á sína arma og Albert Collins tók Robert Cray upp á sína.
Það er líka eitthvað fallegt við að Martone skuli svo spila Paganinibastarðinn. Í fyrsta lagi vegna þess að það er „hans“ kúltúr – ekki bara evrópskur heldur líka Julliard. Í öðru lagi vegna þess að Paganini er líka – einsog blúsinn og metallinn – djöfulleg tónlist. Í þriðja lagi vegna þess sá Paganini sem hann blastar á magnaðann Telecaster er bastarður – tónlistarkennarasnobbið úr Julliard hefði fyrirlitið þetta; þetta er hins vegar músík sem Butler ætti að eiga betra með að spila en ræður samt ekki við. Og í fjórða lagi er útgáfan blússkyld – þetta er ekki bara hans kúltúr, þetta er sándið frá Muddy og Buddy, og blúsinn hefur alltaf verið bæði móttækilegur fyrir utanaðkomandi áhrifum og gjarn á að ryðja sér rúms í annarri tónlist. Það er ekki til nein blúslaus vestræn dægurtónlist. Ef maður skoðar Crossroads sem einhvers konar táknsögu fyrir framtíð blússins er líka eitt og annað fleira sem sker í augun. Í fyrsta lagi eru auðvitað engar konur neins staðar – þrátt fyrir að t.d. Koko Taylor hafi gert það gott á þessum árum. Í öðru lagi – og kannski fylgist þetta einmitt að – er ekkert sungið í framtíð blússins. Willie Brown syngur eitt lag í myndinni – sem Joe Seneca samdi með Ry Cooder – en Eugene syngur ekki píp og Jack Butler segir ekki einu sinni orð. Blúsmenn fortíðarinnar sem vísað er til – Robert, Son House, Muddy og bæði hinn sagnfræðilega kórrétti Willie Brown og Willie Brown myndarinnar – eru hins vegar allir söngvarar og í einhverjum tilvikum (Son og Muddy) að mörgu leyti betri söngvarar en þeir eru gítarleikarar. Stevie Ray og Robert Cray voru báðir söngvarar. Jack Butler og Eugene Martone eru hreinræktaðar gítarhetjur og eiga kannski meira skylt við Joe Bonamassa og Eric Gales – sem þrátt fyrir að syngja eru varla söngvarar nema í algeru aukastarfi. Þá verður manni hugsað til þess sem Muddy Waters sagði á sínum tíma um hvíta blúsara að þeir gætu spilað blús á gítar en þeir gætu ekki sungið (eða vókalíserað, sagði hann) blúsinn.